28.06.2020 09:12

M. s. Drangajökull sökk á Pentlandsfirði.

Í dag eru liðin 60 ár frá því að flutningaskip Jökla hf, Drangajökull, sökk á Pentlandsfirði í ágætis veðri. Orsakir slyssins eru enn á huldu, en skipið fékk skyndilega á sig mikla slagsíðu. 19 skipverjar voru um borð. Flutningaskipið Drangajökull var smíðaður hjá Kalmarvarf í Kalmar í Svíþjóð árið 1947. 621 brl. 720 ha. Nohab vél. Hét fyrst Foldin og var smíðuð fyrir Skipafélagið Fold hf í Reykjavík. Selt 16 ágúst 1952, Jöklum hf í Reykjavík, fékk nafnið Drangajökull. Skipið sökk í Pentlandsfirði á milli Orkneyja og Skotlands 28 júní árið 1960. Áhöfnin, 19 manns, bjargaðist í gúmmíbjörgunarbát og stuttu síðar var þeim bjargað um borð í skoska togarann Mount Eden A 152 frá Aberdeen í Skotlandi sem hélt með skipbrotsmenn inn til Aberdeen.


E.s. Drangajökull.                                                            (C) Ólafur Ragnarsson.

              Kæliskipið Foldin

Þann 17. nóvember síðastliðinn kom hingað til lands nýtt kæliskip, sem heitir Foldin. Skip þetta er smíðað í Kalmarvárv í Svíþjóð. Samningar um smíði þess voru gerðir í ársbyrjun 1945. Það er 625 rúmlestir brúttó og tekur til flutnings 500-550 smálestir af flökum. Aðalvélin er 720 hestafla Noabvél. Lestað gengur skipið 11,5 mílu. Í reynsluför fór það 12,5 mílu. Hjálparvélar eru þrjár, tvær 16 hestafla og ein 130 ha. Þegar skipið er á siglingu, eru Ijós og frystivélar drifnar af 20 k\v rafal, sem aðalvélin rekur. Pressur eru af Stalgerð. Í lestunum er hægt að halda 18° frosti við 25° utanborðshita. Skip þetta virðist að öllu hið vandaðasta og sérstaklega eru mannaíbúðir allar og allt fyrirkomulag viðvíkjandi áhöfninni með ágætum. Yfirmenn á Foldinni eru: Ingólfur Möller, skipstjóri, Steinar Kristjánsson 1. stýrimaður og Guðmundur Hjaltason 2. stýrimaður. Fyrsti vélstjóri er Jón Örn Ingvarsson. Foldin er eign Skipafélagsins Foldin, en stjórn þess skipa: Baldvin Einarsson, Óskar Normann og Geir Zoéga.

Ægir. 11 og 12 tbl. 1 nóvember 1947.


E.s. Foldin í slippnum í Reykjavík.                                                                    (C) Pétur Thomsen.

  Drangajökull sökk í Pentlandsfirði

  Skozkur togari bjargaði áhöfninni

Morgunblaðinu barst í gærkvöldi svohljóðandi einkaskeyti frá fréttaritara sínum í Færeyjum: DRANGAJÖKULL, sem var staddur í Pentlandsfirði sendi út neyðarskeyti kl. 19,39 svohljóðandi: Turning over portside (Er að hvolfa á bakborða). Svo heyrðist ekki meira til hans. En kl. 20 kallaði skoski togarinn Mount Eden frá Aberdeen til Wickradíó, og skýrði loftskeytamaður hans svo frá að togarinn hefði bjargað öllum sem á Drangajökli voru, samtals 19 manns. Hann er nú á leið til Aberdeen. Togarinn kom að Drangajökli þegar hann var að velta á hliðina. Fór hann alveg yfir um og stóð botninn upp nokkra stund, en svo sökk skipið stuttu síðar.
Samkvæmt þeim fréttum, er Morgunblaðið gat aflað sér í gærkvöldi, var DrangjökuII á heimleið frá Ósló, Amsterdam og fleiri Evrópuhöfnum, fullhlaðinn kartöflum og öðrum varningi, og með dráttarvélar á dekki.
Skipstjóri var Haukur Guðmundsson, Nökkvavogi 31 í Reykjavík, og voru kona hans og barn með í ferðinni. Haukur er reyndur sjómaður og hefur um langt skeið verið fyrsti stýrimaður á skipinu, en þetta var hans fyrsta ferð sem skipstjóri. Aðrir skipverjar voru:
Georg Franklínsson, I. stýrimaður, Hverfisgötu 102. Finnbogi Kjeld, II. stýrimaður, Ytri-Njarðvík. Helgi Þorkelsson, 1. vélstjóri, Kleifarvegi 5. Sveinbjörn Erlingsson, II. vélstjóri, Efstasundi 63. Tryggvi Oddsson, III. vélstjóri, Skúlagötu 56. Bjarni Sigurðsson, loftskeytamaður, Njarðargötu 31. Árni Jónsson, bryti, Víðihvammi í Kópavogi. Haraldur Helgason, matsveinn, Ásgarði 123. Þórður Geirsson, bátsmaður, Bólstaðahlíð 33. Gunnar Bjarnason, háseti, Neskaupstað. Guðjón Erlendsson, háseti, Ásgarði 39. Ævar Þorgeirsson, háseti, Birkimel 8B. Gylfi Pálsson, háseti, Innri-Njarðvík. Þorlákur Skaptason, háseti, Tómasarhaga 44. Karl Jónsson, smyrjari, Tómasarhaga 57. Vilhjálmur Vilhjálmsson, messadrengur, Mávahlíð 42.
Drangjökull var 621 smálest að Stærð, byggður í Svíþjóð 1948 og talinn gott sjóskip. Yfirbygging var í skutrúmi, og þar voru íbúðir skipverja, eldhús, stjórnklefi, loftskeytaklefi og vélarúm.

Morgunblaðið. 29 júní 1960.


Drangajökull við bryggju í Reykjavík.                                        (C) Ólafur Ragnarsson.


Skorski togarinn Mount Eden A 152 frá Aberdeen sen bjargaði áhöfninni af flutningaskipinu Drangajökli á Pentlandsfirði hinn 28 júní árið 1960.    Mynd úr safni mínu.

      Drangajökull sökk á 20 mín

     Fólkið fór allt í gúmmíbátana

Ekki er vitað neitt frekar af hvaða orsökum skipið Drangajökull fórst svo skyndilega í Pentlandsfirði, milli Skotlands og Orkneyja, í fyrradag. Skipbrotsmennirnir komu til Aberdeen í gær, en svo virðist að þeir vilji ekkert segja um orsakirnar fyrr en við sjópróf. Þeir eru væntanlegir heim með flugvél Flugfélagsins á föstudag. Sjópróf fara fram í Reykjavík en ekki er enn afráðið hvort þau geta hafist þegar á laugardaginn. Það er lauslega áætlað að tjónið í skiptapa þessum, bæði skip og farmur, nemi a.m.k. 20 milljónum króna. Mbl. bárust í gær nokkru nánari fregnir af þessu sviplega atviki frá fréttamanni í Aberdeen. Það var skozki togarinn Mount Eden, 293 tonn sem bjargaði skipshöfninni á Drangajökli og kom hann með skipbrotsmenn til Aberdeen árdegis í gær, miðvikudag, Mount Eden var að koma úr tólf daga veiðiför á Færeyjamiðum og var að sigla með aflann til Aberdeen. John Snelling skipstjóri á skozka togaranum segir, að hann hafi verið um 5 mílur frá Drangajökli, þegar hann varð þess vísari að þetta íslenzka skip var í nauðum statt. Þetta gerðist þar sem Pentlandsfjörður er mjóstur undan vitanum á Stromaeyju og er þar 40 faðma dýpi. Sjö vindstig voru á norðan.
Þegar Mount Eden kom að Drangajökli var hann enn á floti, en hafði hvolft. Skipsmenn höfðu allir komizt í gúmmíbjörgunarbátana. Allir voru ómeiddir og glaðir yfir björguninni, sem barst þeim svo fljótt. Flestir voru þurrir, nema fjórir eða fimm þeir síðustu sem yfirgefið höfðu skipið, þeir höfðu stokkið í sjóinn en komizt upp í gúmmíbátana. Yngsti skipbrotsmaðurinn var Gunnar fjögurra ára sonur skipstjóra. Utan um hann hafði verið vafið til hita, hollenzkum fána, en fáni þessi hafði verið þrifinn í fáti upp úr fánakistu skipsins, þegar fólkið varð svo skyndilega að yfirgefa það. Drangajökull sökk niður að aftan og hvarf í hafið skömmu eftir að fólkið var komið um borð í Mount Eden. Einn skipverjanna á skozka togaranum, hásetinn John Warman sagði við fréttamanninn: "Þessi björgun var Guðs mildi". Hann bætti því við að Pentlandsfjörður væri alræmdur fyrir hringiður, straum og úfinn sjó. Skipbrotsmennirnir búa nú á sjómannaheimilinu í Aberdeen. Þegar fréttamaðurinn kom þangað var Gunnar litli sá fyrsti sem kom á móti honum. Hann var á hlaupum fram og aftur á rósrauðum inniskóm og hafði verið að borða morgunmat, cornflakes og mjólkurglas. Loftskeytamaðurinn á Drangajökli, Bjarni Sigurðsson sem er 31 árs upplýsti, að skipið hefði sokkið á 20 mínútum. Hann kvaðst hafa verið mjög glaður yfir því að togarinn kom svo skjótt til hjálpar eftir að neyðarkall hafði verið sent út.
Drangajökull var að koma frá Vestur Evrópulöndum með ýmsan varning. Hafði hann tekið varning í Noregi, Hollandi, Belgíu og Englandi. Síðasta viðkomuhöfn hafði verið London. Farmurinn var m. a. kartöflur, þurrkaðir ávextir, margskonar stykkjavara og dráttarvélar á dekki. Skipið var vátryggt hjá Tryggingamiðstöðinni en varningurinn hjá ýmsum félögum. Í upptalningunni yfir skipsmenn í blaðinu í gær vantaði einn, en hann er Vilhjálmur Vilhjálmsson Mávahlíð 42, sem er 14 ára drengur. Var hann skráður sem messadrengur en mun fremur hafa verið í skemmtiferð með skipinu.

Morgunblaðið. 30 júní 1960.

21.06.2020 11:23

V. b. Muninn NK 74.

Vélbáturinn Muninn NK 74 var smíðaður í Oddaverkstæðinu á Fáskrúðsfirði árið 1930 fyrir Vilhjálm Björnsson útgerðarmann á Búðum í Fáskrúðsfirði. Hét fyrst Gammur SU 40.15 brl. 40 ha. Skandia vél. Seldur 1 september 1933, Jóni Benjamínssyni útgerðarmanni í Neskaupstað, hét Gammur NK 59. Seldur 1938-39, Ármanni Magnússyni útgerðarmanni í Neskaupstað, hét þá Muninn NK 74. Sökk eftir árekstur við vélbátinn Fylki NK 46 frá Neskaupstað út af Glettinganesi 23 júlí árið 1940. Áhöfninni, 8 mönnum, var bjargað um borð í Fylki sem þegar hélt inn til Neskaupstaðar með skipbrotsmennina.


V.b. Muninn NK 74 á siglingu á Norðfirði.                                     (C) Þórður Jóhannsson.

              Síldarskip sekkur
                   Mannbjörg

Norðfirði, miðvikudag.
Vjelbátarnir Fylkir og Muninn rákust á út af Glettingarnesi í gær. Var Muninn að koma af síldveiðum. Var hann fullfermdur. Hann sökk eftir 3-4 mínútur. En mennirnir 8 sem voru á bátnum gátu stokkið yfir í Fylki. Um orsakir eða aðdragana að árekstrinum er ekki upplýst. Málið er í rannsókn. Fylki sakaði ekki og er hann kominn á veiðar.

Morgunblaðið. 25 júlí 1940.


21.06.2020 10:00

Smábátahöfnin á Akureyri fyrir margt löngu.

Þær eru margar fallegar trillurnar þarna í höfninni, sennilega á Oddeyrartanganum á Akureyri um miðja síðustu öld. Lengst til vinstri má sjá í 598. Kára EA 44, smíðaður í Skipasmíðastöð Gunnars Jónssonar á Akureyri árið 1929. Hann hét fyrst Kári Sölmundarson EA 454. 11,93 brl. með 38 ha. Tuxham vél. Þessi bátur var afhentur Þjóðminjasafninu til varðveislu árið 1988. Ætli hann hafi verið einn af þeim bátum sem brunnu á geymslusvæði safnsins í Kópavogi árið 1992-93 ? Svo má sjá þarna EA 158, sennilega 5392. Gunnar Helgason, smíðaður af Júlíusi Helgasyni í Hrísey árið 1948, 1,36 brl. Fiskhjallar og bátar á kambinum handan hafnarinnar og Kaldbakur snæviþakinn handan Eyjafjarðar í fjarska. Einstaklega falleg mynd.


Smábátahöfnin á Akureyri.                                          (C) Gunnlaugur P Kristinsson. Gamalt póstkort.

14.06.2020 08:39

2861. Breki VE 61 í slippnum í Reykjavík.

Skuttogarinn Breki VE 61 var tekinn í slipp í Reykjavík fyrir stuttu síðan. Ég tók þessar myndir af togaranum á sjómannadaginn s.l. Sannarlega fallegt skip.
Breki VE 61 var smíðaður hjá Huanghai Shipbuilding Co Ltd í Rongcheng í Kína árið 2017 fyrir Vinnslustöðina hf í Vestmannaeyjum. 1.223 Bt. 2.440 ha. MAN vél, 1.795 Kw. Kom til heimahafnar sinnar, Vestmannaeyja hinn 6 maí 2018 eftir sex vikna siglingu frá Kína. Skipið er hannað af verkfræðistofunni Skipasýn í Reykjavík í samstarfi við Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum og Hraðfrystihúsið Gunnvör í Hnífsdal. Breki VE er útbúinn til að geta togað með tvö troll eins og systurskipið Páll Pálsson ÍS 102. Skipin hafa einnig stærri skrúfur en áður hafa verið í skipum af þessari stærð og fæst mikill orkusparnaður við það.


2861. Breki VE 61 í slippnum í Reykjavík á sjómannadaginn s.l.
                                                                                                 (C) Þórhallur S Gjöveraa. 7 júní 2020.
07.06.2020 10:44

E. s. Gullfoss. LCDM / TFGA.

Eimskipið Gullfoss var smíðaður hjá Kjöbenhavns Flydedok & Skibsvært í Kaupmannahöfn árið 1915. 1.414 brl. 1.200 ha. 3 þennslu gufuvél. Gullfoss var fyrsta skip  h/f Eimskipafélags Íslands (Óskabarns þjóðarinnar) sem stofnað var, 17 janúar árið áður  Skipið var fyrsta millilanda og farþegaskip sem smíðað var fyrir Íslendinga og var auk þess útbúið frystilest. Gullfoss varð innlyksa í Kaupmannahöfn þegar Þjóðverjar hernámu Danmörk, 9 apríl 1940 og var skipið í þjónustu þeirra allt til stríðsloka. Er bandamenn hertóku Kiel í maí árið 1945 fannst þá skipið þar, þá mjög illa farið, en það hafði verið notað sem spítalaskip. Selt 1945-46, Baldvin Einarssyni og Pétri Guðmundssyni í Reykjavík. Þeir komu skipinu til Gautaborgar í Svíþjóð þar sem það var gert upp. Þeir seldu skipið árið 1947, P/F Skipafélag Föroyja, hét þar Tjaldur. Selt til niðurrifs árið 1953, Eisen & Metall K.G.- Lehr & Co í Hamborg í Þýskalandi og var rifið þar sama ár. 


E.s. Gullfoss.                                                                                        (C) Handel & söfart museet.dk

          Gullfoss kominn
      Borgin fagnar skipinu

Börnin vakna snemma þegar hátíð fer í hönd. Tilhlökkunin vekur þau fyrir allar aldir. Svo var það jafnan á "laufabrauðsdaginn" í sveitinni, enda er hann þar sem laufabrauð tíðkast, mesta hátíð barnanna, önnur en jólin. Við erum stundum börn þótt æskuskeiðið sé á enda runnið. Svo var það í gær. Maður vaknaði í sólarupprás og fór á fætur. Rúmletin gat ekki haldið manni í skefjum. Tilhlökkunin knúði mann á fætur og út á götuna. Því nú var sögulegur dagur í vændum, sá dagur, þegar Ísland átti að fagna fyrsta farþegaskipi sínu, fyrsta vorgróðri þeirrar vonar, er þjóðin hefir alið í brjósti um ótal mörg ár, að verða sjálfstæð. Sá bóndi er eigi talinn höldur góður, sem eigi á reipi til þess að binda í hey sitt. Sú þjóð, sem eigi er svo sjálfbjarga, að hún geti flutt að sér lífsnauðsynjar sínar, getur eigi talist með þjóðum, hvað þá heldur öndvegisþjóð. En það voru Íslendingar einu sinni. Hlutur þeirra var fyrir borð borinn, bæði af þeim sjálfum og öðrum, en kyngöfgin, sem með þjóðinni býr gat eigi þolað það um allar aldir. Því er nú margs þess freistað er djarft má teljast og engi örkvisaháttur. Svo er um Eimskipafélagið, en fyrsta skip þess kom í gær. Sem sagt, maður var snemma á ferli. Norðvestangustur næddi yfir borgina, en sólin reis í austri og boðaði ljós og yl yfir landið. Aldrei þessu vant var fólk á ferli hvar sem maður kom. Öllum varð þráin svo sterk að þeir gátu eigi sofið.


E.s. Gullfoss við komuna til Reykjavíkur. Til hægri er togarinn Íslendingur RE 120. (C) Þjóðminjasafn.
  
Gullfoss fer að koma! Eins og fyrr er sagt var svo til ætlast að Ingólfur færi á móti Gullfossi. En Ingólfur varð veðurteptur uppi í Borgarnesi. Þá fékk stjórn Eimskipafélagsins botnvörpunginn "Íslending" til þess að fara á móti skipinu. Hann átti að leggja af stað klukkan hálf átta og það gerði hann líka. Úti fyrir var allsnörp kvika og ekkert var til þess að hressa sig á. Hefði það verið auma lífið ef Elías hefði ekki gefið manni vindla. Nokkru utar eyjum mættum við Gullfossi. Íslendingurinn skreytti sjg fánum og Gullfoss var þegar skreyttur sömu prýði. Rétt áður en skipin mætast kallar Halldór Daníelsson, fyrverandi bæjarfógeti, að allir þeir, sem vilji hrópa húrra fyrir íslenzka skipinu, skuli ganga fram í stafn og urðu allir til þess. Kvað þá við nífalt fagnaðaróp, svo undir tók í fjöllum beggja vegna við landnám Ingólfs Arnarsonar. En er bergmál fagnaðarópsins dó út, kastaði íslendingurinn kveðju á Gullfoss og svaraði íslendingaskipið. Var nú snúið við og kom þá vélskipið "Hera" sem Garðar Gíslason á, og var hann þar sjálfur í stafni. "Hera" var svo fánum skreytt sem frekast var unnt og efst við sigluhúna blöktu tveir stórir íslenzkir fánar.


Gullfoss í Kaupmannahöfn á stríðsárunum.                                       Ljósmyndari óþekktur.
  
Hvar er "Danmark" ? Hvar er "Dannebrog" ? spurði hver annan og gláptu á Gullfoss. Hvar eru þjóðernismerkin, sem skip verða að hafa til þess að Þjóðverjar skjóti þau eigi í kaf ? Jú, við nánari athugun sáust merki eftir rauðar og hvítar randir niður við sjómál á skipinu. Dönsku þjóðernistáknin höfðu verið afmáð í Vestmanneyjum, en sjórinn hafði þvegið hið neðsta af, aðeins til þess að sýna, að þau hefðu verið þar einu sinni. Þá er að minnast á fánana á Gullfossi. Efst við sigluhúna blöktu einkennisfánar félagsins, blár kross (Þórshamar) á hvítum feldi og ýmsar skrautveifur teygðust niður að þilfari. Í afturstafni var Dannebrog póstfáni. Málað var yfir dönsku þjóðernistáknin á hliðum skipsins, svo sem fyrr er sagt, og skal þar ekki fleiri orðum að vikið. En í landi blöktu margir danskir fánar og var það skiljanlegt og fyrirgefanlegt af þeim er danskir eru þótt þeir veifi sinnar eigin þjóðar fána. En íslendingum, bornum og barnfæddum hér, er það eigi afsakanlegt að vilja heldur sýna lit annara þjóða en sinnar eigin. Þá var Th. Thorsteinsson betri. Eigi aðeins lét hann verzlanir sínar veifa íslenzkum fánum, heldur sendi hann einnig bát í móti Gullfossi og var þar veifað óteljandi íslenzkum fánum. Og milli siglutrjánna var sími strengdur og á honum miðjum fangamark verzlunarinnar, en beggja vegna íslenzkir fánar. Var það falleg kaupmannskveðja.


Gullfoss nær flaki er hann fannst í Kiel í stríðslok.                                          Ljósmyndari óþekktur.

Þegar Gullfoss kom inn á milli eyja fluttust farþegar Íslendingsins yfir í hann. Dreif þá jafnharðan að marga báta, stóra og smáa, sem vildu fagna skipinu og voru á flestum þeirra margir menn sem komnir voru til að skoða skipið. Og er það lagðist í hafnarmynninu dreif svo mikill fjöldi fólks um borð að naumast varð þverfótað á þiljum. Allir vildu fá að sjá "skipið sitt", enda var það heimilt. Hélst svo lengi dags að svo krökt var af fólki í skipinu sem fé í rétt þá er þéttast er. Og alltaf kvað við sama viðkvæðið: "En hvað skipið er fallegt" ! "En hvað það er traustlega byggt og snoturlega ! Óhóf ekkert en þægindi sem bezt má verða á slíkum skipum. Og margt fleira var sagt Gullfossi til verðugs lofs. Hvar sem í land var litið úði og grúði af fólki, sem komið var niður að sjónum til þess að fagna skipinu  Kvað þar við lúðrablástur, söngur og fagnaðaróp. Stóðu menn sem þéttast á hafnargörðum beggja megin, steinbryggjunni og Arnarhólstúni. Mátti engri tölu á þann manngrúa koma, en það sögðu þeir, er minnugir eru, að eigi hefði fleira fólk verið hér fram við höfnina þegar Friðrik 8. Danakonungur kom hingað, og verður þó eigi lengra jafnað. Dauf var koman inn á höfnina hefðu eigi bátarnir verið. Hér lágu mörg skip, flest dönsk, en ekkert þeirra fann hvöt hjá sér til þess að varpa kveðju á Gullfoss. "Vesta" og "Sterling" lágu á bakborða og þögðu. "Fálkinn" kvaddi skipið með fánanum á afturstafni en "spariflöggin" sparaði hann og hin dönsku skipin auðvitað líka.


Tjaldur ex Gullfoss l í Kaupmannahöfn.                                           (C) Handel & söfart museet.dk
  
Eina skipið, sem hér lá á höfn og hafði svo mikið við að varpa kveðju á Gullfoss, var franskur botnvörpungur og einn af fyrstu bátunum sem koma til móts við skipið sigldi undir frönsku flaggi og átti hann Chouillou kaupmaður. Þegar Gullfoss staðnæmdist inni á höfninni hélt ráðherra ræðu. Hann stóð á stjórnpalli, en manngrúinn fyrir neðan og hlýddi á. Hann mælti á þá Ieið að þetta væri íslendingum gleði- og gæfudagur. Íslenzka þjóðin fagnaði hér sínu eigin skipi, sem hún hefði eigi einungis lagt fé sitt í, heldur vonir sínar og framtíðarþrá. Sagði hann og, að íslenzka þjóðin færði á þessum degi stjórn Eimskipafélagsins hugheilustu þakkir sínar fyrir ósérplægni hennar og dugnað. Bað hann þess að allar góðar fylgjur yrðu þessu skipi hollar og leiddu það höfn úr höfn og frá hafi til hafs. Að endingu bað hann menn hrópa fagnaðaróp fyrir skipinu og komu þess og kvað þá við margfalt húrra.
Vér áttum tal við nokkra farþega á Gullfossi í gær. Luku þeir allir upp einum munni með það, að eigi hefðu þeir ferðast með skipi, er betra væri í sjó að leggja. Auk þess væru á skipinu ýms þægindi, er menn væru óvanir á þeim skipum, sem til Íslands sigla. Alla aðhlynningu kváðu þeir góða, enda eru veitingaþjónar gamalkunningjar íslendinga, flestir þeirra.

Morgunblaðið. 17 apríl 1915.


Eimskipið Gullfoss, fyrsta skip Eimskipafélags.                                (C) Þórhallur S Gjöveraa.

             Gullfoss í                         Vestmannaeyjum

Vel fögnuðu Eyjamenn íslenzka skipinu. En sem við mátti búast varð koman þar eigi jafn hátíðleg sem hér. Geta skal þó þess, að Eyjabúar færðu skipinu skrautritað ljóð í gyltri umgerð, og er það fest á vegg í matsofu fyrsta farrýmis. Sigurður Sigurðsson hafði ort og er það svolátandi:

Heill og sæll úr hafi
heill þér fylgi jafna.
Vertu giftugjafi
gulls, í milli stafna,
sigldu sólarvegi
signdur drottins nafni,
ötult, djarft að eigi
undir nafni kafnir.

Morgunblaðið. 17 apríl 1915.

30.05.2020 20:37

Þýska farþegaskipið Bremen.

Hraðskipið Bremen var smíðað hjá Deutsche Schiff-und Maschinenbau-Aktiengesellschaft. A.G. í Bremen í Þýskalandi á árunum 1928-29. 51.731 brl. Skipið hafði fjórar Getriebe túrbínuvélar með samtals 135.000 hestafla orku og í skipinu voru 20 olíukynntir katlar. Það var 286 metrar á lengd, 31 meter á breidd og djúprista var 10,5 metrar. Ganghraði skipsins var 28 sjómílur á klukkustund. Í áhöfn skipsins var um 1.000 manns, en skipið hafði rúm fyrir um 1.900 farþega, 540 á fyrsta farrými, 506 á öðru farrými og 836 á þriðja farrými.
Skipið var í eigu Norddeutscher Loyd í Bremen og þar var heimahöfn þess. Skipið fór alls um 190 ferðir á milli Bremerhaven og New York, auk nokkura skemmtiferða um suðurhöfin. "Bremen" hélt "bláa bandinu" um fjölda ára, þrátt fyrir harða samkeppni fjölmargra úthafsrisa annara þjóða. Hinn 16 mars árið 1941 kom upp eldur í skipinu. Tvennum sögum fer af endalokum þessa mikla skips þjóðverja. Þjóðverjar segja skipið hafa orðið loftskeytaárásum bandamanna að bráð á Weser fljóti hinn 16 mars árið 1941. Hin sagan er að skipsdrengurinn Gustav Schmidt hafi kveikt í skipinu. Síðdegis þennan sama dag hafi hann fengið löðrung frá einum bátsmanninum. Í hefndarskyni hafi hann kveikt í dýnustöflum sem geymdar voru í skotfærageymslunni. En hvað öllum heimildum líður, var skipið dregið inn til Bremerhaven þar sem enn má sjá í leyfar þessa mikla skips.


Bremen á siglingu.                                                                                  Ljósmyndari óþekktur.


Ein af 4 Getriebe túrbínum skipsins.                                                       Ljósmyndari óþekktur.


Í vélarrúmi skipsins.                                                                                  Ljósmyndari óþekktur.


Bremen í smíðum.                                                                                    Ljósmyndari óþekktur.


Bremen leggst að bryggju í New York árið 1935.                                          Ljósmyndari óþekktur.


Útlitsteikning af Bremen.


Líkan af farþegaskipinu Bremen.                                                         (C) Savy Boat Models.

24.05.2020 09:57

M. sk. Nordlyset strandar við Vestmannaeyjar.

Það var hinn 27 nóvember árið 1908 að "Nordlyset", skip hins íslenska steinolíufélags í Reykjavík strandaði á grunni við Vestmannaeyjar. Var skipið þá í olíuflutningum. Björgunarskipið "Svava" náði skipinu út og dró það til Reykjavíkur þar sem það var gert upp.
Mótorskonnortan Nordlyset LBKM. var smíðuð í Helsingborg í Svíþjóð árið 1897. 93 brl. Var með hjálparvél, stærð og gerð óþekkt. Alfred Fr Philipsen kaupmaður í Reykjavík og forstjóri Hins íslenska steinolíufélags í Reykjavík, sem var dótturfélag D.D.P.A (Det Danske Petroleumsselskab í Kaupmannahöfn), keypti skipið árið 1908. Nordlyset var í olíuflutningum milli hafna á Íslandi. Olían var þá flutt í stórum tréfötum. Nordlyset var selt úr landi árið 1915.


Mótorskonnortan Nordlyset á strandstað við Vestmannaeyjar 1908.        (C) Mynd úr safni mínu.


Nordlyset við Stykkishólm.                                                                          (C) Mynd úr safni mínu.

                Skipi hlekkist á

Seglskipið "Nordlyset" rakst á grunn við Vestmanneyjar 27. nóv. s.l. Skipið var fermt olíu, og tókst björgunarskipinu "Svava" að ná því á flot, og koma því til Reykjavíkur, og kvað lítið kveða að skemmdunum.

Þjóðviljinn ungi. 19 desember 1908.

17.05.2020 15:54

Ilivileq GR 2 - 201.

Frystitogarinn Ilivileq GR 2-201 var smíðaður hjá Astilleros Armon S.A. í Gijon á Spáni árið 2020. Smíðanúmer G-017. Skipið mun vera um 5.000 bt að stærð. 5.400 Kw Rolls Royce vél. 81,3 m. á lengd og 17 m. á breiddina. Upphaflega var skipið smíðað fyrir H.B.Granda hf og átti að heita Þerney, en Grandi hætti við að ég held. Skipið er í eigu grænlensk dótturfélags Brims hf sem er að öllu leiti í eigu Brims. Fullkominn vinnslubúnaður er í skipinu sem á að geta unnið um 150 tonn á sólarhring og einnig er um borð fiskimjölsverksmiðja, þannig að allt sem skipið veiðir er nýtt. Sannarlega glæsilegt skip Ilivileq. Tók þessar myndir af skipinu um síðustu helgi þegar skipið lá við Grandagarð í Reykjavíkurhöfn.


Ilivileq GR 2-201 við Grandagarð.                                    (C) Þórhallur S Gjöveraa. 10 maí 2020.


Ilivileq GR 2-201 við Grandagarð.                                       (C) Þórhallur S Gjöveraa. 10 maí 2020.


Úr brú Ilivileq.                                                                                 (C) Astilleros Armon.


Aðalvél skipsins, Rolls Royce 5.400 Kw.                                          (C) Astilleros Armon.


Í eldhúsi skipsins.                                                                                (C) Astilleros Armon.


Úr káetu skipsins.                                                                                           (C) Astilleros Armon.


Í vinnslusal skipsins.                                                                                       (C) Astilleros Armon.


Í vinnslusal skipsins.                                                                                        (C) Astilleros Armon.


Í frystilest skipsins.                                                                              (C) Astilleros Armon.


Í borðsalnum.                                                                                                    (C) Astilleros Armon.


          Nýr frystitogari Brims

Nýr frystitogari Brims lagðist við bryggju í Reykjavíkurhöfn í hádeginu í dag. Beðið hefur verið eftir skipinu með mikilli eftirvæntingu. Skipið er eitt það fullkomnasta í Norður-Atlantshafi. Skipið sem smíðað var á norður Spáni var hannað af Rolls Royce í Noregi í samstarfi við Brim.
Frystitogarinn er 81,8 metrar að lengd, 17 metra breiður og um 5000 brúttótonn að stærð. Við hönnun skipsins var orkusparnaður hafður að leiðarljósi, sem og sjálfvirkni. Aðstaða sjómanna er til fyrirmyndar og fullkomnasti búnaður til flökunar og frystingar er bæði byltingarkenndur fyrir vinnuaðstöðuna um borð og margfaldar framleiðslugetuna.

Fiskimjölsverksmiðja er í skipinu fyrir bein sem falla til við vinnsluna. Allur afli verður því fullnýttur og afkastageta vinnslunnar getur verið allt að 150 tonn á sólarhring. Í frystilestum verður rými fyrir allt að 1000 tonn af afurðum, flokkuðum á bretti.
Skipið er búið nýrri kynslóð af vélum frá Bergen-Diesel og Rolls-Royce með 5400 kW afli. Um borð er öflugt rafvindukerfi þar sem rafmagn fyrir vindurnar og annan búnað er framleitt með ásrafali.
Vinnsludekkið kemur frá Danmörku og flökunarvélarnar frá Vélfagi á Ólafsfirði.
Samspilið í hönnuninni gerir það að verkum að öll stýring vinnsluferla í skipinu er mjög nákvæm.
Skipið hóf heimferð fyrir fimm dögum frá Spáni með Pál Þóri Rúnarsson skipstjóra og Guðmund Kristján Guðmundsson stýrimanni í fararbroddi.
Skipið, sem fékk nafnið Ilivileq, er skráð í Qaqortoq á suður Grænlandi og er í eigu dótturfélags Brims á Grænlandi sem er í 100% eigu Brims. 

Brim hf. 5 maí 2020.


10.05.2020 11:07

143. Ljósafell SU 70. TFBS.

Vélskipið Ljósafell SU 70 var smíðað í Ekenaas í Svíþjóð árið 1948 fyrir Ríkissjóð Íslands (Otur hf ) í Reykjavík. Hét þá Otur RE 32. Eik. 101 brl. 260 ha. Polar vél. Frá 24 febrúar 1949 heitir skipið Áslaug RE 32, sami eigandi. Selt 14 janúar 1953, Hallgrími Oddssyni í Reykjavík, sama nafn og númer. Stofnlánadeild sjávarútvegsins eignast skipið í september 1957. Ný vél (1958) 360 ha. Alpha vél. Selt 25 júní 1958, Rún hf á Seyðisfirði, hét þá Guðrún NS 50. Selt 12 mars 1959, Búðarfelli hf á Fáskrúðsfirði, hét Ljósafell SU 70. Selt 30 mars 1965, Jóni Eiríkssyni hf á Höfn í Hornafirði, hét Jón Eiríksson SF 100. Skipið brann og sökk þegar það var á leið til Færeyja í slipp. Áhöfninni, 5 mönnum var bjargað um borð í bresku freigátuna Auroru sem hélt með skipbrotsmennina til Hornafjarðar.


Ljósafell SU 70.                                                            (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

        Síðasti Svíþjóðarbáturinn
             kominn til landsins

Nýlega er kominn hingað til lands nýr bátur frá Svíþjóð, er Otur heitir. Er þetta stór og fallegur bátur og í alla staði hið vandaðasta skip, 106 lestir að stærð. Er þetta sá síðasti af þeim fimmtíu bátum, sem samið var um smíði á í Svíþjóð fyrir íslendinga. Hinir bátarnir eru allir fyrir nokkru komnir til landsins. Otur er eign samnefns hlutafélags í Reykjavík, sem gerir bátinn út, og fer hann væntanlega á síldveiðar nú um helgina. Blaðamaður frá Tímanum skoðaði þennan glæsilega bát í gær, en hann er all frábrugðinn hinum Svíþjóðarbátunum að innréttingu, og hefir skipstjórinn, Matthías Jochumsson ráðið þeim breytingum öllum. Borðsalurinn er stærri en venja er, og í eldhúsi er rafmagnseldavél, sem er algjör nýjung, er ætti að geta gefizt vel. Hurðir allar eru tvöfaldar og annar frágangur allur eftir því, sem bezt verður á kosið. Mun ekki ofsögum sagt, að þessi bátur sé einhver vandaðasti bátur íslenzka bátaflotans að öllum frágangi.
Skipstjóri á Otri verður Matthías Jochumsson, og er hann jafnframt einn aðaleigandi fyrirtækisins. Sigurður Jónsson frá Bakka, kunnur togaraskipstjóri, sótti bátinn til Svíþjóðar og fylgdist með smíði hans frá því í haust. Í bátnum er 260 hestafla Atlas dieselvél, en auk þess 18 hestafla Lister Ijósavél. Otur kom hingað til Reykjavíkur 16. júní og er þetta 10. Svíþjóðarbáturinn, sem Reykvíkingar fá. Einkennisstafir hans eru RE 32.

Tíminn. 24 júní 1948.


143. Otur RE 32.                                                                                       Ljósmyndari óþekktur.

                Ljósafell SU 70

Í marsmánuði bættist við 1 stór bátur, 101 lest, til Fáskrúðsfjarðar. Var það vb. "Guðrún" N S 50, sem á síðasta ári var talinn frá Seyðisfirði. En nú hefur hf. Búðafell á Fáskrúðsfirði keypt bátinn, og hefur hann hlotið nafnið "Ljósafell", svo að nú eru stóru bátarnir á Fáskrúðsfirði orðnir 4, sem gerðir eru þaðan út í vetur.

Ægir. 7 tbl. 15 apríl 1959.


143. Jón Eiríksson SF 100 við bryggju á Höfn í Hornafirði.                             (C) Kiddi's workshop.


Mættum aðeins velvild um borð í Aróru

 Freigátan skilaði skipbrotsmönnunum                    5 til Hornafjarðar

"NEI, það var ekki minnzt á þorskastríðið eftir að við komum um borð, utan einu sinni að skipherrann á Áróru drap á það í gríni. Það var eftir að báturinn okkar var sokkinn og ég hafði þá orð á því við hann , að úr því sem komið væri þá vildum við heldur fara til Íslands en Þórshafnar, ef Áróra væri á leið þangað í grenndina . "Ja, til Íslands, " svaraði hann og brosti. "Ég fer ekki inn fyrir 50 mílurnar, eins og þú skilur!" Þannig komst Ástvald B. Valdimarsson skipstjóri á vb. Jóni Eiríkssyni SF 100, að orði þegar blaðamaður Morgunblaðsins hitti hann að máli á heimili hans í Höfn í Hornafirði í gærkvöldi. Báturinn sökk eftir eldsvoða sl. þriðjudagskvöld í grennd við Færeyjar. Skipherrann á Áróru hafði nefnilega endurskoðað afstöðu sína og eftir að hafa fengið nauðsynileg leyfi sigldi hann skipi sínu með íslenzku skipbrotsmennina innanborðs upp í landsteina fyrir utan Hornafjörð. Þaðan flutti svo einn af skipsbátum Áróru þá inn til hafnar.
Talsvert fjölmenni hafði safnazt saman á bryggjum til að fylgjast með komu áhafnarinnar á Jóni Eiríkssyni eftir að sézt hafði til ferða Áróru fyrir utan innsiglinguna um fimmleytið í gærdag. Árórumenn fóru sér að engu óðsleiga, lónuðu fyrir utan nokkra stund enda áttu þeir í brösum með skipsbátana. En um klukkan 6.30 lagðist svo skipsbáturinn að bryggju á Höfn og voru í honum skipbrotsmennirnir 5, sem Áróra hafði bjargað, og þrír af áhöfn Áróru fylgdu þeim í land. Blaðamanni Mbl. tókst að ná tali af einum þeirra, bátsmanninum, og spurði hann hvort þetta væri í fyrsta sinm sem þeir þrímenningarnir stigu á íslenzka grund. "Já, í fyrsta skipti," svaraði hann um leið og hann stappaði hressilega í trébitna í bryggjunni. Og hvert er ferðinni heitið? "Þarna út," svaraði hann óðar, benti í átt til Ároru og hló. Ég átti við hvert fer Áróra núna ? "Ég veit hvað þú áttir við," svaraði bátsmaðurinn aftur hinn kátasti, "við förum aftur í námunda við Færeyjar." Og hvað er Áróra að gera hér á norðurslóðum ? "Á eftirlitsferð eins og venjulega," svaraði bátsmaðurinn enn um leið og hann hoppaði um borð í skipsbátinn.
Nokkru síðar gafst okkur tóm til að hitta skipstjórann á Jóni Eiríkssyni, Ástvald Valdimarsson, og spyrja hann um eldsvoðann í bátnum og móttökurnar u Ég held það hafi verið Nesradíó sem fyrst náði kallinu frá okkur. Hvort Árora hafi verið næst okkur? - Nei, það held ég áreiðanilega ekki. Ég minnist þess, að skömmu áður en vélstjórinn kom upp til mín og tilkynnti um eldinn, þá sá ég til ferða skips um 200 lesta, og ég man að ég var einmitt að velta þá fyrir mér hvort þetta væri íslenzkur bátur. En það getur líka hafa verið lítill enskur togari.
Hvar Áróra var þegar hún fékk tilkynniguna um að við værum í hættu veit ég ekki fyrir víst, hins vegar sigldi hún til okkar á geysilegri ferð, yfir 30 mílna ferð og var komin til okkar eftir 3 ½  tíma. Fyrst komu þyrlurnar af skipinu og sveimuðu yfir okkur dágóðan tíma, sennilega til að vísa skipinu sjálfu á okkur. Síðan vorum við teknir upp, fyrst tveir og farið með þá um borð, síðan næstu tveir og loks ég síðastur. Satt að segja lenti ég í talsverðum erfiðleikum eftir að ég var orðinn einn. Árórumenn höfðu nefnilega kastað reykblysum í sjóinn til að lýsa upp, en þá tóku gúmbátarnir að reka hættulega nærri þeim og yfirvofandi var sú hætta að blysin kveiktu í bátunum. Átti ég fullt í fangi með að halda þeim frá blysunum en það hafðist og ég komst heilu og höldnu um borð í þyrluna. Okkur ber öllum saman að það hafi alls ekki verið eins óþægileg tilfinning og við áttum von á, að láta hífa sig svona um borð í þyrluna. Strax og komið var um borð voru þeir okkar, sem blotnað höfðu, færðir í þurran galla, gefin heit súpa og kaffi. En þyrlan var varla búin að skila mér um borð, en hún fór aftur í loftið með tvo menn af Áróru og dælitoki, sem látin voru síga niður í bátinn. Síðan var slökkvilið skipsins sent um borð í bátinn, og þeim tókst að slökkva eldinn svo að segja á samri stundu, enda augsýnilega þrautþjálfað lið. Eftir að eldurinn hafði verið slökktur, fór ég aftur um borð í Jón Eirikssom til að aðstoða þá við að setja neyðarstýrið á, því að hitt var brunnið og ónýtt.
Þá voru einnig negld borð á síður bátsins til að styrkja þær, en þær voru mjög veikbyggðar orðnar eftir eldinn. Síðan var báturinn tekinn í tog, og farið löturhægt fyrstu klukkustndina en þá var hraðinn aukinn og við það sökk báturinn svo að segja strax, enda var hann að því kominn að sökkva þegar Áróra kom fyrst að honum. Fljótlega eftir að ég kom um borð í Áróru, hafði ég samband við fulltrúa tryggingarfélagsins, þar sem ég tjáði honum það mat mitt, að enda þótt okkur tækist að koma bátnum til hafnar í Færeyjum, þá væri hann svo illa farinn að ekki mundi svara kostnaði að gera við hann. Fulltrúinn svaraði því þá til, að fyrst svo væri þætti honum ástæðulaust að reyna að draga bátinn til hafnar, hins vegar kæmi; ekki til greina að skilja hann eftir á floti og við yrðum að sökkva honum. Ég fór og sagði skipherranum á Áróru þetta álit tryggingarfulltrúans. "Nei, það kemur ekki til greina að sökkva bátnum," svaraði hann þá um hæl. ,,Þú getur rétt ímyndað þér fyrirsagnir blaðanna "Brezk freygáta í nánd við Ísland, strax farin að sökkva íslenzku bátunum!" Og báturinn var því tekinn í tog," sagði Ástvald að lokum.  

Morgunblaðið. 21 september 1972.


30.04.2020 22:12

Bátar við bryggju í Neskaupstað.

Við bæjarbryggjuna í Neskaupstað liggja þó nokkrir bátar. Ég veit ekki hvenær þessi mynd er tekin, en giska á árið 1975. Yst að austanverðu liggur færeyskur kútter, en þeir voru algengir á Norðfirði á þessum tíma. Utan á honum er sennilega 513. Árni Bergþór NK 25, hét áður Haddur SU 300. Eigandi hans var Hávarður Bergþórsson. Óþekktur í miðju, en sennilega 1127. Kögri NK 101 ystur, var í eigu Smára Einarssonar. Næst aftan við er sennilega 517.Hafbjörg NK 7. Var í eigu samnefnds hlutafélags í Neskaupstað. Hét Haraldur VE 246. Var áður í eigu Ölvers Guðmundssonar útgerðarmanns í Neskaupstað og hét þá Jón Guðmundsson NK 97. Þar utan við er 1122. Gullfaxi NK 11, eigandi hans var Guðmundur Þorleifsson (Gummi Dolla) útgerðarmaður í Neskaupstað. Hét áður Draupnir SI 62. Yst er 1368. Silla NK 42, eigandi hennar var Jón Sigurðsson útgerðarmaður í Neskaupstað, hét áður Rökkvi SU 45 og smíðaður á Borgarfirði eystra árið 1974.


Norðfirskir bátar og færeyskur kútter við bryggju í Neskaupstað.  (C) Sigurður Arnfinnsson.

    Friða verður norðfirsk trillumið
          fyrir stórum netabátum

Trilluútgerð er mjög mikilvægur þáttur í atvinnulífi margra sjávarplássa hér á landi. Þannig eru t.d. um 40 trillur gerðar út frá Neskaupstað á hverju sumri og færa frystihúsinu mikinn og góðan afla. Fréttaritari Þjóðviljans i Neskaupstað tók einn norðfirskan "trillukarl", Guðmund Karlsson, tali og lagði fyrir hann nokkrar spurningar. Guðmundur er 35 ára gamall Húsvíkingur, en flutti til Neskaupstaðar 1963. Hann er Stýrimannaskólagenginn og hefur stundað sjómennsku sem aðalstarf, m.a. stundað trilluútgerð héðan frá Neskaupstað flest sumur frá 1968.
Fyrst var Guðmundur spurður um eigin trillu. "Hún heitir Svala NK-54, hálfdekkuð, 4,3 tonn að stærð samkvæmt nýju mælingunni. Hún er smíðuð á Siglufirði 1961 og endurbyggð í Dráttarbraut Neskaupstaðar 1975." Hvað stendur trilluútgerð lengi? "Hún stendur frá því í byrjun maí og út október hér í Neskaupstað. Þetta finnst okkur mörgum helst til stuttur tími. Því ætlum við nokkrir að gera tilraun með grásleppuveiðar nú í apríl, og kanna hvort ekki sé hægt að lengja þannig vertíðina. Grásleppuveiðar hafa lítið verið stundaðar héðan, en ég trúi því, að hægt sé að gera héðan út á grásleppuveiðar með góðum árangri." Nú stendur trilluútgerðin hér svona stuttan tíma. Hvað gera trillukallar meðan þeir róa ekki?
"Það er nú margvislegt. Sumir fara á togara en aðrir vinna það sem til fellur í landi, og þeir sem best hafa fiskað taka því bara rólega." - Hvaða veiðarfæri eru notuð á trillum? "Færi, lína og þorskanet. Langflestir róa með færi og tel ég, að þau komi best út þegar á heildina er litið. Gjörbylting varð þegar rafmagnsrúllurnar komu til sögunnar. Gera þær vinnuna á sjónum margfalt léttari og svo eru þetta undraverkfæri í miklum fiski. Einn maður getur með góðu móti annað þremur rúllum, þannig að mikið er hægt að draga þegar sá guli gefur sig." - Hefur fiskgengd á trillumið norðfirðinga minnkað síðustu árin? "Ekki held ég það nú. Segja má, að trillumið okkar norðfirðinga séu á svæðinu frá Dalatanga að Gerpi, allt út í tólf mílur. Á þessu svæði hefur fiskgengdin áreiðanlega ekkert minnkað og fiskurinn að svipaðri stærð og áður." - Hvað með netaveiðar á þessu svæði? "Ég er algjörlega á móti öllum netaveiðum á stórum bátum á þessum fiskimiðum; þessar fáu trillur, sem róa með net héðan skipta ekki máli. Ef t.d. 10 stórir bátar kæmu hingað og legðu net sín á þau fiskimið, sem við stundum veiðar á þá gætum við lagt trillunum okkar og fengið okkur eitthvað annað að gera því þeir legðu trilluútgerð héðan gjörsamlega í rúst.
Það var farið fram á það í fyrra við stjórnvöld að svæðið væri friðað fyrir netaveiðum á stórum bátum, en því var synjað. En það verður að banna þessar veiðar nú þegar á þessu ári, því annars kann illa að fara, jafnvel svo illa, ef stórir flotar netabáta koma hingað á miðin, að norðfirsk trilluútgerð heyri sögunni til. En þar sem verið er að tala um, að við verðum að auka sókn í aðra fiskistofna en þorskinn, þá finnst mér sjálfsagt að opna hér svæði fyrir snurvoðarbáta frá því í endaðan september og til áramóta, því hér eru auðug skarkolamið, sem vel ma nýta." - Eru trillur ekki orðnar vel útbúnar til sjósóknar? ,,Jú, mikil ósköp. Allar eru þær komnar með dýptarmæla og þó nokkrar með radar. En það sem athyglisverðast er, er sú staðreynd, að í hverri trillu héðan frá Neskaupstað er talstöð og eykur það mikið öryggið. Vð tilkynnum Nesradíó þegar við förum af stað, aftur rétt fyrir hádegi og svo þegar við komum að landi. En þar sem ég er farinn að tala um öryggi á sjó finnst mér tilhlýðilegt að minnast á það að brýna nauðsyn ber til þess, að allir þeir sem róa einir, séu skyldaðir til þess að vera í björgunarvestum á sjónum. Til eru hentug björgunarvesti, sem hægt er að vera í innanundir fötunum."  - Er arðsamt að róa á trillu? "Þeir sem duglegastir eru bera mannsæmandi laun úr býtum. Hæsta trillan hér í fyrra fékk td. 65 tonn. En þetta er mikil vinna. Flestir fara á sjóinn á milli klukkan 4 og 5 á morgnana og koma að landi á tímabilinu frá klukkan 18-21, þannig að vinnudagurinn er langur og tímakaupið ekki alltaf hátt. En við norðfirskir trillukallar lítum björtum augum til framtíðarinnar og kvíðum engu ef stjórnvöld fást til að friða þau fiskimið, sem við róum á. fyrir stórum netabátum."

Þjóðviljinn. 10 apríl 1976.


26.04.2020 08:21

Stykkishólmshöfn sumarið 1986.

Þessa mynd tók ég í Hólminum í júlímánuði árið 1986. Ég var þá á leið í Flatey með Baldri. Bátarnir sem liggja við bryggjuna eru, talið frá vinstri,
154. Sigurður Sveinsson SH 36, TFVD, gerður út af Sigurði sf ( Sveinbjörn Sveinsson) í Stykkishólmi, smíðaður í Brandenburg í A-Þýskalandi árið 1959. 94 brl. Hét fyrst Mímir ÍS 30 og var í eigu hf Mímis í Hnífsdal.
778. Smári SH 221, TFUS, gerður út af Rækjunesi / Björgvin hf í Stykkishólmi. Smíðaður í Hafnarfirði árið 1949. 65 brl. Hét fyrst Smári TH 59 og var í eigu Útgerðarfélagsins Vísis á Húsavík.
853. Andri SH 21, TFYV, gerður út af Sigurjóni Helgasyni hf í Stykkishólmi. Smíðaður í Bardenfleth í A-Þýskalandi árið 1956. 66 brl. Hét fyrst Tálknfirðingur BA 325 og var í eigu Hraðfrystihúss Tálknafjarðar.
6700. Gustur SH 251,(guli plastarinn) í eigu Jóhannesar Þórðarsonar og Valgeirs Gunnarssonar í Stykkishólmi og Guðbrandar Þórðarsonar í Búðardal. 5,25 brl, smíðaður í Hafnarfirði árið 1985.


Skelfiskveiðiskip við bryggju í Hólminum í júlí árið 1986.              (C) Þórhallur S Gjöveraa.

                Stykkishólmur

Fiskvinnsla er megin stoð atvinnulífsins í Stykkishólmi, og eru starfrækt þar fjögur fiskvinnslufyrirtæki. Tvö þeirra vinna einkum hörpudisk, og hefur vinnsla á því hráefni skapað mikinn stöðugleika í atvinnulífi, auk þess sem næg atvinna hefur verið fyrir unglinga yfir sumartímann. Frá Stykkishólmi eru gerðir út 21 bátur og 34 trillur. Skipasmíðaiðnaður er og hefur verið mikilvægur hlekkur atvinnulífsins í Stykkishólmi. Stykkishólmshreppur er hluthafi í skipasmíðastöðinni Skipavík, sem annast nýsmíði og viðgerðir báta.
Einnig er starfrækt minni stöð, sem aðallega smíðar trillubáta. Byggingariðnaðarmenn eru margir í Stykkishólmi, og stunda þeir iðn sína á staðnum og þjóna nærliggjandi byggðum. Þrjár trésmiðjur eru á staðnum og vinna hjá þeim um 50 menn að staðaldri. Verzlun, viðskipti og önnur þjónusta er nokkur í Stykkishólmi. Á vegum Hólmkjörs hf. og Kaupfélags Stykkishólms er starfrækt sláturhús, sem nú er í uppbyggingu.
Á vegum hafnarsjóðs Stykkishólms hefur verið byggður nýr viðlegukantur í Stykkinu, eins og Stykkishólmi er í daglegu tali nefndur, byggð ný hafnarvog og unnið við endurbætur á dráttarbrautinni í Skipavík, sem hafnarsjóður á, en leigir Skipasmíðastöðinni Skipavík hf. Eins og fyrir aðrar hafnir landsins, er nú unnið að framkvæmdaáætlun í Stykkishólmshöfn fyrir áætlunartímabilið 1979-1982, og hefur hafnarnefnd nýlega afgreitt framkvæmdaáætlun sína. Er þar gert ráð fyrir nýbyggingum við dráttarbraut, löndunar og viðgerðarbryggju í Skipavík, nýbyggingu trébryggju, vörukanti við Mylluhöfða, lengingu Austurkants í Stykki og loks ísvarnargarði milli lands og Súgandiseyjar. Einnig er gert ráð fyrir dýpkun við Steinbryggju og viðgerð á henni. Ekki fékkst fjárveiting til framkvæmda við höfnina á árinu 1979 af þeim 223 millj. króna, sem varið er til hafnarmála á Vesturlandi, en vonir standa til, að veruleg fjárveiting fáist til hafnarframkvæmda á næsta ári í samræmi við væntanlega framkvæmdaáætlun.

Sveitarstjórnarmál. 2 hefti. 1 apríl 1979.13.04.2020 13:40

Síldveiðiskipið Guðmundur Þórðarson RE 70 bíður löndunar í Neskaupstað.

Síldveiðiskip bíða löndunar við bryggju í Neskaupstað árið 1958-59. Þar má meðal annars sjá vélskipið Guðmund Þórðarson RE 70 og skipstjóri þar væntanlega Haraldur Ágústsson. Guðmundur var fyrsta íslenska fiskveiðiskipið sem notaði kraftblökkina með góðum árangri eftir smávægilegar lagfæringar. M.a. var settur nótakassi á bátadekkið. Kraftblökkin, þetta undratæki, var fundin upp af bandaríkjamanninum Mario Puretjc í samstarfi við fyrirtækið Marco of Seattle í Bandaríkjunum árið 1955 og var upphaflega ætlað til tunfiskveiða, þ.e. að draga netin um borð í skipin.
Vélskipið Guðmundur Þórðarson RE 70 var smíðaður í Strusshamn, Asköy í Noregi árið 1957 fyrir Baldur Guðmundsson útgerðarmann í Reykjavík. Stál, 209 brl. 320 ha. Wichmann vél. Skipið var selt 15 október árið 1970, Ólafi R Sigurðssyni Ytri Njarðvík, Magnúsi Ásgeirssyni og Karli Helgasyni í Grindavík, sama nafn og númer. Skipið var endurmælt árið 1971, mældist þá 161 brl. Talið ónýtt og tekið af skrá 2 október árið 1979.


Síldveiðiskipið Guðmundur Þórðarson RE 70 bíður löndunar við bryggju í Neskaupstað ásamt nokkrum öðrum skipum. Held að myndin sé tekin áður en kraftblökkin kom um borð í skipið. Nokkrir nótabátar liggja einnig við bryggjuna.    (C) Sigurður Guðmundsson.

                  Nýtt fiskiskip

Hinn 14. maí kom til Reykjavíkur nýtt fiskiskip, "Guðmundur Þórðarson". RE 70. Skipið er byggt úr stáli í Strusshamn, Asköy, Noregi 1957, en eigandi þess er Baldur Guðmundsson, útgerðarmaður í Reykjavík. Fer hér á eftir lýsing á skipinu. Stærð:
Lengd 31,85 m.,
breidd 6,85 m.,
dýpt 3,45 m.,
208 brúttólestir.
Aðalvél: Wickmann-diesel 320/400 ha.
Ganghraði í reynsluför 10.6 sjóm.
Hjálparvélar: Buck 40 ha. og 20 ha. 3 rafalar.
Vökvadrifnar vindur:
Þilfarsvinda,
línuvinda og ankerisvinda.
Auk þess er bómuvinda, sem hreyfir bómuna úr borði í borð og þar af leiðandi þarf ekki "gertamenn" við lestun og losun. Báturinn er fyrsti fiskibáturinn, sem þessi tegund vindu er sett í og fyrsta íslenzka skipið, sem hefur þannig olíudrifna bómuvindu. Í bátnum er þýzk miðunarstöð, talstöð og dýptarmælir með asdikútbúnaði af Simradgerð og rafmagns- og vökvadrifið stýri. Mannaíbúðir:
Fram í undir þilfari eru 2 þriggja manna og 1 fjögra manna lúkarar og undir hvalbak er einn þriggja manna lúkar.
Aftur í undir þilfari eru fjögur eins manns herbergi ætluð fyrir stýrimann, 1. og 2. vélstjóra og matsvein. Fremst í reisn er íbúð skipstjóra, en þar aftan við er eldhús og matsalur. Í bátnum eru 3 snyrti- og þvottaherbergi fyrir skipverja, með 2 steypiböðum. Miðstöðvarhitalögn og rafmagnshitalögn er í öllum íbúðum og heitt og kalt vatn leitt í öll íbúðarherbergi. Á bátaþilfari er að framan stýrishús en aftan við það kemur herbergi fyrir talstöð og miðunarstöð og enn aftar kortaklefi. Hjálmar Bárðarson, skipaskoðunarstjóri gerði teikningu og smíðalýsingu af bátnum. Byggingarverkstæði er Haugsdal Skipsbyggeri, Strusshamn, Asköy.
Skipstjóri er Björgvin Oddgeirsson frá Grenivík.

Ægir. 1 júní 1957.


Guðmundur Þórðarson RE 70.              (C) Snorri Snorrason.  Úr safni Atla Michelsen.


Líkan Gríms heitins Karlssonar af Guðmundi Þórðarsyni RE 70.     (C) Þórhallur S Gjöveraa.

                  Kraftblökkin

Þann 21. júní, 1959 hélt m/s Guðmundur Þórðarson, RE 70 til síldveiða við Norðurland, með hringnót og búinn kraftblökk. Nótinni var komið fyrir aftast á þilfari skipsins og henni kastað og hún dregin af skipinu, en ekki notaður nótabátur. Lítill vélbátur var hafður meðferðis, var hann hafður í enda nótarinnar þegar kastað var og síðan til þess að halda nótinni frá skipinu á meðan háfað var.
Kraftblökkinni var komið fyrir í bómu á afturmastri skipsins og voru stjórntækin fyrir blökkina við mastrið. Bóma var höfð tvo metra aftan við bakka og korkaendi nótarinnar bundinn fremst á hana, þegar bundið var á síðu og háfað, en brjóstið lá í fellingum eftir henni að síðunni og steinateinninn bundinn aftureftir skipinu. Nótin var síðan hífð inn með kraftblökk, þar til að hægt var að háfa. Fyrirkomulagið reyndist ekki vel, skipið dróst inn í nótina með afturendann. Á tímabilinu frá 23. júní til 6. júlí var kastað átta sinnum. Fékkst síld í flestum köstunum, en þó aldrei yfir 100 tunnur í kasti.
Í þessum köstum komu í ljós töluverðir annmarkar á þessu fyrirkomulagi. Staðsetningin á blökkinni var slæm og erfitt að þurrka upp með henni.
Eftir þessi átta köst var gerð breyting. Smíðaður var nótakassi á bátadekki og blökkin færð í fremri davíðuna stjórnborðsmegin. Stjórntæki blakkarinnar voru færð að brúnni stjórnborðsmegin. Einnig varð að grynna poka nótarinnar. Við þessa endurbót var þrautin leyst og hafa aðrir byggt á reynslu þeirri er þarna fékkst. Stærð nótarinnar var 230 faðmar að lengd og 53 faðmar á dýpt, felling 40 til 50 %. Kastað var 72 sinnum. Afli var 13.250 mál & tunnur. Úthaldsdagar voru 77. M/b Guðmundur Þórðarson var þriðja aflahæsta skipið á sumarsíldveiðunum 1959, þrátt fyrir tafirnar við tilraunirnar. Með þessu afreki urðu þáttaskil í sögu síldveiðanna hér við land og byggðu aðrar fiskveiðiþjóðir við Norður-Atlantshaf á þeirri reynslu, sem fékkst með tilrauninni á m/s Guðmundi Þórðarsyni. Skipstjóri var Haraldur Ágústsson, stýrimaður Björn Ólafur Þorfinnsson, yfirvélstjóri var Sigurður Gunnarsson, Brettingur.
Eigandi skipsins var Baldur Guðmundsson útgerðarmaður í Reykjavík og kostaði hann tilraunina alfarið sjálfur.


Morgunblaðið 9 ágúst 1995.


08.04.2020 14:01

Seglskipið Gyða frá Bíldudal.

Seglskipið (Jaktin) Gyða var smíðuð á Bíldudal af Kristjáni Kristjánssyni skipasmið frá Veðrará í Önundarfirði árið 1892  fyrir P. J. Thorsteinsson & Co á Bíldudal. Eik og fura.15 brl. Gyða fékk skráningarnúmerið BA 69, 1904-05. Selt 4 apríl 1905, Hannesi B Stephensen & Co á Bíldudal. Pétur kaupir Gyðu aftur 5 september 1907. Gyða var talin hafa farist í mynni Arnarfjarðar 23 apríl árið 1910 með allri áhöfn, 8 mönnum. 
Það var svo í nóvember árið 1953 sem mastrið af Gyðu að talið var, kom í rækjutrollið hjá m.b. Frigg BA. Mastrið og minnisvarði um þá sem fórust með skipinu er á Bíldudal.


Seglskipið Gyða á Bíldudal.                                                                      Ljósmyndari óþekktur.


Minningaskjöldur um sjómennina 8 sem fórust með Gyðu á Bíldudal.


Minnisvarðinn og mastrið á Bíldudal.                                (C) Þórhallur S Gjöveraa. 13 ágúst 2008.

             Seglskipið "Gyða"

Um fiskiskipið "Gyða", er fórst frá Bíldudal á nýafstöðnu vori sbr. 23-24. nr. "Þjóðviljinn" þ. á., hafa oss nú borizt grenilegri fregnir, en þar var getið. Það er talið víst, að "Gyða hafi farizt laugardagsnóttina fyrstu í sumri. Skip frá Bíldudal mætti henni á innsiglingu úti í mynni Arnarfjarðar föstudagskvöldið fyrsta í sumri. en um kl. 1-2 um nóttina gerði afspyrnuveður af norðri, með frosti og fannkomu, og er álitið, að "Gyða" muni hafa verið komin inn undir Stapadal, er hún fórst, með því að rekið hefir af henni ýmislegt lauslegt, þar á meðal tvo þiljuhlera, og tvo sjóhatta, á Fífustaðahlíðum, milli Fífustaða og Selárdals, flest á mánudaginn, eptir að slysið varð. Á skipinu voru þessir menn:
1. Þorkell Kristján Magnússon, skipstjóri, kvæntur maður á Bíldudal, er lætur eptir sig ekkju og fjögur börn, þar af þrjú í ómegð.
2. Magnús, sonur hans, er var stýrimaður, 18 ára að aldri.
8. Páll Jónsson, 15 ára, sonur síra Jóns Árnasonar á Bíldudal.
4. Jón Jónsson, unglingspiltur á Bíldudal, 19 ára að aldri.
5. Jón húsmaður Jónsson, í Hokinsdal, kvæntur maður, aldraður, er lætur eptir sig ekkju og uppkomna dóttur.
6. Ingimundur Loftsson, ekkjumaður að Fossi í Suðurfjörðum, 58 ára. Átti uppkomin börn.
7. Einar Líndal Jóhannesson, til heimilis að Bakka í Dalahreppi, 31 árs. Hann lætur eptir sig ekkju, og þrjú börn í ómegð.
8. Jóhannes Leopold Sæmundsson að Vaðli á Barðaströnd, kvæntur maður, er átti eitt eða tvö börn í ómegð. Hér er að mun skýrt glöggar frá þeim sem drukknuðu, en gert var í fyrgreindu nr. blaðs vors. Þegar litið er á manntjónið af "Industri", frá Patreksfirði, en á því skipi voru og ýmsir úr Arnarfirði, þá er ljóst, að í Arnarfirði á margur um sárt að binda, eptir skipskaða þessa og hefir eigi slíkt mannfall átt sér þar stað síðan bátstapinn mikli varð þar í sept. sumarið 1900. Hlutaðeigandi sveitir hafa og misst mikið, þar sem þær hafa misst nýta og dugandi menn, og efnilega unglinga.

Þjóðviljinn ungi. 5 ágúst 1910.


03.04.2020 17:05

S.t. Trocadero GY 129 strandar austan Grindavíkur.

Það var aðfaranótt 6 september árið 1936 að fólk í Grindavík varð vart við togara sem strandað hafði rétt austan við bæinn. Reyndist þetta vera Grimsbytogarinn Trocadero GY 129. Var strandstaður skipsins töluvert langt frá landi og útilokað að koma taug um borð og heldur ekki mögulegt að fara þangað út á báti vegna dimmviðris og veðurs. Í birtingu sást til togarans og hafði hann þá borist nær landi. Slysavarnadeildin Þorbjörn í Grindavík kom mjög fljótlega á staðinn, ákveðið að bíða birtingar og vonast að skipið ræki nær landinu. Þegar það gekk eftir, skutu þeir línu til hins strandaða skips og heppnaðist það í þriðju tilraun. Síðan voru skipsbrotsmennirnir dregnir til lands í björgunarstól þar til þeir voru allir 14 talsins komnir upp í fjöru.
Trocadero GY 129 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1902 fyrir Humber Steam trawling Co Kingston Upon-Hull. Hét fyrst Walter S. Bailey H 546. 244 brl. 1x3 triple expansion engine 63 n.h.p. power. Smíðanúmer 316. 38,1 m. á lengd, 6,7 m. á breidd. Togarinn var í eigu Line Fishing Co Ltd í Grimsby þegar hann strandaði. Trocadero eyðilagðist á strandstað.

Af ljósmyndunum af skipinu að dæma var Trocadero GY 129 enginn "línuveiðari", frekar 244 brl. botnvörpungur. Kannski hefur verið einhver "misskilningur" hjá mörlandanum um að ræða, því skipið var þá í eigu "Line Fishing" Co Ltd í Grimsby. Það væri þá vel í samræmi við flestar þær upplýsingar um strönd erlendra skipa hér við land á þessum tíma. Margar þeirra svo vitlausar að það tók út yfir allt það sem vitlaust var, þó vægt sé til orða tekið. !!


Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík að bjarga 14 skipverjum af togaranum Trocadero GY 129 frá Grimsby.   (C) Einar Einarsson.


S.t. Trocadero GY 129.                                                                  (C) James Cullen.


S.t. Walter S. Bailey H 546.                                                     (C) James Cullen.

      Enskur línuveiðari strandar                            í Grindavík
         Skipsmönnum 14 talsins                             bjargað á línu

Um klukkan 2 aðfaranótt sunnudags strandaði enskt línuveiðaskip, Trocadero frá Grimsby, suður í Grindavík. Það var utan til við þorpið í Grindavík, miðhverfið, sem skipið strandaði. Svarta myrkur var og talsverður stormur. Þegar þorpsbúar urðu strandsins varir fór björgunarsveitin út. Ekki var viðlit að koma út báti, vegna brims. Skipið var svo langt undan landi, að björgunarmenn treystu sjer ekki að skjóta út línu, enda var dimt. Tóku björgunarmenn því það ráð að bíða í fjörunni þar til að birti. Þegar birta tók sáu björgunarmenn úr landi að skipsmenn voru frammi á hvalbaknum, en ekki nein hætta á ferðum, þar sem sjór fór batnandi. Skipið var það langt undan landi, að erfitt var að draga menn á línu í land; var því afráðið að bíða enn um stund, því að skipið færðist altaf nær landinu. En nú virtust skipsmenn verða órólegir og tóku að skjóta línu frá borði, en drógu ekki til lands. Til þess að skipsmenn færu ekki að freista þess að fara að yfirgefa skipið og þar sem þeir virtust órólegir, var skotið til þeirra línu úr landi og hæfði hún skipið.
Var nú byrjað að draga mennina á land í björgunarstól. En þetta gekk fremur seint til að byrja með, því að vegalengdin var löng. Tókst þannig að bjarga öllum mönnunum, 14 talsins, á land og var því lokið um kl. 10.30 á sunnudagsmorgun. Skipbrotsmenn voru talsvert þjakaðir er þeir komu á land, því að þeir voru mikið í sjó í drættinum. Þeir hresstust þó fljótt, er þeir fengu aðhlynningu í landi. Skipið er 35 ára gamalt og lítil von til að það náist út.

Morgunblaðið. 8 september 1936.


01.04.2020 16:31

64. Svala SU 7. TFBO.

Vélskipið Svala SU 7 var smíðað í Halsö í Svíþjóð árið 1939. Eik. 81 brl. 200 ha. June Munktell vél. Það voru Páll Oddgeirsson útgerðarmaður, Gunnar Marel Jónsson skipasmiður og Guðni Jóhannsson skipstjóri í Vestmannaeyjum sem keyptu bátinn frá Gautaborg í Svíþjóð í febrúar 1946, hét þá Heimaklettur VE 12. Skipið var selt 4 mars 1947, H.f. Heimakletti í Reykjavík, hét Heimaklettur RE 26. Selt 16 október 1953, Svölunni hf (Þórlindi Magnússyni skipstjóra og fl.) á Eskifirði, hét þá Svala SU 7. Ný vél (1955) 330 ha. GM vél. Selt 18 mars 1963, Svölunni hf á Fáskrúðsfirði, sama nafn og númer. Endurmælt árið 1965, mældist þá 102 brl. Selt sama ár, Halldóri Bjarnasyni í Reykjavík, hét Guðmundur góði RE 313. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 30 september árið 1967.


64. Svala SU 7.                                                             (C) Geir Hólm. / Ljósmyndasafn Eskifjarðar.


Heimaklettur RE 26 (frekar en VE 12) að landa síld á Siglufirði.             Ljósmyndari óþekktur.

      Nýr bátur til Vestmannaeyja

Síðastliðinn laugardag kom hingað til Eyja bátur, sem keyptur hafði verið hingað frá Sviþjóð. Eigendur bátsins eru þeir Gunnar Marel Jónsson skipasmíðameistari, Páll Oddgeirsson útgerðarmaður og Guðni Jóhannsson skipstjóri. Var frjettamönnum blaða og útvarps boðið í gær, ásamt fleiri gestum, að skoða skipið. Er það hið glæsilegasta. Skipið er keypt í Gautaborg fyrir 340.000 íslenskar krónur og er 84 smálestir að stærð með 200 hestafla June Munktell-vjel, og er ganghraði yfir 9 mílur. Skipið er raflýst. Mannabústaðir eru mjög rúmgóðir og vel úr garði gerðir. Er upphitun með miðstöðvarkyndingu, og yfirleitt má segja, að útbúnaður skipsins sje mjög fullkominn enda er skipið svo að segja nýtt, aðeins 5 ára. Skipið hlaut nafnið "Heimaklettur". Hafa eigendur í hyggju að nota það til fiskflutninga í vetur og á síld að sumri.

Morgunblaðið. 14 febrúar 1946.


Flettingar í dag: 275
Gestir í dag: 41
Flettingar í gær: 779
Gestir í gær: 80
Samtals flettingar: 859318
Samtals gestir: 63061
Tölur uppfærðar: 23.6.2024 04:19:06