09.12.2017 07:59

503. Gunnhildur ÍS 246. TFDW.

Gunnhildur ÍS 246 var smíðuð hjá Marselíusi Bernharðssyni á Ísafirði árið 1957 fyrir Magna h/f á Ísafirði. Eik. 59 brl. 280 ha. MWM díesel vél. Seldur 30 nóvember 1969, Baldri Jónssyni, Ásgeiri Sölvasyni og Helga G Þórðarsyni í Hafnarfirði, hét Gunnhildur GK 246. Ný vél (1973) 370 ha. Cummins díesel vél. Var endurmældur sama ár, mældist þá 56 brl. Seldur 8 nóvember 1979, Magnúsi Geir Þórarinssyni í Keflavík, hét Bergþór GK 5. Báturinn fórst í róðri um 8 sjómílur norðvestur af Garðskaga 8 janúar árið 1988. Tveir menn fórust, en þrír björguðust í gúmmíbjörgunarbát. Stuttu síðar bjargaði áhöfnin á Akurey KE 121 frá Keflavík mönnunum til lands heilum á húfi.
Mennirnir sem fórust með Bergþóri hétu Magnús Geir Þórarinsson skipstjóri og eigandi bátsins og Elfar Þór Jónsson háseti.


Gunnhildur ÍS 246 á siglingu.                                                                          Ljósmyndari óþekktur.

              Nýr glæsilegur bátur

Nýlega er lokið í Skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar smíði nýs báts, sem hlotið hefur nafnið Gunnhildur ÍS 246. Bátur þessi er allur hinn vandaðasti og búinn öllum nýtízku tækjum. Hann er 60 smálestir með 280 ha. M.W.M. vél. Eigandi bátsins er Magni h.f. nýtt útgerðarfélag, sem stofnað var s.l. ár. Skipstjóri er Hörður Guðbjartsson, 1. vélstjóri Ólafur Gunnarsson og stýrimaður Ólafur Guðjónsson. Skutull óskar eigendum og skipshöfn til hamingju með þessa glæsilegu viðbót við ísfirzka vélbátaflotann.

Skutull. 7 desember 1957.


Bergþór KE 5.                                                                              (C) Vigfús Markússon. Brimbarinn.

  Bergþór KE 5 sökk 8 sjómílur NV af Garðsskaga

    Þrír menn björguðust en tveggja er saknað

Þrír menn björguðust en tveggja er saknað eftir að fiskibáturinn Bergþór KE 5 sökk um 8 sjómílur NV af Garðsskaga á Reykjanesi. Bergþór, sem er 56 tonna trébátur smíðaður 1957, fékk á sig brotsjó þegar hann var við línuveiðar laust eftir kl. 16.30 í gær. Lagðist báturinn á stjórnborðshlið og sökk nær samstundis. Þrír úr áhöfninni komust í björgunarbát og var bjargað um borð í Akurey KE 121 um kl. 18. Leit að hinum tveimur úr áhöfn bátsins bar engan árangur í gærkvöldi en leitinni var hætt kl. 22.00.
Akurey tilkynnti kl. 17.22 í gær á neyðarbylgju skipa, að sést hefði til neyðarblyss suðvestur frá skipinu séð. Slysavarnafélag íslands lét Landhelgisgæsluna strax vita. Vont veður var á þessu svæði, vestsuðvestan 7 til 8 vindstig og éljagangur. Fimm skip höfðu gefið Tilkynningaskyldu íslenskra skipa upp staðarákvörðun þarna nálægt. Slysavarnaféiagið kallaði skipin upp og héldu þau strax í þá átt sem blysið sást úr. Kl. 17.55 tilkynnti Akurey að sést hefði annað neyðarblys og kl. 18.00 kom hún að gúmbjörgunarbáti með þremur mönnum innanborðs. Búið var að ná mönnunum um borð í Akurey kl. 18.09 og töldu þeir þá að þeir hefðu verið í björgunarbátnum í um eina og hálfa klukkustund. Árni Vikarsson skipstjóri á Akurey sagði í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi að mjög vont hefði verið í sjóinn en samt hefði gengið mjög vel að ná mönnunum úr björgunarbátnum. Þeir hefðu verið sæmilega á sig komnir. Tveir þeirra hefðu að vísu verið nokkuð kaldir en náð sér fijótt. Árni hafði það eftir mönnunum að Bergþór hefði sokkið 2-3 mínútum eftir að hann fékk á sig brotið. Tveir þeirra sem björguðust voru á þilfari og náðu að losa björgunarbátinn með handleysibúnaði. Sá þriðji var niðri í káetu en honum tókst að brjótast upp gegnum glugga á brúnni áður en báturinn sökk og komast í björgunarbátinn. Annar mannanna sem saknað er var í brú skipsins en hinn var niðri í lúkarnum. Akurey hóf strax leit á svæðinu auk fleiri skipa sem komu þarna að.
Landhelgisgæslan kallaði út áhafnir þyrlunnar TF-Sif og flugvélarinnar TF-Syn, og fór þyrlan af stað til leitar kl. 18.14 en hún er búin innrauðum hitaleitartækjum. Þyrlan var komin á slysstaðinn kl. 18.27 og heyrði þá í neyðarsendi bátsins en til hans hafði ekki heyrst úr skipum á svæðinu. Leit var haldið áfram fram eftir kvöldi og tóku þátt í henni, auk TF-Sif, Skógarfoss, Stafnes KE 130, Happasæll KE 94, Hafberg GK 377, Vonin KE 2, Víðir II GK. 275, Sigurjón Arnlaugsson HF 210 og Viðey RE 6. Einnig var danska varðskipið Hvidebjörn komið á svæðið um kl. 20.30. TF-Sif snéri aftur til lands og lenti um kl. 21.30 en TF-Syn lagði af stað á leitarsvæðið kl. 21.25. Talsvert af hlutum hafði þá fundist úr skipinu, þar á meðal þrír bjarghringir, en leit að mönnunum tveimur bar engan árangur. Leit verður hafin aftur í birtingu í dag og mun TF-Syn fara á leitarsvæðið auk báta. Akurey kom til Keflavíkur um kl. 22 í gærkvöldi með skipverjana þrjá af Bergþóri. Þrír menn eru í áhöfn Akureyjar auk skipstjóra og vildi Árni Vikarsson þakka áhöfn sinni það hve vel tókst til með björgunina.

Morgunblaðið. 9 janúar 1988.

             Brot lagði bátinn á hliðina  

Sjópróf vegna Bergþórs KE 5 sem sökk 8 sjómílur NV af Garðskaga á föstudaginn fóru fram hjá Bæjarfógetaembættinu í Keflavík í gær. Skipverjarnir þrír af Bergþóri sem björguðust komu fyrir dóminn ásamt skipstjóranum á Akurey KE 121 sem ásamt áhöfn sinni bjargaði mönnunum. Dómformaður sjódómsins var Sigurður Hallur Stefánsson héraðsdómslögmaður og meðdómendur voru Ingólfur Falsson og Jóhann Pétursson fyrrverandi skipstjórar.
Við sjóprófin kom fram að verið var að draga síðustu bjóðin þegar brot kom á bátinn aftanverðan og lagði hann á hliðina. Sjór flæddi niður í lestina sem var að mestu opin, skipstjórinn reyndi að keyra bátinn upp, en það tókst ekki og sökk hann á hliðina á nokkrum mínútum. Skipstjóra og stýrimanni tókst að skjóta gúmbát úr gálga með handfangi úr brú, en líflínan sem var fest með lás í gálgan slitnaði. Skipverjarnir sögðust hafa lent í erfiðleikum við að blása bátinn upp og töldu þeir að ýmislegt hefði mátt fara betur í búnaði hans. Þeir nefndu að á gúmbátnum hefði aðeins verið eitt op og það snúið áveðurs vegna þess að rekankeri var fest þeim megin. Þeim hefði gengið erfiðlega að ausa af þessum sökum. Töldu þeir að opin hefðu átt að vera tvö. Ennfremur kom fram að rekankerið slitnaði frá bátnum og töldu skipverjar að línan hefði mátt vera traustari. Fram kom að álpokar sem voru í gúmbátnum rifnuðu þegar skipverjar ætluðu í þá, en þeir töldu samt að þeir hefðu komið að gagni. Tveir neyðarflugeldar voru í gúmbátnum og töldu þremenningarnir að þeir hefðu mátt vera fleiri. Einnig kom fram að gerðar höfðu verið breytingar á Bergþóri fyrir nokkrum árum og þá meðal annars skipt um brú á bátnum. Ein hurð var á nýju brúnni, var hún stjórnborðsmegin, en neyðarútgangur var bakborðsmegin. Þá hafði hvalbakur sem var opinn verið lengdur. Ennfremur kom fram að Bergþór KE 5 hafði fyrir tveimur árum lagst á hliðina og á möstur eftir að brot kom á hann á siglingu frá Sandgerði til Keflavfkur, en þá tókst að keyra bátinn upp.

Morgunblaðið. 13 janúar 1988.

07.12.2017 08:49

Birkir SU 519. TFDK.

Birkir SU 519 var smíðaður í Vestnes í Noregi árið 1934, Eik og fura. 48 brl. 130 ha. June Munktell vél. Eigandi var Útgerðarsamvinnufélagið Kakali á Eskifirði frá febrúarmánuði árið 1934. Seldur í febrúar 1936, Þorláki Guðmundssyni, Björgvin Guðmundssyni og Ara Hallgrímssyni á Eskifirði. Báturinn var lengdur árið 1941 og mældist þá 64 brl. Seldur í janúar 1945, Hólmaborgu h/f á Eskifirði. Ný vél var sett í bátinn árið 1946, 180 ha. June Munktell vél. Seldur í maí 1951, Höskuldi Jóhannessyni í Reykjavík, báturinn hét Birkir RE 74. Báturinn eyðilagðist af eldi á Húnaflóa, 21 október árið 1951. Breski togarinn Reighton Wyke H 425 frá Hull bjargaði áhöfninni, 7 mönnum til lands. 


Vélskipið Birkir SU 519.                                                                           (C) Sveinn Guðnason.


Breski togarinn Reighton Wyke H 425 sem bjargaði áhöfninni á Birki. Hann var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby árið 1937. 465 brl. Var þá í eigu West Dock Steam Fishing Co Ltd í Hull.
Mynd úr safni mínu.

 Dóttur skipstjórans bjargað á síðustu stundu
            þegar vélbáturinn Birkir brann

Laust fyrir klukkan átta í fyrramorgun var vélbáturinn Birkir frá Reykjavík, eign Höskulds Jóhannessonar, Drápuhlíð 48, staddur 40 sjómílur norðvestur af Siglufirði á Ieið vestur og suður um af síldveiðum nyrðra. Skipstjórinn, Guðmundur B. Pétursson, Seljavegi 3A, brá sér fram í lúkarinn, en er hann hafði verið þar svo sem fimm mínútur, kallaði piltur, sem var á vakt, Eggert Kristjánsson, að eldur væri kominn upp miðskips.
Við vorum ellefu skipsmenn, sagði Guðmundur við tíðindamann Tímans í gær, en auk þess var með í förinni konan mín, Lydia Guðmundsdóttir og tvö börn okkar, tíu ára telpa, Hilda að nafni, og þriggja ára sonur. Svaf telpan í herbergi mínu í brúnni. Er ég heyrði köll Eggerts, hljóp ég þegar aftur á, og hafði eldurinn þá magnast svo á svipstundu, að engin leið var að komast í brúna um stiga og dyr. Eggert hafði  hins vegar tekizt á siðustu stundu að bjarga sofandi telpunni út. Skipið varð á svipstundu alelda, og við áttum ekki annars úrkostar en fara í bátinn, og komumst allir það, án þess að nokkur meiddist. Rerum við spölkorn frá bátnum og biðum þar átekta.
Fjórar til fimm sjómílur frá okkur var enskur togari að veiðum, og sá áhöfnin á honum strax eldinn og reykinn. Kom togarnn til okkar eftir 2-3 stundarfjórðunga og tók okkur um borð. Við fórum nú aftur yfir að Birki, og tókst okkur að koma í hann taug. Varð það að ráði, að enski togarinn drægi bátinn undir Skaga, en Ægir, sem kom á vettvang frá Siglufirði, skyldi koma þangað á vettvang og freista þess að slökkva eldinn.
Ægir náði okkur klukkan hálf-tvö, tólf sjómílur undan Skaga. Var þá reynt að slökkva eldinn, og tókst að læga hann. Þó var mikill reykur og eldur niðri í skipinu, en ekki hægt að dæla í það meiri sjó. Var haldið áfram með það vestur um. Eftir tveggja tíma stím var komið undir Kálfshamarsvík, og var þá aftur tekið að loga upp úr. Hófst þá slökkvistarf að nýju. Birkir var nú orðinn afarmikið skemmdur af eldinum en á hinn bóginn sýnt, að ekki var hægt að slökkva eldinn, án þess að sökkva skipinu. Varð því að ráði að halda áfram til Höfðakaupstaðar og  draga það þar upp í fjöru. Við komum þangað á níunda tímanum í fyrrakvöld. Var Birkir dreginn upp í fjöru við Hólanes, og þar brann hann í alla fyrrinótt, og er gerónýtur.
Við misstum með skipinu allt, sem við skipverjarnir áttum á því, svo að við fórum ekki í land með annað en fötin, sem við stóðum í, sagði skipstjórinn að lokum. En auk þess brann mikill farmur. Við vorum með 500 tunnur á skipinu, sykursaltað í 230 tunnum, en saltsíld í 140 tunnum, en hinar voru tómar.
Áhöfnin á Birki fór til Reykjavíkur landleiðis í gær, en skipstjórinn ,kona hans og börn eru væntanleg hingað í dag.

Tíminn. 23 ágúst 1951.

03.12.2017 08:58

509. Gylfi EA 628. TFVK.

Gylfi EA 628 var smíðaður af Kristjáni Nóa Kristjánssyni bátasmið á Akureyri árið 1939 fyrir Valtýr Þorsteinsson útgerðarmann í Rauðuvík í Eyjafirði. Eik og beyki. 35 brl. 100 ha. Alpha díesel vél. Ný vél (1944) 240 ha. GM díesel vél. Ný vél (1957) 250 ha. GM díesel vél. Seldur 20 desember 1965, Guðmundi Ragnarssyni í Reykjavík, hét Fróði RE 44. Seldur 10 júní 1971, Svavari Gunnþórssyni og Guðlaugi Gunnþórssyni á Grenivík, hét Eyfirðingur ÞH 39. Seldur 22 janúar 1974, Sigurjóni Jónssyni á Seltjarnarnesi, hét Fróði RE 111. Seldur 8 mars 1975, Steinþóri Þorleifssyni í Grindavík, hét Sigurþór GK 43. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 27 október árið 1983.


Gylfi EA 628 að háfa síld.                                                                     (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Gylfi EA 628 á landleið eftir góða síldveiði.                                            (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

 Mikilsverðar framkvæmdir á Oddeyrartanga

                   Smíði á mótorbátum

byrjun febrúarmánaðar s. l. var hafin hér á Oddeyrartanga smíði á 2 mótorbátum 24/25 smálesta og 1 bát 35 smálesta. Litlu síðar var svo hafin smíði á 12 smálesta mótorbát á sama stað. Ef til vill er bæjarbúum ekki kunnugt um þessar framkvæmdir, þar sem smíði bátanna fer fram á þeim stað í bænum, er almenningur leggur tiltölulega sjaldan leið sína um. En þar sem hér er um að ræða mjög ánægjulegar framkvæmdir, er skapa bæjarbúum mikla atvinnu, skal farið nokkrum orðum um þennan iðnað. Fiskimálanefnd tilkynnti um s. l. áramót, að veittur yrði styrkur til smíða á mótorbátum, og eru líkur til, að það hafi ýtt undir það að hafizt var handa. Eins og að ofan getur eru smíðaðir 2 bátar 24/25 smálesta. Annan bátinn eiga Garðar og Björn Ólasynir, Hrísey, en Þorleifur Þorleifsson og Björgvin Jónsson á Dalvík hinn. Tólf smálesta bátinn á Guðjón Ágústsson, Gróf, Grenivík. Alla þessa báta smíðar Gunnar Jónsson skipasmiður, í ákvæðisvinnu, stærri bátana fyrir kr. 26.400.00 og þann minni fyrir kr. 13.200.00 eða sem næst 1100 krónur smálestin, og er þar í innifalið allt efni og vinna; þar með talið járnsmíði og seglasaumur. Undanskilið ákvæðisverðinu er þó vél og línuspil, en vélarnar kosta um 18.000 krónur. Stærsti báturinn, 35 smál., er smíðaður fyrir Valtý Þorsteinsson í Rauðuvík. Er hann smíðaður í tímavinnu, og annast Kristján Nói Kristjánsson um smíðina. Allir stærri bátarnir verða með 90/100 hestafla Alfa-Diesel vélum, en 12 smálesta báturinn með 42 hestafla Tuxham mótor. Tveir af bátunum eru með nýtízku lagi, en 35 smálesta og 12 smálesta bátarnir með eldra lagi. Bátarnir eru byggðir úr eik og allt efni og vinna er vandað svo sem tök eru á, og gert er ráð fyrir að bátarnir verði tilbúnir um n. k. mánaðamót. Styrkur sá, er Fiskimálanefnd veitir til bátasmíðanna, nemur ca. 23% af andvirði þeirra, miðað við að smálestin kosti um kr. 1.500.00 (með vél). Þau hlutföll breytast og einnig, verði bátarnir allmiklu dýrari en ætlað var í fyrstu, vegna gengisbreytingar íslenzku krónunnar, sem stafar af því, að talsvert af efni og vélarnar voru ókomnar hingað, er gengið breyttist.
Allt efni, áhöld og vélar til bátanna útvegaði Kaupfélag Eyfirðinga.

Dagur. 22 júní 1939.

                      Nýir bátar

Meðal nýrra báta í síldveiðiflotanum eru þrír eyfirzkir bátar, smiðaðir hér á Akureyri í vetur. Bátar þessir eru:
Gylfi (35 tonn) eign Valtýs Þorsteinssonar í Rauöuvík, smíðaður af Nóa Kristjínssyni.
Björn Jörundsson (25 tonn) eign Garðars og Björns Ólasona í Hrísey og
Leifur Eiríksson (25 tonn) eign Þorleifs Þorleifssonar frá Hóli á Upsaströnd og Björgvins Jónssonar á Dalvík, báðir bátarnir smíðaðir af Gunnari Jónssyni.

Íslendingur. 4 ágúst 1939.

                Fyrsta bræðslusíldin

M.b. Gylfi E.A. 628 landaði í Rauðku í gærmorgun fyrstu bræðslusíld sumarsins 170 málum, sem hann fékk í tveimur köstum á Skagafirði á sunnudagskvöld. Síldin var smá og horuð. Nokkur skip eru nú þegar komin út á veiðar, en litlar fréttir berast enn af síld, nema þá helzt af stökksíld, sem ekki er kastandi á.

Siglfirðingur. 29 júní 1948.

          Þorrablótið dró dilk á eftir sér

     Ævintýraferð Gylfa endaði í strandi

Þorrablót var haldið á Flateyri á laugardagskvöld og dró dilk á eftir sér. Vélbáturinn Gylfi úr Eyjafirði, sem leigður hefur verið til Suðureyrar í vetur og er gerður þaðan út fór til Flateyrar á laugardagskvöldið með eitthvað af fólki frá Suðureyri, sem ætlaði á blótið. Þeirra á meðal var skipstjórinn á bátnum. Gekk sú ferð að óskum og héldu menn til fagnaðarins, allir nema einn skipverja. Hann tók bátinn traustataki um kvöldið, og sigldi honum einn til Suðureyrar. Á meðan báturinn var á leiðinni til Suðureyrar var hringt frá Flateyri og sagt frá bátshvarfinu. Óttuðust menn að skipverjinn hefði farið sér að voða einn á bátnum, en þegar hann kom klakklaust í höfn á Suðureyri önduðu menn léttar.
Engum kom til hugar að skipverjinn myndi endurtaka þetta ævintýri, en um nóttina fékk hann tvo eða þrjá menn til liðs við sig og héldu þeir af stað frá Suðureyri um nóttina til þess að sækja skipstjórann og aðra gesti, sem farið höfðu á þorrablótið. Þá tókst ekki betur til en svo að eftir stutta siglingu strönduðu þeir félagar bátnum í árósum hjá prestssetrinu í Staðardal, en þetta er sunnanmegin Súgandafjarðar, um miðja Ieið út fjörðinn frá Suðureyri, Skipbrotsmenn fóru gangandi um 20 mín. leið til Suðureyrar og sögðu farir sínar ekki sléttar. Á sunnudagsmorguninn var hafizt handa um að bjarga bátnum og var varðskipið Albert fengið til að draga bátinn á flot og tókst það giftusamlega á flóðinu. Gylfi virðist ekki mikið skemmdur. Kafari frá Albert athugaði skemmdir á bátnum á strandstaðnum og segir að skemmdir hafi orðið á strákjöl og botninn eitthvað meira nuddaður. Gylfi er kominn til ísafjarðar og á að fara í slipp hjá Marselíusi Bernharðssyni, en í dag var ekki hægt að taka bátinn upp, því annar er fyrir í slippnum. Verður ekki hægt að ganga til fulls frá fyrr en báturinn kemst á flot. Gylfi er 35 tonna bátur.

Morgunblaðið. 5 febrúar 1963.

02.12.2017 08:49

Ísafold GK 481. LBFT.

Ísafold GK 481 var smíðuð í Stavanger í Noregi árið 1885 sem seglskip. Eik og fura. 35 brl. Eigandi var Halldór Andrésson á Flateyri við Önundarfjörð frá árinu 1886-87. Frá árinu 1891 er Torfi Halldórsson verslunar og útgerðarmaður á Flateyri, eigandi skipsins. Árið 1906 er Ólafur Jóhannesson & Co á Patreksfirði eigandi skipsins, hét þá Ísafold BA 102. 1909-10 er skipið komið í eigu P.J. Thorsteinssonar & Co á Bíldudal. Árið 1917 er skipið gert upp í Hafnarfirði og breytt í vélskip. Þá var  sett í skipið 44 ha. Avance vél. Skipið var þá komið í eigu Verslunar Böðvarssona í Hafnarfirði, fékk þá nafnið Ísafold GK 481. Skipið var talið ónýtt og rifið í Hafnarfirði árið 1933.


Ísafold GK 481 við bryggju í Hafnarfirði.                                                      Ljósmyndari óþekktur.


26.11.2017 11:22

B. v. Júpíter GK 161. LBQG / TFJD.

Botnvörpungurinn Júpíter GK 161 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1925 fyrir Fiskveiðihlutafélagið Belgaum í Hafnarfirði. 394 brl. 700 ha. 3 þennslu gufuvél. 44,90 x 7,66 x 4,21 m. Smíðanúmer 476. Togarinn var seldur í nóvember árið 1929, h/f Júpíter í Hafnarfirði, sama nafn og númer. Seldur í apríl 1948, h/f Júpíter í Reykjavík, hét Júpíter RE 61. Seldur í ágúst árið 1951, Togaraútgerð Dýrfirðinga h/f á Þingeyri, hét hjá þeim Guðmundur Júní ÍS 20. Seldur í júní 1955, Einari Sigurðssyni í Reykjavík, sama nafn og númer. Seldur vorið 1963, Magnúsi Kristinssyni í Njarðvík. 18 maí árið 1963 kom upp eldur í togaranum og eftir það var hann talinn ónýtur og tekinn af skipaskrá. Nú er flak togarans í uppfyllingu við höfnina á Ísafirði.


Júpíter GK 161 á leið til Englands með fullfermi.                                                Mynd úr safni mínu.


Júpíter GK 161 í slippnum í Reykjavík.                                                    (C) Óttar Guðmundsson.


Trollið tekið á Júpíter GK árið 1930.                                                        (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Pokinn tekinn innfyrir á Júpíter GK árið 1930.                                          (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Áhöfnin á Júpíter GK árið 1930.                                                               (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Guðmundur júní ÍS 20.                                                                               (C) Samuel Arnoldsson.


Flakið af Guðmundi júní ÍS 20 hálf sokkið á Ísafirði.                             (C) Sæmundur Þórðarson.

 

               Júpíter GK 161

Hið nýja botnvörpuskip sem fyrri eigendur Belgaums hafa keypt, kom hingað í fyrradag. Skipstjóri er Þórarinn Olgeirsson. Skipið er 147 fet á lengd  og vandað að öllum frágangi.

Morgunblaðið. 8 desember 1925.
 

                 Togarakaup

Hlutafjelagið Júpíter hefur keypt botnvörpunginn Júpíter af Þórarni Olgeirssyni. Verður skipstjóri á honum Tryggvi Ófeigsson. Þórarinn er að láta smíða nýjan togara í Englandi.

Norðlingur. 29 nóvember 1929.
 

     35 ára gömlum togara breytt                        í flutningaskip?

Vestur á Grandagarði er nú verið að kanna möguleikana á því að breyta gömlum togara í flutningaskip. Er skrokkur skipsins sagður svo góður, að ófært sé að órannsökuðu máli, að láta skipið fara í brotajárn, en það virtist yfirvofandi. Hér er um að ræða togarann Guðmund Júní frá Flateyri. Hann er búinn að liggja bundinn vestur við Grandagarð langa lengi. Var talið að togarans biði ekki annað en að verða dreginn til útlanda og rifinn í brotajárn. Nú er búið að rífa keisinn og reykháfinn og taka gufuketilinn úr skipinu. Menn eru að vinna í skipinu við að breyta því. Það er Vélsmiðja Njarðvíkur, sem bræðurnir Hákon og Magnús Kristinssynir veita forstöðu, sem hér er að verki. Er hugmyndin að breyta Guðmundi Júní í flutningaskip.
Verður vélin tekin úr skipinu og yfirbygging þess færð aftast á skipið og sett í það díselvél. Var á smiðum að heyra, að ástæða væri til þess að ætla að þetta heppnaðist, því svo traustbyggður er þessi gamli togari, að ekkert mun þurfa að styrkja skrokk hans vegna þessarar breytingar. Gert er ráð fyrir að skipið geti þá lestað alls um 500 lestum af vörum. Það verður að heita má allt ein lest stafna á milli, líkt og litlu saltflutningaskipin dönsku eða hollenzku, sem hér hafa verið á ferðinni.
Togarinn Guðmundur Júní hét áður Júpiter. Hann var byggður í Bretlandi árið 1925.

Morgunblaðið. 2 júlí 1960.


 

25.11.2017 10:49

Faxi RE 219. LBJS.

Flóabáturinn Faxi RE 219 var smíðaður í Holbæk í Danmörku árið 1917 sem seglskip. Eik. 57 brl. 60 ha. Vesta vél. Eigandi var Faxi h/f í Reykjavík (Sigurjón Pétursson í Álafossi, Þorlákur Vilhjálmsson í Reykjavík og Gísli Magnús Oddsson á Ísafirði, síðar skipstjóri á togaranum Leifi heppna RE 146 og fórst með honum í Halaveðrinu mikla í febrúar 1925). Faxi var í vöru og fólksflutningum norður um land til Siglufjarðar með viðkomu á Ísafirði á vegum verslunar Sigurjóns Péturssonar í Reykjavík. Einnig fór Faxi í ferðir til Eyrarbakka og Vestmannaeyja. Skipið var í eigu margra aðila fyrstu árin. Selt 8 maí 1924, Frón h/f á Seyðisfirði (Vilhjálmi Árnasyni, Sigurði Vilhjálmssyni, Árna Vilhjálmssyni, Hermanni Vilhjálmssyni og Þórhalli Vilhjálmssyni), hét Faxi NS 251. Ný vél (1929) 110 ha. Avance vél. Skipið var selt 1931-32, Gísla Magnússyni í Vestmannaeyjum, hét Faxi VE 246. Skipið slitnaðu upp frá múrningu í Vestmannaeyjahöfn í suðvestan ofsaroki,13-14 janúar árið 1933. Rak það upp í suðurhafnargarðinn vestanverðan og eyðilagðist. Engan mann sakaði.


Faxi RE 219 nýkominn til landsins. Ýmsar upplýsingar eru skrifaðar á myndina. Þar má lesa að skipið var 65 fet á milli stafna, 15,5 fet á breidd og 8,5 fet á dýpt.               (C) Magnús Ólafsson.


Faxi RE 219 á Reykjavíkurhöfn.                                                                     (C) Magnús Ólafsson.

                      Ný skip

Frá útlöndum eru nýkomin 4 mótorskip, eign hérlendra manna, eru þau öll nýsmíðuð í Danmörku, og heita þau:
»Faxi«, eign kaupmanns Sigurjóns Péturssonar o. fl.
»Skaftfellingur«, eign Skaftfellinga, vöruflutningaskip.
»Bifröst«, eign kaupmanns Jóns Björnssonar í Borgarnesi og
»Björgvin«, eign Einars Sveinbjarnarsonar í Sandgerði o. fl.
»Faxi hefir fengið útbúnað til botnvörpuveiða og hefir stundað þá veiðiaðferð síðan síðustu daga í maí og hepnast vel.

Ægir. 1 júní 1918.

        Faxi RE 219 á togveiðum

Faxi, mótorskip þeirra Sigurjóns Péturssonar o. fl., fer nú til fiskiveiða. Hefir nú verið settur á skipið útbúnaður til þess það geti veitt með botnvörpum, að minsta kosti ef dýpi er ekki mjög mikið, og í bærilegu veðri. Annað mótorskip, Sigurður I., sem nú fer póstferðirnar héðan til Borgarnes, hefir slíkan botnvörpuútbúnað, og hefir reynst sæmilega. Skipstjóri á Faxa verður Gísli Magnús Oddsson frá Ísafirði.

Frón. 20 tbl. 1 júní 1918.

           Vjelbáturinn Faxi VE

Tvo vjelbáta rak upp af höfninni í Vestmannaeyjum í ofviðrinu fyrir helgina, sem áður er sagt. Hefir tekist að ná öðrum þeirra út, þeim minni. En stærri bátnum, Faxa, eign Gísla Magnússonar, hefir ekki tekist að ná út. Bátur þessi var festur utan á skipið Örn, er lá við bryggju, en er Örn losnaði og rak í bátaþvöguna á höfninni, losnaði Faxi frá Erni, og rak síðan upp í hafnargarðinn. Um stórstraumsflóð var reynt að ná Faxa út. Var enskur togari fenginn til þess að reyna að draga hann á flot, en það mistókst. Báturinn er talsvert brotinn. Talið er tilgangslaust að reyna að ná honum út, úr því ekki tókst í síðasta stórstreymi, fyrri en þá um næsta stórstraum, ef báturinn verður þá ekki laskaður, meira en hann er nú, en hætt er við að svo verði ef óveður halda áfram.

Morgunblaðið. 18 janúar 1933.

22.11.2017 18:50

Siglunes SI 15. LBWM / TFKE.

Siglunes SI 15 var smíðað í Kaupmannahöfn í Danmörku árið 1875. Járn og stál. 88 brl. 250 ha. 2 þennslu gufuvél. Hét áður Rolf. Eigandi var Henrik Henriksen útgerðarmaður og síldarsaltandi á Siglufirði frá júnímánuði árið 1923. Við andlát Henriks árið 1924, er skipið gert út af erfingjum hans. Selt 1926, T. Hoffmann Olsen á Siglufirði, sama nafn og númer. Selt 1928-29, Fáfni h/f í Reykjavík (Magnúsi Guðmundssyni og fl.), skipið hét Fáfnir RE 3. Selt 20 júní 1934, Bergþóri Teitssyni í Reykjavík, sama nafn og númer. Selt 26 nóvember 1937, Jóni Ásgeirssyni á Siglufirði, hét þá Hringur SI 1. Skipið var lengt árið 1942, mældist þá 93 brl. Ný vél (1942) 190 ha. Gummins díesel vél. Selt 2 janúar 1946, Guðmundi Jörundssyni útgerðarmanni á Akureyri, hét Njörður EA 767. Ný vél (1947) 200 ha. Ruston díesel vél. Selt 1 mars 1947, Pálmari G Guðnasyni og Jóni G Sólnes á Akureyri og Steingrími Sigurðssyni á Hjalteyri. 5 júlí 1949, var Sólnes h/f á Akureyri eigandi skipsins. Selt 1957, Húnasíld h/f í Höfðakaupstað (Skagaströnd). 25 júlí 1957 var Fiskveiðasjóður Íslands eigandi skipsins. Selt 29 janúar 1958, Vísundi h/f í Reykjavík, hét Vísundur RE 280. Talið ónýtt og tekið af skrá árið 1963.


Siglunes SI 15 á síldveiðum á Skagafirði. Drangey í baksýn.                               Mynd úr safni mínu.


Hringur SI 1.                                                                                                         Mynd úr safni mínu.

19.11.2017 09:38

368. Dalaröst NK 25. TFZW.

Dalaröst NK 25 var smíðuð hjá Sören Larsen & Sönner í Nyköbing Mors í Danmörku árið 1959. Eik. 69 brl. 360 ha. Lister Blackstone díesel vél. Eigandi var útgerðarfélagið Glettingur h/f í Neskaupstað frá febrúar árið 1959. Selt 12 ágúst 1965, Meitlinum h/f í Þorlákshöfn, hét Ögmundur ÁR 10. Selt 16 nóvember 1973, Hafliða h/f í Þorlákshöfn, hét Guðfinna Steinsdóttir ÁR 10. Selt 28 desember 1976, Sif h/f á Hvammstanga, hét Sif HU 39. (Heimild fyrir því að skipið hafi heitið áður Sif RE 39). Ný vél (1978) 425 ha. Caterpillar díesel vél, 313 Kw. Selt 1 nóvember 1982, Friðriki Sigurðssyni, Birgi Karlssyni og Guðmundi Jóhannssyni á Hvammstanga, sama nafn og númer. Selt 14 mars 1983, Kristni V Sveinbjarnarsyni og Guðmundi Hólm Svavarssyni í Ólafsvík, hét Lómur SH 177. Selt 21 september 1988, Sæborgu s/f í Ólafsvík, hét Lómur ll SH 177. Selt 15 maí 1989, Magnúsi s/f í Ólafsvík, hét Magnús BA 127. Heimahöfn skipsins var á Brjánslæk á Barðaströnd. Selt 30 júní 1990, Rekey h/f útgerðarfélagi á Brjánslæk. Frá 9 maí 1991 hét skipið Bjargey BA 407. Selt 16 júní 1993, Seley h/f á Brjánslæk, hét Hrauney BA 407. Skipið var talið ónýtt og tekið af skrá 18 maí árið 1999 og það síðan brennt á Ísafirði.

Dalaröst NK 25 í innsiglingunni til Vestmannaeyjahafnar.                               (C) Tryggvi Sigurðsson.

Dalaröst NK 25 og Heimir SU 100 við Garðarsbryggjuna á Seyðisfirði.  (C) Magnús Þorvaldsson.


Dalaröst NK 25 á síldveiðum.                                                                  (C) Hafsteinn Jóhannsson.


Hrauney BA 401. Ekki sjón að sjá skipið svona útlítandi.                             (C) Tryggvi Sigurðsson.


Hrauney BA 401. Engin furða að gömul skip endi á bálinu þegar umgengnin er svona um þau. Dapurleg örlög sem margur báturinn fékk.                         (C) Tryggvi Sigurðsson.

                Dalaröst NK 25

Í gærkvöldi kom hingað nýr fiskibátur, smíðaður í Nyköbing Mors í Danmörku eftir teikningu Egils Þorfinnssonar í Keflavík. Báturinn er 69 smálestir með 360 hestafla Blackstone Lister vél og búinn öllum nýjustu siglingatækjum m. a. Decca ratsjá. Báturinn er mjög vandaður að öllum frágangj. Hann var aðeins 3 sólarhringa og 20 klukkustundir frá Nyköbing Mors, en það er bær lítið eitt stærri en Akureyri, sem stendur við Limafjörðinn á Jótlandi. Kom báturinn við í Færeyjum á heimleið. Skipstjóri á bátnum er Þorleifur Þorleifsson og sigldi hann honum til landsins. Fyrsti vélstjóri er Rögnvaldur Sigurðsson, en stýrimaður verður Þórður Víglundsson.
Báturinn heitir Dalaröst NK 25. Eigandi er hlutafélagið Glettingur en aðal hluthafar í því eru Eyþór Þórðarson kennari, Þorleifur Þorleifsson skipstjóri og Björgvin Jónsson kaupfélagsstjóri á Seyðisfirði, sem jafnframt er framkvæmdastjóri félagsins. Báturinn fór strax í morgun til Seyðisfjarðar, en fer fljótlega til Keflavíkur, en þangað er hann leigður í vetur.

Austurland. 13 mars 1959.18.11.2017 20:42

306. Auðunn EA 157.

Auðunn EA 157 var smíðaður hjá Slippstöðinni á Akureyri árið 1963 fyrir Kristinn Jakobsson og Garðar Sigurpálsson í Hrísey. Eik. 21 brl. 200 ha. Scania Vabis díesel vél. Seldur 28 janúar 1972, Brynjari Sigurðssyni, Sævari Sigurðssyni og Daða Eiðssyni í Grýtubakkahreppi í Suður-Þyngeyjarsýslu, hét Sævar ÞH 3. Ný vél (1974) 230 ha. Scania díesel vél. Seldur 20 maí 1977, Sverri Sigurðssyni í Bolungarvík, hét Árni Gunnlaugs ÍS 32. Seldur 21 ágúst 1980, Hrönn s/f á Ólafsfirði, hét Hrönn ÓF 58. Seldur 29 maí 1985, Fiskverkun Jóhannesar og Helga h/f á Dalvík, hét Hrönn EA 158. Seldur 30 nóvember 1994, Árna og Herði Sigurbjarnarsonum á Húsavík, heitir Knörrinn ÞH. Báturinn er gerður út sem hvalaskoðunarskip og er í eigu Norðursiglingar á Húsavík í dag.


Auðunn EA 157 á siglingu á Eyjafirði.                                                                Ljósmyndari óþekktur.


Knörrinn ÞH við bryggju á Hjalteyri.                                        (C) Þórhallur S Gjöveraa. 17 júlí 2016.

                         Knörrinn ÞH


Knörrinn var fyrsti báturinn á Íslandi til að fara í áætlunarferðir í hvalaskoðun. Hann var byggður á Akureyri árið 1963 og hefur allt tíð síðan reynst hið mesta happafley. Knörrinn hefur marga hildi háð og stóð meðal annars af sér hið fræga "apríl veður" 1963 þegar hann var mánaðargamall á veiðum norður af landinu. Í þessu sama veðri fórust bátar og skip og með þeim 16 sjómenn. 1968 var honum siglt á ísjaka á fullri ferð en það, sem og annað, stóð hann af sér og er það spurning hvort að það sé gullpeningi sem settur var undir formastrið við smíði bátsins að þakka eður ei.
Knörrinn kom til Húsavíkur árið 1994 og var endurnýjaður um veturinn. Síðan 1995 hefur Knörrinn siglt óslitið í hvalaskoðun um Skjálfandaflóa.

 

Af heimasíðu Norðursiglingar á Húsavík.

15.11.2017 16:34

511. Gyllir NK 49.

Gyllir NK 49 var smíðaður í Neskaupstað af Pétri Wigelund skipasmið árið 1931. Eik. 25 brl. 62 ha. Alpha vél. 14,57 x 4,33 x 2,01 m. Eigendur voru Guðmundur Sigfússon (Verslun Sigfúsar Sveinssonar) og fl. í Neskaupstað frá árinu 1931. Ný vél (1937) 80 ha. Alpha vél. Seldur haustið 1942, Geir h/f á Patreksfirði, (Andrés Finnbogason og Baldur Guðmundsson), hét Gyllir BA 310. Frá árinu 1944-45 hét báturinn Gyllir GK 310. Ný vél (1945) 115 ha. Caterpillar díesel vél. Árið 1949 var umdæmisstöfum bátsins breytt í KE 31. Seldur 25 janúar 1950, Marselíusi Bernharðssyni á Ísafirði, hét Gyllir ÍS 568. Seldur 27 október 1950, Páli Friðbertssyni, Einari Guðmundssyni og Kristjáni B Magnússyni á Suðureyri í Súgandafirði. 31 desember 1953 var Kristján B Magnússon á Suðureyri einn skráður eigandi. Seldur 5 mars 1972, Kristjáni Jakobssyni, Jóhannesi Þórðarsyni og Jóni Finni Jónssyni í Stykkishólmi, hét Gyllir SH 58. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 13 febrúar árið 1973.

 

Gyllir NK 49 að ferja fólk úr Viðfirði en þaðan lá vegur yfir til Reyðarfjarðar. Þessa leið urðu þeir að fara til þess að komast á Norðfjörð. Vegurinn um Oddskarð var tekinn í notkun árið 1949. Nú hafa Norðfjarðargöng leyst þann erfiða og snjóþunga fjallveg af hólmi sem er í rúmlega 600 m. hæð. Það eru gífurlega miklar samgöngubætur sem Norðfirðingar fagna um þessar mundir.
(C) Gunnar Þorsteinsson.


Gyllir NK 49 og Fylkir NK 46, bátar verslunar Sigfúsar Sveinssonar við bryggju á Norðfirði árið 1940.
(C) Björn Björnsson.


Gyllir GK 310 við bryggju í Reykjavíkurhöfn.                                                              Gamalt póstkort.
 

  Skipasmíðar á Norðfirði 1906 - 1940

Upphaf vélbátasmíða á Norðfirði má rekja aftur til ársins 1906, en það var árið eftir að slíkir bátar komu í eigu Norðfirðinga. Hrólfur Sturlaugsson eða Göngu-Hrólfur eins og hann var venjulega nefndur var einn 4 báta sem Norðfirðingar eignuðust 1905. Líklega hafa menn verið bjartsýnir á útgerð vélbátanna strax í upphafi. Svo mikið er víst að einn eigenda Göngu-Hrólfs, Magnús Hávarðarson á Tröllanesi, hrinti fram skektu og réri ásamt félögum sínum til Viðfjarðar. Erindið var að biðja Svein Bjarnason bónda þar að smíða fyrir sig bát, svipaðan Göngu-Hrólfi. Sveinn bóndi var annálaður smiður og hagleiksmaður og leist strax vel á hugmyndina. Og á vordögum var báturinn, Hrólfur Sturlaugsson SU 352, 6.4 tn. að stærð, tilbúin til veiða. Sá bátur gekk vel, en 1930 ónýttist í honum vélin og hann úreltist upp úr því. Síðan smíðaði Sveinn bóndi í Viðfirði annan bát svipaðan. En eftir það liggja bátasmíðar niðri til ársins 1922 þá smíðaði Sigurður Þorleifsson bát fyrir Steina á Ekru (Þorstein Einarsson). Báturinn var 3 tn. að stærð og nefndist Leifur.
Sigurður Þorleifsson varð síðan helsti skipasmiður Norðfirðinga um langt árabil. Finnur S. Jónsson á Sandbrekku smíðaði lengi báta en oftast smáa. Árið 1930 beitti Sigfús Sveinsson sér fyrir að hingað kæmi færeyskur maður, Pétur Wigelund sem var þekktur skipasmiður. Hann byggði á næstu árum margan góðan bátinn og var ásamt Sigurði Þorleifssyni helsti skipasmiður Norðfirðinga um árabil. Þessir bátar voru, þrátt fyrir að verkfærabúnaður væri einfaldur og fábrotinn, vel gerðir og sterkbyggðir og dugðu þeirra tíðar mönnum vel til sjósóknar. Á þessum árum voru t.d. eftirtaldir bátar smíðaðir:
Fylkir NK 46 - (1930) 20 tn. Yfirsmiður Pétur Wigelund.
Gyllir NK 49 - (1931) 25 tn. Yfirsmiður Pétur Wigelund.
Auðbjörg NK 66 - (1935) 15.2 tn. Yfirsmiður Sigurður Þorleifsson.
Íslendingur NK 58 - (1936) 27.9 tn. Yfirsmiður Sigurður Þorleifsson.

Neskaupstaður.
Úr grein Magna Kristjánssonar.

Ægir. Október 1989. 

13.11.2017 19:17

818. Sæbjörg. TFPA.

Björgunarskútan Sæbjörg var smíðuð í Frederikssund í Danmörku árið 1937 fyrir Slysavarnarfélag Íslands. Eik og beyki. 64 brl. 180 ha. Bolinder vél. Ný vél (1947) 320 ha. Atlas Imperial díesel vél. Skipið var lengt árið 1948 og mældist þá 98 brl. Skipið var selt 2 september 1969, Sigurði Þorsteinssyni skipstjóra í Kópavogi. Sigurður skráir skipið í Panama í október 1969, fékk nafnið Bonnie. Skipið var selt til Biminieyja árið 1971-72.


Björgunarskútan Sæbjörg við komuna til landsins 20 febrúar 1938.         (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Sæbjörg í Reykjavíkurhöfn. Skipið hefur verið lengt og yfirbyggt.                          Ljósmyndari óþekktur.


Þessa mynd kannast nú flestir við. Mynd þessi er af málverki eftir Eggert Guðmundsson listmálara og sýnir Sæbjörgu koma smábát til aðstoðar.


Bonnie ex Sæbjörg við bryggju á Mallorca.                                                (C) Sigurður Þorsteinsson.

  Björgunarskútan Sæbjörg

Sunnudaginn 20. febrúar safnaðist mikill fjöldi manns saman á hafnargarðinum, til þess að taka á móti björgunarskútunni "Sæbjörgu". Skipin, sem lágu í höfninni, voru skreytt hátíðafánum og þegar "Sæbjörg" sigldi inn höfnina, var blásið í eimpípur allra skipanna, til þess að bjóða björgunarskútuna velkomna. Áður en "Sæbjörg" kom í innri höfnina, fóru stjórn Slysavarnafélagsins, kvennadeildarinnar, hafnarstjóri og ýmsir aðrir gestir um borð í hana. Um kl. 2 lagðist björgunarskútan við Grófarbryggjuna, og voru þá mættir þar ræðismenn erlendra ríkja, vígslubiskup, fulltrúar frá ríkis- og bæjarstjórn og ennfremur konur úr Kvennadeild Slysavarnafélagsins. Forseti Slysavarnafélags Íslands, Þorsteinn Þorsteinsson skipstjóri, hélt stutta ræðu, eftir að skipið var lagst við festar. Sagði hann sögu björgunarskútumálsins í stórum dráttum. Skýrði hann frá tilorðningu björgunarskútusjóðsins og hversu hann hefði aukizt fyrir velvilja og fórnfýsi fjölda manna. Minntist forsetinn sérstaklega á þann mikla skerf, sem konurnar hafa lagt til björgunarskútumálsins. Því næst talaði formaður Kvennadeildar Slysavarnafélagsins í Reykjavík, frú Guðrún Jónasson, og tilkynnti hún í lok ræðu sinnar, að kvennadeildin hefði ákveðið að gefa 25 þús. kr. til starfrækslu björgunarskútunnar og væri það fé handbært nú þegar. Fyrir hönd ríkisstjórnarinnar hélt ræðu Vigfús Einarsson, fulltrúi, en að því loknu sté vígslubiskup sr. Bjarni Jónsson um borð í "Sæbjörgu". Hélt hann vígsluræðu, og var athöfn sú öll hin hátíðlegasta. Síðar um daginn bauð stjórn Slysavarnafélagsins 150 manns til tedrykkju að Hótel Borg.
Björgunarskútan "Sæbjörg" er smíðuð í Frederikssund og er rúmlega 60 smálestir að stærð. Teikningar og skipslýsingu gerði íslenzkur maður, Þorsteinn Daníelsson, skipasmiður. Skipið er smíðað úr eik og beyki og er talið mjög sterkbyggt. Í skipinu er 180 ha. Bolinder vél; seglútbúnaður er ágætur og er gert ráð fyrir, að þau verði mikið notuð. Auk aðalvélarinnar er 20 ha. Diesel vél, sem framleiðir rafmagn, og önnur minni vél til vara, og er hún 2 ha. Skipið er útbúið margskonar tækjum af nýjustu og beztu gerð, svo sem: mælingaráhöldum, útvarpi, talstöð, miðunarstöð o. fl. Öll þess tæki eru í klefa aftan við stýrishúsið. Undir skipinu er 5 smálesta stálkjölur, sem kjölfesta. Fjögur vatnsþétt skilrúm eru í skipinu, og á það ekki að geta sokkið, þó að eitt eða tvö rúm fyllist. Skipið verður útbúið með línubyssu og öllum nútíma björgunartækjum. Skipið kostaði alls 130 þús. kr., en auk véla 74 þús. kr. og var það lægsta tilboð, sem barst í bygginguna. Verkið var boðið út í Noregi, Svíþjóð, Danmörku, Þýzkalandi, og auk þess komu 5 tilboð héðan. Vélar skipsins eru allar borgaðar og ennfremur 40 % af verði skipsins sjálfs, en 60 % eiga að borgast á 4 árum. "Sæbjörg" á eingöngu að stunda björgun í Faxaflóa, en leyfilegl er að lána hana til mælinga eða rannsókna, ef þörf krefur. Á skipinu er sjö manna áhöfn og er Kristján Kristjánsson skipstjóri, sá er var skipstjóri á "Gottu" í Grænlandsleiðangrinum. "Ægir" óskar sjómannastéttinni og Slysavarnafélaginu til hamingju með björgunarskútuna, og í nafni sjómannanna vill blaðið færa kvenþjóðinni hugheilar þakkir fyrir þær stórgjafir, er hún hefir fært Slysavarnafélaginu til reksturs björgunarskútunnar. Frá kvennadeildinni í Reykjavik hafa borizt 25 þús. kr., kvennadeildinni í Hafnarfirði 10 þús. kr., kvennadeildinni í Keflavík 5 þús. kr., og kvennadeildinni í Garði 1 þús. kr. eða alls 41 þús. kr.

Ægir. 2 tbl. febrúar 1938.

12.11.2017 15:28

Fiskaklettur GK 130. TFPK.

Fiskaklettur GK 130 var smíðaður í Hobro í Danmörku árið 1930. Eik og beiki. 52 brl. 120 ha. Bolinder vél. Eigandi var Samvinnufélag Hólmavíkur á Hólmavík frá 9 mars 1939. Hét þá Gloria ST 21. Hét Soli Des Gloria áður en hann kom til landsins. Báturinn var seldur 24 júní 1940, Jóni Gíslasyni og Sigurjóni Einarssyni í Hafnarfirði, hét Fiskaklettur GK 130. Ný vél (1944) 160 ha. Lister díesel vél. Seldur 14 janúar 1953, Sigurjóni Halldórssyni og Hermanni Sigurjónssyni í Grafarnesi og Sigurði Ágústssyni í Stykkishólmi, hét Farsæll SH 30. Ný vél (1955) 225 ha. Lister díesel vél. Seldur 18 desember 1956, Hraðfrystihúsi Gerðabátanna h/f í Gerðum, Garði, hét Farsæll GK 8. Seldur 21 ágúst 1963, Páli H Pálssyni í Keflavík, hét Farsæll KE 27. Báturinn sökk út af Stafnesi 19 febrúar árið 1964 eftir að óstöðvandi leki kom að honum. Áhöfninni, 6 mönnum var bjargað um borð í vélbátinn Vilborgu KE 51 frá Keflavík.


Fiskaklettur GK 130 á síldveiðum.                                                               (C) Sigurjón Vigfússon.


Farsæll GK 8 á leið í línuróður.                                                                   (C) Gunnar Þorsteinsson.


Farsæll GK 8. Skipverjar að leggja línuna.                                (C) Gunnar Þorsteinsson.

  Keflavíkurbáturinn Farsæll sökk í blíðu veðri
    Nærstaddur línubátur bjargaði áhöfninni

Í morgun var vélbáturinn Farsæll KE 27 á sjó og sem aðrir línubátar frá Keflavík. var hann langt komin að leggja línu sína, þegar leki kom að bátnum. Fyrst í stað höfðu dælur við, en lekinn ágerðist mjög svo að í óefni var komið og náði Farsæll þá sambandi við vélbátinn Vilborgu, sem var þar skammt frá og kom hún upp að Farsæl og var þá lekinn orðinn óviðráðanlegur svo báturinn var yfirgefinn og sökk hann skömmu síðar. Mennirnir komust heilu og höldnu yfir í Vilborgu sem hvarf að því að draga línu sína, en hún hafði lokið lagningu nokkru áður en slysið bar að. Því næst dró Vilborg línu þeirra á Farsæl, en þeir höfðu lagt um ¾  línu sinnar eða 30 bjóð áður en báturinn sökk. Af þessum sökum kemur Vilborg ekki til hafnar fyrr en undir miðnætti. Veður var gott, sléttur sjór og logn og kom því ekki til neinna vandræða.
Vélskipið Farsæll er byggt úr eik í Hobro í Danmörku 1930, en hefir verið endurbætt síðan. Það hét áður Fiskaklettur. Það er 52 brúttólestir að stærð, eign Páls H. Pálssonar í Keflavík, sem jafnframt er skipstjóri.

Morgunblaðið. 20 febrúar 1964.

        Sigldi á fullri ferð á miðin

Um kl. 23:30 í kvöld kom vélskipið Vilborg með skipbrotsmennina af Farsæl, sem sökk í morgun á línumiðum Suðurnesjabáta NV af Garðskaga, fjögurra tíma siglingu. Fréttaritari blaðsins hitti skipstjórann af Farsæl, Pál H. Pálsson, og sagðist hann ekki geta gefið neinar frekari upplýsingar að svo komnu máli, nema að leki kom að bátnum, sem ágerðist mjög svo að ekki varð við neitt ráðið og voru þá nærstaddir þar vélbátarnir Vilborg og Sigurbjörg, báðir frá Keflavik, og komu þeir upp að bátnum og var það örðuleikalaust, því veður var mjög gott. Við urðum að horfa á bátinn síga í hafið svo við fengum við ekkert ráðið, sagði Páll skipstjóri. Og erum nú hingað komnir á Vilborgu, þótt sárt sé að skilja við bátinn sinn svona. Frekari rannsókn mun svo fara fram á aðdraganda þessa óhapps svo sem venja er, en meira hef ég ekki um þetta að segja, sagði skipstjórinn. Farsæll var áður Fiskaklettur, gerður út frá Hafnarfirði, en síðan endurbyggður og búinn nýrri vél, sem gengur 9-10 mílur og sigldi ég honum á miðin á fullri ferð, svo sem venja er, en á þessu stigi get ég ekki sagt um hvers vegna þessi bráði leki kom að bátnum, sagði Páll skipstjóri að lokum. Sem fyrr segir var blíðuveður á miðum bátanna. Er björgun fór fram gengu menn úr Farsæli yfir í Vilborgu þurrum fótum, brugðu sér jafnvel um borð í Farsæl aftur eftir að þeir höfðu yfirgefið hann til að sækja það sem þeir áttu þar eftir.

Morgunblaðið. 20 febrúar 1964.

11.11.2017 11:37

Helgi VE 333. TFJM.

Vélskipið Helgi VE 333 var smíðaður hjá Dráttarbraut Vestmannaeyja árið 1939 fyrir Helga Benediktsson útgerðarmann í Vestmannaeyjum. Eik. 115 brl. 213 ha. June Munktell vél. Skipið fórst við Faxasker í Vestmannaeyjum 7 janúar árið 1950. 7 manna áhöfn og 3 farþegar fórust með skipinu.


Vélskipið Helgi VE 333.                                                                  (C) Handels & Söfart museets.dk

                  Helgi VE 333

 Stærsta skip, sem smíðað hefir verið hér á landi

Stærsta skip, sem smíðað hefir verið hér á landi, hljóp af stokkunum í Vestmannaeyjum í gær. Að vísu "hljóp" það ekki á sjóinn, því unnið hefir verið að því í fjóra sólarhringa að koma skipinu á flot, en svo langan tíma tók þetta sakir ótrúlegrar meinbægni Gunnars Ólafssonar kaupmanns, félaga Jóhanns Jósefssonar alþingismanns Vestmannaeyja. En skip þetta hefir verið smíðað í kjördæmi Jóhanns og er 130 smálestir að stærð. Meinbægni Gunnars var í því fólgin að hann neitaði um tæki sem Slippur þeirra Eyjaskeggja réði yfir, og orkað hefði því að skipið hefði komizt á sjó þegar á þriðjudagskvöld, en straumur fór minnkandi og þykir það þrekvirki mikið að hafast skyldi að koma þetta stóru skipi á flot með þeim útbúnaði, sem tiltækur var. Hafðist það loks í gærkvöldi, en áður hafði meðal annars verið grafið undan skipinu þar sem það lá þá í sjávarmáli, en dráttartaugum og dráttarblokkum hafði verið hagrætt sem bezt mátti, en síðan hafðir tveir vélbátar til aðstoðar við útdráttinn. Hefði tilraunin misheppnast aftur í gærkvöldi, mundi skipið hafa orðið að bíða næsta stórstraums til þess að komast á flot og á síldveiðar. Þegar skipið komst á flot, laust mannfjöldinn, sem viðstaddur var, upp fagnaðarópi og klappaði lof í lófa, og kannske enn meiri hluttekningu en félaga þingmannsins mun hafa látið vel í eyra.
Er það Helgi Benediktsson útgerðarmaður í Vestmannaeyjum, sem látið hefir smíða skipið, en hann hefir áður látið smíða þrjá stóra vélbáta í Eyjum á undanförnum árum. Yfirsmiðurinn var Gunnar Karel Jónsson, rómaður skipasmiður. Kvað skipið á allan hátt hið vandaðasta.

Tíminn. 24 júní 1939.

      Vjelbáturinn "Helgi" fórst við                     Vestmannaeyjar í gær

Rak upp á Faxasker -Tveir menn komust á skerið

Vjelbáturinn "HELGI" fórst í gær við Faxasxer í Vestmannaeyjum. Bátinn rak upp í skerið, brotnaði þar og sökk á nær svipstundu. Á honum var sjö manna áhöfn og vitað er með nokkurri vissu, að tveir af henni komust með einhverju móti upp á skerið. En þegar þetta er ritað, var enn ekkert vitað um afdrif þessara manna og fjelaga þeirra, enda þótt tveir Vestmannaeyjabátar hjeldu sig eftir mætti við slysstaðinn og beindu að honum kastljósum sínuum. Reynt var að ná mönnunum tveimur af skerinu, þegar er frjettist um slysið, en allar aðstæður voru geisierfiðar og raunar nær vonlausar, enda mikill sjór, veðurhæð um tólf vindstig og Faxasker sjálft lágt og stórgrýtt og baðað í brimlöðri. En á tólfta tímanum í gærkvöldi var skollin á slydduhríð og veðurofsinn síst minni en um daginn. Þá spáði Veðurstofan áframhaldandi fárviðri Sunnanlands, en suðaustlægri átt í dag, með heldur hægara veðri.
Það var fólk á Oddsstöðum í Vestmannaeyjum og nálægum bæjum, austarlega í kaupstaðnum, sem sá er "Helgi" rak upp í Faxasker. Báturinn var þá að koma frá Reykjavík, hafði lagt af Stað þaðan klukkan hálf sjö í fyrrakvöld og hreppt hvassviðri á leiðinni. Hann mun hafa átt eftir um tíu mínútna siglingu inn á Vestmannaeyjahöfn, þegar sjónarvottar sáu til hans austur í flóa, þar sem líklegt var að hann mundi fara að beygja og taka stefnu inn á höfnina.
Skyndilega stöðvast báturinn, en byrjar svo að hrekja og hrekur hratt í áttina að Faxaskeri. Skiptir nú engum togum, að hann stefnir á skerið, en sjónarvottar fullyrða, að svo hafi verið að sjá, sem vjel hans hafi tvívegis komist í gang, en þó aðeins örskamma stund í hvort skipti. Í síðara skiptið tekst bátsverjum á "Helga" að koma vjelinni af stað þegar hann er að heita má alveg kominn að Faxaskeri, en hún stöðvast aftur og rjett í því tekur sjór bátinn og fleygir honum að skerinu. Þá virðist "Helgi" brotna í tvennt, en sekkur síðan svo til samstundis. Þegar er þess varð vart, að eitthvað mundi vera að hjá "Helga", gerði fólk á Oddstöðum Ársæli Sveinssyni, formanni Björgunarfjelags Vestmannaeyja aðvart. Var brugið við skjótt, en um líkt leyti vildi svo til, að vjelbáturinn "Sjöfn", sem er um 59 tonn, var að leggja af stað með lóðs út í "Herðubreið". Hafði áhöfnin á "Sjöfn" enga hugmynd um slysið og einskis varð hún vör við Faxasker, enda átti þess ekki von. Hinsvegar heyrðist það í þessu í talstöð bátsins, að "Herðubreið" tilkynnti, að "Helgi" mundi strandður við skerið. Fóru Sjafnarmenn þá þegar aftur að skeririnu og töldu sig sjá þar einn mann á lífi, en það var staðfest frá "Herðubreið". "Sjöfn" sneri nú þegar í land eftir linubyssu og öðrum björgunartækjum. Hjelt hún síðan enn út að Faxaskeri, en vjelbáturinn "Gotta" kom nokkru síðar.
Nú sáust tveir menn í skerinu. Var reynt að skjóta til þeirra línu, en veðurofsinn svo mikill, að björgunarmennirnir fengu línuna aftur í fangið á sjer. Þó virtist þeim ein taug ná út í skerið, en ekki urðu þeir þess varir, að mennirnir þar treystu sjer til að ná í hana. Eftir það var þó enn reynt og ljóskastarar notaðir er dimma tók, en særokið var svo mikið, að litið sást. "Sjöfn" kom að bryggju nokkru fyrir klukkan sjö að kvöldi og þá var ekki annað vitað, en mennirnir tveir væru ennþá í Faxaskeri. En um níuleytið mældist 13 stiga vindhraði á Stórhöfða í Vestmannaeyjum og litlar horfur voru á því, að í nótt yrði hægt að aðhafast nokkuð til hjálpar sjómönnunum. En ráðgert var að hafa tvo vjelbáta á verði við Faxasker í nótt, og á Eiðinu var mannaður björgunarbátur, ef ske kynni að veðrið lægði svo, að hægt yrði að fara norður og austur fyrir Heimaklett og komast á þann hátt að slvsstaðnum.
Eins og áður er getið var sjö manna áhöfn á Helga. Hjer í Reykjavík gengu sögur um það í gærkveldi, að fjöldi farþega mundi hafa verið með bátnum, en það mun vera rangt samkvæmt upplýsingum fengnum hjer í Reykjavík var með honum annaðhvort einn eða enginn farþegi. "Helgi", sem var í eigu Helga Benediktssonar, útgerðarmanns í Vestmannaeyjum, og var 115 tonn og byggður 1939, fór frá Reykjavík áleiðis til Vestmannaeyja skömmu á undan , Herðubreið", og eitthvað mun vera af far- þegum með henni. Seint í gærkvöldi lá "Herðubreið" undir Eiðinu með vjelbátinn "Nönnu" sem ætlað hafði inn á eftir "Helga". en þá bilaði stýrið.
Faxasker, sem þetta hörmulega slys varð við, er lágt, stendur varla meir en tvo til þrjá metra úr sjó undir venjulegum kringumstæðum. Það er norður af Mið og Ystakletti, snarbröttum og háum klettarana austur úr Heimakletti. Milli Faxaskers og klettanna er venjuleg siglingaleið inn á Vestmannaeyjahöfn, þegar komið er úr vesturátt. Sundið er tiltölulega mjótt en mjög djúpt, en þegar veður er vont, er venjulega siglt langt austan við skerið, jafnvel austur undir Bjarnarey, og þá leið fór "Helgi" að þessu sinni. Faxasker má sjá austarlega af Heimaey.

Morgunblaðið. 8 janúar 1950.


Faxasker.                                                                                                          (C) Karl Marteinsson.

 Tíu menn fórust í sjóslysinu við Eyjar

Tíu menn ljetu lífið, er vjelbáturinn Helgi sökk við Faxasker í Vestmannaeyjum á þriðja tímanum síðastliðinn laugardag. Mönnunum tveimur, sem komust á skerið, varð ekki bjargað, þrátt fyrir margar og háskalegar tilraunir. En lík þeirra náðust snemma í gærmorgun, er nokkuð dró úr veðurofsanum og vjelbáturinn Sjöfn gat dregið björgunarbát út að skerinu, en fjórir menn úr honum komust upp í það. Þar fundu þeir Gísla Jónasson stýrimann og Óskar Magnússon háseta, báða örenda, og voru lík þeirra flutt á land á Eiðinu við geymsluskýli björgunarbátsins. Á þeim sáust nokkrir áverkar og er talið ólíklegt, að Gísli og Óskar hafi lifað lengi eftir að þeir voru komnir á Faxasker. En um það leyti er Helgi fórst við skerið, skall á í Vestmannaeyjum eitt versta veður, sem menn muna þar um slóðir og þegar veðurhæðin var mest, mældust þar 15 vindstig á Stórhöfða.
Á Helga, sem var í eigu Helga Benediktssonar útgerðarmanns í Vestmannaeyjum, var sjö manna áhöfn. Að þessu sinni voru þrír farþegar með bátnum frá Reykjavík. Hjer fara á eftir nöfn þeirra, sem fórust:
Áhöfn: Hallgrímur Júlíusson skipstjóri. Hann var 43 ára, fæddur 3. júlí 1906. Giftur og lætur eftir sig tvö börn, 5 og 7 ára, og þrjú stjúpbörn, öll komin yfir fermingu. Hann var dugnaðar sjómaður og var búinn að vera skipstjóri á Helga í 10 ár. Öll stríðsárin sigldi hann skipi sínu í fiskflutningum til Bretlands og nú nýverið var hann heiðraður af borgarstjóranum í Fleetwood, en þá hafði hann siglt skipi sínu 120 sinnum yfir Atlantshafið.
Gísli Jónasson, stýrimaður, frá Siglufirði. Hann var 32 ára, fæddur 27. september 1917. Ógiftur.
Jón Valdemarsson 1. vjelstjóri. Hann var fæddur 25. september 1915, og var því 34 ára. Hann var giftur og lætur eftir sig eitt barn, eins árs.
Gústaf Adolf Runólfsson, 2. vjelstjóri. Hann var 27 ára, fæddur 26. maí 1922. Giftur og lætur eftir sig fjögur ung börn, það elsta sjö ára.
Hálfdán Brynjólfsson matsveinn. Tuttugu og þriggja ára, fæddur 25. desember 1926. Hálfdán var nýgiftur, gifti sig á gamlársdag.
Sigurður Ágúst Gíslason háseti. Hann var 26 ára, fæddur 1. september 1923. Ógiftur en fyrirvinna aldraðrar móður sinnar.
Óskar Magnússon háseti. Var 22ja ára, fæddur 15. ágúst 1927. Hann var ógiftur.
Farþegar:
Arnþór Jóhannsson skipstjóri frá Siglufirði. Hann var þjóðkunnur aflamaður. Var nú síðast skipstjóri á Helga Helgasyni, en með það skip hafði hann verið frá því það byrjaði veiðar. Lengi var Arnþór með m.s. Dagný frá Siglufirði og fór þá af honum mikið frægðarorð sem aflamanni og skipstjóra. Hann lætur eftir sig konu og þrjú börn.
Þórður Bernhardson, unglingspiltur frá Ólafsfirði, Var að fara á vertíð til Vestmannaeyja.
Sjera Halldór Einar Johnson. Hann var 64 ára, fæddur 12. september 1885. Fluttist til Vestmannaeyja í júlí síðastliðnum, eftir að hafa dvalið í Vesturheimi í 40 ár. Hann var orðinn kennari við Gagnfræðaskólann í Vestmannaeyjum.

Morgunblaðið. 10 janúar 1950.


09.11.2017 12:29

Langanes EA 288. LBVS / TFRE.

Langanes EA 288 var smíðað í Opsanger í Noregi árið 1902. Tré. 119 brl. 120 ha. 2 þennslu gufuvél. Eigandi var Henrik Henriksson á Siglufirði frá 1 desember 1923, hét fyrst Langanes SI 13 hér á landi, en hafði heitið áður Ludolf Ejde. Selt 21 júní 1926, Geir Sigurðssyni og Júlíusi Guðmundssyni í Reykjavík, hét Langanes SI 23. Selt 30 september 1930, Jóni Kristjánssyni og Hallgrími Jónssyni á Akureyri, skipið hét Langanes EA 288. Talið ónýtt og rifið á Akureyri árið 1939.


Langanes EA 288 með nótabátana í eftirdragi.                                               Ljósmyndari óþekktur.


Myndin er tekin frá Torfunefsbryggju. Skip Guðmundar Péturssonar, Liv og Bris eru til vinstri, þá Arthur & Fanny sem Kristján Tryggvason keypti frá Ísafirði árið 1940, og seldi burt árið eftir. Lengst til hægri er Langanes EA 288 sem Jón Kristjánsson og Hallgrímur Jónsson keyptu frá Siglufirði árið 1930. Ljósmyndari óþekktur.

08.11.2017 08:10

478. Enok NK 17.

Enok NK 17 var smíðaður hjá Dráttarbrautinni h/f í Neskaupstað árið 1958. Eik. 25 brl. 150 ha. GM díesel vél. Smíðanúmer 7. Eigendur voru bræðurnir Hörður og Flosi Bjarnasynir útgerðarmenn í Neskaupstað frá 8 febrúar 1958. Seldur 24 maí 1960, Guðmundi Guðmundssyni, Garðari Guðmundssyni og Halldóri Guðmundssyni á Ólafsfirði, hét Guðmundur Ólafsson ÓF 40. Ný vél (1972) 174 ha. GM díesel vél. 29 nóvember 1974 var Guðmundur Ólafsson h/f á Ólafsfirði skráður eigandi bátsins. Báturinn fórst í mynni Héðinsfjarðar 19 febrúar árið 1979. 1 skipverji fórst en 5 skipverjar björguðust í gúmmíbjörgunarbát og þaðan um borð í vélbátinn Arnar ÓF 3 frá Ólafsfirði. 
Maðurinn sem fórst hét Þórir Guðlaugsson. Það má geta þess að hann var skipverji á Stíganda ÓF 25 þegar hann sökk á síldarmiðunum norður af Jan Mayen í ágúst 1967.

 
Enok NK 17 í prufusiglingu á Norðfirði.          (C) Jakob Hermannsson. Úr safni Þórðar Flosasonar.
 

                  Enok NK 17

Síðasta dag janúarmánaðar hljóp af stokkunum í skipasmíðastöð Dráttarbrautarinnar hf., nýr 25 lesta fiskibátur. Hlaut hann nafnið Enok og einkennisstafina NK 17. Eigendur bátsins eru bræðurnir Flosi og Hörður Bjarnasynir. Bátinn teiknaði yfirsmiður Dráttarbrautarinnar, Sverrir Gunnarsson. Í bátnum er 160 ha. GM vél. Hann er ágætlega búinn siglingar og öryggistækjum, þar á meðal asdictæki. Austurland óskar eigendum til hamingju með þessa fríðu fleytu.
Enok er sjöundi báturinn, sem skipasmíðastöð Dráttarbrautarinnar smíðar. Áttundi báturinn um 70 lesta stór, er í smíðum.

Austurland. 7 febrúar 1958.


Enok NK 17 í bóli sínu á Norðfirði.                                                              (C) Gunnar Þorsteinsson.

      Fimm björguðust en einn maður                  drukknaði er 25 lesta bátur                            frá Ólafsfirði fórst

Vélbáturinn Guðmundur Ólafsson ÓF 40 frá Ólafsfirði fórst í gær um klukkan 13.45 og með honum einn maður. Á bátnum voru sex menn, og komust fimm af. Ekki er unnt að skýra frá nafni mannsins sem drukknaði að svo stöddu. Báturinn sem fórst var 25 lestir að stærð, smíðaður í Neskaupstað árið 1958. Báturinn var staddur rétt úti af Héðinsfirði og voru skipverjar að leggja síðustu netin. Báturinn sökk er skipverjar urðu að stansa vegna þess að netin festust í rennunni, og fékk hann á sig brotsjó er hann tók af stað á ný. Aðalbjörgunarbáturinn náðist ekki, og urðu skipverjar að notast við varabjörgunarbát sem var ætlaður fyrir fjóra. Komust mennirnir þar á, en voru þó meira og minna í kafi allan tímann, og sumir þeirra hangandi utan á bátnum. Mennirnir höfðu verið að velkjast um í sjónum í um það bil klukkustund er bát bar að, var það Arnar ÓF 3, en skipstjóri á Arnari er Hrafn Ragnarsson. Tókst skipverjum á Arnari að ná skipbrotsmönnunum um borð, og einnig fundu þeir lík þess skipverja er drukknaði. Var siglt með skipbrotsmennina inn til Ólafsfjarðar þar sem þeir fengu bestu aðhlynningu, og var líðan þeirra eftir atvikum góð í gærkvöldi er Morgunblaðið fór í prentun.

 

Morgunblaðið. 20 febrúar 1979.


Guðmundur Ólafsson ÓF 40 við bryggju á Ólafsfirði.                                  Ljósmyndari óþekktur.
 

 Sigldum fram á gúmbátinn af tilviljun

segir Hrafn Ragnarsson skipstjóri á Arnari       ÓF 3 sem bjargaði mönnunum fimm af                    Guðmundi Ólafssyni 

Það var skipstjórinn á Arnari ÓF 3, Hrafn Ragnarsson, ásamt áhöfn sinni, sem kom að mönnunum á Guðmundi Ólafssyni og bjargaði þeim, en fréttaritari Morgunblaðsins á Akureyri hitti hann að máli í gærkvöldi. Hrafn sagði:
"Við vorum staddir 3 til 4 mílur norðaustur af Héðinsfirði á heimleið úr róðri er við rákumst af tilviljun á gúmbátinn með mönnunum fimm. Veður var suðaustan sjö vindstig og þá er kvikan oft kröpp á þessum slóðum þegar vindur stendur út Eyjafjörðinn. Þegar við fundum bátinn var klukkan um 15.15. Við vissum ekkert um bátstapann fyrr en við fundum gúmbátinn en við höfðum þó fundið nokkra netabelgi merkta Guðmundi Ólafssyni og þótti okkur það grunsamlegt. Það gekk ágætlega að ná mönnunum um borð til okkar en þeir voru mjög þrekaðir sumir. Þeir gátu ekki komist um borð til okkar hjálparlaust, voru rennandi blautir og höfðu setið í sjó í gúmbátnum sem er mjög lítill, aðeins fjögurra manna. Við seildumst í þá og kipptum þeim inn fyrir borðstokkinn. Þeir giskuðu á að þeir hefðu verið í sjó og um borð í gúmbátnum í um það bil klukkustund. Ég ákvað að halda strax heim til Ólafsfjarðar á fullri ferð vegna þess hve mennirnir voru þrekaðir. Eftir tíu til fimmtán mínútna ferð fundum við lík sjötta skipverjans á reki í sjónum og gátum við náð því um borð. Við klæddum mennina úr blautum fötunum, rauðkyntum eldavélina og gáfum þeim heitt kaffi að drekka og hlynntum að þeim eftir bestu föngum.
Slysavarnadeild kvenna á Ólafsfirði gaf fyrir nokkrum árum prjónanærföt úr íslenskri ull handa öllum sjómönnum á bátum frá Ólafsfirði til notkunar í neyðartilvikum. Nú komu þessi nærföt að góðu gagni og sönnuðu gildi sitt. Mönnunum fór brátt að líða betur en annars var mikill skjálfti í þeim, líka eftir að komið var að bryggju en það var um klukkan 16.30. Við höfðum beðið Siglufjarðarradíó fyrir skilaboð til lögreglumanna og læknis á Ólafsfirði, um það hvernig komið var. Biðu þeir á bryggjunni þegar við komum, tóku við skipbrotsmönnunum og veittu þeim alla hugsanlega aðhlynningu á læknisstofunni í læknisbústaðnum.

Morgunblaðið. 20 febrúar 1979.
 

          "Sátum í sjó upp í mitti"

Fréttaritarar Morgunblaðsins hittu einn þeirra er komst lífs af er Guðmundur Ólafsson fórst, Ágúst Sigurlaugsson vélstjóra:
"Við vorum að leggja síðasta netið í síðustu trossunni um klukkan 13.45, þá kom dálítil kvika svo að netateinarnir fóru inn fyrir rennuna og við urðum að stoppa á meðan", sagði Ágúst. Um leið og báturinn tók af stað kom kvika þvert á hann og lagði hann flatan á stjórnborðshliðina. Ég var aftur í ganginum en hinir á framdekki, nema skipstjórinn sem var í stýrishúsinu og bjargaði hann sér naumlega út um glugga af því að báturinn lagðist á þá hlið sem dyrnar voru á. Ég kallaði strax í þá sem voru frammí og bað þá að losa bátinn sem þar var og það tókst þeim. Þetta var 4ra manna lausabátur sem hafður var á framdekkinu, en aðalbáturinn var á síðunni. Skipstjórinn náði að taka lokið af trékistunni sem sá bátur var í en báturinn flaut aldrei upp. Þá stukkum við allir í sjóinn og þurftum að synda að björgunarbátnum. Það tókst okkur öllum nema einum, sem hvarf sjónum okkar. Fjórir komust strax í gúmbátinn en ég komst þangað ekki, enda var báturinn yfirhlaðinn, maraði í kafi og var fullur af sjó. Ég vildi því ekki þyngja hann frekar með því að fara upp í hann. Eftir á að giska hálftíma tókst mér að komast upp í með hjálp hinna, og þá leið mér enn ekkert mjög illa nema hvað kuldi sótti á hendurnar. Ég hafði fljótlega náð bjarghring og það hjálpaði mér að halda mér á floti. Nú kom ólag, bátnum hvolfdi og við fórum allir í sjóinn. Við vorum nokkuð lengi að snúa honum við aftur vegna ills sjólags og að brot gengu yfir bátinn. Þrír okkar fóru fyrst upp í aftur en tveir nokkru síðar. Þrengsli voru mikil og sátum við nærri því hver ofan á öðrum.
Nú fórum við fyrst að dasast af kulda og vosbúð.
Eftir alllanga stund gátum við þó dregið skýlið yfir okkur og þá fór okkur að hlýna svolítið aftur þó að við værum hálf tilfinningalausir í fótunum af því að við sátum í sjá upp í mitti. Ef bátnum hefði hvolft aftur held ég að við hefðum ekki haft þrek til að snúa honum við hvað þá að komast upp í hann. Ég hugsaði um það allan tímann að vera nógu rólegur og að eyða ekki orkunni til ónýtis. Ég var alltaf vongóður um björgun; bæði var ég búinn á sjá tvo ágæta sjónvarpsþætti, annan um notkun gúmbjörgunarbáta og hinn um áhrif kulda á mannslíkamann og það gaf mér kjark. Einnig vissum við af öðrum bátum í grennd við okkur og að þeir áttu eftir að sigla í Iand og hlytu að koma auga á gúmbátinn okkar. Nú komu Múli og Arnar siglandi. Múli náði okkur ekki í fyrstu atrennu en Arnari tókst að ná okkur um borð. Það er einkennilegt að geta ekki staðið í fæturna, þeir voru svo dofnir af kulda, maður bara lak niður. Viðtökurnar um borð voru skínandi góðar. Þeir á Arnari nudduðu þá okkar sem með þurftu, hituðu ofan í okkur kaffi og klæddu okkur í prjónafötin góðu sem Slysavarnadeild kvenna gaf í alla báta á Ólafsfirði. Eftir að í land kom vorum við fluttir til læknisins, Hilmis Jóhannssonar, og nutum við þar hinnar bestu læknishjálpar og aðhlynningar. Kona hans, Guðrún Erlendsdóttir, gaf okkur kaffi og stjanaði við okkur því að sumir okkar voru orðnir afar þjakaðir. Mig langar að senda innilegt þakklæti mitt til allra sem unnu að björgun okkar og veittu okkur aðhlynningu í þessu volki. Einnig vil ég senda félögum mínum bestu þakkir fyrir drengileg samskipti og vandamönnum hins látna sendi ég innilegar samúðarkveðjur."

Morgunblaðið. 20 febrúar 1979.


Flettingar í dag: 151
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 779
Gestir í gær: 80
Samtals flettingar: 859194
Samtals gestir: 63043
Tölur uppfærðar: 23.6.2024 02:51:49