25.06.2019 19:45

B.v. Freyr RE 1. TFXO.

Togarinn Freyr RE 1 var smíðaður hjá A.G. Weser Werk Seebeck í Bremerhaven í Þýskalandi árið 1960 fyrir Ísbjörninn hf. í Reykjavík. 987 brl. 2.300 ha. Werkspoor vél, 1.800 Kw. 67,61 x 10,33 x 4,85 m. Kom togarinn til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur í fyrsta sinn hinn 24 ágúst sama ár. Skipið var selt 2 september 1963, Ross Trawler Ltd í Grimsby, fékk nafnið Ross Revenge GY 718. Togarinn kom nokkuð við sögu í þorskastríðunum á 8 áratugnum og þótti nokkuð skæður. Skipstjóri á honum var lengi vel Johnny Meadows. Skipið var selt í maí 1983, Seamore Company í Liechtenstein (Ernst Kunz), og sama dag skráð í eigu Grothan Steamship Line S.A í Panama sem einnig átti Radio Caroline útvarpsstöðina. Skipið lá lengi í Kentish Knock flóanum út af ánni Times. Þessi útvarpsstöð var starfrækt í skipinu til ársins 1991. Eftir það var togaranum komið fyrir í Tilbury Dock, nærri Essex. Skipið var gert upp þar á árunum 2004-06, vélin, (sama) og vistarverur og annað innandyra tekið í gegn. Ross Revenge liggur nú við múrningu á Blackwater Estuary flóa við Bradwell í Essex á Englandi og er safn um sögu útvarpsstöðvarinnar Radio Caroline.


Togarinn Freyr RE 1 í Reykjavíkurhöfn með 820 tonn af síld sem lestuð var á Seyðisfirði.                                                            (C) Ari Kárason.

Nýr 1000 lesta togari bætist í flotann

"Freyr" RE 1 kom til Reykjavíkur í gær

Í gær bættist nýr 1000 tonna togari við togaraflota okkar. Er það b.v. Freyr RE 1, eign fyrirtækisins Ísbjörninn hf. (Ingvar Vilhjálmsson). Skipið er smíðað hjá A. G. Weser Werk Seebeek í Bremerhaven og var afhent hinn 19. þ.m. Freyr er stærsti togari landsins, sem smíðaður hefir verið til þessa, 987 brúttólestir. Lengdin er 210 fet og breidd 33 fet. Aðalvélin er "Werkspoor" diesel-vél, 2.300 hestöfl við 280 sn. Vélin er tengd við skiptiskrúfu. Í stjórnkassa í stýrishúsi, þar sem mörg stjórntæki hafa verið sambyggð, er hægt að stjórna skiptiskrúfunni og einnig er þaðan hægt að aftengja skrúfuna frá aðalvélinni. Hjálparvélar eru þrjár.
Togarinn er búinn öllum nýjustu mælitækjum, m.a. djúpmælir fyrir togvörpu, sem er alger nýjung hér á landi. Mælir þessi er til þess að sjá hvernig varpan fer í sjónum og hvort fiskur er fyrir framan hana. Það má einnig telja til nýjunga að skipið er ekki með lifrarbræðslu og mun fyrsti togarinn, sem ekki hafir slíkan búnað. Þetta stafar af því að til fellur heldur lítil lifur um borð í togurunum og oft engin, t.d. er þeir eru á karfaveiðum. Sparar þetta lifrarbræðslumann um borð og verður hún unnin í landi. Allur er frágangur skipsins vandaður og fullkominn. Reynsluferð var farin 19. þ. m. og reyndist hraðinn vera 16,1 sjómíla. Skipstjóri á skipinu er Guðni Sigurðsson er var á Ask, stýrimaður Guðmundur Guðlaugsson og 1. vélstjóri Aðalsteinn Jónsson. Samningar að smíði skipsins voru undirritaðir af Ingvari Vilhjálmssyni útgerðarmanni 1. ágúst sl. ár, en eftirlit með verklýsingu og samningum höfðu þeir Hjálmar Bárðarson, skipaskoðunarstjóri og Erlingur Þorkelsson, vélfræðingur.

Morgunblaðið. 25 ágúst 1960.


Togarinn Freyr RE 1 við komuna til landsins 24 ágúst 1960.                            Mynd úr safni mínu.


B.v. Freyr RE 1.                                                                               Úr safni Tryggva Sigurðssonar.


Ross Revenge GY 718 í höfn í Grimsby.                                                               (C) James Cullen.


Ross Revenge sem útvarpsstöðin Radio Caroline.                                  (C) Radio Caroline project.


B.v. Freyr RE 1. Líkan.                                                                              (C) Þórhallur S Gjöveraa.


B.v. Ross Revenge GY 718. Málverk.                                                                  (C) Steve Farrow.

    Freyr á að heita Ross Revenge

Í gærdag var gengið frá kaupum á togaranum Frey. Kaupandinn er Ross-útgerðarfélagið í Grimsby, en forstjóri þess, John Ross, kom hingað til lands þessara erinda. Blaðamaður Morgunblaðsins hitti í gær þá Ingvar Vilhjálmsson, fyrrverandi eiganda Freys, John Ross og dr. Magnús Z. Sigurðsson, sem hafði milligöngu um kaupin, á Ingólfsgarði.
Þetta verður stærsti togari í Bretlandi, af venjulegri gerð, segir Ross. Aðeins skuttogararnir eru stærri. - Hve marga togara á Ross hringurinn? - Þeir eru um 60. Auk þess eru 5 í smíðum, þar af 2 skuttogarar. - Hver er reynsla ykkar af skuttogurum - Skuttogarar eru miklu dýrari en venjulegir togarar. Þeir eru hentugri, þegar um verksmiðjuskip er að ræða, t. d. þegar aflinn er frystur um borð. - Margir ráðlögðu mér að kaupa heldur skuttogara í stað Freys, segir Ingvar. - Freyr er byggður 1959, en um það leyti smíðuðu Þjóðverjar fjölda af skuttogurum. Þeir reyndust illa og eru reknir með tapi. Ástæðan fyrir því að tap hefur orðið á Frey er aðeins skortur á markaði. Ef keyptur hefði verið skuttogari í hans stað, hefði tapið orðið enn meira, eða jafnhátt mismuni á kaupverði.
- Hafið þér séð nokkra togara að veiðum hér? - Já, ég flaug í lítilli flugvél yfir miðin fyrir norðan land. Þar sá ég um 25 togara að veiðum. Fjórir þeirra voru frá okkur. - Hvaða nafn fær Freyr? - Hann hlýtur nafnið Ross Revenge (hefnd). En þið megið ekki halda að það sé táknræn nafngift. Allir stórir togarar í Bretlandi eru skírðir eftir herskipum.
Fyrsta Revenge barðist við spænskar freygátur á 16. öld undir stjórn Collingwood, aðmíráls. - Á hvaða mið mun Ross Revenge sækja? - Grænlandsmið fyrst um sinn. Skipshöfnin kemur til Vestmannaeyja annað kvöld með einum togara okkar. Á fimmtudag mun skipið láta úr höfn og sigla til Grimsby.

Morgunblaðið. 3 september 1963.


23.06.2019 11:19

715. Víðir SU 517.

Mótorbáturinn Víðir SU 517 var smíðaður hjá Frederikssund Skibsværft í Frederikssund í Danmörku árið 1933 fyrir Útgerðarsamvinnufélagið Kakala á Eskifirði. Eik. 18 brl. 60 ha. June Munktell vél. Seldur 1936, Sigurði Magnússyni, Böðvar Jónassyni og Georg Helgasyni á Eskifirði, sama nafn og númer. Seldur 7 september 1945, Jens Lúðvíkssyni á Fáskrúðsfirði, hét Róbert Dan SU 517. Seldur 18 maí 1954, Ólafi G Guðbjörnssyni í Reykjavík, hét þá Óskar RE 283. Ný vél (1955) 150 ha. GM vél, árgerð 1943. Seldur 14 júní 1962, Kjartani Björgvinssyni og fl. á Eskifirði, hét Óskar SU 56. Ný vél (1967) 125 ha. Perkins vél, árgerð 1963. Seldur 6 maí 1968, Gísla Þorvaldssyni í Neskaupstað, hét þá Jakob NK 66. Báturinn var endurbyggður og lengdur í Neskaupstað sama ár, mældist þá 21 brl. Ný vél (1973) 190 ha. Caterpillar vél. Seldur 20 desember 1978, Pétri Sæmundssyni í Keflavík, hét Óli Tóftum KE 1. Seldur 14 janúar 1982, Garðari Garðarssyni í Keflavík og Einari Jónssyni í Njarðvík, hét þá Jón Garðar KE 1. Seldur 17 júlí 1985, Svavari Guðnasyni og Sigmundi Hjálmarssyni í Grundarfirði, hét Guðmundur Ólafsson SH 244. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 3 nóvember árið 1986. Endaði síðan á áramótabrennu í Njarðvík 31 desember árið 1986.

Samvinnufélagsútgerðin Kakali á Eskifirði lét smíða fyrir sig 4 báta. 3 þeirra voru smíðaðir í Frederikssund eftir sömu teikningu. Auk Víðis voru það Reynir SU 518 og Einir SU 520. 4 báturinn, Birkir SU 519, 48 brl var smíðaður í Vestnes í Noregi árið 1933.


Víðir SU 517 í slipp á Eskifirði.                                                                            (C) Helgi Garðarsson.


Víðir SU 517 og Reynir SU 518 að landa síld á Siglufirði.                              Ljósmyndari óþekktur.


715. Jón Garðar KE 1 við bryggju í Keflavík.                               (C) Vigfús Markússon. Brimbarinn.


Víðir SU 517. Líkan Gríms Karlssonar.                                                        (C) Þórhallur S Gjöveraa.

          Samvinnufélagið Kakali

Samvinnufélag til útgerðar hefur nú verið stofnað á Eskifirði, og hefur það fengið ábyrgð ríkissjóðs fyrir láni til skipakaupa og útgerðar. Félag þetta, sem heitir samvinnufélagið Kakali, hefur nú látið smíða 4 báta, og eru 3 af þeim um 19 rúmlestir hver, smíðaðir í Danmörku, en einn, 50-60 smálestir, er smíðaður í Noregi. Bátar þessir komu til Eskifjarðar um áramótin.

Ægir. 1 tbl. 1 janúar 1934.


20.06.2019 13:39

877. Valur SU 328.

Mótorbáturinn Valur SU 328 var smíðaður í Mjóafirði árið 1923, sennilega af Þorsteini Tómassyni skipasmíðameistara sem bjó í Mjóafirði á þessum tíma. Eik og fura. 9 brl. 12 ha. Wichmann vél. Eigendur voru Hjálmar Vilhjálmsson og Gísli Vilhjálmsson á Brekku í Mjóafirði. Seldur 7 október 1940, Þorleifi Jónassyni og fl. í Neskaupstað, hét Ver NK 83. Ný vél (1942) 35 ha. Völund vél, árgerð 1930. Seldur 1 júní 1943, Friðrik Magnússyni og fl. á Patreksfirði, hét Ver BA 276. Seldur 29 október 1945, Ólaf Michelsen og Olaf Joensen á Patreksfirði, var ekki umskráður. Seldur 8 október 1948, Jóhannesi Guðjónssyni og fl. á Flateyri, hét þá Ver ÍS 108. 28 febrúar 1951, seldi Jóhannes Guðjónsson,  Magnúsi Guðmundssyni sinn hlut í bátnum. Seldur 14 janúar 1954, Agnari Guðmundssyni, Gunnari Helgasyni og Höskuldi Agnarssyni á Ísafirði, sama nafn og númer. Ný vél (1961) 55 ha. Ford vél. Báturinn sökk á Ísafjarðardjúpi eftir að mikill leki kom að honum, 2 mars árið 1967. Áhöfninni, 2 mönnum var bjargað um borð í vélbátinn Hafdísi ÍS 71 frá Ísafirði. Voru báðir bátarnir þá á rækjuveiðum út af Arnarnesi.

Aðrar heimildir segja bátinn umbyggðan í Mjóafirði árið 1923. Veit ekki hvort er réttara, en ágætt að láta þessar upplýsingar fljóta með.


Mótorbáturinn Valur SU 328 á Mjóafirði. Mennirnir eru frá vinstri talið,: Jóhann Færeyingur, stendur upp við formastrið og Gísli Vilhjálmsson annar eigandi bátsins.        Ljósmyndari óþekktur.

               Rækjubátur sökk

 Áhöfninni, tveim, bjargað af öðrum bát

Ísafirði, 2. marz. 
Lítill rækjubátur Ver ÍS 108 sökk í Ísafjarðardjúpi í dag. Mannbjörg varð. Báturinn var staddur nokkuð fyrir innan Arnarnes og var að toga út af Hamrinum, þegar leki kom að honum. Á bátnum voru tveir menn Ólafur Rósinkarsson og Ægir Ólafsson og báðu þeir þegar í stað um aðstoð hjá rækjubátnum Hafdísi og kom hann strax að og tók Ver í tog. Lekinn magnaðist óðum og var innan stundar kominn upp á miðja vél og yfirgáfu þá þeir félagar bátinn og komust um borð í Hafdísi. Var Ver hafður áfram í togi og tók skömmu seinna inn á sig sjó og sökk. Á Hafdísi eru þeir Árni Magnússon og Hjalti Hjaltason.

Morgunblaðið. 3 mars 1967.







19.06.2019 14:01

Enok NK 17.

Mótorbáturinn Enok NK 17 var umbyggður á Norðfirði árið 1925. Eik. 3,70 brl. 11 ha. Rapp vél, sett í bátinn sama ár. Eigendur voru Guðmundur Magnússon og Sveinn Magnússon á Nesi í Norðfirði. Hét áður Enok SU 449, en fékk NK 17 skráningarnúmerið þegar Nesþorp fékk kaupstaðarréttindin árið 1929 og hét eftir það Neskaupstaður. Seldur 1935, Halldóri Elíassyni og Halldóri Jónssyni í Neskaupstað, sama nafn og númer. Seldur 10 júní 1939, Guðjóni Jónssyni og Lúðvík Jósepssyni í Neskaupstað, enn sama nafn og númer. Báturinn var lengdur árið 1953, mældist þá 5 brl. Einnig var sett í bátinn 24 ha. Lister vél. Seldur 22 janúar 1957, Birni Gústafssyni á Djúpavogi, hét Enok SU 17. Báturinn sökk í Hafnarfirði árið 1961 og eyðilagðist.

Hugsanlegt er að báturinn hafi komið hingað til lands með Norðmönnum einhverjum árum áður og þeir bræður Guðmundur og Sveinn keypt bátinn af þeim og gert hann upp á Norðfirði árið 1925.


Enok NK 17 í bóli sínu á Norðfirði.                                                                   Ljósmyndari óþekktur.

12.06.2019 16:30

Stafnes á Reykjanesi.

Ég var á ferðalagi um Reykjanesið um Hvítasunnuhelgina og kom við á Stafnesi sem er gömul verstöð allt frá 12-13 öld. Ætlunin var að skoða strandstað togarans Jóns forseta RE 108, en hann strandaði á skerinu Kolaflúð skammt frá landi. 15 skipverjar fórust í þessu sjóslysi en 10 mönnum var bjargað við hinar verstu aðstæður. Ég ætla ekki að rekja þessa sorgarsögu frekar hér. Hún er nú flestum kunn. En þetta slys varð til þess að Slysavarnafélag Íslands var stofnað sama ár.


Minnisvarði um skipverjana 15 sem fórust með togaranum Jóni forseta RE á Stafnesi. Fyrir nokkrum árum var skipinu stolið af steininum, en er nú komið aftur.  (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Skerið Kolaflúð skammt frá landi fram af vitanum.


Stafnesviti.


Sérkennilegt bergið þarna á Stafnesi.


Á Stafnesi.


B.v. Jón forseti RE 108. Líkan í Sjóminjasafninu Víkinni.     (C) Þórhallur S Gjöveraa.


B.v. Jón forseti RE 108. Smíðaður hjá Scott & Sons (Bowling) Ltd í Glasgow í Skotlandi árið 1906 fyrir útgerðarfélagið Alliance í Reykjavík. 233 brl. 400 ha. 3 þennslu gufuvél. Fyrsti togarinn sem smíðaður var fyrir Íslendinga.    Ljósmynd úr safni mínu.

            Stafnes á Reykjanesi

Stafnes (Starnes, Sternes, Stapnes, Stafsnes) er lítið nes á Reykjanesskaga, nánar tiltekið vestast á Miðnesi, nálægt Hvalsnesi . Þar er samnefnd jörð sem tilheyrði Rosmhvalanesi  en í dag Sandgerði. Upphaflega hefur nesið heitið Starnes (líklega eftir melgresi sem vex þar í fjörunni) og kemur fyrir undir því nafni í heimildum frá því um 1270 og síðar. Nafnið Stafnes kemur fyrst fyrir í jarðabókum undir lok 17 aldar. Jörðin Stafnes hefur verið stórbýli frá upphafi með margar hjáleigur og útgerð, þótt höfuðbólið Hvalsnes hafi verið stærra, en varð fyrir miklum skemmdum vegna stórflóða og sandblásturs á 17 og 18 öld. Stafnes var keypt af Magnúsi Einarssyni biskup fyrir Skálholt kringum árið 1140, en hefur síðan gengið til Viðeyjarklausturs, hugsanlega við stofnun þess. Við siðaskiptin varð Stafnes konungsjörð. Jörðin var boðin upp í Reykjavík 27. júní 1792 ásamt 24 öðrum konungsjörðum á Miðnesi, en boðin sem fengust voru svo lág að stjórnin féllst ekki á neitt þeirra. 10 september 1805 var jörðin svo loks seld á kaupþingi í Keflavík og komst í bændaeigu.
Á Stafnesi var ein mesta konungsútgerð á Miðnesi frá því fyrir 16 öld og fram um miðja 18. öld. Árið 1548 eru í skilagrein Kristjáns skrifara, talin upp á staðnum fimm skip í eigu konungs; einn tólfæringur, tveir teinæringar og tveir áttæringar, en með tímanum minnkuðu skipin og undir lokin voru tvíæringar orðnir algengastir á Miðnesi. Auk konungs gerðu útvegsbændur báta sína út frá Stafnesi, eins og kauphöfninni Básendum lítt sunnan við. Útgerð frá Stafnesi hélst töluverð fram undir miðja tuttugustu öld, en eftir það sáralítil.
Við Stafnes hafa verið tíð sjóslys um aldir, enda skerjótt þar úti fyrir. Á síðustu öld má nefna strand togarans Jóns forseta árið 1928, en þá fórust 15 menn og 10 björguðust. Þetta sjóslys mun hafa valdið miklu um stofnun Slysavarnarfélags Íslands og fyrstu björgunarsveitar þess, sem er Sigurvon í Sandgerði. Á Stafnesi var reistur viti árið 1925.

Wikipedia. Frjálsa alfræðiritið.




09.06.2019 10:55

876. Hrímnir SH 107. TFAQ.

Vélbáturinn Hrímnir SH 107 var smíðaður í Knippla skipasmíðastöðinni í Kallax í Svíþjóð árið 1946 fyrir Hlutafélagið Elliða í Stykkishólmi. Eik. 51 brl. 170 ha. Polar díesel vél. Seldur 18 janúar 1952, Rún hf í Vestmannaeyjum, hét Hugrún VE 51. Ný vél (1954) 240 ha. GM vél. Seldur 30 maí 1960, Ver hf í Vestmannaeyjum, hét Ver VE 318. Seldur 4 desember 1963, Ver hf á Höfn í Hornafirði, hét þá Ver SF 64. Seldur 5 nóvember 1969, Sigurði Ólafssyni í Vestmannaeyjum, hét Ingólfur VE 216. Ný vél (1973) 335 ha. GM vél. Endurmældur sama ár og mældist 48 brl. Seldur 12 maí 1976, Gísla Þorvaldssyni, Sæmundi Gíslasyni og Jóhanni Gíslasyni í Neskaupstað, hét Gerpir NK 44. Seldur 6 október 1978, Friðrik Friðrikssyni og Sigurði B Karlssyni á Hvammstanga, hét þá Rósa HU 294. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 24 september árið 1986.


876. Hrímnir SH 107 í smíðum í Svíþjóð.                                                          (C) Þórólfur Ágústsson.


876. Hugrún VE 51.                                                                                          (C) Tryggvi Sigurðsson.


876. Ingólfur VE 216.                                                                                      (C) Tryggvi Sigurðsson.

         Nýr bátur til Stykkishólms

Á sunnudagsmorgun 30. júní, kom nýr bátur frá Svíþjóð til Stykkishólms. Eigendur hans eru hlutafjelagið Elliði, Stykkishólmi, og er formaður fjelagsins Ágúst Pálsson, skipstjóri, Stykkishólmi. Bjarni Andrjesson, skipstjóri frá Reykjavík, sigldi bátnum upp. Var báturinn 7 daga á leiðinni til Stykkishólms, með viðkomu í Færeyjum. Báturinn er 52 smálestir brúttó, smíðaður hjá Knippla skipasmíðastöðinni í Kallax í Svíþjóð. Báturinn hefir 170 hesta vjel og er útbúnaður hans allur hinn vandaðasti. Er ákveðið að hann fari á síld í sumar, en sökum þess að útbúnað til trollspils vantar enn er gert ráð fyrir að dragist um 10 daga að báturinn leggi af stað. Nafn bátsins er Hrímnir og verður hann SH 107.

Morgunblaðið. 3 júlí 1946.


08.06.2019 10:29

E. s. Hrímfaxi GK 2. TFPB.

Gufuskipið Hrímfaxi GK 2 var smíðaður í Middlesborough í Englandi árið 1918. 641 brl. 700 ha. 3 þennslu gufuvél. Skipið rak upp í Rauðarárvíkina í Reykjavík í ofsaveðri þann 27 febrúar 1941. Var þá Portúgalskt og hét Ourem. H/f Sviði í Hafnarfirði og h/f Hrímfaxi í Reykjavík keyptu skipið á strandstað, náðu því út og létu gera við það út í Englandi. Fékk nafnið Hrímfaxi GK 2. Skipið var síðan í flutningum með ísvarinn fisk til Englands og í almennum vöruflutningum. Í nokkra mánuði á árinu 1943 og fram á árið 1944 var Hrímfaxi í strandferðum í stað Súðinnar sem var þá í viðgerð eftir árás þýskrar herflugvélar á Skjálfandaflóa. Haustið 1946 og fram á vor 1947 var Hrímfaxi í síldarflutningum frá Reykjavík til Siglufjarðar (Hvalfjarðarsíldin). Að þeim flutningum loknum var skipinu lagt. Skipið var selt 10 október 1950, Kjartani Guðmundssyni í Reykjavík, hét Auðhumla GK 2. Skipið var selt til Indlands í mars árið 1951.


Hrímfaxi GK 2 í slippnum í Reykjavík.                                                          Ljósmynd úr safni mínu.

  Stórfellt skipatjón af völdum fárviðris

    43 skipbrotsmönnum bjargað

Á fimmtudaginn hvesti mjög af norðaustri hjer við sunnanverðan Faxaflóa. Jókst veðrið er á daginn leið og var komið fárviðri kl. 8 á fimmtudagskvöld. Þá um kvöldið fór vindhraðinn hvað eftir annað upp í 12 vindstig. Hjelst sá vindstyrkur alla föstudagsnóttina og áfram í gær til kvölds. Skipatjón af völdum þessa fárviðris hefir orðið gríðarmikið, og er ekki fengið glögt yfirlit yfir það, þegar þetta er ritað. Frjest hefir um manntjón af einum siglfirskum bát, er á voru sex menn. Símalínur slitnuðu mjög í ofviðrinu og eru fregnir utan af landi því ekki greinilegar. En svo virtist í gær, sem veðurofsinn hafi verið mestur við Faxaflóa, bæði við Breiðafjörð og í Vestmannaeyjum hafi vindstyrkur verið mun minni. Hjer verður lauslega skýrt frá skipatjóni því, sem varð í Reykjavíkurhöfn af völdum óveðursins. Eins og frá var skýrt hjer í blaðinu í gær, rak erlent skip á land við Sjávarborg kl. um 10 á fimmtudagskvöld. Reyndist þetta vera portúgalska skipið Ourem, sem er 321 netto tonn og lestar 800 tonn. Farmur skipsins var áfengi og sement. Á skipinu voru 19 menn. Jafnskjótt er skipið hafði kent grunns gekk sjólöðrið yfir það, enda þótt það í fyrstu lægi beint fyrir. Var rokið þá svo mikið að rokmökkinn lagði inn yfir bæinn og voru sumar göturnar sævi drifnar. Kl. 10 ½  komu þeir á strandstaðinn Jón O. Jónsson, Guðbjartur Ólafsson forseti Slysavarnafjelagsins og Jón Bergsveinsson erindreki, ásamt fleiri mönnum. Átti Morgunblaðið tal við Jón O. Jónsson um björgunina og styðst frásögn blaðsins við það. Auðsætt var þá þegar, að ómögulegt mundi að koma bátum við við björgunina sökum veðurofsans. Var þá skotið fluglínum að skipinu og tókst brátt að hitta yfir það mitt. Virtust þá skipverjar draga að sjer skotlínuna, en drógu hinsvegar ekki að sjer sjálfa gildari taugina með björgunarútbúnaðinum. Furðaði þá, sem að björguninni unnu mjög á því. Ekki sinntu skipverjar heldur ljósmerkjum, er björgunarsveitin fékk breskan aðstoðarmann til að gefa þeim. Var í tvær klukkustundir samfleytt reynt að gefa þeim merki og fleiri línum skotið yfir skipið, en allt kom fyrir ekki, skipverjar virtust ekki átta sig á, hvernig þeir ættu að snúa sjer í þessu. En öðru hverju þeyttu þeir eimflautu skipsins. Af þessu leiddi að björgunarsveitin gat ekki hafst að og varð því að bíða alla nóttina. Voru það 4 menn og voru það auk Jóns Oddgeirs, þeir Ingvar Magnússon vjelamaður hjá Sláturfjel. Suðurlands, Guðmundur Sigurðsson og Jóhannes Guðjónsson. Hjeldu þeir vörð á staðnum. Lögreglan lánaði bifreið með mjög sterkum Ijósum og var sundið milli skips og lands lýst upp með þeim. Er á nóttina leið versnaði veðrið mjög og hefði þá alls ekki verið hægt að bjarga í björgunarstól. Gekk nú sjór allmjög yfir skipið og það tekið að velta. Hafði skipshöfn þess þá safnast saman í brúnni. KI. 8 um morguninn tókst svo dönsku skipshöfninni að skjóta línu til lands. Var þá hnýtt í hana línu úr landi og drógu skipsmenn hana síðan að sjer og síðan sjálfan björgunarstólinn.
Hófst nú björgunin og var allri skipshöfninni, samtals 24 mönnum, bjargað í land í björgunarstólnum á þremur stundarfjórðungum. Var skipshöfnin lítt velkt og hin hressasta. Kvað skipstjórinn þá hafa reynt að bjarga portúgölsku skipshöfninni yfir í sitt skip, en það hefði ekki tekist vegna þess, að ekki tókst að fá þá til þess að taka við línum frá þeim, enda var þá naumas hægt að hreyfa sig nokkuð á Ourem vegna sjógangs og brimlöðurs.
Þegar Dönunum hafði verið bjargað var tekið að athuga möguleikana á frekari björgunartilraunum gagnvart skipshöfninni á Ourem. En vegna sjógangs varð ekki aðhafst þá þegar, en beðið þess, að lágsjávað yrði. Kl, 10 voru svo fimm hraustir og þrekmiklir ungir menn, allir íslenskir, dregnir í björgunarstólnum út í danska skipið. Hjet sá Hafliði Magnússon, er fyrstur fór um borð. Er hann þekktur íþróttamaður og hraustmenni. Hlutverk þeirra fimm var að leggja kaðla á milli skipanna , og í brúna á portúgalska skipinu og fikra sig eftir þeim yfir í það til þess að sækja hina þjökuðu skipshöfn, einn á eftir öðrum. En þegar hjer var komið tókst 4 skipverjum að komast af sjálfsdáðum yfir í danska skipið og voru þeir fluttir til lands í björgunarstólnum og Síðan haldið áfram með björgunina, Var íslendingunum, sem að því verki unnu mjög óhægt um vik vegna þess, hve þjakaðir og máttfarnir skipverjar voru. Aðalörðugleikarnir voru á því að koma skipbrotsmönnum yfir í danska skipið., En fyrir mjög vasklega framgöngu sjálfboðaliðanna er að björguninni unnu, tókst björgun allrar skipshafnarinnar slysalaust og var því lokið kl. 11 ½  árdegis. Hinir portúgölsku skipbrotsmenn voru mjög illa til reika, sumir berfættir, klæðlitlir, votir og kaldir. Engir þeirra höfðu spent á sig  björgunarbelti. Einn skipbrotsmannann var fluttur í sjúkrahús en aðrir á gistihús. Jón O. Jónsson. sem björguninni stjórnaði, rómaði mjög kjark og dugnað þeirra sem að björguninni unnu. Þá lá og við að þriðja skipið ræki á land í gær af ytri höfninni. Var það 848 tonn nettó og heitir Cler Miston.  Fyrrihluta dags tók það að reka á legunni, en tókst þó að halda sjer frá landi.

Morgunblaðið. 1 mars 1941.


Ourem og Sonja Mærsk á strandstað í Rauðarárvíkinni.                Mynd úr þrautgóðir á raunastund.

            "Ourem" náð á flot
  Rennt á land í Örfirisey í morgun

Á flóðinu í morgun tókst að flytja e.s. "Ourem", sem strandaði í Rauðarárvík á síðasta ári frá strandstaðnum og inn í höfnina hér, en vegna þess, að slippurinn getur ekki tekið skipið upp sem stendur, var því rennt á land í Örfirisey. Eins og sagt var frá í Vísi á sínum tíma í desember, tókst þá að rétta skipið við, það hallaðist frá landi, en það valt aftur, þegar festar, sem, áttu að halda því, slitnuðu. Hefir það komið fyrir oftar en einu sinni, að tekizt hafi að rétta skipið, en festarnar slitnað og það hallast frá landi á ný. En fyrir hálfum mánuði tókst að lyfta því hærra í fjöruna og var þá hægt að hreinsa lestar þess að mestu eða öllu. Síðan var sú aðferð höfð, að fram- og miðlestir skipsins voru gerðar loftþéttar að ofan og vatninu þrýst úr þeim með lofti, en afturlestin var þurrkuð með því, að sjónum var dælt úr henni. Flaut skipið þá og var þá hægt að flytja það inn á höfnina. Vísir hitti einn af eigendum Ourem, Sigfús Bjarnason, heildsala, í morgun. Keypti hann skipið í mai s.l. ásamt Ólafi Georgssyni, en síðan gekk þriðji maðurinn, Baldvin Einarsson, í félagið. Þeir voru svo heppnir, að fá Markús Ívarsson, hinn þjóðkunna dugnaðarmanna, til að taka að sér að stjórna björguninni og hefir þessi árangur náðst eftir hans fyrirsögn. Kristján Gíslason, vélsmiður, var aðalverkstjóri, og á hann auðvitað sinn þátt í árangrinum. Við marga örðugleika var að etja, fyrst og fremst vegna vöntunar á tækjum, og í öðru lagi skilningsleysi ýmsra manna, en margir veittu þeim mjög góða aðstoð, svo sem, Commander Watchlin, Salvage Officer, sem lánaði ágæt björgunartæki, Þórarinn Kristjánsson, hafnarstjóri, Bjarni Tómasson, kafari og Ólafur Jónsson, framkvæmdarstj Alliance og Pálmi Loftsson, forstjóri Skipaútgerðarinnar, sem lánuðu skip. Björgunin hefir reynzt mjög kostnaðarsöm, enda tekið langan tíma.

Vísir. 17 febrúar 1942.


Ourem náð á flot í Rauðarárvíkinni í febrúar 1942.                    Mynd úr Þrautgóðir á raunastund.

 E.s. "Hrímfaxi" strandar á Raufarhöfn
  Skipið komst út aftur, en er skemmt

Gufuskipið Hrímfaxi, hjeðan úr Reykjavík, strandaði í gærmorgun á Raufarhöfn, en komst á flot aftur, mikið skemmt. Blaðið hafði í gærkveldi tal af framkvæmdastjóra Hrímfaxa h.f., sem á skipið, Kristján Bergsson, og sagðist honum svo frá: Um kl. 10 í gærmorgun strandaði skipið, er það var á leið út úr höfninni á Raufarhöfn, áleiðis til Þórshafnar. Hafnsögumaður var ekki farinn af skipsfjöl, er skipið tók niðri. Þar sem skipið tók niðri, stóð það fast í rúma klukkustund, en komst þá af eigin ramleik á flot aftur, og leitaði hafnar af nýju. Var það þá allmjög laskað, leki kominn að því, stýrið og skrúfan brotið. Er jafnvel ekki víst að takast megi að halda skipinu á floti með dælunum, og bjóst framkvæmdastjórinn jafnvel við að renna þyrfti því á land. Sjór var kominn í vjelarrúm skipsins, en ekki hafði sjór komist í lestarrúm þess, er framkvæmdastjórinn átti síðast tal við Raufarhöfn, um hádegi í gær. Hrímfaxi er gufuskip, um 800 smálestir að stærð. Var það áður í eigu Portugalsmanna og strandaði hjer á Rauðarárvíkinni í ofveðrinu mikla þann 15. jan. 1941. Skipið hefir verið í vöruflutningum á vegum Skipaútgerðar ríkisins. Líklegt er talið að draga verði skipið hingað suður til viðgerðar.

Morgunblaðið. 23 desember 1943.


Hrímfaxi GK 2 í Vestmannaeyjahöfn.                                                            Ljósmynd úr safni mínu.

E.s. Hrímfaxi GK 2. TFPB  /  Ourem

E.s. Hrímfaxi. TFPB-GK 2 Stálskip með 700 ha. gufuvél. Stærð: 641 brúttórúml. og 313 nettórúml. Aðalmál: Lengd: 52,44 m. Breidd: 9,17 m. Dýpt: 4,68 m. Smíðað i Middlesbourough í Englandi árið 1918 fyrír brezka sjóherinn sem eyðingarskip þýzkra kafbáta. Var skipið smíðað stefnislaga að aftan til þess að villa kafbátsmönnum sýn um á hvaða leið það væri. Þá var það vel búið vélum og gat gengið 16 sjómilur. Skip þetta kom fyrst hingað til Íslands sem leiguskip og hét þá Ourem frá Portúgal. Í ofsaveðri þann 27. febrúar 1941 sleit Ourem upp hér á Reykjavíkurhöfn og rak á land í  Rauðarárvikinni ásamt danska flutningaskipinu Sonju Mærsk. Að ári liðnu var skipinu náð út og gert við það í Grimsby í Englandi, og hlaut það þá nafnið Hrímfaxi. Eigendur þess urðu hf. Sviði í Hafnarfirði og Hf. Hrímfaxi í Reykjavík. Hrímfaxi hóf siðan og siglingar til Bretlands með ísaðan fisk undir stjórn Kristjáns Kristjánssonar skipstjóra. Flutti skipið um 7500 kit í ferð. Árið 1943 var Hrímfaxi leigður Skipaútgerð ríkisins til strandferða og var í Þeim næstu fimm árin. Siðla árs 1950 var skipið tekið í notkun á ný eftir tveggja ára legu inni á Sundum og hét þá Auðhumla. Auðhumla fór síðan nokkrar ferðir til Bretlands og meginlandshafna, unz það var selt Indverjum og afhent í Bretlandi árið 1951. Myndin af Hrímfaxa er tekin í Vestmannaeyjum 1943. Skipið er málað grárri stríðsmálningu, eins og öll íslensku flutningaskipin, sem voru í millilandasiglingum á þeim tíma.

Heimild: Æskan. 2 tbl. 1 feb 1972. / Íslensk skip. Guðmundur Sæmundsson.

"Fell" og "Auðhumla" seld til útlanda

Tvö íslenzk skip hafa nýlega verið seld til útlanda. Annað þeirra er e.s. Auðhumla, sem áður hét Hrímfaxi hefur nú verið seld til Indlands. Auðumla gamla hefur lent í ýms ævintýri. Hingað kom hún undir spönsku eða portugölsku flaggi með vínfarm á stríðsárunum síðustu. Í ofviðri rak hana upp í Rauðarárvíkinni áður en farminum hafði verið skipað upp. Þá gengu marglr á reka í Rauðarárvíkinni. Einhverjum tókst að ná í tunnu af víni sem lögreglan svo náði af þeim aftur. Aðrir gátu fyllt flöskur af hinum gómsæta vökva. Þá voru nokkrir sem aðeins fengu á makakútinn. Auðhumla var síðan keypt af nokkrum íslendingum og gerð héðan út. Hitt skipið er vélskipið Fell, er hefur verið selt til Svíþjóðar og fór það þangað um síðustu mánaðarmót. Eigandi þess var Sigurjón Sigurðsson útgerðarmaður.

Alþýðublaðið. 12 apríl 1951.











26.05.2019 18:14

Gömul mynd frá Dalvík.

Þessi mynd frá Dalvík er tekin fyrir margt löngu síðan. Báturinn hægra megin hét Valur EA 110, 6 brl, smíðaður í Skipasmíðastöð Nóa Kristjánssonar á Akureyri árið 1954 fyrir bræðurna Agnar, Gunnar og Þóri Stefánssonum og Björn Þorleifsson á Dalvík. Báturinn fórst í mannskaðaveðrinu 9 og 10 apríl árið 1963 og með honum bræðurnir Gunnar Stefánsson og Sigvaldi Stefánsson frá Dalvík. Það voru 16 íslenskir sjómenn sem fórust í þessu hræðilega mannskaðaveðri.


Frá Dalvík. Valur EA 110 til hægri.                                                                      Ljósmyndari óþekktur. 

   4 menn hafa farist og 7 saknað
     eftir fárviðrið fyrir Norðurlandi

Flestir voru bátarnir út af Eyjafirði, og var rokið svo mikið að innsiglingin til Siglufjarðar og Ólafsfjarðar lokaðist og urðu allir bátarnir að leita inn á Eyjafjörð. Þar var varðskipið Ægir þeim til aðstoðar. Samkvæmt viðtali við Akureyri í morgun skall óveðrið yfir í gær eins og hendi væri veifað og kom flestum mjög á óvart því veður var gott í gærmorgun og bátar á sjó úr öllum Eyjafjarðarhöfnum. Verst urðu Dalvíkingar úti, en þaðan fórust þrjár trillur í gær, þó björguðust mennirnir af þeim nema einni, bátnum Val, sem á voru tveir bræður, Gunnar og Sigvaldi Stefánssynir. Þeir voru norður af Gjögrum þegar veðrið brast á, höfðu seinna samband við m.s. Esju sem var á vesturleið og báðu um að mega fylgjast með henni fyrir Gjögra. Allt í einu hvolfdi bátnum og gátu skipverjar á m.s. Esju dregið annan manninn, Sigvalda, meðvitundarlausan úr sjó, en Gunnar bróður hans sáu þeir aldrei. Fór Esja með Sigvalda til Akureyrar, en hann komst aldrei til meðvitundar og þegar til hafnar kom, úrskurðaði læknir hann látinn. Sigvaldi heitinn lætur eftir sig konu og þrjú börn. Gunnar bróðir hans var ókvæntur. Þá er enn eins báts frá Dalvík saknað, Hafþórs, sem á er 5 manna áhöfn. Það síðasta sem til hans er vitað var það að hann sást norður af Gjögrum um kl. 4 í gærdag. Síðan hefur ekki til hans sézt. Skip hafa leitað bátsins í alla nótt en árangurslaust. Skipstjóri á Hafþóri er Tómas Pétursson. Áhöfnin er öll frá Dalvík. Alls voru þrír þilfarsbátar og margar trillur á sjó frá Dalvík þegar óveðrið brast á, en aðrir bátar en framangreindir fjórir björguðust.

Vísir. 10 apríl 1963.


26.05.2019 11:27

1351. Snæfell EA 310. TFBY.

Togarinn Snæfell EA 310 er búinn að liggja lengi við bryggju á Akureyri og endar sjálfsagt í brotajárni á næstu misserum eins og önnur gömul skip sem hefur verið lagt. Skipið var smíðað hjá Söviknes Verft A/S í Syvikgrend í Noregi árið 1968, hét fyrst Stella Kristína. 1.319 bt. 2.996 ha. Bergen vél, 2.205 Kw. Skipið komst í eigu Útgerðarfélags Akureyringa hf árið 1973 og hét Sléttbakur EA 304.Skipið var lengt og breytt í frystiskip árið 1987. Hét svo seinna Akureyrin EA 110, þá í eigu Samherja hf. sem á skipið í dag. Einstaklega fallegt og vandað skip.


1351. Snæfell EA 310 við bryggju á Akureyri.                                        (C) Alexander S Gjöveraa.


1351. Snæfell EA 310.                                                                              (C) Alexander S Gjöveraa.


1351. Snæfell EA 310.                (C) Alexander S Gjöveraa.


1351. Sléttbakur EA 304.                                                                                  Ljósmynd í minni eigu.

                 Ný fiskiskip
                   Sléttbakur EA 304
                   Svalbakur EA 302

Í desember s. l. komu tveir skuttogarar til heimahafnar sinnar, Akureyrar, í fyrsta sinn. Togara þessa keypti útgerðarfélag Akureyringa h.f. frá Færeyjum, og hétu þeir áður Stella Kristina og Stella Karina. Skipin voru byggð í Sovikens Verft A/S í Noregi á árunum 1968-1969, og útbúin sem verksmiðjuskip. í skipunum voru vinnslu- og frystitæki, þar sem fullvinna átti fiskinn um borð, en vinnslutæki hafa nú verið fjarlægð og sett í staðinn blóðgunarker, aðgerðarborð, þvottaker og færibönd eins og algengast er í skuttogurum þeim sem íslendingar hafa fengið undanfarið. Þar sem hér var um verksmiðjuskip að ræða var gert ráð fyrir stórri áhöfn, 48-50 mönnum, svo rúmt ætti að vera um þessa 23-24 menn sem á skipunum verða. Meðfylgjandi mynd sýnir fyrirkomulag í þessum skipum, sem eru systurskip. Eftirfarandi lýsing á tækjabúnaði á því við um hvort skipið sem er.
Aðalvél skipsins er frá MWM, gerð TBRHS 345 A, sem skilar 2.200 hö. við 500 sn/mín. Við vélina er niðurfærslugír (2:1) frá RENK, gerð AUSL 63, sem tengist 4ra blaða skiptiskrúfu frá Liaaen, gerð CP D71/4, um 2,8 m í þvermál. Framan á vélinni er aflúttak fyrir vökvadælur vindukerfisins. Hjálparvélar eru þrjár, allar eins, frá MWM, gerð RHS 518 A, sem gefa 166 hö. við 1000 sn/mín. Á vélunum eru rafalar frá Siemens, sem gefa 154 KVA, 380 V, 50 rið. Stýrisvél er frá Frydenbö, gerð HS 40, sem gefur maks. snúningsvægi 8000 kgm. Sjálfstýring er frá Anschútz. Vindukerfi skipsins er vökvaknúið (lágþrýst), og er það frá A/S Hydraulik Brattvág. Togvindur eru tvær (splitwinch), gerð D1A10U, sem gefa hvor um sig 6,5 tonna meðaltogkraft við 66 m /mín vírahraða. Víramagn á hvora tromlu er 1500 faðmar af 3 1/4" vír. Togvindurnar eru staðsettar aftarlega á togþilfari, sitt hvoru megin við skutrennu. Grandaravindur eru tvær, gerð MA8/A8, sem gefa um 6 tonna togkraft. Þessar vindur eru staðsettar framarlega á togþilfari, og eru bobbingarennurnar í göngum sitt hvorum megin við þilfarshúsið. Vegalengd frá skutrennu og að vindum er um 45 m. Þá eru tvær samskonar vindur á bátaþilfari, en þær eru fyrir hífingar. Aftast á bátaþilfari er vinda, með 5 tonna togátaki, til að losa trollpokann og hífa hann aftur, þegar kastað er. Akkerisvindan er af gerðinni 3/B7-47. Vindum er stjórnað frá stjórnklefa, sem staðsettur er á togþilfari, aftan við þilfarshúsið. Af siglingatækjum um borð í skipinu má nefna: Loftskeytastöð: Dansk Radio. Ratsjár: Raytheon 1060/25, 10 cm, 48 sml. og Raytheon 1060/6X, 3 cm, 48 sml. Miðunarstöð: Taiyo TD-A 201, sjálfvirk. Loran: Furuno LC-1. Gyroáttaviti: Anschútz. Fiskleitartæki eru eftirfarandi: Asdik: Simrad Sonar SB 3 tengt fisksjá Simrad Sonar Scope CK 2. Dýptarmælar: Simrad EK 38 A og Simrad EK 50 A. Við þessa mæla er tengd fisksjá Simrad Echo Scope CB 2. Netsjá: Elac.
Stærð skipsins 834 brl.
Mesta lengd 61.74 m.
Lengd milli lóðlína 54.33 m.
Breidd 10.21 m.
Dýpt frá efra þilfari 7.00 m.
Dýpt frá neðra þilfari 4.80 m.
Djúprista 4.75 m.
Lestarrými undir neðra þilfari . . 820 m3
Lestarrými á milliþilfari 180 m3
Olíugeymar (skiptigeymar) ... . 398 m3
Ferskvatnsgeymar 41 m3
Lýsisgeymar 42 m3
Hraði í reynslusiglingu 13,9 sm
Skipstjóri á Sléttbak er Áki Stefánsson og fyrsti vélstjóri Valur Finnsson. Á Svalbak er Halldór Hallgrímsson skipstjóri og fyrsti vélstjóri er Freysteinn Bjarnason. Framkvæmdastjórar Útgerðarfélags Akureyringa eru Vilhelm Þorsteinsson og Gísli Konráðsson. Ægir óskar eigendum og áhöfnum til hamingju með þessi glæsilegu skip.

Tímaritið Ægir. 1 desember 1973.


22.05.2019 09:13

744. Sigurfari MB 95. TFZK.

Vélbáturinn Sigurfari MB 95 var smíðaður í Skipasmíðastöð Þorgeirs Jósefssonar á Akranesi árið 1940 fyrir Bergþór Guðjónsson skipstjóra og Sigurð Þorvaldsson vélstjóra á Akranesi. Eik. 61 brl. 160 ha. Alpha vél. Ný vél (1943) 193 ha. Allen vél. Árið 1947 fékk Sigurfari skráningarnúmerið AK 95. Ný vél (1953) 200 ha. Hundested vél. Seldur 19 nóvember 1958, Fiskiveri hf á Akranesi, sama nafn og númer. Ný vél (1960) 495 ha. Lister vél. Seldur 27 nóvember 1963, Hilmari Rósmundssyni og Theódór Ólafssyni í Vestmannaeyjum, hét þá Sæbjörg VE 56. 25 september 1969 er Sæbjörg hf í Vestmannaeyjum eigandi Sæbjargar. Ný vél (1970) 425 ha. Caterpillar vél. Seldur 2 desember 1975, Öxl hf í Sandgerði, hét Sigrún GK 380. Endurmældur í júní 1976, mældist þá 64 brl. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 29 mars árið 1982.


Sigurfari MB 95 ný smíðaður á Akranesi árið 1940.                                (C) Haraldur Sturlaugsson.


Sæbjörg VE 56 í innsiglingunni til Vestmannaeyjahafnar.                          Ljósmyndari óþekktur.

           Nýr fiskibátur

Skipið er byggt á skipasmíðastöð Þorgeirs Jósefssonar á Akranesi. Yfirsmiður, Eyjólfur Gíslason, skipasmíðameistari, Reykjavík. Stærð: Lengd 65,8 fet. Breidd 17,1 fet. Dýpt 8,8 fet. Rúmmál 61,41 smálest brúttó. Djúprista án farms 7 fet, fullfermt 10 fet. Byggður úr eik. Innrétting: Hásetaklefi með 14 hvílum, lestarrúm, vélarrúm, skipstjóraklefi með 2 hvílum. Aflvél: Alpha dieselmótor 140 /160 ha. Burðarmagn skipsins ca. 75 smálestir. Kostnaðarverð 115 þúsund krónur. Styrkur frá Fiskimálanefnd kr. 21,350.00.
Eigendur: Bergþór Guðjónsson skipstjóri og Sigurður Þorvaldsson vélstjóri, báðir ungir og efnilegir menn, til heimilis á Akranesi, fæddir og uppaldir þar. Báturinn stundar nú þorskveiðar með línu, í venjulega 7-8 daga veiðiferðum. Ætlar að stunda síldveiði á sumri komandi. Svo er og hugsað til að fá "troll" útbúnað á bátinn og ef til vill fleiri tegundir veiðarfæra, ef heppni leyfir og tilefni gefast. "Víkingur" óskar eigendunum til hamingju með bátinn.

Sjómannablaðið Víkingur. 5-6 tbl. 1 mars 1940.


21.05.2019 10:16

1526. Ýmir HF 343. TFUG.

Skuttogarinn Ýmir HF 343 var smíðaður hjá John Lewis & Sons Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1971 fyrir Richard Irvin & Sons Ltd í Aberdeen, hét fyrst Ben Lui A 166. 449 brl. 1.650 ha. British Polar vél, 1.214 Kw. 48,80 x 10,09 x 6,71 m. Smíðanúmer 364. Skipinu var hleypt af stokkunum hinn 30 desember árið 1970. Seldur 20 nóvember 1978, Stálskip hf í Hafnarfirði, fékk nafnið Ýmir HF 343. Togarinn var seldur til Spánar árið 1988 og var síðan gerður út frá Úrúgvæ, sama nafn. Mikill eldur kom upp í togaranum 10 apríl árið 1990. Var þá á veiðum um 37 sjómílur út af San Bernando við Buenos Aires í Argentínu. Togarinn var tekinn í tog til Montevideo í Úrúgvæ. Var gerður upp og seldur, óvíst hverjum. Togarinn sökk 13 júní árið 1992. Óvíst hvar og afdrif skipverja ókunn.


1526. Ýmir HF 343 við öldubrjótinn á Siglufirði.                                                 (C) Einar Sturluson.
 

     Nýr skuttogari til Hafnarfjarðar

Hlutafélagið Stálskip h/f, Hafnarfirði, hefir keypt 469 rúmlesta skuttogara frá Aberdeen í Skotlandi. Hið nýja skip ber nafnið Ýmir með einkennisbókstöfum HF 343. Skip þetta er 7 ára gamalt byggt í Aberdeen í Skotlandi eftir kröfum Lloyds-flokkunarfélagsins og er mesta lengd þess 48.7 m og breidd 10.0 m. Skip þetta hefir reynzt mjög gott sjóskip og var stærsta skip Richard Irvin & sons, sem gert var út frá Aberdeen. Engin lán fengust til kaupana úr opinberum sjóðum hér vegna ákvæða ríkisstjórnarinnar, samkvæmt upplýsingum frá Stálskip h.f.
Skipstjóri á Ými verður Sverrir Erlendsson, 1. vélstjóri Pétur Vatnar Hafsteinsson. Ýmir er væntanlegur til Hafnarfjarðar í dag. Stálskip h/f átti áður síðutogarann Rán GK 42.

Morgunblaðið. 21 nóvember 1978.


Skuttogarinn Ben Lui A 166 frá Aberdeen.                                                      Ljósmyndari óþekktur.
 

          Skozkur togari reyndi að                                sigla á Fylki NK

Rétt fyrir hádegi á þriðjudag reyndi skoski togarinn Ben Lui A 166 tvívegis að sigla á togbátinn Fylki NK 102, þegar báturinn var staddur 14 sjómílur suðaustur af Langanesi. Ben Lui er nýr skuttogari, 700-800 tonn og er fyrsti stóri skuttogarinn, sem Aberdeen menn eignast. Skipstjórinn á Fylki, Trausti Magnússon, Seyðisfirði, lýsti þessum atburði svo í viðtali við Þjóðviljann: "Var vont skyggni og þokuslæðingur á þessum slóðum, er brezki togarinn kom allt í einu að norðan og sigldi aðeins 40-50 metra fyrir framan stefnið á báti okkar. Áttum við réttinn, enda var togarinn á öfugum bógi við okkur. Við stöðvuðum bátinn til þess að forða árekstri og settum síðan á hæga ferð áfram og keyrði togarinn á undan okkur smástund. Allt í einu snarsnýr togarinn í bakborða og stefndi beint á síðu bátsins. Beygðum við þá undan honum á 10-11 mílna ferð og tilbúnir að setja á fulla ferð. Sneri togarinn þá frá okkur. Það var heldur óhuggulegt að verða fyrir þessum tilraunum togarans til þess að keyra okkur niður.
Maður veit aldrei hvað mikil alvara er á bak við svona tilraunir." Það atferli skipstjórans á Ben Lui, sem hér hefur verið lýst, er mjög hættulegt og vítavert. Við trúum því ógjarnan, að brezkir togaraskipstjórar séu glæpamenn, sem gera sér leik að því að sigla niður íslenzka fiskibtáa og drepa íslenzka sjómenn. Væri þá íslendingum illa launuð björgun fjölda brezkra sjómanna úr sjávarháska, en oft hafa íslendingar stofnað lífi sínu í bráðan voða við slík björgunarstörf. En eins og skipstjórinn á Fylki sagði: "Maður veit aldrei hvað mikil alvara er á bak við svona tilraunir," og er því nauðsynlegt að hafa góðar gætur á ferðum og atferli brezku togaranna. Jafnvel þó skipstjórinn á Ben Lui hafi ekki ætlað að sökkva Fylki, heldur aðeins að skjóta áhöfninni skelk í bringu og glettast við hana, er athæfi hans stór vítavert og hættulegt. Þegar skip sigla á fullri ferð í mjög lítilli fjarlægð hvort frá öðru, og virða siglingareglur að vettugi, 'þarf ekki mikið út af að bera til þess að stórslys hljótist af.

Austurland. 22 september 1972.


Togarinn Ýmir HF 343 í Hafnarfjarðarhöfn.                                 (C) Vigfús Markússon. Brimbarinn.
 

    Ýmir komst til hafnar í Njarðvík
    eftir mikinn barning í óveðrinu

Togarinn Ýmir sem strandaði á Geirfuglaskeri í fyrrinótt var dreginn til hafnar í Njarðvík um fimmleytið í gærdag. Mikill sjór var í skipinu og maraði stefni þess í hálfu kafi. Öll áhöfnin var þá komin um borð í skipið Heimi frá Keflavík, sem fylgdi skipunum eftir. Vigri frá Reykjavík dró Ými til hafnar en hann var fyrstur á vettvang. Rok og rigning var fram eftir degi og tafði það björgun. Voru menn milli vonar og ótta hvort takast myndi að koma togaranum til hafnar. Í fyrstu voru þrír af fjórtán manna áhöfn skipsins um borð. Vegna slæms útlits voru þeir síðan einnig teknir um borð í Heimi, sem er 190 tonna skip, gert út frá Keflavík. Það var ævintýri likast að fylgjast með Ými þar sem hann hékk stjórnlaus aftan í Vigra og rásaði til og frá. Þykir mikil mildi að ekki fór verr. Stefnt var að því að taka togarann í slipp í Njarðvík. Átti að dæla sjónum úr skipinu og draga hann á þurrt í nótt. Áhöfnin var við góða heilsu og varð engum meint af volkinu. Mikill viðbúnaður var í Keflavík og Njarðvík þegar skipin komu til hafnar. Fjöldi fólks fylgdist með drættinum eftir því sem mögulegt var. Skipin voru fyrst sjáanleg um eittleytið og voru þá stödd út af Garðskaga. Mikill mannsafnaður var síðan saman komin á bryggjunni þegar skipin komu að landi. Ýmir eru í eigu hjónanna Agústs Sigurðssonar og Guðrúnar Lárusdóttur. Þau keyptu skipið árið 1978 frá Bretlandi. Það er gert út frá Hafnarfirði.

DV. 17 júlí 1982.


Ýmir dreginn til hafnar í Njarðvík af togaranum Vigra RE 71. Eins og sést kom mikill leki að Ými. Það er Heimir KE sem er á milli þeirra. Áhöfnin er um borð í honum.     (C) Dagblaðið-Vísir.
 

            Ýmir HF 343   

21. nóvember s.l. bættist nýr skuttogari í flota landsmanna, en þá kom skuttogarinn Ýmir HF í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Hafnarfjarðar. Skuttogari þessi, sem áður hét Ben Lui, er keyptur notaður frá Skotlandi, og er byggður þar árið 1971 hjá skipasmíðastöðinni John Lewis & Sons Ltd í Aberdeen, smíðanúmer 364. Ýmir HF er í eigu Stálskips hf. í Hafnarfirði, sem á fyrir síðutogarann Rán GK. Skipstjóri á Ými er Sverrir Erlendsson og 1. vélstjóri Pétur Vatnar Hafsteinsson. Framkvæmdastjóri útgerðarinnar er Guðrún Lárusdóttir.
Skipið er tveggja þilfara skuttogari með skutrennu upp á efra þilfar og er byggt samkvæmt reglum og undir eftirliti Lloyd's Register of Shipping í flokki +100AI Stern Trawler,+LMC. Báðum þilförum er lyft um 6I cm í framskipi, en tilgreind dýpt hér á eftir er miðuð við afturskip. Undir neðra þilfari er skipinu skipt með fjórum vatnsþéttum þverskipsþilum í eftirtalin rúm, talið framan frá: Stafnhylki (þurrgeymir); keðjukassar, og ferskvatnsgeymir; fiskilest með botngeymum fyrir ferskvatn og sjókjölfestu; vélarúm með botn- og hágeymum fyrir brennsluolíu og skutgeymar aftast fyrir sjókjölfestu, Fremst á neðra þilfari er geymsla, en þar fyrir aftan á fremri hluta neðra þilfars, er vinnuþilfar (aðgerðarrými) og aftur úr því, b.b.-megin við miðlínu, er gangur aftur að fiskmóttöku, sem er fyrir flutning á fiski. Sitt hvoru megin við ganginn eru íbúðarými sem tengjast saman með íbúðagangi þverskips, aftan við vinnuþilfar, en fiskurinn er fluttur með færibandakerfi yfir umræddan íbúðagang upp á efra þilfar og síðan aftur niður á vinnuþilfar. Fiskmóttaka er aftarlega á neðra þilfari, fyrir miðju, en þar fyrir aftan er stýrisvélarrúm undir skutrennu og veiðarfærageymslur aftast í báðum síðum. Yfirbygging skipsins er miðskips og er tvær hæðir auk brúar (stýrishúss), en enginn hvalbakur er á skipinu. Neðst er þilfarshús, inngangur, geymslur, klefi fyrir hafnarljósavél o.fl. en til hliðar við það eru gangar fyrir grandara- og bobbingavindur, sem eru opnir að aftan. Yfir þessu þilfarshúsi er íbúðarhæð en aftan við hana er togvindan staðsett á palli, og klefi fyrir togvindumótor er aftast í íbúðarhæð. í brú, s.b.-megin, er kortaklefi og loftskeytaklefi. Togþilfarið afmarkast að framan af þilfarshúsi og þili sem tengist framhlið þilfarshúss. Í framhaldi af skutrennu að aftan kemur vörpurenna sem greinist í tvær bobbingarennur, sem ná fram í ganga, þar sem grandara- og bobbingavindur eru. Yfir afturbrún skutrennu er toggálgi, en yfir frambrún skutrennu er bipodmastur. Aftarlega á togþilfari eru síðuhús, fyrir vélabúnað o.fl.
Aðalvél skipsins er British Polar, gerð SF 112 VS-C, 12 strokka fjórgengisvél með forþjöppu og eftirkælingu. sem skilar 1.650 hö við 759 sn/mín.
Mesta lengd, 48.77 m.
Lengd milli lóðlina 42.67 m.
Breidd 10.06 m.
Dýpt að efra þilfari 6.10 m.
Dýpt að neðra þilfari 3.96 m.
Lestarrými 370. M3.
Brennsluolíugeymar 141. M3.
Ferskvatnsgeymar 40. M3.
Sjókjölfestugeymar 60. M3.
Rúmlestatala 469 brl.
Skipaskrárnúmer 1526.

Ægir. 1 tbl. 1 janúar 1979.

 
 

16.05.2019 07:11

Minningartaflan í Hafnarfjarðarkirkju.

Í Hafnarfjarðarkirkju er minningartafla sem gefin var af félagi botnvörpueigenda í Hull til minningar um skipverjanna af Hellyerstogaranum Fieldmarshal Robertson H 104 sem fórst í Halaveðrinu í febrúar árið 1925. Einkar falleg tafla sem hangir í kór kirkjunnar. Var hún afhent við hátíðlega athöfn í kirkjunni í nóvember 1926, eða fyrir rúmum 92 árum síðan og hefur hún alla tíð verið í Hafnarfjarðarkirkju eftir því sem ég best veit.

 

Minningartaflan í kór Hafnarfjarðarkirkju.                                     (C) Þórhallur S Gjöveraa.

 

  Minningartafla afhjúpuð í

       Hafnarfjarðarkirkju

Sunnudaginn 14. nóv. var afhjúpuð, í Hafnarfjarðarkirkju, tafla sú, sem gerð hefir verið til minningar um menn þá, sem fórust á botnvörpuskipinu Fieldmarshal Robertson, en þeir voru bæði enskir og íslenskir, sem kunnugt er, og eru nöfn þeirra allra letruð á töfluna, en fánar beggja landa, Bretlands og Íslands eru greyptir efst á töfluna. Félag útgerðarmanna botnvörpuskipa í Hull,  ,,The Hull Steam Trawlers Mutual Insurance and Protecting Company Ltd.", hefir gengist fyrir því, að minningartaflan var gerð, og fékk leyfi sóknarnefndarinnar til þess að hún yrði geymd í Hafnarfjarðarkirkju, með því að skipið Fieldmarshal Robertson var gert út frá Hafnarfirði, þegar það fórst. Gefendurnir báðu breska konsúlinn í Reykjavík, hr. Ásgeir Sigurðsson O.B.E. að afhjúpa minningartöfluna í þeirra nafni, og fór sú athöfn fram að viðstöddu miklu fjölmenni, þegar guðsþjónustugerð var lokið. Um leið og breski konsúllinn afhjúpaði minningartöfluna, mælti hann nokkur orð og sagði m. .a. að gefendurnir vildu með þessu varðveita minningu hinna látnu manna og jafnframt sýna ættingjum þeirra og vinum samúð í sorgum þeirra. Eftir það flutti prófasturinn síra Árni Björnsson hjartnæma ræðu og að henni lokinni var sunginn sálmurinn "Hærra minn guð til þín", og var athöfn þessi hin hátíðlegasta og ógleymanleg þeim, sem við voru staddir.

Ægir. 19 árg. 1 nóvember 1926.


Fyrirkomulagsteikning af samskonar skipi og Robertson.   

 

     Þeir sem fórust með

 togaranum Robertson

Einar Magnússon, skipstjóri, Vesturgötu 57.
Björn Árnason, 1. stýrim., Laufásvegi 43.
Sigurður Árnason, 2. stýrim., frá Móum, Kjalarnesi.
Bjarni Árnason, Grund, Kjalarnesi.
Bjarni Eiríksson. bátsm., Hafnarfirði.
Jóhann Ó. Bjarnason. Óðinsgötu. 17 B.
Gunnlaugur Magnússon, Vesturgötu 57.
Einar Helgason, matsv., Patreksfirði.
Anton Magnússon, frá Patreksfirði.
Halldór Guðjónsson. Njálsgötu 36 B.
Erlendur Jónsson, Hafnarfirði.
Þórður Þórðarson, Hafnarfirði.
Tómas Albertsson., frá Teigi í Fljótshlíð.
Sigurjón Guðlaugsson, Hafnarfirði.
Valdemar Kristjánsson, Bræðrabst.24A
Halldór Sigurðsson, Akranesi.
Ólafur Erlendsson, Hafnarfirði.
Ól. Bjarni Indriðason, Patreksfirði.
Árni Jónsson Ísfjörð, Þingh.str. 15.
Jón E. Ólafsson, Keflavík.
Einar Hallgrímsson, Hafnarfirði.
Magnús Jónsson, loftskeytam. Flatey
Jón Magnússon. Grettisgötu 53 A.
Vigfús Elísson, Hafnarfirði.
Óli Sigurðsson, Norðfirði.
Egill Jónsson, Hafnarfirði.
Óskar V. Einarsson, Vesturg. 30.
Kr. Karvel Friðriksson, Reykjavík.
Jóhannes Helgason hjálparmatsveinn, Hafnarfirði.


Englendingarnir sem fórust voru:

Charles Henry Beard, skipstjóri.
Alfred Wright, Stýrimaður.
Fred Bartle, 1 vélstjóri.
William Lowey, 2 vélstjóri.
George S Jackson, kyndari.
John Murray, kyndari.

 


15.05.2019 19:43

156. Náttfari ÞH 60. TFXY.

Vélskipið Náttfari ÞH 60 var smíðaður í Molde í Noregi árið 1962 fyrir Barðann hf á Húsavík. 169 brl. 660 ha. Lister vél. Skipið var lengt árið 1966 í Noregi og mældist þá 208 brl. Frá 7 desember 1966 hét skipið Þorri ÞH 10, sömu eigendur. Skipið var endurmælt í júní 1970 og mældist þá 170 brl. Selt 10 febrúar 1975, Pólarsíld hf á Fáskrúðsfirði, hét þá Þorri SU 402. Mikil slagsíða kom að Þorra er hann var staddur rétt austan við Ingólfshöfða 18 október árið 1979, með þeim afleyðingum að hann sökk. Var skipið þá á heimleið með síldarfarm til Fáskrúðsfjarðar. Það var vélskipið Gunnar SU 139 frá Reyðarfirði sem bjargaði áhöfninni, 10 mönnum.


156. Náttfari ÞH 60.                                                    (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

                 Náttfari ÞH 60

Fyrra laugardag kom til Húsavíkur nýr stálbátur, smíðaður í Moldö í Noregi. Bátur þessi er 168 rúmlestir að stærð og hefur hlotið nafnið Náttfari, ÞH 60. Í bátnum er 640 ha Lister-dieselvél, og ganghraði í reynsluferð var 11,6 sjómílur. Báturinn er að sjálfsögðu búinn öllum nýjustu siglingatækjum og fiskileitartækjum, einnig kraftblökk til síldveiða. Eigandi Náttfara er útgerðarfélagið Barðinn h.f. (Stefán og Þór Péturssynir). Skipstjóri verður Stefán Pétursson og vélstjóri Kristinn Gunnarsson.

Verkamaðurinn. 29 júní 1962.

 Mannbjörg varð er síldarbátur sökk

Vélbáturinn Þorri SU 402 frá Fáskrúðsfirði sökk um klukkan 20 í gærkvöldi. Mannbjörg varð og engin slys á mönnum. Báturinn var á heimleið frá síldarmiðunum við Ingólfshöfða með 70 lestir af síld þegar óhappið varð. Áhöfninni, 10 mönnum, var bjargað um borð í vélbátinn Gunnar SU frá Reyðarfirði. Gunnar er væntanlegur til Fáskrúðsfjarðar með mennina snemma í fyrramálið. Vonzkuveður var af austan þegar báturinn sökk. Þorri SU 402 var 170 lesta stálbátur, byggður í Molde í Noregi 1962, en lengdur 1966. Báturinn hét áður Náttfari.

Morgunblaðið. 19 október 1979.


Vélskipið Gunnar SU 139 bjargaði áhöfn Þorra SU, 10 mönnum.                (C) Vilberg Guðnason.

"Við reyndum að rétta bátinn við en
     það varð ekki við neitt ráðið"

Við reyndum að rétta bátinn við aftur eftir að hann byrjaði að hallast á stjórnborðshliðina, en það varð ekki við neitt ráðið og ekki hægt að komast að neinu, um klukkustund eftir að við yfirgáfum bátinn sökk hann, sagði Friðrik Stefánsson skipstjóri á Þorra 402 frá Fáskrúðsfirði í samtali við Mbl. í gær, en báturinn sökk skammt austur af Ingólfshöfða klukkan rúmlega 20 í fyrrakvöld. Það hefur trúlega eitthvað gefið sig í lestinni, maður veit það ekki nákvæmlega, sagði Friðrik.
Þorri var á síldveiðum með hringnót og höfðu fengist 70-80 tonn í góðu verðri í fyrradag í Meðallandsbugt. Eftir um 3 ½  tíma siglingu áleiðis heim til Fáskrúðsfjarðar fór báturinn skyndilega að halla, en þá var komið vonzkuveður á þessum slóðum, 6-7 vindstig og töluverð kvika. Sagði Friðrik að mjög snögglega hefði brælt. Við vorum komnir stutt austur fyrir Ingólfshöfða þegar þetta gerðist, sagði Friðrik skipstjóri. Við héldum bátnum uppí og það var ekki fyrr en um 2 tímum eftir að báturinn byrjaði að hallast, að við yfirgáfum hann og fórum í bátana. Þá var hann að segja má alveg lagstur á hliðina, kominn inn á miðjar lúgur. Ég var búinn að vera í sambandi við Jónas Jónasson á Gunnari SU frá Reyðarfirði nokkuð lengi og fljótlega eftir að við vorum komnir í bátana vorum við teknir um borð í Gunnar. Við vorum búnir að taka okkur til með þjörgunarbátana og höfðum þá alveg tilbúna, allir í sínum sjógalla og björgunarvestum. Það var ekkert að mönnunum, en við vorum 10 um borð, og við komum til Fáskrúðsfjarðar um klukkan hálffimm í morgun, sagði Friðrik Stefánsson í gær. Hann sagði að fleiri bátar hefðu verið þarna nærstaddir og nefndi Sæljónið frá Eskifirði og Jón Guðmundsson frá Djúpavogi, en síðarnefndi báturinn var við Þorra þegar báturinn sökk upp úr klukkan 20 í fyrrakvöld. Friðrik sagðist ekki hafa sent út neyðarkall, þess hefði ekki gerzt þörf þar sem bátar voru þarna nærstaddir og sagði að samskiptin á milli bátanna hefðu farið fram á venjulegri vinnubylgju. Ekki hefði sérstaklega þurft að kalla eftir hjálp, þetta hefði haft langan aðdraganda og sjómenn væru ætíð fljótir til hjálpar ef eitthvað brygði út af og sagðist vilja þakka þeim sem hefðu lagt sitt af mörkum í þessu tilfelli.
Þorri SU 402 var byggður í Molde í Noregi 1962, en lengdur 1966. Báturinn var úr stáli og 170 lestir að stærð. Hann hét áður Náttfari ÞH 60, eigendur voru Pólarsíld, Bergur Hallgrímsson og fleiri.

Morgunblaðið. 20 október 1979.


12.05.2019 12:04

1159. Torfi Halldórsson ÍS 19. TFTH.

Vélskipið Torfi Halldórsson ÍS 19 var smíðaður í Skipasmíðastöð Marcelíusar Bernharðssonar á Ísafirði árið 1971 fyrir Benedikt Vagn Gunnarsson útgerðarmann á Flateyri. 111 brl. 600 ha. Wichmann vél. Skipið var lengt árið 1972, mældist þá 134 brl. Selt 6 mars 1974, Núma Jóhannssyni, Skúla Jónassyni og Tjaldi hf á Siglufirði og Kristjáni Guðmundssyni útgerðarmanni á Rifi, hét Tjaldur SI 175. Selt 9 maí 1979, Kristjáni Guðmundssyni á Rifi, Gissuri Tryggvasyni, Árna Helgasyni og Guðmundi Bjarnasyni í Stykkishólmi, hét Tjaldur SH 270. Árið 1982 var skipið yfirbyggt og mældist þá 137 brl. Frá 1 júní 1986 var Kristján Guðmundsson einn eigandi skipsins. Ný vél (1987) 715 ha. Caterpillar vél, 526 Kw. Selt 21 maí 1992, Kristjáni Guðmundssyni á Rifi, hét Svanur SH 111. Selt 30 maí 1992, Sigurði Ágústssyni hf í Stykkishólmi, sama nafn og númer. Selt 27 maí 1997, Hópi ehf í Grindavík, hét Þorsteinn GK 16 (kom í stað skips með sama nafni sem strandaði undir Krísuvíkurbjargi, 10 mars sama ár). Selt árið 2003, Vinnslustöðinni hf í Vestmannaeyjum, hét þá Kristbjörg VE 82.  Selt árið 2004, Kóp ehf í Hafnarfirði, hét Kristbjörg ÁR 82, með heimahöfn í Þorlákshöfn. Selt árið 2005, Ebba ehf á Blönduósi, hét Kristbjörg HU 82. Selt árið 2007, Svartabakka ehf á Blönduósi, hét Kristbjörg SK 82, með heimahöfn á Hofsósi. Frá árinu 2008 heitir skipið Kristbjörg HF 82, sami eigandi, en gert út frá Hafnarfirði. Skipið var selt í brotajárn til Danmerkur 15 júlí árið 2008.


1159. Torfi Halldórsson ÍS 19 við bryggju á Ísafirði.                                      Ljósmyndari óþekktur.

            Nýr bátur til Flateyrar

Síðastliðinn laugardag bættist nýr og glæsilegur fiskibátur í flota Flateyringa. Er það vélskipið Torfi Halldórsson ÍS 19, sem smíðað er í skipasmíðastöð Marzellíusar Bernharðssonar á Ísafirði. Skipið ber nafn hins kunna athafnamanns Torfa Halldórssonar skipstjóra á Flateyri, sem á sínum tíma átti hvað mestan þátt í uppbyggingu staðarins og hélt námskeið fyrir skipstjórnarmenn, sem telja má vísi að fyrsta sjómannaskóla á Íslandi. Torfi Halldórsson er stálskip, 115 lestir brúttó að stærð og er mesta lengd 26,40 m., breidd 7,70 m. og dýpt 3,35 m. Skipið er mjög vandað að allri gerð og traustbyggt. Aðalvél skipsins er 600 hestafla Wichmann-vél, og reyndist ganghraði í reynsluför um 12,5 sjómílur. Í skipinu eru tvær hjálparvélar af gerðinni Mercedes Benz og er hvor um sig 50 hestöfl. Vinna þær 220 volta riðstraum, samanlagt 50 kw. Togvinda, 16 lestir, er smíðuð hjá Sigurði Sveinbjörnssyni hf. Skipið er smíðað eftir ströngustu kröfum um gerð íslenzkra fiskiskipa í þessum stærðarflokki, og er búið öllum fiskileitar- og siglingatækjum eins og þau verða bezt.
Eigandi skipsins og útgerðarmaður er Benedikt Vagn Gunnarsson skipstjóri á Flateyri. Lofar hann öll samskipti við Marzellíus Bernharðsson skipasmíðameistara og starfsmenn hans, sem unnu að smíði skipsins. Skipstjóri á Torfa Halldórssyni er Jón Marteinn Guðröðsson, stýrimaður Einar D. Hálfdánsson, 1. vélstjóri Gísli Valtýsson og 2. vélstjóri Hallgrímur Kristinsson. Mikill mannfjöldi fagnaði nýja bátnum er hann kom til Flateyrar á laugardagskvöldið, fánum skrýddur stafna á milli í fögru veðri. Einar Oddur Kristjánsson, varaoddviti Flateyrarhrepps, ávarpaði fólkið og bauð skip og skipshöfn velkomna til Flateyrar. Kvað hann alla Önfirðinga fagna þessum nýja farkosti. Stjórn Slysavarnadeildarinnar Sæljóss á Flateyri fór um borð í hið nýja skip og færði skipstjóranum að gjöf ullarfatnað í gúmbjörgunarbáta skipsins og einnig öndunartæki, sem notað er viðblástursaðferðina við lífgun úr dauðadái. Frú Sólveig Bjarnadóttir, formaður Sæljóss, hafði orð fyrir konunum úr stjórninni, en það var Sólveig Bjarnadóttir, sem átti hugmyndina og forgöngu um það, að gefinn var ullarfatnaður í gúmbjörgunarbáta, og er deildin á Flateyri búin að gefa í alla báta þar. Í vetur bætti deildin um betur og gaf einnig öndunartæki í alla bátana á Flateyri og einnig færði hún björgunarsveitinni á staðnum slíkt tæki að gjöf. Þegar sjóslysin miklu urðu á Flateyri fyrir einum fimm árum, kom frú Sólveig Bjarnadóttir fram með þá hugmynd, að konurnar í slysavarnadeildinni gæfu ullarfatnað í gúmbjörgunarbátana, og hefur sú hugmynd vakið mikla eftirtekt og orðið til þess, að slíkan ullarfatnað er nú búið að gefa í alla báta á Vestfjörðum, einnig á Norðurlandi og víða annars staðar á landinu, þar sem kvennadeildir Slysavarnafélagsins eru starfandi. Vesturland óskar eiganda, áhöfn og Flateyringum til hamingju með hið nýja skip, sem er að hefja togveiðar um þessar mundir. 

Vesturland. 3-4 tbl. 21 maí 1971.


1159. Tjaldur SH 270.                                                                                               (C) Birgir Karlsson.


1159. Þorsteinn GK 16.                                                                      (C) Sjómannabl. Víkingur 1997.


1159. Kristbjörg HF 82.                                                                                (C) Ríkarður Ríkarðsson.

  Nýr Þorsteinn GK byrjaður veiðar 
     í stað skipsins sem strandaði

"Það er mjög gott að vera búinn að finna nýtt skip og yfirstíga þann þátt. Öll áhöfnin á Þorsteini kemur aftur og við byrjum að leggja netin fljótlega," sagði Guðmundur Þorsteinsson, forstjóri og eigandi Hóps hf. í Grindavík, í samtali við DV. Nýi báturinn kom til Grindavíkurhafnar í byrjun apríl en hann kemur í stað Þorsteins GK 16 sem strandaði við Krísuvíkurberg. Báturinn, sem bar nafnið Svanur SH 111, áður Tjaldur frá Rifi, var í eigu Sigurðar Ágústssonar ehf. í Stykkishólmi. Hann er 145 tonn að stærð, 30 tonnum minni en Þorsteinn, smíðaður 1971 á Ísafirði. Kaupverð er 73 milljónir. Báturinn hefur fengið nafnið Þorsteinn GK. "Greinilega hafa margir fylgst með strandinu. Mjög mikið framboð er af bátum, bæði hér á landi og erlendis. Faxtækið hefur ekki stoppað frá þeim tíma sem strandið varð og ekki síminn heldur. Ég hef ekki þurft að hringja eftir upplýsingum, það hefur verið hringt í mig. Það hafa komið á milli 70-80 tilboð erlendis frá frá aðilum sem vilja selja báta sína. Sennilega hef ég fengið upplýsingar um 25-30 báta hér á landi," sagði Guðmundur.

DV. 8 apríl 1997.


09.05.2019 08:33

1002. Gísli Árni RE 375. TFEH.

Vélskipið Gísli Árni RE 375 var smíðaður hjá Kaarbös Mekanik Verksted í Harstad í Noregi árið 1966 fyrir Sjóla hf (Einar Árnason útgerðarmann og Eggert Gíslason skipstjóra) í Reykjavík. 355 brl. 700 ha. Wichmann vél. Skipið var endurmælt í janúar 1970 og mældist þá 296 brl. Skipið var lengt og yfirbyggt í Noregi 1973 og mældist þá 336 brl. Ný vél (1977) 1.500 ha. Wichmann vél. Skipið var selt 23 febrúar 1988, Fiskimjöli & Lýsi hf í Grindavík, hét þá Sunnuberg GK 199. Sama ár stofna Þorbjörn hf og Fiskimjöl & lýsi í Grindavík, nýtt útgerðarfélag, Sigluberg hf í Grindavík um útgerð loðnuveiðiskipanna Hrafns GK 12, Hrafns Sveinbjarnarsonar lll GK 11 og Sunnubergs GK 199. Skipið var lengt árið 1990 og mældist þá 385 brl. Selt 11 ágúst 1997, Tanga hf á Vopnafirði, hét þá Sunnuberg NS 199. Árið 1999 er nafni skipsins breytt, hét þá Arnarnúpur ÞH 272. Seldur árið 2000, S.R. Mjöli hf í Reykjavík. Arnarnúpur ÞH kemst í eigu Síldarvinnslunnar hf í Neskaupstað árið 2003, þegar þeir kaupa S.R. Mjöl hf. Skipið var selt til Nýfundnalands 10 febrúar árið 2004 og fékk nafnið Sikuk hjá hinum nýju eigendum.


1002. Gísli Árni RE 375.                                            (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

        Stærsti síldarbátur flotans
           kom til landsins í gær 

Stærsti síldarbátur hér á landi, Gísli Árni RE 375, kom hingað í fyrrinótt frá Harstad í Norður-Noregi, en þar var hann smíðaður í Kaarbös Mek. Verksted. Báturinn lá við bryggju á Grandagarði í gær, allur klakaborinn, því að mikil ísing hafði setzt á hann síðasta sólarhringinn. Þetta er hið tignarlegasta skip og vakti forvitni manna í glampandi síðdegissólinni. Eigandi hins nýja báts er  Sjóli h.f., þ. e. Einar Árnason útgerðarmaður og Eggert Gíslason, skipstjóri á Gísla Árna. Vísir ræddi við Eggert skipstjóra í tilefni af komu bátsins. Gísli Árni er 355 lestir, 39 m. að lengd og 8 m. að breidd. Vélin í bátnum er Vickmann, 700 hestöfl, þekkt og góð vél, og gengur báturinn 11 sjómílur á klukkustund. Ýmsar nýjungar eru í bátnum, sem ekki er enn almennt farið að taka í notkun í flotanum, svo sem eins og yfirbyggt þilfar bakborðsmegin. Er það vinnupláss til að salta síld og þorsk. Þá er ennfremur síldarvél, sem haussker og slógdregur síld og afkastar 40 tunnur á klst. Það er alger nýjung hér á Íslandi. Ennfremur er nótapláss fyrir vara nót niðri á aðaldekki og jafnvel hægt að kasta nótinni þaðan. Þetta er til mikils hagræðis: "Ekki eins mikil yfirvigt", sagði Eggert skipstjóri. Tvö asdic-tæki af nýjustu og stærstu gerð eru í bátnum, talstöð og dýptarmælir, allt af Simradgerð.
Gísli Árni kostaði tæpar 18 milljónir króna, en eins og áður er sagt, er hann stærsti sfldarbátur flotans fram að þessu, en gerðir hafa verið samningar um nokkra stærri báta fyrir íslenzka flotann. Eggert sagði, að þeir hefðu látið úr höfn í Noregi sl. sunnudagskvöld og verið rúma fjóra sólarhringa á leiðinni. "Við fengum storm og kulda síðasta sólarhringinn og settist mikil ísing á bátinn, og urðum við að berja ísana með sérstökum járnstöngum, sem ég lét smíða fyrir bátinn". "Hvernig fór báturinn í sjó?" "Það var ekkert athugavert við hann, hvað það snerti. Hann fór vel í sjó". "Hvenær prófið þið bátinn í alvöru?" "Við hugsum okkur að fara á morgun, bara að reyna græjurnar og vita hvernig þetta allt virkar. Við förum náttúrlega út með þorskanót, en það er allt dautt eins og er". Eggert Gíslason hefur, sem kunnugt er, verið aflakóngur æ ofan í æ. "Nokkur skipti", sagði hann að vísu, þegar hann var spurður að því, og vildi helzt eyða því tali. Áhöfnin á Gísla Árna er 14 manns. Stýrimaður er Árni Guðmundsson. Fyrsti vélstjóri er Hjalti Þorvarðarson. Umboðsmaður bátsins er Eggert Kristjánsson, stórkaupmaður.

Vísir. 26 mars 1966.


Gísli Árni RE 375 við bryggju í Neskaupstað.                              Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.


Gísli Árni RE 375 á leið til hafnar með fullfermi.                                        (C) Magnús Þorvaldsson.

  Tvö aflaskip keypt til Grindavíkur

Fiskimjöl og Lýsi h.f. í Grindavík hefur keypt og tekið við hinu mikla aflaskipi Gísla Árna RE 375. Þá er vitað um aðila í Grindavík sem hafa sýnt áhuga á að kaupa loðnuskipið Magnús frá Neskaupstað. Gísli Árni, sem er eitthvert aflasælasta skipið í eigu íslendinga, er byggður úr stáli í Noregi 1966 og hefur síðan verið bæði lengdur og yfirbyggður og mælist nú 336 tonn. Aðaleigandi skipsins og fyrrum skipstjóri þess er hin frækna aflakló úr Garðinum, Eggert Gíslason. Magnús NK er 252 tonna skip, byggt 1967, og hefur einnig bæði verið lengt og yfirbyggt. Er vitað um nokkra aðila af Suðurnesjum sem sýnt hafa áhuga á að kaupa það skip, þ.á.m. Þorbjörn h.f. í Grindavík.

Víkurfréttir. 8 tbl. 25 febrúar 1988.


1002. Sunnuberg GK 199 með nótina á síðunni.                                     (C) Sigurður Bergþórsson.


1002. Arnarnúpur ÞH 272 við bryggju á Akureyri.                   (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

               Arnarnúpur farinn

Arnarnúpur ÞH-272, sem var í eigu Síldarvinnslunnar, hefur verið seldur til Nýfundnalands. Skipið, sem upphaflega hét Gísli Árni RE-375, hélt frá Reyðarfirði til St John í fyrradag. Skipið mun hér eftir bera nafnið Sikuk sem þýðir ís.

Fréttablaðið. 12 febrúar 2004.


Flettingar í dag: 496
Gestir í dag: 61
Flettingar í gær: 1220
Gestir í gær: 64
Samtals flettingar: 908440
Samtals gestir: 66140
Tölur uppfærðar: 27.7.2024 11:32:27