27.11.2022 09:00

258. Snæfugl SU 20. TFMQ.

Vélskipið Snæfugl SU 20 var smíðaður hjá Ankerlökken Verft A/S í Florö í Noregi árið 1964 fyrir samnefnt hlutafélag á Reyðarfirði. 252 brl. 660 ha. Lister vél. 33,83 x 7,22 x 3,54 m. Smíðanúmer 55. Bóas Jónsson var fyrsti skipstjóri á Snæfugli, mikil aflakló. Hann var jafnframt einn af eigendum skipsins. Snæfugl var alla tíð mikið afla og happaskip. Það var áhöfnin á Snæfugli sem bjargaði skipverjunum af Stíganda ÓF 25 eftir rúma 5 sólarhringa hrakninga á síldarmiðunum við Svalbarða í ágúst árið 1967 eftir að skip þeirra sökk. Þarna hefði getað farið mun verr en raunin varð. Í kjölfar þessa slyss var komið á fót tilkynningaskildu íslenskra skipa. Snæfugl var seldur til Suður-Afríku í október árið 1979.
 

Snæfugl SU 20 nýsmíðaður út í Noregi.                             (C) Anton Sævík.
                    Nýr fiskibátur til Reyðarfjarðar

Reyðarfirði. Þann 6. marz kom hingað nýr fiskibátur, Snæfugl SU 20, stálskip, 252 brúttólestir, smíðað í skipasmíðastöð Ankerlökken Verft. AS. í Florö í Norður-Noregi. Afhending fór fram í Florö hinn 25. febrúar sl. Skipið er búið öllum nýjustu siglingatækjum, þar á meðal 2 Astictækjum, sjálfvirku og handknúnu og Atlasfisksjá. Fram í eru ísgeymslulestar 25 cub.m og „stampa“- geymsla fyrir 60 stampa. Aftast í „keise“, undir bátapalli, er einangrað beituskýli. Eldhús-borðsalur af fullkomnustu gerð. Matsalur er stjórnborðsmegin við hliðina á eldhúsi. Er þessi tenging á eldhúsi, borðsal, íbúð skipstjóra, inngangi í vél og íbúðir aftur á og inn gang í beituskýli og kæli og frystiklefa, nýtt fyrirkomulag, sérlega smekklegt og hentugt og sérstaklega útbúið með hliðsjón af útilegu á línuvertíð. Bóas Jónsson, skipstjóri, hefur sett metnað sinn í, og til þess notfært ér áralanga reynslu, að láta útbúa þessa tengingu sem þægilegt heimili fyrir skipverja og mun þetta fyrirkomulag lítt eða ekki þekkt hér fyrr.
Kortaklefi er mjög rúmgóður með sendistöðvum fyrir stutt- og langbylgju 66 sendirásir. Kortaborð með færanlegum kortum og plastrúðu sem hægt er að mæla út á og merkja án þess að skemma kortin. Þar er og skrifborð og fleiri þægindi. Allir innviðir í skipinu eru úr „póleruðum“ harðviði, forkunnar vel gerðir og þægindi mikil. Rými er fyrir 15—16 manns, en skipverjar verða 12—13. Fram í eru 4 tveggja manna klefar, en aftur í 2 tveggja manna klefar og 2 eins manns. Vökvaspil af Norvinsgerð fyrir 10 tonn. Vélar eru: aðalvél Lister- diesel 660 ha. og tvær hjálparvélar, Lister 62 ha. hvor. Ganghraði í reynsluför var 11 mílur. Frá Florö til Reyðarfjarðar tók siglingin 55 klst. og í blíðskiparveðri alla leið. Eigandi hins nýja Snæfugls SU 20 er útgerðarfélagið Snæfugl hf. sem stofnað var 17. júlí 1944, er þetta annað skipið sem félagið eignast. Hitt var Svíþjóðarbátur, 76 lestir, Snæfugl sá, er sökk á síldveiðum í fyrra, mikil happafleita og útgerð vel rekin af dugmiklum skipstjóra og samhentri skipshöfn.
Þessu nýja skipi Reyðfirðinga er, eins og hinu fyrra, stjórnað af hinum ágæta skipstjóra, Bóasi Jónssyni, en hann hefur alið upp allstóra sjómannastétt hér á Reyðarfirði og alltaf farnast vel. Fjölmenni var á hafnarbryggjunni þegar Bóas sigldi skipi sínu í höfn og fagnaði skipi og skipshöfn. Oddviti og formaður útgerðarfélagsins fluttu ræður og skipstjóri svaraði af stjórnpalli. Skipið er gert út á þorskveiðar með net og mun leggja upp í heimahöfn. Reyðfirðingar eiga nú tvö glæsileg fiskiskip, Gunnar SU 139, 250 tonna stálskip og Snæfugl SU 20, 252 tonn. Austri býður Snæfugl SU 20 velkominn í austfirzka flotann.

Austri. 6 tbl. 14 apríl 1964.
 

Snæfugl SU 20 við bryggju á Reyðarfirði árið 1969.  (C) Vilborg Harðardóttir.
 
Snæfugl SU 20 í Reykjavíkurhöfn í október 1979. Mynd úr Þjóðviljanum.                      Snæfugl seldur til Suður-Afríku

Snæfugl SU 20, sem er 250 lesta stálbátur frá Reyðarfirði hefur verið seldur til S-Afríku fyrir sem nemur 150 millj. íslenskra króna og er kaupverðið greitt út í hönd. Snæfugl var smíðaður í Noregi árið 1964. Hallgrímur Jónasson útgerðarstjóri skipsins sagði í viðtalið við Þjóðviljann að einungis væri eftir að ganga frá nokkrum formsatriðum við kaupandann sem er staddur hér á landi. Ástæðan fyrir því að maður kemur frá S-Afriku til að kaupa skip á Íslandi er fyrst og fremst sú að skipið er ódýrara en sambærileg skip annarsstaðar.
En það munar mestu að skipið er greitt út í hönd, í stað þess að ef það hefði verið selt hér innanlands hefði útborgun verið 15 til 20 millj. kr. en afgangurinn skuldabréf sem engin leið væri að koma í peninga. Hallgrimur sagði að þeir Reyðfirðingar væru með þær hugmyndir að fá skuttogara í staðinn en sá róður væri þungur um þessar mundir og óvist um leikslok. Um þann möguleika að láta byggja skip hér innanlands sagði Hallgrimur að vaxtapólitikin væri þannig að slíkt skip myndi ekki einu sinni afla fyrir vaxtagreiðslum, hvað þá meiru.

Þjóðviljinn. 24 október 1979.

20.11.2022 12:36

1114. Goðafoss IV TFMA.

Flutningaskipið Goðafoss IV var smíðaður hjá Aalborg Værft A/S í Álaborg í Danmörku árið 1970 fyrir h/f Eimskipafélag Íslands. 2.953 brl. 2.860 ha. B & W vél, 2.061 Kw. 95,55 x 14,33 x 7,59 m. Smíðanúmer 184. Skipinu var hleypt af stokkunum 27 febrúar 1970 og síðan afhent eigendum sínum í júlí sama ár. Goðafoss var aðallega í flutningum með frystan fisk til Bandaríkjanna, Múrmansk í Rússlandi, Eystrasaltshafna og annarra hafna í Evrópu. Árið 1984 var lestum Goðafoss breytt til brettaflutninga og einnig komið fyrir lyfturum sem gátu staflað brettunum upp. Þótti það mikil framför og hagræðing við vinnu í lestum skipsins. Goðafoss var seldur til Antiqua í Karíbahafinu 20 september árið 1989, hét þá Atlantic Frost. Selt 1991, Admiral shipping Ltd á Antiqua & Barbuda, einnig í Karíbahafinu, hét þá Sea Reefer. Skipið strandaði 20 ágúst 1992 við Peterhead í Skotlandi. Áhöfninni var bjargað en skipið talið ónýtt og mun hafa verið rifið niður á strandstað.
Goðafoss átti tvö systurskip, þau voru Dettifoss lll og Mánafoss ll.
 

Goðafoss IV á siglingu.                                   Málverk eftir I.S.A. frá árinu 1984.
                                     Goðafoss kom í gær

Goðafoss, fyrsta skipið af þremur, sem undanfarið hafa verið í smíðum hjá Álborg Værft AS í Álaborg, fyrir Eimskipafélag Íslands, kom til Reykjavíkur í morgun. Skipið er smíðað samkvæmt strögustu kröfum Lloyd's Register of Shipping og styrkt til siglinga í ís. Það er úr stali með tveimur þilförum, sem ná eftir því endilöngu. Miðað er við, að nota megi skipið, hvort heldur sem er opið eða lokað hlífðarþilfarsskip. Skipstjóri á Goðafossi er Magnús Þorsteinsson; yfirvélstjóri Árni Beck. 1. styrimaður Björn Kjaran, 2 vélstjóri Kristján Wendel, loftskeytamaður Bogi V. Þórðarson og bryti Einar Sigurðsson. Yfirfbygging skipsins er aftast, en framan við hana eru tvær vörulestar. Þær eru einangraðar til flutninga á frystivörum, og rúmmál þeirra samtals um 150 þús. teningsfet. Lestaropin eru tvö, hvort 6 m. á breidd og 17 m. á lengd. Lestarnar eru einangraðar með glerull, klæddar innan með alumíníum og trélistum. Kælivélarnar eru frá Salbroe í Árósum og geta haldið 25°C frosti í lestunum, þótt sjávarhiti sé 32°C og loftihiti 35°C. Hitastilling er sjálfvirk og má fylgjast með henni á hitamælum á stjórnpalli og í vélarrúmi. Á skipinu eru þrír vökvadrifnir kranar, tveir miðskipa og einn aftan við aftari, lúguna. Hver krani getur lyft 5 tonna þunga. Kranana tvo, sem eru miðskipa, má tengja saman og getur þá einn maður stjórnað þeim báðum. Þeir geta sameiginlega lyft 10 tonna þunga. Einnig er hægt að nota 30 tonna lyftiás (þungabómu) með krönunum tveimur og getur þessi samstæða þá lyft sameiginlega 40 tonna þunga. Kranarnir þrír geta sameiginlega lyft 15 tonna þunga. Skipið er búið tveimur lyftiásum fyrir 5 tonna þunga og einum 30 tonna lyftiási.
Aflvél skipsins er smíðuð hjá Burmeister & Wain, og er 5 strokka tvígengis Diesel-hreyfill, 2860 hestöfl. Má gera ráð fyrir 14 sjómílna ganghraða þegar skipið er fullhlaðið. Það er athyglisverð nýjung, að aðalvél skipsins er stjórnað frá brúnni. Þar er stórt stjórnborð útbúið fullkomnum tækjum til þess að stjórna vélinni. Er Goðafoss fyrsta islenzka skipið, sem hefur skírteini til að mega sigla um lengri eða skemmri tíma án þess að vakt sé í vélarrúmi. Þessu fylgir, að sjálfvirkni er á öllu, sem að stjórn vélarinnar lýtur, og er sérstakur stjórnklefi í vélarrúminu með sjálfvirkum tækjum, sem senda aðvörunarmerki með ljósi eða hljóðmerki upp í brúna, í setustofurnar, matsalina, herbergi vélstjóra og í vélarrúminu, ef eitthvað bregður út af. Hjálparvélar eru 3, einnig af Burmeister & Wain gerð og smíðaðar þar. Þær eru hver 375 hestöfl, tengdar 325 KVA rafli, sem framleiðir 380 volta riðstraum. Skipverjar eru 22 og búa allir í eins manns herbergjum. Veggir í íbúðarherbergjunum og setustofum era klæddir með þiljum úr óeldfimu plasti. Sömuleiðis em húsgögn gerð úr efnum, sem ekki geta brunnið. Upphitun og loftræsting í skipinu er með svonefndu GW- kerfi. Af siglingatækjum má nefna ratsjá, Gyro-áttavita með þremur álestrarskífum, sjálfstýritæki, bergmálsdýptarmæli, og kerfi til að vekja skipverja á vaktaskiptum. Loftskeytastöðin er smíðuð hjá M.P. Pedersen í Kaupmannahöfn. Tveir björgunarbátar úr plasti eru á skipinu, sem hvor um sig rúmar 36 manns, og er annar þeirra vélknúinn. Auk þess er skipið búið tveimur 20 manna gúmmíbátum.

Tíminn. 16 júlí 1970.
 

Goðafoss IV nýsmíðaður út í Álaborg sumarið 1970.         Mynd í minni eigu.             Sea Reefer, áður Goðafoss strandar

Flutningaskipið Sea Reefer, sem hét áður Goðafoss strandaði nýlega rétt fyrir utan höfnina í Peterhead í Skotlandi, þar sem það hafði tekið frystan fisk. Í áhöfninni voru 22 Egyptar og tókst að bjarga þeim öllum en talið er að ekki verði hægt að bjarga skipinu, sem er 2.800 tonn að stærð. Goðafoss var smíðaður í Danmörku fyrir Eimskip 1970 og var í eigu félagsins til 1990, þegar skipið var selt Egypta, en það var skráð í Antigua.

Morgunblaðið. 14 október 1992.

19.11.2022 09:13

42. Eldey KE 37. TFAZ.

Vélskipið Eldey KE 37 var smíðað hjá Bolsönes Verft A.S. í Molde í Noregi árið 1960 fyrir samnefnt hlutafélag í Keflavík. 139 brl. 300 ha. Wichmann vél. 25,77 x 6,71 x 3,13 m. Skipið sökk um 70 sjómílur suðaustur af Dalatanga (Rauðatorginu) 23 október árið 1965. Voru skipverjar þá að háfa úr nótinni er hvika skellti því á hliðina með fyrrgreindum afleiðingum. Áhöfnin, 12 menn, komust í gúmmíbjörgunarbát og var bjargað um borð í Brimi KE 104 frá Keflavík sem fór svo með þá inn til Neskaupstaðar.
 

Síldveiðiskipið Eldey KE 37.                               (C) Snorri Snorrason.

 

                                        Glæsilegasta skipið

Að morgni þess 8. desember s. l. kom til Keflavíkur nýr og glæsilegur stálbátur, 150 smálestir, með 300 hestafla Vichmann dieselvél. Ganghraði 10 mílur á klst. Báturinn heitir Eldey KE 37 og er smíðaður í Bolsones Verft í Molde í Noregi. Er hann allur hinn vandaðasti, hvar sem á er litið, tæki öll af nýjustu og beztu gerð, og allt fyrirkomulag innan borðs miðað við sem fullkomnasta nýtingu á rými skipsins og reynslu og hagsýni gætt í hvívetna, án þess þó að nokkuð það sé til sparað, sem til nauðsynja og öryggis má telja. Í skipinu er 48 mílna Decca ratsjá, japönsk ljósmiðunarstöð, sem er nýtt tæki og mjög fullkomið, sjálfleitandi Asdic síldarleitartæki, dýptarmælir með Asdic útfærslu af Simrad-gerð, sjálfvirkur stýrisútbúnaður í beinu sambandi við áttavitann og Simrad talstöð. Vistlegt eldhús er aftur í á skipinu,. Er það með nýtízkulegum og handhægum búnaði. Aftan við það, með „lúgu“ á milli, er rúmgóður borðsalur fyrir 12 menn, en til hliðar bakborðsmegin við eldhúsið er beitningaskýlið fyrir 6 menn, og er opanlegur gluggi á milli, þar sem hægt er að rétta kaffi inn til beitningamannanna og losa þá þannig við óþarfa snúning.
Eldhúsinu fylgir góður kæliklefi. Í skipinu eru tvær lestar, sú aftari er hin venjulega fiskilest og tekur hún um 100 tonn. Fremri lestin er frystilest, sem rúmar um 20 tonn af freðfiski. Kælivél skipsins, sem er mjög vönduð, frystir allt upp í 25 gráðu frost. Tvöfalt rafkerfi er í skipinu, 24 volta spenna, sem gefur straum á flest tæki í bátnum og ljós um hann allan. Er hentugt að skipta yfir á þetta kerfi, þegar legið er í höfn, einnig þegar skipið er á siglingu, og svo er það einnig til hins mesta öryggis. Undir stjórnpalli er vistlegt og rúmgott herbergi skipstjóra, en kortaklefi aftur af stýrishúsinu. Aftur í, undir þiljum, eru tvö rúmgóð tveggja manna herbergi, annað fyrir stýrimann og matsvein, en hitt fyrir vélstjórana. Frammi í, undir hvalbak skipsins, eru tveir þriggja manna klefar og einn tveggja manna. Fylgja öllum þessum íbúðarherbergjum hverskonar þægindi, og geta má þess ennfremur, að í skipinu er þægilegt bað. Eldey er útbúin með kraftblökk fyrir hringnót og allt sem henni tilheyrir. Er í ráði, að báturinn stundi útilegu með línu framan af vertíð, en fari síðan á net. Eigandi skipsins er hlutafélagið Eldey, Keflavík.

Faxi. 1 janúar 1961.
 

Eldey KE 37. Líkan Gríms Karlssonar.         
 
Eldey KE 37. Líkan Gríms Karlssonar.
 
Eldey KE 37. Líkan Gríms Karlssonar.
 
Eldey KE 37. Líkan Gríms Karlssonar.             Byggðasafn Reykjanesbæjar.

 

                      Síldarskipið Eldey sökk í fyrrinótt

Síldarskipið Eldey KE 37 sökk í fyrrinótt á síldarmiðunum um 60 mílur suðaustur af Dalatanga og bjargaðist skipshöfnin um borð í síldarskipið Brimi KE 104, það hét áður Hólmanes frá Eskifirði. Mörg síldarskip voru á þessum slóðum í fyrrakvöld og var þar leiðindaveður. Um klukkan 21 fékk Eldey á sig kviku og lagðist þá skipið á hliðina, var þá langt komið að háfa síld í lestar skipsins. Skipshöfnin brá þegar við og fór í gúmbjörgunarbáta og var bjargað um borð í Brimi. Þrír skipverjar fóru aftur um borð í Eldey og dvöldu þar á þriðju klukkustund til þess að freista þess að rétta skipið aftur á kjöl og tókst það ekki og urðu þeir að hverfa frá borði rétt áður en skipið sökk. Skipið sökk um kl. 2.20 um nóttina. Skipstjóri á Eldey heitir Pétur Sæmundsson og var þetta eitt af aflahæstu síldveiðiskipum flotans. Eldey var 5 ára gamalt stálskip, byggt í Molde í Noregi 1960, og var 139 lestir að stærð. Eigandi þess var Eldey h.f. í Keflavík. Brimir fór með skipbrotsmennina til Neskaupstaðar og þar stigu þeir beint upp í flugvél Flugsýn og flugu til Reykjavíkur. Komu þeir þangað síðdegis í gær. Þá lagðist annað síldveiðiskip á hliðina um líkt leyti á sömu slóðum. Það heitir Pétur Sigurðsson og er af líkri stærð og Eldey, einnig aflasælt skip og tókst skipverjum að rétta skipið aftur og kom það heilu og höldnu til Seyðisfjarðar í gærmorgun.

Þjóðviljinn 24 október 1965.

12.11.2022 16:47

5554. Sigurgarður NK 43.

Vélbáturinn Sigurgarður NK 43 var smíðaður af Baldri Halldórssyni að Hlíðarenda á Akureyri árið 1966. 3,36 brl. 20 ha. Bukh vél. 7,32 x 2,47 x 1,04 m. Hét fyrst Gullberg EA 200 og var smíðaður fyrir Birgi Þórhallsson á Akureyri. Seldur 18 maí 1967, Reimari Þorleifssyni og Rúnari Þorleifssyni á Dalvík, hét Gullberg EA 475. Seldur 7 júlí 1972, Högna Jónassyni í Neskaupstað, hét þá Sigurgarður NK 43. Seldur 13 júní 1978, Sigurði Finnbogasyni á Seyðisfirði, hét Blíðfari NS 6. Seldur 29 apríl 1982, Jóhanni Frímanni Valgarðssyni í Reykjavík og Vilmundi S Þorgrímssyni á Seyðisfirði, hét Frímann NS 6. Seldur 27 apríl 1984, Sæmundi Ingólfssyni á Seyðisfirði, hét Diddi NS 6. Ný vél (1984) 14 ha. Sabb vél. Seldur 27 mars 1985, Kristjáni Þorkelssyni Eiðshúsi á Hellissandi, hét Diddi SH 256. Seldur / maí 1986, Trausta Aðalsteinssyni og Skúla T Haraldssyni á Patreksfirði, hét Kópur BA 101. Ný vél (1989) 33 ha. Volvo Penta vél. Seldur 18 júní 1992, Einari Gylfasyni á Akureyri, hét Kópur EA 901. Seldur 1 júní 1994, Jörundi Guðmundssyni í vogum, Árna Ingvasyni í Kópavogi og Albert Finnbogasyni í Mosfellsbæ, sama nafn og númer.Tekinn af Íslenskri skipaskrá 23 desember árið 1998. Mun þá hafa heitið Saxi.
 

Sigurgarður NK 43 að leggjast við bæjarbryggjuna í Neskaupstað, sennilega árið 1972. Högni skipstjóri aftan við stýrishúsið. Hann var á togaranum Goðanesi NK 105 þegar hann fórst í mynni Skálafjarðar í Færeyjum 2 janúar 1957. Högni fórst í snjóflóðunum í Neskaupstað 20 desember 1974. Hann var þá við vinnu sína í loðnuverksmiðju SVN. Strákurinn frammi á bakkanum er Pétur Hafsteinn Högnason. Pétur var skírður í höfuðið á Pétri Hafsteini Sigurðssyni skipstjóra Goðaness sem fórst með skipi sínu.  (C) Jóna Rebekka Högnadóttir.

06.11.2022 09:24

1270. Bjarni Benediktsson RE 210. TFAH.

Skuttogarinn Bjarni Benediktsson RE 210 var smíðaður hjá Skipasmíðastöðinni Astilleros Luzuriaga S.A. í Pasajes de San Juan á Spáni árið 1972 fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur h/f. 969 brl. 2 x 1.410 ha. MAN Bazan vélar, 1.037 Kw hvor. 68,66 x 11,60 x 6,80 m. Smíðanúmer 111. Kom til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur í fyrsta sinn hinn 10 janúar árið 1973. Fyrsti skipstjóri á Bjarna var Sigurjón Stefánsson. Selt 1984, Merkúr hf í Reykjavík, hét þá Merkúr RE 800. Togaranum var breytt í frystiskip í skipasmíðastöð í Bremerhaven í Þýskalandi árið 1985 en verkið var svo klárað hjá Brattvåg Skipsinnredning A.S. í Brattvåg í Noregi haustið 1986. Sama ár var skipið komið í eigu Ríkisábyrgðasjóðs, sama nafn og númer. Skipið var svo selt 18 september 1986, Sæbergi h/f á Ólafsfirði, fékk nafnið Mánaberg ÓF 42. Togarinn var gerður út af Ramma h/f á Siglufirði en heimahöfn þess var Ólafsfjörður. Frá árinu 1997 til 2007 var það gert út af Þormóði ramma-Sæbergi hf á Siglufirði. Togarinn var seldur til Murmansk í Rússlandi í mars árið 2017. Hann var í eigu Ramma hf á Siglufirði síðustu árin.
 

1270. Bjarni Benediktsson RE 210.                         Ljósmynd í minni eigu.

 

                          Stærsti skuttogarinn kominn
Sigurjón Stefánsson skiptir um skip eftir 20 ár

Margt manna fagnaði komu hins nýja skuttogara Bæjarútgerðar Reykjavíkur, Bjarna Benediktssonar RE 210, er skipið lagðist að Ægisgarði á fimmta tímanum i gær, eftir rúmlega fimm sólarhringa siglingu frá skipasmiðastöðinni í Pasajes á Spáni. Bjarni Benediktsson er stærsti togari, sem smíðaður hefur verið fyrir Íslendinga, 970 brúttólestir að stærð og 68 metra langur. Skipstjóri á skipinu er Sigurjón Stefánsson, sem síðastliðin tuttugu ár hefur verið skipstjóri á elzta togara B.Ú.R. Ingólfi Arnarsyni. Við heimkomuna í gær sagði Sigurjón, að þeir hefðu fengið gott veður á heimsiglingu, og af stuttum kynnum af skipinu, kynni hann vel við það. Hann sagði einnig, að það væru mikil viðbrigði að koma yfir á þetta nýja skip eftir að hafa verið með sama skipið í tuttugu ár og að sjálfsögðu tæki það sinn tíma að venjast því. Sigurjón sagði, að farið yrði í fyrstu veiðiferðina svo fljótt sem unnt væri, en einhver bið verður á því, þar sem eftir á að ganga frá veiðarfærum um borð í skipinu, og allt er í óvissu um samninga undirmanna á togurum. Búizt er við að 26 manna áhöfn verði á Bjarna Benediktssyni, en á heimsiglingu voru 16 menn um borð. Sigurjón sagði, að hann væri ánægður með allan frágang á skipinu og íbúðir eru allar mjög rúmgóðar. Klefar í skipinu eru eins og tveggja manna, nema einn, sem er sex manna og vart verður notaður nema í einstaka tilfellum.
Þegar Sigurjón var spurður um álit á rekstrarafkomu skipsins sagði hann, að hann vildi, sem minnst hugsa út í reksturinn, því ekki væri útlit fyrir að skip sem þetta gæti borið sig. 1. stýrimaður á Bjarna Benediktssyni verður Grímur Jónsson, en hann var áður á Ingólfi Arnarsyni með Sigurjóni, og reyndar er Grímur búinn að vera skipsmaður á Ingólfi allt frá því að skipið kom til landsins 1947, eða í 26 ár. 1. vélstjóri verður Þórður Guðlaugsson, en hann var áður á Þormóði goða. Bjarni Benediktsson er búinn fullkomnustu siglinga- og fiskileitartækjum. Aðalvélar skipsins eru tvær 1.400 hestafla MAN, og í reynslusiglingu reyndist gangur skipsins tæpar 16 sjómílur. Á heimleið vildi það óhapp til, að gangráður við aðra vél skipsins bilaði og við það seinkaði heimkomunni lítillega. Þorsteinn Arnalds, forstjóri, Bæjarútgerðar Reykjavíkur sagði við komu skipsins, að kaupverð skipsins yrði hátt í tvö hundruð milljónir, þegar það yrði tilbúið á veiðar. Sagði hann, að skipið hefði átt að afhendast á síðasta ári, en ýmislegt hefði tafið afhendingu skipsins. Um rekstrarafkomuna sagði Þorsteinn, að við lifðum í landi, sem lifði af sjávarafurðum, og þess vegna yrði að skapa fiskiskipaflotanum rekstrarafkomu, annars væri voðinn vís.

Tíminn. 17 janúar 1973.
 

Bjarni Benediktsson RE 210 við komuna til Reykjavíkur í janúar 1973.
 
Bjarni Benediktsson RE 210. Teikning Páls Ragnarssonar frá árinu 1973.

 

                           Stjörnubróðir kaupir togara

Nú nýlega seldi Bæjarútgerð Reykjavíkur togarann Bjarna Benediktsson þeim Kristni S. Kristinssyni og Kristni Gunnarssyni, og hafa þeir ákveðið að nefna skipið Merkúr RE 800. Þeir félagar eru ekki með öllu ókunnir hér suður með sjó, því þeir hafa báðir starfað hjá Sjöstjörnunni, annar var meðeigandi og framkvæmdastjóri, en hinn skrifstofustjóri um tíma.

Víkurfréttir. 6 desember 1984.

                               Merkúr fluttur til Noregs

Nú um helgina verður togarinn Merkúr RE 800 fluttur frá skipasmíðastöð í Bremerhaven áleiðis til Brattvag í Noregi. Verið er að breyta Merkúr í alhliða frystitogara og verður þessu verki lokið í Noregi. Að sögn Kristins Kristinssonar hjá Merkúr RE 800 hf. útgerðarfyrirtæki togarans, gekk upphaflega fjármögnunardæmið ekki upp og eftir rækilega skoðun var ákveðið að flytja seinni verkþáttinn frá Þýskalandi til Noregs. Búið er að rífa allt innan úr togaranum og er hann því tilbúinn fyrir niðursetningu frystibúnaðar. Verkinu í Noregi á að ljúka um miðjan nóvember og verður Merkúr þá útbúinn sem alhliða frystitogari með möguleika á heilfrystingu og flökun og flakafrystingu, sem og rækjufrystingu. Merkúr hét áður Bjami Benediktsson og var í eigu BÚR.

Fiskifréttir. 6 september 1985.

 

1270. Bjarni Benediktsson RE 210 við komuna til Reykjavíkur í janúar 1973.                     Ríkisábyrgðasjóður á nú Merkúr 

Frystitogarinn Merkúr RE verður boðinn hæstbjóðendum til sölu á haustmánuðum. Þetta er ljóst eftir að ríkisábyrgðarsjóður keypti Merkúr af samnefndu hlutafélagi á rúmar 100 millj. króna og samið var við skipasmíðastöðina í Brattvaag í Noregi að halda áfram breytingum á togaranum. Áður hafði Merkúr verið kyrrsettur í Noregi vegna vanskila og vanefnda eigendanna. Gengið var frá kaupunum um sl. helgi og gerðust kaupin þannig að sjóðurinn tók Merkúr upp í skuld. Er Fiskifréttir ræddu við Harald Andrésson, forstjóra ríkisábyrgðarsjóðs í vikubyrjun var Ijóst að vilji var fyrir því að ljúka við breytingarnar á togaranum og sagði Harald að togarinn yrði seldur hér heima að þeim loknum. Fulltrúar ríkisábyrgðarsjóðs og fjármálaráðuneytis áttu viðræðufund með Sönderland, forstjóra skipasmíðastöðvarinnar í Brattvaag og fulltrúum hans í Osló sl. þriðjudag og þá tókust samningar um að stöðin héldi verkinu áfram eins og samið var um í upphafi.
Fiskifréttir náðu tali af Sigurði Þórðarsyni, deildarstjóra í fjármálaráðuneytinu eftir fundinn og sagði hann að Norðmennirnir hefðu samþykkt að falla frá öllum viðbótarkröfum, gegn því að verkinu yrði haldið áfram. Búið var að rífa allt innan úr togaranum og honum verður nú breytt í fullbúinn frystitogara fyrir u.þ.b. 29 milljónir norskra króna eða sem svarar um 158 milljónum ísl. kr. Að sögn Sigurðar á þá eftir að reikna til frádráttar, vaxtaafslátt sem Norðmenn gefa vegna skipasmíða. Breytingum á Merkúr á að vera lokið í september nk. og þá verður togarinn auglýstur til sölu hér á landi og hann síðan seldur hæstbjóðenda. Merkúr hét áður Bjarni Benediktsson og var í eigu Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Hann var seldur í nóvember 1984. — Við höfum allt okkar á þurru, sagði Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Granda hf. er Fiskifréttir spurðu hann hvaða áhrif Merkúr-málið hefði fyrir fyrirtækið.
Að sögn Brynjólfs var söluverð Bjarna Benediktssonar 77 millj. kr. og þar af námu skuldir um 66 millj. kr. Aðalskuldin var við Ríkisábyrgðarsjóð og var fullt samþykki fyrir því að veðið flyttist yfir til hinna nýju eigenda. Við höfum fullt veð fyrir mismuninum í húseign í Þorlákshöfn og jörð í Mosfellssveit, sagði Brynjólfur Bjarnason.

Fiskifréttir. 16 maí 1986.

 

Mánaberg ÓF 42 í Reykjavíkurhöfn.                (C) Þórhallur S Gjöveraa.

 

                             Sæberg keypti Merkúr

Fyrirtækið Sæberg í Ólafsfirði hefur keypt togarann Merkúr af Ríkisábyrgðasjóði og er kaupverð skipsins 281 milljón króna og helmingur þess greiðist við útborgun. Merkúr er um 1000 tonn að stærð og hét áður Bjarni Benediktsson er skipið var gert út frá Reykjavík. Nú er skipið í Noregi þar sem verið er að breyta því í frystiskip en það mun væntanlegt til landsins um næstu áramót. Sæberg átti fjórða hæsta tilboðið í skipið á sínum tíma. Þeir sem stóðu að tveimur þeirra tilboða er hærri voru réðu ekki við skilmála seljenda um helmingsútborgun og einn dró tilboð sitt til baka.

Dagur. 19 september 1986.

 

Mánaberg ÓF 42 við bryggju á Siglufirði.           (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

 

                         Merkúr kemur í lok febrúar

Togarinn Merkúr sem Sæberg hf. á Ólafsfirði keypti í haust er nú í Brattvog í Noregi þar sem unnið er að miklum breytingum á skipinu. Auk þess sem verið er að breyta togaranum í frystitogara þá verða gerðar á honum ýmsar endurbætur sem fyrirsjáanlegt var að þyrfti að gera fljótlega. Breytingar þessar hófust áður en Sæberg hf. keypti skipið en það var fyrir um einum og hálfum mánuði. Meðan verið var að semja um kaup lá verkið niðri. Að sögn Jóns Þorvaldssonar eins eigenda Sæbergs hf. þá er ekki fyllilega ljóst enn hvenær skipið verður til en það verður þó aldrei fyrr en seinni partinn í febrúar. Fyrri eigandi var búinn að gera samning við skipasmíðastöðina og samkvæmt honum átti skipið að afhendast um miðjan janúar. Þeir hjá Sæbergi bættu hins vegar ýmsum breytingum við þannig að þessi tími lengist eitthvað. Sandburður í höfninni á Ólafsfirði hefur valdið nokkrum vandræðum að undanförnu og hafa stærri skip jafnvel þurft að sæta lagi til að komast þar út og inn. Aðspurður sagði Jón að vissulega mætti búast við einhverjum vandræðum hjá Merkúr einnig. Skipstjóri á Merkúr verður Björn Kjartansson sem áður var skipstjóri á Sólberginu sem Sæberg gerir út. Ekki hefur enn verið ráðin áhöfn á skipið að öðru leyti. Afli Merkúrs verður allur unninn um borð en ekki hefur verið gengið frá samningum um sölu ennþá. Sólbergið hefur að undanförnu verið í klössun í Þýskalandi og að sögn Jóns er skipið væntanlegt nú um helgina.

Dagur. 13 nóvember 1986.

 

Mánaberg ÓF 42. Líkan Elvars Þórs Antonssonar.  (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

 

                          Mánaberg ÓF komið heim

Hinn glæsilegi frystitogari, Mánaberg ÓF, kom í fyrsta sinn til heimahafnar á Ólafsfirði um sl. helgi, en sem kunnugt er, hefur togarinn verið í umfangsmiklum breytingum í Brattvaag í Noregi. Mánaberg ÓF sem áður hét Merkúr er einn stærsti togari flotans, 946 brúttórúmlestir að stærð og hefur því heldur mælst niður við breytingarnar, því Merkúr var skráður 969 lestir. Útgerðarfélagið Sæberg hf. á Ólafsfirði gerir skipið út en það á fyrir Sólberg ÓF. Að sögn skipstjórans, Björns Kjartanssonar, sem áður var með Sólbergið, gekk heimsiglingin frá Noregi mjög vel, þrátt fyrir að skipið hreppti versta veður. Þessir Spánartogarar eru fyrir löngu búnir að sanna sjóhæfni sína, þannig að þetta kom okkur ekkert á óvart, sagði Björn í samtali við Fiskifréttir. Breytingin á Mánabergi úr ísfisktogara í frystitogara, hefur að sögn kunnugra tekist mjög vel og er togarinn nú ákaflega vel útbúinn til veiða og vinnslu. Mjög margt hefur verið endurnýjað frá grunni en auk þess hefur verið haldið í eldri vélar og tæki sem voru í fullkomnu lagi. Þannig eru báðar Man- aðalvélarnar enn í fullu gildi, samtals um 2600 hestöfl. Keyptar voru tvær nýjar hjálparvélar, Deutz og lítil hafnarvél frá Caterpillar. Skrúfubúnaður er óbreyttur en búið er að setja Ulstein- skrúfuhring á skipið. Í vinnslurýminu eru fjórir láréttir plötufrystar frá Jackson og er afkastageta þeirra um 48 tonn af flökum á sólarhring. Lausfrystir er frá Carnitech og getur hann fryst um 500 kíló á klukkustund. Öll færibönd og vinnslulínur vegna rækjuvinnslu, eru frá Carnitech og sömu sögu er að segja um rækjuflokkunarvél og sjóðara. Tvær Pols- vogir eru í vinnslurýminu.
Varðandi bolfiskvinnsluna, má nefna að flökunarvélin er af gerðinni 189 frá Baader. Roðflettivél og afhreistrari eru frá sama framleiðanda og sömu sögu er að segja af tveim hausurum fyrir bolfisk og einum hausara fyrir karfa og grálúðu. Allt frá Baader og það er engu líkara en heilt frystihús hafi verið sett um borð. Mjög miklar endurbætur hafa verið gerðar á dekki. Nýr mjög fullkominn vindubúnaður var keyptur frá Hydraulic Brattvaag, en hann samanstendur af hvorki fleiri né færri en, fjórum grandaraspilum, fjórum gilsaspilum, tveim bobbingavindum, einni nettrommlu og tveim togvindum. Við þær er tengt auto troll frá Hydraulic Brattvaag, sem nefnist data syncro. Enn fremur hefur verið keyptur nýr dekkkrani. Í brúnni eru nú tvær Atlas fisksjár og dýptarmælar og að sögn Björns skipsstjóra er önnur fisksjáin sérstaklega gerð fyrir flottroll. Eldri JRC fisksjá er einnig í skipinu. Höfuðlínumælir og radar eru frá Furuno en aflamælirinn er frá Scanmar. Þá eru í Mánaberginu tveir JRC lóranar, plotter og radar, auk staðsetningatækis sem tekur við boðum frá gervitunglum og veðurkortaritari, sem kemur sér vel í verkfalli veðurfræðinga. Fjarskiptatæki eru frá Sailor en sjálfstýring og gyrokompás frá Anschutz. Þá er einnig sjálfstýring frá R. Sigmundssyni hf. á segulkompásnum. Miðunarstöðvar eru af Tayio- gerð og kallkerfi er frá Vingtor. Mánabergið er 69.70 metrar á lengd og 11.60 metrar á breidd. Þrátt fyrir að mikið rými fari undir vinnslusal, er mjög góð aðstaða fyrir áhöfnina. Klefar eru eins og tveggja manna og rými fyrir 30 manns en í áhöfninni eru 26. Gufubað er í skipinu, nýinnréttaður borðsalur og setustofa. Full ástæða er til að óska Ólafsfirðingum til hamingju með þetta glæsilega skip sem vafalaust á eftir að verða mikil lyftistöng fyrir byggðarlagið. Skipstjóri er sem fyrr segir Björn Kjartansson, 1. stýrimaður er Jón Guðmundsson en yfirvélstjóri, Þórður Þórðarson.  

Fiskifréttir. 10 apríl 1987.

 

Mánaberg ÓF 42 á leið til Múrmansk í Rússlandi í mars 2017.  (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.                          Mánaberg selt til Rússlands 

Mánaberg ÓF 42, eitt skipa Ramma hf. í Fjallabyggð, hefur verið selt til Rússlands. Á hádegisflóðinu í gær var því siglt frá Ólafsfirði áleiðis til Murmansk með rússneskri áhöfn. Mánaberg ÓF 42 var smíðað á Spáni árið 1972 fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur. Sæberg hf. á Ólafsfirði keypti skipið árið 1986 og breytti því í frystitogara og hóf það veiðar undir merkjum þess fyrirtækis árið eftir. Mánaberg er mikið happafley og hefur ávallt verið með aflahæstu skipum. Á þeim þrjátíu árum sem það hefur verið í útgerð Sæbergs hf. (seinna Ramma hf.) er afli þess um 200 þúsund tonn.

Morgunblaðið. 18 mars 2017.
 

Bjarni Benediktsson RE 210 á heimleið frá Spáni í janúar 1973.   Mynd úr safni mínu.                        Bjarni Benediktsson RE 210

Hinn 10. janúar s.l. kom skuttogarinn Bjarni Benediktsson RE 210 til Reykjavíkur. Þetta skip er það fyrsta af sex systurskipum, sem samið hefur verið um að smíða hjá Skipasmíðastöðinni „Astilleros Luzuriaga S.A., Pasajes de San Juan" á Spáni. Eigandi Bjarna Benediktssonar er Bæjarútgerð Reykjavíkur, en Bæjarútgerðin mun fá tvö samskonar skip til viðbótar. Skipið er byggt eftir flokkunarreglum „Lloyd's Register of Shipping" og er styrkt með tilliti til siglinga í ís. Í skipinu eru 11 eins manns klefar, 7 tveggja manna klefar og einn sex manna klefi. Við venjulegar aðstæður verður sex manna klefinn ekki notaður, en í sérstökum tilfellum, t. d. ef veiða á í salt, er gert ráð fyrir að fjölga megi áhöfn. Skipið er búið tveimur aðalvélum, MAN, G8V 30/45 ATL og skilar hvor um sig 1410 hestöflum við 400 sn./mín. Niðurfærslugír er af gerðinni BREVO með niðurfærslu 2:1. Skipið er með 4ra blaða skiptiskrúfu af Escher Wyss gerð, sem stjórnað er eftir atvikum af stjórnpalli eða úr vélarúmi. Inn á gírinn tengjast tveir riðstraumsrafalar, sem hvor um sig er 475 KVA (380 kw), 3x380 V, 50 HZ. Sérstakur riðstraumsrafmótor (550 hö) knýr 350 kw, 440 V jafnstraumsrafal, sem sér rafmótor togvindunnar fyrir orku. Rafalar og rafmótorar eru af Indar-gerð. Hjálparvél er af gerðinni MAN R6V 16/18T, 225 hestöfl við 1000 sn./mín., sem knýr Indar riðstraumsrafal (170 KVA, 3x380 V, 50 HZ). Auk þess er lítil hjálparvél af Caterpillargerð, 67 hestöfl, 1500 sn./mín., sem knýr 56 KVA riðstraumsrafal. Ljósavél þessi er staðsett á millidekki í lokuðu rúmi. í skipinu er „hydroforkerfi" bæði fyrir sjó og fersk vatn og 300 ltr. kútur fyrir heitt vatn. Sérstakur ferskvatnseimir af Atlasgerð framleiðir 5 tonn á sólarhring og er varmi frá kælivatninu á aðalvélunum notaður til að eima sjóinn. Einnig er í vélarúmi sérstök skilvinda (lænsevands-seperator) til að skilja olíu úr vélarúmsausturnum. Þetta tæki er nauðsynlegt um borð í skipum og gefur auga leið að mengun frá skipum stórminnkar við tilkomu þess.
Skilvinda þessi er af gerðinni Akers og á að geta afkastað 10 t/klst. Dælur fyrir aðalvélar, ferskvatns-, sjó- og smurolíudælur, hafa allar varadælur. Skilvindur eru tvær, önnur fyrir smurolíu og hin fyrir gasolíu, og hafa þær sömu afköst. í stýrisvélarrúmi undir skutrennu er rafstýrð, vökvaknúin stýrisvél af gerðinni Brussel. Brú skipsins er mjög framarlega, hlutfallslega framar en á öðrum skuttogurum hér á landi, og fæst þar af leiðandi mjög langt togþilfar, eða um 40 m. langt frá efri brún skutrennu. Fyrirkomulag á togþilfari er þannig, að mögulegt er að hafa tvær vörpur undirslegnar og tilbúnar til veiða, en algengast er á skuttogurum að aðeins ein sé undirslegin. Rétt fyrir aftan lestarlúgurnar greinist vörpurennan í tvær minni rennur, sem liggja sitt hvorum megin við lúgurnar fram að grandaravindunum. Togvindan er af gerðinni Brussel KMC III/4. Vindan er drifin af Indar 440 hö, 440 V rafmótor. Meðaltogkraftur er um 14 tonn og vírahraði 120 m/ mín. Hvor tromla tekur um 1670 faðma af 3 1/2 tommu vír. Fyrir utan togtromlurnar eru 2 hífingartromlur og auk þess koppar á hvorum enda. Rétt fyrir aftan togvinduna eru tvær grandaravindur, bakborðs- og stjórnborðsmegin. Hvor vinda hefur 4 tromlur, 2 fyrir grandarana og 2 til að hífa fram bobbingana. Vindur þessar eru enn ókomnar, vegna þess að ekki var gert ráð fyrir þessum búnaði í upphafi, en gengið hefur verið frá undirstöðum og öllu öðru í sambandi við vindurnar. Vindurnar sem eru af Norwinch-gerð verða vökvadrifnar við lágan þrýsting (35 kg/cm^). 2 Allweiler-dælur, staðsettar á millidekki framan við lestalúgurnar, sjá grandaravindunum fyrir orku. Hvor dæla skilar 855 1/mín við 1000 sn./mín. Aftarlega á togþilfarinu, aftur undir skutrennu eru 2 vindur, stjórnborðs- og bakborðsmegin. Vindur þessar eru af Norwinch-gerð, lágþrýstar og á hvor um sig að skila 5 t átaki. Sjálfstætt dælukerfi er fyrir hvora vindu og er það staðsett í netageymslum sitt hvorum megin við skutrennu á millidekki. Vindurnar eru notaðar m . a . til að losa úr pokanum, hífa vörpuna aftur, Þegar kastað er o. fl. Á tvöfalda mastrinu eru tvær bómur, sem notaðar eru til að forfæra t. d. hlera og annað. Á hvalbak er vökvadrifin akkerisvinda af Norwinch-gerð drifin af sjálfstæðu dælukerfi. Á palli yfir skutrennu er litil vinda fyrir kapal til höfuðlínumælis, og er vindan frá Elac eins og höfuðlínumælirinn. Dekklúgan, framan við skutrennuna, opnast niður, en ekki upp, eins og algengast er. Skýringin á þessu mun vera sú, að minni slysahætta á að vera ef lúgan opnast niður. Aftur á móti virðist augljóst, að ef alda skellur aftan á skipið á sjórinn greiðan aðgang að vinnuþilfari, ef lúgan opnast niður. Stíur þær sem taka við fiskinum, þegar hann kemur niður á milliþilfarið, fiskmóttaka, rúma um það bil 30 tonn af fiski. Ef stíur þessar verða fullar er möguleiki að flytja fisk með færibandi í stíur sem eru framar og stjórnborðsmegin í skipinu. Þessar stíur taka um það bil 15 tonn, þannig að alls má hafa 45 tonn af fiski í stíum. Um borð er Shetland slægingavél af gerðinni 28 MKl. Vél þessi tekur fisk af stærðinni 38—71 cm. (annað verður að handslægja) og hámarksafköst eru 30 fiskar á mínútu. Einnig eru um borð tvær franskar fiskþvottavélar. Fiskurinn fer gegnum „cylinder", sem snýst með jöfnum hraða. Þetta er svonefnd „roterandi" þvottavél, en ekki kerþvottavél eins og algengast er hér. Mikið er um færibönd og greinilegt er að allt hefur verið gert til að minnka vinnu áhafnar við flutning á fiski. Færibanda- og vélakerfið er allt tvöfalt, þannig að unnt er þegar við fiskmóttökuna, að skipta fiskinum upp eftir því hvernig meðhöndla á fiskinn og í hvaða hluta lestarinnar fiskurinn á að fara. Til að fjarlægja þann sjó, sem eðlilega kemur inn á milliþilfarið, eru tvær dælur. Þessar dælur eru staðsettar bakborðsmegin að aftan og stjórnborðsmegin að framan á vinnuþilfarinu. Afköstin, sem hvor dæla getur skilað eru 80 m3 klst. í lokuðu rúmi stjórnborðsmegin á milliþilfari eru tveir pottar til lifrarbræðslu. Ekki er gert ráð fyrir mikilli bræðslu, þar sem slægingarvélin eyðileggur lifrina, og til bræðslu kemur því aðeins lifur frá handslægingunni. Fiskilest togarans er um það bil 730 m3 að stærð, og ættu þar að rúmast ca. 450 tonn af fiski. Lestin er einangruð með um 20 cm. þykkri gosull, sem að innan er klædd áli. Í lofti lestarinnar eru kælispíralar, en kælingin á að geta haldið 0°C í lest miðað við 18°C sjávarhita og 20°C lofthita. Kælimiðill er Freon R12 og kæliþjappan er af gerðinni Worthington 3HF 4/N, knúin af 10 ha. ASEA rafmótor. Uppstillingin er úr áli, og er stíustærðin valin þannig, að unnt er að fylla upp milli þverskilrúmanna í lestinni með fiskikössum. Lestarop eru fjögur, svo vel ætti að ganga að losa skipið. Brúin er mjög rúmgóð, og eins og við er að búast eru þar öll þau tæki, sem íslenzkum sjómönnum finnast nauðsynleg, en þau eru orðin margbreytileg. Í afturhluta brúarinnar eru stjórntæki fyrir togvinduna, en henni má hvort sem er stjórna frá brú eða vindupalli. Ekki eru beinir togmælar á vinduna, en með því að lesa af þrýstinginn á vindubremsunni er unnt, með hjálp töflu, að ákvarða togkraftinn á vírana. Í loftskeytaklefa er fjarskiptastöð frá M. P. Pedersen. Þar er um að ræða senditæki fyrir bæði tal og morse og tvo móttakara. Það er einnig neyðarsendir þar og móttakari og verða hér talin hin helztu: Rediton gerð. Nýjung um borð er veðurkortamóttakari, en hann er frá Taiyo. Í fremri hluta brúarinnar eru hin eiginlegu siglingatæki og verða hér talin hin helztu: Ratsjár: Tvær ratsjár frá Kelvin Hughes, önnur af gerðinni 18/12 C, en hin 19/12 S. Tveir ratsjárskermar, annar 10 cm. hinn 3 cm, með afísingartækjum. Unnt er að kúpla skermunum á hvora ratsjána sem er. Dýptarmælar: Hér er um svokallað „Humber Gear" kerfi frá Kelvin Hughes að ræða. Þetta eru tveir dýptarmælar af MS 44 gerð (annar blaut-, hinn þurrpappírs), fisksjá og sjálfriti fyrir fisksjána. Asdic: Simrad SB2. Höfuðlínumælir: Elac. Loran: Mieco 6805. Miðunarstöð: Taiyo TD-A120. Örbylgjustöð: Rediton. Gyroáttaviti: Áttaviti og sjálfstýring er frá Anschuts.
Stærð skipsins 969 brl.
Mesta lengd 68.70 m.
Lengd milli lóðlína 59.00 m.
Breidd 11.60 m.
Dýpt frá efra þilfari 7.50 m.
Dýpt frá neðra þilfari 5.00 m.
Djúprista 4.80 m.
Lestarrými 730 m3
Olíugeymar 414 m3
Ferskvatnsgeymar 80 m3
Ballastgeymir (stafnhylki) 45 m3
Lýsisgeymar 30 m3
Hraði í reynslusiglingu 15,3 sjómílur.

Ægir. 2 tbl. 1 febrúar 1973.


 

30.10.2022 05:57

E.s. Ísafold. LBDJ.

Gufuskipið Ísafold var smíðað hjá Wood, Skinner & Co Ltd. Í Bill Quay Yard í Newcastle í Englandi árið 1891 fyrir Skinningrove Iron Co Ltd í Middlesbrough ( Charles Henry Pile í London manager). Var hleypt af stokkunum hinn 28 október sama ár og afhent eigendum sínum í desember. Hét fyrst Skinningrove og smíðað sem flutningaskip. 347 brúttó (194 nettó). 140,7 x 22,1 x 10,9 fet. 185 ha. 3 þennslu gufuvél smíðuð hjá North-Eastern Marine Engineering Co. Ltd í Wallsend near river Tyne í Newcastle. Smíðanúmer 33. Árið 1954 var sett díesel vél í skipið, 2 SA 6 cyl Burmeister & Wain vél. Breytt í sandpramma árið 1981. Eigendasaga skipsins fer hér á eftir í tímaröð:
1895. P. Biraben & Fils í Bordeaux í Frakklandi, hét Pierre-Paul.
1899-1900. Johan Peter Thorkelin Bryde kaupmaður í Kaupmannahöfn, hét þá Ísafold.
1900. Brydes kaupmaður, skipið þá skráð í Reykjavík.
1910. Ekkja Brydes kaupmanns, Thora Augusta Bryde skráður eigandi. Skráð í Kaupmannahöfn.
1911. SA des Transports Cötieres Marseille, hét Prado.
1911. Franska ríkið.
1923. J. Filippi & Cie í Marseille, hét Lieutenant.
1924. M.M.E. Papadimitrou & Co í Piraeus í Grikklandi, hét Alpha.
1928. E. Mavroleon í Piraeus. Hét Maria M frá 1930.
1931. Valannis & Kariaktides í Piraeus, hét Charalambos Vaiannis.
1933. Cera Zade Mehmet Tahsin í Istanbul Tyrklandi, hét þá H. Esref.
1936. Cerrahoglu Mehmet Tahsin í Istanbul.
1944. Fakir Nadir Zeren í Istanbul.
1947. Izzet Demirtas í Istanbul.
1958. Ismail Kaptan ve Ortaklari í Istanbule, hét Ismail Kaptanoglu.
1965. Ismail Kaptanoglu í Istanbule.
1977. Turan Karakaya í Istanbul, hét Karakaylar.
1997. Skipið sökk 2 ágúst 1997 eftir árekstur við ferjuna Suadiye um 1 sjómílu út af eyjunni Heybeliada á Marmarahafi sem er um 25 sjómílur suður af Istanbul.

Bryde kaupmaður hefur haft skipið í förum milli Kaupmannahafnar og Íslands með vörur en hann var með verslun í Khöfn og víða hér á landi, m.a. í Vestmannaeyjum, Reykjavík, Hafnarfirði og Vík í Mýrdal. Ísafold hefur hentað vel í vöruflutninga hér við land því djúprista þess var ekki mikil (10,9 ft.) sem sagt komið sér vel í nær hafnlausu landi á þessum tíma.

Málverkið er í eigu Dr. Hilmars J Malmquist forstöðumanns Náttúruminjasafns Íslands, en hann keypti það á uppboðsvef Bruun Rassmussens í Kaupmannahöfn fyrir nokkrum árum. Hann sendi mér myndina af Ísafold og bað mig að grafast fyrir um sögu skipsins. Ég fékk til liðs við mig Birgi Þórisson sem veit einna mest um sögu gamalla skipa hér á landi, hvort sem um er að ræða innlend eða erlend og þakka ég honum fyrir hjálpina.

Gufuskipið Ísafold á leið yfir úfinn sæ. Málari óþekktur.   (C) Hilmar J Malmquist.
 
Lieutenant Corriol árið 1923-24.                         (C) Marine-Marchande.
 
Karakayalar. Myndin tekin einhverntíman eftir 1977.         (C) Robert Boman.

23.10.2022 08:18

1110. Ása RE 17.

Vélbáturinn Ása RE 17 var smíðaður hjá Bátalóni hf í Hafnarfirði árið 1970 fyrir bræðurna Sigurþór og Vilberg Sigurðssyni í Reykjavík. Eik og fura. 11 brl. 98 ha. Powa Marine vél. 11,04 x 3,35 x 1,26 m. Báturinn fórst út af Hvalsnesi á Reykjanesi að talið er, hinn 6 febrúar árið 1971. Tveir skipverjar voru um borð, bræðurnir Sigurþór og Vilberg sem fórust með báti sínum. Ýmislegt brak fannst rekið úr bátnum upp á Mýrum, t.d. lestarhleri og fimm stíuborð af þilfari fannst í Knarrarnesi og í Straumsfirði fundust koddar og stíuborð rekið á fjörur.
 

Vélbáturinn Ása RE 17 í Hafnarfjarðarhöfn.               (C) Elías Sigurðsson.

 

                                         Nýtt fiskiskip

Í maímánuði s. l. var nýjum 11 brl. bát hleypt af stokkunum hjá Bátalóni hf í Hafnarfirði og hlaut hann nafnið Ása RE 17. Báturinn er smíðaður úr eik og furu og er allur hinn vandaðasti. Vélin er af gerðinni Ford Power 95 hö. Báturinn er vel útbúinn tækjum, má þar nefna dýptarmæli, talstöð, svo og 5 rafmagnsfæravindur. Báturinn er ennfremur útbúinn með sérstökum toggálga að aftan, er gerir skuttog mögulegt. Báturinn er smíðaður fyrir bræðurna Sigurþór og Vilberg Sigurðssyni í Reykjavík og óskar Ægir þeim til hamingju með hinn nýja farkost.

Ægir. 16 tbl. 15 september 1970.
 

Ása RE 17 í Hafnarfjarðarhöfn.    (C) Elías Sigurðsson.
 
Fyrirkomulagsteikning af Bátalónsbát.                          Úr safni mínu.

 

            Tveggja bræðra saknað á 11 tonna báti

Mikil Ieit hefur staðið yfir síðan á sunnudag að 11 tonna báti, Ásu RE 17, sem á eru tveir bræður; Vilberg og Sigurþór Sigurðssynir, báðir um fimmtugt. Þeir bræður fóru í róður um hálfellefu á laugardagsmorgun og er síðast vitað um þá um klukkan hálfsjö á laugardag, þegar til Ásu sást frá hjálparskipinu Goðanum. Var Ása þá á norðurleið út af Stafnnesi. Leitin að bátnum og bræðrunum tveimur hafði engan árangur borið síðast þegar Morgunblaðið frétti í gærkvöldi. Vitað er, að þeir bræður hugðu á veiðar á svonefndum Hafnaleir vestur af Höfnum. Þegar Ása RE 17 sinnti ekki tilkynningaskyldu klukkan 10—13.30 á sunnudag, lét Slysavanafélag Íslands svipazt um eftir bátnum í verstöðvum á Suðurnesjum og við Faxaflóa, ef vera kynni að bræðurnir hefðu einhvers staðar leitað vars, en, aðfaranótt sunnudagsins gerði brælu af suðvestan á þessum slóðum. Þegar ekkert spurðist til bátsins í höfn, voru slysavarnasveitir á Suðurnesjum beðnar að ganga fjörur og allir bátar, sem úti voru, frá Reykjanesi og inn allan Faxaflóa, beðnir að svipast um eftir Ásu. Allsherjarleit var svo skipulögð, er þeir bræður komu ekki til hafnar í Reykjavík á sunnudagskvöld, eins og þeir höfðu ráðgert. Í fyrrinótt leituðu 18 skip frá Akranesi, Reykjavík og Keflavík ásamt varðskipinu Óðni, hjálparskipinu Goðanum og þýzka eftirlitsskipið Meerkatze, allt svæði innan línu, sem dregin var 5 sjómílur vestur af Garðsskaga í Arnarstapa á Snæfellsnesi. Strax í birtingu í gærmorgum lögðu svo björgunarsveitir SVFÍ á Suðurnesjum, frá Staðarsveit, Borgarnesi og Akranesi upp til leitar með fjörum. Voru gengar fjörur allt frá Grindavík, fyrir Reykjanestá og inn fyrir Garðsskaga og strandlengjan á Mýrum og Staðarsveit. Þá flaug flugvél Landhelgisgæzlunnar í gærmorgun og leitaði með allri strandlengju Faxafllóa og Faxaflóa allan. Sem fyrr segir hafði leitin engan árangur borið seint í gærkvöldi og var frekari leit ákveðin strax og birti í morgun.
Ása RE 17 er nýlegur 11 tonna trébátur, sem þeir bræður, Vilberg og Sigurþór, eiga; smíðaður hjá Bátalóni hf. í Hafnarfirði og afhentur um mánaðamótin maí-júní síðastliðið ár.

Morgunblaðið. 9 febrúar 1971.
 

Bræðurnir Sigurþór og Vilberg Sigurðssynir.        Mynd úr Morgunblaðinu.
 
Brakið sem fannst úr Ásu sem rak á land á Mýrum.          (C) Morgunblaðið.
 
Vélbáturinn Ása RE 17 í Reykjavíkurhöfn.                 Ljósmyndari óþekktur.

 

                               Tveir bræður drukkna
        Fullvíst talið, að Ása hafi farizt

 

Fullvíst er nú talið, að vélbáturinn Ása RE 17, hafi farizt og með henni tveir menn; bræðunir Vilberg og Sigurþór Sigurðssynir. Brak, sem fannst rekið í Straumsfirði og á Knarrarnesi á Mýrum, reyndist vera úr Ásu, en til bátsins sást síðast með vissu um sexleytið á laugardagskvöld og sigldi hann þá í norður út af Stafnesi. Á laugardagskvöld var suðlæg átt á þeim slóðum; 4—5 vindstig og ákaflega lifandi sjór. Bræðurnir Vilberg og Sigurþór voru báðir þrautvanir sjómenn og þaulkunnugir á Faxaflóaslóðum.  Sigurþór var 51 árs, kvæntur, en barnlaus. Vilberg var 47 ára. Hann lætur eftir sig konu og fimm börn. Í gær var leit að bræðrunum og bátnum haldið áfram. Björgunarsveitir SVFÍ gengu fjörur á Mýrum og þyrla Iandhelgisgæzlunnar og Slysavarnafélagsins leitaði við beztu skilyrði strandlengjuna frá Borgarfirði norður fyrir Akra á Mýrum, svo og sker og úteyjar allar. Eins og áður hefur verið skýrt frá fannst brak, lestarhleri og fimm stíuborð af þilfari, rekið á Knarrarnesi og 2 stíuborð til viðbótar og koddar í Straumsfirði.
Síðdegis í gær hafði rannsókn leitt í ljós, að brak þetta er úr Ásu RE 17. Ása RE 17 fór í róður frá Reykjavík fyrir hádegi á laugardag. Síðast sást til bátsins með vissu um klukkan 18 á laugardag frá hjálparskipinu Goðanum, sem þá var statt um 1,7 sjómílur út af Stafnesi. Ása var þá á norðurleið miklu nær landi. Slysavarnafélag Íslands hafði samband við um 30 báta, sem komu til hafnar í Keflavík, Sandgerði og sigldu fyrir Skaga á tímabilinu frá klukkan 18 til 21:30 á laugardagskvöld og kvaðst enginn hafa orðið bátsins var, utan hvað skipstjórinn á Jóni Bjarnasyni, sem kom inn til Sandgerðis klukkan 19:45, kvaðst hafa séð til ferða lítils báts mjög grunnt og nærri landi út af Hvalsnesi. Slysavarnafélag Íslands hefur beðið alla aðila að fylgjast vel með reka á fjörum; bæði frá Stafnesi í Garðskaga og á Mýrum. Einnig hafa sjómenn við Faxaflóa verið beðnir að svipazt um á ferðum sínum á og af fiskimiðum. Ása RE 17 var ellefu tonna þilfarsbátur, smíðaður hjá Bátalóni hf. í Hafnarfirði í fyrra.

Morgunblaðið. 12 febrúar 1971.

01.10.2022 19:03

Breski togarinn City of London GY 188 strandar við Klapparvík.

Það var hinn 27 janúar árið 1909 að breskur togari, City of London GY 188, sigldi inn á Reykjavíkurhöfn og lagðist við ankeri á höfninni. Togari þessi var þá nýkominn til landsins og ekki hafið veiðar enn. Um miðjan dag er veður versnaði og gerði suðvestan hvassviðri þá slitnaði hann upp og rak á land í klettana við Klapparvör. Töluverðar skemmdir urðu á togaranum, m.a. komu nokkur göt á botn hans. Björgunarskipið Geir náði togaranum á flot nokkrum dögum síðar. Geir var þá nýlega kominn til landsins og var þetta fyrsta björgun hans hér við land.
Grimsbytogarinn City of London GY 188 var smíðaður hjá Edwards Brothers (Howdon) í North Shield‘s í Englandi árið 1897 fyrir Hagerup, Doughty & Co Ltd í Grimsby. 226 brl. 71 nt. 400 ha. 3 þennslu gufuvél, smíðuð hjá North-Eastern Marine Engineering Co Ltd í Wallsend. 129,6 x 22,6 x 10,8 ft. (ensk) Smíðanúmer 536. Í apríl 1906 er togarinn í eigu Consolidated Steam Fishing & Ice Co Ltd í Grimsby. 1913 er hann í eigu Thomas W Ward Ltd í Sheffield. Í ágúst 1916 er togarinn í eigu Robert D Clarke í Grimsby og fær þá skráningarnúmerið GY 955. Togarinn var seldur til Spánar í september árið 1920.

Það má geta þess hér að Klapparstígur í Reykjavík dregur nafn sitt að klöppunum, Klapparvík og vörinni þar sem margir Reykvíkingar drógu áraskip sín á land. Bærinn Klöpp stóð þarna rétt vestan við klappirnar að ég held og var hann rifinn stuttu eftir að British Petrolium (BP), reisti sína olíustöð á uppfyllingu þarna á klöppunum árið 1929.

Grimsbytogarinn City of London GY 188 á strandstað í Klapparvík.  Mynd úr safni mínu.

                                                  Skipstrand

 Aðfaranóttina 28. þ. m. rak enskt botnvörpuveiðagufuskip, er lá hér á höfninni upp í klettana við Klapparvör, og komu göt á það, svo sjór féll inn. Liggur það þar enn, og er óvíst hvort því verður náð út. Skipið heitir „City of London" og er frá Grimsby.

Þjóðviljinn + Þjóðviljinn ungi. 3-4 tbl. 31 janúar 1909.

City of London á strandstað í Klapparvík.              (C) Söfart Historiet.dk.
 
Myndin sýnir gamla Klapparbæinn sem Klapparstígur er kenndur við. Klapparvör með bátum Skugghverfinga er í forgrunni, en þaðan þótti gott útræði. Handan við Klöpp var bærinn Skuggi sem Skuggahverfið er kennt við. Myndin er tekin árið 1899. Klöpp byggðist út úr landi bæjarins Arnarhóls árið 1838. Býlið stóð á hárri klöpp, sem það dró nafn sitt af.
Maður að nafni Eyjólfur Þorkelsson reisti fyrsta bæinn á Klöpp. Sonur hans, Níels Eyjólfsson, var ábúandi þar um áratuga skeið ásamt Helgu konu sinni. Þau ræktuðu mikla kálgarða við bæinn suðvestanverðan, þar sem síðar reis Trésmiðjan Völundur. Síðasta íbúðarhúsið á Klöpp var rifið árið 1931, þremur árum fyrr hafði fyrirtækið British Petroleum Company (síðar Olís) tekið í notkun olíustöð sína framan á klöppinni. Bensínstöðin var starfrækt fram á níunda tug síðustu aldar. Verulegar landfyllingar hafa átt sér stað og klöppin sem bærinn var kenndur horfin sem og Klapparvör.

 

 

 

28.09.2022 20:43

1349. Sigluvík SI 2. TFXH.

Skuttogarinn Sigluvík SI 2 smíðaður hjá Astilleros (Talleres Y. Varaderos) de Huelva S.A. í Huelva á Spáni árið 1974 fyrir Þormóð ramma hf. Á Siglufirði. 450 brl. 1.700 ha. MAN Bazan vél, 1.250 Kw. 47,55 x 9,50 x 6,50. M. Smíðanúmer 1. Kom fyrst til heimahafnar sinnar, Siglufjarðar hinn 7 apríl árið 1974. Fyrsti skipstjóri á Sigluvík var Hörður Hannesson og 1 vélstjóri var Ólafur Matthíasson, báðir siglfirðingar. Togaranum var lagt um mitt ár 2002, en hafði þá stundað rækjuveiðar í einhvern tíma. Sigluvík var seld til Spánar og tekin af íslenskri skipaskrá 11 júlí árið 2003. Togarinn mun hafa verið gerður út til veiða við S-Ameríku, þá sennilega við Panama. Veit ekki hvort hann er enn í drift eða hvað um hann varð.
 

1349. Sigluvík SI 2 á leið inn Siglufjörð.                (C) Steingrímur Kristinsson.
                         Sigluvík SI. 2 kemur til Siglufjarðar

Sunnudaginn 7. apríl kl. 5 e. h. lagðist skuttogarinn Sigluvík SI 2, að hafnarbryggjunni í Siglufirði. Veður var kalt, norðanátt með snjókomu, og náðist þess vegna ekki eins góð mynd af skipinu og æskilegt hefði verið. Fjöldi fólks kom samt niður á bryggju til að fagna hinu nýja skipi. Þar fluttu stutt ávörp Sigurjón Sæmundsson, f. h. stjórnar Þormóðs ramma h. f., og birtist það ávarp hér á eftir, Stefán Friðbjarnarson bæjarstjóri, sem bauð skipið velkomið til bæjarins, og Þórður Vigfússon framkvæmdastjóri, sem m. a. bauð bæjarbúum til fagnaðar um borð í skipinu kl. 8 um kvöldið. Skipið hafði verið tæpa átta sólarhringa á leiðinni frá Suður-Spáni og reyndist það hið bezta sjóskip. Ýmistegt er eftir að lagfæra um borð í skipinu, áður en það er tilbúið á veiðar, og þótti hyggilegra að láta vinna það hér heima, heldur en bíða eftir að verktakarnir lykju því, þar sem nokkuð bar á seinlæti hjá þeim við að ljúka smíði skipsins, einkum því seinasta, sem oft tekur nokkuð langan tíma. Eftirlitsmaður við smíði skipsins var Þórður Jónsson, Þórðarsonar frá Siglunesi. Er það einróma álit þeirra, sem til þekkja, að Þórður hafi leyst af höndum mikið og gott starf og Siglfirðingar fengið allmikið betra skip, vegna árvekni hans við eftirlitið. Var það þó oft örðugt, þar sem Spánverjar hafa ekki reynslu í smíði skuttogara til veiða í norðurhöfum. Skipstjóri á Sigluvík SI 2 er Hörður Hannesson og 1. vélstjóri Ólafur Matthíasson, báðir Siglfirðingar. Neisti óskar Þormóði ramma h. f., skipstjóra og bæjarbúum öllum til hamingju með þetta nýja skip og lætur í ljós þá ósk, að þær vonir megi rætast sem við það eru tengdar.
Hér fer á eftir ávarp Sigurjóns Sæmundssonar við komu Sigluvíkur SI 2, til Siglufjarðar 7. apríl 1974:
Góðir Siglfirðingar, skipstjóri og skipshöfn. Í dag er hátíðisdagur. Í dag fögnum við glæsilegu skipi, sem leggst hér að bryggju í fyrsta sinn, og sem verða skal undirstaða atvinnusköpunar í þessum bæ. Í dag bjóðum við velkomið til heimahafnar skutskipið Sigluvík SI 2, skipstjóra þess og aðra áhöfn. Sigluvík er smíðuð í bænum Huelva á Spáni. Það er um 450 tonn að stærð og búið öllum siglingatækjum, sem nauðsynleg eru slíku skipi. Lengd skipsins er 46,7 m, breidd 9,30 m. Aðalvél er 1700 ha. Bazan-Man, en ljósavélar af Caterpillar-gerð Það er kunnara en frá þurfi að segja, að afkoma þessa bæjar byggist nær eingöngu á sjósókn, vinnslu jsjávarafurða og þjónustustörfum í sambandi við það. Hér er engin iðnaðarframleiðsla, sem veitir stöðuga og örugga afkomu, hér er heldur enginn landbúnaður, sem gæti verið undirstaða margvíslegrar þjónustu, eins og í mörgum nágrannabæjum okkar hér norðanlands. Við Sigifirðingar erum því háðir sjónum og þeim afla, sem þangað er hægt að sækja. Það er okkur því lífsnauðsyn að hlynna vel að því, sem að sjávarútveginum snýr. Við verðum að annast vel um höfnina okkar, sem er undirstaða og lífæð þessarar starfsemi. Okkur ber skylda til að sjá um, að Siglufjarðarhöfn verði ætíð og örugglega ein bezta höfn landsins. Öruggt kjól þeim, sem af hafi leita, og ákjósanlegt athafnasvæði fyrir þá, sem hér þurfa að starfa. Við verðum sem fyrst að ljúka við að byggja upp nauðsynleg fiskmóttökuskilyrði, til þess að mögulegt sé að hagnýta þann afla, sem að landi berst.
Við verðum einnig að tryggja okkur traust og góð skip, svo okkar ötula sjómannastétt geiti stundað sjóinn af kappi. Þess vegna er það hátíðisdagur, þegar Siglfirðingar sigla nú þessu fríða skipi til heimahafnar. Það er nýr kapítuli í atvinnusögunni og tryggir enn betur framtíð þeirra, sem hér lifa og starfa. Það er von mín, og reyndar bjargföst trú, að framundan séu straumhvörf í málefnum Siglufjarðar. Þegar hin nýju og mikilvirku skip komast í gagnið og fullkomið fiskiðjuver hefur risið af grunni, á að verða næg vinna fyrir allar starfsfúsar hendur hér í þessum bæ. Það er trú mín, að framundan séu tímar athafna og umsvifa, menningar og lífshamingju, ef vel er á málum haldið. Þess vegna er það okkur til mikillar og innilegrar gleði, þegar þeim áfanga er náð, að nýtt og afkastamikið fiskiskip kemur hingað til hafnar, stjórnað af Siglfirðingum, sem eru tilbúnir að beita því til sóknar á miðin. Ég vil því, f. h. stjórnar Þormóðs ramma h. f., bjóða Sigluvík SI 2, velkomna til heimahafnar. Ég þakka öllum sem lagt hafa hönd að og haft umsjón með smíði þessa skips. Ég óska skipstjóra, skipshöfn og Siglfirðingum öllum til hamingju með þetta glæsilega skip. Megi Guðs blessun fylgja störfum skips og skipshafnar um ókomin ár.

Neisti. 1tbl. 10 apríl 1974.
 

Sigluvík SI 2 hleypt af stokkunum í Huelva á spáni árið 1973. Mynd í minni eigu.

 

                       Sigluvík SI 2

7. apríl s.l. kom 3. Spánartogarinn af minni gerð til landsins, en það var Sigluvík SI 2, sem er eign Þormóðs ramma h.f., Siglufirði. Þessi skuttogari er byggður hjá Skipasmíðastöðinni Astilleros Huelva S.A, smíðanúmer stöðvarinnar nr. 1. Véla- og tækjabúnaður í Sigluvík SI er að öllu leyti samsvarandi og í hinum tveimur fyrri, þ. e. Hólmanesi SU og Otri GK, nema hvað búnaður og fyrirkomulag á vinnuþilfari er með öðrum hætti. Á vinnuþilfari eru 4 blóðgunarker með rafknúnum lyftibúnaði á botni keranna, og ein „roterandi" fiskþvottavél. Auk þess er örbylgjustöð af annarri gerð, eða frá ISR, gerð AP 159. Skipstjóri á Sigluvík SI er Hörður Hannesson og 1. vélstjóri Ólafur Matthíasson. Framkvæmdastjóri útgerðarinnar er Þórður Vigfússon.

Ægir. 11 tbl. 1 ágúst 1974.
 

Sigluvík SI 2.                                                        (C) Steingrímur Kristinsson.                               Sigluvík SI seld til Spánar

Rækjutogarinn Sigluvík SI á Siglufirði, sem legið hefur verið bundinn við bryggju í tæpt ár, hefur verið seldur til Spánar. Frá þessu er skýrt á fréttavefnum Skip.is og haft eftir Ólafi Marteinssyni forstjóra Þormóðs ramma-Sæbergs hf. að sennilega muni skipið verða gert út til veiða á fjarlægum miðum svo sem við strendur Afríku eða Suður-Ameríku. Þormóður rammi-Sæberg gerir nú út þrjú skip til ísrækjuveiða, Stálvík, Múlaberg og Sólberg, en rækjufrystitogarinn Sunna, sem aðallega hefur stundað veiðar á Flæmingjagrunni, hefur verið settur á söluskrá.

Fiskifréttir. 24 tbl. 27 júní 2003.

11.09.2022 13:00

Togarar við legufæri sín í Hafnarfjarðarhöfn.

Togari Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar, Júní GK 345 og fjær á myndinni er Venus GK 519 sem fyrst var í eigu h.f. Belgaum í Hafnarfirði, liggja hér báðir við legufæri í Hafnarfjarðarhöfn. Myndin er sennilega tekin árið 1956, að haustinu og jafnvel stuttu áður en Venus slitnaði upp og rak upp í vestari hafnargarðinn í ofsaveðri hinn 30 nóvember það ár. Eftir það var togarinn talinn ónýtur og seldur í brotajárn. Gufuketillinn úr Venusi endaði svo í hinni nýju síldarbræðslu Síldarvinnslunnar í Neskaupstað sem byggð var á árunum 1957-58. Það var ekki óalgeng sjón á árunum upp úr 1960, að sjá togara sem hafði verið lagt inn á Kleppsvíkinni í Reykjavík og lágu þeir þar sumir hverjir árum saman áður en þeir voru svo seldir fyrir slikk eða í brotajárn. Sannarlega illa farið með góð og falleg skip. Þar var að mestu leiti rekstrarvanda um að kenna og einnig mjög erfitt að manna þá, en á þessum árum var síldarævintýrið síðara í fullum gangi og sóttust sjómenn þá frekar eftir því að fara á síldarbát, því það gaf mun meira af sér.
 

Venus GK 519 fjær og Júní GK 345 í bólum sínum í Hafnarfjarðarhöfn. Ljósmyndari óþekktur.
 

Nýsköpunartogarinn Júní GK 345 var smíðaður hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1951 fyrir Bæjarútgerð Hafnarfjarðar. Hét Höfrungur á smíðatíma. 732 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. 56,80 x 9,21 x 4,60 m. Smíðanúmer 735. Kom fyrst til heimahafnar sinnar, Hafnarfjarðar hinn 13 mars sama ár. Togarinn var seldur í júní árið 1964, Evengelos J. Stathakis & Sons í Piraeus í Grikklandi, hét þá Koutouriaris S. lll. Ný vél (1971) 1.630 ha. Werkspoor díesel vél. Selt 1984, Korali NE Atlantic Fishing Co í Piraeus í Grikklandi, hét þá Nikolaos lll. Skipið var selt 1994, Al. Samali & Co í Conakry í Gíneu. Talið ónýtt og og tekið af skrá árið 2002. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
 

Botnvörpungurinn Venus GK 519 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1929 fyrir Hlutafélagið Belgaum í Hafnarfirði. 415 brl. 700 ha. 3 þennslu gufuvél. 43,58 x 7,66 x 4,30 m. Smíðanúmer 533. Skipið var selt 27 febrúar 1937, Hlutafélaginu Venusi í Hafnarfirði. Togarinn slitnaði úr bóli í Hafnarfjarðarhöfn í ofsaveðri 30 nóvember 1956 og rak upp í vestari hafnargarðinn og sökk þar. Skipið var talið ónýtt og selt í brotajárn í mars árið 1962. Gufuketillinn úr Venusi var seldur Síldarvinnslunni h/f í Neskaupstað árið 1957-58 sem notaði hann í hinni nýbyggðu síldarbræðslu sinni. Sú síldarbræðsla eyðilagðist í snjóflóði 20 desember 1974, en gufuketillinn stendur enn á grunni gömlu verksmiðjunnar.  (C) Guðbjartur Ásgeirsson. Úr safni Óttars Guðmundssonar.
 

Gufuketillinn úr Venusi GK 519 á grunni gömlu síldarbræðslunnar í Neskaupstað sem eyðilagðist í snjóflóði 20 desember árið 1974. Ketillinn er nú hluti af minningarreit um þá starfsmenn Síldarvinnslunnar sem látist hafa af slysförum í gegn um tíðina.      (C) Elín Anna Hermannsdóttir.


 

19.08.2022 13:40

B.v. Goðanes NK 105. TFUD.

Nýsköpunartogarinn Goðanes NK 105 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1947 fyrir samnefnt hlutafélag í Neskaupstað sem 8 útgerðarmenn stóðu fyrir. Þeir voru:, Vigfús Guttormsson, Sigurður Hinriksson, Stefán Höskuldsson, Anton Lundberg, Þorsteinn Júlíusson, Ársæll Júlíusson, Jónas Valdórsson og Óskar Lárusson. 655 brl 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. 54,00 x 9,20 x 4,55 m. Smíðanúmer 786. Togaranum var hleypt af stokkunum í Beverley hinn 16 september og kom í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Neskaupstaðar á annan dag jóla 1947. Strax í upphafi tókst góð samvinna við Bæjarútgerð Neskaupstaðar, sem gerði út togarann Egil rauða, og Goðanesi hf. Í febrúar 1947 samþykkti stjórn Goðaness að ráða framkvæmdastjóra Bæjarútgerðarinnar, Steindór Árnason til að annast einnig framkvæmdastjórn Goðaness hf. Rekstrarstjórn útgerðarfélaganna var ávallt sameiginleg eftir þetta. Goðanes var einn af tíu togurum sem smíðaðir voru í Beverley í Englandi fyrir Íslendinga á árunum 1947-48. Goðanes var fyrsti íslenski togarinn til að selja afla sinn í Þýskalandi eftir heimstyrjöldina. Það gerði hann í Hamborg hinn 28 apríl árið 1948 og landaði þar 255 tonnum. Goðanes strandaði í mynni Skálafjarðar á Austurey í Færeyjum á blindskerjum er Flesjar heita, að kvöldi 2 janúar árið 1957. Var togarinn þá að sækja færeyska skipverja sem verið höfðu á skipinu þá um veturinn, en farið heim með togaranum Ísólfi frá Seyðisfirði og voru þar yfir jólahátíðina. Ætlaði Pétur Hafsteinn Sigurðsson skipstjóri að leita hafnar í Þórshöfn, en vegna slæms veðurs og ókyrðar í höfninni þar, ákvað hann að leita hafnar í Rúnavík í Skálafirði, sem þá var ein besta höfn Færeyja, en strandaði á Flesjunum eins og áður segir. Færeysku skipin Vesturhavið blíða, Hrókur og togarinn Austfirðingur SU 3, björguðu 23 skipverjum af Goðanesi við mjög erfiðar aðstæður. Pétur Hafsteinn skipstjóri fórst. Pétur var aðeins 24 ára gamall og hafði verið sjómaður til fjölda ára og reyndur skipstjórnarmaður. Hann var 2 stýrimaður á Agli rauða NK 104 þegar hann strandaði undir Grænuhlíð í janúar árið 1955. Hann ætlaði að vera á Goðanesi þennan veturinn og taka síðan við skipstjórn á Hafrúnu NK 80 sem verið var að smíða hjá Dráttarbrautinni hf í Neskaupstað fyrir hann og Kristinn Marteinsson tengdaföður hans.
Afli Goðaness frá 1/1 1948 til 31/12 1956 var 34.236 tonn.

Skipstjórinn á Færeyska skipinu, Vesturhavið Blíða, Jakob Andreas Vang sagði frá því stuttu síðar að skerin sem Goðanes strandaði á og hétu Flesjar, væru einu skerin í öllum firðinum og væru þau nokkuð úr siglingaleið. Sagði hann þau ekki koma fram í ratsjá nema í logni, og því engin von til þess að þau sæjust þannig kvöldið sem Goðanes strandaði. Kom þessi vitneskja heim og saman við það sem upplýstist í sjóréttarhöldum yfir þeim sem björguðust, en þau voru haldin í Neskaupstað, strax og skipbrotsmennirnir komu þangað.

Heimildir að hluta:
Norðfjörður, saga útgerðar og fiskvinnslu. Smári Geirsson 1983.
Morgunblaðið 29 apríl 1948.
Þrautgóðir á raunastund V bindi bls. 139.
 

B.v. Goðanes NK 105 að koma til hafnar í Neskaupstað árið 1955.  (C) Björn Björnsson.

 

        Neskaupstaður eignast tvo nýja togara í ár
           Síðari nýsköpunartogarinn kominn


Goðanes, annar nýsköpunartogari Norðfirðinga kom til Neskaupstaðar kl. 11 á annan dag jóla. Var bærinn fánum skreyttur og mikill fögnuður við komu togarans, en Neskaupstaður, sem er 1300 manna bær, hefur eignazt tvo nýja togara á þessu ári. Fyrri nýsköpunartogari Norðfirðinga, Egill rauði hefur selt fyrir á aðra milljón og er nú í sinni 6. veiðiför.
Goðanes er eign samnefnds hlutafélags í Neskaupstað og eru hluthafar þessir; Vigfús Guttormsson, formaður félagsins, Sigurður Hinriksson, Jónas Valdórsson, Óskar Lárusson, Ársæll Júlíusson, Þorsteinn Júlíusson og Anton Lundberg. Goðanes er smíðaður hjá Beverley skipasmíðastöðvunum og er frágangur allur með ágætum. Skipstjóri er Árni Ingólfsson, 1. stýrimaður Guðmundur Ólafsson, (báðir úr Reykjavík), 1. vélstjóri er Jens Hinrkisson (frá Norðfirði). II. vélstjóri Bjarni Nikulásson, Loftskeytamaður er Pétur Goldstein. Hásetar eru frá Norðfirði. Framkvæmdastjóri er sami og Bæjarútgerðar Neskaupstaðar, Steindór Árnason. Konur eigenda togarans buðu áhöfn skipsins, bæjarstjórn stjórn sparisjóðsins o. fl. til hófs um kvöldið, og sátu það nálægt 100 manns. Var þar flutt kvæði eftir Guðmund Magnússon.
Ræður fluttu: Krístín Helgadóttir, Vigfús Guttormsson, Lúðvík Jósepsson, Bjarni Þórðarson, sr. Guðmundur Helgason, Jóhannes Stefánsson og Anton Lundberg. Goðanes fór í gærkvöld áleiðis til Reykjavíkur en þar á að setja bræðslutæki í skipið en síðan fer það á veiðar. Norðfirðingar eru mjög ánægðir með að hafa eignazt tvo nýja togara á þessu ári og þakka það góðri aðstoð fyrrverandi ríkisstjórnar, nýbyggingarráði, en einkum þó Lúðvík Jósepssyni alþingismanni.
Óvenju harður vetur hefur verið fyrir austan, er þar nú hörkufrost og snjór yfir allt. Bátar eru að búa sig til vertíðar á Hornafjörð og Suðurnes.

Þjóðviljinn. 28 desember 1947.

 

B.v. Goðanes NK 105 í smíðum í Beverley. Ljósmyndari óþekktur.

 

B.v. Goðanes NK 105 á Norðfirði.          (C) Björn Björnsson.
 
B.v. Goðanes NK 105 við innri bæjarbryggjuna í Neskaupstað.  (C) Björn Björnsson.

 

                            Fyrstu sölur í Þýskalandi

Fyrsti íslenski togarinn, sem selur fisk á Þýskalandsmarkað, seldi í Hamborg í gær. Það var Goðanes frá Neskaupstað. Hann var með 254, 712 kg, er jafngildir 4000 kíttum. Fyrir þennan farm á samkvæmt  gerðum samningi um sölu á fiski til Þýskalands, að fást 10.100 sterlingspund. Elliðaey kom til Bremerhaven um kl. 9 í gærkveldi og mun hafa selt í nótt er leið. Togarinn var með um 270 tonn af fiski. Bjarni riddari mun væntanlega koma til Þýskalands á morgun. Hann var á leið til Grimsby, en var snúið við vegna þrengsla þar. Kaldbakur mun selja á mánudaginn. Jakob Hafstein framkvæmdastjóri, skýrði Mbl. frá þessum fyrstu sölum í viðtali í gær. Í þessu sambandi gat hann þess að við löndun í Þýskalandi kemur ekki til frádráttar 10% innflutningstollur á ísfiski, eins og í Bretlandi og í Þýskalandi þarf ekki að greiða umboðslaun, kíttaleigu eða annan löndunarkostnað, sem að öllu jöfnu nemur um 20% af sölum í Bretlandi. Ákveðið hefur verið að næstu 5000 smál. af fiski, sem íslenskir togarar flytja til Þýskalands, skuli fara óskipt til Bremerhaven. Síðar verður aflaðnum skipað hlutfallslega niður á Hamborg, Cuxhaven og Bremerhaven, þannig að til Bremerhaven fara 60%, til Hamborgar og Cuxhaven 20% á hvorn stað.

Morgunblaðið. 29 apríl 1948.
 

B.v. Goðanes NK 105 í Reykjavíkurhöfn. Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.
 
B.v. Goðanes NK 105 á leið í siglingu. Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.
 
B.v. Goðanes NK 105 á toginu. Úr safni Hafliða Óskarssonar.


 

                             Fékk 240 tonn á 5 dögum

Togarinn Goðanes frá Norðfirði kom til Ísafjarðar í gærkvöldi með 240 tonn af fiski eftir 5 daga veiðiför á Halamið. Mestallur fiskurinn eða rúmlega 200 tonn var stór þorskur og fer hann í frystihúsin á Ísafirði, Súðavík og Bolungarvík. Veður er gott á Ísafirði í dag, blæjalogn og dálítil þoka í fjöllum. Í stjórnmálunum fer hvessandi, enda nálgast nú alþingiskosningar óðum.

Vísir 28 maí 1952.
 

B.v. Goðanes NK 105 að landa í gúanó.  (C) Magnús Hermannsson.
 
Um borð í b.v. Goðanesi NK 105. Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.
 
B.v. Goðanes NK 105 með fullt dekk af fiski. (C) Kjartan Traustason.

 

                     B.v. Goðanes ferst við Færeyjar

Miðvikudaginn 2. janúar s.l. strandaði togarinn Goðanes frá Neskaupstað á skeri við mynni Skálafjarðar á Austurey í Færeyjum. Togarinn sat fastur á skerinu í brimi og stormi fram undir morgun, en þá brotnaði hann í tvennt og sökk. Skipið var á leið til Skálafjarðar, sem er langur og mjög þröngur og krókóttur fjörður, er gengur inn í Austurey. Hvassviðri var, dimmt og sjómikið. Skipverjar voru að búa sig undir að taka land, skipstjóri var á stjórnpalli ásamt háseta við stýrið. Klukkan 20,45 eftir íslenzkum tíma tók skipið niðri. Hringt var úr brú á fulla ferð aftur á bak, en skipið haggaðist ekki. Brimið tók þegar að ganga yfir skipið. Sent var út neyðarskeyti, og heyrðu það ýmis skip í nágrenni og samband náðist þegar við togarann Austfirðing, sem var ekki langt undan. Ljósblysum var og skotið til lofts og reynt að setja út björgunarbáta, fyrst bakborðsbát, sem hvolfdi við skipshlið, og síðan stjórnborðsbát, sem skipverjar misstu frá skipinu. Skipshöfnin hélzt fyrst við á bátadekki og stýrishúsi, en menn urðu brátt að yfirgefa bátaþilfarið og leita skjóls í stýrishúsi, kortaklefa og loftskeytaklefa. Skipstjóri reyndi að skjóta línu frá hinum strandaða togara til bátanna, sem í nánd voru, en það mistókst. Áður en langt leið fengust björgunartæki að láni frá tveim þýzkum togurum, sem lágu innar á Skálafirði.
Voru það stólar, línur og línubyssur. Klukkan langt gengin fimm um morguninn tókst loks að koma traustri línu í Goðanes, og eftir það tókst björgunin, aðallega yfir í vélbátinn Hrók. Klukkan 5,15 í gærmorgun hafði þrem mönnum verið bjargað, og klukkan tæplega sex 15 mönnum. En þegar hér var komið, sáust þess greinileg merki, að Goðanes myndi ekki standast sjóina öllu lengur, heldur brátt brotna. Skipstjóri tilkynnti og í talstöðina, að nú yrði að hraða björgun sem mest og spurði, hvort ekki væru tiltækir litlir trillubátar, sem gætu komizt nær skerinu en hinir stærri bátar. Var svo, og reyndu þeir að fara eins nærri og fært þótti. Alls var 18 mönnum bjargað í línustól, en þegar skipstjóri var að hjálpa tveim síðustu í stólinn, brotnaði skipið í tvennt, og hlutarnir sigu út af skerinu og sukku. Þá var klukkan 6,25. Þá voru sex menn á flakinu eftir, og fóru þeir allir í sjóinn, er skipið brotnaði og sökk. Reyndi þá hver að bjarga sér á sundi sem hann mátti, og var fimm þeirra bjargað upp í færeyska trillubáta, sem þarna voru til taks. Einn mannanna sást hvergi og fannst ekki þrátt fyrir ýtarlega leit. Kom í ljós, að það var skipstjórinn, Pétur Hafsteinn Sigurðsson.
Á Goðanesi var í þessari ferð 24 manna áhöfn, 17 Íslendingar og 7 Færeyingar.
Þeir voru, auk skipstjórans, þessir: Halldór Halldórsson, stýrimaður., Guðmundur Vestmann, 2. stýrimaður, Guðmundur Helgason, 1. vélstjóri, Ingvar Bjarnason, 2. vélstjóri, Guðmundur Sigurðsson, Axel Óskarsson, loftskeytamaður, Jón B. Jónsson, Magnús Skarphéðinsson, Gils Sveinþórsson, Högni Jónasson, Emil Ásgeirsson, Sigurríkur Ormsson, Kristján Vilmundsson, Sigurjón Jónsson, Finnbogi Finnbogason, Olavur Debes, Andreas Hildeberg, Kaj Johannesen, Johannes H. Petersen, Óli J. Beck, Anton E. Petersen, Eyvind Gudmundson og Jónas Hólm. Hinn síðasttaldi tók sér aðeins far með skipinu til Reykjavíkur. Allir björguðust þeir nema skipstjórinn, sem fyrr segir. Pétur Hafsteinn Sigurðsson, sem fórst með Goðanesi, var 24 ára að aldri, átti heima í Neskaupstað, sonur hjónanna Sigurðar Bjarnasonar og Guðlaugar Sigurðardóttur, sem hafa átt þar heima lengi. Eiga þau einn annan son, sem verður stýrimaður á hinum nýja togara Norðfirðinga. Pétur var hinn mesti efnismaður. Hann var 1. stýrimaður á Goðanesi, en skipstjórinn á skipinu, Ólafur Aðalbjörnsson frá Grenivík, var í landi.  Axel Óskarsson loftskeytamaður var einn þeirra skipverja er eftir voru í Goðanesinu er það brotnaði og sökk, og var mjög hætt kominn. Hefur hann skýrt þannig frá björgun sinni: „Þegar ég hafði lokið síðasta kallinu, fór ég úr loftskeytaklefanum fram á stjórnpallinn og sá Guðmund Sigurðsson standa bakborðsmegin við dyrnar út á brúarvænginn.
Sá ég þá að Guðmundur stakk sér út um dyrnar og yfir brúarvænginn og í sjóinn. Hann var með bjarghring um sig. Þegar ég kom að bakborðsdyrunum stóð straumurinn inn í stýrishúsið og sjór upp í mitti. Hafði ég ekki handfestu og kastaði straumurinn mér aftur á bak og lenti ég á dýptarmælisskápnum, sem festur er á framhlið brúarinnar milli 3. og 4. glugga, og stöðvaðist þar. Gerði ég mér nú grein fyrir að heppilegra mundi reynast að komast út um bakborðsdyrnar heldur en gluggana eða stjórnborðsdyrnar. Náði ég taki með vinstri hendi á dyrakarminum. Var straumurinn inn í brúna svo mikill að fyllti út í dyrnar. Tókst mér þó að stinga höfðinu í strauminn og koma hægri fæti út fyrir dyrnar og upp á brúarvænginn. Einhvern veginn tókst mér að koma höfðinu út fyrir dyrnar og efri hluta líkamans, þannig að meðan straumurinn var inn í stýrishúsið sogaðist neðri hluti líkamans inn í stýrishúsið. Straumurinn fór nú að minnka og þegar jafnvægi hafði náðst fannst mér ég sjá ljósglætu fyrir ofan mig og byrjaði að synda upp, en ég var í björgunarvesti og barst allhratt upp. Skaut mér upp í gegnum þykkt olíulag. Ég sá ekki neitt til að byrja með. Næst kom alda og kastaði mér til í sjónum og lenti ég á braki án þess þó að meiða mig. Þá synti ég af stað í átt til Ijósa, sem ég sá á björgunarskipum. Var þarna brak allt í kringum mig, ég kallaði nöfn nokkurra skipsfélaga minna, en hvorki sá til þeirra né heyrði. Synti ég þá áfram, en bóman á formastri flaksins kom upp úr sjónum 2—3 m frá mér og breytti ég því stefnu til að komast fram hjá henni. Því næst tók ég aftur stefnu á ljós björgunarskipanna, þræddi fyrir brak í sjónum og komst svo nálægt að ég greindi skipsskrokkinn þrátt fyrir bjarmann af kastljósunum og heyrði mál manna á skipinu, sem reyndist vera Hrókur. Sá ég trillubát leggja af stað frá Hrók og koma í áttina til mín. Var ég nú tekinn um borð í trillubátinn".
Sjóréttur var haldinn út af strandi b/v Goðaness í Neskaupstað dagana 5.—7. janúar. Kom þar m. a. fram í sambandi við björgun skipverja af frásögn Halldórs Halldórssonar 1. stýrimanns, að skipverjar reyndu strax að koma út björgunarbátunum, en bakborðsbáturinn brotnaði strax, en hinum tókst að koma á sjóinn, en skipverjar misstu hann frá sér meðan verið var að koma honum til hléborða. Er skipið fór að síga að aftan gaf skipstjóri fyrirmæli um að allir skyldu flýta sér fram á stjórnpall. Sluppu allir sem á bátadekkinu voru og mátti þó ekki tæpara standa. Eftir það höfðust allir við í brúnni, kortaklefa og loftskeytaklefa þar til öruggt fluglínusamband við færeyskt skip og björgun gat hafist. Munu 10 menn hafa farið í björgunarstólinn fyrsta klukkutímann.
Skipstjóri batt alla í stólinn. Þegar 18. maður var um það bil kominn út í björgunarskipið, brotnaði Goðanes um hádekkið og afturhlutinn fór að síga hraðar. Björgunartóllinn kom samt aftur og átti að setja tvo menn í hann, Sigurrík Ormsson og Finnboga Finnbogason. Sá síðarnefndi flaut úr stólnum aftur, en Sigurríkur varð fastur með annan fótinn í stólnum og hélt hann utan um Halldór stýrimann, sem haldið hafði við stólinn og sleppti ekki takinu. Voru þeir þannig dregnir yfir að björgunarskipinu. Það síðasta, sem 1. stýrimaður sá, var að skipstjórinn hjálpaði Finnboga aftur upp á brúarvænginn, en Guðmundur Sigurðsson og Axel Óskarsson voru inni í brúnni." Gaf Guðmundur merki með vasaljósi, að draga mætti björgunarstólinn yfir, en slík merkjagjöf var viðhöfð meðan á björgun stóð. Eftir þetta hvarf afturhluti skipsins sjónum Halldórs stýrimanns. Guðmundur Sigurðsson 3. vélstjóri skýrði frá því að það síðasta sem hann hafi séð til skipstjórans hafi verið er honum (skipstjóra) og Finnboga skolaði út af brúarvængnum. Ekki gat hann séð að skipstjórinn hefði neitt flot sér til bjargar, en áður sá hann að hann hafði belg hjá sér, þó ekki bundinn við sig.

Sjómannablaðið Víkingur. 1-2 tbl. 1 febrúar 1957.
 

Pétur Hafsteinn Sigurðsson skipstjóri.
 

Skipbrotsmennirnir af Goðanesi. Myndin er tekin í Þórshöfn. Þeir eru frá vinstri í efri röð:, Finnbogi Finnbogason Seyðisfirði. Axel Óskarsson loftskeytamaður Neskaupstað. Jóhannes Hendrik Petersen Rituvík í Færeyjum. Halldór Halldórsson stýrimaður Eskifirði. Guðmundur Vestmann Neskaupstað. Emil Ásgeirsson Neskaupstað. Jónas Hólm Eskifirði. Anton Petersen Rituvík í Færeyjum. Eivind Guðmundsson Glyvrum í Færeyjum. Sigurríkur Ormsson Bíldudal. Kristján Gils Sveinþórsson Neskaupstað. Sigurjón Jónsson Neskaupstað.
Fremri röð frá v:, Högni Jónasson Neskaupstað. Jón Barðason Jónsson Neskaupstað. Guðmundur Sigurðsson Neskaupstað. Magnús Skarphéðinsson Neskaupstað. Guðmundur Helgason Neskaupstað. Kristján Vilmundarson Neskaupstað og Ingvar Bjarnason Neskaupstað. Á myndina vantar Færeyingana Olav Debes, Andreas Hilduberg, Kaj Johannessen og Ole J Beck.


 

08.07.2022 20:25

B.v. Tryggvi gamli RE 2. LCHR / TFQC.

Botnvörpungurinn Tryggvi gamli RE 2 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir Útgerðarfélagið Hauk (Pétur J Thorsteinsson, Jóhannes Magnússon kaupmaður og fl ) í Reykjavík. Hét fyrst Þorsteinn Ingólfsson RE 2. 326 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. 42,70 x 7,31 x 3,36 m. Smíðanúmer 737. Seldur árið 1922, h/f Alliance í Reykjavík, fékk þá nafnið Tryggvi gamli RE 2. Tryggvi var einn þeirra togara sem lenti í Halaveðrinu í febrúar 1925 og varð fyrir talsverðum áföllum. Togarinn lenti næstum því í árekstri við b.v Hilmi þegar hann var á leið í landvar af Halamiðum. Komst togarinn inn til Patreksfjarðar töluvert laskaður en áhöfnin heil. Tryggvi gamli var seigur á sumarsíldveiðunum, oftast með aflahæstu skipunum. Mikið afla og happaskip. Togarinn var seldur í brotajárn til Danmerkur og rifinn í Óðinsvé árið 1955.
 

B.v. Tryggvi gamli RE 2 með trollið á síðunni.       (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
 

                                 Nýr botnvörpungur

Enn bætst við fiskiflotann. Það er Þorsteinn Ingólfsson, eign hlutafélagsins Hauks. Hann kom hingað í gær frá Englandi og voru þessir farþegar: Thor Jensen, Kjartan Thors, Friðþjófur Thorsteinsson og Gottfredsen útgerðarmaður. Skipið er af sömu gerð eins og Ingólfur Arnarson. Skipstjóri er Einar Einarsson, frá Flekkudal.

Vísir. 1 júlí 1920.
 

B.v. Tryggvi gamli RE 2 á siglingu.                      (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


 

                     Tryggvi gamli í Halaveðrinu

Alliance togarinn Tryggvi gamli hafði haldið af stað í veiðitúr frá Reykjavík 30. janúar. Guðmundur Markússon skipstjóri var lasinn og ákvað að taka sér frí þennan túr og var Þorvaldur Eyjólfsson, gamalreyndur skipstjóri, fenginn í hans stað. Ákvað hann að halda vestur fyrir land og var búinn að reyna fyrir sér á nokkrum stöðum þegar fregnir bárust af sæmilegu frskiríi á Halanum. Ákvað hann því að halda þangað. Föstudaginn 6. febrúar var Tryggvi gamli búinn að vera tæpa viku á Halanum og hafði fengið reytingsafla. Þurfti þá að halda til lands og taka vatn og á leiðinni út var vörpunni kastað út af Kópanesi, en þar var lítinn afla að hafa. Var því aftur haldið á Halann og komið þangað um kvöldið. Þá var veður heldur slæmt og farið að snjóa. Ekki var þó beðið boðanna og vörpunni kastað. Lítill afli fékkst um nóttina og þegar veður tók að versna á laugardagsmorgun ákvað Þorvaldur að gera sjóklárt. Sagði honum hugur um að von væri á hinu versta veðri og því væri betra að halda að landi. Eftir að búið var að gera sjóklárt var Tryggva gamla snúið og sett á hæga ferð. Þegar hann lagði af stað voru flestir togararnir enn að veiðum.
Tryggvi gamli var búinn að vera að lóna á leiðinni að landi í um fjórar klukkustundir þegar óveðrið brast á fyrir alvöru og ekki var hægt að halda áfram. Þorvaldur ákvað að snúa skipinu upp í en slíkur var veðurofsinn að það tókst ekki fyrr en sett hafði verið á fulla ferð. Eftir það varði togarinn sig vel og það þótt mikill ís færi að hlaðast á hann. Ekkert bar til tíðinda fyrr en um klukkan níu um kvöldið. Þá fékk Tryggvi gamli á sig brotsjó er kom á stjórnborðshlið hans. Kastaði brotið skipinu á hliðina og braut fiskikassann á þilfarinu og hreif hann fyrir borð. Auk þess lonsuðu lifrartunnurnar sem skorðaðar höfðu verið rækilega á þilfarinu og fóru flestar þeirra fyrir borð. Björgunarbáturinn stjórnborðsmegin kastaðist til og inn á bátaþilfarið þar sem hann brotnaði mikið og fleiri skemmdir urðu á skipinu. Þegar þetta gerðist voru flestir skipverjanna staddir aftur í. Brugðu þeir strax við, fóru niður í lestina og hófust þar handa við að kasta og moka til í skipinu og reyna að rétta það. Jafnframt fóru nokkrir skipverjanna út á bátapallinn í þeim tilgangi að koma böndum á björgunarbátinn sem færst hafði úr skorðum þar sem augljós hætta var á að ef hann færi í sjóinn gæti svo farið að vírar og kaðlar sem honum fylgdu færu í skrúfuna. Var það harðsótt verk þar sem þilfarið var flughált og þar enga handfestu að fá. Mönnunum heppnaðist þó ætlunarverk sitt og eftir því sem miðaði hjá mönnunum í lestinni tók Tryggvi gamli að rétta sig og varð smátt og smátt nokkurn veginn kjölréttur. Laust eftir miðnætti á sunnudeginum greindu mennirnir í brúnni á Tryggva gamla allt í einu ljós fram undan á stjórnborða og sáu brátt að þar var togari á reki undan veðrinu.
Stefndi í árekstur milli skipanna en Þorvaldi skipstjóra tókst að afstýra honum á síðustu stundu. Á þeirri stundu sem Tryggvi gamii skreið fram hjá munu ekki hafa verið nema nokkrir metrar á milli skipanna. Skömmu síðar fékk togarinn aftur á sig brotsjó sem kom bakborðsmegin á það. Sjórinn braut flestar rúðurnar í stýrishúsinu sem hálffylltist af sjó en brugðið var við og neglt fyrir gluggana. En eftir þetta var heldur kaldsamt í brúnni og vist mannanna hin nöturlegasta. Þeir létu það samt ekki á sig fá og einbeittu sér að því að reyna að forða skipinu frá brotsjóum og straumhnútum sem risu og féllu allt í kringum það. Allan tímann var vél skipsins keyrð á fullri ferð og hafður aukamannskapur í kyndingunni. Upp úr nóni á sunnudegi taldi Þorvaldur að komið væri slarkfært ferðaveður og fóru menn þá að reyna að reikna út hvar skipið væri statt. Kom þeim saman um að líklega væri það þvert út af Barðanum og var stefnan til lands sett eftir því. Upp úr miðnætti sást loks ljós í landi og var það á vitanum á Látrabjargi, langtum sunnar en þeir höfðu búist við að vera. Kom í ljós að skipið hafði hrakið um 30 sjómílur undan veðrinu þótt keyrt hefði verið upp í það á fullri ferð allan tímann. Hélt Tryggvi gamli síðan inn á Patreksfjörð og létu skipverjarnir það verða sitt fyrsta verk að koma upp bráðabirgðaloftneti til þess að þeir gætu látið vita af sér. Náði Adolf Guðmundsson fljótlega sambandi við Sverre Smith, loftskeytamann á togaranum Gulltoppi, og bað hann að hafa samband við Reykjavík og láta vita að Tryggvi gamli væri kominn í öruggt var og að ekkert amaði að mannskapnum um borð. 

Halaveðrið.
Úr Grein í Fiskifréttum frá 8 júní 2001.
 

B.v. Tryggvi gamli RE 2 inni á Reykjarfirði við Djúpavík.  (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


 

 Bræðslusíldaraflinn nær helmingi meiri en í fyrra
     Brimir og Tryggvi gamli hæstir af togurunum


Síldaraflinn í bræðslu var síðastliðið laugardagskvöld á miðnætti kominn upp í rúmlega 2 milj. mál og orðinn nær helmingi meiri en á sama tíma í fyrra. Á sama tíma var saltsíldaraflinn orðinn tæplega 190 þúsund tunnur, eða heldur minni en á sama tíma í fyrra. Aflahæsti togarinn er ,,Brimir“ frá Norðfirði, með 21,837 mál í bræðslu og 122 tunnur í salt. Næsthæstur er Tryggvi gamli með 20,345 mál í bræðslu og 1049 tunnur í salt. Af línuskipunum er Eldborg hæst, með 16,093 mál í bræðslu og af mótorbátum er Huginn I. hæstur, með 11.059 mál í bræðslu og 1,318 tunnur í salt.

Morgunblaðið. 31 ágúst 1937.
 

B.v. Tryggvi gamli RE 2 á síldveiðum.                    (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
 
B.v. Tryggvi gamli RE 2 á leið til löndunar í Djúpavík.  (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

 


 

   Togaraútgerðarfélagið Alliance 50 ára

Í dag er elzta togaraútgerðarfélag landsins 50 ára. Það var stofnað þann 18. október 1905 og voru stofnendur þessir: Thor Jensen kaupm., f. h. verzlunarinnar „Godthaab", og' skipstjórarnir Halldór Kr. Þorsteinsson, Jón Ólafsson, Jón Sigurðsson, Jafet Ólafsson, Kolbeinn Þorsteinsson og Magnús Magnússon, allir til heimilis í Reykjavík. Þrír af stofnendunum eru enn á lífi, þeir Halldór Kr. Þorsteinsson, Jón Sigurðsson og Kolbeinn Þorsteinsson. 1. gr. félagssamningsins 18. okt. 1905 hljóðar svo: „Tilgangur félagsins er fyrst og fremst, að láta byggja botnvörpugufuskip í Englandi, er vér gerum ráð fyrir að kosti hérum bil 125 — eitt hundrað tuttugu og fimm þúsund krónur, að gjöra skip þetta út héðan til fiskiveiða, og loks ef kringumstæður leyfa, að kaupa síðar fleiri skip til fiskiveiða útgjörðar á sama hátt". Var síðan útvegað lán í Landsbanka Íslands, en þá var bankastjóri þar Tryggvi Gunnarsson, og samið um smíði togara í Skotlandi. Togarinn hlaut nafnið ,,Jón forseti" og kom hingað til lands 23. janúar 1907. Skipið var mjög vandað. Kjalarlengd var 130 fet og stærðin 233 smál. brúttó, en 91,56 smál. nettó, og ganghraði ca. 10 mílur. Var skipið með allra fullkomnustu, stærstu og beztu togurum, sem smíðaðir höfðu verið fram til þessa og fyrsti togarinn er íslendingar létu byggja. Fyrsti skipstjórinn var Halldór Kr. Þorsteinsson. Fyrsti framkvæmdastjóri félagsins var Thor Jensen þar til í árslok 1910. Hlut hans í „Alliance" keypti þá Gunnar Gunnarsson, kaupm., er varð svo framkvæmdastjóri félagsIns til ársloka 1912. Jón Ólafsson skipstjóri og síðar alþingismaður, var framkvæmdastjóri frá 1. jan. 1913 til 1930. Síðan hefir sonur hans Ólafur H. Jónsson, cand. jur., verið framkvæmdastjóri félagsins eða í rösk 25 ár.
Þann 26. desember (annan dag jóla) 1911 kom annar togarinn til landsins, smíðaður fyrir félagið í Selby í Englandi; hann hlaut nafnið „Skúli fógeti", var 272 smál. brúttó að stærð og kostaði kominn til Íslands um 165 þúsund krónur. Togarar þeir, sem félagið hefir átt, eru sem hér greinir: .,Jón forseti" byggður og keyptur 1906. „Skúli fógeti", byggður og keyptur 1911. „Skúli fógeti" yngri (1920). „Tryggvi gamli" byggður 1920 og keyptur 1922. „Hannes ráðherra" (1926). „Ólafur" byggður 1926 og keyptur 1929. ,,Kári" byggður 1920 og keyptur 1932. „Jón Ólafsson" byggður 1933 og keyptur 1939. „Kári" byggður 1936 og keyptur 1947. ,,Jón forseti" byggður 1948. Þeir sem lengst hafa verið skipstjórar á skipum „Alliance" eru þessir: Halldór Kr. Þorsteinsson, sem var fyrsti skipstjóri félagsins, og var með ,,Jón forseta" eldri og ,,Skúla fógeta" eldri, Jón Sigurðsson, Hverfisg. 75, Gísli Þorsteinsson, Guðm. Markússon, Karl Guðmundsson, Snæbjörn Ólafsson, Markús Guðmundsson og Eggert Klemenzson, sem nú er skipstjóri á „Jóni forseta". Guðm. Markússon hefir lengst verið skipstjóri á skipum félagsins, eða nær óslitið frá 9. sept. 1919 til ársloka 1950, tók við skipstjórn á „Jóni forseta" 9. sept. 1919, síðan „Tryggva gamla", þá ,Hannesi ráðherra" þegar hann kom nýr „Jóni Ólafssyni" og síðast ,,Jóni' forseta" nýja frá því 1948 og til 1950, er hann lét af sjómennsku. 2. nóv. 1912 stofnaði félagið að hálfu á móti Pétri J. Thorsteinsson, kaupm., lifrarbræðslufélagið „Bræðing", en því félagi var breytt í hlutafélag 9. nóv. 1915.
Félag þetta keypti eignarjörðina Þormóðsstaði við Skerjafjörð og rak þar bræðslu á lifur úr togurunum, þar til þeir byrjuðu bræðslu lifrarinnar um borð, en það var árið 1927. Byggðir voru á jörðinni stórir fiskþurrkunarreitir, og byggð fiskverkunarhús. Nú eru fiskreitirnir horfnir en fiskhúsin standa enn og hafa verið byggð þar fleiri hús og reistir fiskþurrkunarhjallar. Árið 1913 voru keyptar eignarlóðir í Ánanaustum, vestast við Mýrargötu í Reykjavík og voru þar gerðir fiskþurrkunar reitir og reist fiskgeymsluhús, og fiskþurrkunarhús. Alliance keypti húseignina „Exeter" við Tryggvagötu nr. 4 árið 1920, og hafa skrifstofur félagsins verið þar síðan haustið 1920. Félagið á ennfremur húseignirnar Tryggvagötu 6 og Vesturgötu 14, en þær eignir keypti það árið 1938. „Alliance" stofnaði hlutafélag um síldarbræðslu á Djúpavík í Reykjarfirði, h.f. Djúpavík, og átti félagið 2/3 hluta þess á móti h.f. Einari Þorgilssyni í Hafnarfirði. Síldarbræðslustöðin Dagverðareyri var keypt árið 1941. Stjórn félagsins skipa nú: Ólafur H.Jónsson formaður, og Jón Sigurðsson skipstj. og Guðm. Markússon skipstj. meðstjórnendur.  

Tíminn. 18 október 1955.
 

B.v. Tryggvi gamli RE 2 með nýtt stýrishús.                 Ljósmyndari óþekktur.
 
Líkan af Tryggva gamla RE 2.                            (C) Þórhallur S Gjöveraa.


 

                            Sex gamlir togarar til
         niðurrifs á tveim mánuðum


Upp úr helginni leggja héðan úr höfn í síðasta sinn þrír togarar, sem lokið hafa ætlunarverki sínu sem íslensk fiskiskip. Það eru gömlu togararnir „Tryggvi gamli“, „Maí“ og Faxi. Ekki fara þeir nú að leita nýrra miða, heldur á járnið úr þeim að hverfa í bræðsluofna úti í Danmörku, nánar tiltekið í Óðinsvéum, en þangað hafa þeir verið seldir til niðurrifs. Þeir Magnús Magnússon og Guðmundur P Kolka hafa keypt þessi gömlu skip og selja þau nú til niðurrifs, því að til annars eru þau  ekki nýt lengur. Tíðindamaður Vísis hitti Guðmund sem snöggvast að máli niðri á Ægisgarði í gær, en þar vann hann ásamt fleiri mönnum og stórvirkum tækjum að því að skipa fram ýmsu brotajárni sem skipin verða hlaðin. Þeir félagar hafa fyrr í sumar, í maí, selt þrjá togara aðra til Danmerkur, til sama fyrirtækis, en það voru skipin „Höfðaborg“ (sem eitt sinn hét „Belgaum“), og Kveldúlfstogararnir „Skallagrímur“ og „Þórólfur“.
Á föstudag eða laugardag er væntanlegt hingað danskt björgunar- og dráttarskip, „Sigyn" frá hinu kunna Zwitzer-björgunarfélagi, en það er 1200 hestafla skip, sem mun draga togarana þrjá til Danmerkur. Danir munu setja þrjá menn um borð í hvert skip, svo og björgunartæki handa þeim, ef eitthvað óvænt kæmi fyrir. Með þessum þrem síðustu skipum hafa allir gömlu togararnir verið seldir til niðurrifs, nema einn, „Venus“ úr Hafnarfirði, en hann var nýjastur gömlu togaranna. Nokkrir hafa verið búnir olíukynditækjum og enn í notkun. Að öðru leyti er togarastóll landsmanna eingöngu nýsköpunartogararnir, eins og kunnugt er. Þeir félagar, Guðmundur og Magnús, kaupa brotajárn til þess að ferma skipin og greiða 200 krónur fyrir hverja lest. Hafa þeir að þessu sinni keypt um 500 lestir, sem komið verður fyrir í skipunum og flutt út með þeim.
Fyrirtækið sem kaupir skipin í Óðinsvéum, bræðir þau sjálft, og járnið sem þannig fæst, verður einkum notað til skipasmíða. Má því vænta þess, að innan tíðar sigli önnur, ný skip um höfin, smíðuð að einhverju leyti úr járni úr hinum gömlu fengsælu íslensku fiskiskipum.

Vísir. 24 júní 1955.
 

08.07.2022 09:02

Skagfirðingur SK 1. TFAM.

Síldveiðiskipið Skagfirðingur SK 1 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1923 sem línuveiðari. Hét fyrst Ribes H 804 og var smíðað fyrir Pickering & Haldane‘s Steam Trawling Co Ltd í Hull. 97 brl. 200 ha. 2 þennslu gufuvél. 25,94 x 5,81 x 2,79 m. Smíðanúmer 783. Selt í nóvember 1925, S.A. Oostendsche Reederij-Armement Ostendais í Ostend í Belgíu, hét þar Celestin Demblon O 239. Skipið var selt 1934, Samvinnufélaginu Tindastóli á Sauðárkróki. Það var Frank Michelsen ásamt fl. Á Sauðárkróki sem keyptu það frá Belgíu. Skagfirðingur stundaði nánast eingöngu síldveiðar á meðan þeir áttu það. Selt í október 1940, Jóni Gíslasyni útgerðarmanni og Sigurjóni Einarssyni skipstjóra í Hafnarfirði, hét þá Búðaklettur GK 250. Skipið var endurbyggt árið 1941, m.a. settur hvalbakur og nýtt stýrishús á það. Einnig var gufuvélin og ketillinn tekin úr því og sett í skipið 200 ha. Newbury díesel vél. Eftir þessar breytingar mældist það 101 brl. Búðaklettur strandaði rétt við gamla vitann á Reykjanesi hinn 23 desember árið 1944. Áhöfnin, 8 menn, bjargaði sér á kaðli til lands en 2 farþegar fórust. Skipið var að koma frá Hornafirði á leið til Reykjavíkur en ætlaði að koma við í Vestmannaeyjum þar sem annar farþeginn átti heima, en komst ekki inn á höfnina vegna óveðursins sem þá gekk yfir við suðurströndina.
 

Síldveiðiskipið Skagfirðingur SK 1 að landa síld á Siglufirði. (C) Kristfinnur Guðjónsson. 

                                          „Skagfirðingur“

Til Sauðárkróks er nýkomið, eimskip, línuveiðari eða síldveiðaskip keypt frá Belgíu. Það heitir »Skagfirðingur«, smíðaður 1923. Stærð: 98 brúttó tons. Eigendur h. f. »Tindastóll«á Sauðárkrók.

Ægir. 6 tbl. 1 júní 1934.
 

Um borð í Skagfirðingi á síldveiðum.  (C) Héraðsskjalasafn Skagfirðinga. 

                              Breyting til batnaðar

Ýmsir útgerðarmenn, er áttu línuveiðaskip með gufuvélum hafa undanfarið látið taka gufuketil og vél úr skipunum og útbúið þau fyrir dieselvélar. Við þessar breytingar eykst burðarmagn skipanna að miklum mun, þar eð diesel vél ásamt hæfilegum olíubirgðum er léttara en gufuvél, ketill, kol og vatn. Fyrsta skipið, sem komið er af stað eftir slíka breytingu, eftir að útgerðarmenn almennt fengu áhuga fyrir þannig gerðum umbótum skipa sinna, er M.s. „Búðaklettur", eign þeirra Jóns Gíslasonar útgerðarmanns og Sigurjóns Einarssoonar skipstjóra í Hafnarfirði. Var sett í skipið 200/220 H.A. tvígengis Sirron dieselvél smíðuð af The Newbury Diesel Co. Ltd., í Englandi. „Búðaklettur", sem er 97 smálestir, fer nú röskar 8 mílur á klukkustund fullfermdur, þótt vélin sé ekki knúin að fullu enn þá, og hefir um 50 smálesta meira burðarmagn en fyrir þessar umbætur.

Sjómannablaðið Víkingur. 5 tbl. 1 maí 1941.
 

Búðaklettur GK 250 í Vestmannaeyjahöfn á stríðsárunum. (C) Þorsteinn Jósepsson. 

    M.s. Búðaklettur strandar við Reykjanes
                 Tveir farþegar drukkna


Í gærmorgun um kl. 7 strandaði vjelskipið Búðaklettur frá Hafnarfirði á Reykjanesi, og fórust tveir farþegar, er voru með skipinu, en skipshöfn öll bjargaðist í land. Þeir, sem fórust voru þeir Björn Benediktsson til heimilis að Hverfisgötu 125 og Friðrik Sigjónsson  frá Vestmannaeyjum. Blaðið hefir átt tal við 1. vjelstjóra á Búðakletti, Sigurð Pjetursson og skýrði hann svo frá:
Skipið var á leið frá Hornafirði til Reykjavíkur, og átti að koma við í Vestmannaeyjum, og ætlaði Friðrik þar af skipinu. Sökum veðurs komst enginn út að skipinu í Vestmannaeyjum, og var því haldið áfram áleiðis til Reykjavíkur. Ekkert sjerstakt bar til tíðinda, nema hvað veðurhæð óx stöðugt, uns skipið fjekk á sig þrjá brotsjói um kl. 7 í morgun. Var þá komið fárviðri og gekk á með hríðarjeljum. Í þeim svifum, sem skipið fjekk á sig sjói þessa, tók það niðri. Ekki er hægt að segja, hvað næst gerðist, þegar alt bar svo skjótt að höndum, en skipið hentist upp í fjöruna og gekk sjórinn stöðugt yfir það. Mun hafa verið fjara, er skipið strandaði, og reyndi nú hver, sem betur gat að bjarga sjer. Margir voru sofandi eða í rúmum sínum, er slysið bar að, og höfðu ekki ráðrúm til þess að klæða sig. Og björgunarbátum gátu þeir ekki náð. Af miklum vaskleika tókst stýrimanni, Ólafi Magnússyni frá Hafnarfirði að komast til lands með kaðal, sem hann festi og komst Sigurður Pjetursson og annar maður til eftir kaðli þessum á land, en skömmu síðar slitnaði kaðallinn.
Nokkru síðar tókst svo að koma kaðli aftur úr skipinu í land, en þá voru enn átta menn í skipinu og mun Vestmannaeyingurinn, Friðrik Sigjónsson hafa farið næstur öðrum vjelstjóra eftir kaðlinum, en hann misti takið og sogaðist út aftur. Sömuleiðis komst Björn Benediktsson á kaðalinn, en misti af honum á leiðinni til lands og hvarf í brimrótið. Skipið strandaði rjett hjá gamla Reykjanesvitanum. Farþegarnir munu hafa farist, vegna þess, að ólög riðu yfir, þegar þeir voru á leið í land á kaðlinum.  Jeg fór, segir Sigurður, þegar að bústað vitavarðar og bað um hjálp, þar eð skipbrotsmenn voru flestir illa klæddir og kom jeg þangað um kl. 8.30 í gærmorgun. Þeir, sem síðast komu að vitanum, komu kl. 9.30—10 í gærmorgun. Hafði engum orðið neitt verulega meint af vosbúð sinni, enda voru móttökur vitavarðar framúrskarandi. Skipstjóri Búðakletts heitir Kristens Sigurðsson. Búðaklettur var byggt árið 1923, en endurbyggt árið 1941, en þá sett í það díeselvjel. Skipið var 101 rúmlest, alt hið traustasta. Kl. 3 í gær sást það síðast til skipsins, að það var brotið í tvent.

Morgunblaðið. 24 desember 1944.

02.07.2022 09:09

B.v. Surprise GK 4 LBTH / TFSC

Botnvörpungurinn Surprise GK 4 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir breska sjóherinn. Hleypt af stokkunum í maí 1919, en skipið ekki klárað. Hét Samuel Martin í þeirra eigu (Admiralty no: 4255). Seldur sama ár Hellyers Brothers Ltd í Hull, og létu þeir klára smíði skipsins og fengu það afhent í mars árið eftir (1920). Hét hjá þeim Field Marshal Plumer H 174. 313 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. 42,11 x 7,22 x 3,86 m. Smíðanúmer 898. Togarinn var svonefnt stjórnarskip, þ.e. eitt af þeim skipum sem breska stjórnin lét smíða til stríðsnota, en þessi togari sem og fleiri, var þó ekki hleypt af stokkunum fyrr en eftir stríð. Seldur í nóvember 1924, Einari Þorgilssyni, Ólafi Tryggva Einarssyni og Þorgils G Einarssyni í Hafnarfirði. Fékk nafnið Surprise GK 4, eftir skútu sem Einar hafði átt og reynst happaskip. Það gerði einnig þetta skip hans, mikið happa og aflaskip. Frá 4 nóvember 1939 er Einar Þorgilsson & Co í Hafnarfirði eigandi togarans. Surprise stundaði síldveiðar yfir sumartímann eins og aðrir íslenskir togarar gerðu á 3 og 4 áratugnum og aflaði vel. Seldur Sæfelli h/f í Vestmannaeyjum árið 1945, fær nafnið Helgafell VE 32. Seldur Oddi Helgasyni í Reykjavík í júní árið 1952. Hann selur togarann í brotajárn og er hann rifinn í Bo'ness í Skotlandi sama ár.

Tryggvi Ófeigsson kunni best að segja frá kaupum Einars Þorgilssonar á togaranum Surprise. Gefum honum orðið" Þegar ég kom af síldinni um haustið 1924, fór ég aftur stýrimaður á Walpole. Á miðju hausti (19 nóv), er við vorum í höfn á Walpole, að hringt er í til mín og sagt í símann: "Hér er Einar Þorgilsson í Hafnarfirði. Mig vantar skipstjóra á togara, sem ég er að kaupa úti í Englandi af Hellyer, og hann þarf að vera kominn"po stoende fod"sá skipstjóri um borð í Íslandið annað kvöld á leið til Leith. Öll lífstíð er á fleygiferð". Tryggvi lét til leiðast og fór út til Leith með Íslandinu. Var hann kominn þangað 23 nóvember og degi síðar til Hull. Gefum honum aftur orðið þegar hann kemur um borð í togarann sem Einar keypti. "Þetta var hið álitlegasta skip, en þó hafði Einar viljað fremur annan togara, sem Hellyers átti, Allanby,en þann togara vildi Hellyers ekki selja. Hann strandaði síðar við Grindavík. Orlando(annar Hellyers bróðirinn, hinn hét Owen) sagði mér, að sér væri minnisstætt, hve Einar hefði sótt fast að fá Allanby, og kom þar fram sem víðar, að Einar Þorgilsson lét ekki af sínu fyrr en í fulla hnefana. Hann margsagði, þegar þeir voru að ræða um togarakaupin: "I want Allanby" Svo mörg voru þau orð.Tryggvi var fyrsti skipstjóri á Surprise og var á honum tvo túra.

Tryggvasaga Ófeigssonar.
Ásgeir Jakobsson 1979.
 

B.v. Surprise GK 4 á siglingu.                      Sígarettumynd stór í minni eigu.

 

                                     „Surprise“ GK 4

Nýr togari kom til Hafnarfjarðar í gær. Hefir Einar Þorgilsson útgerðarmaður keypt hann í Englandi. Togarinn er 4 ára gamall og heitir „Surprise“.

Morgunblaðið. 12 desember 1924.
 

B.v. Surprise GK 4 á útleið frá Hafnarfirði á stríðsárunum. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
 
B.v. Surprise GK 4 með góða síldarhleðslu.  (C) Kjartan Traustason.

 

                                   Síldarafli togaranna

Allir togarar eru nú hættir síldveiðum og herpinótaveiði virðist vera að hverfa, en reknetaveiði að glæðast. Þessir togarar eru hættir síldveiðum og hafa þeir aflað alls í sumar mál og tunnur, sem hér segir:
Garðar 19.259,
Surprise 17.886,
Tryggva gamli 16.400,
Kári 13.360,
Arinbjörn hersir 11.040,
Egill Skallagrímsson 13.182, og
Skallagrímur 12.812.
Garðar, Surprise, Egill Skallagrímsson og Arinbjörn hersir fara heimleiðis. Kári og Tryggvi gamli byrja karfaveiðar og leggja aflann á land í Djúpuvík. Skallagrímur er byrjaður karfaveiðar.

Nýja dagblaðið. 25 ágúst 1936.

 

B.v. Surprise GK 4 á leið til löndunar í Djúpavík. (C) Sigurjón Vigfússon.
 

Myndin hér að ofan er tekin um borð í togaranum Surprise GK 4, líklega árið 1941 og styrjöldin í algleymingi. Áhöfnin hefur stillt sér upp til myndatöku á togspilinu framan við stjórnpallinn. Þeir eru, fremsta röð frá vinstri: Olgeir Olgeirsson hjálparkokkur, Ólafur Sveinsson, Sigurður Pétursson, Ágúst Jóhannesson, Þorsteinn Einarsson 1 stýrimaður, Jón Þorvaldsson 2 stýrimaður, Jón Björn Elíasson skipstjóri, Valdimar Guðmundsson, Jakob Þorsteinsson.
Miðröð frá vinstri: Leifur Jónsson, Hilmar Sæberg, Þorlákur Eiríksson matsveinn, Jón Jóhannesson, Björgvin Jónsson, Jens Guðmundsson, Pétur Pétursson, Ingimundur Sigurjónsson.Aftasta röð frá vinstri: Helgi Guðlaugsson, Jón Arnórsson, Guðmundur Þorláksson loftskeytamaður, Guðmundur Jóhannsson, Árni Elíasson, Gísli Guðmundsson, Páll Guðmundsson kyndari, Kristján Brynjólfsson kyndari, Brynjólfur Guðnason bræðslumaður og Guðbjörn Einarsson.             Ljósm:Guðbjartur Ásgeirsson.

B.v. Helgafell VE 32.                                          Ljósmyndari óþekktur.

 

                           Hálfa skipið með járnfarminn
                       leggur af stað


Hálfa Liberty-skipið, sem Tíminn skýrði frá um daginn og birti mynd af, er nú að verða ferðbúið til hafsiglingar sinnar með tundurspillinn innanborðs. Í fyrrakvöld var búið að koma brotajárninu að mestu úr tundurspillinum fyrir í því og búa það til ferðar, og var það dregið innan úr Elliðaárvogi í Reykjavíkurhöfn í fyrrakvöld, en þar lá það í gær og þótti kynlegur farkostur. Er nú væntanlegur þýzkur dráttarbátur, sem á að draga hálfa skipið út, svo og togarann Helgafell, sem seldur hefir verið til niðurrifs. Það er Keilir h.f. sem á þetta skip og farm þess og sendir út til sölu.

Tíminn. 23 júlí 1952.

21.06.2022 17:46

B.v. Elliði SI 1. TFID.

Nýsköpunartogarinn Elliði SI 1 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1947 fyrir Bæjarútgerð Siglufjarðarkaupstaðar. 654 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. 54,00 x 9,11 x 4,55 m. Smíðanúmer 1325. Kom til heimahafnar sinnar hinn 19 október sama ár. Togarinn fórst um 25 sjómílur norðvestur af Öndverðarnesi, 10 febrúar árið 1962. 2 skipverjar fórust en 26 var bjargað við illan leik um borð í togarann Júpíter RE 161. Það má geta þess að vélbáturinn Skarðsvík SH 205 frá Rifi sem fann gúmmíbjörgunarbátinn með líkum mannanna 2 sem fórust og kom þeim um borð í varðskipið Óðinn. Hélt hún síðan heim á leið, en stuttu síðar kom mikill leki að bátnum með þeim afleiðingum að hann sökk en áhöfninni var bjargað um borð í Stapafell frá Hellissandi.
Það var talið mjög líklegt að togarinn hafi brotnað við svelginn, en þar voru þau veikust fyrir. Mjög slæmt veður var er Elliði sökk og mikil mildi að Júpíter hafi komist á slysstað og bjargað áhöfninni áður enn Elliði hvarf í djúpið.
Hér fyrir neðan er linkur þar sem fjallað er um sjóréttarhöldin í Sjómannablaðinu Víkingi 3 tbl. 1 mars 1962 vegna Elliðaslyssins.

https://timarit.is/page/4234552?iabr=on#page/n7/mode/2up/search/Elli%C3%B0i%20SI%201

 

B.v. Elliði SI 1 við Faxagarð í Reykjavíkurhöfn.   (C) Snorri Snorrason.

 

          Virðuleg móttaka Elliða SI 1

Elliði, hinn nýi togari bæjarins, lagðist fánum skreyttur að bryggju á Siglufirði kl. 6 síðd. á sunnudaginn. Íslenzki fáninn heilsaði honum frá hverri flaggstöng bæjarins, og þó rigning væri og kalsi var Hafnarbryggjan þéttskipuð fólki, sem þangað var komið til að fagna togaranum, og bjóða hann velkominn. Giskað er á, að þar hafi verið allmikið á annað þúsund manns. Móttökuathöfnin hófst með því, að karlakórinn Vísir söng heillakvæðið „Velkominn Elliði,“ sem Hannes Jónasson hafði ort í tilefni af komu skipsins, og birt er hér á forsíðu blaðsins. Þá flutti forseti bæjarstjórnar, Gunnar Jóhannsson, ræðu og er hún birt á 3. síðu blaðsins í dag. Á eftir ræðu Gunnars söng karlakórinn: „Siglufjörður“ eftir Bjarna Þorsteinsson. Þá tók bæjarstjórinn, Gunnar Vagnsson til máls. Lýsti hann með nokkrum orðum lífsbaráttu mannsins frá upphafi og þeirri þróun í uppfinningu framleiðslutækja, sem átt hefði sér stað á æfiskeiði mannkynsins. Gerði hann samanburð á hinum fyrstu ófullkomnu verkfærum frummannsins og hinu hugvitssamlega og stórvirka framleiðslutæki, sem bæjarbúar væru nú að veita móttöku. Bauð hann skipið velkomið til Siglufjarðar og óskaði skipstjóra og allri skipshöfn allra heilla í starfinu. Að ræðu hans lokinni söng karlakórinn „Eg vil elska mitt land“, eftir Bjarna Þorsteinsson. Að síðustu hrópaði mannfjöldinn ferfallt húrra fyrir Elliða. Kl. 8,30 um kvöldið hafði bæjarstjórn kaffisamsæti í Sjómannaheimilinu fyrir skipshöfn togarans, togaranefnd, hafnarnefnd, stjórn skipstjórafélagsins, stjórn útvegmasnnafélagsins, stjórn Þróttar, Karlakórinn Vísir, opinbera embættismenn og fl.
Gunnar Vagnsson, bæjarstjóri setti samkomuna og stýrði henni. Bauð hann gesti velkomna og tilkynnti að sú tilhögun yrði á samsætinu, að frjálsar umræður yrðu undir borðum en á milli ræðna óskaði hann að fólk tæki lagið að góðum og gömlum sið. Voru margar ræður fluttar þarna og mikið sungið á milli. Einnig söng karlakórinn Vísir nokkur lög við ágætar undirteiktir. Þessir tóku til máls: Þormóður Eyófsson, Ragnar Jóhannesson, Hannes Jónasson, Eyþór Hallsson, Einar Ólafsson frá Hafnarfirði (afi Vigfúsar skipstjóra), séra Óskar J. Þorláksson, Þórarinn Dúason, Vigfús Sigurjónsson skipstjóri og Gunnar Jóhannsson. Heillaóskaskeyti bárust frá Verkamannafélaginu Þrótti — Kvennadeildinni Vörn, Síldarverksmiðjum ríkisins og Skipstjóra- og stýrimannafél. Ægi. Hannes Jónasson flutti Elliða svohljóðandi árnaðarósk í bundnu máli:
Elliða grandi ei Elli,
ungur sá verði lungur
sævar, um alla æfi,
aflstór í veðratafli.
Horskar og harla röskar
hetjur, sumar og vetur,
stýri þeim stælta knerri,
stafnfríðum, alla jafna.
Afhenti hann bæjarstjóra visuna og skoraði á hina mörgu og snjöllu hagyrðinga bæjarins að gera sína vísuna hver og senda bæjarstjórn. Er ekki að efa að margir munu verða við þessari áskorun og mun Eiliði því eignast með þessu skemmtilegt vísnasafn næstu daga. Einnig las bæjarstjóri aðra heillavísu til Elliða, sem borizt hafði fyrr um daginn. Eyþór Hallsson talaði af hálfu togaranefndar. Sagði hann, að af þeim mönnum, sem á einn eða annan hátt hefðu stuðlað að framgangi togaramálsins, ættu Siglfirðingar Þórarni Olgeirssyni mest að þakka. Samkomunni var slitið kl. 12 Á mánudaginn kl- 1—6 síðd. var togarinn til sýnis fyrir bæjarbúa og skoðaði hann mikill fjöldi manns.

Mjölnir. 39 tbl. 22 október 1947.
                                          

B.v. Elliði SI 1 við öldubrjótinn á Siglufirði.             (C) Hinrik Andrésson.
 
B.v. Elliði SI 1 í Reykjavíkurhöfn.                               Ljósmyndari óþekktur.
 
B.v. Elliði SI 1 að sökkva.                             Málverk Sigurðar Konráðssonar.
 
B.v. Elliði SI 1. Líkan af honum og Hafliða SI 2.   (C) Þórhallur S Gjöveraa.


 

         26 mönnum bjargað af Elliða
          Tvo hrakti burt í gúmmíbát


Siglufjarðartogarinn Elliði sökk í gærkvöld í Jökuldjúpi eftir að hafa legið á hliðinni í hálfan fimmta tíma fullur af sjó. Af 28 manna áhöfn bjargaði togarinn Júpíter 26 en tveir voru í gúmmíbát sem sleit frá Elliða skömmu eftir að hann lagðist á hliðina. Fjöldi skipa leitaði gúmmíbátsins um miðnætti í nótt, þegar blaðið fór í pressu. Elliði var staddur í Jökuldjúpi 25 mílur undan Jökli í vestanroki og stórsjó um klukkan sex síðdegis í gær. Kom þá skyndilega leki að skipinu svo lestarnar fylltust af sjó. Skipið tók að hallast ört og klukkan hálfsjö var hallinn orðinn 70 gráður. Var þá tekið að setja út gúmmíbátana en þeir reyndust ýmist ónýtir eða veður og sjór sleit þá frá skipinu. Tveir menn voru komnir í einn bátinn þegar hann slitnaði frá. Elliði hafði stöðugt loftskeytasamband við land, og strax og vitað var um mennina tvo á reki í gúmmíbátnum bað Slysavarnafélagið báta í Ólafsvík, á Sandi og í Grafarnesi að hefja leit. Henry Hálfdánarson, skrifstofustjóri félagsins, tjáði Þjóðviljanum í gærkvöld að 12 bátar væru að leita.
Rétt fyrir klukkan sjö slitnaði korkfleki með tveim mönnum á frá Elliða. Liðu svo tveir klukkutímar að skipverjarnir 24 sem eftir voru um borð vissu tvo félaga sína á reki í gúmmíbát og tvo aðra á fleka í hafróti og náttmyrkri. En um níuleytið vildi svo gæfulega til að togarann rak beint á flekann, og komust mennirnir tveir um borð aftur. Togarinn Júpíter undir stjórn hins gamalreynda skipstjóra Bjarna Ingimarssonar var það skip sem næst var Elliða og hélt strax á vettvang þegar neyðarkallið barst. Ferðin tók nærri fjóra tíma vegna veðurs og ölduróts, þótt tiltölulega stutt væri milli skipanna. Elliði hallaðist alltaf meira og meira og seig jafnt og þétt í sjó. Skipverjar höfðu geymt einn gúmmíbátinn, og á tíunda tímanum þegar sýnt var, að skipið myndi sökkva ætluðu þeir að grípa til hans, en hann reyndist þá ónýtur. Um klukkan tíu kom Júpíter á vettvang. Var línu strax skotið yfir í Elliða og tókst það vel. Drógu síðan Elliðamenn einn af gúmmíbátum Júpíters til sín. Hafði hann verið styrktur sérstaklega, því að bátar þessir þola ekki drátt eins og þeir koma fyrir. Voru allir sem á Elliða voru síðan dregnir yfir í Júpíter í einni ferð um klukkan hálf ellefu. Mátti það ekki seinna vera, því tæplega ellefu var togarinn sokkinn. Björgunin gekk í alla staði vel. Enginn mannanna var meiddur. Aðstaða til björgunar var afar erfið.
Veður var heldur að batna þegar mönnum af Elliða var bjargað og skygni að lagast. Ákvað Bjarni skipstjórj á Júpíter að hefja þátttöku í leitinni að mönnunum tveim á gúmmíbátnum. Voru þá bátar frá Snæfellsneshöfnum búnir að raða sér upp til leitar með jöfnu millibili. Gizkað var á eftir rekstefnu að bátinn myndi bera fyrir Öndverðarnes inn á Breiðafjörð. Sumir töldu ólíklegt að komið yrði auga á hann fyrr en birti, en aðrir álitu vel hugsanlegt að unnt yrði að finna hann í nótt, því að ljós á að vera á þessum bátum. Veður var heldur að batna þegar mönnum af Elliða var bjargað og skygni að lagast. Ákvað Bjarni skipstjórj á Júpíter að hefja þátttöku í leitinni að mönnunum tveim á gúmmíbátnum. Voru þá bátar frá Snæfellsneshöfnum búnir að raða sér upp til leitar með jöfnu millibili. Gizkað var á eftir rekstefnu að bátinn myndi bera fyrir Öndverðarnes inn á Breiðafjörð. Sumir töldu ólíklegt að komið yrði auga á hann fyrr en birti, en aðrir álitu vel hugsanlegt að unnt yrði að finna hann í nótt, því að ljós á að vera á þessum bátum. Sem fyrr segir var 28 manna áhöfn á Elliða. Fara hér á eftir nöfn skipverjanna:
Kristján Rögnvaldsson, skipstjóri, 30 ára.
Axel Schiöth, 1. stýrimaður, 32 ára.
Arngrímur Jónsson 2. stýrimaður, 22 ára.
Jens Pálsson frá Reykjavík, 1. vélstjóri, 56 ára.
Rögnvaldur Rögnvaldsson, 2. vélstjóri, 40 ára.
Sigurgeir Jósefsson, 3. vélstjóri, 53 ára.
Matthías Jóhannsson, kyndari, 44 ára.
Pétur Þorsteinsson, kyndari, 39. ára.
Birgir Óskarsson, loftskeytamaður, 22 ára.
Hallur Ólafsson, bátsmaður, 30 ára.
Jón Rögnvaldsson, matsveinn, 38 ára.
Ólafur Björnsson, 2. matsveinn,, 17 ára.
Friðrik Björnsson, háseti, 17 ára.
Haukur Kristjánsson, háseti, 33 ára.
Jóhann Örn Matthíasson, háseti, 16 ára.
Hjalti Björnsson, háseti, 22 ára.
Örn Pálsson, háseti, 21 árs.
Hólmar Frímannsson háseti, 28 ára.
Kristinn Konráðsson, háseti, 21 árs.
Sigurður Jónsson, háseti, 15 ára.
Páll Jónsson, háseti, 17 ára.
Egill Steingrímsson, háseti, 33 ára.
Ólafur Matthíasson, háseti, 18 ára.
Guðmundur Ragnarsson, háseti, 19 ára.
Steingrímur Njálsson, háseti, 19 ára.
Óskar Vilhelm Friðriksson, háseti, 30 ára.
Jón Vídalín Sigurðsson, háseti 48 ára.
Sigurjón Björnsson, háseti, 70 ára.
Kristján Rögnvaldsson hefur verið skipstjóri á bv. Elliða í rúm þrjú ár, farsæll skipstjórnarmaður og aflasæll. Tveir bræður hans voru með honum á togaranum, þeir Rögnvaldur 2. vélstjóri og Jón matsveinn. Aðrir bræður voru einnig um borð, þeir hásetarnir Friðrik og Hjalti Björnssynir. Þá eru í hópi skipverjanna feðgar, Matthías Jóhannsson kyndari og sonur hans Jóhann Örn háseti. Langflestir skipverjanna á Elliða eru Siglfirðingar. Auk Jens Pálssonar vélstjóra munu einn eða tveir hásetanna vera héðan frá Reykjavík.

 

Þjóðviljinn. 11 febrúar 1962.
 

Vélbáturinn Skarðsvík SH 205 var smíðaður í Frederikssund í Danmörku árið 1960. 86 brl. 400 ha. Mannheim vél. Báturinn var í eigu samnefnds hlutafélags á Rifi.   Ljósmyndari óþekktur.

   
       Skarðsvík sökk á heimleið úr
                leitarleiðangrinum


Skarðsvík SH 205, sá báturinn sem fyrstur komi að gúmmíbátnum með hinum látnu mönnum tveim af Elliða, kom ekki aftur úr þeirri leit. Leki kom að bátnum um 15 sjómílur V-NV af Öndverðarnesi um 2 leytið í gær er hann var á leið heim og sökk hann. Áhöfnin, 6 manns, komist á gúmmíbátnum yfir í Stapafellið. Sem dæmi um það hve ört lekinn magnaðist í Skarðsvík má geta þess, að fréttaritari blaðsins á Hallissandi var ásamt fleiri Snæfellingum staddur við Hvítárbrú í áœtlunarbílnum til Reykjavíkur er Skarðsvíkin heyrðist senda frá sér hjálparbeiðni, en bíllinn var ekki kominn lengra en í Hvalfjörðinn er fólkið heyrði gegn um talstöðina að Skarðsvíkin var sokkin. Skipstjórinn á Skarðsvík var hinn kunni aflakóngur þar vestra Sigurður Kristjónsson, enda hafði báturinn skilað þriðjungi hærri afla en næsti bátur í þeim 19 róðrum sem af eru þessari vertíð. Í gær áttum við símtal við Sigurð, sem skýrði frá því sem gerðist;
Um 7 leytið á laugardagskvöldið fór Skarðsvíkin út til að leita að gúmmíbátnum af Elliða ásamt öðrum Snæfellsnesbátum og var við leitina þar til báturinn fannst. Þið komuð fyrstir báta að gúmmíbátnum, Sigurður? Báturinn var á hvolfi og mennirnir lágu á botninum í sjó. Hann var á svipuðum slóðum og togarinn sökk. Vindáttiin hafði breytt sér og hann rekið eitthvað til baka. Við vorum búnir að leita innar en farnir að leita á þessum slóðum. Við létum skipherrann á Óðni vita og hann tók líkin. Við voru rétt lagðir af stað í land, þegar lekans varð vart frammi í og sjórinn flæddi inn. Við vorum nýbúnir að fá okkur að borða þar, og tveir menn voru þarna enn. Hvað heldurðu að hafi komið fyrir. Sló báturinn úr sér? Það tel ég útilokað. Þetta var miklu meiri leki en það. Það var engu líkara en eitthvað mikið hefði opnazt. Hvernig var veðrið þá? Það voru 6—7 vindstig og var að ganga upp í NA ofan í vestan sjó. Við sendum út hjálparbeiðni. Óðinn var í ca. 15 mílna fjarlægð og var kominn eftir 45 mínútur. Hann tók okkur á slef. Það voru 10 mílur í var og hefðum við komist í sléttan sjó, þá gat verið að hægt yrði að koma við dælu og það dygði.
En báturinn fylltist á hálfum öðrum klukkutíma. Þegar við þorðum ekki að vera lengur um borð yfirgáfum við hann. Þá voru komnir til okkar togarinn Þorkell máni og Júpiter, sem var með skipbrotsmennina af Elliða og Stapafellið, sem tók okkur upp. Þess má geta í þessu sambandi að skipstjórinn á Stapafellinu er Guðmundur Kristjánsson, bróðir Sigurðar á Skarðsvíkinni. Voruð þið komnir yfir í Stapafellið, þegar Skarðsvikin sökk? Já, hún sökk 5 mínútum eftir að við vorum farnir frá borði. Okkur gekk vel að komast yfir á gúmmíbátnum. En var ekki orðin slæm aðstaða á Skarðsvíkinni, eftir að hún var farin að síga svona mikið í sjóinn? Það hlýtur að hafa gengið yfir allt skipið. O, o, ekki svo ýkja slæmt. Við vorum að græja okkur. En veðrið fór versnandi.
Skarðsvíkin var nýr bátur, kom til landsins í ársbyrjun 1961. Hann var 87 smál. að stærð og búinn fullkomnustu tækjum. Er það mikið áfall fyrir byggðarlagið á Rifi að missa þetta góða skip undan þessum mikla aflamanni sem Sigurður Kristjánsson er, Áður en hann tók við Skarðsvíkinni var hann með Ármann og síðan Stíganda frá Ólafsfirði og alltaf manna aflahæstur. Áhöfnin á Skarðsvíkinni var öll frá Rifi. Mennirnir voru:
Sigurður Kristjónsson, skipstjóri.
Friðjón Jónsson stýrimaður.
Sigurður Árnason vélstjóri.
Almar Jónsson, matsveinn.
Guðmundur Guðmundsson, háseti.
Sigurjón Illugason, háseti.
 

Morgunblaðið. 13 febrúar 1962.

 

Flettingar í dag: 222
Gestir í dag: 9
Flettingar í gær: 693
Gestir í gær: 60
Samtals flettingar: 852280
Samtals gestir: 62759
Tölur uppfærðar: 18.6.2024 01:46:01