12.02.2019 17:02

589. Hrönn GK 240. TFYM.

Vélbáturinn Hrönn GK 240 var smíðaður í Dráttarbrautinni í Keflavík árið 1944 fyrir Hrönn hf í Sandgerði. 34 brl. 171 ha. Buda vél. Seldur 1962, Þórhalli Árnasyni, Indriða Hjaltasyni og Högna Jónssyni á Skagaströnd, hét Hrönn HU 15. Ný vél (1963) 200 ha. Scania vél. Seldur 1964, Júlíusi Árnasyni og Baldri Árnasyni á Skagaströnd, sama nafn og númer. Báturinn var talinn ónýtur og tekinn af skrá 6 september árið 1967. Var svo brenndur stuttu síðar.


Hrönn GK 240 á siglingu á Siglufirði.                                                  Ljósmyndari óþekktur.


Hrönn HU 15.                                                                                                 Ljósmyndari óþekktur.

                    Nýr bátur

Fyrir skömmu var lokið við smíði á nýjum báti í Dráttarbraut Keflavíkur. Báturinn er smíðaður eftir teikningum Egils Þorfinnssonar skipasmiðs. Báturinn er 34 tonn að stærð með 154 / 171 Hk Buda diesel vél, og er allur smíðaður úr eik og frágangur hinn vandaðasti. Raflagnir sá Raftækjavinnustofa Keflavíkur um, en alla aðra vinnu leysti Dráttarbrautin af hendi. Báturinn var smíðaður fyrir hlutafjelagið "Hrönn" í Sandgerði, og hlaut hann nafnið, "Hrönn" GK 240, kostnaðarverð var 350 þúsund krónur. "Hrönn" fór á flot þann 18. þ. mán. og reyndist vel í hvívetna, skipstjóri er Guðmann Guðmundsson úr Sandgerði.

Morgunblaðið. 1 febrúar 1945.


10.02.2019 08:19

467. Grundfirðingur ll SH 124. TFSU.

Vélbáturinn Grundfirðingur ll SH 124 var smíðaður í Nyköbing Mors í Danmörku árið 1956 fyrir Soffanías Cecilsson skipstjóra og útgerðarmann í Grafarnesi í Grundarfirði. Eik. 54 brl. 240 ha. Alpha vél. Kom fyrst til heimahafnar sinnar, Grundarfjarðar 16 mars sama ár. Ný vél (1971) 350 ha. Caterpillar vél. Seldur 20 maí 1989, Bjargi hf á Patreksfirði, hét Brimnes BA 800. Seldur 29 október 1992, Látraröst hf á Patreksfirði, hét þá Látraröst BA 590. Seldur 8 febrúar 1994, Nesbrú hf í Reykjavík, hét Sverrir Bjarnfinns ÁR 110. Báturinn hét Sæljós ÁR 11 frá 29 janúar 1997 og var gerður út frá Þorlákshöfn. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 17 nóvember árið 2014.


467. Grundfirðingur ll SH 124 með fullfermi af síld.                                 Ljósmyndari óþekktur.

         Grundfirðingur ll SH 124

Grundarfirði 17. marz. Það sem af er vertíð hafa sjö bátar stundað róðra héðan, en nú nýverið bættist Við áttundi báturinn og í gær hinn níundi. Eru bátarnir 38 og 65 tonna. Nýi báturinn er Grundfirðingur ll, er var byggður í Danmörku og kom hingað eftir að hafa verið 5 ½ sólarhring á leiðinni. Er báturinn hið glæsilegasta skip, með 240 hestafla díeselvél. Geta má þess að stýrishúsið og þilfar er úr tekkviði. Báturinn er búinn beztu siglingatækjum og var byggður á vegum Eggerts Kristjánssonar h.f. í Reykjavík. Eigandi bátsins og skipstjóri er Soffanías Cecilsson. Báturinn fer í sinn fyrsta róður á morgun.

Morgunblaðið. 20 mars 1956.


Grundfirðingur ll SH 124 í smíðum í Nyköbing árið 1956.                  (C) Soffanías Cecilsson.


Grundfirðingur ll SH 124 á Siglufirði.                     (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.


Grundfirðingur ll SH 124 með fullfermi af síld og vel það.                                (C) Soffanías Cecilsson.


Grundfirðingur ll SH 124 með fullfermi við bryggju, sennilega á Raufarhöfn.     Ljósmyndari óþekktur.


Grundfirðingur ll SH 124. Líkan Gríms Karlssonar.                                 (C) Þórhallur S Gjöveraa.

            Soffanías Cecilsson
        Byrjaði með síldarverkun                            en stundar nú
    saltfiskverkun og rækjuvinnslu 

Ég keypti þetta upphaflega 1965 af hlutafélagi, sem Ienti í greiðsluerfiðleikum. Ég byrjaði á síldarverkun með hálfum hug, því þá sögðu forráðamenn Síldarútvegsnefndar að oft hefði verið erfitt að salta síld, en aldrei eins og þá. Útkoman út úr söltuninni var þannig að ég fór að trúa því að hægt væri að gera fleiri ómögulega hluti í fiskverkun, sagði Soffanías Cecilsson fiskverkandi í Grundarfirði. Síðan hefur Soffanías verið að stækka hjá sér fyrirtækið smám saman og síðastliðin þrjú ár hefur hann byggt frystiklefa, stækkað fiskverkunarhúsnæðið og rýmkað alla aðstöðu fyrir starfsfólkið.  Höfuðgreinin hefur verið saltfiskurinn, en rækjuvinnslan leiddi til frystihúsreksturs. Það sem háð hefur rækjuveiðunum er að tíminn er alltaf að styttast vegna þröngsýni stjórnvalda sem hafa elt hleypidóma manna er ekki þekkja veiðarnar. Tímabilið í ár er algjörlega óraunhæft til samanburðar, þar sem við fengum ekki leyfið fyrr en 27. maí. Þá eru tveir bestu mánuðirnir liðnir, og þar af leiðandi færri bátar.
Í endaðan júlí var rækjuveiðin orðin 120 tonn og sá afli að mestu kominn af tveim bátum. Áður voru allt upp í 6 bátar og þá var aflinn þegar best var um 400 tonn, sem ég tók á móti. Aðalveiðisvæðið er í klukkutíma siglingu frá Grundarfirði, en í vor fundust gjöful mið 10-20 sjómílur út af Jöklinum á 160-180 faðma dýpi og veiðin verið mest þar í sumar. Þrátt fyrir þetta kom Ieyfið svona seint, því að óeðlilega mikið magn af smáýsu gekk á nærliggjandi svæði við gömlu miðin og þeir voru hræddir um að við færum á þau. Það sem helst hefur verið fundið rækjutrollinu til foráttu er hversu smáriðið það er. En staðreyndin er sú að í rækjutrollið kemur aðeins stór fiskur og við höfum sannanir fyrir því að það liggur í toghraðanum. Rækjutroll er dregið mjög hægt þannig að smáfiskurinn forðar sér en sá stóri er það latur að hreyfa sig að hann lendir í. Á fiskitrolli hins vegar er toghraðinn það miklu meiri að smáfiskurinn nær ekki að forðu sér. Það er því spurning í sambandi við friðunaraðgerðir hvort ekki eigi að minnka toghraðann hjá bátunum. Vertíðin í vetur var betri en við áttum von á. Við vorum viðbúnir því að mæta minni afla í ört minnkandi aflabrögðum. Frá áramótum og fram til 31. júlí er búið að taka á móti 2.100 tonnum af slægðu og óslægðu og einnig er rækjan talin með. Við söltum allt árið og eru nú komin um 600 tonn af stöðnum fiski, en lítið af skreið. Í haust er ég að hugsa um að hefja skelvinnslu, því að dauft er yfir öðrum veiðum hér á þeim tíma og atvinnumálin þannig að skelin er vænlegust. Að lokum sagði Soffanías að hann hefði byrjað mjög snemma í úgerð en aldrei kynnst hugtakinu taprekstur á útgerð. Það er svo einkennilegt hér í Grundarfirði, sagði hann, að hér þrífast ekki hlutafélög eða samvinnurekstur eins og svo víða annars staðar. Það virðist vera að einstaklingsframtakið sé það sem gildir hér.

Frjáls verslun. 1 ágúst 1976.


09.02.2019 06:39

438. Frigg VE 316. TFGU.

Vélbáturinn Frigg VE 316 var smíðaður hjá A.K. Work í Esbjerg í Danmörku árið 1948. Hét áður Anna Nissen E 242. Eik og fura. 49 brl. 150 ha. Hundested vél. Eigendur voru Sveinbjörn Hjartarson skipstjóri og bróðir hans, Alfreð Hjörtur Hjartarson frá ágúst 1952. Ný vél (1958) 280 ha. MWM vél. Bátinn rak upp í Krísuvíkurbjarg 29 mars árið 1973 og brotnaði í spón þar. Sjór hafði komist í olíugeymi eftir að báturinn fékk á sig brotsjó með þeim afleyðingum að vélin stoppaði. Var hann þá í um mílu fjarlægð frá bjarginu. Áhöfnin, 5 menn, komust í björgunarbát og var bjargað um borð í vélskipið Sigurð Gísla VE 127 frá Vestmannaeyjum.


Frigg VE 316 tilbúin til heimferðar frá Esbjerg í ágúst árið 1952.              Mynd úr safni mínu.

              Nýr bátur til Eyja

Vestmannaeyjum, 11. Ágúst. Nýlega bættist Vestmannaeyjaflotanum nýr bátur. Er það annað skipið, sem Eyjaflotanum bætist á skömmum tíma. Bátur þessi heitir Frigg VE 316, og eru eigendur hans bræðurnir Sveinbjörn og Alfreð Hjartarsynir frá Geithálsi hér í Eyjum. Bát þennan keyptu þeir bræður í Esbjerg í Danmörku. Hann er byggður í Danmörku árið 1948, og er 50 smálestir að stærð með 150 hestafla Hundested mótor. Virðist bátur þessi hið vandaðasta skip. Hann er búinn öllum helztu siglingatækjum. Bræðurnir Alfreð og Sveinbjörn hófu útgerð 1947, þá á 21 smálesta bát, en í vor seldu þeir hann vestur á Bíldudal og keyptu í staðinn bát þann, er fyrr greinir.

Morgunblaðið. 12 ágúst 1952.


Anna Nissen E 242 á siglingu í Esbjerg nýsmíðuð árið 1948.                   Mynd úr safni mínu.

  Frigg VE stjórnlaus undan brotsjó
Sigurður Gísli VE bjargaði áhöfninni

Vélbáturinn Sigurður Gísli kom hingað í dag með 5 manna áhöfn af Vestmannaeyjabátnum Frigg VE 316, sem fékk á sig brotsjó út af Grindavík í gær. Vél bátsins drap fljótlega á sér þegar sjór komst í olíuna og rak bátinn stjórnlaust að landi. Var báturinn aðeins um 1 mílu frá landi. Skipverjar fóru í gúmmíbát þegar vb. Sigurður Gísli VE 127 kom á vettvang og var báturinn dreginn á milli. Gekk það vel og hélt Sigurður Gísli með mannskapinn til lands. Varðskip reyndi síðar um daginn að ná til Friggs, en það tókst ekki og síðast þegar vitað var um bátinn, var hann á reki skammt utan við Krísuvíkurbjarg. Frigg er um 60 lestir að stærð og var hann á trolli. Skipshöfnin hélt frá Þorlákshöfn til Reykjavíkur og Grindavíkur.
Skipstjóri á Sigurði Gísla er Friðrik Ásmundsson frá Vestmannaeyjum, en skipstjóri á Frigg var Sveinbjörn Hjartarson, einnig frá Eyjum.

Morgunblaðið. 30 mars 1973.

        Brotnaði í Krísuvíkurbjargi

Landhelgisgæzlan taldi í gær líklegt að vélbáturinn Frigg hefði sogast upp í Krísuvíkurbjarg og brotnað þar. Síðast þegar til bátsins spurðist var hann á reki undan bjarginu en loks hafði Gæzlan ekki lengur tök á að fylgjast með honum og ekki var unntt að koma tógi á milli. Mönnunum af Frigg hafði áður verið bjargað um borð í annan bát, en Frigg fékk upphaflega á sig brotsjó.

Morgunblaðið. 31 mars 1973.


08.02.2019 08:14

1609. Stakfell ÞH 360. TFRJ.

Skuttogarinn Stakfell ÞH 360 var smíðaður hjá Storvik Mekanisk Verksted A/S í Kristiansund í Noregi, (skrokkurinn) en skipið síðan klárað hjá Sterkoder Mekanisk Verksted A/S í Kristiansund í Noregi árið 1982 fyrir Útgerðarfélag Norður-Þingeyinga hf á Þórshöfn. 471 brl. 2.202 ha. Wichmann vél, 1.619 Kw. Smíðanúmer 95A. Selt 10 mars 1989, Hraðfrystistöð Þórshafnar hf á Þórshöfn, sama nafn og númer. Skipið var selt / leigt 29 september 1997, Arnbæk á Suðurey í Færeyjum, hét þá Sverri Ólason TG. Selt aftur til Þórshafnar 1998, fékk sitt gamla nafn Stakfell ÞH 360. Selt árið 2000, Saami Co Ltd í Murmansk í Rússlandi, hét þá Stakfell M 225. 

Stakfell var selt / leigt árið 1997 til Arnbæk á Suðurey sem Hraðfrystistöð Þórshafnar hf átti hlut í. En kaupin / leigan gekk til baka árið eftir vegna þess að Norðmenn neituðu skipinu um veiðileyfi við Svalbarða vegna veiða þess í Smugunni á árum áður.


1609. Stakfell ÞH 360 á siglingu.                                       (C) Snorri Snorrason. Mynd úr safni mínu.

       Þórshafnartogarinn kominn                            til síns heima

Þórshafnartogarinn svokallaði kom til heimahafnar í gær. Fjölmenntu íbúar kauptúnsins á bryggjuna til að fagna komu hans, enda var gefið frí á vinnustöðum í tilefni dagsins. Togarinn, sem hefur hlotið nafnið Stakfell ÞH 360, er í eigu útgerðarfélags Norður-Þingeyinga. Hluthafar þess eru Hraðfrystistöð Þórshafnar, Kaupfélag Langnesinga, Þórshafnarhreppur, Svalbarðshreppur og Útgerðarfélagið Jökull hf. á Raufarhöfn. Stakfell er smíðað hjá skipasmíðastöðinni Storvik í Kristjánssundi í Noregi. Hið nýja skip er um 473 tonn og rúmir 50 metrar að lengd. Það er búið 2.200 hestafla vél, sem er gerð fyrir brennslu á svartolíu. Kaupverð togarans var 50 milljónir og er þá reiknaður fjármagnskostnaður á byggingartímanum, sem var eitt og hálft ár. Skipstjóri á Stakfelli er Ólafur Aðalbjörnsson.

Dagblaðið Vísir. 29 júní 1982.


Skuttogarinn Stakfell ÞH 360. Fyrirkomulagsteikning.                               Ægir. júní 1982.

            B.v. Stakfell ÞH 360

28. júní s.l. kom skuttogarinn Stakfell ÞH 360 í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Þórshafnar. Skipið er hannað hjá Storvik Mek. Verksted A/S í Kristiansund í Noregi, svonefnd S-165 gerð, og fór smíði skrokksins þar fram (smíðanúmer 95), en síðan yfirtók skipasmíðastöðin Sterkoder Mek. Verksted A/S í Kristiansund samninginn og lauk smíði skipsins, og ber skipið smíðanúmer 95A hjá umroddri stöð. Stakfell ÞH er fyrsti skuttogarinn hérlendis eftir þessari teikningu frá Storvik Mek. Verksted, en eldri gerðir frá umræddri stöð (R-155A), þ.e. 9.0 m á breidd og síðar 9.4 m á breidd, eru þekktar hérlendis. Níu skuttogarar í eigu landsmanna eru smíðaðir hjá Storvik Mek. Verksted A/S og er þá Stakfell ÞH ekki meðtalinn. Stakfell ÞH er útbúið afkastamiklum kæliþjöppum og er gert ráð fyrir þeim möguleika að koma fyrir frystitokjum síðar og geyma frystan fisk í lestum. Nefna má sérstaklega að allir svefnklefar (12 talsins) eru búnir baðklefa, en það hefur ekki þekkzt áður í íslenzkum fiskiskipum. Stakfell ÞH er í eigu Útgerðarfélags Norður-Þingeyinga h.f. Skipstjóri á skipinu er Ólafur J. Aðalbjörnsson og 1. vélstjóri Sigurður Vilmundarson. Framkvæmdastjóri útgerðarinnar er Páll Árnason.
Mesta lengd 50.75 m.
Lengd milli lóðlína 44.00 m.
Breidd 10.30 m.
Dýpt að efra þilfari 6.75 m.
Dýpt að neðra þilfari 4.50 m.
Eiginþyngd 765 tonn.
Særými (djúprista 4.45 m) 1.188 tonn.
Burðargeta (djúprista 4.45 m) 423 tonn.
Lestarrými 440 m3.
Brennsluolíugeymar (svartolía) 123 m3.
Brennsluolíugeymar (dieseolía) 37 m3.
Daggeymar 4 m3.
Sjókjölfestugeymir (stafnhylki) 39m3.
Ferskvatnsgeymar 62 m3.
Ganghraði (reynslusigling) 13.3 sjómílur.
Rúmlestatala 471 brl.
Skipaskrárnúmer 1609.

Tímaritið Ægir. Júní 1982.


07.02.2019 17:06

2861. Breki VE 61 í slippnum í Reykjavík.

Breki VE 61, togari Vinnslustöðvarinnar hf í Vestmannaeyjum er nú í slipp í Reykjavík. Þar sem ársábyrgð smíðastöðvarinnar er að renna út, þarf að skoða skipið vel ef um einhverja galla í smíði þess sé að ræða. Breki VE 61 er smíðaður hjá Huanghai Shipbuilding Co Ltd í Rongcheng í Kína árið 2017. Skipið er 1.223 bt að stærð með 2.440 ha. MAN vél, 1.795 Kw. Breki er systurskip Páls Pálssonar ÍS 102. Ég tók þessar myndir af togaranum í gær. Breki er glæsilegt skip og hefur að ég held, reynst vel í alla staði.


2861. Breki VE 61. TFMA í slippnum í Reykjavík. 


2861. Breki VE 61.                                                      (C) Þórhallur S Gjöveraa. 6 febrúar 2019.

          Breki brá sér í borgina

Breki VE var tekinn upp í slipp í Reykjavík í vikunni í tengslum við skoðun á skipinu í tilefni af því að ársábyrgð kínversku skipasmíðastöðvarinnar rennur brátt út.
Skipið var afhent Vinnslustöðinni í Kína 13. mars 2018 með ársábyrgð og nú er það grandskoðað á meðan ábyrgðin varir.
Allt virðist vera í góðu standi og ekkert kom heldur fram við skoðun á þurru landi í höfuðborginni. Málað var yfir rispur á botninum ,sem flestar urðu reyndar til þegar skipið var tekið í slipp.

Heimasíða Vinnslustöðvarinnar.

6 febrúar 2019.                     


06.02.2019 17:55

Ketill Hængur NS 312. TFCL.

Mótorbáturinn Ketill Hængur NS 312 var smíðaður í Noregi árið 1918. Fura. 33 brl. 50 ha. Bolinder vél (1926). Fyrsti eigandi hér á landi var Jón S Björnsson á Seyðisfirði frá árinu 1931 (Fiskiskýrslur frá því ári). Seldur árið 1932-33, Jóni Eiríkssyni á Seltjarnarnesi, hét þá Bangsi GK 75. Ný vél (1933) 110 ha. June Munktell vél. Seldur 11 júlí 1937, Ólafi B Björnssyni á Akranesi, hét Bangsi MB 23. Báturinn var endurbyggður og lengdur árið 1940, mældist þá 41 brl. Seldur 5 janúar 1942, Ólafi Lárussyni útgerðarmanni í Keflavík, hét Bangsi GK 445. Seldur 30 nóvember 1943, Einari Guðfinnssyni útgerðarmanni í Bolungarvík, hét Bangsi ÍS 80. Ný vél (1947) 150 ha. June Munktell vél. Báturinn fórst í róðri um 16 sjómílur út af Ritnum 15 janúar árið 1952 í ofsaveðri, hafði þá misst skrúfuna. 2 skipverjar fórust en 3 skipverjum var bjargað um borð í björgunarskipið Maríu Júlíu frá Reykjavík.


Mótorbáturinn Ketill Hængur NS 312 við bryggju á Seyðisfirði.                Ljósmyndari óþekktur.

                 Vertíðarbátar

Bátar héðan frá Seyðisfirði eru nú á förum til Hornafjarðar og Djúpavogs. Munu bátar Jóns Björnssonar verða fyrstir. Óskar Austri þeim öllum góðrar vertíðar.

Austri. 4 mars 1931. 


Mótorbáturinn Bangsi ÍS 80 frá Bolungarvík.                                          Ljósmyndari óþekktur.

          M.b. Bangsi ÍS 80 ferst
            Tveir menn drukkna.

M.b. Bangsi, ÍS 80 fór á sjó þann 15. þ.m. kl. 3 um morguninn. Línan var lögð um 16 sjómílur N til A frá Rit. Veður var gott framan af degi norðaustan átt og lítilsháttar snjóél. Þegar leið á daginn tók veður að versna. Allt gekk þó vel þar til kl. 17, en þá brotnaði skrúfublað og eftir það lét báturinn ekki að stjórn. Var þá búið að draga 80 lóðir. Vindur var þá orðinn allhvass af norðaustri með mikilli snjókomu. Þegar eftir bilunina var kallað á Maríu Júlíu, og með aðstoð togarans Austfirðings tókst að ná sambandi við Maríu og koma til hennar hjálparbeiðni. Þegar þetta skeði var staða skipsins 15 sjómílur N til A frá Rit og voru segl dregin upp og reynt að komast nær landi. Þá er María Júlía fékk hjálparbeiðnina var hún stödd á Ísafjarðardjúpi og lagði þegar af stað til aðstoðar við m.b. Bangsa. Veður fór hríðversnandi og um kl. 24,40, þegar María Júlía kom að m.b. Bangsa, voru komin um 11 vindstig, brotsjór, stórhríð og náttmyrkur. Þá var staða m.b. Bangsa 7 sjómílur í N af Rit. Skömmu áður en María Júlía kom á staðinn, fékk m.b. Bangsi á sig brotsjó sem skolaði öllu lauslegu fyrir borð, braut rúður og hurðir í stýrishúsi, einnig öll skjólborð annars vegar og hálffyllti bátinn af sjó. Þá kastaðist báturinn á hliðina, öll ljós slokknuðu, tvo menn tók út og sást ekkert til þeirra eftir það. Mennirnir sem fórust voru þessir:
Magnús A. Jónsson, annar vélstjóri, 35 ára. Lætur eftir sig tvö munaðarlaus börn og unnustu.
Ólafur P. Steinsson, háseti, 25 ára, ókvæntur. Lætur eftir sig aldraða foreldra.
Meðan María Júlía var á leiðinni á slysstaðinn, hafði hún stöðugt talsamband við Bangsa og tók miðanir meðan talstöð hans var í lagi. Vegna veðurs og brotsjóa var ekki hægt að halda áfram með fullri ferð eftir að komið var út fyrir Rit. Ljósin á Bangsa sáust ekki fyrr en skömmu áður en komið var að honum, og sáu skipverjar á Maríu Júlíu þegar brotsjórinn reið yfir bátinn, og hurfu þá ljósin eins og fyrr segir. Var Bangsa þá leitað með ljóskastara Maríu Júlíu; fannst hann aftur svo að segja samstundis. Sást þá hvernig umhorfs var um borð, og skipverjar á Bangsa tilkynntu að mikill sjór væri kominn í bátinn. Nú var ekki um annað að ræða en að reyna að ná mönnnunum úr bátnum. Skipstjórinn á Maríu Júlíu, Haraldur Björnsson, tók það ráð að leggja að bátnum til hlés og dæla olíu í sjóinn meðan á því stóð. Voru bjarghringir, línubyssa og annar björgunarútbúnaður hafður til taks meðan á þessu stóð, og áhöfn björgunarskipsins stóð á þilfarinu reiðubúin til að aðstoða mennina af Bangsa. Tók björgunin örstutta stund. Rétt á eftir hvarf Bangsi út í bylinn og náttmyrkrið. Leitað var á slysstaðnum fram eftir kvöldinu, en ekki sást annað en brak úr bátnum. Á leiðinni til lands var svo slæmt í sjóinn, að allt þar til komið var inn fyrir Rit var dælt út olíu til öryggis skipinu. Legið var undir Grænuhlíð þar til í birtingu næsta morgun, síðan haldið til Ísafjarðar, og komið þangað kl. 10,30 f.h. Samkv. frásögn skipstjóranna á Maríu Júlíu og m.b. Bangsa, hefði ekki mátt muna einni mínútu til þess að ekki hefði verið hægt að finna bátinn. Þeir sem björguðust voru:
Ásgeir Guðbjartsson, skipstjóri.
Guðmundur Karlsson, I. vélstjóri og
Guðmundur Rósmundsson, stýrimaður.
Voru þeir allir ómeiddir nema Guðmundur Karlsson, sem meiddist nokkuð á fæti. Skipstjórinn á m.b. Bangsa rómar mjög áræði og snarræði skipstjóra og skipverja á Maríu Júlíu við þessa björgun.

Skutull. 18 janúar 1952.


03.02.2019 08:17

531. Hafrún NK 80. TFDK.

Vélbáturinn Hafrún NK 80 var smíðaður hjá Dráttarbrautinni hf í Neskaupstað árið 1957 fyrir Neista hf (Kristinn Marteinsson útgerðarmann í Dagsbrún og fl.) í Neskaupstað. Eik. 61 brl. 280 ha. MWM vél. Seldur 30 nóvember 1968, Hraðfrystistöð Eyrarbakka hf á Eyrarbakka, hét þá Hafrún ÁR 28. Ný vél (1970) 346 ha. Cummins vél. Seldur 25 apríl 1972, Valdimar Eiðssyni skipstjóra og Ragnari Jónssyni á Eyrarbakka, sama nafn og númer. Mikill eldur kom upp í bátnum 12 september árið 1974 þegar hann var að veiðum um 10 sjómílur austur af Vestmanneyjum. Áhöfnin, 6 menn, björguðust í gúmmíbjörgunarbát og var þeim síðan bjargað um borð í vélskipið Hafbjörgu VE. Hafrún var dregin af Lóðsinum í Vestmannaeyjum upp undir Landeyjasand alelda, þar sem hún síðan sökk.


Hafrún NK 80 í kappsiglingu á Sjómannadag í Neskaupstað.         Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.

                 Hafrún NK 80

Rétt upp úr miðnætti 27. þ. m. var hleypt af stokkunum í skipasmíðastöð Dráttarbrautarinnar nýjum fiskibáti. Báturinn var skírður með virðulegri athöfn. Jóhannes Stefánsson hélt stutta ræðu, þá gaf Elsa Kristinsdóttir Marteinssonar skipstjóra bátnum nafn með því að brjóta kampavínsflösku á stefni hans og nefna hann Hafrún. Óskaði Elsa bátnum gæfu og gengis. Þá voru borðar, sem huldu nafn skipsins fjarlægðir og báturinn látinn síga hægt í sjóinn. Var hann fánum prýddur. Nokkuð var af fólki við athöfn þessa, en fáir munu hafa vitað um að sjósetning bátsins ætti að fara fram á þessum tíma. Jóhannes gat þess að nú ættu Norðfirðingar 12 fiskibáta stærri en 55 lestir og um 20 dekkbáta innan við 55 lestir auk margra opinna vélbáta. Kvað hann stækkun bátaflotans hafa verið svo öra á fáum árum, að ýmislegt annað sem útgerðinni væri brýn nauðsyn til aðstöðu í landi, hefði orðið á eftir. Væri því aðkallandi að bæta aðstöðu bátaútvegsins með byggingu bátahafnar, byggingu verbúða og geymslu fyrir síldarnætur. Einnig þyrfti að stækka eða byggja nýja fiskimjöls- og síldarbræðslu. Eigandi bátsins er nýstofnað hlutafjelag er Neisti heitir.
Aðaleigendur eru þeir Kristinn Marteinsson, skipstjóri og Páll Þorsteinsson, útgerðarmaður. Hafrún er 61 brúttósmálestir að stærð með 280 hestafla Mannheim vél. Ganghraði hefur enn ekki verið mældur. Báturinn er búinn öllum venjulegum öryggis og siglingartækjum, þar á meðal fisksjá. Einkennisstafir eru N. K. 80. Hafrún er smíðuð eftir teikningu, sem Sverrir Gunnarsson gerði og var hann einnig yfirsmiður. Niðursetningu vélar og aðra slíka vinnu annaðist vélsmiðja Dráttarbrautarinnar undir stjórn Reynis Zoega, vélsmíðameistara, raflagnir annaðist Kristján Lundberg, rafvirkjameistari og málningu Bjarni Lúðvíksson, málarameistari. Skipstjóri á Hafrúnu verður Kristinn Marteinsson og 1. vélstjóri Guðmundur Sigurðsson. Báturinn mun fara á síld innan fárra daga.
Austurland áskar eigendunum til hamingju með þennan glæsilega bát. Skipasmíðastöðin hér er langt komin með smíði á öðrum báti. Er sá rúmlega 20 tonn. Þá verður bráðlega lagður kjölur að um 70 lesta báti og er efni þegar komið á staðinn. Sá bátur verður smíðaður fyrir reikning fyrirtækisins sjálfs og ekki seldur fyrr en hann er fullsmíðaður.

Austurland. 28 júní 1957. 


Hafrún NK 80 sennilega nýsmíðuð.                                                       (C) Þorsteinn Jóhannsson.


Bátar í smíðum og viðhaldi hjá Dráttarbrautinni hf í Neskaupstað 1957.  (C) Höskuldur Stefánsson.

         Eldur í Hafrúnu úti á rúmsjó

  Sex mönnum bjargað en báturinn
    látinn reka upp í Landeyjafjöru

Eldur kom upp í v.b. Hafrúnu ÁR-28 frá Eyrarbakka í fyrrinótt. Skipti engum togum, að eldurinn breiddist út á örskammri stund, en skipverjunum, sex að tölu, tókst að komast í gúmbát. Síðan tókst að koma dráttartaug fyrst yfir í Hafbjörgu VE og síðan yfir í Lóðsinn, sem dró bátinn upp að Landeyjasandi, þar sem hann var látinn reka upp í fjöru. Þá var báturinn þó brunninn að mestu. Skipverjum var hins vegar bjargað um borð í Hafbjörgu, sem fór með mennina til Eyja, en til Eyrarbakka komu þeir um hádegisbil í gær með Sæfara frá Eyrarbakka. "Það var um kl. 2.30 í fyrrinótt, sem við urðum varir við eld í vélarrúminu, og skipti það engum togum, eldurinn breiddist fljótt út og ekki varð við neitt ráðið," sagði Ragnar Jónsson, fyrsti vélstjóri á Hafrúnu, þegar við ræddum við hann, skömmu eftir að hann kom til Eyrarbakka í gær. Hafrún var að leggja af stað til Eyrarbakka, þegar eldurinn brauzt út, en báturinn var búinn að vera á togveiðum frá því á laugardagskvöld. Þegar vart varð við eldinn, var báturinn staddur um 10 mílur austur af Vestmannaeyjum á vesturleið. Skipverjar reyndu að slökkva eldinn, en ekkert gekk. "Þegar ljóst var, að ekki yrði unnt að slökkva eldinn, sem allur var í vélarrúminu, hafði skipstjórinn, Valdimar Eiðsson, samband við Vestmannaeyjaradíó og Hafbjörgu VE (áður Breki), sem þarna var skammt frá á togveiðum." sagði Ragnar enn fremur. "Eftir því sem ég bezt veit, þá hjuggu skipverjar Hafbjargar trollið frá og héldu þegar til móts við okkur. Var báturinn kominn að Hafrúnu u.þ.b. einni klukkustund eftir að eldurinn brauzt út. Við náðum strax í gúmbátana, sem voru á þaki stýrishússins, og fórum við fljótlega yfir í annan bátinn, en bundum bátana saman. Enn fremur létum við dráttartaug síga út fyrir borðstokk Hafrúnar." Þá sagði Ragnar, að þegar Hafbjörg hefði komið, hefðu þeir verið búnir að vera á reki í 10 mínútur.
Gekk skipverjum vel að komast úr gúmbátnum yfir í Hafbjörgu, og er þeir voru komnir um borð, var Hafrún tekin í tog. Var ætlunin að draga bátinn upp á hraunið austur af Eyjum, til þess að hann sykki ekki á togveiðisvæði bátanna. Þegar Hafbjörg var búin að vera með Hafrúnu í togi í eina og hálfa klukkustund, kom Lóðsinn frá Vestmannaeyjum á vettvang, en um borð í honum voru menn frá slökkviliðinu í Eyjum með fullkomnar slökkvidælur. Sáu þeir strax að eldurinn yrði ekki slökktur og tóku því Hafrúnu í tog og drógu áleiðis að landi. Var báturinn síðan dreginn upp á Landseyjasand og látinn reka þar upp í fjöru, en hann var þá að mestur brunninn, eins og áður segir. Hafbjörg hélt aftur á móti með skipverjanna sex til Eyja, en þangað sótti svo einn Eyrarbakkabátanna þá, eins og fyrr getur. Þórarinn Öfjörð Markússon háseti á Hafrúnu, sagði í samtali við blaðamann Morgunblaðsins, að skipverjar hefðu átt í nokkrum erfiðleikum með að losa gúmbátanna vegna gífurlegs hita og reykjarsvælu. Sagði hann, að skipverjar teldu einkennilegt, að báðir bátarnir skyldu vera settir á sama stað í skipinu, t.d. hefði verið betra að hafa annan fram undan hvalbak.
Hafrún var röskar 60 lestir að stærð, smíðuð í Neskaupstað fyrir Kristinn Marteinsson og fleiri. Báturinn var síðan seldur til Eyrarbakka fyrir fáeinum árum, og var fyrst í eigu Hraðfrystistöðvarinnar, en frá 1971 var hann í eigu þeirra Ragnars Jónssonar, vélstjóra, og Valdimars Eiðssonar, skipstjóra. Við spurðum Ragnar, hvort þeir félagar hygðu á kaup á nýju skipi, en hann svaraði því til, að enginn vissi, hvað nú tæki við, en kaup á nýju skipi væri ekkert fráleitara en hvað annað. Fyrst í stað mundu þeir þó athuga málið nánar.

Morgunblaðið. 13 september 1974.


02.02.2019 18:39

821. Sæborg BA 25. TFBE.

Vélskipið Sæborg BA 25 var smíðað í Bardenfleth í Þýskalandi árið 1956 fyrir Kamb hf á Patreksfirði. 66 brl. 280 ha. MWM vél. Selt 20 maí 1967, Sveini Valdimarssyni og Hilmari Árnasyni í Vestmannaeyjum, hét Sæborg VE 22. Ný vél (1971) 425 ha. Caterpillar vél. Selt 16 desember 1972, Heimi hf í Keflavík, hét þá Sæborg KE 177. Ný vél (1979) 425 ha. Caterpillar vél, 313 Kw. Selt 25 september 1981, Sæborgu sf á Blönduósi og Særúnu hf, einnig á Blönduósi, hét Sæborg HU 177. Selt 1988, Sæborgu sf í Ólafsvík, hét þá Sæborg SH 377. Skipið fórst í róðri 7 mars árið 1989 eftir að hafa fengið á sig tvö brot. Einn maður fórst, Magnús Þórarinn Guðmundsson skipstjóri frá Ólafsvík. 7 skipverjar komust í gúmmíbjörgunarbát við illan leik og var bjargað um borð í vélskipið Ólaf Bjarnason SH 137 frá Ólafsvík.

821. Sæborg BA 25 nýsmíðuð í Þýskalandi.                                      Ljósmyndari óþekktur.

     Nýr stálbátur til Patreksfjarðar

Patreksfirði í gær. Nýr stálbátur kom hingað í morgun frá Þýzkalandi. Er  þetta 67 tonna skip. Báturinn  hreppti versta veður á leiðinni heim frá Þýzkalandi og segja skipverjar, að báturinn hafi reynzt mjög vel. Var báturinn 6 sólarhringa á leiðinni en yfirleitt voru 11 vindstig. Hinn nýi bátur ber nafnið Sæborg og er eign Kambs h.f. Skipstjóri er Gísli Snæbjörnsson og er hann einn hluthafi. Aðrir hluthafar eru Hraðfrystihús Patreksfjarðar og ýmsir einstaklingar.

Alþýðublaðið. 29 desember 1956.


Áhöfnin sem sótti Sæborgu til Þýskalands. Þeir eru frá vinstri talið; Andrés Finnbogason skipstjóri, óþekktur, Jón Þórðarson kokkur, Jón Magnússon síðar útgerðarmaður á Patreksfirði, Gísli Snæbjörnsson, Finnbogi Magnússon og Ingimar Jóhannesson.     Ljósmyndari óþekktur.


Sæborg BA 25 á siglingu.                                                                    Ljósmyndari óþekktur.

     Sæborg SH 377 sökk á Breiðafirði

      Sjö björguðust, eins er saknað

Sæborg SH 377, 66 tonna bátur frá Ólafsvík sökk, á Breiðafirði um kl. 20.30 í gærkvöldi. Átta manns voru um borð og var sjö þeirra bjargað af Ólafi Bjarnasyni SH-137 sem staddur var í grenndinni. Mikil leit var gerð að þeim sem saknað er af Sæborgu í gærkvöldi og tóku átta skip þátt í henni, en auk þess er varðskip á leiðinni. Senda á flugvél Landhelgisgæslunar til leitar í birtingu í dag. Björn Erlingur Jónasson skipstjóri á Ólafi Bjarnasyni segir að hann hafi heyrt neyðarkall frá Sæborgu laust fyrir kl. 20.30. Þá var Sæborgin stödd um 4-5 mílur undan Rifi á leið til Ólafsvíkur og átti eftir um klukkutíma siglingu til heimahafnar eftir veiðitúr. Björn segir að Sæborgin hafi sokkið mjög skyndilega eftir að hafa fengið á sig brot að hann telur. Veður á þessum slóðum var fremur slæmt, austan 7-8 vindstig með frosti og fór versnandi. Þeir sem Ólafur Bjarnason bjargaði tókst að komast um borð í gúmmíbjörgunarbát. Björn Erlingur segir að ekkert hafi amað að þeim er þeir voru teknir um borð í Ólaf.

Morgunblaðið. 8 mars 1989.

   Fengum á okkur tvö brot hvort á eftir öðru
     segir Eymundur Gunnarsson stýrimaður                                       á Sæborgu

Eymundur Gunnarsson stýrimaður á Sæborgu segir að skipið hafi fengið á sig tvo brotsjói hvorn á eftir öðrum með þeim afleiðingum að skipið lagðist á hliðina og sökk. Við fyrra brotið fylltist skipið af sjó á stjórnborðsvæng og reyndi skipstjórinn þá að keyra það upp í á fullu vélarafli til að reyna að losa það við sjóinn. Í því kom seinna brotið og þá lagðist skipið á hliðina og sökk skömmu síðar. "Við sem björguðumst gátum allir skriðið út um gluggana bakborðsmegin og upp á skipið þar sem við losuðum um gúmmíbjörgunarbátinn." Segir Eymundur. "Við stukkum síðan frá borði og tókst að komast í gúmmíbjörgunarbátinn. Ólafur Bjarnason kom síðan að okkur um 15 mínútum síðar og tók okkur um borð." í máli Eymundar kemur fram að Sæborgin var á siglingu til Ólafsvíkur eftir veiðiferð. Er veður tók að versna bað skipstjórinn alla um borð að koma aftur í brú og vera við öllu viðbúna. Sjólag fór síðan stöðugt versnandi eftir það. "Það sem einnig gerðist við seinna brotið var að það drapst á vélinni og eftir það varð ekki við neitt ráðið," segir Eymundur. "Ég vil taka það fram að ég og annar skipverji um borð vorum í vinnuflotgöllum og ég tel að það hafi alveg tvímælalaust bjargað lífi okkar." Í máli Eymundar kemur fram að þeir hafi svo komið til Ólafsvíkur um kl.21.30 um kvöldið og þá farið allir í heilsugæslustöðina en fengið að fara þaðan að lokinni skoðun.

Morgunblaðið. 8 mars 1989.


  

27.01.2019 04:30

B. v. Hafliði SI 2. TFDE.

Nýsköpunartogarinn Hafliði SI 2 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1948 fyrir Útgerðarfélagið Hrímfaxa og Sviða h/f í Hafnarfirði, hét fyrst Garðar Þorsteinsson GK 3. 677 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. 55,58 x 9,20 x 4,55 m. Smíðanúmer 790. Skipið var sjósett 28 janúar 1948. Kom í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Hafnarfjarðar 21 júní sama ár. 15 mars árið 1951 var Ríkissjóður Íslands skráður eigandi. Skipið var selt 24 júlí 1951, Bæjarsjóði Siglufjarðarkaupstaðar, hét Hafliði SI 2. Selt 2 maí árið 1969, Útgerðarfélagi Siglufjarðar h/f. Togarinn var seldur til Englands og tekinn af skrá 7 júní árið 1973.


75. Hafliði SI 2 við bryggju á Siglufirði.                                                       Ljósmyndari óþekktur.

 

     Nýr togari keyptur til bæjarins

Nýsköpunartogarinn "Garðar Þorsteinsson" lagðist að bryggju hér kl. 8,50 í gærkvöldi. Forseti bæjarstjórnar, Bjarni Bjarnason, bæjarfógeti, bauð skipið velkomið með snjallri ræðu, en bæjarstjóri, Jón Kjartansson, sem kom með skipinu, talaði af skipsfjöl. Þá talaði og bæjarfulltrúi, G. Jóhannsson. "Canton kvartetinn" söng á milli ræðanna. Undanfarið hefur verið unnið að því, í sambandi við lausn á hinu erfiða atvinnuástandi í bænum, að fá hingað nýsköpunartogara. Fóru þeir Bjarni Bjarnason, forseti bæjarstjórnar, Jón Kjartansson, bæjarstjóri, og í þeirra fylgd Þóroddur Guðmundsson, til Reykjavíkur á sínum tíma til að vinna að þessu máli. Bæjarstjóri hefur og að staðaldri, dvalið fyrir sunnan til að koma máli þessu áleiðis. Nú eru þau góðu tíðindi að segja, að fest hafa verið kaup á nýsköpunartogaranum "Garðari Þorsteinssyni" og er hann væntanlegur til bæjarins, í dag. Nýsköpunartogarinn "Garðar Þorsteinsson" er af stærri gerð eldri nýsköpunartogaranna, af Neptúnus-stærð, og er því nokkru stærri en bæjartogarinn "Elliði". Hann hefur það og fram yfir "Elliða", að hann hefur fullkomin kælitæki í lest. Kaupverð skipsins er kr. 5.400. 000, eða nokkuð á fjórðu milljón lægra en þeirra togara, sem nú er verið að smíða í Englandi. Með í kaupunum fylgja öll veiðarfæri skipsins og annað það stórt og smátt sem skipinu tilheyrir. Skipstjórinn á "Elliða", sem staddur var í Reykjavík, sagði skip, vélar og veiðarfæri í góðu ásigkomulagi. Togarinn er nýkominn úr "slipp" þar sem fram fór ketilhreinsun, botnhreinsun og málning skipsins. Togarinn getur því þegar hafið veiðar og atvinnusköpun hér í bæ.
Ríkisstjórnin kaupir skipið af fyrri eigendum þess og selur það síðan hingað með mjög hagstæðum og aðgengilegum kjörum. Sýna þessar aðgerðir ríkisstjórnar Sjálfstæðisfl. og Framsóknarfl. fullkominn skilning á hinu erfiða atvinnuástandi Siglfirðinga. Án aðstoðar hennar hefðu Siglfirðingar hvorki getað keypt togarann né önnur atvinnutæki. Siglfirðingar hafa því ríka ástæðu til að vera ríkisstjórninni þakklátir fyrir aðgerðir hennar í þessu máli. Gengið var frá kaupum á togaranum og samningar undirskrifaðir miðvikudaginn 14. marz s. l. Samningana undirskrifuðu fyrir hönd bæjarstjórnar: Jón Kjartansson, bæjarstjóri, Ólafur Ragnars og Áki Jakobsson. Má það að vísu undarlegt heita, að Áki skuli fenginn til þess verks, þar sem hann hefur ekki svo vitað sé, komið nálægt útvegun togarans, enda ríkisstjórnin þannig skipuð og málum þann veg háttað, að ásjónir kommúnista eyðilögðu frekar fyrir málinu en hitt. Út af fyrir sig er það máske aukaatriði, þótt þessi brátt fráfarandi þingmaður okkar Siglfirðinga seti nafn sitt á kaupsamningana. Aðalatriðið er auðvitað hitt, að fyrir velvilja núverandi ríkisstjórnar og dugnað og harðfylgi flokksmanna ríkisstjórnarflokkanna hér, hefur tekizt að fá nýjan togara í bæinn með kostakjörum. Togara, sem skapa mun mikla atvinnu hér og verður væntanlega til að bjarga mörgu heimilinu hér í bæ frá bölvun atvinnuleysisins. Bæjarbúar fagna allir komu hins nýja togara og þakka þeim öllum, sem að komu hans hafa unnið. Jafnframt þakka bæjarbúar núverandi ríkisstjórn fyrir velvilja hennar og skilning í garð Siglfirðinga í þessu máli. Bæjarbúar bjóða hið nýja skip velkomið til Siglufjarðar, svo og skipstjóra þess og aðra yfirmenn, sem koma með skipinu. Og hugheilustu óskir bæjarbúa um giftu og velfarnað fylgja skipinu og áhöfn þess í höfnum og á höfum úti.

Siglfirðingur. 20 mars 1951.B.v. Hafliði SI 2. Ólafsfjarðarmúli í baksýn.                                                       (C) Auður Ingólfsdóttir.

 

           Velkominn Hafliði SI 2

Bæjarstjórnin hefur ákveðið að hið nýja skip beri framvegis nafnið Hafliði. Munu allir vel una þeirri nafnagift. Togarinn fór á veiðar 21. f.m. Frézt hefur, að í gær hafi hann þurft að fara til Reykjavíkur til að taka salt. Ekki er óvarlegt að ætla, að afli hans hafi verið ca. 100 tonn. Fyrir hönd allra þeirra mörgu sem fagna komu togarans, vill Einherji bjóða nýja siglfirzka togarann velkominn til hinna nýju heimahafnar. Öllum er ljóst að mikið er í ráðizt, og happ og hending kann að hafa áhrif á rekstur og afkomu þessa skips, en það er von Siglfirðinga að hamingjan hossi Hafliða til hags og heilla fyrir okkur öll sem þennan bæ byggjum. Þeim, sem hlut eiga að því, að þessi togari er hingað kominn, skulu hér með færðar beztu þakkir.

Einherji. 3 apríl 1951.


B.v. Hafliði SI 2. Líkan á Síldarminjasafninu á Siglufirði.       (C) Þórhallur S Gjöveraa. 17 júlí 2016.

 

  Togarinn Hafliði SI 2 bjargaði áhöfn Fylkis RE 161


Meðal togaranna sem voru að veiðum nær landi voru b.v. Hafliði SI 2 frá Siglufirði. Loftskeytamaðurinn á varðskipinu Þór heyrði einnig neyðarkallið, en þó aðeins einu sinni. Þór var þá staddur við Vesturlandið. Fleiri togarar en Hafliði heyrðu SOS- merki Fylkismanna og settu þeir allir á fulla ferð í áttina þangað. Um hálftíma eftir að Fylkir sökk kom togarinn Hafliði að. Var þá byrjað að birta að degi, sem vitaskuld hjálpaði mikið til við að finna björgunarbátinn með áhöfnina í. Auðunn Auðunsson kallaði til Alfreðs Finnbogasonar skipstjóra á Hafliða og bað hann að koma kulmegin við bátinn. Togarinn stansaði og rak að bátnum.
Um borð í Hafliða voru margar hendur á lofti til þess að aðstoða Fylkismenn um borð. Eftir að björgun var lokið, var stefna sett til Ísafjarðar. Stuttu síðar var skeyti sent til Sæmundar Auðunssonar, framkvæmdarstjóra Fylkisútgerðarinnar. Ennfremur til Ísafjarðar, þar sem beðið var um að læknir kæmi út með lóðsbátnum vegna hinna meiddu. Fregnin um að Fylkir hefði farist á tundurdufli barst eins og eldur í sinu um Ísafjörð. Og er svo Hafliði kom að bryggju með skipbrotsmennina beið þar fjöldi manns. Undireins og upp að var komið var farið með mennina sem meiddust upp á spítala og gert að meiðslum þeirra.

Sporisandi.is
Konráð Rúnar Friðfinnsson.
27 nóvember 2014.


Smíðateikning af Garðari Þorsteinssyni GK 3 / Hafliða SI 2.                     (C) Óttar Guðmundsson.B.v. Garðar Þorsteinsson GK 3 við komuna til Hafnarfjarðar 21 júní 1948.  (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
 

   Garðar Þorsteinsson kom í gær

Nýsköpunartogarinn , Garðar Þorsteinsson GK 3 frá Hafnarfirði lagðist að bryggju þar suður frá fánum skreyttur laust fyrir hádegi í gær. Mannfjöldi var á bryggjunni til að fagna skipi og skipverjum, en bryggjan hafði verið fánum skreytt. Kristján Bergsson framkvstj. útgerðarinnar, Hrímfaxi og Sviði h/f, bauð gestum að skoða skipið og lýsti byggingu þess. Garðar Þorsteinsson er af næst stærstu gerð nýsköpunartogaranna, Röðul-gerðin, 180 feta langur. Hann er byggður í Beverley. Togarinn er nefndur eftir Garðari Þorsteinssyni alþingismanni, er Ijest á s.l. ári. Skipstjóri á Garðar Þorsteinssyni er Guðmundur Þorleifsson og fyrsti vjelstjóri Jón Björnsson. Togarinn er 26. nýsköpunartogarinn sem til landsins kemur. Hann fer væntanlega á veiðar annað kvöld.

 

Morgunblaðið. 22 júní 1948.
 

20.01.2019 09:46

M. b. Von NK 58.

Mótorbáturinn Von NK 58 var smíðaður í Romsdal í Noregi árið 1917. Fura, trénegldur. 24 brl. vélartegund og stærð óþekkt. Þessi bátur kom hingað til lands með Norðmönnum sem stunduðu á honum fiskveiðar og flutninga fyrir Norður og Austurlandi. Guðmundur Gíslason útgerðarmaður á Höfn í Hornafirði keypti bátinn 26 janúar árið 1930, hét þá Von SF 49. Báturinn var seldur sama ár eða árið eftir (1931), Ólafi H Sveinssyni á Eskifirði (ættaður úr Firði í Mjóafirði), hét Von SU ?. Báturinn var seldur í desember 1931, Guðjóni Símonarsyni útgerðarmanni og fl. í Neskaupstað, hét þá Von NK 58. Ný vél (1932) 80 ha. June Munktell vél. Báturinn slitnaði úr bóli sínu á Norðfirði 25 október árið 1936 í norðvestan roki og rak upp í fjöru og liðaðist þar í sundur og eyðilagðist.


Mótorbáturinn Von NK 58 við bryggju sennilega á Norðfirði.                    (C) Ölver Guðmundsson.

19.01.2019 18:52

743. Sigurður AK 107. TFEY.

Vélskipið Sigurður AK 107 var smíðaður hjá Frederikssund Skibs Værft A/S í Frederikssund í Danmörku árið 1960 fyrir Ólaf Sigurðsson útgerðarmann og fl. á Akranesi. Eik. 87 brl. 350 ha. Alpha vél. Árið 1961 var Sigurður hf á Akranesi skráður eigandi bátsins. Seldur 22 maí 1965, Erlingi hf í Vestmannaeyjum, hét Sigurður VE 35. Seldur 13 júní 1969, Þórarni Þórarinssyni í Hafnarfirði, Jónasi Þórarinssyni í Sandgerði og Magnúsi Þórarinssyni í Keflavík, hét þá Bergþór GK 25. Frá 19 maí 1972 hét báturinn Valþór GK 25, sömu eigendur en báturinn skráður í Garði. Valþór rak upp í stórgrýtta fjöru við Stekkjarhamar í Keflavík eftir að hafa fengið netadruslur í skrúfuna. Áhöfnin, 8 menn, komust hjálparlaust í land en báturinn eyðilagðist á strandstað.


743. Sigurður AK 107 á Siglufirði.                            (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

          Nýr bátur til Akraness

Akranesi, 22. Janúar. Hér höfðu safnazt saman 50-60 manns við höfnina um kl. 1 sl. nótt. Nýi báturinn, Sigurður A.K. 107, var að kom frá Danmörku. Hann er smíðaður hjá Frederiksund Skibs værft, sem Eggert Kristjánsson stórkaupmaður er umboðsmaður fyrir hér á landi. Sigurður vaggaði sér hægt og rólega í 1 1/2 klst. úti fyrir hafnargarðinum, með íslenzka fánann við hún á aftursiglu og nafnveifu bátsins á þeirri fremri. Tollfulltrúinn var um borð að afgreiða skipið. Að því búnu lagðist þetta glæsta skip að hafnargarðinum og fögnuðu menn því af alhug. Útgerðarmaður bátsins er Ólafur Sigurðsson og er nafn skipsins eftir föður hans.
Báturinn er 90 lestir, smíðaður úr eik. Aflvél er 385 ha. Alfa Diesel. Hjálparvél er 30 ha. Í skipinu er Decca-radar 48 mílur, og dýptarmælir og síldarleitartæki frá Simrad. Þá eru í skipinu sjálfvirk stýristæki. 75 w Petersen talstöð og miðunarstöð er í skipinu ásamt síma. Skipið er hitað upp með rafmagni og rafmagnseldunartæki eru um borð.
Einar Guðmundsson skipstjóri sigldi skipinu heim, en skipstjóri verður Einar Árnason, er áður var með vélskipið Sigrúnu.

Morgunblaðið. 2 febrúar 1960. 


Vélskipið Valþór GK 25 á strandstað við Keflavík.                                      Ljósmyndari óþekktur.

         Tvö bátsströnd á sama tíma
         Færeyskt skip náðist óskemmt á flot                                          við Álftanes
      Suðurnesjabátur að brotna í stórgrýttri                                  fjöru við Keflavík

Tveir bátar strönduðu um sama leytið í fyrrinótt. Suðurnesjabátur við Keflavík og færeyskur út af Álftanesi. Hinun síðarnefnda tókst fljótlega að ná á flot aftur, en Suðurnesjabáturinn velkist nú um í stórgrýttri fjöru við Stekkjarhamar og allar aðstæður til björgunar hinar erfiðustu. Engin slys urðu á mönnum í hvorugu strandinu. Það var milli kl. 12-01 í fyrrinótt að vb. Valþór GK 25 var á leið út úr Keflavík, að hann mun hafa fengið netatrossur í skrúfuna með þeirn afleiðingum, að báturinn rak stjórnlaust upp í fjöru við Stekkjarhamar, sem er litlu innan við fiskimjölsverksmiðjuna. Björgunarsveitin Stakkur í Keflavík var kölluð út og kom fljótlega á staðinn, en ekki kom þó til hennar kasta, því að átta manna áhöfn bátsins komst í land af sjálfsdáðum. Að sögn fréttaritara Mbl. í Keflavík liggur báturinm strandaður í stórgrýttri fjöru, og er útlitið ekki gott með björgun. Þarna var í gær talsverður norðaustan strekkingur og báturinn var á talsverðri hreyfingu i fjörunni, þannig að telja má líklegt að hann sé þegar mikið brotinn.
Valþór GK var 87 lesta eikarbátur, smíðaður í Danmörku 1960 og eru eigendur hans Magnús Þórarinsson og fleiri í Garði. Báturinn var á netaveiðum. Um sama leyti og Slysavarnarfélaginu barst tilkynning um strand Valþórs við Stekkjarhamar, barst tilkynning um að færeyska skipið Pétur í Görðunum væri strandað við Álftanes. Björgunarsveitin Fiskaklettur í Hafnarfirði var send á vettvang, hluti út á Álftanesið og annar hópur með hafnarbát Hafnarfjarðarhafnar vegna þess að fyrstu upplýsingar sögðu að hanm væri strandaður utarlega á Álftanesi. Síðar kom í ljós, að báturinn hafði strandað yzt á Lönguskerjum í Skerjafirði. Var björgunarskipið Goðinn fenginn til að fara á vettvang. Björgunarskipið kom á staðinn um 3 leytið í fyrrinótt og rúmum þremur tímum síðar losnaði færeyska skipið af strandstað eftir að Goðinn hafði togað í það. Í gæmorgum var búið að kafa undir skipið og kanna skemmdir, en þær reyndust engar vera. Pétur á Görðunum er stálskip og var nýkomið frá Færeyjum til að fara á veiðar hér við land.

Morgunblaðið. 25 mars 1973.


16.01.2019 18:06

240. Gjafar VE 300. TFNI.

Vélskipið Gjafar VE 300 var smíðaður í Zaandam í Hollandi árið 1964 fyrir Rafn Kristjánsson skipstjóra, Sveinbjörn Guðmundsson og Sigurð Kristjánsson í Vestmannaeyjum. 249 brl. 625 ha. Kromhout vél. Skipið var endurmælt í september árið 1972 og mældist þá 199 brl. Skipið var selt 1972, Hilmari Rósmundssyni og Theódór Ólafssyni í Vestmannaeyjum, sama nafn og númer. Skipið strandaði í innsiglingunni til Grindavíkur 22 febrúar árið 1973. Áhöfninni, 12 mönnum, var bjargað á land af Björgunarsveit SVFÍ í Grindavík við erfiðar aðstæður. Gjafar eyðilagðist á strandstað.


240. Gjafar VE 300 á leið inn til Vestmannaeyja.                    Ljósmyndari: Óskar. Mynd úr safni mínu.

     Tvö ný skip til Vestmannaeyja

Fyrir skömmu bættust tvö glæsileg fiskiskip í flota Vestmannaeyinga. Þau eru: ísleifur IV. VE 463 og Gjafar VE 300. Ísleifur IV er byggður í Örens Værsted í Noregi og er systurskip Bergs og Hugins II. Eigandi er Ársæll Sveinsson, útgerðarmaður. Skipstjóri verður Guðmar Tómasson.
Gjafar var byggður í Sandam í Hollandi. Hann er 248 tonn og hefur 595 hestafla Kromhaut aðalvél. Vistarverur eru sérstaklega góðar, allt tveggja manna klefar. Skipstjóri á Gjafari er hinn kunni aflamaður Rafn Kristjánsson. Báturinn fer á síldveiðar um næstu helgi. Framsóknarblaðið óskar eigendum hinna nýju báta til hamingju og skipverjum góðs gengis á komandi vertíð.

Framsóknarblaðið. 10 júní 1964.


Gjafar VE 300 á strandstað í innsiglingunni til Grindavíkur.        (C) Morgunblaðið. / H. Stígsson.

                  Tólf manns bjargað
       Miklar skemmdir á kili Gjafars VE 300,
 þar sem hann liggur á strandstað í Grindavík

Vélskipið Gjafar VE 300 strandaði við innsiglinguna í Grindavíkurhöfn í fyrrinótt rétt fyrir klukkan 3. Fór skipið á sker í Hópsnesi, er það var á leið út úr höfninni, en nesið er austanvert í Járngerðarstaðasundi. Tólf manna áhöfn var á skipinu og var henni bjargað í land í björgunarstól af björgunarsveit Slysavarnadeildarinnar Þorbjörns í Grindavík. Allir mennirnir urðu mjög sjóblautir er þeim var bjargað, en þeir jöfnuðu sig fljótt, er í land kom og varð engum meint af volkinu. Áhöfnin var skipuð Vestmannaeyingum, og misstu þeir nú atvinnutæki sitt aðeins mánuði eftir að þeir urðu að flýja heimabyggðina. Skipið er álitið mjög mikið skemmt á kili og hefur Björgun h.f. tekið að sér að ná skipinu á flot.
Formanni Björgunarsveitarinnar Þorbjörns, Tómasi Þorvaldssyni, var tilkynnt um strandið rétt um klukkan 3 og kallaði hann sveitina strax út, þar sem skipstjóri Gjafars óskaði eftir að áhöfninni yrði bjargað í land. Hélt sveitin þegar á strandstað og var hún komin þangað um 3.30. Erfitt var að komast út fjöruna og bera tækin á strandstaðinn, þar sem á gekk með útsynningshryðjum. Gekk sjór yfir björgunarmennina á leið þeirra, en skipið hafði strandað á fjöru, en tekið var að falla að. Á meðan á björgunarstarfinu stóð, gekk sjór yfir mennina i fjörunni og töluvert brimsog var. Sjór gekk stöðugt yfir skipið, en það lá alltaf upp í brimið og hefur því að líkindum lent á skernibbu. Lega skipsins og hallinn frá landi gerði starfið mun erfiðara. Í öðru skoti hittu björgunarmenn skipið, en línan kom þá á skipið þar sem áhöfnin treysti sér ekki að ná í hana vegna brimsins. Í þriðja skoti fór línan þannig að skipverjar gátu náð henni og eftir að samband var komið milli lands og skips, gekk greiðlega að koma tækjunum upp, en erfitt var þó að halda línunum uppi, svo að þær færu ekki í botn, en þarna er misdýpi og skerjótt mjög. Urðu björgunarmenn að svamla í sjó töluvert út til að losa línuna úr botninum. Því fylgdi nokkur áhætta, en allt tókst samt giftusamlega. Þegar búið var að koma björgunartækjunum fyrir voru skipverjar dregnir einn af öðrum í land. Að meira eða minna leyti drógust þeir nær alla leiðina í sjó. Voru menn að vonum kaldir og blautir er í land kom, en þegar skipbrotsmenn fengu hlý föt og komust í hús, hresstust þeir fljótt og urðu brátt sprækir. Voru þeir allir fluttir í verbúðir, en margir eru þessir menn heimilislausir og eru fjölskyldur þeirra á tvist og bast. Tveir áttu fjölskyldur í Grindavík, tveir vissu ekki hvar fjölskyldur þeirra voru staddar, en aðrir höfðu ekki símanúmer á verustað fjölskyldna sinna.
Gjafar hafði komið inn til Grindavíkur til þess að landa loðnu og hafði skipið gert það og var á leið út til veiða á ný, þegar það strandaði. Strandstaðurinn er svo til sá hinn sami og Arnfirðingur strandaði á fyrir nokkrum misserum, en honum tókst að bjarga. Að því stóð Bjöngun h.f., sem flutti bátinn upp á fjörukambinn, bjó síðan til rennu og hleypti honum á flot eftir henni um leið og skipið hafði verið þétt. Augsýnilega er Gjafar mjög mikið skemmdur á kili, því að á flóðinu flaut skipið ekki upp í gær, heldur lá alveg kyrrt. Töluverð olía rann úr skipinu í gær um gat á skrokki þess. Björgun h.f., sem þegar í gær hafði hafið undirbúming björgunar Gjafars ætlaði að fara eins að með hann og farið var með Arnfirðing, þegar honum var bjargað, flytja skipið fyrst upp á fjörukambinn, þétta það þar og hleypa síðan niður sömu rennuna og Arnfirðingi. Um borð í Gjafar var í fyrradag sett ný loðnunót í Grindavík. Nótin var hálf komin úr bátnum í gær og slettist til í brimrótinu. Skipverjar Gjafars sögðu eftir björgunina í gær að sögn Guðfinns Bergssonar, fréttaritara Mbl. í Grindavík, að skipið hefðd tekið niður í rennunni rétt áður en það strandaði. Engin vissa er enn fengin fyrir því, hvað olli strandinu, em líklegt er að beygt hafi verið of snemma á bakborða og áður en komið er að miðmerkinu á innsiglingunni. Þess má geta að þau tæplega 25 ár, sem Tómas Þorvaldsson hefur verið formaður björgunarsveitarinnar í Grindavík, hefur sveitin bjargað 191 mannslífi.

Morgunblaðið. 23 febrúar 1973..


13.01.2019 09:39

Arnfirðingur RE 212. LBTN / TFDH.

Vélbáturinn Arnfirðingur RE 212 var smíðaður í Ramsdal í Noregi árið 1917. Fura. 34 brl. 44 ha. Avance vél. Hét fyrst Grettir SI 53 hér á landi og var í eigu Ole Tynes útgerðarmanns og síldarsaltanda á Siglufirði frá árinu 1924. Hét áður Havbryn. Seldur 24 nóvember 1930, Jóni E Sigurðssyni á Akureyri, hét Grettir EA 433. Ný vél (1931) 70 ha. Hera vél. Seldur 10 janúar 1933, Jóhannesi Jónssyni í Reykjavík og Guðmundi Sigurðssyni í Grundarfirði, hét þá Höfrungur RE 53. Ný vél (1933) 110 ha. June Munktell vél. Seldur 26 apríl 1940, Óskari Halldórssyni hf í Vestmannaeyjum, hét Ari RE 53. 6 júní 1941 er báturinn skráður í Kothúsum í Garði, sami eigandi, hét þá Ari GK 371. Seldur 12 maí 1943, Tryggva Ófeigssyni útgerðarmanni í Reykjavík, hét Gestur RE 3. Seldur 16 desember 1944, Friðrik Guðjónssyni á Siglufirði, hét Gestur SI 54. Seldur 27 júní 1949, Magnúsi Guðbjartssyni og Þorsteini Löve í Reykjavík hét Gestur RE 212. Árið 1951 er Daníel Þorsteinsson & Co hf í Reykjavík eigandi bátsins. Seldur 8 júní 1951, Hermanni Kristjánssyni í Reykjavík, hét þá Arnfirðingur RE 212. Ný vél (1954) 150 ha. General Mótors vél. Seldur 12 maí 1955, Gunnari Gíslasyni og Þorláki Arnórssyni í Reykjavík, hét Ísfirðingur RE 319. Mikill eldur kom upp í bátnum 12 janúar árið 1956. Var hann þá á leið til Reykjavíkur frá Vestmannaeyjum og var kominn vestur fyrir Þorlákshöfn er eldsins varð vart. Áhöfnin, 3 menn, hleyptu bátnum á land og gátu síðan bjargað sér á fleka upp í fjöru heilum á húfi. Ísfirðingur brann og eyðilagðist á strandstað.


Vélbáturinn Arnfirðingur RE 212 liggur utan á togaranum Úranusi RE 343 í Reykjavíkurhöfn. Togarinn Karlsefni RE 24 liggur aftan við Úranus.    Ljósmyndari óþekktur.


Vélbáturinn Arnfirðingur RE 212 á siglingu.                                      Ljósmyndari óþekktur.

    Bátur brann undan óbyggðri strönd                    vestur af Þorlákshöfn
    en þriggja manna áhöfn Ísfirðings komst í                      land á fleka móti storminum

Þriggja manna áhöfn af bátnum Ísfirðingi var í háska stödd við óbyggða strönd Reykjanesskagans í gær þegar eldur kom upp í bátnum. Norðanstormur var á og ef skipsmenn hefðu ekki viðhaft allar öryggisráðstafanir, er hætt við að þá hefði getað borið með fleka frá landi undan norðanáttinni. En þeir komust allir í land og síðan fótgangandi til Þorlákshafnar.
Vélbáturinn Ísfirðingur frá Reykjavík, 33 smálestir, var í gærdag á siglingu frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur. Á honum voru þrír menn, Gunnar Gíslason úr Reykjavík, formaður, Þorlákur Arnórsson, vélstjóri úr Vestmannaeyjum og Þórhallur Þorsteinsson frá Akureyri. Gunnar Gíslason skýrði fréttaritara Mbl. frá því, að er þeir voru á siglingu vestur með ströndinni um 300 metra undan landi um kl. 3, hafi hann staðið í stýrishúsinu og hafi sér virzt sem hann fyndi reykjarlykt. Fóru þeir að athuga það, opnuðu dyrnar að káetunni og stóð þá út úr dyrunum logi og reykur. Þegar þetta gerðist voru þeir skammt frá svolítilli vík í ströndina, er nefnist Keflavík, um 4 km vestur af Þorlákshöfn. Fyrst gerðu þeir tilraunir til að slökkva eldinn, en sáu fljótt, að það yrði þýðingarlaust, því að svo magnaður var hann. Stefndu þeir þá skipinu upp að landi, þar til það kenndi grunns um 50 metra frá fjöruborði. Lending þarna er afleit, fjaran stórgrýtt, en nokkuð hlé var þar, því að stormur var að norðan. Þó var súgur.
Við sáum, að ekki varð neitt við eldinn ráðið, hélt Gunnar áfram frásögn sinni. Brösuðum við nú við að ná út flekanum, sem var tréfleki með grind. Var hann bundinn og allþungur, svo að við áttum í erfiðleikum með hann, en komum honum þó loks út. Í fyrstu höfðum við í huga, að fara allir út á flekann, en það varð okkur til happs, að við gerðum það ekki, því að hætt er við. að okkur hefði þá getað borið undan storminum og á haf út Þess í stað höfðum við meiri varúðarráðstafanir. Fór Þorlákur einn út á flekann og hafði haka, sem hann ýtti sér með að landi. Fest var færalína í flekann og sáum við að það var vissulega öruggara, því að straumur var þarna mikill og rak flekann vestur með ströndinn. Munaði oft litlu að stormurinn þrifi hann og bæri út á sjó.
En Þorlákur komst í land, drógum við flekann aftur út að bátnum, en hann hafði þó enda hjá sér í landi og dró okkur upp á þurrt. Þannig tókst þessi björgun giftusamlega, að frásögn formannsins, Gunnars Gíslasonar. Strax og þeir höfðu bjargazt í land ákváðu þeir að yfirgefa hið brennandi flak og ganga til Þorlákshafnar. Gunnar hafði vöknað upp í mitti og varð honum mjög kalt, enda var grimmdarfrost á. En svo vel vildi til, að Þorlákur var í tvennum sokkum þurrum. Fór hann úr öðrum sokkunum og léði Gunnari og gekk ferðin þá betur. Komu þeir til Þorlákshafnar eftir 1 klst. og 20 mínútur. Fengu þeir góðar móttökur hjá forstöðumönnum Meitils hf, þeim Benedikt og Þórarni og voru þar í nótt. Þeir töldu ekki Ijóst, hvort eldurinn hefði komið upp í vélarúmi eða káetu, en þunnt skilrúm er þar á milli. Hugsanlegt er, að eldurinn hafi komið upp í olíukyndingu. Þeir telja að báturinn sé gereyðilagður Þegar þeir skildu við hann logaði út um alla glugga á stjórnklefanum og nokkru síðar heyrðu þeir að sprenging varð í honum, sem þeir teija að hafi verið olíugeymir. Skipbrotsmennirnir kváðust mundu koma til Reykjavíkur í dag.

Morgunblaðið. 13 janúar 1956.


12.01.2019 08:09

211. Sæúlfur BA 75. TFEQ.

Vélskipið Sæúlfur BA 75 var smíðaður í Brandenburg í Austur Þýskalandi árið 1962 fyrir Hraðfrystihús Tálknafjarðar hf á Tálknafirði. 155 brl. 495 ha. Lister díesel vél. Skipið var lengt hjá Bolsönes Verft í Molde í Noregi í desember 1965, mældist þá 179 brl. Skipið sökk um 23 sjómílur SA af Dalatanga 25 nóvember árið 1966. Áhöfnin, 11 menn, komust í gúmmíbjörgunarbát. Skipverjum var svo bjargað um borð í Vonina KE 2 frá Keflavík sem fór svo með þá til Seyðisfjarðar.

ATH: Það er einhver bilun í gangi hér á 123.is sem lýsir sér í því að myndir detta út af síðunni minni. Það eru óþægindi sem fylgja þessu. Ekkert sem ég get gert til að laga þetta. Vefstjóri 123.is veit af þessu og ekkert annað að gera en bíða eftir því að síðan verði lagfærð. Bestu kveðjur.


Vélskipið Sæúlfur BA 75 á siglingu á sundunum við Reykjavík.                (C) Snorri Snorrason.

     Nýr stálbátur til Tálknafjarðar                   frá Austur-Þýskalandi

Nýr stálbátur, smíðaður í Austur-Þýzkalandi, kom til heimahafnar, Sveinseyrar við Tálknafjörð, s.l. mánudag. Báturinn heitir Sæúlfur, BA 75, eign Hraðfrystihúss Tálknafjarðar, en framkvæmdastjóri þess er Albert Guðmundsson kaupfélagsstjóri. Sæúlfur er 155 brúttólestir að stærð, smíðaður úr stáli í skipasmíðastöð í Strælu (Stralsund) í Þýzka alþýðulýðveldinu. Aðalvél bátsins er af gerðinni Lister en um borð eru aðsjálfsögðu öll nýjustu siglinga og fiskileitartæki. Benedikt A. Guðbjartsson skipstjóri sigldi bátnum heim frá Þýzkalandi.
Skipstjóri á vb. Sæúlfi verður Ársæll Egilsson í Tunguþorpi.

Þjóðviljinn. 23 ágúst 1962.


211. Sæúlfur BA 75 á síldveiðum.                                                     (C) Hafsteinn Jóhannsson.

     Sæúlfur sekkur á síldarmiðunum                                 fyrir austan

Vélskipið Sæúlfur frá Tálknafirði, sökk í gær 23 sjómílur austur af Dalatanga. Skipið var þá á leið til lands með síldarfarm. Skipið sendi út neyðarkall og skömmu síðar voru mörg síldveiðiskip komin þar á vettvang og svo fór að vélskipið Vonin bjargaði áhöfn Sæúlfs og flutti hana til Seyðisfjarðar. Blaðið hafði samiband við síldarradíóið á Dalatanga laust eftir klukkan 9 í gærkvöldi, og sagði það þá 7 vindstig og ekkert veiðiveður. Veiðisvæðið var og hafði verið um 60 mílur úti í hafi austur af suðri og ASA frá Dalatanga og þar hafði Sæúlfur verið að veiðum.
Skipstjóri á Sæúlfi var Ársæll Egilsson frá Bíldudal. Skip hans var upphaflega 155 lestir að stærð, en hafði verið stækkað í Noregi í desember 1965, upp í 179 brl að stærð. Blaðið náði í gær í Ársæl skipstjóra og sagði hann að á leiðinni til lands hefði skipið farið á hliðina á siglingunni, en þá var 6 vindstiga stormur af SSV. Ársæll sagði að hann hefði ekki vitað betur en að lestin hefði verið full svo sem sjá mátti eftir að búið var að háfa. Hann taldi að þeir hefðu verið með um 170-180 tonn síldar og allt í lestum, en ekkert á dekki. Er skipið kastaðist á hliðina hjá okkur sendum við út neyðarkall og var þá Vonin rétt hjá okkur, einnig mörg önnur skip skammt undan. Fórum við skipsmenn í gúmmbátana og komumst fljótt um borð í Vonina. Ársæll skipstjóri biður um sérstakt þakklæti fyrir góðar móttökur þar um borð. Við nánari eftirgrennslan um slysið sagði Ársæll að skipið hefði kastast í stjór. Enginn um um borð hefði náð neinu markverðu af eignum sínum og sumir yfirgefið skipið á sokkaleistunum einum. Þá gat Ársæll skipstjóri þess, að afli sá, er skipið var með hefði fengizt í 4 köstum og hefðu þau verið tekin frá því kl. 8 í fyrrakvöld og þar til kl. 8 í gærmorgun. Loks gat hann þess að skipsmenn hefðu misst fyrsta björgunarbátinn, og hefði línan slitnað, en þeir farið í næstu tvo báta. Við náðum í gær í skipstjórann á Voninni, Gunnlaug Karlsson úr Keflavík. Hann sagði að þeir hefðu verið á landleið með síld, 120 tonn og hefðu þeir ætlað til Fáskrúðsfjarðar, sem væri hálfgerð heimahöfn þeirra fyrir austan. Sigldu þeir fyrst upp undir land og ætluðu síðan suður með. Voru þeir því rétt hjá Sæúlfi er slysið bar að. Gunnlaugur sagði: Það er mikil ánægja að fá að bjarga félögum sínum svona. Það er oft að skaparinn gefur okkur góðan afla, en aldrei hef ég lent í því að fá tvo fulla skipsbáta af góðum félögum! Við spurðum Gunnlaug hvernig það hefði verið hjá honum að sjá er Sæúlfur sökk. "Við sáum hann síga niður að aftan og hverfa í ölduna, hallandi á stjórnborða".

Morgunblaðið. 26 nóvember 1966.06.01.2019 17:26

B. v. Búðanes SH 1. LBMG / TFYC.

Botnvörpungurinn Búðanes SH 1 var smíðaður hjá Kaldnes Mekaniks Verksted í Tönsberg í Noregi árið 1921 fyrir A/S. Det Norske Damptrawlselskab í Álasundi í Noregi, hét fyrst Aalesund. 374 brl. 578 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 49. Skipið var selt h/f Kveldúlfi í Reykjavík í ágúst 1924, hét Snorri goði RE 141. Ný vél (1930) 650 ha. 3 þennslu gufuvél. Seldur 21 júní 1944, Fiskveiðahlutafélaginu Viðey í Reykjavík, skipið hét Viðey RE 13. Selt 7 október 1947, Búðanesi h/f í Stykkishólmi, hét Búðanes SH 1. Selt 1 apríl 1952, Vélum og skipum h/f í Reykjavík. Togarinn var seldur í brotajárn til Granton í Skotlandi og rifinn þar í maí árið 1952.
Snorri goði var upphaflega smíðaður sem selveiðiskip en ekki klárað. Kveldúlfur keypti togarann á nauðungaruppboði í Noregi.
Snorri var ekki gott togskip. Hann var með hraðgenga vél með lítill skrúfu. Til að reyna að bæta úr því var ný gufuvél sett í hann 1930. Eftir að þeir eignuðust systurskipið Gulltopp RE 247 hafi staðið til að skipta um vél í honum en aldrei orðið úr því.


B.v. Búðanes SH 1 á leið í slipp í Reykjavík.                                                Ljósmyndari óþekktur.


Trollið tekið á Viðey RE 13.                                                   (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


B.v. Snorri goði RE 141.                                                              (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

 Togarafélag stofnað í Stykkishólmi

Togarafélág var stofnað í Stykkishólmi síðastliðinn miðvikudag. Á stofnfundinum var kosin bráðabirgðastjórn, samþykkt lög fyrir félagið og því valið nafnið Búðanes h.f. Í bráðabirgðastjórn félagsins voru kosnir þessir menn: Sigurður Ágústsson, Kristján Bjartmars, Sigurður Steinþórsson, Jóhann Rafnsson og Haraldur Ágústsson. Í varastjórn voru kosnir Kristmann Jóhannsson og Ólafur  Einarsson. Félaginu hefir verið boðinn togarinn Viðey til kaups og hefir stjórn þess verið falið að ganga frá kaupunum.

Vísir. 9 apríl 1947.Flettingar í dag: 151
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 779
Gestir í gær: 80
Samtals flettingar: 859194
Samtals gestir: 63043
Tölur uppfærðar: 23.6.2024 02:51:49