25.11.2016 09:40

1195. Álftafell ÁR 100. TFIU.

Álftafell ÁR 100 var smíðaður í Skipasmíðastöð KEA á Akureyri árið 1971 fyrir Gunnlaug Kárason á Litla Árskógssandi, Gunnlaug Jón Gunnlaugsson á Dalvík og Björgvin Gunnlaugsson á Árskógsströnd. Hét fyrst Otur EA 162. Eik og fura. 23 brl. 240 ha. Caterpillar díesel vél. Seldur 30 júlí 1981, Stefáni Rögnvaldssyni h/f á Dalvík, hét Stefán Rögnvaldsson EA 345. Ný vél (1981) 275 ha. Caterpillar díesel vél, 202 Kw. Seldur 14 júlí 1987, Flóa h/f á Patreksfirði, hét Egill BA 268. 31 desember 1987 var skráningarnúmeri bátsins breytt í BA 468. Seldur 20 apríl 1995, Ými h/f á Bíldudal, hét Hallgrímur Ottósson BA 39. Árið 2001 hét báturinn Álftafell SU 100, virðist vera sami eigandi og skráður í Kópavogi. Seldur Kross ehf á Stöðvarfirði, hét Álftafell HF 102. Seldur sama ár, Sælingi ehf í Þorlákshöfn, hét Álftafell ÁR 100. Seldur árið 2011, Norður Atlantshafs Fiskveiðafélaginu í Reykjanesbæ, hét Álflafell KE 90. Báturinn sökk í höfninni í Njarðvík árið 2011 en náðist á land stuttu síðar. Tekinn úr rekstri 9 október árið 2014. Var í slipp í Njarðvík vorið 2015 en hefur trúlega verið rifinn þar stuttu síðar.

Álftafell ÁR 100 í Njarðvíkurslipp.                                   (C) Þórhallur S Gjöveraa. 13 október 2013. 


Álftafell ÁR 100.                                                            (C) Þórhallur S Gjöveraa. 13 október 2013.


Álftafell ÁR 100.                                                                         (C) Trawler photos. 5 mars 2015.


Álftafell ÁR 100.                                                                         (C) Trawler photos. 5 mars 2015.


Egill BA 468.                                                                                               (C) Halldór Árnason.

24.11.2016 11:38

428. Víðir ll GK 275. TFXE.

Víðir ll GK 275 var smíðaður í Skipasmíðastöðinni Dröfn í Hafnarfirði árið 1954 fyrir Guðmund Jónsson útgerðarmann á Rafnkelsstöðum í Garði. Eik. 56 brl. 180 ha. Lister díesel vél. Ný vél (1957) 300 ha. Lister díesel vél. Frá 12 október árið 1960 hét báturinn Freyja GK 110, sami eigandi. Ný vél (1969) 330 ha. Lister díesel vél. Seldur 31 desember 1973, Finnboga Bjarnasyni á Hellissandi, hét Njörður SH 168. Frá 4 janúar 1980 heitir báturinn Njörður GK 168 og gerður út frá Garði í Gullbringusýslu. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 4 desember árið 1980. Víðir ll var mikið afla og happaskip og var lengi aflahæsta síldveiðiskip flotans undir stjórn Eggerts Gíslasonar skipstjóra frá Kothúsum í Garði.


428. Víðir ll GK 275 á leið til Siglufjarðar með fullfermi.                         (C) Snorri Snorrason.


Víðir ll GK 275 nýsmíðaður árið 1956.                                                            Ljósmyndari óþekktur.


Víðir ll við bryggju í Hafnarfirði, nýkominn að norðan eftir síldarvertíðina 1957. Síldarkóngurinn það ár, Eggert Gíslason stendur á bryggjunni til vinstri. Maðurinn til hægri gæti verið Guðmundur Jónsson útgerðarmaður og eigandi bátsins. Skipverjar vinna við að taka hringnótina í land.
                                                                                                  (C) Gunnar R Ólafsson.


428. Víðir ll GK 275. Líkan Gríms Karlssonar.                                              (C) Þórhallur S Gjöveraa.


                  Víðir II GK 275

Hjá skipasmíðastöðinni Dröfn í Hafnarfirði var hleypt af stokkum nýjum báti 18. júlí síðastl. Bátur þessi, sem er 56 rúml. að stærð, heitir Víðir II. og hefur einkennisstafina GK 275. Eigandi hans er Guðmundur Jónsson, útgerðarmaður að Rafnkelsstöðum í Garði. Víðir II. er smíðaður úr eik, en yfirbygging hans er úr stáli. Vélin er 180 ha. Lister dieselvél. Í bátnum er vökva þilfars og línuvinda og dýptarmælir með asdic útfærslu. Reynsluför fór báturinn 23. júlí, og reyndist ganghraði hans þá 9 mílur. Teikningu af Víði II. gerði Egill Þorfinnsson, Keflavík. Yfirsmiður var Sigurjón Einarsson skipasmiðameistari í Hafnarfirði. Vélsmiðja Hafnarfjarðar annaðist niðursetningu á vél og alla járnsmíði. Rafvirkjameistararnir Jón Guðmundsson og Þorvaldur Sigurðsson lögðu raflögn, en málun annaðist Sigurjón Vilhjálmsson málarameistari. Sören Valentinusson gerði reiða og segl. Friðrik A. Jónsson útvarpsvirkjameistari setti niður dýptarmæli. Vélsmiðjan Héðinn smíðaði dekk og línuvindu. Á smíði skipsins var byrjað 5. október 1953. Jafnskjótt og báturinn var ferðbúinn fór hann norður til síldveiða. Skipstjóri á Víði II  er Eggert Gíslason í Garði. Þetta er sjöundi báturinn, sem smíðaður er í Skipasmíðastöð Hafnarfjarðar.

Ægir. 9 tölublað 1954.

23.11.2016 10:10

B. v. Gylfi BA 16. TFKJ.

Gylfi BA 16 var smíðaður hjá Goole S.B.& Repg. Co. Ltd í Goole á Englandi árið 1952 fyrir Vörð h/f á Patreksfirði. 696 brl. 1.332 ha. Ruston díesel vél. 6 maí árið 1952, í fyrstu eða annari veiðiferð skipsins, kom upp mikill eldur í skipinu og var það hætt komið. Togarinn Fylkir RE 161 tók Gylfa í tog, fyrst inn á Dritvík á Snæfellsnesi og síðan til Reykjavíkur og til stóð að sökkva togaranum inn á Eiðsvíkinni til að slökkva eldinn, en til þess kom þó ekki. Í apríl 1969 var Ríkisábyrgðasjóður eigandi skipsins, hét þá Haukanes GK 3. Selt 22 apríl 1969, Haraldi Jónssyni og Jóni Hafdal í Hafnarfirði. Togarinn var seldur í brotajárn til Danmerkur 23 ágúst árið 1973.


74. Gylfi BA 16.                                                                                         Sigurgeir B Halldórsson.


Haukanes GK 3.                                                                                           Ljósmyndari óþekktur.


Haukanes GK 3 slitnaði upp í ofsaveðri í mars 1973 og rak upp í fjöru við Hafnargötuna í Hafnarfirði. Þegar þarna var komið var stutt í endalokin.                                            (C) Sæmundur Þórðarson.


Gylfi BA eftir brunann.                                                                             (C) Morgunblaðið.

        Gylfa var bjargað stórskemmdum                                    til hafnar í gær

Togarinn Fylkir, sem fór Patreksfjarðartogaranum Gylfa til hjálpar í fyrrakvöld, er eldur kom upp í honum, kom hingað á ytri höfnina í Reykjavík Iaust eftir hádegi í gær. Þá logaði enn í Gylfa og nokkuð rauk úr honum. Við minni Kollafjarðar kom dráttarbáturinn Magni til móts við skipin, og voru 10 brunaverðir um borð í honum með nauðsynlegan stökkviútbúnað. Slökkvistarfið gekk greiðlega, og kl. 6 í gærkvöldi var Gylfa Iagt að hlið síldarbræðsluskipsins Hærings. Var björgun togarans þar með að fullu lokið, en hann hefur orðið fyrir gífurlegum skemmdum, sem kosta mun milljónir króna að bæta. Yfirbygging skipsins er því nær öll ónýt, og í vélarrúmi hafa orðið miklar skemmdir, og víðar. Skrokkur skipsins hefur þó ekki orðið fyrir neinum sjáanlegum skemmdum af völdum eldsins. Við Iauslega athugun má ætla það 6 mánaða verk að bæta tjónið.
Eldsupptök munu hafa orðið út frá röri, sem einhverra orsaka vegna ofhitnaði og kveikti í netageymslunni, en hún var öll tjörguð að innan. Það er ömurleg sjón að sjá hvernig þetta glæsilega skip hefur farið í brunanum. Það er talið mikið lán, að skipið skyldi ekki springa í loft upp, eða koma að því leki við að plötur myndu beyglast vegna hins ofsalega hita frá bálinu. Og þegar þess er gætt, að nokkrar sprengingar urðu í  olíugeymi í gærmorgun. Þá sást, frá Fylki hvar reykbólstrar þeyttust hátt í loft upp, og eldsúlur jafnháar siglutrjánum stóðu upp úr brúnni. Þá töldu þeir á Fylki litlar vonir á því, að takast myndi að bjarga skipinu til hafnar. Í kjölfar sprenginganna jókst eldurinn mjög í brúnni og yfirbyggingunni miðskips.  Brúin, sem er úr aluminium hefur molnað niður við hitann eða hann brætt hana líkt og smjör á heitri pönnu. Þegar björgunarskipið Sæbjörg kom á vettvang til að vera til taks, ef á þyrfti að halda, stóð brúin í björtu báli. Þegar komið var fram að hádegi fór eldurinn minnkandi, enda mun þá allt tréverk hafa verið brunnið. Þegar Magni lagðist upp að hlið Gylfa og brunaverðirnir fóru með slöngur yfir í skipið, rauk allmikið úr því miðskips og eldur logaði á þilfarinu meðfram yfirbyggingunni. Á þilfari var fiskur í stíum, og þangað hafði eldurinn ekki náð er slökkvistarfið hófst. Það hafði verið ákveðið að ef mikill eldur væri í skipinu, ætti að draga það inn á Eiðisvík og renna því þar upp í sandinn til að auðvelda slökkvistarfið. Eins var um það rætt að sökkva Gylfa þar á víkinni, ef með þyrfti. En slökkvíliðsmennirnir höfðu ekki verið lengi að verki með hinn ágæta útbúnað sinn, er sýnt var að ekki myndi þurfa að grípa til slíkra ráðstafana. Gekk þeim svo greiðlega, að eftir 3 klst. taldi Jón Sigurðsson, slökkviliðsstjóri, að óhætt væri að draga togarann inn á höfn. Það, sem einkum er áberandi þegar skemmdirnar á Gylfa eru skoðaðar, er brúin. Hún er að mestu brunnin og svo það, hve yfirbyggingin öll er dælduð vegna hins ofsalega hita. Allt aftur í matsal er eyðilagt í yfirbyggingu. En eldurinn hefir ekki komizt í káetuna. Svo virðist sem eldur hafi leikið um allt vélarrúmið og eyðilagt þar raflagnir og fjölmargar hjálparvélar, og mun einnig hafa valdið skemmdum á aðalvél, þó er ekki vitað hve alvarlegar þær eru. Sprunga er og í "keisnum". Aftan til stjórnborðsmegin hafa orðið skemmdir á þilfarinu. Hætt er við, að einhverjar fleiri skemmdir hafi orðið, sem ekki verða séðar nú.
En byrjað verður strax í dag að hreinsa skipið. Er tíðindamaður Mbl. ræddi við skipsmenn á Gylfa um borð í Fylki í gær, kom í ljós, að í frásögn blaðsins í gær var í öllum aðalatriðum rétt skýrt frá því, sem gerðist í Gylfa er eldurinn kom upp. En þar að í nokkrum hluta upplags blaðsins var ekki skýrt frá brunanum, þykir rétt að rekja atburðarásina að nokkru upp aftur, með þeim viðbótarupplýsingum, sem fengust með því að ræða við skipsmennina. Einn skipverjanna brenndist lítilsháttar, Hjörtur Kristjánsson yfirvélstjóri. Hann meiddist á gagnauga og eyra. Maðurinn, sem varð eldsins var er Haraldur Aðalsteinsson, sem stjórnar fiskimjölsvinnslunni í togaranum. Var klukkan þá 4,30-5 síðdegis og logaði þá í netageymslunni, en þaðan kom svo mikill reykur niður í vélarúmið að ólíft var þar, og urðu vélamennirnir að flýja upp. Nokkru eftir að Fylkir kom Gylfa til aðstoðar fóru 20 menn af Gylfa i björgunarbát yfir í Fylki, en þaðan var svo farið með daráttarvír á bátnum yfir í Gylfa, og klukkan 7 var lagt af stað áleiðis inn á Dritvík. Eftir því sem lengra leíð á kvöldið voru horfur á, að eldurinn í netageymslunni yrði kæfður, og nokkru fyrir miðnætti hafði vélamönnunum tekizt að komast niður í vélarrúmið og koma dælu af stað, sem dælt var úr inn í netageymsluna. Hinsvegar var sú hætta yfirvofandi, að stjórnborðs olíugeymir myndi springa, sem og kom á daginn. Um klukkan eitt í fyrrinótt varð þess vart, að olía var farin að renna úr geyminum inn í eldhafið. Þá ákvað skipstjórinn  að  skipið skyldi yfirgefið, því ella myndi mannslífum verða teflt í beinan voða. Þá voru auk hans 11  menn um borð í Gylfa, og fóru þeir á fleka yfir í Fylki. Skipverjar á Gylfa, 40 að tölu, rómuðu mjög vinsamlegar móttökur Fylkismanna. Um nónbil í gær fóru þeir af skipinu yfir í sitt eigið skip. Var sú endurkoma sorgleg. Fylkir hélt til Hafnarfjarðar, þar sem hann landaði aflanum. Gylfi, ásamt veiðarfærum og eigum skipverja, er vátryggður fyrir alls 11 milljónir króna. Óráðið var í gærkveldi hvort gert verði hér við skipið. Sjóréttur mun taka málið fyrir seinnihluta dags í dag eða á morgun. Skipstjóri á Gylfa var Ingvar Guðmundsson en á Fylki var Auðunn Auðunnsson skipstjóri.

Morgunblaðið. 8 maí 1952.

22.11.2016 11:48

1188. Sæbjörg BA 59.

Sæbjörg BA 59 var smíðuð í Bátalóni h/f í Hafnarfirði árið 1971. Eik og fura. 11 brl. 98 ha. Powa Marine díesel vél. Báturinn hét fyrst Sæunn Sæmundsdóttir ÁR 60 og var í eigu Útgerðarfélagsins Smára h/f í Þorlákshöfn frá 11 október 1971. Seldur 14 mars 1975, Straumnesi h/f á Selfossi, hét Árnes ÁR 75. Seldur 21 mars 1975, Halldóri Árnasyni og Þórði Steinari Árnasyni á Patreksfirði, hét Sæbjörg BA 59. Frá árinu 1988 er báturinn í eigu Látrarastar h/f á Patreksfirði (Halldór Árnason).Ný vél (1990-91) 155 ha. Ford díesel vél, 114 Kw. Báturinn var tekinn af skrá 27 mars 2008 og var skráður sem safngripur. Báturinn er núna niðri í Korngörðum og eftir því sem ég kemst næst er ráðgert að senda hann vestur á Reykhóla og gera hann upp þar. Ég tók þessar myndir af Sæbjörginni fyrir stuttu síðan og ekki veitti henni af smá yfirhalningu, enda einn af fáum Bátalónsbátum sem eftir eru og það væri mikill sómi sýndur að varðveita einn slíkan.


Sæbjörg BA 59 upp við húsvegg í Korngörðum.


Sæbjörg BA 59.


Sæbjörg BA 59.


Sæbjörg BA 59.


Sæbjörg BA 59.


Sæbjörg BA 59.                                                            (C) Þórhallur S Gjöveraa 20 nóvember 2016.


Sæbjörg BA 59.                                                                                              (C) Halldór Árnason.

               Sæbjörg BA gerð upp

Til stendur að gera upp bátinn Sæbjörgu BA 59. Hafnarstjórn Vesturbyggðar hefur fallist á að fella niður hafnargjöld fyrir Sæbjörgu í eitt ár svo fremi sem endurgerð bátsins hefjist á þessu ári. Var það gert að ósk Félags áhugamanna um bátasafn Breiðafjarðar. Sæbjörg BA var afskráð 2008 og er ætlunin að það verði gert að safngripi. Skipið var smíðað árið 1971. 
Þetta er stórmerkilegt skip sem smíðað var í Bátalóni í Hafnarfirði og fór skömmu seinna sem sýningarbátur á sjávarútvegssýningu sem þá var haldin. Var henni þá stillt fyrir utan Laugardalshöllina," segir Eggert Björnsson forvígismaður áhugamannafélagsins. Hann segir skipið vera afar vandaða útgáfu af skipi af þessu tagi. "Það var mikið til af þessum 12 tonna bátum en nú eru bara örfáir eftir. Sæbjörginni hefur alltaf verið haldið vel við þar til fyrir sex árum þegar hún var látin drabbast niður. Hún er samt í upprunalegu standi og ekkert búið að fikta við hana. 
Hann segir félagið stefna að því að byrja á því að mála skipið í haust. Við vonumst til að geta byrjað á því að gera hana fína að utan, en við sjáum hversu mikið við getum gert því alltaf er það jú spurning um peninga.

Vísir.is 21 ágúst 2012.

21.11.2016 09:34

Óttar Guðmundsson módelsmiður.

Ég fór og heimsótti Óttar Guðmundsson módelsmið með meiru á heimili hans í Grafarvoginum í gær. Tilefnið var að sjá og mynda hina nýju listasmíð, E.s Suðurland sem hann lauk við fyrir stuttu síðan. Það er vel þess virði að fylgjast með því góða og þarfa verki hans að færa okkur sögu liðins tíma á þennan líka snilldarháttinn sem módelsmíðin er. Það fer ekkert á milli mála að þarna er mikill fagmaður á ferð, veit upp á hár hvað hann er að gera og gerir það vel. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem ég heimsæki Óttar, það var í mars s.l. að við mæltum okkur mót á heimili hans. Þá var hann með 7 módel heima, hvert öðru glæsilegra, sem ég myndaði öll í bak og fyrir og þær myndir mun ég birta hér á síðunni á næstu vikum. Óttar er fæddur á Bjarteyjarsandi í Hvalfjarðarsveit 28 febrúar 1947 og ólst þar upp. Lærði vélvirkjun hjá Þorgeiri & Ellert á Akranesi og vann við sína iðn þar. Vann við tankasmíði hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli árið 1966. Stundaði nám við Vélskóla Íslands frá 1969 til 1972 og vann í Hvalstöðinni í Hvalfirði á sumrin. Var vélstjóri á Dettifossi árið 1973 og svo síðar á flutningaskipunum Eldvík og Hvalvík sem Víkur h/f gerði út. Vann sem verktaki við hitaveitulögnina frá Nesjavöllum til Reykjavíkur og víðar. Óttar starfar nú sem viðgerðarmaður hjá heilsuræktinni Hreyfingu hér í Reykjavík, ásamt því að sinna áhugamáli sínu, módelsmíðinni í bílskúrnum. Myndirnar hér að neðan af Suðurlandinu tók ég í gær, þær tala sínu máli um handverkið enda sannkölluð listasmíð þarna á ferð.


Óttar Guðmundsson módelsmiður með nýjasta módel sitt, e.s. Suðurland.


E.s. Suðurland.


E.s. Suðurland.


E.s. Suðurland.


Hekkhúsið á Suðurlandinu. Þarna var inngangur niður í farþegarýmið ásamt því að vera skjól fyrir skipverja.


Miðskipið, björgunarbátarnir, reykháfurinn og opinn stjórnpallurinn.


Framskipið.


E.s. Suðurland. Sannkölluð listasmíð.


Stefni skipsins. Takið eftir lúgunni á síðunni undir stjórnpallinum. Hún var notuð til að ferma og afferma skipið þegar það var í ferju og vöruflutningum milli Kaupmannahafnar og Borgundarhólms. Hentaði vel við gripaflutninga, því að á þessu svæði gætir sjávarfalla lítið. Þessar lúgur voru teknar af eftir að skipið kom hingað til lands og plötur soðnar á í staðinn.          (C) Þórhallur S Gjöveraa. 20 nóvember 2016.


Flak skipsins í Djúpavík. Skipið var dregið þangað á sínum tíma og notað sem verbúð starfsmanna sem unnu í síldarverksmiðjunni. En það voru fleiri sem bjuggu í skipinu, sagt var að rottan hafi komið í Djúpavík með skipinu.                                                           (C) Jón Bragi Sigurðsson.


Suðurland sem M Davidsen en það nafn bar skipið áður. Skipið var smíðað hjá Helsingör Jernskibs & Maskinbyggeri í Helsingör í Danmörku árið 1891. 217 brl. 350 ha. 2 þennslu gufuvél. Eimskipafélag Suðurlands kaupir skipið haustið 1919 og var í eigu þess til ársins 1932. Var svo í eigu h/f Skallagríms í Borgarnesi til 1935, þar til að h/f Djúpavík kaupir skipið og notaði það til íbúðar starfsfólki sínu til handa, en vistin þar mun ekki hafa verið neitt sældarlíf.                          (C) Handels & Söfartsmuseet.dk


20.11.2016 09:20

1016. Sigurbjörg ÓF 1. TFDH.

Sigurbjörg ÓF 1 var smíðuð í Slippstöðinni á Akureyri árið 1966 fyrir Magnús Gamalíelsson útgerðarmann á Ólafsfirði. Stál. 346 brl. 960 ha. MWM díesel vél. Skipið var endurmælt í mars 1970 og mældist þá 278 brl. 29 desember 1978 var umdæmisstöfum skipsins breytt í ÓF 30. Skipið var selt 17 júlí 1979, Blakk h/f á Patreksfirði, hét Pálmi BA 30. Selt 12 október 1983, Drift h/f í Neskaupstað (Garðar Lárusson útgerðarmaður), skipið hét Fylkir NK 102. Selt 30 maí 1984, Meleyri h/f á Hvammstanga, hét Sigurður Pálmason HU 333. Frá 4 júlí 1991 hét skipið Erling KE 140. Selt 3 október 1991, Samherja h/f á Akureyri, sama nafn og númer. Selt 31 janúar 1992, Saltveri h/f í Keflavík. Frá 4 desember 1994 hét skipið Keilir KE 140. Selt úr landi og tekið af skrá 20 febrúar árið 1995. Sigurbjörgin var stærsta stálskip sem þá hafði verið smíðað hérlendis.


Sigurbjörg ÓF 1.                                                                                    (C) Sveinn Magnússon.


Sigurbjörg ÓF 1 við bryggju á Ólafsfirði.                                                  (C) Sveinn Magnússon.


Pálmi BA 30 á sundunum við Reykjavík.                                                     (C) Snorri Snorrason.


Fylkir NK 102 á útleið frá Neskaupstað.                                                (C) Gunnar Þorsteinsson.


Sigurbjörg ÓF 1. Líkan.                                                                             Ljósmyndari óþekktur.

             Samið um smíði skipsins

Þegar Magnús Gamalíelsson, útgerðarmaður í Ólafsfirði bar saman ráð sín við Jón G Sólnes bankastjóra landsbankans á Akureyri um hugsanleg kaup á nýju fiskiskipi. Þá tók Jón vel undir málaleitan Magnúsar, en varpaði því fram umhugsunarlaust hvort ekki væri möguleiki á að láta smíða slíkt skip á Akureyri. Magnús hringdi síðan samdægurs í Skapta í Slippstöðinni og spurði um möguleika á því að þeir smíðuðu fyrir sig 300 til 400 tonna stálskip.
Skapti sagðist geta svarað því innan tíðar. Varð það líka orð að sönnu, því skammt var um liðið þegar Skapti tilkynnti Magnúsi að Slippstöðin væri til þess búin að taka verkið að sér. Samningur um skipasmíði þessa var undirritaður 18 janúar 1965.
Var um að ræða 346 lesta stálskip, hið langstærsta þeirra gerðar er þá hafði verið til smíða hérlendis. Auðvitað þurfti mikla dirfsku til að ráðast í þetta verk því öll aðstaða var frumleg. En þetta tókst og skipinu var hleypt af stokkunum 15 febrúar 1966 og gefið nafnið Sigurbjörg ÓF 1.
Kampavín freyddi ekki um stefni hins nýja skips við skírnarathöfnina, heldur sjór af Grímseyjarsundi, sem tekin var af skipverjum Guðbjargar ÓF 3, tæplega 100 lesta stálbát sem Magnús átti einnig og keypti til Ólafsfjarðar nýsmíðaðan frá Noregi. Vakti atburður sá mikla athygli.

Sveinn Magnússon. Skipagrunnur Ólafsfirði.

             Sigurbjörg ÓF 1 afhent

              Stærsta skip smíðað hérlendis

Á laugardaginn var sigldi stálskipið Sigurbjörg ÓF 1, stærsta skip, sem smíðað hefur verið hér á landi, frá bryggju á Akureyri og til heimahafnar sinnar, Ólafsfjarðar, þar afhenti Skafti Áskelsson, forstjóri Slippstöðvarinnar á Akureyri, sem smíðað hefur skipið, það eiganda þess og útgerðarmanni, Magnús Gamalíelssyni. Var það hátíðleg athöfn og talið að meirihluti Ólafsfirðinga hafi verið viðstaddur ásamt mörgum starfsmönnum Slippstöðvarinnar, sem fóru með skipinu til Ólafsfjarðar. Þegar skipið kom til Ólafsfjarðar blöktu fánar þar hvarvetna, borði hafði verið strengdur yfir hafnargarðinn með áletruninni "Velkomin Sigurbjörg," Lúðrasveit Ólafsfjarðar lék er skipið lagðist að bryggju, en sóknarpresturinn, Ingþór Indriðason, flutti ávarp og bæn. Því næst afhenti Skafti skipið með ræðu, en Ásgrímur Hartmannsson, bæjarstjóri, bauð það velkomið og ræddi þýðingu þess fyrir atvinnulíf á staðnum. Þá talaði Magnús Gamalíelsson, veitti skipinu móttöku og þakkaði árnaðaróskir. Ennfremur talaði Davíð Ólafsson, fiskimálastjóri, og loks söng Karlakór Ólafsfjarðar. Að þessari athöfn lokinni bauð eigandi skipsins öllum viðstöddum til kaffidrykkju í Tjarnarborg. Sigurbjörg ÓF 1 er fyrsta stálskipið, sem byggt er í Slippstöðinni á Akureyri og jafnframt það stærsta, sem byggt hefur verið hér á landi, 346 lestir. Það er glæsilegt útlits og talið vandað að öllum frágangi. Teikningu að skipinu gerði Hjálmar R. Bárðarson skipaskoðunarstjóri. Það er að sjálfsögðu búið öllum nýjustu og fullkomnustu tækjum til fiskveiða. Aðalvél þess er 950 ha Mannheim, og ganghraði í reynsluferð var 12.5 sjómílur.
Að lokum skal þess getið, er fram kom við afhendingu þessa fyrsta stálskips frá Slippstöðinni, að þar eru næg verkefni framundan. Samið hefur verið um smíði tveggja 480 tonna skipa. Verður það fyrra byggt fyrir Eldborg h.f. í Hafnarfirði, en hið síðara fyrir Sæmund Þórðarson skipstjóra á Þórði Jónassyni. Þessa dagana er verið að reisa feiknastórt hús, svo að framvegis verði hægt að vinna að skipasmíðinni innanhúss og veður þurfi ekki að tefja framkvæmdir. Þetta hús verður 89 m langt, 25 m breitt og 22 m hátt. Verður þar hægt að byggja mun stærri skip en þau, sem nú hefur verið samið um smíði á. Hjá Slippstöðinni vinna nú um 130 manns, þannig að hún er orðin eitt stærsta atvinnufyrirtæki bæjarins, og með betri og stærri dráttarbraut, sem nú er í undirbúningi, eru enn vonir um meiri verkefni og vaxandi rekstur.

Verkamaðurinn. 19 ágúst 1966.

19.11.2016 07:53

B. v. Guðmundur júní ÍS 20. LBQG. / TFJD.

Guðmundur júní ÍS 20 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1925 fyrir h/f Belgaum í Hafnarfirði. Hét fyrst Júpíter GK 161. 394 brl. 700 ha. 3 þennslu gufuvél. Skipið var selt 14 desember 1929, h/f Júpíter í Hafnarfirði, (Tryggva Ófeigssyni), sama nafn og númer. 9 apríl árið 1948 flytur Tryggvi Ófeigsson útgerðarmaður, útgerð sína (h/f Júpíter) til Reykjavíkur og fær þá togarinn skráningarnúmerið RE 61. Skipið var selt 21 ágúst 1951, Togaraútgerð Dýrfirðinga h/f á Þingeyri, hét Guðmundur júní ÍS 20. 21 júní árið 1955 eignast Einar Sigurðsson útgerðarmaður í Reykjavík togarann, sama nafn og númer, með heimahöfn á Flateyri. Sumarið 1960 stóð til að breyta Guðmundi júní í flutningaskip, hann var þá í eigu bræðranna, Hákonar og Magnúsar Kristinssona í Njarðvík sem áttu Vélsmiðju Njarðvíkur. Skipið hafði þá legið lengi í Reykjavíkurhöfn. Togarinn brann í Njarðvíkurhöfn, 18 maí 1963, og talinn ónýtur 29 júlí sama ár. Flak skipsins var síðan dregið til Ísafjarðar og notað sem brimbrjótur við Skipasmíðastöð Marselíusar. Endalok togarans urðu þau að hann var notaður í uppfyllingu á tanganum á Ísafirði.


Guðmundur júní ÍS 20 að veiðum.                                                            (C) Samúel Arnoldsson.


Guðmundur júní ÍS 20 í Hafnarfjarðarhöfn.                                                 Ljósmyndari óþekktur.


Guðmundur júní ÍS 20.                                                              (C) Samúel Arnoldsson.


Stjórnpallur skipsins ein íshella að sjá. Færeyingurinn Leif Berg er í glugganum.                                                                                                             (C) Samúel Arnoldsson. 


Flak togarans á Ísafirði. Sjá má í flak Notts County GY 673.    Ljósmyndari óþekktur.


Stjórnpallur togarans.                                                (C) Sæmundur Þórðarson.


Guðmundur júní ÍS 20.                                             (C) Sæmundur Þórðarson.


Flak togarans á Ísafirði.                                                                          Ljósmyndari óþekktur. 

Enn í dag sér vel í flak skipsins í uppfyllingunni.                               (C) Sæmundur Þórðarson. 

Set hér inn mynd af líkani sem Sæmundur Þórðarson á Suðureyri sendi mér fyrir löngu síðan. Það er spurning hvort hugmyndir manna hafi verið þær að gera skipið upp eins og myndin sýnir. 

           Útgerðin hvarf á einni nóttu

Athafnamaðurinn Einar Sigurðsson, oft nefndur Einar ríki, lauk verslunarprófi frá Verslunarskóla Íslands vorið 1924 og um haustið hóf hann eigin atvinnurekstur. Vestmannaeyjar urðu of litlar fyrir athafnasemi Einars og flutti hann til Reykjavíkur 1950 og var þar með starfsemi í viðbót við reksturinn í Eyjum. Þegar Einar hafði mest umleikis í sjávarútvegi var hann með útgerð og fiskvinnslu í Vestmannaeyjum, Keflavík, Reykjavík á Flateyri og víðar. Allt voru þetta einkafyrirtæki og var Einar oft með milli fimm og sexhundruð manns í vinnu. Það var hins vegar mikið áfall fyrir atvinnulífið á Flateyri þegar Einar ákvað í einni svipan að fara með útgerð togarana Guðmund Júní og Gylli suður og segja má að hann hafi þá skilið eftir sviðna jörð á Flateyri. Heimamönnum var talin trú um að nýr togari, Sigurður sem var smíðaður í Þýskalandi fyrir Ísfell á Flateyri sem var fiskverkunarfyrirtæki í eigu Einars , kæmi til Flateyrar, enda hlaut hann einkennisstafina ÍS-33. Hann var hins vegar aldrei gerður út frá Flateyri heldur frá Reykjavík enda var hann síðar skráður í Reykjavík og hlaut þá einkennisstafina RE- 4. Hann var í eigu Ísfells til 1984. Þá eignast Hraðfrystistöð Vestmannaeyja hann og 1992 verður hann eign Ísfélagsins þegar Hraðfrystistöðin og Ísfélagið sameinast. Þá fær hann einkennisstafina VE- 15. En Einar átti útgerðina, og hvað gátu heimamenn á Flateyri þá gert? Einar gegndi mörgum trúnaðarstörfum og var í forystu á sviði útgerðar og fiskvinnslu. Hann var einn af stofnendum og lengi í forystu Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, í stjórn skipafélagsins Jökla, Tryggingamiðstöðvarinnar, Umbúðamiðstöðvarinnar, Síldar- og fiskimjölsverksmiðjunnar í Reykjavík og stjórnarformaður Coldwater í Bandaríkjunum.

Aldan. 4 apríl 2015. 

  35 ára gömlum togara breytt í flutningaskip?

Vestur á Grandagarði er nú verið að kanna möguleikana á því að breyta gömlum togara í flutningaskip. Er skrokkur skipsins sagður svo góður, að ófært sé að órannsökuðu máli, að láta skipið fara í brotajárn, en það virtist yfirvofandi. Hér er um að ræða togarann Guðmund Júní frá Flateyri. Hann er búinn að liggja bundinn vestur við Grandagarð langa lengi. Var talið að togarans biði ekki annað en að verða dreginn til útlanda og rifinn í brotajárn. Nú er búið að rífa keisinn og reykháfinn og taka gufuketilinn úr skipinu. Menn eru að vinna í skipinu við að breyta því. Það er Vélsmiðja Njarðvíkur, sem bræðurnir Hákon og Magnús Kristinssynir veita forstöðu, sem hér er að verki. Er hugmyndin að breyta Guðmundi Júní í flutningaskip. Verður vélin tekin úr skipinu og yfirbygging þess færð aftast á skipið og sett í það díselvél. Var á smiðum að heyra, að ástæða væri til þess að ætla að þetta heppnaðist, því svo traustbyggður er þessi gamli togari, að ekkert mun þurfa að styrkja skrokk hans vegna þessarar breytingar. Gert er ráð fyrir að skipið geti þá lestað alls um 500 lestum af vörum. Það verður að heita má allt ein lest stafna á milli, líkt og litlu saltflutningaskipin dönsku eða hollenzku, sem hér hafa verið á ferðinni. Togarinn Guðmundur Júní hét áður Júpiter. Hann var byggður í Bretlandi árið 1925.

Morgunblaðið. 2 júlí 1960.                                                     

18.11.2016 09:47

918. Gullfaxi NK 6. TFVN.

Gullfaxi NK 6 var smíðaður hjá Mortensen Skibsbyggeri A/S í Frederikssund í Danmörku árið 1955. Eik. 66 brl. 225 ha. Völund díesel vél. Eigandi var Gullfaxi h/f í Neskaupstað (Þorleifur Jónasson skipstjóri og Ármann Eiríksson) frá 8 ágúst 1955. Skipið var selt 25 október 1960, Sandfelli h/f á Þingeyri, hét Þorgrímur ÍS 175. Ný vél (1960) 330 ha. Völund díesel vél. Selt 8 mars 1969, Jóni Sæmundssyni í Keflavík, hét Þorgrímur KE 81. Skipið var endurbyggt í Keflavík árið 1973. Ný vél (1973) 479 ha. G.M díesel vél, 353 Kw. Selt 10 mars 1975, Auðunni Benediktssyni á Kópaskeri, skipið hét Þingey ÞH 102. Selt 9 maí 1978, Sævari h/f á Grenivík, hét Sigrún ÞH 169. Selt 10 september 1979, Sigurði Valdimarssyni í Ólafsvík, hét Sigurvík SH 117. Selt 10 nóvember 1988, Sigurði Inga Ingólfssyni í Vestmannaeyjum, hét Sigurvík VE 555. Frá 26 júlí 1990 er Eyjavík h/f í Vestmannaeyjum eigandi skipsins, hét þá Vík VE 555. Selt 3 júlí 1991, Kleifum h/f í Vestmannaeyjum, hét Skuld VE 263. Selt 7 júlí 1993, Sigurbáru h/f, Co Óskar Kristinsson í Vestmannaeyjum, hét Sigurbára VE 249. Frá 19 janúar 1996 er Ólgusjór ehf í Vestmannaeyjum eigandi skipsins, hét þá Hrauney VE 41. Talið ónýtt og tekið af skrá 28 apríl 2005 og rifið skömmu síðar.

Gullfaxi NK 6 á leið inn Norðfjörð með síldarfarm. Nótabáturinn í eftirdragi.     (C) Björn Björnsson. 


Varðskipsmenn á Ægi á síldveiðum sumarið 1956. Gullfaxi NK 6 siglir hjá.                      (C) LHG.


Sigurvík SH 117.                                                                    (C) Brimbarinn. Vigfús Markússon.

                      NÝR BÁTUR

                   Gullfaxi NK 6

Síðastliðinn laugardag kom hingað til bæjarins nýsmíðaður fiskibátur. Heitir hann Gallfaxi og eru einkennisstafir hans N.K 6. Gullfaxi er smíðaður hjá Mortensens Skibsbyggeri í Fredrikshavn í Danmörku. Báturinn átti samkvæmt samningum að afhendast um síðustu áramót og kemur þannig 7 mánuðum á eftir áætlun. Þessi dráttur hefur að sjálfsögðu verið eigendunum bagalegur, því þeir hafa bæði misst af vetrarvertíð og síldarvertíð. Gullfaxi er byggður úr eik, 66 smálestir brúttó með 210-225 hestafla Völund-dieselvél, auk ljósamótors. Ganghraði í reynsluferð var 10.2 sjómílur, en á heimleiðinni var ganghraðinn 9 sjómílur. Gullfaxi er búinn öllum þeim siglinga og öryggistækjum, sem nú tíðkast í bátum af þessari stærð, þar á meðal asdictæki. Er það fiskileitartæki og er Gullfaxi fyrsti norðfirzki báturinn sem fær það. Í brúnni er m. a. klefi skipstjóra, í káetu rúm fyrir 4 menn og í lúkar fyrir 8 menn. Þar er einnig olíukynnt eldavél og frá henni liggur miðstöð um mannaíbúðir. Íbúðir skipverjanna eru rúmgóðar og í alla staði hinar vistlegustu. Þær eru klæddar innan með plastik-plötum og er það nýung. Er það áferðarfallegt og auðvelt að halda íbúðunum hreinum. Gullfaxi er hinn myndarlegasti bátur, sterkbyggður að sjá og burðarmikill. Eigendur hans eru þeir Ármann Eiríksson og Þorleifur Jónasson. Blaðið óskar þeim hér með til hamingju með þennan bát. Þó báturinn sé síðbúinn til síldveiða, hefur hann nú hafið þátttöku í þeim með hringnót. Skipstjóri Gullfaxa er Þorleifur Jónasson, einn aflasælasti og heppnasti skipstjóri bæjarins. Þrír aðrir bátar af svipaðri stærð og Gullfaxi eru nú í smíðum í Danmörku fyrir Norðfirðinga og eiga tveir þeirra að afhendast í desember og er talið að þeir muni tilbúnir á tilsettum tíma.

Austurland. 12 ágúst 1955.

17.11.2016 09:59

184. Edda GK 25. TFRM.

Edda GK 25 var smíðuð í Skipasmíðastöðinni Dröfn í Hafnarfirði árið 1944 fyrir Einar Þorgilsson & Co h/f í Hafnarfirði. Eik. 184 brl. 378 ha. Ruston díesel vél. 17 nóvember árið 1953, þegar skipið var statt 300 metra frá bryggju í Grundarfirði, lagðist það á hliðina og sökk síðan. 15 af 17 skipverjum komust á kjöl. 11 af þeim björguðust yfir í annan nótabátinn og barst hann að landi eftir mikla hrakninga skammt frá bænum Suðurbár í Grundarfirði. Var mönnunum síðan hjálpað heim að bænum. En áður en þangað var komið höfðu 3 skipverjar látist af vosbúð, 2 í nótabátnum og síðan 1 eftir að í land var komið. Það urðu því 9 manns af 17 manna áhöfn sem fórust. Í febrúar 1954 var skipið kjölrétt og dregið upp í fjöru og þétt þar. Síðar var skipið dregið til Reykjavíkur og endurbyggt þar. Skipið var selt 1954-55, Fróða h/f í Ytri Njarðvík, hét Fróði GK 480. Frá 17 febrúar hét skipið Sigurkarfi GK 480, sömu eigendur. Talið ónýtt og tekið af skrá 5 nóvember árið 1970. Skipið var að lokum brennt í ágúst árið 1972.


Edda GK 25 nýsmíðuð á siglingu árið 1944.             Ljósmyndari óþekktur (G Á ?) Mynd í minni eigu.

Eitt þeirra skipa, sem hvað oftast var nefnt í síldaraflafréttum sumarsins 1953, var vélskipið Edda frá Hafnarfirði. Þá um vorið hafði kunnur sjósóknari og aflakló, Guðjón Illugason, tekið við skipstjórn á bátnum, en Guðjón hafði verið skipstjóri á Hafnarfjarðarbátum frá árinu 1944, og höfðu bátar þeir sem hann var með orðið aflahæstir Hafnarfjarðarbáta átta ár í röð. Þetta sumar var Edda þriðja aflahæsta síldveiðiskipið og að síldveiðunum fyrir norðan og austan land loknum, var ákveðið að gera bátinn út til veiða með nót, en töluverð síldveiði var þá út af Snæfellsnesi. Lögðu bátarnir jafnan upp í höfnunum við Snæfellsnes.


Edda GK 25 á síldveiðum.                                                                      (C) Sigurgeir B Halldórsson.

Um miðjan nóvember var Edda orðin aflahæst síldarbátanna og hafði skilað miklum afla á land. Tíð hafði verið allsæmileg um haustið, en þegar kom fram í nóvember brá yfir í rosa, þannig að gæftir urðu stopular. Aðfaranótt 15 nóvember skall svo á hið versta suðvestan stórviðri, og hélst það nær óslitið í þrjá sólarhringa. Hámarki náði veðurhæðin þó aðfaranótt 17 nóvember, en þá var víða fárviðri við landið sunnan og vestanvert. Skipin, sem verið höfðu að síldveiðum við Snæfellsnes, héldu öll í landvar er óveðrið skall á. Meðal þeirra var Edda og hélt hún inn á Grundarfjörð og lagðist þar við ankeri um 300 metra frá landi. Þar á firðinum voru mörg önnur skip.     Heimild: Þrautgóðir á raunastund. V bindi.


Sigurkarfi GK 480.                                                                                   (C) Tryggvi Sigurðsson. ?

 Níu menn fórust, er vélskipinu Eddu hvolfdi á  Grundarfirði á mánudagsnótt.

Þau sviplegu tíðindi gerðust síðla á mánudagsnóttina, að vélskipið Edda frá Hafnarfirði fórst í Grundarfirði og með henni níu menn af áhöfninni. Átta komust lífs af eftir mikla hrakninga í opnum bát. Skipinu hvolfdi skammt framan við bryggjuna í Grafarnesi án þess að nærstödd skip eða fólk í landi veitti því athygli. Fimmtán skipverjar komust á kjöl og ellefu í nótarbátinn. Sex drukknuðu við skipið, en mennirnir í bátnum hrökktust út fjörð, steyttu á skeri fram af Bárar-bæjum sátu þar fastir þrjár stundir og bar síðan að landi. í þeim hrakningum létust þrír menn.
Þeir sem fórust voru: Sigurjón Guðmundsson, Austurgötu 19, Hafnarfirði. 34 ára, I. vélstjóri. Hann læt ur eftir sig konu og fimm börn, og átti foreldra á lífi. Börnin voru öll ung, innan við fermingu. Sigurður Guðmundsson, Vesturbraut 1, Hafnarfirði. 28 ára, II. vélstjóri. Hann lætur eftir sig konu og eitt fósturbarn, og átti foreldra á Iífi. Jósep Guðmundsson, Vesturbraut 1, Hafnarfirði (bróðir Sigurðar vélstjóra). Háseti. Hann var ókvæntur. Guðbjartur Guðmundsson. Suðurgötu 94, Hafnarfirði. 42 ára, háseti. Hann lætur eftir sig konu og fimm börn og átti foreldra á lífi. Guðbrandur Pálsson, Köldukinn 10, Hafnarfirði. 42 ára, háseti. Hann lætur eftir sig konu og sex börn og átti aldraða móður á lífi. Börnin eru flest ung, en tvö um fermingu. Albert Egilsson, Selvogsgötu 14, Hafnarfirði. 30 ára, háseti. Hann lætur eftir sig konu og eitt barn og átti móður og fósturmóður á lífi. Stefán Guðnason, frá Stöðvarfirði. 18 ára, háseti. Hann var ókvæntur, en átti móður á lífi. Sigurjón Benediktsson,Vesturbraut 7, Hafnarfirði. 17 ára, háseti. Hann átti aldraða foreldra á lífi. Einar Ólafsson, Skeljabergi, Sandgerði, 19 ára, háseti. Hann lætur eftir sig unnustu og átti foreldra á lífi. Þeir, sem af komust eru:
Guðjón Illugason, skipstjóri. Guðmundur Ársæll Guðmundsson, stýrimaður. Ingvar Ívarsson, matsveinn. Bjarni Hermundsson, háseti. Guðmundur Ólafsson, háseti. Óskar Vigfússon, háseti. Ágúst Stefánsson, háseti. Allir búsettir í Hafnarfirði, og Guðjón Vigfússon, háseti, Silfurtúni við Hafnarfjörð.
Harmsaga skipverjanna, sem af komust, var á þá leið, að skipstapinn hefði orðið um klukkan fjögur um nóttina. Edda lá þá ásamt nokkrum öðrum skipum á legunni við Grafarnes um 300 metra frá bryggjunni. Afspyrnurok var þá. Vindur hafði verið af suðri en var nú að snúast til suðvestanáttar og gekk á með afskaplegum stormhrinum.
Skipið lá við festar en dró legufærin og varð af og til að draga upp og færa sig. Skipstjórinn, Guðjón Illugason, var í brúnni. Nýlega höfðu vaktaskipti farið fram, og voru margir skipverja í rúmum sínum. stýrimaður var á leið upp til skipstjóra, er slysið varð.
 Í ógurlegri stormhviðu, sem yfir reið, lagðist Edda á hliðina og hvolfdi síðan alveg á svipstundu. Flaut skipið þannig um hríð og komust 15 af 17 skipverjum á kjöl. Sumir þeirra voru illa búnir, jafnvel á nærklæðum eins og þeir komu úr rekkju og berfættir. Enginn varð var við slysið, Þótt mörg skip lægju ekki ýkja langt frá og skammt til lands var myrkrið, særokið og veðurhvinurinn svo mikið, að enginn varð var við slysið né heyrði hróp skipbrotsmanna á kilinum. Ellefu komust í nótarbátinn. Edda hafði um nóttina misst annan nótabátinn, en hinn var nú bundinn við skipið og maraði í hálfu kafi nær fullur af sjó. Ellefu skip verjum tókst nú að komast í nótabátinn, og má það kallast þrekraun mikla í þessu veðri. Hinir drukknuðu við skipið. Þegar auðséð var, að skipið mundi brátt sökkva, skáru skipbrotsmennirnir í bátnum á bandið, sem báturinn var bundinn við skipið með, og þar með hófst hrakningsför þeirra fyrir vindi og sjó út Grundarfjörð í fyrstu morgunskímunni. En þegar Ijóst varð af degi sáu menn af hinum skipunum, að Edda var horfin af legunni. Grunaði engan fyrst, hvað gerzt hafði, en margir töldu, að Edda hefði haldið á brott í því skyni að leita að nótabát sínum. Þótti mönnum það þó kynlegt í öðru eins veðri. Skýringin á hvarfi Eddu fékkst svo ekki fyrr en boðin komu frá Suður-Bár eins og fyrr segir.

Tíminn 18 nóvember 1953.




16.11.2016 11:16

800. Andey EA 81. TFVP.

Andey EA 81 var smíðuð í Skredsvik í Svíþjóð árið 1946. Eik. 85 brl. 215 ha. Polar díesel vél. Eigandi var Útgerðarfélagið Andey í Hrísey frá 21 október 1946. Skipið var selt 15 febrúar 1950, Arnoddi Gunnlaugssyni í Vestmannaeyjum, hét Suðurey VE 20. Ný vél (1957) 390 ha. MWM díesel vél. Selt 20 nóvember 1976, Ísak Valdimarssyni í Neskaupstað, skipið hét Suðurey NK 37. Skipið var talið ónýtt og því sökkt í Norðfjarðarflóa 29 nóvember árið 1979.


Andey EA 81 með fullfermi síldar og bíður löndunar.                                (C) Sigurgeir B Halldórsson.


Suðurey VE 20 í innsiglingunni til Vestmannaeyja.                                          Mynd úr Íslensk skip.
Flettingar í dag: 367
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 1134
Gestir í gær: 51
Samtals flettingar: 1062992
Samtals gestir: 76987
Tölur uppfærðar: 11.12.2024 16:37:59