03.01.2019 20:42

975. Bjartur NK 121 með fullfermi til Neskaupstaðar.

Tog og síldveiðiskipið Bjartur NK 121 er hér að koma til löndunar í Neskaupstað með fullfermi af síld, sennilega á árunum 1968-69. Þau voru falleg þessi skip sem smíðuð voru í Boizenburg í A-Þýskalandi á árunum 1964-67 fyrir íslendinga, smíðuð eftir teikningu Hjálmars R Bárðarsonar skipatæknifræðings. Bjartur NK 121 kom nýr til Neskaupstaðar 14 maí árið 1965 og var í eigu Síldarvinnslunnar hf í Neskaupstað. Hann var einn af 18 skipum sem smíðuð voru þar og flest þeirra reyndust mjög vel. Filip Þór Höskuldsson var skipstjóri á Bjarti frá upphafi til ársins 1967, að Ísak Valdimarsson tók við skipstjórn uns skipið var selt til Grindavíkur 29 janúar árið 1972. Það var á síðastliðnu haust að skipið var selt í brotajárn, hét þá Sighvatur GK 57.


975. Bjartur NK 121 með fullfermi af síld við bryggju SVN í Neskaupstað.   (C) Guðmundur Sveinsson.


975. Bjartur NK 121 með fullfremi af síld á Norðfirði.                                 (C) Guðmundur Sveinsson.

       20 síldarskip komin á miðin
          Góðar veiðihorfur í nótt 

Neskaupstað í gærkvöld. Tuttugu síldarbátar eru nú komnir á miðin hér fyrir austan og halda sig aðallega á nýju veiðisvæði, sem Ægir fann í gærkvöld um 55 mílur austur af Dalatanga. Þarna hafa nokkur skip þegar fengið afla eins og Reykjaborgin 1100 mál, Þorsteinn 1600 mál, Bjartur 1500 mál, Jón Kjartansson 1200 mál og Sæfari 600 mál. Skínandi gott veiðiveður er á miðunum og eru veiðihorf- ur góðar í nótt.
Nýja síldarskipið okkar, Bjartur, er væntanlegt hingað í fyrramálið með 1500 mál og fer sú síld í bræðslu og frystingu. Þá komu til Eskifjarðar í dag Þorsteinn með 1600 mál og Jón Kjartansson með 2200 mál og Krossanesið kom með 1800 mál til Fáskrúðsfjarðar klukkan 5 í dag og hefur verksmiðjan þar bræðslu annað kvöld. Alltaf eru að berast fréttir af síldarskipum, sem þyrpast á miðin hvaðanæva að af landinu. Þannig eru á leiðinni að norðan síldarskip eins og Súlan, Ólafur Magnússon og Sigurður Bjarnason frá Akureyri, Siglfirðingur frá Siglufirði og Helgi Flóventsson frá Húsavík. Móttaka á síld er víðast í lamasessi hér á Austfjörðum og spyrja menn nú af kurteisi, hvar þetta margrómaða flutningakerfi sé þessa stundina og er enginn vafi á því, að allar þær bollaleggingar hafa gert menn óviðbúnari hér fyrir austan til móttöku á síld.

Þjóðviljinn. 27 maí 1965.


01.01.2019 14:00

Seglskipið Henning EA 5.

Hákarlaskipið Henning EA 5 var smíðað í Noregi árið 1884. Fura. 21,88 brl. Hét áður Jörundur og var í eigu Jörundar Jónssonar (Hákarla-Jörundar) í Syðstabæ í Hrísey. Skipið var gert út á hákarlaveiðar að mestu. Síðar áttu Jörund saman, Jóhannes Davíðsson bóndi í Hrísey og Jakob Valdemar Havsteen kaupmaður og konsúll á Akureyri. Um aldamótin eignaðist Jakob skipið einn og fékk það þá nafnið Henning. 29 ha. Tuxham vél var sett í skipið árið 1915. Var þá gert út á síld og þorskveiðar. Skipið var selt 1920-21, Anton Jónssyni kaupmanni á Akureyri. Í janúar 1932 er Henning kominn í eigu Landsbankans á Akureyri. Selt 13 júní 1932, Sigtryggi Benediktssyni á Akureyri. Talið ónýtt og tekið af skrá árið 1944.

Af Henning er það að segja, að þegar dagar hákarlaveiðanna voru með öllu liðnir, mátti hann enn teljast dágott skip og vel sjófær. Var hann þá gerður að vélskipi og látinn stunda síldveiðar á sumrum. Eru fá ár síðan hann var lagður til hinstu hvíldar. Nú liggur flak hans á Akureyri og eru það hinar einu sýnilegu menjar hákarlaskipa um þær slóðir. Flakið er mjög rytjulegt orðið.

Skútuöldin.
Gils Guðmundsson 1945.


Hákarlaskipið Henning EA 5.                                                               Ljósmyndari óþekktur.

31.12.2018 11:26

Togarar við bryggju í Örfirisey.

Óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og takk fyrir samfylgdina hér á síðunni á árinu sem er að líða.Megi árið 2019 færa okkur öllum gæfu. Hafið það ávallt sem allra best.Kærar kveðjur til ykkar allra.

Togarar H.B.Granda hf við bryggju í Örfirisey.
(C) Þórhallur S Gjöveraa. 23 desember 2018.

31.12.2018 08:28

Landhelgisbrjótur færður til hafnar í Neskaupstað.

Grimsbytogarinn Aldershot GY 612 var tekinn að meintum ólöglegum veiðum, 1,6 sjómílu innan fiskveiðilögsögunnar út af Digranesi á Bakkaflóa 12 maí árið 1965. Var togarinn færður til hafnar í Neskaupstað eftir mikinn eltingarleik, en togarinn stefndi til hafs á fullri ferð með nokkra varðskipsmenn af Þór um borð. Guðmundur Kjærnested skipherra á varðskipinu Þór elti togarann hálfa leiðina til Færeyja uns Guðmundi og útgerðarmönnum Aldershot tókst að koma vitinu fyrir skipstjórann, Leslie Alfred Cumby og stöðva skipið. Cumby skipstjóri var frægur landhelgisbrjótur hér við land, var nokkrum mánuðum áður tekinn að ólöglegum veiðum fyrir vestan land og dæmdur fyrir brot sitt. Mikil réttarhöld voru haldin yfir Cumby skipstjóra hjá Bæjarfógetanum í Neskaupstað sem stóðu yfir í 2 daga sem enduðu með því að Cumby skipstjóri var sýknaður af ákæru um landhelgisbrot en dæmdur í 4 mánaða fangelsi fyrir framkomu sína. Á þessum tíma og svo síðar í þorskastríðunum 1973-76, var oft grunnt á því góða í samskiptum þjóðanna. Þegar hætta steðjaði að eða menn voru í sjávarháska, stóðu menn saman sem einn og gerðu það sem hægt var til að bjarga mannslífum. Það var einmitt það sem gerðist daginn sem Aldershot kom til Neskaupstaðar, að 8 ára stúlka, Jóna Rebekka Högnadóttir féll fram af bryggjunni rétt hjá þar sem togarinn lá. Með snarræði eins skipverja á Aldershot, R. Perrin að nafni, tókst honum að ná Jónu úr sjónum ásamt 2 skipsfélögum sínum. Var hún búin að sökkva tvívegis og mátti því ekki tæpara standa með björgun hennar. Jóna Rebekka var fljót að jafna sig eftir þetta.


Grimsbytogarinn Aldershot GY 612 var smíðaður hjá Goole Shipbuilding & Repairing Co Ltd í Goole á Englandi árið 1959. 427 brl. 1.100 ha. Mirrlees díesel vél. Togarinn var þá í eigu útgerðarfélagsins Consolidated Fisheries Ltd í Grimsby.   Mynd úr safni mínu.


Aldershot GY 612 í höfn í Grimsby.

       Brezkur togari tekinn í landhelgi
       
            Réttarhöld standa yfir í Neskaupstað  
                Skipstjóri neitar öllum ákærum

Varðskipið Þór kom að brezkum togara, Aldershot GY 612 1.6 sjómílur innan fiskveiðitakmarkanna út af Digranesi um kl. 8 s.l. þriðjudagsmorgun. Eftir u.þ. b. sólarhrings eltingarleik við togarann var hann tekinn að meintum ólöglegum veiðum og færður til hafnar. Komu skipin til Neskaupstaðar um. kl. 16 á miðvikudag. Réttarhöld í máli skipstjórans á Aldershot, Leslei Alfred Cumby, hófust hjá bæjarfógetanum í Neskaupstað, Ófeigi Eiríkssyni í gær kl. 17. Stóðu þau til kl. tæplega 12 á miðnætti sl. nótt að frádregnu kvöldmatarhléi. Tíðindamaður Austurlands var viðstaddur réttarhöldin og hafði einnig tal af varðskipsmönnum svo og dómurum. Fyrstur kom fyrir réttinn Guðmundur Kærnested, skipherra á varðskipinu Þór. Verða hér aðeins rakin helztu atriði úr skýrslu skipherra. Varðskipið var á suðurleið á þriðjudagsmorgun og varð vart við marga togara að veiðum út af Bakkaflóa. Aldershot var
næst landi af þessum skipum, 1.6 sjómílu innan fiskveiðitakmarkanna, en annar togari var þar rétt hjá einnig að veiðum. Hins vegar sáu varðskipsmenn aldrei, að Aldershot hefði veiðarfæri í sjó, en hann sigldi hæga ferð eða 3 sjómílur, semi er toghraði. Jók hann síðan ferðina. Þór gaf honum stöðvunarmerki, en togarinn sinnti því engu og hægði ekki ferðina til hafs fyrr en skotið hafði verið að honum mörgum aðvörunarskotum, púðurskotum og skörpum skotum. Var þá kl. 12.30. Höskuldur Skarphéðinsson 1. stýrimaður fór nú við fjórða mann yfir í togarann. Skipstjóri togarans neitaði öllum ákærum um það að hafa verið að veiðum, en kvaðst hafa misst vörpuna og vera nú á leið til Grimsby til að ná laugardagsmarkaðinum fyrir afla sinn. Skipstjórinn ræddi við skipherrann á Þór, og fóru þær viðræður hógværlega fram, og féllst sá enski á að reyna að slæða upp vörpuna. Var því snúið við. En skyndilega snýr skipstjóri togaranum aftur til hafs og óx nú spennan um borð í togaranum. Varðskipsmenn voru ofurliði bornir af hinni 17 manna áhöfn togarans, enda allir óvopnaðir nema 1. stýrimaður. Þeir ensku vopnuðust hins vegar öllum tiltækum tólum og röðuðu sér á brúarvængi, en varðskipsmenn króaðir inni í brúnni. Stóð þessi spenna og eltingaleikur skipanna til kl. 4 aðfaranótt miðvikudags, en þá gaf skipherra skipun um valdbeitingu við að ná togaranum á vald þeirra varðskipsmanna. Var Þór þá kominn fast að togaranum. Skipstjóri togarans gafst nú skilyrðislaust upp og jafnframt barst 7 manna liðstyrkur frá varðskipinu, en áhöfn þess er 24 menn. Engin varpa sást á þilfari togarans, en vírar stjórnborðsmegin greinilega höggnir sundur og spil og blakkir höfðu verið í notkun nýlega, og einnig var nýr fiskur (steinbítur) á þilfari. Skipin héldu síðan til Neskaupstaðar og komu að bryggju sem fyrr segir um kl. 16 á miðvikudag. Voru varðskipsmennirnir þá um borð í togaranum vopnum búnir.
Togaraskipstjórinn, L. A. Cumby kom fyrir rétt um kl. 18 í gær og var fyrir rétt allan tímann eftir það, meðan réttur stóð. Sagðist hann hafa verið að veiðum á þriðjudagsmorgun frá kl. 5-7 aust-suðaustur af Langanesi, en haldið svo suður og verið á leið til Grimsby. Kvaðst hann hafa misst vörpuna, en áhöfn sín neitað að hefja veiðar að nýju, þótt veiðarfæri væru til í skipinu, þeir hefðu hins vegar höggvið af slitnu vírunum til að geta "splæst". Ekki sagðist hann hafa reynt að slæða upp töpuðu vörpuna. Um viðskipti sín við varðskipsmenn sagðist skipstjóranum frá á allt annan veg en skipherra, og ber þar margt á milli, sem ekki er rúm til að rekja hér. Meðan á eltingaleiknum stóð voru stöðugar skeytasendingar milli skipanna. Skipherra talaði mjög um fyrir enska skipstjóranum með að hlýða þeim skipunum að fylgja Þór til lands. Sömu fyrirmæli fékk hann frá Landhelgisgæzlunni og útgerðarfyrirtæki togarans, Consolidated Fisheries í Grimsby, en hann þverskallaðist við samt sem áður. Þessi sami skipstjóri var tekinn í landhelgi á sama togara á sl. hausti af varðskipinu Ægi fyrir vestan land. Höskuldur Skarphéðinsson var þá 1. stýrimaður á Ægi og tekur því Cumby skipstjóra nú í annað sinn. Sl. sunnudag kom togarinn Aldershot til Neskaupstaðar með 2 slasaða menn. Réttarhöld hófust aftur í morgun kl. 10.30 og munu væntanlega standa alllengi. Viðstaddir réttarhöldin eru: fulltrúi saksóknara, Bragi Steinarsson, lögfræðingur Landhelgisgæzlunnar, Gísli Einarsson og lögfræðingur brezka skipstjórans, Gísli Ísleifsson. Dómtúlkur er Hilmar Foss. Ófeigur Eiríksson, bæjarfógeti er dómsforseti, en meðdómendur þeir skipstjórarnir: Sigurjón Ingvarsson og Sveinbjörn Sveinsson. Ekki mun hafa verið fjallað um landhelgisbrot sem þetta hér í Neskaupstað í u. þ. b. áratug.

Austurland. 14 maí 1965.
Birgir Stefánsson.


Cumby skipstjóri í brú Aldershot við komuna til Neskaupstaðar.  (C) Morgunblaðið.

             4 mánaða fangelsi

Dómur í máli brezka togarans, sem frá var sagt í síðasta blaði, féll ekki fyrr en á þriðjudag, eftir löng og ströng réttarhöld. Var skipstjórinn sýknaður af ákæru um landhelgiabrot, en dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir framkomu sína. Báðir aðilar áfrýjuðu dómnum og varð skipstjóri að setja 1.1 millj. kr. tryggingu áður en honum var leyft að fara. Fór togarinn héðan seint um kvöldið áleiðis til Englands.
Forseti dómsins var Ófeigur Eiríksson, bæjarfógeti, en meðdómendur Sigurjón Ingvarsson og Sveinbjörn Sveinsson.

Austurland. 21 maí 1965.


26.12.2018 09:38

B. v. Earl Hereford RE 157. LCDT.

Botnvörpungurinn Earl Hereford RE 157 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1906 fyrir Earl Steam Fishing Co (Alick Black) í Grimsby, hét fyrst Earl Hereford GY 147. 273 brl. 465 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 110. Seldur 21 desember 1912, Christian M Evensen í Þórshöfn í Færeyjum, sama nafn. Seldur í febrúar 1915, Halldóri Kr Þorsteinssyni og Fiskveiðahlutafélaginu Eggert Ólafssyni í Reykjavík. Halldór átti helmings hlut á móti félaginu. Hét þá Earl Hereford RE 157. Togarinn var seldur franska flotanum í ágúst 1917, ásamt 9 öðrum íslenskum togurum. Fékk þá nafnið Guenon. Seldur 1919, F. Evan í Lorient í Frakklandi, hét Pen-er-Vro. Seldur 1925, L. Ballias & Cie í Lorient, hét þá Rauzan. Seldur 1936, G. Gautier, E & A. Gautier Fils & Cia í Laurient. Árið 1942 er togarinn tekinn í þjónustu þýska flotans og bar þá númerið V421. Togarinn var að lokum rifinn í brotajárn árið 1951.

S.t. Earl Hereford GY 147 var skráður 258,77 brl. í enskum skipaskrám en í þeirri íslensku var hann skráður 272,79 brl.


B.v. Earl Hereford RE 157 á Reykjavíkurhöfn.                                   Mynd á gömlu póstkorti.

   Botnvörpungurinn Earl Hereford

Halldór Þorsteinsson skipstjóri kom hingað í gær á botnvörpuskipinu, sem hann keypti í Bretlandi. Er það Earl Hereford, sem lengi hefir verið við veiðar hér við land.

Morgunblaðið. 10 febrúar 1915.


B.v. Earl Hereford RE 157 fánum príddur á Reykjavíkurhöfn við komu Lagarfoss hinn 19 maí árið 1917. Eimskipafélagið hafði leigt togarann til að ferja stjórn félagsins og aðra góðborgara til móts við hið nýja skip.     Ljósmyndari óþekktur.

          "Earl Hereford" kemur

          Viðtal við skipstjórann

Vér áttum í gær viðtal við Guðmund Jónsson, skipstjóra á botnvörpungnum "Earl Hereford". Kom skipið hingað í gærmorgun beina leið frá Grimsby. Spurðum vér Guðmund frétta frá stríðinu.  - Vér komum til Hull þ. 14. þ.m. Á Humberfljótinu kom til okkar brezkur tundurbátur, sem spurði oss hvaðan vér kæmum og hvað vér hefðum meðferðis. Var yfirmanni bátsins sérstaklega ant um að vita hvort nokkrir væru þýzkir eða austurrískir sjómenn á skipinu. Tjáði hann oss að vér eigi mættum halda áfram upp fljótið fyr en dagaði og þá eigi lengra en að tilteknu vitaskipi á fljótinu. Þegar þangað kom var oss enn sagt, af öðru brezku herskipi, að hafa uppi svo tiltekin merki og halda ekki lengur fram ferðinni en að tveim beitiskipum, sem lágu ofar á fljótinu, og var oss gefinn vari um að halda ekki á hlið við þau.
Straumur var í fljótinu og bar skip vort upp fljótið, þegar að beitiskipunum kom, nær þeirri línu, sem bannað var að fara yfir. Fremra beitiskipið var þá farið að skjóta og skullu kúlurnar skamt fyrir framan skip vort. Vér snerum þá við, en síðar var mér tjáð, að hefði oss eigi tekist að stöðva skipið, þrátt fyrir strauminn, þá hefði beitiskipið skotið á »Earl Hereford«. Þegar til Grimsby kom láu þar nær allir botnvörpungar frá þeim bæ. En þann dag, var nokkrum leyft að fara út á fiskiveiðar til Íslands og Færeyja. Í Norðursjónum fá þeir eigi að fiska. Sagt var í Grimsby að um 60 botnvörpungar væru að draga á fyrir þýzkum sprengiduflum í Norðursjónum. Black útgerðarmaður í Hull, hafði meðal annars leigt brezku stjórninni öll sín skip til þessa. Aðdrættinum haga þeir þannig, að tvö skip fara saman og hafa vírstreng á milli sín svo neðarlega í sjónum, að hann lendir undir duflinu á taug, sem liggur ofan í stjórann. 

Guðmundur kvað ágætis markað fyrir fisk í Bretlandi og siglingu þangað hættulausa með öllu.

Morgunblaðið. 23 ágúst 1914.


25.12.2018 13:26

844. Sævaldur ÓF 2. TFOJ.

Vélbáturinn Sævaldur ÓF 2 var smíðaður hjá Sverres Batvarv í Gautaborg í Svíþjóð árið 1946 fyrir Sævald hf á Ólafsfirði. 53 brl. 170 ha. Polar díesel vél. Ný vél (1952) 180 ha. Grenaa díesel vél. Seldur 12 janúar 1959, Alfreð Gústafssyni og Kristjáni Gústafssyni á Höfn í Hornafirði, hét Sævaldur SU 2. Ný vél (1961) 220 ha. Caterpillar díesel vél. Frá 5 desember 1969 heitir báturinn Sævaldur SF 4. Árið 1971 var báturinn endurmældur og mældist þá 52 brl. Seldur 14 júlí 1973, Jóni Kr Jónssyni og Sæmundi Árelíussyni á Ísafirði, hét þá Sævaldur ÍS 73. 30 ágúst 1973 voru eigendur bátsins Sæmundur Árelíusson á Blönduósi og Jón Kr Jónsson á Ísafirði, hét þá Ögurnes HU 4. Báturinn brann og sökk um 8 sjómílur út af Öndverðarnesi á Snæfellsnesi 1 september árið 1974. Áhöfnin, 3 skipverjar komust í gúmmíbjörgunarbát og var bjargað þaðan um borð í vélbátinn Hamar SH 224 frá Rifi.


Vélbátarnir Sævaldur ÓF 2 og Garðar EA 761 í smíðum í Svíþjóð.                      (C) Curt S Ohlson.


Vélbáturinn Sævaldur ÓF 2. Líkan.                                                   Ljósmyndari óþekktur.

       "Mikið tap að missa bátinn"  

"Ég veit ekki út frá hverju kviknaði í, en eldurinn kom upp aftur í vélarrúmi", sagði Eyþór Björgvinsson, skipstjóri á Ögurnesi HU 4, sem brann og sökk aðfararnótt sunnudagsins, en þrennt var á bátnum - auk Eyþórs, Brynhildur Björnsson vélstjóri, sem er kona hans, og Jónas Jónsson, stýrimaður. Þau komust í gúmbát og vélbáturinn Hamar frá Rifi bjargaði þeim, er þau höfðu verið tvær klukkustundir í bátnum. Eyþór sagði í viðtali við Mbl. í gær, að hann hefði verið uppi við, en Brynhildur og Jónas hafi verið frammi í. Þau voru á rækjutrolli skammt utan við Öndverðarnes og biðu birtingar til þess að geta kastað. Eyþór sagðist hafa gengið fram í bátinn til hinna, en þá hafi hann séð reyk leggja upp af bátnum aftan til. Hann kallaði í Brynhildi og Jónas, en ekki réðst við eldinn. "Ég fór þá að talstöðinni og gat kveikt á henni. Hins vegar gat ég ekki kallað í hana vegna hita nema brjóta glugga og teygja mig eftir henni inn um hann. Kallaði ég upp Reykjavík og bað loftskeytamanninn um að hlusta eftir okkur á neyðarbylgjunni. Þegar þetta kom fyrir, vorum við um 8,5 sjómílur undan landi, vest-norðvestur af Öndverðarnesi. Okkur gekk vel að komast í gúmbátinn og vorum í honum um það bil 2 klukkustundir, en þegar Hamar kom og tók okkur upp, vorum við um 11 til 12 mílur dýpra og hafði þá rekið þetta. Veður var gott, hægur andvari, en dálítil kvika. Eldurinn kom upp um klukkan 4 um nóttina og klukkan 10.10 sökk báturinn." "Við vorum á rækjutrolli og ætluðum að veiða í svokölluðum Kolluál. Vorum við nýkomin út frá Ólafsvík, er eldsins varð vart. Það var mikið tap að missa bátinn, en hann er í eigu Sæmundar Arelíussonar og Jónas Kr. Jónssonar á Ísafirði. Höfðum við bundið miklar vonir við rækjuveiði á Húnaflóa. "Er ekki óvanalegt, að hjón rói saman á bát eins og þið Brynhildur gerið?" "Ég held, að það sé einsdæmi", sagði Eyþór. "Við höfum þó ekki alltaf verið á sama bát.
Ég var á Ögurnesinu í vetur, en hún var á stærri bát, segist hafa verið á skipi." "Og hvað er nú framundan?" "Ja, okkur langar í annan bát. Draumur okkar hjónanna er að eignast lítinn bát, sem við getum róið á tvö ein eftir rækju í Djúpinu. Við búum á bæ við Djupið, sem heitir Þernuvík og er í Ögurhrepp. Þar langar okkur til þess að búa og róa svo eftir rækju, stunda jafnframt búskap, og gerast eins konar útvegsbændur eins og svo mjög tíðkaðist í Djúpinu í gamla daga". Þegar við spurðum Eyþór að lokum hvort þeim hafi orðið meint af þessu óhappi, kvað hann þau ekki hafa svo mikið sem blotnað. Eyþór minntist einnig á það að fyrir þremur árum hafi bát hvolft undan þeim hjónum út af Þorlákshöfn. Fóru þau þá bæði í sjóinn og þurftu að synda um í sjónum, unz þeim var bjargað. Þess má að lokum geta að kona Eyþórs og vélstjórinn hans Brynhildur Björnsson er sonardóttir Sveins heitins Björnssonar fyrsta forseta Íslands.

Morgunblaðið. 3 september 1974.


24.12.2018 10:35

Togarar H.B. Granda hf. í höfn um jólin.

Óska ykkur öllum gleðilegra jóla og þökk fyrir samfylgdina hér á síðunni á árinu.
Hafið það ávallt sem allra best yfir hátíðirnar  
Bestu jólakveðjur til ykkar.23.12.2018 07:18

Landað úr togaranum Gerpi NK 106 í Neskaupstað.

Hér er verið að landa úr togaranum Gerpi NK 106 við innri bæjarbryggjuna í Neskaupstað árið 1957-58. Togarinn var gerður út af Bæjarútgerð Neskaupstaðar frá 16 janúar 1957, þar til hann var seldur hinn  12 júlí árið 1960, hf. Júpíter (útgerð Tryggva Ófeigssonar) í Reykjavík. Hét þar Júpíter RE 161. Gerpir var smíðaður hjá A.G. Weser Werk Seebeck í Bremerhaven í Þýskalandi árið 1956. 804 brl. 1.470 ha. M.A.N vél. Glæsilegt skip og mönnum sem voru þar skipverjar gegn um tíðina, ber saman um að Gerpir hafi verið afburða gott sjóskip.

Landað úr Gerpi NK 106 í Neskaupstað.                                      (C) Sigurður Guðmundsson.

    Gerpir á leið heim með fullfermi

Neskaupstað í gær.
Togarinn Gerpir er á leið heim með fullfermi af karfa frá Nýfundnalandsmiðum. Mun hann vera með í  kringum 350 tonn. Landar hann bæði á Seyðisfirði og í Neskaupstað samkvæmt samkomulagi, er gert hefur verið um löndun beggja togaranna, Gerpis og Brimness á Seyðisfirði og í Neskaupstað. Bátakjarasamningar hafa verið samþykktir hér. Á fiskverðssamninga var ekki minnzt, en það þýðir, að verkalýðs- og sjómannafélagið hér sættir sig við fiskverðssamkomulag það er samninganefndir náðu.

Alþýðublaðið. 18 janúar 1959. 

22.12.2018 19:55

Reykjavíkurhöfn um vetrarsólstöður.

Það var fallegt veðrið í höfuðborginni á vetrarsólstöðum, blakti varla hár á höfði og glaða sólskin á meðan hennar naut við núna í svartasta skammdeginu. En senn tekur sól að hækka á lofti og jólahátíðin senn að ganga í garð með öllu sem henni tilheyrir.

Reykjavíkurhöfn á vetrarsólstöðum.                                (C) Þórhallur S Gjöveraa. 21 desember 2018.

15.12.2018 20:13

Síldarbræðslustöð hf. Kveldúlfs á Stekkeyri í Hesteyrarfirði.

Sumarið 1912 var "Skallagrímur" gerður út á síld til Norðurlands og hefst síldarútgerð hf Kveldúlfs  með því. Lagði hann upp afla sinn á Akureyri, ýmist til söltunar eða bræðslu. En sumarið eftir leigði Kveldúlfur síldarstöð á Hjalteyri, tvímælalaust bestu, sem þar var að fá, og gerði á henni miklar umbætur, meðal annars voru byggðar þar fimm hafskipabryggjur á næstu árum. En árið 1924 keypti fjelagið alla Hjalteyrina. Jafnframt síldveiðinni rak fjelagið þar fiskverkun og rekur enn, því að það kaupir jafnan mikið af fiski við Eyjafjörð og á Siglufirði. Á Siglufirði byrjaði fjelagið að leggja upp síld 1916, og var leigt þar pláss, gerðar þrjár hafskipabryggjur og síldarplan, byggð hús handa starfsfólki og því um líkt. Það voru togararnir, sem einkum tóku þátt í síldveiðunum, auk mótorbáta fjelagsins.  Í árslok 1926 keypti Kveldúlfur einhverja fullkomnustu síldarbræðslustöð á Íslandi, verksmiðjuna "Heklu" við Hesteyrarfjörð. Hefir fjelagið síðan stundað síldveiði þaðan með togaraflota sínum og einnig keypt síld af 3-4 öðrum togurum. Á fyrsta starfsári verksmiðjunnar, 1927 vann hún alls úr 65.500 síldarmálum og úr 75.000 málum árið eftir og loks síðastliðið ár úr 84.000 málum.


Síldarstöð Kveldúlfs á Stekkeyri. Kveldúlfstogari og 2 aðrir togarar að landa.  (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Landað úr togara á Stekkeyri á 3 áratugnum.                                    (C) Benedikt R Steindórsson.


Hráefnisþrær verksmiðjurnar fullar. Togarinn Skutull ÍS 449 (vinstra megin) að landa afla sínum. Maðurinn sem stendur á pallinum við miðja mynd er Kjartan Thors forstjóri Kveldúlfs, að ég held örugglega. Úti á firði er kolaskip og 2 Kveldúlfstogarar sitt hvoru megin við skipið að taka kol.

         Stekkeyri í Jökulfjörðum

Meðal afskekktustu staða á Íslandi er Hesteyri í Jökulfjörðum. Upphaf þéttbýlis þar var að Norðmenn settu á stofn hvalstöð á Stekkeyri, skammt innan Hesteyrar, fyrir næstsíðustu aldamót. Árið 1912 var hvalstöðinni breytt í síldarverksmiðju. Þar reis þorp með um hátt í hundrað íbúum að vetrinum en nær 200 manns að sumrinu, þegar síldarverksmiðja Kveldúlfs hf. var í fullum gangi. Verksmiðjunni var lokað skömmu eftir 1940 sem leiddi af sér fólksflótta þar sem öðrum atvinnutækifærum var ekki til að dreifa.
Nokkrir íbúanna þraukuðu áfram í þeirri von að aftur yrði þar atvinnu að hafa en sú von brást. Þar sem fólk þurfti að fara frá öllu sínu gripu sumir til þess ráðs að flytja íbúðarhús sín með. Þau vora tekin í sundur og komið fyrir á nýjum granni á Ísafirði eða í öðram byggðarlögum við Djúp. Eftir stóðu sár í þorpinu þar sem stóriðja hafði verið rekin í 50 ár, allt frá þvi Norðmenn settu upp hvalstöð á Stekkeyri, skammt innan Hesteyrar. Skömmu eftir 1950 fluttu síðustu íbúarnir frá Hesteyri þegar símstöðvarstjórinn og hans fólk pökkuðu saman. Siðan hefur þögnin ein ríkt að vetrinum á Hesteyri. Þrátt fyrir að heilsársbúsetu sé ekki lengur til að dreifa á Hesteyri þá er húsum þar haldið við og á hverju sumri koma þeir sem rætur eiga á staðnum og dvelja um lengri eða skemmri tíma. Fjöldi fyrrverandi íbúa Hesteyrar og afkomenda þeirra heldur tröllatryggð við staðinn og kemur árlega til að dvelja í faðmi vestfirskra fjalla, þar sem náttúra og gamlar minjar mynda skemmtilegan og afar sérstæðan heildarsvip.

Dagblaðið Vísir. 19 júní 2002.


14.12.2018 20:03

B. v. Surprise GK 4 á síldveiðum.

Ljósmyndin hér að neðan er af togaranum Surprise GK 4 frá Hafnarfirði þar sem hann er á síldveiðum á stríðsárunum, sennilega fyrir norðan land. Ekki annað séð en hann sé kominn með fullfermi og vel það. Það gæti alveg verið að hann sé á veiðum á Húnaflóa og því stutt að fara inn á Reykjarfjörð og landa síldinni í Djúpavík. 
Botnvörpungurinn Surprise GK 4 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir breska sjóherinn, hét Samuel Martin í þeirra eigu. Seldur sama ár Hellyers Brothers Ltd í Hull, hét Field Marshal Plumer H 174. 313 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 898. Togarinn var svonefnt stjórnarskip, þ.e. eitt af þeim skipum sem breska stjórnin lét smíða til stríðsnota, en þessi togari sem og fleiri, mun þó ekki hafa verið hleypt af stokkunum fyrr en eftir stríð. Seldur Einari Þorgilssyni & Co í Hafnarfirði í nóvember 1924 og fær nafnið Surprise GK 4, eftir skútu sem Einar hafði átt og reynst happaskip. Kom togarinn til heimahafnar, Hafnarfjarðar, hinn 11 desember 1924. Seldur Sæfelli h/f í Vestmannaeyjum árið 1945, fær nafnið Helgafell VE 32. Seldur Oddi Helgasyni í Reykjavík í júní árið 1952. Hann selur togarann í brotajárn og er hann rifinn í Bo'ness í Skotlandi sama ár.

Surprise var fyrst skráður í eigu þeirra feðga, Einars Þorgilssonar, Ólafs Tryggva Einarssonar og Þorgils G Einarssonar í Hafnarfirði, en frá 4 nóvember 1939 er Einar Þorgilsson & Co í Hafnarfirði eigandi togarans.


B.v. Surprise GK 4 á síldveiðum á stríðsárunum.                                        (C) Kjartan Traustason.

             Síldarafli togaranna

Allir togarar eru nú hættir síldveiðum og herpinótaveiði virðist vera að hverfa, en reknetaveiði að glæðast. Þessir togarar eru hættir síldveiðum og hafa þeir aflað alls í sumar mál og tunnur, sem hér segir:
Garðar 19.259,
Surprise 17.886,
Tryggva gamli 16.400,
Kári 13.360,
Arinbjörn hersir 11.040,
Egill Skallagrímsson 13.182, og
Skallagrímur 12.812.
Garðar, Surprise, Egill Skallagrímsson og Arinbjörn hersir fara heimleiðis. Kári og Tryggvi gamli byrja karfaveiðar og leggja aflann á land í Djúpuvík. Skallagrímur er byrjaður karfaveiðar.

Nýja dagblaðið. 25 ágúst 1936.

12.12.2018 17:45

M. b. Gylfi ÍS 510.

Mótorbáturinn Gylfi ÍS 510 var smíðaður í Skipasmíðastöð Gunnars Jónssonar á Akureyri árið 1929 fyrir Ásgeir Frímannsson, Gunnar Thorarensen og Tómas Björnsson á Akureyri, hét fyrst Gylfi EA 460. Eik og fura. 12 brl. 40 ha. Skandia vél. Báturinn var seldur 26 janúar 1935, Hirti Guðmundssyni í Hnífsdal, hét Gylfi ÍS 510. Seldur 29 desember 1942, Valdimar Sigurðssyni og Aðalsteini Einarssyni á Akureyri, hét þá Gylfi EA 729. Seldur 1 júlí 1944, Benedikt Þorsteinssyni, Birni Þ Ásmundssyni og Bjarna Runólfssyni á Höfn Hornafirði, hét þá Gylfi SF 54. Var gerður að uppskipunarbáti og tekinn af skrá 2 nóvember árið 1948.


Gylfi ÍS 510 á siglingu á Reykjarfirði á Ströndum (Djúpavík).            (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

09.12.2018 09:57

B. v. Júní GK 345 og breska orrustuskipið Hood.

Ég rakst á þessi líkön á ferðalagi í sumar sem leið. Annars vegar er það botnvörpungurinn Júní GK 345 frá Hafnarfirði og breska orrustuskipið Hood. Ekki má gleyma líkaninu af vélbátnum Aðalbjörgu RE 5 sem er þarna líka. Veit ekki hvort stærðarhlutföllin eru rétt, en engu að síður er hann gríðarlegur. Júní GK 345 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 sem Ingólfur Arnarson RE 1. Var fyrst í eigu Hauks hf í Reykjavík, en seldur til Færeyja 1922 og hét þar Royndin TG 634. Var svo seldur til Grimsby 1930 og hét þar Daily Telegraph GY 367. Skipið endar svo hjá Bæjarútgerð Hafnarfjarðar árið 1934 sem Júní GK 345. Togarinn strandaði við Sauðanes í Önundarfirði 1 desember árið 1948. Mannbjörg. Aðalbjörg RE 5 var smíðuð af Magnúsi Guðmundssyni skipasmíð í Reykjavík árið 1935 fyrir feðgana Sigurð Þorsteinsson og Einar Sigurðsson útgerðarmenn í Reykjavík. 22 br. Aðalbjörgin er ennþá til, var lengi í Árbæjarsafni en var flutt til viðgerðar fyrir allnokkrum árum síðan. Örlög orrustuskipsins Hood, stolts breta, urðu heldur dapurleg. Skipinu var sökkt djúpt VSV af Reykjanesi af þýska bryndrekanum Bismarck 24 maí árið 1941. Það voru aðeins 3 skipverjar sem lifðu af þann hildarleik.


B.v. Júní GK 345 og HMS Hood.                                      (C) Þórhallur S Gjöveraa. 16 ágúst 2018. 


B.v. Júní GK 345. Hood í baksýn.                                     (C) Þórhallur S Gjöveraa. 16 ágúst 2018.

B.v. Júní GK 345 og Hood.                                               (C) Þórhallur S Gjöveraa. 16 ágúst 2018.

Aðalbjörg RE 5 með Hood í baksýn.                             (C) Þórhallur S Gjöveraa. 16 ágúst 2018.

Eins og sést hér, er stærðarmunur skipanna gríðarlegur. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 16 ágúst 2018.

Glæsileg listaverk.                                                        (C) Þórhallur S Gjöveraa. 16 ágúst 2018.


Botnvörpungurinn Júní GK 345.                                                          (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Vélbáturinn Aðalbjörg RE 5.                                     (C) Snorri Snorrason.  Úr safni Atla Michelsen.


Orrustuskipið Hood var smíðað hjá John Brown & Co Ltd í Clydebank í Skotlandi árið 1918. 47.430 tonn fullhlaðið. Skipið heitir í höfuðið á hinum fræga Samuel Hood aðmíráli (1724-1816). Kjölur skipsins var lagður hinn 1 september árið 1916. Var svo hleypt af stokkunum 22 ágúst árið 1918. Tekið í þjónustu breska sjóhersins 15 maí árið 1920. Hood var gjarnan kallað "stolt" breta. Skipið var 860 ft. á lengd, 104 ft. á breidd og djúprista þess var 32 ft. Hood var lengi vel stærsta herskip heims. Skipinu var sökkt af þýska bryndrekanum Bismarck (42.000 tonn) djúpt SVS af Reykjanesi 24 maí árið 1941. Einungis 3 mönnum var bjargað en 1.412 skipverjar fórust með skipinu.

09.12.2018 08:26

Allt að 500 ára gamalt bátsflak fannst í Þingvallavatni.

Þessi fundur er merkilegur fyrir margra hluta sakir. Fyrir það fyrsta er þetta elsta flak sem fundist hefur hér á landi sem hugsanlega má telja íslenska smíði og það frá miðöldum. Ég vona að Þjóðminjasafnið hafi bolmagn til þess að bjarga þessu forna skipi og forverja það. Til þess þyrfti safnið á auka fjárveitingu að halda úr ríkissjóði. Það þarf að hafa hraðar hendur áður en flakinu verður spillt. Þessi aldni höfðingi í Þingvallavatni mun án efa gefa nýja og mun betri sýn á bátasmíðar hér á landi og Norðurlöndum á miðöldum, svo að til mikils er að vinna að ná flakinu upp sem fyrst og varðveita það.


Bátsflakið á 4 til 5 metra dýpi í Þingvallavatni.                                                         Skjáskot af ruv.is


Flakið í Þingvallavatni.                                                                                        Skjáskot af ruv.is


Flakið í Þingvallavatni.                                                                                        Skjáskot af ruv.is


Flakið í Þingvallavatni.                                                                                  (C) Erlendur Bogason.

          500 ára báts­flak finnst á botni                                Þing­valla­vatns
   Elsta báts­flak sem þekkt er hér á landi


Bát­ur sem fannst á botni Þing­valla­vatns í haust hef­ur verið ald­urs­greind­ur og er talið að hann sé frá 16. öld eða tæp­lega 500 ára gam­all. Er­lend­ur Boga­son, kafari og ljós­mynd­ari, fann bát­inn á 4-5 metra dýpi í Vatnsvik­inu þegar hann var að mynda fyr­ir Nátt­úru­m­inja­safn Íslands.
"Sam­kvæmt ald­urs­grein­ingu er um að ræða elsta báts­flak sem þekkt er hér á landi," seg­ir Hilm­ar J. Malmquist, for­stöðumaður Nátt­úru­m­inja­safns­ins. Miðað við 95% lík­ur er bát­ur­inn frá tíma­bil­inu 1482-1646 sam­kvæmt kol­efn­is­grein­ingu.
Bjarni F. Ein­ars­son forn­leifa­fræðing­ur hef­ur haft um­sjón með frum­at­hug­un á bátn­um, en fleiri sér­fræðing­ar og þjóðgarðsvörður á Þing­völl­um hafa komið að mál­inu. Til­skil­inna leyfa var aflað og bát­ur­inn myndaður í bak og fyr­ir. Hann verður fal­inn Þjóðminja­safni Íslands til vörslu og um­sjón­ar lög­um sam­kvæmt.
Í um­fjöll­un um skips­fund þenn­an í Morg­un­blaðinu í dag seg­ist Hilm­ar vona að unnt verði að leggja í kostnað sem því fylg­ir að ná bátn­um upp af botni vatns­ins og for­verja hann.
"Bát­ur­inn er mjög heil­leg­ur, um fimm metra lang­ur og hef­ur varðveist ótrú­lega vel í vatn­inu," seg­ir Hilm­ar. "Hann er að hluta hul­inn mó og við vit­um að land hef­ur sigið þarna, en bát­ur­inn fannst á dýpi sem stemm­ir við 4-5 metra sig frá land­námi. Fleiri hafa rek­ist á bát­inn af hend­ingu og á þess­um slóðum eru kafar­ar oft á ferð. Það er því brýnt að ná bátn­um upp og koma hon­um í rann­sókn og í vörslu áður en tjón verður. Það hvarflaði að okk­ur að þarna væri kuml, en svo er ekki. Þetta er eigi að síður mjög for­vitni­leg­ur fund­ur."

Mbl.is 8 desember 2018.


07.12.2018 18:29

992. Benedikt Sæmundsson GK 28. TFCK.

Vélbáturinn Benedikt Sæmundsson GK 28 var smíðaður í Skipasmíðastöðinni Bátalóni í Hafnarfirði árið 1965 fyrir Baldvin Njálsson og Svein R Björnsson í Garði. Eik. 36 brl. 200 ha. Scania díesel vél. Seldur 20 júlí 1969, Ingvari Hólmgeirssyni, Dagbjarti Sigtryggssyni og Herði Þórhallssyni á Húsavík, hét þá Svanur ÞH 100. Ný vél (1974) 250 ha. Cummins díesel vél. Seldur 25 maí 1977, Guðmundi A Hólmgeirssyni á Húsavík, hét Aron ÞH 105. Seldur 26 nóvember 1980, Þorsteini Svavarssyni í Hafnarfirði og Valdimar Halldórssyni í Garði, hét Fiskines GK 264. Seldur 6 október 1981, Þorsteini Svavarssyni og Útvík hf í Hafnarfirði, sama nafn og númer. Seldur 23 júlí 1984, Hvítafelli hf á Bakkafirði, hét þá Byr NS 192. Seldur 25 júní 1985, Byr hf á Ólafsfirði, hét Byr ÓF 58. Ný vél (1985) 253 ha. Caterpillar díesel vél, 175 Kw. Seldur 7 júní 1987, Finnboga V Jakobssyni í Bolungarvík, hét Jakob Valgeir ÍS 84. Seldur 9 júní 1994, Reyni Gunnarssyni á Þingeyri, hét þá Máni ÍS 54. Frá 15 október 1996 er báturinn skráður í Hafnarfirði sem Máni HF 54 vegna flutnings eiganda þangað. 27 maí 1997 er báturinn kominn með ÍS 54 skráninguna aftur. Seldur 1998, Útgerðarfélaginu Óson ehf á Höfn í Hornafirði, hét þá Jón forseti ÍS 108. Árið 2000 er báturinn kominn í eigu Samábyrgðarinnar hf í Reykjavík, heitir þá Jón forseti ÓF 4 og skráður með heimahöfn á Ólafsfirði. Seldur 2004, Kuldakletti ehf á Ísafirði, hét Jón forseti ÍS 85. Árið 2006 er skráður eigandi Byggðastofnun á Sauðárkróki. Árið 2007 er báturinn í eigu Ólafs Theódórs Ólafssonar í Reykjavík. Frá árinu 2009 heitir báturinn Jón forseti RE 300 og er skráður sem skemmtiskip. Báturinn var tekinn úr rekstri og afskráður 11 september árið 2012. "forsetinn" er búinn að liggja lengi við Verbúðarbryggjuna í vesturhöfn Reykjavíkurhafnar og liggur þar enn eftir því sem ég best veit.


Vélbáturinn Benedikt Sæmundsson GK 28 í prufusiglingu.                   Ljósmyndari óþekktur.


Bátnum hleypt af stokkunum hjá Bátalóni í Hafnarfirði.                                    (C) Alþýðublaðið.


Jón forseti RE 300 við Verbúðarbryggjuna.                       (C) Þórhallur S Gjöveraa. 1 september 2015.


"forsetinn við Verbúðarbryggjuna. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 1 september 2015.

           Nýjum báti var hleypt af                               stokkunum í gær

Í gær var hleypt af stokkunum nýjum báti hjá skipasmíðastöðinni Bátalón í Hafnarfirði. Báturinn, sem hlaut nafnið Benedikt Sæmundsson, er 35 lestir að stærð og er stærsti báturinn, sem Bátalón hefur smíðað. Þorbergur Ólafsson framkvæmdastjóri Bátalóns skýrði blaðinu svo frá í gær, að tvö ár væru liðin síðan smíði bátsins hófst, en verkið hefur að nokkru leyti verið ígripavinna þegar önnur verkefni hafa ekki legið fyrir, og auk þess hefur rekstrarfjárskortur tafið smíðina nokkuð. Þetta er stærsti báturinn sem Bátalón hefur smíðað, en hann er sem fyrr segir rúmlega 35 lestir að stærð. Smíðanúmer bátsins er 345, og er þá talið frá einum.
Benedikt Sæmundsson GK 28 er eign hlutafélagsins BEN h.f. í Garðinum, og skipstjóri á honum verður Sveinn R. Björnsson. Í bátnum er 205 hestafla Scania Vabis vél, radar af gerðinni Kelvin Hughes, Simrad dýptarmælir og miðunarstöð af gerðinni Autozonia. Njáll Benediktsson, einn af eigendum bátsins gaf honum nafn, en allmargt manna var viðstatt er báturinn hljóp af stokkunum. Báturinn er smíðaður samkvæmt teikningu Egils Þorfinnssonar skipasmíðameistara.

Alþýðublaðið. 27 október 1965.Flettingar í dag: 268
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 693
Gestir í gær: 60
Samtals flettingar: 852326
Samtals gestir: 62761
Tölur uppfærðar: 18.6.2024 02:07:38