22.07.2018 15:09

Guðjón Pétur GK 191.

Vélbáturinn Guðjón Pétur GK 191 var smíðaður hjá Johan Drage í Saltdal í Noregi árið 1930. Eik og fura. 24 brl. 45 ha. Rapp vél. Eigandi var Sigurður Pétursson útgerðarmaður í Keflavík frá 21 apríl sama ár. Ný vél (1933) 80 ha. June Munktell vél. Báturinn var seldur árið 1935, Jóni Halldórssyni á Akranesi, hét þá Rjúpan MB 56. Bátinn rak á land á Akranesi í óveðri 19 nóvember árið 1936 og eyðilagðist.


V.b. Guðjón Pétur GK 191 sennilega við komuna til landsins 30 apríl 1930.      Ljósmyndari óþekktur.

       V.b. Guðjón Pétur GK 191

Nýr vjelbátur kom hingað í gær frá Noregi, eftir 5 1/2 sólarhrings siglingu frá Lófóten. Báturinn er eign Sigurðar Pjeturssonar í Keflavík, og er smíðaður hjá Johan Drage í Saltdal í Noregi, eftir fyrirmælum Óttars Ellingsens kaupmanns í Reykjavík. Er báturinn nokkru stærri og traustari heldur en báturinn sem kom til Keflavíkur í vetur frá sömu skipasmíðastöð. Hann er 57 fet á lengd, 20 smálestir og í honum er 45 hestafla Rapp-vjel .

Morgunblaðið. 1 maí 1930.

         Aftakaveður á Skaganum

Eftir hið harða landsynningsrok 11. marz 1935, þegar ekkert varð að bátum á Krossvík, töldu menn víkina örugga. Sömuleiðis lágu mótorbátar og »Fagranesið« (flutningaskip) þar, í útsunnanveðrinu og briminu 7. apríl sl., en þá skullu 2 skip saman, því á keðjum mun hafa tognað. En hvað skeður nú? Hinn 19. nóv. sl., var hér aftaka veður, brim og flóðhæð meiri en elztu menn muna. Þá rak Fagranes í land og mb. »Ægir« M. B. 96 og »Rjúpan« M. B. 56, er svo brotin, að ekki verður við hana gert. Hún lá á Lambhússundi, hin 2 á Krossvik.

Ægir. 12 tbl. 1 desember 1936.


22.07.2018 10:25

297. Magnús Marteinsson NK 85. TFRV.

Vélbáturinn Magnús Marteinsson NK 85 var smíðaður hjá Frederikssund Skipsværft A/S í Frederikssund í Danmörku árið 1956. Eik. 64 brl. 265 ha. Alpha díesel vél. Eigandi var Sveinn Magnússon útgerðarmaður í Neskaupstað frá 18 júní sama ár. Kom fyrst til heimahafnar, Neskaupstaðar 24 júní 1956. Seldur 1 október 1960, Hjallanesi hf á Flateyri, hét þá Ásgeir Torfason ÍS 96. Seldur 10 júlí 1970, Benedikt Gunnarssyni á Flateyri, sama nafn og númer. Ný vél (1975) 426 ha. Caterpillar díesel vél, 313 Kw. Sama ár fór fram stórviðgerð á bátnum hjá Skipavík hf í Stykkishólmi. Báturinn var gerður út af Öldu hf á Flateyri árin 1976-78. Seldur 20 febrúar 1978, Sjöfn sf í Grenivík, hét þá Sjöfn ÞH 142. Frá 8 júní 1989 heitir báturinn Sjöfn ll ÞH 264 og eigandi er Hlutafélagið Sjöfn á Grenivík. Seldur 3 apríl 1990, Hlöðum hf á Bakkafirði, hét Sjöfn ll NS 123. Seldur 14 febrúar 1991, Bjargi hf á Bakkafirði, sama nafn og númer. Seldur 23 júlí 1996, Útgerðarfélaginu Hlín í Vestmannaeyjum, hét Surtsey VE 123. Seldur 1997, Mar Tröð ehf í Grindavík, hét Eldhamar GK 13. Seldur 1998, Útgerðarfélaginu Hlín hf í Vestmannaeyjum, hét þá Eldhamar ll GK 139. Árið 2000 er Samábyrgðin hf í Reykjavík eigandi bátsins, hét þá Gullfaxi GK 14. Árið 2002 var báturinn skráður í eigu Kers hf í Reykjavík, sama nafn og númer. Seldur 2003, Jaxlavík ehf í Grindavík, sama nafn og númer. Frá árinu 2004 er báturinn skráður í Hafnarfirði en með heimahöfn í Grindavík. Frá 5 maí 2006 heitir báturinn Gullfaxi GK 147. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 14 mars árið 2008 og rifinn í Grindavík skömmu síðar.


297. Magnús Marteinsson NK 85 með fullfermi af síld á Norðfirði sumarið 1957.    (C) Björn Björnsson.


297. Magnús Marteinsson NK 85 með síldarfarm á Norðfirði sumarið 1958.       (C) Björn Björnsson.


297. Ásgeir Torfason ÍS 96.                                        (C) Snorri Snorrason.  Úr safni Atla Michelsen.


297. Sjöfn ll NS 123.                                                                                             (C) Heimir Hoffritz.

                    Nýr bátur
     Magnús Marteinsson N. K. 85

Enn einn nýr bátur bættist norðfirzka flotanum á sunnudagskvöldið. Þá kom hingað nýbyggður frá Frederiksund í Danmörku v. b. Magnús Marteinsson N. K. 85. Magnús Marteinsson er um 64 smálestir að stærð með 240-265 hestafla Alpha-dísilvél. Ganghraði í reynsluför var 10 mílur. Báturinn er búinn öllum þeim siglingar og öryggistækjum sem nú tíðkast í fiskibátum. Hann er vandaður að sjá og traustbyggður. Eigandi bátsins er Sveinn Magnússon. Skipstjóri verður Víðir sonur Sveins og sigldi hann bátnum heim. Magnús Marteinsson verður á síldveiðum í sumar og er þegar farinn norður. Þetta er fjórði nýbyggði fiskibáturinn, sem flota okkar bætist á sex mánuðum. Austurland óskar eiganda og áhöfn til hamingju með bátinn.

Austurland. 29 júní 1956.


21.07.2018 09:32

Leifur Eiríksson RE 333. TFVR.

Vélskipið Leifur Eiríksson RE 333 var smíðaður hjá Saltviks Slip & Varv í Oskarshamn í Svíþjóð árið 1947 sem Auður EA 6. Eik. 92 brl. 215 ha. Polar díesel vél. Fyrsti eigandi var Hlutafélagið Auður á Akureyri frá 1 júlí sama ár. Ný vél (1954) 270 ha. Lister díesel vél. Selt 23 desember 1957, Fiskiðjuveri ríkisins í Reykjavík, hét þá Auður RE 100. Selt 15 september 1959, Bæjarútgerð Reykjavíkur hf, hét Leifur Eiríksson RE 333. Skipið sökk um 80 sjómílur ANA af Raufarhöfn 29 ágúst árið 1963. Einn maður fórst en tíu mönnum var bjargað um borð í vélskipin Jón Finnsson GK 506 og Sigfús Bergmann GK 38. Maðurinn sem fórst hét Símon Símonarsson háseti, Reykjavík.


Vélskipið Leifur Eiríksson RE 333.                                                               (C) Snorri Snorrason.

             Nýr Svíþjóðarbátur

Í gær kom til bæjarins nýr Svíþjóðarbátur, Auður, eign samnefnds hlutafélags hér í bæ. Báturinn er 94 tonn, smíðaður í Saltviks Slip & Varv. Oskarshamn Svíþjóð. Skipstjóri er Baldvin Sigurbjörnsson, en framkvæmdastjóri Tryggvi Helgason. Ferðin upp tók 6 sólarhringa. Hrepptu þeir vont veður, og reyndist skipið hið bezta. "Auður" fer á síldveiðar innan skamms.

Verkamaðurinn. 11 júlí 1947.


           Skip strandar við Engey
    skipið er m.b. Auður frá Akureyri

Um kl. 10 í morgun strandaði vélskipið Auður frá Akureyri á Engeyjarrifi. Mun orsök strandsins vera sú, að skipið fór of nærri landi. Bauja er yst á rifinu, en skipið sigldi innan við hana . Lágsjávað var, þegar skipið strandaði og er búizt við að það náist úr á flóðinu.

Morgunblaðið. 15 desember 1947.

  Vélbáturinn Leifur Eiríksson fórst í gærkvöldi

                      Eins manns saknað
       tíu bjargað um borð í "Jón Finnsson" og                                  "Sigfús Bergmann"

Um tíu leytið í gærkvöldi fórst vélbáturinn Leifur Eiríksson RE 333, þar sem hann var að háfa síld á miðunum um 80 sjómílur ANA af Raufarhöfn. Þegar blaðið fór í prentun í nótt, höfðu björgunarskip bjargað öllum skipverjum nema einum, Símoni Símonarsyni, Grettisgötu 57 B. Reykjavík, háseta, (ókvæntur), en þá var hans leitað á slysstaðnum. Þar var þá þungur sjór og slæmt veður. Bátarnir, sem björguðu skipverjum af Leifi Eiríkssyni, voru Jón Finnsson og Sigfús Bergmann, sem voru að veiðum á svipuðum slóðum. Blaðinu var skýrt frá því í gærkvöldi, að skipstjórinn á Leifi Eiríkssyni, Sverrir Bragi Kristjánsson, væri um borð í Jóni Finnssyni, ásamt sjö skipbrotsmanna, en ekki var unnt að ná sambandi við hann, þar eð talstöðin í Jóni Finnssyni var ekki í fullkomnu lagi. Tveir skipbrotsmanna voru um borð í Sigfúsi Bergmann og að sögn skipstjórans á honum, Helga Aðalgeirssonar, voru það Ingimundur Jónsson og Einar Skúlason. Ekki tókst að ná sambandi við þá í gærkveldi, þar sem þeir höfðu gengið til náða, en hinsvegar átti Morgunblaðið samtal við Helga Aðalgeirsson skipstjóra og skýrði hann í höfuðdráttum frá slysinu, aðdraganda þess og björgun mannanna. Fer frásögn hans hér á eftir, en þess má þó áður geta, að Leifur Eiríksson var rúmar 90 lestir að stærð, eikarskip, smíðað í Svíþjóð 1947, eign Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Ellefu manna áhöfn var á skipinu.
Frásögn Helga Aðalgeirssonar skipstjóra á Sigfúsi Bergmann er svohljóðandi: Leifur Eiríksson kastaði á svipuðum slóðum og við, eða um 80 sjómílur ANA af Raufarhöfn. Þegar þeir voru að háfa stórt kast, fengu þeir á sig kviku og skipið lagðist undan síldinni og náði ekki að rétta sig aftur. Þá höfðu þeir ekki háfað í fulla lestina. Við vorum að háfa ekki alllangt frá Leifi Eiríkssyni, þegar við heyrðum neyðarkallið, skárum við af okkur pokann, en nokkurn tíma tók að losna við kastið. Í millitíðinni kom Jón Finnsson sem var á svipuðum slóðum, á vettvang, og tókst að bjarga skipbrotsmönnum úr gúm bátnum. Ingimundur Jónsson og Einar Skúlason komust í lítinn hjálparbát, sem lá við síðuna á skipi þeirra og rak hann undan sjó og veðri. Þá voru VNV 5 vindstig og mikill sjór. Við fundum mennina tvo með því að beina ljóskastara að bát þeirra. Samtalið við Helga Aðalgeirsson fór fram skömmu eftir miðnætti í nótt. Þá voru þeir að leita Símonar Símonarsonar, sem enn var saknað. Helgi sagði, að tveir bátar andæfðu á slystaðnum annar með síldarnótina á floti, og leituðu í myrkrinu. En skilyrði voru því miður ekki sem bezt. Þess má enn geta, að Helgi skipstjóri hafði það eftir þeim skipbrotsmönnum, sem voru um borð í báti hans, að Leifur Eiríksson hefði sokkið mjög skjótlega og skipti ekki neinum togum, að um leið og báturinn tók sjó inn á síðuna hallaðist hann snögglega og lagðist á hliðina. Af því má sjá að lítið svigrúm hefur verið fyrir skipshöfnina að komast í bátana. Að lokum má geta þess, að engin slys urðu á skipbrotsmönnum, sem bjargað var, og líður þeim öllum vel.

Morgunblaðið. 31 ágúst 1963.


19.07.2018 11:33

Landað úr togaranum Engey RE 1.

Ég tók þessar myndir út í Örfirisey þegar verið var að landa úr Engey s.l. mánudagsmorgun. Mér skildist á lyftaramanninum sem ég talaði við að togarinn hafi aflað um 160 tonn, aðallega karfi og þorskur á fjórum úthaldsdögum. Það er nú bara mjög gott hjá þeim. Svo annað, að ég sá bara tvo menn við löndunina, einn maður að hífa körin í land og einn maður á lyftara. Eru menn í lestinni við löndun eða er það sjálfvirkt ? Það er þá af sem áður var þegar þurfti her manns að landa úr togara.


2889. Engey RE 1 að landa afla sínum í Örfirisey 16 júlí 2018.


2889. Engey RE 1 við bryggju í Örfirisey.                            (C) Þórhallur S Gjöveraa. 16 júlí 2018.

16.07.2018 18:43

Percy ÍS 444. LBMC / TFMI.

Mótorbáturinn Percy ÍS 444 var smíðaður í Yarmouth á Englandi árið 1902. Eik og fura. 43,57 brl. 55 ha. Gray vél (1916). Fyrsti eigandi hér á landi var Jóhann J Eyfirðingur & Co á Ísafirði frá árinu 1924. Í janúar árið 1927 er báturinn kominn í eigu Íslandsbanka. Percy var gerður út á árunum 1927 og 28 af Guðmundi Guðmundssyni og Jóni Guðmundssyni á Ísafirði. Seldur 1929 Jóni Barðasyni á Ísafirði. Högni Gunnarsson útgerðarmaður á Ísafirði eignast bátinn síðar (1933 ?) Percy sökk út af Sauðanesi við Önundarfjörð 5 nóvember árið 1935. Mannbjörg varð. Var Percy að flytja kol úr flutningaskipinu Bisp frá Önundarfirði til Súgandafjarðar og sökk út af Sauðanesi eins og áður segir vegna ofhleðslu.


Percy ÍS 444 við bryggju á Ísafirði.                                             Ljósmyndari óþekktur.

          Aflabrögð Ísafjarðarbáta

»Percy« lagði eigi á veiðar héðan fyrr en í lok janúar, sömuleiðis tveir bátar Sigurðar Þorvarðssonar. »Kári« sameinuðu verslana fór og suður í byrjun febrúar. Hinir bátarnir munu hafa haldið út syðra frá janúarbyrjun fram undir lok marsmánaðar. »Gissur hvíti« er aflahæstur, hefir fengið meiri afla en áður hefir fengist á báta þessa fyrir sama tíma. »Hermóður«, »Sjöfn«, og einkum »Percy« er byrjaði eigi veiðar fyrr en í febrúar, hafa og allir aflað prýðisvel. Auk þess, sem hér er talið, hafa og ýmsir bátanna selt fisk til matar í Reykjavík, eins og áður, og er engin skýrsla til um hve miklu það hefir numið.
Ísafirði, 17. apríl 1926. Kr. J. 

Ægir. 5 tbl. 19 árg. 1 maí 1926.

        Vélbáturinn "Percy" sekkur
                    Mannbjörg

ÍSAFIRÐI í GÆR. EINKASKEYTI TIL MORGUNBLAÐSINS.
Vjelbáturinn "Percy" sökk um hádegi í dag út af Sauðanesi. Áhöfn bátsins bjargaðist á land. Verið var að flytja kol á "Percy'' úr flutningaskipinu "Bisp", frá Önundarfirði til Súgandafjarðar og var báturinn hlaðinn kolum, er hann sökk. Eigendur bátsins eru Högni Gunnarsson, útgerðarmaður, Bjarni Þorsteinsson, skipstjóri bátsins og Gísli Hannesson, sem var vjelstjóri á bátnum.
Percy var 44 smálestir brúttó að stærð. Hann var tryggður hjá Vjelbátaábyrgðarfjelagi Ísfirðinga fyrir 27,500 krónur.

Morgunblaðið. 6 nóvember 1935.


 

15.07.2018 10:26

590. Huginn VE 65. TFCV.

Vélbáturinn Huginn VE 65 var smíðaður í Gilleleje í Danmörku árið 1956 sem Huginn NK 110. Eik. 60 brl. 300 ha. Völund díesel vél. Fyrsti eigandi var Hrafnkell hf (Jón Svan Sigurðsson, Ármann Magnússon útgerðarmenn og fl.) í Neskaupstað frá 6 febrúar sama ár. Seldur 2 nóvember 1959, Guðmundi Inga Guðmundssyni og Óskari Sigurðssyni í Vestmannaeyjum, hét Huginn VE 65. Ný vél (1964) 375 ha. Kromhout díesel vél. Seldur 1967, Sjöstjörnunni hf í Keflavík, sama nafn og númer. Seldur 11 desember 1969, Kristjáni Gústafssyni á Höfn í Hornafirði, hét Ljósá SF 2. Ný vél (1973) 382 ha. MWM díesel vél. Seldur 1973, Guðmundi Andréssyni og fl í Kópavogi. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 22 desember árið 1976.

590. Huginn VE 65.                                                     (C) Snorri Snorrason.  Úr safni Atla Michelsen.


590. Huginn NK 110 á Norðfirði.                                                          (C) Jakob Hermannsson.

               Huginn NK 110

Um kl. 9 á fimmtudagsmorgun bættist norðfirzka flotanum nýr fiskibátur. Nefnist hann Huginn og eru einkennisstafir hans N. K. 110. Huginn er byggður í Gilleleje í Danmörku og er um 65 lestir að stærð með 240 hestafla Völund vél. Báturinn var 5 sólarhringa á leið hingað frá Danmörku og meðalganghraði á klukkustund var 9 sjómílur. Huginn er traustbyggður bátur og búinn öllum þeim öryggis og siglingatækjum, sem tíðkast í bátum af þessari stærð, þar á meðal asdic-tæki. Mannaíbúðir eru vistlegar og rúmgóðar. Í lúkar eru rúm fyrir 8 menn, í káetu 4 og í brú er klefi skipstjóra. Eigandi Hugins er hlutafélagið Hrafnkell, en aðaleigendur þess eru Jón S. Sigurðsson og Ármann Magnússon.  Huginn verður í vetur gerður út frá Sandgerði og fór áleiðis Þangað í gær.
Skipstjóri verður Jóhann K. Sigurðsson, en skipstjóri á heimleiðinni frá Danmörku var Þórður Björnsson. Austurland óskar eigendum Hugins til hamingju með þennan nýja bát.

Austurland. 11 febrúar 1956.


590. Huginn VE 65 í Vestmannaeyjahöfn.                                          Ljósmyndari óþekktur.


Um borð í Huginn VE 65. Það er Guðmundur Ingi Guðmundsson skipstjóri og útgerðarmaður sem stendur þarna í dyragættinni.              Ljósmyndari óþekktur.


         "Hraðferð á miðin"

  með vélbátnum Huginn NK á síld
      austur af Hraunhafnartanga

Sleppa, rödd Jóns skipstjóra glymur úr brúarglugga. Hásetarnir hlaupa til að leysa landfestar og innan stundar líður Huginn NK 110 út úr Raufarhöfn, með 10 vaska sjómenn innanborðs auk eins landkrabba, fréttamanns blaðsins. Eftir langa mæðu, tókst honum að fá skipspláss, hann hafði gengið á vit nokkurra þekktra og aflasælla skipstjóra, en þeir neitað að taka hann á skipsfjöl af þeim einföldu ástæðum, að síldin fældist þessar ,skrifstofublækur", sem ekkert gera annað en að pikka á ritvél guðslangann daginn. Og hjátrú skipstjóranna sem byggja alla sína afkomu á hegðun þessa dutlunga fulla fisks varð ekki yfirbuguð. En með herkjunum hefst það og á endanum samþykkti Jón Sæmundsson skipstjóri að lofa mér að fljóta með, hann hafði enga reynslu af fréttamönnum. Og út var haldið klukkan nákvæmlega 5 mínútur yfir eitt. Stefna var tekin í NA frá Raufarhöfn, en þar skammt undan landi hafði heyrzt um nokkrar vænar síldartorfur. Hafði Huginn fengið dágóðann afla þar nóttina áður. Ekkert af þeirri síld hafði sézt vaða, en með hjálp asdictækja hafði þeim tekizt að kasta fyrir hana. Asdic-tæki er nú á næstum öllum bátum flotans enda alveg ómissandi. Skipshöfnin á Hugin, hefur veitt um 7000 mál síldar í sumar og þar af aðeins um 300 mál af vaðandi síld, hin 6700 málin með aðstoð asdictækja. Það var mikið rætt og skrifað um asdicið á sínum tíma, en það er samt alls ekki úr vegi að skýra frá notkun þess í fáum orðum. Á botni skipsins er komið lyrir hreyfanlegu "auga", sem stjórnað er með sveif, sem staðsett er upp í brúnni. Tækið sendir frá sér breikkandi rafgeisla út um "augað" og endurkastast hann svo til skipsins, ef um einhverja mótstöðu í sjónum er að ræða.


Nótin dregin inn í nótabátinn hjá Huginn NK 110.                    (C) M.Ö.A. / Morgunblaðið.
  
Áhrifin ritast niður á pappír í tækinu í stjórnklefanum og þannig er hægt að finna síldina án þess að til hennar sjáist úr bátnum. Mönnum hefur gengið misjafnlega vel að notfæra sér þetta "undratæki" og má segja sem svo að aflamagn hvers skips á þessari vertíð fari að nokkru leyti eftir því, hve skipsmenn eru lagnir að beita asdicinu. Í stjórnklefa Hugins er asdic-tækið í gangi og ritar í sífellu. Það er aðeins sjávarbotninn sem kemur fram. Eftir tveggja stunda siglingu frá Raufarhöfn er dregið mjög úr ferðinni og byrjað að leita að síldinni. Það tekur oft margar klukkustundir og jafnvel daga og því ganga hásetar fram í lúkar, þar sem Sæmundur kokkur er með heitt kaffi á boðstólum. Og það er skrafað um það yfir kaffinu hvað eigi nú að gera við kaupið, 35 þúsund krónur nú þegar, það er enginn smáskildingur. Kokkurinn ætlar að byrja á því að byggja bílskúr. Þú færð ekki leyfi til að byggja bílskúr, segir Jón háseti. Ég segi þá bara, að þetta sé kassi. Hvað kemur mönnum það við, þó að maður setji upp stóra kassa á lóðinni. En Sæmundur hættir við það áform, því  þá myndu allir apa þetta eftir honum svo að allar lóðir yrðu fullar af kössum. Nei nú man ég, við vorum búnir að ákveða að fara til Parísar, segir annar og allir skellihlæja. Nei, það væri nú annars betra að fara til Mallorca með Flugfélaginu í haust. En það er lítil von til að við förum þetta, því upphaflegu lágmarkstekjurnar fyrir þetta ferðalag voru 80 þúsund. Ætli það endi ekki með því að maður eyði þúsund kalli í tveggja daga fyllerí. Maður verður að gera sér einhvern dagamun. En samræðurnar hætta skyndilega. Jón skipstjóri birtist í lúkarsopinu kl. 7 og tilkynnir að hann hafi lóðað á sæmilega síldartorfu. Allir rjúka upp til handa og fóta og reka upp siguróp. Nótabáturinn er dreginn upp að skipshlið og tveir ungir sjómenn stökkva um borð og byrja á því að kasta út rauðu dufli. Svo er byrjað að kasta nótinni. 220 faðma löng nælonnót liggur í bátnum og rennur greiðlega í sjóinn. Skipinu er stefnt í hring á mjög hægri ferð svo að endar nótarinnar liggi að því á báðar hliðar. Úti á sjónum flýtur korkurinn upp úr, en stöku sinnum hverfur hann algjörlega í hafdýpið og þá gella við húrra hróp, þetta er merki þess að síld sé í nótinni. En þá ber einn í áhöfninni fram þá athugasemd að þetta geti nú bara alveg eins verið straumnum að kenna. Allir þagna, en herða tökin og bíða í ofvæni eftir svarinu við þessari athugasemd. Frammi í stefni er spilið sett í gang og nótinni er lokað. Nokkrir menn til viðbótar fara í nótabátinn og þá er byrjað að draga nótina.

 
Búið að herpa nótina og skipverjar að byrja að háfa þessar 250 tunnur sem reyndust vera í þessu kasti. 
(C) M.Ö.A. / Morgunblaðið. 

Það er mikið verk og tekur um eina klukkustund. Þrír menn eru enn eftir á skipinu. Þeir fylgjast með og vinna þau handtök, sem ekki eru framkvæmd í nótabátunum. Fjörutíu og fimm mínutur eru liðnar síðan drátturinn hófst. Ein og ein síld er tekin úr nótinni um leið og hún er dregin í bátinn. Það er lítið sagt. Skyldi kastið ekki hafa heppnazt. Múkkahópur er á sveimi rétt við skipið og steypir sér við og við niður að sléttum haffletinum. Hann virðist hafa orðið var. Enn er dregið. Er engin síld í nótinni, verður fréttamanninum að orði?  Það er ekki gott að segja er svarið. Þó að korkurinn hafi nær allur verið dreginn að bátnum, getur nótin náð langt út í sjó. Og það er rétt. Nú kemst hreyfing á við nótabátinn. Og það er ekki um að villast, þetta er síld. Skipshöfnin herðir enn tökin við að sjá silfurgljáandi síldina. Þetta eru einar 250 tunnur hrópar einhver og allir hinir taka undir með honum. Síldin er króuð af milli skips og nótabáts og nú er háfurinn tekinn fram og lagfærður lítið eitt og síðan er honum beint út yfir borðstokkinn og ofan í nótina og hífður inn yfir aftur, fullur af síld. Síldinni er jafnað niður í hólf á þilfarinu, og er haldið áfram að háfa þar til örfáar síldar eru eftir í nótinni en þær eru teknar upp í járnkörfu. Í nótabátnum er verið að ljúka við að ganga frá nótinni og þegar því verki er lokið er ekkert því til fyrirstöðu að haldið sé til lands. Skipstjóri gengur til talstöðvarinnar og "meldar" sig með 250 tunnur í salt til Raufarhafnar. Stefna er tekin á reykinn úr Síldarverksmiðjunum á Raufarhöfn. þær eru að bræða sitt síðasta. Frammi í lúkar bíður maturinn og það er setzt að snæðingi og tekið að rabba um aflabrögðin og kaupið. Fyrir þennan afla fær hver háseti rúmar 16 hundruð krónur og það virðist vera sæmilegt dagkaup. En það er ekki þar með sagt að þessi afli sé vís á hverjum einasta degi, því er nú verr og miður. Fréttinn um veiði Hugins hefur borizt út "í loftinu" og mönnum verður tíðrætt um "strætisvagninn", sem kominn var með afla í annað sinn á sama sólarhring. Klukkan 11 er lagzt að landi við söltunarstöð Valtýs Þorsteinssonar. Stúlkurnar eru ekki enn komnar niður á planið. Áhöfnin byrjar að landa úr skipinu, og að löndun lokinni siglir Huginn næstu "áætlunarferð" út á miðin.

Morgunblaðið. 11 ágúst 1959.
Grein eftir M.Ö.A.14.07.2018 08:14

B. v. Marz RE 261. TFXC.

Botnvörpungurinn Marz RE 261 var smíðaður hjá John Lewis & Sons Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1948. 684 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 206. Eigandi var Marz hf (Tryggvi Ófeigsson útgerðarmaður) í Reykjavík frá aprílmánuði sama ár. Kom fyrst til heimahafnar, Reykjavíkur hinn 27 apríl árið 1948. Marz og Neptúnus voru systurskip og var þeim nokkuð breytt frá upphaflegri teikningu. Þar má nefna að skipin voru lengd um 8 fet og lunningar hækkaðar aftur fyrir vant. Þær voru svo fljótlega lengdar aftur fyrir svelginn. Marz var mikið afla og happaskip og oft í tölu aflahæstu skipa flotans og gerði mörg sölumetin í höfnum erlendis. Togarinn var seldur til Spánar í brotajárn og tekinn af skrá 20 maí árið 1974.

 
153. Marz RE 261.                                                       (C) Snorri Snorrason.  Úr safni Atla Michelsen.
 

   Marz siglir inn á Reykjavíkurhöfn

Hinn glæsilegi nýsköpunartogari, Marz, kom hingað til Reykjavíkur kl. að ganga 3 í gær. Þegar togarinn lagðist að bryggju var þar fjöldi fólks til þess að fanga skipi og skipverjum. Marz er systurskip Neptúnusar. Eru togararnir að öllu leyti eins og því stærstu togarar flotans. Skipstjóri á Marz er Þorsteinn Eyjólfsson, en aðrir yfirmenn eru Einar Jóhannsson 1. stýrimaður, Eðvald Eyjólfsson 2 stýrimaður Ingólfur Ólafsson 1 vjelstjóri, Gunnar Hestnæs 2 vélstjóri og 3 vélstjóri er Jónas Helgason.

Morgunblaðið. 28 apríl 1948.


B.v. Marz RE 261 við komuna til Reykjavíkur 27 apríl 1948.                     (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

    Þakka skipshöfninni hina góðu sölu

      sagði Ásgeir Gíslason, skipstjóri á                         Marz sem setti sölumet 

Eins og kunnugt er af fréttum setti togarinn Marz RE 261 nýtt sölumet á brezka fiskmarkaðinun í síðustu viku. Seldi hann þar 240 tonn. fyrir 23.856 £ eða 2.860 þús. ísl. kr. Skipstjóri þessa aflaskips er ungur maður, Ásgeir Gíslason sem verið hefur á togurum um 20 ára skeið og skipstjóri síðustu 10 árin. Í tilefni af þessari góðu sölu togarans hafði blaðið samband við Ásgeir í gær. "Ég vil aðeins segja það að ég er mjög ánægður með söluna, sagði Ásgeir fyrst. Manni finnst alltaf gaman þegar maður gerir góða trúa á svo gömlu skipi sem Marz er. Í þessu sambandi vil ég þakka skipshöfn minni mjög vel fyrir gott starf í þessari ferð sem öðrum. Hún stóð margar frívaktir, en í túr sem þessum er það sem gildir að koma aflanum sem fyrst í lestina í ís, því að þá skemmist hann lítið sem ekkert" Hverju viltu helzt þakks þessa miklu sölu, Ásgeir? Eins og ég sagði áðan er hún mikið að þakka skipshöfninni, sem stóð margar frívaktir. Annars má segja að margt hafi hjálpazt að til að gera þessa sölu sem hæsta.
Megin uppistaðan í aflanum var flatfiskur (107 tonn) og ýsa og það fæst alltaf gott verð fyrir þessar fisktegundir á brezka fiskmarkaðinum. Við vorum eina skipið með ýsu þennan dag og það hækkaði verð hennar mikið. Hvað eru margir á skipinu? Áhöfnin í þessari ferð var 28 menn, þar af voru 3 Spánverjar og fara 2 þeirra aftur út með togaranum. Ég kann vel við þá. Þeir eru ágætir, duglegir og liprir. Einn þeirra er búinn að fara 4 túra með mér. Annars eru Englendingar nú farnir að ráða mikið af Spánverjum á sína gömlu togara svo að sama mannekla virðist hrjá enska togaraflotann og þann Íslenzka. Hvar voruð þið að veiðum? Við fórum út 16. maí og vorum að veiðum í 11 daga úti fyrir SA-ströndinni. Einn skipverja slasaðist í ferðinni og urðum við að fara með hann inn til Homafjarðar. - Viltu nokkuð segja að lokum Ásgeir? Aðeins að ég vil enn einu sinni ítreka þakkir mínar til skipshafnarinnar, án hennar miklu og góðu vinnu hefði þessi sala aldrei orðið svona há sem raun ber vitni. Það er alltaf gaman að geta sýnt hvað þessir gömlu togarar geta.
Eins og áður segir er Ásgeir um fertugt. Hann er kvæntur Hildi Einarsdóttur Frimann og eiga þau 6 börn. Það yngsta er eins og hálfs árs en það elzta 19 ára. Hann hóf sinn togarasjómannsferil á togaranum Hafsteini, sem Tryggvi Ófeigsson gerði út á striðsárunum og hefur stundað sjóinn síðan. Siðustu 10 árin hefur hann verið skipstjóri, fyrst á togaranum Röðli sem hann tók við er hann var 30 ára. Síðan var hann skipstjóri á Hauk, Frey og nú síðast með Marz. Marz fer nú upp í slipp þar sem botn skipsins verður málaður, en Ásgeir reiknaði með að hann færi út í veiðiferð seinni hluta vikunnar.

Vísir. 8 júní 1966.


B.v. Marz RE 261.                                                                                              (C) Snorri Snorrason.


Nýsköpunartogarinn Marz RE 261 að veiðum.                                        (C) Sigurgeir B Halldórsson.

      Með átta þúsund tonna afla í trollið
   Markús á Marz líklega aflakóngur togveiðanna

Afli nýsköpunartogarans Marz RE 261 árið 1955 var tæp 8 þúsund tonn og telur Þórir Guðmundsson hjá Fiskifélaginu að þetta sé mestur afli togara á einu ári. Að sögn Markúsar Guðmundssonar sem var skipstjóri á Marz frá 1954- 1964 fékkst aflinn að mestu á Íslandsmiðum en fiskgegndin þá var ekki sambærileg við það sem gerist núna, þá var mun meira af fiski.
Alls fór Marz 18 veiðiferðir á árinu 1955 og að meðaltali varð hvert úthald 14 dagar. Mestur varð aflinn í einni veiðiferð tæp 366 tonn. Heildaraflinn á árinu varð 7.895 tonn og var allur fiskur nema karfi slægður en saltfiskur er umreiknaður í heildartölunni eftir stuðlum Fiskifélagsins. Vanalega fór Marz í næsta túr daginn eftir að síðasta túr lauk. Markús, sem hætti sem skipstjóri á Marz 1964 og tók þá við Júpíter og var þar til 1974, sagði að yfirleitt hefðu verið 28 manns í áhöfninni. Hann sagði að það hefði verið gott að fiska á Marz en skipið hefði ekki verið sérstakt sjóskip. Hann segir engin sérstök uppgrip þetta ár því fiskverð hafi verið mjög lágt. "Það var hampur í veiðarfærunum og ekki komin veiðarfæri úr gerviefnum. Hampurinn var þó snöggtum skárri en sísallinn sem var í veiðarfærum upp úr seinna stríði. Það var miklu veikara og lélegra garn en hampurinn. Samt var hampurinn ekki neitt sérstakur. Við fórum með sæmilega gott troll frá Vestur-Grænlandi og heim og lönduðum og til baka aftur og þá var trollið ónýtt. Það voru oft stór hol þarna en það þýddi oft ekkert að láta þetta í sjóinn. Hampurinn fúnaði svo fljótt," sagði Markús. Markús sagði að það væri ekki sama fiskgegnd núna. "Þeir geta alveg fiskað þessir menn og stunda sjóinn stíft margir en það vantar bara fiskinn. Þeir fara meira að segja mun dýpra en við fórum og geta stundað veiðarnar á verri botni en við gerðum," sagði Markús.
Marz var smíðaður í Englandi 1948 og eigandi skipsins var Marz hf. í Reykjavík. Skipið var selt til Spánar til niðurrifs og tekið af skrá í maímánuði 1974.

Morgunblaðið. 12 janúar 1994.


B.v. Marz RE 261 á heimleið í ólgusjó af miðunum við Vestur Grænland.        Ljósmyndari óþekktur.


Landað úr togaranum Marz RE 261.                                              Ljósmyndari óþekktur.
 

Nýsköpunartogararnir seldir í brotajárn

Endurnýjun flotans sem hófst 1972 var enn í fullum gangi 1974 og voru helztu viðburðir þessir: Kaldbaki EA-1 var lagt 14. janúar að lokinni söluferð til Englands, fór svo til Spánar 30. marz með Sléttbak EA-4 í togi þar sem skipin voru seld til niðurrifs. Úranus RE-343 landaði síðast í Reykjavík 7. marz og fór til Spánar hinn 17. apríl með Marz RE-261 í togi þangað sem þeir voru seldir í brotajárn. Svalbaki EA-2 var lagt 25. september, seldur í brotajárn til Spánar, og hélt þangað 8. október. Hjörleifur RE-211 landaði síðast í Þýzkalandi 21. nóvember og var afhentur brotajárnskaupendum á Spáni fimm dögum síðar.

Ægir. 21 tbl. 1 desember 1975.

10.07.2018 17:31

1578. Ottó N Þorláksson VE 5. TFAI.

Skuttogarinn Ottó N Þorláksson VE 5 er nú kominn í eigu Ísfélagsins í Vestmannaeyjum. Rauði liturinn á honum kemur bara vel út. Tók þessar myndir af honum í slippnum og í morgun þegar hann var kominn niður. Ottó alltaf fallegur.


1578. Ottó N Þorláksson VE 5 við Bótarbryggjuna í morgun.


Ottó N Þorláksson orðinn rauður að lit.


Nafnið og nýtt skráningarnúmer komið.


1578. Ottó N Þorláksson RE 203 við Grandagarð.                      (C) Myndir. Þórhallur S Gjöveraa.
            Nýtt skip í flota Ísfélagsins
Á þriðjudaginn var gengið frá af­hend­ingu ís­fisk­tog­ar­ans Ottó N. Þor­láks­son­ar til Ísfé­lags Vest­manna­eyja. Skipið mun halda nafni sínu áfram en ein­kenn­is­staf­ir þess verða VE-5.Í til­kynn­ingu frá HB Granda seg­ir að Ottó N. Þor­láks­son hafi verið far­sælt afla­skip, smíðað í Stál­vík í Garðabæ árið 1981. Skip­stjóri þess hef­ur verið Jó­hann­es Ell­ert Ei­ríks­son en hann tók við tog­ar­an­um fyr­ir 24 árum og stýr­ir nú Viðey, nýju skipi HB Granda.

Eyjafréttir. 7 júlí 2018.      

09.07.2018 17:25

Hrefna MB 93. LBHS / TFWH.

Vélbáturinn Hrefna MB 93 var smíðaður í Köge í Danmörku árið 1917 sem Valborg MB 93. 36 brl. 56 ha. Tuxham vél. Upphaflegir eigendur voru Halldór Jónsson í Aðalbóli Akranesi, Davíð Þorsteinsson, Þorsteinn Þorsteinsson, báðir af Skaganum og Brynjólfur Árnason úr Reykjavík frá sama ári. Fljótlega varð Halldór einn eigandi bátsins. Seldur 1924, Þórði Ásmundssyni útgerðarmanni á Akranesi og Brynjólfi Nikulássyni einnig frá Akranesi, hét þá Hrefna MB 93. Þórður eignaðist bátinn einn síðar. Ný vél (1927) 70 ha. Delta vél. Ný vél (1935) 120 ha. Delta vél. Báturinn var lengdur árið 1939, mældist þá 42 brl. Einnig var sett ný vél í bátinn, 340 ha. GM díesel vél. Árið 1946 hét báturinn Hrefna AK 93.  Ný vél (1952) 132 ha. GM díesel vél. Seldur 2 maí 1962, Jóni Sigurðssyni í Reykjavík, hét þá Hrefna RE 186. Talinn ónýtur og tekinn af skrá árið 1963.


Hrefna MB 93 á síldveiðum.                                                                           Ljósmyndari óþekktur.


Tveir bátar af Skaganum við bryggju á Siglufirði með fullfermi árið 1940. Báturinn við bryggjuna er Fylkir MB 6, skipstjóri er Njáll Þórðarson. Hrefna MB 93 liggur utan á honum. Skipstjóri á Hrefnu var Jóhannes Sigurðsson.     Ljósmyndari óþekktur.

 Ofsaveður af suðaustan í Reykjavík

Aftaka suð-austanveður gerði hér í gærkvöldi og stóð fram yfir miðnætti. Tvo mótorbáta rak á land við grandagarðinn; annar þeirra var Valborg frá Akranesi, hinn heitir Álftin. Tvær fiskiskútur slitnuðu úr norðurgarðinum en skemdust ekki. Tveir mótorbátar sem lágu fyrir akkerum, slóust saman og skemdust nokkuð.

Vísir. 18 nóvember 1920. 

08.07.2018 09:45

232. Ögri GK 42. TFQG.

Ögri GK 42 var smíðaður hjá Bolsönes Verft A/S í Molde í Noregi árið 1963 fyrir Ögra hf í Hafnarfirði. 198 brl. 510 ha. Caterpillar díesel vél. 14 október 1964 var skipið skráð í Reykjavík, hét Ögri RE 42. Sömu eigendur. Skipið var selt Ocean Fishing Co Ltd í Walvis Bay í Suðvestur-Afríku í nóvember árið 1969. Var síðan tekið af Íslenskri skipaskrá í janúar árið 1970. Skipin voru seld til Chile árið 1985. Þau héldu alla tíð nöfnum sínum, Ögri og Vigri. Skipin voru rifin í brotajárn í Valdivia í Chile fyrr á þessu ári.


232. Ögri GK 42.                                                         (C) Snorri Snorrason.  Úr safni Atla Michelsen.

            Nýtt skip til Hafnarfjarðar
                      Ögri GK 42

Í dag kom nýtt skip til Hafnarfjarðar. Heitir það Ögri, en aðaleigendur þess eru Þórður Hermansson, skipstjóri, og Halldór Þorbergsson, vélstjóri, báðir búsettir í Reykjavík. Skipið er 198 smálestir og ganghraði þess er 11 sjómílur. Það var smíðað í Noregi, en mun hefja síldveiðar fyrir Suðvesturlandi eftir tvo daga. Ögri er systurskip Vigra, og eru báðir heitnir eftir örnefnum við Ísafjarðardjúp, annar eftir eyjunni Vigur, en hinn sögustaðnum Ögri. Ögri var smíðaður hjá Bolsönes Verft í Molde, Noregi, en það fyrirtæki hefur smíðað 7 aðra báta fyrir íslendinga, sem hafa þótt reynast vel. Í Ögra er 515 ha. Caterpillar-vél, sem lítið fer fyrir, þannig, að mjög gott lestarrúm er í skipinu, en í Ögra er svefnpláss fyrir 16 menn. Um mánaðamótin janúar-febrúar er væntanlegt nýtt skip frá þessari skipasmíðastöð, Eldborg hin nýja, sem smíðuð er fyrir Gunnar Hermannsson, bróður skipstjóranna á Ögra og Vigra. Hún verður ca. 240 tonn, en Gunnar var skipstjóri og eigandi Eldborgar, sem gerð hefur verið út frá Hafnarfirði sl. rúm þrjú ár. Eins og fyrr segir, er skipstjóri á Ögra Þórður Hermannsson, en stýrimaður Sigurður Bjarnason. 

Alþýðublaðið. 6 desember 1963.


Ögri RE 42 að landa síld um borð í síldarflutningaskipið Síldina, sennilega við Jan Mayen árið 1966. Skipið fjær er Jón Garðar GK 475.        (C) Ingi Rúnar Árnason.

           Ekki eru allar ferðir til fjár
     Sat fastur í kýrauganu í átta tíma

Þegar Jósep Kristinsson, vélstjóri á Ögra RE 42, kom um borð í bátinn í gærmorgunn, heyrði hann ákaft kallað á hjálp. Brá Jósep við hart, því honum datt helzt í hug, að maður hefði fallið í sjóinn. Svo reyndist þó ekki vera, því engan mann sá Jósep, en hins vegar héldu köllin áfram og heyrði Jósep nú ekki betur en að sá, sem kallaði ,væri einhvers staðar um borð í bátnum. Hóf hann þá að leita og þegar hann kemur inn í ganginn bakborðsmeginn, sér hann hvar maður situr fastur í kýrauganu og hrópar á hjálp. Varð Jósep að vonum hálf hissa á þessum fundum, en maðurinn í kýrauganu greinilega feginn. þvi hann sagði: Ég hélt, að það kæmi enginn um borð í þennan bát fyrr en ég héngi dauður hérna í kýrauganu. Hjálpaðu mér nú burt, elsku vinur. Hvern þremilinn ertu að gera þarna? spyr Jósep. Það er nú saga, að segja frá því, svaraði sá í kýrauganu, en hjálpaðu mér nú fyrst. Hóf Jósep þá björgunaraðgerðirnar og reyndi fyrst að ýta manninum úr kýrauganu en ekkert gekk. Greip Jósep þá tii þess ráðs að skrúfa kýraugsrammann lausan og fór síðan með manninn inn í borðsal, þar sem tekið var til óspilltra málanna við að saga rammann sundur. Tók það einn og hálfan tíma og á meðan sagði maðurinm sögu sína.
Kvaðst hann hafa átt leið um Grandagarð um miðnotti kvöldið áður, þegar mikill þorsti hefði allt í einu gripið sig. Brá hann sér þá um borð í Ögra, fór upp á bátadekk og niður á hekk. Sé hann þá inn um kýraugað bakborðsmeginn, hvar mjólkurkassi stóð í ganginum. Freistingin varð of mikil og ákvað hann að reyna nálgast þennan mjólkurkassa en til þess sá hann aðeins eina leið, að skríða gegnum kýraugað. Gekk allt vel í fyrstu og kom hann höfði og herðum í gegn. Gladdist hann nú heldur betur í huganum, en einmitt þegar bezt lét festist hann í kýrauganu og gat sig hvergi hreift. Þrátt fyrir örvæntingarfullar tilraunir tókst honum ekki að losa sig og fór svo, að þarna hékk hann eins og mús í gildru, þar til Jósep kom um áttaleytið. En af hverju fórst þú ekki gegnum dyrnar? maður spurði Jósep, þær voru opnar. Kom nú skrýtinn svipur á kauða en enga skýringu gaf hann aðra en þá, að sér hefði bara ekki hugkvæmzt að nota dyrnar. Þetta var hræðileg nótt, sagði þessi óheppni maður. Mér tókst að losa mjólkurbrúsa úr festingunni í horninu og fram á hann gat ég lagzt. Þannig tókst mér að blunda öðru hvoru milli þess, sem ég æpti á hjálp. En enga fann ég mjólkina. Það var heldur ekki von, sagði Jósep, því kassinn og brúsinn voru tómir. En ég held, að ég hefði nú reynt dyrnar fyrst í þínum sporum. Þegar loks hafði tekizt að losa manntetrið við fjötrana, þakkaði hann björgunarmönnunum fyrir og hafði sig á brott. Eflaust hefur hann lært af þessari reynslu að "hin leiðin" er allt annað en happadrjúg.

Morgunblaðið. 18 júlí 1967.

       Nýtízku skuttogari byggður fyrir
              andvirði Vigra og Ögra

           Kaupandi í Suður-Afríku býðst til                              að greiða skipin út í hönd 
   Leyfi háð því að féð verði lagt í skuttogara


Forráðamenn útgerðarfélaganna Vigra h.f. og Ögra h.f. hafa mikinn áhuga á því að kaupa eða láta smíða nýtízku skuttogara. Ekki hefur verið ákveðið, hver stærðin verður, en til mála kemur að smíða skuttogarann innanlands. Til þess að af þessu geti orðið þurfa félögin að selja bæði skip sín, Vigra RE 341 og Ögra RE 42, sem eru 200 tonn að stærð, byggð fyrir 6 árum. Félögunum hefur borizt tilboð í bæði skipin frá Suður-Afríku , gegnum enskt umboðsfyrirtæki. Tilboðið er mjög freistandi, þar sem kaupandinn hefur boðizt til að greiða skipin út í hönd og greiða ennfremur kostnaðinn af siglingu skipanna til Suður-Afrílku, en sigling þangað tekur nærri mánuð. Endanlegir samningar hafa ekki verið gerðir ennþá, en viðskiptamálaráðuneytið hefur veitt útflutningsleyfi fyrir skipunum, en leyfisveitingin er háð því skilyrði, að söluverðið verði notað til smíði eða kaupa á skuttogara, sem gerður yrði út frá Reykjavík. Náist endanlegir samningar munu íslenzkar áhafnir sigla skipunum til Suður-Afríku.
Ögri er nú á leið til Grimsby í söluferð og mun fara þar í skoðun. Vigri er í Grimsby og hefur skoðun þegar farið fram á skipinu. Verði af sölunni munu skipin verða samflota á leiðinni suður og leggja upp frá Grimsby eftir 10-14 daga.

Morgunblaðið. 1 nóvember 1969.


Ögri og Vigri í Valdivia í Chile. Sennilega komnir á endastöð.            (C) Óskar Franz Óskarsson.

            Vigri RE og Ögri RE:
         Sigldu í gær til SV-Afríku

Vigri RE 341 og Ögri RE 42 héldu í gær frá Grimsby áleiðis til Walvis Bay í Suðvestur-Afríku, en fyrirtækið Ocean Fishing Co. Ltd. þar hefur keypt bæði skipin. Siglingin suður tekur rúmar þrjár vikur og sigla íslenzkar áhafnir skipunum. Á leiðinni verður komið við í Las Palmas á Kanaríeyjum og Takoradi í Ghana. Skipstjóri á Vigra er Sigurður Þ. Guðmundsson frá Reykjavík, en skipstjóri á Ögra er Guðmundur Ársæll Guðmundsson frá Hafnarfirði. Áhafnir skipanna eru væntanlegar heim fyrir jólin, nema 1. vélstjórar, þeir Pétur Gunnarsson á Vigra og Halldór Þorbergsson á Ögra. Hinn nýi eigandi skipanna hefur óskað eftir því, að þeir starfi hjá þeim áfram og munu báðir vélstjórarnir hafa fallizt á að dvelja þar syðra í tvo mánuði. Ætlunin er að skipin stundi nótaveiðar og veiði feitfisk til bræðslu í bræðslustöðvum skipaeigenda. Hafa þeir farið fram á að skipin fái að halda áfram hinum íslenzku nöfnum og hafa fyrri eigendur fallizt á það fyrir sitt leyti, en þeir hafa eignarétt á nöfnunum hér heima.
Eins og getið hefur verið áður í Morgunblaðinu greiða hinir nýju eigendur bæði skipin út í hönd og kosta siglingu þeirra til Walvis Bay. Íslenzk yfirvöld veittu útflutningsleyfi fyrir skipunum með því skilyrði, að andvirðið yrði notað til kaupa eða smíði á nýtízku skuttogara, sem gerður yrði út frá Reykjavík, Það mál er nú í athugun og undirbúningi af hálfu fyrri eigenda Vigra og Ögra.

Morgunblaðið. 26 nóvember 1969.


07.07.2018 09:30

910. Vonin ll VE 113. TFEM.

Vélskipið Vonin ll VE 113 var smíðuð hjá Dráttarbraut Vestmannaeyja árið 1943. Eik. 64 brl. 160 ha. Lister díesel vél. Eigendur voru Guðmundur Vigfússon, Jón Vigfússon og Guðlaugur Vigfússon í Vestmannaeyjum frá vori sama ár. Ný vél (1950) 200 ha. Hundested díesel vél. 26 nóvember 1960 var Von hf í Vestmannaeyjum eigandi skipsins. Ný vél (1963) 240 ha. Kelvin díesel vél. Selt 20 nóvember 1960, Von hf í Gerðahreppi, hét Vonin ll GK 113. Selt 17 september 1973, Von hf á Hellissandi, hét Vonin ll SH 199. Ný vél (1978) 365 ha. Cummins díesel vél. Selt 17 júlí 1978, Von hf á Höfn í Hornafirði, hét Vonin ll SF 5. Selt 10 ágúst 1984, Halldóri Guðmundssyni, Guðmundi R Guðmundssyni og Birgi Guðmundssyni á Drangsnesi, hét Vonin ll ST 6. Selt 16 ágúst 1990, Njáli hf í Gerðahreppi, hét Vonin ll GK 136. Skipið var talið ónýtt og tekið af skrá 21 janúar árið 1991.


910. Vonin ll VE 113 í Vestmannaeyjahöfn.                                         Ljósmyndari óþekktur.


Vonin ll VE 113 í smíðum hjá Dráttarbraut Vestmannaeyja haustið 1942.         Ljósmyndari óþekktur.

               Vonin ll VE 113.

Dráttarbraut Vestmannaeyja h.f., smíðameistari Gunnar Marel Jónsson, er áður kunn að því að framleiða góða báta og vandaða. T.d. m.s. Helga, sem er 115 brúttó smálestir. Nú í vetur um miðja vertíð hljóp af stokkunum og komst brátt í notkun glæsilegur bátur og sérstaklega vandaður, og heitir Vonin VE 113, um 60 brúttó smálestir að stærð. Eigendur eru bræðurnir Guðmundur, Jón og Guðlaugur Vigfússynir frá Holti. Er Guðmundur skipstjórinn og Jón 1. vélstjóri. Hefir bátur þessi stundað togveiði síðan hann komst á flot og aflað ágætlega.

Víðir. 21 júní 1943.


01.07.2018 13:51

Dúx KE 38. TFEN.

Vélskipið Dúx KE 38 var smíðað í Gautaborg í Svíþjóð árið 1943 sem Anglia GG 338. Eik. 54 brl. 180 ha. Skandia vél. Skipið var selt 25 júlí 1945, Verslunarfélagi Drangness í Strandasýslu, hét Anglía ST 104. Selt 23 júní 1948, Hlutafélaginu Þristi í Reykjavík, hét Þristur RE 300. Selt 11 júní 1952, Jóhanni Guðjónssyni í Keflavík, hét Dúx RE 300. Árið 1953 fær skipið skráningarnúmerið KE 38. Ný vél (1953) 240 ha. GM díesel vél. 29 júní árið 1963 kom upp mikill eldur í skipinu þegar það var á humarveiðum um 12 sjómílur norður af Eldey. Áhöfninni, 6 mönnum var bjargað um borð í vélbátinn Tý frá Keflavík. Það var síðan vélbáturinn Ingólfur frá Sandgerði sem tók Dúx í tog til lands en eftir um 20 sjómílna siglingu, sökk Dúx í Sandgerðissundi. Einar Gíslason útgerðarmaður í Sandgerði hafði tekið skipið á leigu fyrir humarvertíðina.


Dúx RE 300. Varð svo síðar KE 38.                                                        Ljósmyndari óþekktur.

Anglia GG 338.                                                                                   (C) Óskar Franz Óskarsson.

   Tveir sænskir vélbátar komnir hingað

Tveir fyrstu vélbátarnir,  sem keyptir eru í Svíþjóð komu hingað til bæjarins gærmorgun. Áður var einn sænskur bátur kominn til hafnar á Siglufirði. Eru þetta bátar sem keyptir voru fullbúnir. Vöktu þeir athygli manna við höfnina í gærmorgun og var fjöldi manna að skoða þá í gærdag. Eigendur þessara báta eru: Verslunarfielagið Drangsnes í Steingrímsfirði og Ingvar Pálmason, skipstjóri o. fl. "Anglía". Bátur Verslunarfjelagsins Drangsnes heitir "Anglia" og eru eigendur þessa félags þeir Kristján Einarsson, framkæmdarstjóri og Ólafur H Jónsson, forstjóri í Alliance. Báturinn er rúmlega 55 smálestir og hefir 180 ha. Scandia vél. Ganghraði er 11 sjómílur. Báturinn, sem er tveggja ára gamall hefir togútbúnað og dragnótatæki. Í lest bátsins eru kælitæki, sem sennilega veða tekin úr bátnum, að minnsta yfir síldveiðitímann. Báturin fer strax á síldveiðar. Sænsk áhöfn sigldi bátnum hingað til lands.
Hinn báturinn heitir "Rex" . Er hann 73 smálestir með 160 ha. vjel. Er þetta stór og föngulegur bátur og var einn af stærstu fiskibátum Svía. Skipið er 12 ára gamalt.

Morgunblaðið. 24 júlí 1945.


Dúx KE 38. Líkan Gríms Karlssonar.                                                            (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Dúx KE 38 brennur. Björgunarskipið Sæbjörg dælir sjó á brennandi skipið.               (C) Tíminn.

       ,Dux' frá Keflavík brennur og                        sekkur út af Sandgerði

Keflavík, 1. júlí. M.b. Dux var á humarveiðum norður af Eldey á laugardag sl. Um kl. 19.30 kom upp eldur í vélarrúmi, svo snögglega og svo magnaður, að við ekkert var ráðið. Skipverjar tæmdu öll slökkvitæki, sem um borð voru, en það reyndist árangurslaust, og magnaðist eldurinn svo skjótt og breiddist um stýrishúsið, að ekki varð komizt í talstöð, og dælum ekki komið við, því drifreimar í vélarhúsi brunnu sundur. Mikil hætta skapaðist á sprengingum í olíutönkum, sem eru til hliðar við vélarrúm. Eldur komst í neyðarrakettur, sem geymdar voru í stýrishúsi og varð sprenging af því. Þegar sýnt var að skipverjar réðu ekki við eldinn, blésu þeir upp annan gúmbjörgunarbátinn og fóru allir, 6 að tölu, í bátinn. Flugvél frá Loftleiðum, flaug yfir brennandi bátnum og tilkynnti strax flugturninum í Reykjavík og þeir aftur Keflavíkurflugvelli, sem náði sambandi við Keflavíkurradíó, og þannig barst fregnin til nærstaddra báta. M.b. Týr frá Keflavík, kom þar fyrstur að, og tók mennina úr björgunarbátnum, en gat ekkert annað aðhafst. Skömmu síðar kom m.b. Ingólfur frá Sandgerði á staðinn, og var þá ætlunin að draga hinn brennandi bát til lands. Fóru skipverjar aftur um borð í Dux til að festa dráttartaugar og höggva vörpuna frá, því áður höfðu skipverjar ekki getað náð vörpunni inn, vegna þess að aflreimar brunnu og vél stöðvaðist. Þetta tókst vel og fóru skipstjóri, Helgi Kristófersson, og vélamaður, Guðmundur Stefánsson, um borð í Ingólf, en aðrir skipverjar urðu eftir í Tý, sem kom með þá til Keflavíkur á sunnudagskvöld. Drátturinn gekk vel, því logn var og sléttur sjór. Eldurinn magnaðist stöðugt og urðu sprengingar í bátnum og þegar búið var að draga Dux um 20 mílur, sökk báturinn snögglega, rétt sunnan við Sandgerðissund. Var líkt og hann gliðnaði sundur, því þá hefur innviður verið brunninn sundur.
Einar Gíslason í Sandgerði hafði bátinn á leigu til humarveiða, en eigandi hans var Jóhann Guðjónsson, útgerðarmaður í Keflavík. Dux var 54 lestir að stærð, smíðaður úr eik í Gautaborg árið 1943. Engu varð bjargað úr bátnum, og misstu skipverjar allan sinn farangur, en flestir þeirra voru ekki heimamenn í Sandgerði og höfðu því meiri föt og farangur um borð, en venjulega gerist, og hafa því orðið fyrir talsverðu tjóni. Dux var vátryggður í Vélbátatryggingu Reykjaness, og frekar lágt tryggður sem eldri bátur.

Morgunblaðið. 2 júlí 1963.

30.06.2018 21:45

Landað úr skuttogaranum Barða NK 120.

1137. Barði NK 120 kom í fyrsta skipti til heimahafnar sinnar, Neskaupstaðar hinn 14 desember árið 1970, en Síldarvinnslan hf hafði keypt skipið af útgerðarfyrirtækinu Findus í La Rochelle við Biskajaflóann í Frakklandi stuttu áður. Barði var smíðaður hjá Ateliers et Chantters de la Manghe í Dieppe í Frakklandi árið 1967. 327 brl. 1.200 ha. Deutz díesel vél, 675 Kw. Hét áður Mousson LR  5207 og var í eigu Findus eins og áður segir. Ýmsar breytingar voru gerðar á togaranum hjá Dráttarbrautinni hf Neskaupstað. Barði hélt síðan í sína fyrstu veiðiferð 11 febrúar 1971. Togarinn landaði síðan 17 febrúar og var aflinn úr þessari fyrstu veiðiferð um 50 tonn. Skipstjóri á Barða var Magni Kristjánsson.


Landað úr togaranum Barða NK 120 við bæjarbryggjuna í Neskaupstað vorið 1972. Mennirnir sem standa inn í skeifunni eru Jóhannes Sveinbjörnsson verkstjóri löndunar (snýr baki í myndavél) og Ólafur Gunnarsson þáverandi forstjóri Síldarvinnslunnar. Maðurinn sem heldur við löndunarmálið er Ægir Ármannsson. (C) Guðmundur Sveinsson.


        Skuttogarar til Austfjarða.

Í þessum mánuði bættust tveir skuttogarar í flota Austfirðinga, fyrstu skipin þeirrar tegundar, sem Austfirðingar eignast. Hér er um systurskip að ræða, 494 tonn eftir eldri mælingareglum með 1200 ha Deutz aðalvél og þrjár ljósavélar af franskri gerð. Bæði eru skipin smíðuð árið 1967 og eru keypt hingað frá Frakklandi. Öll siglingatæki eru ný. Skipin eru tveggja þilfara þannig að fiskaðgerð fer fram í lokuðu rúmi. Eigendur annars skipsins, Barða NK 120, er Síldarvinnslan hf. í Neskaupstað, en hitt, Hólmatind SU 220, á Hraðfrystihús Eskifjarðar hf. Það var 14 desember, að Barði kom til Norðfjarðar. Skipstjóri á honum er Magni Kristjánsson, 1. stýrimaður er ráðinn Birgir Sigurðsson og 1. vélstjóri Sigurður Jónsson, allir í Neskaupstað.
Talsverðar breytingar verða gerðar á skipinu og verða þær framkvæmdar af Dráttarbrautinni hf. Er hér einkum um að ræða breytingar á matsal og eldhúsi til samræmis við kröfur okkar, færibönd fyrir fisk á milliþilfar, smábreytingar í lestum og gerð ísgeymsla á milliþilfari. Loks verður skipið útbúið til veiða með flotvörpu. Vinna við breytingarnar hófst skömmu eftir komu skipsins og sækist verkið mjög vel og er gert ráð fyrir að skipið geti farið á veiðar eftir mánuð hér frá. Hólmatindur kom til Eskifjarðar  22 desember. Breytingar þær, sem á skipinu verða gerðar, munu mestallar framkvæmdar á Eskifirði. Skipstjóri á Hólmatindi verður Auðunn Auðunsson, nafnkunnur togaraskipstjóri, 1. vélstjóri Guðmundur Valgrímsson úr Reykjavík, en 1. stýrimaður hefur ekki enn verið ráðinn. Menn vænta mikils af þessum skipum. Talið er, að skuttogarar hafi mun meiri möguleika til að fiska en síðutogarar. Mætti því ætla að afkoma þeirra verði betri og sjómannahlutur hærri. Þá er þess og vænzt, að útgerð þeirra verði til að lengja til muna árlegan reksturstíma frystihúsanna og mynda traustari rekstursgrundvöll fyrir þau og auka á atvinnuöryggi verkafólks.

Austurland. 30 desember 1970.1137. Barði NK 120 á leið inn Norðfjörð með fullfermi.                         (C) Sigurður Arnfinnsson.


1138. Hólmatindur SU 220. Hét áður Orage.                                                    Vilberg Guðnason.

              Fyrsta veiðiferðin.

Á miðvikudagsmorgun kom Barði úr sinni fyrstu veiðiferð sem íslenzkt skip. Hafði hann aðeins verið úti nokkra daga og oft verið bræla. Afli skipsins var um 40 tonn. Allur útbúnaður reyndist í lagi og láta skipverjar vel af skipinu og vinnuaðstöðu um borð. Hólmatindur, Eskifirði, er nú í sinni fyrstu veiðiferð eftir að skipið komst í eigu Íslendinga.

Austurland. 19 febrúar 1971.


24.06.2018 07:03

927. Þorsteinn NK 79. TFMU.

Vélbáturinn Þorsteinn NK 79 var smíðaður hjá Frederikssund Skibswærft A/S í Frederikssund í Danmörku árið 1946. Eik. 37 brl. 100 ha. Hundested vél. 15,25 x 5,12 x 2,20 m. Báturinn var gerður út frá Danmörku til ársins 1954 af þarlendum, þar til  hann var seldur Skildi h/f á Siglufirði í mars það ár. Hét fyrst Björg SI 96 hér á landi. Seldur 18 febrúar 1959, Jóhannesi Jóhannessyni í Keflavík, hét Þorsteinn KE 79. Ný vél (1959) 215 ha. MWM díesel vél. Seldur 10 desember 1961, Stapa hf í Neskaupstað, sem Samvinnufélag Útgerðarmanna (S.Ú.N) í Neskaupstað átti að stórum hluta. Seldur 1965, Eyrum hf á Eyrarbakka, sama nafn og númer. Seldur 1968, Rafni Péturssyni á Flateyri, sama nafn og númer. Sama ár er báturinn kominn í eigu útibús Landsbankans á Ísafirði. Seldur 8 apríl 1969, Sigurpáli Aðalgeirssyni, Ólafi Sigurpálssyni og Sverri Vilbergssyni í Grindavík, báturinn hét Vörðunes GK 45. Seldur 22 nóvember 1971, Skúla Magnússyni Langholti í Vestur Skaftafellssýslu og Sigurði Rúnari Steingrímssyni í Grindavík, sama nafn og númer. Seldur 23 desember 1975, Magnúsi Þorlákssyni, Jóni Sæmundssyni og Jóni Ásgeirssyni í Grindavík, hét Hafursey GK 84. Báturinn sökk út af Reykjanesi 3 október árið 1976. Áhöfnin, 2 menn, bjargaðist um borð í olíuflutningaskipið Kyndil frá Reykjavík. Það var svo Hrafn Sveinbjarnarson ll GK 10 sem kom með mennina til Reykjavíkur.

 
927. Þorsteinn NK 79.                                                                (C) Vigfús Markússon. Brimbarinn.

  Leit hafin af rækjumiðum í Eyjafjarðarál
        Hafrannsóknarskip fann þar rækju 1948
         en miðin hafa aldrei verið könnuð fyrr

Siglufirði. Frá fréttaritara Þjóðviljans. Verið er þessa dagana að útbúa vélbátinn Björgu SI 96, til leitar að rækjumiðum. Er ætlunin að leita á 240- 440 metra dýpi í Eyjafjarðarál og hér í grennd við Siglufjörð. Árið 1948 varð hafrannsóknaskipið Dana vart við rækjur í Eyjafjarðarál, en það hefur ekkert verið kannað til hlýtar hvort um nokkurt magn hafi verið að ræða þar. Björg er tilbúin á veiðar í dag og er ráðgert að halda leitinni áfram í 3 vikur a.m.k. eftir því sem veður leyfir. Skipstjóri á Björgu verður Jón H. Jónsson frá Ísafirði. Fiskimálasjóður hefur veitt styrk til þessara tilrauna, enda er hér um að ræða könnun á nýrri atvinnugrein hér í bæ, sem ef vel gæfist myndi skapa mikla atvinnu í landi og töluvert útflutningsverðmæti.

Þjóðviljinn. 23 september 1954.


Þorsteinn NK 79 að landa afla sínum í Grimsby árið 1963.      (C) Jón Ólafur Þorsteinsson.
 

Seldi fyrir 899 þús. krónur í 4 ferðum

Neskaupstað, 23. September. Vélbáturinn Þorsteinn frá Neskaupstað, 38 tonn að stærð, hefur nú farið 4 söluferðir til Englands í sumar, í þessum ferðum hefur hann selt fyrir 899 þúsund krónur og gerir það 17,60 á hvert kíló af fiski þeim sem hann seldi, mest megnis rauðsprettu, sem var ísuð í lest. Síðasta ferð Þorsteins tók 16 daga frá því hann fór héðan og þar til hann var kominn aftur. Tafðist báturinn af þrálátum stormum.

Morgunblaðið. 24 september 1963.927. Hafursey GK 84.                                                                                     Ljósmyndari óþekktur.
 

              Hafursey hvarf í djúpið er                                  skammt var til lands

Börðust í fjóra tíma við að halda bátnum á floti

Seint í gærkvöldi sökk vélbáturinn Hafursey GK 84 suður af Reykjanesi, eftir að tveir menn sem voru á bátnum svo og skipverjar á olíuskipinu Kyndli og vélbátnum Hrafni Sveinbjarnarsyni, höfðu í nær fjóra tíma hamast við að halda bátnum á floti og koma honum í höfn. Hafursey fór frá Grindavík um klukkan fimm í gærdag og var hugmyndin að sigla til Njarðvíkur. Þegar komið var norður fyrir Reykjanes, tilkynntu skipverjar loftskeytastöðinni í Reykjavik, að leki væri kominn að bátnum og báðu um aðstoð. Í ljós kom að olíuskipið Kyndill var þarna á næstu slóðum og hélt hann þegar á staðinn. Náðu skipverjar að koma taug yfir í Hafursey og var síðan snúið við og haldið aftur til Grindavíkur. Sú ferð gekk seint því að þungt var í sjó og erfiðlega gekk að stöðva lekann í Hafursey. Vélbáturinn Hrafn Sveinbjarnarson ll, hélt á móti skipunum frá Grindavík, en gat litla aðstoð veitt. Um klukkan átta í gærkvöldi voru skipverjarnir tveir á Hafursey dregnir á gumbát yfir í Kyndil, en um klukkan ellefu hvarf Hafursey í djúpið. Hafursey sem áður hét Vörðunes GK var 37 tonna eikarbátur, byggður í Danmörku árið 1946.

Vísir. 4 október 1976.
 

         "Vorum aldrei í neinni hættu"

"Það var ágætt veður allan tímann en dálítil kvika, en við vorum aldrei í neinni hættu", sagði Magnús Þorláksson skipverji á Hafursey GK sem sökk í gærkvöldi, er Visir ræddi við hann í morgun. "Eftir að við höfðum tilkynnt um leka kom olíuskipið Kyndill og tók okkur í tog. Það hefur verið um hálf átta leytið. Þegar hann byrjaði að toga virtist okkur sem lekinn ykist. Við höfðum björgunarbát tilbúinn á dekkinu og þegar báturinn lagðist á hliðina þorðum við ekki annað en fara að yfirgefa bátinn og fórum í gúmmíbátnum yfir í Kyndil. Það var svo um ellefu leytið í gær að báturinn sökk. Okkur varð ekkert meint af þessu. Blotnuðum aðeins þegar við fórum um borð í gúmmibátinn, en svo fór ágætlega um okkur um borð í Kyndli"

Vísir. 4 október 1976.


10.06.2018 11:09

1345. Blængur NK 125. TFXD.

Frystitogarinn Blængur NK 125 var smíðaður hjá Astilleros Luzuriaga S.A. í Pasajes de San Juan á Spáni árið 1973 sem Ingólfur Arnarsson RE 201 fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur hf. Smíðanúmer 312. 969 brl. 2 x 1.410 ha. MAN Bazan díesel vélar, 1.106 Kw. Skipið var selt í febrúar 1985, Ögurvík hf í Reykjavík, hét Freri RE 73 og var breytt í frystitogara hjá Slippstöðinni á Akureyri sama ár. Skipið var lengt um 10 metra hjá Morska Stocznia Remontowa skipasmíðastöðinni í Gdansk í Póllandi árið 2000. Einnig var sett ný vél í skipið, 5.003 ha. Wartsila NSD vél, 3.680 Kw. Eftir þessar breytingar mældist skipið 1.065 brl.  Skipinu var lagt árið 2013 vegna hárra veiðigjalda að sögn eigenda. Skipið var selt 2 júlí 2015, Síldarvinnslunni hf í Neskaupstað, fékk nafnið Blængur NK 125. Skipið var endurnýjað nánast frá grunni í Póllandi haustið 2016 og síðan var nýjum vinnslubúnaði komið fyrir í skipinu vorið 2017 hjá Slippstöðinni á Akureyri. Frystitogarinn Blængur NK 125 er gerður út af SVN í Neskaupstað í dag.


Blængur NK 125 eftir breytingarnar í Póllandi og á Akureyri 2016-17. (C) Guðlaugur Björn Birgisson. 


Blængur NK 125 við Grandagarð.                                          (C) Þórhallur S Gjöveraa. 12 júlí 2015.

       Freri fékk nafnið Blæng­ur

Síld­ar­vinnsl­an hf. hef­ur keypt frysti­tog­ar­ann Frera RE-73 af Ögur­vík hf. og ger­ir hann nú út und­ir nafn­inu Blæng­ur NK-125. Skipið hef­ur legið í Reykja­vík­ur­höfn síðustu ár eft­ir að Ögur­vík lagði hon­um, að eig­in sögn vegna hárra veiðigjalda. Nú held­ur það aft­ur á miðin frá Nes­kaupstað.
Stefnt var að því að fara fyrsta túr­inn frá Nes­kaupstað í gær, und­ir skip­stjórn Sig­tryggs Gísla­son­ar. Tutt­ugu og fjög­urra manna áhöfn er um borð og verður hann gerður út á ufsa, grá­lúðu og ann­an botn­fisk, seg­ir Gunnþór Ingva­son, fram­kvæmda­stjóri Síld­ar­vinnsl­unn­ar, í Morg­un­blaðinu í dag.

Mbl.is 11 júlí 2015.


1345. Blængur NK 125 við Grandagarð.                             (C) Þórhallur S Gjöveraa. 12 júlí 2015.


1345. Blængur NK 125 við Slippstöðvarbryggjuna á Akureyri. (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

    Frystitogarinn Blængur NK verulega               breyttur Hér er allt stórt og öflugt
segir Bjarni Ólafur Hjálmarsson, skipstjóri

Frystitogarinn Blængur NK, sem er í eigu Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, er kominn á veiðar eftir viðamiklar breytingar og endurbætur. "Það má segja að hér hafi allt verið hreinsað út nema vélin. Þetta er eins og að vera á nýju skipi," sagði Bjarni Ólafur Hjálmarsson, skipstjóri að lokinni fyrstu veiðiferð eftir breytingar. Blængur er nú á gullkarfaveiðum djúpt suður af landinu en þar er nú farið að veiðast vel. Blængur NK hét áður Freri RE og þar á undan Ingólfur Arnarson RE. Skipið var smíðað á Spáni árið 1973 og var fyrst í eigu Bæjarútgerðar Reykjavíkur en síðan eignaðist Ögurvík skipið. Togarinn var lengdur árið 2000 og er nú tæplega 79 metrar og í honum er 5000 hestafla Wartsila aðalvél. Síldarvinnslan í Neskaupstað eignaðist skipið árið 2015 og snemma á síðasta ári var því siglt til Póllands þar sem skipið var sandblásið og málað.
Allar innréttingar voru hreinsað út og endurnýjaðar í brú skipsins, áhafnarklefar sömuleiðis endurnýjaðir, millidekk sandblásið og málað og breytingar gerðar í lest, m.a. steypt nýtt gólf. Ný löndunarlúga var sett á skipið. Sett var hliðarskrúfa á skipið og er hún af gerðinni DTG sem Ásafl ehf. hefur umboð fyrir hér á landi. Allir ljóskastarar á skipinu eru nýir og með LED tækni. Skjáir voru endurnýjaðir í stjórnpúlti skipstjóra í brú og er í skipinu nýr Furuno dýptarmælir og JRC straummælir. Að loknum breytingunum í Póllandi var skipinu siglt til Akureyrar þar sem síðari áfanga verkefnsins var lokið nú upp úr áramótum. Settur var niður vinnslubúnaðar á millidekki en hluti hans var áður í frystitogaranum Barða NK í eigu sömu útgerðar. Slippurinn Akureyri ehf. hafði þann áfanga með höndum og smíðaði hluta vinnslubúnaðar. Rafeyri ehf. annaðist raflagnaþáttinn og Kælismiðjan Frost ehf. sá um frystibúnaðinn. Blængur er útbúinn til flakafrystingar og áætla skipstjórnendur að frysta alla jafna um 1600 kassa á sólarhring. Sú breyting verður í Blæng frá því sem áhöfnin var áður vön í Barða að í skipinu er búnaður til að ganga frá kössum á bretti uppi á vinnsludekki og er plastfilma sett utan um brettið áður en lyftibúnaður skilar því niður í lest. Frá afurðum er því gengið tilbúnum á bretti í lest að lokinni vinnslu og flýtir það talsvert fyrir þegar landað er úr skipinu. Rafmagnslyftari er í lestinni og því fljótgert að ganga frá brettum í stæður jafnóðum og þau berast frá vinnslunni. Í lestina er áætlað að komist um um 20 þúsund kassar. 
Bjarni Ólafur Hjálmarsson og Theódór Haraldsson eru skipstjórar á Blæng NK og voru hæstánægðir með reynsluna sem komin er á skipið eftir breytingarnar. "Þetta er mikil breyting frá Barða NK, skipið er auðvitað mun stærra og allt mjög öflugt hér um borð. Við höfum fengið góða reynslu á vinnsluna og förum nú á gullkarfaveiðar. Það eru næg verkefni framundan fyrir okkur," segja skipstjórarnir á Blæng NK.

Ægir. 2 tbl. 1 febrúar 2017.


1345. Freri RE 73 við bryggju í Örfirisey.                              (C) Þórhallur S Gjöveraa. 19 maí 2013.


Um borð í Frera RE 73 við Grandagarð.                                              (C) Þórhallur S Gjöveraa.

       Skuttogarinn Ingólfur Arnarson                           fær nýtt nafn
             Freri skal hann heita

Ögurvík, hinn nýi eigandi skuttogarans Ingólfs Arnarsonar, hefur nú, samkvæmt heimildum Morgunblaðsins, ákveðið að gefa honum nafnið Freri. Skipinu verður breytt í frystiskip og þykir því nafnið Freri vel við hæfi. Skrásetningarnúmer skipsins verður RE 73. Auk Frera á Ögurvík og gerir út skuttogarana Vigra RE 71 og Ögra RE 72.

Morgunblaðið. 9 mars 1985.


1345. Freri RE 73 í slipp.                                         (C) Þórhallur S Gjöveraa. 27 september 2014.

          Freri verður frystitogari

Slippstöðin á Akureyri hefur samið við útgerðarfélagið Ögurvík hf. í Reykjavík um að breyta togaranum Frera RE í frystitogara. Freri hét áður Ingólfur Arnarson og var í eigu Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Freri kom til Akureyrar fyrir helgina og er talið að vinna við breytingarnar taki a.m.k. fjóra mánuði. Vegna þessa verkefnis sá Slippstöðin sér ekki fært að bjóða í endurbæturnar og viðgerðina á togaranum Bjarna Herjólfssyni sem Útgerðarfélag Akureyringa hefur fest kaup á og í framtíðinni mun bera nafnið Hrímbakur EA.

Dagur. 29 apríl 1985.1345. Freri RE 73 í slipp.                                             (C) Þórhallur S Gjöveraa. 27 september 2014.

            Skuttogarinn Freri RE 73                        fljótandi fiskvinnslu og frystihús
Hægt að frysta allt að 45 tonn á sólarhring

Hið hrollkalda nafn Freri hæfir vel fyrrum Spánartogara Bæjarútgerðar Reykjavíkur, Ingólfi Arnarssyni, 1.000 tonna skuttogara sem Slippstöðin á Akureyri hefur nýlega lokið við að breyta í fullkominn frystitogara. Fljótandi fiskvinnslu- og frystihús. Freri RE 73 er í eigu Ögurvíkur hf., og að sögn framkvæmdastjórans, Gísla Jóns Hermannssonar, er hægt að frysta um borð í skipinu allt að 45 tonnum af flökum á sólarhring. Í um það bil 250 fermetra vinnslusal ægir saman vélum og færiböndum og virðist allt renna saman í eina sundurlausa bendu. En það er öðru nær. Þarna ræður skipulagið ríkjum. Úr trollinu kemur sjóvolgur þorskurinn inn á blóðgunarborð, fer þaðan í aðgerðarvél, þar sem hann er slægður og hausaður, síðan á færibandi inn í flökunarvél, í gegnum roðflettara, inn á ljósaborð þar sem ormarnir eru tíndir úr honum, upp á vikt, í pökkunarvél og frystitæki og loks niður í frystigeymslu í iðrum skipsins. Framhaldið þekkja allir: flutningaskip siglir með hann vestur um haf þar sem hungraðir gestir Long John Silver bíða spenntir yfir hvítvínsglasi eftir að borinn sé fyrir þá gómsætur pönnusteiktur þorskur af íslandsmiðum. Og þjóðin fær skotsilfur í erlendri mynt til að eyða á börum við Spánarstrendur. Um borð í Frera er 26 manna áhöfn. Brynjólfur Halldórsson skipstjóri sagði að nóg væri að 10 manns væru á vakt í einu, 4 til að taka inn trollið og 6 í móttökunni inni í vinnslusalnum. Freri heldur líklega á miðin nk. laugardag.

Morgunblaðið. 31 október 1985.


Skuttogarinn Ingólfur Arnarson RE 201 við bryggju á Akureyri árið 1985.    Ljósmyndari óþekktur.

  Ingólfur Arnarson kominn til landsins

Sagt er, að landnámsmaðurinn Ingólfur Arnarson hafi komið til Íslands árið 874. Nú, 1100 árum síðar, er annar Ingólfur Arnarson kominn til landsins, Þótt fátt eigi þessir tveir Ingólfar annað sameiginlegt en nafnið, nema ef vera skyldi, að hinn fyrri hafi einnig haft til að bera glæsileik á borð við skuttogarann Ingólf Arnarson, sem lagðist fánum prýddur að Ægisgarði síðdegis í gær. Ingólfur Arnarson er þriðji skuttogarinn, sem Bæjarútgerð Reykjavíkur kaupir frá Spáni, hin tvö fyrri eru Bjarni Benediktsson og Snorri Sturluson, og er skipið að allri gerð og stærð nákvæmlega eins og systurskipin tvö, eða um 960 brúttólestir. Töluvert fjölmenni var komið um borð í skipið, er blaðamann og ljósmyndara Morgunblaðsins bar að garði og því ekki hlaupið að því að ná tali af skipstjóranum Sigurjóni Stefánssyni. Um síðir tókst okkur þó að króa hann af í brúnni ásamt fjölskyldunni og spurðum hann um skipið og ferðina heim.
"Ferðin heim gekk mjög vel, og ég er í alla staði mjög ánægður með skipið. Ég er bjartsýnn á, að það eigi eftir að reynast mjög vel og ég held, að ég slái því bara föstu, að það reynist eins vel og gamli Ingólfur Arnarson." Gert er ráð fyrir, að áhöfnin verði um 24-25 menn og eru vistarverur allar í skipinu hinar glæsilegustu, þannig að ekki ætti að væsa um sjómennina um borð. 1. vélstjóri á Ingólfi Arnarsyni er Kristinn Hafliðason.

Morgunblaðið. 25 janúar 1974.


Ingólfur Arnarson RE 201. Líkan.                                                                  (C) Arnar Sigurðarson.

                 Togarar BÚR

Hinn nýjasti af skuttogurum BÚR, Ingólfur Arnarson, kom úr sinni fyrstu veiðiferð í gær með milli 220 og 230 tonn af mjög góðum fiski, mest þorski. Ingólfur var 16 daga í túrnum, en mun hafa verið við veiðar í 12 daga, oft í slæmu veðri. Verður ekki af þessum skipum skafið, að þau eru góð sjóskip, hvað svo sem segja má um þau að öðru leyti. Að sögn Marteins Jónassonar, framkvæmdastjóra BÚR, er aflaverðmætið eftir þessa ferð um 6 milljónir, gróflega útreiknað. Aðspurður sagði Marteinn, að Snorri Sturluson hafi farið í veiðiferð síðasta föstudag, en Bjarni Benediktsson á laugardag. Sagði hann að allt væri í lagi um borð í báðum skipunum, og engar bilanir hefðu komið upp nýlega.
Síðutogarinn Hjörleifur kom frá Grimsby í gær, þar sem hann seldi 2450 kit fyrir rúm 34 þús. pund, og var meðalverðið 44-45 kr. fyrir kilóið. Þormóður goði fór á veiðar laugardaginn 2. marz. Skuttogarinn Júní kom til Hafnarfjarðar í fyrradag með 190 tonn og þá var Vestmannaey einnig væntanleg.

Tíminn. 14 mars 1974.Flettingar í dag: 268
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 693
Gestir í gær: 60
Samtals flettingar: 852326
Samtals gestir: 62761
Tölur uppfærðar: 18.6.2024 02:07:38