09.06.2018 18:13
M. s. Gullfoss ll. TFGA. Líkan.
08.06.2018 09:59
457. Gissur hvíti SF 55. TFHW.
Vélskipið Gissur hvíti SF 55. (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.
Nýr bátur
til Hornafjarðar
Höfn í Hornafirði, 13. febrúar. Í gær kom til Hornafjarðar
nýr bátur, er byggður er í Svíþjóð úr eik. Báturinn er 71 smálest brúttó, búinn
öllum fullkomnustu siglingartækjum, svo sem radar og asdic-dýptarmæli. Vélin er
400 ha Mannheim-diesel vél og auk þess er 11 ha. ljósavél. Í bátnum er
olíudrifið rafmagnsstýri. Báturinn fékk gott veður á leiðinni, og var fjóra
sólarhringa frá Skagen til Hornafjarðar. Guðni Jóhannsson skipstjóri, úr
Reykjavík, sigldi bátnum upp. Eigendur eru Óskar Valdimarsson og Ársæll
Guðjónsson.
Morgunblaðið. 14 febrúar 1958.
Gissur hvíti SF 55 til vinstri að landa síld á Siglufirði. (C) Hannes Baldvinsson.
Nýr bátur í
hörðum árekstri
Hornafirði, 28. febrúar. Það mikla óhapp vildi til á
mánudagskvöldið að harður árekstur varð milli tveggja báta og stórskemmdist
annar þeirra. Slys varð ekki á skipsmönnum. Árekstur þessi varð í rennunni, sem
liggur út frá bryggjunni hér. Vélskipið Gissur hvíti, sem er nýr glæsilegur
fiskibátur, var að leggja af stað í róður. Fór hann með hægri ferð út rennuna.
Vélskipið Pálmar frá Seyðisfirði var að koma inn í mynni rennunnar þegar
áreksturinn varð, en við hann urðu gífurlegar skemmdir á Gissuri hvíta, er
stefni Seyðisfjarðarbátsins kom á hann. Gissur hvíti var þó sjófær eftir
áreksturinn og strax um nóttina var honum siglt til Neskaupstaðar þar sem
bráðabirgðaviðgerð fer fram. Er gert ráð fyrir, að hún taki um það bil
vikutíma.
Morgunblaðið. 4 mars 1958.
Gissur hvíti SI 55 á strandstað við Brjánslæk. (C) Tryggvi Sigurðsson.
Gissur hvíta rak á land í óveðri
Gissur hvíti skelfisksskip Barðstrendinga eyðilagðist í
flóði og ofviðri þegar hann slitnaði af legufærum sem hann var festur við og
rak í fjöru. Gissur sem er 70 tonna skip var metinn á 10 milljónir króna. Er
þetta í þriðja sinn á fáum árum sem Barðstrendingar tapa útgerðarflota sínum í
óhappi sem þessu.
NT. 9 mars 1985.
07.06.2018 07:53
549. Harpa RE 177.
Harpa ÍS 42. Var djúpbátur á Ísafjarðardjúpi um skeið. Ljósmyndari óþekktur.
Vélbáturinn
Harpa RE 177
Vélbátur, sem heitir Harpa, er nýlega kominn hingað til
Reykjavíkur. Báturinn hefir verið smíðaður í Bergen, og ber 30 smálestir. Eiga
þeir hann bræðurnir, Magnús Thorberg og Helgi Helgason hjá Zimsen. Formaður er
Andrés Guðnason og sigldi hann bátnum hingað á 6 sólarhringum. Mun það vera hin
hraðasta vélbátsferð milli Íslands og útlanda.
Morgunblaðið. 28 maí 1916.
05.06.2018 21:42
Cuxhaven NC 100. við bryggju á Akureyri á sjómannadaginn.
Cuxhaven
NC 100 heldur í sína fyrstu veiðiferð.
Cuxhaven NC 100 nýtt skip Deutsche
Fischfang Union, dótturfélags Samherja í Þýskalandi hefur haldið á veiðar.
Cuxhaven NC100 sem hannað er af Rolls Royce er 81,22m langt og 16m breitt,
smíðað í Mykleburst skipasmíðastöðinni í Noregi. Cuxhaven er fyrsta nýsmíði
Deutsche Fischfang Union í 27 ár en það skip bar einnig nafnið Cuxhaven.
Eigendur Samherja ásamt Haraldi
Grétarssyni framkvæmdastjóra Deutsche Fischfang Union og Óskari Ævarssyni
útgerðastjóra tóku á móti skipinu 15.ágúst sl. í Álasundi. Þá voru veiðarfæri
tekin um borð og skipið gert klárt að öðru leyti. Cuxhaven hélt svo til veiða í
Barentshafi 20.ágúst. Skipstjórar eru Stefán Viðar Þórisson og Hannes
Kristjánsson.
Cuxhaven er afar vel búið á allan hátt
bæði hvað varðar vélbúnað, vinnslu og aðbúnað áhafnar sem getur orðið allt að
35 manns. Með nýjustu tæknilausnum er skipið mun hagkvæmara í rekstri og
umhverfisvænna en eldri skip. Vinnsludekk er hannað og smíðað af Slippnum á
Akureyri og hefur búnað m.a. frá Vélfag á Ólafsfirði.
"Þetta eru mikil tímamót í rekstri
DFFU hér í Þýskalandi. Meðal annars hefur allur aðbúnaður áhafnar og
vinnuaðstaða verið stórbætt. Það er mikil áskorun að fá allt til að virka í
svona tæknilega flóknu skipi og næstu vikur verða því spennandi hjá okkur,"
segir Haraldur Grétarsson framkvæmdastjóri Deutsche Fischfang Union GmbH.
Af heimasíðu Samherja hf. 25 ágúst 2017.
05.06.2018 20:18
Hátíð hafsins í Reykjavíkurhöfn.
03.06.2018 08:48
Sjómannadagurinn.
Fyrsti sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur 6. júní árið
1938 og er hann séríslenskur hátíðisdagur. Sjómenn höfðu um langan aldur gert
sér glaðan dag í vertíðarlok á lokadegi að vorinu. Eflaust hafa ýmsir velt
þeirri hugmynd fyrir sér að haldinn yrði árlegur hátíðisdagur sem allir
sjómenn, jafnt fiskimenn sem farmenn, gætu tekið þátt í. Hugmyndin að
sjómannadeginum er rakin til Henrys Hálfdanssonar þótt fleiri komi við sögu.
Hann var loftskeytamaður á togaranum Hafsteini vorið 1929 og ræddi þá við stýrimann
skipsins um að hann ætti sér þann draum að sjómenn myndu helga sér einn dag á
vori sem nefndur væri sjómannadagur. Hugmynd hans var sú að haldinn yrði
árlegur minningardagur um drukknaða sjómenn og þeim yrði reistur veglegur
minnisvarði. Markmiðið yrði að auka skilning þjóðarinnar á hinu áhættusama
starfi sjómannsins og jafnframt að auka veg og virðingu stéttarinnar.
Ég óska öllum sjómönnum og fjölskyldum þeirra nær og fjær innilega til hamingju
með daginn og megi þeir og landsmenn allir njóta hans vel.
5 af togurum H.B. Granda hf við bryggjuna í Örfirisey í gærmorgun. Þau eru frá v: Helga María AK 16, Akurey AK 10, Engey RE 1, Höfrungur lll AK 250 og Örfirisey RE 4. (C) Þórhallur S Gjöveraa.
Sjötti Grandatogarinn og sá nýjasti í flotanum, 2895. Viðey RE 50. TFJI við Bótarbryggju ásamt skipi Landsbjargar, Sæbjörginni. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 2 maí 2018.
Frystitogari Brims, Brimnes RE 27 nýlagstur við Grandagarð. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 2 maí 2018.
Frystitogarinn Guðmundur í Nesi RE 13 við Grandagarð. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 2 maí 2018.
Frystitogarinn Örfirisey RE 4 við samnemda bryggju. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 2 júní 2018.
Um borð í b.v. Ottó N Þorlákssyni RE 203 við Ægisgarð. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 2 maí 2018.
Á Grandagarði í gærmorgun. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 2 maí 2018.
Íslendingar
og hafið
Sjómannadagurinn
Fyrsti fundur fulltrúa sjómannafélaganna um stofnun og aðild
að "Sjómannadagssamtökum" var haldinn í Oddfellowhúsinu í Reykjavík 8.
marz 1937 og mættu á þeim fundi fulltrúar níu félaga. Formleg stofnun
Fulltrúaráðs Sjómannadagsins í Reykjavík og Hafnarfirði verður hins vegar að
teljast 27. febrúar 1938, en þá mættu til fundar 22 fulltrúar frá eftirtöldum
11 félögum. Félögin voru þessi:
Skipstjórafélagið Ægir,
Vélsfjórafélag Íslands,
Skipstjóra og stýrimannafélag Reykjavíkur,
Sjómannafélag Hafnarfjarðar,
Skipstjórafélagið Aldan,
Skipstjórafélag Íslands,
Sjómannafélag Reykjavíkur,
Skipstjórafél. Kári, Hafnarf.,
Stýrimannafélag Íslands,
Félag Ísl. loftskeytamanna og
Matsveina- og veitingaþjónafélag Íslands.
Á þessum fundi var kjörin stjórn fyrir samtökin og var þessi fyrsta stjórn
þannig skipuð:
Formaður Henry Hálfdánarson,
varaform. Björn Ólafsson,
ritari Sveinn Sveinsson,
vararitari Geir Sigurðsson,
gjaldkeri Guðmundur H. Oddsson,
varagjaldkeri Þorgrímur Sveinsson.
Þessi fyrsta stjórn undirbjó og stóð fyrir hátíðahöldunum á 1. Sjómannadaginn,
sem haldinn var hátíðlegur 6. júní 1938 og vakti fádæma athygli. Vakti fyrsti
Sjómannadagurinn athygli, var það ekki síður með þann næsta. Þá sýndu þessi
samtök það stórfellda afrek, að stofna til sýningar um þróun íslenzkra
sjávarútvegsmála, sem undirbúningur var hafinn að í sambandi við fyrsta
Sjómannadaginn, og var sýning þessi, að margra áliti einhver bezta og
eftirtektarverðasta sýning fyrir almenning, sem hér hafði verið haldin. Fyrst
var aðeins gert ráð fyrir að hafa sýninguna opna um hálfsmánaðar skeið, en
niðurstaðan varð sú, að sýningin var opin um tveggja mánaða skeið við mikla
aðsókn. Hið opinbera studdi þessa menningarviðleitni Sjómannasamtakanna með
myndarlegu fjárframlagi, en sjálfir lögðu sjómenn fram gífurlega vinnu til að
gera sýninguna sem bezt úr garði. Úr þessu urðu sjómannadagssamtök til í öllum
helztu ver- og útgerðarstöðum landsins, þótt þau sem starfað hafa úti um land
hafi ekki haft á prjónunum jafn stórkostleg verkefni og samtökin hér í
Reykjavík og Hafnarfirði, hefur víða verið unnið að ýmsum menningarframkvæmdum
á viðkomandi stöðum.
Sjómannablaðið Víkingur. 5 tbl. 1 maí 1968.
31.05.2018 19:04
Togarinn Ottó N Þorláksson RE 203 kveður.
Ottó N
Þorláksson RE 203
seldur til Vestmannaeyja
HB Grandi hefur selt ísfisktogarann
Ottó N. Þorláksson RE 203 til Ísfélags Vestmannaeyja. Söluverðið er 150
milljónir króna og verður það greitt við afhendingu sem fer fram eigi síðar en
31. maí næstkomandi.
Ottó N. Þorláksson var smíðaður árið 1981 í Garðabæ og hefur skipið reynst
afburðar vel.
Af vefsíðu H.B. Granda hf. 29
desember 2017.
Aflaskip
kveður
Viðey RE tekur við
Ísfisktogarinn Ottó N. Þorláksson
RE kom til Reykjavíkur sl. sunnudag með fullfermi. Þetta var síðasta veiðiferð
þessa mikla aflaskips fyrir HB Granda en í stað þess kemur nýsmíðin Viðey RE. Af vefsíðu H.B. Granda hf. 29 maí
2018.
Ottó N. Þorláksson hefur verið farsælt aflaskip.
Það var smíðað í Stálvík í Garðabæ árið 1981. Skipstjóri hefur verið Jóhannes
Ellert Eiríksson en hann tók við togaranum fyrir 24 árum. Ottó N. Þorláksson er
nú í slipp í Reykjavík þar sem nýir eigendur taka við honum í vikunni.
Viðey hefur eftir komuna frá Tyrklandi í desember
sl. verið á Akranesi þar sem starfsmenn Skagans 3X hafa unnið að uppsetningu
nýs, sjálfvirks lestarkerfis, aðgerðaraðstöðu á millidekki og stillingu á ýmsum
tölvubúnaði. Er rætt var við Jóhannes Ellert skipstjóra var verið að taka
veiðarfæri um borð í Reykjavík en stefnt er að því að togarinn fari í
reynslusiglingu fyrir sjómannadag og svo á veiðar í framhaldinu.
27.05.2018 18:24
Farþegaskipið MSC Meraviglia.
Ægir gamli er ekki stór í samanburði við þennan risa.
Stærsta skemmtiferðaskip á
Íslandi
Stærsta skemmtiferðaskip sem til Íslands kemur í sumar
er væntanlegt til Reykjavíkur á laugardag. Skipið, sem ber nafnið MSC
Meraviglia, verður stærsta skemmtiferðaskip sem hingað hefur
komið. Meraviglia hefur sólarhringsviðdvöl við Skarfabakka og siglir
á brott á sunnudag. 4.526 farþegar koma með skipinu og 1.561 er í áhöfn skipsins,
segir í tilkynningu frá Gáru, dótturfélagi TVG-Zimsen sem þjónustar
skipið á meðan það er við höfn á Íslandi.
Í tilkynningunni segir að skipið sé hið glæsilegasta, 171.598 brúttótonn
að stærð, 315 metrar að lengd og 43 metrar að breidd. Félagið MSC Cruises er
eigandi skipsins og er fyrsta fyrirtækið í skemmtiferðaskipaiðnaði sem
hlýtur verðlaunin "7 perlur", en verðlaunin eru veitt þeim fyrirtækjum
sem huga vel að loftslags-, sjávar- og úrgangsmálum.
146.700 farþegar eru væntanlegir hingað til lands með skemmtiferðaskipum á
þessu ári, fleiri en nokkru sinni fyrr. Á þessu ári verða skipin 70 talsins
og hafa 165 sinnum viðkomu í Reykjavík.
Mbl.is 24 maí 2018.
27.05.2018 07:42
23. Baldur EA 12. TFSN.
Nýtt skip til
Dalvíkur
Á fimmtudaginn kom nýtt 102 tonna austur-þýzkt stálskip til
Dalvíkur. Eigandi er Aðalsteinn Loftsson, útgerðarmaður, sem einnig er eigandi
Baldvins Þorvaldssonar og hefur rekið útgerð á Dalvík um margra ára bil, haft
fiskmóttöku og verkað saltfisk og skreið. Viktor Jakobsson sigldi skipinu heim.
Skipstjóri á sildveiðum verður Kristján Jónsson. Ganghraði skipsins var 10
sjómílur á heimsiglingu. Vél skipsins er 400 ha. Mannheim.
Skipið verður með kraftblökk á síldveiðunum.
Dagur. 7 júní 1961.
23. Már GK 55. (C) Tryggvi Sigurðsson.
Már GK 55. Sennilega kominn á endastöð. (C) Tryggvi Sigurðsson.
Smíðaupplýsingar. Haukur Sigtryggur Valdimarsson á Dalvík.
26.05.2018 09:24
L. v. Óskar VE 286. LBCN.
Í þokunni
Það er víst mjög sjaldgæft, að menn hafi hjer átt jafnmiklum
þokum að venjast og raun hefir orðið á nú síðustu vikurnar. Hefir þokan tafið
mjög siglingu skipa hjer um fjörðinn og enda orðið þess valdandi, að nokkur
þeirra hafa strandað. Á laugardaginn var strandaði norska kolaskipið »Smaragd«
við Siglunes. Sama dag strandaði norska flutningsskipið "Jökul« á Þistlingunum,
fram af Látrum. Björgunarskipið »Geir« kom með það inn á höfnina á mánudaginn.
Þriðjudagsnóttina var, rann »Skallagrímur« á land við Hrísey, en komst þó
bráðlega á flot af eigin rammleik. Sömu nótt strandaði norska síldveiðaskipið
»Hareid« fyrir innan Látur. »Eggert Ólafsson hjálpaði því á flot, en sænska
síldveiðaskipinu »Asta« hjálpaði »Geir«. »Asta« hafði strandað við Hrísey á
þriðjudagsnóttina. Öll voru þessi skip óskemmd eða lítt skemmd nema »Smaragd«,
sem sagt er talsvert mikið skemmt.
Íslendingur. 20 ágúst 1915.
Óskar VE 286 með fullfermi af síld á Siglufirði. (C) Heimaslóð.
Línuveiðarinn
Óskar frá Vestmannaeyjum
strandar við Skagafjörð
Mannbjörg
Síðastliðinn þriðjudag voru tvö Skip frá Vestmannaeyjum við
kolaveiðar í Skagafirði. Var annað línuveiðarinn Óskar, um 152 smálesta
eimskip, eign Gísla Magnússonar, útgerðarmanns í Eyjum. Hitt var vjélbáturinn
Ágústa, einnig frá Vestmannaeyjum. Aflinn var settur í Óskar og átti hann að
fara með aflann til Englands. Aðfaranótt miðvikudags lögðust bæði skipin austan
við Lundey og ætluðu að liggja þar næturlangt. En um nóttina rak Óskar upp á
sker, sem er fyrir sunnan Lundey, brotnaði hann á skerinu og fylltist af sjó.
Skipsmenn komust allir yfir í vjelbátinn og þeir gátu náð farangri sínum
með , en öðru ekki. Næsta dag fóru þeir
aftur um borð í Óskar til þess að reyna að bjarga einhverju en , þá var skipið
komið á hliðina, og um sama leyti, tók það af skerinu og sökk. Er fjögra
faðma dýpi þar sem skipið sökk.
Nokkuð af fiski var í Óskari, er hann sökk. Skipið var
vátryggt í Sjóvátryggingarfjelaginu fyrir 50 þúsund krónur, en sú vátrygging
var lág, því nýlega hafði verið kostað miklu til skipsins. Er tjón eiganda
tilfinnanlegt.
Gísli Magnússon var sjálfur á skipinu þegar það strandaði, en skipstjóri var
Egill Jóhannsson, duglegur maður og sjógarpur hinn mesti. Ágústa flutti
strandmennina til Siglufjarðar, og koma þeir hingað með fyrstu ferð.
Morgunblaðið. 17 október 1930.
Magnús Hinriksson kafari með vélsímann úr Óskari VE. Mynd úr Feyki.
Fann flak
skips sem strandaði 1930
Magnús Hinriksson kafari á Sauðárkróki fann nýlega flak
skips sem strandaði við Lundey á Skagafirði á haustdögum 1930. Magnús náði
vélsímanum úr skipinu, nokkuð heillegum en að vonum hefur tækið látið ansi
mikið á sjá eftir að hafa legið í sjónum í tæp 67 ár. Það er nú til
meðhöndlunar í Minjahúsinu á Sauðárkróki hjá Sigríði Sigurðardóttir minjaverði.
Magnús sagðist í samtali við Feyki hafa vitað af flakinu þarna í nokkurn tíma
og verið ákveðinn í að finna það. Hafði hann viðað að sér upplýsingum varðandi
staðsetningu þess m.a. fengið lóranpunkta frá Ragnari Sighvatssyni
trillusjómanni á Sauð- árkróki, en hann festi ígulkeraplóg í því á sínum tíma.
Það var ansi erfitt að rogast með stykkið upp úr sjónum, en flakið var á 12
metra dýpi. Ég fann ekki akkerið frá bátnum sem ég var á, ætlaði að binda í
það, og var að verða súrefnislaus þegar ég kom upp", sagði Magnús. Hann
kvað afturhluta skipsins enn heillegan þar sem það lægi á hliðinni,
gufuketillinn væri upp úr botnleðjunni sem og skipsskrúfan. Það var 15. október
1930 sem línuveiðarinn Óskar VE-286 hraktist undan veðri inn á Skagafjörð og
steytti á skeri við Lundey. Skipverjunum var bjargað af áhöfn Ágústu VE sem var
skammt undan. Óskar, sem sökk daginn eftir, var 152 tonn að stærð, smíðaður í
Englandi 1890. Eigandi skipsins var Gísli Magnússon útgerðarmaður í
Vestmannaeyjum.
Feykir. 16 tbl. 7 maí 1997.
23.05.2018 18:37
Markus GR 6-373. OURN.
23.05.2018 08:25
Ísbjörn ÍS 15. LBDK / TFAI.
Ísbjörn ÍS 15 á Siglufirði. (C) Þorgeir Baldursson.
Bátar
samvinnufélagsmanna
Fjórir þeirra eru nú komnir hingað heilu og höldnu. Eru það
þessir: Sæbjörn kom 23. f. m, Ísbjörn kom 27. f. m., Ásbjörn kom 30 f. m. og
Vébjörn kom á nýársdagsmorgun. Fimmti báturinn Valbjörn sneri aftur til Noregs
vegna bilunar á olíugeymi. Var hann í Færeyjum á föstudaginn en var á leið
hingað. Af þessum bátum sem komnir eru var Sæbjörn lang fljótastur hingað. Hann
var sjö og hálfan sólarhring frá Risör til Ísafjarðar og eyddi 14 tonnum af
olíu, þó stansaði hann í 15 klst á leiðinni.
Skutull. 1 tbl. 6 janúar 1929.
Samvinnufélagsbátarnir við bryggjur á Siglufirði. (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.
Áhöfnin á Ísbirni ÍS 15. Mynd úr sögu Ísafjarðar.
Þegar m/b
Ísbjörn strandaði
Aðfaranótt hins 7. marz s. l. strandaði mótorbáturinn
"Ísbjörn", Í. S. 15, austan við Skálavík í norðaustan stórviðri. Mannbjörg
varð og tókst hún mjög giftusamlega, en báturinn sjálfur eyðilagðist. Einn
skipsmannanna segir svo frá strandinu og björgun skipverja:
Um leið og skipið kenndi grunns, lagðist það mjög mikið á stjórnborðshlið.
Brotsjóirnir gengu á það bakborðsmegin og sumir yfir það. Eftir skamma stund
kastaði stór brotsjór skipinu af boðanum og var það þá á floti, en mikill sjór
var kominn í það og hafði vélin stöðvazt þess vegna. Meðan þetta gerðist voru
allir skipverjar komnir á þiljur. Voru sumir þeirra settir að þilfarsdælunni,
til þess að dæla sjó úr skipinu, en hinir voru látnir vinda upp seglin. Þegar
seglin höfðu verið undin upp, kom í ljós að stýrið var farið af skipinu og varð
því engri stjórn viðkomið. Seglin voru nú tekin miðskips til þess að auka drift
skipsins inn í víkina (Skálavík). Meðan þessu fór fram, hafði sjór aukizt að
mun í skipinu, og var sýnilegt, að þess myndi skammt að bíða, að það sykki.
Var
nú lífbáturinn settur á sjó og tekinn yfir á stjórnborða (hléborða). Búið var
áður að binda sjö belgi innan í bátinn, til þess að auka burðarþol hans, ef
hann fyllti. Einnig var settur strengur undir kjöl bátsins aftan við hálsþóttu
og á hann festir tveir belgir á hvora hlið bátsins, þannig, að aðeins örlaði á
þá belgina, sem ofar voru á strengnum, þegar skipverjar voru komnir í bátinn.
Þegar lífbáturinn var vel laus frá skipinu, sökk það, og var klukkan þá 4,30 um
nóttina. Var nú haldið inn eftir víkinni, en það ferðalag sóttist seint, enda
gekk mikill sjór í bátinn. Lent var í suðausturhorni víkurinnar og tókst það
eftir atvikum, þar sem komið var mikið brim. Klukkan var 5,20 um morguninn,
þegar allir skipverjar voru komnir á land, ómeiddir og heilir á húfi, og heim
að bænum Meiribakka voru allir komnir eftir tíu mínútur frá því að á land var
komið. Fengu mennirnir þar hinar prýðilegustu viðtökur.
Öllum ber skipsbrotsmönnunum saman um það, að flotmagnsauki sá, er belgirnir
veittu, sem festir voru við lífbátinn, hafi orðið þeim til lífs, ásamt einbeittni
og röskleika skipstjórans.
Sjómannablaðið Víkingur. 13-14 tbl. 1 júlí 1940.
21.05.2018 11:25
792. Steinunn gamla KE 69. TFRC.
Steinunn gamla KE 69 á siglingu. (C) Hafsteinn Jóhannsson.
Sænskur
bátur til Hafnarfjarðar
Þeir Ólafur Einarsson, útgerðarmaður í Keflavík og Kristján
Sigurðsson, skipstjóri í Hafnarfirði, hafa keypt nýjan vélbát frá Svíþjóð og
kom hann til Hafnarfjarðar í gær. Bátur þessi verður gerður út frá Keflavík og
ber heitið "Steinunn gamla" GK 363. Hann er ekki gerður samkvæmt
teikningum þeim á fiskibátum, sem ríkisstjórnin hefir samið um við sænskar
skipasmiðastöðvar.
Vísir. 20 júní 1947.
Steinunn gamla KE 69 í endurbyggingu og lengingu í Keflavík árið 1963. (C) Emil Páll Jónsson.
2 menn
fórust er bátur sökk -
einn komst lífs af
Snemma á laugardagsmorgun sökk vélbáturinn Ver frá Sandgerði
aðeins um tvær mílur suður af innsiglingunni í Sandgerði. Tveir menn fórust með
bátnum, en þriðji maðurinn, Aðalsteinn Sveinsson, bjargaðist eftir að hafa
svamlað í sjónum í um hálfa klukkustund. Aðalsteinn hefur borið fyrir sjódómi í
Hafnarfirði, að Steinnnn gamla KE 69 hafi siglt á bátinn, og hafi hann brotnað
í spón við ásiglinguna. Þremenningarnir á Ver, sem var þrjú tonn að stærð,
höfðu verið á veiðum um nóttina. Höfðu þeir farið út á föstudagskvöld. Var
Björgvin Þorkelsson með í þessum róðri í stað bróður þeirra Gísla og
Aðalsteins, sem ekki hafði ætlað sér að róa í þetta sinn, en hefur annars verið
með bræðrum sínum á bátnum, sem þeir keyptu fyrir skömmu. Þegar báturinn kom á
miðin fór vikur í kælivatnsdælu, en tókst mönnunum að lagfæra það eftir nokkurn
tíma. Lítill fiskur var á þessum slóðum, sem báturinn var á, svo ákveðið var að
halda heim aftur. Á leiðinni komst báturinn á betri mið, og höfðu mennirnir
verið að dorga í um eina klukkustund, þegar þeir tóku eftir því að Steinunn
gamla frá Keflavík nálgaðist þá. Töldu þeir þó ekki vera hættu á ferðum, þar
sem skyggni var gott, og ratsjá Steinunnar í gangi. Aðalsteinn segir að hann
hafi heyrt bróður sinn Gísla hrópa upp, að þeir skuli kasta sér í sjóinn og um
leið hafi áreksturinn orðið. Aðalsteini tókst að ná í botn hlera, og sömuleiðis
rak til hans björgunarbelti, sem bróðir hans hafði verið búinn að blása upp að
nokkru leyti. Tókst honum að halda sér uppi á þessu tvennu, og hafði verið í
sjónum um hálfa klukkustund, þegar vélbátinn Báruna bar að, og tóku mennirnir,
sem voru á Báranni, Ásmundur Böðvarsson og Finnbogi Bjarnason eftir Aðalsteini
og gátu náð honum upp úr sjónum. Ekki sást til Gísla eða Björgvins þrátt fyrir
ítrekaða leit að þeim. Sigldi Báran með Aðalstein til Sandgerðis og síðan fóru
bátar út þaðan til þess að halda áfram leit að mönnunum tveimur en þeir fundust
ekki.
Gísli Sveinsson var 27 ára og Iætur eftir sig konu og tvö börn.
Björgvin Þorkelsson var 51 árs og lætur eftir sig konu og sjö börn.
Sjópróf hófust í Hafnarfirði í dag.
Tíminn. 20 maí 1970.
Steinunn gamla KE 69 í upphaflegu útliti. (C) Snorri Snorrason.
Bát slítur
upp - annar sekkur
Skömmu eftir hádegi, sunnudaginn 23. sept. 1973, kom sunnan
úr hafi mjög djúp lægð, sem hélt siðan norður yfir landið. Um leið gerði hér
eitt mesta fárviðri, sem geysað hefur síðustu árin. Voru þetta eftirstöðvar
fellibylsins Ellenar, sem mikinn skaða gerði við strendur Ameríku. Stóð
veðurofsinn fram á mánudag, en lægði er leið á daginn. Í Reykjavík mældist
vindhraði 108 hnútar í mestu hryðjunum. Aðeins einu sinni hafði þá mælst jafn
mikill vindur í Reykjavík. Það var 1942, þá mældust 109 hnútar.
Til samanburðar má geta þess, að septemberveðrið mikla 1936, var aðeins
hálfdrættingur á við Þetta ofsaveður. Í verstu hryðjunum 1936, mældust í
Reykjavík, 65 hnútar. Sextíu og fjórir hnútar eru tólf vindstig. Í
septemberveðrinu 1936 fórst franska rannsóknarskipið Pourqui Pas? Veðrið 1973
olli tugum ef ekki hundruð milljóna króna tjóni, einkum á suður-, vestur- og
norðurlandi. Óveðursdagana var stórstreymt og því meiri hætta á ferðum. Sjómenn
voru því víðast við báta sína. Í Keflavíkurhöfn rak upp v.b. Snorra KE 131.
Hann var gamall átján lesta eikarbátur. Hann náðist fljótlega út og skemmdist
lítið. Í Sandgerði lágu þá átján bátar sem brotnuðu meira og minna. Aðeins sex
þeirra sluppu frá verulegum skemmdum. Steinunn gamla KE 69, lá þar í höfninni,
og sökk. Er hún náðist upp, var hún talin ónýt. Er veðrið skall á, var vindátt
í Sandgerði suðaustlæg en lítið skjól. Töldu þá sjómenn þar, að betur væri
kominn garðurinn í suðurhöfninni, sem til umræðu hafði verið í tiu til fimmtán
ár. En gerð garðsins, hófst rúmu ári eftir að óveður þetta geysaði.
Steinunn gamla KE 69, var 87 lestir, smíðuð úr eik í Svíþjóð 1946. Eigendur
hennar þá voru Ólafur E. Einarsson o.fl. í Keflavík. Báturinn gekk um árabil
frá Keflavík, ern síðustu árin frá Sandgerði. Var hann þá í eigu Miðness h.f.
Steinunn gamla var skrásett í Keflavik og er þess vegna getið hér í annálnum.
Sjóslysaannáll Keflavíkur.
Skúli Magnússon.
Faxi. 6 tbl. 1 september 1989.
20.05.2018 10:54
200. Stefán Ben NK 55. TFLX.
Stefán Ben NK 55 með fullfermi af síld við bryggju í Neskaupstað. (C) Gunnar Þorsteinsson.
Stefán Ben NK 55 við bryggju í Neskaupstað. (C) Gunnar Þorsteinsson.
Stefán Ben NK 55 við bryggju í Neskaupstað. Glófaxi NK 54 liggur utan á honum.
Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.
Sæfaxi ll NK
123.
Garðar Lárusson, útgerðarmaður, hefur nú skipt um nafn á
Stefáni Ben. Heitir hann nú Sæfaxi II og ber einkennisstafina NK 123.
Austurland. 31 desember 1964
Sæfaxi ll NK 123 á sjómannadag í Neskaupstað. (C) Þórður M Þórðarson.
Nýr bátur
Stefán Ben NK 55
Eins og lesendum blaðsins er kunnugt, hafa þeir bræður
Ársæll og Þorsteinn Júlíussynir, átt bát í smíðum í Noregi. Í fyrravetur sökk
bátur þeirra, Langanes, við Vestmannaeyjar og réðust þeir þá í að láta smíða
þetta nýja skip, sem er nær þrisvar sinnum stærra. Stefán Ben er smíðaður eftir
sömu teikningu og v/s Guðrún Þorkelsdóttir á Eskifirði og að flestu leyti eins
búinn að tækjum. Var þeim báti nýlega lýst hér í blaðinu og gildir það, sem þar
var sagt einnig um Stefán Ben. Stefán Ben fékk slæmt veður fyrsta sólarhring
heimferðarinnar og reyndist hið ágætasta sjóskip. Að undanförnu hafa menn verið
að vakna til meðvitundar um að Norðfirðingar þyrftu að eignast báta af svipaðri
stærð og þessi er, til að afla fiskjar með heimalöndun fyrir augum. Stefán Ben
er fyrsta skipið, sem Norðfirðingar eignast af þessari stærð, og það er trú
mín, að síðar verði litið svo á, að með komu hans hafi verið mörkuð merk
tímamót í útgerðarsögu þessa bæjar. Og það er von allra, að fleiri bátar af
svipaðri stærð komi á eftir og þá frekar fyrr en síðar. Stefán Ben verður
gerður út með línu, á útilegu og síðan net héðan að heiman í vetur og á væntanlega
eftir að flytja mikla björg að landi. Atvinnuhorfur í vetur batna til mikilla
muna við komu þessa skips. Frá því Stefán Ben kom, hefur verið unnið af kappi
að því að búa hann á veiðar og mun hann fara í fyrstu veiðiferðina í dag.
Skipstjóri á bátnum er Einar G. Guðmundsson, stýrimaður Birgir Sigurðsson og 1.
vélstjóri Freysteinn Þórarinsson. Austurland óskar þeim bræðrum til hamingju
með bátinn og Norðfirðingum öllum til hamingju með þessa þýðingarmiklu viðbót
við flotann og þau merku tímamót sem koma Stefáns Ben táknar í útgerðarsögu
staðarins.
Austurland. 29 janúar 1960.
13.05.2018 09:27
2 m. Kt. Kiðey BA 11. LBVT / KBRN.
Kiðey BA 11. Þessi mynd er tekin árið 1932, sennilega á Íslandsmiðum. Skipið er komið í eigu Færeyinga þarna og heitir Thor VA 135. Það sést vel á myndinni að það er reytingsafli hjá þeim á færin. (C) Jákup Pauli í Eyðunarsstovu. www. vagaskip.dk
Skipverjarnir á Thor á handfæraveiðum. (C) Jákup Pauli í Eyðunnarsstovu. www.vagaskip.dk
Skutu niður
þýska Heinkel sprengjuvél
12 júní árið 1941 var kútter Thor VA 135 á heimleið frá
Aberdeen í Skotlandi og voru komnir norður fyrir Rattray Head, að skipverjar
urðu varir við þýska sprengjuflugvél af Heinkel lll gerð. Flaug vélin lágt yfir
Thor og hóf skothríð á skipið. Vélin gerði síðan aðra tilraun til að sökkva
skipinu, flaug í um fimmtán metra hæð yfir siglutoppunum. Þá greip
skipstjórinn, Georg Joensen til vélbyssu sem skipverjar höfðu til að verja sig
með og náði að skjóta Heinkel vélina niður og hvarf hún í hafið og sökk þegar. Enginn
mun hafa slasast í þessari skotárás, nema Georg skipstjóri sem fékk smá skeinu
af kúlubroti og var hún föst við jakkaermina hans
Georg skipstjóri var síðar heiðraður af bretum sem "Member of the British
Empire" og fékk afhenta fallega silfurmetalíu fyrir þetta afrek sitt.
Heimild: www.vagaskip.dk
Kútter Stag GY 732 frá Grimsby. (C) George Race
Íslands bezti þilskipafloti til sölu hjá Islandsk Handels & Fiskeri
Kompagni fást eftirfylgjandi skip keypt
Nafn
skips. Sigling. Register tons. Hvenær byggt. Byggingarefni. Verð.
Arney Kútter. 59 brl. 1872. Eik. 8.000.
Bjarney. Kútter. 43 brl. ? Eik. 6.000.
Drangey. Kútter. 53 brl. 1885. Eik. 8.500.
Engey. Kútter. 57 brl. 1871. Eik. 11.000.
Flatey. Skonnorta. 32
brl. 1875. Eik og fura. 5.000.
Grímsey. Kútter. 61 brl.
1885. Eik. 9.000.
Hvanney. Kútter. 50 brl. 1883. Eik. 8.000.
Jómsey. Kútter. 60 brl. 1884. Eik. 10.000.
Kiðey. Kútter. 78 brl. 1878. Eik. 12.000.
Langey. Kútter. 43 brl. 1873. Eik. 7.600.
Málmey. Kútter. 52 brl. 1881. Eik. 8.500.
Skipunum hefir verið vel við haldið frá því þau voru keypt og nú síðustu árin,
1903/05. hafa þau hvert af öðru fengið grandgæfa viðgerð (frá 400- 500 kr.
hvert skip) og þá allt tekið burt, sem nokkuð þótti athugavert við. hátt og
lágt, og nýtt sett í staðinn. Skipum þessum er því nú hægt að halda út í fleiri
ár, án nokkurs viðgerðarkostnaðar, og það mun ýkjulaust mega fullyrða að þau
sjeu í lang fremsta flokki af íslenzkum fiskiskipum, hvað gæði og allan útbúnað
snertir. Skipin ganga til fiskiveiða frá Patreksfirði og má þar sjá þau af og
til í sumar, en að loknum fiskiveiðum, í ágúst lok, fást þau til kaups, og
verða til sýnis á Patreksfirði og í Flatey, frá septemberbyrjun. Af því
fjelagið hefir í hyggju að hætta þilskipaútveginum, fást skipin með vægara
verði og betri skilmálum en nokkurs staðar annars staðar er hægt að fá jafngóð
og vel útbúin skip fyrir. Frekari upplýsingar hjá undirrituðum aðalerindreka
fjelagsins hjer á landi.
Patreksfirði, 1. maí 1905.
Pjetur A Ólafsson.
Vestri. 16 desember 1905.