10.12.2016 08:43

B. v. Þormóður goði RE 209. TFSD.

Þormóður goði RE 209 var smíðaður hjá A.G. Weser Werk Seebeck í Bremerhaven í Þýskalandi árið 1958 fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur. 849 brl. 1.600 ha. Krupp díesel vél. Skipinu var hleypt af stokkunum 28 janúar árið 1958 og kom til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur hinn 9 apríl sama ár. Þormóður var annar togarinn sem smíðaður var fyrir Íslendinga í Þýskalandi eftir lok seinni heimstyrjaldar og tók hann við hlutverki Nýsköpunartogarans Jóns Baldvinssonar RE 208 sem strandaði við Hrafnkelsstaðaberg á Reykjanesi í lok mars árið 1955. Hans Sigurjónsson var fyrsti skipstjóri togarans. Þormóður goði var í eigu Bæjarútgerðar Reykjavíkur til 27 nóvember árið 1978, eða í 20 ár, en þá var hann seldur Ólafi Óskarssyni útgerðarmanni í Reykjavík, en það er önnur saga sem tekin verður saman hér á næstunni. Þormóður goði var einn af síðustu síðutogurunum sem Íslendingar gerðu út, ef ekki sá síðasti.


226. Þormóður goði RE 209.                        (C) Ásgrímur Ágústsson. Úr safni Hafliða Óskarssonar.

Bjart veður og sólskin var, er Þormóður goði sigldi fánum skrýddur inn á ytri höfnina hér í Reykjavík um klukkan 11,30 f. h. í gær. Þá þegar lögðu margir leið sína niður að höfn til þess að sjá togarann, sem er allur hið glæsilegasta skip. Um kl. 1 síðd. lagðist togarinn að hafnarbakkanum undir kolakrananum. Var þar fyrir allmargt fólk. Á nokkrum byggingum við höfnina var flaggað í tilefni af komu togarans. Um nónbil í gær bauð skipstjórinn, Hans Sigurjónsson blaðamönnum að skoða togarann. Tók hann á móti gestum sínum í hinni glæsilegu skipstjóraíbúð. Þar voru þeir einnig Hafsteinn Bergþórsson framkv.stj. og Þorsteinn Arnalds skrifstofustjóri Bæjarútgerðarinnar. Skipstjórinn skýrði meðal annars frá því, að í síðari reynsluför hefði togarinn náð 15 sjómílna hraða. Hann kvað enga reynslu enn komna á sjóhæfni togarans því ládauður sjór hefði verið alla leiðina. Þjóðverjar sögðu, að þó togað væri í 9 vindstigum, væri hvorki öryggi skipsmanna né skips teflt í tvísýnu. Á heimleið var komið við í Grimsby og tekin þar veiðarfæri og ýmislegt fleira.Þormóður goði RE 209 á Humberánni á leið til Hull.                                      Ljósmyndari óþekktur.

 Eru í togaran um um 400 tonn af salti og á annað hundrað tonn af öðrum farangri, svo að heita má að hann hafi verið ,á hleðslumerkjum', er hann kom. Hann var þrjá sólarhringa frá Grimsby. Skipstjórinn sagði frá nokkrum nýjungum. Á stjórnpalli eru t. d. þrjú stýri, sem nota má til skiptis eftir þörfum. Það er stýri í miðri brúnni, hið venjulega stýri, skipsins, en svo eru stýri á hvorri síðu, sem notuð eru þegar togarinn er að veiðum. Í brúnni sýndi skipstjórinn blaðamönnum tvær fisksjár. Er önnur þýzk, og er hún jafnframt dýptarmælir, en hin er Kelvin-Hughes fisksjá. Þá sýndi hann sérstakan lofthemlaútbúnað fyrir vörpuna, sem verða á til mikils hagræðis við veiðar. Stjórnpallur skipsins er stór og bjartur. Sími er lagður um allt skipið, alls konar rofar og öryggistæki, sem gripið er til, ef eitthvað óvænt ber að höndum, t. d. eld. Loftskeytamaðurinn, Guðmundur Pétursson, sýndi gestunum hina miklu loftskeytastöð togarans. Sagði hann, að stöð skipsins væri það öflug að á stuttbylgjum mætti ná talsambandi við skipið nærri því hvar sem er á þeim siglinga og veiðisvæðum, sem ísl. togararnir kæmu á hér við land og við Grænland. Þá sýndi hann lítið tæki, sem er sjálfvirkur neyðarsendir og setja skal í samband, ef yfirgefa þarf skipið, hvort heldur er vegna strands eða óvæntra atvika á hafi úti. Þessi sjálfvirki neyðarsendir gerir það kleift fyrir önnur skip og strandstöðvar, að miða togarann nákvæmlega út. Gísli Jón Hermannsson, fyrsti stýrimaður, fylgdi blaðamönnunum um skipið.


Þormóður goði RE 209 í Reykjavíkurhöfn.                                                  (C) Valdimar Jónsson.

 Allar íbúðir og gangar eru klæddir að innan með ljósum harðviði.. Eru íbúðirnar hinar vistlegustu og rúmgóðar. Gísli Jón benti á ýmislegt af því, sem nýtt er í þessu skipi. Sérstakur gangur er úr brú og aftur í skipið til mikils hægðarauka og öryggis fyrir skipsmenn. Þegar komið er í hásetaíbúðir, er fyrst komið í þurrkklefa, þar sem skipsmenn fara úr hlífðarfötum, en þar fyrir innan er hvítmálað, bjart snyrtiherbergi. Íbúðir eru allar hitaðar upp með rafmagni. Eru hásetaklefar ýmist 2 eða 4 manna og eru þar inni borð, kollar og bekkir. Rafmagnseldavél er í stóru og rúmgóðu eldhúsi og í matsalnum geta 26 skipsmenn borðað samtímis. Athygljsvert er það og að klampar allir í fisklestinni eru úr aluminium og einangrun fisklestar er jöfn í lofti sem gólfi lestarinnar. Sérstakur stigi er úr stigahúsi við framsiglu, niður í fisklestar. Hafsteinn Bergþórsson framkvæmdastjóri, upplýsti aðspurður, að þessi stóri togari, sem er eign Reykvíkinga, hefði kostað um 14 milljónir króna. Þormóður goði hefur meiri úthaldsmöguleika en nokkur annar íslenzkur togari. Hann getur verið að veiðum án þess að koma til hafnar og endurnýja vatns eða olíubirgðir samfleytt í 45 daga. Hafsteinn sagði að togarinn myndi í fyrstu veiðiförinni veiða fisk til söltunar. Lestarrýmið er það mikið, að ef vel gengur, getur togarinn komið með um 550 tonn af saltfiski úr þessari veiðiför. Það er nær 100 tonnum meira en "methafinn" Þorsteinn Ingólfsson, hefur landað eftir eina veiðiför. Hafsteinn Bergþórsson sagði, að nú ætti eftir að reyna það, hversu vandað skip Þormóður goði væri. Hið ytra væri svo að sjá, sem allt væri sérlega vandað og vandvirknislega af hendi leyst. Skipasmíðastöðin Seebeck í Bremerhaven hefur ekki fyrr smíðað jafnstóran togara. Aðalvél skipsins er 1650 hestafla Krupp vél. Sagði skipstjórinn frá því að í reynsluförinni hefði ekki orðið vart neins titrings, þó snúningshraðinn næði hámarki. Nú þegar er búið að ráða um 30 menn á Þormóð goða. Í gærdag komu um borð nokkrir sjómenn til þess að falast eftir skiprúmi. Væntanlega heldur Þormóður goði til veiða um helgina. Togarinn verður til sýnis fyrir almenning milli kl. 5 og 9 síðdegis í dag.


Þormóður goði RE 209 í Reykjavíkurhöfn á 8 áratugnum.                               Ljósmyndari óþekktur.

Síðdegis í gær skoðuðu borgarstjóri, bæjarstjórn og nokkrir gestir skipið. Formaður útgerðarráðs, Kjartan Thors, flutti við það tækifæri eftirfarandi ræðu: "Virðulegir gestir Bæjarútgerð Reykjavíkur er það mikil ánægja að bjóða ykkur hjartanlega velkomna um borð í þetta nýjasta og stærsta skip útgerðarinnar. Vissulega er slík viðbót við fiskiflota landsmanna merkur og gleðilegur viðburður. Og  efast ég ekki um að flestir íbúar þessa bæjar óski þess af heilum hug að gæfa og gengi megi ætíð fylgja hinu fagra skipi og áhöfn þess. Í fljótu bragði virðist einnig, að ástæðulaust ætti að vera að óttast að slíkar óskir rættust ekki. Þormóður goði mun vera stærsta og fullkomnasta fiskiskip, sem til þessa dags hefir komið í eigu íslendinga. Það er byggt í einhverri þekktustu og beztu togarasmíðastöð, sem starfrækt er í Evrópu, undir umsjón ágætra manna. Ekkert hefir heldur verið sparað til þess að það geti gegnt því forustuhlutverki í veiðiflota íslendinga, sem vonast mætti til af svo stóru og vel búnu skipi. Gera verður einnig ráð fyrir að skiprúm verði eftirsótt og í það veljist úrval ágætis manna. Dagleg stjórn í landi verður einnig í höndum hinna valinkunnu framkvæmdastjóra Bæjarútgerðarinnar. Tvennt er þó það, sem varpar dálitlum skugga á gleði mína. Má þar fyrst nefna hina ískyggilegu aflatregðu, er nú um langt skeið hefir verið á veiðisvæðum togaranna. Og í öðru lagi mjög svo ófullnægjandi starfsgrundvöllur, sem þessum veiðiskipum er búinn. Aflabrestinn ráðum við ekki við, en með bjartsýni útvegsmannsins er sífellt vonað að úr rætist. Ég held að allir séu mér sammála um að starfsgrundvöllur sá, er togararnir búa við, er allsendis óviðunandi. Og þarf þar skjótra úrbóta, ef forða á vandræðum. Hefi ég ástæðu til að ætla, að bráðlega verði gerðar ráðstafanir til lagfæringar.
Að lokum vil ég biðja ykkur, góðir gestir, að rísa úr sætum og sameinast um þá ósk, að þetta nýja skip megi ætíð verða sannkölluð happafleyta. Guð og gæfa fylgi ætíð skipi og áhöfn þess. Það lifi". Gunnlaugur Briem, ráðuneytisstjóri þakkaði af hálfu gesta og árnaði skipinu heilla.

Morgunblaðið. 10 apríl 1958.  

Nýja bæjarútgerðartogaranum var gefið nafnið Þormóður goði

                   Áætlað að skipið verði fullbúið í marz

Hinn nýi togari, er Reykjavíkurbær á í byggingu hjá A. G. Weser "Werk" Seebeck, Bremerhaven, var flotsettur í fyrrdag, 28. janúar og gefið nafnið Þormóður goði. Skrásetningarnúmer hans verður RE 209 og einkennisbókstafir TFSD. Nafngiftina framkvæmdi, samkvæmt ósk borgarstjórans í Reykjavík, frú Magnea Jónsdóttir, kona Hafsteins Bergþórssonar framkvæmdastjóra, er einnig var viðstaddur sem umboðsmaður eigenda skipsins. Ennfremur voru viðstaddir Gísli Jónsson, fyrrverandi alþingismaður, Erlingur Þorkelsson eftirlitsmaður og fyrsti vélstjóri skipsins, Pétur Gunnarsson. Þeir Gísli og Erlingur hafa annazt eftirlit með smíði skipsins. Áætlað er, að skipið verði fullbúið í marzmánuði n. k.

Alþýðublaðið. 30 janúar 1958. 

09.12.2016 12:32

336. Björg NK 103. TFGR.

Björg NK 103 var smíðuð í Skipasmíðastöð Ársæls Sveinssonar í Vestmannaeyjum (Skipasmíðastöð Vestmannaeyja) árið 1947. Eik. 65 brl. 225 ha. Lister díesel vél. Skipinu var hleypt af stokkunum 25 janúar 1947. Smíðanúmer 6. Eigandi var Hlutafélagið Björg í Neskaupstað (Gísli Bergsveinsson og fl.) frá 15 október 1947. Ný vél (1952) 225 ha. Lister díesel vél. Árið 1955 uppgötvaðist þurrafúi í skipinu og þurfti þá að skipta um hvert einasta band aftur að vél og mikið af dekkbitum. Í reyndinni var skipið allt endursmíðað að innan en byrðingurinn var óskemmdur. Árið 1966 varð nafnbreyting á skipinu, hét þá Björg ll NK 3, sami eigandi. Skipið var talið ónýtt vegna þurrafúa og það brennt í Njarðvík 26 júní árið 1967.

Björg NK 103 að landa síld á Raufarhöfn.                                                          (C) Ari Magnússon.


Björg NK 103.                                                                                           Ljósmyndari óþekktur.

08.12.2016 07:30

1396. Gulley KE 31.

Gulley KE 31 var smíðuð hjá Básum h/f í Hafnarfirði árið 1974. 20 brl. 188 ha. Cummins díesel vél. Báturinn hét fyrst Haftindur HF 123 og var í eigu Karels Karelssonar í Hafnarfirði frá 2 október sama ár. Seldur 3 október 1978, Guðmundi Halldórssyni á Drangsnesi, hét Gunnvör ST 39. Seldur 29 desember 1988, Guðmundi R Guðmundssyni á Drangsnesi, sama nafn og númer. Ný vél (1994) 305 ha. Cummins díesel vél, 224 Kw. Báturinn var seldur 2004, Kári borgar ehf á Borgarfirði eystra, hét Glettingur NS 100. Seldur sama ár, Nýju húsi ehf, Vogum á Vatnsleysuströnd, hét Gunnvör ST 38. Seldur árið 2005, Nýju húsi Eignarhaldsfélagi ehf í Reykjavík, hét Lena GK 72, með heimahöfn í Vogum. Árið 2008 er báturinn í eigu Fast fjárfestingu ehf í Njarðvík. Báturinn var seldur árið 2010, Súðvíkingi ehf í Súðavík, hét Lena ÍS 61. Árið 2012 heitir báturinn Móna GK 303, sami eigandi en gerður út frá Sandgerði. Árið 2013 er báturinn skráður í Vogum, sama nafn og númer. Seldur sama ár, Mónu ehf í Reykjanesbæ, báturinn heitir Gulley KE 31 í dag.


Gulley KE 31 við bryggju í Keflavík 13 október 2013.


Gulley KE 31 við bryggju í Keflavík 13 október 2013.


Gulley KE 31 komin á land í Njarðvík 15 maí 2016.                    (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa.

07.12.2016 11:34

493. Gullfaxi ÍS 594.

Gullfaxi ÍS 594 var smíðaður í Skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar á Ísafirði árið 1944 fyrir Kaldbak h/f á Þingeyri. Eik. 19 brl. 60 ha. Kromhout vél. Ný vél (1947) 80 ha. June Munktell vél. Ný vél (1954) 150 ha GM vél. Seldur 7 nóvember 1969. Ólafi Össurarsyni og Ægi S Ólafssyni á Ísafirði. Ný vél (1969) 150 ha. GM díesel vél. 3 desember 1971 var Gullfaxi h/f á Ísafirði eigandi bátsins, sömu eigendur. Ný vél (1973) 230 ha. GM díesel vél. Árið 1979 eru eigendur bátsins Ólafur og Valdimar Össurarsynir á Ísafirði. Báturinn fórst í Ísafjarðardjúpi 25 febrúar árið 1980 og með honum áhöfnin, 2 menn.

Gullfaxi ÍS 594.                                                                                          (C) Leó Jóhannsson.

Gullfaxi ÍS 594 og Dýrafjarðarferjan við Hamarinn í Svalvogum. Hamarinn í Svalvogum er lífhöfn fyrir öllum veðrum nema vestanátt. Þegar stórt átak var gert í ræktunarmálum á nesinu, allt frá Keldudal vestur í Lokinhamradal, var hin glæsilega Dýrafjarðarferja notuð við flutninginn á vélum og tækjum. Dráttarskip ferjunnar var Gullfaxi ÍS 594  16 tonna bátur, smíðaður á Ísafirði fyrir Kaldbak hf. á Þingeyri. Kom í heimahöfn 14. nóvember 1944. Seldur til Ísafjarðar, fórst 25.febrúar 1980 í Ísafjarðardjúpi.
                                                                                                              (C) Kristján Ottósson.    Þriggja rækjubáta með sex mönnum saknað

Óttast er um afdrif þriggja rækjubáta, tveggja frá Ísafirði og eins frá Bíldudal. Tveir skipverjar eru á hverjum báti. Í gærkvöldi fannst gúmbátur af einum bátanna við Skarð á Snæfjallaströnd og stíuborð fundust við Auðkúlu í Arnarfirði, sem talið er að séu af Bíldudalsbátnum. Bátarnir, sem saknað er eru Vísir BA 44,16 tonna eikarbátur frá Bíldudal. Gullfaxi ÍS 594, 19 tonna eikarbátur frá Ísafirði, og Eirikur Finnsson ÍS 26. 17 tonna eikarbátur frá Ísafirði.
Rækjubátar réru frá Ísafirði í sæmilegu veðri í gærmorgun og fóru bátarnir, sem saknað er frá Ísafirði, til veiða í innanverðu Djúpi. Upp úr hádegi var skollið á aftakaveður af suðvestri.  Um klukkan 15 voru bátarnir 'beðnir um að tilkynna sig og þá kom í ljós, að tveggja báta, Gullfaxa og Eiríks Finnssonar, var saknað. Síðast er vitað um Gullfaxa út af Arnarnesi á leið til Ísafjarðar, og um Eirík Finnsson þar sem hann var að hífa innan við Ögurhólma skömmu eftir hádegi, en hafði ekki leitað vars. Þrír línubátar frá Ísafirði fóru til aðstoðar og leitar fyrir klukkan 3 í gærdag og björgunarsveitarmenn frá Súðavík, Ísafirði, Hnífsdal og Bolungavík voru tilbúnir.
 Línubáturinn Guðný fór með átta björgunarsveitarmenn og kom þeim í land á Sandeyri á Snæfjallaströnd við erfiðar aðstæður. Þeir munu ganga ströndina í dag og bændur á Snæfjallaströnd byrjuðu leit á landi þegar síðdegis í gær og menn frá Unaðsdal fundu í gærkvöldi gúmbát, sem talinn er vera úr Eiríki Finnssyni, við Skarð á Snæfjallaströnd. í dag verður leitað á sjó, landi og úr lofti ef veður leyfir. Fyrrnefndar björgunarsveitir munu hafa aðstöðu í húsi SVFÍ í Bolungarvík, en í gær tóku auk fyrrnefndra aðila þátt í leitinni starfsmenn Slysavarnafélagsins í Reykjavík, Landhelgisgæzlu og ísafjarðarradíós. Upp úr hádegi var farið að óttast um rækjubátinn Vísi frá Bíldudal, Frigg BA var þá inni á Bíldudal og var strax beðinn um að fara og svipast um eftir bátnum.
 Þá var varðskipi, sem var miðsvæðis út af Vestfjörðum, snúið við og stefnt í Arnarfjörð. Það hafði áður verið beðið um aðstoð vegna Ísafjarðarbátanna, en snúið við þar sem færri skip voru til leitar í Arnarfirði. Vísir hafði verið að hífa fyrir innan Gíslasker þegar síðast fréttist, en bátarnir Vísir og Pílot BA 6 höfðu haft samband sín á milli. Varðskipið fór inn fyrir Gíslasker, inn á Dynjandisvog og Borgarfjörð, en sá ekki neinn bát. Hins vegar fannst ómerktur rækjukassi og lestarborð út af bænum Auðkúlu. Bændur á Auðkúlu fundu síðan í gærkvöldi grámáluð stíuborð með rauðum röndum, sem talið var að væru frá Vísi. Björgunarsveitarmenn fara með varðskipi í dag og taka land á Rafnseyri til þess að leita fjörur við norðanverðan Arnarfjörð. 

Morgunblaðið. 26 febrúar 1980.

                     Vestfjarðafárviðrið

                          Sjómennirnir taldir af

Sjómennirnir sex af vestfirsku rækjubátunum þremur sem saknað var á mánudag eru nú taldir af og er formlegri leit hætt í ísafjarðardjúpi og Arnarfirði. Flugvél frá flugfélaginu Örnum flaug leitarflug í gær án árangurs, en næstu daga verður gengið á fjörur eftir því sem aðstæður leyfa. Vitað er um flökin af Gullfaxa og  Eiríki Finnssyni á 50 og 36 faðma dýpi skammt norður af Vigur og brak hefur fundist úr Vísi.
 Með Gullfaxa fórust bræðurnir Ólafur S. Össurarson og Valdimar Þ. Össurarson Ísafirði. Ólafur var 48 ára gamall, kvæntur og þriggja barna faðir. Valdimar var 40 ára, kvæntur og átti 4 syni.

Morgunblaðið. 28 febrúar 1980.05.12.2016 23:04

252. Jón Kjartansson SU 111. TFKK.

Jón Kjartansson SU 111 var smíðaður hjá Kaarbös Mekanik Verksted A/S í Harstad í Noregi árið 1963. 278 brl. 600 ha. Wichmann díesel vél. Eigendur voru Jón Kjartansson h/f á Eskifirði og Þorsteinn Gíslason í Reykjavík. 30 júní árið 1971 var nafni skipsins breytt, hét þá Guðrún Þorkelsdóttir SU 211. 8 júlí árið 1971 var skráður eigandi Sæberg h/f á Eskifirði, skipið hét Sæberg SU 9. Skipið var endurmælt í júní 1972, mældist þá 226 brl. Skipið var lengt og yfirbyggt árið 1978, mældist þá 275 brl. Ný vél (1980) 1.350 ha. Wichmann díesel vél. Selt 7 júlí 1986, Eskfirðingi h/f á Eskifirði, hét Eskfirðingur SU 9. Skipið sökk út af Héraðsflóa 14 júlí árið 1988. Áhöfnin, 6 manns var bjargað um borð í Hólmaborg SU 11.

 
Jón Kjartansson SU 111 með fullfermi síldar á Eskifirði.                             (C) Vilberg Guðnason.
 
Jón Kjartansson SU 111.                                                                         (C) Vilberg Guðnason.
 
Sæberg SU 9.                                                                               (C) Guðni Ölversson.
 
Eskfirðingur SU 9.                                                                         (C) Þorgrímur Aðalgeirsson.
 
 

               Jón Kjartansson SU 111

Þann 23. des. sl. kom nýr bátur til Eskifjarðar, m/b "Jón Kjartansson" SU 111. Er hann 278 brúttó rúmlestir og er eign samnefnds hlutafélags og Þorsteins Gíslasonar, sem sigldi bátnum til landsins. Aflvél er 600 hestöfl frá Wichmann. Hjálparvélar eru tvær frá Volvo Penta 60 hestöfl hvor. Við hvora hjálparvél er 35 kw riðstraumsrafall og mun það nýjung í fiskibát hér. Sendir og sjálfstýring er frá Robertson, en miðunarstöð frá Kodan. Tvö sjálfvirk síldarleitartæki eru í bátnum, Simrad sildeasdic og Atlas perifon 4. 48 mílna radar er frá Kelvin Hughes. í bátnum eru íbúðir fyrir 20 menn og geta allir á þorsk og síldveiðum búið aftur í. Þá þykir kostur að í bátnum eru tvær aðskildar lestar sem eiga að geta rúmað um 2800 hl., svo að mesti hluti afla á síldveiðum getur verið undir þilfari. Jón Kjartansson er byggður hjá Kaarbös mek. verksted í Harstad, en það er stærsta skipasmíðastöð í Norður-Noregi. Fyrr á árinu hafði stöðin afgreitt til Islands m/b Gróttu" og  Árna Magnússon og mun fljótlega á þessu ári afgreiða Höfrung III AK og nýtt skip fyrir eigendur Árna Magnússonar. Allt fyrirkomulag og vinna þykir sérlega vel af hendi leyst. Í reynsluferð fór báturinn 11,5 sjómílur og á heimleið fékk hann vont veður og reyndist prýðilega. Hann stundar nú þorskveiðar frá Eskifirði og skipstjóri í vetur verður Þorsteinn Þórisson.

Ægir. 15 janúar 1964.

 

      Eskfirðingur SU 9 sökk á Héraðsflóa

Það var kominn mikill bakborðshalli á Eskfirðing þegar við komum að honum. Þetta leit alls ekki vel út. Við vorum að draga um 7 sjómílur fyrir norðan bátinn þegar við fréttum af lekanum. Þá var ekki talin hætta á ferðum. Við ákváðum samt að fara strax á staðinn þar sem við vorum með dælu um borð og gætum ef til vill hjálpað eitthvað. Þegar við komum að bátnum var eiginlega ekki annað að gera fyrir skipverjana en að stökkva frá borði, sagði Jóhann Kristjánsson, skipstjóri á Hólmaborg frá Eskifirði, við DV í morgun. Eskfirðingur SU 9 sökk út af Héraðsflóadýpi um klukkan átta í morgun. Sex manns voru um borð og björguðust þeir allir um borð í Hólmaborg frá Eskifirði sem var á veiðum rétt hjá. Eskfirðingur, sem er 275 lesta stálbátur, fór á rækjuveiðar í gærkvöldi. Klukkan hálfátta í morgun fékk Slysavarnafélagið tikynningu um að leki væri kominn að bátnum. Voru send út boð til slysavarnasveitanna á Borgarfirði eystra og Vopnafirði um að koma að Eskfirðingi með dælur. En lekinn var mikill og ljóst að slysavarnasveitirnar næðu ekki á staðinn í tæka tíð. Sökk Eskfirðingur um klukkan átta eða á hálfttíma.

Að sögn heimildarmanns DV gerðist þetta eins og hendi væri veifað. Hólmaborg, áður Eldborg frá Hafnarfirði, var þá komin á staðinn eins og áður sagði og bjargaði áhöfn Eskfirðings um borð. Að sögn skipstjóra Hólmaborgar var líðan mannanna góð eftir atvikum, Ágætis veður var á þessum slóðum þegar þetta gerðist.

 

DV. 14 júlí 1988.

05.12.2016 09:13

Kolbeinn ungi EA 450. TFEI.

Kolbeinn ungi EA 450 var smíðaður í Harstad í Noregi árið 1920. Fura. 58 brl. 60 ha. 2 þennslu gufuvél. Eigandi var Jón Jónsson á Akureyri (sennilega frá 1920-21). Skipið var selt 20 júní 1928, Sigurði Bjarnasyni á Akureyri. Ný vél (1930) 130 ha. Völund vél. Árið 1939 er dánarbú Sigurðar Bjarnasonar eigandi skipsins. Selt sama ár til Ísafjarðar, kaupandi óþekktur en skipið lá þar við bryggju í einhvern tíma. Skipið var selt 1 maí 1943, h/f Hólmsbergi í Keflavík (Stefán Franklín). Skipið var endurbyggt sama ár og ný vél, 136 ha. Ruston díesel vél sett í það hjá Dráttarbraut Akureyrar h/f, mældist þá 63 brl. Hét Hólmsberg GK 395 eftir endurbæturnar. Skipið brann og sökk 23 ágúst 1947 þegar það var á síldveiðum skammt frá Grímsey. Áhöfnin komst í nótabátanna og var bjargað þaðan um borð í Sjöstjörnuna VE 92 frá Vestmannaeyjum.

 
Kolbeinn ungi EA 450 á leið inn Siglufjörð með síldarfarm.                 (C) Minjasafnið á Akureyri. 
 
Hólmsberg GK 395 eftir endurbygginguna á Akureyri 1943.                   (C) Minjasafnið á Akureyri.
 

                        "Eyjafjarðarlík"

í Skutli 10. júní s. l. var grein um Sjómannadaginn. Hún byrjar svo; Hátíðáhöld sjómanna settu alveg sinn svip á bæinn á sunnudaginn var. Snemma morguns var hvert skip í höfninni fánum skreytt, nema hið brezka herskip Leda, sem lá hér við bryggju, og svo Kolbeinn ungi, Eyjafjarðarlík, sem Eyfirðingum tókst að selja hingað til greftrunar.

Skutull. 24 júní 1939.

        Hólmsberg brann og sökk við Grímsey                       5 eða 6 síldveiðiskip hafa farist í sumar

Enn eitt síldveiðiskipið fórst við Norðurland í gærmorgun. Það var m.s. Hólmsberg frá Keflavík. Eldur kom upp í skipinu og mátti ekki tæpara standa, en að áhöfn skipsins yrði bjargað yfir í annað skip. Þetta gerðist um kl. 8,30 í gærmorgun norður við Grímsey, Þar var Hólmsberg að veiðum, ásamt fleiri skipum er eldurinn braust út.
Eldurinn kom upp í vjelarúmi og varð þar allt því nær alelda í einni svipan Einn maður mun hafa verið þar niðri á vakt og komst hann upp án þess að hann sakaði. Skipshöfnin gerði nú tilraun til þess að kæfa eldinn í vjelarúmi skipsins, en hann magnaðist svo á skömmum tíma, að ekki var við neitt ráðið og varð skipshöfnin að yfirgefa skipið í snatri. Báðum nótabátunum var bjargað, svo og nótinni, en skipverjar munu hafa misst fatnað og annað sem þeim tilheyrði.
Það var m.s. Sjöstjarnan frá Vestmannaeyjum, er kom mönnunum til hjálpar. Munu þeir verða fluttir til Siglufjarðar og var búist við þeim í gærkvöldi, Engin síld mun hafa verið í skipinu er þetta gerðist.
Hólmsberg var eign hlutafjelagsins Hólmberg í Keflavík, Það var rúmar 62 lestir brúttó, Byggt 1920, en endurbyggt 1943, Um nokkurn tíma var það í ferðum milli Akraness og Reykjavíkur.

 

Morgunblaðið. 24 ágúst 1947.

04.12.2016 12:35

Drífa SU 392. TFDL.

Drífa SU 392 var smíðuð í Kongshavn í Þórshöfn í Færeyjum árið 1917. 29 brl. 36 ha. Alpha vél. Fyrstu eigendur voru Magnús Hávarðsson, Jón Sveinsson og Sigurður Jónsson á Nesi í Norðfirði. Báturinn var seldur árið 1919, Konráð Hjálmarssyni kaupmanni og útgerðarmanni á Nesi. Seldur 1927-28, Fóðurmjölsverksmiðju Norðfjarðar. Var báturinn hafður í förum á milli fjarða eystra til að safna saman beinum til vinnslu í verksmiðjunni. Fyrir kom að Drífa væri send til hafna á Norðurlandi eftir hráefni. Árið 1929 fær Drífa skráningarnúmerið NK 13. Ný vél (1929-30) 40 ha. Wichmann vél. Seldur 20 september 1936, Magnúsi Pálssyni og Anton Lundberg í Neskaupstað. Drífa var endurbyggð og lengd í Neskaupstað árið 1938, mældist þá 38 brl. Einnig var sett í bátinn ný vél, 50 ha. Wichmann vél. Seldur 26 janúar 1940, Faxa h/f í Reykjavík, hét Drífa RE 42. Seldur 18 september 1950, Jóni Þórarinssyni í Reykjavík. Ný vél (1950) 132 ha. Kelvin vél. Báturinn strandaði við Hafnir á Reykjanesi 6 febrúar 1953. Slysavarnadeildin Eldey í Höfnum bjargaði áhöfninni, 6 mönnum á land en Drífa eyðilagðist á strandstað.

Drífa SU 392 nýsmíðuð í Kongshavn í Þórshöfn í Færeyjum 1917.             Ljósmyndari óþekktur. 


Drífa RE 42.                                                                                       Ljósmyndari óþekktur.

      Vb. Drífa strandaði í nótt, mannbjörg varð

     Bátnum hvoldi á skerinu með flóðinu, rétt eftir að björgun var lokið

Vélbáturinn Drífa, RE-42, strandaði í nótt skammt fyrir sunnan Kalmanstjörn á Reykjanesi, en skipverjum var bjargað á land heilum á húfi. Samkvæmt upplýsingum, er Vísir fékk hjá skrifstofu SVFÍ,strandaði báturinn kl. 2.50 í nótt á skeri skammt sunnan Kalmanstjarnar. Veður var þá gott, vestanátt, en talsvert brim við ströndina. Það var vb. Svanur, RE 88 sem tilkynnti um strandið, en í fyrstu var óljóst, hvar það hefði orðið, og voru slysavarnasveitir víða á Reykjanesi til taks, en um 20 mínútum síðar fékkst örugg vitneskja um strandstaðinn, og brá slysavarnadeildin Eldey í Höfnum þegar við og kom á strandstaðinn undir stjórn formanns síns, Vilhjálms Magnússonar. Var þegar hafizt handa um björgun, og tókst hún mjög greiðlega, en skipverjum, 6 að tölu, var bjargað í land á björgunarstól. Sýndi deildin mikið snarræði við þetta tækifæri, Segja sjónarvottar, að ekki hafi mátt tæpara standa. Báturinn strandaði á fjöru, en brátt tók að falla að, og hvoldi honum á skerinu skömmu eftir að síðasti skipverjinn komst í land. V.b. Drífa, RE-42, er 38 brúttólestir að stærð, smíðaður í Kongshavn 1917, en endursmíðaður árið 1938. Eigandi hans er Jón Þórarinsson hér í bæ. Skipstjóri á Drífu er Kristinn Maríasson. Talið er sennilegt, að báturinn sé ónýtur með öllu, en ókunnugt er um orsakir strandsins.

Vísir. 6 febrúar 1953.

03.12.2016 10:50

Magnús NK 84. TFXE.

Magnús NK 84 var smíðaður í Gordon í Skotlandi árið 1906. 75 brl. 145 ha. 2 þennslu gufuvél. Fyrsti eigandi hér á landi var Sigurður Hallbjarnarson á Akranesi frá desember 1939, hét Sigrún MB 27. Skipið var keypt frá Færeyjum og hét þar Industri og stundaði síldveiðar við Ísland sumarið 1939. Skipið var selt 10 desember árið 1940, Ölver Guðmundssyni, Jónasi Thoroddsen, Jóhanni Magnússyni og Reyni Zoega í Neskaupstað, hét Magnús NK 84. Skipið var endurbyggt í Reykjavík árið 1941 og ný vél sett í það, 200 ha. Lister díesel vél. Eftir þessar breytingar nældist skipið 77 brl. 26 mars 1944, kaupir Guðmundur Sigfússon í Neskaupstað, hlut Ölvers í skipinu og ári seinna, hlut Jónasar. Skipið var talið ónýtt og tekið af skrá árið 1951.


Magnús NK 84 á sjómannadag í Neskaupstað árið 1943.                                 (C) Björn Björnsson.


Magnús NK 84 í bóli sínu á Norðfirði.                                                                     (C) Karl Pálsson.


Magnús NK 84 á síldveiðum sumarið 1944.   Ljósm: Einar Guðmundsson.


Magnús NK 84 á síldveiðum sumarið 1944. Ljósm: Einar Guðmundsson.

  Þýsk sprengjuflugvél ræðst á Norðfjarðarbáta 

Aðeins einu sinni á árum seinni heimstyrjaldarinnar urðu Norðfjarðarbátar fyrir árás óvina. Svo bar til eitt sinn að lokinni sölu í Englandi, að Magnús og Sleipnir höfðu samflot á siglingunni til Íslands. Gekk Magnús mun betur en Sleipnir, eða um 8 sjómílur, og til þess að flýta förinni tók Magnús Sleipni í tog. Þegar komið var langt á haf út eygðu skipverjar á Magnúsi flugvél, sem flaug mjög lágt yfir haffletinum. Flaug hún rétt fyrir framan stefni Magnúsar og skömmu síðar var skotið á skipið úr hríðskotabyssu. Ekkert skotanna hæfði og líklega hefur Þlóðverjunum ekki þótt bátarnir verulega girnilegt skotmark, því ekki gerði flugvélin aðra atlögu.

Frásögn Sigurjóns Ingvarssonar og Reynis Zoega.
             Sjómannadagsblað Neskaupstaðar 1981.

02.12.2016 10:55

Gunnar EA 405. LBDN.

Gufubáturinn Gunnar EA 405 var smíðaður hjá Laksevaag Maskin & Jernskibsbyggeri í Laksevaag í Bergen Noregi árið 1891. Stál og járn. 57 brl. 55 ha. 2 þennslu gufuvél. Hét áður Rundemanden. Eigandi var Halldór Guðmundsson á Siglufirði frá 2 apríl árið 1924. Seldur 1926, Eggert Jónssyni í Reykjavík. Seldur 1927, h/f Kveldúlfi í Reykjavík. Seldur árið 1930, Árna Böðvarssyni í Vestmannaeyjum. Báturinn var seldur 28 maí 1932, Sigurði Samúelssyni, Kristjáni Sigurgeirssyni, Sigurvin Pálmasyni og Guðmundi Bjarnasyni á Ísafirði, báturinn hét Gunnar ÍS 87. Báturinn var í vöruflutningum við Vestfirði og norður um land til Eyjafjarðar og var á leið frá Hrísey til Ísafjarðar þegar hann fórst út af Húnaflóa 27 ágúst 1933 með allri áhöfn, 5 mönnum.


Gunnar EA 405. (ÍS 87).                                                                              Ljósmyndari óþekktur.

           Gufubáturinn Gunnar ÍS 87 ferst.

Gufubáturinn Gunnar fór héðan þann 23. ágúst með salt til síldarbræðsluverksmiðjunnar í Krossanesi, en síðan tók hann möl í kjalfestu á Litla Árskógssandi vestan Eyjafjarðar. Þar tók hann einnig um 20 smálestir af skreið fyrir fiskimjölsverksmiðju Björgvins Bjarnasonar. Þaðan fór hann til Hríseyjar og bætti við sig einni eða tveimur smálestum skreiðar. Frá Hrísey fór Gunnar svo kl. 11 árdegis, laugardaginn 26. ágúst, og hefir ekkert spurst til hans síðan. Aðfaranótt sunnudagsins hvessti á suðaustan, og varð fárviðri sunnanlands og vestan, en sjómenn segja, að minna hafi orðið úr storminum fyrir Norðurlandi. Þó kvað hafa verið illt í sjó norðurum, því veður var tvíátta um nóttina. Siðari hluta mánudags var farið að óttast um Gunnar, og Slysavarnafélag íslands beðið að hefja eftirgrennslan um, hvort skip hefðu orðið hans vör. En enginn árangur varð að þeim fyrirspurnum. Má því telja víst, að Gunnar hafi farist aðfaranótt sunnudagsins 27. ágúst. Skipveijar voru 5 : Sigurður Matthías Samúelsson, skipstjóri, 32 ára að aldri. Hann var kvongaður og átti 1 barn á þriðja ári. Stýrimaðurinn Kristján Sigurgeirsson var 35 ára gamall. Hann lætur eftir sig unnstu og 2 ung börn. Sigurvin Pálmason I. vélstjóri var 31 árs gamall og lætur eftir sig unuustu og 1 barn á fyrsta ári. Annar vélstjóri á Gunnari var Guðmundur Bjarnason frá Skálavík, 29 ára, ókvæntur. Þessir 4 menn, sem nú voru nefndir, voru allir eigendur Gunnars. Keyptu þeir hann fyrir rúmu ári siðan fyrir 30 Þús kr. Fimmti maðurinn, sem fórst á Gunnari, var Hatsteinn Halldórsson, unglingspiltur um tvítugt. Er mikil eftirsjá að þessum ungu og ötulu sjómönnum, og fráfall þeirra þungbært eftirlifandi ástvinum. Gunnar var 57 smálestir að stærð, og var bæði skip og farmur vátryggt.

Skutull. 11 árg. 35 tbl. 1933.

01.12.2016 11:04

425. Jón Ben NK 71.

Jón Ben NK 71 var smíðaður hjá Dráttarbrautinni h/f í Neskaupstað árið 1956. Eik. 24 brl. 166 ha. Buda díesel vél. Eigandi var Hlutafélagið Stapi í Neskaupstað, (Samvinnufélag útgerðarmanna, Bjarni Þórðarson,Jóhannes Stefánsson og fl). Báturinn var seldur haustið 1960 til Ytri Njarðvíkur, sama nafn, eigandi ókunnur,(sami). Seldur í desember árið 1962, Gísla Snæbjörnssyni á Patreksfirði, báturinn hét Freyja BA 272. Fórst á Ísafjarðardjúpi 1 mars árið 1967 með allri áhöfn, 4 mönnum.


Jón Ben NK 71.                                                                                           Ljósmyndari óþekktur.

                     Jón Ben NK 71

Síðastliðinn laugardag var hleypt af stokkunum í skipasmíðastöð Dráttarbrautarinnar nýbyggðum fiskibáti. Hlaut hann nafnið Jón Ben og heitir í höfuðið á Jóni Benjamínssyni, einum mesta aflamanna í hópi norðfirzkra skipstjóra. Einkennisstafir bátsins eru N. K. 71. Jón Ben er 24 lestir að stærð með 170 hestafla Buda diesilvél. Hann er vel búinn að siglingar og öryggistækjum, hefur Atlasdýptarmæli og fisksjá og gúmmíbjörgunarbát, sem fullnægir kröfum samkvæmt reglum, sem gert er ráð fyrir að settar verði á næstunni um gerð slíkra báta og skyldu manna til að hafa þá um borð í fiskibátum. Eigandi Jóns Ben er hlutafélagið Stapi, en aðalhluthafi er Fiskvinnslustöð Samvinnufélags útgerðarmanna. Í stjórn eru Jóannes Stefánsson, formaður og framkvæmdastjóri, Óskar Lárusson og Vigfús Guttormsson. Skipstjóri verður Rafn Einarsson.
Yfirsmiður var Sverrir Gunnarsson, sem einnig teiknaði bátinn. Báturinn kostar yfir 600 þús. kr. með öllum útbúnaði, eða um 26 þús. kr. pr. tonn. Hjá Dráttarbrautinni er smíði 60 lesta báts komin á góðan rekspöl og byrjað er að smíða bát af sömu stærð og Jón Ben. Þá hefur verið pantað efni í nýjan 60 lesta bát. Þeir feðgar Ásgeir Bergsson og Guðlaugur Ásgeirsson eiga 55 lesta bát í smíðum á Isafirði, en hann mun ekki kominn langt áleiðis. Fleiri Norðfirðingar munu hyggja á bátakaup. Jón Ben er enn ekki tilbúinn til veiða, en vonazt er til að hann geti byrjað róðra í næsta smástraum. Annars er sjósókn sáralítil þrátt fyrir reytingsafla. Aðeins tveir bátar, Hafbjörg og Björg hafa róið að undanförnu, auk einhverra minni báta. Í gær var Björg þó ekki á sjó. Austurland óskar eigendum og áhöfn Jóns Ben til hamihgju með bátinn.

Austurland. 2 nóvember 1956.

  Mjög víðtæk leit að bátnum frá Súðavík í gær

Vélbáturinn Freyja BA 272 frá Súðavík, sem lýst var eftir í fyrrakvöld var ekki kominn fram, er blaðið fór í prentun í gærkvöldi, en bátsins hafði þá verið leitað frá því í fyrrakvöld. Fjórir bátar leituðu í fyrrinótt og í gær leituðu tvær flugvéJar og nærri 20 bátar. Á Freyju eru fjórir menn. Síðast heyrðist til Freyju kl. 16,30 í fyrradag, en þá mjög ógreinilega og gæti það bent til ísingar. Í fyrrinótt leituðu Freyju fjórir bátar, ísafjarðarbáturinn Hrönn, Heiðrún og Einar Hálfdáns frá Bolungarvík og strandferðaskipið Blikur og í birtingu í gærmorgun leitaði landhelgisgæzluflugvélin Sif og flugvél Vesturflugs á ísafirði ásamt 17 bátum hvaðanæva af Vestfjörðum. Leitarskilyrði voru góð. Freyja mun hafa verið stödd út af svokölluðum Eldingum, þegar síðast spurðist til hennar en kl. 5 var þar NA 8 stiga vindur og blindhríð. Þremur klukkustundum síðar hafði hvassviðrið hert og var þá vindhæðin komin í 9 stig og úrkoma hafði aukizt. Frost var á og skyggni ekki meira en um 100 metrar. Landfhelgisgæzluflugvélin Sif leitaði úti fyrir öllum Vestfjörðum og Vesturflugsflugvélin leitaði Norðurdjúpið, Jökulfirðina, í Aðalvík. Leitað var úr landi þar sem því var við komið.
Björgunarsveitin í Bolungarvík þræddi ströndina til Skálavíkur, leitað var á Ingjaldssandi út undir Barða og vitavörðurinn á Galtarvita leitaði í umhverfi vitans. Minni bátar, sem þátt tóku í leitinni þræddu og strendurnar. Í gær fundust línubelgir í beina vindstefnu NA frá þeim stað, sem báturinn gaf síðast upp. Voru belgirnir í fjörunni við Galtarvita og báru merki Freyju. Þá fannst bólfæri, sem ekki hafði verið vitjað um, sem einnig tilheyrði Freyju og er einsýnt að báturinn hefur ekki fundið það í sortanum í fyrradag. Bólfærið var 7 mílur frá Deild og 6,4 mílur frá Rit. í gær fór veður versnandi á leitarsvæðinu og var að hvessa en veðrið í gær var mjög hentugt til leitar. Bátar voru farnir að tínast inn, þegar blaðið hafði síðast fréttir af leitinni. Var þá að koma myrkur og farið að snjóa. Skipstjóri, sem jafnframt er eigandi bátsins, er Birgir Benjamínsson, kvæntur maður, 38 ára gamall og á uppkomin stjúpbörn. Aðrir á bátnum eru Lúðvík Guðmundson, ókvæntur og innan við tvítugt. Lúðvík er stjúpsonur Birgis, Páll Halldórsson er einhleypur maður 50 ára að aldri og Jón Þórðarson á unnustu og tvö börn og er 22ja ára. Freyja hét áður Jón Ben og var þá gerður út frá Neskaupstað, en til Súðavíkur kom hún fyrir um það bil þremur árum.

Morgunblaðið. 3 mars 1967.


                      Vb. Freyja talin af

                    Með henni fórust fjórir ungir menn

Vélbáturinn Freyja BA 272 er nú talin af og er leit að bátnum hætt. Með bátnum fórust fjórir ungir menn, Birgir Benjamínsson, skipstjóri, 38 ára gamall og lætur eftir sig konu og uppkomin stjúpbörn, Lúðvík Guðmundsson, háseti, 17 ára, stjúpsonur Birgis skipstjóra, Páll Halldórsson, vélstjóri, 50 ára ó- kvæntur og barnlaus og Jón Þórðarson, háseti, 21 árs, kvæntur og á tvö ung börn. Snjókoma og dimmviðri tafði mjög alla leit í gær, en eins og kunnugt er var bátsins saknað á miðvikudag og strax sama kvöld var hafin umfangsmikil leit, sem bar þann árangur að fjórir línubelgir fundust. Bólfæri fundust skammt vestur af Eldingum, en á þeim slóðum mun báturinn hafa verið þegar síðast heyrðist til hans. Eldingar eru þau mið, þar sem Ritur ber í hvilftina þá Straumnesshlíð hverfur, að sögn skipstjóra úr Djúpinu. Varðskip leitaði í gær á þessum slóðum, en annars var ekki leitað að marki í gær vegna dimmviðris fyrir vestan. Bátar, sem verið hafa að fara út og inn úr Djúpinu hafa þó farið með ströndum og svipazt um, en einskis orðið vísari eins og áður er sagt. Að sögn Slysavarnafélagsins hefur leitin verið mjög víðtæk og í fyrradag leituðu tvær flugvélar og nær 20 bátar við mjög góð leitarskilyrði.

Morgunblaðið. 4 mars 1967.

30.11.2016 11:47

73. Gunnar SU 139. TFYW.

Gunnar SU 139 var smíðaður hjá V.E.B. Schiffswerft í Stralsund í A-Þýskalandi árið 1959. 249 brl. 800 ha. MWM díesel vél. Eigandi var Hlutafélagið Gunnar á Reyðarfirði frá 30 maí árið 1959. Skipið var selt til Noregs og tekið af skrá 19 júní árið 1981. Gunnar SU var einn af hinum 12 svokölluðu tappatogurum sem smíðaðir voru í A-Þýskalandi fyrir Íslendinga eftir teikningu Hjálmars R Bárðarsonar skipaverkfræðings. 


Gunnar SU 139 með fullfermi síldar á leið til Eskifjarðar.                                  (C) Vilberg Guðnason.


Gunnar SU 139 í Leirvík á Hjaltlandseyjum.                              (C) J.A. Hugson. Shetland museum.


Smíðateikning Hjálmars R Bárðarsonar af tappatogara.                                                   (C) HRB.

 Nýtt og vandað vélskip keypt til Reyðarfjarðar, kom um  mánaðamót

Snemma í morgun lagðist vélskipið "Gunnar" SU-139 að bryggju á Reyðarfirði. Var skipið allt fánum prýtt og hið glæsilegasta á að líta. Margt manna var mætt á bryggjunni til að fagna skipi og skipshöfn. Fánar blöktu hvarvetna um bæinn. Skipið er austur-þýzkt 248 lestir, teiknað af Hjálmari Bárðarsyni, smíðað í Stralsund. Aðalaflvél er 800 hestöfl, vestur-þýzk.
Ljósavélar enskar og austur-þýzkar, ganghraði er 11,7 mílur. Siglingatæki eru öll hin fullkomuustu að gerð. Vistarverur allar eru með hinum mesta glæsibrag og ýmiskonar  þægindi eru þar. Ísskápur og frystiklefi eru í eldhúsi. Miklir varahlutir eru með vél, sérstaklega með rafmótorum. Björgunarbátar eru 4, þar af 2 alúminíumbátar fyrir 16 menn hvor og 2 gúmmíbátar fyrir 12 menn hvor. Merk nýung er svokallaðir magnesíumklossar utan á skipinu, en þeir eiga að verja ryði.  Ef vel reynist mun það spara stóra fjármuni. Hjalti Gunnarsson skipstjóri, sem er aðaleigandi skipsins, sigldi því hingað. Siglingin frá Skagen tók  95 klst. þrátt fyrir mótbyr mestan hluta leiðarinnar. Reyndist skipið prýðilega.
Eigandi skipsins er hlutafélagið Gunnar, Reyðarfirði. Bera bæði skip og hlutafélag nafn föður Hjalta skipstjóra. Hjalti kveðst gera skipið út á síld í sumar, að mestu mannað Reyðfirðingum. Sagði hann að vonir sínar væru við það miðað að skipið yrði helzt sem mest mannað Reyðfirðingum og afli lagður þar upp þegar Mögulegt væri. Kvað Hjalti það lengi hafa verið von sína að eignast skip sem gert væri út frá Reyðarfirði. Því hefði hann eigi viljað binda sig á skip annars staðar. Eins og kunnugt er, er Hjalti þaulreyndur, aflasæll og vinsæll skipstjóri. Reyðfirðingar hafa fiölmennt niður í skip til Hjalta til að óska honum allra heilla í starfi. Það er trú manna hér og einlæg von að útgerð þessi með ýmsu öðru verði lyftistöng í atvínnulífinu hér. Revðfirzk fiskiskip eru nú orð in tvö,  hitt er Svíþjóðarbáturinn Snæfugl, skipstjóri  hans er Bóas Jónsson, hefur útgerð hans gengið mjög vel.

Tíminn. 14 júní 1959.

29.11.2016 12:44

344. Björn EA 396. LBGP. / TFSG.

Björn EA 396 var smíðaður í Faaborg í Danmörku árið 1916. Eik. 42 brl. 76 ha. Hera vél. Báturinn hét fyrst Dröfn EA 396 og voru eigendur hans Firmað Bræðurnir Gunnarssynir, Höfða á Akureyri, Þórður, Björn og Baldvin Einarssynir á Akureyri frá 4 desember 1916. Seldur 13 mars 1924, Ingvari Guðjónssyni á Akureyri, báturinn hét Björn EA 396. Ný vél (1930) 120 ha. Tuxham vél. Seldur 2 desember 1940, Stefáni S Franklín í Reykjavík og Ragnari Björnssyni í Sandgerði, báturinn hét Björn GK 396. Ný vél (1942) 120 ha. Lister vél. Báturinn var lengdur árið 1945, mældist þá 53 brl. Árið 1950 var báturinn skráður Björn KE 95. Ný vél (1950) 190 ha. Mirrlees díesel vél. Ný vél (1958) 300 ha. Cummins vél. Seldur 25 júní 1961, Svavari Sigfinnssyni í Ytri Njarðvík. Báturinn var talinn ónýtur og tekinn af skrá 23 nóvember árið 1963.


Björn EA 396 með fullfermi síldar við bryggju á Siglufirði.                             Ljósmyndari óþekktur.


Björn EA 396 á Pollinum á Akureyri.                                                                   (C) Jón & Vigfús.

28.11.2016 09:41

B. v. Ingólfur Arnarson RE 201. TFXD.

Ingólfur Arnarson RE 201 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1947 fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur. 654 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Skipinu var hleypt af stokkunum hinn 18 maí árið 1946 og kom til landsins 17 febrúar árið 1947, sá fyrsti af 32 Nýsköpunartogurum sem ríkisstjórn Ólafs Thors samdi um smíði á í Bretlandi árið 1945. Ingólfur var jafnframt fyrsta fiskiskip í heiminum sem fékk ratsjá að talið er. Skipið var endurmælt 5 nóvember 1971, mældist þá 610 brl. 26 júní 1972 var óskað eftir nafnbreytingu á skipinu, hét þá Hjörleifur RE 211. Togarinn var seldur í brotajárn til Spánar og tekinn af skrá 3 desember árið 1974.

121. Ingólfur Arnarson RE 201.    (C) Snorri Snorrason. Úr safni Hauks Sigtryggs Valdimarssonar.

Það var bjart yfir Reykjavík í gær þegar Ingólfur Arnarson, fyrsti nýsköpunartogarinn sigldi fánum skreyttur inn á höfnina. Forsjónin hafði sjeð fyrir því, að Reykjavík gat tjaldað sínu fegursta skrúði, þegar hún fagnaði komu hins glæsilega skips, sem ber nafn landnámsmanns hennar. Það var tilkynnt í hádegisútvarpinu í gær, að Ingólfur Arnarson myndi koma á ytri höfnina kl 12.30. En klukkan 14,30  myndi skipið sigla inn í höfnina og leggjast við hafnargarðinn, þar sem fram átti að fara opinber athöfn í sambandi við komu skjpsins. Á laugardagskvöld var ekki búist við skipinu hingað fyrr en í fyrsta lagi á mánudagskvöld, eða jafnvel ekki fyrr en á þriðjudag. En ferðin heim hafði gengið miklu betur en ráðgert hafði verið, enda var gagnhraði skipsins rúmar 12 sjómílur á klst. að meðaltali á heimleiðinni.
Strax eftir kl. 1 fóru bæjarbúar að streyma niður að höfn, því allir vildu sjá togarann, sem svo mikið orð hafði farið af. Var Ingólfsgarður og bryggjan við hann brátt þjettskipað fólki. Laust fyrir kl. 12,30, sjest til Ingólfs Arnarsonar, þar sem hann siglir fánum skreyttur inn á milli eyjanna. Var það fögur sjón. Ingólfur Arnarson flautar, heilsar Reykjavík. Þegar hann var kominn innarlega á Engeyjarsund kemur flugvjel sveimandi og flýgur nokkra hringi yfir skipið. Það var fyrsta árnaðaróskin frá Reykjavík. Ingólfur Arnarson legst nú á ytri höfnina og lóðsbátur og tollbátur fara út. Aðeins 50-60 faðma frá Ingólfi Arnarsyni, þar sem hann staðnæmdist á ytri höfninni, var skip á síldveiðum, nýbúið að kasta nótinni og voru skipverjar að draga nótina inn. Byrjuðu þeir að háfa inn gott kast í sama mund og Ingólfur stöðvaðist. Var þetta skemtileg aðkoma.


Fyrsti landnemi nýsköpunar á ytri höfninni.                                      Ljósmyndari óþekktur.

Kl. stundvíslega 14,30, siglir Ingólfur Arnarson inn í höfn og legst við hafnargarðinn fyrir framan hafnarhúsið. Þar var mikill mannfjöldi saman kominn á uppfyllingunni, á nærliggjandi skipum, á húsþökum og yfir höfuð hvar sem hægt var að fóta sig. Kl. 4 hófst móttökuathöfnin um borð í skipinu og var henni útvarpað. Fyrst ljek lúðrasveit Reykjavíkur undir stjórn Albert Klahn minni Ingólfs: Lýsti sól, stjörnustól. Þessu næst flutti Jóhann Þ. Jósepsson sjávarútvegsmálaráðherra ræðu. Hann hóf mál sitt á þessa leið: "Þessi fagri febrúardagur markar tímamót í sögu íslenskrar stórútgerðar, og er merkisdagur í sögu þessarar þjóðar. í dag fagnar höfuðstaður landsins, fagnar þjóðin öll, komu þessa skips, sem er hið fyrsta af 32 samskonar botnvörpuskipum, sem fyrverandi ríkisstjórn ákvað í ágústmánuði 1945 að láta smíða fyrir íslendinga í breskum skipasmíðastöðvum. Vjer bjóðum hjer með skip og skipshöfn hjartanlega velkomna heim"Því næst rakti ráðherrann í stórum dráttum aðdraganda togarakaupanna, sem var stærsti þátturinn í nýsköpun atvinnulífsins, sem fyrverandi ríkisstjórn beitti sjer fyrir. Þetta væri fyrsti togarinn af 32, sem íslendingar sömdu um smíði á í Bretlandi. Síðan sagði ráðherrann: "íslendingar. Öld fram eftir öld bjuggu landsmenn við skarðann hlut hvað skipakost snerti en sóttu samt fast sjóinn og færðu björg í bú. Skráðar eru sögur og þjóð- inni kunnar um dáðrakka drengi og hugumprúða, sem buðu höfuðskepnunum byrginn á opnu skipunum sínum á þeim tímum sem skáldið hafði í huga er kvað: Fljúga stórir út frá Eyjum áragammar á vastir framla innan frá landi með öllum söndum út er róið á þrútinn sjóinn. Þótt mörg sje sagan kunn um baráttu og fórnfúst starf feðra vorra og þeirra feðra á þessu sviði eru þær þó fleiri, sem hann einn veit sem alt sjer og yfir öllu vakir. í dag minnumst vjer þeirra sem í því aldalanga stríði stóðu með þakklátum huga. Og þá ber oss líka að minnast þeirra stórhuga athafnamanna, sem á liðnum áratugum hafa staðið í fylkingarbrjósti í sjávarútvegsmálum vorum, þeirra, sem hófu þilskipaútgerð og þeirra, sem síðan rjeðust í það stórræði að kaupa gufutogara til landsins, ennfremur þeirra, sem bygt hafa upp vjelbátaútgerð landsins á hverjum stað.


Ingólfur Arnarson RE 201 leggst við nýju uppfyllinguna við Miðbakka Reykjavíkurhafnar. Mikill fjöldi fólks var samankominn á hafnarsvæðinu að fagna komu skipsins.              (C) Friðrik Clausen.

Við hvert framfaraspor í þessum efnum hefur stórhugur og bjarsýni athafnamanna landsins verið að verki. En einkum og alveg sjerstaklega verða oss í dag hugstæð afrek og fórnir sjómanna vorra, sem á undanförnum stríðs og hættutímum öfluðu þjóðinni flestra þeirra gæða, sem hún nú nýtur, og þeirra verðmæta, sem hafa gert það fjárhagslega kleift að koma fótum undir nýsköpun atvinnuvega þjóðarinnar. Þegar vjer nú lítum þetta hið mikla og fríða skip, sem að bestu manna yfirsýn er talið standa í fremstu röð botnvörpu skipa, eins og þau gerast best meðal annara þjóða og jafnvel framar, er ánægjulegt til þess að hugsa, að á þessu og næsta ári á þjóðin von á því að eignast yfir 30 jafn mikil og góð skip, sem munu dreifast á helstu útgerðarstaðina hjer við land. Þessu skipi hafa forráðamenn höfuðstaðarins valið nafn landnámsmannsins gifturíka, sem trúði á handleiðslu æðri máttarvalda og reisti hjer byggðir og bú samkvæmt þeirri trú sinni. Megi gifta landnámsmannsins fylgja þessu fríða skipi og hugarfar hans marka þau spor sem vjer stígum til framfara og viðreisnar í þjóðlífi voru. í lok ræðu sinnar afhenti ráðherrann borgarstjóranum í Reykjavík skipið til eignar og umráða til handa Reykjavíkurbæ. "Megi því jafnan vel farnast og verða landi og þjóð til bjargræðis og blessunar", sagði ráðherrann. Lúðrasveitin ljek "Íslands Hrafnistumenn".
Gunnar Thoroddsen borgarstjóri tók næst til máls og birtist ræða hans hjer í heild:
 Reykvíkingar og aðrir áheyrendur! í dag hefur mikill viðburður gerst í sögu Reykjavíkur og landsins alls. Fullkomnasta fiskiskip þjóðarinnar hefur lagst við landfestar á Íslandi. Það er fyrsta skip hins fyrirheitna lands nýsköpunar atvinnulífsins og munu mörg eftir fara. Höfuðborg landsins á þetta skip og mun gera það út. Reykjavík, heimili þessa fyrsta landnema nýsköpunarinnar, Ingólfs Arnarsonar, eins og það var Reykjavík, sem var heimili og aðsetur fyrsta landnámsmannsins, Ingólfs Arnarsonar.


Gunnar Thoroddsen borgarstjóri heldur ræðu af brúarvæng Ingólfs sem var jafnframt útvarpað til landsmanna.                                                                                  Ljósmyndari óþekktur. 

Fiskveiðar hafa lengst af verið undirstaða Reykjavíkur og aðalatvinnugrein. En tækin hafa tekið miklum breytingum. Hinir opnu árabátar voru lengi lífsbjörg Reykjavíkur. Síðar komu þilskip og loks togarar. Eftir súðbyrðingsför kom hinn seglprúði knörr, eftir seglskipið vjelknúin skeið, yrkir Örn Arnarson. Þessar gjörbyltingar í útveginum hafa orðið á skömmum tíma. Og nú þegar ný atvinnubylting er hafin með komu nýtísku togarans Ingólfs Arnarsonar, hljótum vjer að minnast með virðingu og þökk brautryðjendanna, hinna framtakssömu forystu- og athafnamanna, er skynjuðu andardrátt hinnar nýju tækni og færðu þannig þjóðinni aukinn afla og afköst. Nú er nýr þáttur að hefjast í sögu íslenskrar útgerðar. Togaraflotinn er að endurnýjast. Til viðbótar og í stað gamalla skipa koma nú þrír tugir nýrra og fullkominna botnvörpuskipa. Þau verða hraðskreiðari og fengsælli en hin eldri, og hollari vistarverur fyrir sjómennina. Þau eru atvinnuleg og fjelagsleg framför. En það hefst einnig nýr þáttur í sögu Reykjavíkur á marga lund. Þetta er til dæmis í fyrsta sinn, sem bæjarfjelagið sjálft ræðst í rekstur útgerðar. Reynslan mun sýna, hvort sú tilhögun hentar betur eða verr. Skoðanir eru skiptar um ágæti opinbers atvinnureksturs. En það segi jeg óhikað, að meginsjónarmið vort hlýtur að vera það, að fá atvinnutækin og halda þeim úti. Óskir allra flokka munu sameinast í því að árna hinni nýju bæjarútgerð Reykjavíkur heilla og velgengni. Forgöngumönnum þessa máls, fyrrverandi ríkisstjórn og nýbyggingarráði, og ekki síst sjávarútvegsnefnd og útgerðarráði Reykjavíkur, vil jeg flytja alúðar þakkir Reykjavíkurborgar. En það eitt er ekki nóg að eignast listaskip, sem líklegt er til mikilla afreka. Þótt tæknin muni komin á það stig að geta siglt mannlausum skipum eftir áætlun, verða fiskveiðar ekki ennþá a. m. k. stundaðar án mannafla. Þjóð vor er svo lánsöm að eiga stóra stjett karl menna, sem sækja sjóinn fast og hræðast hvergi holskeflur Ægis eða dutlunga Ránardætra. Sjómenn íslands hafa sannað öllum heimi kjark sinn og karlmannslund á árum styrjaldarinnar. Þeir munu ekki reynast deigari á tímum heimsfriðar í glímu sinni við hafið. Þeir eiga kröfu til þess, að þjóðin búi þeim í hendur örugg skip með góðum aðbúnaði fyrir þá sjálfa. Skipið er tæki, fiskimaðurinn stjórnandi þess.


Ingólfur Arnarson RE 201 nýsmíðaður.                                                              Ljósmyndari óþekktur. 

Örn Arnarson segir í hinu snjalla sjómannakvæði sínu: Hvert eitt fljótandi skip ber þó farmannsins svip, hann er ferjunnar andi og hafskipsins sál. Sjómannastjettin mun færa björgin í grunn undir framtíðarhöll. Fyrir eitt þúsund sjötíu og þrem árum nam Ingólfur Arnarson land hjer í Reykjavík vegna þess að öndvegissúlur hans rak hjer að landi. Þetta glæsta skip er heitið eftir landnemanum fyrsta. Það er öndvegisskip íslenska fiskiflotans. Vjer berum nú fram til forsjónar vors fagra lands þá ósk, að gifta fylgi nafni, og að farsæld Ingólfs landnámsmanns svífi jafnan yfir vötnunum þar sem þetta skip leggur leið sína um. Fyrir hönd bæjarstjórnar og Reykjavíkurborgar býð jeg togarann Ingólf Arnarson velkominn og skipshöfn hans alla og veiti honum viðtöku fyrir bæjarins hönd. Lúðrasveitin ljek: Þar fornar súlur flutu á land. Gísli Jónsson alþm, sem hefur haft eftirlit með smíði skipsins talaði næst. Hann lýsti skipinu og er ræða hans birt á öðrum stað í blaðinu. Lúðrasveitin ljek: Það laugast svölum úthafsöldum.
Þegar móttökuathöfninni var lokið voru landfestar skipsins leystar og siglt út fyrir eyjar. Var margt boðsgesta innanborðs. Skoðuðu menn skipið eftir því sem kostur var á, en veitingar (brauð og öl) voru framreiddar í hinum rúmgóðu vistarverum skipsins.
Af þeim 32 togurum sem samið var um smíði á í Englandi, var 15 úthlutað til Reykjavíkurbæjar og útgerðarfyrirtækja í bænum. Af þessum 15 togurum keyptu einstaklingar 5 í upphafi, en Reykjavíkurbær 10, en bærinn seldi aftur 5 til útgerðarfyrirtækja í bænum. Bærinn sjálfur,á því enn 5 togara, þrjá eimknúna og tvo dieseltogara.


Hjörleifur RE 211.                                                                                                Ljósmyndari óþekktur. 

Sjerstakt útgerðarráð hefir yfirstjórn á rekstri bojartogaranna. Það skipa þessir menn: 
Kjartan Thors, formaður, Sveinn Benediktsson, Ingvar Vilhjálmsson, Jón Axel Pjetursson og Ingólfur Jónsson. Útgerðarráð hefir kjörið þá Svein Benediktsson og Jón A. Pjetursson til þess að annast framkvæmdarstjórn bæjartogaronna fyrst um sinn. Skrifstofa Útgerðarráðsins er í Hafnarhúsinu. Ráðgert er að Ingólfur Arnarson fari á veiðar eftir 10 daga. Bræðslutæki verða sett í skipið hjer og það búið til veiða að öðru leyti.
Þrettán manna áhöfn var á skipinu heim. Skipsstjórinn er, sem kunnugt er, Hannes Pálsson. Aðrir skipsverjar voru: 1. vjelstjóri: Þorkell Sigurðsson. 1. stýrimaður: Loftur Júlíusson. 2. vjelstjóri Baldur Snæland. 2. stýrimaður: Gunnar Auðunsson. Bátsmaður: Ólafur Sigurðsson. Matsveinn: Guðm. Maríasson. Loftskeytamaður: Ingólfur Friðbjarnarson. Hásetar: Jónatan Kristleifsson, Kári Gíslason og Leó Kristleifsson. Kyndarar: Ármann Brynjólsson og Einar M. Karlsson.
Ingólfur Arnarson tók um 140 smálestir af vörum í Hull til flutnings heim. Útvegaði Eimskipafjelag Íslands skipinu flutninginn og sjer um afgreiðslu hans hjer. Sem tákn góðvildar til þessa fyrsta hinna nýju togara, lætur Eimskipafjelagið aðstoð sína í tje án nokkrar þóknunar.
Í dag á almenningur þess kost að skoða skipið. Verður það til sýnis frá kl. 9-12 árd. og 1-7 síðd.

Morgunblaðið. 18 febrúar 1947.


Ingólfur Arnarson RE 201. Líkan.                                                         (C) Þórhallur S Gjöveraa.

               Lýsing á Ingólfi Arnarsyni

       Ræða Gísla Jónssonar alþm. við móttökuathöfnina

Togarinn  Ingólfur Arnarson, er stærsti og glæsilegasti togarinn, sem Íslendingar hafa enn eignast. Hann er fyrsta skipið af þrjátíu, sem samið var um smíði á í Bretlandi, í október 1945, fyrir milligöngu Nýbyggingarráðs og íslensku ríkisstjórnarinnar. Skipið ef smíðað hjá skipasmíðastöð Mrss Cochrane & Sons, Ltd. Í Selby. Er það fyrsta skipið af átta, sem samið var um í þeirri smíðastöð. Það er smíðað samkvæmt ströngustu reglum flokkunarfjelagsins Lloyds í Bretlandi (+ 100 A L) og þó nokkuð styrkara, þar sem það þótti nauðsynlegt, vegna íslenskrar vetrarverðráttu. Lengd þess er 175 fet, breidd 30 fet og dýpt 16 fet. Það er 642 br rúmlestir og 216 nettó rúmlestir. Burðarmagn þess er 500 smálestir með 81 cm borð fyrir báru. Bolurinn er hólfaður í sundur með 7 vatnsþjettum skiljum, en alls eru í skipinu 20 vatnsheld hólf. Botn þess er tvöfaldur frá vjelarúmi og fram úr, og skiptist í geyma fyrir olíur, vatn og lýsi, þannig, að vatnsgeymar eru fyrir 60 smál. olíugeymar fyrir 245 smál. og lýsisgeymar fyrir 20 smál. Slík skipting bolsins í vatnsheld hólf, skapar margfalt öryggi fyrir skipið, ef það mætir áföllum af völdum veðurs, árekstra eða strands. Framrúmi er skipt í tvö fiski rúm, en þeim aftur skipt í 12 stíur, sem hver er útbúin með 4 hillum. Rúmar skipið þannig 300 smál. af ísfiski. Stærð þeirra er alls 45 þús. teningsfet. Eru þau öll þiljuð vatnsþjettri viðarsúð. Fyrir framan fiskirúmin er stór veiðafærageymsla, með hillum og skápum. Aðgangur er í hana frá þilfari.
íbúðir skipverja eru sem hjer segir: í stafni skipsins eru íbúðir og hvílur á tveimur hæðum fyrir 24 menn alls. Á neðri hæðinni er klefi fyrir 16 menn, og er það rúm mun stærra en áður var í eldri skipum, ætlað 24 mönnum. Á efri hæð er klefi fyrir 8 menn. En þess utan er þar setustofa sameiginleg fyrir hásetana, útbúin með borðum og bekkjum. Á þennan hátt geta þeir, sem frí eiga frá störfum, hvílt sig í næði, án þess að vera truflaðir af umgangi þeirra, sem við störf eru. Hverri hvílu fylgir sjerstakur geymsluskápur fyrir föt o. fl. og setubekkir eru meðfram öllum hvílum. Aðeins tvær hvíluraðir eru í hæðinni, í stað þriggja í gömlu skipunum, og því bæði loftrými og gólfflötur meiri fyrir hvern mann en áður þekktist. Út frá setustofunni og innan gengt úr henni, er baðherbergi og hreinlætisklefi fyrir skipverja, svo er sjerstakur klefi til að þurka og geyma í yfirhafnir og hlífar skipverja. Þar eru og tvö vatnssalerni. Í skut skipsins eru einnig íbúðir á tveimur hæðum.
 Á neðri hæðinni er sameiginlegt anddyri fyrir íbúðirnar á þessari hæð, með stiga á milli hæðanna. Fyrir aftan það er salur með 6 hvílum, borðum og legubekkjum. "Fyrir framan anddyrið er herbergi tveggja kyndara, með hvílum og bekkjum. Sitt til hvorrar hliðar eru tvö herbergi, annars vegar fyrir yfir og undirvjelstjóra, hins vegar fyrir yfir og undirstýrimann. Öll herbergi á þessari hæð eru útbúin með hvílum, stoppuðum og klæddum legubekkjum, borðum og skápum, en þiljur allar af gljáðum harð- viði. Á efri hæð er matsalur með borðum og bekkjum, nægilega stór fyrir alla skipshöfnina, með búri, skápum og matvælageymslum. Þar er og baðherbergi, hreinlætisklefi, tvö vatnssalerni og þurkklefi fyrir yfirhafnir. Er þessu komið fyrir til hliðar við borðsalinn og innangengt úr honum í alla þessa klefa.
Fyrir framan borðsalinn er rúmgott eldhús, með borðum, hillum og skápum og olíukynntri eldavjel. Samgangur er á milli borðstofu og eldhúss, Þar er og kæliklefi fyrir vistir, svo skipverjar geti jafnan haft nýmeti á borðum. Inngangur á þessa hæð er frá báðum hliðum og frá bátaþilfari, en samgangur til vjelarúms. Fremst í reisn er herbergi skipstjóra, með hvílu, legubekkjum, borði, stólum og fatask. allt af gljáðum harðviði. Þar fyrir aftan er baðherbergi, hreinlætisklefi og vatnssalerni. Samgangur er milli herbergis skipstjóra og stýrishúss, sem komið er fyrir á næstu hæð ásamt loftskeytaklefa og kortahúsi. Íbúðir allar eru hitaðar upp með olíukynntum miðstöðvarvjelum. Er dælt um þær allar tæru lofti eftir vild. Er það hvorttveggja nýjung frá því  sem áður hefur verið. Alls eru í skipinu íbúðir og hvílur fyrir 38 menn. Á bátapalli að aftan er komið fyrir við "patent" uglur tveim bjargbátum, útbúnum að öllu leyti  eftir ströngustu reglura um öryggi. Í reisn skipsins, yfir vjelarúmi, er komið fyrir lifrarbræðsluklefa. Verður þar komið fyrir bræðslutækjum af nýrri gerð, sem smíðuð eru hjerlendis að fyrirsögn Ásgeirs Þorsteinssonar, verkfræðings.
Skipið er útbúið með 1300 hestafla eimknúinni aðalvjel, er knýr það rúmar 13 mílur á klst. Er hún af hinni venjulegu þríþenslu tegund, gerð fyrir að nota yfirhitaðan eim, en þó endurbætt á margvíslegan hátt frá því sem áður hefur þekkst í togurum. M.a. er loftdæla vjelarinnar ekki sambyggð með henni, eins og venja er til, heldur er hún sjerstæð og rafknúin. Á þann hátt er ávalt hægt að halda uppi fullu sogafli, bæði fyrir aðalvjel og togvindu, hvort sem aðalvjelin er í hægum eða fullum gangi eða alveg stöðvuð. Er þetta mjög mikill eldsneytissparnaður og Ijettir mikið gang bæði aðalvjelar og togvindu, og fer miklu betur með þær vjelar báðar, í meðferð. Er hjer að ræða um algjörlega nýjung í togurum. Eimketill skipsins er smíðaður fyrir 225 lbs. þrýsting. Hitaflötur hans er 2800 ferfeta. Hann er kyntur með olíu í stað kola, og sparast því alt það erfiði og óþrifnaður, sem áður fylgdi kyndingu, kolamokstri, eldhreinsun og öskuburði. Mun margur gleðjast yfir þeim umbótum.
Aðalvjel og ketill er smíðað hjá Mrss Amos & Smith. Ltd., Hull. Settu þeir einnig niður allar vjelar í skipið. Ketillinn er útbúinn með yfirhitunarkerfi, frá Superheater Co., og loftþrýstivjelum frá Howdensverksmiðjum, sem dæla upphituðu lofti inn í eldkolin. Olíukyndingarvjelarnar eru smíðaðar hjá Walsend Shipway & Engineering Co., sem smíðuðu allar vjelarnar í herskipið Hood. Eru þær allar rafknúnar. Loftdælan og eimvatnsdælurnar eru rafknúðar sjerdælur, smíðaðar af Weirs-verksmíðjunum, en kælidælur, þilfarsdælur, austurdælur og aðrar sjerdælur, af Qroysdale-verksmiðjunum, og eru þær einnig allar rafknúðar. Er dælukerfið þannig útbúið, að þótt bæði kælidæla, aðalvjelar og loftdæla bili, má nota aðalvjel með 80% afli, sem er afarmikið öryggi fyrir skipið og algert nýmæli. Ný tegund vökvastýrisvjela, smíðuð hjá Donkin & Co. er tengd beint við stýrið, en virkt frá stýrishúsi. Öllum stýristaumum er því sleppt, og er það bæði til öryggis og þæginda. Ganga vökvadælurnar fyrir raf orku. Er þetta einnig nýmæli. Akkersvinda, tvöföld, smiðuð af Clark Chopman, og alveg sjerstaklega gerð fyrir íslenska togara, er rafknúin. Getur hún lyft báðum akkerum í einu á 15 faðma dýpi. Togvinda skipsins er eimdrifin. Er það eina aukavjelin, sem drifin er þannig'. Hún er 300 hestöfl að stærð, gerð fyrir 1200 faðma á hvert kefli. Er hún smíðuð af C. D. Holmes & Co., Hull, og margvíslega endurbætt frá fyrri tegundum. Þá eru í skipinu 2 dieselvjelar, hvor 120 hesta, með átengdum 80 kw rafal, sem framleiða raforku fyrir allar aukavjelar og til Ijósa.
Eru vjelar þessar smíðaðar hjá Ruston Hornsby & Co. En auk þess er ein 5. kw samstæða frá sömu verksmiðju, sem nota má til ljósa í höfnum. Skipið er útbúið með talstöð, loftskeytastöð og miðunarstöð frá M. P. Pedersen, Kbh., tveimur dýptarmælum Fathometer & Huges, sem bæði sjálfrita og senda neista, eftir vild, einnig með rafmagnshraðamæli, rafmagnsvjelsíma, " sjerstakri gerð áttavita, Radartækjum og öðrum nýtísku áhöldum. Þegar hinn valinkunni skipstjóri, Jóhann Pjetursson, var að lýsa fyrir blaðamönnum hinu glæsilega skipi sínu "Gylfa", fyrir nokkrum dögum, fjellu honum af munni þessi orð: "Ingólfur Arnarson er listasmíð. Þar er saman"komið allt, sem íslenskir og breskir útgerðarmenn og sjómenn geta óskað sjer". Betur verður þessu skipi ekki lýst. Hið glæsilega skip er árangur af samstiltum vilja þeirra manna allra, sem metið hafa verk ykkar sjómannanna undan farin mörg og erfið ár, til þess að mæta óskum ykkar og vonum um betra og öruggara far. Velkominn býð jeg Ingólf Arnarson að landi. Enn mun hjer með honum hefjast nýtt landnám, nýir möguleikar, nýir og betri tímar fyrir land og lýð, Þjer allir, sem mál mitt megið heyra, gefið honum blessun ykkar. Felið hann Guði og góðum vindum í bænum ykkar fyrr og síðar.

Morgunblaðið. 18 febrúar 1947. 

27.11.2016 10:42

1738. Hafnarey SF 36. TFSI.

Hafnarey SF 36 var smíðuð hjá Marstal Staalsskibs Værft A/S í Marstal í Danmörku árið 1983. 101 brl. 811 ha. Grenaa díesel vél, 596 Kw. Skipið var innflutt árið 1986, hét áður Santos af Öckerö. Eigandi var Krossey h/f á Höfn í Hornafirði frá 4 júlí 1986. Skipið var endurbyggt og lengt á Spáni árið 1999, mældist þá 138 brl. Skipið var selt til Murmansk í Rússlandi 10 nóvember árið 2006.


Hafnarey SF 36.                                                                                           (C) Snorri Snorrason.


Hafnarey SF 36 eftir breytingarnar á Spáni árið 1999.                                      (C) sverriralla.blog.is

               Hafnarey SF gjörbreytt

Nýverið kom Hafnarey SF 36 til heimahafnar á Höfn í Hornafirði eftir verulegar breytingar sem fóru fram í skipasmíðastöðinni Astilleros Pasajes í San Sebastian á Spáni. Skipið var lengt og mikil endurnýjun fór fram á vindubúnaði og togkraftur var aukinn. Verkfræðistofan Fengur hannaði breytingarnar en umboðsaðili spænsku stöðvarinnar hér á landi er Atlas hf. Nýtt vindukerfi skipsins er frá Vélaverkstæði Sigurðar og ný fiskimóttaka með blóðgunarkari, þvottakörum og færiböndum er frá Klaka hf.
Hafnarey var lengd um 5,5 metra og kemur lengingin einkum fram í helmings aukningu lestarrýmis. Þá var byggt yfir skipið að aftan og þannig fékkst aukið rými á millidekki. Yfirbyggingin gerði líka að verkum að hægt var að stækka stakkageymslu og bæta við einum klefa. Ný fiskimóttaka var sett í skipið, sem og blóðgunarkör og þvottakör. Allt var vindukerfið endurnýjað og samanstendur nú af þremur 14 tonna togspilum með auto-búnaði, tveimur grandaraspilum, tveimur gilsaspilum, pokaspili, útdráttarspili og bakstroffuspilum. Sett var á skipið nýtt perustefni, brú var hækkuð og loks var skipið heitgalvanhúðað og málað með skipamálningu frá Málingu hf.
Kostnaður við breytingarnar á Hafnarey SF nemur um 80 milljónum króna og væntir Jón Hafdal Héðinsson, skipstjóri og annar eigenda, þess að útgerðarform skipsins verði með líkum hætti og áður, þ.e. að sótt verði á humarmiðin, í skrápflúru og skötusel, auk þorsks. "Auk lengingarinnar er veigamesta breytingin sú að fá yfirbyggingina að aftan og pokagálgann," segir Jón Hafdal í samtali við Ægi en eftir breytinguna getur Hafnarey tekið 60-70 tonn af fiski í körum í lest.
Skipið er nánast eins og nýtt. Við fórum að huga að því fyrir tveimur árum að gera breytingar. Við völdum þennan kostinn frekar en kaupa annað skip, enda þarf þá oftast að gera einhverjar breytingar. Með því að fara þá leið sem við fórum þá fæst skip eins og við viljum hafa það," segir Jón Hafdal Vegna veiðireynslu Hafnareyjar fékk skipið ágætan kvóta í skrápflúru, nú þegar kvóti var settur á þá tegund. Jón Hafdal segir öllu meiri óvissu hafa verið skapaða varðandi skötuselsveiðar skipsins því á meðan á breytingunum stóð var gerð breyting á reglugerð þannig að óheimilt verður að veiða á fótreipistrolli nema með skilju og það segir Jón nánast útiloka skötuselsveiðar skipsins. "Við höfum fengið um 120 tonn af skötusel á ári og töluvert af meðafla en hann fæst ekki með þegar skiljan er notuð. Þessi reglugerðarbreyting setur því strik í reikninginn hjá okkur varðandi útgerð skipsins," segir Jón. Meðeigandi Jóns Hafdal í Hafnareynni er Gísli Páll Björnsson, sem jafnframt er yfirvélstjóri.

Ægir. 10 tbl. 1 október 1999.

           Hafnarey seld til Rússlands

Viðskiptahúsið hefur undirritað sölusamning á Hafnarey SF 36 til Rússlands. Skipið verður gert út frá Murmansk.Hafnarey SF 36 er í eigu Krosseyjar ehf. en það fyrirtæki var fyrr á þessu ári selt til Ingimundar hf. Í Reykjavík og hafði Viðskiptahúsið einnig milligöngu um þau viðskipti.Togarinn Hafnarey SF liggur nú í Reykjavíkurhöfn og er fyrirhugað að hann leggi af stað í dag, fimmtudag, áleiðis til Noregs og þaðan til Rússlands. Togarinn mun stunda togveiðar í Barentshafinu.
Eftirspurn er eftir góðum togbátum til Murmansk og ein ástæða þess að Rússarnir leita hingað er sú að hér eru yfirleitt bátar og skip í góðu ástandi og uppfylla flest þau skilyrði sem farið er fram á af hálfu kaupenda. Við erum að vinna núna í samningum um 2 önnur skip til Rússlands sem vonandi klárast innan skamms tíma en það tekur oft langan tíma og mikla vinnu að ljúka samningum við rússneska kaupendur," segir Þórir Matthíasson, framkvæmdastjóri Viðskiptahússins.

Mbl.is 28 september 2006.


26.11.2016 11:08

M. b. Marz NK 74.

Marz NK 74 var smíðaður í Vestnes í Noregi árið 1922. Eik og fura. 15 brl. 25 ha. Bolinder vél. Hét fyrst Bjarni Ólafsson GK 509 og eigendur hans voru, Elías Þorsteinsson, Bjarni Ólafsson og fl. í Keflavík frá 12 september árið 1924. Seldur í janúar 1926, Björgvin Jónssyni, Markúsi Sæmundssyni og Eiríki Jónssyni í Vestmannaeyjum, báturinn hét Marz VE 149. Umbyggður í Vestmannaeyjum árið 1929. Ný vél (1937) 72 ha. Tuxham vél. Seldur 1940, Gunnari Ólafssyni & Co. h/f í Vestmannaeyjum. Seldur 10 júní 1941, Ármanni Magnússyni í Neskaupstað, báturinn hét Marz NK 74. Ný vél (1944) 108 ha. Buda vél. Seldur 6 janúar 1949, Símoni Pálssyni í Hrísey, hét Marz EA 74. Seldur 25 júní 1952, Ugga h/f í Ytri Njarðvík, hét Marz GK 374. Seldur 25 maí 1954, Markúsi B Þorgeirssyni í Hafnarfirði, báturinn hét Þorgeir Sigurðsson GK 374. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 6 apríl árið 1959.


Marz NK 74 á Norðfirði.                                                                               (C) Björn Björnsson.
Flettingar í dag: 275
Gestir í dag: 41
Flettingar í gær: 779
Gestir í gær: 80
Samtals flettingar: 859318
Samtals gestir: 63061
Tölur uppfærðar: 23.6.2024 04:19:06