10.11.2018 08:50

605. Ísleifur VE 63.

Vélbáturinn Ísleifur VE 63 var smíðaður af Magnúsi Guðmundssyni í Skipasmíðastöð Reykjavíkur árið 1916 fyrir Magnús Thorberg og Guðmund Guðmundsson skipstjóra á Ísafirði. Hét fyrst Ísleifur ÍS 390. Eik. 30 brl. 56 ha. Tuxham vél (1916). Seldur 1928, Ársæli Sveinssyni í Vestmannaeyjum, hét Ísleifur VE 63. Afsal fyrir kaupunum var gefið út 2 október 1930. Ný vél (1934) 110 ha. June Munktell vél. Ný vél (1951) 120 ha. Hundested díesel vél. Ný vél (1958) 170 ha. Buda díesel vél. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 22 maí árið 1967. Báturinn stóð lengi eftir það í slipp í Vestmannaeyjum, en var að lokum brenndur stuttu fyrir 1980.


Vélbáturinn Ísleifur VE 63.                                         (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

             Nýr bátur á Ísafjörð

Ísleifur heitir nýr vélbátur, sem kom hingað sunnan úr Reykjavík í gærdag, smíðaður þar af Magnúsi Guðmundssyni skipasmið, fyrir þá Magnús Thorberg símstjóra og Guðmund P. Guðmundsson formann. Bátur þessi er einn af stærstu bátum, sem smíðaður hefir verið hér á landi og gefur hinum útlendu bátum síst eftir að útliti og frágangi, og er sagður einkar traustur og vandaður að smíði. Báturinn er um 30 lestir að stærð og kvað kosta um 35 þús, krónur.

Vestri. 23 tbl. 20 júní 1916.


Ísleifur VE 63.                                                                                               (C) Tryggvi Sigurðsson.


Flakið af Ísleifi VE 63. Buda vélin, árgerð 1958 sést vel.             (C) Friðrik Ingvar Alfreðsson 1976.


08.11.2018 19:12

V. b. Ársæll GK 527.

Vélbáturinn Ársæll GK 527 var smíðaður í Frederikssund í Danmörku árið 1938 fyrir Magnús Ólafsson, Þorvald Jóhannesson, Bjarnveigu Vigfúsdóttur og Björn Þorleifsson (Sameignarfélagið Ársæll) í Njarðvík. Báturinn kom til landsins hinn 1 júní það ár. Báturinn fórst út af Garðskaga eftir að hafa fengið á sig brotsjó. 4 menn fórust en 1 skipverja var bjargað um borð í vélbátinn Ásbjörgu GK 300 frá Hafnarfirði.


Vélbáturinn Ársæll GK 527.                                                                  Mynd úr Virkinu í Norðri.

                 Nýjir vélbátar

Til landsins hafa verið keyptir 3 nýjir vélbátar og eru 2 þeirra smíðaðir nú í ár, en einn þeirra 1936. Vélbáturinn "Vísir" T. H. 59 kom til landsins 13. maí og er hann 21 smál. að stærð brúttó og hefir 65 hestafla vél. Eigandi hans er Þórhallur Karlsson o. fl. á Húsavik.
Vélbáturinn "Ársæll" kom til landsins 1. júni. Er hann 22 smál. brúttó. Eigandi hans er Magnús Ólafsson, Höskuldarkoti. Báðir þessir bátar eru byggðir í Frederikssund. Þriðji báturinn er frá Grimsby, en byggður í Svíþjóð 1936. Þessi bátur heitir "Keilir" G. K. 92. Er hann 60 smál. brúttó og hefir 120 h.a. Bolindirvél. Eigendur hans eru Haraldur Böðvarsson & Go., Sandgerði.

Ægir. 6 tbl. 1 júní 1938.


Ársæll GK 527. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra.                                    (C) Þórhallur S Gjöveraa. 

      Vélbáturinn Ársæll GK ferst

Síðari hluta dags í fyrradag vildi það slys til, að einn vélbátanna frá Suðurnesjaverstöðvunum, sem var þá á heimleið, fékk á sig brotsjó, og hvolfdi honum þegar. Fimm menn voru á bátnum og fórust fjórir þeirra, en nærstöddum bát tókst að bjarga einum mannanna.
Bátur þessi var v.b. "Ársæll" frá Ytri-Njarðvík. Var hann staddur um 4-5 mílur út af Skaga, á heimleið, þegar hann fékk á sig brotsjó, og hvolfdi honum þegar. Vélbáturinn "Ásbjörg" frá Hafnarfirði var nærstaddur og tókst honum að bjarga einum manni af "Ársæli", Símoni Gíslasyni vélstjóra, sem var staddur í stýrishúsinu, ásamt skipstjóranum, Þorvaldi Jóhannssyni, þegar brotsjórinn skall yfir bátinn. Vélbáturinn "Ásbjörg" beið all lengi á slysstaðnum, en varð einskis var. Þeir, sem fórust með "Ársæli" voru þessir:
Þorvaldur Jóhannsson, skipstjóri frá Njarðvík, 42 ára, kvæntur og átti 2 börn.
Pétur Sumarliðason frá Ólafsvík, en nýfluttur til Njarðvíkur. Hann var 26 ára, kvæntur og átti 2 börn. Guðmundur Sigurjónsson frá Lundi í Njarðvík. Hann var 24 ára, ókvæntur.
Trausti Einarsson frá Ólafsvík.
Vélbáturinn "Ársæll" var 22 smálestir, smíðaður í Frederikssund í Danmörku 1938. Eigendur var sameignarfélagið "Ársæll" í Njarðvík.

Þjóðviljinn. 6 mars 1943.


05.11.2018 19:07

E. s. Fjallfoss l / TFCB.

Eimskipið Fjallfoss l var smíðaður hjá N.V. Haarlemsche Scheepsbouw Maatschappij í Haarlem í Hollandi árið 1919 sem Merwede fyrir Hollandsche Stoomboot Mij. í Amsterdam. Fékk svo stuttu síðar nafnið Amstelstroom. 1.451 brl. 1.400 ha. 3 þennslu gufuvél. Skipið var selt í apríl 1934, Eimskipafélaginu Ísafold hf í Reykjavík, hét Edda. Skipið var í flutningum milli Íslands og Evrópulanda með viðkomu víða á innlendum höfnum og flutti bæði stykkjavörur og þungavörur í heilum förmum. Skipið var selt í október 1941, hf. Eimskipafélagi Íslands, hét þar Fjallfoss, sá fyrsti með þessu nafni. Fjallfoss var í Ameríkusiglingum til loka seinni heimstyrjaldar og hóf þá Evrópusiglingar. Skipið var selt í maí 1951, Sargena Societa Armamento Gestione Navi S.p.A. á Ítalíu, hét þar Sidera. Skipið var selt 1957, M.A. Bakhashab í Saudi-Arabíu, hét Ommalgora. Selt 1968, Orri Navigation Lines í Saudi-Arabíu, hét þá Star of Taif. Talið ónýtt og því var sökkt í Rauðahafi við borgina Jeddah í Saudi-Arabíu í ágústmánuði árið 1978.


E.s. Fjallfoss l í Reykjavíkurhöfn.                                                           (C) Vigfús Sigurgeirsson.

     
     Edda, stærsta skip íslenska flotans       
      
         kom í fyrsta sinn til landsins í gær


Í gær kom til Hafnarfjarðar hið nýja skip Eimskipafjjelagsins Ísafold, Edda nefnt, sem hið fyrra skip með því nafni, er strandaði nálægt Hornafirði í vetur. Skip þetta keypti fjelagið í Hollandi, og önnuðust þeir kaupin, Gunnar Guðjónsson skipamiðlari og Gísli Jónsson. Edda hin nýja hefir rúmlega 2.000 smálesta burðarmagn og er því heldur stærri en Dettifoss, sem hingað til hefir verið stærsta skip íslenska flotans. Er Edda 271 fet á lengd.
Skipið er byggt árið 1919, var áður í förum milli Hollands og Afríku með farþega og flutning, en farþegarúmi þess hefir verið breytt í Kolahólf. Ganghraði er 12 ½ míla. Skipstjóri er hinn sami og á hinu fyrra skipi fjelagsins, Jón Kristófersson, og er skipshöfnin að mestu leyti hin sama. Skipið kom að þessu sinni með kolafarm til Hafnarfjarðar, en kemur hingað um helgina.

Morgunblaðið. 3 maí 1934.


E.s. Edda á tímum seinni heimstyrjaldar með fánann málaðan á síður skipsins. Ljósmyndari óþekktur.


Star of Taif stuttu áður en skipinu var sökkt í Rauðahafinu.                        (C) Wreck side.

                    "Fjallfoss"

Eimskipafélag Íslands hefir skírt flutningaskipið "Eddu", sem það keypti af Eimskipafélaginu ísafold, "Fjallfoss". Er þetta nafn á fossi í ánni Dynjandi í Arnarfirði. Mynd af þessum fossi er á 10 aura frímerkjum, sem verið hafa í notkun undanfarið og nefndur þar Dynjandi. En þetta er rangnefni. Það er áin, sem heitir þessu nafni, en fossinn, sem er efsti fossinn í ánni, heitir Fjallfoss. Framkvæmdastjóri Eimskipafélags Íslands, tjáði blaðinu að þetta nafn hefði meðal annars verið valið á skipið vegna þess að Vestfirðir hafa til þessa verið afskiptir hvað snertir nöfnin á hinum eldri skipum Eimskipafélagsins. Edda mun þó sigla undir sínu gamla nafni næstu ferð sína til útlanda, vegna þess að ennþá hefir ekki unnizt tími til þess að ganga formlega frá nafngiftinni.

Tíminn. 25 október 1941.

04.11.2018 13:55

Eyfirðingur EA 480. TFBP.

Eyfirðingur EA 480 var smíðaður í Fécamp í Frakklandi árið 1908. 174 brl. 120 ha. Skandia vél. Hét áður Normanner TN 330 og var í eigu Z. Heinesen í Þórshöfn í Færeyjum. Skipið var upphaflega frönsk skonnorta og smíðuð fyrir hinn fræga vísindamann, dr. Jean Baptiste Charcot, sem fórst með skipi sínu, Porquoi Pas ? við Mýrar, 16 september 1936. Magnús Andrésson í Reykjavík hafði skipið á leigu frá Færeyjum frá árinu 1940, uns það strandaði við Raufarhöfn 10 nóvember 1945. Skipið náðist út og var gert upp í Slippnum í Reykjavík. Selt Hirti Lárussyni skipstjóra á Akureyri, hét þá Eyfirðingur EA 480. Selt 6 september 1950, Njáli Gunnlaugssyni í Reykjavík. Skipið fórst við Orkneyjar 11 febrúar árið 1952 með allri áhöfn, sjö mönnum.


Eyfirðingur EA 480 í Vestmannaeyjahöfn.                                          (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

     Skip strandar við Raufarhöfn

Færeyska vélskipið "Normanner" strandaði í nótti við innsiglingu á Raufarhöfn. Skipið er óbrotið. "Normanner" átti að taka síldarmjöl til Reykjavíkur. Hætta er á að skipð brotni, ef veður spillist. Skip þetta mun hafa verið á vegum Magnúsar Andréssonar í Reykjavík síðustu 5 ár, en nú á förum fyrir Ríkisskip.

Morgunblaðið. 10 nóvember 1945.


Normanner TN 330.                                                                    www.vagaskip.dk

"Eyfirðingur" fórst við Hjaltlandseyjar            á miðvikudag með allri áhöfn,                                   sjö mönnum 
Þau hörmulegu tíðindi bárust hingað til lands í gærdag , að vélskipið Eyfirðingur frá Akureyri hafi farizt með allri áhöfn, sjö mönnum , á aldrinum 21 til 48 ára, á Hjaltlandseyjum á miðvikudaginn var. Skipið strandaði og sökk. Eyfirðingur, sem var 174 rúmlestir, var á leið til Belgíu, er slysið bar að höndum . Eyfirðingur er þriðja skipið í flotanum, sem ferst með allri áhöfn síðan um áramót . Eftir því, sem Mbl. tókst að afla sér upplýsinga um í gær er einn hinna látnu sjómanna fjölskyldumaður. Um annan var ekki vitað. Hinir mennirnir voru einhleypir. Sjömenningarnir áttu allir heima hér í bænum, að einum undanskyldum. Skipshöfnin var þessi:
Benedikt Kristjánsson, skipstjóri, 46 ára, Skipasundi 19. Hann lætur eftir sig konu og eitt barn, tveggja ára, og tvö stjúpbörn, 11 og 14 ára. Hann var fæddur í A-Skaftafellssýslu.
Marvin Ágústsson, stýrimaður, hefði orðið þrítugur á sunnudaginn kemur, til heimilis að Nesvegi 58. Fæddur í N-Ísafjarðarsýslu.
Erlendur Pálsson, vélstjóri, 47 ára, Laugarneskampi 10. Hann var Seyðfirðingur.
Vernharður Eggertsson, matsveinn, 42 ára, Suðurlandsbraut 9. Vernharður gekk undir nafninu "Dagur Austan". Hann var Akureyringur.
Guðmundur Kr. Gestsson, háseti, 25 ára. Hann átti annað hvort heima á Laugaveg 5B, eða að Bragagötu 29A. Hann var Reykvíkingur.
Sigurður G. Gunnlaugsson, háseti, 21 árs, Brávallagötu 12. Hann var Eyfirðingur.
Guðmundur Sigurðsson, háseti. Hann var elzti maðurinn á Eyfirðingi, 48 ára að aldri. Hann átti heima að Leiti í Dýrafirði og var Dýrfirðingur.
Eyfirðingur fór héðan frá Reykjavík laust fyrir miðnætti miðvikudaginn 6. febrúar. Hér hafði skipið lestað brotajárn og átti að flytja það til Belgíu. Ekki er kunnugt um hvar á Hjaltlandseyjum skipið fórst og ekki er kunnugt um aðdraganda þessa sviplega sjóslyss.

Morgunblaðið. 15 febrúar 1952.

   Björgunarbátur gat ekki hjálpað              "Eyfirðingi" vegna veðurs

Fregnir hafa borizt um að þrjú lík skipverja af "Eyfirðingi" hafi rekið, ásamt allmiklu af braki. Nokkru nánari fregnir hafa borizt Utanríkisráðuneytinu um hið sviplega slys. Eyfirðingur strandaði á svonefndri Edey í Orkneyja-klasa, er hún í innanverðum eyjaklasanum. Það var á mánudagsmorgun um klukkan 7 að skipið fórst. Var þá á stórviðri og þungur sjór. Þegar kunnugt varð um hættu þá er Eyfirðingur var í, var björgunarbátur sendur á vettvang til að reyna að koma skipinu til hjálpar. En hann gat ekkert aðhafst vegna veðurs. Við Edey er straumkast mikið og rak skipið upp og fórst án þess að nokkrum af skipshöfninni yrði bjargað. Eftir síðustu fregnum hefur þrjú lík rekið. Eigandi Eyfirðings er Njáll Gunnlaugsson, Öldugötu 9 hér í bæ.
Eyfirðingur var upphaflega franskt skip, smíðað fyrir hinn fræga vísindamann, dr. Charcot, er drukknaði upp við Mýrar. Hér var því bjargað af strandi, en þá var það færeyskt. Var það endurbyggt í slippnum og hlaut nafnið "Eyfirðingur".

Morgunblaðið. 16 febrúar 1952.



02.11.2018 09:48

B. v. Skallagrímur RE 145. LCHK / TFRC. Fiskað á Halanum haustið 1921.

Botnvörpungurinn Skallagrímur RE 145 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir h/f Kveldúlf í Reykjavík. 403 brl. 800 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 639. Kveldúlfsskipin Þórólfur RE 134 og Skallagrímur RE 145 munu hafa verið fyrstu skipin sem hófu togveiðar á Halanum, hinum gjöfulu fiskimiðum út af Ísafjarðardjúpi, með góðum árangri, haustið 1921. Þó nokkrir höfðu reynt sig þar áður, jafnvel frá árinu 1911, en með misjöfnum árangri. Mörg ár voru í það að dýptarmælirinn kæmi til sögunnar sem auðveldaði mönnum að kortleggja fiskimiðin. Þeir gátu einungis reitt sig á handlóð og setja út dufl til staðsetningar. Greinin hér að neðan birtist í Sjómannablaðinu Víkingi árið 1945, og er höfundur hennar, Guðmundur Guðmundsson skipstjóri frá Móum á Kjalarnesi. Hann var þá skipstjóri á Kveldúlfstogaranum Þórólfi. Lýsir hann þeim örðugleikum sem skipstjórarnir áttu við að etja að ná tökum á þessari nýju og gjöfulu togslóð. Halamið eru ein bestu fiskimiðin við Ísland þó víðar væri leitað. Að sama skapi eru þau ein hættulegustu mið við landið hvað veðrabrygði varðar, og mörg skip farist þar með manni og mús, eins og sagan sýnir, þar sem enginn hefur orðið til frásagnar.


Kveldúlfstogarinn Skallagrímur RE 145 á siglingu.                                      (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

Tvær fyrstu togveiðiferðir á Halann                    og tildrög þeirra

Ekki verður um það deilt, að Halinn sé mesta og bezta togfiskimið í heimi, því að ekkert fiskimið þekkist, hvorki hér við land né annars staðar, þar sem asfiski getur verið á öllum tímum árs, nema á Halanum, enda hafa íslenzkir togarar undanfarin styrjaldarár fengið þar fullfermi túr eftir túr. Og er víst ekki of djúpt tekið í árina, þótt sagt sé, að tveir þriðju hlutar togaraaflans séu fengnir á Halanum. Á þessu geta allir séð, hve mikil gullnáma þetta veiðisvæði er. Það verða nú bráðlega þrjátíu ár síðan fyrst var reynt með botnvörpu á þessu miði, og hefir mér því komið til hugar að segja tildrög þess, að þar var reynt með botnvörpu. Árið 1911 hafði orðið allmikil fjölgun í íslenzka togarflotanum. H. f. Ísland hafði keypt "Lord Nelson", stórt og mikið skip, Thor Jensen o. fl. höfðu keypt Snorra Goða, eldra, Th. Thorsteinsson o. fl. leigt tvo togara frá Aberdeen og Eggert Ólafsson var keyptur til Patreksfjarðar. Þetta ár tók ég við skipstjórn á Snorra Sturlusyni; hann var byggður í Hull árið 1900, 75 smálestir nettó. Heldur þótti Snorri lítið sjóskip og togskip varla í meðallagi. Undanfarin vor hafði verið fiskað í Faxaflóa, en nú hafði hann síðustu tvær til þrjár vorvertíðir fyllzt af frönskum togurum, svo að íslenzku skipstjórarnir höfðu ekki mikla trú á, að þar aflaðist, innan um alla Fransmennina. Hugðu því flestir til að reyna við Austurland, því að heyrzt hafði, að enskir togarar fiskuðu þar vel um þennan tíma árs, en fiskur var þar frekar smár. Ég hafði verið þar árið 1908 á saltfiskveiðum með enskum togara, "Lysander", skipstjóri var Árni Eyjólfsson Byron. Afli var heldur rýr og að mestu smáfiskur, og veðráttan þokusöm.


Kveldúlfstogarinn Þórólfur RE 134 á veiðum.                                           (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
  
Um 20. maí fórum við austur á Snorra Sturlusyni, vorum þar 5-6 daga og fengum sæmilegan afla af smáfiski, höfðum á þessum tíma fengið sem svarar hálfum túr, en þá bilaði vélin svo að ekki var hægt að toga svo að gagni væri. Var því haldið til Reykjavíkur og leitað viðgerðar á vélinni. Fátt var þá um leikna vélaviðgerðarmenn og lítið um verkfæri. Eftir um viku dvöl í Reykjavík var viðgerðinni lokið, vélin reynd og reyndist sæmilega. Var svo undirbúinn annar túr og haldið á veiðar. Ekki leizt mér á að fara austur aftur, var það aðallega af því að togvinda okkar tók ekki nema 300 faðma af togvír hvorumegin, en dýpi er víðast hvar mikið fyrir austan. Var því haldið vestur, reynt báðum megin við Ísafjarðardjúp, djúpt og grunnt, en afli var tregur; sömuleiðis reyndum við undir Kögri, bæði djúpt og grunnt, en fengum lítinn afla. Háseti var með mér þetta úthald, Þórður Sigurðsson, þá um fimmtugt; hafði hann lengi verið stýrimaður á skútum frá Reykjavík, bæði á færafiski og reknetum. Þórður var ágætur sjómaður og eftirtektarsamur mjög. Vorum við að kippa austur og Þórður við stýrið. Við vorum að tala saman um aflatregðu, og sagðist þá Þórður vel geta trúað að fiskur væri á 85-90 föðmum N.-A. af Horni. Kvaðst hann hafa verið með Bandaríkjamönnum á flyðruveiðum á þessum slóðum um þetta leyti árs og oft fiskað mikið af þorski á lóðirnar. Botn hélt hann dágóðan, og töluðum við um þetta fram og aftur. Fórum við svo niður í kortaklefa og athuguðum kortið, því að Þórður kunni góð skil á notkun sjókorta. Var svo haldið út N.-A. af Horni á 85-90 faðma dýpi og byrjað að toga. Þar var ágætis afli, en nokkuð var það til tafar, að mikið var af allstóru, lausu grjóti í botninum og vildi því oft verða gat á pokanum.


Skallagrímur RE 145 (til hægri) mætir hér Garðari GK 25 á toginu.        (C) Guðbjartur Ásgeirsson.  

Settum við þar niður dufl og tók þá von bráðar fyrir að við fengjum steina í pokann. Vorum við þarna í vikutíma og fylltum skipið af vænum þorski. Ekkert skip sáum við þarna, nema Súluna, sem var þá á lóðaveiðum og var gerð út frá Norðfirði. Hún var langt fyrir austan okkur, svo að við sáum hana ekki nema í kíki. Á heimleið átti ég langt tal við Þórð um hvort hann héldi ekki að til væri fleiri góð togmið, sem ekki hefðu verið reynd áður, þar sem hann hefði fiskað með Bandaríkjamönnum. Sagði hann þá, að eitthvert bezta mið þeirra hefði verið að vestanverðu við Djúpið, alveg úti í kanti. Þar gengi all-langur tungulagaður tangi í A.N.A út í Ísafjarðardjúp. Þar hefðu þeir fengið á 100-150 faðma dýpi mjög góðan afla, en botn hélt hann að væri þar frekar slæmur, þar væri líka mikill straumur og illviðrasamt. Að lönduninni lokinni var farið aftur á sömu slóðir og fékkst þar annar sæmilegur túr. Síðan hafa íslenzkir togarar stundað veiðar á Hornbanka og oft fengið góðan afla, einkanlega síðara hluta maí og í júnímánuði og sömuleiðis vetrarmánuðina desember og janúar. Haustið 1915 að síldveiðum loknum, sendi h.f. Kveldúlfur togara sína, Skallagrím, Snorra Goða og Snorra Sturluson til viðgerðar til Kaupmannahafnar. Komum við úr þeirri ferð snemma í desember og var þá búizt á veiðar 10.-12. desember. Veðrátta var mjög slæm, sífelld austan stórviðri og hvergi fisk að fá, enda ekki hægt að fiska nema á grunnmiðum. Eftir viku tíma vorum við að toga, í mjög slæmu veðri, grunnt undan Skálavík og var lítill afli. Síðustu fjóra dagana höfðum við verið á líkum slóðum og Skallagrímur; skipstjóri á honum var þá Guðmundur Jónsson á Reykjum. Um hádegisbilið talaði hann við okkur, hafði hann verið úti nokkuð lengur en við, sagði hann, að hér fyrir vestan væri ekkert að fá, nema illviðrið. Sagðist hann ætla suður í Faxaflóa og hélt að fiskur myndi vera í Garðsjó, sem algengt var um þetta leyti árs, nokkru fyrir jól.


Veitt í salt á Garðari GK 25 á Grænlandsmiðum.                                  (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
  
Nokkru síðar héldum við inn á Hesteyri og lögðumst þar. Heldur þótti mér horfa óvænlega með túrinn og var nú farið að athuga, hvernig vænlegast væri að bjarga honum. Kolin voru slæm, tekin í Höfn, og vorum við búnir að nota mikið af þeim. Datt mér þá í hug mið það, sem Þórður hafði talað um 1911, út með Djúpinu og var nú ákveðið að reyna þar þegar lygndi. Um kl. 3 um morguninn var vindur  nokkru hægari, og hafði mig dreymt fiskilega um nóttina. Var þá akkerum létt og haldið út. Þótti það æði langt að halda fimm tíma beint til hafs. Austan stormur var, en fór heldur lygnandi. Klukkan 10 f.h. var kastað á 85 faðma dýpi, mjög nálægt þeim slóðum, sem Þórður hafði lýst. Var þar ágætur afli, en ekki þó mok. Komumst við á um eða yfir 100 faðma og var þar mikið af karfa. Héldum við okkur á 85-90 föðmum og rifum ekki mjög mikið. Aflinn var vænn þorskur og mjög mikið af smá- og stofnlúðu. Á aðfangadag vorum við orðnir íslausir og mikill fiskur á þiljum; var þá haidið til Patreksfjarðar eftir ís. Austan strekkings storumr var alla dagana, en sjólítið. Ekkert skip sáum við þessa daga, enda var skyggni slæmt. Þegar við höfðum siglt rúman klukkutíma á leið til Patreksfjarðar, fórum við framhjá botnvörpungnum Apríl, dálítið á stjórnborða, skipstjóri á honum var Þorsteinn Þorsteinsson; fyllti Apríl sig í þessari ferð á mjög skömmum tíma. Hjalti Jónsson fór svo með skipið til Fleetwood kortalaus eða kortalítill, eins og getið er um í bókinni Eldeyjar-Hjalti. Við fengum ísinn mjög fljótt á Patreksfirði og lágum þar til kl. 2 f. h. á jóladag.


Pokinn hífður inn fyrir lunninguna og tæmdur.                                         (C) Guðbjartur Ásgeirsson. 
 
Aðfangadagskvöld var ég í boði hjá Ólafi sál. Jóhannessyni konsúl og konu hans, og verður þetta kvöld mér lengi minnisstætt fyrir þær ágætu móttökur, sem ég hlaut þar, og er það ágætasta aðfangadagskvöld, sem ég hef notið utan heimilis míns. Var það í fyrsta, en ekki í síðasta sinni, sem ég naut hinnar landskunnu gestrisni, sem á því heimili ríkti. Við fórum út eins og áður er getið kl. 2 f. h. á jóladag í sama austan stormi. Héldum við suður á Röst, fiskuðum þar um það bil í sólarhring, og var góður reitingur af kola. Við komum inn á þriðja í jólum og héldum svo til Fleetwood og fengum ágætan markað. Ekki fórum við þarna út aftur í næsta túr, enda var sífellt illviðri. Þennan vetur var tíð ákaflega slæm, en um mánaðamótin janúar og febrúar gerði mjög góða tíð, og var vertíðin 1916 vanalega nefnd vertíðin góða. Mátti heita að ekki tæki úr dag.
Árið 1921 sendi h.f. Kveldúlfur þrjú af skipum sínum á saltfiskveiðar í miðjum nóvember sem var algengt í þann tíma. Voru það Skallagrímur yngri, Þórólfur og Snorri Sturluson yngri; var ég þá skipstjóri á Þórólfi, afburða góðu skipi, og var það álitið bezta skip togaraflotans og er það líklega enn. Reynt var á þessum vanalegu stöðum, báðum megin við Ísafjarðardjúp, á Hornbanka og víðar.


Snæbjörn Stefánsson skipstjóri á Ver GK 3 teygjir sig yfir lanternljósið á brúarvængnum til að sjá hve mikill fiskur sé í þessu holi.                                                            (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

Fiskur var mjög tregur, en tíð frekar góð. Öll skipin höfðu farið út um líkt leyti, því að verkfall hafði verið um haustið og öll skip voru á ísfiskveiðum nema þessi þrjú frá Kveldúlfi. Eftir að hafa reynt til og frá, datt mér í hug að reyna á sömu slóðum og um jólaleytið 1915. Hélt ég suður fyrir Djúp og út með því. Veður var gott og sást vel til lands. Kastaði ég þar á 95-100 föðmum og hitti strax á mokafla, hreinan þorsk. Setti ég niður dufl á 95 föðmum, en rétt fyrir utan það voru 150 faðmar. Allmiklar tafir urðu að því, að netin báðum megin reyndust fúin. Höfðum við farið til veiða, að loknum síldveiðum þetta ár, á Nýfundnalandsbankana mánuðina september og október. Botn var þar víðast góður og netin sýndust lítið slitin, en voru orðin fúin. Við urðum því að slá undir nýjum netum og eftir það fengum við ágætis afla, 6-7 poka eftir 30 mínútur. Klukkan mun hafa verið 12 á hádegi þegar byrjar var, en um miðnætti var komið austan hvassviðri, var þá hætt með mikinn fisk á þilfari. Héldum við okkur svo við duflið á meðan gert var að, en töpuðum því nokkru síðar. Nokkru eftir að aðgerð var lokið, var haldið upp í eina klukkustund og síðan austur að vesturkanti Ísafjarðardjúps og haldið sér við Djúpið. Um kvöldið var haldið út aftur, var þá nokkuð lygnara, og byrjað að toga á líkum slóðum og daginn áður. Fengum við um nóttina tvo til þrjá dágóða drætti, en megnið var ufsi, annars rifrildi og festur hvað eftir annað.


Það hefur verið mikill afli í þessu holi, því alls eru um 20 menn í aðgerð.    (C) Guðbjartur Ásgeirsson.  

Um morguninn, nokkru eftir birtingu, var haldið austur yfir Djúpið og ætlaði ég að reyna í austurhalla þess þegar lokið væri viðgerðum netanna. Þegar komið var austur á kantinn mættum við þar Skallagrími; skipstjóri á honum var Guðmundur Jónsson frá Reykjum. Töluðum við saman, og sagðist hann hvergi hafa fengið fisk, en ég sagði honum frá afla þeim,sem við höfðum fengið þar úti. Ákváðum við að halda þangað út aftur og var svo snúið við og byrjað á nýjan leik. Var þá komið bezta veður og hélzt í næstu 4-5 daga, og bætti það mjög aðstæður allar. Aldrei áður hafði ég þá komizt í annað eins netarifrildi og festur, og aldrei í annað eins mok af fiski, þegar vel gekk, tvo til þrjá drætti rifrildi og festur, næstu tvo til þrjá máske 7-8 pokar eftir 20-30 mínútur. Komum við svo þarna niður á kantinum sínu duflinu hvor, og fór þá heldur að minnka rifrildi, en var þó alltaf mjög mikið. Afli virtist beztur á 115-120 föðmum, oft hreinn þorskur. Ekki var asfiski nema á þessu dýpi. Vöruðum við okkur ekki á hve kanturinn sveigði mikið til norðurs; héldum fyrst að hann mundi vera A.N.A., en hann reyndist liggja mikið meira til norðurs. Hefði þá komið sér vel að hafa dýptarmæli. Héldum við, svo áfram veiðum þar til við vorum alveg orðnir í vandræðum með lifur og salt næstum því búið. Fórum við þá til Dýrafjarðar og létum í land 40-50 tunnur af lifur og tókum dálítið salt.

Hér er verið að taka inn pokan á Víði GK 450.                                      (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
  
Var svo haldið út aftur og byrjað á líkum stað. Nokkru síðar fór Skallagrímur heim, hann losaði ekki lifur fyrir vestan. Afii var líkur, þó meiri ufsi. Eftir þrjá daga var haldið heim, var þá saltið búið og lifrarföt öll full, enda var túrinn orðinn alllangur. Fáliðaðir vorum við frekar þennan túr, tuttugu og þrír á, en einvalalið. Höfðum við eitthvað yfir 200 föt lifrar og þótti þetta mjög mikill afli á þessum tíma árs. Meira en helmingur aflans reyndist þorskur. Þegar við höfðum verið þarna í tvo til þrjá daga kom botnvörpungurinn Baldur, skipstjóri Þorgrímur Sigurðsson, og var það fyrsti túr Baldurs. Hann var á ísfiskveiðum og fyllti sig á mjög skömmum tíma. Snorri Sturluson, skipstjóri Sigurður Guðbrandsson, kom sömuleiðis og var á heimleið, hafði verið á Hornbanka allan túrinn, en fiskaði þarna úti í einn dag. Ekki hef ég heyrt, hver hefir gefið þessu fiskimiði nafn, en þennan vetur komst það á og hefir gengið undir Halanafninu síðan. Eins og sagt var í byrjun þessarar greinar, er Halinn tvímælalaust bezta togveiðimið, sem enn hefir fundizt, hvort sem um innlend eða erlend fiskimið er að ræða.


Togari Einars Þorgilssonar & Co, Garðar GK 25. Flestar af myndunum hér að ofan eru teknar af Guðbjarti Ásgeirssyni um borð í honum.                                      (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

Í Sjómannablaðinu Víkingur II. árg. 1940 í grein, sem Guðmundur Jónsson skipstjóri, Reykjum skrifar og lýsir Halanum, stendur: "Guðmundur Guðmundsson, nú bóndi á Móum á Kjalarnesi, sem stýrði Þórólfi, varð til þess að reyna á Halanum fyrstur þennan vetur". Og í bókinni "Um láð og lög" eftir dr. Bjarna Sæmundsson stendur á bls. 274: "íslenzkir fiskimenn höfðu að vísu komið fyrr á þetta svæði og fiskað þar, en með litlum árangri, þangað til haustið 1921, er Kveldúlfsskipin, fyrst Þórólfur einn og svo Skallagrímur byrjuðu að fiska þar".  

Sjómannablaðið Víkingur. 11-12 tbl. 1 desember 1945.
Guðmundur Guðmundsson frá Móum.

01.11.2018 16:08

Þilskipið Olivette SH 3. LBHM / TFUJ.

Þilskipið Olivette var smíðað með kútterslagi í Yarmouth á Englandi árið 1883. Eik. 37 brl. Var með hjálparvél, stærð og gerð ókunn. Eigendur voru Guðmundur S Th Guðmundsson, Ólafur Sigurðsson skipstjóri og fl. á Siglufirði upp úr aldamótunum 1900 (27 ágúst 1904 ?). Þeir keyptu skipið af Norðmönnum. Hét þá Olivette EA 27. Selt 1913-14, Ólafi Jóhannessyni útgerðar og kaupmanni á Vatneyri í Patreksfirði. Var skipið þá hluti af eignum Vatneyrarverslunarinnar sem var í eigu Milljónafélagsins (P.J. Thorsteinsson & Co) sem Ólafur keypti það ár. Hét þá Olivette BA 126. Þar var Ólafur Ólafsson (Ólafur í Krók) skipstjóri í áratugi. Skipið var endurbyggt árið 1921 og sett í það 12 ha. Sólo vél. Selt 17 október 1931, Samvinnufélagi Flateyjar í Flatey á Breiðafirði, sama nafn og númer. Ný vél (1933) 12 ha. Skandia vél. Selt 26 október 1936, Bergsveini Jónssyni skipstjóra og Sigurði Ágústssyni útgerðarmanni í Stykkishólmi, hét þá Olivette SH 3. Ný vél (1937) 80 ha. Alpha vél. Skipið var lengt og endurbyggt árið 1944 og mældist þá 41 brl. Ný vél (1944) 170 ha. Buda díesel vél. Skipið var selt 15 desember 1952, Útgerðarfélagi Höfðakaupstaðar (Skagaströnd), hét þá Auðbjörg HU 7. Skipið var endurbyggt í þriðja sinn árið 1958 og ný vél (1958) 240 ha. GM díesel vél var sett í það. Selt 14 október 1961, Vísi hf í Kópavogi, hét þá Gullbjörg KÓ 60. Talið ónýtt og tekið af skrá í október árið 1964.

Olivette SH 3 með fullfermi síldar á Siglufirði.                                           Ljósmyndari óþekktur.

      "Framfaraspor" Siglfirðinga

Til framfara má telja það, að keypt voru tvö allstór fiskiskip, sem halda á út til þorskveiða í vor og sumar, og jafnvel til reknetaveiða, sem menn hér hafa numið til fullnustu af frændum sínum, Norðmönnum; þeim (Norðmönnum) til verðugs heiðurs má geta þess, að þeir skutu saman allt að 300 kr. til styrktar fátækum, og var því fé varið til að kaupa korn fyrir handa kúm og mönnum; yfirleitt féll öllum vel við Norðmenn, og höfðu bændur o. fl. gott af þeim.

Norðurland. 22 tbl. 27 febrúar 1904. 


Áhöfnin á síldveiðiskipinu Olivette SH 3.                                                        Ljósmyndari óþekktur.

               Vatneyrarverslun

Verslanir Miljónafjelagsins á Vesturlandi eru seldar. Verslunina á Þingeyri hafa Proppé-bræðurnir keypt með skipum og vörubirgðum á 50 þús. kr. Einnig verslanirnar í Ólafsvík og á Sandi á 45 þús. kr. að sögn. En Bíldudalsverslun hafa þeir keypt Þórður Bjarnason verslunarstjóri og Hannes Stephensen bróðir hans á 75 þús. kr. Vatneyrarverslunina hefur Ólafur Jóhannesson konsúll keypt.

Vísir. 20 ágúst 1914.

                  Skip til sölu

Kútter "Olivette", byggð upp að nýju úr eik 1921, 37 tons, og kútter "Diddó", byggður upp að nýju 1919, stefni og bönd úr eik, kjölur úr brenni, með furuklæðning. Bæði eru skipin með 12 hesta nýjum Solovélum og í ágætu standi. Diddó er 27 tons. Skipin seljast með öllu tilheyrandi í ríkisskoðunar ástandi.
Frekari upplýsingar gefur Ólafur Jóhannesson á Vatneyri.

Hænir. 45 tbl. 5 desember 1929.


Olivette SH 3 við bryggju á Siglufirði.                                             Ljósmyndari óþekktur.


Þilskipið (kútter) Olivette BA 126.                                                           Ljósmyndari óþekktur.

        Ólafur Ólafsson skipstjóri

Árið 1913 keypti Ólafur Jóhannesson, kútterinn Olivette norður á Siglufirði, en þangað sótti nafni hans, Ólafur Ólafsson (Ólafur í Krók ) skipstjóri, hið nýja skip, sem átti eftir að verða hans annað heimili um nær tvo tugi ára, eða allt fram til ársins 1930, og var hann óslitið skipstjóri á Olivette allan þann tíma, en skipið var ávallt gert út frá Patreksfirði á vegum Ólafs Jóhannessonar. Var þá liðinn nær aldarþriðjungur síðan hann tók við skipstjórn, og átti hann því láni að fagna, að hafa aldrei hlekkzt á á sinni löngu sjómannsævi. Fullan fjórðung aldar var hann skipstjóri á útvegi síns gamla vinar og sameignarmanns að Ísafoldinni, Ólafs Jóhannessonar. Var Ólafur í senn einkar farsæll skipstjóri og aflasæll mjög, kappsfullur, og þó í hófi og aðgætinn.
Varð honum vel til manna og hélt sömu mönnum oft lengi í skiprúmi, enda þekktur orðinn að aflasæld og góðum útbúnaði skips síns, eftir því sem þá tíðkaðist.
Skip hans, Olivette, var um 38 tonn að stærð, og eins og aðrar fiskiskútur þess tíma búið seglum einum til gangs. Þægindum var litlum fvrir að fara. Ekkert skýli ofandekks, ekkert stýrishús, enginn kortaklefi, aðeins kappinn einn og svo, stýrisásinn að standa við, hvernig sem veður létu. Öryggistækin voru og færri, aðeins kompásinn, loggið og lóðið, og vegvísarnir á ströndinni engir fyrstu árin. Á seinni árum fékk Ólafur hjálparvél í skip sitt, og voru menn þá mun betur settir en áður, meðan ládeyðan gat heft för þeirra svo mörgum klukkustundum skipti.
Á slíkum skipum var jafnaðarlegast 14-17 manna áhöfn, en fækkaði er kom fram um sólstöður. Þurftu þá ýmsir að fara heim og sinna búum sínum, rúning sauðfjár, öðrum vorverkum og síðar slætti, því að margir háseta voru bændur úr nærliggjandi sveitum. Var oft ærið kapp, eða fiskirígur, milli skipstjóra hinna ýmsu kúttera, en vel mátti Ólafur jafnan una sínum hlut, enda skipið hið bezta af skipum slíkrar tegundar, vel við haldið og hið fríðasta á sjó að sjá og gott í sjó að leggja.

Sjómannablaðið Víkingur. 1 apríl 1952.
Úr grein Einars Sturlaugssonar.


31.10.2018 16:12

1131. Bjarni Sæmundsson RE 30 að koma til hafnar í dag.

Hafrannsóknarskipið Bjarni Sæmundsson kom til hafnar í Reykjavík um hádegið í dag. Tók nokkrar myndir af honum þegar hann kom í hafnarminnið. Fallegt skip Bjarni, en hann er kominn til ára sinna. Skipið var smíðað hjá Schiffbau Gesellschaft í Bremerhaven í V Þýskalandi árið 1970 fyrir Ríkissjóð Íslands. 776 brl. 3 x 600 ha. MAN díeselvélar, 1.800 ha, 1.323 Kw. Nýjar vélar (2003) 3 x Deutz vélar, samtals 2.166 ha, 1.593 Kw. Það var mikil reisn yfir þessum aldna höfðingja þegar hann sigldi inn á Reykjavíkurhöfn í blíðviðrinu í dag.


1131. Bjarni Sæmundsson RE 30 á leið til hafnar í dag.






1131. Bjarni Sæmundsson RE 30. TFEA.                        (C) Þórhallur S Gjöveraa. 31 október 2018.

            Höfum eignazt fullkomið                               hafrannsóknaskip
       "Bjarni Sæmundsson" kominn  

Hingað kom í gær hið nýja hafrannsóknaskip okkar íslendinga "Bjarni Sæmundsson" og hafnaði sig í Reykjavíkurhöfn kl. 5 í gærmorgun. Skipstjóri á hinu nýja skipi er Sæmundur Auðunsson, hinn kunni togaraskipstjóri og lét hann vel af skipinu. Skipið er smíðað hjá fyrirtækinu Unterweser A.G. í Bremerhaven. Það er teiknað af Agnari Norland, skipaverkfræðingi, og umsjón með byggingu þess hafa haft þeir Erlingur Þorkelsson, vélfræðingur og Ingvar Hafllgrímsson, fiskifræðingur, sem sérstaklega hefur annazt það er Iýtur að þeim hlutum skipsins, er verða í umsjá fiskifræðinga. Öll fiskileitartæki, dýptarmælar, loftskeytatæki og talkerfi eru frá A/S Simonsen Radio (Simrad). Ýmis ný tæki eru í þessu skipi, sem ýmist hafa ekki verið sett í íslenzk skip áður eða eru þá alveg ný af nálinni. Fyrst skal þess getið, að í skipinu eru þrjár aflvélar, sem framleiða 380 volta riðstraum, en síðan er honum breytt í jafnstraum fyrir drifvélar skrúfuninar. Straummagnið er í heild 1.800 hestöfl. Í skrúfuvélarnar er hægt að nota 1.400 hestöfl. Sú nýjung er hér viðhöfð að riðstraumnum er breytt með svonefndum "týristorum" í jafnstraum. Ljósnet skipsins er 220 volt. Þá er það ennfremur nýtt í þessu skipi að sérstakt tæki er í því sem heldur stöðugum riða fjölda og stöðugri spennu, þótt orkuálag aukist eða úr því dragi skyndilega. Aflvélar skipsinis eru tvær af Man-gerð og er ganghraði þess 12,5 sjómílur.
Skipið er 776.6 brúttólestir að stærð og 49 metrar milli lóðlína. Vistarverur skipsins eru allar einkar snyrtilegar bæði fyrir skipshöfn og leiðangursmenn. Sú nýbreytni er einnig í þessu skipi að á því er hvorki kjölur né veltikylir. Botninn er ávalur og er það gert til þess að fiskileitartæki og önnur tæki sem hafa sendistöðvar í botni starfi mákvæmar, en þau vilja verða fyrir truflunum af kjölnum í veltingi. Í kjalar stað er sérbyggður veltitankur, sem gegnir sama hlutverki og kjölur og veltikylir, en þar kemur til vatnsmótora í þessum tanki. Skipið er byggt sem skuttogari með vökvadrifinni togvindu og er hún engin smásmíði, því á henni eru 1.300 faðmar af vír. Vindan samanstendur af tveimur tromlum og er hægt að knýja hvora þeirra fyrir sig eða báðar saman. Sérstakur stjórnklefi er fyrir vindurnar af afturþiljum og þar eru einnig vindur fyrir fleiri gerðir af vörpum. Þannig er frá gengið akkerisvindu að nota má hana við hringnótaveiðar og eins ef liggja þarf á miklu dýpi við straummælingar. Er þá hægt að skjóta inn sérstökum vír til lengingar. Sérstakar skrúfur hafa um nokkurt skeið verið notaðar til að auðvelda stjórn skipanna sérstaklega ef snúa þarf þeim við lítið rýrmi, eða halda þeim frá veiðarfærum. Á þessu skipi er Skrúfa á sjálfu stýrinu, sem auðveldar snarvendingu og auk þess er hægt að leggja stýrið 90 gráður í borð, sem er sjaldgæft mjög. Þá er skipið einnig búið bógskrúfu á sénstökum hæl, sem hægt er að renna niður úr botni skipsins að framan og snúa þar í alllar áttir til að auðvelda stjórn skipsins. Skipið mun í dag formlega verða afhent Hafrannsóknarstofnunni.

Morgunblaðið. 18 desember 1970.


31.10.2018 09:29

Bátar í höfn.

Þessi sjón var algeng hér áður fyrr í höfnum landsins, og þá sérstaklega þegar vertíðarbátarnir komu úr flestum landshornum á vertíð og gerðu út frá höfnum suðvestan lands, t.d. frá Keflavík, Grindavík og Vestmannaeyjum. Þessi tími er liðinn, öll þessi gömlu tréskip horfin á braut, voru flest þeirra úrelt í hrönnum fyrir stærri skip á árunum 1988 til 1992 og síðar. Þessi mynd er tekin í höfninni í Sandgerði um miðjan 9 áratuginn. Í forgrunni eru 4 Bátalónsbátar, smíðaðir árin 1972-73. Þeir eru ekki margir eftir, voru flestir britjaðir niður eða brenndir. Nokkrir þeirra náðu ekki 10 ára aldrinum áður en þeim var fargað, og voru þeir þó flestir í góðu standi. Þennan tíma mætti kalla "nornaveiðar tréskipanna" Bátalónsbátarnir sem eru í forgrunni eru allir farnir, 3 þeirra voru úreltir og 1 fórst með allri áhöfn, 3 mönnum. Þeir eru frá vinstri taldir;

1289. Bjarni KE 23, hét fyrst Guðný ÞH 41. Eik og fura. 11 brl. 98 ha. Powa Marine vél. Báturinn var smíðaður fyrir Ásbjörn Magnússon í Reykjavík 1973. Fargað og tekinn af skrá 3 nóvember 1983.

1271. Fram KE 105. Eik og fura. 11 brl. 98 ha. Powa Marine vél. Báturinn var smíðaður fyrir Benedikt B Guðmundsson í Keflavík 1972. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 6 apríl 1992.

1251. Knarrarnes KE 399, hét fyrst Knarrarnes GK 157. Eik og fura. 11 brl. 98 ha. Powa Marine vél. Báturinn var smíðaður fyrir Indriða Kristinsson og Guðjón Indriðason í Hafnarfirði 1972. Báturinn fórst um 8 sjómílur norðvestur af Garðskaga 12 mars árið 1988 og með honum áhöfnin, 3 menn.

1217. Sóley KE 15. Eik og fura. 11 brl. 98 ha. Powa Marine vél. Báturinn var smíðaður fyrir Svavar Ingibergsson og Gunnlaug Jóhannesson í Keflavík. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 18 júlí 1989.

Gunnlaugur Þorgilsson skipstjóri og eigandi Knarrarness KE 399, bjó um tíma í Neskaupstað (1973-76) og gerði þá út bátinn, 486. Dofra NK 100, hét fyrst Guðrún ÞH 116, smíðaður á Akranesi 1961. Gulli, eins og hann var kallaður á Norðfirði og sonur hans, Árni Kristinn og Birkir S Friðbjörnsson úr Keflavík, fórust með Knarrarnesi KE, 12 mars 1988. Ég þekkti þá feðga vel. Blessuð sé minning þeirra.


Bátar í höfn. Sjaldséð sjón nú til dags.                                                 Ljósmyndari óþekktur.

30.10.2018 08:16

1345. Blængur NK 125 á Akureyri.

Frystitogari Síldarvinnslunnar hf í Neskaupstað, Blængur NK 125 er nú í yfirhalningu hjá Slippstöðinni á Akureyri eftir góða 40 daga veiðiferð á Íslandsmiðum. Skipt verður um togspil togarans og ýmsar breitingar verða gerðar á millidekki og í lest skipsins. Áætlað er að verkinu muni ljúka um miðjan nóvember. Hér eru nokkrar myndir teknar af og um borð í skipinu þar sem það lá við Slippstöðvarbryggjuna á Akureyri á dögunum. Það var bróðir minn, Alexander S Gjöveraa sem tók þær og þakka ég honum fyrir það. Fallegt skip Blængur og vel við haldið eins og hinum skipum Síldarvinnslunnar, eins og ávalt hefur verið gert í gegn um tíðina.


1345. Blængur NK 125 við Slippstöðvarbryggjuna á Akureyri.




Nýju togspilin af Naust marine gerð.


Aðalvél skipsins, 5.000 ha. Wartsiila, árgerð 2000. Hrenni vélstjóri notar tímann til viðhalds hennar.




Í vélarrúmi Blængs NK.


Á millidekki togarans.


Flökunar og roðvél á millidekki.


Í frystilest skipsins.


Úr eldhúsinu.


Í borðsalnum.


Í brú skipsins.


Í brúnni.


Ekki má gleyma heita pottinum. Friðrik Vigfússon vélstjóri stendur við pottinn.
1345. Blængur NK 125. TFXD. Glæsilegt skip.                                    (C) Alexander S Gjöveraa.

           Blængur NK með góðan túr                                    og síðan í slipp

Frystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar í gær að aflokinni 40 daga veiðiferð en hann millilandaði á Akureyri 27. september sl. Aflinn í veiðiferðinni var 900 tonn upp úr sjó eða 29.000 þúsund kassar. Aflaverðmætið er 225 milljónir króna. Hér er um að ræða stærsta túr Blængs á Íslandsmiðum en uppistaða aflans var ufsi og karfi. Theodór Haraldsson var skipstjóri fyrstu tíu daga veiðiferðarinnar en síðan tók Bjarni Ólafur Hjálmarsson við. Að sögn Bjarna Ólafs var jöfn og góð veiði allan tímann.
Að löndun lokinni mun Blængur halda til Akureyrar þar sem skipið fer í slipp. Áformað er að gera nokkrar breytingar á millidekki skipsins og eins verður skipt um togspil. Gert er ráð fyrir að skipið verði í slipp í fjórar vikur.

Facebooksíða Síldarvinnslunnar hf
15 október 2018.


       

29.10.2018 12:37

414. Fjalar VE 333. TFPE.

Vélbáturinn Fjalar VE 333 var smíðaður hjá Holms Skeppsvarv í Raa í Svíþjóð árið 1955 fyrir Helga Benediktsson kaupmann og útgerðarmann í Vestmannaeyjum. Eik. 49 brl. 180 ha. June Munktell vél. Seldur 14 desember 1965, Hraðfrystistöð Eyrarbakka hf, hét Fjalar ÁR 22. Ný vél (1970) 350 ha. Caterpillar díesel vél. Seldur 13 desember 1972, Sveinbirni Sveinssyni og Sigurði Hreiðarssyni í Stykkishólmi og Jónatan Sveinssyni í Reykjavík, hét þá Sigurður Sveinsson SH 36. Seldur 11 desember 1973, Jónatan Jóhannessyni í Reykjavík og Garðari Jóhannessyni og Eðvarð Vilmundarsyni í Keflavík, hét Græðir KE 141. Seldur 22 júlí 1977, Jóni Gesti Sveinbjörnssyni og Ómari Sigurðssyni í Stykkishólmi, hét Þröstur SH 130. 14 september 1977 voru Ómar Sigurðsson í Stykkishólmi og Örn Snorrason á Blönduósi skráðir eigendur, hét þá Þröstur HU 130. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 20 september árið 1979.


414. Fjalar VE 333 í prufusiglingu.                                                  (C) Holms Skeppsvarv í Raa.


414. Fjalar VE 333 sjósettur haustið 1954.                                 (C) Holms Skeppsvarv í Raa.

             V.b. Fjalar VE 333

Fjalar, annar þeirra fiskibáta, sem Helgi Benediktsson hefur látið byggja í Svíþjóð kom til Vestmannaeyja 22. febrúar s. l. eftir viðkomu í Færeyjum vegna leiðréttingar á áttavita. Fjalar er að öllu af sömu gerð og Frosti, sem kom fyrir áramótin. Báturinn er byggður í Raa með 180 hk. June Munktell aðalvél, sem búin er olíudrifinni gangskrúfuskiptingu, auk ljósavélar. Í bátnum er olíudrifin línu og netavinda, M. P. Petersen talstöð og miðunarstöð, dýptarmælir ásamt öllum þeim fullkomnustu og beztu tækjum sem notuð eru í fiskibátum. Gísli J. Johnsen, stórkaupmaður í Reykjavík, hafði milli göngu um samning um byggingu bátsins, en báturinn er byggður samkvæmt smíðalýsingu og miðbandsuppdrætti er Brynjólfur Einarsson skipasmíðameistari í Vestmannaeyjum gerði, og mun vera bezt gerða og nákvæmasta smíðalýsing, sem samin hefir verið af íslenzkum manni. Yfirbygging bátsins er úr létt málmi og íbúðir skipverja mjög vistlegar og vel frágengnar. Umsjón með byggingu bátsins annaðist Stefán Helgason, er nú er nýkominn heim eftir dvöl í Svíþjóð frá því í októbermánuði, en eftirlitsmaður af hálfu Skipaskoðunar ríkisins var Hans Hansson, skipstjóri í Gautaborg. Skipstjóri á heimsiglingunni var Sævaldur Runólfsson, sem verður skipstjóri á bátnum í vetur, en Bogi Sigurðsson stýrimaður. Vélstjórar voru Ingólfur Kristjánsson og Rafn Sigurbergsson.  Fjalar kom fullbúinn til fiskiveiða.

Framsókn. 4 tbl. 4 mars 1955.


28.10.2018 09:40

476. Guðjón Einarsson GK 161. TFZU.

Vélbáturinn Guðjón Einarsson GK 161 var smíðaður í Nyborg í Danmörku árið 1948. Eik. 42 brl. 150 ha. Grenaa díesel vél (1955). Eigendur voru Sigurgeir Guðjónsson og Guðjón Sigurgeirsson í Grindavík frá desember 1955. Hét áður Actinia. Ný vél (1963) 240 ha.Kelvin díesel vél. Báturinn var talinn ónýtur og tekinn af skrá 26 apríl árið 1966. Var síðan brenndur stuttu síðar.


476. Guðjón Einarsson GK 161.                                   (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

          Nýr bátur til Grindavíkur

Nýlega bættist nýr bátur í flota Grindvíkinga. Er það sex ára eikarbátur með nýrri vél, sem keyptur er þangað frá Danmörku. Báturinn er 48 lestir að stærð og hefir hlotið nafnið Guðjón Einarsson. Þessi bátur, sem gerður verður út frá Grindavík er búinn ágætum siglingatækjum og þægindum við skipstjórn t.d. er talsími úr stýrishúsi fram í bústað áhafnar.

Tíminn. 16 desember 1955.


25.10.2018 09:54

839. Sæljón RE 317. TFLI.

Vélbáturinn Sæljón RE 317 var smíðaður hjá Esbjerg Skibsværft A/S í Esbjerg í Danmörku árið 1955 fyrir Gunnar Guðmundsson útgerðarmann í Reykjavík. 62 brl. 265 ha. GM díesel vél. Ný vél (1960) 335 ha. GM díesel vél. Seldur 25 október 1961, feðgunum Kolbeini Guðmundssyni og Engilbert Kolbeinssyni á Auðnum í Gullbringusýslu, hét þá Sæljón GK 103. Seldur 14 janúar 1966, Bæjarútgerð Hafnarfjarðar, sama nafn og númer. Seldur 6 desember 1968, Friðþjófi hf á Eskifirði, hét Sæljón SU 103. Ný vél (1971) 335 ha. GM díesel vél. Seldur 23 ágúst 1972, Sæveri hf í Stykkishólmi, hét þá Sæljón SH 103. Báturinn var dæmdur ónýtur árið 1979, en var endurbyggður sama ár. Seldur 5 nóvember 1979, Sæljóni hf á Akureyri, hét Sæljón EA 55. Seldur 10 júlí 1981, Rán hf á Dalvík, sama nafn og númer. Báturinn sökk á Skagafjarðardýpi þegar hann var á rækjuveiðum um 25 sjómílur norður af Siglunesi eftir að óstöðvandi leki kom að honum. Áhöfnin, 3 menn, björguðust um borð í Vélskipið Bjarma EA 13 frá Dalvík.


839. Sæljón RE 317 í slipp í Reykjavík.                                               Ljósmyndari óþekktur.

        Myndarlegur vélbátur bætist                          Reykvíska bátaflotanum

Nýlega bættist reykvíska vélbátaflotanum nýr og glæsilegur farkostur, v.b. Sæljón, RE 317. Þetta er nýsmíðaður eikarbátur, byggður við Esbjerg Skibsværft í Danmörku, myndarlegt skip, rúmar 60 lestir að stærð. Eigandi hans og skipstjóri er Gunnar Guðmundsson, útgerðarmaður, Miðtúni 3 hér í bæ. Fréttamaður Vísis átti tal við Gunnar og Magnús Ó. Ólafsson stórkaupmann, sem útvegaði bátinn, og fékk að skoða þenna prýðilega farkost, en hann var á förum norður til síldveiða. Skipið er með alúminíumstýrishúsi, en vélarreisn úr stáli. 200-240 hestafla GM diesel-vél knýr skipið, sem allt er búið hinum nýtízkustu tækjum, svo sem Simrad-dýptarmæli með "útfærzlu", eins og það er nefnt, móttöku- og senditækjum frá hinu kunna danska fyrirtæki, M. P. Pedersen, svo og talstöð. Þá er vélinni að sjálfsögðu stjórnað að öllu leyti frá stýrishúsi. Það er alger nýjung í skipi þessu, að íbúðir eru klæddar plasti, en það gerir m. a. það að verkum, að auðvelt er að halda veggjum og klæðningu í svefnklefum hreinum. Frammi í skipinu eru hvílur fyrir 8 manns, fullkomin olíukynt eldavél af Scandia-gerð, og öllu mjög haganlega fyrir komið. Áhöfnin er alls 10 manns, þar af ein stúlka, sem mun matreiða handa skipsfélögum sínum, Lilja Árnadóttir frá Grindavík. Lilja Árnadóttir er enginn nýliði á sjónum, en fréttamaður Vísis gat skipzt á nokkrum orðum við hana. Hún var áður á v.b. "Gunnari" frá Hólmavík. Henni lízt ljómandi vel á skipið og plastið á veggjunum, sem hún telur til mikilla bóta.  Eruð þér sjóveik? spyr fréttamaðurinn. "Svolítið, til að byrja með," svarar hún, "en það lagast fljótlega, og þegar maður er ekki sjóveikur, er gaman að vera til sjós." Lengra varð samtalið ekki, því að hún var að sinna skyldustörfum sínum, og báturinn senn á förum.

Vísir. 24 júní 1955.


839. Sæljón EA 55.                                                                                                (C) Morgunblaðið.

      Þrír menn björguðust þegar                      Sæljón EA 55 sökk

Þrír menn björguðust í gær er Sæljón EA 55, 61 tonns eikarbátur í eigu útgerðarfélagsins Ránar hf. á Dalvík, sökk um 25 sjómílur norður af Siglunesi. Leki kom að bátnum um kl. 13.30 og var hann sokkinn kl. 18.20 í gærkvöld. Skipverjunum þremur var bjargað um borð í Bjarma frá Dalvík, en báðir bátarnir voru á rækjutrolli á Skagafjarðardýpi. Bjarmi EA kom til Dalvíkur um kl. 23 í gærkvöldi.
Arngrímur Jónsson skipstjóri á Bjarma sagðist í samtali við Morgunblaðið í gærkvöld hafa verið staddur um 20 sjómílur norður af Siglunesi þegar kall hefði borist frá Sæljóni um kl. 14.00 í gær, en þá var Sæljónið statt um sex mílur norðan við Bjarma. "Skipstjórinn var fyrst og fremst að fá upp hvar ég væri nákvæmlega og lét hann mig þá jafnframt vita um ástandið um borð. Þá var kominn leki í vélarrúmi og lensurnar virkuðu ekki. Við töluðum um að hafa samband reglulega. Hann dreif sig í að hífa trollið og var búinn að því hálftíma seinna. Þá sagðist hann ætla að leggja af stað í áttina til mín og spurðist fyrir um hvort í grenndinni væru bátar eða skip með dælu enda skilst mér að útlitið hafi þá verið farið að versna töluvert.
Ekki voru þó nein skip nálæg með dælur. Um fjögurleytið kallaði hann aftur og bað mig um að koma á móti sér. Þá átti hann eftir um tvær mílur í mig. Ég hífði trollið strax og fór á móti honum. Þá var vélin farin að hiksta og mikill sjór kominn í vélarrúmið. Ég var kominn upp að honum um kl 16.30. Sex vindstig voru um þetta leyti og var heldur að bæta í'ann á meðan við vorum að koma vír á milli og þegar farið var að ná mönnunum um borð til okkar. Ég fór upp að hliðinni á Sæljóninu og bakkaði uppað svo þeir gætu stokkið um borð. Fyrst henti ég tógi um borð sem þeir hnýttu í vírinn hjá sér til að tengja á milli bátanna. Ég ætlaði að reyna að draga Sæljónið að landi svo bjarga mætti einhverju, því það var þarna á réttum kili. Þegar mennirnir voru komnir um borð og ég byrjaði að taka á, slitnaði virinn strax á milli. Ég snéri aftur upp að bátnum og sendi tvo menn með vír yfir. Þeir rétt náðu að stökkva aftur um borð í Bjarma þegar Sæljónið fór á hliðina og sökk skömmu síðar. Þá urðum við að klippa á vírinn," sagði Arngrímur að Iokum.
Þórir Ólafsson skipstjóri á Sæljóninu sagðist hafa uppgötvað leka um kl. 13.30 í gær. "Hann ágerðist stöðugt og dælurnar höfðu ekki undan. Auðvitað má segja að við höfum verið í hættu þarna. Það mátti ekki mikið út af bera. Til dæmis hoppuðum við einfaldlega á milli bátana á öldunni úr því að tíminn var orðinn naumur," sagði Þórir. Auk Þóris voru um borð í Sæljóninu þeir Gunnar Þórarinsson vélstjóri og Viðar Þórisson kokkur. Stefán Rögnvaldsson EA frá Dalvík var einnig í nágrenninu og kom hann að í þann mund er Sæljónið var að sökkva.
Rán hf. útgerðarfélag bátsins, gerir einnig út Sænes EA 75, 110 tonna stálskip. Búast má við að sjópróf fari fram í dag.

Morgunblaðið. 6 október 1988.



21.10.2018 09:14

Skógafoss GK 280.

Vélbáturinn Skógafoss GK 280 var smíðaður í Rosendal í Noregi árið 1929 fyrir Valdimar Kristmundsson útgerðarmann í Keflavík. Fura. 20 brl. 45 ha. Rapp vél. Ný vél (1933) 65 ha. June Munktell vél. Seldur 6 janúar 1937, Gunnari Guðjónssyni og Gísla Guðjónssyni í Vestmannaeyjum, hét þá Víðir VE 326. Báturinn fórst í róðri með allri áhöfn, 5 mönnum 6 febrúar árið 1938. Stuttu síðar fannst brak úr honum rekið á Álfhólsfjöru í Vestur Landeyjum.

 
Skógafoss GK 280 í bóli sínu í Keflavík.                                                   (C) Gestur Oddleifsson.

          Nýr bátur til Keflavíkur

"Skógafoss" heitir 20 smálesta vélbátur, nýkominn frá Noregi, er liggur hér við Steinbryggjuna. Báturinn er nýr og smíðaður fyrir Valdimar Kristmundsson formann og útgerðarmann í Keflavík. Umboðsmaður skipasmíðastöðvarinnar og vélarinnar, O. Ellingsen, bauð blaðamönnum og ýmsum fleirum að skoða bátinn í gær. Var farið á bátnum út fyrir Engey, svo að gestunum gæfist kostur á að sjá ganghraða hans. Báturinn er smíðaður í Rosendal í Noregi. Viðir bátsins eru að mestu leyti úr furu. Stærð hans er eins og áöur er sagt rúmlega 20 smálestir. Vélin hefir 45 hestöfl og heitir "Rap". En af þeirri vélategund er mikið notað í norska fiskibáta. Mannaíbúð er aðeins í framstafni og er þar vistleg íbúð fyrir 6,menn. Vélin knýr bátinn 8 1/2 mílu á vöku í sæmilegu veðri. Báturinn verður raflýstur hér. Hingað kominn mun hann kosta um 30 þúsundir ísl. kr., og er það mun ódýrara en hægt mun að smíða báta fyrir hér líkrar stærðar. Báturinn var 4 sólarhringa og 6 klst. frá Björgvin til Keflavíkur, er það óvenjulega fljót ferð á smáskipi að vetrarlagi þessa leið. Skipstjórinn var Kristján Kristjánsson, sá er stýrði "Gottu" í sumar í Grænlandsleiðangrinum.

Alþýðublaðið. 9 desember 1929.

                      Átakanlegt slys 

   M.b. Víðir VE 326 ferst með allri áhöfn                            fimm mönnum.

Þann 6. þ. m. var hér hægviðri snemma morguns og reru allmargir bátar. Í birtingu tók að hvessa á suðaustan, og um hádegi var komið hvassviðri. Eftir kl, tvö fór aftur að hægja og vindur að ganga suðlægari. Meðan vindurinn var mestur var mikil snjóhríð, er síðar um daginn breyttist í rigningu. Þegar leið á daginn fóru bátar smátt og smátt að koma heim og allir komu þeir heim um kvöldið nema m.b. Víðir VE 326. Um kvöldið fór varðskipið Þór að leita hans. Einnig leitaði m.b. Ver nokkuð um kvöldið. M.b. Víðir hafði lagt línu sína um 25 sjóm. NV. frá Vestmannaeyjum. Þrátt fyrir leit nokkurra skipa í fullan sólarhring sást ekki til bátsins. Fóru menn þá að verða vonlausir um heimkomu hans, þó að öllum sjómönnum kæmi saman um það, að eitthver óvænt óhapp, annað en stormurinn, hefði grandað bátnum. Báturinn var vel sterkur, vel útbúinn, 20 tonn að stærð og vel mönnum skipaður.
Skipstjóri var Gunnar Guðjónsson 32 ára,
Gísli Guðjónsson 1. vélstjóri 23 ára, bræður frá Kirkjubæ hér,
Ólafur Markússon frá Fagurhól hér, 2. vélstjóri um tvítugt
og tveir Eyrbekkingar Árni Bjarnason og Halldór Þorleifsson.
Allir vaskleikamenn. Nú má telja víst að bátur þessi hafi farist með allri áhöfn, enda hefir heyrst um rekald úr honum á Landeyjasandi. Það er alltaf hörmulegt að ungir menn og frískir hverfi í fullu fjöri, og í þessu tilfelli er ekki síst sorglegt til þess að vita, að móðir bræðranna, Gunnars og Gísla, Halla Guðmundsdóttir, hafði áður mist tvo syni sína í sjóinn, á unga aldri, hér við Eyjar. Eftir að þetta var skrifað, hefir bátinn rekið upp á Landeyjasand, brotinn til ónýtis. Hvers vegna báturinn hefir lent þarna í brotsjóum skamt frá landi verður aldrei vitað með vissu, en sennilega hefir kompáskekkja eða vélarstopp valdið þessu hörmulega slysi.

Víðir. 10 tbl. 19 febrúar 1938. 


20.10.2018 08:09

620. Hjálmar NK 3 TFWY.

Vélbáturinn Hjálmar NK 3 var smíðaður hjá Marselíusi Bernharðssyni á Ísafirði árið 1960 fyrir Harald Hjálmarsson útgerðarmann í Neskaupstað. Eik. 82 brl. 525 ha. MWM díesel vél. Seldur 1 júní 1962, Jónasi Jónassyni á Miðnesi og Sigurði Bjarnasyni í Sandgerði, hét þá Jón Oddsson GK 14. Mikill eldur kom upp í bátnum þegar hann var á humarveiðum um 10 sjómílur vestur af Eldey 24 ágúst árið 1971. Áhöfnin, 7 menn, fóru um borð í Útey KE en vélbáturinn Helga Björg HU 7 tók Jón í tog og dró hann inn til Keflavíkur þar sem eldurinn var slökktur. Báturinn var talinn ónýtur eftir brunann og tekin af skrá árið 1972.


Vélbáturinn Hjálmar NK 3 í reynslusiglingu á Ísafirði í júlí 1960.        (C) Ljósmyndasafnið á Ísafirði.

      Nýr bátur til Neskaupstaðar

Neskaupstað 7. Júlí. Kl. 11 í dag kom hingað vélbáturinn Hjálmar NK 3, eign Haraldar Hjálmarssonar, útgerðarmanns í Neskaupstað. Er þetta nýr bátur, smíðaður í skipasmíðastöð M. Bernharðssonar hf. á Ísafirði og kom hann nú í fyrsta skipti til heimahafnar. Báturinn fór frá Ísafirði um síðustu helgi til Reykjavíkur og tók síðan veiðarfæri í Vestmannaeyjum. Vélbáturinn Hjálmar er 82 lestir að stærð, með 525 ha Mannheimvél. Hann er búinn öllum nýjustu siglinga- og fiskileitartækjum. Þykir smíði hans öll hin vandaðasta. Báturinn fer á síldveiðar á morgun. Skipstjóri er Þórlindur Magnússon frá Eskifirði, og 1. vélstjóri Jón Árni Sigurðsson frá Seyðisfirði.

Morgunblaðið. 9 júlí 1960.


Hjálmar NK 3 við bryggju síldarsöltunarstöðvarinnar Drífu í Neskaupstað.  (C) Þórarinn Ölversson.


Helga Björg HU 7 með Jón Oddsson GK 14 alelda í togi.           (C) Morgunblaðið / Gunnar Steinn.

                   Eldur í báti

Eldur kom upp í vélarrúmi Jóns Oddssonar GK 14 frá Keflavík, þegar báturinn var að humarveiðum um 10 mílur vestur af Eldey um hádegisbilið í gær. Skipverjum tókst ekki að ráða niðurlögum eldsins og var þá vélarrúminu lokað, en vélbáturinn Helga Björg dró Jón til Keflavíkur. Þangað komu bátarnir um sjöleytið í gærkvöldi. Slökkvilið beið á bryggjunni og tók um klukkustund að slökkva eldinn í bátnum. Miklar skemmdir urðu í vélarrúminu. Þegar fréttist af eldinum um borð í Jóni fór Snarfari RE frá Sandgerði með slökkvidælu og menn, en þegar aðstæður höfðu verið kannaðar, þótti ekki rétt að freista slökkvistarfs á sjó úti. Áhöfnin á Jóni Oddssyni, 7 menn, fór um borð í Útey KE, sem fylgdi Helgu Björg og Jóni Oddssyni til hafnar í Keflavík.
Jón Oddsson er 82 tonna eikarbátur, smíðaður á Ísafirði 1960.

Morgunblaðið. 25 ágúst 1971.


14.10.2018 09:36

Togarar við innri bæjarbryggjuna í Neskaupstað.

Á þessari ljósmynd Björns Björnssonar ljósmyndara liggja tveir Nýsköpunartogarar, tvö tog og síldveiðiskip og einn línu og netabátur við innri bæjarbryggjuna í Neskaupstað sumarið 1949. Nokkrum árum áður hafði þessi bryggja verið byggð og batnaði þá öll hafnaraðstaða í bænum til mikilla muna. Sú hafskipabryggja sem notuð var áður, Sigfúsarbryggjan út á eyri var komin til ára sinna, enda byggð árið 1915. Togararnir sem liggja við bryggjuhausinn eru, Hafnarfjarðartogarinn Júlí GK 21, fórst 10 árum síðar á Nýfundnalandsmiðum með allri áhöfn, 30 mönnum. Utan á honum er togari Útgerðarfélags Akureyringa, Kaldbakur EA 1. Í kverkinni er vélbáturinn Draupnir NK 21, smíðaður í Marstrand í Svíþjóð árið 1942. Að innan verðu eru Freyfaxi NK 101, smíðaður í Halsö í Svíþjóð árið 1946 og Hrafnkell NK 100, smíðaður í Spillersboda í Svíþjóð árið 1946.


Þétt legið við innri bæjarbryggjuna á Norðfirði sumarið 1949.                            (C) Björn Björnsson.

     Hafnarbætur í Neskaupstað

Í Neskaupstað var byggð hafskipabryggja. Landbryggjan er samtals 47 metra löng frá jafnhæð í bakka, 8,0 metra breið og tekur þá við bryggjuhaus, sem er sem næst þvert á landbryggjuna, 35 metra langur og 10 metra breiður. Á efstu 38 metrunum er landbryggjan steypt og nær á 1,5 m dýpi við stórstraumsfjöru, en fremstu 9 metrar hennar, svo og bryggjan í haus, er staurabryggja. Utan við landbryggjuna, sambyggt við hana, var byggð uppfylling, og er framveggur hennar við slórstraumsfjöruborð. Kostnaður við þetta verk mun verða kr. 550-600 000.00.

Ægir. 38 árg. 2-4 tbl. 1 febrúar 1945.


Flettingar í dag: 426
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 1134
Gestir í gær: 51
Samtals flettingar: 1063051
Samtals gestir: 76987
Tölur uppfærðar: 11.12.2024 17:21:55