16.04.2019 10:33

B. v. Sólborg ÍS 260. TFQD.

Nýsköpunartogarinn Sólborg ÍS 260 var smíðaður hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1951 fyrir Ísfirðing hf. á Ísafirði. 732 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Hét Stígandi á smíðatíma. Smíðanúmer 736. Sólborgin var síðasti gufutogarinn sem kom til landsins. Árið 1966 var ríkissjóður eigandi skipsins og var það dregið frá Ísafirði til Reykjavíkur og komið fyrir á Kleppsvíkinni við legufæri. Sólborgin fór aldrei á veiðar eftir þetta og mun hafa legið á Kleppsvíkinni í á þriðja ár. Selt í brotajárn til Blyth á Englandi árið 1968.

Sólborg ÍS 260 var einn af hinum svokölluðu "Stefaníu" togurum, sem ríkisstjórn Stefáns J Stefánssonar samdi um smíði á í Bretlandi árið 1947. Þeir voru 10 að tölu, 8 gufutogarar smíðaðir í Skotlandi og 2 díesel togarar smíðaðir í Goole á Englandi.


B.v. Sólborg ÍS 260 með góðan afla á Selvogsbanka árið 1952.                   (C) Jón Hermannsson.

 Ísafjarðartogarinn Sólborg kominn                        til landsins
 Síðasti eimtogarinn af þeim, sem                      voru í smíðum    

Klukkan 2 e. h. í gær sigldi Sólborg, hinn nýi togari Ísfirðinga, inn á Reykjavíkurhöfn. Kom skipið beint frá Aberdeen, en þar var það smíðað í skipasmíðastöð Alexander Hall. Er það 10. skipið, sem þetta fyrirtæki smíðar fyrir Íslendinga. Sólborg, sem er eign hlutafjelagsins Ísfirðingur á Ísafirði, er 732 brutto smálestir og 183 fet á lengd. Er hún síðasti eimtogarinn af þeim 8, sem samið var um smíði á árið 1947. Sólborg er hið fegursta skip. Ber hún einkennisstafina ÍS 260. Í skipinu er fiskimjölsverk smiðja, sem var reynd áður en það fór heim. Kælivjelar eru í lestarrúmum. Það er ennfremur búið fullkomnustu siglingatækjum, svo sem radar.
Meðal farþega með Sólborgu frá Englandi var Ásberg Sigurðsson, lögfræðingur, framkvæmdastjóri togarafjelagsins Ísfirðings. Skipstjóri á Sólborgu verður Páll Pálsson frá Hnífsdal. Fyrsti stýrimaður verður Guðmundur Thorlasíus og fyrsti vjelstjóri Kristinn Guðlaugsson.
Ráðgert var að skipið færi í gærkvöldi vestur til Ísafjarðar, en þaðan mun það fara á veiðar.

Morgunblaðið. 28 ágúst 1951.


B.v. Sólborg ÍS 260 við komuna til Ísafjarðar í fyrsta sinn.                      (C) Sigurgeir B Halldórsson.

   Togaraútgerð á Ísafirði eftir stríð

Eftir síðari heimsstyrjöld hófst mikil nýsköpun í sjávarútvegi Íslendinga og samið var um smíði 32 nýrra togara í Bretlandi. Bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar, einstaklingar og félög í bænum stofnuðu Togarafélagið Ísfirðing sem fékk í sinn hlut tvo nýsköpunartogara, Ísborg sem kom til landsins í maí 1948 og Sólborg sem kom í ágúst 1951. Togararnir mældust 655 og 732 rúmlestir og voru stærstu fiskiskip sem gerð höfðu verið út frá Ísafirði. Aðstaða öll og aðbúnaður voru allt önnur og betri en verið hafði á eldri togurum. Í áhöfn voru 31 á venjulegum botnfiskveiðum og allt upp í 42 þegar veitt var í salt. Togararnir öfluðu vel fyrstu árin og veittu mikla vinnu í bæinn. Þegar afli minnkaði á heimaslóðum sóttu þeir á mið við Grænland og Nýfundnaland á sumrin og gátu veiðiferðir þá orðið allt að þrír mánuðir. Ísborginni var lagt haustið 1960 þar sem fiskileysi og erfiðleikar í togaraútgerð gerðu út af við reksturinn. Útgerð Sólborgar var hætt vorið eftir. Varð þá hlé á togaraútgerð á Ísafirði í 12 ár eða þar til öld skuttogaranna gekk í garð.

Úr safnvísi Byggðasafns Vestfjarða.


B.v. Sólborg ÍS 260 að "kippa".                                                                (C) Sigurgeir B Halldórsson.


B.v. Sólborg ÍS 260 með gott karfahol.                                     Ljósmyndari óþekktur.

     Sólborgu rak á land við Klepp

Í fárviðrinu á laugardaginn losnaði togarinn Sólborg, sem legið hefur við legufæri inni á Viðeyjarsundi Ekki er ennþá ljóst hvort festarnar hafa slitnað eða hvort skipið hefur rifið Iegufæri úr botni, en svo virðist sem skipið hafi dregið þau með sér. Það liggur nú uppi í fjöru rétt við spítalann á Kleppi. Þeir sem kunnugir eru, segja, að botninn sé þar góður malarbotn svo að skipið sé ekki í hættu. Skipið var í umsjá ríkissjóðs, en tryggingarfélagið, sem það var tryggt hjá, AImennar tryggingar hefur nú tekið að sér að sjá um björgun þess. Það var um miðjan dag í fárviðrinu á laugardaginn, sem skipið komst á rek. Tvennum sögum fer af viðbrögðum. Hafnsögumenn við Reykjavíkurhöfn segja að skipið komi sér ekkert við og því hafi þeir ekkert skipt sér af því.
Umráðamenn skipsins segjast hafa athugað möguleika á að fá dráttarbátinn Magna til að koma og bjarga skipinu þá, en hann hafi ekki getað sinnt því neitt vegna þess hve mikið var að gera í Reykjavíkurhöfn. Svo mikið er víst að þarna rak skipið í land, án þess að nokkrum aðgerðum yrði við komið. Síðar um kvöldið fór umboðsmaður fjármálaráðuneytisins, Jóhann Einvarðsson ásamt Ágústi Ingvarssyni, þangað inn úr á vélbátnum Mjöll m.a. til þess að athuga legufæri togarans Brimness sem einnig liggur á Viðeyjarsundi og voru þau í lagi. Ekki þótti ástæða til að flýta björgunaraðgerðum við Sólborgu, þar sem botninn er talinn góður þar sem hún lenti.

Vísir. 31 janúar 1966.


B.v. Sólborg ÍS 260. Líkan.                                                             Ljósmyndari óþekktur.

              Höfum við ráð á......?

Þrjú tréskip hafa á stuttum tíma á núlíðandi stundu "gliðnað" sundur, undir fótum skipshafnar, tvö sokkið en einu bjargað, illu heilli. Og ennþá er okkur ráðlagt að byggja öll minni skip (allt að 100 tonnum?) úr tré. Þessar ráðleggingar koma frá ábyrgum aðilum, svo sem skipaskoðunarstjóra, í fróðlegum og skemmtilegum þætti í sjónvarpi fyrir nokkrum tíma. Sú skoðun skipaskoðunarstjóra, "að heppilegra muni vera að byggja öll smærri skip úr tré," og ég hafi leyft mér að taka sem ráðleggingu hans; hlýtur að byggjast á þeirri reynslu undanfarandi ára, að með hinum fullkomnu björgunartækjum, sem íslenzk fiskiskip nú eru búin, hefur mannbjörg orðið í flestum tilfellum þegar þessi "leka hrip" hafa gengið undir og þeirri staðreynd að vátryggingafélögin borga, og gera kannske ekki mikinn mun (ef nokkurn) á skipum byggðum úr tré eða stáli. Þetta er kapítuli út af fyrir sig, sem sýnir og sannar að á þessu sviði geta Islendingar verið "Stedig som en Islænder?" Á þessum sama tíma sem þjóðin hefur losnað við þrjár tréfleytur sem engan rétt eiga á sér á nútíma vélaöld. Lagði varðskipið Ægir upp frá Reykjavik með tvo "nýsköpunartogara" í eftirdragi frá Reykjavík til Englands, þar sem öll þessi skip skyldu fara í brotajárn. V.s. Ægir var að vísu orðinn nokkuð gamall, en að óreyndu verður því aldrei trúað að hann hafi ekki verið í nokkuð góðu ásigkomulagi, þannig að hann hefði getað annað einhverri þjónustu hér heima, í nokkur ár ennþá, án mikils viðgerðarkostnaðar.
B.v. Sólborg var einn af hinum yngri og stærri "nýsköpunartogurum" og eitt vandaðasta skip flotans á sínum tíma. Hún var búin að liggja árum saman, ný klössuð, fyrst á Ísafirði og síðan dregin til Reykjavíkur og hefur legið hér. Hún var árlega tekin í slipp til hreinsunar og eftirlits á botni. B.v. Brimnes var að vísu ekki eins vel haldinn, þó mun bolur og ýmis tæki í honum hafa verið í góðu ásigkomulagi, enda oft á "Slipp?" sinn langa legutíma. Ekki er mér full kunnugt um söluverð þessara þriggja skipa, en varla mun það hafa verið mikið yfir tvær milljónir íslenzkra króna. B.v. Sólborg ein hlýtur að vera búin að kosta ríkissjóð meiri upphæð í krónum síðan henni var lagt á Ísafirði, en söluverð allra þessara skipa. Því var henni ekki sökkt á sínum tíma? B.v. Brimnes, sem af einhverjum ástæðum hefur verið talið eitthvert vandræða skip, var búið að liggja í Reykjavíkurhöfn og á Kleppsvík í 8-9 ár og ekki sýndur sami sómi og b.v. Sólborg. Mun þó hafa verið allsæmilegt skip, og búið að kosta ríkissjóð drjúgan skilding. Með öðrum orðum hefur söluverð þessara þriggja skipa engan veginn nægt til þess að dekka þennan kostnað sem orðinn er á þeim frá því þeim var lagt. - Sólborg og Brimnes, og ennþá erum við með útlend skip í fastaleigu og ennþá eru smíðuð skip úr "tré," sem gliðna sundur undan vélaafli nútímans. Höfum við ráð á þessu á hinum umtöluðu "krepputímum" í dag, þegar allt á að spara og öllu að "hagræða."    G. Þorbjörnsson.

Sjómannablaðið Víkingur. 3 tbl. 1 mars 1969.



B.v. Sólborg ÍS 260 á siglingu.                                                                         Ljósmyndari óþekktur.

           Ægir dregur tvo úr landi
            skipin seld í brotajárn

Ægir gamli hefur nú verið seldur í brotajárn til Englands, að því er annar eigandinn, Gísli Ísleifsson, hrl., tjáði Morgunblaðinu í gær. Verður honum siglt til Blyth í næstu viku og á að láta hann draga með sér tvo togara, Brimnes og Sólborgu, sem einnig hafa verið seldir þangað í brotajárn. Skipstjóri í þessari síðustu för Ægis gamla verður Haraldur Ólafsson, en alls taldi Gísli, að 10 eða 11 menn þyrftu að vera á skipunum þremur í þessari ferð.

Morgunblaðið. 16 júní 1968.





14.04.2019 13:32

B. v. Walpole RE 239. LCJM / TFZC

Botnvörpungurinn Walpole RE 239 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1914 fyrir Cyril E Grant útgerðarmann í Grimsby, hét fyrst Walpole GY 269. 301 brl. 550 ha. 3 þennslu gufuvél. 41,19 x 7,12 x 3,17 m. Smíðanúmer 604. Seldur 1918, Robert D Clark í Grimsby, sama nafn og númer. Seldur 30 júní 1920, Hlutafélaginu Stefni í Reykjavík, hét þá Walpole RE 239. Seldur 25 júlí 1923, Hlutafélaginu Vífli í Hafnarfirði, hét þá Walpole GK 239. Það má geta þess að Jón Otti Jónsson var um 10 ára skeið skipstjóri á Walpole.Togarinn strandaði á skerjum er Fitjar heita út af Gerpi 16 september árið 1934, Walpole losnaði af skerinu en óstöðvandi leki kom að honum og sökk togarinn stuttu síðar út af Vöðlavík. Áhöfnin komst í björgunarbátana og réru heim að Karlskála í Reyðarfirði. Það var síðan vélbátur þaðan sem dró björgunarbátana inn til Eskifjarðar.

 

B.v. Walpole RE 239.                                                                                   (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
 

Áhöfnin á Walpole GY 269 stillir sér upp fyrir myndatöku. Það er líka spurning hvort þetta séu Íslendingar að taka við skipinu ytra.    (C) Jeffrey Pullen.
 

               Walpole GY 269

Walpole heitir enskur botnvörpungur, sem hingað kom í fyrradag og leystur úr sóttkví í morgun. Skipstjóri er Jón Oddsson og verður skipið gert út héðan um hríð.

Vísir. 6 mars 1920.


B.v. Walpole RE 239 sennilega í Hafnarfjarðarhöfn.                                        Ljósmyndari óþekktur.
 

               Walpole RE 239

Walpole kom frá Bretlandi í fyrradag og er skipið nú komið undir íslenzkan fána. Farþegar voru kaupmennirnir Einar Pétursson og Björn Ólafsson.

Morgunblaðið. 10 júlí 1920.


Um borð í Walpole GK 239.                           Ljósmyndari óþekktur.


B.v. Walpole RE 239.                                                                             (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
 

         Walpole GK strandaði og                          sökk út af Gerpi

Aðfaranótt sunnudags rakst togarinn Walpole frá Hafnarfirði á klett á svonefndum Fitjum yst á Gerpi. Aðdjúpt var þarna svo skipið stóð aldrei. Laskaðist skipið svo mikið, að það fylltist brátt af sjó, og sökk. Skipverjar fóru í björgunarbátunum til Eskifjarðar. Skömmu eftir hádegi á sunnudag barst sú fregn hingað frá Eskifirði, að skipshöfnin af togaranum Walpole væri þangað komin í björgunarbátunum. En togarinn hafi strandað á Fitjum, yst á Gerpi, og sokkið síðan. Frá framkvæmdastjóra fjelagsins Vífill, er Walpole átti, Ásgrími Sigfússyni, hefir blaðið fengið eftirfarandi frásögn um slys þetta. Togarinn var nýkominn til Austfjarða, ætlaði að taka bátafisk frá Eskifirði til Englands. En þar eð nokkur bið yrði á því, að fiskurinn væri til fór Walpole á veiðar. Hafði hann verið á veiðum skamt undan Reyðarfirði. En kl. um 1 aðfaranótt sunnudags var Walpole á siglingu norður með landinu. Margir skipverjar voru þá í svefni, og eins skipstjóri.
Allt í einu rakst skipið á klett, með því afli, að gat kom á, og fossaði sjór inn í lúgarinn, sem fylltist svo ört, að hásetar, sem þar voru, urðu að flýja þaðan samstundis. Gátu þeir lítið eitt tekið með sjer upp úr lúgarnum. Skipið seig strax frá skerinu, því að aðdjúpt var þarna , einir 30 metrar í botn. Var reynt að hefta leka skipsins og dæla það. En jafnframt skyldi reynt að sigla því til hafnar eða grunns. En brátt varð það skipverjum ljóst, að við ekkert varð ráðið, og myndi togarinn skammt eiga eftir ofansjávar. Því var leitað til björgunarbátanna , og fóru skipverjar í þá. Liðu um 20 mínútur frá því áreksturinn varð, og þangað til Walpole sökk. Var togarinn þá kominn út af Vöðlavík. Er gert ráð fyrir, að sjór hafi komist strax í skipið framan við skilrúm það, sem er framan við lúgarinn, sennilegt að skilrúmið hafi laskast við áreksturinn. Sjór kom og strax í framlest skipsins. Þó skipverjar yrðu að flýja lúgarinn í dauðans ofboði, og hafa sennilega ekki allir getað tekið með sér föt sín þaðan, voru þeir allir alklæddir er í björgunarbátana kom, munu hafa getað fengið föt hjá þeim skipverjum, sem höfðust við aftar í skipinu. Dimmviðri var á, en sjógangur ekki mikill. Reru skipbrotsmenn inn að Karlsskála, en þar fengu þeir trillubáta, er drógu þá inn á Eskifjörð. Walpole var byggður í Englandi 1914, var 301 tonn að stærð. Hingað var hann keyptur árið 1920, en fjelagið sem átti hann, keypti hann árið 1923.  Skipstjóri á Walpole var Ársæll Jóhannesson frá Eyrarbakka.

Morgunblaðið 18 september 1934.

13.04.2019 08:36

B. v. Otur RE 245. LCJR / TFOD.

Botnvörpungurinn Otur RE 245 var smíðaður í Lehe í Þýskalandi árið 1921 fyrir h.f Otur í Reykjavík. 316 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. 21 maí árið 1938 var skipið komið í eigu Útvegsbanka Íslands. Selt 30 desember 1938, Hrafna-flóka hf. í Hafnarfirði, hét Óli Garða GK 190. Talinn ónýtur og seldur í brotajárn árið 1955. Við norðanverðan Fossvoginn má sjá hluta af flaki hans sem kemur vel uppúr á fjöru. Einnig má sjá togspil togarans í Drafnarslippnum í Hafnarfirði.


B.v. Otur RE 245 á toginu.                                                                      (C) Guðbjartur Ásgeirsson. 


B.v. Otur RE 245.                                                                                 (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

                  Otur RE 245

"Otur" heitir nýr botnvörpungur, smíðaður í Þýskalandi, sem hingað kom í morgun. Eigendur eru h.f. Otur í Reykjavík.

Vísir. 13 febrúar 1922.


B.v. Óli Garða GK 190 í ólgusjó.                                                                 (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


B.v. Óli Garða GK 190. kominn þarna með nýja brú.                             (C) Guðbjartur Ásgeirsson ?

                Nýtt togarafélag

Í Hafnarfirði hefir verið stofnað nýtt togarafélag, er heitir "Hrafna-Flóki". Hefir félag þetta keypt togarann "Otur" af Utvegsbankanum. Togarinn heitir nú "Óli Garða", eftir gömlum og aflasælum sjómanni í Hafnarfirði. Skipstjóri á "Óla Garða" verður Baldvin Halldórsson, er áður var með "Júni". Forstjóri fyrir félaginu "Hrafna-Flóki" verður Ásgeir Stefánsson, sem einnig er forstjóri Bæjarútgerðarinnar.

Ægir. 12 tbl. 1 desember 1938.


08.04.2019 14:17

371. Draupnir ÍS 485. TFLW.

Vélbáturinn Draupnir ÍS 485 var smíðaður hjá William H Jansens Badebyggeri í Bröns Odde í Vejle í Danmörku árið 1958 fyrir útgerðarfélagið Hring hf. á Suðureyri við Súgandafjörð. Eik. 71 brl. 310 ha. Alpha vél. Seldur 5 júní 1969, Meitlinum hf. í Þorlákshöfn, hét Klængur ÁR 2. Ný vél (1971) 400 ha. Lister vél. Seldur 26 febrúar 1974, Sveini Stefánssyni í Kópavogi, hét þá Erlingur RE 65. Seldur 10 febrúar 1977, Halldóri Halldórssyni á Seltjarnarnesi og Magnúsi Jónssyni í Keflavík, hét Einir RE 177. Seldur 16 nóvember 1978, Hermanni Haraldssyni og Tryggva Gunnlaugssyni á Djúpavogi, hét Einir SU 18. Hét Einir SU 181 frá 30 júlí 1980. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 2 desember árið 1980.


371. Draupnir ÍS 485 á Siglufirði.                                                        (C) Hannes J Baldvinnsson.

                Draupnir ÍS 485

Vélbáturinn Draupnir er smíðaður í Vejle í Danmörku, kom til Suðureyrar fyrir jólin. Báturinn er 70 rúmlestir að stærð, búinn öllum fullkomnustu nútímatækjum. Eigandi er hlutafélagið Hringur, framkvæmdastjóri Jóhannes Þ. Jónsson kaupfélagsstjóri, formaður stjórnar hlutafélagsins er Sturla Jónsson, og skipstjóri er Samúel Guðnason.

Ægir. 3 tbl. 15 febrúar 1959.


Draupni ÍS hleypt af stokkunum hjá William Jansen í Vejle 1958.   (C) Handel & Söfartmuseet.dk


Draupnir ÍS 485 á siglingu.                                                                           Ljósmyndari óþekktur.

       Suðureyri við Súgandafjörð

Fólksfækkun á Suðureyri hefir verið stöðvuð með hafnarframkvæmdum og aukinni útgerð. Nú flytur fólkið til Suðureyrar en ekki burt þaðan. Og hér er urmull af börnum. Það gerir steinbítsátið á veturna. Sturla Jónsson, formaður Kaupfélags Súgfirðinga og fyrrum oddviti, rabbaði við fréttamann um daginn og veginn á Suðureyri. - Þið lifið á kjarnafæðu . . . ? - Hér er sitt af hverju betra en annars staðar. Ef þú herðir fisk í Reykjavík, þá verður hann hundaskítur þar, en hunangsmatur hér, og eins og þetta geti ekki verkað á mannskepnurnar? - Þú minntist á börnin. Hvað um barnaskólann nýja? - Hann var vígður 25. október við mjög hátíðlega athöfn. Skólinn er talinn kosta 16-17 hundruð þúsund. Húsið er 229 fermetrar, tvílyft með þrem skólastofum, kennaraherbergi o. fl. Þeir ætluðu að hengja mig út af þessari fjárfestingu, en nú er þetta um garð gengið. - Og skólastjóri er ? - Jón Kristinsson. Læknirinn og presturinn kenna, og von er á kennslukonu úr Reykjavík. Súgandafjörður var nýlega gerður að sérstöku læknishéraði. Við gerum ráð fyrir að byggja Iæknisbústað að vori. - Og þorpsbúum fjölgar ört?  -Já , mannfjöldinn var tæp 400 fyrir áramótin 1956--'57. Síðan hafa flutzt hingað nokkrar fjölskyldur um 20-30 manns.
- Þið eruð að bæta við skipastólinn ? - Við fengum tvo í vetur, Friðbert Guðmundsson og Draupni. Það er 70 tonna skip, heitir eftir Draupni, sem ég átti í 25 ár.
Friðbert Guðmundsson er 66 tonna eins og Freyja, sem kom hingað í vor. Allir þessir bátar eru smíðaðir í Danmörku, Draupnir í Vejle, hinir í Frederikssund. Eldri bátarnir eru síðan 1954-'55. Draupnir er sá sjöundi í röðinni. Auk þess höfum við leigt bát til flutninga. - Þið sláið ekki slöku við skipakaupin. - Við lifum á sjósókn og getum ekki verið bátlausir. - Og hafið getuna til að borga? Sturla brosir. Svarar ekki spurningunni, enda gerist þess ekki þörf. Þeir á Suðureyri kaupa ekki báta til að horfa á þá, en afla verðmæta, sem gefa fé í aðra hönd. Með dugnaði hefir þeim tekizt að afla sér fleiri skipa en gerist í öðrum verstöðvum á skömmum tíma. - Hver er eigandi Draupnis? - Það er Hrignur h.f., nýstofnað hlutafélag. Kaupfélagið er stærsti hluthafinn. Félagið nytjar aflann sjálft. Það keypti frystihús af mér; þar var gamla rækjuverksmiðjan. - Verður þá hætt við rækjuvinnsluna? - Það er mér ómögulegt að segja um. Geri ráð fyrir, að rækjuvinnsla hefjist þar aftur engu síður þótt þetta félag eigi hlut að máli. - Og hver er framkvæmdastjóri ? - Kaupfélagsstjórinn, Jóhannes Jónsson. - Hvað er þetta stórt frystihús? - Það er minnsta frystihús á Íslandi. Ég frysti einu sinni 96 kassa yfir daginn. Geymsluplássið var stækkað um helming í sumar. Má reikna með, að 10-11 manns vinni þar í framtíðinni. Fiskherzla og söltun eru í sambandi við húsið. Hjallar fyrir 10-100 tonn miðað við blautfisk. -
Hvað um hinar fiskvinnslustöðvarnar ? - Fiskiðjan Freyja hefir tekið afla af einum bát í söltun og herzlu á vertíðinni. Þeir hafa síldarsöltun og söltuðu á fimmta þúsund tunnur í sumar að mér er sagt. Annan sinn afla hafa þeir selt frystihúsinu Ísveri, sem er rekið af samnefndu hlutafélagi. Þrír til fjórir bátar hafa lagt upp hjá Ísveri á vertíð. Vinnslugeta er milli 30-40 tonn á dag. Ísver hefir gert út bát, og Hermann Guðmundsson og Óskar Kristjánsson gera út nótabátinn Frey, nýlegan bát, smíðaðan í Svíþjóð, 51 tonn. -Hvað um hafskipabryggjuna ? -Henni var lokið á árinu 1956. En hér eru óleyst vandamál. Til dæmis er legan of grunn fyrir þessa stóru báta. Þyrfti helzt bátakví. - Og aðrar opinberar framkvæmdir? - Það er félagsheimilið. Nú vantar aðeins herzlumuninn til að það sé fullgert. Hreppurinn hefir lagt þessu húsi að einum þriðja; aðrir eigendur eru verkalýðsfélagið, íþróttafélagið, kvenfélagið, skátafélagið og stúkan Dagrún. - Hvað um vegamálin, Sturla? - Vestfirðingar telja sér það eiginlega til skammar, að enn þá skuli vera sýslur á Vestfjörðum, sem ekki hafa verið tengdar vegakerfi landsins. Það ætti að vera nægileg vísbending um áslandið í vegamálunum. Annar Súgfirðingur, sem fréttamaður hafði tal af, var Þórður Þórðarson, fyrrum símstöðvarstjóri. Þórður lýsti ánægju sinni yfir öllum þeim framförum, sem orðið hafa á Suðureyri, einkum nýju skipunum. - Ég held það sé dálítil lyftistöng í þessu öllu saman, sagði Þórður. Þórður hefir stundað sjó sem aðrir Súgfirðingar. Byrjaði á 16. árinu og hélt það út í 30-40 ár. Hann var í hákarlalegum og býst við að þau vinnubrögð mundu þykja harkaleg nú á dögum. - Ekki að tala um annað en liggja úti og mæta hverju veðri. - Hann þótti góður hákarlinn, en nú er hann að hverfa. Nú geta þeir lagt 150 lóðir yfir sólarhringinn og sést ekki hákarl, en um aldamótin mátti ekki leggja 30 lóðir svo hákarlinn eyðilegði þær ekki og biti allt í sundur. Ég hef ekki heyrt þá leggja það fyrir sig, fiskifræðingana, hvað er orðið af honum. Hvað höfðuð þið í hákarlabeitu ? --- Hérna var beitt sel og hestaketi meikuðu í rommi. Þeir helltu svona potti af rommi ofan í sel og súrruðu fyrir báða enda, kjaftinn og rassinn. Svo var hann geymdur og skorinn niður í beitu og það var sterk sæt lykt af honum. Þetta var brúkað. Að lokum spurði undirritaður Pétur um álit hans á togveiðum Breta í landhelgi úti fyrir Vestfjörðum, en þá voru þær enn í fullum gangi. - Ég skil ekki, að þeir haldi það út, sagði Pétur. - Norðaustanbyljirnir. Togurum þótti alls ekki við vært hér út af Djúpál í slíkum veðrum. - Já, það er margt, sem kemur fyrir þá, sem bágt er. Og ekki eftirsóknarvert að standa í þessu fyrir skipsmennina. Hann hefir nú verið vanur að koma norðangarðurinn, sérstaklega þegar kemur fram á vetur. Það var óskaplegt, þegar þeir fórust hérna norður af Horninu, það var óhemju þá.

Tíminn. 14 janúar 1959.


07.04.2019 10:06

V. b. Aðalbjörg MB 30. TFKO.

Vélbáturinn Aðalbjörg MB 30 var smíðaður hjá Djupviks Botvarv A/B. í Djupvík í Svíþjóð árið 1946 fyrir Þorvald Ellert Ásmundsson útgerðarmann á Akranesi. Eik. 51 brl. 170 ha. Atlas vél. Árið 1947 fékk Aðalbjörg skráningarnúmerið AK 30. Ný vél (1954) 347 ha. Buda vél. Frá 19 nóvember 1958 var Fiskver hf. á Akranesi eigandi Aðalbjargar. Seldur 8 janúar 1959, Fiskvinnslunni hf. á Akureyri, hét Hrefna EA 33. Seldur 1 ágúst 1963, Einari J Guðjónssyni í Reykjavík, hét þá Hrefna RE 81. Báturinn sökk eftir að mikill leki kom að honum um 20 sjómílur út af Stapa 27 júlí árið 1964. Áhöfnin, 6 menn, björguðust í gúmmíbjörgunarbát. Var síðan bjargað um borð í vélskipið Höfrung AK 91 frá Akranesi.


Aðalbjörg MB 30.                                                                                 Ljósmyndari óþekktur.

               Nýr bátur

Laugardaginn 20. apríl kom til Akraness nýr bátur Aðalbjörg M.B. 30. Bátur þessi er einn hinna svonefndu Svíþjóðarbáta, og festi bæjarstjórnin upphaflega kaup á tveim þessara báta, sem síðar voru látnir af hendi við einstaklinga í bænum. M.b. Aðalbjörg er eign Þorvaldar Ellerts Ásmundssonar, skipstjóra. Báturinn er byggður hjá Bröðr. Jóhansson í Djupvik, og er mældur þar 55 tonn. Vélin er 170 H.K. Atlas-Polar díeselvél, en ljósavélin er 10 Hk. Bolinder. Í bátnum er ágætt rúm fyrir skipverja, bæði framí og afturí. Stýrishúsið er stórt, með áföstu herbergi fyrir skipstjórann. Vélin er snarvent, sett í gang í stýrishúsinu og stjórnað þaðan. Hún hvað vera auðveld í allri meðferð. Báturinn gengur 9 mílur. Hann er búinn öllum nýtízku tækjum, svo sem: djúpmæli, talstöð, miðunarstöð, einnig óvenjulega sterkum ljóskastara. Í honum er og fullkomin olíudrifinn stýrisútbúnaður. Rafmagn er fullkomið, og eru íbúðir aftur í, hitaðar með rafmagni. Vinna öll virðist vera sérlega vönduð og lagleg. Elías Benediktsson sigldi bátnum heim með Ellert og fleiri mönnum, en þeim fannst hann fara mjög vel í sjó. Bátnum fylgir og fullkominn togútbúnaður, og fer hann nú fljótlega á þær veiðar. Ellert sagði að ólíku væri saman að jafna um verðlag hér eða í Svíþjóð um þessar mundir. Á þessari áminnstu skipasmíðastöð, þar sem þessi bátur var byggður, vinna nú 35 manns. 5 af þessum mönnum höfðu 1,60 um tímann, hinir frá 1,50 og allt niður í 0,80 um tímann. Fæði og húsnæði fyrir þá, meðan þeir stóðu við, var 7 kr. á dag fyrir hvern þeirra.

Akranes. 4 tbl. apríl 1946.


Aðalbjörg AK 30 að landa síld hjá Sunnu á Siglufirði.                     Ljósmyndari óþekktur.


Hrefna EA 33.                                                                                                     (C) Lúðvík Karlsson.


Hrefna RE 81.                                                                                                (C) Snorri Snorrason ?

          Bátur með sex manna áhöfn                              sekkur undan Stapa

                Mannbjörg varð

Í gærkvöldi kl. 22.45 sökk vélbáturinn Hrefna RE 81, 19-20 sjómílur undan Stapa, suður af Hellnanesi. Sex manna áhöfn var á bátnum og bjargaðist hún öll um borð í v b. Höfrung AK 91, sem væntanlegur var til Akraness kl. 2 í nótt. Hrefna RE 81 var áður Hrefna EA 33 (þar áður Aðalbjörg). Þetta er einn af Svíþjóðarbátunum, smíðaður úr eik árið 1946, 51 tonn að stærð. Morgunblaðið náði í gærkvöldi tali af Guðmundi Sveinssyni, skipstjóra á Höfrungi. Sagði hann Hrefnu hafa beðið um aðstoð kl. 20.30, því að báturinn væri að sökkva. Höfrungur var nærstaddur ásamt Gylfa ÍS og Bárði Snæfellsási, og héldu þeir allir á staðinn. Þegar Hrefna sendi aðstoðarbeiðnina út, streymdi sjór inn í bátinn, og sáu skipverjar, að ekki yrði við ráðið. Skipstjóri á Hrefnu var Einar Guðjónsson, og auk hans fimm menn á bátnum. Þegar Höfrungur kom á staðinn, var áhöfnin komin í tvo gúmmíbáta. Var þeim öllum bjargað um borð í Höfrung, en Hrefna sökk rétt á eftir. Sökk hún mjög hratt síðustu mínúturnar. Gott var í sjóinn, en alda hafði verið fyrr um daginn. Gúmmíbátarnir reyndust báðir í góðu lagi. Bæði skipin voru þarna á humarveiðum.

Morgunblaðið. 28 júlí 1964.


05.04.2019 07:26

2182. Baldvin Njálsson GK 400. TFTF.

Skuttogarinn Baldvin Njálsson GK 400 var smíðaður hjá Construcciones Navales Santodomingo S.A. í Vigo á Spáni árið 1991. 736 brl. 2.992 ha. Wartsiila vél, 2.200 Kw. Smíðanúmer 636. Skipið hét Grinnöy T 52 T fyrst og var gert út frá Noregi. Selt 7 ágúst 1992, Ottó Wathne hf. á Seyðisfirði, hét Ottó Wathne NS 90 og gerður út þaðan sem frystitogari. Selt 29 mars 1994, Stálskipum hf. í Hafnarfirði, hét Rán HF 42. Skipið var selt 28 júní 2005, Nesfiski hf. í Garði, heitir Baldvin Njálsson GK 400 og er gerður út þaðan í dag.


Baldvin Njálsson GK 400 við Bótarbryggjuna ný málaður.          (C) Þórhallur S Gjöveraa. 13 júlí 2014.

     Ottó Wathne til heimahafnar

Nýr frystitogari lagðist að bryggju á Seyðifirði í gærdag. Togarinn heitir Ottó Wathne NS 90 og er í eigu samnefnds útgerðarfélags. Kemur hann í stað ísfisktogarans Ottó Wathne NS. Margir bæjarbúar voru á bryggjunni til að fagna komu skipsins. Móttökuathöfn fór fram um borð og voru eigendum og fjölskyldum þeirra færð blóm og árnaðaróskir í tilefni dagsins. Ottó Wathne er keyptur frá Noregi. Skipið var smíðað á Spáni árið 1991. Er það 720 brúttórúmlestir að stærð, 51,5 metrar á lengd og 12 metra breitt. Frystigeta um borð er rúm 50 tonn á sólarhring og frystirými fyrir um 550 tonn. 3.000 hestafla vél er í skipinu. Að sögn Trausta Magnússonar annars eiganda skipsins er ætlunin að Ottó Wathne farið á veiðar einhvern næstu daga. Verður byrjað á karfa og verður hann heilfrystur.

Morgunblaðið. 26 ágúst 1992.


Baldvin Njálsson GK 400 ný kominn úr slipp. 1578. Ottó N Þorláksson RE 203 hinu megin við Bótarbriggjuna við Grandagarðinn.   (C) Þórhallur S Gjöveraa. 13 júlí 2014.

Otto Wathne seldur til Hafnarfjarðar

Frystitogarinn Otto Wathne hefur verið seldur til Stálskipa í Hafnarfirði, fyrirtækis þeirra Guðrúnar Lárusdóttur og Ágústs Sigurðssonar. Að sögn Trausta Magnússonar hjá Ottó Wathne hf. Var söluverðið viðunandi en óvíst er um framhald á útgerð hjá fyrirtækinu. Báðir togarar þess hafa verið seldir, Ottó Wathne hefur verið að veiðum á Flæmska hattinum svokallaða undanfarna 5 sólarhringa. Veiði hefur verið heldur dræm, skipið aðeins fengið um 30 tonn af frystum fiski.

Dagblaðið Vísir. 15 febrúar 1994.


Frystitogarinn Rán HF 42.                                                  (C) Hafþór Hreiðarsson. skipamyndir.com


Frystitogarinn Rán HF 42 á Viðeyjarsundi.                          (C) Hafþór Hreiðarson. skipamyndir.com

           Rán kveður Fjörðinn

Útgerðarfyrirtækið Stálskip hf. Í Hafharfirði hefur selt Nesfiski hf. Í Garði frystitogarinn Rán HF 42. Rán mun vera síðasti frystitogarinn í eigu Hafnfirðinga og telja margir eftirsjá að Ráninni. Aflaheimildir skipsins eru um 2.000 þorskígildistonn, en ekki er ljóst hversu mikið af aflaheimildum fylgir með í kaupunum. Nesfiskur á fyrir tvo togara og nokkra minni báta. Forsvarsmenn Nesfisks segjast styrkja rekstur og afkomumöguleika fyrirtækisins með kaupunum.

Dagblaðið Vísir. 30 júní 2005.


Frystitogarinn Ottó Wathne NS 90 á leið inn Seyðisfjörðinn í fyrsta sinn, 25 ágúst árið 1992.
(C) Jón Magnússon.


Fyrirkomulagsteikning af Ottó Wathne NS 90.                                                   Mynd úr Ægi.


            Ottó Wathne NS 90

25. ágúst sl. kom skuttogarinn Ottó Wathne NS 90 í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Seyðisfjarðar. Skuttogari þessi, sem áður hét Grinnöy, er keyptur notaður frá Noregi, en er smíðaður árið 1991 (afhentur í apríl) hjá skipasmíðastöðinni Construcciones Navales Santodomingo S.A. í Vigo á Spáni, smíðanúmer 636 hjá stöðinni. Skipið er hannað af Nordvestconsult A/S í ÁIesund í samvinnu við Cramaco A/S í Tromsö. Skipið er með búnað til heilfrystingar á afla og kemur í stað eldri skuttogara útgerðar, sem bar sama nafn, Ottó Wathne NS 90 (1474), 299 rúmlesta skuttogara, smíðaður árið 1977. Jafnframt gengur endurnýjunarréttur Erlings KE 45 (1361) upp í nýja skipið, 328 rúmlesta nótaveiðiskip, smíðað árið 1969 (sökk árið 1990). Áður en skipið kom til landsins voru gerðar ákveðnar breytingar á því af núverandi eigendum, m.a. fjölgað hvílum í eins manns klefum, sett í skipið flotvörpuvinda og bakstroffuvindur og bætt við tækjum í brú. Hinn nýi Ottó Wathne er smíðaður í EO-klassa, þ.e. vaktfrítt vélarúm.
Ottó Wathne NS er í eigu samnefnds hlutafélags á Seyðisfirði. Skipstjóri á skipinu er Páll Ágústsson og yfirvélstjóri Víglundur Þórðarson. Framkvæmdastjóri útgerðar er Trausti Magnússon.
Mesta lengd 51.45 m.
Lengd milli lóðlína (HVL) 46.90 m.
Lengd milli lóðlína (perukverk) 45.10 m.
Breidd (mótuð) 11.90 m.
Dýpt að efra þilfari 7.23 m.
Dýpt að neðra þilfari 4.83 m.
Eigin þyngd 1.273 tonn.
Særými (djúprista 4.83 m) 1.741 tonn.
Burðargeta (djúprista 4.83 m) 468 tonn.
Lestarrými 600 m 3.
Brennsluolíugeymar 305.3 m 3.
Ferskvatnsgeymir 19.7 m 3.
Sjókjölfestugeymir 32.0 m 3.
Andveltigeymir
(brennsluolía/sjór) 36.7 m 3.
Brúttótonnatala 1.199 BT.
Rúmlestatala 598 Brl.
Skipaskrámúmer 2182.

Ægir. 10 tbl. 1 október 1992.





04.04.2019 13:16

Dalvíkurtogararnir að landa afla sínum í Hafnarfjarðarhöfn í morgun.

Skuttogararnir Björgvin EA 311 og Björgúlfur EA 312 frá Dalvík lágu í Hafnarfjarðarhöfn núna í morgun að landa þar. Aflinn fór allur að ég held í gáma og væntanlega sendur norður á Dalvík til vinnslu þar. Ég kíkti inn í einn gáminn sem var nær því fullur af vænum þorski. Þetta eru falleg skip, en þeir mættu alveg splæsa í nokkrar málningardollur fyrir Björgvin. Kominn tími þar á bæ í skveringu.


1937. Björgvin EA 311 og 2892. Björgúlfur EA 312 að landa í Hafnarfjarðarhöfn í morgun.


Björgúlfur EA 312 og Björgvin EA 311. Báturinn í forgrunni er Björgvin SH 500.














                                                                                             (C) Þórhallur S Gjöveraa. 4 apríl 2019.

03.04.2019 11:22

1137. Barði NK 120. TFTS. Fyrsti skuttogari Síldarvinnslunnar hf.

Skuttogarinn Barði NK 120 var smíðaður hjá Ateliers et Chantters de la Manghe í Frakklandi árið 1967. 328 brl. 1.200 ha. Deutz díesel vél. Hét áður Mausson LR 5207 frá La Rochelle í Frakklandi. Fyrsti skuttogarinn í eigu Síldarvinnslunnar h/f í Neskaupstað, kom fyrst til heimahafnar, 14 desember 1970. Togarinn hóf veiðar 11 febrúar árið 1971 og þar með var hin eiginlega skuttogaraöld Íslendinga hafin. Barði var seldur til Frakklands, 24 október 1979. Hét svo þar Boullonais BL 463291.


1137. Barði NK 120 að koma til löndunar í Neskaupstað.                       (C) Guðmundur Sveinsson.

       Skuttogarar til Austfjarða

Í þessum mánuði bættust tveir skuttogarar í flota Austfirðinga, fyrstu skipin þeirrar tegundar, sem Austfirðingar eignast. Hér er um systurskip að ræða, 494 tonn eftir eldri mælingareglum með 1.200 ha Deutz aðalvél og þrjár ljósavélar af franskri gerð. Bæði eru skipin smíðuð árið 1967 og eru keypt hingað frá Frakklandi. Öll siglingafæki eru ný. Skipin eru tveggja þilfara þannig að fiskaðgerð fer fram í lokuðu rúmi. Eigendur annars skipsins, Barða NK 120, er Síldarvinnslan hf. í Neskaupstað, en hitt, Hólmatind SU 220, á Hraðfrystihús Eskifjarðar hf. Það var 14. desember, að Barði kom til Norðfjarðar. Skipstjóri á honum er Magni Kristjánsson, 1. stýrimaður er ráðinn Birgir Sigurðsson og 1. vélstjóri Sigurður Jónsson, allir í Neskaupstað.
Talsverðar breytingar verða gerðar á skipinu og verða þær framkvæmdar af Dráttarbrautinni hf. Er hér einkum um að ræða breytingar á matsal og eldhúsi til samræmis við kröfur okkar, færibönd fyrir fisk á milliþilfar, smábreytingar í lestum og gerð ísgeymsla á milliþilfari. Loks verður skipið útbúið til veiða með flotvörpu. Vinna við breytingarnar hófst skömmu eftir komu skipsins og sækist verkið mjög vel og er gert ráð fyrir að skipið geti farið á veiðar eftir mánuð hér frá. Hólmatindur kom til Eskifjarðar  22. desember. Breytingar þær, sem á skipinu verða gerðar, munu mestallar framkvæmdar á Eskifirði. Skipstjóri á Hólmatindi verður Auðunn Auðunsson, nafnkunnur togaraskipstjóri, 1. vélstjóri Guðmundur Valgrímsson úr Reykjavík, en 1. stýrimaður hefur ekki enn verið ráðinn. Menn vænta mikils af þessum skipum. Talið er, að skuttogarar hafi mun meiri möguleika til að fiska en síðutogarar. Mætti því ætla að afkoma þeirra verði betri og sjómannahlutur hærri. Þá er þess og vænzt, að útgerð þeirra verði til að lengja til muna árlegan reksturstíma frystihúsanna og mynda traustari rekstursgrundvöll fyrir þau og auka á atvinnuöryggi verkafólks.

Austurland. 30 desember 1970.


Barði NK 120 á toginu innan um gömlu síðutogaranna.                            (C) Ásgrímur Ágústsson.


Barði NK 120 að veiðum í Grindavíkurdýpi árið 1977.                               Ljósmyndari óþekktur.

               Fyrsta veiðiferðin

Á miðvikudagsmorgun kom Barði úr sinni fyrstu veiðiferð sem íslenzkt skip. Hafði hann aðeins verið úti nokkra daga og oft verið bræla. Afli skipsins var um 40 tonn. Allur útbúnaður reyndist í lagi og láta skipverjar vel af skipinu og vinnuaðstöðu um borð. Hólmatindur, Eskifirði, er nú í sinni fyrstu veiðiferð eftir að skipið komst í eigu íslendinga.

Austurland. 19 febrúar 1971.


Barði NK 120 á frímerki.                      Byggt á ljósmynd Önnu Kristjánsdóttur vélstjóra.

    Fyrsti skuttogari Íslendinga                              á frímerki

Sumarið 2014 kom út ný útgáfa frímerkja hjá póstinum og bar hún heitið togarar og fjölveiðiskip. Í útgáfunni voru fjögur frímerki og var eitt þeirra með mynd af skuttogaranum Barða NK 120 sem Síldarvinnslan hf festi kaup á árið 1970.
Barði varð fyrir valinu vegna þess að hann er talinn fyrsti togari landsmanna með hefðbundinn skuttogarabúnað og sem eingöngu var ætlaður til togveiða. Frímerkið var hannað af Elsu Nielsen en myndir byggir á ljósmynd sem Anna K Kristjánsdóttir vélstjóri á Vestmannaey VE 54 tók.

Síldarvinnslan í 60 ár.


1137. Barði NK 120 í slipp hjá Dráttarbrautinni hf í Neskaupstað árið 1972. Togarinn var eitt af stærstu skipunum sem tekin voru upp í brautina.   Ljósmyndari óþekktur.

                   Barði farinn

Það var ekki laust við að menn væru með söknuð í huga miðvikudaginn fyrir rúmri viku er Barðinn fór frá Neskaupstað í síðasta skipti. Fjöldi fólks var saman kominn til að kveðja skipið. Ekki virtist Barðinn alveg tilbúinn til að yfirgefa staðinn því rétt í þann mund er skipið skyldi leggja af stað kom upp bilun í stýrisbúnaði skipsins og tafðist brottför hans af þessum sökum frá Neskaupstað um nokkra tíma. Barðinn hélt frá Neskaupstað fullfermdur fiski sem skipið seldi í Bretlandi sl. mánudag. Gerði Barðinn þar mjög góða sölu seldi 120 tonn fyrir 74 milljónir íslenskra króna. Meðalverð 614 kr. pr. kg. Barðinn er nú væntanlega kominn til Frakklands og hið nýja skip, sem keypt hefur verið í stað hans, er væntanlegt til Englands nú um helgina þar sem fram fara á því breytingar en skipið er væntanlegt til Neskaupstaðar rétt fyrir jól.

Austurland. 1 nóvember 1979.


02.04.2019 15:11

Geir goði VE 10.

Mótorbáturinn Geir goði VE 10 var smíðaður í Reykjavík (Skipasmíðastöð Reykjavíkur ?) árið 1925 fyrir Gunnar Ólafsson & Co og Sigurð Hróbjartsson í Vestmannaeyjum. Eik og fura. 21 brl. 46 ha. Hansa vél. Ný vél (1934) 70 ha. June Munktell vél. Geir goði sökk í róðri við Vestmannaeyjar 27 janúar árið 1943. Áhöfnin, 5 menn, björguðust um borð í Vestmannaeyjabátinn Glað VE 270.


V.b. Geir goði VE 10 í innsiglingunni til Vestmannaeyja.                             Ljósmynd í minni eigu.

      V.b. Geir goði VE 10 sekkur

Hinn 27. Janúar þetta ár, sökk vélbáturinn Geir Goði frá Vestmannaeyjum, í fiskiróðri. Áhöfn bátsins var bjargað. Báturinn sökk þegar hann var á heimleið úr róðrinum. Veður var heldur slæmt, allmikill vindur og mikið brim. Kom mikill leki að bátnum um kl. 18, og jókst hann svo ört, að vélin stöðvaðist skömmu síðar. Kveiktu skipverjar þá bál á þilfari til þess að vekja á sér eftirtekt annarra báta, sem voru á sjó á svipuðum miðum, en það gekk illa, og var búið að brenna öllu sem til var, þegar v.b. Glaður kom á vettvang. Reyndi hann að bjarga skipinu til lands, en það sökk nálægt Þrídröngum. Skipverjar voru þá allir komnir um borð í Glað.
Formaður á Geir goða var Kristinn Sigurðsson, en Ólafur Sigurðsson á Glað. v.b. Geir goði var 21 rúml. brúttó að stærð, byggður í Reykjavík árið 1925. Eigandi var Gunnar Ólafsson & Co. o. fl. í Vestmannaeyjum.

Sjómannablaðið Víkingur. 2 tbl. 2 febrúar 1943.


31.03.2019 10:59

B. v. Ingólfur Arnarson RE 153. LBMW. Blýantsteikning.

Botnvörpungurinn Ingólfur Arnarson RE 153 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1912 fyrir Pétur J Thorsteinsson útgerðarmann og Fiskiveiðafélagið Hauk í Reykjavík. 306 brl. 520 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 540. Árið 1914-15 mun Fiskiveiðafélagið Haukur verið skráður eigandi. Skipið var selt franska flotanum árið 1917. Árið 1923 var skipið selt, S.A. P. Cheries Ostendaises í Belgíu, hét þar Nebris O 104. Selt 10 apríl 1924, Consolidated Steam Fishing & Co í Grimsby, hét Nebris GY 84. Nebris stundaði veiðar m.a. við Íslands og var þekktur landhelgisbrjótur og mun hafa verið tekinn nokkrum sinnum að ólöglegum veiðum. Togarinn mun hafa verið seldur í brotajárn árið 1936-37. Þessi blýantsteikning hér að neðan er eftir Elías Pálsson og sýnir þegar togarinn kom í fyrsta sinn til Reykjavíkur hinn 19 október árið 1912.


B.v. Ingólfur Arnarson RE 153.                                                       Blýantsteikning eftir Elías Pálsson.


B.v. Ingólfur Arnarson RE 153 að landa síld á Akureyri.                               (C) Hallgrímur Einarsson.
 

         Nýjasti botnvörpungurinn

 

Botnvörpungurinn Ingólfur Arnarson RE, eign félagsins Haukur (Pétur J. Thorsteinsson og félagar), kom hingað í morgun. Skipstjóri er Pétur Bjarnason. Farþegar frá Englandi voru Pétur J. Thorsteinsson og Gunnar Egilsson.

Ísafold. 19 október 1912.

 

 

 

30.03.2019 21:27

512. Gæfa VE 9.

Mótorbáturinn Gæfa VE 9 var smíðuður í Djupvik í Svíþjóð árið 1934 fyrir Einar S Guðmundsson útgerðarmann í Keflavík. Hét fyrst Örninn GK 127. Eik og fura. 23 brl. 80 ha. June Munktell vél. Seldur 30 september 1940, Snorra Þorsteinssyni og Sigurþóri Guðfinnssyni í Keflavík, og Oddi Ólafssyni á Vífilsstöðum, Gullbryngusýslu, hét Bryngeir GK 127. Seldur 10 mars 1941, Ármanni Eiríkssyni útgerðarmanni í Neskaupstað, hét þá Bryngeir NK 87. Seldur 4 mars 1944, Halldóri Lárussyni, Herbert Þórðarsyni og Gunnari Bjarnasyni í Neskaupstað, hét þá Freyja NK 87. Ný vél (1945) 115 ha. Caterpillar vél. Seldur 1 ágúst 1957, Óskari Gíslasyni og Einari Gíslasyni (Einar í Betel) í Vestmannaeyjum, hét Gæfa VE 9. Seldur 28 maí 1964, Sigurði Jónssyni í Keflavík, hét þá Gæfa KE 111. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 27 maí árið 1970.


Gæfa VE 9 upp í fjöru í Vestmannaeyjum.                                                    Ljósmyndari óþekktur.


Bræðurnir Óskar og Einar Gíslasynir með sænska ferðamenn sér við hönd.     Ljósmyndari óþekktur.

                   M.b. Örninn

Nýr vélbátur, smíðaður í Svíþjóð, kom til Vestmannaeyja í dag. Er þetta 25 smálesta bátur, smíðaður í Djúpvík í Svíþjóð, með , 80-90 ha. June-Munktell vél og öðrum nýtísku útbúnaði vélbáta. Báturinn er smíðaður fyrir Einar Guðmundsson útgerðrarmann í Keflavík. Formaður á bátnum er hinn alkunni reykvíski sjógarpur, Þórarinn Guðmundsson skipstjóri, en með honum fóru til þess að sækja bátinn þrír menn úr Reykjavík og Vestmannaeyjum. Báturinn og vélin reyndist ágætlega í þessari fyrstu erfiðu ferð, en hann lenti í ofviðrum þeim hinum miklu, sem gengið hafa að undanförnu og valdið miklu tjóni, á siglingaleiðum til Íslands og hér við land. Þórarinn hefir lent i mörgum svaðilförum, og eins að þessu sinni, og ávalt farnast vel.

Vísir. 2 febrúar 1935.



29.03.2019 07:49

B. v. Draupnir RE 258. LCHD.

Botnvörpungurinn Draupnir RE 258 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1908. 284 brl. 550 ha. 3 þennslu gufuvél. 41,13 x 6,87 x 3,64 m. Smíðanúmer 171. Hét fyrst Macfarlane H 997 og var smíðaður fyrir Neptune Steam Fishing Co Ltd í Hull. Var í þjónustu breska sjóhersins sem tundurduflaslæðari, 1915-1919, hét þá HMT Macfarlane FY 1220. Seldur 1918-19, W. Allnut í Grimsby, hét Macfarlane GY 1119. Seldur 9 febrúar 1920, hf. Draupni í Vestmannaeyjum, hét Draupnir VE 230. Seldur árið 1925, hf. Draupni í Reykjavík, hét þá Draupnir RE 258. Draupnir var einn af þeim togurum sem lentu í Halaveðrinu mikla, 7-8 febrúar árið 1925 og var hætt kominn. Seldur 11 október 1932, Samvinnufélaginu Bjargi í Reykjavík, hét Geysir RE 258. ( Sjómannaalmanak frá 1933 segir hf. Njörð í Reykjavík eiganda skipsins). Togarinn strandaði við Tornes Point við norðanverðan Pentlandsfjörð í Orkneyjum, 19 nóvember árið 1933. Áhöfnin, 13 menn auk 2 farþega björguðust á land. Togarinn náðist út stuttu síðar en sökk er björgunarskip var með hann í togi á Pentlandsfirði.


B.v. Draupnir RE 258 í höfn í Aberdeen.                          Ljósmyndari óþekktur. Mynd í minni eigu.

 

        Nýkeyptir botnvörpungar

Tveir nýkeyptir botnvörpungar bafa enn bætst við íslenska fiskiflotann. Annar heitir Draupnir og er skrásettur í Vestmannaeyjum. Hann kom hingað í fyrrakvöld. Skipstjóri er Guðmundur Sigurðsson (áður skipstjóri á Frances Hyde). Draupnir er sagður 12 ára gamall, stórt og mjög vandað skip. Hann kom með fullfermi af kolum.
Hinn botnvörpungurinn heitir Geir , og er sagður 6 ára gamall. Eigendur eru Fenger stórkaupmaður og fl. Skipstjóri Jón Jónasson. Geir er stórt skip og traust. Hann kom með kolafarm.

Vísir. 15 mars 1920.

 

         Togararnir í Halaveðrinu
                   "Draupnir"

Hann missti bátinn og bátspallinn að miklu leyti. Rúmum 30 lifrarfötum vörpuðu skipverjar í sjóinn til að Iægja hann. Skinstjóri, stýrimaður og bátsmaður stóðu 15 klukkustundir samfleytt á stjórnpalli, og var aldrei hægt að skifta um vaktir á þeim tíma, þótti óðsmannsæði, að fara á milli hásetaklefa og stjórnpalls. Á stjórnpalli stóðu þeir í mitti í sjó löngum stundum. Það er nokkuð til marks um verðurhæðina. að fyrst eftir að Draupnir ætlaði til hafnar, hleypti hann, án þess að vjelin væri í gangi, undan veðrinu, og fullyrðir einn af skipverjum við Morgunblaðið að þá hafi skipið gengið um 6 mílur. En svo var stórsjórinn mikill, að skipstjóri treysti skipinu ekki tii að þola þá sjóa, sem komu á skut þess, og snjeri því þess vegna upp í.

Morgunblaðið. 11 febrúar 1925.


B.v. Draupnir VE 230 á siglingu.                                                          (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
 

 Botnvörpungurinn "Geysir" strandar

Botnvörpungurinn Geysir strandaði á Straumnesi í Orkneyjum, seint í gærkveldi, í dimmviðri og roki. Hjálparskip komu á vettvang og bjargaði nokkru fyrir miðnætti öllum skipverjum, nema skipstjóra og loftskeytamanni, er var bjargað nokkru síðar. Tveimur farþegum sem á skipinu voru, var einnig bjargað. Geysir var á leið hingað til lands.
Geysir hét áður Draupnir og er nú eign samvinnufélagsins "Bjargi," sem í eru skipstjórinn Alexander Jóhannesson og skipshöfnin.

Vísir. 20 nóvember 1933.
 

     "Geysir" sökk á Pentlandsfirði

Botnvörpungurinn Geysir sem strandaði um daginn við Orkneyjar, hefir náðst út, en sökk, er björgunarskip var með hann í eftirdragi á Pentlandsfirði. Strandmennirnir komu með Brúarfossi.

Austfirðingur. 2 desember 1933.

28.03.2019 08:50

540. Halldór Jónsson SH 217. TFLH.

Vélskipið Halldór Jónsson SH 217 var smíðaður í Skipasmíðastöð KEA á Akureyri árið 1961 fyrir Halldór Jónsson útgerðarmann í Ólafsvík. Eik. 96 brl. 400 ha. Mannheim vél. Frá 21 júlí 1966 var Stakkholt hf. í Ólafsvík eigandi skipsins. Skipið var endurmælt árið 1974 og mældist þá 92 brl. Ný vél (1974) 565 ha. Caterpillar vél. Selt 9 júní 1990, Haukafelli hf. á Höfn í Hornafirði, sama nafn og númer. Selt 30 október 1990, Emil Þór Ragnarssyni í Reykjavík, sama nafn og númer. Selt til Svíþjóðar og tekið af skrá 7 nóvember árið 1990.


540. Halldór Jónsson SH 217 á sundunum við Reykjavík. (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.


540. Halldór Jónsson SH 217. Líkan.  (C) Magnús Jónsson.  Úr safni Sæmundar Þórðarsonar.

           Nýr bátur til Ólafsvíkur

Ólafsvík, 10. júní.
Í dag kom hingað nýr bátur, eign Halldórs Jónssonar, útgerðarmanns, og Leifs sonar hans. Báturinn heitir Halldór Jónsson SH 217, var smíðaður á Akureyri í skipasmíðastöð KEA. Hann er 96 smálestir að stærð með 400-500 ha" Mannheim vél og í bátnum eru hin fullkomnustu siglingar og fiskileitartæki og frágangur allur á bátnum hinn vandaðasti. Þess má geta, að þetta er 5. báturinn sem KEA smíðar fyrir Ólafsvík. Halldór Jónsson, útgerðarmaður, er 56 ára gamall. Hann reri til fiskjar með föður sínum þegar á barnsaldri og hóf snemma formennsku, fyrst á árabát,síðan á trillubát og loks á þilfarsbát, sem hann keypti þá og gerði út með Kristjáni Þórðarsyni, stöðvarstjóra, sem nú er látinn fyrir nokkru. Hann keypti hluta Kristjáns í útgerðinni eftir nokkur ár, en gerði síðar út tvo báta í félagi við Guðlaug Guðmundsson, útgerðarmann hér í Ólafsvík.
Halldór hætti formennsku er synir hans urðu fulltíða og gerðust þeir formenn á bátum hans hver af öðrum, Jón Steinn, Kristmundur og Leifur, sem eru ötulir aflamenn. Halldór á nú fimm báta, þrjá nýja báta, sem allir eru smíðaðir fyrir hann á Akureyri og tvo eldri 36 tonna báta. Hann hefur annast svo um útgerð sína, að til fyrirmyndar má teljast, enda hefur aflasæld sona hans stutt mjög aðgengi hans. Við Ólsarar fögnum hinum nýja farkosti og óskum Halldóri og fjölskyldu hans til hamingju með hið nýja myndarlega skip.

Alþýðublaðið. 14 júní 1961.


27.03.2019 13:53

M.b. Bragi ÍS 415. / Djúpbáturinn Bragi.

Mótorbáturinn Bragi ÍS 415 var smíðaður í Bátasmíðastöð Elíasar Johansen í Álaskersvík í Þórshöfn í Færeyjum árið 1917. 47 brl. Vélarstærð og tegund óþekkt. Bátinn smíðaði Elías Johansen skipasmiður frá Rættará fyrir séra Ásgeir Ásgeirsson í Hvammi, Arngrím Fr. Bjarnason prentara, Odd Guðmundsson í Bolungarvík og Sigurð H. Þorsteinsson múrara á Ísafirði. Árið 1920 er Bragi kominn í eigu Landsbankans á Ísafirði. Seldur sama ár, hf. Djúpbátnum á Ísafirði, sama nafn en ekkert skráningarnúmer (það eru bara fiskiskip sem hafa skráningarnúmer). Báturinn strandaði undir Völlunum (Eyrarhlíð) í Ísafjarðardjúpi hinn 12 febrúar árið 1925. Bragi var þá á leið frá Langeyri til Ísafjarðar hlaðin saltfiskfarmi í eigu hf. Kveldúlfs í Reykjavík. Mannbjörg varð.


Bragi ÍS 415 í Reykjavíkurhöfn stuttu fyrir 1920. Báturinn er trúlega á síldveiðum, enda smíðaður sem slíkur í Færeyjum. Steinbryggjan til hægri.    (C) Magnús Ólafsson.

                    Ísafjörður

Þrír vélbátar hafa bætst við vélbátaflotann þessa dagana, eru tveir þeirra nýir.
Þórður Kakali nefnist annar nýju bátanna. Hann er um 34 smál. að stærð, með 66 hesta Tuxham-vél, útbúinn með raflýsingu og leitarljósi, mun enginn bátur hér hafa fengið það tæki fyrr. Báturinn er smíðaður hjá Andersensbræðrum í Friðrikssudi í Danmörku. Ólafur Sigurðsson, áður stýrimaður á Goðafossi, stýrði honum hingað til lands, en vélarmaður var Björn H. Guðmundsson héðan úr bænum. Eigendur bátsins eru þeir Karl Löve, séra. Magnús Jónsson og Sigurður Sigurðsson lögmaður.
Hinn báturinn nefnist Bragi og er smíðaður hjá Elíasi Johansen í Færeyjum. Er hann stærsti vélbáturinn sem hingað hefir komið, um 47 smálestir að stærð, vel lagaður og vandvirknisiega byggður, einhver laglegasti báturinn að útliti. Virðist af því mega marka, að þeir Færeyingar standa þeim dönsku ekki að baki í skipabyggingum. Bátinn eiga þeir séra Ásgeir í Hvammi, Arngrímur Fr. Bjarnason prentari, Oddur Guðmundsson í Bolungarvík og Sigurður Þorsteinsson múrari hér í bænum. Eiríkur Einarsson skipstjóri kom með bátinn frá Færeyjum. Hefir hann einnig haft umsjón með smíði hans.
Þriðji báturinn heitir Mercur, um 23 smálestir að stærð, með frekra 20 h. vél. Var póstbátur í Færeyjum, en keyptur þar fyrir Skúla Einarsson íshússtjóra.

Vestri. 14 júní 1917.


Djúpbáturinn Bragi við Kompaníbryggjuna á Ísafirði.                                      (C) Skúli Kr. Eiríksson.

             Vélbátur strandar

Djúpbáturinn Bragi frá Ísafirði strandaði í fyrrinótt á Arnarnesi við Skutulsfjörð, í niðdimmri þoku. Var hann að koma úr skemmtiför innan úr Reykjarfirði og voru farþegar á annað hundrað. Veður var gott og sjólaust. Allir komust heilu og höldnu í land. Báturinn náðist á flot í gær.

Vísir. 19 júlí 1922.


Álaskersvík í Þórshöfn. Bragi var smíðaður í stóru skemmunni til vinstri á myndinni.

                Bragi fer á land

Fyrra fimmtudag fór Bragi inn á Langeyri til að sækja saltfisk, seldan "Kveldúlfi". Veður var risjótt, kafald með köflum, fjallabjart á milli. Á heimleiðinni um kvöldið fór Bragi á land neðan undir Völlunum, þar í grend sm Vesta gamla festi sig um árið. Atvikum hagaði þannig: Ljós brann á vita, "lögg" flaut úti, kompás í lagi, kuldastormur, undirsjór þungur, alldimt él, háflóð og hraður gangur. Vesturland telur bátinn tryggðan fyrir 40 þúsund kr. og farminn að fullu.
Menn hjálpuðust allir.

Skutull. 20 febrúar 1925.

                  Vertíðarlok

Ekki þarf að gjöra ráð fyrir að Bragi komi á flot aftur. Hann mun hafa þokast það betur á land í síðasta stórstraumi að fullt og fast strand verður. Bragi þótti jafnan góður bátur og munu Djúpmenn sakna hans. Hann var í upphafi keyptur til Djúpferðanna fyrir nær því hálfu hærra verð en fært var, ef útgerðin átti að geta borið sig sæmilega. Að því leyti var fyrirtækið "í grænum sjó" frá upphafi. Er nú slíkur endahnútur á riðinn og má Landsbankinn vita hvað kostar. Ber það að tileinka stjórn og forsjá Jóns Auðuns.

Skutull. 27 febrúar 1925.


17.03.2019 08:31

M. b. Magni NK 68.

Mótorbáturinn Magni NK 68 var smíðaður í Molde í Noregi árið 1935 fyrir Guðjón Eiríksson í Dagsbrún og fl. ( Berg Eiríksson, Ásgeir Bergsson og Tómas Jóhannesson ) í Neskaupstað. Eik og fura. 19 brl. 25 ha. Wichmann vél. Ný vél (1944) 108 ha. Buda vél. Magni fórst í róðri í Faxaflóa 9 febrúar árið 1946. 4 menn fórust en 1 manni var bjargað við illan leik um borð í vélbátinn Barðann TH 243 frá Húsavík.


Magni NK 68 við Sverrisbryggjuna sumarið 1937. Til vinstri sér í athafnasvæði Sigfúsar Sveinssonar og Sigfúsarbryggjuna úti á Neseyrinni. Hún var byggð árið 1915.  (C) Lára Ólafsdóttir.

   Norðfirðingar auka skipastól sinn

Í fyrradag kom hingað til Norðfjarðar frá Fredrikssund í Danmörku eftir vikuferð með viðkomu á Shetlandseyjum og Færeyjum mótorbáturinn Þráinn NK 70, tuttugu smálestir að stærð. Báturinn er smíðaður í Fredrikssund og hefir 50-60 hestafla Tuxhamvél. Skipstjóri á uppsiglingu var Bjarni Jónsson Fáskrúðsfirði, en eigandi bátsins er Ölver Guðmundsson útgerðarmaður. Einnig kom hingað til Norðfjarðar í gær frá Molde í Noregi, eftir þriggja sólarhringa ferð yfir hafið, og eins og hálfs sólarhrings töf í dimmviðri við Papey, mótorbáturinn Magni NK 68, stærð 18 tonn með 24-25 hestafla Wichmanns mótorvél. Hann er smíðaður í Molde og er eigandi hans Guðjón Eiríksson frá Dagsbrún og félagar. Báðir bátarnir eru raflýstir og ágætlega útbúnir og hefir Norðfirski flotinn þar með fengið álitlega viðbót.

Alþýðublaðið. 12 mars 1935.



Ytri bæjarbryggjan og þar upp af, Hafnarhúsið, nú safnahús Norðfirðinga. Bátarnir í fjörunni eru, Magni NK 68 nær og Þór NK 32. Grimsbytogari við bryggjuhausinn og aðrir bátar í flota Norðfirðinga liggja einnig við bryggjuna.      (C) Björn Björnsson. 


Magni NK 68 í bóli sínu neðan við Þórhól í Neskaupstað.                       (C) Salgerður Jónsdóttir.

  Mannskaðaveðrið 9 febrúar 1946

Síðastliðinn laugardag gerði aftaka veður á Suður og Vesturlandi. Flestir bátar voru þá á sjó og hrepptu hið versta sjóveður og komust margir við illan leik í land, eftir að hafa orðið fyrir línutapi og fengið áföll, Fjögurra báta er saknað. Af þeim er vitað með vissu um afdrif eins, m.b. Magna frá Norðfirði, en hann sást farast út af Garðskaga og líkur benda til um sömu afdrif annars, m.b. Geirs frá Sandgerði, þvi farið er að reka lóðabelgir og brak úr stýrishúsi hans á fjörunum skammt frá Sandgerði. Um afdrif hinna bátanna tveggja, sem saknað er, er ekki vitað, en þeirra hefir verið leitað af bátum og flugvélum árangurslaust. Þeir heita Max, frá Bolungarvík, og Alda, frá Seyðisfirði. Þá tók út tvo menn af vélbátnum Hákon Eyjólfsson, frá Garði. Alls er óttast um, að rúmlega tuttugu menn hafi farizt í ofviðri þessu.
Vélbáturinn Magni frá Norðfirði var gerður út frá Sandgerði. Hann fór í róður eins og allir hinir bátarnir, á föstudagskvöld. Var hann seint búinn að draga línuna, eins og fleiri bátar, og var á leiðinni til lands, er honum hvolfdi undan Garðskaga. Nærstaddur var þar báturinn Barði frá Húsavík og sá til afdrifa Magna og fór á Vettvang. Þegar þangað kom flaut brak á sjónum og hélt einn mannanna sér uppi á því og varð honum bjargað. Til annarra af skipshöfninni sást ekki. Sá, sem komst af, var vélamaðurinn. Áhöfnin var alls fimm menn. Frá hinum bátunum þremur, sem saknað er, hefir ekkert frétzt, þrátt fyrir mikla eftirgrennslan, en vegna veðurofsans síðari hluta laugardagsins, er talið ólíklegt, að nokkur þeirra sé ofansjávar, fyrst þeir eru ekki enn búnir að ná landi. Áhöfn hvers báts hefir verið fimm menn og hafa því farizt 21 maður i óveðrinu, svo vitað er um, 19 af bátunum fjórum, en auk þessa tók tvo menn út af vélbátnum Hákoni Eyjólfssyni frá Garði, sem ekki náðust aftur.
Vélbáturinn Geir frá KeflavíK réri þaðan á föstudagskvöldið og vissu menn það síðast til hans á laugardag, að hann var að draga lóðir sínar. Síðan hefir ekkert til hans spurzt, nema hvað farið er að reka úr honum skammt frá Sandgerði. Hefir rekið bjóð og lóðabelgi og einnig brak úr stýrishúsi og aftursigla. Líkur benda því til, að báturinn sé ekki lengur ofansjávar. Til vélbátsins Max frá Bolungarvík hefir ekkert spurzt síðan hann fór í róður á föstudagskvöld. Lóðir bátsins fundust á sunnudaginn um 10 sjómílur undan Deild. Þann dag leituðu sex bátar að Max í allgóðu veðri og góðu skyggni, en sú leit bar engin árangur. Fjórði báturinn, sem saknað er, er vélbáturinn Aldan frá Seyðisfirði, sem rær frá Hafnarfirði. Til hans hafði ekkert spurzt í gærdag. Margir bátar frá verstöðvum við Faxaflóa og vestanlandi komust við illan leik til hafnar og voru sumir hætt komnir. Allt lauslegt tók fyrir borð á mörgum bátum, rúður brotnuðu og einnig urðu nokkrar aðrar skemmdir á bátum vegna sjógangs. Lóðatap er mikið, fæstlr bátar gátu dregið allar lóðir sínar og nokkrir sáralítið af þeim. Vera má þó, að nokkuð af bátum finni lóðir sínar aftur, enda reru flestir bátar við Faxaflóa aftur á sunnudagskvöldið. Vélbáturinn Freyja hélt uppi björgunarstarfsemi á Faxaflóa ofviðrisdaginn í stað Sæbjargar og hjálpaði þremur bátum til hafnar, Bjarna Ólafssyni, Eini og Faxa. Þá fór linuveiðarinn Ólafur Bjarnason, sem var á Akranesi, er ofviðrið skall á, bát til hjálpar, sem var með bilaða vél og virtist mundi reka upp á Mýrar. Var það vélbáturinn Særún frá Siglufirði, en skipverjum tókst að koma vélinni í lag og náði báturinn þvi heilu og höldnu til lands hjálparlaust. Þrjá menn tók út af vélbátnum Ófeigi frá Vestmannaeyjum og náðust þeir allir inn aftur og má það teljast hraustlega gert í slíkum veðurofsa og sjógangi. Skipstjóri á Ófeigi er Angantýr Elíasson. Báturinn Hermóður af Akranesi varð fyrir vélbilun, er hann var að fara frá bryggju til legufæra sinna á laugardagskvöldið, og rak hann á land upp í kletta hjá Sólmundarhöfða við Langasand. Mannbjörg varð, en líklegt er talið, að báturinn hafi orðið fyrir verulegum skemmdum og muni ekki nást út, nema sjór kyrrist fljótlega.
Þeir sem fórust með Magna NK 68 voru:
Sigurður Samsonarson skipstjóri Neskaupstað.
Steingrímur Jónsson háseti Neskaupstað.
Halldór Sigurðsson háseti Neskaupstað.
Erlingur Þorgrímsson háseti Selnesi við Breiðdalsvík.
Skipverjinn sem bjargaðist hét Ríkharður Magnússon (Gæi í Baldurshaga) vélamaður Neskaupstað.

Tíminn. 12 febrúar 1946.


Flettingar í dag: 591
Gestir í dag: 71
Flettingar í gær: 1220
Gestir í gær: 64
Samtals flettingar: 908535
Samtals gestir: 66150
Tölur uppfærðar: 27.7.2024 12:37:11