22.08.2021 09:47
604. Draupnir NK 21. TFWN.
Vélbáturinn Draupnir
NK 21 var smíðaður í Marstrand í Svíþjóð árið 1942. Eik 46 brl. 150 ha.
Bolinder vél. 17,21 x 5,97 x 2,54 m. Hét áður Brattvåg LL 432 og var í eigu
Anders Johansen, Axel Berntsson og Johan Berntsson í Åstol í Svíþjóð. Seldur 28
janúar 1946, Ásgeiri Bergssyni, Bergi Eiríkssyni og Hauki Ólafssyni í
Neskaupstað, hét þá Draupnir NK 21. Seldur 7 desember 1956, Draupni h/f á
Hellissandi, skipið hét Hólmkell SH 137. Ný vél (1957) 300 ha. Cummings díesel
vél. Seldur árið 1962, Ingólfi Arnarsyni í Vestmannaeyjum, hét Ingþór VE 75. Ný
vél (1964) 320 ha. Caterpillar díesel vél. Báturinn mælist 52 brl frá árinu
1964. Talinn ónýtur árið 1966. Lá við bryggju í Vestmannaeyjum í nokkur ár en
var að endingu dreginn út og honum sökkt.
Heimild um bát, eigendur og ljósmynd í Svíþjóð:
Óskar Franz Óskarsson.
Draupnir NK 21 í bóli sínu innan við Neseyrina á Norðfirði. Aftan við Draupni sér í 375. Dröfn NK 31. Dröfn var smíðuð af Bjarna Einarssyni skipasmið á Akureyri árið 1901 fyrir Carl Höepfner kaupmann á Akureyri, hét þá Anna EA 12. Dröfn rak á land í suðvestan stormi á Norðfirði árið 1966 eða 67 og eyðilagðist. (C) Björn Björnsson.
Draupnir NK 21 á Norðfirði. Ljósmyndari óþekktur.
Brattvåg LL 432. (C) Óskar Franz Óskarsson.
Stór
vélbátur keyptur að Sandi
Hingað kom á laugardaginn vélbáturinn Draupnir frá
Neskaupstað, en hann hefur verið keyptur hingað í því augnamiði að gera hann út
frá Rifi á komandi vertíð. Báturinn er 46 tonn og fyrsti báturinn, sem hingað
er fenginn í þessu skyni. Samnefnt hlutafélag á bátinn, en stofnendur þess og
aðaleigendur eru Kristófer Snæbjörnsson, Skúli Alexandersson, Ársæll Jónsson og
Friðjón Jónsson. Í sumar verður báturinn gerður út á síldveiðar.
Alþýðublaðið. 15 júlí 1954.
15.08.2021 11:39
B.v. Neptúnus RE 361 á toginu yfir úfinn sæ.
Systurskipin Neptúnus og Marz voru 183 ½ ft. (55,89 m.) eða
8 ½ feti lengri en hinir nýsköpunartogararnir sem voru 175 ft. (54 m.) Kom
lengdin miðskipa sem jók burðarþol skipanna verulega. Ýmsar aðrar breytingar
voru gerðar á þeim, t.d. hækkaðar lunningar um 18 tommur rétt aftur fyrir vant
til að byrja með, en voru svo síðar lengdar aftur fyrir svelg. Það var svo
Úranus RE 343 sem var sá fyrsti sem smíðaður var með þær aftur fyrir svelginn
árið 1949. Einnig var komið fyrir lýsistank aftast í skipið, aftur í "skotti",
undir lifrarbræðslunni, eins og Tryggvi orðaði það sjálfur. Lifrinni var síðan
dælt með sérútbúinni dælu og lögnum frá dekkinu í lýsistankin og dælt svo þaðan
upp í lifrarbræðsluna. Sú nýbreytni var að lestar skipanna voru einangraðar með
lofti, en klæðning í lestunum var Oregon Pine viður. Neptúnus var sá
nýsköpunartogarinn sem best var gert úr og mikil synd að hann skildi ekki vera
varðveittur því hann var í góðu ástandi þegar hann hélt af landi brott í
síðasta sinn, undir eigin vélarafli.
B.v. Neptúnus RE 361 á toginu yfir úfinn sæ. (C) Shetland museum.
Neptúnus RE 361 sennilega við Ægisgarð. (C) Peter Kidson.
B.v. Neptúnus RE 361. Þarna kominn með pólkompásinn framan á brúnna. (C) Ásgrímur Ágústsson.
B.v.
Neptúnus GK 361. TFMC.
Nýsköpunartogarinn Neptúnus GK 361 var smíðaður hjá John
Lewis & Sons Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1947 fyrir h.f Júpíter í
Hafnarfirði. 684 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 205. Kom í fyrsta
sinn til heimahafnar sinnar, Hafnarfjarðar hinn 27 desember sama ár. Um
áramótin 1947-48 flytur Tryggvi útgerð sína til Reykjavíkur og fær þá togarinn
skráningarnúmerið RE 361. Í maí 1948 setti Neptúnus heimsmet í aflasölu í
Grimsby. Seldi togarinn 356 tonn fyrir 19.069 sterlingspund og stóð það met í
ein 13 ár að ég held. Í desember sama ár kom upp mikill eldur í kyndistöð
togarans í Grimsby en þar hafði hann selt afla sinn nokkru áður. Miklar
skemmdir urðu á honum og var hann dreginn til Aberdeen í Skotlandi. Tók sú
viðgerð um 8 mánuði og fór hún fram í smíðastöð skipsins, hjá John Lewis &
Sons Ltd. Hinn 28 ágúst árið 1964 kom upp eldur í einangrun undir katli
togarans og breiddist hann hratt út í vélarúminu að ekki var neitt viðlit fyrir
skipverja að ráða niðurlögum hans. Var því ákveðið að skipið yrði yfirgefið og
áhöfnin, 32 menn, færu í björgunarbátana og færu um borð í varðskipið Albert
sem komið var á staðinn. Neptúnus var þá á veiðum um 20 sjómílur norðvestur af
Garðskaga. Miklar skemmdir urðu á togaranum og tók þó nokkurn tíma að gera við
hann. Neptúnus var alla tíð mikið afla og happaskip og var lengst af undir
stjórn Bjarna Ingimarssonar frá Hnífsdal. Togarinn var seldur í brotajárn til
Spánar eftir að hafa legið í nokkur ár við Ægisgarð, og sigldi hann þangað
undir eigin vélarafli hinn 6 október árið 1976.