18.08.2018 10:13

S. t. Marconi H 777.

Botnvörpungurinn Marconi H 777 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1903. 261 brl. 70 n.h.p. (400 ha ?)  þriggja þjöppu gufuvél, smíðuð hjá C.D. Holmes & Co Ltd í Hull. Smíðanúmer 36. Eigandi var Francis & Thomas Ross Ltd í Hull frá sama ári. Skipið var 130 ft á lengd, 22 ft á breidd og djúprista var 12 ft. Togarinn strandaði við Hofsnes í Öræfum 6 mars árið 1909. Áhöfninni, 18 mönnum var bjargað í land af Öræfingum. Það þótti nýlunda að á þessum togara voru fimm ungir íslendingar sem höfðu ráðið sig á skipið til að læra vinnubrögð á togurum. Marconi varð ekki bjargað. 


Hulltogarinn Marconi H 777 á strandstað í Öræfum.                                    Ljósmyndari óþekktur.


Trollið tekið á Marconi H 777.                                                                        (C) Steve Goodhand.


Skipverjar á Marconi með stórlúðu í þessu holi.                                             (C) Steve Goodhand.


Skipverjar í aðgerð. Virðist vænn fiskur hjá þeim.                            (C) Steve Goodhand.


Marconi H 777 í Reykjavíkurhöfn. Esjan er greinileg í baksýn.                     (C) Steve Goodhand.

                   Skipströnd

Tveir útlendir botnvörpungar hafa strandað í Skaftafellssýslu snemma í þessum mánuði. Öðru strandinu olli ásigling annars botnvörpungs, braut hann gat á skipið, svo það varð að hleypa til lands á Hvolsfjöru í Mýrdal. Það skip var þýzkt og hét Brandenburg. Einn maður druknaði af því skipi, en 11 björguðust.
Hitt skipið var enskt og hét Marconi, Það strandaði fram undan Fagurhólsmýri í Öræfum. Þar björguðust allir mennirnir, 18, og eru 5 af þeim íslendingar.
Enn strandaði botnvörpungur 18. þ. m. við Fossfjöru á Síðu. Menn björguðust.

Fjallkonan. 11 tbl. 27 mars 1909.


15.08.2018 09:27

Kirkella H 7. MACF3.

Hulltogarinn Kirkella H 7 var smíðaður hjá Mykleburst Shipyard í Gursken í Noregi árið 2018 fyrir Onward Fishing Company Ltd í Hull. 4.113 brl. 3.600 Kw Rolls Royce vél. Skipið er 81 m. á lengd og 16 m. á breidd. Haukur Sigtryggur Valdimarsson sendi mér þessar myndir af Kirkellu þegar skipið lagðist að bryggju á Akureyri í gærkvöldi. Skipið er einnig í eigu Samherja í gegn um dótturfélög þess í Bretlandi. Kirkella er systurskip Cuxhaven NC 100 og Berlin NC 105 sem gerð eru út af DFFU í Cuxhaven í Þýskalandi og Emeraude sem er í eigu Euronor  í Boulogne og Compagnie de Péches í St. Malo í Frakklandi. Þakka Hauki fyrir sendinguna, glæsilegt skip.


Kirkella H 7 við bryggju á Akureyri í gærkvöldi.                    (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

Kirkella H 7.                                                                          (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


Kirkella H 7.                                                                       (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


Dótturfélög Samherja í Evrópu.                                                                    Heimasíða Samherja hf.


       Erlend starfsemi Samherja

Samherji hefur tekið þátt í sjávarútvegi í öðrum löndum frá árinu 1994, eitt sér eða í samstarfi með öðrum. Samherji á hlut í og tekur virkan þátt í rekstri nokkurra útvegs- og fiskvinnslufyrirtækja í Evrópu og frá árinu 2007 teygir erlend starfssemi sig einnig til Afríku.  Erlend starfsemi er rúm 55% af heildarstarfsemi félagsins.

Af heimasíðu Samherja hf.14.08.2018 10:05

576. Hrafn Sveinbjarnarson MB 85.

Mótorbáturinn Hrafn Sveinbjarnarson MB 85 var smíðaður af Magnúsi Guðmundssyni skipasmið á Byggðarenda í Reykjavík árið 1913. Eik og fura. 20 brl. 50 ha. Tuxham vél. Eigandi var Bjarni Ólafsson & Co á Akranesi frá sama ári. Ný vél (1933) 80 ha. Völund vél. Seldur 24 júní 1939, Ólafi E Einarssyni í Keflavík, hét Hrafn Sveinbjarnarson GK 255. Báturinn var lengdur árið 1942, mældist þá 25 brl. Ný vél (1944) 100 ha. Buda díesel vél. Seldur 17 maí 1946, Sverri Sigurðssyni, Þorbirni Sigurðssyni og fl. í Grindavík, sama nafn og númer. Seldur 23 febrúar 1955, Ágúst Snæbjörnssyni í Reykjavík, hét þá Hrafn Sveinbjarnarson RE 332. Seldur 10 mars 1959, Hrólfi Ingólfssyni og Einari Sigurðssyni í Vestmannaeyjum, hét Hrafn Sveinbjarnarson VE 141. Ný vél (1962) 137 ha. Penta díesel vél. Seldur 5 mars 1962, Jógvan Hansen í Vestmannaeyjum, sama nafn og númer. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 28 júní árið 1968.


Hrafn Sveinbjarnarson MB 85.                                (C) Árni Böðvarsson / Ljósmyndasafn Akraness.


Hrafn í sínu upprunalega útliti, með stýrishúsið rétt aftan við miðjan bát. Báturinn liggur þarna við steinbryggjuna sem Bjarni Ólafsson lét gera árið 1915.              (C) Úr tímaritinu Akranesi.


    Bjarni Ólafsson útgerðarmaður

Bjarni Ólafsson var brautryðjandi mótorbátaútvegsins og því enginn viðvaningur í þeim efnum, hann hugsaði sér því þá þegar að láta byggja fyrir sig stærsta mótorskipið, sem enn hafði verið smíðað hér á landi, því helzt vildi hann, að það væri smíðað af íslenzkum höndum. Hann samdi því við ungan skipasmið í Reykjavík að smíða fyrir sig 20 tonna bát, sem þá þótti stórt skip. Þetta var hinn happasæli Hrafn Sveinbjarnarson. Valið á nafni bátsins, svo langt og óhentugt sem það var að ýmsu leyti sem bátsnafn, gefur nokkra hugmynd um hug og innræti Bjarna. Hrafninn var 20.84 smálestir að stærð, og var sett í hann 20 hk. Scandia-vél, en þá þótti ágætt að hafa hestafl á tonn.
Smíði bátsins var hafin 1913 og var óvenjulega traustbyggður og svaraði fullkomlega kröfum tímans, kom hann fullbúinn til fiskveiða til Akraness 2. marz 1914. Þá var stýrishús bátsins fram undir miðju dekki, en var við næstu vélaskipti fært aftur þar sem það er nú, aftur við mastur. Bjarni var sjálfur formaður á bátnum og enda þótt nú þætti Hrafninn ekki sjófært skip með 20 hk. vél, sótti Bjarni sjóinn fast. Fór hann til viðlegu í Sandgerði á vetrarvertíðum en í útilegur undir Jökul síðari hluta vertíðar og á vorin Þótti honum ekki gaman að koma heim nema með hlaðið skip, og var oft vel látið í. Á síldveiðar fór hann á sumrin á snurpu, þó lítill væri. Þannig var hann á móti Nönnu úr Hafnarfirði 1916. Bjarni var lengi skipstjóri á Hrafni og síðar lengi Jón bróðir hans.
1939 var báturinn seldur Ólafi G. Einarssyni í Keflavík. Hrafn Sveinbjarnarson var hin mesta happa- og gæðafleyta og færði Akurnesingum margan ugga á land. 1915 lét Bjarni byggja fyrstu steinbryggju, sem byggð var í Lambhússundi, var það örlítið sunnar en steinbryggjan, sem þar er nú. Var hún byggð fram af tveim skúrum, er hann lét reisa þar áður, en þar stendur nú fiskhús B. Ólafsson & Co. Mynd sú, sem hér fylgir af Hrafni er með stýrishúsinu í sinni upphaflegu mynd, og liggur hann þar við þessa bryggju. 

Akranes. 6 tbl. 1 júní 1943.

Þættir úr sögu Akraness lll.
Sjávarútvegurinn.
Ól. B. Björnsson.


12.08.2018 10:48

B. v. Brimir NK 75 að landa síld í Fóðurmjölsverksmiðju Norðfjarðar sumarið 1936.

Norðfjarðartogarinn Brimir NK 75 landaði oftast síldarafla sínum í Fóðurmjölsverksmiðju Norðfjarðar og hefur hann eflaust haldið þessari verksmiðju gangandi á meðan hann var í eigu Norðfirðinga. Þessi bræðsla var sú fyrsta sem reist var á Austfjörðum og var það þýski efnafræðingurinn Dr.Carl Paul sem það gerði ásamt norðmönnum árið 1927. Verksmiðjan tók til starfa í júnímánuði það ár. Árið 1931 hætti dr. Paul rekstri bræðslunnar og var ástæðan sögð vera fjármálakreppan í Þýskalandi. Bærinn eignaðist svo verksmiðjuna árið eftir og var hún stækkuð árið 1934 og aftur 1938 og gat þá brætt rúmlega 700 mál á sólarhring. Árið 1940 er verksmiðjan komin í eigu Landsbankans og svo sama ár í eigu Síldarverksmiðja ríkisins sem ráku hana aldrei, heldur sendu menn austur til að negla fyrir glugga og loka henni til frambúðar. Síldarbræðsla hófst ekki aftur á Norðfirði fyrr en Síldarvinnslan hf var stofnuð og byggði sína bræðslu árið 1957.


Togarinn Brimir NK 75 að landa síld í Fóðurmjölsverksmiðjuna 1936.  Úr safni Salgerðar Jónsdóttur.

           "Gúanó" verksmiðjan

Þýsk-norskt fjelag er nú byrjað á byggingu stórrar "gúanó-verksmiðju" hjer á Norðfirði. Er henni ætlað fyrst um sinn að vinna mjöl úr þorskúrgangi, hausum og hryggjum og er svo ráð fyrir gert, að þorsk-úrgangar frá öðrum fjörðum hjer eystra, verði fluttur hingað og malaður hjer, og mun skip verða haft í förum til þeirra flutninga. Er svo sagt, að reist muni verða þrjú hús, verksmiðjan, geymsluhús og íbúðarhús forstjóra, auk þess á að byggja bryggju og önnur "plön" tilheyrandi verksmiðjunni. Er svo til ætlast, að byggingu verði lokið í júnímánuði n. k. Er stundir líða, mun fjelagið einnig hyggjast að koma upp síldarbræðsluverksmiðju, ef síldveiði glæðist hjer eystra og mun jafnvel í ráði, að hafa litla "síldarpressu" nú þegar, svo hægt verði að veita viðtöku því er veiðast kynni í sumar. Blaðið hefir átt tal við forstjórann, hr. Joakim Indbjo, og spurt hann um, hvort nokkrir útlendingar mundu teknir til vinnu við verksmiðjuna og hefir hann lýst því yfir, að svo muni ekki verða, nema ekki yrði hægt að fá íslenska vjelamenn og verkstjóra, þá mundu Norðmenn verða til þess teknir. Verksmiðjan mun því verða reist og starfrækt með íslenskum vinnukrafti eingöngu, enda væri annað óverjandi í því atvinnuleysi, sem nú er hjer á Austfjörðum.

Jafnaðarmaðurinn. 1 tbl. 1 mars 1927. 


Þrær bræðslunnar sumarið 1937.                                                                  (C) Sveinn Guðnason.

  Fiskimjölsverksmiðja Norðfjarðar

Fóðurmjölsverksmiðja Norðfjarðar er nú tekin til starfa. Með sönnu verður eigi annað sagt en að fljótt og vel hafi gengið að reisa verksmiðjuna, þar sem eigi var byrjað að vinna þar fyr en eftir nýár, en nú getur að líta þar á lóðinni myndarlegt íbúðárhús, vjelahús úr stáli og bárujárni ásamt geymsluhúsi. Auk þessa hafa reistir verið pallar (plön) og hafskipabryggja byggð. Fyrir byggingum þessum hefir staðið framkvæmdastjóri verksmiðjunnar, hr. J. Indbjör, en hann hefir haft sjer til aðstoðar erlenda sjerfræðinga við járnhúsagerðina og vjelaniðursetninguna. Bendir allt á, að örugg hafi forystan verið. Og verkstjórar og vinnulýður verið samtaka, enda mun þar ríkt hafa friður og eindrægni og full samúð allra aðila. Hefir verkamönnum þessa þorps orðið hinn besti styrkur að byggingarvinnu þessari, enda munar um minna. Verksmiðjan hefir áræðanlega greitt verkalaun inn í þorpið svo þúsundum króna skiftir. Þar að auki kaupir hún fiskiúrgang, hausa og dálka, og þó að þar sje ekki um stóran tekjustofn að ræða, þá horfir það samt til hagabóta sjómönnum, og afarmikils hreinlætisauka í bænum. Einnig  má telja víst, að sjómennirnir muni í tómstundum sínum taka að stunda hjer upsaveiði, því að markaðinn skortir eigi lengur, verksmiðjan kaupir upsann. Vel mætti vera að nokkrar tekjur mætti af slíkri veiði hafa, því að oft er fjörðurinn fullur af smáupsa á sumrin og framan af vetri. Það er vonandi að iðnaðarfyrirtæki þetta verði alþýðu manna bæði hagfelt og hugfelt, og í fullu trausti þess að svo reynist, óska jeg því góðs gengis.

Jafnaðarmaðurinn. 2 júlí 1927.

Botnvörpungurinn Brimir NK 75. LBMQ / TFXC. Smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir breska flotann. Hét þar Simeon Moon. Smíðanúmer 897. 314 brl. 550 ha. 3 þennslu gufuvél. Seldur sama ár, Hellyers Bros Ltd í Hull, hét General Rawlinsson H 173. Seldur 13 september 1924, Fiskveiðahlutafélaginu Víði í Hafnarfirði, hét Ver GK 3. Skipið var selt 4 september 1931, h/f Ver í Reykjavík, hét Ver RE 32. Selt 18 apríl 1936, Togarafélagi Neskaupstaðar í Neskaupstað, hét Brimir NK 75. Seldur 29 júlí 1939, Hlutafélaginu Helgafelli í Reykjavík (Skúli Thorarensen), hét þar Helgafell RE 280. Selt 15 júní 1945, Hlutafélaginu Hrímfaxa í Reykjavík og Hlutafélaginu Sviða í Hafnarfirði, skipið hét Skinfaxi GK 3. Skipið var selt til Færeyja í ágúst 1947, hét þar Miðafell FD 69. Togarinn var seldur í brotajárn til Antwerpen í Belgíu og rifinn þar í október árið 1951.


Áhöfnin á togaranum Brimi NK 75 sumarið 1937.                     Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.

     5-6 þúsund mál af síld veiddust í gær
       á Húnaflóa, við Skaga og Langanes
            Togarinn Brimir fékk 1.700 mál

Síldarflotinn er nær allur á leið til Langaness

Mikil síld veiddist í gær á Húnaflóa, við Haganesvík og við Langanes. Munu hafa veiðst að minsta kosti 5-6 þúsund mál alls á þessum slóðum. Mestan afla fékk Bæjarútgerðartogarinn "Brimir" frá Norðfirði,1.700 mál. Mest allur síldveiðaflotinn mun nú vera á leiðinni austur undir Langanes. Sólskin og ágætt síldarveður var fyrir Norðurlandi í fyrradag og í gær og í gær komu mörg síldveiðaskip inn til Síldarverksmiðjanna á Norðurlandi, Siglufirði, Dagverðareyri og Djúpuvíkur. Höfðu þau flest fengið síldina á Húnaflóa og við Haganesvík. Til Siglufjarðar komu í nótt Freyja með 500 mál, Alden með 400 mál, Hringur með 700 mál, Fáfnir með 750 mál og Vébjörn með 250 mál. Auk þess komu nokkur önnur skip með minna. Sildin er nú mun feitari en áður og er meðalfita á þeirri síld, sem mæld var í gær á Siglufirði um 15% en feitasta síld, sem mæld var var 17%. Til Dagverðareyrar komu í gær línuveiðarinn Langanes með 250 mál. Er það fyrsta skipið, sem leggur upp síld í þeirri verksmiðju í ár, en búizt var við þremur skipum þangað í morgun. Þau skip höfðu einnig fengið síldina á Húnaflóa og við Skaga. Til Djúpuvíkur kom í gær Surprise með 240 mál, en von var í dag þangað á togaranum Ólafi með 150 mál, sem hann hafði fengið í nótt og Garðari með 300 mál.
Togarinn Brimir frá Norðfirði, eign bæjarins, kom til Norðfjarðar í morgun og landar þar í dag 1.700 mál, sem hann hafði fengið við Langanes í gær. Er það mesti síldarafli sem eitt skip hefir fengið sem og fyrsti afli sem kemur til síldarverksmiðjunnar á Norðfirði. Eftir því sem frést hefir mun síldveiðaflotinn nú yfirleitt halda austur að Langanesi og mun verksmiðjan á Raufarhöfn verða tilbúin að taka á móti síld eftir fáa daga. Flest skip, sem ætla að stunda síldveiðar í sumar eru nú farin á veiðar og munu þegar vera komin um annað hundrað skip til veiðanna. Véíbáturinn Eggert frá Sandgerði kom í gær til Keflavíkur með 80 tunnur af síld til frystingar í frystihúsi hlutafélags Keflavíkur. Síldin veiddist í reknet síðastliðna nótt 15 sjómílur í vestur frá Sandgerði. Skipstjórinn áleit mikla síld á þeim slóðum. Síldin er talin eins góð eða betri en síld sú er veiddist síðari hluta síðastliðins hausts.

Alþýðublaðið. 23 júní 1936.


11.08.2018 11:16

Hákarlaskipið Hríseyjan EA 10.

Hákarlaskipið Hríseyjan EA 10 var smíðuð úr eik og furu og var 21,35 brl. Tvær heimildir hef ég um smíðastað og ár. Önnur þeirra segir skipið líklega smíðað í Skotlandi á milli 1860-70 og mun hafa verið keypt þar í landi um 1880 af Kristni Stefánssyni í Ystabæ í Hrísey og fl. Hríseyingum. Hin heimildin segir skipið smíðað í Noregi árið 1885. Skipið var í eigu Einars Ásmundssonar í Nesi um tíma, og einnig í eigu Jakobs og Kristinns Havsteen á Oddeyri á Akureyri. Carl Höepfner kaupmaður á Akureyri mun trúlega hafa eignast skipið haustið 1888 og var það lengi gert út til hákarlaveiða af honum, síðast vorið 1918. Einna lengst munu hafa verið þar skipstjórar, Eggert Jónsson í Samkomugerði, Sæmundur Sæmundsson frá Látrum og Kristinn Ásgrímsson úr Fljótum.
Hríseyjan varð einna langlífust allra hinna gömlu hákarlaskipa. Var hún notuð alla þá stund, sem gert var út á hákarl og gekk seinast til veiða vorið 1918. Eftir að hákarlaveiðar hættu með öllu, stóð Hríseyjan lengi uppi á Akureyri, en var að lokum sett á flot og notuð sem geymsluskrokkur undir síldartunnur og annað dót við bryggjur á Siglufirði. Þar mun þetta gamla hákarlaskip hafa grotnað niður.

Í skipaskrá frá árinu 1933 er Hríseyjan sögð vera 48 ára gamalt skip og kemur það heim og saman við það að skipið hafi verið smíðað árið 1885 í Noregi.

Heimildin um að Hríseyjan hafi verið smíðuð í Skotlandi kemur frá Ásgeiri Halldórssyni í Hrísey.


Hákarlaskipið Hrísey á Oddeyrartanga á Akureyri. Þar stóð það lengi.  Ljósmyndari óþekktur.

Hákarlaskipin "Hríseyja" og "Oddeyri"

Undirskrifaður hefir umboð til að selja 2 nýleg góð hákarlaskip, "Hríseyja" og "Oddeyri" ásamt öllum útbúnaði til hákarlaveiða í bezta lagi. Bæði skipin standa her á Oddeyri. Lysthafendur geta snúið sér til mín og fengið að vita um skipin og hvað þeim fylgir, og með hvaða skilmálum þau verða seld.
Oddeyri 12. okt 1888.
J. V. Havsteen.

Lýður. 17 október 1888.


Hákarlaskipið Hrísey EA 10. Sjá má í Aage EA 13 aftan við Hríseyna.         Ljósmyndari óþekktur.

        Hákarlaskipið Hríseyjan

Hákarlaskipið "Hríseyjan" eign C. Höepfners, kom í gærmorgun hér inn á höfnina aflalaus. Skipið var komið á hákarlamið er ofsarokið á vestan skall á þann 3. þ. m. hleypti þá til Grímseyjar og lagðist austan við eyjuna við aðalakkeri sitt. Eftir stutta stund slitnaði keðjan, og tapaðist þannig akkerið og talsvert af keðju. Skipið lagðist síðan við vara akkeri sitt og keðju, sem hvorttveggja var fremur grant, og þorðu skipverjar því ekki að treysta því eingöngu, heldur lágu við stjórafærið líka. Í þessum festum hékk skipið unz rokinu létti, og vindurinn gekk lítið eitt til norðurs; þá var í ráði að komast á Eyjafjörð, en þegar komið var lítið eitt frá eyjunni, skall á sami vestan ofsinn aftur, svo skipið náði hvorki Eyjafirði né Flatey. Því var þá lagt til hafs, en brátt sáu skipverjar sitt óvænna, sneru við og komust við illan leik inn á Húsavík. Náðu þar í skipafestir verzlunarinnar og Iágu við þær óhultir, þar til á miðvikudagsmorguninn, var þá komið bezta veður, og var þá lagt á stað áleiðis hingað. Ís sáu skipverjar engan og vissu ekki neitt um önnur hákarlaskip.

Norðurland. 29 tbl. 11 apríl 1903.


Hákarlaskipið Hríseyjan EA 10. Líkan Gríms Karlssonar.                            (C) Þórhallur S Gjöveraa.

         "Blikaði voðin, kári söng"

Skip undir seglum er fögur sjón. Ég minnist fiski- og hákarlaskipanna, sem sigldu út og inn Eyjafjörð í mínu ungdæmi, undir hvítum eða rauðbrúnum seglum. Stórar þrímastraðar flutningaskútur sáust einnig auk hinna fjölmörgu litlu fiskibáta, róandi eða siglandi, og svo kváðu við skellirnir í öslandi mótorbátum. Lítum á eyfirskt hákarlaskip. Um skeið færði hákarlinn drjúga björg í bú, meðan lifrin og lýsið voru í háu verði. Beitt var m.a. selspiki og úldnu hrossakjöti. Veiðarfærin ekkert smásmíði, þ.e. sókn (öngull), járnfesti og vaður. Ennfremur krókur (ífæra). Venjulega leyndi sér ekki ef hákarl beit á, en komið gat fyrir að hann hreyfði sig svo lítið að vaðarmaður varð einskis var fyrst í stað, og dró að lokum upp bitinn, jafnvel halfstýfðan skrokk. Höfðu þá aðrir hákarlar ráðist á hinn öngulfasta. Þegar búið var að innbyrða hákarl, var hann umsvifalaust ristur á kvið til lifrar með breddu mikilli, hákarlaskálminni. Lifrin var aðalverðmætið, en flestum skrokkum var fleygt. Fáeinir þó hirtir til kæsingar og matar. Mikill hugur var í hákarlamönnum og gengu þeir berserksgang í aflahrotum. Þótti slæmt að vera sleppifengur, sbr. vísuna sem Guðni gamli spekúlant söng við fiskasteininn:
"Hákarlinn eg missti minn,
mikil voru óhöppin
Ofan í kórinn ufsa inn,
illa fór hann gráni minn."
Hákarl var fyrrum algengur matur með brauði og harðfiski, bæði glær hákarl (af kviðnum) og hinn mjúki bragð- og lyktarsterki skyrhákarl. Börn og óvanir kusu glæran hákarl. Jafnan vildu menn láta hákarlsbeitur hanga lengi uppi og töldu að þá fyrst yrði hann góður matur. Stöku sinnum var gerð stappa úr nýjum, ungum hákarli (gotum), en óhollt þótti að éta mikið af henni. Guðmundur Hannesson læknir kvað vel verkaðan hákarl góðan gegn sumum magakvillum. Viss óholl efni munu hverfa við kæsinguna. Guðmundur taldi kæsingarstaði mjög misgóða og færi það sennilega eftir gerla- og sveppagróðri í bælunum. Var kæst vor eftir vor á sama staðnum ef vel reyndist. Sumir hákarlar eru etnir erlendis, en ekki veit ég hvort kæsing er notuð annars staðar en á Íslandi? Amerískur prófessor hafði frétt af Íslenskri hákarlsverkun og bað um sýnishorn og lýsingu. Fékk hvort tveggja, bauð til sín gestum (prófessorum og læknum) og lét bera hakarl á borð. Aðeins tveir þorðu að bragða hnossgætið og létu allvel yfir. Hinum þótti svakalegt að heyra að hákarlinn hefði verið grafinn i jörð og látið slá í hann, þeir þorðu ekki að smakka, fussuðu bara! Talið var að menn yrðu sterkir af hákarlalýsi, sumir unglingar supu á því sjálfrunnu til að verða hraustir.
Það var hörkulegt lif og lítil þægindi um borð í hákarlaskipum, þetta 15 - 20 smálestir að stærð. Nokkur þó 20 - 30 smálestir, keypt frá Noregi. Einna flest munu hákarlaskipin hafa verið í Eyjafirði og Siglufirði frá 1883 - 1900. Eftir það fór að draga úr útgerðinni.

Tíminn. 11 febrúar 1982.
Ingólfur Davíðsson.08.08.2018 19:20

Trollið tekið á gömlum gufutogara.

Þarna eru skipverjar að taka trollið á gömlum kolakynntum togara og skipstjórinn fylgist með hvað er í pokanum. Ekki veit ég hvaða togari þetta er en hann er sennilega smíðaður í Englandi á árunum 1910-20, eftir stjórnpallinum að dæma, með 4 glugga á hvorri hlið. Það eru nokkuð margir togarar sem koma til greina. Ég held að þessi mynd sé tekin um borð í Hafnarfjarðartogaranum Ver GK 3. Það er kannski einhver sem kannast við skipstjórann ? Birgir Þórisson og Einar Ásgeirsson vita sjálfsagt hvaða togari þetta er og jafnvel hver skipstjórinn er. 


Trollið tekið og pokinn vænn.                                Guðbjartur Ásgeirsson ?. Ljósmynd í minni eigu.


Ver GK 3. LBMQ / TFXC. Smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir breska flotann. Hét þar Simeon Moon. Smíðanúmer 897. 314 brl. 550 ha. 3 þennslu gufuvél. Seldur sama ár, Hellyers Bros Ltd í Hull, hét General Rawlinsson H 173. Seldur 13 september 1924, Fiskveiðahlutafélaginu Víði í Hafnarfirði, hét Ver GK 3. Skipið var selt 4 september 1931, h/f Ver í Hafnarfirði, hét Ver RE 32. Selt 18 apríl 1936, Togarafélagi Neskaupstaðar í Neskaupstað, hét Brimir NK 75. Seldur 29 júlí 1939, Hlutafélaginu Helgafelli í Reykjavík (Skúli Thorarensen), hét þar Helgafell RE 280. Selt 15 júní 1945, Hlutafélaginu Hrímfaxa í Reykjavík og Hlutafélaginu Sviða í Hafnarfirði, skipið hét Skinfaxi GK 3. Skipið var selt til Færeyja í ágúst 1947, hét þar Miðafell FD 69. Togarinn var seldur í brotajárn til Antwerpen í Belgíu og rifinn þar í október árið 1951.


07.08.2018 09:24

554. Hávarður ÍS 160. TFDX.

Vélbáturinn Hávarður ÍS 160 var smíðaður í Vejle í Danmörku árið 1959. Eik. 77 brl. 310 ha. Alpha díesel vél. Eigandi var Ísver hf á Suðureyri við Súgandafjörð frá 22 janúar 1960. Báturinn var seldur í mars 1967, Magnúsi Stefánssyni í Vestmannaeyjum, sama nafn og númer. 21 apríl árið 1967, strandaði Hávarður skammt vestan við Eldvatnsós á Meðallandssandi. Náðist hann út um mánuði síðar lítið skemmdur. Seldur 12 mars 1969, Guðmundi Pálmasyni, Óskari Hervarssyni og Pétri Jónssyni á Akranesi, hét Sæfari AK 171. Seldur 19 febrúar 1973, Herði Jóhannssyni á Eyrarbakka, hét Sæfari ÁR 22. Ný vél (1974) 310 ha. Alpha díesel vél. Seldur 1 febrúar 1977, Soffaníasi Cecilssyni, Hallgrími Magnússyni og Magnúsi Magnússyni á Grundarfirði, hét Fanney SH 24. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 8 apríl árið 1986.


Vélbáturinn Hávarður ÍS 160.                                  (C) Snorri Snorrason.  Úr safni Atla Michelsen.

      Nýr bátur til Súgandafjarðar

Súgfirðingum bættist glæsilegur vélbátur 29. f. m. Hann heitir Hávarður og hefir fengið einkennistölu ÍS-160. Eigandi bátsins er ísver h.f. Hávarður er 76 rúmlestir, eikarbátur, smíðaður í Brensodda í Vejle. Guðni Jóhannsson sigldi bátnum heim, en skipstjóri verður Kristján Ibsen, vélstjóri Guðmundur Jónsson. Hávarður byrjar vertíð í þessari viku. Hann er búinn öllum nýtízku tækjum og er hið fríðasta skip.

Vísir. 5 febrúar 1960.


Hávarður ÍS 160 á strandstað á Meðallandssandi í apríl 1967.                         Ljósmyndari óþekktur.

    Bátur strandar á Meðallandssandi
                       Mannbjörg varð  

        Líkur að bjarga megi bátnum

Vélbáturinn Hávarður ÍS-160 sem er 77 tonn að stærð, strandaði um kl. 11 í fyrrakvöld skammt vestan við Eldvatnsós á Meðallandssandi. Báturinn sendi þegar út neyðarkall og barst Slysavarnarfélaginu í Reykjavík tilkynning um strandið kl. 11:10. Eftir fyrstu staðarákvörðun bátsins var álitið, að hann væri strandaður skammt austan Mýrnatanga við Álftaver og var því björgunarsveitin í Álftaveri þegar kölluð út, en henni til aðstoðar björgunarsveitirnar í Meðallandi og Mýrdal. Í ljós kom litlu síðar, að báturinn var strandaður á allt öðrum stað, því að tilkynnt var frá bænum Fljótum að glampi frá ljóskastara sæist við ströndina, skammt vestan við Eldvatnsós. Voru þá björgunarsveitirnar frá Álftaveri og Mýrdal kallaðar aftur, en björgumarsveitin í Meðallandi fór á vettvang. Gekk björgunin mjög greiðlega og var öll áhöfn bátsins, sem er sex menn, komin í land um kl. 4. Áformað er að reyna að ná bátnum út og var varðskip komið á strandstað í gær, og átti að gera tilraun til að draga bátinn út. Mbl. átti í gær stutt símtal við Sigurgeir Jóhannsson, formann björgunardeildarinnar í Meðallandi, og bað hann að lýsa björgunarstarfinu.
Sigurgeir kvað björgunardeildina hafa fengið tilkynningu um strandið um kL 11:30, og var þá haldið að strandstaðurinn væri skammt frá Mýrnatanga. Það var þó frjótlega leiðrétt, og hélt þá björgunarsveitin þegar áleiðis að hinuim rétta stað. Kafaldsmugga var og tafði nokkuð förina, en þeir sem áttu styðzt að fara voru komnir á strandstaðinn um tvö leytið, en hinir, sem lengra þurftu að fara, laust fyrir kl. 3. Báturinn var þá komin mjög nærri landi sagði Sigurgeir, en skipverjar höfðu látið línu reka að landi og þurftum við því ekki annað en ganga frá björgunartækjum. Tókum við mennina í land í björgunarstól, og hefur það ekki tekið nema 10-15 mínútur að bjarga allri áhöfninni. Ég tel miklar líkur á þvi að hægt sé að bjarga bátnum, því að hann liggur réttur fyrir og snýr stefni í land. Þarna er aðeins um að ræða mjúkan sand, og er því lítil hætta á að báturinn brotni, nema að aftökuveður geri, sagði Sigurgeir að endingu. Ekki liggur Ijóst fyrir með hvaða hætti báturinn strandaði, en sem fyrr segir var mikil snjókoma og skyggni ákaflega slæmt Skipbrotsmennirnir sex voru allir fluttir að Bakkakoti, þar sem Sigurgeir býr, og voru þeir þar yfir nóttina. Í gærmorgun fór svo skipstjórinn, Magnús Stefánsson, ásamt tveimur mönnum á strandstaðinn til að athuga allar aðstæður til björgunar.

Morgunblaðið. 23 apríl 1967.


06.08.2018 11:23

Snorri Sturluson NK 11.

Mótorbáturinn Snorri Sturluson NK 11 var smíðaður í Frederikssund í Danmörku árið 1915. Eik. 8,62 brl. 14 ha. Alpha vél. Eigandi var Ingvar Pálmason útgerðarmaður og síðar alþingismaður Austfirðinga á Nesi í Norðfirði frá árinu 1916. Báturinn bar skráningarnúmerið SU 380 til ársins 1929, að það varð NK 11. Seldur 23 september 1930, Ólafi Kristjánssyni, Bjarna Þórðarsyni, Árna Einarssyni, Sigurði Bjarnasyni og Valdimar Sigurðssyni í Neskaupstað, hét þá Snorri Sturluson NK 11. Árið 1934 var nafni bátsins breytt, hét þá Snorri NK 11. Ný vél (1940) 40 ha. Rapp vél. Seldur 16 júlí 1945, Kaupfélagi Berufjarðar á Djúpavogi, hét þá Snorri SU 380. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 6 janúar árið 1948.


Snorri Sturluson NK 11. Ber raunar nafnið Snorri NK 11 á myndinni.              Ljósmyndari óþekktur.

05.08.2018 13:04

Stuðlaberg NS 102. TFSY.

Vélskipið Stuðlaberg NS 102 var smíðað í Mandal í Noregi árið 1960 fyrir Útgerðarfélagið Berg hf (Björgvin Jónsson, Jón Jörundsson og Kristján Jörundsson) á Seyðisfirði. 152 brl. 400 ha. MWM díesel vél. Skipið fórst út af Stafnesi 18 febrúar árið 1962 með allri áhöfn, 11 mönnum. Stuðlaberg var þá á landleið til Keflavíkur.


Vélskipið Stuðlaberg NS 102.                                                                         Ljósmyndari óþekktur.

      Nýtt stálskip til Seyðisfjarðar

Seyðisfirði, 28. júní. Nýtt skip kom hingað í gærkvöldi. Það er Stuðlaberg NS 102. Skipið eiga þeir Björgvin Jónsson, fyrrv. alþingismaður, og bræðurnir Jón og Kristján Jörundssynir. Jón verður skipstjóri en Kristján vélstjóri. Stuðlaberg er stálskip, 151 smálest að stærð, með 400 hestafla Mannheim vél. Öll nýtízku siglingatæki eru í skipinu og er það mjög vel útbúið. Það var smíðað í Mandal í Noregi. Á skipinu er japanskur léttbátur með 24 hestafla vél. Hann er ætlunin að nota við athuganir á síldveiðum. Fjölmargir Seyðfirðingar voru til að fagna skipinu er það kom til bæjarins. Stuðlaberg gekk 11 sjómílur í reynsluför. Það fékk mjög gott veður á leiðinni heim. Stuðlaberg mun væntanlega halda til síldveiða á miðvikudag og veiða með kraftblökk.

Alþýðublaðið. 29 júní 1960.


Emil Ragnarsson með bjarghringinn af Stuðlabergi sem hann fann í fjörunni við Þóroddstaði á Miðnesi ásamt systur sinni Sólrúnu.        (C) Sveinn Þormóðsson / Morgunblaðið.


           Bjarghringur fundinn

Fréttamenn Morgunblaðsins komu að Þóroddsstöðum á Miðnesi um miðnættið í gærkvöldi. Þar hittu þeir fyrir Ragnar Guðjónsson og eiginkonu hans, Viktoríu Finnbogadóttur. Ragnar er sjómaður á Stafnesinu G.K. 274. Ellefu ára gamall sonur þeirra hjóna, Emil, gekk niður í fjöruna ásamt átta ára gamalli systur sinni, Sólrúnu, á sunnudagsmorguninn milli kl. 10 og 11 og fundu þau þá ýmislegt brak í fjörunni, Lestarlúgu, krókstjaka, árar og spýtnabrak úr bát. Þau fóru strax heim og sögðu tíðindi. Ragnar brá skjótt við, en allir héldu, að þetta væri brak úr mótorbátnum Geir goða, sem strandaði þarna í fjörunni í vetur, þangað til tekið var eftir því, að liturinn á brakinu var annar en á Geir goða. Þegar svo Emil litli og Sólrún, systir hans, fundu bjarghring sídegis á mánudag um fjögurleytið með áletruninni, Stuðlaberg, Seyðisfjörður, þá setti þegar illar grunsemdir að fólkinu. Þegar svo lýst var eftir Stuðlaberginu síðdegis í gær, þóttust flestir vita, hvað gerzt hefði. Ragnar sagði loks við fréttamann Mbl, að bjarghringi tæki oft út af skipum, og ef ólag riði yfir gæti ýmislegt losnað, sem síðar kynni að reka á fjörur. Á myndinni sést Emil með bjarghringinn. Myndin er tekin af ljósm. Mbl. Sveini Þormóðssyni við Þóroddsstaði í nótt.

Morgunblaðið. 22 febrúar 1962.


     Stuðlaberg ferst út af Stafnesi

Miðvikudaginn 21. febrúar s. l. var Slysavarnafélaginu tilkynnt, að Seyðisfjarðarbátsins Stuðlabergs NS 102, hefði ekki orðið vart síðan á laugardagskvöld, er síðast var haft samband við hann út af Selvogi. Um leið og leit var hafin kom í ljós, að brak hafði fundizt á fjörunum milli Garðskaga og Sandgerðis, þar á meðal merktur bjarghringur, og nót hafði sézt mílu út af Stafnesi á mánudag. Á Stuðlaberginu voru 11 menn, en ekkert hefur til þeirra spurzt. Það var bróðir stýrimannsins, Björn Þorfinnsson,, skipstjóri á Heimaskaga, sem tilkynnti Henry Hálfdanarsyni, framkvæmdastjóra Slysavarnafélagsins, að aðstandendur væru orðnir uggandi um bátinn, en útgerðarstjórinn, Jón Jörundsson úr Keflavík, var jafnframt skipstjóri bátsins og því um borð. Útgerðarfélagið er Berg h.f. á Seyðisfirði, og eigendur auk skipstjórans Björgvin Jónsson á Seyðisfirði og Kristján Jörundsson, bróðir skipstjórans, sem einnig var á Stuðlabergi. Er áhöfnin skráð í Njarðvíkum, aðeins einn skipverja frá Seyðisfirði og samkvæmt upplýsingum frá útgerðinni á Seyðisfirði hefur báturinn lagt upp hjá Bæjarútgerð Hafnarfjarðar. Stuðlaberg var á síldveiðum fyrir Suðurlandi og er skipstjórinn hafði samband við Albert Bjarnason, útgerðarmann í Keflavík á laugardagskvöld, var báturinn staddur út af Selvogi á heimleið. Það kvöld var slæmt veður á þessum slóðum.
Mörg skip voru á þessari siglingarleið, bæði á undan bátnum og eftir, en enginn virðist hafa heyrt neitt til hans eftir þetta. Slysavarnafélagið sendi strax út tilkynningu um, að bátsins væri saknað og bað fólk á svæðinu frá Höfnum að Garðskaga um að leita, svo og slysavarnadeildirnar á þessu svæði. Kom þá í Ijós, að þarna hafði rekið heilmikið brak af þilfarinu, án þess að því væri veitt athygli, þar sem ekki var saknað neins skips, þar á meðal bjarghringur með nafni bátsins hjá Þóroddsstöðum, milli Garðskaga og Sandgerðis. Birtu var farið að bregða er leitin hófst í fjörunni. Þá kom í ljós, að Jökulfellið hafði kl. 8,30 á mánudagsmorgun tilkynnt að sézt hefði síldarnót liðlega mílu undan Stafnesi. Hafði landhelgisgæzlan beðið Maríu Júlíu að huga að þessu, en hún komst hvergi nærri vegna þess, hve þar var grunnt, krappur sjór og hvasst. Í gær flaug svo landhelgisflugvélin Rán yfir og sá þá, að nótin var enn á svipuðum stað, en lítið eitt innar. Þegar féttamaður Mbl, í gærkvöldi hitti skipstjórann á Jökulfellinu, Arnór Gíslason, að máli, sagðist hann gera ráð fyrir því, að nótin væri föst í botni. Þegar blaðið hafði fengið fregnir af því, að föst nót hefði sézt liðlega mílu út af Stafnesi, rak okkur minni til að þetta væri á sama stað og Hermóður fórst. Við hringdum því í Lárus Þorsteinsson, skipherra, en það var hann, sem fann brakið, sem talið var vera af Hermóði. Lárus staðfesti, að þetta væri sami staður og aðspurður um, hvernig þarna háttaði, sagði hann, "Þetta er á venjulegri siglingaleið, þegar gott er í sjó, en í verra veðri fara menn yfirleitt dýpra. Þar sem fer að grynnka verður ákaflega kröpp alda,, en strax betra 3 mílum utar. Mér hefur fundizt að svona 1,7 ,mílur út væri sjólagið verst". Þeir sem fórust með Stuðlabergi, voru þessir:
Jón Jörundsson, skipstjóri, Faxabraut 40B, Keflavík, 32 ára,, kvæntur og átti 4 börn.
Pétur Þorfinnsson, stýrimaður, Engihlíð 12, Reykjavík, 30 ára, trúlofaður með 2 börn á framfæri.
Kristján Jörundsson, 1. vélstjóri, bróðir skipstjórans, Brekku, Ytri-Njarðvík, kvæntur en barnlaus.
Karl Jónsson, 2. Vélstjóri, Heiðarvegi 2, kvæntur.
Birgir Guðmundsson, matsveinn, Njálsgötu 22, Reykjavík, kvæntur og átti 4 börn.
Stefán Elíasson, háseti, Hafnarfirði, ókvæntur.
Guðmundur Ólason, Stórholti 22, Reykjavík, kvæntur, átti 3 börn.
Gunnar Laxfoss Hávarðsson, Kirkjuvegi 46, Keflavík, 17 ára.
Örn Ólafsson, Langeyrarvegi 9, Hafnarfirði, 22 ára, kvæntur en barnlaus.
Kristmundur Benjamínsson, Kirkjuteig 14, Keflavík, kvæntur og átti 3 börn.
Ingimundur Sigmarsson frá Seyðisfirði, 31 árs ókvæntur.
Ekki er blaðinu kunnugt um heimilisástæður hjá öllum.
Stuðlaberg NS 102 var stálbátur, 152 lestir að stærð, byggður í Noregi árið 1960 og hefur s. l. ár verið gerður út frá Suðurnesjum.

Sjómannablaðið Víkingur. 3 tbl. 1 mars 1962.


05.08.2018 08:24

Seglskipið Amerigo Vespucci í Reykjavíkurhöfn.

Ítalska seglskipið Amerigo Vespucci var smíðað hjá Naval Shipyard of Castellammare di Stabia í Napólí á Ítalíu árið 1931 fyrir ítalska flotann sem skólaskip. Stál. 3.360 brl. 2 x 1.824 ha. 12VM33F2 MTU vélar, 2 x 1.360 Kw. Skipið var tekið í notkun 6 júní 1931 og hefur verið í þjónustu flotans síðan ef undanskilin eru ár seinni heimstyrjaldarinnar. Skipið er 101 m. á lengd, 15,5 m. á breidd og djúprista þess er 7,3 m. Segl skipsins eru samtals um 2.650 m2. Í áhöfn skipsins eru um 270 manns. Skipið ber nafn hins fræga Amerigo Vespucci (1454-1512) sem var ítalskur landkönnuður og kortagerðarmaður frá Flórens.Talið er að heimsálfan Amerika dragi nafn sitt af honum. Vespucci tók þátt í nokkrum portúgölskum leiðöngrum til Suður Ameríku á árunum 1499 til 1502. Nokkrar frásagnir af þessum leiðöngrum sem voru eignaðar honum komu út á prenti milli 1502 og 1504 og leiddu til þess að þýski kortagerðarmaðurinn Martin Waldseemuller kaus að nefna álfuna eftir honum, án þess að Vespucci sjálfur hefði hugmynd um það. Amerigo Vespucci er eitt fallegasta seglskip heims og var það hannað af ítalska sjóliðsforingjanum Francesco Rotundi. Myndirnar hér að neðan tók ég í gær þegar ég skoðaði skipið hátt og lágt eins og hægt var. Sannkölluð "mubla" þarna á ferð.


Ítalska seglskipið Amerigo Vespucci við Ægisgarð í gær.


Amerigo Vespucci við Ægisgarð í gær.                             (C) Þórhallur S Gjöveraa. 4 ágúst 2018.

     Seglskipið Amerigo Vespucci

Ítalska seglskipið Amerigo Vespucci sigldi að landi við Ægisgarð í Reykjavík snemma í morgun og verður í höfn fram á mánudagsmorgunn. Skipið er þriggja mastra seglskip sem hefur siglt um heiminn frá árinu 1931 og er talið eitt fallegasta skip heims.
Seglskipið er notað sem kennsluskip fyrir ítalska flotann og er Reykjavíkurhöfn þriðji viðkomustaður skipsins í árlegum þjálfunarleiðangri. Á skipinu starfa 124 liðsforingjar sem hafa verið í þjálfun frá því í byrjun júlí en heildarfjöldi á skipinu er um 450 manns.
Í þessari fyrstu heimsókn skipsins til landsins er landsmönnum boðið að skoða skipið og kynnast litla samfélaginu um borð. Opið verður fyrir almenning á morgun laugardag kl. 11-12:30 og 15-17. Einnig á sunnudag kl. 10-12:30 og 15-21. 

vísir.is 3 ágúst 2018.


02.08.2018 10:54

Skarðsvík SH 205. TFXY.

Vélbáturinn Skarðsvík SH 205 var smíðaður í Frederikssund í Danmörku árið 1960. Eik. 86 brl. 400 ha. MWM díesel vél. Eigandi var Skarðsvík hf á Rifi frá 19 desember 1960. Báturinn sökk út af Snæfellsnesi 11 febrúar árið 1962. Hann var þá á heimleið eftir að hafa tekið þátt í björgun skipverjanna af togaranum Elliða SI 1 frá Siglufirði. Mikill leki kom að honum með fyrrgreindum afleiðingum. Áhöfnin, 6 menn, komust í gúmmíbjörgunarbát og var svo bjargað um borð í vélbátinn Stapafell SH 15 frá Ólafsvík.


Skarðsvík SH 205 í Reykjavíkurhöfn.                                                            (C) Snorri Snorrason.  

    Báturinn var við Færeyjar er búizt             var við honum í höfn á Íslandi

Skip í hafi fyrir sunnan Ísland heyrðu um jólin, að radíóstöðvar , hér á Íslandi voru að kalla á  vélbátinn Skarðsvík. Skarðsvík , svaraði aldrei, og árangurslaust var báturinn kallaður upp. Það var ekki fyrr en síðdegis í gær, að loks heyrðist svar frá bátnum. Hann var þá við Færeyjar. Það var Hornafjarðar-radíó, sem náði sambandi við hann. Báturinn, sem er nýsmíðað skip, 85 tonn, lagði af stað frá Fredrikssund í Danmörku á miðvikudaginn var. Með bátnum eru alls 9 menn, en heimahöfn hans verður Sandur, og þaðan eru mennirnir. Þegar báturinn loks svaraði í gær, hafði hann sýnilega hreppt hið versta veður í hafi, því að hann var búinn að vera um það bil sex sólarhringa á leiðinni til Færeyja. Lá báturinn þar í vari og ætluðu skipsmenn að bíða hagstæðara veðurs yfir hafið. Líðan manna er góð um borð. Þegar báturinn lét úr höfn í Danmörku, stóðu vonir til að hann myndi verða kominn til hafnar á Sandi að kvöldi annars í jólum.
Eigendur hins nýja báts eru þeir Kristján Guðmundsson skipstjóri frá Stykkishólmi, Sveinbjörn Benediktsson símstöðvarstjóri á Sandi og Sigurður Ágústsson alþingismaður.

Morgunblaðið. 28 desember 1960.


Skarðsvík SH 205 með fullfermi af síld á Siglufirði.                                       (C) Hannes Baldvinsson.

         Nýr 86 lesta bátur til Rifs

Hellissandi í gær. Frá fréttaritara Þjóðviljans.
Ný bátur kom til Rifs í gærkvöld, fimmtudag, v.b. Skarðsvík SH 205. Báturinn er 87 lestir að Stærð, með 400 hestafla Manheim-vél, smíðaður í Frederikssund Danmörku. Báturinn var sex sólarhringa á leiðinni til Íslands, en skipstjóri í ferðinni var Kristján Guðmundsson. Skipstjóri á bátnum í vetur verður Sigurður Kristjónsson. Eigendur eru Sveinbjörn Benediktsson, Sigurður skipstjóri o. fl. Skarðsvík er annar báturinn, sem kemur til Rifs á seinni hluta þessa árs.

Þjóðviljinn. 31 desember 1960.


Skarðsvík SH 205 á leið til löndunar á Siglufirði.                                           Ljósmyndari óþekktur.


Varðskipið Óðinn hefur tekið Skarðsvík í tog. Til vinstri er togarinn Þorkell máni RE 205 og ber Stapafell SH 15 í hann. Togarinn Júpíter er lengst til hægri.        (C) Adolf Hansen.

      Skarðsvík sökk á heimleið úr                     leitarleiðangrinum

Skarðsvík SH 205, sá báturinn sem fyrstur komi að gúmmíbátnum með hinum látnu mönnum tveim af Elliða, kom ekki aftur úr þeirri leit. Leki kom að bátnum um 15 sjómílur V-NV af Öndverðarnesi um 2 leytið í gær er hann var á leið heim og sökk hann. Áhöfnin, 6 manns, komist á gúmmíbátnum yfir í Stapafellið. Sem dæmi um það hve ört lekinn magnaðist í Skarðsvík má geta þess, að fréttaritari blaðsins á Hallissandi var ásamt fleiri Snæfellingum staddur við Hvítárbrú í áotlunarbílnum til Reykjavíkur er Skarðsvíkin heyrðist senda frá sér hjálparbeiðni, en bíllinn var ekki kominn lengra en í Hvalfjörðinn er fólkið heyrði gegn um talstöðina að Skarðsvíkin var sokkin. Skipstjórinn á Skarðsvík var hinn kunni aflakóngur þar vestra Sigurður Kristjónsson, enda hafði báturinn skilað þriðjungi hærri afla en næsti bátur í þeim 19 róðrum sem af eru þessari vertíð. Í gær áttum við símtal við Sigurð, sem skýrði frá því sem gerðist;
Um 7 leytið á laugardagskvöldið fór Skarðsvíkin út til að leita að gúmmíbátnum af Elliða ásamt öðrum Snæfellsnesbátum og var við leitina þar til báturinn fannst. Þið komuð fyrstir báta að gúmmíbátnum, Sigurður? Báturinn var á hvolfi og mennirnir lágu á botninum í sjó. Hann var á svipuðum slóðum og togarinn sökk. Vindáttiin hafði breytt sér og hann rekið eitthvað til baka. Við vorum búnir að leita innar en farnir að leita á þessum slóðum. Við létum skipherrann á Óðni vita og hann tók líkin. Við voru rétt lagðir af stað í land, þegar lekans varð vart frammi í og sjórinn flæddi inn. Við vorum nýbúnir að fá okkur að borða þar, og tveir menn voru þarna enn. Hvað heldurðu að hafi komið fyrir. Sló báturinn úr sér? Það tel ég útilokað. Þetta var miklu meiri leki en það. Það var engu líkara en eitthvað mikið hefði opnazt. Hvernig var veðrið þá? Það voru 6-7 vindstig og var að ganga upp í NA ofan í vestan sjó. Við sendum út hjálparbeiðni. Óðinn var í ca. 15 mílna fjarlægð og var kominn eftir 45 mínútur. Hann tók okkur á slef. Það voru 10 mílur í var og hefðum við komist í sléttan sjó, þá gat verið að hægt yrði að koma við dælu og það dygði.
En báturinn fylltist á hálfum öðrum klukkutíma. Þegar við þorðum ekki að vera lengur um borð yfirgáfum við hann. Þá voru komnir til okkar togarinn Þorkell máni og Júpiter, sem var með skipbrotsmennina af Elliða og Stapafellið, sem tók okkur upp. Þess má geta í þessu sambandi að skipstjórinn á Stapafellinu er Guðmundur Kristjónsson, bróðir Sigurðar á Skarðsvíkinni. Voruð þið komnir yfir í Stapafellið, þegar Skarðsvikin sökk? Já, hún sökk 5 mínútum eftir að við vorum farnir frá borði. Okkur gekk vel að komast yfir á gúmmíbátnum. En var ekki orðin slæm aðstaða á Skarðsvíkinni, eftir að hún var farin að síga svona mikið í sjóinn? Það hlýtur að hafa gengið yfir allt skipið. O, o, ekki svo ýkja slæmt. Við vorum að græja okkur. En veðrið fór versnandi.
Skarðsvíkin var nýr bátur, kom til landsins í ársbyrjun 1961. Hann var 87 smál. að stærð og búinn fullkomnustu tækjum. Er það mikið áfall fyrir byggðarlagið á Rifi að missa þetta góða skip undan þessum mikla aflamanni sem Sigurður Kristjónsson er, Áður en hann tók við Skarðsvíkinni var hann með Ármann og síðan Stíganda frá Ólafsfirði og alltaf manna aflahæstur. Áhöfnin á Skarðsvíkinni var öll frá Rifi. Mennirnir voru:
Sigurður Kristjónsson, skipstjóri.
Friðjón Jónsson stýrimaður.
Sigurður Árnason vélstjóri.
Almar Jónsson, matsveinn.
Guðmundur Guðmundsson, háseti.
Sigurjón Illugason, háseti.

Morgunblaðið. 13 febrúar 1962.


01.08.2018 13:29

Reykjavíkurhöfn og skipin í morgunsólinni.

Tók þessar myndir af togurum H.B. Granda hf við bryggjuna í Örfirisey í blíðunni í morgun. Það eru Akurey AK 10, Engey RE 1 og Örfirisey RE 4 sem var að koma í land með ágætan afla, enda skipið nokkuð hlaðið. Blanka logn og morgunsólin baðaði höfnina sem skartaði sínu fegursta í morgunsárið.


Akurey AK 10, Engey RE 1 og Örfirisey RE 4 við bryggju í Örfirisey.


2170. Örfirisey RE 4.                                                            (C) Þórhallur S Gjöveraa. 1 ágúst 2018.

29.07.2018 10:05

M. k. Svanur SH 183. LBGK.

Mótorkútterinn Svanur SH 183 var smíðaður hjá Ring Andersen skipasmíðastöðinni í Svendborg í Danmörku árið 1916. Eik. 68 brl. 85 ha. Bolinder vél. Eigandi var Breiðafjarðarbáturinn hf í Stykkishólmi frá 10 september sama ár. Heimferð skipsins varð ævintýranleg, skipið var kyrrsett í Leirvík á Hjaltlandseyjum í níu sólarhringa vegna ófriðarins í Evrópu. Einnig lenti Svanur í fárviðri sem hefði getað farið svo að enginn yrði til frásagnar um. Miklar skemmdir urðu á skipinu í þessum hamförum. Skipið var selt 5 mars 1929, Jóhannesi Jónssyni, Sveini Jóhannssyni og Kristjáni Sveinbjörnssyni í Reykjavík, sama nafn og númer. Svanur strandaði við Lóndranga á Snæfellsnesi 17 janúar árið 1932. Áhöfnin, sjö menn, bjargaðist á land við Arnarstapa á skipsbátnum, en skipið eyðilagðist á strandstað.


Breiðafjarðarbáturinn Svanur SH 183 í reynslusiglingu í Svendborg 1916.      Ljósmyndari óþekktur.

          Breiðafjarðar Svanur

Hinn nýbygði mótorkutter »Svanur«, flutningaskip Breiðfirðinga, kom í fyrramorgun til Stykkishólms fullfermdur vörum til Hvammsfjarðar. Skipið fékk versta veður, og brotnaði annar báturinn. Skipið er ca. 75 smálestir að stærð með 80 ha. Bolinder-vél, og getur það í góðu veðri farið 8-9 mílur. Það sýndi sig þegar á leiðinni heim, í hinu vonda veðri, að það er ágætt sjóskip. Það hefir pláss fyrir 10 farþega.
»Svanur< er byggður hjá Ring Andersens skipasmíðastöðinni í Svendborg. Skipið kom við í Lerwick og var haldið þar í 10 daga.

Morgunblaðið. 14 nóvember 1916.


Stykkishólmur um 1900. Stykkið til hægri og Súgandisey í baksýn. Erlend kaupskip á höfninni.
Gamalt póstkort í minni eigu.

     Með Breiðafjarðar Svaninum til Íslands 1916

          Frásögn Hannesar Stefánssonar stýrimanns
                      Skráð af Sveini Sæmundssyni

Áður en bílvegir náðu til að tengja saman flestar byggðir landsins eða flugvélar hófu að flytja farþega og vörur milli landshluta á skammri stund, mátti heita að allur þungaflutningur færi fram á sjó. Hvar sem við var komið, voru vörur bornar á skip og siglt eða róið. Margur dalabóndinn, sem varð oft að lyfta sama bagganum til klakks á langri heimleið úr kaupstað, mun hafa litið með nokkurri öfund til hins, sem bjó við sjó og naut auk sjávarfangs, þess að geta flutt nauðsynjar bús síns sjóleiðina. Við upphaf fyrri heimsstyrjaldar urðu afurðir landsmanna eftirsóttar og komust í gott verð er frá leið. Fjárráð framleiðanda voru því allgóð og peningavelta meiri en áður hafði þekkzt. Áræði manna jókst að sama skapi. Þjóðin hafði öðlazt nýja trú á landið sem hún byggði. Siglingar milli landa voru aftur komnar í íslenzkar hendur.
Fyrstu skip Eimskipafélags Íslands, "Gullfoss" og "Goðafoss" komin til landsins. Þegar hér var komið bundust menn við Breiðafjörð samtökum um að afla skips og halda uppi samgöngum innan fjarðar og milli Breiðafjarðar og Reykjavíkur. Skip til flutninga á Breiðafjarðarhafnir og til Reykjavíkur höfðu verið í förum í nokkur ár og höfðu ýmsir orðið til þeirrar útgerðar; aðallega kaupmenn, sem áttu nokkuð undir því að selja vörur sínar eða kaupa afurðir í þessum landshluta. Má þar nefna Tangs-verzlun á Ísafirði, sem gerði út hvalveiðiskipið "Varanger" og mótorskipið "Heru" og Garðar Gíslason, mótorskipið "Hans". Svo árið 1915 er stofnað hlutafélag, H.f. Breiðafjarðarbáturinn, með það að markmiði, að afla skips og gera það út í strandsiglingar við Breiðafjörð. Ég bað nýlega Hannes Stefánsson, sem varð fyrsti stýrimaður á hinu nýja skipi að segja lesendum Fálkans frá því, og heimsiglingunni, sem varð mjög söguleg.
Hannes Stefánsson er Barðstrendingur, fæddur á Siglunesi á Barðaströnd árið 1892, sonur hjónanna Guðbjargar Hannesdóttur og Stefáns Kristjánssonar. Hannes fór ungur á sjóinn, svo sem venja var röskra sveina vestur þar, rétt rúmlega þrettán ára gamall. Hann fór í stýrimannaskóla á Ísafirði og lauk þar prófi árið 1913. Hann varð nokkru seinna stýrimaður á "Heru", hafði hann áður verið háseti á Varanger. Þegar mótorskipið "Hera" leysti "Varanger" af hólmi í flutningum við Breiðafjörð fluttist Hannes yfir og ári síðar á mótorskipið "Hans". Meðan austan rok og rigning hamaðist á stofuglugganum heima hjá Hannesi í Miðtúni 70, sagði hann mér söguna af því þegar Breiðafjarðar-Svanurinn var sóttur: 
Það voru sýslurnar þrjár, Snæfellnessýsla, Dalasýsla og Barðastrandarsýsla ásamt nokkrum einstaklingum, sem gengu í félag um kaup á skipinu. Það var afráðið, að láta smíða nýtt skip, seglskip með hjálparvél og samningar voru gerðir um smíði þess hjá skipasmíðastöð í Svendborg árið 1915. Valin kunnur maður, Emil Nilsen, forstjóri Eimskips, sem lengi hafði siglt hér við land var fenginn til þess að hafa umsjón með smíðinni. Upphaflega var áætlað að skipið yrði tilbúið 1. apríl 1916. Stríð geisaði í Evrópu og flest gekk úr skorðum. Smíði skipsins seinkaði og það var álitið að það yrði tilbúið á miðju sumri. Skipshöfnin var ráðin vestur í Stykkishólmi og skyldi hún sækja skipið og sigla því heim. Skipstjóri var Oddur Valentínusson, afburða sjómaður, ég var stýrimaður, Árni Kristjánsson vélamaður og Hans Jónasson háseti. Ég var tuttugu og fjögurra ára þegar þetta var og mikið hlakkaði maður til þess að koma til útlandsins. Við fjórmenningarnir lögðum af stað frá Stykkishólmi með Botníu hinn 23. maí. Komið var á ýmsar hafnir hérlendis, en síðan látið í haf og siglt til Kaupmannahafnar. Þú getur þér nærri að maður varð hrifinn af öllu þar, í stórborginni. Ekki dvöldumst við samt lengi í kóngsins Kaupmannahöfn, heldur fórum áfram til Svendborgar með járnbraut. Einnig sú ferð varð manni heilmikið ævintýri.


Hannes Stefánsson stýrimaður á Svani SH 183 á heimleiðinni.                     (C) Fálkinn 1963.
  
Ef við höfum búist við að sjá skipið okkar liggja þar og vagga sér á öldunni, tilbúið til Íslandsferðar, hlýtur okkur að hafa brugðið í brún. Smíði skipsins var hafin, en ekki mikið þar fram yfir. Ekki væsti um okkur í Svendborg. Sumarið og gróðurinn í öllu sínu veldi og ekkert annað að gera, en að sjá skipið okkar smíðað og bíða þess að það yrði tilbúið. Eftir nokkurn tíma fór mér samt að leiðast aðgerðarleysið, og fékk mér vinnu í skipasmíðastöðinni. Þar var mikill skortur á vinnuafli, því margir höfðu verið kvaddir í herinn. Það var uggur í þeim dönsku og allra veðra von. Skipasmíðastöðin var á hólma og efnið var ferjað úr landi á prömmum. Ég vann stundum við það. Kaðall var strengdur milli hólmans og lands og maður halaði sig á milli. Þetta var örstutt. Í þessari skipasmíðastöð voru byggð 300-400 lesta seglskip. Tveir broður að nafni Andersen stjórnuðu stöðinni og stjórnaði annar, Ring Andersen, trésmíðinni en hinn sá um þann hluta stöðvarinnar, sem smíðaði skip úr járni. Allt voru þetta seglskip. Ring Andersen sagði að það borgaði sig ekki að breyta gildleika banda og innviða í skipið okkar, frá því sem var "standard" hjá þeim og sem notað var í miklu stærri skip. Vegna þessa, varð skipið ákaflega sterkt. Loksins í byrjun október var það tilbúið og hlaut nafnið "Svanur", eftir gamla Svaninum frá Ólafsvík, sem Holger Clausen gerði út. Sá Svanur sigldi yfir hundrað ferðir milli Íslands og útlanda og var happaskip.
Hinn 12. október var hinn nýi "Svanur" tilbúinn og afhentur okkur. Hann var seglskip byggður úr eik og var tæpar 70 lestir brúttó. Vélin var 85 hestafla Bolinder vél. Svanurinn var tvímastraður og seglbúnaðurinn var kútter-rettning. Við fremra mastrið var stýrishúsið og sambyggt var reyksalur farþega. Þá var lestarlúga en fyrir aftan hana, við afturmastrið var lítill mótor, sem knúði vinduna og fyrir aftan hann káetukappinn. Fyrir aftan afturmastrið var eldhúsið. Tveir lífbátar voru í bátauglum sitt hvoru megin við stýrishúsið. Þess var getið um það leyti, sem við tókum við skipinu, að skipasmíðastöðin hefði tapað miklum peningum á smíði þess. Það kostaði með rá og reiða og öllu saman 65 þúsund krónur. Frá því samningur um smíðina var gerður, þar til henni var lokið urðu stórfelldar verðhækkanir. Við sigldum frá Svendborg til Kaupmannahafnar til þess að lesta fyrir Íslandsferðina. Áttum að sigla til heimahafnarinnar, Stykkishólms, og farmurinn var allur á hafnir við Breiðafjörð.
Eftir fjögurra daga dvöl í Kaupmannahöfn lögðum við af stað til Íslands, með viðkomu í Leirvík á Setlandseyjum. Það var vegna stríðsins. Auk okkar fjögurra frá Stykkishólmi bættust nú tvö í áhöfnina, danskur vélamaður og íslenzk stúlka, Sólveig Eiríksdóttir, ættuð að austan. Hún var matsveinn á leiðinni og reyndist mjög dugleg, þótt ekki væri alltaf hægt að elda eins og síðar kemur fram. Við vorum í bezta skapi að vera loksins á heimleið, eftir að vera búnir að bíða eftir skipinu á sjötta mánuð í Svendborg. Ferðin til Leirvíkur gekk að óskum. Við komum þangað um kvöld og ætluðum að sigla inn í höfnina, en urðum að hafast við utan hennar alla nóttina, vegna þess að henni var lokað með sprengjum á nóttunni. Það var gert af ótta við Þýzkarann. Um nóttina var vonzku veður og aðstæður langt frá því að vera góðar, þar sem mjög er þarna klettótt, en allt fór samt vel. Um morguninn vorum við teknir inn í höfnina. Skriffinnskan var þarna á hástigi og við urðum að bíða í níu sólarhringa eftir að skipsskjölin kæmu aftur frá London, en þangað voru þau send. Við vorum mikið fegnir að komast af stað frá Leirvík. Annað skip var þarna statt, sem einnig ætlaði til Íslands. Það var dönsk skonnorta þrímöstrúð, þrjú- til fjögur hundruð lesta skip, sem landsstjórnin hafði á leigu til vöruflutninga. Þessi skonnorta átti að fara til Ísafjarðar. Við á "Svaninum" drógum hana út fjörðinn, því hún hafði enga hjálparvél. Þar tók danska skonnortan stefnu austur fyrir Setlandseyjar vegna þess að vindur var hagstæðari, en við fórum vestur fyrir, og nutum þar vélarinnar.
Það var af þessari dönsku skonnortu að segja, að hún týndist í hafi, fórst með allri áhöfn í ofviðrinu sem nú var skammt undan. Önnur ástæða til þess að danska skonnortan fór austur fyrir eyjar var sú, að Þjóðverjar hefðu lagt tundurdufl fyrir vestan eyjarnar. Við urðum einskis varir og ferðin gekk ljómandi vel. Öll segl voru uppi og vélin flýtti fyrir. Satt að segja minnir mig að Svanurinn hafi loggað á tíundu mílu þarna, þótt aldrei væri hann mikið gangskip, en afburða sjóskip var hann. Við sigldum þarna ljúfan beitivind. Síðdegis þegar við vorum suðvestur af Færeyjum fór að hvessa og undir kvöld var komið rok. Við fækkuðum seglum, tókum niður klýverinn og messanseglið. Fokkan var sett yfir til kuls og stórseglið rifað. Ekki sáum við Færeyjar fyrir dimmviðri. Undir svona kringumstæðum var oft venja, að setja upp lítinn klýver, en þannig segl var ekki til um borð hjá okkur svo við notuðum fokkuna í staðinn. Síðan var stýrið bundið og stór-skutið sett þannig að skipið lægi til. Þrátt fyrir þetta sló því oft flötu og var lengi að komast upp í aftur. Nú var ekki annað að gera en bíða og vona hið bezta. Við höfðumst öll við í káeunni. Þar var ofn og olíulampi, en raflögn var ekki í skipinu, enda var vélin stöðvuð þegar því var lagt til. En undir morguninn reið allt í einu ólag á skipið framanvert. Það braut stýrishúsið og farþegarýmið, svo ekkert stóð eftir nema járnvinklarnir sem héldu uppi þakinu, svo og þakið. Oddur skipstjóri hafði látið taka báða björgunarbátana niður úr bátsuglunum og binda þá á hvolfi á þilfarið. Þetta sýnir framsýni hans og fyrirhyggju.


Kútterar í ólgusjó.                                                                                          (C) W.N. Bynting 1905.  

Annar báturinn brotnaði í ólaginu og tók fyrir borð að mestu og ennfremur kista með matvælum sem okkur var ætluð á heimleiðinni. Ekki mátti við svo búið standa og við hófumst handa um að útbúa rekakkeri til þess að halda skipinu uppi í. Við tókum eikartunnu, hjuggum göt á báða botna og drógum grasatóg í gegnum tunnuna. Hnýttum svo tvo hnúta við, svo hana ræki ekki að skipinu, og bundum kolapoka í endann. Síðan gáfum við út sextíu faðma og settum fast. Stórseglið og fokkan voru tekin niður og stýrið sett beint og bundið. Stýrið hafði ekki skemmst í ólaginu og áttavitinn ekki heldur, en hann var í þaki stýrishússins. Skipið lá nú vel uppi í og varði sig áföllum. Okkur rak suð-vestur og veðrið hélzt alltaf jafnmikið. Þegar birti sáum við brezkan togara skammt frá okkur. Hann andæfði, en brátt misstum við sjónar af honum í særokinu. Annars var ekkert að gera nema skiptast á um að gera útkíkk í káetukappanum. Ekki var hægt að hafast neitt að í eldhúsinu, en við gátum hitað okkur kaffi og te á ofni í káetunni. Leið svo þessi dagur og nóttin. Það vildi okkur til að ekki var frost svo ekki var hætta á ísingu. Þriðju nóttina sló skipinu allt í einu flötu og í sama bili reið á það ólag. Rekakkerið hafði slitnað frá, grastóið kubbaðist í sundur rétt fyrir framan stefnið. Það var eins og allt ætlaði sundur að ganga. Við vorum sem betur fór öll niðri og vissum ekki fyrr en tunnan, sem hafði losnað, braut hurðina í káetukappanum og kolgrænn sjór steyptist niður í káetuna. Við flýttum okkur upp, en það tók stund að rífa tunnuna úr uppgöngunni.
Það voru 40 tunnur af jarðolíu á dekki, ætlaðar fyrir skipið og við höfðum losað nokkrar þeirra í Leirvík og fyllt tankinn í stað þess sem hafði eyðzt á leiðinni frá Kaupmannahöfn. Þegar upp kom var ömurlegt um að litast á þilfarinu. Sjórinn hafði brotið borðstokkinn stjórnborðsmegin, alveg frá forvatni aftur að skammdekki. Það var eins og stytturnar væru höggnar niður við þilfarið. Eldhúsið sem var aftast á skipinu var mikið brotið, vélarkappinn brotinn og laus, messanmastrið (afturmastrið) klofið og laust. Tunnurnar lausar og rúllandi á þilfarinu. Nú reið á að koma seglum upp að nýju. ekki var vogandi að nota vélina í þessu veðri. Við gengum allir í að setja upp fokku og þrírifað stórsegl, eins og áður en rekakkerið kom til sögunnar. Stórseglið á Svaninum var þannig útbúið, að til þess að rifa það, var snúið upp á bómuna með sérstökum útbúnaði og vafðist þá seglið upp á hana um leið og gafflinum var slakað. Þannig útbúnaður var algengur á dönskum kútterum. Nú þegar við vorum búnir að koma skipinu upp í og gera sjóklárt eftir föngum fórum við að athuga káetuna. Hún var hálffull af sjó. Ofninn hafði hrunið og var ónothæfur upp frá því. Vegna þess hve allt var nýtt og þétt, rann sjórinn ekki niður í austurinn.
Við vorum á annan klukkutíma að ausa káetuna og heldur var vistin hráslagaleg þar á eftir. Ofninn hrundi og allt sem honum fylgdi, svo sem fyrr er sagt. Engin leið að hlýja upp. Skipinu hafði nú verið lagt til með stjórnborðsháls, eins og áður en við fengum fyrra áfallið og svona létum við drífa í sólarhring. Skipið féll frá öðru hvoru á stórum öldum og fjórða daginn var ákveðið að setja vélina í gang og reyna að fá það upp í. Það þætti ekki mikið vélarafl nú, að hafa rúmt hestafl á tonnið, enda fengum við skipið ekki upp í fyrr en sett var á fulla ferð. Svona var andæft og nú fór veðrið að ganga niður. Við vorum búnir að vera í blautum fötum á þriðja sólarhring en eftir að veðrið fór að batna, var hægt að kveikja upp í kabyssunni aftur á, því enda þótt eldhúsið væri mikið brotið, hafði eldavélin ekki gengið mikið úr skorðum. Við tókum stefnu fyrir sunnan Vestmannaeyjar, eftir því sem okkur reiknaðist til að skipið hefði rekið og reyndist sú áætlun rétt þegar til kom. Ekki var önnur siglingatæki við að styðjast, en vegmæli (Logg), og áttavitann. Auk þess höfðum við djúplóð, blýlóð með holu upp í og í holuna var látin feiti. Þegar dregið var upp, sá maður á feitinni hvernig botnlagið var, Veðrið fór nú síbatnandi og við tjólduðum öllum seglum og keyrðum fulla ferð. Þegar við komum að Vestmannaeyjum var komið logn og voru seglin ekki notuð það sem eftir var til Stykkishólms. Fólkið heima var íarið að undrast um okkur.
Það vissi hvenær við fórum frá Kaupmannahöfn og vissi að við mundum tefjast eitthvað í Leirvík. Það duldist hins vegar engum, þegar við komum inn á höfnina í Stykkishólmi, að skipið hafði hreppt harða raun í hafi: Allt brotið og bramlað að ofan og stóran hluta borðstokksins vantaði alveg. Svanurinn var lélegt gangskip eins og ég hef áður minnst á, en alveg afburða gott sjóskip og mjög sterkur. Annars held ég nú að enginn okkar hefði orðið til frásagnar af heimferðinni. En síðast en ekki sízt var það fyrirhyggju og frábærri sjómennsku skipstjórans okkar, hans Odds Valentínussonar að þakka að ekki fór ver. Eg man það, þegar við vorum að sjóbúa í Kaupmannahöfn. Ég var að skálka lúguna og hafði lokið því þegar Oddur kemur og segir að ég skuli binda yfirbreiðsluna á lúguna vel, miklu betur en venja var og binda þar að auki margsinnis yfir yfirbreiðsluna. Mér varð að orði, hvort skipstjórinn byggist við ofviðri á leiðinni heim. Oddur svaraði því til að hann byggist ekki við logni alla leið. Sama var þegar hann lét taka báða lífbátana niður á þilfar og binda þá þar. Það gerðist í Leirvík áður en við komumst af stað þaðan. Það eitt, hefði getað orðið okkur dýrt, að hafa þá í bátsuglunum. Oddur var afburða sjómaður, þegar í hart var komið og mikill fyrirhyggjumaður.
Austan rokið var ennþá á en hann var hættur að rigna þegar Hannes Stefánsson lauk frásögn sinni. Eins og háttur er margra þeirra er hlotið hafa herzlu í átökum við Ægi konung, óx honum ekki í augum þessi sögulega heimferð haustið 1916, sem eins og hann sjálfur tók fram, hefði auðveldlega getað endað á þann veg að af henni hefði engin frásögn verið skráð.

Fálkinn. 11 tbl. 20 mars 1963.


Lóndrangar á Snæfellsnesi. Þar rétt norðan við strandaði Svanur.             (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Vélin úr Svaninum, 85 ha. Bolinder vél árgerð 1915-16. Vélinni var bjargað úr stórgrýtisurðinni á strandstaðnum við Lónsbjörg árið 2003. Það var Páll Stefánsson skipstjóri sem það gerði með aðstoð frá þyrlusveit Bandaríkjahers. Vélin er til sýnis á Sjóminjasafninu á Hellissandi. 
(C) Þórhallur S Gjöveraa.


    V.b. "Svanur" strandar við Lóndranga

                       Mannbjörg

Arnarstapi, FB. 19. janúar. Vjelbáturinn "Svanur", á leið frá Akureyri til Vestmannaeyja með beitusíld, strandaði fyrir norðan Lóndranga í fyrrakvöld um kl. 9. Bylur var og rok, en brimlítið, og má þakka það hve brimlítið var, að mennirnir, sjö alls, komust klakklaust af. Staðurinn er afar slæmur, sker við land, grjót og urð á ströndinni. Báturinn eyðilagðist alveg. Komust mennirnir á land í öðrum bátnum, en fengu engu bjargað af eigum sínum, nema því sem þeir stóðu í. Annar skipsbáturinn fórst með skipinu. Mennirnir eru allir hjer og líður þeim vel. Skipstjóri er Kristján Kristjánsson, sem var skipstjóri á Gottu í Grænlandsleiðangrinum.
Svanur var vátryggður fyrir 40.000 krónur í Sjóvátryggingarfjelagi Íslands.

Morgunblaðið. 20 janúar 1932.


28.07.2018 07:51

B. v. Baldur RE 244. LCJQ / TFBD.

Botnvörpungurinn Baldur RE 244 var smíðaður hjá Schiffsbau Geselleschafts Unterweser í Lehe (Bremerhaven) í Þýskalandi árið 1921. 315 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. 44,21 x 7,63 x 3,67 m. Smíðanúmer 186. Eigandi var hf Hængur í Reykjavík frá október sama ár. Kom fyrst til heimahafnar, Reykjavíkur hinn 18 október 1921. Mikið uppnám varð við komu togarans, því umtalsvert magn af áfengi fannst í skipinu og var það gert upptækt og sent til Kaupmannahafnar þar sem "valdir" góðborgarar hafa eflaust gert því góð skil. Árið 1940-41, eignast Gísli Jónsson (Bíldudals-Gísli) útgerðarfélagið Hæng og einnig Fiskveiðahlutafélagið Njál á Bíldudal. Var togarinn gerður þá út af því félagi frá Bíldudal, hét þá Baldur BA 290. Togarinn var seldur í brotajárn til Belgíu og tekinn af skrá 20 febrúar árið 1952.
Myndin, sú fyrsta hér að neðan, var sögð vera af Þorgeir skorargeir GK 448 ex Ýmir GK 448, á "sígarettumyndunum" sem gefnar voru út af Tóbaks einkasölu ríkisins árið 1931. Það er togarinn Baldur RE 244 sem er á þessari mynd. Ég ætla hér að vitna í orð Birgis Þórissonar, sem er einn sá fróðasti um sögu gömlu togaranna okkar, en hann sagði í áliti hér á síðunni í fyrra:

"Fyrir margt löngu rak ég augun í það að "sígarettumyndin" af Þorgeiri skorargeir væri ekki af honum, heldur einu af þýsk-byggðu togunum frá 1921.
Nú nýlega varð myndasafn Guðbjartar Ásgeirssonar "sýnilegt" í Sarpi (sarpur.is), og kom þá í ljós að myndin er af togaranum Baldri RE 244"

Ég eignaðist nýlega þessa mynd, sem er á gömlu póstkorti og í góðum gæðum. Það fer ekkert á milli mála að skipið er Baldur RE 244, þegar maður ber saman myndir af "báðum" skipunum.

 
Botnvörpungurinn Baldur RE 244.   (C) Guðbjartur Ásgeirsson. Mynd á gömlu póstkorti í minni eigu.
 

       Botnvörpungurinn "Baldur"

Nýr togari kom hingað í morgun frá Þýzkalandi. Heitir hann Baldur og er eign h.f." Hængur. Gunnlaugur Illugason var skipstjóri hingað til lands.

Vísir. 18 október 1921.

 
Baldur RE 244 á toginu út af Jökli.                                                          (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
 
Botnvörpungurinn Baldur BA 290 í Reykjavíkurhöfn.                              (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
 

Mynd nr: 21 af "sígarettumyndunum" sögð vera af Þorgeir skorargeir GK 448 en reyndist vera af Baldri RE 244.
 

  Þegar tveir þeirra gömlu kvöddu  

Þess var getið í síðasta blaði að togararnir Haukanes og Baldur hefðu verið seldir til niðurrifs til Belgíu. Áður en þeir fóru héðan voru þeir fylltir af brotajárni, en þýzkur dráttarbátur var sendur til að draga þá utan. Þeir lögðu úr höfn mánudaginn 2. marz, en þegar komið var suður í Grindavíkursjó varð þess skjótlega vart, að kominn var talsverður sjór í Haukanes. Leit svo út um tíma, að það mundi sökkva og voru gerðar ráðstafanir til að koma viðgerðarmönnum um borð í skipið, en öll var þrenningin skammt undan landi. En þeir komust ekki um borð vegna veðurs. Dráttarbátnum tókst hins vegar að dæla sjónum úr Haukanesi og kom hann aftur með bæði skipin til Reykjavíkur. Við athugun kom í ljós, að leki hafði ekki komizt að Haukanesi, heldur hafði farið sjór inn um akkeriskeðjugatið. Nú eru skipin öll komin heil á húfi til Belgiu.

Ægir. 3 tbl. 1 mars 1952.

23.07.2018 10:18

1410. Dagrún ÍS 9. TFYM.

Skuttogarinn Dagrún ÍS 9 var smíðaður hjá S.I.C.C.Na. Chantiers Navals skipasmíðastöðinni í Saint Malo í Frakklandi árið 1974. 499 brl. 1.800 ha. Crepelle PSN SSR, 1.324 Kw. Smíðanúmer 137. Eigandi var Baldur hf í Bolungarvík frá 24 janúar sama ár. Kom til heimahafnar, Bolungarvíkur 4 febrúar 1975. Skipið var selt 25 febrúar 1995, Útgerðarfélaginu Ósvör hf í Bolungarvík, sama nafn og númer. Ný vél (1996) 2.203 ha. Deutz MWM vél (árg. 1984),1.620 Kw. Selt 1998, Þorbirni hf í Grindavík, hét Ernir BA 29. Árið 2000 er skipið í eigu Sjóvá Almennra trygginga hf í Reykjavík. Selt 2002, Arnarflutningum ehf í Reykjavík, sama nafn og númer en skipið skráð á Bíldudal. Sama ár er skipinu breytt í flutningaskip. Selt 2004, Frakki ehf á Ísafirði, hét þá Ernir ÍS 710 og orðið aftur fiskiskip. Skipið var selt til Uruquay í suður Ameríku 16 júní árið 2005.


1410. Dagrún ÍS 9.                                                                                         Ljósmyndari óþekktur.

       Skuttogarinn Dagrún ÍS-9

Aðfaranótt þriðjudagsins 4. þ.m. kom skuttogarinn Dagrún ÍS-9 til heimahafnar sinnar, Bolungarvíkur. Dagrún er hið glæsilegasta skip, vandað að öllum frágangi og útbúnaði og búið hinum fullkomnustu siglinga- og fiskileitartækjum, sem og öryggisbúnaði. Stærð skipsins er 500 tonn. Það er smíðað í Frakklandi. Á heimsiglingu reyndist skipið ágætlega. Skipstjórar verða 2, þeir Hávarður Olgeirsson og Vilhelm Annasson. 1. vélstjóri er Kjartan Bjarnason og stýrimaður Sigurður Pétursson. Eigandi togarans er Baldur h.f. í Bolungarvík. Framkvæmdastjóri er Guðfinnur Einarsson.

Ísfirðingur. 7 febrúar 1975.


Dagrún ÍS 9 með fullfermi í erlendri höfn.     (C) Facebooksíða fyrrverandi áhafnarmeðlima skipsins.

                  Dagrún ÍS 9

4. febrúar sl. kom skuttogarinn Dagrún ÍS 9 í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Bolungarvíkur, og er þetta fyrsti skuttogarinn, sem Bolvíkingar eignast. Dagrún ÍS er byggð hjá frönsku skipasmíðastöðinni S.I.C.C.Na. Chantiers Navals í Saint-Malo, Smíðanúmer 137 hjá stöðinni, og er annar skuttogarinn sömu gerðar, sem þar er byggður fyrir íslenzka aðila. Sá fyrri er Sólberg ÓF 12 (sjá 20 . tbl. '74). Dagrún ÍS er eign Baldurs hf., í Bolungarvík. Dagrún mælist 500 rúmlestr, mesta lengd 50.73 m, breidd 10.30 m, dýpt að efra þilfari 7.15 og dýpt að neðra þilfari 4.90 m. Lestarrými skuttogarans er um 440 m3 , sem skiptist í sjókæligeyma (ca 90 m3) aftast, en hinn , hluti lestar (ca. 350 m3 ) er útbúin fyrir kassa að mestu. Brennsluolíugeymar eru um 119 m3 að stærð og ferskvatnsgeymar 39 m3 Í skipinu eru andveltgeymar (Flume stabilization System), staðsettir aftarlega í skipinu, aftan við Vélarum. Aðalvél er frá Crepelle, 1.800 hö, tengd Citroen-Messian niðurfærslugír og Lips skiptiskrúfubúnaði. Utan um skrúfu er skrúfuhringur, sem tengdur er stýrisvél skipsins. Tveir rafalar eru drifnir af aðalvél  um niðurfærslugír, 250 Kw jafnstraumsrafall fyrir vindur og  230 KVA, 3x 380 V fyrir rafkerfi skipsins. Hjálparvélar eru tvær Baudouin, 155 ha, með 130 KVA rafölum, en auk þess er 100 KW jafnstraumsrafall á annarri hjálparvélinni til vara fyrir vindur. Rafalar eru allir frá LeRoy. Stýrisvél svo og vindur skipsins eru frá Brusselle. Af öðrum búnaði má nefna Atlas ferskvatnsframleiðslutæki, Finsam ísvél, blóðgunarkör, þvottakör og færibönd á vinnuþilfari. Helztu tæki í stýrishúsi eru:
Ratsjár: 2 Decca RM 926, 64 sml.
Miðunarstöð: Taiyo TD-A130.
Loran: Simrad LC, sjálfvirkur Loran C.
Gyroáttaviti: Anschiitz.
Sjálfstýring: Anschutz.
Vegmælir: Sagem.
Dýptarmælir: Simrad EQ 38 með MA botnstækkun.
Fisksjá: Simrad CI.
Asdik: Simrad SB 2.
Netsjá: Simrad FB2 kapalmælir með EQ 50 sjálfrita og FI botnþreifara.
Talstöð: Sailor T 122/R105, 400 W S.S.B.
Örbylgjustöð: Simrad VHFon, PC 3.
Sjálfrita fyrir netsjá er mögulegt að tengja inn á sjálfstætt botnstykki og nota sem dýptarmæli. Að öðru leyti er vísað í lýsingu á Sólbergi ÓF (20. tbl. '74), en þessir tveir skuttogarar eru byggðir eftir sömu teikningu, fyrirkomulag það sama, svo og véla- og tækjabúnaður, að undanskildum ratsjám og hluta af fiskileitartækjum. Sá búnaður, sem er umfram í Dagrúnu og nefna ber sérstaklega, eru sjókæligeymar í ca. 1/5 hluta lestar og andveltigeymar, en vegna þeirra eru brennsluolíugeymar ca. 30 m3 minni í Dagrúnu.
Skipstjórar á Dagrúnu ÍS eru Hávarður Olgeirsson og Vilhelm Annasson og 1. vélstjóri Kjartan Bjarnason. Framkvæmdastjóri útgerðar er Guðfinnur Einarsson. Ægir óskar eigendum og áhöfn til hamingju með skipið.

Ægir. 9 tbl. 15 maí 1975.


Flettingar í dag: 151
Gestir í dag: 23
Flettingar í gær: 779
Gestir í gær: 80
Samtals flettingar: 859194
Samtals gestir: 63043
Tölur uppfærðar: 23.6.2024 02:51:49