20.02.2018 18:24
497. Gullver NS 12. TFKC.
Hjálparbeiðni
frá Gullver
Við Norðurenda Hjaltlandseyja heyrðu skipverjar á togskipinu
Margréti SI 4 frá Siglufirði,
hjálparbeiðni frá vélbátnum Gullver NS 12, en það er nýr 70 lesta bátur
smíðaður í Danmörku, er var á leið til Seyðisfjarðar frá Danmörku. Brotnað
hafði tannhjól í olíudælu bátsins og rak hann fyrir sjó og vindi. Jökulfell var
nærstatt, en tókst ekki, þrátt fyrir nákvæma staðarákvörðun Gullvers, að finna
hann. Brá Margrét þá til hjálpar, en hún er búin mjög fulkomnum miðunartækjum,
enda fann hún bátinn innan skamms. Setti hún vír yfir í Gullver og hugðist
reyna að draga hann til hafnar í Færeyjum en fljótlega slitnaði hann aftan úr,
enda ekki nægilega góð dráttartaug til um borð í Margréti. Varð það því úr að
Margrét aðstoðaði Jökulfellið við að finna bátinn, en síðan dró Jökulfellið
hann til hafnar í Klakksvík í Færeyjum.
Þjóðviljinn. 19 febrúar 1959.
Nýr bátur
til Seyðisfjarðar
Síðastliðinn sunnudag kom nýr bátur til Seyðisfjarðar.
Nefnist hann Gullver og er eigandi hans Ólafur Ólafsson. Gullver hafði hreppt
storma á leið til landsins og orðið fyrir vélarbilun og var dreginn til Færeyja
þar sem viðgerð fór fram.
Gullver var smíðaður í Danmörku. Hann er 70 lestir að stærð með 360 ha.
Blackstone díselvél og 17 ha. hjálparvél og búinn þeim siglinga og
öryggistækjum sem nú tíðkast. Skipstjóri á bátnum verður Jón Pálsson,
Seyðisfirði, en Sigurður Þorsteinsson sigldi bátnum til landsins. Gullver hefur
verið leigður til Keflavíkur og verður gerður út þaðan í vetur.
Austurland óskar eigandanum og Seyðfirðingum öllum til hamingju með bátinn.
Austurland. 27 febrúar 1959.
497. Ver VE 200 í innsiglingunni til Vestmannaeyja. Ljósmyndari óþekktur.
Fjórir
sjómenn fórust við Eyjar
Tveir komust
af er Ver VE 200 fórst í gærkvöldi
Fjórir sjómenn fórust með mótorbátnum Ver VE 200 skammt
austur af Vestmannaeyjum á áttunda tímanum í gærkvöldi, en tveir skipverjar
komust af. Bakkavíkin ÁR 100, sem er gerð út frá Eyjum, sigldi af tilviljun
fram á gúmmíbjörgunarbát úr Ver stuttri stundu eftir að slysið varð. Náði
Bakkavíkin mönnunum tveimur og fann lík eins skipverjans á floti innan um brak
úr bátnum. Milli 20 og 30 Eyjabátar fóru þegar á slysstaðinn og leituðu þeir í
gærkvöldi og nótt. Þeir sem komust af voru skipstjórinn, sem er heimamaður og
aðkomumaður í hópi skipverja. Bakkavíkin leitaði á slysstaðnum þar til aðrir
bátar komu á vettvang.
Ver átti eftir um tvær mílur ófarnar að Bjarnarey þegar báturinn fékk á sig
hnút sem lagði hann á hliðina. Skipstjórinn reyndi fyrst að keyra bátinn upp,
en þegar hann rétti sig ekki reyndu skipverjar að komast í gúmmíbjörgunarbátana.
Allir skipverjar komust á þilfar, en flestir voru fáklæddir, því slysið bar svo
skjótt að. Tókst skipverjum ekki að ná nema öðrum gúmmíbjörgunarbátnum en
bátarnir voru báðir staðsettir á stýrishúsinu. Aðeins tveir skipverjanna komust
í gúmmíbjörgunarbátinn, en ekki hafði tekizt að senda út neyðarkall áður en
báturinn var yfirgefinn.
Að öllum líkindum hafa ekki liðið margar mínútur þar til Bakkavíkin kom á
vettvang en þá þegar voru skipverjarnir í björgunarbátnum orðnir þrekaðir af
kulda. Að sögn skipverja á Bakkavík voru þeir á lensi á landleið að ljúka við
aðgerð þegar skipstjórinn, Þórður Markússon, sá Ijós framundan Bakkavíkinni,
lítið eitt á stjórnborða. Bað hann skipverja að gæta að, því að hann hélt að
þarna væri trillubátur á útleið, en þegar að var gætt sáu þeir að ljósið var á
þaki gúmmíbjörgunarbáts og var talsvert brak stíufjala og annars á floti í
kringum bátinn. Var svo skammt liðið frá því að gúmmíbjörgunarbáturinn blés upp
að ennþá heyrðist í honum blístur þar sem umframloft blés út um ventil.
Bakkavíkin náði mönnunum strax úr björgunarbátnun og tilkynnti um slysið. Héldu
nokkrir tugir Eyjabáta þá þegar úr höfn, sumir hættu löndun og ræst var út á
aðra. Var síðan leitað allt frá hafnarmynninu, Faxaskeri og austur fyrir
Bjarnarey og Elliðaey, en eyjarnar eru við bæjardyr Heimaeyjar. Austsuðaustan
7-8 vindstig voru á Stórhöfða þegar slysið varð, en Ver var um 80 tonn að
stærð. Skipbrotsmennirnir voru fluttir í sjúkrahús Vestmannaeyja og var líðan
þeirra eftir atvikum góð. Þrír úr hópi þeirra sem fórust voru heimamenn og einn
aðkomumaður, allt ungir fjölskyldumenn.
Morgunblaðið. 2 mars 1979.
Náðum
björgunarbátshylkinu eftir 30-45 mínútur í sjónum
Rætt við Árna
Magnússon, skipstjóra á Ver VE 200
"Brotið reið yfir bátinn og ég náði að slá af, en báturinn
rétti sig ekki við og í sömu andrá fyllti stýrishúsið af sjó og ég komst ekki
aftur að stjórntækjunum eða í talstöðina," sagði Árni Magnússon skipstjóri
á Ver í samtali við Mbl. í gærkvöldi. "Báturinn lagðist á stjórnborðshlið, en
ég flaut að dyrunum bakborðsmegin og náði að opna þær og komast upp á
stýrishúsið. Þá voru allir strákarnir komnir upp og á meðan báturinn var ekki
sokkinn voru þeir bæði á síðu bátsins og í mastri. Annar gúmmíbjörgunarbáturinn
hentist fyrir borð í kassanum þegar brotið reið yfir, en hinn sáum við aldrei.
Við
vorum allir fáklæddir og kuldinn hafði fljótt sín áhrif, enda haugasjór. Þegar
báturinn var að sökkva fórum við allir í sjóinn og reyndum að ná til
gúmmíbátshylkisins. Þá reið annar sjór yfir og mig ásamt Benedikt bar frá
bátnum. Við tveir náðum síðar taki á trékassanum utan af gúmmíbjörgunarbátnum
og bjarghring og hangandi dauðahaldi í þetta flot vorum við í liðlega hálfa
klukkustund í brimrótinu þarna að reyna að nálgast gúmmíbátshylkið. Það hafði
slitnað frá þegar brotið reið yfir og í volkinu hafði línan í bátinn orðið
óklár og flækst um hylkið. Loks þegar við komumst að gúmmíbátnum tókst okkur á
óskiljanlegan hátt að láta bátinn blása upp, en við vorum þá orðnir svo dofnir
af kulda að tilfinningin var engin í höndum og á fótum þegar við vorum að bauka
við bátinn og nokkrum mínútum síðar kom Bakkavíkin á vettvang. Rétt áður höfðum
við náð vasaljósinu úr gúmmíbátnum og gátum við veifað því þegar við sáum
skipið nálgast. Ég veit ekki hvað hefði orðið um okkur tvo sem komumst í bátinn
ef Bakkavíkin hefði ekki komið þarna því það var 4 stiga frost og sjórinn um 6
gráður.
Þeir sýndu mikið öryggi strákarnir við að bjarga okkur, en þetta er hörmuleg
lífsreynsla að sjá á eftir skipsfélögum sínum, allt strákar á bezta aldri, mjög
góðir og vanir sjómenn. Bakkavíkin leitaði síðan á svæðinu þarna innan um brak
úr Ver og skömmu eftir að þeir fundu einn skipfélaga okkar á floti héldu þeir
til hafnar og hófu strax lífgunartilraunir en án árangurs. Þá höfðu þeir kallað
út skipaflota til leitar á svæðinu."
Sjómennirnir sem fórust með Ver hétu:
Birgir Bernódusson stýrimaður, Áshamri 75, kvæntur og tveggja barna faðir;
Reynir Sigurlásson, Faxastíg 80, lætur eftir sig unnustu;
Eiríkur Gunnarsson, Aðalstræti 16, Reykjavík, og
Grétar Skaftason, Vestmannabraut 67, Vestmannaeyjum, lætur eftir sig son.
Morgunblaðið. 3 mars 1979.
18.02.2018 10:25
623. Skálafell RE 20. TFOK.
Skálafell RE
20
Þann 1. júní síðastliðinn hljóp nýr bátur af stokkunum úr
Skipasmíðastöð Hafnarfjarðar. Bátur þessi heitir Skálafell og hefur
einkennisstafinn RE 20. Teikningar af Skálafelli gerði Júlíus V Nyborg, eigandi
skipasmíðastöðvarinnar. Ýmislegt í fyrirkomulagi skipsins ofan þilja er gert
samkvæmt tillögum Sigurðar heitins Guðbrandssonar skipstjóra. Vistarverur
skipverja voru einnig gerðar samkvæmt fyrirmælum Sigurðar, en hann mátti vel
vita, hvað bezt hentaði í þessum efnum, því að hann hafði verið skipstjóri og
stýrimaður á togurum í 27 ár. Skálfell er 53 rúmlestir brúttó að stærð og hefur
200 hestafla Allen-Dieselvél. Hraði bátsins er um 10 sjómílur, og er því meiri
en flestra hérlendra togara. Sjálfritandi bergmálsdýptarmælir er í bátnum og
talstöð. Allar vistarverur skipverja eru hitaðar með miðstöðvarkyndingu frá
eldavél. Vistarverur skipverja eru allar mjög vandaðar. Skálfell er beinlínis
smíðað með það fyrir augum að stunda togveiðar og er útbúnaður og fyrirkomulag
skipsins sniðið eftir því. Þess má t. d. geta, að skrúfan er sérstaklega smíðuð
í því augnamiði. Sennilega hefur aldrei verið smíðaður bátur hér á landi, þar
sem fyrirkomulag og útbúnaður allur hefur eins verið miðaður við þá
veiðiaðferð, sem báturinn á að stunda, og í Skálafelli.
Skálfell er skrásett í Reykjavik, og er það eina nýja fiskiskipð, sem bætzt
hefur þar í flotann nú um átta ára skeið. Eigandi Skálafells er Sigurjón
Sigurðsson útgerðarmaður í Reykjavík. Skipstjóri var ráðinn faðir eigandans,
Sigurður Guðbrandsson, en hann lézt af slysförum, skömmu eftir að báturinn
hafði byrjað veiðar, og er þess nánar getið á öðrum stað í blaðinu.
Tímaritið Ægir. 1 júní 1943.
Skálafell RE 20 í smíðum hjá Júlíusi Nyborg í Hafnarfirði. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
Skálafell RE 20 á siglingu eftir sjósetninguna. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
Skipstjóri
Skálafells RE lést af slysförum
Sigurður Guðbrandsson skipstjóri andaðist af slysförum 22.
júni. Vildi það til með þeim hætti, að þegar hann ætlaði að fara í land úr
skipinu Skálafelli, er lá við bryggju í Hafnarfirði, sporðreistist stíginn og
féll hann við það og lenti milli bryggju og báts. Náðist hann skjótt og var
fluttur meðvitundarlaus í Hafnarfjarðarspítala, en þar andaðist hann skömmu
síðar. Talið er, að hann hafi lent með höfuðið á borðstokknum, áður en hann
féll í sjóinn.
Sigurður var fæddur að Gafli í Flóa 25. Apríl 1886. Þaðan fluttist hann
kornungur að Eyrarbakka, en 16 ára gamall hélt hann til Reykjavíkur og dvaldi
þar upp frá því. Sigurður var kvænlur Eyrúnu Árnadóttur frá Stakkarhúsum í
Flóa. Lifir hún mann sinn ásamt 5 börnum. Strax um fermingu byrjaði Sigurður að
stunda sjó. Fyrst var hann á skútum og síðar á togurum. Árið 1915 réðist
Sigurður til h/f Kveldúlfs og varð þá stýrimaður á Snorra gamla Sturlusyni.
Alls starfaði hann hjá Kveldúlfi í 25 ár, tuttugu ár sem skipstjóri og 5 ár sem
stýrimaður. Þegar Sigurður lézt, hafði hann nýverið tekið við skipstjórn á
Skálafelli, en það er nýr vélbátur, sem Sigurjón sonur hans á.
Sigurður þótti
duglegur sjómaður og mikill aflamaður. Hann var víkingur til verka og krafðist
þess að aðrir ynnu vel. Hann var allmikill skapmaður og gat verið stórorður á
stundum. En jafnan slóð slíkt ekki djúpt. Sigurður sinnti öllum störfum, er
hann tók að sér með mikilli alúð og eigi skorti hann kappið. Því vann hann sér
traust þeirra, er við hann áttu að skipta. Að honum gengnum er íslenzkri sjómannastétt
mikill sjónarsviftir.
Tímaritið Ægir. Júní 1943.
17.02.2018 07:55
Eldur í B.v Neptúnusi RE 361 28 ágúst 1964.
Það átti að gera stór túr og met sölu erlendis.Var farið út frá Reykjavík og tekið eitt hol vestur af Garðskaganum. Þegar híft var upp kom í ljós að aðeins var smá skaufi í pokanum, svo ákveðið var að kippa lengra vestur. Stuttu eftir að sett var á ferð kom upp umræddur eldur í vélarúminu. Var þegar hafist handa með að byrgja alla ventla og op til að hefta súrefni til vélarrúmsins í von um að kæfa eldinn. Það sem olli mestum áhyggjum var að talsvert magn af gas og súrflöskum var staðsett í vélarrúminu og var óttast að þær gætu sprungið, sem var orsökin til að skipið var yfirgefið.
Þessi stór túr sem gera átti endaði allt öðruvísi en áætlað var og árangurinn einn lítill skaufi fisks.Því miður er ég mikið gleyminn á nöfn og andlit svo að nöfn þeirra manna sem eru á myndunum eru ekki með, en einhver nöfn man ég og reyni ég síðar að gauka þeim til þín."
Atla þakka ég kærlega fyrir myndirnar og afnot þeirra. Þær eru alls 19 talsins og það þarf engan texta við þær, þær tala sínu máli.
Eldur
í Neptúnusi út af Garðskaga
Mannbjörg
varð
Um kl. 18.30 í gærkvöldi kom upp eldur í togaranum
Neptúnusi, er hann var staddur 21 sjómílu norðvestur af Garðskaga. Skipshöfnin,
32 menn , snerist þegar gegn eldinum, sem kom upp undir katli skipsins, en fékk
ekki við neitt ráðið. Á tíunda tímanum gaf skipstjórinn, Valdimar Guðmundsson ,
skipshöfninni fyrirmæli um að yfirgefa skipið, en þá var varðskipið Albert
komið á staðinn til hjálpar. Áhöfn togarans fór á tveimur bátum yfir í
varðskipið, og sakaði engan . K l. 23.15 í gærkvöldi höfðu sjö menn af áhöfn
b.v. Neptúnusar farið aftur um borð í skipið, þeirra á meðal skipstjórinn. B.v.
Júpíter var þá kominn á staðinn, og kl. 0.50 hafði taug og dráttarvírar verið
festir milli skipanna . Lagði bv Júpiter þá af stað til Reykjavíkur með bv.
Neptúnus í drætti. 25 menn af áhöfn Neptúnusar voru þá um borð í Albert og
væntanlegir til Reykjavíkur milli kl. 3 og 4 í morgun . Hinir sjö voru í b.v.
Júpiter, en hann var væntanlegur til Reykjavíkur ásamt Neptúnusi kl. 6-7 í
morgun . Búizt var við í nótt, að hafnsögubáturinn Magni kæmi á móti skipunum
með aflmiklar slökkvidælur. Sem fyrr segir, bar slökkvistarf áhafnarinnar á
Neptúnusi ekki árangur. Eldurinn náði fljótlega útbreiðslu í vélarúminu.
Þar
niðri voru gas- og súrefnistæki, sem juku á sprengingarhættu í skipinu. Sagði
Tryggvi Ófeigsson, útgerðarmaður, í stuttu símtali við Morgunblaðið í
gærkvöldi, að það hafi fyrst og fremst verið með tilliti til þessarar hættu, að
skipið var yfirgefið. Útgerðarfélögin Júpíter og Marz gera tvo fyrrnefnda
togara út Tryggvi sagði og, að áður en skipið var yfirgefið, hafi öllum hurðum
og gluggum verið lokað í þeirrr von að á þann hátt mætti kæfa eldinn. Þegar
Mbl. vissi síðast til í nótt, var of snemmt að fullyrða nokkuð um hugsanlega
björgun skipsins, en mikill eldur var í því, þegar það var yfirgefið. Skipið er
vátryggt hjá Vátryggingamiðstöðinni hf. Liklegt var talið, að kviknað hefði í
út frá einangrun á katli. Togarinn Neptúnus, sem er eign h.f." Júpíters
hér í Reykjavík, fór á veiðar héðan aðfaranótt föstudags. Togarinn hefur undanfarið
verið í 16 ára flokkunarviðgerð í Reykjavik. Slík flokkunarviðgerð mun kosta um
2,5 millj. kr. Bjarni Ingimarsson, hinn þjóðkunni skipstjóri, fór með sínu
gamla skipi í þessa fyrstu ferð eftir flokkunarviðgerðina, en hann hefur
undanfarið verið með bv. Júpíter.
Botnvörpungurinn Neptúnus er smíðaður í
Aberdeen árið 1947, 684 brúttólestir að stærð. Þegar hann var fimmtán mánaða
gamall, kom upp eldur í honum, er hann var staddur í Grimsby. Urðu þá svo
miklar skemmdir á skipinu, að það kostaði um 3/4 af kaupverði skipsins að
endurbæta hann. Alla tíð hefur Neptúnus verið meðal aflahæstu togara íslenzka
fiskiskipaflotans. Árið 1948 setti hann sölumet (í sölu ísvarins fisks) í
Bretlandi. Var það heimsmet, sem stóð óhnekkt í þrettán ár.
Morgunblaðið. 29 ágúst 1964.
15.02.2018 20:02
2890. Akurey AK 10 í slipp.
Akurey AK fékk trollið í skrúfuna
Það óhapp varð í gær að Akurey AK fékk trollið í
skrúfuna er skipið var að karfaveiðum á Jökultungu. Togarinn Ottó N. Þorláksson
RE, sem var á leið á Vestfjarðamið, var staddur í um 30 mílna fjarlægð og tók
hann Akurey í tog um kl. 22 í gærkvöldi.
,,Það er haugasjór núna en ekki svo mikill
vindur. Ölduhæðin er upp í um sjö metra en ástandið núna er hátíð miðað við
gærkvöldið. Þá var vindhraðinn 25-30 metrar á sekúndu og mikill sjór," segir
Eiríkur Jónsson, skipstjóri á Akurey, en hann segist hafa verið að enda
veiðiferðina er óhappið varð.
,,Við vorum komnir með um 120 tonna afla og
hugmyndin var að ljúka veiðiferðinni á karfaveiðum á Jökultungunni.
Óhappið varð um kl. 18 en sem betur fer var Ottó ekki langt undan," segir
Eiríkur en frá þeim stað, sem Akurey fékk trollið í skrúfuna, til hafnar í
Reykjavík er um 75 mílna sigling.
Að sögn Eiríks ætti Akurey að vera komin til hafnar
í Reykjavík um miðjan dag.
,,Við erum komnir að Garðskaga og ferðin á okkur
er um sjö mílur á klukkustund. Varðskipið Þór er hér í sex mílna fjarlægð og
verður okkur til aðstoðar ef eitthvað fer úrskeiðis á leiðinni til hafnar,"
segir Eiríkur Jónsson.
Frétt á vefsíðu H.B. Granda hf.
7 febrúar 2018.
14.02.2018 18:01
Reykjavíkurhöfn í dag.
2890. Akurey AK 10 við bryggju í Örfirisey. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 14 febrúar 2018.
12.02.2018 18:49
Hrólfur Helgason SU 352. (kraki)
Vélbáturinn Hrólfur Helgason SU 352 við bryggju á Norðfirði. Ljósmyndari óþekktur.
11.02.2018 10:36
355. Bragi SI 44. TFPM.
Tveir nýir
bátar
Tveir nýir bátar hafa bæst í fiskiflotann, eru það
hvorutveggja mjög myndarlegir og góðir bátar. Annar þeirra er "Bragi", sem
er eign þeirra Haraldar Oddssonar og Valdimars Björnssonar. Valdimar fór til
Ameríku til að sjá um smíði Braga og er hann nýlega kominn með hann heilu og
höldnu til landsins. Báturinn er 85 tonn að stærð og virðist allur vera hinn
besti. Hinn báturinn er eign Alberts Bjarnasonar og heitir hann "Bjarni
Ólafsson" GK 200. Hann er smíðaður í skipasmíðastöð Marsiliusar Bernharðssonar
á Ísafirði, og er 35 tonn að stærð og allur hinn vandaðasti og sjóskip gott
.Okkur er vissulega mikill fengur að þessum bátum og þeim sje heiður og þökk,
sem leggja fjármuni sína og atorku fram til þess að skapa aukin atvinnuskilyrði
og afkomumöguleikana í bygðarlaginu. Alltof margir bátar hafa verið seldir burt
úr Keflavík undanfarið, en það bætir skaðann að nokkru ef nýir og betri bátar
koma í skarðið.
Vélbáturinn
Bragi G. K. 415
Fyrir skömmu kom hingað til lands nýtt fiskiskip, er smíðað
hefur verið fyrir íslendinga vestur í Ameríku. Skip þetta heitir Bragi og hefur
einkennisstafina G. K. 415. Eigendur þess eru Valdimar Björnsson í Keflavík og
Hallgrímur Oddsson í Reykjavík. Bragi er smíðaður í Brooklyn, New York, eftir
íslenzkum teikningum. Hann er 90 rúmlestir samkvæmt íslenzkum mælingum. Í honum
er fjórgengisvél, Atlas Imperial, 250 hestöfl, og fer hún 350 snúninga á
mínútu. Ljósavél er 16 ha. Lister. Dekkvinda er knúin með rafmagni, og
"trawl" búnaður allur er mjög vandaður og fullkominn. Í skipinu er ágæt
miðunarstöð, bergmálsdýptarmælir og talstöð. Tveir björgunarbátar fylgja
skipinu, og er annar þeirra með vél. Íslendingar munu ekki fyrr hafa látið
smíða fiskiskip í Ameríku, og sennilega hefur jafnlitlu skipi aldrei verið
siglt milli Ameríku og Íslands á þessum tíma árs. Ferðin frá Halifax til
Reykjavíkur tók 13 1/2 sólarhring. Á skipinu voru þessir menn: Magnús
Höskuldsson skipstjóri, Valdimar Björnsson, Markús Sigurjónsson stýrim.,
Tomasson 1. vélstj. (norskur), Guðmundur Gíslason 2. vélstjóri, Halldór Laxdal
loftskeytamaður, Eyjólfur Eiríksson matsveinn og Haraldur Ársælsson háseti.
Ægir. 1 nóvember 1944.
Hlutafélagið
Bragi á Breiðdalsvík
Hlutafélagið Bragi var stofnað 1961. Hóf það útgerð með mb.
Braga SU 210. Báturinn var seldur 1964 og starfaði fyrirtækið lítið næstu árin.
En 1966-1967, lét það byggja mb. Hafdísi SU 24. Kom báturinn til heimahafnar á
miðju ári 1967. Hefur rekstur bátsins gengið vel og hefur afli hans ávalt verið
verkaður af eigendum. Nú á því herrans ári 1971, á fyrirtækið Bragi hf. Mb.
Hafdísi, fiskverkunarhús 680 m2, er í því fullkomin aðstaða til síldarsöltunar,
fiskþurrkunarhús 240 m2 venbúð 150 m2 og síldar- og fiskimjölsverksmiðju.
Fiskur hefur verið þurrkaður í allt sumar hjá fyrirtækinu og verður linnulaust
fram að áramótum.
Áætlað magn af þurrfiski er um 140 tonn. Afköst hússins eru um 35 tonn af
þurrfiski á mánuði. Húsið tók til starfa 1970 og hefur starfsemin gengið
sæmilega. Þá hefur fiskimjölsverksmiðjan unnið það litla hráefni, sem til hefur
fallið af heimabátunum og er mjölmagnið nú um 230 tonn. Það skal tekið fram, að
engir sérráðnir menn vinna í verksmiðjunni, heldur vinna starfsmenn
fyrirtækisins þar jöfnum höndum og annars staðar. Hjá fyrirtækinu vinna að
jafnaði um 20 manns og eru þá sjómenn ekki meðtaldir. Að lokum má geta þess, að
útflutningsvermæti fyrirtækisins nam á sl. ári 28 millj. kr. Framkvæmdastjóri
og aðaleigandi Braga hf. er Svanur Sigurðsson.
Austurland. 26 nóvember 1971.
10.02.2018 07:45
981. Hrísey SF 41. TFFA.
Talstöðin dró stutt vegna ísingar
Akranesi, 3 marz. Hávaða norðan rok var hér í gær og svo mikið
ónæði á miðunum, að 6-7 bátar, sem á sjó voru,
gátu ekki dregið
nema nokkrar af trossunum og urðu frá að hverfa. Aflinn var 42 tonn alls.
Sigurfari, AK. 95, skipstjóri Jóhannes Guðjónsson, nýr 120 tonna bátur með 500
ha. Lister-diesel vél, eign Fiskivers h.f. á leið hingað til lands í norðan
rokinu, var í gær beðinn af útvarpinu að hafa samband við Vestmannaeyjaradíó.
Jóhannes skipstjóri talaði í morgun við konu sína, Fjólu Guðbjartsdóttur,
Skólabraut 28. Sagði Jóhannes að þeir hefðu náð í veðrinu undir Mýrdalssand og
lægju þar við akkeri. Þegar útvarpið kallaði, dró sendistöð þeirra örstutt
vegna ísingar á stögum og stöng, en þeir náðu sambandi við nærstaddan bát, er
talaði fyrir þá og komu boðum í land. Bergur, bróðir Jóhannesar var með honum
að sigla bátnum til landsins.
Morgunblaðið. 4 mars 1965.
Sigurfari AK 95 á veiðum. (C) Hafsteinn Jóhannsson.
Sigurfari AK
95
Nýlega kom nýr bátur til Akraness, er það ms. Sigurfari AK
95, eign Fiskivers h/f. Bátur þessi er byggður úr eik, hjá Marstad Træskibsværft í Danmörku. Mesta lengd bátsins er 94 fet eða sama lengd og er á
170 RL stálskipi, aðalvél skipsins er 495 hestafla Blackstone Lister dieselvél
og með Liaanen vökvaskrúfuútbúnaði. Í bátnum eru öll nýjustu fiskileitartæki,
Kelvin Huges radar ásamt Arkas sjálfstýringu. Vistarverur eru hitaðar upp með
rafmagni. Yfirbygging úr alúminium, möstur og annað járn ofanþilfars málmhúðað.
Ganghraði skipsins er rúmlega 12 sjómílur. Teikningar af skipinu gerði Ágúst G.
Sigurðsson, skipatæknifræðingur.
Tíminn. 25 mars 1965.
08.02.2018 21:40
Skúli fógeti NK 6.
07.02.2018 18:16
334. Björg SU 9. TFON.
Ingibjörg SH
stórskemmdist í eldi
M/b Ingibjörg SH 142
stórskemmdist í eldi á sunnudag, er báturinn var á leið á togveiðar. Ekki
verður annað séð en allar innréttingar í stýrishúsi og siglingatæki séu ónýt og
einnig eru miklar skemmdir niður um bátinn. M/b Ingibjörg er 50 lestir að stærð
og bar lengi það landskunna nafn Björg SU. Eldurinn kom upp um klukkan átta á
sunnudag, er báturinn var staddur 8-10 mílur úti af Öndverðarnesi. Eldurinn mun
hafa komið upp í vélarrúmi eða káetu og breiddist hann mjög ört upp um
stýrishúsið að sögn skipstjórans, Jakobs Daníelssonar.
Jakob var einn staddur aftur á, en aðrir skipverjar þrír talsins, sváfu frammi
í. Jakob rétt náði að kalla út eftir aðstoð, en síðan vakti hann mennina og fór
áhöfnin í gúmbjörgunarbát, þar sem ekki var vært um borð fyrir hita og vegna
sprengihættu. Þorlákur ÁR og Gunnar Bjarnason SH komu fljótt til aðstoðar og
Iögðu að Ingibjörgu. Tókst skipverjum að kæfa eldinn og tók Þorlákur Ingibjörgu
í tog til lands. Á leiðinni gaus eldurinn aftur upp, en var slökktur. Engin
slys urðu á mönnum.
Morgunblaðið. 23 ágúst 1977.
04.02.2018 08:57
740. Sigrún AK 71. TFZQ.
Sigrún AK var hætt komin í miklu óveðri sem gekk yfir landið í byrjun janúar árið 1952. Fékk skipið á sig marga brotsjói sem ollu miklu tjóni á skipinu, auk þess að einn skipverja tók út í einu brotinu en var bjargað naumlega af skipsfélögum sínum um borð aftur. Í þessu sama veðri fórst vélskipið Valur AK 25 frá Akranesi og með honum áhöfnin, 6 menn.
M.b. Sigrún
AK 71
Bætzt hefur nýr bátur við flotann, mb. Sigrún, ca. 66 tonn
að stærð. Báturinn er eign dánarbús Sigurðar Hallbjarnarsonar. Hann var
smíðaður í Strandby í Danmörku, og pantaður af Sigurði löngu áður en hann dó. Í
bátunm er 240 hk. Tuxham vél. Skipstjóri á bátnum hingað var Árni Riis. Með
bátinn verður Guðmundur Jónsson í Laufási, en vélamaður Hafliði Stefánsson.
Báturinn reyndist vel og er hinn traustlegasti.
Akranes. 6 árg. 1 janúar 1947.
Sigurbjörg KE 98. (C) Hafsteinn Jóhannsson.
740. Sigrún AK 71. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra í Duus húsi. (C) Þórhallur S Gjöveraa.
Mesta
stórviðri vetrarins gekk hér yfir í fyrrinótt og gærdag
Seint í gærkvöldi voru tveir Akranesbátar ókomnir að landi,
en þeir fóru í fyrrakvöld í róður á svonefnd Akranesmið. Þetta eru vélskipin
Sigrún, skipstjóri Guðmundur Jónsson og Valur, skipstjóri Sigurður Jónsson.
Síðast bárust fregnir af bátunum um hádegisbilið.
Morgunblaðið. 6 janúar 1952
Mb. Sigrún
lenti í miklum hrakningum í veðrinu
Þrír
brotsjóir riðu á bátinn, brutu hann og skipverjar slösuðust
Stýrimanninn tók út
Akranesi, 7 Janúar. Um kl. 8 á sunnudagskvöld kom
vélbáturinn Sigrún hingað til Akraness, í fylgd með varðskipinu Þór. Hafði
báturinn lent í miklum hrakningum í fárviðrinu og laskazt mjög. Þrisvar riðu
brotsjóir yfir bátinn, sem er 65 brúttólestir. Tveir skipverjar höfðu meiðzt.
Einn hafði tekið út, en honum tókst að halda sér á sundi í stórsjó unz
skipsfélögum hans tókst að bjarga honum. Í dag átti ég samtal við Guðmund
Jónsson skipstjóra um þessa hrakninga hans og manna hans. Sigrún fór í róður
frá Akranesi um miðnætti aðfaranótt laugardags. Var báturinn kominn á miðin
eftir 3 k!st. siglingu og lína lögð. Var vindur þá af suðaustri og fór vaxandi
eftir því, sem á nóttina leið. Um morguninn herti veðrið enn. Milli kl. 10 og
10,30 gekk vindur til suðvesturs með roki, Tók þó út yfir, er vindur gekk til
vesturs með haugasjó og fádæma veðurofsa. Aðeins tvö bjóð tókst að draga en þá
var lagt af stað til lands.
Sigrún AK 71 eftir hrakningana í janúar 1952. (C) Rafn Sigurðsson.
Um kl. 11,30, þegar þeir eru nýlagðir af stað heim, reið brotsór stjórnborðsmeginn
á bátinn, aftan til og færði hann á kaf um stund. Braut ólagið mest allan
öldustokkinn. Allir gluggar í stýishúsi brotnuðu og fyllti það af sjó.
Guðmundur Jónsson skipstjóri var þar einn inni. Sjór fyllti einnig
skipstjóraherbergið, en þar inni var talstöðin og varð hún óvirk eftir það.
Fyrr um morguninn hafði ólag brotið léttbátinn og kabyssurörið. Á þilfari voru
þeir Gunnar Jörundsson, I. vélstjóri og Trausti Jónsson, háseti. Báðir
köstuðust þeir á togvindu bátsins og mörðust nokkuð. Eftir að stóra ólagið
hafði riðið yfir, tók Guðmundur skipstjóri þann kostinn að snúa bátnum upp í
veðrið og andæfa gegn því. Þannig héJt hann bát sínum upp í veðrið allan
laugardaginn og aðfaranótt sunnudagsins, þar til klukkan 8 á sunnudagsmorgun.
Var hann þá kominn suður í Miðnessjó, suður á móts við Sandgerði. Þá slær
skipstjóri bát sínum undan veðrinu og heldur djúpt fyrir Garðskaga. Um kl. 1 voru þeir í Garðsskagaröst. Stóð þá
stýrimaður, Þórður Sigurðsson uppi á vélahúsinu, framan við stýrishúsið. Hann
var að skyggnast til lands. Reið þá enn sjór yfir bátinn og braut þá það litla
sem eftir var af bakborðsöldustokknum
og skolaði stýrimanni fyrir borð. Þar sem hann stóð, hélt hann sér í handrið á
stýrishúsinu, en svo þungur var sjórinn, að Þórður missti takið. Um leið og
hann losnaði greip hann sundtökin. Kristján Friðreksen II. vélstjóri, sá, er
Þórður fór fyrir borð. Kallaði hann þá til skipstjóra. Guðmundur skipstjóri
setti þá undireins á fulla ferð, og snýr bátnum. Þórður hélt sér á sundi og
tókst Guðmundi að leggja að manninum við fyrstu atrennu. Voru þá Kristján og
Ásgeir Ásgeirsson matsveinn á þilfari með krókstjaka og tókst með snarræði að
innbyrða Þórð, um leið og báturinn renndi að honum.
740. Sigrún AK 71. Líkan Gríms Karlssonar í Duus húsi. (C) Þórhallur S Gjöveraa.
Er nú ferðinni haldið inn fyrir Garðsskaga. Þá mæta þeir varðskipinu Þór, sem
var að leita bátanna sem úti voru. Fylgdi hann bátnum alla leið til Akraness.
Var komið hingað heim um kl. 5 á sunnudagskvöldið. Fagnaði mikill mannfjöldi
skipverjum á bryggjunni. Allan tímann höfðu þeir ekki getað tekið upp eld vegna
þess að rörið brotnaði. Voru þeir blautir orðnir og þrekaðir. Þórður stýrimaður
átti þurr föt til að fara í, er honum hafði verið bjargað. Hresstist hann furðu
fljótt. Guðmundur skipstjóri sleppti varla stýrinu allan þennan tíma í opnu
stýrishúsinu. Leikur ekki á tveim tungum, að hann og skipshöfn hans hafa unnið
hið mesta þrekvirki. Vélin stöðvaðist aldrei. Skipstjórinn bað mig að lokum að
færa Eiríki Kristóferssyni skipherra og skipshöfninni á Þór, þakkir sínar og
manna sinna, fyrir fylgdina heim til Akraness og fyrir örugga leiðsögn upp að
hafnarinnsiglingunni.
Morgunblaðið. 8 janúar 1952.
04.02.2018 08:19
2940. Hafborg EA 152. TF..
Það var Haukur Sigtryggur Valdimarsson á Dalvík sem sendi mér í fyrrakvöld myndirnar af Hafborginni við komuna til Dalvíkur hinn 31 janúar síðastliðinn. Þakka ég honum enn og aftur fyrir afnotin af myndunum hans.
Ný Hafborg EA í flotann
Hafborg EA 152, nýr bátur útgerðarfélagsins Hafborgar
ehf. í Grímsey, kom til hafnar á Dalvík í fyrrakvöld eftir siglingu frá
Danmörku. Skipið leysir af hólmi annað með sama nafni en er raunar fjórða Hafborg fyrirtækisins,
sem gert hefur út frá Grímsey í þrjá áratugi.
Dönsk skipasmíðastöð, í Hvide Sand, sá um smíði skipsins. Danirnir létu
reyndar smíða skrokkinn í Póllandi, eins og þeir eru vanir. Þar var sett
aðalvél, ljósavél og gír í skipið og það síðan dregið til Danmerkur þar sem
verkefnið var klárað.
Nýja Hafborg er 284 brúttótonn, 26 metrar að lengd og átta metra breið.
"Hún er töluvert stærri en sú gamla sem var mæld 60 brúttótonn."
Mbl.is 2 febrúar 2018.
03.02.2018 09:53
Sæfell SH 210. TFBY.
Nýr bátur
til Ólafsvíkur
Ólafsvík, 16. Janúar. Ellefti báturinn, sem hóf róðra héðan
á þessari vertíð, var nýr bátur, Sæfell SH 210. Hann er byggður í Travemunde í
Vestur Þýzkalandi og kom til landsins upp úr áramótunum. Eigendur bátsins eru
Guðmundur Jensson skipstjóri og Kaupfélagið Dagsbrún í Ólafsvík. Báturinn er 75
tonn að stærð, búinn 380 ha. vél og öllum fullkomnustu siglinga og
fiskileitartækjum og hinn vandaðasti að öllum frágangi. Gunnar Valgeirsson
skipstjóri sigldi bátnum til landsins og reyndist báturinn í þeirri ferð hið
bezta skip. Guðmundur Jensson verður skipstjóri á Sæfelli. Hann er 48 ára að
aldri. Hann hóf sjómennsku á unga aldri, varð fyrst formaður á 10 tonna báti,
Hrönn, sem hann átti í félagi með stjúpa sínum, Jóhanni Kristjánssyni. Hann
hefur ávallt síðan verið formaður og útgerðarmaður, skipt um farkost og fylgi
þeirri þróun, sem orðið hefur í útvegsmálum Ólafsvíkur. Hann hefur í alla staði
verið hinn farsælasti maður í sínu starfi.
Ólafsvíkurbúar fagna hinu nýja skipi og óska eigendum þess, skipstjóra og áhöfn
til hamingju með það.
Alþýðublaðið. 22 janúar 1960.
Leitað var
að Sæfelli í allan gærdag
Vélbáturinn Sæfell SH 210 er týndur. Ekkert hefur spurzt til
bátsins síðan á miðnætti á laugardag, þegar hann var staddur austur af
Hornbjargi á leið frá Akureyri til Flateyrar, þar sem hann er gerður út. Á
bátnum eru 3 menn. Mjög víðtæk leit er hafin úr lofti, á sjó og landi, en hún
hafði ekki borið árangur seint í kvöld. Leitarskilyrði úr lofti voru afleit í
dag, en bátar frá Ísafirði og varðskip hafa leitað á Húnaflóa og út af
Hornströndum. Leitarveður hefur verið slæmt og bátarnir orðið að halda sig
langt frá landi. Verið er að athuga um möguleika á að leita fjörur á Ströndum,
en það er erfitt vegna þess að Strandir eru að mestu í eyði. Vitavörðurinn á
Hornbjargi, Jóhann Hjálmarsson verður fenginn til að leita fjörur frá Horni
suður á Barðsvík, en fólk á Dröngum, sem er bær norðan Ófeigsfjarðar, fengið
til- að leita þaðan í Geirhólm í Reykjafjörð nyrðri, en 6 manna leitarflokkur
fari frá Ísafirði og verði kominn um Skorarheiði í Furufjörð á Ströndum á
morgun. Þar mun flokkurinn skipta sér í tvennt og annar hópurinn leita norður
að Barðsvík og hinn í suður að Geirhólmi. Talið er að birtan nægi til að
flokkarnir komist yfir þetta svæði. Eins og fyrr er sagt var leitarveður í
lofti og á sjó slæmt í dag, en leitinni verður að sjálfsögðu haldið áfram á morgun.
Verði gott skyggni, mun flugvél "kemba" ströndina alls staðar þar sem
mögulegt er að bátinn hefði borið að landi.
Sæfell er 74 tonna bátur, smíðaður í Travemunde í Þýzkalandi árið 1959. Hann
var fyrst eign kaupfélagsins Dagsbrúnar á Ólafsvík, en var seldur til Flateyrar
vorið 1963. Verið var að setja hvalbak á bátinn á Akureyri, en hann áætlaði að
vera kominn til Flateyrar í gærmorgun.
Alþýðublaðið. 13 október 1964.
Sæfellið
talið af
Fullvíst er nú talið að vélbáturinn Sæfell SH 210, hafi
farizt og með honum þrír menn. Eins og frá hefur verið skýrt í blaðinu hefur
ekkert spurzt til skipsins síðan á miðnætti aðfaranótt sunnudagsins, en þá var
það statt um 20-30 mílur austur af Horni á leið frá Akureyri til Flateyrar, en
þangað var skipið keypt fyrir stuttu. Umfangsmikilli leit hefur verið haldið
uppi á landi og sjó og úr lofti, en ekkert hefur fundizt er gefið gæti til
kynna, hver afdrif skipsins hafa orðið.
Síðast í dag leituðu varðskipsmenn það strandsvæði vestan Horns, sem leitað var
úr lofti. en árangurslaust. Með Sæfelli voru þrír menn. Þeir voru:
Haraldur Olgeirsson, skipstjóri, Flateyri, lætur eftir sig konu og þrjú börn.
Sævar Sigurjónsson, ættaður frá Hellissandi en nýfluttur til Flateyrar. Lætur
eftir sig konu og eitt barn. Ólafur Sturluson, Breiðdal í Önundarfirði,
ókvæntur.
Tíminn. 16 október 1964.
31.01.2018 19:59
Síldveiðiskipið Kristján EA 390 á málverki.
Síldveiðiskipið Kristján EA 390. Málverk eftir Dodda 1981.
Kristján EA 390 á síldveiðum. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
Síldveiðiskipið
Kristján EA 390
Kristján EA 390 var smíðaður í
Noregi (Stavanger ?) árið 1919. Eik og fura. 67 brl. 80 ha. June Munktell vél.
Eigandi var Guðmundur Pétursson útgerðarmaður á Akureyri frá 2 október 1923.
Skipið var lengt á Akureyri árið 1937, einnig var sett ný vél, 150 ha. Völund
vél. Selt 25 apríl 1952, Sameignarfélaginu Kristjáni á Ólafsfirði, hét Kristján
ÓF 26. Ný vél (1953) 330 ha. Gray GM díesel vél. Selt 6 desember 1961,
Niðursuðu og hraðfrystihúsi Langeyrar í Súðavíkurhreppi, hét þá Kristján ÍS
125. Skipið rak á land við Langeyri 20 janúar árið 1964 og eyðilagðist.
28.01.2018 09:28
Hera RE 167.
Vélskipið Hera RE 167 var smíðuð af Magnúsi Guðmundssyni í
Bátasmíðastöð Reykjavíkur (Völundi) árið 1913. Eik og fura. 19 brl. 38 ha. Vél,
tegund óþekkt. Eigandi var Garðar Gíslason stórkaupmaður í Reykjavík frá 17 október sama ár. Seld 11 desember 1916, Lofti Loftssyni og Sigurði Oddssyni,
sennilega í Sandgerði. Báturinn var seldur árið 1919-20, Þórði Ásmundssyni á Akranesi.
Árið 1921 heitir báturinn Hera MB 107. Fórst
í Faxaflóa 11 febrúar árið 1922 með allri áhöfn, 6 mönnum.
Mennirnir sem fórust með Heru voru:
Guðmundur Erlendsson formaður, Heimaskaga á Akranesi. 31 árs.
Valdimar Jónsson vélamaður, Hákoti á Akranesi. 30 ára.
Valgeir Júlíus Guðmundsson háseti, Akranesi. 20 ára.
Jón Jónsson háseti, Akranesi. 20 ára.
Jón Oddsson háseti, Steinsstöðum. 52 ára.
Magnús Kristjánsson háseti, Bíldudal. 17 ára.
Hera RE 167 sjósett 17 október 1913 með hvítbláann í skut. (C) Magnús Ólafsson.
Bátasmíðastöð
Reykjavíkur
Árið 1906 eða 1907 gekk Bjarni Þorkelsson til samstarfs við
trésmiði í Völundi og stofnuðu Bátasmíðastöð Reykjavíkur sem hafði aðsetur á
Völundarlóðinni ( á horni Klapparstígs og Skúlagötu) Þar voru fjölmargir bátar
smíðaðir og sumarið 1913 var ráðist í það stórvirki að smíða 19 smálesta
mótorbát með 38 hestafla vél fyrir Garðar Gíslason stórkaupmann. Var það mesta
stórvirki í vélskipasmíðum til þess tíma. Magnús Guðmundsson var yfirsmiður en
Othar Ellingsen forstjóri Slippfélagsins, hafði umsjón með verkinu.
Saga Reykjavíkur. 1870-1940. Guðjón Friðriksson 1991.
Vélskipið
Hera RE 167
Hera, hið nýja
vélarskip, sem Garðar kaupmaður Gíslason lét smíða í vetur, fór fyrstu
för sína til Hafnarfjarðar í gær. Var margt manna með, og kemur nákvæm
ferðasaga á morgun.
Morgunblaðið. 1 apríl 1914.
Teikning af bát smíðuðum af Magnúsi Guðmundssyni í Bátasmíðastöð Reykjavíkur.
Með Heru til
Hafnarfjarðar
Í fyrradag voru margir Reykvíkingar, 20-30 talsins boðnir að
skoða hið nýja vélskip Garðars Gíslasonar kaupmanns, Heru, og fara með þvi
fyrstu ferðina, sem heitið var til Hafnarfjarðar. Veður var hið glæsilegasta,
skínandi sólskin og blæjalogn. Flestir blaðamenn bæjarins, ýmsir kaupmenn,
smiðir skipsins o. fl. voru meðal farþega. Hera tók farþegana á bæjarbryggjunni
og lét síðan í haf fánum skreytt »frá hvirfli til ilja«. Þótti öllum skipið hið
fegursta og til þess vandað í hvívetna. Gekk ferðin hið bezta út undir Gróttu,
en þá kom í ljós, að lítilsháttar aukastykki í vélinni var bilað, hefir liklega
brotnað af því að skipið rakst á grunn upp við bæjarbryggju. Varð því að stöðva
hana um hríð, meðan að var gert. En ekki margt að því fyrir farþega að sitja á
skipsfjöl í slíku veðri eins og í fannhvítum fjallasal, því að sól skein á
tinda allra Faxaflóafjalla, hin dýrlegasta sjón.
Meðan beðið var, skemmtu menn
sér við söng og samræður. Síðan var haldið með fullum hraða til Hafnarfjarðar,
stigið þar í land og notið hressingar í Hótel Hafnarfjörður. Flutti Garðar
kaupmaður þar ræðu, sagði frá tilgangi sínum með því að ráðast í að láta smíða
Heru, taldi slík smáskip hina hentugustu flóabáta. Var síðan drukkin
velfarnaðarskál Heru og eiganda hennar og Garðari fluttar samfagnaðarræður. Um
kvöldið var svo haldið til Reykjavíkur, en fyrir innan Gróttu kom það í ljós að
vélin hafði hitnað um of og varð að kæla hana, svo af varð dráttur nokkur.
Vélin í Heru er hin eina þeirrar tegundar hér. Nú er tilætlun Garðars að fá
Jessen vélfræðing, kennara Stýrimannaskólans, til þess að skoða hana
grandgæfilega og kenna síðan meðferðina á henni ítarlega, svo að eigi geti
bilanir neinar átt sér stað. Til stendur, að Hera verði á Breiðafirði í sumar
til vöru- og mannflutninga.
Er Sæmundur kaupmaður Halldórsson frá Stykkishólmi staddur hér nú til þess að
gera samninga um leigu á henni. Vér óskum eiganda Heru góðs gengis henni til
handa. Framkvæmdasemi hans í þessu efni, ætti að bera góðan ávöxt.
»Hera« var smíðuð hér í skipasmíðastöð Völundar í sumar og haust. Var hún 7
mánuði í smiðum og var Magnús Guðmundsson yfirsmiður en Othar Ellingsen
forstjóri umsjónarmaður verksins. Skipið ,er 52,6 fet á lengd, 12,4 á breidd og
ber 19 smálestir. Í því er 38 hestafla hreyfivél og á það að geta farið 7-8
mílur á vöku. Það hljóp af stokkunum þann 17. okt. s. l. og hefir legið hér á
höfninni síðan.
Morgunblaðið. 2 apríl 1914.
Hera RE 167 á Reykjavíkurhöfn árið 1919. (C) Magnús Ólafsson.
Hörmulegt
manntjón
14 eða 15
menn farast í laugardagsveðrinu
Ofviðrið á laugardaginn var hefir því miður haft sorglegar
afleiðingar í för með sjer. 11 febrúar er langmesti mannskaðadagurinn á þessu
ári, eða þeim stutta tíma, sem af því er liðinn og verður vonandi eigi annar
dagur sorglegri á árinu. Tveir mótorbátar hafa að öllum líkindum farist, er
fullvíst um annan, og því miður örlitlar vonir um hinn. Auk þess hefir menn
tekið út af tveimur eða, þremur bátum öðrum. Á laugardagsmorguninn, snemma var
besta veður í Sandgerði en útlit eigi sem best. Ganga þaðan um 25 mótorbátar,
eigi aðeins frá Sandgerði heldur einnig frá öðrum veiðistöðvum og munu þeir
flestir eða allir hafa farið í róður kl. 4-6 um morgnninn. Fara bátarnir um það
bil tveggja tíma leið á miðin. Undir klukkan átta versnaði veðrið nokkuð og
hvesti á landsunnan og sneru sumir bátarnir þá þegar við. Hjá einum bátnum
bilaði vjelin um morguninn og sneri hann því til lands.
Aðeins þessi bátur og
tveir aðrir náðu lendingu í Sandgerði, sá seinasti um kl. 10 um morguninn, en
þá var komið ofsarok á útsunnan, svo að fleiri bátar náðu ekki lendingu í
Sandgerði. Urðu þeir að leita lendingar í Njarðvík, Keflavík og 5 komust alla
leið hingað til Reykjavíkur. Allir bátarnir nema tveir náðu lendingu og þessir
bátar voru "Njáll" frá Sandgerði og "Hera" frá Akranesi.
Að því er vjer höfum heyrt, höfðu skipverjar á mótorbátnum "Björg" sjeð
"Njál" farast nálægt miðjum degi á laugardaginn. Kom feikimikill sjór á
bátinn og sökti honum. Á bát þessum voru fimm menn og hafa þeir allir farist.
Formaðurinn var Kristjón Pálsson, ættaður úr Ólafsvík, en nú heimilisfastur hjer. Lætur hann
eftir sig ekkju og tvö börn, hið síðara vikugamalt. Kristjón var talinn einn
allra duglegasti formaðurinn, sem sjó hefir stundað í Sandgerði. Auk hans
druknuðu þessir menn á ,,Njáli" : Skarphjeðinn Pálsson úr Ólafsvík, bróðir
formannsins, Snorri Magnússon vjelstjóri, heimilisfastur hjer. einhleypur
maður, Ingimar Jónsson og Ólafur Sigurðsson báðir einhleypir menn af Miðnesinu.
Allir voru þessir menn ungir og miklir dugnaðarmenn.
Nöfn skipverjanna á "Heru" höfum vjer eigi frjett annara en formannsins,
sem hjet Guðmundur Erlendsson. Munu 6 eða 7 menn hafa verið á því skipi. Þá
missti m.k. "Ása" úr Hafnarfirði tvo menn og "Gunnar Hámundarson einn. Um
aðra mannskaða höfum vjer ekki sannfrjett.
Lögrétta. 17 febrúar 1922.