11.03.2017 17:06

V. s. Ægir. LBCF / TFEA.

Varðskipið Ægir var smíðaður hjá Burmeister & Wain í Kaupmannahöfn árið 1929. 497 brl. 1.300 ha. B&W díesel vél. Eigandi var Ríkissjóður Íslands frá 24 júní 1929. Skipið var endurbætt og breytt árið 1954. Skipið var selt í brotajárn til Englands og tekið af skrá í júlí árið 1968.


Varðskipið Ægir við komuna til landsins 14 júlí 1929.                                Ljósmyndari óþekktur.


Varðskipið Ægir.                                                              Ljósmyndari óþekktur, mynd í minni eigu.


Ægir í smíðum hjá Burmeister & Wain í Kaupmannahöfn árið 1929. Myndin er tekin þegar skipinu var gefið nafn við hátíðlega athöfn.                                                        (C) LHG.


Ægir við bryggju á Norðfirði árið 1958. Það er breski togarinn Cape Cleveland H 61 sem varðskipið tók í landhelgi út af Austfjörðum. Það má geta þess að sá togari fékk árið 1966 nafnið Ross Cleveland H 61. Togarinn fórst á Ísafjarðardjúpi 4 febrúar árið 1968.


Forsetaheimsókn Sveins Björnssonar til Norðfjarðar á Ægi sumarið 1944.   (C) Árni E Valdimarsson.


Varðskipið Ægir.                                                                     Ljósmyndari óþekktur.


Varðskipið Ægir. Líkan Sigurðar Jónssonar.                                           (C) Þórhallur S Gjöveraa.

                Varðskipið Ægir

Skipið kom hingið úr smiðum sunnudaginn 14. júlí 1929 og færði með sjer þýskan togara ("Tyr"), er hann hafði tekið fyrir sunnan land. Skipherra er Einar Einarsson áður fyrsti stýrimaður á "Óðni". Mjög hefir verið vandað til skipsins og er það búið ýmsum björgunaráhöldum og knúð með Dieselvjel (mótor) hinni fyrstu í Íslensku skipi. Hinn 16. júli fór "Ægir" inn í Hvalfjarðarbotn með margt manna, sem dómsmálaráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar hafði boðið í ferðina, sem var til þess farin að minnast heimkomu "Ægis" og kynnast honum. Á meðal gesta voru margir þingmenn, starfsmenn í Stjórnarráðinu, blaðamenn o. fl. Lúðraflokkur Reykjavíkur var með í förinni og skemti gestunum. Varðskipið leysti festar kl. 4,20 og var komið á ákvörðunarstað eftir réttar tvær stundir. Veður var hið fegursta, sól og heiður himinn, en siglingin inn Hvalfjörð er svo alkunn fyrir fegurð, að ekki þarf orðum að að eyða. Þegar "Ægir" var lagstur, skammt frá Geirshólma, voru veitingar fram bornar.
Undir borðum var sungið hið snjalla kvæði Þorsteins Gíslasonar, sem birt er hjer í blaðinu, en því næst bauð dómsmálaráðherra gestina velkomna, lýsti í fáum, ljósum dráttum baráttu Íslendinga fyrir því, að taka landhelgisgæsluna í sínar hendur, og mintist þeirrar miklu þýðingar, sem það hefði út á við, fyrir sjálfstæðsbaráttu þjóðarinnar, að Íslendingar ættu sjálfir og rækju strandgæsluskipin, sem sigldu undir Íslenskum fána, mönnuð Íslendingum.
Ráðherrann fór síðan nokkrum orðum um varðskipið nýja, hve á allan hátt var til þess vandað, svo að það uppfyllir allar þær kröfur, sem hægt er að gera til slíkra skipa nú á dögum. Skipið kvað hann hafa orðið dýrt, upp undir eina milljón króna; að vísu myndi skipið hafa orðið um 100 þús. kr. ódýrara, ef það hefði ekki verið smíðað sem mótorskip, en einmitt fyrir það mundi sparast mörg þúsund krónur á ári á rekstri þess. Ráðherrann þakkaði loks öllum þeim, sem lagt höfðu hönd að því að Ísland hefir eignast þetta vandaða varðskip. Var síðan drukkin skál "Ægis". Undir borðum mæltu og nokkur orð Magnús Torfason sýslum., forseti Sameinaðs Alþingis, og Karl Einarsson fyrv. sýslumaður.
Að snæðingi loknum hleypti skipstjóri af tveimur línubyssum, sem "Ægir" er útbúinn með, ef á hann er kallað til björgunarstarfsemi. Gestirnir skoðuðu skipið hátt og lágt, og Iuku menn lofsorði á það einum rómi, hve útbúnaður allur virtist fullkominn og skipið fagurt og vistlegt, ekki sist vistarverur skipshafnar, sem eru óvenjulega bjartar og rúmgóðar. Allmargir gestanna voru fluttir út í Geirshólma, og klifu upp á Hólmann. Að því loknu var haldið til Reykjavíkur aftur og komið þangað um miðnætti. Var förin að öllu leyti hin ánægjulegasta. "Ægir" er fallegt skip; er hann 170 feta langur, 29% fet á breidd, dýptin 17,5 og vjelin hefur 1300 hestaöfl. Skipið er hitað með rafmagni, hefur fullkomna miðunarstöð og hraðamæli af nýjustu gerð, sem er hið mesta þing. Auk þessa eru á skipnu tvær 75 cm. fallbyssur, tveir öflugir ljóskastarar, dráttaráhöld og dælur. Ættu þau björgunaráhöld að koma að góðum notum, þar sem staðhættir leyfa, að varðskipið geti nálgast svo strandað skip, að þeim verði komið við.

Ægir. Júlí 1929.

                   Sjóminjasafn

Svend Aage Malmberg haffræðingur ritar grein í Morgunblaðið í fyrri viku. Þar leggur hann til að varðskipið Ægir verði ekki selt til niðurrifs, eins og nú mun fyrirhugað, heldur varðveitt sem safngripur  á sérstöku sjóminjasafni. "Ægir yrði þannig fyrsti vísir að sérstöku sjóminjasafni á Íslandi og mundi vonandi efla áframhaldandi myndun sjóminjasafns á breiðum grundvelli. Slíkt safn gæti svo verið sem deild í Þjóðminjasafni Íslands eða sem borgarsafn í Beykjavík" segir greinarhöfundur. Hér er hreyft mjög athyglisverðu máli sem áreiðanlega er vert að gefa fyllsta gaum.
Sæferðaþjóð eins og Íslendingar þarf auðvitað að eiga sjóminjasafn, þar sem varðveittar séu minjar um Íslenzka sjómennsku frá ýmsum tímum. Auk veiðarfæra og annarra tækja er að sjómennsku lúta þyrfti að varð veita á slíku safni, skip frá ýmsum tímabilum Íslenzkrar sjóferðasögu, helzt í heilu líki, en að öðrum kosti smækkuð líkön. Slík söfn eru til í öðrum löndum, og það væri meira en æskilegt að unnt reyndist að koma slíku safni á fót hér. Hugmyndir um stofnun sérstaks sjóminjasafns hafa oft komið fram áður, þótt ekki hafi orðið af framkvæmdum.
En hinu má þó ekki gleyma að sjóminjar alls konar sem heima ættu á sjóminjasafni, eru til víðs vegar um land í góðri varðveizlu. Á Þjóðminjasafni er sjóminjadeild, og byggðasöfn víðs vegar um land eiga álitlegt safn sjóminja, sérstaklega þá byggðasöfnin á Ísafirði og í Vestmannaeyjum. Ýmis gömul skip og skipagerðir hafa verið tekin til varðveizlu, norður í Hrútafirði er hákarlaskipið Ófeigur geymt í sérstöku húsi, austur að Skógum er Péturseyjan varðveitt, vestur á Ísafirði er geymdur áttæringur í gömlum stíl. Í Þjóðminjasafninu er bátur með Engeyjarlagi; og fleiri skip hafa verið tekin til varðveizlu, þótt þeirra sé ekki hér getið. Talsverð uppistaða að sjóminjasafni er sem sagt til í landinu, en dreifð út um allt. Væru allar sjóminjar, bæði lausamunir og skip, komnar í einn stað væri það merkilegt safn, þótt auðivtað þyrfti miklu við það að auka til þess að það yrði fullkomið.
Af skiljanlegum ástæðum hefur einkum verið lagt kapp á að varðveita smærri skip, opna báta af ýmsuni gerðum, en minna hugsað um stærri skip frá síðari tímum, enda er varðveizla þeirra mikli meiri vandkvæðum bundin. Líkön munu þó víða vera til af slíkum skipum, og bætir það nokkuð úr skák, en auðvitað væri æskilegt að einhver slík skip væru líka varðveitt í heilu lagi. Gömlu togararnir frá því fyrir stríð munu nú allir horfnir úr sögunni, og er skaði að enginn þeirra skyldi vera varðveiltur til minja, jafnmikill þáttur Íslenzkrar útgerðarsögu og þeir voru. Við verðum að gæta þess að nýsköpunartogararnir fari ekki allir sömu leiðina, heldur taka einhvern þeirra til varðveizlu, meðan tími er enn til og auðvitað mundi varðskipið Ægir líka sóma sér vel á safni, bæði vegna sögu sinnar og gerðar.

Alþýðublaðið. 26 mars 1968.
Kjallaragrein. Svend Aage Malmberg.
                    Haffræðingur.

10.03.2017 18:16

B. v. Reykjaborg RE 64. TFUD.

Reykjaborg RE 64 var smíðuð hjá Ateliers & Chantiers Maritimes du Sud-Ouest í Bordeaux í Frakklandi árið 1927 fyrir Útgerðarfélagið Canu, Obellianne, Wimille & Cie í Boulogne í Frakklandi. Skipið hét áður Cap á l'Aigle. 685 brl. 800 ha. 3 þennslu gufuvél. Skipið var selt í janúar 1936, h/f Mjölni í Reykjavík, fékk nafnið Reykjaborg RE 64. Togaranum var sökkt af þýskum kafbát vestur af Barra Head við Skotlandsstrendur, 10 mars árið 1941. 12 skipverjar og 1 farþegi fórust en 2 skipverjar björguðust á fleka og var síðan bjargað um borð í breskt herskip.


Reykjaborg RE 64 í upphafi seinni styrjaldarinnar.                                   Ljósmyndari óþekktur.


Reykjaborg RE 64 á Siglufirði.                                                             Ljósmyndari óþekktur.


Reykjaborg RE 64. Teikning.                                                                       Höfundur óþekktur.

               Reykjaborg RE 64

Hinn 24. febrúar síðdegis, lagðist nýkeypt botnvörpuskip að hafnarbakka í Reykjavík og er hið stærsta sem Íslendingar hafa eignast. Þetta er Reykjaborg, eign hf. »Mjölnir'«, sem hér var stofnað í sl. janúar; skipa þar stjórn, Björn Ólafs, Mýrarhúsum, Geir Sigurðsson, skipstjóri og Jón Björnsson, kaupmaður. Hluthafar eru um 20. Franskt útgerðarfélag lét smíða skipið árið 1927 og hefur haldið því á veiðum við Newfoundland og hefur það reynst bezta skip. Það er 689 brúttolestir að stærð, 275 lestir netto og hefur 250 hestaflagufuvél. Það er búið öllum nýtízku siglingatækjum.
Auk þess er þar beinamjölsvél, sem malað getur 10 tonn af hráefni á dag og skilar úr því 2 tonnum af mjöli. Vélin er keypt í Englandi, til reynslu, og er vélasmiður, Kendall að nafni, með skipinu og kennir hann þeim, sem síðan taka við, hvernig nota skuli hana og gera við það, sem aflaga kynni að fara. Guðmundur Jónsson skipstjóri, Geir Sigurðsson og Jón Oddsson, útgerðarmaður í Hull, völdu og keyptu skipið í Boulogne sur Mer í Frakklandi, sigldu því síðan til Hull og fluttu heim kol. Hinn 3. marz lagði Reykjaborg í sína fyrstu veiðiför; er þar Guðmundur Jónsson skipstjóri, er áður var á bv. Skallagrími og stýrimaður er, Kristján Schram. Alls er skipshöfnin 42 menn. Ægir flytur eigendum Reykjaborgar, bestu óskir um góða framtíð og arðsemi þessa fyrirtækis, sem þeir með fjárframlögum og erfiði hafa unnið að og aukið með því, útgerð landsins og veitt vinnu, sem um munar.

Ægir. 1 mars 1936.

   Björgunarfleki af b.v. "Reykjaborg" finnst           mannlaus í hafi

 Togarinn hefur ekki komið fram á ákvörðunarstað

Togarinn "VÖRÐUR" frá Patreksfirði kom hingað um hádegisbilið í gær. Höfðu skipverjar fundið björgunarfleka frá togaranum "Reykjaborg", í hafi, um 170 sjómílur norður af St. Kilda á Hebridaeyjum. Flekinn var mannlaus, en á honum var ullarteppi og björgunarbelti. Áður en "Vörður" kom, og vitað var, að hann hafði fundið flekann, hafði útgerðarstjórn Reykjaborgar borist, skeyti frá umboðsmanni skipsins í Englandi, þar sem hann segir, að skipið hafi ekki komið á ákvörðunarstað og ekkert til þess spurst. Búist var við Reykjaborg til Fleetwood fimtudaginn 13. þ. m., því hjeðan fór skipið laugardaginn 8. þ. m. kl. 6 e. h. Þó talið sje nokkurnveginn víst að Reykjaborg hafi verið sökkt, eða að skipið hafi farist, þá er ekki vitað með neinni vissu um afdrif skipshafnarinnar. Vona menn í lengstu lög, að henni hafi verið bjargaf af flekanum eða ef til vill björgunarbátum skipsins á hafi, en að einhverra hluta vegna hafi ekki fregnast um það ennþá. Á togaranum var 14 manna áhöfn og einn farþegi, Runólfur Sigurðsson, skrifstofustjóri Fiskimálanefndar.
Blaðamaður frá Morgunblaðinu átti í gær tal af Guðmundi Jóhannssyni skipstjóra á togaranum "Verði", sem fann flekann frá Reykjaborg. Hann sagði svo frá,: Það var klukkan 7.30 f. h. laugardaginn 15. þ. m., að við sáum björgunarfleka á sjónum. Við vorum þá staddir á 59°, 25' norðlægrar breiddar og 10°, 22' vestlægrar lengdar, eða um 170 sjómílur norður af St. Kilda á Hebridaeyjum við Skotland. Á flekan fundum við ullarteppi, björgunarbelti og vatnskút, en í sjónum umhverfisflekann voru á floti lestarborð og borð úr dekkstíum. Við tókum flekann með okkur og svipuðumst um eftir mönnum, en sáum ekkert, sem gefið gat til kynna að annað væri að finna frá skipinu á þessum slóðum, Héldum við svo áfram leið okkar til Íslands og urðum ekki varið við neitt óvenjulegt á leið okkar eftir þetta.
Björgunarflekinn frá Reykjaborg er sömu tegundar og björgunarflekar þeir, sem Íslensk skip hafa haft síðan ófriðurinn hófst. Flekanum er haldið uppi á 6 blikktunnum, en sjálfur er flekinn eins og kassi í laginu, rúmlega 2 metrar á annan veginn og 1,5 meter á hinn veginn. Niðri í miðjum flekanum er ferhyrnt  opið hólf, sennilega gert til að geta skorðað sig í slæmum sjó.
Í þessu hólfi voru teppið og björgunarbeltið. Í flekanum voru matvæli og vatn í þar til gerðum kassa og vatnskúturinn, sem að framan greinir, en hann hafið losnað úr skorðum sínum, en af hverju er þó ekki ljóst. Björgunarflekinn ber þess merki, að á hann hefir verið skotið úr hríðskotabyssu. Hefir verið skotið að öðrum enda flekans og eru allt að 18 göt á einni tunnunni eftir byssukúlur. Aðeins tvær tunnur eru í flekanum, sem ekki hafa orðið fyrir skotum. Teppið á flekanum var einnig sundurskotið, en ekki þótti fullvíst í gær hvort það er tætt sundur af kúlum úr hríðskotabyssu eða sprengjubroti. Á björgunarbeltinu sást hinsvegar ekki neitt, og reimarnar á, því voru óslitnar.
Benda líkur helst til þess að það hafi aldrei verið notað. Þegar flekinn fannst flaut hann vel upp úr sjó, en þó hærri í annan endann, þeim megin, sem heilu tunnurnar voru. Þegar flekinn var hafinn um borð í "Vörð" fór tappinn úr vatnskútnum og verður því ekki sagt um hvort búið var að drekka af vatninu, sem í honum var. Skot hafði lent í matvælakassanum og sjór komist að matvælunum. Það var heldur ekki upplýst í gærkvöldi hvort nokkuð hafði verið snert við matvælunum Þegar Vörður kom í gærdag fór Kristján Skagfjörð stórkaupmaður, sem er í stjórn útgerðarstjórnar Reykjaborgar, um borð í Vörð og fjekk því framgengt, að togarinn kæmi ekki strax upp að, þar sem þá hefði ekki verið hægt að fyrirbyggja að sagan um flekann hefði breiðst út um bæinn.
Var aðstandendum mannanna á Reykjaborg tilkynnt um flekann, áður en Vörður lagðist upp að. Að tilhlutun ríkisstjórnarinnar var Sveinn Sæmundsson, yfirlögregluþjónn í rannsóknarlögreglunni fenginn til að rannsaka flekann og hluti þá, sem á honum fundust. Fjekk hann í lið með sjer við rannsóknina þá Friðrik Ólafsson, skólastjóra Stýrimannaskólans, og Pjetur Sigurðsson fyrv. sjóliðsforingja. Rannsökuðu þeir flekann gaumgæflega og tóku úr honum kúlnabrot. Síðan var flekinn fluttur í lokað port, sem útgerðarstjóri Reykjaborgar ræður yfir. Ullarteppið og björgunarbeltið eru í vörslu rannsóknarlögreglunnar.
Með Reykjaborg fóru í þessa ferð 14 manna áhöfn og sá fimmtándi var Runólfur Sigurðsson, sem farþegi. Skipshöfnina skipuðu þessir menn:
Ásmundur Sigurðsson skipstjóri, Víðirnel 53. Ásmundur Sveinsson, 1. stýrimaður, Sveinsstöðum við Kaplaskjólsveg. Óskar Þorsteinsson, 1. vjelstjóri, Víðimel 53. Gunnlaugur Ketilsson, 2. vjelstjóri, Shellveg 2. Daníel Oddsson, loftskeytamaður, Hlíðarhúsum við Vesturgötu. Guðjón Jónsson, 2. stýrimaður, Barónsstíg 33. Jón Lárusson, matsveinn, Grandaveg 37. Óskar Ingimundarson, kyndari, Nýlendugötu 11. Eyjólfur Jónsson, háseti, Hverfisgötu 90. Hávarður Jónsson, háseti, Flókagötu 12. Þorsteinn Karlsson, háseti, Tjarnargötu 10. Árelíus Guðmundsson, háseti. Rauðarárstíg 42. Óskar Vigfússon, kyndari, Hverfisgötu 100. Sigurður Hansson, kyndari. Framnesveg 16. 

Reykjaborg var stærsti togari Íslenska flotans og hið traustasta skip. Var nýlega búið að gera skipið upp (klassa það). Reykjaborg var keypt frá Frakklandi og kom hingað 24. febrúar 1936. Skipið var búið ýmsum tækjum, svo sem fiskimjölsvjelum til að vinna úr fiskúrgangi og aðrar nýjungar til hagnýtingar aflans voru í skipinu.

Morgunblaðið. 18 mars 1941.

  Þeir tóku allir morðárásinni með stillingu og kjarki

    Harmsaga togarans Reykjaborgar verður kunn

Þegar togarinn "Vörður" kom hingað á dögunum með sundurskotinn björgunarfleka "Reykjaborgarinnar", gat enginn verið í vafa um, að þetta stærsta skip togaraflotans var ekki lengur ofan sjávar. En þar sem svo virtist, sem menn hefðu hafst við á björgunarflekanum, vöknuðu vonir manna um það, að fleiri eða færri af skipverjum hefðu komist lífs af. Síðar barst fregnin um það, að breskt herskip hefði bjargað í hafi tveim mönnum af áhöfn Reykjaborgarinnar. Var óhugsandi, að hinum hefði einnig verið bjargað? spurðu menn og vonuðu, að enn gætu borist góð tíðindi. En nú er öll von úti. Nú er hinn blákaldi veruleiki kominn í ljós. í gær barst ríkisstjórninni eftirfarandi tilkynning frá sendifulltrúa Íslands í London:
Ríkisstjórninni barst í morgun símskeyti frá sendifulltrúa Íslands í London, er segir frá því, að Sigursteinn Magnússon, ræðismaður Íslands í Edinborg, hafi átt tal við þá tvo menn, sem vitað var, að hefðu bjargast af b.v. "Reykjaborginni"  
Ræðismaðurinn segir, að þeir hafi skýrt svo frá, að kl. 9,25 síðdegis mánudaginn 10. mars, 140 mílur út frá Barrahöfða, í myrkri en lygnum sjó, hafi "Reykjaborgin" orðið fyrir ákafri skothríð frá kafbát, og hafi hún sokkið innan klukkustundar. Stöðug skothríð hafi dunið á brúna og þilfarið og eyðilagt alla yfirbyggingu skipsins. Skipbrotsmennirnir telja, að aðrir skipsmenn hafi verið dánir af skotsárum, þegar skipið sökk. Sigurður Hansson, Eyjólfur Jónsson og annar kyndari komust undan, þegar skipið sökk, en annari kyndari dó af sárum og þreytu innan 36 stunda. Hinum tveimur var bjargað á fimmtudagskvöld 13. mars. Þeir segja, að allir á skipinu hafi tekið morðárásinni með stillingu og kjarki. Líðan skipbrotsmanna er sæmileg, og máttu þeir fara á fætur í gær. Sigurður Hansson er særður á handlegg og lítið eitt á fæti, en Eyjólfur Jónsson á handlegg, og auk þess í baki og á fæti.
Þessir menn fórust með Reykjaborginni:
Ásmundur Sigurðsson skipstjóri, Víðimel 53, f. 21. júní 1901; kvæntur Karólínu Karlsdóttur, barnlaus. Ásmundur Sveinsson, I. stýrimaður, Sveinsstöðum, f. 24. febr. 1905; ókvæntur.
Guðjón Jónsson, II. stýrimaður, Barónsstíg 33, f. 29. jan. 1894; kvæntur Hólmfríði Oddsdóttur, 1 fósturson.
Óskar Þorsteinsson, I. vjelstjóri, Víðimel 53, f. 24. mars 1902; kvæntur Þorbjörgu Karlsdóttur, barnlaus.
Gunnlaugur Ketilsson, II. vjelstjóri, Shellveg 2, f. 3. maí 1912; kvæntur Elsu Breiðfjörð, 1 barn 4 ára. Daníel Kr. Oddsson, loftskeytamaður, Hlíðarhús B, f. 21. júlí 1890; kvæntur Jóhönnu Priðriksdóttur, 8 börn, 4 innan 16 ára.
Jón Lárusson, matsveinn, Grandavegí 37, f. 25. sept. 1915; kvæntur Guðbjörgu Hjartardóttur, 1 barn á 1. ári.
Hávarður Jónsson," háseti, Flókagötu 12, f. 19. apríl 1901; kvæntur Aldísi Magnúsdóttur, barnlaus.
Þorsteinn Karlsson, háseti, Tjarnargötu 10, f. 26. sept. 1917; ókvæntur.
Árelíus Guðmundsson, háseti, Eauðarárstíg 42, f. 4. maí 1913; kvæntur Vigdísi Ólafsdóttur, 1 barn. Óskar Ingimundarson, kyndari, frá Djúpavogi, f. 5. nóv. 1909; ókvæntur, átti 1 barn 5 ára.
Óskar Vigfússon, kyndari, Hverfisgötu 100, f. 12. okt. 1907: kvæntur Þórlaugu M. Sigurðardóttur, 3 börn, 9, 5 og 2 ára.
Auk þess var einn farþegi með skipinu:
Runólfur Sigurðsson, skrifstofustjóri Fiskimálanefndar, kvæntur, og átti 3 börn.

Morgunblaðið. 25 mars 1941.

09.03.2017 17:37

234. Arnar RE 21. TFLL.

Arnar RE 21 var smíðaður í Harstad í Noregi árið 1964 fyrir Búðaklett h/f í Reykjavík. 187 brl. 600 ha. Wichmann díesel vél. Skipið var selt 14 janúar 1969, Skagstrendingi h/f á Skagaströnd, hét Arnar HU 1. Selt 14 mars 1974, Auðbjörgu h/f í Þorlákshöfn, skipið hét Arnar ÁR 55. Selt 19 júlí 1988, Blika h/f á Dalvík, sama nafn og númer. Skipið var selt til Svíþjóðar og tekið af skrá 19 september árið 1988.


Arnar RE 21.                                                                                     (C) Hafsteinn Jóhannsson.


Arnar HU 1 við bryggju á Skagaströnd.                                                    (C) Árni Geir Ingvarsson.

08.03.2017 13:42

860. Trausti ÍS 54. TFMW.

Trausti ÍS 54 var smíðaður hjá Landsmiðjunni í Reykjavík árið 1956. Eik. 40 brl. 240 ha. GM díesel vél. Eigandi var Þorgrímur h/f í Súðavík frá 15 mars 1956. Báturinn fórst í róðri 13 febrúar árið 1968 með allri áhöfn, 4 mönnum.


Trausti ÍS 54 í Reykjavíkurhöfn.              Ljósmyndari óþekktur, mynd úr þrautgóðum á raunastund.


Trausti ÍS 54.                                                                                       Ljósmyndari óþekktur.


Þeir sem fórust með Trausta ÍS 54.                                                 Morgunblaðið 20 febrúar 1968.

         Lýst eftir Trausta frá Súðavík
               með 4 manna áhöfn

                Fór í róður á mánudagskvöld
            Ekki heyrzt í honum frá kl. 17.00 í gær

Í kvöld var lýst eftir V.b. Trausta frá Súðavík, sem fór í róður í gærkvöldi og síðast heyrðist til kl. 16.30 til 17.00 í dag. Með bátnum er fjögurra manna áhöfn.
Klukkan 21.00 í kvöld kallaði loftskeytastöðin á Ísafirði bæði á íslenzku og ensku: "Lýst er eftir m/b Trausta Í.S. 54, er síðast heyrðist til milli kl. 16.30 og 17.00 í dag. Báturinn var þá lagður af stað í land frá stað 27 sjómílur í Gölt og 30,5 sjómílur í Rit, en þar hætti báturinn að draga línuna. Skip og bátar á þessum slóðum eru beðin að svipast um eftir bátnun.
M/b Trausti, sem er 40 lesta trébátur, fór í róður frá Súðavík á mánudagskvöld og mun hafa verið með 32 bala af línu. M/b Guðný frá Ísafirði hafði seinast samband við bátinn milli kl. 16.30 og 17.00 í dag og var hann þá hættur að draga og var á leið í land. Að öllu eðlilegu hefði báturinn átt að koma að landi um kl. 23.00 á þriðgudagskvöld. Í kvöld var margsinnis reynt að kalla upp bátinn og var talið hugsanlegt að loftnet hefði slitnað niður.
Var því Trausti beðinn að svara um neyðartalstöð, en ekkert hefir til hans heyrzt. Veður fór versnandi á miðunum fram eftir kvöldi og frost var mikið og Hilmir II, sem gerður er út frá Súðavík, leitaði vars um kl. 21.00 undir Deild til þess að berja af sér klaka og sagði þá, að veður væri sæmilegt þar og sjólítið, en bræla vestur með. Fór Hilmir II siðan út aftur til að svipast um eftir bátnum. Nokkrir aðrir bátar voru á þessum slóðum og margir voru á heimleið úr róðri til verstöðvanna hér á norðanverðum Vestfjörðum, og svipuðust þeir allir um eftir bátnum. Klukkan 21.15 fór varðskipið María Júlía frá Ísafirði til þess að leita að Trausta.
Bátarnir, sem voru út af Vestfjörðum, allt vestur að Blakk staðfestu, að þeir hefðu heyrt tilkynningu Slysavarnafélagsins Nokkrir bátar voru enn úti laust fyrir miðnætti að leita að Trausta, en Guðmundur Guðmundsson, formaður Slysavarnadeildarinnar á Ísafirði, tjáði Mbl, að hann hefði í kvöld talað við marga skipstjóra hér við Djúp, sem komnir voru að landi, og teldu þeir tilgangslítið að hefja almenna leit fyrr en með birtingu vegna þess hve aðstæður væru erfiðar, hvasst og mjög kalt. Var t.d. 12 stiga frost í Bolungarvík um kl. 23.00 í kvöld og spáð slæmu veðri í nótt. Um kl. 22.30 sagði Hilmir II, að veður væri eitthvað að skána, en 6-7 vindstig og sjór
Engar fregnir höfðu borizt af Trausta þegar bátarnir sem enn eru á sjó töluðu saman um klukkan hálfeitt í nótt. Þingeyrarradío heyrði til Trausta kl. 16,30 og sagðist hann þá vera búinn að draga 5 bala en þá slitið línuna og myndi láta vita kl. 19,30. Ólafur Friðbertsson frá Suðureyri var staddur um mílu, fyrr utan Trausta um þetta leyti og sagði að Guðný hefði fundið belg númer 5 frá Trausta og hefði þá Trausti farið að belgnum og dregið 4-5 bala en síðan ekki meir, því þá slitnaði línan. Um miðnætti voru nokkrir bátar enn að huga að Trausta og voru sex til sjö vindstig ANA og sögðu skipstjórar að frostið væri mjög mikið. Hilmir II frá Súðavík var kominn undir Barða til að berja af sér ís. Allir bátar frá Djúpi og Þingeyri, sem komnir voru að landi, hefja umfangsmikla leit að Trausta strax í nótt og voru sumir þegar farnir af stað um kl. eitt í nótt og aðrir voru að búa sig til brottfarar hið skjótasta. Er veður eitthvað að skána og skipstjórar segja að sæmilega bjart sé, 3-4 sjómílna skyggni allt út á 17 mílur.

Morgunblaðið. 14 febrúar 1968.

         V.b. Trausti frá Súðavík talinn af

            Með honum fórust 4 menn

Vélbáturinn Trausti Í. S. 54 frá Súðavík er nú talinn af og leit hætt. Með m.b. Trausta fórust fjórir menn:
Jón Magnússon, skipstjóri, frá Ísafirði, 36 ára, ókvæntur, en lætur eftir sig eitt barn.
Jón Ólafsson, stýrimaður, frá Garðstöðum í Ögurhreppi, 33 ára, ókvæntur og barnlaus.
Halldór Rúnar Júlíusson, vélstjóri frá Súðavík 30 ára, lætur eftir sig konu og sex börn.
Eðvarð Guðleifsson, matsveinn, frá Súðavík, 45 ára, ókvæntur og barnlaus.
V/b. Trausti, sem var 40 lesta trébátur, fór í róður frá Súðavík á mánudagskvöld. Milli klukkan 16:30 og 17:00 á þriðjudag hafði m/ b Guðný frá Ísafirði samband við bátinn og var hann þá hættur að draga og á leið í land. Að öllu eðlilegu hefði báturinn átt að koma að landi um klukkan 23:00 á þriðju dagskvöld. Veður fór versnandi á miðunum fram eftir kvöldi og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir náðist  ekkert samband við v/b Trausta. Leit að bátnum var hafin þegar um klukkan 21:00 á þriðjudagskvöld og var leitað bæði úr lofti og á sjó og landi þar til í gær. Um fimmtíu bátar og skip tóku þátt í leitinni, einnig tvær flugvélar, SIF, flugvél Landhelgisgæzlunnar, og flugvél Björns Pálssonar. Þá tóku hundruð manna þátt í leitinni á landi. Þessi umfangsmikla leit bar engan árangur og í gær var v/b Trausti talinn af.

Morgunblaðið. 17 febrúar 1968.

07.03.2017 11:42

B. v. Ingólfur Arnarson RE 153. LBMW.

Ingólfur Arnarson RE 153 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1912 fyrir Pétur J Thorsteinsson útgerðarmann og Fiskiveiðafélagið Hauk í Reykjavík. 306 brl. 520 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 540. Árið 1914-15 mun Fiskiveiðafélagið Haukur skráður eigandi. Skipið var selt franska flotanum árið 1917. Árið 1923 var skipið selt, S.A. P. Cheries Ostendaises í Belgíu, hét þar Nebris O 104. Selt 10 apríl 1924, Consolidated Steam Fishing & Co í Grimsby, hét Nebris GY 84. Nebris stundaði veiðar m.a. við Íslands og var þekktur landhelgisbrjótur og mun hafa verið tekinn nokkrum sinnum að ólöglegum veiðum. Togarinn mun hafa verið seldur í brotajárn árið 1936-37.

B.v. Ingólfur Arnarson RE 153 við Höfnersbryggju á Akureyri.                  (C) Hallgrímur Einarsson.


Ingólfur Arnarson RE 153 á Reykjavíkurhöfn.                                              (C) Magnús Ólafsson.


Ingólfur Arnarson RE 153 í Reykjavíkurhöfn 1913-14. Hafnarframkvæmdir hafnar. Mynd á póstkorti.


Ingólfur Arnarson RE 153 á ytri höfninni.                                                           Mynd á póstkorti.

   Trawlfélagið Bræðurnir Thorsteinsson
          og Fiskiveiðafélagið Haukur

Fyrstir til þess að hefja togaraútgerð á tímabilinu 1911-17 voru þeir bræður Pétur Jens og Þorsteinn Thorsteinsson, eða P.J. og Th. Thorsteinsson eins og þeir voru venjulega kallaðir. Pétur hafði losað sig úr Milljónafélaginu og gengið til samstarfs við bróður sinn, Þorstein, sem rak umfangsmikla verslun í Reykjavík undir nafninu Liverpool. Þeir kölluðu útgerð sína Trawlfélagið Bræðurnir Thorsteinsson og byrjuðu með því að taka tvo enska togara á leigu í vetrarvertíð 1911. Þeir hétu Vale of Lamox og Wetherley. Síðan létu þeir bræður smíða fyrir sig tvo togara í Englandi er nefndir voru Baldur og Bragi, og komu þeir til landssins snemma árs 1912.
Svo virðist sem bræðurnir hafi fljótlega viljað slíta samstarfinu því Pétur hvarf úr félaginu í desember árið 1913. Var það þó um stuttan tíma rekið áfram undir sama nafni, en skipstjórarnir á Baldri og Braga, þeir Kolbeinn Þorsteinsson og Jón Jóhannesson gerðust samstarfsmenn Þorsteins. Hinn 17.desember 1913 var stofnað Fiskiveiðahlutfélagið Bragi er tók við af hinu fyrra félagi. Hlutafé þess var 80 þús. Kr. Stjórn félagsins skipuðu tveir kaupmenn auk Þorsteins, þeir Guðmundur Olsen og Siggeir Torfason. Þetta félag starfaði út tímabilið, en seldi togara sína til Frakklands 1917. Th. Thorsteinsson hafði mikla fiskverkunarstöð á Ytra-Kirkjusandi í Reykjavík. Var reist þar þurrkhús, þar sem þurrka mátti saltfisk við ofnhita.
Pétur J. Thorsteinsson hætti ekki afskiptum af togaraútgerð, þó að hann sliti samstarfi við bróður sinn, því að hann var þá þegar orðinn einn af eigendum í Fiskiveiðafélaginu Hauki, er stofnað var um haustið 1912, og einnig framkvæmdastjóri þess. Þetta félag lét smíða í Englandi stærsta togara, er Íslendigar eignuðust fyrir fyrra stríð, en það var Ingólfur Arnarson. 

Haukur var sameignarfélag, er eftirtaldir menn áttu: Pétur Jens Thorsteinsson, Jóhannes Magnússon, kaupmaður í Reykjavík, Jón Magnússon fiskmatsmaður, Ingimundur Jónsson kaupmaður, Þorsteinn Jónsson járnsmiður, Sveinn Björnsson málflutningsmaður, Pétur Bjarnason skipstjóri og Jón Einarsson frá Vestmannaeyjum. Átti hver þeirra 1/8 hlut í félaginu. Annan togara keyptu þeir frá Hollandi árið 1916, og hét sá Þorsteinn Ingóflsson. Bæði skipin voru seld til Frakklands 1917.

Saga Íslenskrar togaraútgerðar fram til 1917.
Heimir Þorleifsson. 1974.

06.03.2017 13:33

L. v. Ólafur Bjarnason MB 57. LBMF / TFWE.

Línuveiðarinn Ólafur Bjarnason MB 57 var smíðaður í Wesermunde í Þýskalandi árið 1912. 197 brl. 300 ha. 2 þennslu gufuvél. Hét áður August Pieper. Eigandi var Bjarni Ólafsson útgerðarmaður á Akranesi frá 12 október 1929. Skipið var selt 14 mars 1940, Þórði Ásmundssyni, Ólafi Bjarnasyni & Co og Bjarna Ólafssyni & Co á Akranesi. Fær þá skráningarnúmerið AK 57. Selt 18 júlí 1942, Ásmundi h/f á Akranesi. Selt 22 desember 1951, Jóni Hjaltalín í Garðahreppi. Selt 16 desember 1952, Jóni Sigurðssyni í Reykjavík. Skipið var selt 9 janúar 1953, Guðmundi Kolka og Hallgrími Oddssyni í Reykjavík, skipið hét Rafn GK 72. Selt í brotajárn til útlanda og tekið af skrá 27 júní árið 1956.


Línuveiðarinn Ólafur Bjarnason AK 57. (ex MB 57).                                    (C) Óttar Guðmundsson.


L.v. Ólafur Bjarnason MB 57. Líkan Óttars Guðmundssonar.                      (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Ólafur Bjarnason MB 57. Líkan Óttars Guðmundssonar.                           (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Ólafur Bjarnason MB 57.                                                                       (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Ólafur Bjarnason MB 57.                                                                       (C) Þórhallur S Gjöveraa.

  Fjórir menn farast í lendingu á Akranesi

Bjarni Ólafsson skipstjóri og þrír hásetar hans

Það sviplega slys vildi til á Akranesi s.l. sunnudagsmorgun, að fjórir menn druknuðu svo að segja í flæðarmálinu. Vildi slysið þannig til, að bát hvolfdi, sem þeir voru að koma á til lands úr línuveiðaranum Ólafi Bjarnasyni. Tveir menn, sem voru í bátnum, komust af. Mennirnir sem fórust voru:
Bjami Ólafsson, skipstjóri, 54 ára . Hann lætur eftir sig ekkju og einn son, sem stundar læknisfræðinám í Háskólanum óg tvær uppeldisdætur.
Tómas Jóhannes Þorvaldsson, Bragagötu 4, Akranesi, 28 ára . Ókvæntur, en fyrirvinna aldraðrar móður og yngri systkina sinna.
Teitur Benediktsson, Suðurgötu 37, Akranesi. 34 ára . Lætur eftir sig ekkju og þrjú ungbörn.
Jón Sveinsson, Akri, Akranesi, 44 ára . Ókvæntur. Bjó hjá aldraðri móður sinni. Þeir, sem komust af voru:
Jón Ólafsson og Páll Sveinsson. Slysið vildi til um 10 leytið á sunnudagsmorguninn. Línuveiðarinn Ólafur Bjarnason kom á laugardag úr veiðiför. Aflanum var skipað upp samdægurs, en síðan var skipinu lagt út á skipaleguna á Krossvík, þar sem ótrygt þótti að láta það liggja við bryggju sökum hvassviðris og kviku. Flestir skipverjar voru í landi aðfaranótt sunnudagsins, en um borð var skipstjórinn, og eigandi skipsins, Bjarni Ólafsson. Hafði hann lagt svo fyrir, að hann yrði sóttur á skipsbátnum kl. 10 á sunnudagsmorgun.
Bjarni Guðmundsson, stýrimaður fór ásamt fjórum hásetum í skipsbátnum um borð til að sækja skipstjórann. Talsverður sjógangur var og hvasst af suðvestri, en bjart veður. Þegar um borð í línuveiðarann kom, varð Bjarni stýrimaður eftir um borð, en Bjarni skipstjóri og Jón Sveinsson háseti, sem verið hafði um borð um nóttina fóru í bátina. Í bátnum voru einnig hásetarnir fjórir, sem farið höfðu með stýrimanni um borð, en það voru þeir Páll Sveinsson, Teitur Benediktsson, Jón Ólafsson og Tómas J. Þorvaldsson. Þessir sex menn lögðu af stað í bátnum til lands og ætluðu að lenda í Teigavör, sem er skamt fyrir norðan hafnargarðinn. Í þessari vör er ávalt lent smábátum þeim, sem notaðir eru til þess að fara í á milli lands og fiskibáta þeirra, sem hafa legu á Krossvík. Tangi skagar í sjó fram vestanvert við vörina og þegar brim er og lásjávað brýtur frá tanganum yfir vörina. Þegar þeir fjelagar voru komnir rjett að tanganum, skullu þrjár öldur yfir frá
tanganum og biðu þeir meðan ólagið reið yfir, en eins og kunnugt er, falla venjulega þrjár öldur hver á eftir annari. Héldu þeir síðan inn í vörina, en þá skeði það" sem sjaldan skeður, að fjórða aldan skall á strax eftir þeim þrem og fyllti það ólag bátinn og hvolfdi honum. Fóru allir, sem í bátnum voru í sjó- inn. Þetta vildi til mjög skammt frá landi. Í fjörunni biðu nokkrir skipverjar af Ólafi Bjarnasyni ásamt fleirum, sem ætluðu að hjálpa til að setja skipsbátinn þegar hann kæmi að landi. Þegar mennirnir, sem í landi voru sáu slysið, brugðu þeir strax við og settu tvo báta á flot. Það er siður Akurnesinga, að taka árar og ræði úr bátum sínum og geyma í læstum skúrum þegar bátarnir standa uppi. Fór nokkur tími í að komast af stað, til að bjarga mönnunum. 
Þegar fyrri báturinn var kominn út á vörina, þar sem slysið hafði orðið voru tveir af mönnunum horfnir, þeir Teitur Benediktsson og Jón Sveinsson. Bjarni skipstjóri og Tómas Þorvaldsson flutu. Jón Ólafsson helt sjer uppi á sundi skammt frá bátnum, en Páll Sveinsson hélt sjer í bátinn. Jón Ólafsson var aðframkominn og hrópaði á björgunarmennina að  flýta sjer. Var honum fyrst bjargað hálf meðvitundarlausum og var síðan náð í Pál, sem enn hjekk í bátnum. Hinn báturirnn náði í þá Bjarna og Tómas og voru þeir báðir meðvitundarlausir. Páll náði sjer svo fljótt að hægt var að fara með hann heim til sín, en með hina þrjá var farið í næsta hús, sem Teitur Stefánsson trjesmíðameistari á. Þrír læknar, sem eru á Akranesi komu strax á vettvang og hófu lífgunartilraunir með aðstoð annara manna . Var lífgunartilraununum haldið áfram í fullar tvær stundir, en þær reyndust árangurslausar á þeim Bjarna og Tómasi. Jón Ólafsson var mjög dasaður en fyrir nákvæma og góða hjúkrun hresstist hann brátt. Lík þeirra Teits og Jóns Sveinssonar voru ófundin í gærkvöldi, þrátt fyrir nákvæma leit í gær og í fyrradag. Þetta átakanlega slys setti þegar sorgarsvip á Akranes. Akranes á þar að baki að sjá fjórum dugnaðarmönnum og meðal þeirra hinum landskunna skipstjóra og aflamanns.

Morgunblaðið. 21 febrúar 1939.

05.03.2017 11:11

346. Gotta VE 108. LBGD / TFEH.

Gotta VE 108 var smíðuð í Faxe í Danmörku árið 1916. Eik og fura. 35 brl. 48 ha. Alpha vél. Hét fyrst Sigurður l RE 188. Eigandi var Lárus Fjeldsted í Reykjavík frá 18 ágúst sama ár. Skipið var selt 14 október 1916, Fiskveiðahlutafélaginu Neptúnusi í Reykjavík. Selt 25 apríl 1922, Verslun Böðvarsbræðra í Hafnarfirði, skipið hét Sigurður l GK 501. Selt 8 febrúar 1928, Árna Böðvarssyni í Vestmannaeyjum, hét Gotta VE 108. Ný vél (1929) 65 ha. Saffe vél. Skipið var selt 11 janúar 1935, Björgvin Jónssyni í Vestmannaeyjum. Ný vél (1938) 135 ha. Delta vél. Selt 28 desember 1946, Hásteini h/f í Vestmannaeyjum. Ný vél (1952) 170 ha. Caterpillar díesel vél. Selt 17 janúar 1957, Sæmundi Ólafssyni, Friðrik Ólafssyni og Bjarna Hannessyni á Bíldudal, skipið hét Sigurður Stefánsson BA 44. Selt 15 janúar 1960, Halldóri Snorrasyni og Valdimar Einarssyni í Reykjavík, hét Blakkur RE 335. 14 október 1960 er Valdimar Einarsson einn skráður eigandi. Skipið var talið ónýtt og tekið af skrá í desember árið 1964 og síðan brennt.
Sumarið 1929 var Gotta VE tekin á leigu af nokkrum Grænlandsáhugamönnum sem stofnuðu félagið Eirík rauða. Var ætlun þeirra að fara til Grænlands og veiða þar Sauðnaut og flytja þau lifandi heim í þeim tilgangi að bæta dýralíf í flóru landsins. Greinin hér að neðan birtist í Lesbók morgunblaðsins 23 júní árið 1979 og var tekin saman af Gísla Sigurðssyni, blaðamanni Morgunblaðsins.


Gotta VE 108 á Reykjavíkurhöfn í júlí 1929.                                         (C) Þorleifur K Þorleifsson.

       Á GOTTU TIL GRÆNLANDS

      Ellefu hraustir menn fóru sumarið 1929 á 35 lesta báti í fræga                    ævintýraför til Grænlands, en tilgangurinn var að ná lifandi               sauðnautum, flytja þau til Íslands og koma hér upp sauðnautastofni. 


Nú þegar draumurinn um bætta hagsæld stendur um nýtízku tölvuvæddan iðnað, fullvinnslu á sjávarafla í lystilegar pakkningar, ellegar hugsanlega framleiðslu á vetni eða öðru, sem gæti komið í staðinn fyrir olíu og bensín, er fróðlegt að virða fyrir sér það sem menn töldu að horft gæti til framfara fyrir 50 árum. Árið 1929 er ekki að neinu leyti tengt stóratburðum í sögu lands og þjóðar. Þá var stund milli stríða, efnahagslífið eitthvað farið að jafna sig eftir verðfallið mikla upp úr 1920, sem kom í kjölfar fyrra heimsstríðsins,. Framundan, og það skammt framundan var heimskreppan mikla, sem var í hámarki á árunum 1931 - 1933, og nákvæmlega 10 ár þar til blásið yrði í ófriðarlúðurinn að nýju. Mönnum þótti að vísu sem miklar framfarir hefðu orðið, þegar litið var aftur í tíðina. Þær framfarir höfðu ekki hvað sízt orðið á sjónum. Eftir þann merka áfanga, sem náðist í sjálfstæðisbaráttunni 1918, var eðlilegt að menn hugleiddu í vaxandi mæli, hvað gæti orðið mannlífi á Íslandi til framdráttar. Um þessar mundir fór stjórn Tryggva Þórhallssonar með völdin, en áhrifamesti maðurinn í stjórn landsins var að flestra dómi Jónas Jónsson frá Hriflu.
Meðal þess sem mönnum þótti að gæti horft til framfara, var að auka við dýralíf landsins með því að flytja hingað sauðnaut frá Grænlandi. Þar var merkileg skepna, sem hafði aðlagast frábærlega harðræði og lifði á fjallagrösum, mosa og skófum. Þessar skepnur verða stærri en venjulegir nautgripir hjá okkur og sauðnautakjöt þótti að minnsta kosti ágætur matur. Allar líkur voru á því, að hér gætu sauðnautin lifað á landinu og orðið dágott búsílag. En það var stórmál að ná þeim til landsins. í því sambandi er vert að minnast þess, hversu auðvelt verk það væri nú. Nýlega var skýrt frá því hér í Lesbók, að vísindamenn merkja bjarndýr með því að skjóta þau úr þyrlu með svefnlyfi, sem svæfir þau um stundarsakir. Þannig mætti svæfa heilu hjarðirnar af sauðnautum og lyfta þeim á augabragði yfir í skip. Ísinn við Grænland er ennþá samur og jafn, en stendur síður fyrir nútíma ísbrjótum en Gottu litlu, sem ekki hafði einu sinni sprengiefni með í förinni, vegna þess að embættismannavaldið á Íslandi vildi ekki leyfa það.


Gotta VE 108 á ytri höfninni.                                                                      Ljósmyndari óþekktur.

Aftur á móti hefur áhugi á innflutningi sauðnauta ekki gert vart við sig í seinni tíð og meira kappsmál að draga úr ágangi og ofbeit en auka kjötframleiðslu, sem nóg er fyrir. Þetta og margt annað tengt sauðnautainnflutningi var rætt heima hjá Kristjáni Kristjánssyni skipstjóra á Grímsstaðaholtinu. Kristján var skipstjóri á Gottu, en hann og Gunnar tvíburabróðir hans eru nú þeir einu, sem eftir lifa af leiðangursmönnum, liðlega 81 árs gamlir. Gunnar var kominn til fundar við bróður sinn austan af Selfossi, þar sem hann hefur búið uppá síðkastið hjá dóttur sinni, en báðir eru þeir bræður vel á sig komnir eftír því sem eðlilegt má telja á þessum aldri og muna harla vel eftir Gottuleiðangrinum. Þeir bræður eru fæddir í Efra Vaðli á Barðaströnd í apríl 1898, en fluttust ungir með foreldrum sínum vestur í Arnarfjörð og vöndust þar sjósókn, bæði á árabátum og skútum. Kristján fékk skipstjórnarréttindi og var alla starfsævi sína á sjónum; um árabil til dæmis skipstjóri á Skaftfellingi og reyndist alla tíð farsæll. Gunnar varð aftur á móti vélstjóri; hann fór í Gottuleiðangurinn sem vélamaður og síðar setti hann upp og starfrækti vélaverkstæði í Reykjavík.


Gotta föst í Grænlandsísnum.                                                       (C) Einn leiðangursmanna.

Það var upphaf Gottuleiðangursins, að Kristján hafði ásamt fleiri Grænlandsáhugamönnum myndað félag, sem kallað var Eiríkur rauði og hafði á sinni stefnuskrá að flytja lifandi sauðnaut til Íslands. Hugmyndin mun einkum og sér í lagi hafa yerið komin frá tveimur mönnum: Ársæli Árnasyni bókbindara og bókaútgefanda frá Narfakoti í Njarðvíkum sem rak bókaverzlun við Laugaveginn og Þorsteini Jónssyni útgerðarmanni og kaupmanni frá Seyðisfirði. Að loknu námi í Möðruvallaskóla var Þorsteinn við nám í Noregi einn vetur, en hófst síðan handa um útgerð og verzlun á Borgarfirði eystra, en síðan bæði á Seyðisfirði og á Skálum á Langanesi. Hann fluttist til Reykjavíkur 1918 og gerðist einnig umsvifamikill þar, en verðfallið 1920 lék bæði hann og aðra grátt. Þorsteini var hugstæð náttúra Grænlands og dýralíf og vildi auðga dýralíf Íslands meö því að flytja sauðnaut til landsins. Sóttu þeir félagar um styrk til Alþingis og varð sú umsókn til þess að málið var rætt á þinginu 1928 og voru menn ekki á eitt sáttir. Þó fór svo að Alþingi samþykkti styrkveitingu að upphæð kr. 20.000 og skyldi nota hana til að greiða fyrir tíu lifandi sauðnaut komin á land. Með þá fjárvon í bakhöndinni var hafizt handa og segir gerla frá því í kveri Ársæls Árnasonar um Grænlandsför 1929, sem kom út sama ár og eins í ágætri og skilmerkilegri frásögn Sveins Sæmundssonar blaðafulltrúa, Á hættuslóðum, sem út kom 1970. Fleiri rit kunna að hafa komið út um þetta efni, þótt mér sé ekki kunnugt um þau. í viðræðum mínum við þá bræður Kristján og Gunnar kom fram, að ísinn við Grænland var það sem leiðangursmönnum stóð mestur stuggur af og reyndist enda mikill farartálmi. Vísindaleg hjálpargögn var engin að hafa; veðurstofan gat engan stuðning veitt, engar loftmyndir af ísbreiðunni en viss bjartsýni ríkjandi vegna þess að veturinn 1929 hafði verið sérstaklega mildur. Menn leiddu að líkum, að þá yrði ísinn gisinn og viðráðanlegur, en það reyndist alveg öfugt.


Áhöfn Gottu í Grænlandsleiðangrinum sumarið 1929. Fremri röð frá v: Finnbogi Kristjánsson, Markús Sigurjónsson, Gunnar Kristjánsson, Kristján Kristinsson og Þorvaldur Guðjónsson. Aftari röð frá v: Vigfús Sigurðsson, Ragnar Pálsson, Ársæll Árnason, Kristján Kristjánsson skipstjóri, Baldvin Björnsson og Edvard Fredriksen.                                           Ljósmyndari óþekktur.

Félagsmenn fengu í fyrstu augastað á 200 lesta skipi, sem hét Ameta og var smíðað sérstaklega til íshafsferða. Það var í eigu íslandsbanka á Ísafirði og fékkst ekki leigt til fararinnar; var aðeins til sölu fyrir 55 þúsund krónur. Ekki vildi fjármálaráðherra borga út styrkinn vegna slíkra skipakaupa; taldi sig ekki hafa heimild til þess og því varð niðurstaðan að taka á leigu sterkbyggðan 35 lesta bát frá Vestmannaeyjum og hét Gotta. Var hann tekinn á land og klæddur framanvert með galvaniseruðu blikki með það fyrir augum að verja hann skemmdum frá ísnum. "Færri komust í leiðangurinn en vildu", sagði Kristján skipstjóri, og voru þó margir sem töldu þetta mundi verða glæfraför og feigðarflan. Á öðrum stað er gripið niður í kver Ársæls Árnasonar, þar sem hann segir af leiðangursmönnum og vísast til þess. Einn þeirra, og raunar sá elzti í hópnum, var Vigfús Sigurðsson, kallaður Grænlandsfari vegna þess að hann haföi verið með í frægum Grænlandsleiðangri danska vísindamannsins J.P. Koch 1912-13 og komizt með miklu harðfylgi yfir þveran Grænlandsjökul. Vigfús var einn af stofnendum Eiríks rauða og þótti sjálfkjörinn til fararinnar. Hann var annars Þingeyingur og varð ungur vinnumaður í Möðrudal á Efra Fjalli og síðar póstmaður milli Grímsstaða og Seyðisfjarðar.


Markús Sigurjónsson og Vigfús Sigurðsson um borð í Gottu.                 (C) Einn leiðangursmanna.  

Þykir líklegt að sú póstleið hafi orðið honum góður skóli og komið að notum í Grænlandsförinni 1912. Skömmu eftir aldamót fluttist Vigfús til Reykjavíkur, kvæntist og fór að búa á Brekku á Álftanesi. Hann varð vitavörður á Reykjanesi 1915, en var nýlega fluttur til Reykjavíkur og vann þar við trésmíði, þegar Gottuleiðangurinn kom á dagskrá. Vigfús var þá 53 ára. Hásetar fengu greitt kaup. Forgöngumennirnir úr Eiríki rauða, þeir Kristján skipstjóri, Ársæll og Vigfús Grænlandsfari, fengu ekki neitt, ekkert varð afgangs handa þeim. Við blöðuðum í myndaalbúmi, sem Kristján á frá leiðangrinum; ræddum um undirbúninginn. Gunnar sagði, að þeir hefðu tekið með sér 60 olíutunnur í lest og einnig voru olíugeymar bátsins stútfylltir. Auk þess kvaðst hann hafa aflað sér þeirra varahluta, sem talið var að gæti komið sér vel að hafa með. Kristján: "Við héldum að bezt væri að leggja íann í júlí, en það er of snemmt. Þá er ísinn enn of þéttur. Við urðum að gera ráð fyrir þeim möguleika að teppast á Grænlandi og að við yrðum jafnvel að hafa þar vetursetu. En að sjálfsögðu vonaði maður í lengstu lög að til þess kæmi ekki. Um frystan mat var ekki að ræða, en við gátum ísað kjöt í kössum og við höfðum gnægð af mjölmat og brauðum. Þetta var umfangsmikill undirbúningur og við fengum aðstoð frá ýmsum verzlunum. Svo rann brottfarardagurinn upp: 4. júlí, 1929. Þá var bjartviðri og norðanátt og fegursta veður."


Gotta VE í ísnum.                                                                (C) Einn leiðangursmanna.

Kristján skipstjóri dró fram kort og við litum á leiðina, sem þeir þræddu norðaustur með ísbrúnni, óraleið norður með Grænlandi, a.m.k. fjórföld lengd Íslands frá austri til vesturs. Ég spurði Kristján, hvort ekki hefði verið hægt að komast beint yfir sundið út frá Horni; það er bara smáspölur á móti þessum ósköpum. En skipstjórinn brosti að landkrabbanum og sagði það af og frá. "Eina leiðin var að komast norður með ísbreiðunni og sigta upp á eyður til að komast ínn í vökina, sem verður meðfram strönd Grænlands". Þeim hafði miðað vel af stað, en fljótlega kom í Ijós, að loftskeytastöðin var gallagripur og nánast ónýt. Viðgerð á Ísafirði bar ekki árangur, samt var lagt í íshafið, þótt menn vissu að aungvum boðum yrði hægt að koma heim. Aftur á móti heyrðu þeir skeytasendingar. "Hinn 10. júlí varð fyrir okkur ókleifur ísveggur", segir í kveri Ársæls Árnasonar. Oðru hverju voru þeir að stefna Gottu inn í sund, sem urðu inn í jakaborgina og eitt sinn sigu jakarnir saman og lyftu skipinu hreinlega upp. Þeim fór að hætta að lítast á blikuna; allt í einu voru þeir þarna í hvítri auðninni, líkt og á þurru landi væri og til öryggis var farið með byssur og kúlnabirgðir út á ísinn. Að lítilli stundu liðinni gliðnuðu jakarnir í sundur á nýjan leik og án þess að nokkuð að ráði sæi á Gottu. Litlu síðar rákust þeir á norskan selfangara með sendistöð og gátu látið vita af sér.


Kristján Kristinsson stýrimaður á Gottu. Þessi mynd er máluð af Eiríki Smith listmálara í tilefni Gottuleiðangursins.

Kristján skipstjóri dregur fram leiðarbókina, sem hann geymir ennþá heima hjá sér. Þar kemur í Ijós, að hver dagurinn hefur verið nokkuð öðrum líkur á leiðinni. Eftir viku færir Kristján í bókina: "Svamlað milli vaka án árangurs. Sáum bjarndýr og skutum það. Reynt að komast áleiðis en alls árangurslaust." Hitinn er þá 1,5 stig. Eftir tvær vikur frá brottför, 18., júlí, stendur í leiðarbókinni: "Skipinu þrengt í gegnum ísinn eftir mætti í austurátt". Enn látum við líða viku og þann 25. ágúst hefur ekki mikið gerzt; þeir berjast enn við ísinn. Í leiðarbók þann dag stendur: "Legið á sama stað alla vökuna og skotnir nokkrir selir og eitt bjarndýr. Kl. 8 fm er ísinn orðinn nokkuð greiðari, var þá lagt af stað og stýrt í austur. Þeirri stefnu haldið til kl. 12 á hádegi, þá ekki hægt að komast neitt, skipinu lagt milli tveggja sléttra jaka. Kl. 5 er ísinn dálítið sundurlaus, þá lagt af stað og oftast stýrt í NA. Logn allan daginn og hillingar." Og enn líður vika. Þann 4. ágúst, mánuði eftir brottför frá Reykjavík ná þeir Gottu inn úr ísnum og í "landrennuna", sem þeir nefndu svo. þar heitir Mývík, sem þeir náðu landi og var þá talið að íslenzkt skip hefði ekki komið að Grænlandsströndum í 6-7 aldir. Þeir hittu þar fyrir leið- angursskip, sem flutti vistir til veiðimanna á Grænlandi og var íslendingunum bent á, að sauðnaut mundi hægt að finna í Dúsensfirði á Ýmiseyju. Bæði í kveri Ársæls Árnasonar og bók Sveins Sæmundssonar er greint frá ferðinni í talsverðum smáatriðum, sem ekki er hægt að fara út í hér. "Hvað sem öllum hættum leið þá dofnaði glaðværðin aldrei allan tímann," segir Ársæll á einum stað. Það er líka nefnt, að aðstaða til hreinlætis hafi verið af skornum skammti; menn bjuggu og sváfu þröngt. Sumir höfðu eitthvað bókakyns að lesa, Baldvin gullsmiður úr Eyjum teiknaði myndir og stundum var hlustað á grammófón, sem Hljóðfærahúsið gaf til ferðarinnar af hugulsemi. Ársæll segir líka, að menn verði furðanlega lausir við "pjatt" á svona skipi. "Hve mjög sem menn vildu halda sér hreinum", segir hann, "þá er það ekki hægt. Þrengslin eru mikil og alstaðar óhreinindi, sót frá eldavélinni og mótornum, olía frá tunnum á þilfarinu, fita af dýrum, sem veitt eru o.fl."


Bræðurnir og tvíburarnir, Kristján skipstjóri og Gunnar Kristjánssynir. Þeir voru einir lifandi af leiðangursmönnum þegar viðtalið var tekið í júní 1979, þá 81 árs gamlir. (C) Morgunblaðið.

Greinilegt er, að menn hafa verið nokkuð veiðiglaðir og hafa kannski skotið ívið meira af bjarndýrum en þeir fengu torgað. Þegar á land kom á Grænlandi, skutu þeir héra og greifingja, sáu refi, heyrðu í úlfum og fundu hreindýrahorn. Lifandi hreindýr urðu aftur á móti ekki á þeirra vegi. Næsta furðulegt er, hvað náttúran þarna er rík að dýralífi, og dýrin virðast alls ekki lifa neinu sultarlífi. Fyrsta tilraun þeirra félaga til að ná lifandi sauðnautum var næsta grátbrosleg. Þeir gerðu sér Ijóst, að ekki þýddi að reyna við fullorðin dýr, en til þess að ná kálfunum, urðu þeir að drepa mæður þeirra. Dýrin taka annaðhvort á rás, þegar þau verða manna vör, ellegar þau mynda þéttan hnapp og snúa þá hausunum út í varnarstöðu. Sauðnaut eru frá á fæti og hlaupa eins og geitur um snarbrattar grjótskriður. Ekki var hægt að láta tilvonandi sauðnautastofn Íslendinga annarsstaðar en í lestina á Gottu. Nú þurfti að tæma hana; ná olíutunnunum á dekk og öðru var staflað í káetuna, sem loftskeytatækjunum var annars ætluð. Grjót var flutt um borð og látið undir í lestina, en síðan smíðað gólf yfir til þess að grjótið raskaðist ekki í sjógangi og jafnframt var það flór handa dýrunum að standa á. Ennfremur smíðuðu þeir beizlur og jötur. Síðar í leiðangrinum reyndu þeir að finna slægjur og afla dálítilla heyja í poka handa dýrunum.


Sauðnautskálfarnir á Austurvelli stuttu eftir komuna til landsins. (C) Morgunblaðið.

Eitthvað gekk heyverkunin þó ekki sem bezt og varð úr þessu ruddi. Kristján: "Þarna var yfirleitt mjög fagurt og friðsælt. Sumstaðar var svo aðdjúpt, að við gátum lagt Gottu upp að landinu, líkt og að bryggju. Fjöllin voru svolítið græn uppeftir hlíðunum, en gróðurinn var allur mjög rýr." Dúsendsfjörður er álíka langur og Eyjafjörður og verður dalur innúr firðinum. Þar hófust sauðnautaveiðarnar. Heimferðin gekk að því leyti betur, að aðeins liðu 9 dagar frá því lagt var upp og þar til Gotta lagðist utan á Gullfoss á Reykjavíkurhöfn. Aungvu að síður var það erfiðasti hluti leiðangursins og kom til af því að þeir hrepptu hið mesta illvirði á leiðinni. Mátti telja mildi, að Gotta hélzt ofansjávar, veðurhæðin náði 10 vindstigum og varð þá að snúa skipinu til þess að verja það áföllum. Stóð veðrið í tvo sólarhringa og allan þann tíma var Gottu stefnt í vindinn fyrir fullu vélarafli og hrakti þó. Þá voru sett út rekakkeri; þrjár olíutunnur fylltar af sjó og bundnar við bátinn með vír, en allt slitnaði. Þilfarið hriplak í þessum ósköpum, mest þó yfir eldavélinni. Þó tókst að elda mjólkurvelling og sjóblautt skonrok höfðu þeir með. Allt endaði þó vel og þeim Gottumönnum var fagnað sem úr helju væru heimtir við heimkomuna.


Sauðnautskálfarnir á Austurvelli.                    Ljósmyndari óþekktur.

Gottuleiðangurinn var að öðrum þræði hugsjónastarf, en sumir tóku þátt í förinni af ævintýraþrá. Kristján skipstjóri segir, að tímakaupið hafi líklega verið í lægra lagi, þegar búið var að gera upp með þessum 20 þúsundum úr ríkiskassanum. En þar með voru sauðnautin orðin eign ríkisins og nú var að láta þau margfaldast og skila þúsundföldum arði. Austurvöllur var girtur um þessar mundir og þar voru dýrin sjö látin í fyrstu, svo bæjarbúar gætu barið augum þessa eign landsmanna allra, sem svo mikið haföi verið haft fyrir að ná í. Austurvöllur var ekki talinn sauðnautaland til frambúðar. Næsta skref var að flytja þau upp í Mosfellssveit og Vigfús Grænlandsfari tók að sér að gæta þeirra þar, en það var auðvelt, því sauðnautin voru orðin mannelsk og löbbuðu gjarna til Vigfúsar og þeirra félaga. Aftur á móti voru þau eitthvað styggari við ókunnuga. Eftir eina eða tvær vikur var þeim ekið austur í Gunnarsholt, sem þá var komið í eigu og umsjá ríkisins. þar var þeim sleppt á tún. Þá var mikil landeyðing í Gunnarsholti af völdum sandfoks og lítið um afdrep fyrir dýrin. Menn tóku eftir því að þau litu ekki við töðugresi á túnunum, en sóttu í móana og virtust yfirhöfuð ekki hafa í sig. Samt var ekkert gert annað en halda þeim þarna innan girðingar í umhverfi og á gróðri, sem hefur áreiðanlega verið þeim mjög framandi. Menn sáu hvert stefndi og Kristján skipstjóri og Þorsteinn Jónsson tóku sig til og gengu á fund Tryggva forsætisráðherra og kváðust uggandi um hag dýranna þar austurfrá. Tryggvi kvaðst aftur á móti ekkert geta gert. Sauðnautin fóru að drepast strax um haustið og í innyflarannsóknum, sem Níesl Dungal prófessor gerði, kom fram að orsökin var einfaldlega næringarskortur. Svo rótslitin voru þau úr sínu eðlilega umhverfi, að þarna gátu þau ekki lifað. Annað mál er hvað gerzt hefði ef sauðnautin hefðu þess í stað fengið að fara frjáls ferða sinna á fjöllum og öræfum. Þeim félögum í Eiríki rauða þótti sem of mikið hefði verið haft fyrir sauðnautunum til þess að öll tilraunin væri látin fara út um þúfur fyrir handvömm. Þeir vildu ekki gugna eða sleppa taki á hugmyndinni og keyptu tvö sauðnaut til viðbótar frá Noregi veturinn 1929-30, kvígu og tarf. Í fyrstu voru þau höfð uppi í Skorradal og virtust þau una sér vel þar. Veturinn varð snjóþungur og vildi þá svo illa til að bolinn fór niður um snjóhengju og hafði aðframkominn af sulti étið mold, þegar hann fannst. Drapst hann litlu síðar.


Kort af leið Grænlandsfaranna sumarið 1929.  

Kvígan var síðan flutt austur í Gunnarsholt og þar biðu hennar sömu örlög og hinna sauðnautanna. Lauk þessum tilraunum þar með.
Gotta hafði staðið sig vel í leiðangrinum og þolað með prýði hörð átök við ís og stórsjó. Verður að teljast við hæfi og minnst sé að lokum þessa ágæta farkosts, sem byggður var í Faxe í Danmörku árið 1916. Gotta var 35 lestir, 16,86 m á lengd og búin 75 hestafla Seffle-mótor. Í fyrstu hét skipið Sigurður I.; var gert út frá Reykjavík, og átti að fiska með troll, en það gekk illa. Áttu menn erfitt með að hífa upp trollið vegna þekkingarskorts og lélegs búnaðar. Eigandi skipsins var Árni Böðvarsson rakari og útgerðarmaður í Vestmannaeyjum og leigði hann Eiríki rauða skipið til Grænlandsfararinnar.
Gotta var gerð út til fiskveiða frá Eyjum og oftast á troll. Hún þótti gott skip og var í ágætu lagi, þegar hún var dæmd til eyðileggingar. Reglur mæltu svo fyrir, að skip yrði að brenna eða eyðileggja til þess aö hægt væri að fá fyrirgreiðslu hjá opinberum aðilum vegna nýrra skipakaupa. Betur hefði Gotta hafnað á sjóminjasafni og átti hún betri málalok skilið ekki síður en sauðnautin, sem hún bar heilu og höldnu til landsins.

Lesbók Morgunblaðsins. 23 júní 1979.

04.03.2017 16:11

2891. Kaldbakur EA 1. TF??.

Kaldbakur EA 1 var smíðaður hjá Cemre Shipyard Yalova í Istanbúl í Tyrklandi árið 2017 fyrir Útgerðarfélag Akureyringa ehf á Akureyri. 2.080 bt. (engar upplýsingar um vélartegund eða hestöfl enn). Skipið er 62 m á lengd og 13,5 á breidd. Kaldbakur leisir af hólmi eldra skip með sama nafni, ber raunar nafnið Sólbakur EA 301 í dag, en hefur þjónað Ú.A síðan árið 1974. Áætlað er að skipið kosti um 2,4 milljarða tilbúið á veiðar. Nú tekur við vinna að gera skipið klárt til veiða. Meðal annars verður sett upp ný aðgerðar og vinnslulína í skipið hjá Slippstöðinni á Akureyri. Reiknað er með að Kaldbakur haldi til veiða í byrjun júní. Það var Haukur Sigtryggur Valdimarsson á Dalvík sem sendi mér þessar myndir af togaranum þegar hann kom til heimahafnar í morgun. Þakka ég honum kærlega fyrir afnotin af þessum fallegu myndum sem hann tók á Akureyri í blíðunni þar í morgun.


2891. Kaldbakur EA 1 á Pollinum á Akureyri.                         (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


2891. Kaldbakur EA 1.                                                        (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


2891. Kaldbakur EA 1.                                                        (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


2891. Kaldbakur EA 1.                                                        (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


Skipstjórinn Sigtryggur Gíslason á brúarvængnum.               (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


Fjöldi fólks fagnaði komu skipsins til Akureyrar.                   (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


Gamli Kaldbakur. Heitir í dag Sólbakur EA 301.                     (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

03.03.2017 10:13

B. v. Karlsefni RE 24. LCKH / TFKD.

Karlsefni RE 24 var smíðaður hjá Ferguson Shipbuilders Ltd í Glasgow í Skotlandi árið 1918. 323 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 230. Hét fyrst John Dutton LO 514 og var í eigu breska flotans. Seldur í desember 1924, Firmanu Geir & Th Thorsteinsson í Reykjavík, fær nafnið Karlsefni RE 24. 1 september árið 1941 er skráður eigandi Hlutafélagið Karlsefni í Reykjavík. Skipið var selt P/F Garðari í Vogi í Færeyjum 1946, skipið hét Beinisvar TG 785. Togarinn var seldur í brotajárn til Odense í Danmörku og rifinn þar í desember árið 1956.


B.v. Karlsefni RE 24 á toginu.                                                              (C) Guðbjartur Ásgeirsson ?


Karlsefni RE 24 við Höfnersbryggju á Akureyri á 4 áratugnum.                (C) Minjasafnið á Akureyri.


Systurskipin Karlsefni RE 24 og Bragi RE 275 í Reykjavíkurhöfn.                 (C) Magnús Ólafsson.

02.03.2017 12:49

Björn austræni SI 8. TFMK.

Björn austræni SI 8 var smíðaður í Drammen í Noregi árið 1904. Járn. 70 brl. 70 ha. 2 þennslu gufuvél. Hét Samnöy áður en það kom til landsins. Eigandi var Friðrik Guðjónsson útgerðarmaður á Hellissandi frá 7 júní 1937. Skipið hét þá Björn austræni SH 8. 18 ágúst 1937 flutti Friðrik með skipið til Siglufjarðar, fær þá skráninguna SI 8. Ný vél (1942) 130 ha. Völund vél. Skipið var endurmælt sama ár, mældist þá 73 brl. Skipið strandaði við austanverðan Eyjafjörð (Gjögur) 5 nóvember 1943. Áhöfnin, 7 menn, bjargaðist á land og gekk yfir fjallgarðinn til Þorgeirsfjarðar og komust að bænum Þönglabakka. Reynt var að ná skipinu út en það tókst ekki og eyðilagðist það á strandstað.


Björn austræni SI 8.                                                                                  Ljósmyndari óþekktur.


    Línuveiðarinn Björn austræni strandar

Línuveiðarinn "Björn austræni" strandaði síðastl, föstudagsmorgun við Gjögur, yst í Eyjafirði að austan. Vonskuveður var og dimmt. Mannbjörg varð og gekk skipshöfnin yfir fjallgarðinn til Þorgeirsfjarðar og dvelur nú að Þönglabakka. Samkvæmt símtali við, Siglufjörð í gær, fór björgunarskútan Sæbjörg, sem var stödd á Siglufirði, að skygnast eftir skipinu og varð vör, við það í fjörunni milli Látra og Kjálkaness. Lá það þar á hliðinni að mestu leyti á þurru landi. Sæbjörg mun í dag, ef veður leyfir, athuga möguleika á að ná skipinu út. Björn austræni er 72 smálestir með 135 ha. vjel. Eigandi skipsins er Friðrik Guðjónsson útgerðarmaður á Siglufirði.

Morgunblaðið. 7 nóvember 1943.

01.03.2017 11:08

Hilmir ÍS 39. TFDM.

Hilmir ÍS 39 var smíðaður í Skipasmíðastöð KEA á Akureyri árið 1943. Eik. 88 brl. 215 ha. Polar díesel vél. Eigendur voru Hlutafélagið Reynir og Hlutafélagið Fjölnir á Þingeyri frá 1 nóvember 1943. Skipið fórst í sinni fyrstu ferð frá Reykjavík til heimahafnar, Þingeyrar 26 nóvember árið 1943. Með skipinu fórust 11 manns, 7 skipverjar og 4 farþegar. Ástæða fyrir sjóslysi þessu þótti torráðin, þar sem veður hafði verið sæmilegt nóttina sem skipið fórst. Var jafnvel talið að það hefði farist af hernaðarvöldum, þótt aldrei yrði það sannað þar sem enginn var til frásagnar.


Hilmir ÍS 39 nýsmíðaður á siglingu á Eyjafirði.                                  (C) Gunnlaugur P Kristinsson.


Þeir sem fórust með Hilmi ÍS 39.                                                        Úr Ægi frá 1 febrúar 1944.


Þeir sem fórust með Hilmi ÍS 39.                                                           Úr Ægi frá 1 febrúar 1944.

     Vélskipið Hilmir frá Þingeyri talið af

            Ellefu manns voru á skipinu
            Þar af tvær konur og eitt barn


Óttast er að sviplegt og hörmulegt sjóslys hafi orðið hjer í,Faxaflóa fyrir helgina. Vjelskipið Hilmir frá Þingeyri fór hjeðan aðfaranótt föstudags s. l. áleiðis til Arnarstapa. Síðan hefir ekkert til skipsins spurts og leit flugvjela og varðskipsins "Ægir" engan árangur borið. Er skipið talið af og leit að því hætt. Með skipinu voru 11 menn, 7 skipverjar og fjórir farþegar.
Farþegar með skipinu voru:
Elín Ólafsdóttir, gift kona frá Hamraendum í Breiðavíkurhreppi.  Kristín Magnúsdóttir, gift Ólafi Benediktssyni á Arnarstapa. Með henni var 7 ára fóstursonur hennar, Trausti Jóhannsson. Þá var og farþegi á skipinu Anton Björnsson, kunnur íþróttamaður hjeðan úr bænum, sonur Björns í Ánanaustum. Hann var íþróttakennari á vegum í. S. í. og var á leið vestur á Snæfellsnes í þeim erindum.
Skipstjóri á Hilmi var einn af kunnari fiskimönnum fiskiflotans, Páll Jónsson, sem lengst af var á "Fjölni". Hann var búsettur á Þingeyri, giftur maður og átti 4 börn. Stýrimaður var Friðþjófur Valdimarsson frá ísafirði. Ungur maður. Hann lætur eftir sig konu og tvö börn. Vjelstjórar voru bræður tveir frá Kjartansstöðum í Dýrafirði. Þórður Friðfinnsson 1. vjelstjóri og Sigurlinni Friðfinnsson, 2. vjelstjóri. Þeir voru báðir ógiftir. Hásetar, voru Árni Guðmundsson frá Þingeyri, ógiftur og Guðmundur Einarsson frá Þingeyri. Hann lætur eftir sig aldraða foreldra. Matsveinn var Hreiðar Jónsson, Jóns heitins Björnssonar ritstjóra. Hann var búsettur hjer í bænum, ókvæntur en á móðir á lífi.
Hreiðar var kunnur knattspyrnumaður hjer í bænum. Ljek lengi í meistaraflokki "Víkings".
V.s. Hilmir var nýtt skip, 87 smálestir að stærð. Byggt í skipasmíðastöð KEA á Akureyri. Var það útbúið öllum bestu tækjum. Það er um mánuður síðan skipið kom úr skipasmíðastöðinni. Hafði það farið í nokkrar ferðir milli Snæfellsness og Reykjavíkur með vikurfarm fyrir Vikurfjelagið. Eigendur skipsins voru hlutafjelögin Fjölnir og Reynir á Þingeyri. Framkvæmdastjóri Eiríkur Þorsteinsson kaupfjelagsstjóri.
Skip og flugvjelar leita. Þegar Hilmir kom ekki fram á laugardag, ljet Slysavarnafjelagið þegar lýsa eftir skipinu á sunnudag og í gær var leitað að skipinu hjer í flóanum og á hafi úti. Tóku þátt í þeirri leit varðskipið Ægir, flugvjelar ameríska hersins og íslenska flugvjelin.En leitin bar engan árangur. Veður, var svo heiðskýrt í gærdag, að hægt var að leita á öllu því svæði, sem hugsast gat að skipið væri á, ef það væri ofansjávar. Veður var slæmt aðfaranótt föstudagsins s. l., en þó er mönnum ráðgáta, hvernig þetta hörmulega slys hefir borið að höndum. Hilmir var traust skip og var þetta 7. ferð skipsins vestur. Hafði það oft áður lent í verra veðri en þessu.

Morgunblaðið. 30 nóvember 1943.

28.02.2017 11:41

B. v. Geir RE 241. TFED.

Geir RE 241 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1947 fyrir Hrönn h/f í Reykjavík. 655 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Skipið var selt 24 febrúar 1961, Síldar og fiskimjölsverksmiðjunni h/f í Reykjavík, sama nafn og númer. Skipið var selt til niðurrifs til Belgíu og tekið af skrá 2 júlí árið 1969.


B.v. Geir RE 241.                                                                                       (C) Shetland museum.


61. Geir RE 241 nýsmíðaður út í Hull.                                            (C) Cook Welton & Gemmell Ltd.


B.v. Geir RE 241 við Faxagarð.                                                                   (C) Ingi Rúnar Árnason.


Geir RE 241.                                                                                (C) Sigurgeir B Halldórsson.


Geir RE 241 að koma til löndunar í Grimsby.                                                      (C) Trawler Photo.


Geir RE 241 í smíðum í Hull.                                                                 (C) Hjálmar R Bárðarson.


  Nýsköpunartogarinn Geir á leið til landsins

Nýsköpunartogarinn Geir, sem er eign hlutafjelagsins Hrönn h. f. hjer í Reykjavík, er væntanlegur hingað seint á mánudagskvöld eða á mánudagsmorgun. Geir er byggður eftir sömu teikningum og Akurey, í skipasmíðastöðinni í Beverley. Hinum nýja togara var siglt áleiðis til Reykjavíkur á fimtudagsmorgun frá Grimsby. Þorgeir Pálsson framkvstj. útgerðarfjelagsins kemur með togaranum. Skipstjóri er Jóhann Stefánsson. Hann var skipstjóri á gamla Geir er fjelagið seldi til Færeyja.

Morgunblaðið. 2 nóvember 1947.

       Nýsköpunartogarinn Geir kominn.

Í gærmorgun kom nýsköpunartogarinn Geir hingað til bæjarins. Geir er eign útgerðarfélagsins Hrannar h.f. Togarinn var fánum skreyttur, þegar hann lagðist við Ingólfsgarð. Hann mun hefja veiðar, þegar búið er að setja lýsisbræðslutæki í hann.

Vísir. 4 nóvember 1947.

27.02.2017 18:06

Síldin GK 140. TFJK.

Síldin GK 140 var smíðuð í Lovestoft í Englandi árið 1912. Eik. 88 brl. 150 ha. Avance vél. Hét áður Blinken. Eigandi var Guðmundur Sigurjónsson útgerðarmaður í Hafnarfirði frá 11 nóvember 1935. 30 desember 1940 var skráður eigandi Síldin h/f í Hafnarfirði. Skipið var talið ónýtt og rifið árið 1959.


Síldin GK 140.                                                                                         Ljósmyndari óþekktur.

26.02.2017 18:08

Magni NK 68.

Magni NK 68 var smíðaður í Molde í Noregi árið 1935. Eik og fura. 19 brl. 25 ha. Wichmann vél. Eigendur voru Guðjón Eiríksson, Bergur Eiríksson, Ásgeir Bergsson og Tómas Jóhannesson í Neskaupstað frá 14 mars 1935. Ný vél (1944) 108 ha. Buda díesel vél. Báturinn fórst í róðri út af Garðskaga 9 febrúar árið 1946 í miklu óveðri. 4 skipverjar fórust en einum var bjargað um borð í Barða frá Húsavík. Einnig fórust í þessu óveðri 3 aðrir bátar með samtals 18 mönnum. 


Magni NK 68 við bryggju í Neskaupstað.                                                         (C) Björn Björnsson.

      Mannskaðaveðrið 9 febrúar 1946

    Fjögurra báta er saknað, en flestir aðrir urðu fyrir                               miklum áföllum og tjóni

Síðastliðinn laugardag gerði aftaka veður á Suður og Vesturlandi. Flestir bátar voru þá á sjó og hrepptu hið versta sjóveður og komust margir við illan leik í land, eftir að hafa orðið fyrir línutapi og fengið áföll, Fjögurra báta er saknað. Af þeim er vitað með vissu um afdrif eins, m.b. Magna frá Norðfirði, en hann sást farast út af Garðskaga og líkur benda til um sömu afdrif annars, m.b. Geirs frá Sandgerði, þvi farið er að reka lóðabelgir og brak úr stýrishúsi hans á fjörunum skammt frá Sandgerði. Um afdrif hinna bátanna tveggja, sem saknað er, er ekki vitað, en þeirra hefir verið leitað af bátum og flugvélum árangurslaust. Þeir heita Max, frá Bolungarvík, og Alda, frá Seyðisfirði.
Þá tók út tvo menn af vélbátnum Hákon Eyjólfsson, frá Garði. Alls er óttast um, að rúmlega tuttugu menn hafi farizt í ofviðri þessu.
Vélbáturinn Magni frá Norðfirði var gerður út frá Sandgerði. Hann fór í róður eins og allir hinir bátarnir, á föstudagskvöld. Var hann seint búinn að draga línuna, eins og fleiri bátar, og var á leiðinni til lands, er honum hvolfdi undan Garðskaga. Nærstaddur var þar báturinn Barði frá Húsavík og sá til afdrifa Magna og fór á Vettvang. Þegar þangað kom flaut brak á sjónum og hélt einn mannanna sér uppi á því og varð honum bjargað. Til annarra af skipshöfninni sást ekki. Sá, sem komst af, var vélamaðurinn. Áhöfnin var alls fimm menn. Frá hinum bátunum þremur, sem saknað er, hefir ekkert frétzt, þrátt fyrir mikla eftirgrennslan, en vegna veðurofsans síðari hluta laugardagsins, er talið ólíklegt, að nokkur þeirra sé ofansjávar, fyrst þeir eru ekki enn búnir að ná landi.
Áhöfn hvers báts hefir verið fimm menn og hafa því farizt 21 maður i óveðrinu, svo vitað er um, 19 af bátunum fjórum, en auk þessa tók tvo menn út af vélbátnum Hákoni Eyjólfssyni frá Garði, sem ekki náðust aftur. Vélbáturinn Geir frá KeflavíK réri þaðan á föstudagskvöldið og vissu menn það síðast til hans á laugardag, að hann var að draga lóðir sínar. Síðan hefir ekkert til hans spurzt, nema hvað farið er að reka úr honum skammt frá Sandgerði. Hefir rekið bjóð og lóðabelgi og einnig brak úr stýrishúsi og aftursigla. Líkur benda því til, að báturinn sé ekki lengur ofansjávar. Til vélbátsins Max frá Bolungarvík hefir ekkert spurzt síðan hann fór í róður á föstudagskvöld. Lóðir bátsins fundust á sunnudaginn um 10 sjómílur undan Deild. Þann dag leituðu sex bátar að Max í allgóðu veðri og góðu skyggni, en sú leit bar engin árangur. Fjórði báturinn, sem saknað er, er vélbáturinn Aldan frá Seyðisfirði, sem rær frá Hafnarfirði. Til hans hafði ekkert spurzt í gærdag.
Margir bátar frá verstöðvum við Faxaflóa og vestanlandi komust við illan leik til hafnar og voru sumir hætt komnir. Allt lauslegt tók fyrir borð á mörgum bátum, rúður brotnuðu og einnig urðu nokkrar aðrar skemmdir á bátum vegna sjógangs. Lóðatap er mikið, fæstlr bátar gátu dregið allar lóðir sínar og nokkrir sáralítið af þeim. Vera má þó, að nokkuð af bátum finni lóðir sínar aftur, enda reru flestir bátar við Faxaflóa aftur á sunnudagskvöldið. Vélbáturinn Freyja hélt uppi björgunarstarfsemi á Faxaflóa ofviðrisdaginn í stað Sæbjargar og hjálpaði þremur bátum til hafnar, Bjarna Ólafssyni, Eini og Faxa. Þá fór linuveiðarinn Ólafur Bjarnason, sem var á Akranesi, er ofviðrið skall á, bát til hjálpar, sem var með bilaða vél og virtist mundi reka upp á Mýrar. Var það vélbáturinn Særún frá Siglufirði, en skipverjum tókst að koma vélinni í lag og náði báturinn þvi heilu og höldnu til lands hjálparlaust. Þrjá menn tók út af vélbátnum Ófeigi frá Vestmannaeyjum og náðust þeir allir inn aftur og má það teljast hraustlega gert í slíkum veðurofsa og sjógangi. Skipstjóri á Ófeigi er Angantýr Elíasson. Báturinn Hermóður af Akranesi varð fyrir vélbilun, er hann var að fara frá bryggju til legufæra sinna á laugardagskvöldið, og rak hann á land upp í kletta hjá Sólmundarhöfða við Langasand. Mannbjörg varð, en líklegt er talið, að báturinn hafi orðið fyrir verulegum skemmdum og muni ekki nást út, nema sjór kyrrist fljótlega.
Þeir sem fórust með Magna NK 68 voru:

Sigurður Samsonarson skipstjóri Neskaupstað.
Steingrímur Jónsson háseti Neskaupstað.
Halldór Sigurðsson háseti Neskaupstað.
Erlingur Þorgrímsson háseti Selnesi við Breiðdalsvík.

Skipverjinn sem bjargaðist hét Ríkharður Magnússon (Gæi í Baldurshaga) vélamaður Neskaupstað.

Tíminn. 12 febrúar 1946.

25.02.2017 12:08

7. Anna SI 117. TFBZ.

Anna SI 117 var smíðuð í Zaandam í Hollandi árið 1960. 150 brl. 500 ha. Kromhout díesel vél. Eigandi var Þráinn Sigurðsson á Siglufirði frá 17 desember árið 1960. Skipið var selt 28 maí 1970, Skrúðsbergi h/f á Fáskrúðsfirði, hét Anna SU 3. Selt 14 mars 1974, Sverri h/f í Grindavík, skipið hét Anna GK 79. Ný vél (1975) 640 ha. Samofa díesel vél. Selt 16 mars 1978, Önnu h/f í Stykkishólmi, hét Anna SH 35. Selt 10 október 1979, Skagabergi s/f á Akranesi, hét Anna AK 56. Ný vél (1980) 640 ha. Mitsubishi díesel vél. Selt 2 janúar 1984, Rækjunesi h/f í Stykkishólmi, hét Anna SH 122. Skipið var endurmælt 26 febrúar 1985, mældist þá 132 brl. Skipið var selt 16 janúar 1990, Ósk h/f í Vestmannaeyjum, hét Freyr VE 700. Selt 31 maí 1991, Eyjavík h/f í Vestmannaeyjum, hét þá Sigurvík VE 700. Selt 15 apríl 1994, Goðaborg h/f í Vestmannaeyjum, hét Stokksnes VE 700. Skipið var talið ónýtt og tekið af skrá 14 febrúar árið 1995.


Anna SI 117 með síldarfarm á Seyðisfirði.                                                      Ljósmyndari óþekktur.


Anna SI 117.                                                                                        (C) Hafsteinn Jóhannsson.


Anna SI 117 með fullfermi síldar á Siglufirði.                                             Ljósmyndari óþekktur.


            Nýtt skip til Siglufjarðar

Annan jóladag s.l. kom til Siglufjarðar nýr 150 tonna stálbátur, smíðaður í Hollandi. Báturinn heitir Anna S.I. 117. Eigandi bátsins er Þráinn Sigurðsson, útgerðarmaður. Anna er hið vandaðasta skip að sjá, og búin ýmsum nýtízku útbúnaði og tækjum. Skipstjóri er Jón Guðjónsson og vélstjóri Egill Kristinsson. Síðan um áramót hefur Anna stundað línuveiðar með útilegum, en mun nú sigla með aflann á erlendan markað.

Einherji. 26 janúar 1961.

Flettingar í dag: 454
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 1134
Gestir í gær: 51
Samtals flettingar: 1063079
Samtals gestir: 76988
Tölur uppfærðar: 11.12.2024 17:42:55