06.10.2017 21:44

Þilskipin Fönix og Róbert á Eyjafirði.

Tvö af Þilskipum bræðranna, Magnúsar og Friðriks Kristjánssona liggja fyrir akkerum út af útgerðarstöð þeirra á Þórsnesi í Eyjafirði. Róbert EA 9 (hægra megin), var keyptur frá Noregi árið 1903, en mun hafa verið skoskur að uppruna, smíðaður árið 1879. Þetta var kútter, 30 brl að stærð. Skipstjórar á honum voru m.a. Magnús Jóhannsson frá Akureyri, dugnaðarmaður mikill. Er Magnús hætti, tók við skipstjórn Eiður Benediktsson og var með skipið samfleytt í 15 ár og mjög farsæll. Árið 1916 var sett 25 ha. Dan vél í Róbert og gekk hann eftir það á síldveiðar með herpinót að sumrinu. Róbert strandaði á Hornvík 5 maí 1923 og brotnaði í spón. Einn maður fórst, hann hét Sigtryggur Sigtryggsson og var stýrimaður á Róbert.
Fönix EA 25 (til vinstri) var smíðaður á Akureyri árið 1901 af Bjarna Einarssyni skipasmið og mun hann hafa átt í skipinu með þeim bræðrum. Fönix var 10,66 brl að stærð, stokkbyrtur, en með kútterslagi. Árið 1911 varð Magnús einn eigandi Fönix. Sú var nýlunda um útgerð þessa báts, að hann gekk til hákarlaveiða bæði vetur og vor fyrstu árin. Byrjaði hann vanalega veiðar um áramót. Fyrsti skipstjóri var Þorleifur Þorleifsson frá Siglunesi. Árið 1908 var sett hjálparvél í Fönix. 1915 var hann lengdur og búinn stærri vél. Endalok hans urðu sú að hann sökk út af Siglunesi í ágústmánuði árið 1923. Var hann þá á leið til Siglufjarðar fullhlaðin salti og tunnum. Mannbjörg. Fullvíst var talið að Fönix hafi sokkið vegna ofhleðslu. Hann var þá kominn í eigu Ásgeirs Péturssonar útgerðarmanns á Akureyri.

Þilskipin Fönix og Róbert við ankeri á Eyjafirði.                                          (C) Hallgrímur Einarsson.

Skipshöfnin á Róbert árið 1913.                                                       Ljósmyndari óþekktur.

       Skipsströnd og mannskaðar

      3 seglskip og 2 vjelbátar stranda

Menn töldu það ekki ólíklegt, að norðangarðurinn, er skall á fyrir helgina síðustu, mundi einhversstaðar gera usla á skipum eða mönnum. Bæði var það, að veðrið skall á mjög fljótt, og eins hitt, að því fylgdi frost og stórhríð, og var hið harðasta. Nú hefir það frjest, að uggur manna um þetta hefir ekki verið ástæðulaus.
Þrjú seglskip og tveir vjelbátar hafa rekið á land, og einn maður drukknað. Er þó ekki frjett alstaðar að enn. Á Hornvík strönduðu tvö skip af Norðurlandi, "Róbert" af Akureyri, eign Ásgeirs Pjetursonar, og brotnaði í spón. En hitt af Siglufirði, "Kristjana", eign Sameinuðu verslananna og rak hana upp á sanda, svo hún er talin lítt skemmd. Af "Róbert" drukknaði einn maður, Sigtryggur Sigtryggsson frá Ytri-Haga á Árskógsströnd. Þá rak ennfremur upp tvo vjelbáta á Hornvík, "Björninn", eign Sigfúsar Daníelssonar og fleiri, og "Farsæl", var hann frá Súðavík, Brotnuðu þeir báðir í spón. Á Haganesvík í Fljótum, rak á land seglskipið "Flink", eign Höepfnersverslunar á Akureyri. Er ófrjett enn, hvort hann hefir brotnað eða ekki. En miklar líkur eru til þess, því landtaka er víðast ill í Haganesvík. Öll þessi skipströnd munu hafa orðið á föstudagssólarhringnum, því þá var veðrið mest og stórhríðin dimmust þar norður.
Á þessum sama tíma og veðrið skall á, var póstbáturinn, sem gengur um Ísafjarðardjúp, á leið frá Akureyri til Ísafjarðar með beitusíld. Skall garðurinn á hann í miðjum Húnaflóa og var ekkert viðlit að leita lands fyrir stórhríðardimmu. Var bátnum því nauðugur einn kostur að forðast land og leitaði hann því til hafs svo sem unt var. Kenndi hann ekki lands í þrjá sólarhringa. En á sunnudagsmorguninn  var hann kominn upp undir Látrabjarg. Og hafði misst bátinn, eldhús, sem var ofan þilfars, og brotnað eitthvað meira. Þykja það undur, að baturinn skyldi slanka fyrir Horn og alla Vestfirði alla leið suður að Bjargi, og telja menn það þrekvirki.
Þrjá báta vantaði, alla úr Eyjafirði, einn frá Dalvík og tvo frá Höfða. En þeir komu allir í leitirnar í gærmorgun. Höfðu þeir legið við Grímsey yfir alla stórhríðardagana og ekkert um þá haggað.

Morgunblaðið. 9 maí 1923.

                 Fönix sekkur

Mótorskipið »Fönix, eign Ásgeirs Péturssonar, sökk úti fyrir Siglunesi á Sunnudaginn var. Var það á leið til Siglufjarðar, drekkhlaðið með salt og tunnur. Menn björguðust nauðuglega í skipsbátinn. Skip og farmur var óvátrygt.

Verkamaðurinn.  7 ágúst 1923.


05.10.2017 16:29

Kristján EA 390. TFDI.

Kristján EA 390 var smíðaður í Noregi (Stavanger ?) árið 1919. Eik og fura. 67 brl. 80 ha. June Munktell vél. Eigandi var Guðmundur Pétursson útgerðarmaður á Akureyri frá 2 október 1923. Skipið var lengt á Akureyri árið 1937, einnig var sett ný vél, 150 ha. Völund vél. Selt 25 apríl 1952, Sameignarfélaginu Kristjáni á Ólafsfirði, hét Kristján ÓF 26. Ný vél (1953) 330 ha. Gray GM díesel vél. Selt 6 desember 1961, Niðursuðu og hraðfrystihúsi Langeyrar í Súðavíkurhreppi, hét þá Kristján ÍS 125. Skipið rak á land við Langeyri 20 janúar árið 1964 og eyðilagðist.


Kristján EA 390 á síldveiðum.                                                           (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

       Allt hjálpaðist að, Kafbátur,                     flugvél, ísing og leki

          Guðmundur Jörundsson               útgerðarmaður rifjar upp hættuför á                            stríðsárunum

Á vetrarvertíðinni 1940 stunduðu nokkuð mörg íslenzk fiskiskip flutning á ísuðum fiski frá Vestmannaeyjum og fleiri stöðum til Fleetwood í Englandi, þar á meðal m/s Kristján frá Akureyri, sem ég undirritaður var skipstjóri á. Sjóferð sú sem nú skal frá greina, var einhver háskalegasta, sem ég upplifði á 25 ára skipstjórnartíð minni hófst frá Vestmannaeyjum þann 28. marz 1940. Veður var suðvestan 8 til 10 vindstig með tilheyrandi rigningu. Fjögur skip lágu í höfninni fullfermd og ferðbúin með úrvals fisk, sem Bretar biðu eftir að fá á matborðið í sínum matarskorti. Ekkert skipanna virtist ætla að leggja í að fara út um hafnarmynnið, enda voru hafsögumenn í miklum vandræðum venjulega þegar illa viðraði og erfitt var að komast úr skipunum í hafsögubátinn á staðnum. Þennan sama dag hafði ég haft samband við umboðsmann okkar í Fleetwood, Þórarinn Olgeirsson, og ráðlagði hann mér eindregið að leggja áherzlu á að brjótast út til að komast á markaðinn, sem hann sagði að yrði fisklaus.
Ég hélt því á fund hafnsögumanns og spurði hann ráða og hvort hann teldi ekki fært út úr hafnarmynninu og ennfremur hvort hann mundi leyfa mér að fara án hafnsögumanns. Okkur samdi ágætlega og varð það að ráði að ég freistaði þess að fara úr höfn. Veðurofsinn var enn svipaður og áður, enda var Ægir gamli óspar á hnúta og hnykla, sem hann lét yfir skip mitt ganga. Fátt bar nú til tíðinda næstu tvo sólarhringa. Veðrið hélst svipað, en sjólag batnaði eftir því sem við fjarlægðumst landgrunnskantinn. Um nóttina 30. marz vakti 1. vélstjóri mig og segir lensidælu skipsins ekki hafa undan miklum leka, sem kominn sé að skipinu. Lét ég strax hægja á aðalvélinni og halda skipinu í andófi. Þá reyndum við stýrimaðurinn og ég að komast framí þar sem okkur grunaði að lekinn kynni að vera með "klussi" á bakborða, sem "patentakkeri" var í. Þegar niður í lúkarinn kom, heyrðist hviss í hvert sinn þegar skipið hjó í báru. Það fyrsta sem gera þurfti var að ná akkerinu úr "klussinu" og það tókst með því að snúa skipinu undan veðrinu. Greinilegt var að timburbyrðingur skipsins var fúinn kringum "klussið". Röktum við þá sundur kaðla til þess að fá hamp, börðum við hann niður með "klussinu", skárum síðan sundur lóðabelgi og negldum þá yfir kampinn. Lekinn virtist næstum búinn. Var því sett á fulla ferð og allt virtist í lagi. Næsta sólarhring var vindur orðinn suðlægur u.þ.b. 7 vindstig. Ganghraði skipsins var nú í kringum 5-6 hnútar. Hvað um það, við nudduðum þó í rétta átt. Kl. 1 næstu nótt kom mikill leki að skipinu. Ég lét minnka ferðina og skiptum við með okkur vöktum á handdælunum og þannig gekk fram í birtingu, en þá batt ég um mig línu og krafsaði mig fram með öldustokknum þar til ég kom fram að lúkarskappanum. Sá ég þá að kappinn hoppaði upp og niður hvert sinn sem skipið hjó í báru. Nú kom sér vel að er ég lagði af stað frá Akureyri í ársbyrjun hafði ég látið smíða eikarslagbranda og járnteina, sem þvinguðu kappann niður í sitt sæti. Ennþá varð að snúa skipinu undan veðrinu á meðan við reyndum að þétta lekann á kappanum.


Kristján EA 390 á sildveiðum. Myndin er tekin frá togaranum Garðari GK 25 frá Hafnarfirði af Guðbjarti Ásgeirssyni.

Við mökuðum koppafeiti á milli bita og kappa og þrælhertum svo slagbrandana. Þetta tókst og lekinn varð sáralítill. Til gamans vil ég geta þess, að nótt eina, áður en ég fór af stað frá Akureyri, dreymdi mig kappaskömmina. Draumurinn var nú ekki merkilegri en svo að mig dreymdi að kappinn var nýtjargaður, en skipið sjálft allt hvítmálað. Það var auðvelt að ráða þennan drauminn, enda var það mitt fyrsta verk morguninn eftir að láta smíða umrædda slagbranda með sínum búnaði. Mér hetur síðan sýnst að sú smíði hafi orðið okkur til lífs. Veður fór nú batnandi og allt lék í lyndi. Á fjórða sólarhring eftir að við kvöddum Vestmannaeyjar komum við í írska kanalinn. Komin var himinblíða og hvergi sást skýhnoðri á lofti. Allt í einu heyrðist feiknarlegur hávaði. Sá ég þá að flugvél hafði rennt sér fram með skipinu í 50 til 60 metra fjarlægð. Tók vélin stóran sveig og kom nú öskrandi og stefndi að skipinu. Kallaði ég til karla minna að flýta sér í skjól. Áður en ég beygði mig niður, sá ég glöggt andlit þeirra manna, sem við stjórn flugvélarinnar voru ásamt manni, sem sat við byssu, og sá ég greinilega nasistamerki á hlið flugvélarinnar. Í næstu atrennu spann vélin sig hátt yfir skipið. Þá sagði kokkurinn, sem var norskur, "Guðmundur, nú skulu helvítin henda sprengin". Nei, það létu þeir vera, en komu ellefu ferðir að skipinu án þess þó að gera okkur nokkurt mein.
Við þessa reynslu opnaðist mér furðuheimur, sem mér var áður ókunnur, en það var þegar vélin í eitt skiptið kom mjög nærri skipinu og skyttan miðaði á okkur byssunni. Þá hefði ég í sjálfsvörn ekki fundið fyrir því að skjóta manninn. Já, þannig eru eflaust áhrif styrjaldanna. Veður var nú hið bezta það sem eftir var leiðarinnar. Þegar til Fleetwood kom gerði ég þau mistök að segja tollvörðunum frá heimsókn vélarinnar. Það hafði það í för með sér að ég var kallaður til yfirheyrslu hjá hernaðaryfirvöldum staðarins. Ætlaði þeim aldrei að Ijúka og eyðilagði þann stutta tíma sem ég ætlaði að hafa til verzlunar fyrir fjölskyldu mína. Um kvöldið komu hermenn með vélbyssu og skotfærakassa um borð og sögðu mér að skjóta hverja þá flugvél sem kæmi inn fyrir 500 yarda frá skipinu. Svo mörg voru þau orð. En við íslendingar hlógum. Að lokinni löndun á fiskinum, sem seldist fyrir mjög gott verð, var framkvæmd bráðabirgðaviðgerð á skipinu, sem reyndist ágætlega. Næsta dag var ráðgert að fara til Runcorn, sem er lítill bær skammt frá Liverpool og sækja þangað saltfarm. Á flóðinu þann dag átti hafsögumaðurinn að koma og fara með okkur til Runcorn. Þegar fara átti af stað, neitaði hafsögumaðurinn að fara, þar sem hann kvaðst hafa frétt af ferðum kafbáta inni í kanalnum.


Guðmundur Jörundsson útgerðarmaður á yngri árum.  

Þá var ekki um annað að ræða, en að treysta á sjálfan sig og við lögðum af stað. Enginn radar var þá kominn til sögunnar og enginn dýptarmælir var í skipinu, þar snerist því allt um kompásinn og handlóðið. Hafnsögumaðurinn í Fleetwood hafði gefið okkur upp stað, þar sem vitaskip átti að vera staðsett. Ennþá var sótþoka og skyggnið aðeins fáir metrar. Allt í einu kom gamall brezkur togari út úr þokunni. Ég bað skipstjórann að gefa mér staðarákvörðun. Hann skellihló og sagði: "Hefurðu hugmynd um hvar þú ert staddur?" Nei, ekki nægilega vel. Þá sagði hann " Við erum á miðju tundurduflabeltinu." Síðan gaf hann mér stefnu og fjarlægð til vitaskipsins, sem var þar skammt frá. Já nú var gott að vera á grunnristu skipi. Nú komum við að færeyska skipinu "Tvej syskin", sem var þá á sömu leið og við að sækja saltfarm. Ég renndi upp að hlið skútunnar og sagði skipstjóranum hvernig málin stæðu, en nú skyldum við flýta okkur áður en fjaraði út. "Já, já du skal bara fara fyrst ég kemur á oftir, gamli!" Þetta gekk allt að óskum og við komumst báðir á leiðarenda óskaddaðir. Þegar við á m/s Kristjáni voru komnir í skipastigann, sem er neðan við Runcorn, og biðum þess að hólfið í stiganum fylltist, heyrum við að bölvað er á íslenzku upp á bryggjukantinum. Þar situr þá á að gizka 10 ára gamall strákur, sem segir í sífellu: "Helvíti, helvíti, Sláturfélag Suðurlands." Þegar upp var komið spurði ég drenginn, hver hefði kennt honum þetta. Hann svarar: "Strákur Fossinn." Sýndi hann mér þá strigapoka, sem á stóð Sláturfélag Suðurlands. Þegar upp var komið úr skipastiganum, komu í Ijós nýir erfiðleikar; það er að segja, skipið hafði ekki fengið neinn toll og þar af leiðandi var engin flaska til handa hafnarverðinum. "Hverslags skip er þetta eiginlega?" spyr aumingja maðurinn og stígur á land af bátapallinum.
Ég sá að nú dugðu ekkert nema liðlegheit, svo ég hljóp á eftir manninum og lofa honum því, að hann skuli fá tvær flöskur af viskí, þegar ég komi næst að sækja salt. Þar með horfði málið allt öðru vísi við fyrir blessaðan manninn og ég fékk stimpilinn á ferðakortið upp til Runcorn. Allt gekk nú að óskum og við héldum út á Atlantshafið í góðu veðri fyrstu tvo dagana. Á þriðja sólarhring frá því við yfirgáfum vitaskipið, fór veðrið að versna og norð- austan illviðri tók við beint í nefið hjá okkkur. Um hádegisbilið kom ég upp í brú frá því að matast og leit út um bakborðsglugga. Kom þá heljar mikill skrokkur upp úr sjónum og göslaði áfram á móti brælunni. Skellt var upp hlera á turni kafbátsins og tveir hausar með kíki gláptu á okkur. Ekkert gerðist, kafbáturinn hvarf. Sennilega hefur þeim þótt skotmarkið lítilfjörlegt. Áfram hélt norðaustanáttin með tilheyrandi frosti. Ganghraði skipsins var afar lítill svo hægt miðaði okkur að Íslandsströndum. Mest angraði okkur sambandsleysið við land. Þóttumst við vita að nú væri fólkinu okkar farið að líða illa, þar sem ekkert hafði fréttst frá okkur á níunda sólarhring. Annað kom nú í Ijós, sem áhyggjum olli, en það var að brennsluolían var nú að ganga mjög til þurrðar.Ég sendi þá eftir 1. vélstjóra og ræddum við vandann.


Kristján EA 390 á Eyjafirði.                                                             Ljósmyndari óþekktur.

 Okkur kom saman um að minnka álag aðalvélarinnar niður í 2/3 og með því móti spara olíuna allverulega. Nú bættist við áhyggjur okkar vaxandi ísing á skipinu, en við það að minnka ferðina, þá dró að sjálfsögðu úr sjólöðri yfir skipið, sem fljótt var að mynda íshellu. Nú var reynt að lóða en enginn botn fannst. Já, nú var hann fyrst dökkur í álinn. Hvað átti til bragðs að taka? Ég fór einn inn í "bestikkið" og gerði enn á ný upp reikninginn við sjókortið og sjálfan mig. Klukkan var nú 11.45. Skyndilega rofar til í hríðinni og ég sé til sólar stuttan tíma. Ég hleyp inn í klefann minn og næ í gamlan sextant sem ég átti þar og næ að mæla breidd í hádegi, örugglega að mér virðist. Á meðan ég er að útfæra reikninginn og heimfæra hann við kortið, þá skellur hriðarþykknið saman. Þvílík guðssending var þessi sólargeisli, þótt stuttur væri. Ég hringi á fulla ferð og geri mér grein fyrir að ég verð að ná Langanesi áður en myrkrið skellur yfir. Klukkan 5 í eftirmiðdag sáum við rofa í blessuð fjöllin á austurströnd Íslands, það var gleðistund, en djúpt var orðið á þilfarinu vegna mikillar ísingar og ekki gott að segja hver myndi verða sigurvegarinn, ef svo færi sem horfði. Áfram var nuddað á hálfri ferð fyrst og fremst til að spara olíuna og jafnframt að forðast ísinguna, sem orðin var illilega mikil. Klukkan 22.00 um kvöldið sást móta fyrir Fontinum og sjógangurinn minnkaði. Þegar komið var upp á grunnt vatn við Fontinn, var akkerið sett í botninn og það var sælustund eftir allt andstreymið og vökurnar síðustu sólarhringana. Morguninn eftir léttum við akkeri og héldu inn að Skálum og lögðumst þar.
Nú sáum við nokkra karla í vörinni á Skálum, sem voru að glíma við að hrinda bát á flot sjáanlega til þess að hafa samband við okkur, en stöðugt hættu þeir við sjógangsins vegna. Ég ákvað þá að við reyndum að setja Iífbátinn okkar á flot og reyna að freista þess að koma boðum í land. Öll loftnet og vírar voru niðurslitin og því ekki mögulegt að koma neinum boðum frá sér. Á skipinu var 7 manna áhöfn og ráðgerði ég að fara við fimmta mann í bátinn en tveir yrðu eftir í skipinu. Til allrar lukku hugkvæmdist okkur að hafa meðferðis langa línu, ef illa færi. Við börðumst um á árunum til að komast í námunda við fjöruna, en allt kom fyrir ekki, við réðum ekki við ofureflið og þóttumst góðir að geta dregið okkur á línunni að skipinu og drógum síðan bátinn upp í sínum bátsuglum. Hvað sagði nú um veðurútlitið. Ennþá var strekkingur með hríðaréljum og miklum hafsjó. Ég sá þó um eftirmiðdaginn að vindur var að snúast til norðanáttar, en ef við slyppum ekki fyrir Fontinn áður en norðan eða norðaustanáttin kæmi, þá værum við eins og lömb króaðir inn, en við vorum hér fyrir hafnlausri strönd. Ég kallaði nú saman áhöfnina og sagði þeim af fyrirhugan minni. Allir voru þeir því samþykkir að við tækjum þá áhættu að leggja í röstina í stórsjó á þrauthlöðnu skipi.Þá var létt akkeri og haldið út með Langanesi. Þegar komið var út með Fontinum sást best hið hrikalega sjólag. Mikill straumur var sem ýfði öldurnar illilega. Þessi barátta stóð yfir í hálfa klst. Allt í einu vorum við komnir í vestur kantinn á röstinni og vindinn tók að hægja. Vegna olíuleysisins var nú sett á mjög hæga ferð og hífðar upp þrjár þríhyrnur og fékk skipið all góða ferð, því nú var vindurinn kominn að norðan. En ósköp var notalegt að vita sig vera kominn yfir Langanesröst. Þegar komið var vestur undir Melrakkasléttu, sáum við, að með sömu olíunotkun og með hjálp seglanna, þá myndum við komast til Hríseyjar af sjálfsdáðum. Um kvöldið kl. 21.00 tókum við konurnar okkar í Hrísey með okkur til Akureyrar. Já, þær áttu það svo sannarlega skilið eftir allt andstreymið og óttann, eftir að hafa ekkert frétt af okkur í 10 sólarhringa. Að lokum vil ég nota tækifærið til að þakka þeim mönnum, sem með mér voru fyrir frábæran dugnað og atorku, er þeir sýndu, þegar verst gegndi. Ég gleymi aldrei slíkum mönnum og vona að íslenzka sjómannastéttin eigi jafnan fjölda slíkra manna á að skipa.

Lesbók Morgunblaðsins. 21 mars 1981.

04.10.2017 19:28

B. v. Ari GK 238. LBHV / TFHD.

Botnvörpungurinn Ari GK 238 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir Fiskveiðahlutafélagið Ara fróða í Reykjavík. 321 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 735. Hét fyrst Ari RE 147. Selt 14 janúar 1928, Fiskveiðahlutafélaginu Kára í Viðey, fær nafnið Ari GK 238. 9 janúar 1932 er Útvegsbanki Íslands eigandi togarans og fær hann þá sitt gamla nafn og númer, Ari RE 147. Selt 3 september 1932, Ólafi Jóhannessyni & Co h/f á Patreksfirði, hét Leiknir BA 167. Togarinn sökk á Halamiðum 2 október 1936. Áhöfnin, 15 menn, bjargaðist um borð í togarann Gylfa BA 77 frá Patreksfirði.


B.v. Ari GK 238 á veiðum innan um gömlu þilskipin.                      (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


B.v. Leiknir BA 167.                                                                            (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

                Þrjú botnvörpuskip
             og stöðin í Viðey til sölu.

Botnvörpuskipin "Kári Sölmundarson", GK. 153, "Ari", GK. 238 og "Þorgeir skorargeir", GK. 448, eru til sölu. Hverju skipi geta fylgt veiðarfæri og varahlutar, eins og bankinn hefir eignast með skipunum. Til sölu er ennfremur stöð KÁRA-félagsins í Viðey, með bryggjum og öllum áhöldum, eins og bankinn hefir eignast stöðina úr þrotabúi Fiskveiðahlutafélagsins KÁRI. Tilboð í eignir þessar allar sameiginlega eða í hvert skip og stöðina fyrir sig, sendist Útvegsbanka íslands h.f" Reykjavík, fyrir 15. desember næstkomandi. - Reykjavík, 2. desember 1931.   Útvegsbanki Íslands hf.

Vísir 3 desember 1931.

       Togarinn "Leiknir" sökk á Halamiðum
                 Vörpuhleri orsakar skipstapa

Togarinn "Leiknir" frá Patreksfirði sökk í fyrrinótt á Halamiðum. Skipverjar allir björguðust í bátana og síðan um borð í togarann "Gylfa", sem fór með skipshöfnina til Patreksfjarðar, eftir að Leiknir var sokkinn. Leiknir var að karfaveiðum á Halamiðum og í fyrrakvöld kom allt í einu óstöðvandi leki að skipinu, dælurnar höfðu ekki við, og er svo mikill sjór var kominn í skipið, að hætta gat verið á ketilsprengingu, neyddust skipverjar til að yfirgefa skipið. Misstu þeir allt sitt dót, nema það, sem þeir stóðu í. Dagbók 1. vjelstjóra, sem var á verði í vjelarúmi, gefur einna glegsta hugmynd um, með hverjum hætti slysið vildi til. Þar segir svo: "Klukkan 6,10 e. h. kom jeg á vakt og var þá allt í venjulegum gangi. Klukkan 10 er híft upp á hálfri ferð og stoppi. Kl. 10,15 er vjelin stöðvuð og skellur þá afturhlerinn stjórnborðsmegin með óvenju miklu höggi, svo að öryggi fjell úr rafmagnsborðinu, sem var á þilinu, og ljet jeg það í aftur. Kl. 10,25 tek jeg eftir því, að óvenju mikill sjór er í vjelrúmsbotninum. Þar eð hann var tómur þegar verið var að hífa, setti jeg því lensidælurnar í gang og tilkynti lekann. Því næst lýsir vélstjórinn í dagbókinni ýmsum varúðarráðstöfunum, sem hann gerði, en alt kom fyrir ekki, sjórinn jókst jafnt og þjett. Kl. 10,45 kom skipstjóri niður í vjelarrúm og tilkynti vjelstjórinn honum þá, að hann hefði ekki við að dæla. Var sjórinn þá kominn upp í sveifar og flaut yfir ketilrúmsgólfið. Klukkan 11 var sjór farinn að renna inn í miðeldhólfið og þá gaf skipstjórinn skipun um að yfirgefa skipið. Skömmu síðar komu togararnir Gylfi og Egill Skallagrímsson á vettvang og fóru skipverjar um borð í Gylfa. Var síðan komið vírum frá Gylfa um borð í Leikni og helt Gylfi af stað með hann í eftirdragi áleiðis til lands. Leiknir fyltist æ meir af sjó og rúmlega 3 klukkutímum eftir að Gylfi hafði tekið hann í eftirdrag, sökk skipið, og var þá höggvið.á vírana milli skipanna. Skipið sökk austanvert við Nesdýpi á 56 faðma dýpi, um 25 mílur NV af Sauðanesi. Gylfi kom til Patreksfjarðar kl. 10 í gærmorgun með skipshöfnina, og leið öllum vel. Sjópróf byrjuðu kl. 4 í gær. ,,Leiknir" var 321 smálest brúttó að stærð. Byggður í Selby á Englandi árið 1920, og þá keyptur hingað til lands af hlutafjelaginu "Ari fróði". Þá hjet skipið "Ari". 1928 keypti Kárafjelagið í Viðey "Ara" og árið 1932 núverandi eigendur þess, Ó. Jóhannesson á Patreksfirði, sem þá breyttu um nafn á skipinu og nefndu það "Leikni".

 Morgunblaðið 3. Október 1936.

02.10.2017 21:37

859. Ingibjörg EA 363. LBFQ / TFQM.

Ingibjörg EA 363 var smíðuð í Köge í Danmörku árið 1916. Eik og fura. 43,67 brl. 80 ha. Populær vél. Eigandi var Ásgeir Pétursson útgerðarmaður og síldarsaltandi á Akureyri frá septembermánuði sama ár. Báturinn var seldur 11 desember 1916, Guðbjarti Ólafssyni, Páli Halldórssyni, Jóni Ólafssyni og Sölva Víglundarsyni í Reykjavík, fékk nafnið Höskuldur RE 191. Seldur 1926, h/f Hrogn & Lýsi í Reykjavík. Seldur 1928, h/f Bakka (Óskar Halldórsson útgerðarmaður og síldarsaltandi) í Reykjavík. Seldur 1931, Steindóri Hjaltalín á Akureyri. Ný vél (1932) 110 ha. June Munktell vél. Seldur 20 nóvember 1941, Hlutafélaginu í Gerðum, Garði. Báturinn hét Trausti GK 9. Ný vél (1949) 300 ha. G.M. díesel vél. Seldur 2 febrúar 1961, Daníel Þorsteinssyni í Kópavogi, hét Trausti KÓ 26. Ný vél (1962) 170 ha. Caterpillar díesel vél. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 10 apríl árið 1968.


Ingibjörg EA 363.                                                                               Ljósmyndari óþekktur.


Trausti GK 9.                                                                                         (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Trausti GK 9 í Reykjavíkurhöfn. Fjær sér í togarann Gerpi NK 106 frá Neskaupstað. Ljósm. óþekktur.

01.10.2017 23:07

Freyr ÁR 150.

Freyr ÁR 150 var smíðaður í Reykjavík árið 1916. Eik. 11,86 brl. 20 ha. Skandia vél. Tvímastraður mótorbátur með fjögur segl, kantsettur og kútterbyggður. Eigendur voru Jón Helgason á Bergi, Kristinn Gíslason í Einarshöfn, og Guðmundur Jónsson í Steinskoti, allir frá Eyrarbakka. Formaður var Jón Helgason. Freyr var gerður út frá Eyrarbakka frá árinu 1917. Ný vél (1928) 32 ha. Tuxham vél. Báturinn var gerður út frá Sandgerði flestar vertíðir. Freyr slitnaði upp frá bóli í Þorlákshöfn 28 mars árið 1940 í óveðri og stórbrimi og eyðilagðist.


Freyr ÁR 150 undir seglum.                                                              (C) Haraldur Lárusson Blöndal.


30.09.2017 21:56

B. v. Garðar GK 25 á síldveiðum.

B.v. Garðar GK 25 á síldveiðum um miðjan 4 áratuginn. Togarinn liggur hér við ankeri, sennilega á Húnaflóa. Skipverjar hafa lokið við að háfa úr nótinni og eru að koma henni í nótabátanna og gera klárt fyrir næsta kast. Skipið orðið vel hlaðið að sjá, kannski eitt kast í viðbót og þeir komnir með fullfermi. Síðan haldið til hafnar, trúlega inn á Reykjarfjörð og landað í Djúpavík. Garðar var smíðaður hjá Smith´s Dock Co Ltd. South Bank í Middlesbrough á Englandi árið 1930 og var þá stærsti togari Íslendinga, 462 brl og var í eigu Einars Þorgilssonar í Hafnarfirði. Skipstjóri á Garðari var Sigurjón Einarsson sem ætíð var í fremstu röð aflamanna og brautryðjandi ýmissa nýjunga og gætinn skipstjórnarmaður. Örlög Garðars urðu dapurleg. Hann var sigldur niður undan ströndum Skotlands 21 maí árið 1943. 3 menn fórust en 10 björguðust í skipsbát og var bjargað þaðan um borð í árekstrarskipið sem var Miguel de Larrinaga frá Liverpool.
B.v. Garðar GK 25 á síldveiðum.                                                                (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Garðar GK landar síld í Djúpavík á stríðsárunum.                                        (C) Sigurjón Vigfússon.

30.09.2017 12:19

Síldveiðiskip við bryggju á Akureyri um 1930.

Á myndinni liggja þrjú síldveiðiskip sennilega við Torfunefsbryggjuna á Akureyri og árið er 1929 eða 30. Skipið til vinstri er Atli SU 460, skip verslunar Sigfúsar Sveinssonar á Norðfirði. Hét fyrst Hugó SI 15 og var smíðaður í Þrándheimi í Noregi árið 1902. Hét síðast Atli NK 1. Skipið var talið ónýtt og rifið í Reykjavík árið 1937. Skipið í miðið er Noreg EA 133, skip Ingvars Guðjónssonar útgerðarmanns á Akureyri, smíðað í Moss í Noregi árið 1902. Ingvar átti skipið frá árinu 1929, þar til það var talið ónýtt og rifið á Akureyri árið 1937. Skipið til hægri er Nonni EA 290, smíðaður hjá Johann C Tecklenborg í Geestemunde í Þýskalandi árið 1891. Hét áður Helgi magri EA 290 og var í eigu Ásgeirs Péturssonar útgerðarmanns á Akureyri. Skipið var talið ónýtt og rifið í Reykjavík árið 1935. Úti á Pollinum er erlent farþegaskip og léttbátur af því fullur af farþegum á leið í land.


Síldveiðiskip við bryggju á Akureyri árið 1929-30.                                      (C) Hallgrímur Einarsson.

24.09.2017 16:10

Skip Skinneyjar-Þinganess í Reykjavíkurhöfn.

Fjögur skip útgerðarfélagsins Skinneyjar-Þinganess á Höfn í Hornfirði voru saman komin í Reykjavíkurhöfn í dag. Þau eru frá vinstri talin; Þórir SF 77, Skinney SF 20, Þinganes ÁR 25 og Steinunn SF 10. Það vantar bara Jónu Eðvalds SF 200 og Ásgrím Halldórsson SF 250 í hópinn. Það mætti halda að skipin væru gerð út héðan frá Reykjavík. Sannarlega fallegur floti sem þeir eiga Hornfirðingarnir.


Skip Skinneyjar-Þinganess í Reykjavíkurhöfn í dag.


2731. Þórir SF 77.


2732. Skinney SF 20 og 2040. Þinganes ÁR 25.


2449. Steinunn SF 10.                                               (C) Þórhallur S Gjöveraa. 24 september 2017.

23.09.2017 20:27

Trillurnar á Norðfirði.

Þær hafa verið margar trillurnar gerðar út frá Norðfirði í gegn um tíðina, jafnt stórar sem smáar. Ég man þá tíð á Norðfirði að á árunum 1985-90 og jafnvel lengur, að á því tímabili voru gerðar út á annað hundrað trillur frá bænum. Ég man það að við vorum að landa úr þeim langt fram á kvöld og þegar síldin byrjaði í október, var það bara viðbót, það kom í okkar hlut, í frystihúsinu að landa síldinni til vinnslu í frystihúsið. Vinnutíminn var oft á tíðum 16 til 18 klukkustundir á dag. En þegar unnið er að því að bjarga verðmætum, var unnið nótt og dag til þess að bjarga því sem bjargað varð og vinnutíminn varð eftir því.


Trillur Norðfirðinga í bólum sínum. Neseyrin í baksýn. Húsin til vinstri eru verslunar og fiskverkunarhús verslunar Sigfúsar Sveinssonar. Húsið sem ber hæst er Lúðvíkshúsið. Hægra megin við það er Bátastöðin og slippurinn. Stjarnan ber í bátana í slippnum. Yst á eyrinni eru hús Dráttarbrautarinnar, en húsið sem ber í Dráttarbrautarhúsin er Þórsskúrinn. Hann var færður fyrir nokkrum árum og er nú staðsettur í fjörunni neðan við Norðfjarðarkirkju. 
(C) Björn Björnsson.

21.09.2017 17:46

Síld söltuð úr togaranum Baldri RE 146 á Akureyri í byrjun síðustu aldar.

Á myndinni er verið að salta síld úr botnvörpungnum Baldri RE 146 á Oddeyrartanganum á Akureyri árið 1913-14. Fátækt fólk sveitanna freistaði gæfunnar eftir betra lífsviðurværi við sjávarsíðuna. Akureyri var engin undantekning á því. Það elti drauminn um að lifa laust undan helsi fátæktarinnar. Á fyrstu áratugum 20 aldarinnar var síldin lausnarorðið í hugum þessa fólks. Þegar líða tók á 4 áratuginn, mátti heyra norður í Reykjarfirði á Ströndum hin fleygu orð; "Af síldinni öll erum orðin rík á Ingólfsfirði og Djúpavík". Síldin hefur löngum verið örlagavaldur í lífi þjóðarinnar, stundum var allt vaðandi í síld og þess á milli ekki neitt, en hún kærði sig kollótta um það, fór sínar eigin leiðir eins og sagt var í þá daga. 


Síld söltuð úr togaranum Baldri á Oddeyrartanga á Akureyri í byrjun síðustu aldar.
(C) Hallgrímur Einarsson.

19.09.2017 19:51

B. v. Apríl RE 151. LBMT.

Botnvörpungurinn Apríl RE 151 var smíðaður hjá Smith´s Dock Co Ltd í Middlesbrough á Englandi árið 1912 fyrir h/f Ísland (Íslandsfélagið) í Reykjavík. 295 brl. 510 ha. 3 þennslu gufuvél. Skipið kom til landsins í ágústmánuði það ár og fór strax á veiðar. Skipstjóri var Hjalti Jónsson (Eldeyjar-Hjalti) og svo tók seinna við skipstjórn á Apríl, Þorsteinn Þorsteinsson, kenndur við Bakkabúð og seinna kenndur við Þórshamar. Apríl var einn af þeim tíu togurum sem seldir voru til Frakklands árið 1917.


B.v. Apríl RE 151.                                                                                         Ljósmyndari óþekktur.


B.v. Apríl RE 151 á Reykjavíkurhöfn. Hafnarframkvæmdir í fullum gangi.       Mynd á gömlu póstkorti.


Hlutabréf í Íslandsfélaginu.

          Botnvörpungurinn Apríl

Apríl heitir nýjasta viðbótin við botnvörpuflota Reykjavíkur. Skipið nýsmíðað, í Middlesbrough á Englandi. Það er 295,19 smál. brt. og er á stærð við þá Baldur og Braga, Thorsteinsons-botnvörpungana. Hefir kostað 165 þús. kr. Íslandsfélagið er eigandi skipsins. Skipstjóri er Hjalti Jónsson, stýrimaður Þorgrímur Sigurðsson og vélameistari Ólafur Jónsson.

Ísafold. 31 ágúst 1912.

   Botnvörpungurinn Apríl sektaður 

Í gær um miðjan dag kom botnvörpungurinn Apríl hingað til þess að láta sekta sig fyrir ólöglegar veiðar í landhelgi. Valurinn hafði tekið hann fyrir utan Ólafsvík í landhelgi og falið Hjalta skipstjóra að fara með kæruna hingað, var hann sektaður um 1000 kr. og veiðarfæri gerð upptæk.

Ísafold. 6 nóvember 1912.

17.09.2017 07:33

B. v. Egill rauði NK 104. TFKC.

Egill rauði NK 104 var smíðaður hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1947 fyrir Bæjarútgerð Neskaupstaðar. 656 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 716. Togaranum var hleypt af stokkunum hinn 24 janúar 1947 og kom hann fyrst til heimahafnar sinnar, Neskaupstaðar 29 júní sama ár. Steindór Árnason skipstjóri í Reykjavík sigldi Agli heim, en hann hafði verið ráðinn framkvæmdastjóri útgerðarinnar. Fyrsti skipstjóri á Agli rauða var Hergeir Elíasson. 1 vélstjóri var Þorsteinn Þórarinsson, báðir úr Reykjavík. Norðfjarðartogararnir Egill rauði og Goðanes voru fyrstu íslensku togararnir sem hófu veiðar á því svæði sem þjóðverjar kölluðu "Rosengarten" eða Rósagarðurinn. Á þessu svæði sem er um 90 til 110 sjómílur suðaustur af Stokksnesi,voru að jafnaði fjöldi þýskra togara sem öfluðu vel af hinum fagurrauða karfa sem einkenndi þessa gjöfulu veiðislóð. Egill rauði strandaði undir innra horni Grænuhlíðar, Teistanum í Ísafjarðardjúpi 26 janúar árið 1955. 5 skipverjar fórust en björgunarsveitum frá Ísafirði og víðar tókst að bjarga 29 skipverjum við hinar verstu aðstæður. Á strandstað togarans má ennþá sjá hluta af flaki hans, m.a. hluta af skrokki hans og margt fleira. Ég á mikið af myndum sem ég tók þarna í fjörunni af flakinu þegar ég var þarna á ferð sumarið 2005.


B.v. Egill rauði NK 104 við innri bæjarbryggjuna í Neskaupstað.                     (C) Björn Björnsson.


B.v. Egill rauði NK 104 á toginu.                                                                      (C) Snorri Snorrason.


B.v. Egill rauði NK 104 með fullfermi í óþekktri höfn (erlendis). Sjá má á myndinni að segl hefur verið dregið yfir afla á dekki togarans.                   Ljósmyndari óþekktur.


Egill rauði á siglingu. Séð fram eftir dekkinu fram á hvalbak. Mynd úr safni Gunnars Þorsteinssonar.


Egill rauði í smíðum hjá Alexander Hall haustið 1946.                         Úr safni Hafliða Óskarssonar.


Fyrirkomulagsteikning af Agli rauða NK 104.                                                      Úr safni mínu.

      Egill rauði var tvo sólarhringa                  og 5 klst frá Aberdeen

Egill rauði, fyrsti bæjartogari Neskaupstaðar, kom þangað frá Englandi í fyrradag kl. 5 eftir tveggja sólarhringa og 5 klst. ferð frá Aberdeen. Er þetta fyrsti togarinn af 7 sem fyrrverandi ríkisstjórn samdi um smíði á þar. Hundruð bæjarbúa fögnuðu komu togarans á bryggjunni, sem var fánum skreytt og fánar blöktu við hún um allan bæ.
Kór undir stjórn Sigdórs Brekkan söng kvæði er Guðmundur Magnússon Vinaminni hafði ort í tilefni af komu togarans. Ræður fluttu af stjórnpalli skipsins, Hjálmar Jónsson bæjarstjóri, Bjarni Þórðarson stjórnarform. bæjarstj., Árni Vilhjálmsson erindreki frá Seyðisfirði, er var sérstakur fulltrúi Fiskifélagsins við móttöku togarans, og Lúðvík Jósefsson alþingismaður, en mannfjöldinn hyllti skipshöfn og skip með margföldu húrrahrópi. Að því loknu skoðaði almenningur skipið og þótti sérstaklega mikið til um íbúðir skipshafnar. Um kvöldið hafði bæjarstjórn boð inni fyrir skipshöfnina og bæjarbúa almennt og sóttu það á þriðja hundrað manns. Jóhannes Stefánsson stjórnaði hófinu. Sr. Guðmundur Helgason flutti ræðu en Guðrún Gísladóttir, formaður Slysavarnafélags kvenna flutti kvæði. Þá var almennur söngur. Jón Guðmundsson eftirlitsmaður ríkisstjórnarinnar með smíði togaranna í Englandi gaf glögga lýsingu á skipinu. Kvað hann Egil sérstaklega vandaðan að öllum frágangi og væru nýsköpunartogararnir íslenzku taldir með glæsilegustu fiskiskipum í heimi. Egill rauði er 648 tonn eða 6 tonnum stærri en Ingólfur Arnarson. Ganghraði hans í reynsluför var 13,5 sjómílur. Olíueyðsla er minni en á hinum fyrri togurum, eða 6,7 tonn á sólarhring með 11,4 mílna gangi. Bæjarútgerð Neskaupstaðar er eigandi skipsins, stjórn hennar skipa, Bjarni Þórðarson formaður, Lúðvík Jósefsson og Eyþór Þórðarson. Framkvæmdastjóri er Steindór Árnason. Skipstjóri er Hergeir Elíasson, 1. vélstjóri Þorsteinn Þórarinsson, báðir úr Reykjavík, en 14 menn af áhöfninni eru úr Neskaupstað. Skorsteinsmerkið er hvít stjarna á alrauðum reykháf. Egill rauði leggur af stað til Reykjavíkur í dag en þar á að setja í hann bræðslutæki.

Þjóðviljinn. 1 júlí 1947.

    Norðfjarðartogararnir veiða karfa                         á nýjum miðum

Togarinn Egill rauði kom inn í fyrradag með 330 tonn af karfa, sem fóru til vinnslu á þremur stöðum á Austfjörðum.
Á Seyðisfirði voru lögð upp 140 tonn og voru 40 tonn af þeim hraðfryst. Á Norðfirði losaði togarinn 190 tonn og fóru 58 tonn til Eskifjarðar til hraðfrystingar. Karfi þessi, sem er ekki mjög stór en mjög fallegur, er veiddur á miðum út af Austfjörðum, sem íslenzkir togarar hafa ekki áður sótt, en þar eru hinsvegar að staðaldri um 30 þýzkir togarar, sem kalla miðin Rosengarten eða Rósagarðinn. Á miðunum er 250 til 285 faðma dýpi. Norðfjarðartogararnir, Egill rauði og Goðanes, munu halda áfram karfaveiðum. Þessar veiðar skapa mikla vinnu, um 250 manns á Norðfirði, Seyðisfirði og Eskifirði fengu vinnu við losun og vinnslu aflans úr þessari veiðiferð Egils rauða.

Þjóðviljinn. 5 júlí 1951.

16.09.2017 08:45

B. v. Júlí GK 21. TFVD.

Júlí GK 21 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1947 fyrir Bæjarútgerð Hafnarfjarðar. 657 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Skipinu var hleypt af stokkunum 24 janúar sama ár og kom hann til heimahafnar, Hafnarfjarðar hinn 16 nóvember 1947. Benedikt Ögmundsson var fyrsti skipstjóri á Júlí og kom hann jafnframt með togarann heim. Benedikt var áður skipstjóri á Maí. Fyrsti stýrimaður var Árni Sigurðsson og fyrsti vélstjóri var Bjartur Guðmundsson. Júlí var fyrsti Nýsköpunartogari Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar. Togarinn fórst á Nýfundnalandsmiðum 8 febrúar árið 1959 með allri áhöfn, 30 mönnum. Hörmulegt sjóslys.

 
B.v. Júlí GK 21.                                                                            Málverk eftir George Wisemann.
 
Júlí GK 21 í Reykjavíkurhöfn í togaraverkfallinu árið 1950. Innan við júlí má sjá í Egil rauða NK 104, togara Bæjarútgerðar Neskaupstaðar.            (C) Hannes Pálsson.
 
B.v. Júlí GK 21.                                                                              (C) Sigurgeir B Halldórsson.
 
B.v. Júlí GK 21 í Færeyingahöfn á Grænlandi.                                       (C) Árni Einarsson.
 
          Tvö ný skip bættust við íslenska                              skipastólinn um helgina

Tvö ný og glæsileg skip bættust í íslenzka skipaflotann um helgina. Nýsköpunartogarinn Júlí kom til Hafnarfjarðar á sunnudaginn og nýja kæliskipið Foldin kom til Reykjavíkur í gærmorgun.
Áður í þessum mánuði höfðu komið nýsköpunartogarinn Askur og vitaskipið Hermóður. Von er á fleiri nýsköpunartogurum í næsta mánuði. Júlí er fimmtándi nýsköpunartogarinn, sem kemur á þessu ári. Áður voru komnir: Akurey, Askur, Bjarni Ólafsson, Bjarni riddari, Egill rauði, Egill Skallagrímsson, Elliðaey, Elliði, Geir, Helgafell, Hvalfell, Ingólfur Arnarson, Kaldbakur og Surprice. Júlí er fyrsti  nýsköpunartogarinn sem Bæjarútgerð Hafnarfjarðar eignast.

Þjóðviljinn. 18 nóvember 1947.

15.09.2017 21:42

Gandur NK 85.

Vélbáturinn Gandur NK 85 var umbyggður í Mjóafirði árið 1925. Fura. 5 brl. 11 ha. Alpha vél. Eigandi var Sveinn Ólafsson í Mjóafirði frá árinu 1925. Hét þá Gandur SU 343. Á því ári var báturinn endurbyggður og lengdur í Mjóafirði og mældist þá 9 brl. Seldur 31 október 1931, Magnúsi Tómassyni og Ólafi Jóni Ólafssyni í Mjóafirði. Ný vél (1932) 16 ha. Wichmann vél. Seldur 18 janúar 1941, Svavari Víglundssyni og Haraldi Hjálmarssyni í Neskaupstað, hét Gandur NK 85. Báturinn fórst í róðri 4 október árið 1942 með allri áhöfn, 5 mönnum. Getgátur voru um að báturinn hefði farist af hernaðarvöldum, en það er óstaðfest.


Gandur NK 85 í bóli sínu á Norðfirði í suðvestan roki.                            (C) Björn Björnsson.


Gandur SU 343 fyrir lengingu í Mjóafirði.                                 Mynd úr safni Gunnars Þorsteinssonar.

 Vjelbáts með fimm mönnum saknað

Vjelbáturinn Gandur frá Norðfirði fór í róður um morguninn síðastliðinn fimmtudag. Síðan hefir ekkert til bátsins spurst, en menn eru þó ekki vonlausir um að báturinn sé ofansjávar. Bátar frá Norðfirði leituðu Gands í fyrradag og í gær var skipulögð leit að bátnum. Lofaði norski flugliðsforinginn að senda flugvjelar til að leita að bátnum. Veður hefir ekki verið það slæmt við Austfirði, að óttast sje, að báturinn hafi farist, hinsvegar er ekki talið ólíklegt, að vjelarbilun hafi orðið hjá bátnum og þar sem hann hafði Ijelegan seglaútbúnað hafi hann rekið til hafs. Slysavarnafjelagið hefir gert ráðstafanir til þess, að allt verði gert sem mögulegt er til að finna bátinn ef hann er enn þá ofansjávar.
Fimm bátar leituðu í gærdag Gands, 47 sjómílur út frá landi og á alllöngu svæði. Enn fremur leituðu tvær norskar flugvjelar 60 mílur til hafs, en leitin bar engan árangur, þrátt fyrir að veður væri bjart.

Morgunblaðið. 4 október 1942.

             M.b. Gandur talinn af

Vjelbáturinn "Gandur" frá Norðfirði, er talinn af. Er leitinni að bátnum hætt. Fimm menn hafa farist með Gandi: Mennirnir voru:
Sigþór Valdimar Runólfsson, formaður, Eskifirði, lætur eftir sig ekkju og 1 barn.
Bjarni Vilhelmsson, Neskaupstað, kvæntur og átti 7 börn í ómegð.
Óskar Marvin Svendsas, Neskaupstað, ungur maður og ókvæntur.
Sigurður Jónsson, Neskaupstað, 15 ára gamall piltur.
Herjólfur Þorsteinsson, Reykjavík, lætur eftir sig ekkju og 1 barn.
Bátar hættu leitinni að Gandi á laugardagskvöld en flugvjelar hjeldu áfram leitinni á sunnudag.

Morgunblaðið. 6 október 1942.

11.09.2017 19:57

Botnvörpungurinn Víðir GK 450 á heimleið af Halamiðum.

Botnvörpungurinn Víðir GK 450 frá Hafnarfirði, vel klakabrynjaður á landleið, sjálfsagt af Halamiðum. Guðbjartur Ásgeirsson tók þessa mynd árið 1917, en hann var þá matsveinn á togaranum. Á þessum tíma voru skipstjórar togaranna að komast upp á lag með að nýta sér þessi fengsælu fiskimið út af Vestfjörðum og sóttu hart á Halann og út í Djúpálinn. Það má því gera ráð fyrir að Víðir hafi verið að koma þaðan eftir barninginn á þessu víðsjárverða hafsvæði á þeim árstíma þegar allra veðra er von. Falleg en í senn kuldaleg mynd.


B.v. Víðir GK 450 klakabrynjaður á heimleið.                                     (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
Flettingar í dag: 367
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 1134
Gestir í gær: 51
Samtals flettingar: 1062992
Samtals gestir: 76987
Tölur uppfærðar: 11.12.2024 16:37:59