24.02.2017 18:24

1476. Björgúlfur EA 312. TFPY.

Björgúlfur EA 312 var smíðaður hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk A/S í Flekkefjord í Noregi (skrokkurinn) og skipið síðan klárað hjá Slippstöðinni h/f á Akureyri árið 1977. 424 brl. 2.103 ha. Wichmann díesel vél, 1.546 Kw. Eigandi var Útgerðarfélag Dalvíkinga h/f á Dalvík frá 16 apríl árið 1977. Skipið er gert út af Samherja Ísland ehf á Akureyri í dag en heimahöfn skipsins er á Dalvík.


1476. Björgúlfur EA 312 í heimahöfn.                                       (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.  


Björgúlfur EA 312 í höfn á Dalvík.                                             (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


               Björgúlfur EA 312

16. apríl s.l. afhenti Slippstöðin h.f. á Akureyri nýjan skuttogara, Björgúlf EA 312, sem er nýsmíði 59 hjá stöðinni. Smíði þessa skuttogara var með þeim hætti að skrokkur skipsins kom frá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrik A/S í Noregi, sem byggt hefur sjö skuttogara fyrir Íslendinga, en smíðinni síðan lokið hjá Slippstöðinni, innréttingar, niðursetning á tækjabúnaði, frágangur o.þ.h. Skuttogari þessi er af lengri gerðinni frá "Flekkefjord", eins og Guðbjörg ÍS og Gyllir ÍS. Björgúlfur EA er í eigu Útgerðarfélags Dalvíkinga h.f. á Dalvík ,og er þetta annar skuttogarinn sem fyrirtækið eignast, en það á fyrir Björgvin EA 311, sem er byggður hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrik og var afhentur í janúar 1974. Björgúlfur er byggður eftir sömu teikningu og Björgvin EA, nema hvað Björgúlfur er 3.30 m lengri, en auk þess hafa verið gerðar ýmsar minniháttar smíðabreytingar. Skipstjóri á Björgúlfi EA er Sigurður Haraldsson og 1. vélstjóri Sveinn Ríkharðsson. Framkvæmdastjóri útgerðarinnar er Björgvin Jónsson.
Skipið er byggt skv. reglum Det Norske Veritas í flokki + 1A1, Stern Trawler, Ice C, +MV. Skipið er skuttogari með tveimur þilförum milli stafna og skutrennu upp á efra þilfar.
Undir neðra þilfari er skipinu skipt með fjórum vatnsþéttum þverskipsþilum í eftirtalin rúm, talið framan frá: Stafnhylki fyrir brennsluolíu, íbúðir framskips, fiskilest, vélarúm og aftast skutgeymar fyrir brennsluolíu. Undir íbúð- um og fiskilest eru botngeymar fyrir brennsluolíu, ferskvatn og sjókjölfestu. Aftan við stafnhylkið eru keðjukassar, en asdikklefi er fremst í fiskilest. Fremst í vélarúmi eru andveltigeymar frá Ulstein. Á neðra þilfari er fremst stafnhylki, en þar fyrir aftan íbúðir. Aftan við íbúðir er vinnuþilfar með fiskmóttöku og stýrisvélarrúmi aftast fyrir miðju.
Til hliðar við fiskmóttöku og stýrisvélarrúm eru verkstæði, vélarreisn og geymsla. Framarlega á efra þilfari er þilfarshús, en til hliðar við það eru lokaðir gangar fyrir bobbingarennur. Í þilfarshúsi er íbúð skipstjóra, klefi fyrir ísvél o.fl. Yfir þilfarshúsi og göngum er hvalbaksþilfar sem nær aftur fyrir afturgafl þilfarshúss. Aftan við þilfarshús er togþilfarið.
Vörpurenna kemur í framhaldi af skutrennu og greinist í tvær bobbingarennur, sem liggja í göngum og ná fram að stefni. Aftarlega á togþilfari eru síðuhús beggja megin, framantil hús fyrir vindumótora en aftantil skorsteinshús. Yfir afturbrún skutrennu er toggálgi en yfir frambrún skutrennu er bipodmastur sem gengur niður í skorsteinshús. Aftarlega á hvalbaksþilfari er stýrishús skipsins, sem hvílir á reisn.
Aðalvél skipsins er Wichmann, gerð 7AX, sjö strokka tvígengisvél með forþjöppu °8 eftirkælingu, sem skilar 2100 hö við 375 sn/mín.
Vélin tengist gegnum kúplingu skiptiskrúfubúnaði frá Wichmann. Skrúfa skipsins er 4ra blaða úr ryðfríu stáli, þvermál 2050 mm, og utan um hana er skrúfuhringur. Framan á aðalvél er deiligír frá Framo af gerðinni WG-3A 20 hö við 360 sn/mín, með þrjú úttök. Við eitt úttakið tengist 335 KW, 440 V Indar Jafnstraumsrafall fyrir togvindumótora en við hin tvö tengjast tvær vökvaþrýstidælur frá Brusselle, af gerðinni  BE, sem eru fyrir vökvaknúnar vindur. Hjálparvélar eru tvær frá MWM, gerð TBD-232 V-12, 321 hö við 1500 sn/mín. Hvor vél knýr riðstraumsrafal frá A Van Kaick, 270 KVA, 3x220 V 50 Hz. Við aðra hjálparvélina er einnig tengd vökvaþrýstidæla frá Brusselle, gerð BC, varadæla fyrir vökvavindur, en við hina hjálparvélna tengist 50 KW, 110 V jafnstraumsrafall frá Indar, vararafall fyrir togvindumótora.
 Stýrisvél er rafstýrð og vökvaknúin frá A/S Cylinder-service gerð PR  30 - 2EL, hámarks snúningsvægi 3.750 kpm.

Ægir. 15 maí 1977.


.

23.02.2017 12:51

1036. Guðbjörg ÍS 47. TFMD.

Guðbjörg ÍS 47 var smíðuð hjá V.E.B. Elber Werft Boizenburg í Austur Þýskalandi árið 1967 fyrir Hrönn h/f á Ísafirði. 256 brl. 660 ha. Lister díesel vél. Skipið var selt 25 mars 1974, Guðmundi Sveinssyni, Guðmundi Kristjónssyni og Elinbergi Sveinssyni í Ólafsvík, skipið hét Lárus Sveinsson SH 126. Skipið var lengt árið 1975, mældist þá 247 brl. Ný vél (1974) 1.000 ha. Brons díesel vél. Selt 28 desember 1977, Sigurði Georgssyni og Jóni Valgarði Guðjónssyni í Vestmannaeyjum, skipið hét Gunnar Jónsson VE 555. Selt 13 júlí 1979, Kristjáni Guðmundssyni á Rifi og Stefáni Hjaltasyni í Ólafsvík, hét Brimnes SH 257. Skipið var yfirbyggt 1979. Selt 26 mars 1981, Gylfaútgerðinni h/f á Patreksfirði, skipið hét Gylfi BA 12. Selt 30 október 1982, Garðskaga h/f í Garði, hét Happasæll GK 225. Selt 3 desember 1985, Fiskvinnslunni h/f á Bíldudal, skipið hét Steinanes BA 399. Frá 18 júlí 1986 hét skipið Stakkanes ÍS 848, sömu eigendur. Selt 19 maí 1987, Skagstrendingi h/f á Skagaströnd, hét Stakkanes HU 121. Skipið var selt 27 desember 1990, Bakkafiski h/f á Eyrarbakka, hét Stakkavík ÁR 107. Selt 6 mars 1992, Gjögri h/f á Grenivík, sama nafn og númer. Selt 17 júlí 1992, Sædísi h/f á Ólafsfirði, sama nafn og númer. Talið ónýtt og tekið af skrá 13 nóvember árið 1992.


Guðbjörg ÍS 47.                                                                                       Ljósmyndari óþekktur.


Lárus Sveinsson SH 126.                                                                             (C) Snorri Snorrason.


              Nýtt skip bætist í flotann

Guðbjörg ÍS 47, nýtt og glæsilegt fiskiskip kom til Ísafjarðar 4. maí s.l. Skipið er byggt í Austur-Þýzkalandi og er 260 tonn að stærð með 660 ha. Lister-vél. Í skipinu eru 2 ljósavélar, 60 ha. hvor, 2 radarar með langdrægni 48 og 24 mílur, 2 Simrad-asticktæki og dýptarmælir, og er því skipið búið öllum hinum fullkomnustu nútímatækjum. Eigandi skipsins er Hrönn hf., Ísafirði og er þetta 4. báturinn með þessu nafni, sem fyrirtækið kaupir. Framkvæmdastjóri félagsins er Guðmundur Guðmundsson. Skipstjóri á Guðbjörgu er hinn þekkti dugnaðar og aflamaður Ásgeir Guðbjartsson. Fyrsti vélstjóri er Kristinn Arnbjörnsson.

Skutull. 7 júní 1967.

22.02.2017 14:15

728. Rán ÍS 51. TFKW.

Rán ÍS 51 var smíðuð í Skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar á Ísafirði árið 1958 fyrir Rán h/f í Hnífsdal. Eik. 59 brl. 280 ha. MWM díesel vél. Báturinn var seldur 22 október 1965, Hafbjörgu h/f á Akranesi, báturinn hét Rán AK 304. Ný vél (1974) 350 ha. Caterpillar díesel vél. Seldur 25 apríl 1975, Ármanni Stefánssyni á Akranesi, hét Rán AK 34. Báturinn var endurmældur í september 1975, mældist þá 58 brl. 3 júní 1983 voru skráðir eigendur Ármann Stefánsson og Símonía Ellen Þórarinsdóttir á Akranesi. Seldur 7 nóvember 1986, Útvegsmiðstöðinni h/f í Keflavík, báturinn hét Rán KE 37. Seldur 18 maí 1988, Helga Grétari Helgasyni í Reykjavík, hét þá Rán BA 57. Báturinn var tekinn af skrá haustið 1988 og endaði á áramótabrennu í Njarðvík árið 1990.


Rán ÍS 51.                                                                                            Ljósmyndari óþekktur. 

Rán AK 304. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra.                                       (C) www.museum.is  

  Rausnarleg gjöf á Byggðasafnið að Görðum


Þann 3. janúar 2015 afhentu ættingjar Helga Ibsen Byggðasafninu líkan af bátnum Rán 304 til minningar um Helga Ibsen.  Helgi Ingólfur Ibsen fæddist á Suðureyri við Súgandafjörð 8. september 1928, hann lést á Sjúkrahúsi Akraness 28. ágúst 2004.
Árið 1965 stofnuðu Helgi og Vilhjálmur Guðjónsson útgerðarfyrirtækið Hafbjörgu hf. á Akranesi. Eitt fyrsta verk þeirra félaga var að fara vestur til Hnífsdals og festa kaup á skipi sem hét Rán ÍS 51. Báturinn var smíðaður í skipasmíðastöð Marselíusar á Ísafirði 1958.
Helgi og Vilhjálmur ráku útgerð og fiskvinnslu með myndarbrag, þeir áttu Rán AK 304 í 10 ár og reyndist hún þeim vel. Árið 1975 seldu þeir Ármanni Stefánssyni bátinn, síðari eigendur voru Útvegsmiðstöðin í Keflavík (1986) og Helgi Grétar Helgason (1988). Ránin var úrelduð haustið 1988 fyrir Fanney SH. Það var sérstakt við þennan bát að hann hét aldrei annað en Rán þrátt fyrir eigendaskipti, en nafnið Rán merkir alda.
Endalok Ránarinnar urðu þau að báturinn var brenndur á áramótabrennu í Njarðvík árið 1990, þá var rafkerfi og stýrishús orðið lélegt en skrokkurinn var í góðu lagi. Ránin var alla tíð mikið happafley.

Grímur Karlsson módelsmiður í Reykjanesbæ smíðaði líkanið af Ráninni í tilefni af 70 ára afmæli Helga Ibsen.

Af vefsíðu Safnasvæðisins á Akranesi.

21.02.2017 11:11

E. s. Dettifoss l. LCKR / TFDA.

Dettifoss var smíðaður hjá Frederikshavn Værft & Flydedok A/S í Frederikshavn í Danmörku árið 1930 fyrir h/f Eimskipafélag Íslands. 1.564 brl. 1.500 ha. gufuvél. Smíðanúmer 190. Skipinu var sökkt af kafbáti við strendur Írlands 21 febrúar 1945. Með skipinu voru 30 skipverjar og 14 farþegar, alls 44 manns. Þar af fórust 12 skipverjar og 3 farþegar, samtals 15 manns. 29 manns bjargaðist, þar af 18 skipverjar og 11 farþegar. Þeir björguðust á fleka og í skipsbáta. Síðan bjargaði björgunarskipið Fusilier þeim. Talið var fullvíst að þýskur kafbátur hefði grandað Dettifossi. Fyrir styrjaldarlok bárust óstaðfestar fréttir um að sami þýski kafbátur hefði grandað Dettifossi og Goðafossi.


E. s. Dettifoss.                                                                                          Ljósmyndari óþekktur.

                  Dettifossi sökkt

Þann 24. febrúar s. l. barst sú harmafregn til landsins, að eimskipið Dettifoss hefði farizt af völdum hernaðarins, og væri 12 skipverja og þriggja farþega skipsins saknað, og ókunnugt væri um afdrif þeirra. Þegar Goðafossi var sökkt, innan íslenzkrar landhelgi, er hann átti örskammt ófarið í höfn eftir langa útivist, sló óhug á alla þjóðina. Margir voru teknir að vona, að svo mjög væri nú liðið á styrjöldina, að óhætt myndi að gera sér vonir um, að fleiri skipum íslendinga yrði ekki sökkt í átökum styrjaldarinnar, en þegar var orðið. En röskum þrem mánuðum eftir að Goðafossi var sökkt, er hið ógróna sár ýft að nýju við þá voveiflegu fregn, að Dettifoss hafi einnig lotið órlögum hans. Að vísu er hægt að bæta upp skipatjónið síðar meir. En mannskaði sá, er orðinn er, verður eigi bættur. Hér fara á eftir nöfn þeirra, sem er saknað:
Farþegar:
Vilborg Stefánsdóttir, hjúkrunarkona, Hringbraut 68, f. 29. júní 1895. Berta Steinunn Zoéga, húsfrú, Bárugötu 9, f. 8. júlí 1911, átti 1 barn, 10 ára. Guðrún Jónsdóttir, skrifstofustúlka, Blómvallagötu 13, f. 17. apríl 1911. Hjá foreldrum.
Skipsmenn:
Davíð Gíslason, 1. stýrimaður, Njarðargötu 35, f. 28. júlí 1891. Kvæntur og átti 5 börn, 12, 10, 8, 6 og 3 ára. Jón S. K. K. Bogason, bryti, Hávallagötu 51, f. 30. maí 1892. Kvæntur og átti 1 barn, 10 ára. Jón Guðmundsson, bátsmaður, Kaplaskjólsvegi 11, f. 28. ágúst 1906. Kvæntur og átti 1 barn á öðru ári. Guðmundur Eyjólfsson, háseti, Þórsgötu 7 A, f. 23. júlí 1915. Kvæntur og átti 1 barn á 2. ári. Hlöðver Oliver Ásbjörnsson, háseti, Brekkustíg 6A, f. 21. maí 1918, ókvæntur. Ragnar Georg Ágústsson, háseti, Sólvallagötu 52, f. 16. júní 1923. Ókvæntur; hjá foreldrum. Jón Bjarnason, háseti, Bergstaðastræti 51. f. 23. nóvember 1909. Kvæntur, barnlaus. Gísli Andrésson, háseti, Sjafnargötu 6, f. 22. september 1920. Ókvæntur. Jóhannes Sigurðsson, búrmaður, Njálsgötu 74, f. 23. okt. 1906, Ókvæntur. Stefán Hinriksson, kyndari, Hringbraut 30, f. 25. júní 1898. Ókvæntur. Helgi Laxdal, kyndari, Tungu, Svalbarðsströnd, f. 2. marz 1919. Ragnar Jakobsson, kyndari, Rauðarárstíg 34, f. 27. okt. 1925. Ókvæntur, hjá móður sinni.


Dettifossi hleypt af stokkunum 24 júlí 1930.                                                 Ljósmyndari óþekktur.

Þau sem komust af. Farþegar:
Ólafur Björn Ólafsson, Akranesi. Páll Bjarnason Melsted, stórkaupmaður. Skúli Petersen, Laufásveg 66. Bjarni Árnason. Sigrún Magnúsdóttir, hjúkrunarkona. Eugenie Hallgrímsson Bergin, frú, Miðtúni 7. Davíð Sigmundur Jónsson. Lárus Bjarnason, Bárugötu 16. Erla Kristjánsson, Hólavallagötu 5. Ragnar Guðmundsson. Theódór Helgi Rósantsson, Laufásvegi 41.
Skipsmenn:
Jónas Böðvarsson, skipstjóri. Ólafur Tómasson, 2. stýrimaður. Eiríkur Ólafsson, 3. stýrimaður. Hallgrímur Jónsson, 1. vélstjóri. Hafliði Hafliðason, 2. vélstjóri. Ásgeir Magnússon, 3. vélstjóri. Valdemar Einarsson, loftskeytamaður. Bogi Þorsteinsson, loftskeytamaður. Kristján Símonarson, háseti. Erlendur Jónsson, háseti. Sigurjón Sigurjónsson, yfirkyndari. Kolbeinn Skúlason, kyndari. Sigurgeir Svanbergsson, kyndari. Gísli Guðmundsson, 1. matsveinn. Anton Líndal, matsveinn. Tryggvi Steingrímsson, þjónn. Nikolína Kristjánsdóttir, þerna. Baldvin Ásgeirsson, þjónn yfirmanna.
FRÁSÖGN JÓNASAR BÖÐVARSSONAR skipstjóra:
Skipið var á siglingu í sæmilegu veðri. Klukkan var 8,29 að morgni, er allt í einu varð gríðarleg sprenging í framhluta skipsins. Farþegar voru flestir í rúmum sínum, en skipverjar höfðu nýlega lokið við að skipta um vakt. Frammi í voru 6 hásetar, einn þeirra í rúmi sínu, en hinir voru að matast í borðsal skipsins frammi í. Enn fremur munu nokkrir kyndarar hafa verið frammi í, en þar voru vistarverur háseta og kyndara, ofanþilja. Strax og sprengingin varð, þusti fólk út á þilfar, og munu allir hafa komizt úr klefum sínum, nema þeir, sem voru frammi í. Er ekki vitað, hvort einhverjir hafa slasazt þar. En sprengingin mun hafa rifið upp skipið undir sjávarmáli, og enn fremur gengu þilfarsplankar að framan upp lítillega. Hversu miklar skemmdir urðu frammi í skipinu, er ekki hæg að segja með neinni vissu, en ekki mun gangurinn, sem lá milli herbergja skipverja frammi í, hafa teppzt. Eini hásetinn, sem var í rúmi sínu, Kristján Símonarson að nafni, komst lífs af. Skipið tók brátt að hallast á bakborðshlið. Þannig hagaði til á Dettifossi, að tveir björgunarbátar voru á bátaþilfari miðskips, en einn bátur á palli aftast á skipinu, en auk þess voru björgunarflekar á skipinu.


Dettifoss í Hamborg.                                                                                Ljósmyndari óþekktur.
  
Ekki var viðlit að reyna að koma nema einum bátnum út, en það var bakborðsbáturinn miðskips. Vegna þess, hve skipið hallaðist á bakborða, var ekki hægt að koma út stjórnborðsbáti. Einn fleki losnaði frá skipinu við sprenginguna og annar komst á flot skömmu síðar. Munu hafa liðið um 3 mínútur frá því að sprengingin varð í skipinu og þar til búið var að koma út bátnum og flekunum. En skipið var það fljótt að sökkva, að litlu munaði, að skipverjar kæmu bátnum frá skipshliðinni áður en það hallaðist á bátinn. Ekki munu hafa liðið nema 5 mínútur frá því að sprengingin varð og þar til skipið var sokkið. Flestir, sem björguðust af skipinu, fleygðu sér í sjóinn, en komust síðan í bátinn eða á flekana. Alls komust 11 manns fyrst í bátinn, en 17 á stærri flekann og tveir á hinn minni. Síðar var þeim tveimur, er komust á minni flekann, bjargað upp í bátinn. Fólkið var um klukkustund í bátnum og á flekanum. Sást alltaf á milli báts og fleka. Veður hafði verið sæmilegt, en brátt tók að hvessa. Voru allir blautir og margir fáklæddir, þar sem þeir höfðu farið upp úr rúmum sínum og ekki unnizt tími til að bjarga neinu með sér.
Varð hver að hugsa um sig, eftir því, sem bezt hann gat. Allir þeir, sem björguðust, voru ómeiddir að kalla og flestir furðu hressir í bátnum og á flekanum. En einn af farþegunum var meðvitundarlaus, er honum var bjargað frá björgunarbátnum. Var það frú Eugenie Bergin. En eftir góða aðhlynningu hresstist hún. Hún var þó lögð inn í sjúkrahús í nokkra daga, er í land kom. Henni líður nú vel, og er maður hennar, Bergin kapteinn, kominn til hennar, þar sem hún dvelur í Skotlandi. Er fólkið hafði verið um klukkustund í bátnum og á flekanum, bar að brezka hersnekkju. Fóru allir um borð í hana. Þar var mjög vel tekið á móti skipbrotsfólkinu, og vildu brezku sjómennirnir allt fyrir það gera. Létu þeir það fá þurr föt og hressingu og hlynntu að fólkinu á annan hátt. Þegar til hafnar kom, var þar fyrir fulltrúi frá Eimskipafélagi íslands, frá brezka hernum og Rauða krossinum enska. Skipbrotsfólkið fékk föt og peninga frá Eimskipafélaginu og þá beztu aðhlynningu, sem hægt var að veita.


Dettifoss í Reykjavíkurhöfn.                                                                       Ljósmyndari óþekktur.

FRÁSÖGN VALDIMARS EINARSSONAR loftskeytamanns:
Valdimar Einarsson loftskeytamaður skýrir svo frá: Ég var rétt nýkominn á fætur og var á leið niður úr loftskeytaklefanum til þess að fá mér morgunkaffið; var kominn niður á þilfarið, þegar ég heyrði sprengingu í skipinu, og fann síðan, að eðlilegur titringur á skipinu, sem stafar af ferð þess og vélagangi, hvarf. Um leið og sprengingin varð, fann ég sterka púðurlykt. Ég gerði mér strax grein fyrir því, hvað skeð hefði, og að nú væri ekki seinna vænna að bjarga sér. Hljóp ég strax upp í "brú". Sá ég þaðan, að brotið var ofan af framsiglunni; hin svokallaða "stöng" hafði brotnað af henni við sprenginguna. Þá var loftnetið farið leiðina sína og loftskeytastöð skipsins við það óvirk. Ég þaut inn í herbergi mitt, greip björgunarbeltið og færði mig í það. Síðan hljóp ég niður á bátaþilfarið. Þar var þá 2. stýrimaður, Ólafur Tómasson, að losa annan björgunarbátinn. Hjálpaði ég honum til að vinda út framstafn bátsins. Vegna þess, hve hallinn var mikill, hrökk báturinn af uglunum áður en varði. Var nokkur þröng þarna við bátinn, en farþegum sagt, sem þarna komu, að fleygja sér í sjóinn og ná í bátinn á floti. Nú flaug mér í hug, að skipinu kynni að hvolfa. Því heyrt hafði ég, að slíkt gæti átt sér stað undir svona kringumstæðum. Ég hljóp því upp eftir hinu hallandi þilfari, upp að þeim borðstokk, sem hærra bar, stjórnborða, fór stjórnborðsmegin niður á neðra þilfarið og síðan aftur eftir skipinu, og var það þá svo hallandi, að ég man að ég steig nokkrum sinnum á þil yfirbyggingarinnar. Þegar ég var kominn aftur fyrir yfirbygginguna, mætti sjórinn mér á miðju þilfari.


Dettifoss á tímum styrjaldarinnar seinni.                                          (C) World Ships Photo Library.

Nú blasti við mér björgunarfleki, sem var ekki langt frá skipinu, aftanhallt við það bakborðsmegin. Var fólk á flekanum. Nú varpa ég mér í sjóinn og syndi áleiðis til flekans. En er ég hafði synt skammt, flæktist eitthvað utan um fætur mér, sennilega björgunarbelti, sem flotið hafði frá skipinu, svo ég missti sundtaktanna, en gat reist mig upp og greitt úr þessu og síðan haldið áfram að flekanum. Var kominn þangað eftir skamma stund, því hagstætt sund var þangað. Þegar ég kom á flekann, voru þar 14 manns, en tveir komu á eftir mér, og voru þeir síðastir á flekann.
Þegar ég er kominn á flekann, verðiir mér litið til skipsins. Það var enn á nokkurri ferð, og var þó aðeins afturhlutinn upp úr sjó. Beygði það í hálfhring. Nú heyrðust þungar drunur úr skipinu. Sennilega hafa þær komið, er skilrúmið milli stórlestar og vélarúms sprakk. Leið nú skipið hægt í djúpið, og var fánastöngin á skutnum seinast ein úr sjó með íslenska fánann blaktandi í golunni. Þeirri látlausu sjón gleymum við skipbrotsmenn aldrei. Þegar skipið var sokkið, sást stór lygnublettur eftir á sjónum stundarkorn, unz öldurnar eftir andartak ýfðu sæinn að nýju og ekkert var ofansjávar af því, sem með Dettifossi var, nema björgunarbáturinn og flekinn og við, sem á þeim vorum. Nú reyndum við að halda flekanum upp í vindinn. En það reyndist ekki hægðarleikur, því ræðin höfðu týnzt af flekanum, þegar hann féll í sjóinn af skipinu og hafði flekinn auk þess brotnað dálítið. Við bjuggum til ræði úr köðlum. Og var síðan reynt að halda flekanum upp í vind og báru. En flekinn var svo stór og þungur, að ekki var hægt að ráða við hann á þennan hátt, eða stjórna honum. Var öllum tilraunum til þess hætt eftir skamma stund. Sitjum við síðan aðgerðalaus á flekanum.


Heiðursskjöldur með þakkarorðum Hindenburg, forseta Þýskalands sem færður var Eimskipafélaginu fyrir að áhöfn Dettifoss bjargaði í mars 1932 14 skipverjum af þýskum togara. Það er kaldhæðni örlaganna að skjöldurinn fór í hafið með Dettifossi þegar þýskur kafbátur sökkti skipinu.  

Vindur fór vaxandi, og fór sjór að ýfast, en logn var og lítil alda, þegar sprengingin varð í skipinu. Okkur leið sæmilega á flekanum, því veður var hlýtt. En aðstaða okkar fór versnandi, því flekinn fór brátt að síga í sjó öðrum megin, svo sjór gekk sífellt yfir hann, svo allir sátu við og við í sjó upp í mitti. Margir voru lítið klæddir, en allir voru með björgunarbelti, nema einn. Allan tímann, sem við vorum á flekanum, sáum við til skipaferða og vorum örugg um að okkur yrði bjargað. Fylgdarskip kom til okkar, og var öllum af flekanum og úr bátnum bjargað í það. Þar fengum við hinar ákjósanlegustu viðtökur, sem hugsast gat. Var þar allt gert til þess að hjúkra okkur og hlynna að okkur. Síðar gat Valdimar þess, að hann hefði fengið nokkuð aðra hugmynd um það, hvernig fólk tæki slíkum atburðum sem þessum. Oft væri það tekið fram í frásögnum af slíkum sjóslysum, að farþegar t. d. hefðu sýnt undraverða stillingu, þó um yfirvofandi lífsháska væri að ræða. En það er mitt álit, sagði hann, að hér þurfi ekki að vera um óvenjulega hugprýði eða geðstillingu að ræða. Mér skilst, að þegar slíka skyndilega skelfingu ber að höndum, þá lamast sumt fólk og getur jafnvel gengið eins og hálfpartinn í svefni. Það missir framtak til sjálfstæðra athafna, en gerir kannske eins og það sér aðra gera eða eins og því er fyrirskipað. Við ný áhrif getur fólk þetta þó allt í einu losnað úr þessari leiðslu, en þá er hætt við að hræðslan fái yfirhönd.
FRÁSÖGN ÓLAFS TÓMASSONAR stýrimanns:
"Þegar' Dettifoss sökk, sýndu allir stillingu og hjálpsemi við björgunina," sagði Ólafur Tómasson, 2. stýrimaður. Ólafur var staddur í matsal yfirmanna, er sprengingin varð. Hann tók eftir klukkunni, því hann átti að fara á vörð kl. 8.30. Var hann að standa upp frá borðum, þegar klukkuna vantaði eina mínútu í hálf níu, og sprengingin varð um leið. Hann fór þegar út í vélarrúm og sá þá, að búið var að stöðva vél skipsins og vélstjóri var að koma upp úr vélarrúmi. Er hann hafði náð sér í björgunarbelti, fór hann út á þilfar til að gæta að hásetum, en sá þá engan mann frammi á, svo hann fór að björgunarbát þeim, er hann átti að sjá um, sem var 1. bátur, eða stjórnborðsbáturinn miðskipa. Komu skipverjar honum til aðstoðar. Ólafur sá brátt, að ekki myndi þýða, að reyna að koma stjórnborðsbátnum út, þar.sem skipið var farið að hallast mikið til bakborða, og fór hann því að bakborðsbátnum og aðstoðaði við að koma honum út. Það vann hver að sýnu verki, segir Ólafur, og ekki sást annað en ró á hverjum manni. Skipstjóri gekk um og leiðbeindi farþegum, hvert þeir ættu að fara til þess að mest von væri um björgun. Ég sá alls staðar þar, sem ég leit, að skipverjar voru að vinna að sínum störfum, og allir hugsuðu um það eitt, að geta orðið að liði. Þegar björgunarbáturinn kom í sjóinn, flaut hann aftur með skipinu, því það var enn á dálítilli ferð. Skipið hallaðist stöðugt meira og meira á hhðina, og var erfitt að halda bátnum frá skipshliðinni. Nokkrir menn komust í bátinn beint frá skipinu, en sumir köstuðu sér útbyrðis og komust síðar upp í bátinn eða á fleka. Mesta hættan var á, að bátsuglan lenti á bátnum um leið og skipið hallaðist. Munaði minnstu að svo færi, rétt áður en báturinn komst frá skipshliðinni. Bátsuglan hafði numið við borðstokk bátsins, en í sama mund skar skipverji á fangalínuna og alda féll undan bátnum og um Ieið tókst að ýta honum frá skipshliðinni.


Minningarskjöldur um þá sem fórust með Dettifossi á leið frá New York til Reykjavíkur 21 febrúar 1945. Skjöldurinn er í Sjóminjasafninu Víkinni í Reykjavík.  (C) Þórhallur S Gjöveraa.  

Þegar skipið sökk, var öll ferð farin af því. Stakkst það niður að framan og sökk þannig, að íslenzki fáninn var það síðasta, sem sást af skipinu, áður en það sökk í djúpið. Seint munum við, er þarna vorum, gleyma þeirri sjón. Þeir, sem í björgunarbátnum voru, settust strax undir árar og reru þangað, er skipið hafði sokkið, í þeirri von, að takast myndi að bjarga einhverjum. Tókst það, þar á meðal frú Eugenie Bergin, eins og áður er sagt. Aðeins ein hugsun komst að hjá þeim, sem í bátnum voru, en það var: "Eru ekki einhverjir fleiri? Sjáið þið ekki fleiri." En brátt tók að hvessa og fleiri sáust ekki. Í björgunarbátnum voru þurr föt, ullarpeysur, yfirhafnir o. þ. h. Var því skipt á milli þeirra, sem í bátnum voru, og kom þetta að góðu haldi fyrir marga, er bjargast höfðu fáklæddir. Það er eitt dæmi, sem ég get sagt frá, segir Ólafur Tómasson, sem mér finnst vera einkennandi fyrir hug þann, sem ríkti hjá mönnum, er slysið bar að höndum. Eftir að sprengingin varð í skipínu, hitti Anton Líndal matsveinn félaga sinn á þilfarinu. Félagi hans sagði við hann. "Ég er björgunarbeltislaus. Hvar á ég að ná í belti?" "Hér er björgunarbelti," sagði Anton og tók af sér beltið, sem hann var með og fékk félaga sínum. En sjálfur kastaði hann sér í sjóinn beltislaus. Þannig vildu allir hjálpa hver öðrum sem bezt þeir gátu. Ólafur rómar mjög viðtökur þær, sem skipbrotsfólkið fékk um borð í hersnekkjunni og eins í landi, er þangað kom.
 "Dettifoss" var byggður í Friðrikshöfn í Danmörku árið 1930. Var hann 1564 brúttósmálestir að stærð, með 1500 hestafla vél. Hafði hann rúm fyrir 30 farþega, en gat flutt 1300-1400 tonn af vörum í ferð. Var hann talinn hið traustasta skip, og var stærstur skipa Eimskipafélagsins og gangbeztur allra íslenzkra skipa. Einar Stefánsson var lengstum skipstjóri á Dettifossi. Er hann lét af störfum á árinu 1943, tók Pétur Björnsson við skipstjórninni. Í þessari síðustu ferð var Jónas Böðvarsson skipstjóri.

Sjómannablaðið Víkingur. 1 mars 1945.


 

20.02.2017 16:47

Togarar í Reykjavíkurhöfn.

Togarar liggja oft um lengri eða skemmri tíma í höfn, þá sérstaklega núna síðustu 2 mánuði á meðan verkfall sjómanna stóð yfir en því er nú lokið. Hér eru nokkrar myndir af viðveru nokkurra togara úr öllum landshlutum í Reykjavíkurhöfn á síðastliðnum árum.


1578. Ottó N Þorláksson RE 203.


1277. Ljósafell SU 70.


1278. Bjartur NK 121.


1977. Júlíus Geirmundsson ÍS 270.


1270. Mánaberg ÓF 42.


1275. Jón Vídalín VE 82.                                                           (C) Myndir: Þórhallur S Gjöveraa.

19.02.2017 15:13

B. v. Skallagrímur RE 145. LCHK / TFRC.

Skallagrímur RE 145 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir h/f Kveldúlf í Reykjavík. 403 brl. 800 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 639. Þann 16 júní árið 1940 bjargaði áhöfn togarans 353 skipbrotsmönnum af breska Hjálparbeitiskipinu Andaníu um 85 sjómílum suður af Ingólfshöfða. Mun þetta vera ein fjölmennasta björgun um borð í íslenskt skip. Skallagrímur var alla tíð mikið afla og happaskip, rétt eins og systurskipið Þórólfur RE 134. Skipið var talið ónýtt og tekið af skrá 16 febrúar árið 1955.


B.v. Skallagrímur RE 145.                                                                    (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


B.v. Skallagrímur RE 145.                                                                 (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Áhöfnin á Skallagrími RE 145 árið 1924.                                                    Ljósmyndari óþekktur.

  Mesta björgunarafrek Íslenskra sægarpa


        Skallagrímur bjargar 350 skipverjum af

         breska hjálparbeitiskipinu "Andania"

Þegar skipverjar á b. v. "Hafstein " björguðu síðastliðið haust skipshöfninni af þýska skipinu Bahia Blanca, sem fórst í ís undan Vestfjörðum, var það réttilega talið mesta björgunarafrek, sem íslendingar  höfðu unnið . Nú hefir verið unnið annað björgunarafrek, sem tekur hinu fram. Skipverjar á b.v. Skallagrími björguðu 350 breskum sjóliðum, er skipi þeirra hafði verið sökkt með tundurskeyti. Tíðindamaður Vísis átti í morgun tal við Guðmund Sveinsson, skipstjóra á b.v. Skallagrími. Guðmundur lætur lítið yfir þessu afreki sínu og pilta sinna, finnst það vera innifalið í dagsverkinu og óþarfi að vera að skrifa langar blaðagreinar um það. En slíkar afrekssögur eiga ekki að liggja í þagnargildi, enda er þetta einstakur viðburður og sjálfsagt að honum sé á lofti haldið.
Fer hér á eftir frásögn Guðmundar:
 "Við vorum á útleið, er við mættum stóru skipi, sem gaf okkur til kynna, að það vildi hafa tal af okkur. Þetta var að morgni dags. Þegar skip stöðva okkur, spyrja þau venjulega, hvaðan við séum að koma, og hvert förinni sé heitið, en að þessu sinni var brugðið út af þessari venju. Sagði skipstjórinn okkur, að hann hefði ástæðu til þess að ætla, að breskt skip hefði orðið fyrir kafbátsárás 40-50 mílur vestur af þeim stað, sem við vorum staddir á. Vorum við beðnir að halda á vettvang til þess að reyna að bjarga skipshöfninni, ef því yrði við komið.
Mun skipið, sem talaði við okkur, ekki hafa þótt óhætt fyrir sig að fara þangað, vegna kafbátahættunnar, en auðvitað gat þetta verið alveg jafn hættulegt fyrir okkur. En hinsvegar gátum við ekki neitað að verða við þessari hjálparbeiðni, snerum við og komum að hinu sökkvandi skipi eftir um fimm klukkustunda siglingu. Veður var dágott, vindur að vestan 3 stig og nokkur undiralda. Skipstjórinn á hjálparbeitiskipinu, sem reyndist vera Andania (13.950 smál., smíðað 1922) vildi ekki yfirgefa skip sitt, kvaðst ekki mega það, meðan það væri enn ofansjávar. En það sökk smám saman og var horfið um kl. 7 um kveldið.  Komust allir skipverjar í bátana, fjórtán að tölu. Skipverjar voru alls 350 eða 353 að tölu og komst ég aldrei að því, hvor talan var réttari.
Tveir þeirra voru allsærðir og voru á sjúkrabörum. Björgunin tókst alveg slysalaust, en engum bátanna var hægt að bjarga. Var engin leið að taka neinn þeirra upp, sakir þrengsla. Þótti mér það þó súrt í brotið, því að tveir þeirra voru einkar fallegir og rennilegir vélbátar, eins og þeir, sem notaðir eru til þess að flytja farþega skemtiferðaskipanna, sem hér koma, milli skips og bryggju. Þegar allir voru komnir um borð hjá okkur og haldið var af stað, fór veðrið að versna, hvesti af suðvestan. Var Bretunum komið fyrir hvar sem var, jafnvel í kolaboxunum og á öllum hugsanlegum stöðum öðrum, jafnvel inni í skápum. Við tjölduðum yfir "keisinn" og bátadekkið, svo að mennirnir gæti verið í skjóli þar, vélarúmið var fult af þeim, svo að ekki var hægt að þverfóta þar, lúkarinn var fullur og sama var hægt að segja um hvern einasta stað á skipinu. Hvergi var hægt að drepa niður fingri.
Til allrar hamingju voru þetta vel agaðir sjómenn, því að annars hefði þetta ekki gengið jafnvel og raun ber vitni. Það hefði sannarlega verið öðru máli að gegna, ef við hefðum orðið að bjarga fólki af farþegaskipi. Skipstjórinn breski sagði mér, að þeir hefði aldrei komið auga á kafbátinn og skipverjar myndi varla hafa vitað, hvaða skip það var, sem þeir sökktu. Kvaðst hann gera ráð fyrir, að skotið hefði verið á skipið úr 4000 feta færi. Eitt tundurskeyti hæfði, en auk þess komu skipverjar auga á loftrákir úr þrem tundurskeytum, sem misstu marks. Um daginn fylgdist Sunderland-flugbátur með okkur um tíma, en daginn eftir hittum við tundurspilli. Var þó ekki strax hægt að hugsa um að koma mönnunum um borð í hann vegna veðurs og voru Bretarnir um borð hjá okkur í 36 klukkustundir. Allan þann tíma var ekki hægt að elda neinn mat, og var aðeins hægt að hita te og kaffi.
En bresku sjómennirnir höfðu kex í fórum sínum, sem verið höfðu í skipsbátunum svo að enginn þurfti að svelta. Loks batnaði þó veðrið og var þá ákveðið að reyna að koma Bretunum um borð í tundurspillinn. Tókst það ágætlega, en það var ekki fyrr en þeir voru komnir um borð þangað, að okkur varð ljóst hvílíkur feikna fjöldi hafði verið um borð hjá okkur. Það var blátt áfram ótrúlegt, að allir þessir menn skyldu hafa komist fyrir í litla skipinu okkar, enda hafði breski skipstjórinn orð á því við mig. Fór hann síðastur frá borði og sagði áður en hann fór: "Hvar höfum við eiginlega getað komið öllum þessum mönnum fyrir?" Var það að undra þótt hann spyrði? Þegar Bretarnir voru komnir um borð í tundurspillinn, kvöddu þeir okkur með húrrahrópum og hélt hann síðan á brott, en við héldum leiðar okkar." Lýkur hér frásögn Guðmundar og munu allir á eitt sáttir um, að hér hafi verið unnið afrek, sem á lofti mun vera, meðan Íslendingar sækja sjóinn og leggja ótrauðir til baráttu við ægi til þess að draga björg í bú.
Í breskum fregnum hefir verið skýrt frá þvi, að kafbáturinn hafi komið upp tvisvar.Í siðara sinnið skutu skyttur Andania á hann og hæfðu turninn. Sprenging varð í kafbátnum og fórst hann. Öllum skipverjum á Andania var bjargað, en ekki greint frá hvaða skip gerði það.

Vísir. 27 júní 1940.

18.02.2017 17:12

Vitaskipið Hermóður. TFSB.

Vitaskipið Hermóður var smíðaður í Stokkhólmi í Svíþjóð árið 1947 fyrir Vitamálastjórnina. 208 brl. 390 ha. Atlas díesel vél. Skipið fórst út af Reykjanesi aðfaranótt 18 febrúar árið 1959 með allri áhöfn, 12 mönnum. 


Vitaskipið Hermóður.                                                                   (C) Byggðasafn Hafnarfjarðar.


Vitaskipið Hermóður.                                                                                 Ljósmyndari óþekktur.

      Hörmulegt sjóslys við Reykjanes

                   Hermóður fórst með tólf
                 manna áhöfn við Reykjanes

Í Fyrrinótt varð íslenzka þjóðin fyrir öðru stóráfallinu á sjó á skömmum tíma, er vitaskipið Hermóður fórst með allri áhöfn, 12 mönnum, undan Reykjanesi. Í gærkvöldi sendi Landhelgisgæzlan út svohljóðandi fréttatilkynningu um þennan hörmulega atburð: Talið er víst að vitaskipið Hermóður hafi farizt með allri áhöfn í stórsjó og ofviðri undan Reykjanesi í nótt. Var síðast haft samband við það frá öðru skipi um kl. 4 í nótt. Var Hermóður þá staddur við Reykjanes, en síðan hefur ekkert heyrzt eða sézt til skipsins. Hermóður var á leið frá Vestmannaeyjum, þar sem hann hafði verið við bátagæzlu á vegum Landhelgisgæzlunnar undanfarinn hálfan mánuð, og var væntanlegur til Reykjavíkur í morgun. Strax þegar ekki heyrðist til skipsins í morgun og það var heldur ekki komið til Reykjavíkur, sendi Landhelgisgæzlan gæzluflugvélina Rán til þess að leita að því og nokkru síðar var Slysavarnafélagið beðið um að láta leita meðfram ströndinni frá Grindavík og vestur og norður fyrir Reykjanes allt að Garðskaga. Brugðu slysavarnadeildirnar í Grindavík og Höfnum, svo og þrír leitarflokkar frá Reykjavík skjótt við og fundu skömmu eftir hádegi brak úr skipinu rekið undan bænum Kalmanstjörn sunnan við Hafnir. Leitað var allt til dimmu, en mun verða haldið áfram strax í birtingu á morgun.
Á Hermóði var 12 manna áhöfn og voru það þessir menn:
Ólafur G. Jóhannesson skipstjóri, Skaptahlíð 10, Rvík, 41 árs. Hann var kvæntur og auk konu lætur hann eftir sig sjö börn á aldrinum 10, 8, 7, 5, 4 og tvö tveggja ára. Sveinbjörn Finnsson, 1. stýrimaður, Útgerði við Breiðholtsveg, Rvík, 24 ára. Hann lætur eftir sig konu og eitt barn árs gamalt. Foreldrar hans búa vestur í Grundarfirði. Eyjólfur Hafstein, 2. stýrimaður, Bústaðavegi 65, 47 ára. Hann lætur eftir sig konu og 4 börn, 12, 9, 7 ára og 8 mánaða. Móðir hans öldruð, er á lífi. Guðjón Sigurjónsson, 1. vélstjóri, Kópavogsbraut 43, Kópavogi, 40 ára. Kvæntur og auk konu lætur hann eftir sig 5 börn á aldrinum 5-14 ára. Guðjón Sigurðsson, 2. vélstjóri, Freyjugötu 24, 65 ára. Lætur eftir sig konu og uppkomin börn. Birgir Gunnarsson, matsveinn, Nökkvavogi 31, 20 ára. Ókvæntur. Var í foreldrahúsum. Magnús Ragnar Pétursson, háseti, Hávallagötu 13, 46 ára. Ókvæntur. Jónbjörn Sigurðsson, háseti, Gnoðarvogi 32, 19 ára. Var hjá foreldrum sínum og er elztur 10 systkina. Kristján Friðbjörnsson, háseti, 27 ára, til heimilis austur á Vopnafirði. Davíð Sigurðsson, háseti, Samtúni 32, 23 ára. Elztur 5 syskina. Einar Björnsson, aðstoðarmaður, frá Vopnafirði, 30 ára. Helgi Vattnes Kristjánsson, aðstoðarmaður í vél, Þinghólsbraut 23, Kópavogi, 16 ára. Var hann á heimili foreldra sinna.
Skip það, sem minnzt er á í tilkynningu Landhelgisgæzlunnar að Hermóður hafi haft samband við um kl. 4 í fyrrinótt, er flutningaskipið Vatnajökull, en hann hafði nokkrum klukkustundum áður farið fyrir Reykjanes. Einnig hafði þar farið um á leið til Reykjavíkur, strandferðaskipið Esja, sem fór kl. 3,30 á þriðjudaginn frá Vestmannaeyjum, en vitaskipið Hermóður fór þaðan kl. 4 þennan sama dag. Brak það, sem fannst við Kalmanstjörn, var björgunarbátur frá Hermóði og léttbáturinn, en báðir voru bátarnir lítt brotnir er þeir fundust þar í fjörunni. Að áliti siglingafróðra manna, mun Hermóður hafa verið kominn í gegnum Reykjanesröstina, er slysið bar að höndum. Um það leyti, sem frá Hermóði heyrðist, var vindur og sjór orðinn suð- vestanstæður á þessum slóðum. Telja þessir sömu menn það sennilegast, að hnútur hafi komið á skipið og fært það á kaf. Gizkað er á, að skipið hafi verið 2,5-3 sjómílur undan ströndinni.
Vitaskipið Hermóður var viðurkennt sjóskip, þó ekki væri það stærra en 200 lestir. Skipið var byggt í Svíþjóð 1947 fyrir vitamálastjórnina, en auk þess að vera á vegum hennar, hefur Hermóður verið við landhelgisgæzlu. Hefur skipið t. d. verið undanfarin ár á miðum Vestmannaeyjabáta á vetrarvertíðum og verið bátaflotanum til ómetanlegs gagns, sagði fréttaritari Mbl. í Vestmannaeyjum. Ólafur G. Jóhannesson skipstjóri, hefur verið stýrimaður á Hermóði frá því skipið kom og hefur hann ætíð farið með skipstjórn á Hermóði þá er Guðni Thorlacius skipstjóri, hefur verið í orlofi, og svo var nú. Ólafur var að þeirra dómi er bezt þekkja, mjög traustur skipstjóri. Aðrir yfirmenn skipsins áttu að baki sér lengri eða skemmri feril hjá Landhelgisgæzlunni eða á skipum Skipaútgerðarinnar. Geta má þess og að Guðjón Sigurðsson, vélstjóri, Freyjugötu 24, hætti vélstjórastarfi á Hermóði í haust er leið, vegna aldurs, en var í afleysingum nú. Hann hafði áður verið vélstjóri á Hermóði allt frá því skipið kom til landsins, en þar áður var hann á gamla Hermóði. Geta má þess og að hinn reglulegi matsveinn Hermóðs er í sjúkrahúsi um þessar mundir.
Sterkar líkur þykja benda til, að vitaskipið Hermóður hafi farizt um sjö sjómílur fyrir norðan Reykjanes á tæplega 100 metra dýpi. Blöðunum var afhent um þetta svofelld fréttatilkynning frá Landhelgisgæzlunni: "Eins og kunnugt er, þá hefur Landhelgisgæzlan undanfarna daga verið að leita að, hvar vitaskipið Hermóður muni hafa farizt. Ennþá er ekkert fullvíst í því efni, en sterkar líkur benda þó til, að skipið hafi sokkið um 4,5 sjómílur vestur frá Höfnum, á tæplega 100 metra dýpi, eða um 7 sjómílum fyrir norðan Reykjanes. Á þessum slóðum hefur orðið vart við olíu á sjónum á sama stað í fleiri daga, og dýptarmælar hafa sýnt þar ójöfnu (þúst) á botninum, sem annars er rennisléttur. Í leitinni hafa tekið þátt varðskipin Þór, er fyrstur varð var við olíublettinn, María Júlía, er varð vör við þústina, svo og Ægir og gæzluflugvélin Rán. Leitinni mun verða haldið áfram eftir aðstæðum". Í fréttatilkynningu Landhelgisgæzlunnar segir ennfremur, að öll 3 róðraduflin í Faxaflóa, nefnilega 2 út af Garðskaga og 1 út af Akranesi, hafa slitnað upp í óveðrunum undanfarið. Tvö þeirra eru þegar fundin.

Morgunblaðið. 19 febrúar 1959.
Sjómannabl. Víkingur. 1 mars 1959.

17.02.2017 12:47

70 ár frá því fyrsti Nýsköpunartogarinn kom til landsins.

Togarinn  Ingólfur Arnarson, er stærsti og glæsilegasti togarinn, sem Íslendingar hafa enn eignast. Hann er fyrsta skipið af þrjátíu, sem samið var um smíði á í Bretlandi, í október 1945, fyrir milligöngu Nýbyggingarráðs og íslensku ríkisstjórnarinnar. Skipið ef smíðað hjá skipasmíðastöð Mrss Cochrane & Sons, Ltd. Í Selby. Er það fyrsta skipið af átta, sem samið var um í þeirri smíðastöð. Það er smíðað samkvæmt ströngustu reglum flokkunarfjelagsins Lloyds í Bretlandi (+ 100 A L) og þó nokkuð styrkara, þar sem það þótti nauðsynlegt, vegna íslenskrar vetrarverðráttu. Lengd þess er 175 fet, breidd 30 fet og dýpt 16 fet. Það er 642 br rúmlestir og 216 nettó rúmlestir. Burðarmagn þess er 500 smálestir með 81 cm borð fyrir báru. Bolurinn er hólfaður í sundur með 7 vatnsþjettum skiljum, en alls eru í skipinu 20 vatnsheld hólf.


Ingólfur Arnarson RE 201 á ytrihöfninni.                                                Mynd úr Morgunblaðinu.  

Botn þess er tvöfaldur frá vjelarúmi og fram úr, og skiptist í geyma fyrir olíur, vatn og lýsi, þannig, að vatnsgeymar eru fyrir 60 smál. olíugeymar fyrir 245 smál. og lýsisgeymar fyrir 20 smál. Slík skipting bolsins í vatnsheld hólf, skapar margfalt öryggi fyrir skipið, ef það mætir áföllum af völdum veðurs, árekstra eða strands. Framrúmi er skipt í tvö fiski rúm, en þeim aftur skipt í 12 stíur, sem hver er útbúin með 4 hillum. Rúmar skipið þannig 300 smál. af ísfiski. Stærð þeirra er alls 45 þús. teningsfet. Eru þau öll þiljuð vatnsþjettri viðarsúð. Fyrir framan fiskirúmin er stór veiðafærageymsla, með hillum og skápum. Aðgangur er í hana frá þilfari.
íbúðir skipverja eru sem hjer segir: í stafni skipsins eru íbúðir og hvílur á tveimur hæðum fyrir 24 menn alls. Á neðri hæðinni er klefi fyrir 16 menn, og er það rúm mun stærra en áður var í eldri skipum, ætlað 24 mönnum. Á efri hæð er klefi fyrir 8 menn. En þess utan er þar setustofa sameiginleg fyrir hásetana, útbúin með borðum og bekkjum.


Ingólfur Arnarson RE 201 að koma til hafnar.                                           Mynd úr Morgunblaðinu.  

Á þennan hátt geta þeir, sem frí eiga frá störfum, hvílt sig í næði, án þess að vera truflaðir af umgangi þeirra, sem við störf eru. Hverri hvílu fylgir sjerstakur geymsluskápur fyrir föt o. fl. og setubekkir eru meðfram öllum hvílum. Aðeins tvær hvíluraðir eru í hæðinni, í stað þriggja í gömlu skipunum, og því bæði loftrými og gólfflötur meiri fyrir hvern mann en áður þekktist. Út frá setustofunni og innan gengt úr henni, er baðherbergi og hreinlætisklefi fyrir skipverja, svo er sjerstakur klefi til að þurka og geyma í yfirhafnir og hlífar skipverja. Þar eru og tvö vatnssalerni. Í skut skipsins eru einnig íbúðir á tveimur hæðum. Á neðri hæðinni er sameiginlegt anddyri fyrir íbúðirnar á þessari hæð, með stiga á milli hæðanna. Fyrir aftan það er salur með 6 hvílum, borðum og legubekkjum. "Fyrir framan anddyrið er herbergi tveggja kyndara, með hvílum og bekkjum. Sitt til hvorrar hliðar eru tvö herbergi, annars vegar fyrir yfir og undirvjelstjóra, hins vegar fyrir yfir og undirstýrimann. Öll herbergi á þessari hæð eru útbúin með hvílum, stoppuðum og klæddum legubekkjum, borðum og skápum, en þiljur allar af gljáðum harð- viði. Á efri hæð er matsalur með borðum og bekkjum, nægilega stór fyrir alla skipshöfnina, með búri, skápum og matvælageymslum.


Ingólfur Arnarson RE 201 leggst við Miðbakkann.                                        Ljósmyndari óþekktur.  

Þar er og baðherbergi, hreinlætisklefi, tvö vatnssalerni og þurkklefi fyrir yfirhafnir. Er þessu komið fyrir til hliðar við borðsalinn og innangengt úr honum í alla þessa klefa. Fyrir framan borðsalinn er rúmgott eldhús, með borðum, hillum og skápum og olíukynntri eldavjel. Samgangur er á milli borðstofu og eldhúss, Þar er og kæliklefi fyrir vistir, svo skipverjar geti jafnan haft nýmeti á borðum. Inngangur á þessa hæð er frá báðum hliðum og frá bátaþilfari, en samgangur til vjelarúms. Fremst í reisn er herbergi skipstjóra, með hvílu, legubekkjum, borði, stólum og fatask. allt af gljáðum harðviði. Þar fyrir aftan er baðherbergi, hreinlætisklefi og vatnssalerni. Samgangur er milli herbergis skipstjóra og stýrishúss, sem komið er fyrir á næstu hæð ásamt loftskeytaklefa og kortahúsi. Íbúðir allar eru hitaðar upp með olíukynntum miðstöðvarvjelum. Er dælt um þær allar tæru lofti eftir vild. Er það hvorttveggja nýjung frá því  sem áður hefur verið. Alls eru í skipinu íbúðir og hvílur fyrir 38 menn. Á bátapalli að aftan er komið fyrir við "patent" uglur tveim bjargbátum, útbúnum að öllu leyti  eftir ströngustu reglura um öryggi. Í reisn skipsins, yfir vjelarúmi, er komið fyrir lifrarbræðsluklefa. Verður þar komið fyrir bræðslutækjum af nýrri gerð, sem smíðuð eru hjerlendis að fyrirsögn Ásgeirs Þorsteinssonar, verkfræðings.


Gunnar Thoroddsen borgarstjóri heldur ræðu af brúarvæng togarans.               Ljósmyndari óþekktur.

Skipið er útbúið með 1300 hestafla eimknúinni aðalvjel, er knýr það rúmar 13 mílur á klst. Er hún af hinni venjulegu þríþenslu tegund, gerð fyrir að nota yfirhitaðan eim, en þó endurbætt á margvíslegan hátt frá því sem áður hefur þekkst í togurum. M.a. er loftdæla vjelarinnar ekki sambyggð með henni, eins og venja er til, heldur er hún sjerstæð og rafknúin. Á þann hátt er ávalt hægt að halda uppi fullu sogafli, bæði fyrir aðalvjel og togvindu, hvort sem aðalvjelin er í hægum eða fullum gangi eða alveg stöðvuð. Er þetta mjög mikill eldsneytissparnaður og Ijettir mikið gang bæði aðalvjelar og togvindu, og fer miklu betur með þær vjelar báðar, í meðferð. Er hjer að ræða um algjörlega nýjung í togurum. Eimketill skipsins er smíðaður fyrir 225 lbs. þrýsting. Hitaflötur hans er 2800 ferfeta. Hann er kyntur með olíu í stað kola, og sparast því alt það erfiði og óþrifnaður, sem áður fylgdi kyndingu, kolamokstri, eldhreinsun og öskuburði. Mun margur gleðjast yfir þeim umbótum. Aðalvjel og ketill er smíðað hjá Mrss Amos & Smith. Ltd., Hull. Settu þeir einnig niður allar vjelar í skipið. Ketillinn er útbúinn með yfirhitunarkerfi, frá Superheater Co., og loftþrýstivjelum frá Howdensverksmiðjum, sem dæla upphituðu lofti inn í eldkolin. Olíukyndingarvjelarnar eru smíðaðar hjá Walsend Shipway & Engineering Co., sem smíðuðu allar vjelarnar í herskipið Hood.


B.v. Ingólfur Arnarson RE 201.       (C) Snorri Snorrason. Úr safni Hauks Sigtryggs Valdimarssonar.   

Eru þær allar rafknúnar. Loftdælan og eimvatnsdælurnar eru rafknúðar sjerdælur, smíðaðar af Weirs-verksmíðjunum, en kælidælur, þilfarsdælur, austurdælur og aðrar sjerdælur, af Qroysdale-verksmiðjunum, og eru þær einnig allar rafknúðar. Er dælukerfið þannig útbúið, að þótt bæði kælidæla, aðalvjelar og loftdæla bili, má nota aðalvjel með 80% afli, sem er afarmikið öryggi fyrir skipið og algert nýmæli. Ný tegund vökvastýrisvjela, smíðuð hjá Donkin & Co. er tengd beint við stýrið, en virkt frá stýrishúsi. Öllum stýristaumum er því sleppt, og er það bæði til öryggis og þæginda. Ganga vökvadælurnar fyrir raf orku. Er þetta einnig nýmæli. Akkersvinda, tvöföld, smiðuð af Clark Chopman, og alveg sjerstaklega gerð fyrir íslenska togara, er rafknúin. Getur hún lyft báðum akkerum í einu á 15 faðma dýpi. Togvinda skipsins er eimdrifin. Er það eina aukavjelin, sem drifin er þannig'. Hún er 300 hestöfl að stærð, gerð fyrir 1200 faðma á hvert kefli. Er hún smíðuð af C. D. Holmes & Co., Hull, og margvíslega endurbætt frá fyrri tegundum. Þá eru í skipinu 2 dieselvjelar, hvor 120 hesta, með átengdum 80 kw rafal, sem framleiða raforku fyrir allar aukavjelar og til Ijósa. Eru vjelar þessar smíðaðar hjá Ruston Hornsby & Co. En auk þess er ein 5. kw samstæða frá sömu verksmiðju, sem nota má til ljósa í höfnum. Skipið er útbúið með talstöð, loftskeytastöð og miðunarstöð frá M. P. Pedersen, Kbh., tveimur dýptarmælum Fathometer & Huges, sem bæði sjálfrita og senda neista, eftir vild, einnig með rafmagnshraðamæli, rafmagnsvjelsíma, " sjerstakri gerð áttavita, Radartækjum og öðrum nýtísku áhöldum. Þegar hinn valinkunni skipstjóri, Jóhann Pjetursson, var að lýsa fyrir blaðamönnum hinu glæsilega skipi sínu "Gylfa", fyrir nokkrum dögum, fjellu honum af munni þessi orð: "Ingólfur Arnarson er listasmíð. Þar er saman"komið allt, sem íslenskir og breskir útgerðarmenn og sjómenn geta óskað sjer". Betur verður þessu skipi ekki lýst. Hið glæsilega skip er árangur af samstiltum vilja þeirra manna allra, sem metið hafa verk ykkar sjómannanna undan farin mörg og erfið ár, til þess að mæta óskum ykkar og vonum um betra og öruggara far. Velkominn býð jeg Ingólf Arnarson að landi. Enn mun hjer með honum hefjast nýtt landnám, nýir möguleikar, nýir og betri tímar fyrir land og lýð, Þjer allir, sem mál mitt megið heyra, gefið honum blessun ykkar. Felið hann Guði og góðum vindum í bænum ykkar fyrr og síðar.

Morgunblaðið. 18 febrúar 1947.

16.02.2017 21:31

1047. Elding MB 14. TFAZ.

Björgunarskipið Elding MB 14 var smíðuð í Stálskipasmiðjunni í Kópavogi árið 1967 fyrir Hafstein Jóhannsson kafara Þaravöllum Innri Akraneshreppi. 107 brl. 2 x 510 ha. MWM díesel vélar. 15 desember 1970 var Fiskveiðasjóður Íslands eigandi skipsins, hét þá Hafaldan MB 14. Selt 22 október 1971, Einari Gíslasyni og Guðjóni Gíslasyni í Sandgerði, hét Arnarborg GK 75 og var gert út á fiskveiðar. Selt 31 desember 1976, Söltunarfélagi Dalvíkur h/f á Dalvík, hét Arnarborg EA 316. Selt 23 september 1981, Köfunarþjónustunni h/f í Reykjavík, hét Arnarborg RE. Frá 13 ágúst 1984 hét skipið Orion og skráð sem dráttarbátur. Nýjar vélar (1984) 2 x 520 ha. Caterpillar, samtals 746 Kw. Skipið var skráð sem dráttar og skemmtiskip til ársins 2000. Heitir í dag Elding og er í eigu Hvalaskoðun Reykjavíkur ehf sem skemmti og Hvalaskoðunarskip.

Björgunarskipið Elding MB 14.                                                              (C) Hafsteinn Jóhannsson. 


Elding MB 14.                                                                                     (C) Hafsteinn Jóhannsson.


Hvalaskoðunar og skemmtiskipið Elding.                                                 (C) Þórhallur S Gjöveraa.


                  Elding MB 14

Í Stálskipasmiðjunni í Kópavogi hittum við að máli þá Ólaf H. Jónsson forstjóra og Pétur Jósepsson skrifstofumann hans og röbbuðum við þá nokkra stund og skoðum fyrirtækið. Stálskipasmiðjan er um  þessar mundir að vinna að björgunarskipi, eða aðstoðarskipi Hafsteins Jóhannssonar kafara, en hann hefir sem kunnugt er lengi unnið við að hjálpa síldveiðiflotanum, er skipin lenda í vandræðum með síldarnæturnar.
Þetta skip er þriðja verk Stálskipasmiðjunnar, en fyrir nokkru hljóp myndarlegt fiskiskip af stokkunum hjá smiðjunni. Bátur Hafsteins verður um 100 tonn að stærð, en nauðsynlegt er að björgunarskip sem þessi séu svo stór að þau geti fylgt síldveiðiflotanum hvert sem er, en hann fer nú sem kunnugt er allt suður í Norðursjó og norður undir Jan Mayen, auk þess að vera vetur jafnt sem sumar kringum allt Ísland. Skip þetta er með nokkuð sérstæðu byggingarlagi og gert svo að hægt sé að sigla því með miklum hraða og áætlað er að það gangi að minnsta kosti 18 mílur. Það verður búið tveimur 510 hestafla vélum. Línuteikningar þessa skips gerði Guðmundur Kristinsson, en Ólafur gerir allar fyrirkomu lags og vinnuteikningar þess.

Morgunblaðið. 5 mars 1966.

15.02.2017 20:31

150. Margrét SI 4. TFUW.

Margrét SI 4 var smíðuð hjá V.E.B. Schiffswerft í Stralsund í Austur Þýskalandi árið 1958. 249 brl. 800 ha. MWM díesel vél. Eigandi var Útver h/f á Siglufirði frá 18 september 1959. Skipið var selt 27 október 1971, Haraldi H Jónssyni og Jóni G Hafdal í Hafnarfirði. Selt 21 desember 1971, Gylfa h/f í Neskaupstað, skipið hét Víglundur NK 124. Selt 10 janúar 1973, Hlutafélaginu Eyrum á Seyðisfirði, skipið hét Emilý NS 124. Selt 2 desember 1977, Magnúsi H Gíslasyni í Garðabæ, skipið hét Goðanes RE 16. Frá 27 mars 1979 hét skipið Ólafur Gísli RE 16, sami eigandi. Frá 17 janúar 1980 hét skipið Sporður RE 16, eigandi talinn Fiskuggi h/f í Reykjavík. Skipið var talið ónýtt og tekið af skrá 1 desember árið 1981.
Margrét SI 4.                                                                                      (C) Hafsteinn Jóhannsson.


Margrét SI 4.                                                                                      (C) Hafsteinn Jóhannsson.


Fyrirkomulagsteikning af "Tappatogara"                                                                      (C) HRB.

          Nýtt skip komið til Siglufjarðar

                      Margrét SI 4

Á miðvikudaginn kom hingað til Siglufjarðar eitt hinna austur- þýzku togskipa, sem byggð voru fyrir atbeina fyrrverandi ríkisstjórnar. Skipið heitir Margrét, einkeningsstafir þess eru S.I. 4. Eigandi skipsins er Útver h/f, en framkvæmdastjóri þess er Árni Friðjónsson, en formaður félagsstjórnarinnar er Vigfús Friðjónsson. Stærð skipsins og vélaútbúnaður er að engu frábrugðinn frá hinum austur-þýzku skipunum, sem áður voru komin, nema Margrét er útbúin með sjálfstýringu.
Var sá útbúnaður settur í skipið í Kaupmannahöfn. Vélin er 800 ha. Mannheim dieselvél. Radar er ekki kominn í skipið, en von er á Decea-radar, nýrri gerð, sem settur verður í það strax þegar hann kemur. Skipið fór frá Stralsund 21. janúar til Kaupmannahafnar, en þar var sett í það sjálfstýringin, miðunarstöð og talstöðvar, en þær eru þrjár. Þá kom í ljós leki með stefnisröri, og var þá farið aftur til Stralsund og gert þar við lekann. Þaðan var lagt var stað heim 12. febrúar. Skipstjóri á Margréti er Helgi Jakobsson. Sigldi hann skipinu hingað frá Þýzkalandi.
Þegar á fyrsta degi eftir brottförina frá Stralsund hreppti skipið slæmt veður, sem hélzt síðan alla leiðina. Gizkaði skipstjórinn á, að þegar það var verst, hafi vindhraðinn náð 12-13 vindstigum. Reyndist skipið í alla staði hið bezta sjóskip, og mun meðal ganghraði þess hafa verið um 11 mílur. Norður af Shetlandseyjum heyrðu skipverjar á Margréti hjálparbeiðni frá vélbátnum Gullver NS 12. Er það nýr 70 lésta bátur, sem var á leið til Seyðisfjarðar frá Danmörku. Hafði brotnað tannhjól í kælivatnsdælu vélarinnar og rak bátinn fyrir sjó og vindi. Flutningaskipið Jökulfell var á sömu slóðum, en tókst ekki þrátt fyrir nákvæma staðarákvörðun Gullvers að finna hann.
Brá Margrét þá við til aðstoðar bátnum, en hún er búin mjög fullkomnum miðunartækjum, enda fann hún bátinn innan skamms. Setti hún vír yfir í Gullver og hugðist reyna að draga hann til hafnar í Færeyjum, en báturinn slitnaði fljótlega aftan úr, enda ekki nægilega sterk dráttartaug til um borð í Margréti. Varð það þá úr, að Margrét aðstoðaði Jökulfell við að finna bátinn, og síðan dró Fellið hann til hafnar í Klakksvík í Færeyjum. Gerðist ekki fleira sögulegt á leiðinni. Stýrimaður á Margréti, er Halldór Hallgrímsson, en 1. vélstjóri er Björn Jónsson. Gert er ráð fyrir, að skipið fari á veiðar eftir nokkra daga. Mun það leggja upp afla sinn hjá hraðfrystihúsi S.R. hér á Siglufirði.
Áhöfn skipsins á veiðum verður 14 manns. Bæjarbúum var boðið að koma um borð og skoða skipið kl. 2 í gær. Notfærðu margir sér það boð og þáðu veitingar. Íbúðir skipverja, sem eru fyrir 21 mann, eru hinar glæsilegustu, og virðist aðbúnaður skipverja vera mjög góður.
Menn vænta þess, að koma þessa skips verði til þess að gera atvinnulífið hér mun traustara en það hefur verið undanfarin ár, einkum þó til að bæta úr atvinnuleysinu, sem hér hefur oft verið tilfinnanlegt yfir vetrarmánuðina. Tilvera Siglufjarðar byggist einvörðungu á útgerð og vinnslu sjávarafla, og því fleiri skip, sem héðan eru gerð út og leggja upp afla hér, því meiri horfur eru á, að hér verði vaxandi bær með blómlegt athafna og menningarlíf.
Mjölnir óskar eigendum og áhöfn skipsins til hamingju í tilefni af komu þess hingað, og góðs farnaðar í framtíðinni.

Mjölnir. 20 febrúar 1959.

14.02.2017 17:29

B. v. Júní GK 345. TFPD.

Júní GK 345 var smíðaður hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1951 fyrir Bæjarútgerð Hafnarfjarðar, hét Höfrungur á smíðatíma. Smíðanúmer 735. 732 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Togarinn var seldur til Grikklands 26 júní árið 1964.

129. Júní GK 345.                                                                                      (C) George Wiesman. 


B.v. Júní GK 345.                                                                             (C) Sigurgeir B Halldórsson.


          Hinn nýi togari Bæjarútgerðarinnar

          Júní kominn til Hafnarfjarðar

Júní, hinn nýi togari Bæjarútgerðar Hafnarfjarðar lagðist í fyrsta skipti að bryggju í Hafnarfirði s.l. þriðjudag. Þessi nýi togari Hafnfirðinga er eitt hið glæsilegasta fiskiskip, sem til bæjarins hefir komið, enda var bæjarbúum tíðförult niður á gömlu bryggju, til að skoða hið myndarlega skip. Eins og kunnugt er, er Júní einn þeirra 10 togara, sem ríkisstj. Stefáns Jóh. Stefánssonar samdi um smíði á í Bretlandi á sínum tíma. Hann er smíðaður hjá skipasmíðastöðinni Alexander Hall Ltd. í Aberdeen og er líkur að gerð og Júlí, nema hvað hann er 10 fetum lengri, en breidd og dýpt hin sama. Er Júní um 30 tonnum stærri en eldri nýsköpunartogararnir. Ganghraði skipsins mun vera 13-14 mílur. Júní er útbúin hinum beztu og fullkomnustu tækjum. Það sem gerir Júní verulega frábrugðin eldri nýsköpunartogurunum er fiskimjöls verksmiðja. Mun hún eiga að geta unnið úr 25 tonnum af hráefni á sólarhring, og tryggir þannig betri og fullkomnari hagnýtingu aflans. Nokkrir byrjunarörðugleikar hafa komið í ljós í sambandi við fiskimjölsvélar skipsins, en góðar vonir standa til þess að hægt verði að bæta úr því fljótlega.
Júní hafði fengið heldur slæmt sjóveður frá Aberdeen til Hafnarfjarðar, og létu skipstjóri og skipverjar vel yfir sjóhæfni skipsins og virtust hinir ánægðustu með þetta fríða fley, enda má hiklaust fullyrða, að Júní sé nú einn vandaðasti togarinn í íslenzka fiskiskipaflotanum. Skipstjóri á Júní er Benedikt Ögmundsson, sem áður var skipstjóri á Júlí. Fyrsti stýrimaður er Árni Sigurðsson og fyrsti vélstjóri Reynir Guðmundsson, en þeir voru báðir einnig á Júlí. Þá munu flestir aðrir skipverjar Benedikts af Júlí fara með honum á Júní. Mestur hluti skipshafnar Eyjólfs Kristinssonar af togaranum Maí fór með honum á Júlí, þegar hann tók þar við skipstjórn fyrir skömmu.
Með kaupum hins nýja togara hefir Bæjarútgerð Hafnarfjarðar sýnt myndarlegt átak við að auka skipastól sinn og skapa aukinn grundvöll fyrir vaxandi atvinnu í bænum. Bæjarbúar fagna því innilega, að þessum nýja áfanga í atvinnu og útgerðarmálum bæjarins skuli vera náð. Það vildi svo til, að þann sama dag og Benedikt Ögmundsson, skipstjóri sigldi hinu glæsilega skipi í fyrsta sinn í höfn í Hafnarfirði 13. marz s.l., átti hann 20 ára skipstjórnarafmæli. En eins og bæjarbúum er kunnugt, varð Benedikt skipstjóri á fyrsta Bæjarútgerðartogaranum Maí, þegar hann var keyptur í bæinn 1931. Hefir hann þannig verið skipstjóri á skipum Bæjarútgerðarinnar í samfleytt 20 ár.
Hann hefir aflað sér álits og trausts sem fengsæll aflamaður og dugmikill skipstjóri, og ávallt verið mjög vel látinn meðal þeirra sjómanna, sem unnið hafa undir hans stjórn. Bæjarútgerðin sýndi þessum reynda skipstjóra og aflamanni það traust, að fela honum skipstjórn á hinum nýja og dýra togara Hafnfirðinga. Það má vissulega með sanni segja, að á hinum fyrstu og erfiðu árum Bæjarútgerðarinnar, hafi það verið fyrst og fremst atorka, dugnaður, þekking og útsjónarsemi forstjórans Ásgeirs G. Stefánssonar, og fengsælni og dugnaður skipstjórans á Maí, Benedikts Ögmundssonar, sem fleyttu Bæjarútgerð Hafnarfjarðar yfir þær torfærur og næstum óyfirstíganlega erfiðleika, sem á vegi hennar voru, á fyrstu starfsárunum. Þótt lengi vel hafi staðið nokkur styr um Bæjarútgerðina og bæjarbúar þar ekki allir á einu máli, þá mun það nú vafalaust gleðja alla bæjarbúa, að nýr og glæsilegur togari hefir nú bæzt í fiskiskipaflota Hafnfirðinga. Og óhætt er að fullyrða að bæjarbúar hefðu ekki kosið sér aðra afmælisgjöf frá Bæjarútgerðinni á 20 ára afmælinu en einmitt hinn nýja og fullkomna togara.

Alþýðublað Hafnarfjarðar. 17 mars 1951.

13.02.2017 17:50

1395. Kaldbakur EA 301. TFBC.

Kaldbakur EA 301 var smíðaður hjá Astillaros Luzuriaga í Pasajes San Juan á Spáni árið 1974. 941 brl. 2 x 1.420 ha. MaK díesel vélar, 1.044 Kw hvor um sig. Eigandi var Útgerðarfélag Akureyringa h/f á Akureyri frá 22 ágúst sama ár. Árið 1999 fær skipið skráninguna EA 1. Selt Brim h/f árið 2004, sama nafn og númer. Árið 2009 fær skipið nafnið Sólbakur EA 1. Selt árið 2011, Útgerðarfélagi Akureyringa h/f á Akureyri, fær aftur sitt gamla nafn. Í janúar á þessu ári (2017) fær skipið nafnið Sólbakur EA 301, því nýtt skip, Kaldbakur EA 1 sem er í smíðum í Tyrklandi er væntanlegur til landsins nú í vor.


1395. Kaldbakur EA 301.                                                                              (C) Snorri Snorrason.


1395. Kaldbakur EA 1.                                                          (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


Fyrirkomulagsteikning af Spánartogara af stærri gerð. Systurskipið Snorri Sturluson RE 219.


                 Kaldbakur EA 301

19. desember s.l. kom skuttogarinn Kaldbakur EA 301 til heimahafnar sinnar, Akureyrar, í fyrsta sinn. Kaldbakur EA er 4. skuttogarinn sem Útgerðarfélag Akureyringa h. f. eignast og fljótlega mun sá 5. bætast við, Harðbakur EA. Kaldbakur EA er smíðaður hjá spönsku skipasmíðastöðinni Astilleros Luzuriaga S. A., Pasajes de San Juan og er smíðanúmer 313. Áður hafði stöðin smíðað fjóra skuttogara fyrir Íslendinga eftir sömu teikningu. Fyrsti skuttogarinn af þessari gerð var Bjarni Benediktsson RE 210 (sjá 2. tbl. '73), en hinir þrír eru Júní GK, Snorri Sturluson RE og Ingólfur Arnarson RE. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á Kaldbak frá fjórum fyrstu og má þar helzt nefna véla og vindubúnað, sem er af annarri gerð.
Skuttogarinn er byggður skv. reglum Lloyd's Register of Shipping og flokkað +100 Al, Stern Trawler, Ice Class 3, + LMC. í 11. tbl. Ægis 1973 er fyrirkomulagsteikning af þessari skuttogaragerð, sem er með tvö heil þilför stafna á milli, lokaðan hvalbak fremst á efra þilfari og yfirbyggingu á tveimur hæðum aftast á hvalbaksþilfari, íbúðarhæð og brú. Undir neðra þilfari eru fremst hágeymar fyrir sjó kjölfestu og brennsluolíu; fiskilest með botngeymum undir lest fyrir brennsluolíu; vélarúm og aftast geymar fyrir brennsluolíu og ferskvatn. Á neðra þilfari eru íbúðir, vinnuþilfar, fiskmóttaka, stýrisvélarrúm, veiðarfærageymslur o. fl. Í hvalbak er geymsla, íbúðir og klefi fyrir togvindumótor. Aftarlega á togþilfari eru þilfarshús út í síðum, en þar eru geymslur o. fl. Samtals eru íbúðir fyrir 31 mann, sem samanstanda af 11 eins manns klefum, 7 tveggja manna og einum 6 manna klefa. Að auki er svo sjúkraklefi með tveimur hvílum.
Skipið er búið tveimur aðalvélum frá MAK, gerð 6M 452 AK, og skilar hvor um sig 1420 hö við 410 sn/mín. Niðurfærslugír er frá Renk, gerð ASL2xl00 S með niðurfærslu 2:1. Skiptiskrúfubúnaður er frá Kamewa, skrúfa 4ra blaða, þvermál 3100 mm. Inn á gírinn tengjast tveir 550 KVA, 3x380 V, 50 Hz riðstraumsrafalar frá Indar, hvor rafall. Riðstraumsmótor, 550 hö að stærð, knýr 355 KW, 440 V jafnstraumsrafal, sem sér rafmótor togvindu fyrir orku. Omformer þessi er frá AEG. Hjálparvélar eru tvær frá MWM, gerð TD-232-V12, 256 hö við 1500 sn/mín. Við hvora vél er Indar riðstraumsrafall, 200 KVA, 3x380 V, 50 Hz. Af öðrum vélabúnaði má nefna ferskvatnsframleiðslutæki frá Atlas, gerð AFGU 3, afköst 10 tonn á sólarhring og austurskilvindu frá Akers sem afkastar 10 tonn á sólarhring. Stýrisvél er frá Brusselle, gerð HSCE. 185R, snúningsvægi 14,2 tm við 35° útslag.

Ægir. 1 janúar 1975.

12.02.2017 17:09

398. Byr NK 77.

Byr NK 77 var smíðaður í Skipasmíðastöð Mersellíusar Bernharðssonar á Ísafirði árið 1955. Eik. 17 brl. 72 ha. June Munktell vél. Eigandi var Haraldur Hjálmarsson útgerðarmaður í Neskaupstað frá 1 júní sama ár. Ný vél (1958) 162 ha. MWM díesel vél. Seldur 17 desember 1960, Sigurbirni Kristjánssyni, Sigtryggi Kristjánssyni og Kristjáni Sigurjónssyni á Húsavík, báturinn hét Fanney ÞH 130. Ný vél (1970) 162 ha. MWM díesel vél. Seldur 10 apríl 1976, Pálma Karlssyni á Húsavík, hét Helga Guðmundsdóttir ÞH 133. Seldur 29 mars 1978, Húnaröst h/f á Skagaströnd, báturinn hét Húni HU 2. Seldur 14 september 1981, Karel Karelssyni og Gunnari Jónssyni í Hafnarfirði, hét Haftindur HF 123. Seldur 5 nóvember 1982, Eggert Björnssyni og Ásgeiri Árnasyni í Stykkishólmi, hét Gísli Gunnarsson ll SH 85. Frá 7 janúar 1987, hét báturinn Gísli Gunnarsson ll SH 285. Hann var talinn ónýtur og tekinn af skrá 1 október árið 1987.


Byr NK 77 nýsmíðaður á Ísafirði árið 1955.                                                  (C) Áslaug Helgudóttir.

                       Nýr bátur

Í fyrradag bættist norðfirzka flotanum nýr fiskibátur. Nefnist hann "Byr" og eru einkennisstafir hans N. K. 77. Eigandi bátsins er Haraldur Hjálmarsson, útgerðarmaður. "Byr" var smíðaður í skipasmíðastöð Marselliusar Bernhardssonar á Ísafirði og er 24. báturinn, sem stöðin smíðar. Kaupverð bátsins hefur ekki verið gert upp endanlega, en mun vera um 400 þús. kr. Stærð bátsins mældist 16.82 lestir. Í honum er June-Munktell diesel vél fjögurra strokka 64-72 ha. Í bátnum er svokallað þingeyrarspil, vökvadrifið og flestir hlutir úr járni s. s. dæla og stýrisútbúnaður, var smíðað á Þingeyri. Byr fór í fyrsta róðurinn í gærkvöld, með færi, en mun síðar róa með línu. Austurland óskar Haraldi Hjálmarssyni til hamingju með bátinn.

Austurland. 17 júní 1955.


11.02.2017 11:50

B. v. Arinbjörn hersir RE 1. LBFJ / TFDC.

Arinbjörn hersir RE 1 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1917 fyrir breska flotann, hét hjá þeim John Pasco. 321 brl. 550 ha. 3 þennslu gufuvél. Eigandi var h/f Kveldúlfur í Reykjavík frá árinu 1924. Skipið var selt 27 júní 1944, Óskari Halldórssyni, Guðríði Ernu Óskarsdóttur og Guðrúnu Óskarsdóttur í Reykjavík, skipið hét Faxi RE 17. Selt 29 nóvember 1944, Hlutafélaginu Faxakletti í Hafnarfirði. Í ársbyrjun 1952 sleit togarann upp í ofsaveðri frá legufærum í Hafnarfirði og rak mannlausan framhjá boðum og skerjum, inn á sléttan fjörusand upp í Borgarfirði, þar sem hann náðist síðar út, lítið skemmdur. Seldur til niðurrifs og tekið af skrá 27 september árið 1952.

 
B.v. Arinbjörn hersir RE 1.                                                                   (C) Guðbjartur Ásgeirsson. 
 
Arinbjörn hersir RE 1.                                                                                    Ljósmyndari óþekktur.
 
Skip Óskars Halldórssonar útgerðarmanns og síldarsaltanda, Sigríður GK 21 og Faxi RE 17. Einnig má sjá Óskar á myndinni lengst til hægri.         Úr safni Guðrúnar Ólafsdóttur.
 
                Arinbjörn hersir og Snorri goði 
           bjarga 400 mönnum af frönsku skipi 
 

16. þ. m. voru togararnir Arinbjörn hersir og Snorri goði staddir í Írlandshafi og sáu þá flugvél sökkva stóru skipi með sprengju skammt frá togurunum. Kom upp mikill eldur í skipinu eftir árás flugvélarinnar. Strax og flugvélin hafði yfirgefið hið brennandi og sökkvandi skip, lögðu togararnir að því. Hafði nokkur hluti skipshafnarinnar þá þegar komist í björgunarbátana, og tók Arinbjörn hersir fólkið úr þeim, en Snorri goði lagði að skipshliðinni og bjargaði þar fjölda manns, sem héngu í köðlum og stigum utan á skipinu. Björguðu togararnir alls um 400 manns af áhöfn skipsins, en alls er sagt að um 600 manns hafi verið á skipinu.
Þegar togararnir voru að Ijúka við björgunarstarfið kom brezkur tundurspillir á vettvang til björgunar. Brá hann kastljósi að skipinu til þess að fullvist væri að enginn lifandi maður væri ofan þilja. Sást þá hópur blökkumanna á afturþiljum skipsins, og var þeim bjargað þegar í stað. Skip þetta var franskt og hét Aska. Björgun þeirra Arinbjarnar hersis og Snorra goða þykir mjög frækileg. Að visu var veður gott, en mikil hætta var að nálgast skipið, þar sem búast mátti við sprengingu á hverri stundu. Það er ánægjulegt, hvað íslenzkum togurum hefir tekist að bjarga mörgum mönnum nú í ár. Munu það alls vera yfir 900 manns, sem íslenzkir togarar hafa þegar bjargað.

Vesturland. 21 september 1940.

             Loftárás á Arinbjörn hersi

Samkvæmt símskeyti, sem ríkisstjórnin fékk í gærkvöldi frá Pjetri Benediktssyni sendifulltrúa í London, hefir einn Kveldúlfstogaranna "Arinbjörn Hersir " orðið fyrir árás þýskrar sprengiflugvjelar, er hann var á leið hingað frá Englandi. Mennirnir, 13 talsins, björguðust í bátana , og eru komnir til skoskrar hafnar. Síðari fregn hermir og að dráttarbátur hafi dregið togarann til hafnar. Nánari fregnir af þessum atburði eru ókomnar. Þess er getið í skeyti Pjeturs Benediktssonar, að 4 af skipsmönnum "Arinbjarnar" hafi verið eitthvað meiddir, en enginn þó hættulega.
Þess er ekki getið, hverjir hafi meiðst, en ríkisstjórnin hefir símað út og spurst fyrir um þetta og einnig, hver meiðslin sjeu. Þessi árás á Arinbjörn Hersir átti sjer stað kl. 6 á sunnudagsmorgun. Togarinn fór frá Fleetwood á laugardagskvöld, áleiðis hingað heim. Hefir því árásin átt sjer stað í sundinu milli Írlands og Skotlands. Þar sem svo segir í síðari fregn, að dráttarbátur hafi dregið Arinbjörn til hafnar, bendir það til þess, að sprengja hafi ekki hitt togarann, enda myndi togarinn þá hafa sokkið. Eru því líkurnar þær, að sprengja hafi komið niður nálægt togaranum, en við það gat skipið hafa kastast til og e. t. v. laskast, en það gat aftur verið orsök þess, að mennirnir hafi meiðst. Í skeyti Pjeturs Benedíktssonar segir ekki, að mennirnir sjeu særðir, heldur lítilsháttar meiddir. Bendir þetta til þess, að þeir hafi ekki meiðst af sprengjubrotum. Skipstjórinn á Arinbirni Hersi þessa ferð var Steindór Árnason, sem verið hefir stýrimaður á togaranum.

 

Morgunblaðið. 24 desember 1940.

10.02.2017 14:59

S. t. Jeria GY 224.

Jeria GY 224 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley árið 1930 fyrir Great Grimsby & East Coast Steam Fishing Co Ltd í Grimsby. 349 brl. 700 ha. 3 þennslu gufuvél. 22 janúar árið 1935 var togarinn að koma frá Englandi og var staddur á Breiðafirði á leið til Patreksfjarðar í var undan ofsaveðri. Fékk togarinn á sig brot um 4 sjómílur undan Látrabjargi með þeim afleiðingum að hálft stýrishúsið brotnaði og reykháfurinn hvarf í hafið. Einnig drapst á vél skipsins og tók að reka að bjarginu. Togarinn strandaði skömmu síðar og fórst áhöfnin 13 menn með honum.


S.t. Jeria GY 224.                                                                                  Ljósmyndari óþekktur.


           Grimsbytogarinn Jeria talinn af

Menn ætla að enski botnvörpungurinn Jeria frá Grimsby hafi farist með allri, áhöfn undir Látrabjargi í aftaka vestan veðri síðdegis í gær. Fréttaritari útvarpsins á Patreksfirði símaði í dag á þessa leið: Aftaka veður af vestri með hríðaréljum gerði vestanlands í gær, og lágu margir togarar á Patreksfirði. Um kl. 16 í gærdag fóru 3 þessara togara, Lord Plewder, Reef Flower og Stoke, allir enskir, til þess að aðstoða enska togarann Jeria frá Grimsby, sem rak þá að landi sunnan við Látrabjarg. Hafði hann misst reykháfinn. Vél skipsins var hætt að ganga og ljósin sloknuð, og rak skipið stjómlaust undan stormi og straum. Í gærkveldi fóru 10 menn frá Hvallátrum undir forustu Daníels Eggertssonar út á Bjarg og höfðu með sér eldsneyti, til þess að geta kynt bál, ef vera kynni að þeir sæi eitthvað til skipsins.
Átti bálið að vísa þeim þrem togurum, er voru að Ieita úti fyrir ströndinni, hvar Jeria væri, ef hans yrði vart. Mennirnir komu heim kl. 21 í gærkveldi og sögðu að verið hefði slíkt aftakaveður, að tæplega hafði verið stætt, og stórbrim undir Látrabjargi, en til togarans sáu þeir ekkert. KI. 18,20 í gærkveldi kallaði skipstjórinn á Jeria í 4 mínútur til allra skipa, skeyti það sem hér fer á eftir: "Höfum misst reykháfinn. Rekum að landi milli háfjalls og Látrabjargs. Móttakarinn er bilaður." Samband slitnaði snögglega og heyrðist ekkert til Jeria eftir það. Togarinn Lord Plewder fór mjög nærri Látrabjargi tvívegis í nótt. Skyggni var fremur gott, en ekkert sást til Jeria. Í morgun fóru 6 menn frá Látrum til þess að leita frá Bjargtöngum og inn með Bjargi, og er búist við að þeir komi aftur um kl.18 í kveld. Einnig er búist við að leitað verði frá Rauðasandi. Ensku togararnir héldu áfram 'leitinni í dag.
Síðar í dag símaði fréttaritari útvarpsins á Patreksfirði á þessa leið: Talið er alveg víst að togarinn Jeria hafi strandað og áhöfnin farist, Fregn kom um það frá Rauðasandi klukkan 14 í dag, gegnum simstöðina á Hvalskeri, að nokkrir menn þaðan hefðu farið af stað kl. 21 í gærkveldi og voru þeir á ferðinni alla nóttina að leita skipsins. Þegar þeir komu út eftir sandinum að bænum Brekku, sem er ysti bærinn á Rauðasandi, nú eyðibýli, fóru þeir að finna ýmiskonar dót rekið, svo sem fiskkassabrot, dót úr björgunarbátum, tvo hluta úr bjarghringunum með fullu nafni skipsins, og eftir því sem sunnar dró fundu þeir því meiri reka, og er álitið að skipið hafi strandað og eyðilagst samstundis út undir Lambahlíð, sem er mjög nálægt bænum Keflavík, sem einnig er eyðibýli. Er talið vonlaust öllum skipum, er stranda í vondu veðri á leiðinni frá Bjargtöngum að Rauðasandi. Mennirnir er leituðu fóru allir út á Keflavíkurbjarg svonefnt, en í morgun er þeir sendu mann til Hvalskers, að síma hingað fréttirnar, höfðu enn engin lík fundist.
Slysavarnafélagi íslands barst skeyti um það í gærkveldi, að 6 menn frá Hvallátrum hefði lagt aftur af stað, til þess að hyggja að skipinu. Gengu þeir nú eftir Látrabjargi og fundu engan reka utan Keflavíkurbjargs, en í Keflavík og þar í grend fundust 2 hveitipokar, ómerktir, og var annar furðu lítið blautur, tvennar nýjar buxur, peysa og sokkar, töluvert af litlum Hessianpokum, hlutar úr þilfari, mahognibútar, snerlar af stýrispallshurð, dálítið af þorski og karfa og nokkuð af braki.
Jeria var nýlegt skip, smíðað 1930, 144 smálestir netto, með um 700 ha. vél. Eigi er kunnugt um hve margir menn voru á skipinu, en sennilegt er, að þeir hafi verið 15 eða 16.

Vísir. 24 janúar 1935.

Flettingar í dag: 496
Gestir í dag: 61
Flettingar í gær: 1220
Gestir í gær: 64
Samtals flettingar: 908440
Samtals gestir: 66140
Tölur uppfærðar: 27.7.2024 11:32:27