10.01.2017 11:48

1042. Vörður ÞH 4. TFOQ.

Vörður ÞH 4 var smíðaður í Hommelvik í Noregi árið 1967. 248 brl. 800 ha. Lister díeselvél. Eigandi var Gjögur h/f á Grenivík frá 2 maí 1967. Ný vél (1979) 800 ha. Mirrlees Blackstone díesel vél, 589 Kw. Skipið var yfirbyggt árið 1981 og endurmælt árið 1982, mældist þá 210 brl. Skipið var selt í brotajárn til Danmerkur og tekið af skrá 8 nóvember árið 2007. Vörður var smíðaður eftir sömu teikningum og A-Þýsku síldarskipin sem smíðuð voru í Boizenburg á árunum 1964-67.


Vörður ÞH 4 á landleið með fullfermi.                                                          (C) Snorri Snorrason.

Vörður ÞH á síldveiðum um 1980.                                          (C) Markús Karl Valsson.

                   Vörður ÞH 4.

Nýr bátur, Vörður ÞH 4, kom til Akureyrar á fimmtudaginn. Skipið er 248 brúttólestir, vel búið og hið myndarlegasta, með 800 hestafla Listervél. Eigandi er Gjögur h.f. á Grenivík. Vörður er smíðaður í Hommelvik í Noregi.

Dagur. 29 apríl 1967.


09.01.2017 08:02

585. Hrönn SH 149. TFSV.

Hrönn SH 149 var smíðuð hjá Skipasmíðastöð KEA h/f á Akureyri árið 1956. Eik. 41 brl. 240 ha. G.M. díesel vél. Eigandi var Dvergur h/f í Ólafsvík frá 17 febrúar sama ár. Ný vél (1973) 350 ha. Caterpillar díesel vél. Báturinn var seldur árið 1978, Haföldunni h/f á Eskifirði, sama nafn og númer. Hrönn fórst við Vattarnes í mynni Reyðarfjarðar 30 apríl árið 1979 með allri áhöfn, 6 mönnum.


Hrönn SH 149.                                                                              (C) Gunnlaugur P Kristinsson.


                      Magnús komdu strax

           Það var það síðasta sem heyrðist frá Hrönn 

"Magnús komdu strax" var neyðarkallið, sem skipverjar á Magnúsi NK 72 heyrðu frá vélbátnum Hrönn frá Eskifirði, sem fórst á Reyðarfirði, skammt innan við Vattarnes, síðastliðið mánudagskvöld, en síðan rofnaði sambandið. Fimm skipverja á Hrönn er saknað, en lík þess sjötta, Stefáns V. Guðmundssonar, fannst um hádegisbil á þriðjudag.
Það var klukkan 22,55 á mánudagskvöld, sem neyðarkallið frá Hrönn SH 149 heyrðist og hafði Guðmundur Stefánsson skipstjóri á Magnúsi þegar samband við Nesradíó og kallaði út aðstoð. Klukkan 23.15 var Magnús kominn á staðinn, þar sem talið er að Hrönn hafi farist, en þar fundust aðeins 3 netabelgir bundnir saman, 2 bjarghringir og knippi af netaflotum. Skipstjórinn á Magnúsi hafði séð til Hrannar í ratsjánni skömmu áður en neyðarkallið var sent út. Er hann leit aftur í ratsjána sá hann ekki til skipsins og telur að 2 til 4 mínútur hafi liðið á mill. Ábúendur á Vattarnesi sáu er Hrönn sigldi fyrir Vattarnesið, en er Nesradíó tilkynnti þeim um skip í nauð klukkan 23.04 sáu þeir ekki til skipsins. Hvasst var og stóð vindurinn út fjörðinn, en bjart yfir og ekki sjórok. Leitarmenn sem komnir voru á staðinn um miðnætti þurftu að leita við erfiðar aðstæður. Leit stendur enn yfir bæði af sjó og landi og hefur mikill fjöldi tekið þátt í leitinni. Stefán V. Guðmundsson, stýrimaður, var fæddur 9. 6. 1927. Hann var til heimilis að Bakkastíg 9a á Eskifirði. Stefán lætur eftir sig aldraða móður.
ÞEIRRA ER SAKNAÐ:
 Jóhannes Steinsson, skipstjóri, fæddur 16. 9. 1935, Túngötu 6, Eskifirði. Kvæntur og á 2 börn. Eiríkur Sævar Bjarnason, véstjóri, fæddur 28. 2. 1942, Bakkastíg 5, Eskifirði. Kvæntur og á 2 börn. Gunnar Hafdal Ingvarsson, fæddur 18. 3.1929. Er frá Dölum í Hjaltastaðaþinghá, en hefur unnið á Eskifirði undanfarin ár. Ókvæntur. Kjartan Grétar Ólafsson, fæddur 5.12.1947, Túngötu 5, Eskifirði, ókvæntur, en býr hjá foreldrum. Sveinn Guðni Eiríksson, fæddur 6. 8. 1942, Fossgötu 3, Eskifirði, Ókvæntur, býr í foreldrahúsum.

Morgunblaðið. 3 maí 1979.


  Hrönn hvarf af ratsjánni á 2-4 mínútum 

  Rætt við Guðmund Stefánsson skipstjóra á Magnúsi NK 72 

Orðin komu mjög slitrótt, það var mikið brak í tækinu og setningarnar voru höggnar í sundur, en við vorum þrír í brúnni og allir sammála um að skipstjórinn á Hrönn hefði sagt; Magnús komdu strax, sagði Guðmundur Stefánsson skipstjóri á Magnúsi NK 72 m.a. í samtali við Morgunblaðið í gær. Magnús NK heyrði neyðarkall frá Eskifjarðarbátnum Hrönn SH 149 klukkan 22.55 á mánudagskvöld. Var þá aðeins um 20 mínútna sigling á milli bátanna en er Magnús kom á staðinn, þar sem talið er að Hrönn hafi verið er neyðarkallið var sent út, fundust aðeins lóðabelgir, bjarghringir og netaflot.
Við vorum að koma af miðunum við Hrollaugseyjar, en Hrönn frá Breiðdalsvík, sagði Guðmundur Stefánsson. Við höfðum samflot þar til komið var í mynni Reyðarfjarðar, en þá skildu leiðir. Það var mjög hvasst, en við fórum grunnt og það var ekki mikill sjór. Þegar við á Magnúsi vorum komnir um 4 mílur norður fyrir Vattarnestangann kíkti ég niður í ratsjána og sá hvar Hrönn var. Mér fannst henni miða eðlilega inn fjörðinn. Skömmu síðar heyrði ég kallað á bylgju 6 á örbylgjutækinu, en þá bylgju nota bátarnir mikið. Eftir að við höfðum heyrt kallað "Magnús komdu strax", slitnaði sambandið. Ég þekkti rödd Jóhannesar skipstjóra og vissi ekki um annað skip þarna nærri okkur, þannig að þetta gat ekki verið annað en Hrönn.
Við snerum um leið við og ég leit aftur í ratsjána. Þá hafa verið liðnar 2-4 mínútur frá því að ég kíkti í hana í fyrra skiptið. Í þetta skiptið sá ég ekkert, þar sem báturinn átti að vera, um 3 mílur innan við Vattarnestangann. Ég ákvað þá strax að kalla út í gegnum Nesradíó. Við fórum eins nálægt tanganum og við þorðum, en vindur var sterkur út Reyðarfjörð. Ég þóttist vita nákvæmlega hvar Hrönn átti að vera, en við höfðum ekki farið nema innan við mílu þegar við komum að fyrsta rekinu úr bátnum, bjarghringjum og lóðabelgjum og síðan fundum við netaflot. Ég er viss um að ef gúmbátur hefði verið ofansjávar þá hefðum við fundið hann, en við keyrðum beint á rekstefnuna út fjörðinn. Ég og Jóhannes skipstjóri á Hrönn höfðum rabbað saman alla leiðina frá Kambanesi. Hann hafði sagt áður en leiðir skildu að það yrði baks hjá sér inn fjörðinn. Ég sagði honum að ég myndi hafa samband við hann þegar hann kæmi inn á fjörðinn til að sjá hvernig honum gengi á móti. Það var það síðasta, sem við töluðum saman. Síðan heyrðum við neyðarkallið. Viðbrögð voru undur fljót hjá bátum á Eskifirði og Reyðarfirði og við skipulögðum þegar leit. Varðskipið Týr, bátar og skip af fjörðunum komu síðar á vettvang. Svæðið var spannað frá Brökum, skerjum úti af Vattarnestanganum, á reklínu suður af Skrúðnum, sagði Guðmundur Stefánsson skipstjóri á Magnúsi NK, en þess má geta að hann er frá Karlsskála, sem er norðanvert við Reyðarfjörðinn.

Morgunblaðið. 3 maí 1979.

            Eskfirðingar harmi slegnir

Á Ellefta tímanum mánudagskvöldið 30. apríl sendi vélbáturinn Hrönn SH 149 frá Eskifirði frá sér neyðarkall og hjálparbeiðni og var þá staddur um 2 sjómílur innan við Vattarnes, sem er yzt í Reyðarfirði að sunnanverðu. Veður var mjög vont, norðanstormur og sex stiga frost. Það var vélskipið Magnús frá Neskaupstað, sem heyrði neyðarkallið, en Magnús og Hrönn höfðu verið samskipa norður með Austfjörðum, en leiðir skildu er Hrönnin hélt inn Reyðarfjörðinn. Skipverjar á Magnúsi héldu þegar á staðinn, sem Hrönn var á, en það var um 15-20 mínútna sigling. Jafnframt var tilkynnt um atburði til Loftskeytastöðvarinnar í Neskaupstað. Er að var komið sáu þeir einungis lausa hluti á floti, netabelgi og ýmislegt netadót. Björgunarsveitir SVFÍ frá Eskifirði, Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði héldu þegar út í Vattarnes. Þær voru komnar þangað um miðnætti og hófu þegar leit, en Vattarnesbændur hófu leit um leið og þeim barst tilkynningin um slysið.
Þá héldu öll skip Eskfirðinga, sem heima voru, þegar til leitar ásamt skipum Reyðfirðinga, Gunnari og Snæfugli, varðskipinu Tý, Arnarborg frá Dalvík, Ólafi Magnússyni EA, Gullver frá Seyðisfirði og fleiri skipum auk Magnúsar NK. Munu níu skip hafa leitað um nóttina og allan 1. maí og skipin verið 14 talsins þegar þau voru flest. Þá hóf flugvél landhelgisgæzlunnar, TF SYN, leit strax með birtingu þá um morguninn. Ýmislegt brak rak yzt á Vattarnestangann og inn í krikann norðan við nesið. Leitað hefur verið stanzlaust síðan, bæði úr landi og á sjó og hafa björgunarsveitir Slysavarnafélagsins á Stöðvarfirði og Breiðdalsvík einnig tekið þátt í leitinni. Á Hrönn voru sex menn og var skipið að koma frá Breiðdalsvík, en þar hafði afli verið lagður upp að undanförnu. Sjöundi skipverjinn, sem var úr Reykjavík, fór í land á Breiðdalsvík þar eð hann var með bíl þar og ætlaði að aka suður til Reykjavíkur. Hann heitir Ólafur Halldórsson.
Lík eins skipverjans, Stefáns V. Guðmundssonar, fannst um hádegisbilið á þriðjudag um hálfa mílu suðvestan við Skrúð. Það var skipstjórinn á Votabergi SU 14, Friðrik Rósmundsson, og hans menn sem fundu líkið. Yfirstjórn björgunaraðgerða, hafði Skúli Magnússon, formaður björgunarsveitarinnar á Eskifirði með höndum og var stjórnstöðin í íþróttahúsinu á Eskifirði. Hér eru menn harmi slegnir vegna þess hörmulega atburðar, að skip skuli farast svona inni á firðinum. Verður sjálfsagt erfitt að geta sér til um hvað komið hafi fyrir. Eigendur Hrannar voru þeir Jóhannes Steinsson skipstjóri, Eiríkur Bjarnason vélstjóri og Stefán Guðmundsson stýrimaður. Hrönn var keypt til Eskifjarðar frá Ólafsvík fyrir réttu ári. Baturinn var úr eik, smíðaður á Akureyri 1956, og var 41 tonn að stærð.

Morgunblaðið. 3 maí 1979.

     Held ég hafi einfaldlega ekki verið feigur 

   segir Ólafur Halldórsson, sem fór í land á Breiðdalsvík er                Hrönn lagði af stað áleiðis til heimahafnar  

Mér varð eðlilega mjög hverft við að heyra þessar hörmulegu fréttir, en þegar ég hugsa um það, þá held ég að ég hafi einfaldlega ekki verið feigur, sagði Ólafur Halldórsson, tvítugur Garðbæingur, sem fór af vélbátnum Hrönn frá Eskifirði á Breiðdalsvík, áður en báturinn lagði af stað áleiðis til heimahafnar síðdegis á mánudag. ólafur hafði verið á Hrönn í um þrjá mánuði, fyrst við beitningu er báturinn var á línu, en síðan á netunum. Ég var lengi vel að hugsa um að vera á bátnum í hálfan mánuð í viðbót, var svona á báðum áttum, segir Ólafur. Svo skyndilega ákvað ég að fara af á Breiðdalsvík og aka suður, en ég hafði keypt mér bíl á Breiðdalsvík. Ég þurfti reyndar nauðsynlega að fara til Eskifjarðar og fá ökuskírteini hjá sýslumanninum, en hætti við það og keyrði skírteinislaus suður. Ég stoppaði á Kirkjubæjarklaustri á suðurleiðinni vegna ófærðar á Söndunum og hringdi þá í kærustuna. Hún sagði mér hvað hafði gerzt. Síðan fékk ég nákvæmar fréttir um slysið og ég þarf víst ekki að segja hversu mjög mér brá. Vertíðin hafði gengið ágætlega og á netunum vorum við á útilegu. Það var sama hvar við vorum, við vorum alltaf minnsti bátur og lentum oft í vondum veðrum, en allt gekk mjög vel. Þeir voru að tala um að fara strax á netaveiðar við Langanes á Hrönninni og ég var að hugsa um að fara með þeim, en hætti við á síðustu stundu. Ég veit ekki hvað ég geri á næstunni, en ætli ég fari ekki á sjóinn fljótlega aftur sagði Ólafur Halldórsson að lokum.

Morgunblaðið. 3 maí 1979.

08.01.2017 09:46

749. Freydís ÍS 74. TFNR.

Freydís ÍS 74 var smíðuð í Sjötorp í Svíþjóð árið 1946. Eik. 81 brl. 215 ha. Polar díesel vél. Eigandi var Njörður h/f á Ísafirði frá 10 júlí árið 1947. Skipið var selt 29 ágúst 1956, Guðna Jóhannssyni, Jóhönnu H Þorsteinsdóttur og Sigþóri Guðnasyni á Seltjarnarnesi, hét Faxafell GK 200. Selt Faxaútgerðinni h/f á Patreksfirði, skipið hét Sigurfari BA 7. Ný vél (1960) 390 ha. MWM díesel vél. Skipið var talið ónýtt og tekið af skrá 19 nóvember árið 1965. Var að lokum dreginn upp í fjöru á Patreksfirði og brenndur 2 eða 3 árum síðar.


Freydís ÍS 74 við bryggju í Djúpavík.                                                    (C) Sigurgeir B Halldórsson.


Freydís ÍS 74 við bryggju í Djúpavík ásamt Eddu GK 25. Skorsteinninn fyrir miðri mynd tilheyrir gufuskipi sem liggur á bak við þau.                                                (C) Sigurgeir B Halldórsson.


Freydís ÍS 74 að landa síld í Djúpavík.                                                (C) Sigurgeir B Halldórsson.

07.01.2017 10:56

Björn Jörundsson EA 626.

Björn Jörundsson EA 626 var smíðaður í Skipasmíðastöð Gunnars Jónssonar á Akureyri árið 1939. Eik og beyki. 26 brl. 100 ha. Alpha vél. Eigendur voru Garðar Ólason og Björn Ólason í Hrísey frá 5 júlí 1939. Báturinn var seldur  Víglundi Jónssyni í Ólafsvík, óvíst hvenær, gæti hafa verið 1949-50. Báturinn sökk út af Skálastaðavita á Snæfellsnesi 19 febrúar 1951. Áhöfnin, 5 menn björguðust um borð í Egil ÓF 27 frá Ólafsfirði.


Björn Jörundsson EA 626 á Eyjafirði.                                                    (C) Minjasafnið á Akureyri.


Björn Jörundsson EA 626 á siglingu á Eyjafirði.                                      (C) Minjasafnið á Akureyri.


 Vélbáturinn Björn Jörundsson frá Ólafsvík sekkur 

                              mannbjörg varð

Um klukkan hálf fjögur í gær sökk vélbáturinn Björn Jörundsson frá Ólafsvík við Öndverðames. Hafði komið að honum mikill og bráður leki, svo að tvær skipshafnir höfðu ekki undan að ausa, svo að þær yfirgáfu bátinn, og sökk hann skyndilega skammri stundu síðar.
 Á sunnudaginn var lögðu Ólafsvíkurbátarnir Björn Jörundsson og Egill lóðir sínar; suður af Snæfellsnesi. Voru þeir með 32 bjóð hvor. Er þeir ætluðu að fara að draga línuna, voru lóðirnar horfnar, ásamt öllu tilheyrandi, og  mun annaðhvort straumur hafa dregið þær niður í álinn eða togarar dregið þær burt í gærmorgun. Fóru bátarnir að leita að lóðunum, en fundu ekkert.
Um klukkan hálf þrjú í gær voru báðir bátarnir á heimleið, og var Björn Jörundsson þá um eina mílu út af Öndverðarnesi, á hægri ferð. Urðu skipverjar þess þá skyndilega varir, að sjór fossaði inn í bátinn að framan. Var planki sprunginn frá stefni undir sjó. Fyrir snarræði vélamanns tókst að keyra bátinn upp undir nesið í lygnari sjó, en þar stöðvaðist vélin, vegna þess, hve mikill sjór var kominn í bátinn.
Egill var dálítið á eftir Birni Jörundssyni, og tókst skipverjum strax að ná sambandi við hann gegnum talstöð bátsins. Kom Egill á vettvang eftir tíu mínútur, og reyndu nú báðar skipshafnirnar að ausa Björn Jörundsson, en höfðu ekki undan. Vélbáturinn Víkingur frá Ólafsvík kom einnig á vettvang.
Það var þegar ljóst, að ekki var annars kostur en yfirgefa Björn Jörundsson, og fóru skipverjar allir yfir í Egil. Ætluðu þeir að freista þess að draga Björn Jörundsson til hafnar, ef hann kynni að fljóta svo lengi. En eftir örskamma stund sökk hann skyndlega. Þá var klukkan um hálf-fjögur. Var það sérstakt lán, að hér skyldi ekki verða stórslys, því að báturinn hefði farizt með allri áhöfn, ef Egill hefði ekki komið svo skjótt á vettvang sem raun varð, þar sem landtakan framundan var ekki annað en klettar.
Björn Jörundsson var 27 smálestir, smíðaður á Akureyri 1939. Eigandi bátsins var Viglundur Jónsson í Ólafsvík, en skipstjóri á bátnum í fjarveru eigandans, sem ætlaði til Noregs á vegum Fiskifélags íslands á fimmtudaginn kemur, var Guðlaugur Guðmundsson í Ólafsvík. Skipstjóri á Agli, einnig 27 lesta bát, er Guðmundur Jensson í Ólafsvík. Hér hefir orðið stórkostlegt tjón, bæði fyrir eigendur og Ólafsvík í heild, og munu margir menn missa atvinnu af þessum sökum, en framleiðsla dragast saman, þótt allir þakki hamingjunni, að ekki fór ver.

Tíminn. 20 febrúar 1951.

06.01.2017 12:16

2266. Helga Björg HU 7. TFLA / TFNX.

Helga Björg HU 7 var smíðuð hjá Langsten Slip & Baatbyggeri A/S í Tomrefjord í Noregi árið 1976. 490 brl. 1.797 ha. Alpha díesel vél, 1.321 Kw (1986). Smíðanúmer 74. Árið 1986 var ný vél sett í skipið og það lengt, mældist þá 935 brl. Eigandi var Skagstrendingur h/f á Skagaströnd frá 9 nóvember 1995. Skipið var keypt frá Grænlandi og hét þar Betty Belinda. Hét upphaflega Mitaq Trawler og var skráður í Kaupmannahöfn. Hét fyrst Bettý HU 31 hjá Skagstrending, þar til 18 desember 1995 að skipið fær nafnið Helga Björg HU 7. Skipið var selt í byrjun árs 1999, Laka Ltd, félags í eigu Skagstrendings h/f og fleiri aðila í Eistlandi. Skipið hét þá Tahkuna og var gert út á veiðar á Flæmingjagrunni við Nýfundnaland, þar til það var selt árið 2000. Skipið var endurskráð í október 2008 á Íslenska skipaskrá sem rannsóknarskip, Neptune og er í eigu Neptune ehf á Akureyri í dag.

Helga Björg HU 7.                                                                                    (C) Snorri Snorrason. 


Helga Björg HU 7.                                                                                    (C) Snorri Snorrason.


Neptune á Eyjafirði 15 nóvember 2016.                           (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


                   Helga Björg HU 7 

Í haust festi Skagstrendingur h/f  kaup á grænlenskum 500 tonna rækjufrystitogara, sem fer á veiðar í næstu viku sem Helga Björg HU 7. Í staðinn tókst félaginu loks að selja gamla Arnar til Samherja hf. á Akureyri, en Arnar þessi hefur verið á söluskrá frá því að nýi Arnar kom til sögunnar. Á meðan ekkert gekk í sölumálunum, var hann m.a. hafður í ýmsum úthafsveiðitilraunum með litlum árangri. Að einhverju leyti kemur Helga Björg til með að sjá rækjuvinnslu Hólaness fyrir hráefni til vinnslu. Auk rússneska frystitogarans og grænlenska rækjufrystitogarans, mun Skagstrendingur eftir sem áður gera út frystitogarann Örvar. Skagstrendingur er með um sex þúsund tonna þorskígildiskvóta og Hólanes er með 450 tonn, sem rækjutogarinn fái að nýta.

Morgunblaðið. 14 janúar 1996.


      Rannsóknarskipið Neptune EA 41

Næg verkefni eru framundan fyrir rannsóknarskip fyrirtækisins Neptune ehf. á Akureyri. Það fyrsta hefur verið í Eystrasalti síðan í haust, breytingar á öðru, togaranum Harðbak, eru að hefjast í Slippnum á Akureyri og framkvæmdastjóri Neptune útilokar ekki að fleiri skip bætist í flota fyrirtækisins. Rannsóknarskipið Neptune EA 41, er komið til heimahafnar eftir fyrstu útiveruna en það hefur síðan í haust unnið að verkefninu Nordstream, fyrir samnefnt fyrirtæki, sem er í meirihlutaeigu rússneska orkurisans Gazprom. Hlé hefur verið gert á því nú vegna þess að Eystrasaltið er ísilagt eins og er en Neptune heldur aftur utan undir vor. Nordstream undirbýr lagningu einhverrar stærstu gasleiðslu sem um getur, frá rússnesku borginni Vyborg, sem er rétt norðan St. Pétursborgar innst í Kirjálabotni, til Greifswald í Þýskalandi.
Langmest af því gasi sem Gazprom selur til landa í vesturhluta Evrópu er flutt um leiðslu í gegnum Úkraínu en ýmis vandkvæði hafa verið á þeim flutningum eins og fram hefur komið í fréttum síðustu mánuði. Skipverjar á Neptune hafa unnið við skoðun sjávarbotnsins; vitað er að þar eru mörg skipsflök og gamlar sprengjur og komast þarf að því hvernig best er að losna við þá aðskotahluti áður en leiðslan verður lögð. Breytingum á Harðbak verður lokið í byrjun maí í vor og fer skipið þá strax frá Akureyri til starfa erlendis. Ágúst Guðmundsson, framkvæmdastjóri Neptune, segist ekki geta greint frá því strax hvar fyrsta verkefnið verður.

Morgunblaðið. 27 febrúar 2009.

05.01.2017 12:14

Gufubáturinn Elín. LCDW.

Flóa og Gufubáturinn Elín var smíðuð í Rostock í Þýskalandi árið 1890. Stál og járn. 50 brl. 2 þjöppu gufuvél. Eigandi var Fr. Fischer stórkaupmaður í Kaupmannahöfn frá maí árið 1893. Kom Elín til Reykjavíkur 22 maí sama ár. Skipið hét áður Einigkeit. Elín var í áætlunarferðum í Faxaflóa, frá Reykjavík til Akraness, Borgarness, Suðurnesja og til Straumfjarðar. Flutti þá farþega, póst og vörur. Skipið var einnig í förum til Vestmannaeyja og til Víkur í Mýrdal. Elín var skráð í Kaupmannahöfn og áhöfn hennar var alla tíð dönsk. Skipið strandaði í Straumfirði 21 september 1895, skemmdist töluvert og var dæmt ósjófært og selt sem strandgóss. Jón Jónsson skipstjóri í Melhúsum á Seltjarnarnesi keypti skipið á strandstað og er sagður hafa dregið skipið til Reykjavíkur á seglskipi sínu, Njáli. Selt eftir það Ottó Wathne útgerðar og kaupmanni á Seyðisfirði. Heimildir herma að Wathne hafi látið skip sitt, Egil draga Elínu til Austfjarða, en þaðan átti að fara með hana til viðgerða í Noregi. Önnur saga er hins vegar sögð í Seyðisfjarðarblaðinu Austra. Þar er því haldið fram að Friðrik Wathne (sonur Ottós) hafi siglt skipinu austur og þar hafi verið gert við það. Var skipinu haldið út til fiskveiða þaðan og einnig notað sem "hleypiskúta"(Ferja ?). Frá árinu 1926-27 er skipið í eigu T. Hoffmann Olsen í Kaupmannahöfn, heitir þá Akranes SI 24. Árið 1928 er skipið í eigu Magnúsar Ólafssonar á Ísafirði, heitir þá Elín ÍS 472. Skipið var talið ónýtt árið 1934-35.


Flóa og gufubáturinn Elín.                                                                           Ljósmyndari óþekktur.

                  Gufubáturinn Elín

Miklar hafa oss borizt kvartanir um hana, en þó mest um ólipurleik og rustaskap formanns og bryta, og ráðum vjer vinsamlega útgerðarmanninum það heilræði, að láta þá ekki stæla þá sömu á "Laura", og sízt með þvi að reiða hnefana og viðhafa sjóarahótanir við farþega, hvað lítill meiningar munur sem yrði, því kunna Iandar vorir illa, því hjer hafa þeir land undir fæti, þó ekki sjeu, kaupfjelagsmenn. (Það er kunnugt að "Elín" gerði fyrst ókeypisferð með þá). Vjer höfum ekki verið um borð í "Elínu" síðan í Kaupmannahöfn.

Reykvíkingur. 1 ágúst 1893.

                      Eldeyjarför

Árið 1894 er frá því sagt, að flóabáturinn "Elín", sem hét í höfuðið á landshöfðingja frúnni, hefði farið þrjár ferðir austur í Vík og komið við í Eyjum, Stokkseyri og Eyrarbakka. Seint í maí var "Elín" á vesturleið og kom við í Eyjum. Bræðurnir Stefán og Ágúst í Ási tóku sér far með "Elínu" og Hjalti Jónsson. Höfðu þeir léttbát með í förinni. Þeir fóru af skipinu við Eldey. Hófst þá hin fræga Eldeyjarganga.

Fylkir. Jólablað 1970.

         Gufubáturinn Elín strandaður

Hana sleit upp á Straumfirði laugardagsmorguninn 21. þ. mánaðar í útsunnanveðri, bar þar á stein við Búðarey, kom gat á bumbinn á bakborða skammt fyrir neðan sjávarborð og sprakk töluvert út frá á tvær hendur. Troðið var upp í gatið og losnaði báturinn aptur af steininum með aðfallinu um kveldið, hjelzt við fyrir akkerum nóttina eptir, en á sunnudagsmorguninn í ofsahviðu biluðu þau og misstu hald og varð þá að hleypa bátnum á land innst í Straurnfjarðarvognum, þar sem grjótlaust er, en djúpur leir. Liggur hann þar fastur og mun naumast geta losnað fyr en stórstreymt verður aptur, ef hann losnar nokkurn tíma, enda líklegra, að hann verði að strandi fyrir fullt og allt hvort sem er.
Vafalaust tekið fyrir allar ferðir hans framar í haust, hvernig sem fer. Það er í kolastíunni, sem gatið kom á, og því illt að komast fyrir, hvort meira hefir að orðið, svo sem að máttarbönd sjeu í sundur, fyr en kolunum er rutt frá, en þó hugðu skipverjar það vera á 2 stöðum, og mun ekki verða við það gert hjer, þó gatið hefði mátt bæta.
Skipskrokkurinn er allur af járni, bæði máttarbönd og annað. Báturinn var búinn að athafna sig á Straumfirði á föstudaginn, hafði tekið þar nokkra farþega og var kominn af stað áleiðis inn í Borgarnes, en varð að snúa aptur við skerin út af Straumfirði vegna ósjóar og myrkurs. Lá síðan þar inni á legunni um nóttina við akkeri og 2 landfestar. Bilaði sú, sem áveðurs var, um morguninn eptir, þannig, að jarðfast bjarg, er henni var brugðið um, sprakk og losnaði eða hefir verið áður sprungið, en svigrúm ekkert fyrir bátinn og hann jafnharðan kominn upp í urðina hinum megin; legan er örmjó, lítið meira en skipslengd. Fjöldi farþega beið bátsins í Borgarnesi og eru nú komnir hingað, landveg og sjóveg, á flutningum yfir firðina, og sumt af Akranesi.

Ísafold. 25 september 1895.

                  Þótti óhentugt skip

Gufubáturinn "Elín" þótti jafnan óhentugur til ferða um flóann, fremur slæmur í sjó að leggja, og skýlislaus fyrir farþega, svo að margir voru sáróánægðir með hann, en nú er vonandi, að gufubátur sá, sem kemur í stað "Elínar", fullnægi betur kröfum tímans.

Þjóðviljinn ungi. 12 október 1895.

04.01.2017 20:03

1038. Álftafell SU 101. TFYL.

Álftafell SU 101 var smíðaður hjá V.E.B. Elber Werft í Boizenburg í A-Þýskalandi árið 1967. 217 brl. 660 ha. Lister díesel vél. Fyrsti eigandi var Gídeon h/f í Vestmannaeyjum frá 20 október sama ár, skipið hét Gídeon VE 7. Selt 31 desember 1969, Álftafelli h/f á Stöðvarfirði, skipið hét Álftafell SU 101. Selt til Noregs og tekið af skrá 3 maí árið 1976.


Álftafell SU 101 á leið inn til Vestmannaeyja með loðnufarm 10 febrúar 1972. (C) Sigurgeir Jónasson.


Álftafell SU 101 á leið til Eyja 10 febrúar 1972.                                            (C) Sigurgeir Jónasson.

03.01.2017 14:17

303. Auðbjörg NK 66.

Auðbjörg NK 66 var smíðuð á Norðfirði árið 1935 af Sigurði Þorleifssyni. Eik og beyki. 15 brl. 16 ha. Wichmann vél. Eigendur voru Jakob Jakobsson skipstjóri, Ásmundur Jakobsson og Sveinn Jónsson í Neskaupstað frá 9 mars sama ár. Ný vél (1945) 66 ha. Kelvin díesel vél. Báturinn var gerður út m.a. til síldarleitar og síldarmerkinga. Báturinn var seldur 25 október 1961, Ásmundi Jakobssyni í Reykjavík, hét Auðbjörg RE 266. Báturinn eyðilagðist í Reykjavíkurhöfn árið 1967 og var síðan brenndur.


Auðbjörg NK 66 í bóli sínu á Norðfirði.                                                             (C) Karl Pálsson.


Auðbjörg NK 66 með fullfermi síldar á Norðfirði.                                      Ljósmyndari óþekktur.


Jakob Jakobsson skipstjóri við síldarmerkingar á Auðbjörgu NK. Ljósm. óþekktur.


              Jakob Jakobsson skipstjóri

 "Það sem einkenndi föður minn sem sjómann var fyrst og fremst það að hann leit á sjóinn og bátinn sem sitt vinnusvæði. Hann var aldrei neitt að flýta sér í land eins og ýmsir aðrir starfsbræður hans. Ég held að þetta viðhorf hans hafi mótast þegar hann var á skútunum, en á þeim var alltaf litið svo á að það væri landið sem væri hættulegt. Þeir sem ávallt höfðu verið á veikbyggðum smábátum, höfðu hinsvegar tilhneigingu í þá átt að hugsa um það í hverjum róðri að koma sér í land sem fyrst. í þeirra huga stafaði ógnin frá hafinu. Það er sem sagt staðreynd að faðir minn var ekki eins landbundinn og aðrir sjómenn eystra og hann var alltaf í sínu besta skapi út á sjó."

 Jakob Jakobsson fiskifræðingur um föður sinn Jakob Jakobsson skipstjóra og útgerðarmann í Neskaupstað.

 Sjómannadagsblað Neskaupstaðar

02.01.2017 09:13

B. v. Goðanes NK 105 ferst við Færeyjar.

Í dag eru liðin 60 ár frá því að Nýsköpunartogarinn Goðanes NK 105 frá Neskaupstað strandaði á blindskerjum í minni Skálafjarðar í Færeyjum er Flesjar heita. Á nýársdag árið 1957 lagði togarinn af stað frá heimahöfn sinni, Neskaupstað og tók stefnuna á haf út. Ferðinni var heitið til Færeyja, en þangað átti að sækja 14 Færeyska sjómenn sem verið höfðu skipverjar á Goðanesi þá um veturinn. Þegar togarinn lagði frá bryggju í Neskaupstað voru rétt tvö ár liðin frá því að togarinn Egill rauði hafði lagt þaðan af stað í þá ferð, sem endaði undir Grænuhlíð, og aðeins rúmlega tíu ár frá því að Goðanes kom fyrst til heimahafnar, en það var á annan dag jóla árið 1947. Goðanes var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1947 fyrir samnefnt hlutafélag í Neskaupstað. 655 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Goðanes var einn af tíu togurum sem smíðaðir voru fyrir Íslendinga í Beverley á árunum 1947-48.

Goðanes NK 105 að koma til hafnar í Neskaupstað árið 1955.                        (C) Björn Björnsson. 

Ekki segir af ferðum Goðaness yfir hafið á leið til Færeyja. Veður var þó fremur slæmt og sjólag illt. Þegar skipið nálgaðist eyjarnar var foráttubrim við þær og farið að ganga á með dimmum éljum. Pétur Hafsteinn skipstjóri, hafði þá samband við hafnaryfirvöld í Þórshöfn og spurðist fyrir um ástandið í höfninni þar. Sökum ókyrrðar í höfninni þar, ákvað Pétur skipstjóri að leita betri hafnar, Rúnavíkur í Skálafirði, enda var skipið komið í mynni fjarðarins og styst þangað. Ekki var að sjá á sjókortum sem um borð voru, annað en að siglingaleiðin inn Skálafjörð til Rúnavíkur væri greið. Rétt áður hafði Goðanes mætt togaranum Austfirðingi við Mjóvanes á leið norður sundið, en togarinn var á heimleið eftir sölutúr til Englands. Ekki hafði Goðanes siglt lengi inn Skálafjörð er skipið tók niðri. Í fyrstu virtist það strjúkast við sker, en síðan tók það harkalega niðri og þrátt fyrir að vélin væri þá komin á fulla ferð afturábak, haggaðist togarinn ekki á skerinu. 


Goðanes NK 105 á Norðfirði árið 1955.                                                       (C) Björn Björnsson.

Þungur sjór hefur verið á Skálafirði, því jafnskjótt og skipið tók niðri á grynningunum, gekk sjór stöðugt yfir það, meira og minna, enda tók skipið brátt að síga að aftan. Togarinn strandaði stundarfjórðungi fyrir klukkan 9, en árangurslausar tilraunir voru gerðar til þess að koma skipsbrotsmönnum til hjálpar, allt fram undir klukkan hálf fimm í gærmorgun, en þá tókst að skjóta björgunarlínu, sem skipsbrotsmenn náðu. Þeir voru þá allir í brúnni, og togarinn tekinn að sökkva mjög að aftan, en ólög gengu yfir hann. Hófst björgunarstarfið síðan og um klukkan 6 í gærmorgun var búið að bjarga 15 skipbrotsmönnum um borð í færeyska skipið Rok.
Er hér var komið björgunarstarfinu báðu Goðanesmenn um að björgun skipbrotsmanna yrði hraðað svo sem föng væru á. Skipið væri að því komið að liðast í sundur undir ólögunum. Báðu Goðanesmenn og um að Færeyingarnir reyndu að koma nær hinu strandaða skipi á trillubátum, sem komnir voru, og vera til taks ef með þyrfti. Var björgunarstarfinu síðan enn haldið áfram. Hálftíma síðar, eða um það bil voru 18 skipbrotsmenn komnir yfir i Rok, og því enn sex menn eftir á flakinu. 


Goðanes NK 105 við innri bæjarbryggjuna í Neskaupstað.                                 (C) Björn Björnsson.

Var skipið þá mjög illa farið, enda gerðist það nú með skjótum hætti, að það valt út af skerinu og sökk og fóru mennirnir allir í sjóinn. Voru nú trillubátarnir til taks. Þeim tókst að bjarga fimm þessara manna, en hinn sjötti fannst ekki. Var það Pétur Hafsteinn Sigurðsson, skipstjóri.
Voru skipbrotsmenn nú fluttir í land á Austurey, en þar er Skálafjörður, ekki í Sandey, eins og hermt var í blaðinu í gær. Þaðan voru þeir fluttir til Þórshafnar, sem er ekki löng ferð. Voru þeir þangað komnir um klukkan 10 í gærmorgun.
Í Þórshöfn, þar sem fréttaritari Ríkisútvarpsins átti tal við 1. stýrimann á Goðanesi, Halldór Halldórsson, sagði Halldór m.a., að hann hafi verið meðal þeirra sex, er voru á skipsflakinu er það sökk og hann hafi séð það síðast til skipstjórans unga, Péturs Hafsteins, að hann var að hjálpa tveim skipsmönnum að komast í björgunarstólinn, en þá var það sem flakið valt út af skerinu og sökk skyndilega.


Skipbrotsmennirnir af Goðanesi.                                            Myndin er tekin í Þórshöfn í Færeyjum.

Halldór Halldórsson, stýrimaður, sagði ennfremur frá þvi, að vegna þess hve togarinn kastaðist mikið til á blindskerinu er ólögin komu á skipið, hafi skipsmönnum mistekizt að koma öðrum björgunarbátnúm út. Var hann á hvolfi, er hann kom í sjóinn. Í hinum brotnaði botninn, er hann var kominn niður. Einnig skýrði hann frá því, að þeim hafi tekizt að losa stóran björgunarfleka, sem var aftan á skipinu og hafi hann verið bundinn við afturenda skipsins. En svo hafi skipið sigið skyndilega svo mikið niður að aftan, að skipstjórinn hafi gefið þeim mönnum er þar voru skipun um að yfirgefa bátapallinn í skyndi. Varð þá flekanum ekki náð. Fóru skipbrotsmenn þá allir inn í brúna og voru þar unz yfir lauk og Goðanes sökk. Ekki var neinn gúmmíbjörgunarbátur á togaranum. Fréttaritari Mbl. í Neskaupstað sagði í gær, að fregnin hefði borizt bæjarbúum árdegis í gær og hefðu þá fánar víða verið dregnir í hálfa stöng í bænum.
Hinn ungi skipstjóri, Pétur Hafsteinn, átti heima þar í bænum. Hann var sonur Sigurðar Bjarnasonar og konu hans Guðlaugar Jónsdóttur, sem bæði eru komin á efri ár. Einnig lætur hann eftir sig unnustu sína, Elísabetu Kristinsdóttur, sem einnig er Norðfirðingur, og áttu þau eitt barn á öðru ári, sem skírt var á jólunum.


Pétur Hafsteinn Sigurðsson skipstjóri. Ljósmyndari óþekktur.

Pétur Hafsteinn var stýrimaður á Agli rauða, er hann fórst undir Grænuhlíð í fyrravetur. Pétur Hafsteinn var undir venjulegum kringumstæðum 1. stýrimaður á Goðanesi, en skipstjórinn, Ólafur Aðalbjörnsson, var nú í jólafríi. Var Pétur Hafsteinn mjög dugandi skipstjórnarmaður. Einmitt um þessar mundir var hann að láta byggja fyrir sig og tengdaföður sinn, Kristinn Marteinsson, 60 tonna vélbát og mun Pétur Hafsteinn hafa ætlað að vera skipstjóri á bátnum. Hann var aðeins 24 ára að aldri. Er sár harmur kveðinn að fjölskylduliði hans. Togarinn Goðanes var, eins og kunnug; er, einn nýsköpunartogaranna. Fyrir Neskaupstað er skiljanlega mikill skaði að því að hafa nú misst báða togara sína á um það bil einu ári.
Skipstjórinn á Færeyska skipinu, Vesturhavið Blíða, Jakob Andreas Vang sagði frá því stuttu síðar að skerin sem Goðanes strandaði á og hétu Flesjar, væru einu skerin í öllum firðinum og væru þau nokkuð úr siglingaleið. Sagði hann þau ekki koma fram í ratsjá nema í logni, og því engin von til þess að þau sæjust þannig kvöldið sem Goðanes strandaði. Kom þessi vitneskja heim og saman við það sem upplýstist í sjóréttarhöldum yfir þeim sem björguðust, en þau voru haldin í Neskaupstað, strax og skipbrotsmennirnir komu þangað.

Heimildir; Morgunblaðið. 4 janúar 1957.
                  Þrautgóðir á raunastund. V bindi.
                  

        Togarinn Goðanes ferst við Færeyjar

        Skipstjórinn, Pétur Hafsteinn Sigurðsson, drukknaði

Í annað sinn á tæpum tveim árum, er Neskaupstaður harmi lostinn bær vegna stórslysa. Í janúar í hitteðfyrra fórst annar togari bæjarins, og nú hefur sú ógæfa dunið yfir, að hinn togarinn hefur farizt líka og með honum ungur efnismaður. Norðfirðingar eiga allir um sárt að binda vegna þessara stórslysa, en þó engir sem þeir, er misst hafa ástvini sína í þessum slysum.
Klukkan um 5 á nýársdag lagði togarinn Goðanes úr höfn hér í Neskaupstað og var förinni heitið til Færeyja í þeim erindagerðum að sækja sjómenn. Með skipinu voru 24 menn, þar af 7 færeyskir sjómenn. Fyrsti stýrimaður skipsins, Pétur Hafsteinn Sigurðsson, var skipstjóri í þessari hinstu ferð þess. Um kl. 9 í fyrrakvöld strandaði Goðanes í minni Skálafjarðar. Veðri var svo háttað, að stinningskaldi var á, mikill sjór og dimmviðri. Þegar voru send út neyðarskeyti og komu mörg skip á strandstaðinn, þar á meðal togarinn Austfirðingur. Ekki verður björgunin rakin hér í einstökum atriðum, en snemma í gærmorgun hafði tekizt að ná 18 mönnum í björgunarstóli um borð í færeyska skútu. Var þá skipið mjög tekið að liðast og sýnilegt að það mundi sökkva innan skamms. Bað þá loftskeytamaðurinn, að reynt yrði að senda litla báta sem næst flakinu. Um klukkan hálfsjö í gærmorgun brotnaði svo skipið og sökk, en trillubátar, sem sendir höfðu verið á vettvang, björguðu 5 mönnum, en skipstjórinn, Pétur Hafsteinn Sigurðsson, fórst með skipinu. Hafði hann til hinztu stundar unnið að því að hjálpa félögum sínum í björgunarstólinn. Skipbrotsmennirnir munu koma heim með Austfirðingi væntanlega í kvöld eða nótt. Pétur Sigurðsson var aðeins 24 ára þegar hann fórst. Hann fæddist hér í bænum 10. maí 1932 og voru foreldrar hans hjónin Guðlaug Jónsdóttir og Sigurður Bjarnason. Pétur var heitbundinn Elísabetu Kristinsdóttur og áttu þau einn son, Kristinn, tæplega misserisgamlan. Bróður átti Pétur einn, Birgi, sem lengi hefur verið stýrimaður á Goðanesi, en er nú ráðinn stýrimaður á nýja togarann. Er þessum ástvinum Péturs hinn sárasti harmur kveðinn við hið sviplega og óvænta fráfall hans. Flytur Austurland þeim öllum og öðrum nánustu ættingjum og venzlamönnum Péturs innilegustu samúðarkveðjur, og þykist þar mæla fyrir munn allra bæjarbúa. Allt frá því Pétur var kornungur lagði hann stund á sjó. Hann var 2. stýrimaður á Agli rauða þegar hann fórst. Annar maður, sem í skipreikanum lenti, Axel Óskarsson, loftskeytamaður, var einnig á Agli rauða. Þó ekki séu glöggar fréttir fyrir hendi af björgunarstarfinu og aðstöðu til björgunar, verður ekki annað séð, en að Færeyingar og aðrir, sem að hafa unnið, hafi unnið mikið björgunarafrek, sambærilegt við ýms glæsilegustu björgunarafrek hér við land. Sjópróf vegna þessa hörmulega slyss munu fara fram hér í bæ og hefjast líklega á morgun.

Austurland. 4 janúar 1957.

  Skipbrotsmennirnir af Goðanesi komnir til Neskaupstaðar

Í gærkvöldi kl. 5,30 kom togarinn Austfirðingur með skipsbrotsmennina af togaranum Goðanesi, sem fórst við Færeyjar. Allir skipsbrotsmennirnir voru við góða heilsu. Reynt var í gærkvöldi að hafa samband við skipsbrotsmenn og fá hjá þeim upplýsingar um nánari tildrög slyssins og nánari frásögn af björguninni, en þeir vörðust allra frétta. Sjópróf munu hefjast í málinu þar eystra í dag. Togarinn Austfirðingur hélt þegar úr höfn og beint á veiðar og verður skýrsla tekin af honum seinna er hann kemur í höfn næst.

Morgunblaðið. 5 janúar 1957.


01.01.2017 09:46

E. s. Reykjavík.

Faxaflóagufubáturinn Reykjavík var smíðaður í Oscarshamn í Svíþjóð árið 1874. Járn. (141 brl ?) 2 cyl compound vél, 16 nhp. Fyrsti eigandi var C.J. Douhan í Gavle í Svíþjóð frá sama ári, skipið hét Löfsta. Selt 1875, Tönsberg & Horten D/S í Tönsberg í Noregi, hét Tönsberg. Selt árið 1897, Firmanu Fredriksen & Co í Mandal í Noregi, fékk nafnið Reykjavík. Skipið var í áætlunarferðum frá Reykjavík til Akraness, Borgarness og einnig til hafna á suðurnesjum með farþega, vörur og póst. Í norðan stórviðri að kvöldi 19 febrúar 1907, slitnaði Norska kolaskipið Mod frá Haugasundi upp á ytri höfninni í Reykjavík og rakst á Reykjavíkinna með þeim afleiðingum að gat kom á skipið og sjór fossaði inn í það. Einnig slitnaði ankerisfesti skipsins. Skipstjóri Reykjavíkurinnar ákvað að renna skipinu upp í urðina neðan við Skansinn (Batteríið) til að forða því að það sykki á höfninni. Skipið eyðilagðist fljótlega þarna í fjörunni.

Það kemur fram í greininni hér að neðan að skipið hafi verið 87 brl. að stærð. Upplýsingarnar um stærðina hér efst (141 brl) eru fengnar frá Englandi, þannig að ég læt þær báðar standa.
 
Flóabáturinn Reykjavík á ytri höfninni. Engey í baksýn.                                Ljósmyndari óþekktur.
 
Reykjavíkin strönduð undir Batteríinu. Skipið fjær gæti verið kolaskipið Mod frá Haugasundi sem rakst á það.                                                                                                 Ljósmyndari óþekktur.
 
 

                Reykjavíkin strönduð 

Faxaflóagufubáturinn Reykjavík sleit upp hér á höfninni í nótt snemma í ofsaroki á norðan með kafaldsbyl, og rak beint upp í Skanzinn (Battaríið). Mannbjörg tókst greiðlega, á kaðli. Slysið var að kenna árekstri af, norsku kolafarms-gufuskipi stóru, Maud (Gautesen, um 400 smál.), er kom fyrir fáum dögum til Edinborgar-verzlunar. Það mun hafa misst frá sér bæði akkerin og bar á gufubátinn, sleit akkeriafesti hans með skrúfunni, er var í gangi til bjargar, klauf stefnið og sprengdi upp þilfarið að framan, svo að inn féll kolblár sjór, og sá skipstjórinn eigi annan kost vænni en að hleypa beint á land til skipbrots. Nú liggur Reykjavikin á klöppunum við Skanzinn, hálffull af sjó, og vonlaust um að gert verði við hana. En Maud rásar um höfnina legufæralaus og kallar á hjálp til að geta lagst aftur, en fær ekki. Reykjavíkin var vátrygð í Faxaflóa ábyrgðarfélaginu fyrir 24,000 kr., en virt á 40,000 kr. Það er voðaskellur fyrir félagið, ef skaðinn lendir á því. En sannist sök á hitt skipið um vítaverða ábyrgð á árekstrinum, hlýtur skaðinn að verða dæmdur á það. Reykjavíkin var búin að vera hér í förum um flóann o. s. frv. 11 ár samfleytt, og þótti vel reynast. En var nú orðin of lítil (87 smál.). Flutningur og ferðalög hafa aukist stórkostlega sÍðustu árin. Skipstjóri var Gundersen síðari árin; Waardahl þar á undan. En afgreiðslu hefir alla tíð haft Björn Guðmundsson kaupmaður. ísafold spurði hann um ráðstafanir fyrir framhaldi Eaxaflóaferðanna. Hann kvað ekkert vera farið um það að hugsa að svo komnu. Póstflutning norður og vestur eða þaðan hefir Faxaflóabáturinn verið látinn undanfarin missiri fara með milli Reykjavíkur og Borgarness. Nú mun taka fyrir það að sinni. Póstar þeir eiga nú að fara héðan á föstudaginn (22.), og kvað engu eiga að hagga um það þrátt fyrir þetta slys.

Ísafold. 20 febrúar. 1907.

 

            Gufubátnum ekki bjargað

Reykjavíkurstrandið. Tekið var í mál að reyna að koma gufubátnum þeim úr urðinni þar sem hann lá við Skanzinn, í því skyni að gera við hann. En meðan á þeim umþenkingum stóð, kom kári til sögunnar  á nýjan leik og muldi hann í spón núna á mánudagsnóttina. Skaðabótamál er höfðað gegn skipstjóranum á gufuskipinu, sem rakst á Reykjavíkina, Mod frá Haugasundi. Sáttafundur á mánudaginn kemur. En hann kvað enga sátt taka i mál.

 

Ísafold. 2 mars 1907.

31.12.2016 14:02

Áramótabrenna í Neskaupstað 1999.Óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og takk fyrir samfylgdina hér á síðunni á árinu sem er að líða.Kærar kveðjur til ykkar allra.

30.12.2016 11:09

1686. Valbjörn ÍS 307. TFAW.

Valbjörn ÍS 307 var smíðaður hjá Herði h/f í Ytri Njarðvík árið 1984 fyrir Þorstein h/f á Ísafirði. 57 brl. 470 ha. Gummins díesel vél. Hét fyrst Haukur Böðvarsson ÍS 847. Selt 8 apríl 1990, Ísgulli h/f í Reykjavík, hét Gullþór KE 70. Seldur 19 desember 1990, Snorra Snorrasyni á Dalvík, hét Gullþór EA 701. Báturinn hét Kristján Þór EA 701 frá 29 janúar 1991. Seldur 21 mars 1992, Birni h/f í Bolungarvík, hét Gunnbjörn ÍS 302. Skipið var endurbyggt og stækkað árið 1996 í Póllandi og aftur árið 2000. Ný vél (2000) 952 ha. M.T.U. díesel vél, 700 Kw. Mældist eftir breytingarnar 263 brl. Árið 2007 fær skipið einkennisstafina ÍS 307. Fær nýtt nafn árið 2009, Valbjörn ÍS 307. Heitir það í dag og gert út af Birni ehf í Bolungarvík.


Valbjörn ÍS 307 í slipp í Reykjavík.                                   (C) Þórhallur S Gjöveraa. 13 janúar 2016.


Valbjörn ÍS 307 við Ægisgarð.                                            (C) Þórhallur S Gjöveraa. 7 febrúar 2016.

29.12.2016 13:44

166. Guðmundur Þorlákur RE 45. TFLP.

Guðmundur Þorlákur RE 45 var smíðaður í Oskarshamn í Svíþjóð árið 1946. Eik. 89 brl. 215 ha. Polar díesel vél. Eigandi var Hlutafélagið Mar í Reykjavík frá 12 mars árið 1947. Ný vél (1954) 330 ha. Alpha díesel vél. Skipið var endurmælt árið 1949, mældist þá 100 brl. Selt 25 júní 1957, Ásgeiri Bergssyni og Sverri G Ásgeirssyni í Neskaupstað, skipið hét Bergur NK 46. Selt 10 nóvember 1961, Ingjaldi h/f í Reykjavík, hét Pétur Ingjaldsson RE 378. Selt 10 febrúar 1965, Sigurði Pétri Oddssyni í Vestmannaeyjum, skipið hét Guðjón Sigurðsson VE 120. Ný vél (1968) 450 ha. Wichmann díesel vél. Selt 20 febrúar 1970, Sigurgeir Ólafssyni í Vestmannaeyjum, skipið hét Lundi VE 110. Skipið rak upp í suður hafnargarðinn í Vestmannaeyjum 10 apríl árið 1972. Skipið náðist á land en var það illa farið eftir barninginn við garðinn að það var talið ónýtt.


Guðmundur Þorlákur RE 45.                                                                      Ljósmyndari óþekktur.


166. Pétur Ingjaldsson RE 378.                                                            (C) Hafsteinn Jóhannsson.

        Trolldræsur stöðvuðu vélina í brimrótinu
                                  90 tonna bátur ónýtur
                   Skall hvað eftir annað á hafnargarðinn

Netadræsur úr togaratrolli urðu þess valdandi í fyrrinótt að 90 tonna bátur, Lundi VE 110, varð stjórnlaus í brimgarðinum í Vestmannaeyjahöfn þegar stór trolldræsa fór í skrúfu skipsins, en þá var hið versta veður, 10 vinstig á austan. Bátinn rak upp í hafnargarðinn og er talin mikil mildi að enginn af áhöfninni fórst, en einn maður sem féll fyrir borð, náðist aftur. Talið er mögulegt að áhöfn brezks togara, sem sigldi frá Eyjum í fyrrakvöld, hafi hent trolldræsum í sjóinn þarna. Lundi er talinn ónýtur. Skipstjóri á Lunda er Sigurgeir Ólafsson og var 8 manna áhöfn á bátnum. Um kl. 3.30 í fyrrinótt var Lundi að sigla út úr höfninni í Vestmannaeyjum í róður, en vindur var þá 10 vindstig af austri og allimikill sjór. Siglingin út úr höfninni í Eyjum er beint í austur.
Skipti engum togum þegar báturinn var kominn skammt út fyrir hafnargarðinn að vél skipsins stöðvaðist, þegar togaratrolldræsurnar fóru í skrúfu skipsins. Rak bátinn þá stjórnlaust upp í suðurhafnargarðinn, sem er fjær Heimakletti. Þrisvar sinnum skellti brimið Lunda upp á garðinn miðjan og í einu slíku broti tók einn skipverja út, Anton Einar Óskarsson, en það varð honum til bjargar, að hann náði taki á netadruslum sem flutu upp fastar í skrúfu skipsins og tókst skipsfélögum hans að ná honum um borð án þess honum yrði meint af. Brimið bar bátinn með hafnargarðinum að innsiglingunni og skrallaði hann eftir garðinum og síðan inn fyrir í höfnina undan veðrinu. Var hann þá kominn að því að sökkva.
Allir skipverjar fóru strax í björgunarvesti þegar netin fóru í skrúfuna, en ekki var viðlit að fara í björgunarbát eða komast í land eins og sjólagið var þarna við hafnargarðinn, enda svartamyrkur og úthafsaldan ekki létt þegar hún skellur þarna í 10 vindstigum. Eins og fyrr segir er báturinn talinn ónýtur. Lóðsinn í Eyjum var strax kallaður út og kom hann Lunda að bryggju áður en hann sökk. Var strax hafizt handa við að dæla úr bátnum og í gær var hann tekinn í slipp. Kjölur skipsins er allur undan, þilfarið gengið upp og báturinn er allur skakkur og skældur, svo að hann er að öllum líkindum ónýtur. Í gærmorgun fóru hafnsögubátarnir í Eyjum út fyrir hafnargarðana að leita að frekari netadruslum og fundu þeir fleiri dræsur af sömu gerð.
 Veður var farið að stillast og náðu þeir netadræsunum. Bátar sem sigldu úr höfninni í gær þorðu ekki annað en að hafa mann frammi í stafni á útstíminu og kom það sér vel a.m.k. hjá einum bátnum, því að hann fékk dræsu í sinni stefnu, en skipverjinn, sem stóð í pusinu frammi á gat sagt til um hana. Menn velta þvi fyrir sér hvernig standi á því að svo margar togaranetadræsur reki þarna á sama tíma, en talið er mögulegt að brezkur togari, sem sigldi út frá Eyjum í fyrrakvöld, hafi hent trolldræsunum fyrir borð. Þegar brezki togarinn lá í Vestmannaeyjahöfn voru skipverjar að slá upp fyrir nýju trolli og var mikið af netadræsum á dekkinu. Troll togara er gert úr miklu grófara garni en bátatroll og allar dræsurnar sem fundust við innsiglinguna í Vestmannaeyjahöfn voru úr togaratrolli. Skipstjórinn á Lunda, Sigurgeir Ólafsson, og bankastjóri Útvegsbankans í Eyjum, Ólafur Helgason hófust handa um það strax í gær að reyna að fá leigðan netabát í stað Lunda, en það hafði ekki tekizt í gærkvöldi.

Morgunblaðið. 11 apríl 1972.

28.12.2016 17:24

Gamalt áraskip.

Báturinn heitir Ólafur Skagfjörð og er áttæringur, smíðaður í Flatey á Breiðafirði á árunum 1875-80. Ólafur Kristjánsson Skagfjörð (1851-1887) verslunarstjóri í Flatey, stóð fyrir samskotum til að smíða þennan bát handa Sigurði Jónssyni, aflasælum formanni sem kallaður var "stormur". Bátur Sigurðar hafði brotnað á ís og hann hafði ekki ráð á nýjum bát.
Samskotin fengu svo góðar undirtektir að Sigurður fékk þennan bát sem hann skírði eftir Skagfjörð verslunarstjóra í þakklætisskyni. Sigurði aflaðist hinsvegar ekki vel á Ólafi og seldi hann Pétri Guðmundssyni frá Brennu, reyndum og heppnum aflamanni sem réri frá Austurkleif. Veturinn 1911 lenti Pétur í miklum hremmingum á bátnum þegar norðan áhlaup skall á honum á Svöðumiði en skipið náði landi í Skarðsvík.
Pétur aflaði jafnan vel á Ólafi. Þegar Pétur flutti frá Hellissandi, seldi hann Haraldi Guðmundssyni skipið. Haraldur var síðasti eigandi þess og afkomendur hans afhentu safninu það. Róið var á Ólafi fram á 7. Áratuginn, síðast frá Rifi.

Heimild: Sjóminjasafnið á Hellissandi.


Gamla áraskipið Ólafur Skagfjörð. Báturinn er að koma í viðgerð hingað til Reykjavíkur og fer síðan að viðgerð lokinni aftur vestur á Hellissand.


Ólafur Skagfjörð.


Ólafur Skagfjörð.


Ólafur Skagfjörð.


Ólafur Skagfjörð.


Ólafur Skagfjörð.                                                (C) Þórhallur S Gjöveraa. 20 nóvember 2016.

27.12.2016 09:43

1598. Örvar HU 21. TFUR.

Örvar HU 21 var smíðaður hjá Slippstöðinni á Akureyri árið 1982 fyrir Skagstrending h/f á Skagaströnd. 499 brl. 2.400 ha. Wichmann díesel vél. Smíðanúmer 64. Örvar var fyrsti svokallaði flakafrystitogari okkar Íslendinga. Togarinn var seldur til Rússlands og tekinn af skrá 11 september árið 1997.

Örvar HU 21.                                                                                               (C) Snorri Snorrason. 


Örvar HU 21.                                                                                                (C) Snorri Snorrason.

            Nýr og glæsilegur togari

                     Hlaut nafnið Örvar HU 21

Laugardaginn 31. okt. s.l. var sjósettur nýr skuttogari hjá Slippstöðinni h/f á Akureyri, fyrir Skagstrending h/f á Skagaströnd. Hlaut hann nafnið ÖRVAR HU-21. Togarinn er 50,5 metrar á lengd, með 2400 ha. Wickman aðalvél. Hann er útbúinn með flökunarvél, roðflettingarvél og frystitækjum svo hægt er að vinna allan afla um borð. Útbúnaður þessi var settur í skipið vegna þess að mjög hefur dregist að hefja framkvæmdir við nýtt frystihús á Skagaströnd, sem átti að vera tilbúið um svipað leyti og togarinn. Skipstjóri á hinu nýja skipi verður Guðjón Sigtryggsson sem verið hefur skipstjóri á skuttogara félagsins Arnari HU-1 frá upphafi. Fyrsti vélstjóri á Örvari er ráðinn Magnús Sigurðsson sem einnig hefur starfað um nokkurt skeið hjá fyrirtækinu.
Á laugardagsmorguninn snemma, flykktust Skagstrendingar til Akureyrar að vera viðstaddir sjósetningu skipsins. Mun láta nærri að um 30% hluthafa félagsins hafi mætt við þessa athöfn. Þá var og mættur Hjörleifur Guttormsson iðnaðarráðherra sem fór nokkrum orðum um endurnýjun skipastólsins um leið og hann óskaði Skagstrendingum til hamingju með þetta ágæta skip. Að skírn og sjósetningu lokinni bauð Slippstöðin h/f gestum til veglegrar veislu í Sjálfstæðishúsinu. Þar afhenti stjórnarformaður Slippstöðvarinnar h/f, Stefán Reykjalín, frú Halldóru Þorláksdóttur, sem gaf skipinu nafn, veglegt gullarmband, sem á var greipt nafn skipsins og einkennisstafir. Frú Halldóra er kona Guðjóns Sigtryggssonar skipstjóra.

Feykir. 6 nóvember 1981.

                    Örvar HU 21

7 apríl s.l. bættist nýr skuttogari við fiskiskipastól landsmanna er Örvar HU-21 kom til heimahafnar sinnar, Skagastrandar, í fyrsta sinn. Örvar er smíðaður hjá Slippstöðinni h/f á Akureyri og er  smíðanúmer 64. Þetta er sjötti skuttogarinn, sem Smíðaður er hjá stöðinni, en áður hefur hún afhent; Guðmund Jónsson GK (nú Breki VE), Óskar Magnússon AK, Björgúlf EA, Sigurbjörgu ÓF og Kolbeinsey  ÞH. Tvö fyrsttöldu skipin eru jafnframt búin til nótaveiða. Skipð, sem er hannað hjá stöðinni, er ný hönnun, en byggir að verulegu leyti á síðustu nýsmíði Slippstöðvarinnar, Kolbeinsey ÞH-10. Helstu  breytingar á smíði og fyrirkomulagi eru: Smíðalengd aukin um 2.75 m; dýpt að þilförum aukin um 4 cm; Í stað þilfarshúsa meðfram síðum á efra þilfari, undir hvalbaksþilfari, og opins gangs á milli fyrir bobbingarennur, er lokað rými á fremri hluta efra þilfars, undir hvalbaksþilfari; Í stað reisnar undir brú er íbúðarhæð; og breytt fyrirkomulag á togþilfari (ekki tveggja-vörpu fyrirkomulag) og í íbúðum. Örvar HU hefur sérstöðu í íslenzka skuttogaraflotanum hvað varðar vinnsluþilfar, en í skipinu er búnaður til vinnslu og frystingar á flökum, og er hann  fyrsta fiskiskipið hérlendis þannig búið. Fiskvinnslutækin eru frá Baader og frystitækin frá Kværner Kulde A/S. Eigandi Örvars HU er Skagstrendingur h/f á Skagaströnd, en það fyrirtæki á fyrir skuttogarann Arnar HU, sem smíðaður var í Japan árið 1973. Skipstjóri á Örvari HU er Guðjón Sigtryggsson, 1 vélstjóri er Magnús Sigurðsson. Framkvæmdastjóri útgerðar er Sveinn Ingólfsson.

Ægir. 5 tbl. 1 maí 1982.

             Leist ekki á frystinguna fyrst

      Viðtal við Guðjón Ebba Sigtryggsson skipstjóra

Margir hafa orðið til þess að gagnrýna einmitt frystitogara fyrir að nýta ekki aflann nógu vel og koma ekki með allan afla að landi. Hverju svarar frumkvöðull veiða á frystitogurum þeirri gagnrýni? "Það eru til nákvæmar skýrslur af Örvari og Arnari frá því veiðar á frystingu hófust. Það kom eftirlitsmaður um borð eftir hvern einasta túr og tók út það sem við höfðum fryst af undirmálsfiski. Stundum var hluti af því dæmt upp í stærra en oftast var það í lagi. Við vorum allir af vilja gerðir til að nýta allan afla sem kemur um borð." Það var í apríl 1982 sem Örvar HU, fyrsti frystitogari íslendinga, kom til heimahafnar á Skagaströnd og hélt fljótlega til veiða. Hvernig var fyrsti túrinn? "Ég var nú ekki hrifinn af þessu í fyrstu. Mér óx þetta töluvert í augum en lét slag standa. Allir útreikningar sýndu að þetta væri hægt og ég held að Örvar hafi alltaf verið hagkvæmt skip. Hitt er svo annað mál að það var upphaflega ekki gert ráð fyrir að við afköstuðum nema 8-10 tonnum af flökum á dag en þau fóru fljótlega upp í 14-15 tonn og svo upp undir 20 tonn á dag. Í fyrsta túrnum fórum við í grálúðu, lentum í mikilli veiði og lágum mestan hluta sólarhringsins í aðgerð, toguðum ekki mjög mikið. Byrjunarerfiðleikarnir voru miklir og álagið gífurlegt á áhöfnina. Ég man eftir því að bátsmaðurinn hjá mér, ákaflega samviskusamur maður og duglegur, var fjórum kílóum léttari eftir túrinn og var hann þó ekki stór fyrir. Okkur fannst mjög erfitt að liggja í aðgerð meðan aðrir togarar mokuðu fiskinum upp í flottrollinu. Fyrstu mánuðina voru menn afar óhressir og sumir hættu jafnvel. En þetta hefði aldrei tekist nema vegna þess að við vorum með þrautþjálfaða og vana áhöfn. Þorsteinn Már Baldvinsson, sem er einn eigenda Samherja, kom með okkur í fyrsta túrinn en hann var ráðgjafi útgerðarinnar við þessar breytingar. Við sáum fljótlega að sá skurður á flökunum sem frystihússérfræðingarnar vildu að við beittum tafði okkur gífurlega svo við breyttum því og ákváðum að bjóða fiskinn unninn á þennan hátt. Þetta skipti sköpum og fljótlega jukust afköstin mjög mikið. En fyrsta árið á þessum veiðum var erfitt.

Ægir. 5 tbl. 1 maí 1996.

            Örvar HU seldur Rússum

Skagstrendingur hf. á Skagaströnd hefur selt togarann Örvar HU-21 til rússneskra aðila og er kaupandinn Permina Shipping. Skipið hélt úr höfn á Akureyri í gær undir stjórn nýrra eigenda og fer á miðin í Barentshafi en þar hafa kaupendur drjúgan kvóta til ráðstöfunar. Örvar var eitt af þeim skipum íslenska flotans þar sem fiskur var fyrst sjófrystur um borð.

Morgunblaðið. 24 október 1997.

Flettingar í dag: 297
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 693
Gestir í gær: 60
Samtals flettingar: 852355
Samtals gestir: 62761
Tölur uppfærðar: 18.6.2024 02:28:46