10.10.2021 17:11
B.v. Ísborg ÍS 250. TFRE.
Nýsköpunartogarinn Ísborg ÍS 250 var
smíðuð hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1948 fyrir
Útgerðarfélag Ísfirðinga h/f á Ísafirði. 655 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél.
Smíðanúmer 789. 54,00 x 9,20 x 4,55 m. Kom fyrst til heimahafnar, Ísafjarðar
hinn 5 maí sama ár. Bátapallur var smíðaður á skipið sumarið 1950 svo það
hentaði betur til síldveiða. Ísborgin stundaði síldveiðar sumarið 1950 og 51,
en afli skipsins varð heldur rýr, því bæði þessi ár voru síldarleysissumur. Skipið
var selt á uppboði 30 janúar 1962, kaupandi var Stofnlánadeild sjávarútvegsins
sem greiddi 940 þús kr. fyrir skipið. Ísborgin var ekki sú eina sem seld var á
þessu uppboði, einnig var Sólborg og frystihúsið selt. Sólborgin var slegin
ríkinu á 2,9 milljónir og frystihúsið slegið ríkinu á 13,8 milljónir. Þetta var
sannarlega svartur dagur í atvinnulífi Ísfirðinga. Ísborgin var seld 20 apríl
1962, Borgum hf (Bjarna Pálssyni vélstjóra, Guðmundi Kristinssyni skipamiðlara
og Guðfinni Þorbjörnssyni vélstjóra) í Reykjavík. Skipinu var breytt í
flutningaskip árið 1963, gufuvélin og ketillinn tekin úr skipinu og sett í
staðinn 750 ha. Scandia díesel vél. Einnig var stýrishúsið fært aftar og
lestarrými aukið sem því nam. Skipið var endurmælt þá og mældist 706 brl. Hét
áfram Ísborg. Selt 5 febrúar 1969, Guðmundi A Guðmundssyni h/f í Reykjavík.
Skipið var selt til Grikklands og tekið af skrá 17 desember árið 1973. Skipið
mun hafa borið nöfnin Maria Sissy, Catera og síðast Nueva Isborg og var skráð í
Panama til ársins 1990-91. Hefur sennilega endað í brotajárni fljótlega eftir
það.
B.v. Ísborg ÍS 250. Eins og sést á myndinni, er bátapallurinn kominn á skipið.
(C) Sæmundur Þórðarson.
Ísborg er
glæsilegt og gott skip
Nýsköpunartogari Ísfirðinga, Ísborg, kom hingað til
Ísafjarðar þann 5. maí síðastliðinn og lagðist við bæjarbryggjuna klukkan hálf
fimm síðdegis. Fagnaði fjöldi bæjarbúa þar komu hans. Fánar voru dregnir við
hún um allan bæinn og var auðsætt að bæjarbúar fögnuðu komu Ísborgar af alhug.
Þegar skipið hafði lagst að bryggju söng Sunnukórinn undir stjórn Jónasar
Tómassonar tónskálds, Þú álfu vorrar yngsta land. Því næst flutti Sigurður
Bjarnason forseti bæjarstjórnar ávarp og bauð skipið og skipshöfn þess velkomið
til Ísafjarðar. Er ávarpið birt á öðrum stað hér í blaðinu. Að því loknu var
hrópað ferfalt húrra fyrir Ísborg og skipshöfn hennar. Þá söng Sunnukórinn í
faðmi fjalla blárra, en síðan þakkaði Halldór Jónsson framkvæmdarstjóri
móttökurnar. Að lokinni ræðu hans söng Sunnukórinn Íslandsfáni eftir
söngstjórann. Síðan var almenningi boðið að skoða skipið og hagnýttu margir sér
það boð þá um daginn og næsta dag á eftir. Skipstjóri á Ísborgu er Ragnar
Jóhannsson, 1. stýrimaður Helgi Jónsson og 1. vélstjóri Baldur Kolbeinsson. Um
kvöldið bauð bæjarstjórnin og stjórn togarafélagsins skipshöfn Ísborgar og
nokkrum öðrum gestum til kaffidrykkju að Uppsölum. Kjartan Jóhannsson stjórnaði
hófinu fyrir hönd togaraútgerðarinnar. Flutti hann við það tækifæri stutta
ræðu, sem birt er á öðrum stað hér í blaðinu. Auk hans fluttu þar ræður þeir
Sigurður Halldórsson settur bæjarstjóri, sem jafnframt las heillaskeyti frá
Ásberg Sigurðssyni bæjarstjóra, þar sem hann óskaði bæjarfélaginu til hamingju
með hið glæsilega skip, Halldór Jónsson framkvæmdarstj., Sigurður Bjarnason,
Birgir Finnsson, Helgi Hannesson, Ólafur Guðmundsson, Halldór Ólafsson
ritstjóri og Ragnar Jóhannsson skipstjóri. Allir ræðumenn óskuðu útgerð
skipsins allra heilla. Sungið var á milli ræðanna og stjórnaði frú Jóhanna
Johnsen söngnum. Fór samkoman að öllu leyti hið bezta fram.
Ísborg er 25. nýsköpunartogarinn, sem kemur til landsins. Skipið átti
upphaflega að vera fullsmíðað 31. júlí 1947. Lengd þess er 177 fet, breidd 30
fet og dýpt 16 fet. Það er 655 brúttosmálestir að stærð og er byggt hjá
skipasmiðastöðinni Cook Welton og Gemmel í Beverley í Englandi. Aðalvél þess er
1.300 hestöfl. Var ganghraði þess rúmar 13 mílur í reynsluför. Tveir
dýptarmælar eru í skipinu, loftskeytatæki, miðunarstöð og radartæki. Er það
þannig búið öllum fullkomnustu öryggistækjum. Mannaíbúðir eru hinar
vistlegustu. Ferð Ísborgar frá Englandi tók 4 sólarhringa og 3 klst. Kom skipið
beint frá Hull hingað til Ísafjarðar. Kaupverð skipsins er 3,4 miljónir króna
án veiðarfæra.
Þessir menn hafa verið ráðnir á skipið auk skipstjóra:
Helgi Jónsson 1. stýrimaður. Pétur Bjarnason 2. stýrimaður. Baldur Kolbeinsson
1. vélstjóri. Hallgrímur Pétursson 2. Vélstjóri. Magnús Eiríksson 3. vélstjóri.
Kristján Bjarnason kyndari. Anton Ingibjartsson kyndari. Guðbjartur
Finnbjörnsson loftskeytamaður. Halldór Sigurbjörnsspn bátsmaður. Þorsteinn .M.
Guðmundsson netamaður. Ellert Eiríksson matsveinn.
Hásetar:
Árni Jónsson. Þórarinn Ingvarsson. Ólafur Ólafsson. Líndal Magnússon. Þorgeir
Ólafsson. Steinn Guðmundsson. Annas Kristmundsson. Ólafur Guðjónsson. Garibaldi
Einarsson. Hrólfur Þórarinsson. Guðmundur Rósmundsson. Hjörtur Bjarnason.
Steindór Arason. Magnús Þórarinsson. Karl Jónsson. Valdimar Þorbergsson.
Ísborg fór til Reykjavíkur kl. 5 á fimmtudag en þar voru sett í hana
lýsisbræðslutæki. Þaðan fór skipið beint á veiðar. Vesturland óskar hinu nýja
skipi og skipshöfn þess allra heilla um leið og það lætur þá von í Ijós að
útgerð þess eigi eftir að verða bæjarfélaginu og almenningi í bænum til gagns
og blessunar.
Vesturland. 13 maí 1948.
B.v. Ísborg ÍS 250 að koma úr sinni fyrstu veiðiferð hinn 23 maí árið 1948 með um 280 tonn eftir 11 daga veiðiferð. (C) Jón Páll Halldórsson.
Ísborg ÍS 250 á leið inn Pollinn á Ísafirði. Ljósmyndari óþekktur.
Ísborgin með gott karfahol við V-Grænland. Sterturinn á pokanum hafði óklárast og Guðmundur Ísleifur Gíslason stýrimaður stokkið út á pokan til að gera hann kláran.
(C) Sigurgeir B Halldórsson.
Gott ufsahal á Selvogsbanka. (C) Jón Hermannsson.
Verið
að undirbúa rúmlega
200 skip til síldveiða
Átta togarar
munu taka þátt í vertíðinni
Í öllum verstöðvum landsins, sem senda ætla skip til
síldveiðanna fyrir Norðurlandi nú í sumar, er unnið af kappi við að útbúa þau
rúmlega 200 skip, sem taka munu þátt í veiðunum. Fyrir nokkru er liðinn frestur
sá, er settur var til að tilkynna atvinnumálaráðuneytinu þátttöku einstakra skipa í síldarvertíðinni. En allt
fram á þennan dag hafa umsóknir verið að berast ráðuneytinu. Atvinnumálaráðuneytið
skýrði mbl. svo frá í gær, að sennilega myndu um 230 skip af ýmsum gerðum og
stærðum taka þátt í síldveiðunum. Meðal skipanna eru tveir nýsköpunartogarar, þeir
Jörundur frá Akureyri og Ísborg frá Ísafirði. Auk þessara togara tveggja, hefir
verið tilkynnt um þátttöku sex annara, sem flestir hafa legið við festar um
langt skeið, svo sem AIliance-togarinn Tryggvi gamli, Kveldúlfstogaranna
Þórólfs, Gyllis og Skallagríms, ennfremur Íslendingur og Forseti. Munu ekki
jafnmargir togarar hafa tekið þátt í síldarvertíð, síðan fyrir stríð.
Morgunblaðið. 26 júní 1950.
B.v. Ísborg á síldveiðum. 11 síldarstúlkur söltuðu síldina í tunnur á dekkinu og þær síðan hífðar niður í lest. (C) Gerður Antonsdóttir.
Ísborginni
breytt í flutningaskip
Í gær kom varðskipið Þór með togarann Ísborgu í togi hingað
til Reykjavíkur. Hafði togarinn verið dreginn vestan frá ísafirði og tók förin
rúman sólarhring . Hér er ætlunin að breyta ísborginni í flutningaskip, taka af
henni allan togbúnað og úr henni gufuvélina, en setja dieselvél í staðinn.
Fréttamaður blaðsins brá sér niður að Ingólfsgarði í gær, en þá var verið að
leggja Ísborginni þar, en annar staður var ekki tiltækur, því svo þröngt er nú
í höfninni sökum togaraverkfallsins. Um borð í Ísborginni voru núverandi
eigendur hennar þeir Bjarni Pálsson frá Hrísey, Guðmundur Kristjánsson,
skipamiðlari og Guðfinnur Þorbjörnsson, vélfræðingur, en hann fylgdi skipinu að
vestan. Við spurðum hvernig fyrirhuguð væri breyting skipsins er það verður
gert að flutningaskipi.
Skrokkur skipsins er talinn góður, enda eru togarar yfirleitt traustbyggðari en
flutningaskip. Ætlað er að skipið muni bera um 600 tonn og eru næg verkefni
fyrir skip af þeirri stærð, að því er nú reynist. Fjarlægður verður allur
togbúnaður skipsins af dekki, togvinda, gálgar, lestarlúgur og annað er
togútgerð áhrærir. Brúin verður tekin upp í heilu lagi og flutt aftar til þess
að fá meira þilfarsrúm. Gufuketill skipsins er þegar seldur til notkunar í
síldarbræðslu á Austurlandi og verður hann tekinn úr skipinu við fyrsta
tækifæri. Ketillinn er 45 lestir að þyngd og enginn krani hér í höfninni
tiltækur til að taka upp svo þungt stykki. Hins vegar munu skip Moore
Macskipafélagsins sem hingað koma annað veifið á vegum hersins, hafa ,,bómur"
og vindur, sem geta lyft svo miklum þunga. Hafa eigendur gert sér von um aðstoð
einhvers þessara skipa. Takist það ekki er fyrirhugað að reyna að láta tvo
krana, sem valda um 25 tonnum hvor, gera samtaka átak til að lyfta katlinum.
Skip sem Ísborg á að geta annað ýmsum verkefnum eftir að því hefir verið breytt
og auk flutninganna stundað síldveiðar með kraftblökk. Galli er hins vegar
talinn á skipinu að það ristir fremur djúpt og á því er kjölur, en ekki flatur
botn, svo að það á erfiðara með að fara inn á minni hafnir. Ekki er talið að
þurfi að nota lúkarinn fyrir vistarverur manna, þar sem rúm er fyrir 14 manns
aftur í skipinu. Ætlunin er að hefja þegar breytingar á skipinu, ef verkfall
járnsmiða tefur það ekki. T. d. hafði verið samið um að afhenda gufuketilinn
innan 20 daga.
Morgunblaðið. 1 maí 1962.
Verið að hífa 750 ha. díeselvélina um borð í Ísborgina. (C) Tíminn.
Tveir
togarar gerðir út til flutninga
Togararnir eru nú farnir, að fara undir hamarinn í tvennum
skilningi, þannig að þeir verða hamraðir til annarra verka en þeim var ætlað,
eftir að uppboðshamarinn hefur fallið. Nýlega keyptu þeir Guðfinnur
Þorbjörnsson vélstjóri, Guðmundur Kristinsson skipamiðlari og Bjarni Pálsson
vélstjóri Ísborgina af Stofnlánadeild sjávarútvegsins. Togarafélag Ísfirðinga
gerði Ísborgina út, en lenti í þrotinu eins og fleiri útgerðarfyrirtæki upp á
síðkastið. Ísborgin er byggð í Englandi 1948 og er 650 lesta skip brúttó. Hún
liggur nú á Ísafirði, en verður flutt til Reykjavíkur eftir helgina og breytt í
flutningaskip, gufuvélin og ketillinn tekinn úr henni og 750 hestafla Skandia
dísilvél sett í staðinn. Skipið á að léttast um 200-300 lestir og lestin að stækka
um 50-60%. Að þessu verður unnið á ýmsum stöðum hér syðra, og gert er ráð
fyrir, að breytingunni verði lokið í haust. Blaðið talaði í gær við Guðfinn
Þorbjörnsson, sem skýrði frá kaupunum. Fyrir nokkru var myndað félag í
Njarðvíkunum um kaup á togaranum Guðmundi Júní til að breyta honum í
flutningaskip. Guðmundur Júní er byggður um 1926. Einar (ríki) Sigurðsson gerði
hann út, en togarinn hafði legið hér í höfninni í Reykjavík þar til fyrir
skömmu að hann var fluttur suður í Njarðvíkur. Tryggvi Ófeigsson hefur keypt
Keili, en hann er nú gerður út á þorskanet undir nafninu Sírius. Axel í Rafha
átti togarann og gerði hann út, en fjármálaráðuneytið seldi Tryggva hann í
vetur. Keilir var byggður í Þýskalandi árið 1950. Honum hefur ekki verið
breytt, en togveiðum hans er lokið, að minnsta kosti um sinn. Þá er
Bæjarútgerðin að búa Hallveigu Fróðadóttir til síldveiða með kraftblökk. Hún
liggur nú hér í höfninni með öðrum togurum, en fer til síldveiða eftir næstu
helgi.
Tíminn 27 apríl 1962.
Flutningaskipið Ísborg. Ljósmynd í minni eigu.
Ms. Ísborg
reyndist vel í fyrstu ferð
Lokið er nú við að breyta Ísborginni í flutningaskip og
hefur hún nú farið í sína fyrstu ferð eftir breytinguna. Skipið hefur reynzt
mjög vel eftir breytinguna, og er skipshöfnin mjög ánægð með það. Ísborgin er
byggð í Englandi 1948, en skipinu var nú breytt samfara 12 ára klössun.
Ísborgin er mjög sterkbyggð, og hefur hún alla tíð þótt hið bezta sjóskip. Það
var í aprílmánuði 1962, sem skipið var keypt frá Ísafirði, og skömmu síðar var
byrjað að breyta því. Gífurlega miklar breytingar hafa verið gerðar, m. a. sett
í það ný vél, þvi áður var gufuvél í skipinu, og var brúin einnig færð aftur.
Verkið hefur tekið nokkuð lengri tíma en áætlað var, og kostnaðurinn hefur
verið mikill, en að sögn eigenda ekki meiri en svo, að skipið geti staðið undir
honum. Öll breytingin hefur verið framkvæmd hér heima, en aðallega hafa unnið
við skipið, Vélsmiðjan Járn, vélsmiðja Kristjáns Gíslasonar h.f., Vélsmiðjan
Héðinn h.f., Stálsmiðjan h.f. og Slippfélagið hf. Stofnlánadeild
sjávarútvegsins hefur lánað fé til verksins og veitt margþætta fyrirgreiðslu.
Skipstjóri á Ísborginni er Haukur Guðmundsson, 1. stýrimaður Georg
Franklínsson, 1. vélstjóri Agnar Hallvarðsson og bryti Svanur Jónsson.
Vísir. 25 janúar 1964.
123. Flutningaskipið Ísborg Mynd úr safni Hafliða Óskarssonar.
Nueva Isborg sennilega við bryggju í hafnarborginni Agios Nikólaos á Krít árið 1982. Ljósmyndin er úr safni Hafliða Óskarssonar.
Togaraútgerð
frá Ísafirði
Þrívegis hefur togaraútgerð verið rekin frá Ísafirði. Fyrst var
þar útgerðarfélagið Græðir sem keypti 6 ára gamlan togara í Englandi sumarið
1913. Hann var 277 smálestir og hét Earl Monmouth en var nefndur Jarlinn.
Sigurjón Jónsson, síðar bankastjóri og alþingismaður var forstjóri Græðis. Ekki
var Jarlinn nema stutta hríð á Ísafirði og aflaði treglega. Samt varð þetta
gróðafyrirtæki vegna hækkaðs verðlags og góðrar sölu á skipinu eftir 1 eða 2
ár. Næst voru stofnuð tvö togarafélög á Ísafirði 1923 og 1924. Annað hét
togarafélag Ísfirðinga og keypti togarana Hávarð Ísfirðing og gerði út
alllengi. Hitt félagið var látið heita Græðir. Það átti togarann Hafstein
nokkra hríð, en heimilisfang hans var þó aldrei á Ísafirði. Árið 1936 var
togarafélag Ísfirðinga komið í þrot, Ísafjarðarbær gekkst þá fyrir myndun
hlutafélags til að kaupa skipið. Var það nefnt Skutull og gert út fram á
styrjaldarár en þá selt. Eftir seinna stríðið var svo stofnað togarafélagið
Ísfirðingur, sem fékk nýsköpunartogarana Ísborg og Sólborg og gerði út um skeið.
Ísfirðingur. 1 júní 1966.
05.10.2021 13:43
B.v. Karlsefni RE 24. LCKH / TFKD.
Botnvörpungurinn Karlsefni RE 24 var smíðaður hjá Ferguson Bros Ltd í Port Glasgow í Skotlandi árið 1918. 323 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. 42,30 x 7,22 x 3,90 m. Smíðanúmer 230. Hét fyrst John Dutton LO 514 og var í eigu breska flotans. Seldur í desember 1924, Firmanu Geir & Th Thorsteinsson í Reykjavík, og kom hann til landsins hinn 15 janúar árið 1925. Fær þá nafnið Karlsefni RE 24. 1 september árið 1941 er skráður eigandi Hlutafélagið Karlsefni í Reykjavík. Skipið var selt 18 október 1946, p/f. J. Dahl á Görðum í Vogi í Færeyjum, mun hafa heitið Karlsefni til 12 desember 1946 er p/f Garðar í Vogi varð eigandi togarans. Fékk hann þá nafnið Beinisvörð TG 785. Í febrúar 1956 varð það óhapp að þegar kynda átti upp gufuketil togarans fyrir veiðiferð, kom þá í ljós að ekkert vatn var á honum. Skemmdist ketillinn það mikið að ekki svaraði kostnaði að gera við hann. Togarinn var seldur í brotajárn til H.J. Hansen í Óðinsvé í Danmörku, 10 nóvember árið 1956 og var tekinn af færeysku (dönsku) skipaskránni 12 mars árið 1957.
John Dutton var smíðaður sem stjórnarskip (Admiralty trawler, Mersey class) H.M.T. John Dutton Additional no: 3739. John Dutton var eitt af þeim skipum sem breska stjórnin afhenti írska fríríkinu við stofnun þess árið 1923. Togarinn var aldrei í drift hjá þeim. Togarinn mun hafa verið kominn til Hull þegar Geir Thorsteinsson og félagar kaupa skipið.
Heimildir að hluta:
Birgir Þórisson.
Glottar úr trolarasögunni. Óli Olsen 2019.
B.v. Karlsefni RE 24 á toginu. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
"Karlsefni" RE 24
Nýr togari, Karlsefni að nafni, kom hingað í morgun. Útgerðarfélagið Geir & Th. Thorsteinsson ásamt Gísla skipstjóra Oddssyni eiga skipið. Skipið er svipað að stærð og Grímur Kamban, 139 fet á lengd og 23,7 fet á breidd. Skipstjóri verður Guðmundur Sveinsson, sem áður hefir verið stýrimaður á Leifi heppna.
Vísir. 15 janúar 1925.
B.v. Karlsefni RE 24 í Reykjavíkurhöfn. (C) Magnús Ólafsson.
B.v. Karlsefni RE 24 við Höepfnersbryggju á Akureyri. Togarinn er þarna útbúinn á síldveiðar og mikill tunnustafli, og allt tilbúið að salta síldina þegar hún berst. (C) Ljósmyndari óþekktur.
Togarinn Beinisvörð TG 785 í slippnum í Þórshöfn í Færeyjum. Úr safni Óla Ólsen.
Fimm íslenskir togarar hafa nú
verið seldir til Færeyja
Togarinn "Karlsefni" hefur nú verið seldur til Færeyja. A/S J. Dahl, Vaag, keypti togarann. Þetta er 5. íslenzki togarinn, sem seldur er til Færeyja, en hinir togararnir eru, eins og kunnugt er: Kári, Þorfinnur, Rán og Geir. Ekki mun þó hafa verið gengið frá samningum um sölu hins síðast nefnda. Karlsefni var eign Geirs Thorsteinssonar og hafði hann átt hann síðan um áramótin 1924-1925. Skipið er 236 smál. að stærð, og smíðað árið 1918. Skipstjóri á Karlsefni var Halldór Ingimundarson.
Alþýðublaðið. 25 október 1946.
30.09.2021 15:50
B.v. Eiríkur rauði RE 23. LBND.
Botnvörpungurinn Eiríkur rauði RE 23 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1925 fyrir Firmað Geir & Th Thorsteinsson í Reykjavík. 412 brl. 700 ha 3 þennslu gufuvél. 44,84 x 7,76 x 3,67 m. Smíðanúmer 991. Eiríkur rauði var töluvert frábrugðinn öðrum íslenskum togurum þessa tíma. Hann var mun stærri og brúin var mun lengri. Fyrir aftan stjórnpallinn var loftskeytaklefi stjórnborðsmegin og bakborðsmegin var sérstakur kortaklefi. Möstur skipsins voru miklu hærri en áður var, voru heil upp úr þannig að ekki þurfti sérstakar loftskeytastangir. Togarinn strandaði á Mýrartanga, austan Kúðafljótsóss á Meðallandssandi 2 mars 1927. Björgunarmönnum úr Álftaveri og frá Kirkjubæjarklaustri björgaðu áhöfninni, 19 mönnum á land. Skipið eyðilagðist á strandstað. Eiríkur rauði var til þess að gera, nýtt skip, rúmlega eins árs gamalt. Hafði komið til heimahafnar, Reykjavíkur hinn 8 desember 1925. Togarinn var að koma úr söluferð til Englands og var fulllestaður af kolum.
B.v. Eiríkur rauði RE 23 á veiðislóð. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
Eiríkur rauði RE 23
Eiríkur rauði heitir nýr botnvörpungur, sem Geir Thorsteinsson og fleiri hafa látið smíða í Englandi. Hann er nú á leið hingað og búist við, að hann komi hingað í kveld kl. 9 ½ , ef ekki hamlar veður.
Vísir. 8 desember 1925.
B.v. Eiríkur rauði RE 23 á toginu. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
B.v. Eiríkur rauði RE 23. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
Eiríkur rauði strandar við Kúðaós
Seint í fyrra kvöld fjekk Geir Thorsteinsson, útgerðarmaður, loftskeyti frá skipstjóranum á togaranum Eiríki rauða, þar sem skipstjórinn skýrði frá því, að skipið væri strandað, en vissi ekki glöggt hvar, sennilega á Mýratanga, vestan við Kúðaós. Varðskipið Óðinn, sem var staddur við Vestmannaeyjar, náði einnig loftskeytum frá Eiríki rauða og fór strax austur á strandstaðinn. Óðinn kom á strandstaðinn kl. 3 í fyrrinótt. Hann var í stöðugu skeytasambandi við togarann. Þegar birti í gærmorgun sáu skipverjar á Óðni menn í fjörunni, og þeir sáu einnig menn um borð í togaranum. Vegna brims gat Óðinn ekkert samband haft við togarann, nema gegn um loftskeytin meðan þau voru í lagi. Þegar leið fram á morgun (gærmorgun) sápu skipsmenn á Óðni menn á togaranum hópast fram á hvalbakinn og um sama leyti voru dregin upp flögg á togaranum, sem gáfu til kynna að nú yfirgæfu mennirnir skipið. Nokkru síðar sáu skipverjar á Óðni marga menn uppi í fjöru, einnig hesta, og mennirnir dreifðu sjer um fjöruna.
Þetta eru einu fregnirnar er borist höfðu af strandinu í gærkvöldi. Eins og sjest á fregnunum, höfðu skipsmenn á Óðni ekki getað náð tali af skipsmönnum á togaranum og þeir höfðu ekkert samband við menn úr landi. Skipsmenn á Óðni vissu því ekki hvernig skipverjar úr togaranum björguðust á land og ekki hvort allir hefðu bjargast, eða hvort nokkurt slys hefði orðið. Nánari fregnir af þessu öllu geta fyrst komið hingað í dag.
Í skeytinu frá skipstjóranum á Eiríki rauða, segir, að hann haldi að þeir hafi strandað á Mýratanga, vestan við Kúðaós. En eftir þeim upplýsingum, sem Mbl. fjekk í gær frá Vík í Mýrdal, er sennilegra að strandið sje austan við Kúðaós. Maður hafði komið til Víkur í gær, austan úr Álftaveri, og sagði hann frá því, að þeir Álftveringar hefðu sjeð merki þess í fyrrakvöld, að eitthvað var að hjá skipi við sandana, en þeir álitu það vera fyrir austan Kúðaós, á Meðallandsfjörum. Enda er þetta sennilegra, þar eð í gærkvöldi hafði enginn sendimaður komið til Víkur til þess að tilkynna sýslumanni strandið. Hafi strandið orðið fyrir vestan Kúðaós, þá hefði sendimaður átt að vera kominn til Víkur seinnipartinn í gær, en sje strandið fyrir austan ósinn, þá var ekki hægt að búast við sendimanni fyrri en seint í gærkvöldi eða fyrripartinn í dag.
Eiríkur rauði var nýtt skip, smíðaður 1925 í Selby í Englandi. Hann var með stærstu togurum hjer, 144.84 fet á lengd og var 412 smál. brúttó, 174 smál. nettó. Skipið var vátryggt hjá Samtryggingu íslenskra botnvörpuskipa. Skipstjóri var Guðmundur Sveinsson. Skipið var að koma frá Englandi, fullfermt af kolum.
Morgunblaðið. 4 mars 1927.
29.09.2021 12:33
Togarar við bryggju í Örfirisey.
Þegar hafnargerð hófst í
Reykjavík árið 1913 var lagður grjótgarður eftir Grandanum út í Örfirisey. Var
grjótið flutt á járnbraut sem lögð var sérstaklega í þessu skyni frá
Öskjuhlíðinni út á Granda. Eftir að þetta mannvirki var fullgert varð miklu greiðari
för manna út í eyna, en áður hafði sjór gengið yfir Grandann. Varð Örfirisey nú
um skeið vinsæll útivistarstaður. Þar fékk skotfélagið aðstöðu til skotæfinga
um og upp úr 1920. Þar var byggður sundskáli um 1925, enda var þá allmikil
tíska að stunda sjóböð. Árið 1940 lagði breska setuliðið eyna undir sig og
gerði þar mikil mannvirki. Má segja að þá hafi hafist mikil umbylting og eyðing
menja liðins tíma, t.d. er næsta lítið eftir af áletrunum frá fyrri tíð sem þar
mátti áður sjá klöppum í eynni. Eftir heimstyrjöldina síðari tóku að rísa þarna
ýmiss mannvirki, einkum tengd útgerð og fiskvinnslu. Á öndverðu ári 1979 var
tekið í notkun á svonefndum Norðurgarði eitt fullkomnasta frystihús hérlendis.
Það var um 7.300 m2 að gólffleti og var í eigu Ísbjarnarins hf, en eftir
samruna fyrirtækisins við Bæjarútgerð Reykjavíkur árið 1985 varð frystihúsið
eign Granda hf. Snemma á þessari öld sameinaðist Grandi hf og Haraldur
Böðvarsson & Co í H.B. Grandi hf. Fiskiðjuverið í Örfirisey er nú í eigu
Brims hf í Reykjavík.
Heimild að hluta:
Reykjavík Sögustaður við Sund.
Páll Líndal 1988.
Tvær kynslóðir togara við bryggju í Örfirisey, síðutogarinn Júpíter RE 161 og skuttogarinn Rauðinúpur ÞH 160. (C) Haraldur Samsonarson.
130. Júpíter RE 161 var smíðaður hjá A/G Weser Werk Seebeck í Bremerhaven í Þýskalandi árið 1956. 804 brl. 1.470 ha. Man díesel vél. 59,60 x 9,81 x 4,46 m. Hét áður Gerpir NK 106 og var í eigu Bæjarútgerðar Neskaupstaðar. Komst í eigu Tryggva Ófeigssonar í júlí árið 1960 og hét eftir það Júpíter RE 161 uns það var selt Hrólfi Gunnarssyni útgerðarmanni í Reykjavík árið 1978 sem breytti því í loðnuveiðiskip.
1280. Rauðinúpur ÞH 160 var smíðaður hjá Niigata Engineering Co Ltd í Niigata Japan árið 1973 fyrir Jökul hf á Raufarhöfn. 461 brl. 2.000 ha. Niigata vél. 47,03 x 9,52 x 5,50 m. Ný vél (1982) 2.000 ha. MaK vél, 1.471 Kw. Seldur úr landi og tekinn af skipaskrá 6 maí árið 1997.
Vesturbærinn og Reykjavíkurhöfn 1925-30. Örfirisey, Grandagarður og Norðurgarður (Örfiriseyjargarður) efst fyrir miðri mynd. Engey í baksýn. Mynd tekin úr Landakotskirkju. Ljósmyndari óþekktur.
Hafnargerðin
Grandagarðurinn
landfastur í Örfirisey
Fyrsti þáttur hins stærsta framfarafyrirtækis þessa bæjar er
nær á enda, garðurinn úr landi við Ánanaust er orðinn landfastur í Örfirisey,
þó eigi sé ennþá eins vel frá síðustu stikunum gengið og til er ætlast og síðar
verður. Þann 8. marz 1913 kom eimskip það hingað, er flutti hingað áhöld og
útbúnað, er með þurfti við hafnargerðina. Affermdi skipið í Viðey, þar eð veður
voru ill um það leyti, og farmurinn síðan fluttur á bátum vestur í
Ánanaustavör. Var síðan tekið til óspiltra málanna þegar í stað og byrjað á því
að leggja brautarteinana þaðan inn að Öskjuhlíð. Því verki var lokið á rúmum
mánuði. Í byrjun maímánaðar í fyrra var fyrsta grjóthlassinu úr Öskjuhlíð
hvolft í vörina hjá Ánanaustum. Síðan hefir verkinu verið haldið áfram
samfleytt fram á þennan dag, að 2-3 dögum undanskildum, sem hætta varð vinnu
vegna óveðurs. Að vinnu hafa verið fæstir 40, en flestir 105. Líklegt að mönnum
verði fjölgað við vinnuna með vorinu. Á laugardagskvöldið var garðurinn kominn
svo nærri eynni, að unt var að leggja planka til lands, og þar með gátu menn
gengið þurrum fótum til lands í Örfirisey. Að öllum líkindum mun sjálfur
gijótgarðurinn eigi verða fullger fyrr en eftir 6-7 vikna tíma. Fyrst verður
hlaðið í skarðið, sem enn er eftir út í eyna, þá verður vestri hlið garðsins
jöfnuð, grótinu hlaðið slétt og allar smáholur fyltar, og loks
járnbrautarteinarnir teknir burtu. Enn fremur verður garðurinn að ofan jafnaður
og til þess verða notaðar 80 cm. þykkar grjóthellur. Breidd garðsins að ofan
verður 4 álnir og verður hann þannig fær fyrir handkerrur, hjólbörur og önnur
þess konar flutningatæki. Þegar starf þetta er fullgert, munu verkamenn allir
verða látnir byrja á Battaríisgarðinum og Örfiriseyjargarðinum. Mun það vera í
ráði að vinna á báðum stöðum í senn og þá útlit til þess að fleiri muni geta
fengið atvinnu við hafnargerðina.
Morgunblaðið. 30 mars 1914.
26.09.2021 11:43
725. Langanes NS 37.
Vélbáturinn Langanes NS 37 var smíðaður í Bátalóni hf í
Hafnarfirði árið 1959 fyrir Sigurð Hólm Guðmundsson og Guðjón Sigurðsson á
Vopnafirði. Eik og fura. 12 brl. 80 ha. Buda vél. 11,29 x 3,32 x 1,26 m. Seldur 29 febrúar 1960, Jóhanni Snæfeld Pálssyni í Hamarsbæli í Steingrímsfirði, Strandasýslu. Hét þá Pólstjarnan ST
33. Ný vél (1967) 90 ha. Lister vél. Báturinn fórst í róðri á Steingrímsfirði
17 desember árið 1977. Áhöfnin, tveir menn, fórust með honum. Pólstjarnan var
þá á rækjuveiðum.
Langanes NS 37 sjósettur hjá Bátalóni í Hafnarfirði. (C) Þorbergur Ólafsson.
Nýr
Bátalónsbátur
Síðasti fullsmíðaði báturinn, sem kvaddi Bátalón, var 12
lesta þilfarsbátur, er hlaut nafnið Langanes NS 37, búinn öllum fullkomnustu
tækjum. Heimahöfn hans er Vopnafjörður. Langanes er 12. þilfarsbáturinn, sem
Bátalón smíðar.
Alþýðublað Hafnarfjarðar. 19 desember 1959.
Pólstjarnan ST 33 á siglingu á Steingrímsfirði, (C) Ingimundur Loftsson.
2 menn
fórust með rækjubát á Ströndum
Tveir menn, Jóhann Snæfeld Pálsson, 58 ára, Hamarsbæli í
Steingrímsfirði, og Loftur Ingimundarson 23 ára, Drangsnesi, fórust með
rækjubátnum Pólstjörnunni ST 33 frá Drangsnesi í mynni Steingrímsfjarðar á
laugardag. Jóhann lætur eftir sig eiginkonu og fjögur uppkomin börn, og Loftur
lætur eftir sig eiginkonu og tvö börn. Síðast sást til Pólstjörnunnar í mynni
Steingrímsfjarðar um klukkan hálf fimm á laugardag og samkvæmt talstöðvarsamskiptum
við rækjubátinn Grímsey, voru þeir Jóhann og Loftur þá með síðasta togið. Þegar
báturinn kom ekki til lands, var farið að svipast um eftir honum og um
kvöldmatarleytið var hafin skipulögð leit. Þrettán rækjubátar frá Hólmavík,
Drangsnesi, Hvammstanga og Skagaströnd tóku þátt í leitinni og björgunarsveitir
SVFÍ á Hólmavík og Drangsnesi gengu fjörur frá Ennisnesi norður í Bjarnarfjörð
og björgunarsveitin á Hvammstanga gekk fjörur frá Skarðsvita að Vatnsnestá í
Hindisvík. Um hálftvöleytið fundu leitarbátarnir brak úr Pólstjörnunni um 4
mílur frá Grímsey og um fjögurleytið fannst svo gúmbjörgunarbátur
Pólstjörnunnar á reki 8,5 sjómílur frá Grímsey og 6,5 sjómílur frá Ennisnesi.
Báturinn var hálffullur af sjó og bar þess engin merki, að menn hefðu farið um
hann höndum. Þótti þá víst að mennirnir hefðu farizt og var leit hætt.
Pólstjarnan ST 33 var tólf tonn að stærð. Leitarflokkar leituðu fjörur bæði í
gær og á sunnudaginn en sú leit hafði ekki borið árangur þegar Mbl. hafði
síðast fregnir.
Morgunblaðið. 20 desember 1977.
21.09.2021 18:52
L.v. Sæfari SU 424. LBKT / TFCG.
Línuveiðarinn Sæfari SU 424 var
smíðaður í Moss í Noregi árið 1902. 94,83 brl. 115 ha. 2 þennslu gufuvél. 26,50
x 5,24 x 2,73 m. Hét áður Havdrot. Friðrik Steinsson & Co, (Friðrik
Steinsson skipstjóri og útgerðarmaður), Símon Jónasson á Eskifirði og Lúðvík
Guðmundsson athafnamaður á Fáskrúðsfirði kaupa skipið í Noregi haustið 1923. Þeir
gerðu skipið út á þorsk og síldveiðar. Einnig var það notað til vöruflutninga
milli Austfjarðahafna. Þegar efnahagskreppan mikla skall með öllum sínum þunga
á þjóðinni um og uppúr 1930, fór Friðrik Steinsson & Co í þrot eins og svo
margir aðrir. Skipið var selt 9 mars 1931, h/f Sæfara í Hafnarfirði, sama nafn
og númer. Skipið var selt 9 nóvember 1933, Sigurði Jónssyni og sonum hans í
Reykjavík, hét hjá þeim Sæfari RE 149. Selt 15 júní 1937, h/f Sæfara í
Reykjavík. Selt 15 febrúar 1938, Hlutafélaginu Sæfara á Seyðisfirði. Ný vél
(1944) 200 ha. Fairbanks Morse vél. Skipið virðist hafa verið eitthvað
endurbyggt sama ár, mælist þá 105 brl. 14 ágúst 1945 fær skipið nafnið Sæfari
SI 91, sömu eigendur. 5 maí 1946 er Guðrún E Ragnars eigandi skipsins, hét þá
Ragnar SI 91. Skipið sökk út af Rifstanga 28 júlí 1947. Áhöfnin, 18 menn, komst
í nótabátana og var bjargað þaðan um borð í Skjöld SI 82 frá Siglufirði.
Sæfari SU 424 á síldveiðum. Ljósmyndari óþekktur.
Óveður í
hafi
Friðrik Steinsson frá Eskifirði var á leið frá Noregi
áleiðis hingað til lands á nýkeyptu gufuskipi, er óveðrið skall á. Var hann
kominn á móts við Færeyjar, en tókst ekki að finna þær. Eftir mikla hrakninga
komst hann aftur til Noregs. Hafði hann mist áttavitann, og skipið var mjög
illa leikið, allt brotið ofan þilja, og mjög ísað.
Alþýðublaðið. 7 mars 1924.
Sæfari SU 424 á síldveiðum. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
Enn eitt
síldveiðiskip sekkur
Í fyrrinótt varð sjóslys fyrir Norðurlandi. Síldveiðiskipið
Ragnar frá Akureyri sökk með fullfermi síldar eða um 800 mál. Mannbjörg varð.
Þetta gerðist út af Melrakkasléttu. Veður var ekki sem best og mun skipið hafa
verið á leið til Siglufjarðar er það sökk. Um nánari tildrög slyssins var ekki
vitað seint í gærkvöldi, nema hvað sjór mun hafa komist í lestarklefa, og gerðu
skipsmenn árangurslausa tilraun til að bjarga skipinu. Áhöfninni, 18 mönnum,
var bjargað um borð í m.b. Skjöldur er var þarna skammt frá, og flutti hann
mennina til Raufarhafnar. Af skipum, er voru á ferð hjá slysstaðnum í gordag,
sáu skipverjar nót m. b. Ragnars, svo og mikið brak úr skipinu. M.s. Ragnar var
100 smálestir að stærð. Eigandi var Egill Ragnars, Akureyri, en skipið var í
leigu Barða Barðasonar og Gunnlaugs Guðjónssonar, á Siglufirði. Skipstjóri var
Kristinn Stefánsson, M.s. Ragnar er 4. skipið, sem ferst á þessari
síldarvertíð. Farist hafa Snerrir, Einar Þveræingur og Bris.
Morgunblaðið. 31 júlí 1947.
13.09.2021 17:46
V.b. Kjartan Ólafsson MB 6. LBDT / TFBI.
Vélbáturinn Kjartan Ólafsson MB 6 var smíðaður í Skagen í
Danmörku árið 1916 fyrir Halldór Jónsson á Akranesi. Eik og beyki. 35 brl. 60
ha. Alpha vél. 16,18 x 4,61 x 2,48 m. Báturinn var gerður út frá Sandgerði af
Þórði Ásmundssyni og Lofti Loftssyni á árunum 1917-19. Seldur 8 desember 1919,
Þórði Ásmundssyni og Bjarna Ólafssyni á Akranesi. Frá árinu 1923 er Þórður einn
eigandi bátsins. Ný vél (1928) 70 ha. Delta vél. Báturinn fórst í ofsaveðri á
Faxaflóa 14 desember árið 1935 að talið er, með allri áhöfn, 4 mönnum. 26 manns
fórust í þessu mikla mannskaðaveðri, bæði á sjó og landi. Mikið tjón varð á
Norður og Vesturlandi í óveðri þessu.
V.b. Kjartan Ólafsson MB 6 á Reykjavíkurhöfn. (C) Magnús Ólafsson.
Engin von lengur um að
"Kjartan Ólafsson" sje ofansjávar
Leitin að vjelbátnum "Kjartani Ólafssyni" er nú hætt.
Barst Slysavarnafjelaginu skeyti frá leitarskipunum um þetta kl. 9 í gærkvöldi.
Höfðu skipin þá leitað á öllum þeim slóðum, sem nokkrar líkur voru til að
báturinn gæti verið, en leitin reyndist árangurslaus. "Kjartan Ólafsson"
fór í róður frá Akranesi á föstudagskvöld. Ætlaði hann að leggja afla sinn á
land hjer í bænum. Á bátnum voru eftirtaldir menn:
Jón Ólafsson, skipstjóri, kvæntur maður og átti þrjú börn, sonur hans,
Alexander, 17 ára gamall. Georg Sigurðsson, kvæntur og átti 4 börn.
Þorvaldur Einarsson, um tvítugt, ókvæntur, en lætur eftir sig unnustu.
Eigandi bátsins var Þórður Ásmundsson útgerðarmaður á Akranesi.
Morgunblaðið. 18 desember 1935.
12.09.2021 17:23
Áhöfnin á togaranum Brimi NK 75 á síldveiðum sumarið 1937.
Norðfjarðartogarinn Brimir NK 75 stundaði sumarsíldveiðar
eins og aðrir íslenskir togarar gerðu á árunum fyrir seinni heimstyrjöldina. Þá
var aðal veiðisvæði síldarinnar úti fyrir Norðurlandi. Það var mikill uppgripa
tími fyrir togaranna þegar vel bar í veiði og oftast ekki svo langt að fara til
löndunar. Aðal löndunarstaðirnir voru Siglufjörður, Djúpavík, Hjalteyri,
Svalbarðseyri, Hesteyri í Jökulfjörðum, Akureyri og nokkrar fleiri hafnir við
Eyjafjörð og á Austfjörðum. Brimir sigldi oftast austur á Norðfjörð og landaði
síldinni hjá Fóðurmjölsverksmiðju Norðfjarðar. Þetta var löng leið að fara, en
þetta skapaði atvinnu í bænum og var togarinn keyptur til bæjarins í þeim
tilgangi. Þessir gömlu kolakynntu togararnir voru á þessum tíma, úr sér gengin
skip. En aðal uppgripin voru eftir. Þegar að ófriðurinn í Evrópu hófst í
september 1939, hækkaði verð á ísfiski, bæði í Bretlandi og í Þýskalandi, varð
úr að togararnir seldu nær allan afla sinn erlendis fyrir geysihátt verð að
ríkissjóður og útgerðirnar stórgræddu. Það má segja að aldrei hafi eins gömul
og oft á tíðum léleg skip skilað eins miklum gjaldeyri til þjóðarinnar og gaf
það góð fyrirheit um það sem kom að styrjöldinni í Evrópu lokinni, nefnilega
nýsköpuninni. Norðfirðingar áttu Brimi í rúm þrjú ár. Hann var seldur Skúla
Thorarensen í Reykjavík hinn 30 júlí árið 1939, eða korter fyrir stríð. Þar
urðu Norðfirðingar af miklu uppgripi, því ef þeir hefðu getað haldið togaranum
lengur í heimabyggð, hefði togarasaga Norðfjarðar orðið önnur en raunin varð.
Fyrsti togari í eigu Norðfirðinga var Brimir. Myndin var
tekin um borð í skipinu sumarið 1937, en þá var skipið á síldveiðum.
Aftasta röð frá vinstri:
Oddur Hannesson, loftskeytamaður, Guðni Pálsson, skipstjóri, Stefán Björnsson,
2. stýrimaður, Ólafur, 1. vélstjóri, Páll Ágústsson, 2. vélstjóri, Ingvar
Pálmason, nótabassi, Páll Guðnason (sonur skipstjóra), Björgvin Björnsson, 1.
stýrimaður.
Næst aftasta röð:
Bjarni Guðmundsson, Sigurður Guðmundsson, Mikael Sverrisson, Sigurður B.
Sigurðsson, Rannver Bjarnason, Baldvin Ólafsson, Jóhannes Narfason, bátsmaður.
Þriðja röð að aftan:
Jóhann Þórðarson, Anton Lundberg, Guðmundur Eyjólfsson, Páll Jónsson, saltari.
Næst.fremsta röð:
Svanbjörn Jónsson, kyndari, Herbert Þórðarson, Páll Jónsson, Ármann Eiríksson,
Óskar Sigurðsson.
Fremsta röð:. Ragnar Guðnason. Sveinmar Jónsson, kyndari, Magnús Guðmundsson,
matsveinn, Jón Pálsson, aðstoðarmatsveinn og Stefán Höskuldsson.
Botnvörpungurinn Brimir NK 75 var
smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir breska
flotann. Hét þar Simeon Moon. Smíðanúmer 897. 314 brl. 550 ha. 3 þennslu
gufuvél. Seldur sama ár, Hellyers Bros Ltd í Hull, hét General Rawlinson H 173.
Seldur 13 september 1924, Fiskveiðahlutafélaginu Víði í Hafnarfirði, hét Ver GK
3. Skipið var selt 4 september 1931, h/f Ver í Hafnarfirði, hét Ver RE 32. Seldur
18 apríl 1936, Togarafélagi Neskaupstaðar í Neskaupstað, hét Brimir NK 75.
Seldur 29 júlí 1939, Hlutafélaginu Helgafelli í Reykjavík (Skúli Thorarensen),
hét þar Helgafell RE 280. Seldur 15 júní 1945, Hlutafélaginu Hrímfaxa í
Reykjavík og Hlutafélaginu Sviða í Hafnarfirði, skipið hét Skinfaxi GK 3.
Skipið var selt 30 ágúst 1947, P/f Skinfaxa í Söldarfirði í Færeyjum, hét þar
Miðafell FD 69. 9 mars 1951 keypti Gudmund Isfeld togarann á nauðungaruppboði. Togarinn
var svo seldur í brotajárn til Antwerpen
í Belgíu og tekinn af færeyskri skipaskrá 26 október árið 1951.
Málverk Sigríðar Lúðvíksdóttur.
12.09.2021 12:50
M.b. Þór SU 389.
Mótorbáturinn Þór SU 389 var smíðaður í Fredrikssund í
Danmörku árið 1915 fyrir Rolf Johansen kaupmann og athafnamann á Búðareyri við Reyðarfjörð.
Eik og fura. 4,39 brl. 10 ha. Wichmann vél (1924). 8,98 x 2,70 x 1,10 m. Seldur
25 júní 1926, Óla Þorleifssyni á Eskifirði. Seldur 6 febrúar 1929, Jóni K
Guðjónssyni á Eskifirði. Seldur 25 apríl 1934, Sveini Ólafssyni í Firði í
Mjóafirði, sama nafn og númer. Seldur 17 apríl 1940, Svavari Víglundssyni í Neskaupstað,
hét Hafþór NK 80. Seldur 13 desember 1943, Ásbirni Karlssyni og Ásgeiri
Karlssyni á Djúpavogi, hét þá Hafþór SU 13. Báturinn var talinn ónýtur 15
október árið 1948 og tekinn af skrá. Árið 1956 eignaðist Stefán Aðalsteinsson á
Djúpavogi bátinn og lét hann byggja hann upp frá grunni á Fáskrúðsfirði sama
ár. Mældist þá 6 brl. Einnig var sett í bátinn 14 ha. Saab vél. Báturinn var
súðbyrtur áður, en nú var sett á hann slétt klæðning og hann endurskráður og
fékk þá nafnið Hafþór SU 101. Seldur 26 ágúst 1959, feðgunum Auðuni Þórðarsyni
og Konráð Auðunssyni í Neskaupstað, hét Elsa NK 101. Vorið 1965 var báturinn
dreginn á land á Norðfirði undan hafís, en fylltist þar af sandi og sjó. Þá
eignuðust Skipatryggingar Austfjarða bátinn. Að endingu keypti Guðmundur
Vestmann skipstjóri í Neskaupstað bátinn, náði honum á flot og fór með hann út
í bæ og dró hann á land. Þar stóð
báturinn þar til hann fór á áramótabrennu á Norðfirði, áramótin 1966-1967.
Þór SU 389 á siglingu á Norðfirði. Heitir raunar Hafþór SU 101 þegar þessi mynd er tekin. Báturinn er sennilega komin þarna í eigu feðganna Auðuns og Konráðs. (C) Sigurður Guðmundsson.
05.09.2021 11:36
B.v. Úranus RE 343 fær á sig brotsjó í Norðursjó.
Dagana 16 og 17 febrúar árið 1962 hafði norðaustan stormur
og ofsaveður staðið yfir í Norðursjó og náði það langt norður í haf. Veðrið
olli miklum usla við strendur Bretlands og gekk einnig yfir stóran hluta vestur
Evrópu með miklu eignatjóni. Í Skotlandi náði vindhraðinn 190 km. klst. Mörg
skip sem voru á Norðursjó fóru ekki varhluta af óveðri þessu og mörg þeirra
lentu í miklum erfiðleikum og tjóni. Togarinn Úranus RE 343 sem var á heimleið
úr söluferð til Cuxhaven í Þýskalandi, fékk á sig brotsjó þegar skipið var
statt um 250 sjómílur suðaustur af Færeyjum.
Kom sjórinn á skipið aftanvert og olli miklum skemmdum. Bátadavíðurnar
eyðilögðust og báðir björgunarbátarnir spónbrotnuðu. Sást hvorki tangur né
tetur eftir af þeim þegar sjórinn var genginn yfir. Þá lagðist loftventill yfir
kyndistöð togarans saman og reykháfur skipsins dældaðist mikið. Þá hreif
sjórinn með sér tvo gúmmíbjörgunarbáta en eftir um borð voru tveir gúmbátar sem
rúmuðu 12 menn hvor. Úranus gat haldið ferð sinni áfram eftir áfallið og komst
til Færeyja þar sem gert var við mestu skemmdirnar sem urðu á skipinu, en því
síðan siglt til Bretlands þar sem fullnaðarviðgerð fór fram og tók hún um
mánaðartíma.
Heimildir: Dagblöð frá þessum tíma.
Þrautgóðir á
raunastund. XV. bindi.
B.v. Úranus RE 343 eftir áfallið í Norðursjó. (C) Hafliði Óskarsson.
Íslenskir
togarar í óveðrinu í Norðursjó
Brotsjór tók bátana og laskaði Úranus
Norðaustan stormur og óveður hefur geisað í Norðursjó, eins
og skýrt befur verið frá í blaðinu og skip lent þar í miklum erfiðleikum.
Nokkrir íslenzkir togarar hafa verið á ferðinni á þessum slóðum og þremur
þeirra hlekkzt á. Úranus missti bátana í brotsjó og fleira brotnaði ofanþilja,
stýrið á Júní skemmdist er það var á leið norsku skipi til hjálpar og
smávægileg bilun varð hjá Skúla Magnússyni. Ekki er getið um í skeytum að neitt
hafi orðið að mönnum og öll eru skipin á heimleið. Ekkert mun hafa orðið að
öðrum togurum á þessum slóðum. Veðrið var í gær að ganga niður.
Kl. 6 á föstudagsmorgun fékk Úranus á sig brotsjó, er skipið var statt 250
sjómílur suðaustur af Færeyjum á heimleið. Í skeyti
til útgerðarfélagsins, sem var 12 tíma að komast til viðtakanda, var sagt að
Úranus hefði misst báða björgunarbátana, og tvo gúmmíbáta, allar bátauglur séu
stórskemmdar og ónýtar, loftventill yfir kyndistöð gjörónýtur, reykháfur mikið
doldaður, ein plata á vélarrist dælduð, en aðrar sýnilegar skemmdir ekki stórvægilegar.
Útgerðarfélagið Júpiter h.f. sendi Úranusi fyrirspurn um það hvernig veður
væri. Kom svar í fyrrinótt, þar sem sagði að veður færi batnandi og Úranus væri
kominn á Færeyjabanka og virtist allt í lagi með ferð skipsins. Jafnframt lét
Júpiter skipaskoðun rikisins vita um atburðinn svo og skoðunarstjóra Lloyds.
Þess má geta að Úranus mun enn hafa tvo 12 manna gúmmíbáta um borð.
Hafnarfjarðartogarinn Júni var einnig á heimleið frá Þýzkalandi, kominn 1 ½
sólarhrings ferð út á Norðursjó. Var togarinn lagður af stað að aðstoðarskipi,
sem var í nauðum statt, líklega björgunar- og veðurathugunarskipinu Eger, er
það fekk á sig brotsjó og laskaðist stýrið. Kl. 1 í gær barst Bæjarútgerðinni í
Hafnarfirði skeyti frá Júní, þar sem segir: Hér hefur verið NA-stormur. Vorum
að aðstoða bát, sem var illa staddur, er við fengum á okkur brotsjó, sem
laskaði dálítið stýrið. Erfitt að beygja á annað borðið. Erum á heimleið. Skúli
Magnússon seldi í Þýzkalandi 14. febrúar og var einnig á heimleið, er óveðrið
skall á. Hann tilkynnti Bæjarútgerðinni í Reykjavík að eftir veðrið þurfi
skipið smávægilegar lagfæringar við og álíti réttara að fara inn til Aberdeen.
Var Skúli á leið þangað í gærmorgun og allt í lagi um borð. Hafði útgerðarfélagið
samband við Þórarin Olgeirsson sem sagði að veðrið væri að ganga niður.
Blaðið
leitaði sér upplýsinga um aðra togara, sem vitað var um á leið milli Íslands og
meginlandsins, og fékk eftirfarandi fréttir af þeim: Þorkell máni átti að selja
eftir helgina í Þýskalandi, en mun tefjast vegna veðursins. Beið hann þess að
veður lægði við Færeyjar. Jón Þorláksson er á leið heim og hafði leitað vars í
Skotlandi. Hvalfellið er á leið út og höfðu borizt fregnir um að allt gengi
eðlilega og einnig að allt væri í lagi hjá Frey, en þeir voru á leið til
Þýzkalands, til að selja 19. Febrúar. Haukur og Norðlendingur áttu að selja 21.
og munu ekki hafa verið komnir suður í óveðrið. Af farþegagkipum höfum við
aðeins fengið fregnir af Reykjafossi á óveðurssvæðinu, en hann var á leið milli
Kaupmannahafnar og Rotterdam. Ekkert varð að hjá honum.
Morgunblaðið. 20 febrúar 1962.
B.v. Úranus RE 343 á toginu. Úr safni Hafliða Óskarssonar.
B.v.
Úranus RE 343 TFUG
Nýsköpunartogarinn
Úranus RE 343 var smíðaður hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í
Skotlandi árið 1949. 656 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 725.
Eigandi var Júpíter h/f í Reykjavík frá 2 apríl sama ár. Úranus kom til heimahafnar
sinnar, Reykjavíkur hinn 5 apríl árið 1949. Úranus RE 343 landaði síðast í
Reykjavík 7. marz árið 1974 og fór til Spánar hinn 17. apríl sama ár með Marz
RE 261 í togi þangað sem þeir voru seldir í brotajárn og var tekinn af skrá 20
maí árið 1974.
Ýmsar breytingar voru gerðar á teikningu togarans, s.s. settur á skipið
pólkompás sem staðsettur var framan á brúnni, pokabómur festar upp undir
salningu. Þær vísuðu þá lárétt út þegar pokinn var hífður út og náði lengra en
venjulegar bómur sem vísuðu skáhallt upp og voru festar neðarlega á mastrið.
Úranus var jafnframt fyrsti togarinn sem smíðaður var með hærri lunningar sem
náðu aftur að svelgnum. Áður höfðu togarar Tryggva, Neptúnus og Marz fengið
hækkaðar lunningar en þær náðu aðeins aftur fyrir vantinn.
29.08.2021 11:24
959. Strákur SI 145. TFDH.
Vélbáturinn Strákur SI 145 var
smíðaður hjá Marselíusi Bernharðssyni á Ísafirði árið 1956. Eik. 59 brl. 280
ha. MWM vél. 21,41 x 4,67 x 2,21 m. Hét áður Páll Pálsson ÍS 101 og var eigandi
hans Ver hf (Jóakim Pálsson og fl.) í Hnífsdal frá 19 janúar 1957. Báturinn var
seldur 19 desember 1962, Ver hf á Siglufirði, hét Strákur SI 145. Báturinn sökk
út af Hópsnesi við Grindavík 18 október árið 1965. Áhöfnin, 9 menn, bjargaðist
á síðustu stundu um borð í breska togarann Imperialist FD 83 frá Fleetwood.
Skipstjóri á Strák var Engilbert Kolbeinsson en aðrir í áhöfn hans voru, Gísli
Ólafsson stýrimaður, Aðalsteinn Valdimarsson, Sigurbjörn Guðmundsson, Matthías
Bjarnason, Lúðvík Jacobsen, Henning Johannesson, Hans Kálvalíð og Gert
Johannesson. Skipstjóri Imperialist hét John Mcklenburgh jr.
Vélbáturinn Strákur SI 145. (C) Hafsteinn Jóhannsson.
Strákur SI
145
Hlutafélagið Ver í Siglufirði hefur keypt bátinn Pál Pálsson
ÍS 101 frá Hnífsdal og nefnist hann nú Strákur SI 145. Báturinn er rúmar 60
lestir á stærð, og búinn öllum tækjum og útbúnaði til Iínu, neta- og síldveiða.
Skipstjóri er Sigurjón Jóhannsson. Báturinn hefur þegar farið nokkra róðra og
mun leggja aflann upp hjá S.R.
Einherji. 27 október 1962.
Togarinn Imperialist FD 83 frá Fleetwood í Englandi bjargaði áhöfninni af Strák á síðustu stundu. Imperialist var smíðaður hjá Smith´s Dock Co. Ltd, South Bank-on-Tees í Middlesbrough í Englandi árið 1939. 520 brl. 925 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 1058. 175,9 ft. á lengd. Hét fyrst Imperialist H 2 og var í eigu Hull Great Northern Fishing Co Ltd í Hull. Togarinn var í eigu Wyre Trawlers Ltd í Fleetwood þegar áhöfninni, 9 mönnum var bjargað af Strák SI 145. Mynd úr safni mínu.
Brezkur
togari bjargaði skipverjum
af vélbátnum Strák SI 145
Vélbáturinn Strákur, SI 145, fórst út af Grindavík í
gærkvöldi, en enski togarinn Imperialist bjargaði áhöfninni, 9 mönnum, á
síðustu stundu. Strákur, sem var 59 tonna eikarbátur, var á leið frá
Vestmannaeyjum til Hafnarfjarðar. Klukkan fimm mínútur yfir sex í kvöld sendi
Strákur út neyðarkall, sem Loftskeytastöðin í Reykjavík tók á móti. Sagðist
skipstjórinn þá vera út af Grindavík, og væri talsverður leki kominn að bátnum.
Bað hann um að samband væri haft við Grindavík, til þess að vita um hvort unnt
væri að sigla þangað inn. Þegar þetta gerðist var sunnan hvassviðri á þessum
slóðum og mikill sjór. Eins og við mátti búast var haugabrim í Grindavík og
innsiglingin algerlega ófær. Varð því þegar ljóst, að ekki væri um að ræða að
sigla þangað inn. Skömmu síðar, stöðvaðist vél bátsins, vegna þess hve mikill
sjór var kominn í vélarrúmið, og var því útlitið harla óglæsilegt og báturinn
þá staddur rúmar tvær mílur undan Hópsnesi.
Kallaði Loftskeytastöðin í Reykjavík nú upp öll skip, sem nálæg voru og náðist
samband við nokkur þeirra, m. a. togarana Ask og Hvalfell og flutningaskipið
Önnu Borg. Askur var næstur þessara skipa, en þó um 35 mílur í burtu. Hélt hann
á fullri ferð til aðstoðar hinum nauðstadda báti. Skipsmenn á Strák settu upp
segla útbúnað til þess að freista þess að slaga bátnum fyrir utan og reyna að
hamla á móti því að hann ræki upp í land, en landtaka er þarna næstum eins
óglæsileg og hún getur verið í slíku veðri. Jafnframt þessu var
slysavarnadeildin í Grindavík kvödd út og fylgdist hún vel með bátnum, en ljós
hans og neyðarblys sáust frá Grindavík. Ætluðu björgunarsveitarmenn að gera
allt sem í þeirra valdi stæði til þess að bjarga mönnunum, ef svo tækist til að
bátinn ræki upp í fjöru. Gekk svo nokkra hríð og jókst stöðugt lekinn í bátnum,
en bátsverjum tókst að halda bátnum frá landi og slaga austur fyrir Hópsnes, og
voru þá á rýmri sjó. Um klukkan átta í kvöld náðist svo allt í einu samband við
brezka togarann Imperialist, sem reyndist örskammt undan bátnum. Tók hann Þegar
að leita hans. Klukkan tíu mínútur yfir átta tilkynnti skipstjórinn á Strák að
hann sæi til togarans. Um klukkan tuttug mínútur yfir átta taldi skipstjórinn á
Strák ekki þorandi fyrir mannskapinn að vera lengur um borð og tilkynnti að
þeir færu að fara í gúmbátana. Þegar til kom vildi svo illa til að annar
báturinn reyndist í ólagi, eins og því miður kemur of oft fyrir, og var ekki
talið ráðlegt að nema sjö menn færu í hann, en skipstjórinn varð eftir við
annan mann. Örskömmu síðar kom svo togarinn Imperialist að Strák.
Lagði hann tvisvar að bátnum og í annari atrennu tókst mönnunum að stökkva um
borð. Er togarinn lagði að Strák í annað sinn mun báturinn hafa brotnað
eitthvað. Skipstjórinn sagði, áður en hann yfirgaf Strák, að hann myndi láta
vita, þegar hann væri kominn yfir um borð í Imperialist. Leið nú og beið
alllöng stund, eða nær klukkutími, svo ekkert heyrðist til Imperialist og voru
menn orðnir uggandi um björgunina. Loftskeytastöðvarnar í Grindavík og
Reykjavík, sem höfðu verið í stöðugu sambandi við Strák, kölluðu Imperialist
upp í sífellu og fengu íslenzk og ensk skip í lið með sér, en árangurslaust.
Klukkan hálf tíu barst svo loks hið langþráða svar. Þá kallaði skipstjórinn af
Strák út frá Imperialist og svaraði togaranum Aski og sagði að allir skipverjar
af Strák væru komnir heilu og höldnu um borð í togarann.
Báturinn Strákur SI, 145 var 59 tonna eikarbátur byggður á Ísafirði árið 1956
og hét áður Páll Pálsson, ÍS 101. Báturinn var á leið frá Vestmannaeyjum til
Hafnarfjarðar þegar óhappið varð. Mun skipstjórinn hafa siglt bátnum við annan
mann til Vestmannaeyja til þess að ná þar í mannskap á bátinn og Sæljónið frá
Hafnarfirði. Voru níu menn á bátnum, þegar óhappið varð. Imperialist hélt með
mennina til Reykjavíkur og var togarinn væntanlegur um þrjúleytið í nótt.
Tíminn. 19 október 1965.
Vélbáturinn Páll Pálsson ÍS 101. (C) Snorri Snorrason.
Nýr
glæsilegur fiskibátur í eigu Hnífsdælinga
Á laugardagskvöldið hljóp af stokkunum í Skipasmíðastöð
Marselíusar Bernharðssonar h.f. á Ísafirði,
nýr 59 smálesta bátur. Þetta er glæsilegt og traust skip vandað að
frágangi, eins og öll skip frá þessari kunnu skipasmíðastöð. Hann er smíðaður
úr eik, en yfirbygging er úr stáli. Nafn bátsins er Páll Pálsson Í.S. 101 og er
heimilisfang Hnífsdalur. Báturinn er smíðaður eftir teikningu Eggerts B.
Lárussonar, og er með 280 hestafla Mannheim dieselvél. Í bátnum er dekkspil og
vökvadrifið línuspil, Simrad dýptarmælir með asdicútfærslu. Þá á að setja í
bátinn ljósavél. Mannaíbúðir eru klæddar með plastikplötum og eru þær sérlega
smekklegar.
Yfirsmiður við smíði bátsins var Marsellíus Bernharðsson. Vélsmiðjan Þór h.f.
sá um uppsetningu vélar. Neisti h.f. annaðist raflagnir og Ólafur Kristjánsson,
málningu. Skipstjóri á bátnum verður Jóakim Pálsson og vélstjóri Friðbjörn
Friðbjörnsson. Eigandi bátsins er Ver h.f. í Hnífsdal og er stjórn félagsins
þannig skipuð:
Jóakim Pálsson, formaður, Ingimar Finnbjörnsson og Friðbjörn Friðbjörnsson. Framkvæmdastjóri
félagsins er Einar Steindórsson. Páll Pálsson mun hefja róðra innan skamms.
Vesturland. 24 janúar 1957.
22.08.2021 09:47
604. Draupnir NK 21. TFWN.
Vélbáturinn Draupnir
NK 21 var smíðaður í Marstrand í Svíþjóð árið 1942. Eik 46 brl. 150 ha.
Bolinder vél. 17,21 x 5,97 x 2,54 m. Hét áður Brattvåg LL 432 og var í eigu
Anders Johansen, Axel Berntsson og Johan Berntsson í Åstol í Svíþjóð. Seldur 28
janúar 1946, Ásgeiri Bergssyni, Bergi Eiríkssyni og Hauki Ólafssyni í
Neskaupstað, hét þá Draupnir NK 21. Seldur 7 desember 1956, Draupni h/f á
Hellissandi, skipið hét Hólmkell SH 137. Ný vél (1957) 300 ha. Cummings díesel
vél. Seldur árið 1962, Ingólfi Arnarsyni í Vestmannaeyjum, hét Ingþór VE 75. Ný
vél (1964) 320 ha. Caterpillar díesel vél. Báturinn mælist 52 brl frá árinu
1964. Talinn ónýtur árið 1966. Lá við bryggju í Vestmannaeyjum í nokkur ár en
var að endingu dreginn út og honum sökkt.
Heimild um bát, eigendur og ljósmynd í Svíþjóð:
Óskar Franz Óskarsson.
Draupnir NK 21 í bóli sínu innan við Neseyrina á Norðfirði. Aftan við Draupni sér í 375. Dröfn NK 31. Dröfn var smíðuð af Bjarna Einarssyni skipasmið á Akureyri árið 1901 fyrir Carl Höepfner kaupmann á Akureyri, hét þá Anna EA 12. Dröfn rak á land í suðvestan stormi á Norðfirði árið 1966 eða 67 og eyðilagðist. (C) Björn Björnsson.
Draupnir NK 21 á Norðfirði. Ljósmyndari óþekktur.
Brattvåg LL 432. (C) Óskar Franz Óskarsson.
Stór
vélbátur keyptur að Sandi
Hingað kom á laugardaginn vélbáturinn Draupnir frá
Neskaupstað, en hann hefur verið keyptur hingað í því augnamiði að gera hann út
frá Rifi á komandi vertíð. Báturinn er 46 tonn og fyrsti báturinn, sem hingað
er fenginn í þessu skyni. Samnefnt hlutafélag á bátinn, en stofnendur þess og
aðaleigendur eru Kristófer Snæbjörnsson, Skúli Alexandersson, Ársæll Jónsson og
Friðjón Jónsson. Í sumar verður báturinn gerður út á síldveiðar.
Alþýðublaðið. 15 júlí 1954.
15.08.2021 11:39
B.v. Neptúnus RE 361 á toginu yfir úfinn sæ.
Systurskipin Neptúnus og Marz voru 183 ½ ft. (55,89 m.) eða
8 ½ feti lengri en hinir nýsköpunartogararnir sem voru 175 ft. (54 m.) Kom
lengdin miðskipa sem jók burðarþol skipanna verulega. Ýmsar aðrar breytingar
voru gerðar á þeim, t.d. hækkaðar lunningar um 18 tommur rétt aftur fyrir vant
til að byrja með, en voru svo síðar lengdar aftur fyrir svelg. Það var svo
Úranus RE 343 sem var sá fyrsti sem smíðaður var með þær aftur fyrir svelginn
árið 1949. Einnig var komið fyrir lýsistank aftast í skipið, aftur í "skotti",
undir lifrarbræðslunni, eins og Tryggvi orðaði það sjálfur. Lifrinni var síðan
dælt með sérútbúinni dælu og lögnum frá dekkinu í lýsistankin og dælt svo þaðan
upp í lifrarbræðsluna. Sú nýbreytni var að lestar skipanna voru einangraðar með
lofti, en klæðning í lestunum var Oregon Pine viður. Neptúnus var sá
nýsköpunartogarinn sem best var gert úr og mikil synd að hann skildi ekki vera
varðveittur því hann var í góðu ástandi þegar hann hélt af landi brott í
síðasta sinn, undir eigin vélarafli.
B.v. Neptúnus RE 361 á toginu yfir úfinn sæ. (C) Shetland museum.
Neptúnus RE 361 sennilega við Ægisgarð. (C) Peter Kidson.
B.v. Neptúnus RE 361. Þarna kominn með pólkompásinn framan á brúnna. (C) Ásgrímur Ágústsson.
B.v.
Neptúnus GK 361. TFMC.
Nýsköpunartogarinn Neptúnus GK 361 var smíðaður hjá John
Lewis & Sons Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1947 fyrir h.f Júpíter í
Hafnarfirði. 684 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 205. Kom í fyrsta
sinn til heimahafnar sinnar, Hafnarfjarðar hinn 27 desember sama ár. Um
áramótin 1947-48 flytur Tryggvi útgerð sína til Reykjavíkur og fær þá togarinn
skráningarnúmerið RE 361. Í maí 1948 setti Neptúnus heimsmet í aflasölu í
Grimsby. Seldi togarinn 356 tonn fyrir 19.069 sterlingspund og stóð það met í
ein 13 ár að ég held. Í desember sama ár kom upp mikill eldur í kyndistöð
togarans í Grimsby en þar hafði hann selt afla sinn nokkru áður. Miklar
skemmdir urðu á honum og var hann dreginn til Aberdeen í Skotlandi. Tók sú
viðgerð um 8 mánuði og fór hún fram í smíðastöð skipsins, hjá John Lewis &
Sons Ltd. Hinn 28 ágúst árið 1964 kom upp eldur í einangrun undir katli
togarans og breiddist hann hratt út í vélarúminu að ekki var neitt viðlit fyrir
skipverja að ráða niðurlögum hans. Var því ákveðið að skipið yrði yfirgefið og
áhöfnin, 32 menn, færu í björgunarbátana og færu um borð í varðskipið Albert
sem komið var á staðinn. Neptúnus var þá á veiðum um 20 sjómílur norðvestur af
Garðskaga. Miklar skemmdir urðu á togaranum og tók þó nokkurn tíma að gera við
hann. Neptúnus var alla tíð mikið afla og happaskip og var lengst af undir
stjórn Bjarna Ingimarssonar frá Hnífsdal. Togarinn var seldur í brotajárn til
Spánar eftir að hafa legið í nokkur ár við Ægisgarð, og sigldi hann þangað
undir eigin vélarafli hinn 6 október árið 1976.
11.08.2021 17:31
1212. Sólbakur EA 5. TFDJ.
Skuttogarinn Sólbakur EA 5 var smíðaður hjá Stocznia im Komuny Paryskiej í Gdynia í Póllandi árið 1967 fyrir franska útgerðarfélagið Pecheries Boulonnaises Fourmentin & Cie SA í Boulogne-sur-mer. 462 brl. 1.800 ha. Crepelle vél. Hét áður Bayard
B 3025. Smíðanúmer B 429/01. 54,0 x 10,6 x 6,9. m. Útgerðarfélag Akureyringa hf
kaupir togarann í Frakklandi 22 janúar 1972 og kaupverð hans var 73 milljónir. Kom
hann til heimahafnar sinnar, Akureyrar hinn 8 febrúar sama ár. Sólbakur var
fyrsti skuttogari Akureyringa og fór í sína fyrstu veiðiferð 8 mars. Skipstjóri
var Áki Stefánsson. Það má geta þess að Sólbakur dró gamla Harðbak út til
Skotlands, haustið 1979, en þangað hafði hann verið seldur í brotajárn.
Harðbakur var síðasti Nýsköpunartogarinn sem þá var eftir í landinu. Sólbakur
var seldur í brotajárn og tekinn af íslenskri skipaskrá 3 nóvember árið 1983.
1212. Sólbakur EA 5 á toginu. (C) Hafliði Óskarsson.
Sólbakur til Akureyrar
Frekari togarakaup fyrirhuguð
Sólbakur EA 5, eign Útgerðarfélags Akureyringa h.f. og
stærsti skuttogari sem til þessa hefur komið til landsins, sigldi inn á
Akureyrarhöfn í morgun eftir 4 ½
sólarhrings siglingu frá Boulogne í Frakklandi, þaðan sem togarinn var
keyptur. Hann var prýddur skrautfánum stafna á milli og sigldi nokkrum sinnum
fram og aftur um höfnina, til að sýna sig, áður en hann lagðist að
togarabryggjunni. Skipakaupin voru ákveðin seint á síðasta ári, eftir að Áki
Stefánsson skipstjóri hafði farið eina veiðiferð með togaranum til reynslu.
Kaupverðið var 4,6 milij. franskra franka og var þá innifalin fjögurra ára
flokkunarviðgerð. Sólbakur er 461 rúmlest, mesta lengd 54 metrar, breidd 10,4 m
og lestarrými í fisikilest 430 rúmm. Ganghraði er 11,7 sjómilur, miðað við 75%
nýtingu vélarafls. Sólbakur var smíðaður í Gdynia í Póllandi og afhentur fyrri
eigendum í des. 1967. Hann er úr stáli og með tveimur þilförum og skutrennu,
smíðaður samkvæmt fílokkunarreglum Bureo Veritas, sérstaklega styrktur til
siglinga í ís. Íbúðir eru fyrir 21 mann, allt 1 og 2ja. manna klefar. Þær eru á
milliþilfari, nema íbúðir skipstjóra og loftskeytamanns, sem eru í brú. Aðalvél
skipsins er frönsk dieselvél af gerðinni Crepelle 1800 ha og Brusselle togvinda
er rafknúin. Skipið er að sjálfsögðu búið fullkomnum og fjölbreyttum siglinga-
og fiskileitartækjum.
Skipstjóri verður Áki Stefánsson, 1. stýrimaður Jón Pétursson og 1. vélstjóri
Bolli Þóroddsson. Ekki er enn ljóst hver fjöldi skipverja verður, leita þarf
fyrst samkomulags um það mál við stéttarfélög sjómanna. Sólbakur fer sennilega
á veiðar í næstu viku. Stjórn ÚA er nú alvarlega tekin að líta í kringum sig
eftir nýjum skipum og sennilegt er að frekari ákvarðanir verði teknar bráðlega
um kaup á nýju eða nýlegu skipi og um nýsmíðar. Auk þess sem ÚA á kost á
skuttogara hjá Slippstöðinni h.f., hefur félagið sótt um að fá að kaupa einn af
fjórum 1200 lesta togurunum, sem verið er að smíða á Spáni, en það skip á að
verða tilbúið á miðju næsta ári. Þar að auki verður reynt að fá annan togara
keyptan erlendis bráðlega. Ástæðan til þess að stjórn ÚA leggur svo mikið kapp
á endurnýjun togaraflota síns um þessar mundir, er sú helzt að gömlu togararnir
eru nú teknir fast að eldast. Fyrir dyrum stendur 24 ára flokkunarviðgerð á
Sléttbak og fljótlega þar á eftir á Kaldbak, en í vor eru 25 ár liðin síðan
hann kom nýr til Akureyrar. Mjög er óvíst hvort sú viðgerð svarar kostnaði.
Svalbakur kom 1949 og Harðbakur 1950 og búast má við að þeir fari einnig að
segja af sér. Hins vegar er afar mikilvægt fyrir atvinnulífið í bænum að nógur
afli berist til fiskvinnslustöðvar ÚA, ekki sízt hraðfrystihússins, en rekstur
þess hefur gengið mjög vel undanfarin ár.
Morgunblaðið. 9 febrúar 1972.
Gamli og nýji tíminn mætast. Sólbakur EA 5 með Kaldbak EA 1 og Harðbak EA 3 í forgrunni.
(C) Páll A Pálsson.
Sólbakur EA 5 á leið í sína fyrstu veiðiferð. Kaldbakur EA 1 við bryggjuna. (C) Ú A.
Nú
mega fiskarnir fara að vara sig
Sólbakur,
fyrsti skuttogari Akureyringa
fór í fyrstu veiðiferðina í gær
Sólbakur EA 5, fyrsti skuttogari Útgerðarfélags Akureyringa
h.f. og stærsti skuttagari í eigu íslendinga enn sem komið er, lagði upp í
fyrstu veiðiferð sína frá togarabryggjunni á Akureyri kl. 14.40 í dag í
fegursta veðri, sólskini og sunnan golu. Fáni hafði verið dreginn að húni á
hraðfrystihúsi Ú A. Margt fólk var komið niður á bryggju til að kveðja skip og
skipshöfn, og árna fararheilla, og blær hátíðleika, bjartsýni og eftirvæntingar
var í hugum manna, enda mikar vonir bundnar við þetta nýfengna fiskiskip, sem
nú lá ferðbúið. Nokkru fyrir brottför komu Skipverjar hver af öðrum til skips
og fyrstur skipstjórinn, Áki Stefánsson. Sjópokar og persónulegir munir
skipverja voru bornir um borð og undir þiljur, en, áður var búið að birgja
skipið vistum, ís og öðrum nauðsynjum. Varpan lá eftir þilfarinu endilöngu.
Þó að Áki ætti í mörg horn að líta þessar síðustu mínútur fyrir brottför, gar
hann séð af stuttri stund til spjalls við fréttamann mbl."Mér segir ágætlega
hugur um þetta skip, ég held að það muni reynast vel. Ég fór eina veiðiferð með
því í vetur áður en það var keypt frá Frakklandi og mér leist vel á það. Hefur
miklu verið breytt í skipinu eftir að það var keypt hingað ? Nei, það verður
varla sagt. Þó hefur verið settur í það nýr eldhúsbúnaður, ibúðir lagfærðar,
færiböndum hagrætt á millidekki og svo hefur mikið verið málað. Verða ekki
mikil viðbrigði fyrir skipshöfnina að koma á þetta skip? - Jú, það má nú segja,
það verður gerólikt því sem var á gömlu togurunum.
Öll aðgerð fer fram undir
þiljum, allar íbúðir eru eins og tveggja manna klefar, og það er innangengt um
allt skipið. Það verða líka mikil viðbrigði fyrir skipstjórnarmenn frá því sem
var að koma í alla þessa sjálfvirkni og fjölbreyttan tækjakost og fást við
dísilvél í stað gufuvélar. Við höfum hér t.d. tvær ratsjár, og mjög fullkomnar
fisksjár og fiskileitartæki, svo að eitthvað sé nefnt. Svo er kallkerfi um allt
skipið. - Hvað verðið þið margir á? - Við verðum 19 í þessum túr, en reynslan
af honum á að sýna hvort fjölga þarf hásetum um einn eða svo. Ég hef þó litla
trú á því. Þetta er ákveðið með bráðabirgðasamkomulagi við Sjómannasambandið,
sem hefur samþykkt 20 manna áhöfn, en jafnframt að prósenta eins manns í þessu
tilfelli skiptist á hina. Samkvæmt samningum þarf a.m.k. 31 mann á gömlu togarana,
svo að þarna munar talsverðu. Öll vinna um borð skiptist á 6 tíma vaktir. - En
hvernig skiptist áhöfnin? - Við erurm þrír í brú, þrír í vél, loftskeytamaður,
matsveinn, bátsmaður og 10 hásetar. - Mig langar til að koma á framfæri
þakklæti mínu til stjórnar, forstjóra og annarra starfsmanna ÚA fyrir prýðilega
samvinnu og fyrirgreiðslu og til Akureyringa almennt fyrir vinarhug og vakandi
áhuga á útgerð þessa nýfengna skips, sem mér er trúað fyrir", sagði Áki að
lokum. Að svo mæltu gekk hann niður á þilfar og hóaði saman skipshöfninni til
myndatöku, en þá voru forstjórar ÚA, Gísli Konáðsson ag Vilhelm Þorsteinsson
þar komnir til að hitta Áka að máli.
- Gísli hafði þetta að segja um Sólbak: -
"Nú hefur verið unnið við lagfæringar á Sólbak í einn mánuð, en þá á líka að
vera búið að gera hann svo úr garði að hann þurfi ekki að stöðvast fyrst um
sinn. Nú verður hann bara að fiska og fiska vel. Ég er heldur ekkert hræddur um
annað, því að bæði skipstjóri og skipshöfn eru þaulreyndir menn, sem við
treystum fullkomlega. Nú voru landfestar leystar og óspart veifað í
kveðjuskyni. Sólbakur seig frá bryggju með áhöfn og þrjá farþega innanborðs,
sem fengu að fljóta með til Grímseyjar, Sigrúnu Sigurðardóttur, Ingibjörgu
Pétursdóttur, 4ra ára, og Guðjón Sigurbjörnsson. Þau eru öll búsett í Grímsey,
en komast þangað ekki flugleiðina, þrátt fyrir ágæt flugskilyrði, þar sem
flugbrautin þar er ófær vegna aurbleytu. Sólbakur tók skriðið út Eyjafjörð og
bar brátt í Kaldbak, sem elzti togari ÚA heitir í höfuðið á. Og nú mega fiskarnir
í djúpinu fara að biðja fyrir sér.
Morgunblaðið. 10 mars 1972.
Bayard B 3025 frá Boulogne-sur-mer á siglingu. Ljósmyndari óþekktur.
Sólbakur í
brotajárn
"Mér er það alveg Ijóst, að Sólbakur er ekki bæjarprýði, þar
sem hann stendur," sagði Gísli Konráðsson, framkvæmdastjóri ÚA í samtali
við Íslending, þegar borið var undir hann hvort ekki stæði til að flytja
ryðgaðan togarann a.m.k. úr augsýn þeirra, sem leið eiga um miðbæinn. Eins og
skýrt var frá á sínum tíma gerði Sigurður Þorsteinsson, íslenzkur maður
búsettur í Bandaríkjunum, boð í skipið. ,,Við héldum, að hann væri ákveðinn
kaupandi, en þetta hefur allt dregizt úr hömlu og það heyrist lítið frá Sigurði
svo ég er farinn að halda, að það sé ekkert að marka þetta sem hann hefur verið
að segja," sagði Gísli Konráðsson.
Sigurður var ólmur að fá Sólbak, þegar
ÚA gerði honum tilboð um áramótin s.l. Þá hugðist hann gera skipið að
móðurskipi fyrir sverðfiskveiðibáta í Karabíska hafinu. "En þetta er farið að
dofna allt saman, og ég er farinn að hugleiða við hliðina á þessu, sölu á
skipinu til Stálfélagsins í brotajárn, en það félag hyggst reisa stálverksmiðju
í Reykjavík," sagði Gísli. Hann sagði, að þeir hjá ÚA hefðu aðeins viðrað
þessa hugmynd við Stálfélagsmenn og hafa þeir sýnt áhuga. Hins vegar er málið
ekki það langt komið, að um þetta sé hægt að fullyrða enn. En þið hafið ekki
hugsað ykkur í millitíðinni að færa skipið til og frá augunum á manni, einkum
eftir að nýi vegurinn kom, sem gerir skipið enn meira áberandi? "Nei, ég held
að það sé ekki svo mikil kvöl að horfa á hann, að það sé ástæða til þess. Mér
finnst hann í rauninni hið mesta augnayndi," sagði Gísli og hló. "En ég
trúi því ekki að hann verði lengi þarna enn úr þessu. Því trúi ég ekki. Við
höfum hug á að koma honum í burtu."
Íslendingur. 4 ágúst 1983.
09.08.2021 10:19
2. m. kt. Verdandi KG 380. KCJD.
Mótorkútterinn Verdandi KG 380 var smíðaður í Great Yarmouth
í Englandi árið 1884 fyrir George Beeching í Hull, hét þá Aloungpyah H 1391.
Eik. 88 brl, 55 nettó. Dýpt miðskips var 10,6 ft.Var í eigu Hull Steam Fishing & Ice Company í Hull
frá 1891-1899. Óvíst hvenær vél var sett í skipið, en í því virðist hafa verið
100 ha. Bolinder vél eftir fréttaklausunni hér að neðan. Heimild frá Færeyjum
segir vélina hafa verið 50 ha. Árið 1920 kaupa þeir Helgi Hafliðason kaupmaður,
Sören Goos síldarsaltandi og Jón Sigurðsson skipstjóri á Siglufirði skipið í
Svíþjóð, hét það þá Verdandi 3519. Ætlun þeirra var að nota skipið til
fiskveiða í Faxaflóa. Einnig var það notað til flutninga milli landa á ýmsum
vörum. Verdandi var seldur árið 1922, J.F. Kjölbro í Klaksvík í Færeyjum, hét
þá Verdandi KG 380. KCJD. Ný vél (1927) 70 ha, gerð óþekkt. Selt 1931, A/S
Balslev & Gose í Þórshöfn, hét þá Verdandi TN 335. Ný vél (1936) 47 ha, gerð óþekkt. Selt 1938, S. Simonsen í Saltangaraa (Þórshöfn), hét Verdandi FD 535. Skipið fórst með allri áhöfn, 13 mönnum í
miklu óveðri er geisaði við Norður og Vesturland hinn 26 október árið 1944.
Verdandi var þá á leið til Reykjavíkur frá Siglufirði.
Heimildir: Jan Erik Simonsen.
Birgir Þórisson.
Enska skipaskráin.
Mótorkútterinn Verdandi KG 380 frá Klaksvík. (C) Jan Erik Simonsen.
Mótorkútterinn
"Verðandi"
»Verðandi« heitir mótorkútter sem hér er kominn er þeir
kaupmennirnir Helgi Hafliðason og Sören Goos og skipstjóri Jón Sigurðsson
keyptu í Svíþjóð síðastliðinn vetur og var ætlun þeirra að halda skipinu út á
fisk við Faxaflóa. Verðandi er myndarlegt skip nær 100 smálestir á stærð, með
100 hesta Bolindervél og vel útbúinn. Í vor og sumar hefur hann verið í
flutningaferðum milli landa, kom nú með timburfarm til Blönduóss. Verðandi á
heimilisfang í Siglufirði og er fyrsta skipið sem skrásett er héðan, hann hefur
merkið S.F. 71.
Fram. 34 tbl. 25 ágúst 1920.
Verdandi KG 380. (C) Jan Erik Simonsen.
Verdandi á siglingu. Þeir gátu sopið sjóinn kútterarnir. (C) Jan Erik Simonsen.
Verdandi að lands saltfiski í Skálafirði árið 1939. (C) Jan Erik Simonsen.
Færeyska
skútu vantar
Slysavarnafjélagið lýsti í gærkvöldi eftir færeyskri skútu,
Verðandi. Skipið fór frá Siglufirði þann 25. okt. s.l. og ætlaði til
Reykjavíkur. Skipið er enn ókomið og hefir Slysavarnafjelagið spurst fyrir um
skipið, en ekkert til þess frjett. Verðandi mun vera 70-80 smálestir með
fjögurra til 6 manna áhöfn.
Morgunblaðið. 5 nóvember 1944.
Málverk af Verdanda. (C) Hans Skálagard.
Færeyski
kútterinn talinn af
13 menn fórust
Færeyski kútterinn ,Verðandi" frá Saltangirá, er
Slysavarnafjelagið lýsti eftir s. l. laugardag 4. nóv., er talinn af. Með
skipinu fórust 13 menn, en ekki sex, eins og skýrt var frá í sunnudagsblaðinu,
allt Færeyingar. Ekkert hefir spurst til skipsins síðan það fór frá Siglufirði,
þann 25. október og ætlaði til Reykjavíkur. Afspyrnu veður var fyrir Norður- og
Vesturlandi um þetta leyti og urðu skip fyrir miklum skemdum á þeim slóðum.
Verðandi var mjög gamalt skip, eigandi þess Simon Simonsen. Skipstjóri var einn
af bestu skipstjórum færeyska flotans, Ole Larsen.
Morgunblaðið. 7 nóvember 1944.