15.09.2018 08:34
Brim hf verður Útgerðarfélag Reykjavíkur hf.
Brim hf. heitir nú Útgerðarfélag
Reykjavíkur hf. en þetta var ákveðið á hluthafafundi félagsins í dag. Runólfur
Viðar Guðmundsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri félagsins en Ægir Páll
Friðbertsson lét af starfi framkvæmdastjóra í gær.
Útgerðarfélag Reykjavíkur gerir út skuttogarana
Guðmundur í Nes RE 13 og Kleifaberg RE 70. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu
sem senda var á fjölmiðla í dag.
Vísir. 14 september 2018.
1360. Kleifaberg RE 70 við Grandagarð. (C) Þórhallur S Gjöveraa.
2626. Guðmundur í Nesi RE 13 við Grandagarð. (C) Þórhallur S Gjöveraa.
15.09.2018 07:43
481. Guðmundur frá Bæ ST 55. TFOS.
481. Guðmundur frá Bæ ST 55. (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.
Innlendar
skipasmíðar
Voru skipasmíðar með minnsta móti á þessu ári. Lokið var
smíði aðeins 3 báta á árinu og var það 14 færri en verið hafði árið 1947, en
samanlögð rúmlesta tala þeirra var 111 samanborið við 1.034 rúmlestir á árinu
1947. Voru bátar þessir smíðaðir á eftirtöldum stöðum: Akureyri 2 bátar 74
rúmlestir og Siglufirði 1 bátur 37 rúmlestir. Var hér um að ræða báta, sem
smíðaðir voru á vegum ríkissjóðs.
Ægir. 8-9 tbl. 1 ágúst 1949.
12.09.2018 18:44
V. b. Gunnar Hámundarson GK 357.
V.b. Gunnar
Hámundarson GK 357
Það sem af er þessu ári hafa aðeins 3 nýir bátar bætzt í
flotann. Fyrstur var tilbúinn "Gunnar Hámundarson" G. K 357, en hann kom
1. febrúar til Sandgerðis, en þaðan er hann gerður út í vetur. Byrjað var á
smíði hans síðla á síðastliðnu sumri. Er hann smíðaður úr eik og furu. Hann er
26.72 brúttó rúmlestir að stærð, 49.6 fet á lengd, 13.3 fet á breidd og 6 fet á
dýpt. Í honum er 80 -90 ha. June Munktell vél, sama vélin og var í "Gunnari
Hámundarsyni" hinum eldri. "Gunnar" er smíðaður á Akranesi, og
annaðist Þorgeir Jósepsson smíðina, en eigandi hans er Halldór Þorsteinsson
útgerðarmaður í Vörum í Garði.
Ægir. 4 tbl. 1 apríl 1942.
Breski togarinn York City GY 193 var smíðaður í Smiths Dock Co Ltd. South Bank í Middlesbrough á Englandi árið 1933. 398 brl. (C) Peter H Pool.
Gunnar
Hámundarson sigldur niður í gær
Skipaárekstur varð í gærmorgun í ágætis veðri út af
Garðskaga. Breskur togari. York City frá Grimsby, sigldi niður vjelbátinn
Gunnar Hámundarson úr Garðinum. Á bátnum voru sjö menn og björguðust þeir allir
ómeiddir. Báturinn var horfinn í djúpið tveim mínútum eftir að áreskturinn
varð. Gunnar Hámundarson var aflahæsti reknetabáturinn hjer við Faxaflóa.
Áreksturinn varð út af Garðskagavita um kl. 10,30 í gærmorgun, um einnar klst.
siglingu frá Sandgerði. Var Gunnar Hámundarson að koma úr róðri, með nær 60
tunnur síldar. Breski togarinn var að koma í veiðiför. Þegar áreksturinn varð,
voru aðeins tveir menn uppi, af sjö manna áhöfn, Kjartan Ásgeirsson vjelamaður
og Jónatan Ásgeirsson stýrimaður. Hinir voru allir undir þiljum. Um aðdraganda
árekstursins er ekki vitað. Skipverjar á Gunnari Hámundarsyni segjast ekki hafa
sjeð neitt til ferða breska togarans, og ekki vitað neitt fyrr en hann sigldi á
bátinn. Togarinn kom aftan á bátinn, skammt fyrir aftan hvílu skipstjórans sem
var stjórnborðsmegin. Skipverjar sem allir eru, að einum undanskyldum, á besta
aldri, snöruðu sjer þegar upp, eins og þeir stóðu, fáklæddir úr hvílu og á
þilfari þrifu þeir með sjer netabelgi og köstuðu sjer í sjóinn, en í sömu
andránni seig vjelbáturinn hægt niður að
aftan og hvarf í djúpið. Þá munu hafa verið liðnar tvær mínútur frá því
áreksturinn varð. Skipverjar á breska togaranum fóru sjer að engu óðslega við
björgun skipbrotsmannanna. Þeir sem lengst voru í sjónum, biðu björgunar í um
20 mínútur. Þrír skipverja sem syndir eru, syntu að stiga, sem togaramennirnir
settu niður með skipshliðinni. Þorvaldur Halldórsson skipstjóri, sem var einn
þeirra er synti að togaranum, stakk sjer til sunds af borðstokk togarans, með
bjarghring til eins manna sinna, sem ekki var syntur, og orðinn var talsvert
þreyttur á að halda sjer á floti á netabelgnum. Tveimur skipsbrotsmönnum
bjargaði svo vjelbáturinn Ingólfur frá Sandgerði, skipstjóri Bragi Björnsson,
Gillandi. Komu þeir til Sandgerðis nokkru eftir hádegi. Hinir fimm, sem bjargað
var um borð í togarann komu til Reykjavíkur um kl. tvö í gærdag.
Nákvæmlega var mánuður liðinn í gær, frá því að Gunnar Hámundarson hóf
reknetaveiðar. Var hann aflahæsti báturinn hjer við Faxaflóa, með 1.560 tunnur.
Báturinn var hið besta skip, þó ekki væri hann nema 27 tonn. Hann var byggður á
Akranesi fyrir einum átta eða tíu árum. Eigandi hans var Halldór Þorsteinsson
útvegsbóndi að Vörum í Garði. Þessir menn voru á bátnum:
Þorvaldur Halldórsson skipstjóri, Garði.
Kjartan Ásgeirsson. vjelamaður, Garðinum.
Einar Daníelsson frá Ísafirði.
Sigurbjörn Tómasson Keflavík.
Kjartan Jóhannsson matsveinn.
Þessir menn björguðust allir um borð í togarann.
Mb. Ingólfur bjargaði þeim Lárusi Bjarnasyni frá Reykjavík. Hann er elstur
skipverja, rúmlega sextugur og Jónatan Ásgeirssyni stýrimanni. Þeir, sem
togarinn bjargaði, Ijetu vel af móttökunum þar um borð. Fimm þeirra
skipsfjelaga eru fjöldskyldumenn.
Morgunblaðið. 22 ágúst 1950.
11.09.2018 17:55
Reykjavíkurhöfn í dag.
08.09.2018 10:16
1472. Ísborg ll ÍS 260. TFVM.
Nýtt
skip í flota Vestfirðinga
Það bættist í Vestfirskan skipaflota þegar
útgerðarmaðurinn Arnar Kristjánsson sigldi nýju skipi sínu, Ísborg ll ÍS 260
til heimahafnar í dag. Með tilkomu nýja skipsins verður eldra skipinu Ísborgu,
lagt og það selt í niðurrif. Það skip sem áður hét Hafþór og síðan Haffari og
var þá gerður út frá Súðavík hefur verið mikil happafley og verið ein af
burðarásum í hráefnisöflun fyrir rækjuvinnslur í Ísafjarðarbæ.
Nýja skipið sem áður var gert út frá Sauðárkrók og hét þá Klakkur, var gert út
á fiskitroll til hráefnisöflunar fyrir Fisk Seafood. Skipið var þá undir stjórn
Snorra Snorrasonar, mikils fiskimanns. Klakkur er 500 rúmlestir, smíðaður í
Gdynia í Póllandi 1977 og var Klakkur hf í Vestmannaeyjum upphaflegur eigandi.
Ísborg II kemur úr slipp á Akureyri þar sem það var botnmálað og farið yfir
skrúfu og öxuldregið. Arnar gerir ráð fyrir að veturinn verði notaður til að
útbúa skipið til rækjuveiða og það geti hafið veiðar snemma vors.
1472. Klakkur SK 5 við bryggju á Sauðárkróki. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 17 júlí 2016.
1472. Klakkur VE 5 í slippnum á Akureyri. (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.
Togarinn fór
á hliðina í þurrkví
Skuttogarinn Klakkur VE skemmdist mikið þegar hann lagðist á
hliðina í slipp í Cuxhaven í Vestur-Þýskalandi seint í fyrrakvöld. Skipið var
til viðgerða í skipasmíðastöð og var verið að sjósetja það þegar óhappið varð.
Haraldur Benediktsson skipstjóri á Klakk vildi sem minnst um óhappið ræða þegar
Mbl. náði símasambandi við hann í gærkvöldi. Sagði hann að sjópróf ættu eftir
að fara fram og þar myndu málin skýrast. Skipið maraði í hálfu kafi og hallaði
80 gráður eftir óhappið en rétti sig við í 45 gráðu halla eftir að vélarrúmið
fylltist af ajó. Í gærkvöldi var kominn stór flotkrani að Klakki og átti að
lyfta skipinu aftur upp í slippinn í gærkvöldi. "Þetta er flot"dokk" sem
þeir hleypa sjó inn í og var búið að sökkva henni þó nokkuð þegar óhappið varð.
Skipið lagðist bara á hliðina þarna í "dokkinni" hjá þeim þannig að það
hallaði 80 gráður en lenti þá með möstrin á brúninni á kanti sem þarna er
við," sagði Haraldur.
Aðspurður um skemmdir sagði hann: "Þetta er eins svart og það getur verið, held
ég að óhætt sé að segja. Sjór fór niður alla loftkanala þannig að vélarrúmið
fylltist. Sjórinn fór um allt skip, inn í íbúðir og alveg inn í brú, hún
fylltist fast að því til hálfs. Skrokkur skipsins er óskemmdur og mest af
tækjunum í stýrishúsinu. Maður veit ekki hvað mikið er skemmt í vélarrúminu.
Allt er ónýtt í eldhúsi og matvælageymslum og íbúðum. Jólainnkaup mannskapsins
fóru þar fyrir lítið." Þegar sjósetja átti skipið voru 14 um borð, 12
skipverjar og eiginkonur tveggja þeirra. Haraldur sagði að enginn hefði meiðst
og aldrei hefði verið veruleg hætta á ferðum fyrir fólkið. Sagði hann að þau
hefðu verið hífð í land með krana sem þarna er og allt hefði það gengið vel.
Hluti hópsins færi heim með flugi á föstudag en hin með Breka VE sem selur í
Cuxhaven á mánudag. Haraldur sagði að þetta setti mikið strik í reikninginn hjá
þeim. Fyrirhugað hefði verið að halda heim með skipið um helgina en nú væri
ljóst að það yrði ekki næstu mánuðina en tók jafnframt fram að hann væri
reyndar ekki fæddur bjartsýnismaður.
Morgunblaðið. 8 nóvember 1984.
1472. Klakkur VE 103 í Vestmannaeyjahöfn. Enn með framgálgann. (C) Tryggvi Sigurðsson.
Klakkur VE
103
29. marz sl. kom skuttogarinn Klakkur VE 103 til heimahafnar
sinnar, Vestmannaeyja, í fyrsta sinn. Klakkur VE er byggður í Gdynia í Póllandi
hjá Stocznia im Komuny Paryskiey (nýsmíði B 402/2) og er síðasti skuttogarinn í
raðsmíði þriggja togara fyrir íslenzka aðila hjá umræddri stöð. Fyrr á þessu
ári komu til landsins skuttogararnir Ólafur Jónsson GK og Bjarni Herjólfsson
ÁR. Klakkur VE er í eigu samnefnds hlutafélags í Vestmannaeyjum. Skipstjóri á
Klakk er Guðmundur Kjalan Jónsson og 1. vélstjóri Jón Sigurðsson.
Framkvæmdastjóri útgerðarinnar er Arnar Sigmundsson. Klakkur VE er byggður í
flokki Lloyds Register of Shipping og búinn til botnvörpu- og flotvörpuveiða.
Mesta lengd skipsins er 52.05 m, breidd 10.30 m, dýpt að efra þilfari 6.96 m,
dýpt að neðra þilfari 4.60 m. Lestarrými er 462 m3 og er lestin gerð fyrir
kassa nema fremsti hluti hennar, sem er búin uppstillingu. Brennsluolíugeymar
eru 190 m3 að stærð og ferskvatnsgeymar 55 m3 . Skipið mælist 488 brl og hefur
skipaskrárnúmer 1472. Aðalvél er frá Sulzer, 2200 hö, tengd niðurfærslugír frá
Renk og skiptiskrúfubúnaði frá Liaaen. Þrír rafalar eru drifnir af aðalvél um
niðurfærslugír, tveir 130 KW jafnstraumsrafalar á sama öxli fyrir togvindur og
einn 400 KVA, 3x400 V riðstraumsraf all fyrir rafkerfi skipsins. Hjálparvél er
frá Caterpillar, 330 hö, sem knýr einn 250 KVA, 3x400 V riðstraumsrafal og einn
60 KW jafnstraumsrafal, vararafal fyrir togvindur. Eftir að skipið kom til
landsins var sett í það 110 ha Lister hafnarljósavél með 88 KVA riðstraumsrafal.
Stýrisvél er frá Hydroster, 6300 kgm snúningsvægi. Af öðrum vélabúnaði má nefna
tvær skilvindur, tvær ræsiloftþjöppur, tankmælikerfi,
ferskvatnsframleiðslutæki, COo-slökkvikerfi, rafknúnar dælusamstæður fyrir
vökvaknúin búnað svo og tvær kæliþjöppur, fyrir lest og matvælageymslur. íbúðir
eru fyrir samtals 16 menn. Á neðra þilfari eru fimm 2ja manna klefar og einn
eins manns klefi, en á efra þilfari eru fimm eins manns klefar fyrir yfirmenn.
íbúðir eru hitaðar upp með rafmagnsofnum. Vinnuþilfar er búið blóðgunarkerum,
aðgerðarborðum færiböndum og þvottavél, svo og búnaði fyrir slóg og lifur. Í
skipinu er 10 t Finsam ísvél og 20 m3 isgeymsla. Kæling í lest er með
kælileiðslum. Vindur eru allar pólskar að undanskilinni flotvörpuvindu (Karmoy)
og netsjárvindu (Brattvaag). Skipið er búið tveimur rafknúnum togvindum
(splitvindum), rafknúinni hjálparvindu með sex tromlum og akkerisvindu sem
einnig er rafknúin. Auk þess eru tvær vökvaknúnar hjálparvindur, tveir
vökvaknúnir losunarkranar svo og áðurnefndar vindur, flotvörpuvinda og
netsjárvinda.
Mesta lengd 52.05 m.
Lengd milli lóðlína 43.80 m.
Breidd 10.76 m.
Dýpt að efra þilfari 6.96 m.
Dýpt að neðra þilfari 4.60 m.
Djúprista (KVL) 4.40 m.
Eiginþyngd 905 tonn.
Særými (djúprista 4.58 m) 1170 tonn.
Burðarmagn (djúprista 4.58 m) 265 tonn.
Lestarrými 462 m 3.
Brennsluolíugeymar 190 m 3.
Sjókjölfestugeymir 7 m 3.
Ferskvatnsgeymar 55 m 3.
Ganghraði (reynslusigling) 14,4 sjómílur.
Togkraftur (bollard pull) 25 tonn.
Rúmlestatala 488 brl.
Skipaskrárnúmer 1472.
Ægir. 6 tbl. 1 apríl 1977.
08.09.2018 09:17
V. b. Óðinn GK 22.
Þrír
vélbátar farast
Aðfaranótt laugardags 12. febrúar gerði aftakaveður af
suðvestri. Flestir bátar úr verstöðvum frá Faxaflóa, Vestmannaeyjum og
Hornafirði, höfðu róið um nóttina, og lentu margir bátar í hinum mesta
hrakningi við að ná landi. Vélbátnum Ægir úr Garði, eign Finnboga
Guðmundssonar, útgerðarmanns, hvolfdi út af Garðskaga og fór heila veltu yfir
sig í sjónum. Reið brotsjór yfir skipið og braut allt ofan af því.
Skipstjórinn, ásamt Sigurði Björnssyni, var í stýrishúsinu, er sjórinn reið
yfir skipið. Tók Sigurð út. en skipstjórinn festist undir planka og bjargaðist
þannig. Í lúkarnum voru þrír menn, og sakaði þá ekki. Komu þeir upp, eftir að
báturinn hafði rétt sig við, en rétt í þeim svifum bar þar að m.b. ,.Jón
Finnsson", skipstjóri Þorsteinn Jóhannesson, og tókst honum að bjarga þeim
fjórum, sem eftir voru um borð, og fór með þá til Keflavíkur. Sigurður
Björnsson, sem drukknaði, var frá Geirlandi í Sandgerði, sonur Björns
Sigurðssonar, skipstjóra á Siglufirði. Hann var fæddur 27. maí 1917, kvæntur og
átti 3 börn. "Björn II", frá Akranesi sökk á fiskimiðunum, er hann var
ásamt öðrum bátum á leið til lands. Kom allt í einu mikill leki að bátnum og
sáu skipverjar að hann myndi sökkva innan skamms. Náðu þeir sambandi við m.b.
"Fylkir" frá Akranesi, skipstj. Njáll Þórðarson, tókst skipverjum af
"Fylkir" að bjarga mönnunum fjórum, sem voru á "Birni II." en
báturinn maraði í kafi síðast er sást til hans. v.b. "Ægir" rak síðar yfir
bugtina og lenti í sandvík í landi jarðarinnar Ás í Melasveit. Frammastrið hékk
við bátinn á reiðanum, veiðarfæri í lestinni, bolur bátsins, kjölur, stýri og
skrúfa allt óbrotið. Þykir einstakt að bátinn skyldi reka gegnum skerjagarðinn
án þess að saka og eru nú taldar góðar líkur á, að báturinn náist út. Í þessu
sama veðri fórust tveir vélbátar frá Vestmannaeyjum og einn frá Gerðum.
Vestmannaeyjabátarnir voru: "Freyr", VE 98, 14 smál., byggður í Færeyjum
1920. "Njörður", VE 220, 15 smál. byggður í Vestmannaeyjum 1920, eigandi
beggja þessara báta var h.f. Fram í Vestmannaeyjum. Það er kunnugt að
"Njörður" lagði lóðir sínar vestur frá Einidranga og sást það síðast til
bátsins, að hann lagði af stað heimleiðis um hádegi á laugardag. Bjarghring
hefir rekið á Landeyjarfjörum úr bátnum. "Freyr" lagði sínar lóðir
norðvestur af Einidranga, ásamt öðrum báti. Hefir ekkert spurst til Freys
síðan. Einum Vestmannaeyjabáti hlekktist á. Var það Ísleifur, VE 63, 30 smál.,
byggður í Reykjavík 1916. Reið mikill sjór yfir bátinn og skolaði öllu lauslegu
af þiljum. Munaði litlu að báturinn færist. Sjómenn í Vestmannaeyjum telja
laugardagsveðrið eitthvert versta sjóveður, sem Vestmannaeyjabátar hafa lent í
lengi.
V.b. "Óðinn" GK 22 var byggður í Friðrikssundi 1931, var 22 smál. Eigendur
firmað Guðmundur Þórðarson, Gerðum. Hann fór í róður á föstudagskvöldið, og
hefir sennilega lagt línu sína djúpt í Miðnessjó. Þegar síðast sást til hans, rétt
um kl. 12 á laugardag, var hann á þeim slóðum og "slóvaði" við bauju. Á
Óðni voru þessir menn:
Geirmundur Þorbergsson, skipstjóri Bræðraborg, Garði, f. 10. sept. 1910,
kvæntur, lætur eftir sig 3 börn.
Þorsteinn Pálsson, vélamaður, Sandgerði, f. 8. júní 1925, kvæntur, lætur eftir
sig 4 börn.
Þórður Óskarsson, Gerðum, f. 16. sept. 1925, ókvæntur.
Tómas Árnason, frá Flatey á Skjálfanda. f. 28. sept. 1915, ókvæntur.
Sigurður Jónasson, frá Súðavík, f. 4. nóv. 1923, ókvæntur.
Auk þessara bátstapa með allri áhöfn, varð mikið um skemmdir á bátum, sem ýmist
komust nauðulega að landi, sumir mikið brotnir, og allmikið var um að bátar
brotnuðu við að reka á land. Veiðarfæratjón varð gífurlegt hjá bátaflotanum, og
er talið að það muni nema hundruðum þúsunda króna.
Sjómannablaðið Víkingur. 3 tbl. 1 mars 1944.
03.09.2018 20:24
B. v. Hafstein ÍS 449. LCKG / TFND.
Botnvörpungurinn Hafstein ÍS 449
var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1919. Hét
fyrst Michael Mcdonald og var í eigu breska flotans. 313 brl. 600 ha. 3 þennslu
gufuvél. Seldur sama ár Hudson Brothers Ltd í Hull, fær nafnið Kanuck H 123.
Togarinn var seldur h/f Græði á Flateyri árið 1925 og fær nafnið Hafstein ÍS
449. Kom til landsins 19 febrúar það ár. Árið 1935 er skráður eigandi Gnótt h/f á Flateyri. Seldur árið 1938 Gnótt
h/f á Grundarfirði. Seldur 1939, h/f Mars í Hafnarfirði, fær nafnið Hafstein RE
156. Seldur í júlí 1944, Einari Einarssyni í Grindavík, hét Hafstein GK 363. Í
október sama ár er Ólafur E Einarsson h/f í Keflavík eigandi skipsins. Selt h/f
Vestra í Reykjavík árið 1945. Selt 1948 Díeselskipi h/f í Reykjavík. Selt sama
dag Selvik p/f í Saurvogi í Færeyjum, hét Havstein VA 16. Togarinn var seldur í
brotajárn til Danmerkur árið 1955 og rifinn í Odense sama ár.
B.v. Hafstein ÍS 449. Málverk. Málari J.B.
Botnvörpungurinn Hafstein ÍS 449. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
Botnvörpungurinn
Hafstein ÍS 449
"Hafstein" heitir nýr togari, sem Ísfirðingar hafa
keypt í Englandi. Er hann kominn hingað. Skipið er nálega 140 fet á lengd og
fjögurra ára gamalt. Skipinu verður haldið út hjeðan nú á vertíðinni, annars er
heimilisfang þess á Flateyri við Önundarfjörð. Heitir fjelagið "Græðir,"
sem á skipið og er framkvæmdarstjóri þess Sigurjón Jónsson alþingismaður.
Morgunblaðið. 20 febrúar 1925.
01.09.2018 23:32
L. W. Haskell. Olíubátur.
Olíubátur
sökk í Hvalfirði
Áhöfnin bjargaðist í land á skektu
Haskell sökk um hálf sex leytið í gærdag út af Hvammsvík í Hvalfirði. Hann var með 190 tonn af fuel olíu, sem átti að fara til Hvalstöðvarinnar. Talið er að skilrúm fremst í bátnum hafi brostið, og olía komist fram í hásetaklefann. Báturinn seig skyndilega að framan og stakkst svo í djúpið. Skipsmenn björguðust í land í Hvammsvík á skektu. Þar sem báturinn sökk mun vera um 20 faðma dýpi. Olíubáturinn Haskell var einkum notaður til þess að flytja olíu upp í Hvalfjörð og stundum til Hafnarfjarðar, einnig var hann mikið notaður við að setja olíu á skip hér í höfninni. Áður en Haskell var keyptur hingað mun hann hafa verið notaður til að flytja soyabaunir, og var ekki skipt um nafn á honum er hann kom hingað til lands. Skipstjóri á Haskell var Gunnar Magnússon. Alvarleg hætta steðjar að öllu fuglalífi á stóru svæði við Hvalfjörð komist eitthvað af olíunni sem var í Haskell upp á yfirborðið.
Alþýðublaðið. 5 júlí 1962.
Olíubáturinn L. W. Haskell að dæla olíu á bandarískan kafbát í Reykjavíkurhöfn árið 1956.
Tímanum og
Olíufélaginu ber ekki saman við skipaskrá Lloyds
Segja Olíufélagið eiga Haskell Lloyd segir eiganda í London farið í kringum
Íslenzk lög
Á forsíðu "Tímans" í gær er skýrt frá því að
oliupramminn L.W. Haskell sé eign Olíufélagsins. Í viðtali við Mbl. í gær
staðfesti Guðni Hannesson, fulltrúi hjá Olíufélaginu, að skipið væri eign
félagsins. Kemur þetta ekki heim við það sem segir um skipið í Lloyd's Register
of Shipping, sem skráir eiganda þess Esso Export Ltd. í London, en svo sem
skýrt hefur verið frá var Haskell skrásett þar. Hinsvegar hefur skráning
skipverja á Haskell farið fram hjá lögskráningu skipshafna hjá
tollstjóraembættinu, og skyldutryggingar og önnur gjöld hafa verið innheimt hjá
Olíufélaginu hf. Úr því að "Tíminn" segir, og Olíufélagið staðfestir, að
það eigi skipið, hlýtur að vakna sú spurning hvenær það hefur verið keypt, hvað
kaupverðið hafi verið og síðast en ekki sízt, hvort það hafi verið með leyfi
gjaldeyrisyfirvaldanna að Olíufélagið keypti skipið? Hjálmar Bárðarson,
skipaskoðunarstjóri, tjáði Mbl. í gær að Haskell hefði komið til Íslands um
1950, áður en hann tók við embætti skipaskoðunarstjóra. Skipið, sem er byggt 1915,
var þá of gamalt til þess að skrásetja mætti það á Íslandi, en samkvæmt
íslenzkum lögum má eigi flytja inn og skrásetja skip eldri en 12 ára. Þarf til
slíks sérstök lög frá Alþingi, líkt og með hvalbátana og Hæring á sínum tíma.
Haskell hefur því aldrei verið skrásettur hér, heldur í London.
Skipaskoðunarstjóri sagði að hann hefði aldrei haft afskipti af Haskell, sökum
þess að skipið var ekki skrásett hér. Lögskráning skipshafna í Reykjavík tjáði
Mbl. í gær að áhöfnin á Haskell væri skrásett hér. Hefðu venjulegar
skyldutryggingar og önnur gjöld, sem fara í gegnum lögskráninguna, verið
innheimt hjá Olíufétaginu hf. Það hlýtur að teljast í hæsta máta kynlegt,
hversu högum þessa skips hefur verið háttað. Eigi Olíufélagið skipið, eins og
það og "Tíminn" segja, virðast kaupin á því að hafa farið fram á ólöglegan
hátt. Þá var skipið of gamalt til þess að mega flytjast inn hér, og er það því
skiljanlegt að látið hafi verið líta út sem Esso Export í London ætti það.
Morgunblaðið. 6 júlí 1962.
Reyna að ná
olíubrákinni
Um klukkan fjögur í fyrrinótt kom v.b. Leó aftur ofan úr
Hvalfirði, en eins og sagt var frá í gær fór hann með kafara upp eftir, þangað
sem flakið af olíuprammanum L.W. Haskell liggur. Þegar á staðinn kom, varð ekki
vart við að olía bærist frá flakinu, og þrátt fyrir nákvæma rannsókn gat
kafarinn ekki fundið nein merki leka. Hins vegar er talsverð olía komin í
fjörðinn, og er talið fullvíst, að það sé sú olía, sem komst í lúkarinn. Ekki
er vitað, hvort hann hefur fyllzt alveg, en gizkað er á, að í honum hafi mest
rúmazt 15 tonn. Flakið stendur upp á endann í sjónum og er stefnið á kafi í
botnleðjunni. Lúkarinn er nú fullur af sjó, og er reiknað með að þrýstingur
sjávarins sporni við því, að meiri olía berist úr lestinni fram í lúkarinn og
þaðan upp á yfirborðið. Olíufélagið leggur nú sem fyrr allt kapp á að sporna
við skemmdum af völdum olíunnar. M. a. er verið að útbúa tvo báta, sem eiga að
dæla upp olíuflekkjunum, sem enn fljóta um sjóinn. Ekki er vitað, hvort reynt
verður að ná flakinu upp, en það liggur á 18 faðma dýpi.
Tíminn hafði í gær tal af Samsyni Samsonarsyni, bónda í Hvammsvík, en flakið
liggur beint fyrir framan hjá honum, og spurði hann um tjón af völdum olíunnar.
Sagðist hann ekki hafa gengið fjörur og kynnt sér málið rækilega, en hélt að
olían væri víða um fjörðinn komin í fjöruborðið, og í fyrrakvöld kvaðst hann
hafa séð æðarunga koma að landi, ataða í olíu og deyja. Kvað hann alvarlega
horfa með æðarvarpið, því að líklegt mætti telja að flestir unganna dræpust og
jafnvel eitthvað af fullorðnu líka, þótt það þyldi olíuna fremur. Á
stríðsárunum, sagði hann, var mikil olía hér á firðinum og fuglinn lagðist svo
að segja alveg frá, en nú var varpið aftur komið í samt horf og fyrir stríð.
Loftur Bjarnason í Hvalveiðistöðinni sagði að olían væri veltandi þar í
fjöruborðinu og framan við bryggjuna, enda munar um það að fá 200 tonn af
svartolíu í fjörðinn, sagði hann og dró ekki af. Komið var að landi með hval í
fyrrakvöld og sagði Loftur að þeir reyndu að þvo hann og ná af honum olíunni,
en ekki kæmi í ljós fyrr en farið væri að bræða, hvort lýsið væri skemmt. "Við
þorum ekki að hirða rengið, og varla kjötið heldur" sagði hann einnig og
virtist svartsýnn.
Þá spurði Tíminn Þorbjörn í Borg, formann Dýraverndunarfélags Íslands, hvort
þeir hefðu gert einhverjar ráðstafanir til þess að bjarga fuglinum, en hann
sagði, að það mál hafi ekki verið rætt enn, en yrði líklega gert um helgina.
Sagði honum þunglega hugur um, að nokkuð yrði gert að gagni.
Tíminn. 7 júlí 1962.
31.08.2018 19:52
Grimsbytogarinn Blackburn Rovers GY 706 í hrakningum við Austfirði.
Lenti í
röngum firði, stórskemmdi
bryggju og strandaði þrisvar sinnum
Brezkur togari, Blackburn Rovers GY-706, lenti í talsverðum
hrakningum á Austfjörðum í gær. Braut hann hafskipabryggju í Mjóafirði og er
það mikið tjón og skipið tók niðri að minnsta kosti þrisvar sinnum, en losnaði
af sjálfsdáðum. Verður að leggja fram tveggja milljóna króna tryggingu vegna
bryggju skemmdanna, til að togarinn fái að halda úr höfn á Norðfirði, en þar er
hann nú. Í dag rákust tveir brezkir togarar á út af Austfjörðum og er annar
þeirra nú í höfn á Norðfirði. Blackburn Rovers var á leið á Íslandsmið frá
Færeyjum, en þar var hann síðast í höfn í Klakksvík. Á leiðinni gerðu nokkrir
af áhöfninni uppsteit. Fjórir hásetar og annar vélstjóri neituðu að fara með
togaranum norður fyrir land til veiða, eða á þær slóðir sem brezku togararnir
fórust ekki alls fyrir löngu. Vildu þessir menn komast af skipinu. Ætlaði
skipstjórinn að láta þessa menn á land á Norðfirði, en hann villtist og lenti
fyrst í Mjóafirði. Þegar komið var til hafnar þar tókst ekki betur til en
togarinn sigldi á hafskipabryggjuna, sem er úr timbri, og stórskemmdi hana.
Einnig tók togarinn niðri tvisvar sinnum í Mjóafirði. Hafskipabryggjan í
Mjóafirði er byggð á staurum og var hún endurbyggð fyrir þremur árum síðan.
Togainn sigldi á talsverðri ferð á bryggjuna og hangir nú hluti henna laus, er
það um fimm sinnum fimm flatarmetrar af bryggjunni sem er laus. Einnig hefur
það sem eftir stendur af bryggjunni skekkst. Hefur nú verið lögð fram fyrir
rétti krafa um tveggja miljóna króna tryggingu vegna bryggjuskemdanna. Í
Mjóafirði bað skipstjórinn um að fá lóðs til Norðfjarðar en hann var þar ekki
fyrir hendi. Sigldi þá togarinn lóðslaus til Norðfjarðar og nú hitti hann á
réttan fjörð og kom þangað um kl. 21. í gærkveldi. Var þegar settur sjóréttur
yfir skipstjóranum vegna bryggjuskemmda í Mjóafirði. Skipstjórinn viðurkenndi
strax að hafa valdið skemmdunum, enda hafði hann samband við menn í landi í
Mjóafirði áður en lagt var þar úr höfn. Mjófirðingar telja að bryggjan sé ekki
nothæf eins og er og krefjast að sett sé tveggja milljón króna trygging áður en
togarinn heldur úr höfn. Munu skipverjarnir sem ekki vilja sigla lengur með
togaranum verða settir á land, á Norðfirði. Áður en togarinn lagði að bryggju á
Norðfirði kom hann við í fjörunni skammt fyrir sunnan bæinn.
Í dag varð árekstur milli tveggja brezkra togara út af Austfjörðum. Litlar
skemmdir urðu á öðrum togaranum en hinn varð að leita hafnar á Norðfirði og
verður gert við skemmdir hans þar.
Tíminn. 13 febrúar 1968.
28.08.2018 17:46
875. Ver KE 45.
26.08.2018 10:42
Seglskipið Skandia frá Marstal í hrakningum.
Skandia var smíðuð hjá Skibsbygmester Otto Hansen í Stubbeköbing í Danmörku árið 1902 fyrir B.R. Albert Hansen Petersen í Marstal í Danmörku. 183 brl. 103,7 ft. á lengd, 25,2 ft. á breidd og djúprista var 11 ft. Endalok Skandiu voru þau að það sigldi á tundurdufl hinn 5 júní árið 1940 og sökk. 6 skipverjar fórust.
Seglskipið Skandia í hremmingunum á Atlantshafi. Portrett mynd eftir Hans Andersen Hansen sem var skipverji á Skandiu þessa örlagaríku ferð. (C) Kulturarvsstrelsen.
Ægilegur
sjóhrakningur "Skandiu" af Marstal
Á þriðjudagskvöld var símað hingað, frá Vík í Mýrdal, að
þaðan sæist seglskip, í nauðum statt og þyrfti hjálpar við. "Njörður",
togari frá Reykjavík, var hjer staddur á leið til Englands. Hann brá við þegar
að vitja skipsins og kom með það hingað á miðvikudagsmorgun. Var það flutt inn
í Botninn svo nefndan, og liggur nú þar. Skipið heitir "Skandia", þrísigld
skonorta frá Marstal í Danmörku. Skipshöfnin er dönsk, skipstjóri heitir
Hansen. það var svo útleikið, er það kom, að á það vantaði tvö möstrin og
bugspjótið. Skjólborðið var brotið báðu megin um alla miðju skipsins, báturinn
farinn og allt aflaga, sem aflagast gat. Skipið var á leið til Spánar, með
fiskifarm, sem það tók hjá hf. "Kvöldúlfi" í Reykjavík, alls um 300
smálestir. Skandia" ljet í haf frá Rvík í lok janúarmánaðar. Hafði góðan
byr í vikutíma suður eftir Atlantshafi. þá gerði ofsastorm af útnorðri og fjekk
skipið áföll stór, missti bátinn o. fl. Var þá komið á 52. gr. N. Br. og 31.
gr. V. L., þ. e. suður á móts við Landsend á Englandi. Tíu dögum síðar gerði
annað ofviðrið af útnorðri með ægilegum sjógangi. Tók skipið brotsjó einn svo
mikinn að burt svifti möstrunum tveimur, bugspjótinu, skjólborðinu og einum
skipverja; hann náðist þó aftur alheill eftir einn fjórðung stundar. Úr því
tóku við sífeldir hrakningar. Enskt gufuskip hittu þeir fyrir sjer og vildi það
bjarga þeim, en það tókst ekki, því að vjelin í því var biluð. Sáu þeir enska
skipið um tíma á hrakningi skamt frá sjer, en vissu ekki hvað um það varð
síðast. Síðan reistu þeir upp stöng nokkra í stað framsiglu, gerðu sjer
seglbleðla eftir föngum og sigldu jafnan er tækt var. Fyrir nokkrum dögum sáu
þeir danskt seglskip fara skamt frá sjer í vesturátt, hugðu það vera á leiðinni
til Ameríku og báðust hjálpar með merkjum. En dólgurinn danski Ijet sem hann
sæi ekki nauðsyn landa síns, og hjelt leiðar sinnar. Sigldu þeir nú enn og
ætluðu að leita sjer bjargar á einhvern hátt, er þeir kæmu í nánd við Ísland. Nokkru af farminum urðu þeir að kasta
fyrir borð til þess að ljetta skipið. Vistir höfðu þeir nægar það sem til
þurfti. Að síðustu var afráðið að leita lands í Vík í Mýrdal, og það fór sem
áður segir, að þaðan voru boðin gerð hingað. Skipverjar voru furðu hressir
eftir allan þennan hrakning er þeir komu hingað 52 dögum eftir að þeir ljetu í
haf.
Skeggi. 22 tbl. 23 mars 1918.
25.08.2018 09:25
Hrönn GK 50.
Þilfarsbáturinn Hrönn GK 50. (C) Einar G Einarsson.
Bátasmíði í
Grindavík.
Pétur Vigelund er, nú að lúka við smíði í Grindavík á
vjelbát með þilfari, fyrir Einar yngra Einarsson frá Garðhúsum. Annan bát hefir
Vigelund í smíðum og byrjar bráðum á þeim þriðja. Útgerðin í Grindavík er að
breytast, því að eftir að bryggjan kom er hægt að hafa þar stærri báta og betur
útbúna báta en áður var. Nú er t. d. verið að setja þilfar í einn trillubátinn
og verður sennilega sett í fleiri báta. Nýlega hefir nýr bátur bæst í flotann í
Grindavík, eigandi Karl Guðmundsson. Þessi bátur er smíðaður hjer í Reykjavík,
er með stýrishúsi, og vjelahúsi. Í honum er 12-15 hestafla Scandiavjel.
Báturinn var rjettar 7 stundir á leiðinni hjeðan til Grindavíkur.
Morgunblaðið. 17 október 1934.
Bát rak á
land í óveðri
28.-29. marz rak vélbátinn »Hrönn«, eign verzlunar Einars G.
Einarssonar, á land í Grindavík og brotnaði, en við bátinn hefur verið gert.
Ægir. 1 maí 1935.
24.08.2018 10:14
Von VE 279.
Mótorbáturinn Von VE 279 var
smíðaður í (Álasundi ?) í Noregi árið 1919. Eik og fura. 26 brl. 60 ha. Finnoy
vél. Hét áður Dönning . Eigendur voru Vigfús Jónsson, Guðmundur Vigfússon, Jón
Vigfússon og Ingi Kristmannsson í Vestmannaeyjum frá 1928. Keyptur það ár frá
Noregi. Ný vél (1935) 80 ha. Skandía vél. Seldur 15 nóvember 1944, Svavari
Víglundssyni útgerðarmanni í Neskaupstað, hét Von NK 93. Svavar flutti til
Hafnarfjarðar árið 1952, sama nafn og númer. Talinn ónýtur og tekinn af skrá og
rifinn árið 1955.
26 ágúst árið 1939 var í síðasta
sinn farið til súlna í Eldey og mátti þá litlu muna að slys hlytist af.
Björguðust þá sjö menn sem í eyjuna fóru á síðustu stundu. Það voru þrettán
Vestmannaeyingar sem fóru þessa ferð á mótorbátnum Von VE 279. Það má
lesa um þetta björgunarafrek í Eldey í þrautgóðir á raunastund ll bindi, bls.
94.
Von VE 279 í Vestmannaeyjahöfn. Ljósmyndari óþekktur.
Von NK 93 á Norðfirði sumarið 1944. (C) Björn Björnsson.
21.08.2018 10:10
E. s. Vaagen. JLKW.
Ottó Wathne
og járngufuskipið "Vaagen"
Ísafold. 30 september 1891.
Ottó Wathne
kaupir "Vaagen"
Austri segir að Ottó Wathne muni búinn að kaupa gufuskipið
"Vaagen" fyrir 28.000 krónur.
Heimskringla. 9 apríl 1896.
20.08.2018 18:42
Ingólfur Arnarson RE 19. TFEQ.
Ingólfur
Arnarson RE 19
Nýr bátur frá Svíþjóð kom til Reykjavíkur í gær. Hefir hann
verið nefndur Ingólfur Arnarson RE 19. Báturinn er 91 smálest að stærð og var
verð hans um 500 þúsund krónur. Ágúst Snæbjarnarson hf í Reykjavík er eigandi
bátsins.
Vísir. 31 júlí 1946.
Síldveiðiskip
aðstoðuð
Hinn 13. þ. m. varð mb "Ingólfur Arnarson", RE 19,
fyrir vjelarbilun upp í Hvalfirði, er hann var að síldveiðum þar og hafði 800
mál síldar innanborðs. Bað skipstjórinn, Ágúst Snæbjarnarsson, um aðstoð, og
dró varðbáturinn "Faxaborg" "Ingólf" til Reykjavíkur. Hinn 18. þ. m.
brotnaði stýri á mb "Farsæli" AK 59, er hann var að síldveiðum í
Hvalfirði, og hafði 550 mál síldar innanborðs. Bað skipstjórinn, Jóhann
Guðjónsson, um aðstoð, og dró varð báturinn "Faxaborg" "Farsæl" til
Reykjavíkur.
Morgunblaðið. 21 febrúar 1948.
Björgun
skipshafnarinnar á Ingólfi Arnarsyni gekk vel
Dýptarmælirinn
sýndi 20 faða dýpi, skömmu áður en báturinn strandaði
Björgun skipbrotsmanna af vjelbátnum Ingólfi Arnarsyni, sem
strandaði í fyrrinótt, gekk mjög greiðlega. Tíu menn voru á bátnum, og bjargaði
björgunarsveitin frá Stokkseyri þeim öllum, og var björgunarstarfinu lokið
eftir um fjórar klukkustundir. Báturinn er talinn ónýtur. Ingólfur Arnarson
strandaði ekki við Knarrarósvita, eins og talið var í fyrstu, heldur skammt frá
Ragnheiðarstöðum, sem eru um fimm kílómetrum fyrir austan vitann. Björgunarsveitin
sem Helgi Sigurðsson stjórnar, fór á strandstað í þremur bílum. Við
Loftstaðahól var numið staðar og gengið þar upp, til að skyggnast eftir hinum
strandaða báti. Sáu menn hvar hann lá, og að því er virtist, alllangt frá
landi, skipbrotsmenn höfðu kynnt bál á hvalbak. Var nú haldið, eins og leið
liggur að Ragnheiðarstöðum, og síðar fram sandinn, sem var greiður yfirferðar,
vegna þess hve frosinn hann var. Klukkan mun hafa verið um þrjú, þegar komið
var niður í fjöruna. Snjeri báturinn stefni að landi og voru um 200 metrar út
að honum. Undirbúningur að sjálfu björgunarstarfinu gekk vel, og fyrsta
björgunarlínan hæfði skipið. Hófst þá skömmu síðar björgun mannana. Vegna þess
hve langt var út í skipið slakknaði svo á línunni, er mennirnir voru dregnir í land
í björgunarstólnum, að hver einasti þeirra fór á kaf í sjóinn. Skipstjórinn,
Ágúst Snæbjarnarson, yfirgaf síðastur skip sitt, nokkru fyrir klukkan átta. Á
strandstað var upphitaður bíll er mönnunum var hjúkrað í eftir þörfum. Enginn
þeirra var meiddur en kalt var þeim orðið enda talsvert frost Skipbrotsmönnunum
mun öllum hafa tekist að bjarga einhverju af fatnaði sínum og var hann dreginn
í land í björgunarstólnum.
Brim var nokkurt, og tilgangslaust að ætla sjer að setja bát á flot. Það varð
skipbrotsmönnum þessum til lífs, að þeir
skyldu bíða björgunarsveitarinnar í skipinu. Stokkseyringar telja ekki líkur
til þess, að Ingólfi Arnarsyni verði bjargað. Báturinn liggur á skeri, og er
botn hans nokkuð brotinn. Skipstjóri var enn þar eystra í gærkveldi, og nokkrir
af mönnum hans. Á vjelbátnum voru þessir menn:
Ágúst Snæbjarnarson skipstjóri. Laugaveg 135,
Sveinn Magnússon stýrimaður, Skipasundi 17,
Jón Jónasson 1. vjelstjóri, Mávahlíð 9,
Hilmar Valdimarsson 2. vjelstjóri, Kamp Knox G-6,
Jóhann Í. Guðmundsson matsveinn, Lindargötu 63,
Halldór Karlsson háseti, Hofteigi 6,
Guðjón Einarsson háseti, frá Moldnúpi Rangárvallasýslu
Ágúst Steindórsson, háseti Ási í Hrunamannahreppi
Björn Jónsson, háseti, Hofsósi,
Magnús Jónsson háseti, Höfðaborg 51
Björgvin Guðmundsson, háseti, frá Hólmavík.
Skipbrotsmenn hafa skýrt svo frá, að þeir hafi verið á siglingu er báturinn
strandaði, og hafi dýptarmælirinn sýnt 20 faðma dýpi, rjett í þann mund er
báturinn strandaði.
Morgunblaðið. 15 mars 1950.