02.01.2022 08:51

E. s. Brúarfoss l. LCKM / TFUA.

Brúarfoss var smíðaður hjá Kjöbenhavns Flydedock & Skibsverft í Kaupmannahöfn í Danmörku árið 1927 fyrir h/f Eimskipafélag Íslands. 1.579 brl. 1.000 ha. B & W gufuvél. Smíðanúmer 181. 72,16 x 11,05 x 6,44 m. Eimskipafélag Íslands lét smíða frystiskip hjá Kjöbenhavns Flydedok & Skibsværft í Kaupmannahöfn árið 1927 og hlaut það nafnið Brúarfoss og var fyrsta Íslenska sérsmíðaða frystiskipið og olli smíði hans kaflaskiptum í útflutningi á landbúnaðarvörum. Áhöfnin á Brúarfossi bjargaði á stríðsárunum skipbrotsmönnum á tveimur skipum sem hafði verið sökkt. Þann 22 maí 1941 bjargaði hún 34 skipbrotsmönnum af breska flutningaskipinu Rothermere þar sem þeir voru að hrekjast um í björgunarbát undan suðurodda Grænlands. Ári síðar, 4 nóvember 1942, bjargaði hún svo 44 skipbrotsmönnum af breska flutningaskipinu Daleby sem sökkt var af Þýskum kafbát. 11 apríl 1948 strandaði Brúarfoss í Húnaflóa og fór viðgerð á skipinu fram í Leith í Skotlandi. Var vélum skipsins þá breytt frá kolakyndingu í olíukyndingu. Brúarfoss var seldur 10 júní 1957, Freezer Shipping Line Inc í Líberíu, hét Freezer Queen. Skipið var selt Jose A Naveira í Líberíu, hét Reina Del Frio. Árið 1960 var skipið skráð í Argentínu, sami eigandi. Árið 1964 skemmdist skipið af eldi er það var statt á Rosario fljótinu í Argentínu og var því lagt þar. Eftir brunann lá það í níu ár og var loks rifið árið 1973. Brúarfoss var síðasta olíukynta gufuskipið í eigu Eimskipafélags Íslands.


Heimild:
Eimskipafélag Íslands í 100 ár.
Skipasaga. Hilmar Snorrason.


E.s. Brúarfoss l.                                                                           (C) h.f. Eimskipafélag Íslands.


Brúarfoss í smíðum í Kaupmannahöfn árið 1926.                     (C) h.f. Eimskipafélag Íslands.


Brúarfoss við komuna til landsins hinn 20 mars árið 1927.                  Ljósmyndari óþekktur.

 "Brúarfoss" bjargar 34 skipbrotsmönnum
                    við Grænland

Á miðnætti s. I. fimtudag bjargaði "Brúarfoss" 34 breskum skipbrotsmönnum, sem voru í björgunarbát um 600 mílur vestur af Íslandi, eða við suður odda Grænlands. Skipshöfnin á Brúarfossi sá ljós og stefndi á það. Reyndist ljósið vera frá björgunarbát af bresku skipi, sem sökkt hafði verið á þessum slóðum 3 ½ sólarhring áður en Brúarfoss fann bátinn. Skipbrotsmenn voru frekar hressir, en þó höfðu sumir þeirra fengið kuldabólgu og auk þess var einn maður særður. Brúarfoss flutti skipbrotsmennina hingað. Brúarfoss flutti hingað til lands matvöru frá Kanada . Brúarfoss var óvenjulega fljótur í ferðum, eða aðeins 20 daga frá því hann ljet hjeðan úr höfn og munu fá dæmi til þess, að íslenskt skip hafi haft svo fljóta ferð milli Ameríku og Íslands.

Morgunblaðið. 28 maí 1941.


Brúarfoss í erlendri höfn.                                                                 (C) h.f. Eimskipafélag Íslands.


Líkan af Brúarfossi á Síldarminjasafninu á Siglufirði.            (C) Þórhallur S Gjöveraa. 2016.


Málverk af Brúarfossi eftir R. Matthias frá árinu 1956.                         Mynd í minni eigu.


Eitt af ankerum Brúarfoss við sjávarsíðuna í Keflavík.            (C) Þórhallur S Gjöveraa. 2013.

                   "Brúarfoss"
   hið nýja skip Eimskipafélagsins

Klukkan 11 árdegis 21. mars kom "Brúarfoss" upp að Hafnarbakka. Múgur og margmenni hafði þyrpst niður að höfn og beið þar komu skipsins. Veður var kyrrt. Var skipið mjög fánum skreytt. Atvinnumálaráðherra og stjórn Eimskipafélags Íslans fóru út í skipið um morguninn, á meðan það lá úti á ytri höfn. Er bundnar voru landfestar tók atvinnumálaráðherra til máls. Hann stóð uppi á stjórnpalli. Heyrðist ræða hans allvel út yfir mannssöfnuðinn. Í upphafi óskaði hann hinn nýja "Foss" Eimskipafélagsins velkominn að landi, og árnaði félaginu allra heilla með þetta skip. Mintist hann síðan á framtak og framsýni þeirra manna, er gengust fyrir stofnun Eimskipafélagsins fyrir 14 árum, og breyttu með því gersamlega afstöðu vorri til nágrannaþjóðanna á meginlandinu. Um margra alda skeið urðum við að biðja aðrar þjóðir um farkost fyrir okkur og afurðir okkar til útlanda og eins láta okkur nægja það sem þeim þóknaðist að flytja hingað. Hann gat þess ennfremur, að ríkissjóður hafi látið 350 þúsund krónur til skips þessa, með því skilyrði að það yrði fullkomið kæliskip. Nauðsyn þess, að koma afurðum okkar til útlanda, kjöti og fiski, án þess að salta þær, er með ári hverju að verða augljósari. Nú t. d. liggur nokkur hluti saltkjötsins frá í haust óseldur í Noregi og lítt seljanlegur. Þetta skip sem komið er hér á að verða til þess að slíkt komi síður fyrir aftur.
Að lokum endurtók hann árnaðaróskir sínar, þakkaði stjórn og framkvæmdastjórn Eimskipafélagsins og bað áheyrendur að taka undir með sjer í húrrahrópi. Ferfalt húrra gall við frá mannsöfnuðinum og því næst var ræða atvinnumálaráðherra þökkuð með dynjandi lófaklappi. Tvær frystivélar eru í skipinu er geta kælt lestirnar, þó tómar séu, niður í -7° frosts. En hægt er að kæla hvert lestarrúm fyrir sig, ef skipið hefir aðrar vörur en kælivörur, ellegar ef eigi er þörf á kælingu nema í sumum lestarrúmunum. Lítið kælirúm er eitt í einni lestinni, ef menn vilja senda smásendingar af kælivörum með skipinu. Alls tekur skipið 1577 smálestir; er það nokkru meira en Gullfoss; en þess er að gæta, að tróðið utan um lestarrúmin tekur allmikið rúm. Annars myndi flutningsrúm skipsins vera mun meira, þar eð öll herbergi eru ofan þilja. Vél skipsins er ákaflega vönduð. Í vélarrúmi eru kælivélarnar. Þar er hægt að lesa á mælana hvaða hitastig sé í hverju lestarrúmi skipsins. Þar eru tvær rafmagnsvélar fyrir kastljós skipsins, loftskeytatæki o. fl. Farþegarúm skipsins eru mjög vönduð. Er rúm fyrir 26 farþega á 1. farrými og fyrir 20 á 2. farrými. Þægindi á 2. farrými eru meiri en þekst hafa, er sérstakt pláss á þilfari fyrir farþega þar. Vélbátur er á þilfari, til að nota við uppskipun, draga báta á höfnum, þar sem á því þarf að halda. Hefir það eigi þekst hér áður að hafa slíka uppskipunarbáta á skipum. Á 1. farrými eru klefar eigi sérlega stórir, en þægilegir og tilhugun öll hin hagkvæmasta. Nýungar á skipinu eru margar, m. a. eru áhöld til að geta notað loftskeytavita og rafmagnsáhöld til að nota við mælingar á dýpi. Sérstök lyftitæki eru á fremri þiljum til að lyfta þungum hlutum, ef á þarf að halda við uppskipun. Lyfta þau 12 smálesta þyngd.
Brúarfoss er hraðskreiðasta skip flotans, fer 13 mílur á vöku. Eftir þeirri reynslu sem fengin er, fer skipið með afbrigðum vel í sjó. Skipstjóri á "Brúarfossi" er hr. Júlíus Júliniusson. Var hann síðast á "Lagarfossi", en við skipstjórn á honum hefir nú tekið hr. Pétur Björnsson. 

Ægir. 4 tbl. 1 apríl 1927.



31.12.2021 10:33

Reykjavíkurhöfn um Jól árið 2018.

Óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og takk fyrir samfylgdina hér á síðunni á árinu sem er að líða.Megi árið 2022 færa okkur öllum gæfu. Hafið það ávallt sem allra best.





31.12.2021 09:44

B.v. Þórólfur RE 134. LCJH / TFOC.

Botnvörpungurinn Þórólfur RE 134 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby í Englandi árið 1920 fyrir h.f. Kveldúlf í Reykjavík. 403 brl. 800 ha. 3 þennslu gufuvél. 45,65 x 7,63 x 3,61 m. Smíðanúmer 694. Þórólfur var systurskip Skallagríms RE 145, bæði smíðuð eftir sömu teikningu, en Þórólfur var talinn mun betra sjóskip af þeim sem til þekktu og var allatíð mikið afla og happaskip. Togarinn varð fyrir miklu áfalli hinn 17 desember árið 1948. Var hann þá á heimleið úr söluferð til Englands og var staddur um 13 sjómílur norðvestur af Þrídröngum við Vestmannaeyjar er mikill brotsjór óð að honum b.b. megin og allar rúður í brúnnu brotnuðu þeim megin. Lagðist togarinn svo gjörsamlega á hliðina, að þegar sjórinn var farinn hjá námu siglutoppar við hafflötinn. Töluverður sjór komst í vélarrúmið og slökknaði eldur í þremur af fjórum fýrum ketilsins. Lestar togarans voru nær fullar af kolum og kastaðist farmurinn til og mikil slagsíða kom að togaranum. Tók langan tíma að rétta skipið og koma fýrunum í gang aftur. Megnið af bátapallinum og björgunarbátarnir, sópuðust í hafið. Kom togarinn til Reykjavíkur seinni partinn daginn eftir. Þórólfur var einn þeirra togara sem voru að veiðum á Halamiðum í febrúarbyrjun árið 1925 þegar eitt mesta óveður í manna minnum gekk yfir landið (Halaveðrið) og tveir togarar, Leifur heppni RE 146 og Hellyerstogarinn Field Marshal Robertson H 104 og mótorskipið Sólveig, fórust með allri áhöfn, 68 mönnum. Í þessu veðri sannaði Þórólfur hversu afburðagott sjóskip hann var. Togarinn var seldur vorið 1955, Guðmundi Kolka sem seldi hann í brotajárn til Óðinsvé í Danmörku.

Heimildir : Þrautgóðir á raunastund. IV bindi.
                   Í særótinu.


B.v. Þórólfur RE 134 á tímum heimstyrjaldarinnar síðari með íslenska fánann málaðan á kinnunga skipsins. Ljósmynd í minni eigu.

                     "Þórólfur"

Þórólfur, hið nýja skip Kveldúlfsfélagsins, liggur nú hér á innri höfninni. Er það mikið skip og fagurt, af sömu gerð og Skallagrímur. Skipstjóri þess er Guðmundur Guðmundsson frá Nesi, sem lengi hefir verið í þjónustu Kveldúlfsmanna og er reyndur og þektur dugnaðarmaður, eins og hann á kyn til.

Ísafold. 16 tbl. 12 apríl 1920.


B.v. Þórólfur RE 134 á veiðum.                                                         (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

          Þórólfur varð fyrir áfalli.

Togarinn Þórólfur, eign Kveldúlfs h.f. varð fyrir áfalli í grend við Vestmannaeyjar í ofsaveðrinu á föstudagskvöldið. Reið ólag yfir skipið og missti það báða bátana og bátadekkið brotnaði. Skipið lagðast á hliðina við áfallið og urðu skipverjar að moka til í því frá því klukkan 11 um morguninn og þar til kl. 7 morguninn eftir, til þess að rétta það að fullu við. Engan mann sakaði. Skipið kom á Reykjavíkurhöfn síðdegis í gær.

Alþýðublaðið. 19 desember 1948.


Fiskur flattur um borð í Þórólfi.                                                    (C) Hjálmar R Bárðarson.


Trollið látið fara.                                                                                 (C) Hjálmar R Bárðarson.


Kyndarinn mokar inn kolunum í fýrinn á Þórólfi.                            (C) Hjálmar R Bárðarson.


B.v. Þórólfur RE 134 á Reykjavíkurhöfn.                                            Ljósmyndari óþekktur.


Kveldúlfstogarar í Reykjavíkurhöfn. Þórólfur lengst til vinstri, þá Snorri Sturluson RE 242 og næst innst er Skallagrímur RE 145. Innsti togarinn er óþekktur. Framan við þá er Egill Skallagrímsson RE 165. Myndin trúlega frá 1921-22. (C) Helgi Sigurðsson.


   Sex gamlir togarar höggnir upp
        í Danmörku og Bretlandi

Á næstunni munu sex hinna gömlu togara fara í sína hinztu siglingu til Danmerkur og Bretlands, þar sem þeir verða ''höggnir" upp. Mun þá ekki vera nema einn eftir hinna gömlu togara. Það er Guðmundur Kolka, sem keypt hefur þessi gömlu skip. Hefur hann undanfarna mánuði unnið að því að fylla þau hvert af öðru af brotajárni. Hann hefur sem kunnugt er safnað brotajárni í mjög stórum stíl. Um skeið var hann t. d. með togara hér úti á ytri höfninni, þar sem hann náði upp allmiklu af legufærum. Í síðasta mánuði, er verkfallið stóð yfir, var áformað að brotajárnsskipin yrðu dregin út. Við það varð að hætta, en á morgun eða föstudag er væntanlegur stór dráttarbátur frá Hollandi, sem fara mun með 3 í eftirdragi til Danmerkur.
Fjórir þessara togara liggja nú vestur við Ægisgarð og hafa legið þar um Iangt skeið, en þeir eru: Skallagrímur, Þórólfur og Höfðaborg, sem væntanlega munu hafa samflot yfir hafið til Danmerkur um helgina. Vestur við Ægisgarð er einnig Tryggvi gamli, sem sóttur var inn á Kleppsvík í fyrradag. Suður í Hafnarfirði á togaralegunni liggur svo Maí, og Faxi inni á Eiðsvík. Þessir togarar munu verða dregnir til Bretlands síðar. Ráðgert er að þegar dráttarbáturinn leggur af stað með togarana þrjá, þá verði á hverjum þeirra fjórir menn, til þess að hafa eftirlit með dráttartaugum og öðru. Þegar þessir gömlu togarar fara í sína hinztu siglingu vakna án efa í brjóstum margra togarasjómanna endurminningar frá lengri eða skemmri sjómennsku á þessum skipum á tímum friðar og ægilegra ófriðarára. Hversu miklu fiskmagni skyldu þau vera búin að landa? T. d. Skallagrímur, er Guðmundur heitinn Jónsson var aflakóngur á honum og í áraraðir var Skallagrímur með aflahæstu togurunum. Nú er eftir aðeins einn hinna gömlu togara, og er það Venus frá Hafnarfirði.

Morgunblaðið. 18 maí 1955.



26.12.2021 10:01

B.v. Skúli Magnússon RE 202. TFYD.

Nýsköpunartogarinn Skúli Magnússon RE 202 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1948 fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur. 677 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Skúli var afhentur eigendum sínum hinn 30 júní og kom til heimahafnar sinnar, Reykjavíkur 8 júlí sama ár. 55,58 x 9,20 x 4,55 m. Smíðanúmer 791. Skipaskrárnúmer 193. Í byrjun októbermánaðar árið 1960 var togarinn við veiðar á Nýfundnalandsmiðum og var nýlagður af stað heimleiðis með um 160 tonn af karfa, er hann fékk á sig brotsjó. Mikill leki kom að vélarrúmi togarans og stóðu skipverjar í austri í langan tíma. Það var svo Hafnarfjarðartogarinn Maí GK 346 sem dró Skúla til hafnar í St. John's á Nýfundnalandi þar sem gert var við lekann sem tók nokkurn tíma. Togarinn var seldur í brotajárn til Ghent í Belgíu í ágústmánuði árið 1967.


B.v. Skúli Magnússon RE 202 í Reykjavíkurhöfn.                          (C) Helgi Kristjánsson.


     Skúli Magnússon kom í gær

Skúli Magnússon, annar nýsköpunartogari Reykjavíkurbæjar, sígldi fánum skreyttur hjer inn á höfn í gær morgun. Nokkru fyrir hádegi fór borgarstióri bæjarráðsmenn og útgerðarráð bæjarins, um boð í skipið til að skoða það. Skúli Magnússon er nokkru lengri en Ingólfur Arnarson. Þilfarslengd skipsins er 180 ½  fet, en togarinn þarf 199 feta langt bryggjupláss, þar sem hann liggur við Faxagarð. Ferðin heim gekk mjög vel og láta skipverjar vel yfir skipinu. Einkennisstafir Skúla Magnússonar eru RE-202. Í  reykháf skipsins er hið nýja merki Bæjarútgerðar Reykjavíkur, en það er bókstafurinn R í skildi, sem málaðir eru á fánalitirnir. Þetta merki teiknaði Halldór Pjetursson.
Skipstjóri á Skúla Magnússyni er Halldór Guðmundsson, er lengi var á Júní. Fyrsti stýrimaðuri er Sigurður Þorleifsson er var skipstjóri á Skutli og fyrsti vjelstjóri er Loftur Ólafsson, en hann var á Max Pemberton um langt skeið.

Morgunblaðið. 9 júlí 1948.


Nýsköpunartogarinn Skúli Magnússon RE 202 nýr út í Hull.     (C) Cook Welton & Gemmell Ltd.


B.v. Skúli Magnússon RE 202 nýr út í Hull.                (C) Cook Welton & Gemmell Ltd.

Skúli Magnússon kom til St. Johns í gær
                með sjó í vélarúmi

Togarinn Maí kom um hádegið í gær inn til St. Johns á Nýfundnalandi með togarann Skúla Magnússon í eftirdragi og var þá liðinn réttur sólarhringur frá því að Maí kom Skúla til hjálpar og tók hann í tog um 190 mílur austur af Nýfundnalandi, er leki kom að skipinu. Dælurnar höfðu vel við á leiðinni, en talsverður sjór var í vélarúmi skipsins er það kom til St. Johns. Fréttaritari blaðsins í St. Johns símaði í gær, að kl. um 5 á mánudagsmorgun hafi skipstjórinn á Skúla Magnússyni, Þorbjörn Finnbogason, tilkynnt að leki væri kominn að skipinu og þar af leiðandi vélar stöðvast. Togarinn Maí frá Hafnarfirði, skipstjóri Benedikt Ögmundsson var staddur næst togaranum og kom honum til hjálpar, eins og áður hefur verið skýrt frá. Um miðjan dag í gær var ekki enn kunnugt um hvað valdið hefði lekanum. Átti þá að taka Skúla í slipp og kanna skemmdirnar. En Maí fór aftur út á veiðar kl. 3. Áhöfnin er öll heil á húfi í St. Johns. Hvort hún verður látin bíða þar eða koma heim, fer eftir því hve langan tíma tekur að gera við skipið, að því er Þorsteinn Arnalds skrifstofustjóri Bæjarútgerðarinnar tjáði blaðinu í gær, en vonast væri til að það gengi fljótt.
Togarinn Skúli Magnússon er 677 smálestir að stærð, byggður í Bretlandi árið 1948. Eigandi er Bæjarútgerð Reykjavíkur.

Morgunblaðið. 5 október 1960.


B.v. Skúli Magnússon RE 202 við bryggju í Leirvík á Hjaltlandseyjum.        (C) J.A. Hugson.


B.v. Skúli Magnússon RE 202 í Leirvík.                                                       (C) J.A. Hugson.


B.v. Skúli Magnússon RE 202 í Leirvík.                                                           (C) J.A. Hugson.


          Skúli Magnússon seldur

Alþýðublaðið hefur sannfrétt, að Bæjarútgerð Reykjavíkur hefur ákveðið að selja togarann Skúla Magnússon úr landi í brotajárn, Ekki tókst í gærkvöldi að fá nánari fregnir af sölunni, hvert söluverðið væri, eða hver væri kaupandi. Eins og kunnugt er, er Skúli Magnússon einn af nýsköpunartogurunum, og einn af fyrstu togurunum sem keyptir voru til landsins eftir stríðið.

Alþýðublaðið. 19 ágúst 1967.




19.12.2021 07:51

B.v. Garðar Þorsteinsson GK 3. TFDE.

Nýsköpunartogarinn Garðar Þorsteinsson GK 3 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1948 fyrir Útgerðarfélagið Hrímfaxa og Sviða h/f í Hafnarfirði. 677 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. 55,58 x 9,20 x 4,55 m. Smíðanúmer 790. Skipið var sjósett 28 janúar 1948. Kom í fyrsta sinn til heimahafnar sinnar, Hafnarfjarðar 21 júní sama ár. 15 mars árið 1951 var Ríkissjóður Íslands skráður eigandi. Skipið var selt 24 júlí 1951, Bæjarsjóði Siglufjarðarkaupstaðar, hét Hafliði SI 2. Selt 2 maí árið 1969, Útgerðarfélagi Siglufjarðar h/f. Hafliði sökk við bryggju á Siglufirði 8 desember 1972, en stuttu áður höfðu nokkrir skipverjar af Hrafni Sveinbjarnarsyni GK í Grindavík ætlað að kaupa togarann, en ekkert orðið af því þegar svona var komið fyrir honum.Togarinn var seldur í brotajárn til Skotlands og tekinn af skrá 7 júní árið 1973.


B.v. Garðar Þorsteinsson GK 3 fánum skreyttur við komuna til Hafnarfjarðar hinn 21 júní árið 1948.               (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

   Garðar Þorsteinsson kom í gær

Nýsköpunartogarinn , Garðar Þorsteinsson GK 3 frá Hafnarfirði, lagðist að bryggju þar suður frá fánum skreyttur laust fyrir hádegi í gær. Mannfjöldi var á bryggjunni til að fagna skipi og skipverjum, en bryggjan hafði verið fánum skreytt. Kristján Bergsson framkvstj. útgerðarinnar, Hrímfaxi og Sviði h/f, bauð gestum að skoða skipið og lýsti byggingu þess. Garðar Þorsteinsson er af næst stærstu gerð nýsköpunartogaranna, Röðul-gerðin, 180 feta langur. Hann er byggður í Beverley. Togarinn er nefndur eftir Garðari Þorsteinssyni alþingismanni, er Ijest á s.l. ári. Skipstjóri á Garðar Þorsteinssyni er Guðmundur Þorleifsson og fyrsti vjelstjóri Jón Björnsson. Togarinn er 26. nýsköpunartogarinn sem til landsins kemur. Hann fer væntanlega á veiðar annað kvöld.

Morgunblaðið. 22 júní 1948.


B.v. Hafliði SI 2 við bryggju á Siglufirði.                                  Ljósmyndari óþekktur.


Um borð í b.v. Hafliða SI 2.                                                             (C) Helgi Kristjánsson.


B.v. Hafliði SI 2.                                                                                 (C) Auður Ingólfsdóttir.


Hafliði SI 2 klakabrynjaður í Siglufjarðarhöfn nýkominn úr veiðiferð.  (C) Hannes Baldvinsson.


Skipsbjallan úr Garðari Þorsteinssyni GK 3.                               (C) Þjóðminjasafn Íslands.


Líkan af Hafliða SI 2.                                                              (C) Þórhallur S Gjöveraa 2016.

     Nýr togari keyptur til bæjarins

Nýsköpunartogarinn "Garðar Þorsteinsson" lagðist að bryggju hér kl. 8,50 í gærkvöldi. Forseti bæjarstjórnar, Bjarni Bjarnason, bæjarfógeti, bauð skipið velkomið með snjallri ræðu, en bæjarstjóri, Jón Kjartansson, sem kom með skipinu, talaði af skipsfjöl. Þá talaði og bæjarfulltrúi, G. Jóhannsson. "Canton kvartetinn" söng á milli ræðanna. Undanfarið hefur verið unnið að því, í sambandi við lausn á hinu erfiða atvinnuástandi í bænum, að fá hingað nýsköpunartogara. Fóru þeir Bjarni Bjarnason, forseti bæjarstjórnar, Jón Kjartansson, bæjarstjóri, og í þeirra fylgd Þóroddur Guðmundsson, til Reykjavíkur á sínum tíma til að vinna að þessu máli. Bæjarstjóri hefur og að staðaldri, dvalið fyrir sunnan til að koma máli þessu áleiðis. Nú eru þau góðu tíðindi að segja, að fest hafa verið kaup á nýsköpunartogaranum "Garðari Þorsteinssyni" og er hann væntanlegur til bæjarins, í dag. Nýsköpunartogarinn "Garðar Þorsteinsson" er af stærri gerð eldri nýsköpunartogaranna, af Neptúnus-stærð, og er því nokkru stærri en bæjartogarinn "Elliði". Hann hefur það og fram yfir "Elliða", að hann hefur fullkomin kælitæki í lest. Kaupverð skipsins er kr. 5.400. 000, eða nokkuð á fjórðu milljón lægra en þeirra togara, sem nú er verið að smíða í Englandi. Með í kaupunum fylgja öll veiðarfæri skipsins og annað það stórt og smátt sem skipinu tilheyrir. Skipstjórinn á "Elliða", sem staddur var í Reykjavík, sagði skip, vélar og veiðarfæri í góðu ásigkomulagi. Togarinn er nýkominn úr "slipp" þar sem fram fór ketilhreinsun, botnhreinsun og málning skipsins. Togarinn getur því þegar hafið veiðar og atvinnusköpun hér í bæ.
Ríkisstjórnin kaupir skipið af fyrri eigendum þess og selur það síðan hingað með mjög hagstæðum og aðgengilegum kjörum. Sýna þessar aðgerðir ríkisstjórnar Sjálfstæðisfl. og Framsóknarfl. fullkominn skilning á hinu erfiða atvinnuástandi Siglfirðinga. Án aðstoðar hennar hefðu Siglfirðingar hvorki getað keypt togarann né önnur atvinnutæki. Siglfirðingar hafa því ríka ástæðu til að vera ríkisstjórninni þakklátir fyrir aðgerðir hennar í þessu máli. Gengið var frá kaupum á togaranum og samningar undirskrifaðir miðvikudaginn 14. marz s. l. Samningana undirskrifuðu fyrir hönd bæjarstjórnar: Jón Kjartansson, bæjarstjóri, Ólafur Ragnars og Áki Jakobsson. Má það að vísu undarlegt heita, að Áki skuli fenginn til þess verks, þar sem hann hefur ekki svo vitað sé, komið nálægt útvegun togarans, enda ríkisstjórnin þannig skipuð og málum þann veg háttað, að ásjónir kommúnista eyðilögðu frekar fyrir málinu en hitt. Út af fyrir sig er það máske aukaatriði, þótt þessi brátt fráfarandi þingmaður okkar Siglfirðinga seti nafn sitt á kaupsamningana. Aðalatriðið er auðvitað hitt, að fyrir velvilja núverandi ríkisstjórnar og dugnað og harðfylgi flokksmanna ríkisstjórnarflokkanna hér, hefur tekizt að fá nýjan togara í bæinn með kostakjörum. Togara, sem skapa mun mikla atvinnu hér og verður væntanlega til að bjarga mörgu heimilinu hér í bæ frá bölvun atvinnuleysisins. Bæjarbúar fagna allir komu hins nýja togara og þakka þeim öllum, sem að komu hans hafa unnið. Jafnframt þakka bæjarbúar núverandi ríkisstjórn fyrir velvilja hennar og skilning í garð Siglfirðinga í þessu máli. Bæjarbúar bjóða hið nýja skip velkomið til Siglufjarðar, svo og skipstjóra þess og aðra yfirmenn, sem koma með skipinu. Og hugheilustu óskir bæjarbúa um giftu og velfarnað fylgja skipinu og áhöfn þess í höfnum og á höfum úti.

Siglfirðingur. 20 mars 1951.




12.12.2021 12:15

S.k. Hans SH 40. NVQG / LBKH.

Skonnortan Hans var smíðuð hjá Skibsbygmester Jörgen Ring Andersens Træskibsværft í Svendborg í Danmörku árið 1885 fyrir Carl Peter Christensen skipstjóra í Svendborg. Eik. 39,41 brl, 30 nettó. Smíðanúmer 41. 21,44 x 5,09 x 2,23 m. Dýpt miðskips 7,3 ft. (dönsk). Seld 1889, Frederick Krull Hansen í Marstal í Danmörku. Seld 1899, R.P. Hansen í (Mullerup), Korsör í Danmörku. Seld um aldamótin 1900 (1902-03 ?) Leonhard Tang & Sön í Kaupmannahöfn og á Ísafirði. Hans var að mestu  notaður til flutninga fyrir verslun hans hér við land. Leonhard Tang reisti verslunarhús í Stykkishólmi árið 1890 og mun skipið trúlega hafa verið mest notað við verslunina í Stykkishólmi, enda fékk Hans skráningarnúmerið SH 40 snemma á öldinni. Árið 1905 var sett 8 ha. hjálparvél í Hans og eftir það var hann oftast nefndur "mótor" Hans. Árið 1918 varð Árni Riis, (fæddur á Ísafirði), sameignarmaður Tangs að versluninni og hét hún eftir það Tang & Riis en varð gjaldþrota í kreppunni upp úr 1930. Ný vél (1920) 22 ha. Alpha vél. Sigurður Ágústsson þingmaður og síðar útgerðarmaður í Stykkishólmi kaupir verslun Tang & Riis hinn 18 febrúar 1933 og eignast þar með skonnortuna Hans. Mun þetta vera stofndagur útgerðar og fiskvinnslu Sigurðar Ágústssonar hf í Stykkishólmi. Skonnortan Hans var talin ónýt og rifin árið 1935.


Skonnortan Hans við legufæri í höfninni í Stykkishólmi snemma á síðustu öld. Stykkið sem Stykkishólmur er kenndur við er hægramegin á myndinni og Súgandisey í baksýn. Erlent kaupskip austan við eyna. Lituð ljósmynd á gömlu póstkorti.


Skonnortan Hans í höfninni í Stykkishólmi. Stykkið nær og Súgandisey í baksýn. Gamalt póstkort.

     Verslunarveldi Leonhard Tang                 og gosdrykkjaframleiðsla

Merkilegur fundur varð á Ísafirði í byrjun síðustu viku er gamlar flöskur og lóðir fundust í gömlu húsi. Lóðirnar eru talin vera frá því um miðja síðustu öld en flöskurnar teljast enn eldri og merkilegri. Önnur þeirra er merkt sem hindberja límonaði frá Tangsverslun á Ísafirði en hin er gömul bjórflaska frá Carlsberg og er hakakrossinn á miðjum miða. "Leonhard Tang var með verslun á Ísafirði á seinni hluta 19. aldar og henni tilheyrði gosdrykkjaverksmiðja. Svo fundum við einnig bjórflösku sem er athyglisverð fyrir það að á miðjum miðanum er stór hakakross. Við héldum fyrst að hún væri frá seinni heimstyrjöldinni en við ræddum við sögufróðari menn sem telja að hún sé enn eldri, en hakakrossinn var notaður mikið af Dönum áður fyrr, enda merkilegt tákn hjá Ásatrúarmönnum", segir Úlfar Ágústsson einn fundarmannanna. Auk þess fundust nokkrir lóðarstokkar bæði fyrir minni og stærri báta. Einn stokkurinn er merktur Andvara sem var skip smíðað af Marzellíusi Bernharðssyni fyrir Suðureyri.
Húsið sem munirnir fundust í er að Aðalstræti 37 og var nýlega keypt af Hamraborg. Það var byggt um 1835 og stækkað árið 1880. Bæjarins besta hafði samband við Jón Pál Halldórsson fyrrum formann Sögufélags Ísfirðinga vegna flöskufundarins. Jón Páll segir það engum vafa undirorpið að flöskufundurinn sé stórmerkilegur. Við ræddum síðan aðeins verslunarveldið sem Leonhard Tang rak hér í Hæstakaupstað. "Þetta var gríðarlega stórt verslunarfyrirbæri með mikil umsvif en þar var til að mynda fiskverkun, verslun, vélsmiðja og fjölþætt starfsemi", segir Jón Páll. Við vildum að sjálfsögðu fara aðeins betur ofan í saumana á því hverslags framleiðsla hafi átt sér þar stað þar sem að flöskufundurinn vekur marga til umhugsunar um það og einnig vita aðeins meira um starfsemina. "Það er talið líklegast að verksmiðjan hafi tekið til starfa 1901 eftir að vatnsveita var lögð niður á eyrina og Ísfirðingar áttu kost á heilnæmu og góðu vatni. "Þess má til gamans geta að límonaðið sem hér var framleitt var talið það besta sem finna mátti hér við land og voru gæðin rakin til vatnsins úr þessari fyrstu vatnsveitu landsins sem þótti með eindæmum gott. Flaskan sem fannst innhélt forðum Hindberjalímonaði og hlýtur það að teljast til drykkja sem voru af hinni vanalegu framleiðslu því Jón Páll gat frætt okkur um það að hann vissi til þess að á tímabili var Leonhard Tang að bæta við framleiðslu sína og bættust þá við eftirfarandi tegundir: Kampavínslímonaði, Keisaralímonaði og Búalímonaði.
Ekki var bara framleitt límonaði í ýmsum útfærslum í Hæstakaupstað en þar var einnig framleiddur brjóstsykur og hétu tegundirnar Bismark og Kongen af Danmark. Á sama tíma og Tang rak veldi sitt hér á Ísafirði var hann með rekstur í Stykkishólmi í samstarfi með J.M Riis, keyptu þeir þangað bæði gos og bolsíur frá Ísafirði í beinum siglingum. Meðal þeirra sem störfuðu þarna við framleiðslu á gosi og sælgæti var fyrstu tvo áratugi síðustu aldar var Guðjóna Ágústa Magnúsdóttir fósturmóðir Ingvars Jónssonar sem var faðir Sigurðar Th. Ingvarsson og Stellu Ingvarsdóttur sem eru Ísfirðingum vel kunn. Það er ljóst að flaskan sem áður innihélt Hindberjalímonaði og var framleidd í Hæstakaupstað á Ísafirði er mikill fengur fyrir bæjarbúa að hafa hér áþreifanlega hluti úr sögu staðarins sem auðveldar það til muna að halda henni lifandi. 

Bæjarins besta. 28 september 2006.

04.12.2021 20:21

M.b. Suðri NK 36.

Mótorbáturinn Suðri NK 36 var smíðaður af Þorsteini Tómassyni í Mjóafirði árið 1924 fyrir Víglund Þorgrímsson í Holti í Mjóafirði. Eik og fura. 2,62 brl. 6 ha. Wichmann vél. Seldur Svavari Víglundssyni á Norðfirði, ekki vitað hvenær. Seldur 20 nóvember 1939, Ara Björnssyni í Neskaupstað. Seldur 6 mars  1940, Borgþóri Jónssyni í Mjóafirði. Seldur Gunnari Víglundssyni í Mjóafirði, það gæti hafa verið seint á árinu 1940. Baturinn varð ónýtur á meðan Gunnar átti hann. Var tekinn á land og brenndur, óvíst hvenær það var.

Suðri var smíðaður í Mjóafirði og ætti þar af leiðandi að hafa borið SU skráninguna, en ég hef ekki fundið neitt um það ennþá.


Suðri NK 36 að koma að landi í Mjóafirði með fullt af fólki um borð. Ekki veit ég tilefnið eða  nákvæmlega hvar í firðinum myndin er tekin, en utarlega og að sunnanverðu er það. Lóðabelgirnir (svartir) í forgrunni eru merktir NK Suðri. (C) Björn Björnsson.

28.11.2021 10:07

B. v. Gullfoss RE 120. TFAD.

Botnvörpungurinn Gullfoss RE 120 var smíðaður hjá Reichsmarinewerft í Wilhelmshaven í Þýskalandi árið 1920. 214 brl. 400 ha. 3 þennslu gufuvél. 38,93 x 6,91 x 3,20 m. Togarinn var smíðaður sem Staatssekretar Albert fyrir Reichstreuhandgesellschaft (fyrirtæki í eigu Þýska ríkisins). Seldur 1922, J. Wieting útgerðarmanni í Geestemunde, hét þá Otto Gehres. Seldur 1927, Hochseefischerei, Carl Kampf & Meyer Partenreederei í Wesermunde (Bremerhaven) í Þýskalandi, hét þá Gustav Meyer PG 375. Varðskipið Óðinn tók togarann fyrir meintar ólöglegar veiðar innan landheldi Íslands við Ingólfshöfða 19 febrúar árið 1933 og ætlaði að færa hann til hafnar í Vestmannaeyjum. En svo slysalega vildi til að togarinn strandaði á Svínadalsfjöru í Meðallandi aðfaranótt 20 febrúar. Áhöfn hans, 13 mönnum var bjargað á land. Togarinn náðist út 5 ágúst um sumarið og stjórnaði Einar M Einarsson fyrrverandi skipherra björguninni. Höfðu þá Bjarni Runólfsson í Hólmi og nokkrir menn aðrir þar eystra keypt flakið á 600 krónur. Var togarinn tekinn í slipp í Reykjavík og gerður þar upp. Fékk þá nafnið Gullfoss RE 120. Það voru 15 menn sem stofnuðu Samvinnuútgerðarfélagið Gullfoss hinn 15 desember 1933 um rekstur togarans og voru þeir allir í áhöfn hans. Mun Gullfoss hafa hafið veiðar í janúar árið 1934. 18 júní árið 1936 var togarinn kominn í eigu Landsbankans, en seldur svo 27 júní sama ár, Magnúsi Andréssyni í Reykjavík. Togarinn fórst út af Malarrifi á Snæfellsnesi 28 febrúar árið 1941 að talið er, með allri áhöfn, 19 mönnum.


B.v. Gullfoss RE 120.                                                             Úr safni Tryggva Sigurðssonar.

              Togari strandar

Togarinn "Gustav Meyer" frá Wesermunde strandaði á Meðallandsfjörum, aðfaranótt mánudags. Komu menn af næstu bæjum á strandstaðinn á mánudagsmorgun. Skipverjar fóru á land úr togaranum á streng, nema skipstjóri, stýrimaður og vjelstjóri. Þeir urðu eftir í skipinu. Óðinn var kominn á strandstaðinn í gærmorgun.  Ætlaði hann að reyna að ná togaranum út, og voru vonir um það í gær, að takast myndi, því brimlaust var og hagstætt veður.

Morgunblaðið. 21 febrúar 1933.


Þýski togarinn Gustav Meyer PG 375 á strandstað á Meðallandsfjöru. (C) Valgerður Helgadóttir.


Togari dreginn út af Meðallandsfjörum 

Þann 19. febrúar síðastliðinn strandaði þýskur togari "Gustav Meyer" á Meðallandsfjöru. Óðinn hafði tekið togarann í landhelgi við Ingólfshöfða, en á leiðinni vestur með ströndinni strandaði togarinn. Ekki þótti tiltök að ná togaranum út, eins og ástatt var þarna eftir strandið, og var því úrskurðað, að hjer væri um fullkomið strand að ræða. Vátryggingarfjelag skipsins auglýsti því næst skipið til sölu, þarna á söndunum, og gerðu boð í það nokkrir menn eystra og var Bjarni Runólfsson í Hólmi þeirra fyrirliði. Þeir fengu skipið keypt fyrir sáralítið verð (5-600 kr.). Þegar leið á veturinn, fór skipið að sitja betur í sandinum, en það upphaflega gerði, og mun Bjarna í Hólmi og öðrum mönnum eystra þá hafa hugkvæmst, að reynandi væri að ná skipinu út. Í vor kom Bjarni hingað til Reykjavíkur og fjekk Einar Einarsson fyrrum skipherra til þess að koma austur til þess að líta á skipið og staðhætti á strandstaðnum. Einar fór austur og hefir verið þar við og við síðan. Hann fjekk vjelstjóra austur og tókst honum að hreinsa vjelina og koma henni í gang. Skipið stóð á rjettum kili og lá vel við. Var nú róið með akkeri og festar út og akkerið sett í sjóinn utan til á legunni. Biðu björgunarmenn nú eftir að sjó brimaði, til þess að fá lyftingu undir skipið, en hugsuðu sjer þá að draga skipið út á festunum og nota til þess vjelaafl skipsins. Þetta heppnaðist prýðilega.
Í gær var komið brim við sandana, og var þá vjelin sett í gang og skipið komst á flot kl. 6 síðdegis í gær. Bjóst Einar skipherra við að sigla skipinu hingað til Reykjavíkur. Ekkert skip var til aðstoðar við björgunina.

Morgunblaðið. 6 ágúst 1933.


Gullfoss RE 120. Fyrirkomulagsteikning.


      Nýtt samvinnuútgerðarfélag

15 menn mynda með sér samvinnufélag, kaupa togarann Gustav Meyer og gera hann út á veiðar eftir áramót. Félagsmennirnir vinna sjálfir á skipinu.
Eins og lesendur Nýja dagblaðsins rekur vafalaust minni til, náði Einar Einarsson skipherra þýska togaranum Gustav Mayer, sem strandaði austur á söndum í fyrra, út í sumar og sigldi honum hingað til Reykjavíkur. Fyrir skömmu keyptu 15 menn, sem myndað höfðu með sér samvinnufélag, togarann fyrir 22 þúsund krónur. Togarinn þurfti allmikillar viðgerðar við og var hann tekinn hér upp á dráttarbrautina og gert við hann. Mun viðgerðin kosta nálægt 40 þúsundum króna, svo verð togarans með öllum tilheyrandi tækjum, og vel útbúinn að öllu leyti, ætti ekki að fara mikið yfir 60 þús. kr. Félag þessara 15 manna heitir Samvinnuútgerðarfélagið Gullfoss. Stjórn félagsins skipa 3 menn. Formaður er væntanlegur skipstjóri á togaranum Kjartan Árnason skipstjóri og meðstjórnendur Óskar Þorsteinsson 1. vélstjóri og Sigurbergur Dagfinnsson stýrimaður. Skal hér gerð grein fyrir nokkrum helztu atriðum í lögum og fyrirkomulagi félagsins: Hver félagsmaður leggur 2000 krónur fram sem stofnfé. Félagsmenn ábyrgjast einn fyrir alla og allir fyrir einn skuldbindingar félagsins, þó með nokkrum takmörkunum. Ábyrgðin er einungis miðuð við eignir félagsins, sjóði og það 2000 kr. framlag, sem félagsmenn í upphafi leggja fram. Frekari ábyrgð bera félagsmenn ekki. Félagsmenn allir eru skipverjar á togaranum Gullfossi, eins og hann heitir nú. Heimilt er félagsmanni að setja annan fyrir sig í skiprúm um stundarsakir, með samþykki skipstjóra. Fari félagsmaður úr skiprúmi fyrir fullt og allt, er hann þar með genginn úr félaginu, en ábyrgð ber hann á skuldbindingum félagsins þar til 2 ár eru liðin frá því að hann gekk úr félaginu. Nýir félagar geta þá gengið í félagið með samþykki skipstjóra og félagsstjórnar.
Skipting afrakstursins er þannig: "Af óskiptum afrakstri skal greiða allan beinan kostnað við útgerð félagsins og starfsemi, er það kann að reka í sambandi við útgerð, annan en kaup skipshafnar". - Viðhald á skipinu, vátryggingargjöld, matvæli handa skipshöfninni, 1% af bruttóandvirði aflans í varasjóð o. fl. Það sem þá er eftir af afrakstrinum, skiptist milli félagsmanna í hlutaskiptum þannig: Skipstjóri fær 3 hluti.
Stýrimaður fær 2 hluti.
1. vélstjóri fær 2 hluti.
2. vélstjóri fær 1 ½ % hlut.
Bátsmaður og netamaður fá 1 ¼  hlut.
Matsveinn, kyndarar og hásetar fá einn hlut hver. 2 / 3 hlutar aflans koma þegar til skipta meðal skipshafnarinnar, en þó aldrei meira en sem svarar kr. 350 á mánuði fyrir hvern heilan hlut. Það, sem framyfir er, geymist til tryggingar framhaldsrekstri, þar til reikningar félagsins eru fullgerðir og endurskoðaðir. Í fyrningarsjóð skal greiða árlega 4% af vátryggingarupphæð skipsins. Í varasjóð skal leggja árlega 1% af brúttoandvirði aflans. Í ákvæðum um þessa sjóði segir í lögum félagsins: "Eigi má nota fyrningar- eða varasjóð sem rekstursfé í þágu félagsins, heldur skal ávaxta þá í viðskiptabanka félagsins". Fé má þó greiða úr fyrningar- og varasjóði eftir tillögu félagsstjórnar og í samráði við endurskoðendur, ef minnst 2/3  félagsmanna samþykir það. Félagið hyggst að draga nokkuð úr útgerðarkostnaðinum í samanburði við það sem tíðkast hefir hjá öðrum togarafélögum. Framkvæmdarstjóra hyggjast þeir að spara. Stjórnin á að annast allar framkvæmdir félagsins. Einnig segja félagsmenn að aðaláherzlan verði lögð á það, að útkoman af rekstri skipsins verði sem allra bezt, en hitt ekki gert að aðalatriði, að koma alltaf með sem mestan afla. Því þannig muni það hafa reynst, að kostnaðurinn við reksturinn hefir oftar orðið þeim mun meiri, sem aflinn hefir orðið meiri. Hinn nýi togari Gullfoss, sem langt komið er nú að gera við, mun fara á saltfisksveiðar eftir hátíðarnar.

Nýja Dagblaðið. 16 desember 1933.


B.v. Gullfoss RE 120 á Reykjavíkurhöfn.                                                 Ljósmyndari óþekktur.


  5 skip hefja leit að b.v. "Gullfossi"

Leit hefir verið hafin að togaranum "Gullfossi" , sem ekkert hefir til spurst síðan s.l. fimtudagskvöld í ofviðrinu , er hann var staddur um 3 sjómílur út af Lóndröngum á Snæfellsnesi. Í gær leitaði flugvjelin "Haförninn " í tvær klukkustundir á þeim slóðum, sem talið var líklegast að togarinn væri, en hvergi varð skipsins vart. Einnig hafa skip verið beðin að svipast eftir Gullfossi, en einskis orðið vör. Í gærkvöldi sendi breska flotastjórnin hjer; tilkynningar til '' enskra skip, sem stödd kunna að vera á því svæði, sem talið er að Gullfoss geti verið á, um að svipast eftir togaranum og veita honum aðstoð, ef með þyrfti. Í gærkvöldi voru 5 íslensk skip fengin til að fara út og leita að Gullfossi. Skip þessi eru: "Gyllir", "Helgafell", "Ármann", "Óðinn" og "Sæbjörg". Var í gærkvöldi ákveðið leitarsvæði, sem leita skyldi á.
Loks hefir komið til mála, að breskar flugvjelar taki þátt í leitinni, ef veður leyfir. Gullfoss fór hjeðan í veiðiför fyrra föstudag. Klukkan 9 á fimtudagskvold, er ofviðrið var skollið á hjer í Faxaflóa, hafði vjelbáturinn "Guðný" samband við Gullfoss, gegnum talstöð. "Guðný" var þá á hrakningi með bilaða vjel og ætlaði Gullfoss að koma henni til aðstoðar. Var Gullfoss rjett hjá "Guðnýu", en ætlaði að bregða sjer frá um stund til að bjarga dufli, sem hann átti þarna nálægt, en kom ekki eftir það. 8 Skipverjar á "Guðnýu" halda að Gullfoss hafi rekið með þeim um nóttina, því þeir sáu ljós á skipi altaf öðru hvoru fram eftir nóttu. Klukkan 5 á föstudagsmorguninn kom togarinn "Vörður" frá Patreksfirði "Guðnýu" til aðstoðar ,en þá sást Gullfoss hvergi og hefir ekki til hans spurst síðan. Vel getur átt sjer stað að loftnet togarans hafi slitnað niður eða loftskeytatæki  hans hafi skemst, svo þau sjeu ónothæf, og þess vegna hafi ekkert til hans heyrst. Einnig getur verið um vjelarbilun að ræða. Gullfoss hafði nægar kolabirgðir að minsta kosti fram til dagsins í dag, þó hann hafi þurft að "keyra" mikið.
B.v. Gullfoss er einn af minnstu togurum íslenska flotans, en traust og gott skip. Skipstjóri á togaranum er Finnbogi Kristjánsson og eru sennilega, 18 manns á skipinu. Eigandi Gullfoss er Magnús Andrjesson útgerðarmaður.

Morgunblaðið. 5 mars 1941.


Við Malarrif á Snæfellsnesi. Þau eru ófá skipin sem hafa farist þar, strandað eða farist á rúmsjó í námunda við nesið. Snæfellsjökull og Lóndrangar í baksýn.  (C) Einar Guðmann.

          Togarinn "Gullfoss" talinn af                        með 19 manna áhöfn

Það er ekki lengur talin nein von um, að togarinn Gullfoss sje ofan sjávar og mun hann hafa farist í ofviðrinu, sem geysaði hjer við Iand dagana 27. febrúar-1. mars s.l. Á skipinu var 19 manna áhöfn. Eins og Morgunblaðið hefir áður skýrt frá sást síðast til Gullfoss fimtudaginn 27. febrúar. Var hann þá staddur um 3 sjómílur útaf Lóndröngum á Snæfellsnesi. Skip, bæði innlend og erlend, voru beðin að hafa gætur á því, ef þau sæju til togarans, en ekki varð neitt skip vart við hann. Flugvjelin TF Örn leitaði að Gullfosi á stóru svæði í bjartviðri, en heldur ekki sú leit bar neinn árangur. 12 íslensk skip, varðskipin og togarar leituðu á stóru svæði í tvo daga, en urðu einskis vör. Eftirtaldir menn voru á Gullfossi:
Finnbogi Kristjánsson, skipstjóri, Garðastræti 33. F. 9. maí 1901. Kvæntur og átti 2 börn, 12 ára og 6 mán.
Stefán Hermannsson, 1. stýrimaður, Lokastíg 10. F. 6. júní 1905. Kvæntur og átti 4 börn, 14 ára, 8 ára, 6 ára og 2 ára.
Indriði Filippusson, 1. velstjóri, Brautarholti við Reykjavík. F. 13. apríl 1911. Ókvæntur.
Guðlaugur Halldórsson, II. vjelstjóri, Vesturbraut 12, Hafnarfirði. F. 8. nóv. 1885. Kvæntur; átti tvö börn, ung.
Magnús Guðbjartsson, matsveinn, Laugaveg 159 A. F. 26. febrúar 1913. Kvæntur. Barnlaus.
Maron Einarsson, kyndari, Laugaveg 159 A. F. 25. des. 1912. Kvæntur og átti 2 börn, 2ja ára og 7 mán. Sigurður Egilsson, kyndari, Bræðraborgarstíg 12. F. 11. sept. 1906. Kvæntur og átti 2 börn, 12 og 8 ára.
Hans Sigurbjörnsson, bátsmaður, Hafnarfirði. Kvæntur; átti mörg uppkomin börn.
Böðvar Jónsson, háseti, Suðurgötu 39. F. 28. okt. 1906. Kvæntur og átti 2 börn, 9 ára og 5 mán. Vilhjálmur Jónsson, háseti, Suðurgötu 39. F. 25. ágúst 1904. Ókvæntur. Hann var bróðir Böðvars.
Gísli Jónsson, háseti, Baldursgötu 31. F. 7. maí 1902. Ókvæntur.
Einar Þórðarson, háseti, Óðinsgötu 4. F. 11. des. 1911. Ókvæntur.
Ólafur Ólafsson, háseti, Bræðraborgarstíg 4. F. 31. ágúst 1892. Kvæntur og átti 6 börn, 16, 14, 13, 10, 8 og 7 ára.
Jón Stefánsson, háseti, Laugaveg 74. F. 9. jan. 1903. Kvæntur og átti 2 börn, 8 og 5 ára.
Magnús Þorvarðarson, háseti. Kárastíg 8. F. 27.. ágúst 1907. Ókvæntur.
Hjörtur Jónsson, háseti, Framnesveg 12. F. 27. nóv.- 1891. Ókvæntur.
Sigþór Guðmundsson, háseti, Grettisgötu 60. F. 14. febr. 1911: Kvæntur og átti 2 börn, 4 ára og 1 árs.
Ingólfur Skaptason, háseti, Fossi í Mýrdal. F. 30. mars 1905. Ókvæntur.
Gísli Ingvarsson, háseti, Þingholtsstræti 21. F. 3. des. 1913. Ókvæntur.

Morgunblaðið. 11 mars 1941.



24.11.2021 10:59

V.b. Þráinn NK 70.

Vélbáturinn Þráinn NK 70 var smíðaður Hjá Frederikssund Skibsværft A/S í Frederikssund í Danmörku árið 1935. Eik og fura, 22 brl. 60 ha. Tuxham vél. 14,07 x 4,21 x 1,60 m. Eigandi var Ölver Guðmundsson útgerðarmaður í Neskaupstað frá 4 mars árið 1935. Báturinn var seldur til Færeyja 17 júlí árið 1946. Hét lengi vel Broddur VA 224 og gerður út frá Saurvogi. Árið 2011 komst báturinn í eigu áhugamannafélags í Vági sem hugðist gera hann upp. Væntanlega hafa þeir gert honum góð skil eins og færeyinga er von og vísa þegar gömul skip eru annars vegar.


Þráinn NK 70 í fjörunni neðan við Þórhól í Neskaupstað.                       (C) Björn Björnsson.

  Norðfirðingar auka skipastól sinn

Í fyrradag kom hingað til Norðfjarðar frá Fredrikssund í Danmörku eftir vikuferð með viðkomu á Shetlandseyjum og í Færeyjum, mótorbáturinn Þráinn NK. 70, tuttugu smálestir að stærð. Báturinn er smíðaður í Fredrikssund og hefir 50-60 hestafla Tuxhamvél. Skipstjóri á uppsiglingu var Bjarni Jónsson Fáskrúðsfirði, en eigandi bátsins er Ölver Guðmundsson útgerðarmaður. Einnig kom hingað til Norðfjarðar í gær frá Molde í Noregi, eftir þriggja sólarhringa ferð yfir hafið, og eins og hálfs sólarhrings töf í dimmviðri við Papey, mótorbáturinn Magni NK. 68, stærð 18 tonn með 24-25 hestafla Wichmanns mótorvél. Hann er smíðaður í Molde og er eigandi hans Guðjón Eiríksson frá Dagsbrún og félagar. Báðir bátarnir eru raflýstir og ágætlega útbúnir og hefir Norðfirski flotinn þar með fengið álitlega viðbót.

Alþýðublaðið. 12 mars 1935.


Broddur VA 224 í bóli sínu sennilega í Saurvogi í Færeyjum.               (C) www.wagaskip.dk

   Saga Þráins NK 70 (1935-2011)

Hér fyrir neðan er rakin saga Þráins NK 70 frá því hann var smíðaður í Frederikssund í Danmörku árið 1935 til ársins 2011, þegar áhugafélag í Vágum fékk hann afhentan til varðveislu.

1935 - Þráinn NK 70, Neskaupstaður, Ísland - Ölver Guðmundsson
1946 - Stjørnan KG119, Klaksvík - Bethuel Johannesen
1951 - Broddur VA224, Sørvág - P/F N.Niclasen
1962 - lagdur.
1963 - Broddur, VA224, Sørvág - Dánjal J.F. Hermansen, Hósvík
1965 - Streymsund, VN164, Hósvík - Dánjal J.F. Hermansen.
1970 - Streymsund, TN164, Tórshavn - Herman B. Hermansen
1977 - Birita, VA11, Miðvágur - Arnhold og Karl Johannesen 
1980 - Birita TG30, Lopra - William Suni Bech
1983 - Voyliklettur KG 697, Klaksvík - Niels Helgi Bech
1986 - Voyliklettur KG 697, Klaksvík - A.E.Joensen
1989 - Voyliklettur KG 697, Klaksvík - J.F.Hansen
1991 - Nestindur KG681, Klaksvík - Jógvan Oluf Vesturlið
2005 - Kára TN1188, Tórshavn - Eli Petersen
2011 - Broddur - Grunnurin "Broddur" - Áhugafelag í Vágum 

Heimild: www wagaskip.dk


21.11.2021 06:46

1408. Runólfur SH 135. TFQR.

Skuttogarinn Runólfur SH 135 var smíðaður hjá Stálvík hf í Arnarvogi, Garðahreppi árið 1974 fyrir Guðmund Runólfsson hf í Grundarfirði. 312 brl. 1.750 ha. Wichmann vél, 1.287 Kw. 47,10 x 9,01 x 4,95 m. Smíðanúmer 23. Runólfur var annar skuttogarinn sem smíðaður var í Arnarvogi, sá fyrsti var Stálvík SI 1 sem smíðaður var fyrir Þormóð ramma hf á Siglufirði árið 1973. Þeir voru smíðaðir eftir norskum teikningum. Árið 1976 ákváðu stjórnvöld að hefja veiðar á kolmunna út af Austfjörðum. Gerður var samningur við Guðmund Runólfsson hf í Grundarfirði um að togari þeirra, Runólfur SH 135, yrði nýttur til veiðanna og skyldu þær fara fram á tímabilinu 12 júlí til 26 ágúst það sumar. Afli skipsins var um 1.100 tonn og var megninu af honum landað hjá Síldarvinnslunni hf í Neskaupstað. Veitt var með flotvörpu mestmegnis, en einnig með botnvörpu. Þessar tilraunaveiðar munu hafa gengið nokkuð vel og mun skipið hafa fengið allt upp í 50 tonn í holi. Togarinn var seldur 10 maí árið 1998, portúgölsku fyrirtæki í samvinnu við rússa og norðmenn. Hét þá Bellamorsk og var gert út frá Rússlandi og Noregi að ég held. Mun hafa farið í brotajárn í janúar árið 2005.

Það má geta þess að á meðan Runólfur var í eigu Guðmundar Runólfssonar hf í Grundarfirði (1975-1998), fór togarinn í um 800 veiðiferðir og aflaði um 73.500 tonn. Það er nú bara nokkuð vel að verki staðið held ég.


1408. Runólfur SH 135.                                                                  (C) Óskar Franz Óskarsson.

  Runólfur SH 135 til heimahafnar

Laugardaginn 19. janúar kom skuttogarinn Runólfur SH 135 til heimahafnar sinnar, Grundarfjarðar. Runólfur er smíðaður í Stálvík h/f í Garðahreppi og er annar skuttogarinn sem smíðaður er hér á landi. Runólfur er smíðaður eftir svipaðri teikningu og sá fyrri, Stálvík. Meðal breytinga má telja, að brúin er stærri, skipið er bakkaskip og búið til flotvörpuveiða m.a. með flotvörpusjá. Þá er það nýjung að skutrennunni má loka með þili lóðrétt upp úr rennunni. Byggingarverð er um 250 milljónir. Á Runólfi verður 16 manna áhöfn, allir úr Grundarfirði. Skipstjóri er Axel Schöth.

Alþýðublaðið. 23 janúar 1975.


Runólfur SH 135 að landa kolmunna hjá Síldarvinnslunni hf í Neskaupstað sumarið 1976. Togarinn liggur við bryggju í nýju höfninni sem þá var. Sjá má í loðnuverksmiðju SVN sem tók til starfa í febrúar það ár, en hún var byggð eftir að gamla síldarbræðslan gereyðilagðist í snjóflóði 20 desember árið 1974.     (C) Guðmundur Sveinsson.


  Kolmunnavinnsla í Neskaupstað

Byrjað var að vinna kolmunna í marning hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað í gær, og reyndist flakanýtingin mun betri en þorað hafði verið að vona, eða 45-46% úr vélunum. Aflanum, sem verið var að vinna úr, landaði skuttogarinn Runólfur, sem Hafrannsóknastofnun hefur á leigu til tilraunaveiða á kolmunna. Hjá Síldarvinnslunni í Neskaupstað hefur vélum verið breytt til að vinna kolmunna í marning, en einnig á að vinna hann í skreið. Markaður fyrir þessar tegundir kolmunna er í Bandaríkjunum og Nigeriu. Til að byrja með er aðaláherzlan lögð á marningsvinnsluna. Runólfur landaði 16-17 tonnum af kolmunna hjá Síldarvinnslunni í gær, en aflann fékk skipið í norðurkantinum á Seyðisfjarðardýpi, um 30-45 sjómílur undan Dalatanga, að sögn Sveins Sveinbjörnssonar fiskifræðings um borð í Runólfi. Skipið hélt aftur í gær á veiðar, og sagði Sveinn, að ætlunin væri að halda nú út á Norðfjarðardýpið og með suðurkantinum að Tangaflakinu. Kolmunninn er ísaður í kassa um borð í skipinu, og það hráefni, sem nota á í marning, má helzt ekki vera nema sólarhrings gamalt svo að það komi sem ferskast í vinnsluna. Hins vegar má sá kolmunni, sem notaður verður í skreið, vera allt að þriggja sólarhringa gamall. Tíminn ræddi við Má Lárusson, verkstjóra hjá Sildarvinnslunni í gærkvöld, og sagði hann að byrjað hefði verið á marningsvinnslu kolmunnans á hádegi í gær.
Þegar unnið hafði verið úr fjórum tonnum, kom í ljós að flakanýtingin var mjög góð, eins og áður er skýrt frá, eða toppnýting eins og Már sagði, en hann tók jafnframt fram, að fiskurinn væri óvenjulega stór af kolmunna að vera. Það er ekkert hægt að segja um afkastagetu á þessu stigi, við erum aðallega að safna tölulegum upplýsingum, og erum að þreifa okkur áfram með vinnsluna, sagði Már. Már sagði einnig að þrjár aðferðir væru notaðar til að merja kolmunnann, í fyrsta lagi er flökunum raðað á marningsbandið og roðið látið snúa niður, í öðru lagi er kolmunninn settur í marningsvélina eins og hann kemur fyrir og í þriðja lagi er hann hausaður og slógdreginn áður en hann er settur í vélina. Sagði Már, að allar þessar aðferðir yrðu reyndar nú, svo og að einhver hluti aflans myndi verða tekinn í skreiðarframleiðslu, en þá er kolmunninn hausaður í þar til gerðri vél og slógdreginn, síðan er hann settur á þurrkgrindur í saltfiskþurrkunarklefa í einn sólarhring og síðan þurrkaður í blásara í tvo sólarhringa. Við höfum aldrei prófað þetta áður í þessum mælikvarða, sagði Ólafur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í gær, og við vonumst til að þetta standi undir sér en ef einhver skakkaföll koma í ljós gerum við ráð fyrir að hið opinbera hlaupi undir bagga. Ólafur sagði, að góður markaður væri í Bandarikjunum fyrir marninginn, en meiri óvissa væri ríkjandi með skreiðarmarkaðinn í Nigeriu, en sem kunnugt er hafa stjórnvöld þar stöðvað allan innflutning á skreið í bili.

Tíminn. 17 júlí 1976.


1408. Runólfur SH 135 á leið í veiðiferð.                                       (C) Hringur Pálsson.


1408. Runólfur SH 135 nýsmíðaður.                                                       Ægir. 3 tbl. 15 febrúar 1975.


               Runólfur SH 135 

18- janúar s. l. afhenti Stálvík hf. í Garðahreppi skuttogarann Runólf SH 135, sem er smíðanúmer 23 hjá stöðinni. Þetta er 2. skuttogarinn sem Stálvík h. f. smíðar, en sá fyrsti var Stálvík SI 1 , sem stöðin afhenti í september 1973. Runólfur er byggður eftir sömu teikningu og Stálvík SI (sjá 16. tbl. '73). Eigandi Runólfs SH er Guðmundur Runólfsson h.f., Grundarfirði. Skipið er byggt skv. reglum Det Norske Veritas og flokkað + 1A1, Stern Trawler, IceC, +MV. Aðalvél er Wichmann, gerð 7 AX, 1750 hö við 375 sn/mín, sem tengist skiptiskrúfubúni frá Wichmann. Skrúfa skipsins er 4ra blaða, þvermál 2150 mm og utan um hana er skrúfuhringur. Framan á aðalvel er aflúttak, með ASEA gír, fyrir Indar jafnstraumsrafal 295 KW, 440 V, sem er aflgjafi fyrir togvindu. Hjálparvélar eru tvær Caterpillar, gerð D 343 TA ' 280 hö við 1500 sn/mín. Hvor vél knýr Stamford rafal, 230 KVA  3 x 220 Hz. Á annarri hjálparvélinni er 50 KW Indar jafnstraumsrafall, sem er vararafall fyrir togvindumótor. Stýrisvél er frá Brusselle, gerð HSCE 140 R, snúningsvægi 6,4 tm við 35° útslag. Vindubúnaður er frá Brusselle. Togvinda er rafknúin af gerðinni 2004-III með tvær toggtromlur, tvær hífingartromlur og tvo koppa. Hvor togtromla tekur um 1100 faðma af 3 ¼ " vír. Togátak vindu á miðja tromlu (840 mm") er 12,5 t og tilsvarandi vírahraði um 120 m/mín.
Vindan er knúin 375 ha. 440 V Indar jafnstraumsmótor. Fremst á efra þilfari (togþilfari) eru tvær grandaravindur, s. b. - og b. b.-megin, togátak 5 t og vírahraði 42 m/ mín. Aftast á togþilfari b.b.- megin við skutrennu er hjálparvinda fyrir pokalosun o. fl., togátak 3 t og vírahraði 44 m/mín. Skipið er búið flotvörpuvindu, sem er staðsett aftast á hvalbaksþilfari, aftan við brú. Ofangreindar vindur eru vökvaknúnar (háþrýstikerfi), og eru samtals þrjár rafdrifnar dælusamstæður, tvær 78 ha fyrir grandaravindur (og flotvörpuvindu) og ein 50 ha fyrir hjálparvindu við skutrennu. Akkerisvinda er af gerðinni AL 24, rafdrifin, og er framarlega á hvalbaksþilfari. Tveir vökvaknúnir losunarkranar af gerðinni Hiab 950 er í skipinu, annar staðsettur aftast á hvalbaksþilfari, en hinn á s.b.- skorsteinshúsi. Vökvaknúin fiskilúga, framan við skutrennu, veitir aðgang að fiskmóttöku aftast á vinnuþilfari. í efri brún skutrennu er vökvaknúin skutrennuloka, sem er felld lóðrétt niður. Þess má geta að samskonar búnaður er í Dagstjörnunni KE (sjá 20. tbl. '73), en Runólfur SH er 2. íslenzki skuttogarinn sem er með slíkan búnað. Á vinnuþilfari eru 2 blóðgunarker, tvær slægingarvélar, önnur af gerðinni Atlas Jutland, hin af gerðinni Shetland 28. Að öðru leyti er vinnuþilfar búið fiskþvottakari, færiböndum til flutnings á fiski, slógrennum og losunarbúnaði fyrir úrgang.
Í skipinu er Seafarer sjóísvél, gerð TE 16, afköst 6,7 tonn á sólarhring. Ísvél þessi er framleidd af Stálver s. f. og er fyrsta samstæðan sem fyrirtækið framleiðir (sjá 15. tbl. '74). Ísklefi um 8 m3 að stærð er fremst á vinnuþilfari, en sjálf ísvélin er í sérstökum klefa í þilfarshúsi á efra þilfari. Fiskilest er um 300 m3 að stærð og er gerð fyrir fiskkassa. Aftast í lestinni eru Ulstein and-veltigeymar og eru nú 10 íslenzk fiskiskip búin slíkum geymum. Lestin er einangruð með polyurethan og klædd með stálplötum. Kælikerfi er miðað við að halda 0°C hitastigi í lest. Kæliþjappa er frá Bitzer, kælimiðill Freon 22, og er lest kæld með kælileiðslum. Íbúðir eru samtals fyrir 18 menn, fimm 2ja manna klefar undir neðra þilfari, tveir 2ja manna og einn eins manns klefi á neðra þilfari, tveir eins manns klefar og íbúð skipstjóra í þilfarshúsi á efra þilfari. Á neðra þilfari er einnig matsalur, eldhús, kæld matvælageymsla með frystiskáp, snyrting með salernum og sturtuklefa. Skipstjóri hefur eigið salerni og bað, en í þilfarshúsi er einnig snyrtiaðstaða. Skipstjóri á Runólfi SH er Axel Schiöth og 1. vélstjóri Búi Jóhannsson. Framkvæmdastjóri útgerðarinnar er Guðmundur Runólfsson. Ægir óskar eigendum og áhöfn til hamingju með skipið.
Rúmlestatala 312 brl.
Mesta lengd 47.10 m
Lengd milli lóðlína 40.00 m
Breidd 9.00 m
Dýpt að efra þilfari 6.50 m
Dýpt að neðra þilfari 4.35 m
Djúprista 4.30 m
Lestarrými 300 m3
Brennsluolíugeymar 124 m3
Ferskvatnsgeymar 47 m3
Sjókjölfestugeymir 21 m3
Ganghraði (reynslusigling) 13 sjómílur.

Ægir. 3 tbl. 15 febrúar 1975.

13.11.2021 22:02

Síldarsöltun á Siglufirði.

Þegar nafn Siglufjarðar kemur upp í huga fólks sem komið er vel yfir miðjan aldur, þá er bærinn samnefnari fyrir síld og síldarævintýri landsmanna sem hófst fyrir alvöru á öðrum áratug síðustu aldar. Talað var um "Klondike" Íslands, silfur hafsins og margt annað í svipuðum dúr. Nöfn manna eins og Ole Tynes, Sören Goos, Evangers bræður, Gustaf og Olaf,sem byggðu síldarbræðslu handan byggðar í Siglufirði, en sú verksmiðja sópaðist í sjó fram árið 1919 í snjóflóði, svo talað sé ekki um sjálfan Óskar Halldórsson (Íslandsbersa) sem er og var holdgerfingur síldaráranna hér á landi á fyrrihluta síðustu aldar. Halldór Laxness gerði honum "Íslandsbersa" góð skil í bók sinni Guðsgjafarþulu. Stuttu síðar komu Síldarverksmiðjur ríkisins til sögunnar. En nóg um það, myndin hér að neðan er tekin á síldarplani á Siglufirði, sennilega á 3 áratug síðustu aldar og sjá má síldarstúlkurnar salta í tunnur á bryggjunni og línuveiðari sem gerður hefur verið út á síld og annað síldarskip að landa afla sínum sem hefur eflaust farið að mestu leyti í tunnurnar.


Síldin söltuð af kappi á Siglufirði. Skipið við bryggjuhausinn er trúlega Grímsey GK 2, smíðað í Þýskalandi árið 1902. 208 brl. 400 ha. 3 þennslu gufuvél sem var fyrst í eigu Þórðar Flygenring í Hafnarfirði. Hét svo nöfnunum, Huginn GK 17, Huginn MB 20 og síðast Huginn RE 83. Var að lokum selt til Skotlands til niðurrifs árið 1951. Gamalt póstkort í minni eigu.

07.11.2021 07:56

3011. Freyja TFUA. Varðskip.

Varðskipið Freyja var smíðuð hjá SeKwang Shipbuilding Co Ltd í Mokpo í S-Kóreu árið 2010. 4.566 bt, 3.600 brl, 1.370 nettó. 2 x Bergen diesel ME = 16.320 ha, 12.000 Kw. 85,80 x 19,90 x 8,80 m. Hét fyrst Vittoria og síðan G H. Endurance og var í eigu United Offshore Support í Leer í Þýskalandi. Hámarkshraði skipsins er 17 sjómílur. Kaupverðið er 1,7 milljarður króna.
Það er fagnaðarefni að varðskip Landhelgisgæslunnar fái heimahöfn á landsbyggðinni, n.t.t. á Siglufirði. Ég óska skipi og áhöfn þess, velfarnaðar í starfi og LHG og íslensku þjóðinni til hamingju með þetta glæsilega skip.
Haukur Sigtryggur Valdimarsson á Dalvík sendi mér þessar myndir hér að neðan af Freyju koma til heimahafnar á Siglufirði í gær 6 nóvember 2021.


Varðskipið Freyja að koma til heimahafnar á Siglufirði í gær.












                                                                                               (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


Útlitsteikning af Freyju.                                                                                            (C) LHG.


   Stór áfangi að varðskip fái heimahöfn
                   á landsbyggðinni

Bæjarstjórinn í Fjallabyggð segir að ekki þurfi að ráðast í miklar framkvæmdir í Siglufjarðarhöfn til að útbúa þar aðstöðu fyrir nýtt varðskip. Hann telur miklu máli skipta fyrir landsbyggðina að varðskip skuli nú í fyrsta sinn hafa eignast heimahöfn úti á landi.
Landhelgisgæslan tilkynnti í gær þá ákvörðun að heimahöfn nýs varðskips, Freyju, verði á Siglufirði.
Elías Pétursson bæjarstjóri í Fjallabyggð segir það hvorki flókið eða kostnaðarsamt að útbúa aðstöðu fyrir skipið þar. "Við eigum hafnargarð sem væri hægt að nýta í þetta. Þannig að það þarf að fara í einhverjar aðgerðir, girða og koma mögulega heitu vatni til þess að tengja við skipið og rafmagni. En engar stórframkvæmdir." Enn hafi ekkert verið rætt um hugsanlegan kostnað vegna legu skipsins við bryggju á Siglufirði og þá hvort eða hvernig slíkur kostnaður skiptist milli Gæslunnar og Fjallabyggðar. "Það er ekki þannig að hvorki Gæslan eða aðrir komi hér og séu algerlega ókeypis. Þeir náttúrulega verða með nokkuð marga legudaga þannig að eitthvað munum við bara semja um þetta." Þá muni einhver umsvif fylgja í kjölfarið, viðhald og umhirða við skipið í höfn sem komi heimamönnum þá til góða. Og það að velja Siglufjörð sem heimahöfn varðskips skipti miklu máli fyrir landsbyggðina. "Núna er varðskip í rauninni í fyrsta skipti að eignast heimahöfn úti á landi. Sem að ég held að sé nú bara stórmál."

Ruv.is 22 september 2021.

05.11.2021 16:46

1293. Börkur NK 122. TFND.

Nótaskipið Börkur NK 122 var smíðaður hjá Trondhjems Mekanisk Verksted A/S í Þrándheimi í Noregi árið 1968 fyrir norska útgerðarfélagið Fishing Intenational Ltd í Hamilton á Bermúdaeyjum, hét áður Devonshire Bay. 711 brl. 1.200 ha. Wichmann vél. 52,08 x 10,93 x 7,17 m. Smíðanúmar 269/629. Síldarvinnslan h/f í Neskaupstað kaupir skipið í ágúst árið 1972. Ýmsar endurbætur voru gerðar á skipinu, t.d. var það útbúið til flotvörpuveiða og fl. Fiskimjölverksmiðja var í skipinu, en hún var tekin úr því og seld úr landi. Börkur kom svo í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað hinn 10 febrúar 1973. Börkur stundaði að mestu loðnuveiðar fyrstu árin. Einnig var skipið á kolmunnaveiðum og kom með fyrsta farminn, um 200 tonn til Neskaupstaðar hinn 19 maí það ár. Í október 1975 fór Börkur á makrílveiðar undan ströndum Máritaníu við norðvestur Afríku, en gengu þær veiðar frekar illa. Ný vél var sett í skipið árið 1979, 2.100 ha. Wichmann vél, 1.545 Kw. Börkur var lengdur og gagngerar endurbætur voru gerðar á honum hjá Nauta skipasmíðastöðinni í Gdynia í Póllandi árið 1997. Skipið var lengt um 14,64 m. Nýtt stýrishús var sett á skipið, settur á það bakki, einnig perustefni. Allar vistarverur skipverja endurnýjaðar. Allur spilbúnaður skipsins var endurnýjaður. Kælikerfi sett í lestar og skipið útbúið til flotvörpuveiða. Burðargeta skipsins var eftir þessar breytingar um 1.800 tonn. Eftir breytingarnar mældist skipið 949 brl. Í marsmánuði árið 1999 var skipt um vél í Berki í Englandi. 6.690 ha. Caterpillar vél, 5.420 Kw, var þá sett í skipið.


1293. Börkur NK 122 að landa 800 tonnum af loðnu í gömlu síldarbræðslu SVN í Neskaupstað 23 febrúar 1973. Held að þetta sé fyrsta löndun skipsins hér heima. (C) Guðmundur Sveinsson.

                Börkur kominn

Laugardaginn 10. febrúar kom Börkur NK 122 í fyrsta sinn til heimahafnar, Neskaupstaðar. Síldarvinnslan hf., Neskaupstað keypti Börk í Noregi á sl. hausti, en síðan hafa farið fram ýmsar breytingar á skipinu Og fjögurra ára flokkunarviðgerð á skipi og vél. Þá var í skipinu síldarbræðsla, sem tekin var úr því og flutt til Reykjavíkur. Verður hún seld. Settir hafa verið í skipið 8 hráefnistankar, þar af eru tveir einangraðir, og unnt er að flytja í þeim afla um lengri veg, t. d. síld til söltunar af fjarlægum miðum. Áður hefur verið sagt frá Berki hér í blaðinu, og skal lýsing skipsins því ekki endurtekin hér, en geta má þó þess, að í skipinu eru tvö 16 tonna spil og flotvönputromla, en ætlunin er, að skipið stundi veiðar í flotvörpu jafnt sem nót, eftir aðstæðum hverju sinni. Í skipinu eru svo að sjálfsögðu öll siglinga- og fiskileitartæki, og er það hið bezta útbúið. Börkur er stórt skip, 1.019 lestir, og er stærsta skip, sem Norðfirðingar hafa eignazt. íbúðarklefar eru hinir vistlegustu. Á heimleiðinni var ganghraði skipsins 12,5 mílur, en á sjóhæfni þess reyndi ekki, að sögn skipstjóra, þar sem renniblíða var þá á hafinu. Skipstjórar á Berki eru þeir bræður, Sigurjón og Hjörvar Valdimarssynir. Fyrsti vélstjóri er Björgvin Jónsson og fyrsti stýrimaður Sigurbergur Hauksson. Á skipinu verður 15 manna áhöfn. Börkur er farinn til loðnuveiða með nót.

Austurland. 7 tbl. 16 febrúar 1973.


Börkur NK 122 við komuna til heimahafnar 10 febrúar 1973.     (C) Guðmundur Sveinsson.


Börkur NK 122 við bæjarbryggjuna í fyrsta sinn 10 febrúar 1973. (C) Tryggvi Ingólfsson.


Devonshire Bay við bryggju í Leirvík á Hjaltlandseyjum sumarið 1968.         (C) J.A. Hugson.

                Börkur NK 122 

Snemma á þessu ári kom Börkur NK 122 til heimahafnar sinnar Neskaupstaðar. Skipið, sem áður hét Devonshire Bay var keypt frá Noregi á sl. ári, en þaðan var það gert út á veiðar við Kanaríeyjar. Í skipinu var búnaður til bræðslu á hráefni, en sá búnaður var tekinn úr skipinu í Noregi og í þess stað settir í það hráefnisgeymar. Skipið er smíðað hjá Trondhjems Mek. Verksted í Noregi árið 1968. Skipið var útbúið til snurpunótaveiða og flotvörpuveiða, smíðað úr stáli samkvæmt flokkunarreglum "Lloyd's Register of shipping +100A1, Deep Sea Fishing", og hefur tvö heil þilför stafna á milli. Undir neðra þilfari, talið að framan, er stafnhylki, keðjukassar, brennsluolíugeymir, asdikklefi, netalest og fisklestar. Undir fiskilest í tvöfalda botninum eru geymar fyrir olíu og ballast. Aftan við lestarnar er vélarúmið og þar fyrir aftan skutgeymir fyrir ferskvatn. Á neðra þilfari er geymsla fiskilestar og aftast íbúðir,- tveir borðsalir, eldhús, þrír einsmanns klefar og sex tveggja manna klefar. Auk þess eru matvælageymslur, þvottaklefi og salerni. Á efra þilfari eru vindur, losunarbúnaður og fiskidælur. Yfirbygging á efra þilfari er á tveimur hæðum, þilfarshús og brú. Í þilfarshúsi eru tveir eins manns klefar, sjúkraklefi, salerni, verkstæði og vélareisn. Til hliðar við þilfarshús, stjórnborðsmegin, er kraftblökk og færslublökk og þar fyrir aftan nótakassi, en aftast er skutrenna og gálgi til flotvörpuveiða. Í brú er stýrishús, kortaklefi og íbúð skipstjóra.
Aðalvél er Wichmann 8ACAT, 1200 hö. við 350 sn./mín., og er tengd við Wichmann skrúfubúnað. Skrúfa skipsins er 3ja blaða skiptiskrúfa með skrúfuhring. Aflúrtak er framan á vélinni fyrir vökvadælur vindukerfis og dælur fyrir hliðarskrúfur. Auk þess eru rafknúnar vökvadælur fyrir vindukerfi skipsins. Hjálparvélar eru 3 Scania Vabis, DS11, 176 hö. við 1500 sn. mín., með 145 KVA, 3x380 V, 50 Hz rafala hver. Tvær hliðarskrúfur af gerðinni Brunvoll SPO, 150 hö. hver, eru að framan og aftan. Stýrisvél er Tenfjord H 160. Vindur skipsins eru vökvaknúnar, lágþrýstar frá Norwinch. Snurpuvinda er staðsett bakborðsmegin, miðskips, og er meðaltogkraftur um 6 t við 75 m/mín. Tvær togvindur ("splitvinch") fyrir flotvörpuveiðar eru á aðalþilfari, nokkru framan við yfirbyggingu, stjórnborðs- og bakborðsmegin. Vindur þessar eru af gerðinni TUD-12-380- 120. Aftan við yfirbyggingu er netavinda fyrir flotvörpu.
Framarlega á aðalþilfari er akkerisvinda af gerðinni A 26/36-30N, með um 6 t lyftiafl við 18 m/mín. hraða. Við frammastur eru 3 vindur: bómulyftivinda, gerð BL 30/2, bómuvinda, gerð BS 15 og losunarvinda, gerð LF 45. Ein hjálparvinda, gerð C 15 er staðsett við yfirbyggingu. Kraftblökk og færslublökk eru af gerðinni ABAS GB15. Síldardælur eru Rapp U880 og Karmoy. Auk þess er framan a yfirbyggingu stjórnborðs- ^egin krani af gerðinni Örjavik með um 1.5 t lyftiafli við 3 0 m/mín. Lestarými skipsins skiptist í 18 geyma; 9 geymar undir neðra þilfari og 9 geymar á millidekki. Geymar þessir skiptast í stjórnborðs- og bakborðsgeyma og geyma í miðju. Geymar í miðju eru einangraðir og gerðir fyrir kælingu með sjóhringrás.
Af tækjum í brú eru þau helztu: Ratsjár: Decca RM 316 og Decca RM926. Dýptarmælar: Simrad EH2E og Simrad EK38A. Asdik: Simrad SB3. Loran: Koden LR-700. Miðunarstöð: Taiyo TD-A163. Talstöð: Simrad TA3/RA2. Örbylgjustöð: Nera. Sjálfstýring: Arkas. Á skipinu er 15 manna áhöfn. Skipstjórar verða til skiptis bræðurnir Sigurjón og Hjörvar Valdimarssynir. 1. vélstjóri er Björgvin Jónsson.
Stærð skipsins 711 brl.
Mesta lengd 52.08 m
Lengd milli lóðlína 45.75 m
Breidd 10.90 m
Dýpt frá efra þilfari 8.05 m
Dýpt frá neðra þilfari 5.85 m
Lestarými 1200 m3
Brennsluolíugeymar 106 m3
Ballastgeymar 248 m3
Ferskvatnsgeymar 55 m3
Hraði í reynslusiglingu 13.5 sjómílur.

Ægir. 7 tbl. 15 apríl 1973.


1293. Börkur NK 122 á loðnuveiðum.                                     (C) Tryggvi Sigurðsson.


1293. Börkur NK 122 í heimahöfn í Neskaupstað.                             Ljósmyndari óþekktur.


1293. Börkur NK 122 eftir breytingarnar sem gerðar voru á honum í Póllandi. Myndin er tekin á Akureyri. (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

                Börkur NK 122

Í janúar s.l. lauk breytingum á Berki NK-122, hjá Skipasmíðastöðinni Nauta í Gdynia í Póllandi. Breytingarnar voru hannaðar hjá Vik og Sandvik í Noregi og Teiknistofu KGÞ á Akrureyri og fólu m.a. í sér 14,64 m lengingu á skrokk, nýjar yfirbyggingar og innréttingar, ný spil og kraftblökk, dekkbúnað, krana, andveltigeymi, nýjan bakka, Ijósavél, RWS-kerfi fyrir lestar, ísdreifikerfi og margt fleira. Skipið er í eigu Síldarvinnslunnar hf. í Neskaupstað. Framkvæmdastjóri útgerðar er Finnbogi Jónsson og útgerðarstjóri er Freysteinn Bjarnason. Skipstjóri Barkar NK-122 er Sturla Þórðarson, 1. stýrimaður er Hálfdán Hálfdánarson og yfirvélstjóri er Óskar Sverrisson. Fiskifélag Íslands þakkar Freysteini og áhöfn Barkar fyrir veittar upplýsingar og óskar hluthöfum og Norðfirðingum nor og fjor til hamingju með breytt og endurnýjað skip.
Helstu mál og stærðir eftir breytingu.
Mesta lengd (Loa) 68,10 m.
Lengd milli lóðlína 60,39 m.
Breidd (mótuð) 10,90 m.
Dýpt að efra þilfari 8,05 m.
Dýpt að neðra þilfari 5,85 m.
Eiginþyngd 1.300 tonn.
Særými við 7,5 m djúpristu 3.405 tonn.
Lestarými 1845 m 3.
Brennsluolíugeymar 368 m 3.
Kjölfestugeymar. 255 m 3.
Ferskvatnsgeymar. 57,6 m 3.
Andveltigeymir. 40,0 m 3.
Brúttó rúmlestir. 949,14.
Brúttótonn 1.440.
Nettótonn 488.
Hraði í reynslusiglingu 13 hnútar.
Rúmtala 3.850,8 m 3.
Skipaskrámúmer. 1293.
Aflvísir 4.440.
Áætluð bryggjuspyrna 23 tonn.

Ægir. 2 tbl. 1 febrúar 1998.



20.10.2021 13:53

5055. Hrönn NK 14.

Mótorbáturinn Hrönn NK 14 var smíðaður í Bátastöð Akraness árið 1953. Eik og fura. 4,3 brl. 16 ha. Bukh vél. Hét fyrst Hrönn ST 122. Eigendur af bátnum frá 1953 til 1970 eru ókunnir en báturinn var skráður í Strandasýslu á þessum tíma. Var afturbyggður í upphafi, en verið breytt síðar. Seldur 7 september 1970, Kristjáni Sigurðssyni í Stykkishólmi, hét þá Hrönn SH 162. Eigandi frá 1 maí 1975 var Sturla Einarsson í Kópavogi. Seldur 16 maí 1976, Guðmundi Magnússyni og fl. Í Ólafsvík. Frá 1 apríl 1981 er Jón Einarsson útgerðarmaður í Neskaupstað eigandi bátsins, hét þá Hrönn NK 14. Seldur 15 mars 1984, Ingimar Erni Péturssyni í Keflavík, hét Trausti KE 240. Seldur 24 mars 1986, Arnari Péturssyni á Akureyri og Eiði Stefánssyni í Sandgerði, hét þá Díana EA 125. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 2 september 1991.

Ólíklegt er að þessi 16 ha. Bukh vél hafi verið í bátnum frá upphafi. Hef ekki fundið heimildir fyrir því að önnur eða aðrar vélar hafi verið settar í hann, en það hlýtur að vera að svo hafi verið gert.


Hrönn NK 14 að koma úr róðri til löndunar í fiskvinnslustöð SVN í Neskaupstað snemma á 9 áratugnum. Eigandi bátsins, Jón Einarsson var að jafnaði kallaður "Rebbi" á Norðfirði. Ég þekkti Rebba gamla vel, alveg einstakt ljúfmenni. Fyrir miðri mynd er Barðsnes, til vinstri er Neseyrin og hægra megin er Hellisfjarðarnes.                                       Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.


Landað úr Hrönninni. "Rebbi" fylgist með úr dyrum stýrishússins. Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.


Löndun lokið og Hrönn á leið inn í smábátahöfn.                      Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.


16.10.2021 05:58

B.v. Geir RE 241. LCHG / TFED.

Botnvörpungurinn Geir RE 241 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1912 fyrir Edward Cyril Grant & Joseph W Little í Grimsby. Hét fyrst Sialkot GY 780. 306 brl. 550 ha. 3 þennslu gufuvél. 41,09 x 7,12 x 3,73 m. Smíðanúmer 253. Seldur 1919, Harry Woods í Grimsby . Seldur 15 mars 1920, Hlutafélaginu Geir (John Fenger stórkaupmaður og fl.) í Reykjavík. Seldur 31 mars 1924, Hlutafélaginu Hrönn í Reykjavík. Nýtt stýrishús var smíðað á togarann stuttu eftir árið 1940, eða það hafi verið gert eftir að hann var seldur til Færeyja. Skipið var selt 27 nóvember árið 1946, P/F Atlantis í Fuglafirði í Færeyjum, hét Vitin FD 440. Seldur 1951, P/F Vitar A/S í Fuglafirði. Leif Waagstein Landsréttarsaksóknari í Þórshöfn keypti togarann á uppboði 4 febrúar 1952. Seldur í brotajárn til British Iron & Steel Co Ltd og mun hafa verið rifinn í Rosyth í Skotlandi síðla árs 1952 og var síðan tekinn af færeyskri skipaskrá 12 mars árið 1953.

Þó að Geir hafi verið smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell í Beverley, var hann smíðaður eftir teikningu frá Cochrane & Sons í Selby. Geir og Walpole RE 239 (1914), voru smíðaðir eftir sömu teikningu, en áður höfðu togararnir Baldur RE 146 og Bragi RE 147, sem Bræðurnir Thorsteinsson í Reykjavík áttu, verið smíðaðir eftir henni árið 1911. Baldur og Bragi voru seldir til Frakklands í togarasölunni árið 1917.

Heimildir: Birgir Þórisson.
               Óli Ólsen í Færeyjum.


B.v. Geir RE 241 á veiðum.                                    (C) Guðbjartur Ásgeirsson. Mynd úr safni mínu.

         Nýkeyptir botnvörpungar

Tveir nýkeyptir botnvörpungar hafa enn bætst við íslenska fiskiflotann. Annar heitir Draupnir og er skrásettur í Vestmannaeyjum. Hann kom hingað í fyrrakvöld. Skipstjóri er Guðmundur Sigurðsson (áður skipstj. á Frances Hyde). Draupnir er sagður 12 ára gamall, stórt og mjög vandað skip. Hann kom með fullfermi af kolum. Hinn botnvörpungurinn heitir Geir , og er sagður 6 ára gamalt; eigendur eru Fenger stórkaupmaður o. fl. Skipstjóri Jón Jónasson. Geir er stórt skip og traust. Hann kom með kolafarm.

Vísir. 15 mars 1920.


B.v. Geir RE 241 á ytri höfninni í Reykjavík.                                         (C) Magnús Ólafsson.


B.v. Geir RE 241 á leið inn á Reykjavíkurhöfn.                                              Ljósmyndari óþekktur.


B.v. Geir RE 241 á toginu. Sjá má í loftskeytaklefann framan við afturmastrið. Hann er nú eða var, varðveittur á Sjóminjasafninu Víkinni á Grandagarði í Reykjavík. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Vitin FD 440 frá Fuglafirði fyrir framan og Nýpuberg VA 178 frá Miðvogi í Slippnum í Þórshöfn í Færeyjum 1950-51. Ljósmyndari óþekktur.

         "Geir" seldur til Færeyja

Nýlega hefur togarinn Geir verið seldur til Færeyja og er það fimmti togarinn, sem seldur er héðan til Færeyja nú á tiltölulega skömmum tíma.

Alþýðublaðið. 24 nóvember 1946.


Loftskeytaklefinn úr Geir.                                                          (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Í loftskeytaklefanum af Geir.                                                    (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Í vistarverum skipverja undir hvalbaknum.                                   (C) Þórhallur S Gjöveraa.

    Víkin - Sjóminjasafn í Reykjavík

Víkin - Sjóminjasafn í Reykjavík er orðið að veruleika og það heilu ári á undan áætlun. Sigrún Magnúsdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi, veitir safninu forstöðu og tók hún við því starfi í upphafi þessa árs. Sjómminjasafnið er vestur á Grandagarði þar sem áður var fiskverkun BÚR. Sigrún segir að það hafi þótt við hæfi að opna sýningu nú á sjómannadaginn í tilefni þess að liðin eru eitt hundrað ár frá því að fyrsti íslenski togarinn kom til landsins. "Undirbúningur sýningarinnar hefur gengið afskaplega vel. Þriggja manna sýningarstjórn lagði hugmyndafræðilegan grunn að sýningunni þar sem áherslan var lögð á aðbúnaðinn um borð, sjómannafjölskylduna og að sjálfsögðu söguna," segir Sigrún. Þegar hugmyndavinnunni var lokið tók Björn G. Björnsson, leikmyndahönnuður, við verkinu og hannaði sýninguna. "Sýningin er merkileg að því leiti að hún er byggð upp af munum, leikmyndum,  margmiðlun og textaupplýsingum.
Sýningagestir ganga í gegnum söguna og byrja á því að skoða botnvörpuna, veiðafærið sem markaði tímamót hjá íslensku þjóðinni. Meðal skemmtilegra muna á sýningunni er fullbúinn loftskeytaklefi af togaranum Geir RE 241. Loftskeytatækin voru sett um borð í togarann uppúr 1920 en það var hvergi pláss fyrir tækin og því var klefinn smíðaður og festur niður fremst á bátadekkið, framan við afturmastrið," segir Sigrún. Á sýningunni er mikil áhersla lögð á að sýningargestir geti upplifað söguna "og með það að markmiði var smíðuð eftirlíking af lúkar til þess að fólk geti séð með eigin augum hvernig aðbúnaðurinn var um borð. Við gleymum heldur ekki lífinu í landi og höfum því sett upp dæmigerða stofu togarasjómanns þar sem meðal annars má sjá ýmsan munað sem sjómenn keyptu í erlendum höfnum. Nútímanum er einnig gerð góð skil með fullkomnum tækjum, meðal annars ratsjá sem komið hefur verið fyrir uppi á húsinu, þannig að sýningargestir geta fylgst með nánasta umhverfi Sjóminjasafnsins, en sjón er sögu ríkari og því full ástæða til þess að koma í Víkina - Sjóminjasafn og sjá sýninginguna með eigin augum. 

Sjómannadagsblaðið. 5 júní 2005.



Flettingar í dag: 186
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 1233
Gestir í gær: 237
Samtals flettingar: 735952
Samtals gestir: 54646
Tölur uppfærðar: 5.5.2024 03:36:13