15.05.2017 06:27

745. Gunnbjörn ÍS 18. TFGH.

Gunnbjörn ÍS 18 var smíðaður í Gautaborg í Svíþjóð árið 1929. Eik og fura. 46 brl. 90 ha. Ellwe vél. Eigendur voru Guðmundur Kr Guðmundsson og fl. á Ísafirði frá 21 desember árið 1929. 3 nóvember 1943 var Samvinnufélag Ísfirðinga Ísafirði skráður eigandi skipsins. Ný vél (1945) 120 ha. Ruston díesel vél. Báturinn var seldur haustið 1955, Karli Stefánssyni og Hjálmari Gunnarssyni á Grundarfirði, hét Sigurfari SH 105. Ný vél (1958) 200 ha. Lister díesel vél,(árgerð 1949). Árið 1961 mældist báturinn 45 brl. ný vél (1963) 220 ha. Caterpillar díesel vél. 2 desember voru Hjálmar Gunnarsson og Jenný Ásmundsdóttir í Grundarfirði skráðir eigendur. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 18 ágúst árið 1981. Var þá búinn að liggja í reyðileysi í um 4 ár.


Gunnbjörn ÍS 18.                                                                                (C) Sigurgeir B Halldórsson.

             Gunnbjörn ÍS kominn

M.b. Gunnbjörn kom hingað á miðvikudagsmorgun eftir fjögurra sólarhringa ferð frá Færeyjum. Þangað var hann þrjá sólarhringa frá Svíþjóð. Í Norðursjónum hreppti hann fárviðri, en allt gekk slysalaust. Eru nú bátar samvinnufelagsmanna orðnir 7.

Skutull. 16 desember 1929.

     Samvinnufélag Ísfirðinga Ísafirði

Samvinnufélag Ísfirðinga tók til starfa nú um áramótin. Félagið var formlega stofnað og lög þess samþykt i árslok 1927. Var síðan sótt til Alþingis um að ríkisstjórninni heimilaðist, að ábyrgjast allt að 4/5 kaupverðs báts hvers, er félagið hafði sett sér að markmiði að útvega félagsmönnum. Ábyrgðarheimild sú, er Alþingi samþykti í þessu skyni, nam allt að 320 þús. kr. Jafnfram var áskilið, að Ísafjarðarkaupstaður væri á undan ríkissjóði í nefndri ábyrgð, svo og að sjálfsögðu eigendur hvers skips, og að lokum skipin sjálf með 1. veðrétti. Eigendur hafa lagt til 1/5 hluta kaupverðs, svo ábyrgðin er ekki nema fyrir 4/5 verðsins, eins og áður segir. Bátarnir, sem keyptir hafa verið eru 5, smíðaðir í Risör í Noregi, með Elve vélum. Bátarnir komu hingað um og eftir áramótin. Þeir eru rúmlega 40 smálestir með 90 hesta vélum, lagleg skip og rúmgóð.
Þeir heita Ásbjörn, Ísbjörn, Sæbjörn, Valbjörn og Vébjörn. Eigendur bátanna eru fyrst og fremst skipstjórar þeirra, hvors um sig, og fleiri og færri menn í félagi með þeim. Hvert bátsfélag er sérstök og sjálfstæð deild innan Samvinnufélagsins, þannig að hvert bátsfélag ábyrgist einungis skuldbindingar sínar, nema að því leyti sem viðskiftin við Samvinnufélagið snertir. Bátarnir hafa reynst nokkuð dýrari en áætlað var í fyrstu, en ekki svo að ábyrgðarheimild Alþingis sé tæmd með þessum 5 bátum. Býst ég ekki við að aukið verði við fleiri bátum fyrst um sinn. Aðallánin til bátskaupanna eru fengin erlendis með góðum lánskjörum. Því hefir verið fleygt, að Alþingi hafi sýnt gáleysi með nefndri ábyrgð. En þegar þess er gætt að Ísafjarðarkaupstaður, eigendur skipanna, auk 1. veðréttar í skipunum, ganga á undan ábyrgð ríkissjóðs, þá verður ekki með sanngirni sagt, að Alþingi hafi sýnt óvarkárni í þessu efni. Að öðru leyti verður reynslan og framtíðin að sýna hvernig þessu reiðir af. Kreppur og erfið ár geta öllu grandað, þótt í aðalatriðum sé stefnt í rétta átt.

Ísafirði, 19. janúar 1929. Kristján Jónsson frá Garðsstöðum.

Ægir. 19 janúar 1929.

14.05.2017 10:13

Hólmsteinn ÍS 155.

Hólmsteinn ÍS 155 var smíðaður í Skipasmíðastöð Marselíusar Brenharðssonar á Ísafirði árið 1940. Eik og fura. 15 brl. 44 ha. Kelvin díesel vél. Eigandi bátsins var h/f Kaldbakur á Þingeyri frá 16 nóvember sama ár. Hólmsteinn var skotinn niður af þýska kafbátnum U-204 um 30 sjómílur út af Deild 31 maí árið 1941. Áhöfnin, 4 menn fórust í þessari fólskulegu árás. Kafbátsmönnum hefndist stuttu síðar fyrir þetta níðingsverk.


Hólmsteinn ÍS 155.                                                               (C) Jón Bjarnason. Mynd úr safni mínu.

                    Nýr vélbátur

Í þessari viku hljóp af stokkunum í skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar hér á Ísaflrði nýr vélbátur, Hólmsteinn að nafni, 14,03 smálestir. Báturinn er úr eik og með sama lagi og Ðísirnar og Páll Pálsson frá Hnífsdal. Í bátnum er ensk vélartegund, og heitir hún Kelvin. Eigandi þessa báts er nýtt hlutafélag á Þingeyri í Dýraflrði. Það heitir Kaldbakur. Í stjórn þess eru Edvard Proppé, Matthías Guðmundsson vélaverkfræðingur og Óskar Jóhannesson hreppstjóri, sem gekkst fyrir stofnun félagsins og er formaður stjórnarinnar. Skipstjóri á bátnum verður Björn Jónsson frá Þingeyri, Jóhannssonar.
Báturinn er heitinn eftir Jóni Hólmsteini Guðmundssyni, lengi bónda á Granda í Brekkudal, föður Guðmundar, sem nú er skipstjóri á e. s. Eddu. Jón Hólmsteinn var lengi skipstjóri á seglskipum frá Þingeyri, aflamaður í bezta lagi og stjórnandi ágætur. Hann var. lengst skipstjóri á skonnortunni Phönix, sem áður hét Rósamunda, en það skip hafði einkennisbókstafína ÍS 155, og
hefir Hólmsteinn hlotið þá í arf. Hólmsteinn er hin fríðasta og vandaðasta fleyta, og er þess að vænta, að honum fylgi gæfa og gengi svo sem nafna hans Jóni Hólmsteini. Færi betur, að Dýrflrðingar gætu sem fyrst bætt við sig svo sem tveimur, þremur bátum af svipaðri stærð og þessi er og ekki síður vönduðum að allri gerð.

Skutull. 16 nóvember 1940.

       Óttast um bát með 4 mönnum

"Vjelbáturinn "Hólmsteinn", 14 smálestir að stærð, réri frá Þingeyri s.l. föstudag, en hefir ekki komið fram síðan, og er farið að óttast um afdrif bátsins og fjögra manna, sem á honum voru. Veður var hið besta fyrir Vesturlandi þangað til í gær, að nokkuð hvesti og komst vindurinn upp í 6-7 vindstig, og er því næsta óskiljanlegt, hvað orðið hefir að hjá bátnum. Vjelbátur frá Þingeyri fór að leita ,,Hólmsteins" á hvítasunnudag. Fundu bátverjar 6 bjóð af lóð ,,Hólmsteins", en hann var alls með 14 bjóð. Slysavarnafjelagið hefir beðið skip að svipast um eftir bátnum, en hann hefir ekki fundist. Flugvjelin Haförnin ætlaði kl. 3 í nótt til að leita bátsins.

Morgunblaðið. 4 júní 1941.

     Hólmsteinn ÍS 155 skotinn niður

Föstudaginn 30.maí 1941 fór Hólmsteinn í hefðbundinn róður út af Vestfjörðum. Um borð voru fjórir þaulvanir sjómenn og veður hið ákjósanlegasta til fiskveiða á miðunum vestur af Dýrafirði. Síðan spurðist ekkert til Hólmsteins né áhafnarinnar og í landi var fólk farið að óttast um hann. Bátur var þá sendur frá Þingeyri til leitar ásamt varðskipinu Óðni. Einnig leitaði flugvél (Haförninn) á stóru svæði, en ekkert fannst nema 6 bjóð. Þann 5 júní fann síðan vélbáturinn Kveldúlfur frá Hnífsdal tvo tóma lóðastampa (hálftunnur) um 28 sjómílur NV af Deild.(beint út af Dýrafirði) og talið var víst að lóðastamparnir væru frá Hólmsteini komnir.
Það vakti athygli manna að lóðastamparnir frá Hólmsteini vor með kúlnagötum, auk þess sem í þeim fannst sprengjubrot sem benti til þess að skipverjar á Hólmsteini hefðu lent í skothríð. Það var hald manna að Hólmsteinn hafi óvart lent á átakasvæði Þýskra og Breskra herskipa sem börðust nú um yfirráðin yfir Atlantshafi.
Hólmsteinn hafði verið við fiskveiðar út af Dýrafirði í sæmilegu veðri þegar Walter Kell foringi á kafbátnum U-204 varð var við Vb.Hólmstein. Um kl 5:15 um morguninn (31.maí) kom kafbáturinn úr kafi og réðst á fiskibátinn fyrirvaralaust með vélbyssu og sökkti honum. Stóð árásin í um klukkustund. Í árásinni fórust einnig skipverjarnir fjórir.
Hólmsteinn var fyrsta fórnarlamb Walter Kell á kafbátnum U-204. Erfitt er að glöggva sig á hvað Walter gekk til með að ráðast á svo lítilfjörlega bráð sem augljóslega hafði engan tilgang og hafði í raun ekkert með gang styrjaldarinnar að gera. Hinsvegar höfðu þjóðverjar lýst því yfir að N-Atlantshafið væri ófriðarsvæði og að öll skip og bátar sem þar færu um væru lögmæt skotmörk.
Skipverjar á Hólmsteini voru:
Ásgeir Sigurðsson formaður frá Bolungarvík, Níels Guðmundsson, Helgi Jóhannsson og Guðmundur Kristjánsson, allir frá Þingeyri.
Vélbáturinn Hólmsteinn ÍS 155 var 14 tonna eikarbátur, gerður út frá Þingeyri vorið 1941. Eigandi var Kaldbakur hf.
Walter Kell var fæddur 14.desember 1913. Hann fórst með kafbátnum U-204 þann 19 oktober 1941 þegar honum var sökkt af korvettunni  HMS Mallow.

Sagnabrunnurinn. 10 júlí 2010.


13.05.2017 10:34

B. v. Glaður RE 248. LCJV.

Glaður RE 248 var smíðaður hjá Schiffsbau Geselleschafts Unterweser í Lehe (Bremerhaven) í Þýskalandi árið 1921. 316 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 188. Eigendur voru feðgarnir Sigfús Blöndahl og Magnús Th.S.Blöndahl frá vori 1922. Þeir keyptu skipið í þýskalandi ásamt öðrum togara sem var Gulltoppur RE 247. Fljótlega var stofnað félag um rekstur skipanna og hét það h/f Sleipnir. Voru skipin gerð út frá Reykjavík. Skipið var selt í árslok 1925, Ólafi Jóhannessyni & Co á Patreksfirði, skipið hét Leiknir BA 151. Togarinn strandaði austan Kúðaóss 21 nóvember árið 1931. Áhöfnin, 19 menn, bjargaðist á land með hjálp heimamanna í Álftaveri en skipið eyðilagðist. Enn í dag má sjá í flak Leiknis í sandinum þar austurfrá.

Glaður RE 248.                                                                                (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

Glaður RE 248.                                                                                (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

Leiknir BA 151.                                                                                             Mynd í minni eigu.

Leiknir BA 151.                                                                               (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

Togarinn "Leiknir" strandar við Kúðaós. 

                      Mannbjörg 

Fyrir fáum dögum barst hingað sú fregn, að togarinn »Leiknir« frá Patreksfirði hefði hefði strandað við Kúðaós, fram af Álftaveri. Fregn þessi hafði borist með loftskeyti frá togaranum, og hafði Loftskeytastöðin í Reykjavik náð fregninni. Var sýslumanninum í Skaftafellssýslu þegar tilkynnt um strandið, en hann gerði ráðstafanir til þess, að Álftveringar færu á strandstaðinn. Þeir voru komnir á strandstaðinn kl. 9-10 . Loftskeytastöðin hér í bænum hafði samband við »Leikni« til kl. 2; taldi skipstjóri víst, að skipverjar kæmust allir í land með fjöru. Kl. um 1 voru 6 skipverjar komnir á land. Aðstandendur skipverja voru mjög áhyggjufullir er ekkert fréttist siðari hluta dags en áður dimma tók, fréttist að allir væru komnir á land. Þau fara að verða nokkuð mörg slysin á sjó og haldi þau áfram líkt og hin siðustu 6 ár, má eiga það vist, að erlendu félögin, sem endurtryggja skaða hér, hækki svo iðgjöld að til vandræða horfi fyrir skipaeigendur. Sjótjón hin siðustu 6 ár eru þessi og aðeins nefndir togarar:
»Leifur heppni« 8. febr. 1925. Fórst á rúmsjó.
»Ása« 20. des. 1925. Við Jökul. '
»Eiríkur rauði« 2. marz 1927. Við Sandana.
»Ása« 3. apríl 1927. Við Grindavík.
»Austri« 7. sept. 1927; Við Vatnsnes nyrðra.
»Jón forseti« 27. febr. 1928. Við Stafnes.
»Menja« 12. júní 1928. Sökk á rúmsjó.
»Apríl« 1. des. 1930. Fórst á rúmsjó.
»Barðinn« 21. ágúst 1931. Við Þjót.
»Leiknir« 21. nóvember. Við Kúðaós.
Þannig lítur þessi sorglegi listi út. Frá 1. desember 1930 til 21. nóvember 1931, er tæpt ár og á því farast 3 dýr skip og 10 togarar, sumir að heita nýir, síðan árið 1925. Hið siðasta strand, »Leiknis« er órannsakað er Ægir verður prentaður, en 23. nóvember sendi Sjóvátryggingarfélag Íslands reyndan skipstjóra, austur á strandstaðinn og varðskipið »Ægir« mun gera tilraun til að ná skipinu út. Sjóréttur var haldinn í Vík í Mýrdal hinn 24. nóvember og framhaldspróf mun haldið hér í Reykjavik. Á þrem mánuðum hafa 2 togarar strandað, sem vátryggðir hafa verið hjá Sjóvátryggingarfélagi Íslands fyrir um 600 þúsund krónur.
»Leiknir« var smíðaður í Þýzkalandi árið 1921 fyrir hlulafélagið Sleipni í Reykjavik, og hét fyrst »Glaður«. Var hann 316 smálestir brúttó. Fyrir nokkrum árum seldi Sleipnir skipið, Ólafi Jóhannessyni & Co. á Patreksfirði, og hefur það síðan verið gert út þaðan.

Ægir. 11 tbl. nóvember 1931.11.05.2017 20:33

Veitt í salt á Barða NK í Barentshafi sumarið 1994.

Hér eru nokkrar myndir sem ég tók í saltfisktúr á Barða NK 120 í smugunni í Barentshafi í ágúst og september árið 1994. Hann gat nú gefið sig annað slagið  sá guli, en annars var reytingur eða alger ördeyða. Ég er með nokkrar myndir aðrar sem ég set inn hér á síðuna á næstunni. Eru það myndir af áhöfninni og af millidekkinu svo eitthvað sé nefnt. 

Trollið tekið og aflinn vænn þorskur.                                               (C) Þórhallur S Gjöveraa. 1994. 


Trollið látið fara.                                                                         (C) Þórhallur S Gjöveraa. 1994.


Sigurður Sveinsson bátsmaður aftur í skut, Daði Benediktsson og síðuhöfundur á góðri stundu á dekkinu á Barða NK 120.                                                          (C) Þórhallur S Gjöveraa. 1994.


Gott hal á leið upp rennuna.         Þórhallur S Gjöveraa. 1994.

09.05.2017 21:51

742. Sigurður SI 90. TFEJ.

Sigurður SI 90 var smíðaður í Skredsvik í Svíþjóð árið 1946. Eik. 94 brl. 260 ha. Polar díesel vél. Eigandi var Sædís h/f á Siglufirði frá 18 júní 1947. Ný vél (1958) 330 ha. Völund díesel vél. Árið 1966 var skipið endurmælt, mældist þá 88 brl. Skipið var selt 4 febrúar 1967, Sigurði Gísla Bjarnasyni í Vestmannaeyjum, skipið hét Sigurður Gísli VE 127. Árið 1971 var skráður eigandi dánarbú Sigurðar Gísla Bjarnasonar og fl. í Vestmannaeyjum. 1973 var Friðþjófur h/f í Vestmannaeyjum skráður eigandi. Skipið var talið ónýtt eftir bruna og tekið af skrá 29 nóvember árið 1974.


Sigurður SI 90.                                                                                 (C) Hafsteinn Jóhannsson.


Sigurður SI 90.                                                                                    (C) Hafsteinn Jóhannsson.


Sigurður SI 90.                                                                                    (C) Hafsteinn Jóhannsson.

       Frigg VE stjórnlaus undan brotsjó

     Sigurður Gísli VE bjargaði áhöfninni

Vélbáturinn Sigurður Gísli kom hingað í dag með 5 manna áhöfn af Vestmannaeyjabátnum Frigg VE 316, sem fékk á sig brotsjó suður af Grindavík í gær. Vél bátsins drap fljótlega á sér þegar sjór komst í olíuna og rak bátinn stjórnlaust að landi. Var báturinn aðeins um 1 mílu frá landi. Skipverjar fóru í gúmmíbát þegar vb. Sigurður Gísli VE 127 kom á vettvamg og var báturinn dreginn á milli. Gekk það vel og hélt Sigurður Gísli með mannskapinn til lands.
Varðskip reyndi síðar um daginn að ná til Friggs, en það tókst ekki og síðast þegar viltað var um bátinn, var hann á reki skammt utan við Krísuvíkurbjarg. Frigg er um 60 lestir að stærð og var hann á trolli. Skipshöfnin hélt frá Þorlákshöfn til Reykjavíkur og Grindavíkur. Skipstjóri á Sigurði Gísla er Friðrik Ásmundsson frá Vestmannaeyjum, en skipstjóri á Frigg var Sveinbjörn Hjartarson.

Morgunblaðið 30 mars 1973.

08.05.2017 06:31

Línuveiðarar.

Upp úr 1920 fór ný tegund íslenskra skipa að stunda síldveiðar. Voru það hinir svokölluðu línuveiðarar, en í flestum tilvikum voru slík skip upphaflega togarar sem gerðir voru út til veiða í Norðursjó. Mörg þessara skipa voru komin nokkuð til ára sinna er þau voru keypt til landsins. Margir línuveiðarar frá Reykjavík og öðrum stöðum suðvestanlands voru gerðir út á línuveiðar að vetrinum en á síldveiðar á sumrin, en síldveiðar voru uppistaða útgerðar norðlenskra línuveiðara.


Línuveiðarinn Jarlinn EA 590.                                                                           Málari óþekktur.

Var útgerð þessara skipa töluvert umfangsmikil á þriðja áratug 20 aldar en síðan fór að draga úr henni, bæði vegna þess að skipin gengu úr sér og týndu tölunni og vegna þess að vélbátarnir fóru stöðugt stækkandi og þóttu þeir hagkvæmari í rekstri. Útgerð línuveiðara var þó ekki hætt fyrr en eftir seinni heimstyrjöldina, en þá voru þau skip sem eftir voru komin til ára sinna.
Hér eru þrjár myndir af línuveiðaranum Jarlinum EA 590. Þrjár mismunandi útgáfur, þ.e. málverk, líkan og ljósmynd.


Línuveiðarinn Jarlinn GK 272. Líkan Gríms Karlssonar.                         (C) Þórhallur S Gjöveraa.

Jarlinn EA var smíðaður hjá Thomas Charlton & Co Ltd í Grimsby á Englandi árið 1890 fyrir John H Charlton í Grimsby, hét Stanley Africanus GY 267. Stál. 190 brl. 250 ha. 2 þennslu gufuvél. Árið 1910 var skipið í eigu Weston W Crampin í Grimsby. Skipið var selt til Gautaborgar í Svíþjóð, óvíst hvenær. Hét þar Anders. Árið 1925 er skipið keypt til Íslands og er eigandi þess þá h/f Hrogn & Lýsi í Reykjavík, hét Anders RE 263. Skipið var selt árið 1930, h/f Hljer í Reykjavík (Magnúsi Vagnssyni á Ísafirði ?), hét Hljer RE 263. Selt 31 maí 1930, Kolbeini Finnssyni og Þorvaldi Jakobssyni í Reykjavík, skipið hét Jarlinn RE 263. Selt 17 apríl 1935, Helga Pálssyni á Akureyri, hét Jarlinn EA 590. Selt 5 janúar 1940, Sameignarfélaginu Jarlinum (Óskari Halldórssyni og börnum hans) 6 júní 1941 eignast Björn Ólafsson hlut í skipinu, fær þá nafnið Jarlinn GK 272. Þann 21 ágúst 1941 lagði skipið af stað frá Ísafirði áleiðis til Englands með ísfiskfarm. Jarlinn seldi afla sinn í Fleetwood 1 september. Skipið lagði af stað frá Fleetwood þann 3 september áleiðis til Vestmannaeyja en það kom aldrei fram. Skipið fórst með allri áhöfn, 11 mönnum. Það kom síðar fram að þýski kafbáturinn U-141, sökkti Jarlinum að kvöldi 5 september 1941 um 200 sjómílur norðvestur af Stornoway í Skotlandi.


Línuveiðarinn Jarlinn EA 590 við bryggju í Reykjavík á stríðsárunum.      Ljósmyndari óþekktur.

07.05.2017 09:32

2662. Kristina EA 410. TFPO.

Kristina EA 410 var smíðuð hjá Factorias Vulcanos í Vigo á Spáni árið 1994. 7.681 Bt. 8.051 ha. Wartsila díesel vél, 5.920 Kw. Skipið hét upphaflega Kapitan Demidenko þar til í október 2004, fær þá nafnið Jason. Skipið var selt 29 nóvember 2004, H.B. Granda h/f í Reykjavík, fékk nafnið Engey RE 1. Skipið var selt í júlí 2007, Samherja h/f á Akureyri, hét Kristina EA 410. Í dag er skipið gert út af dótturfyrirtæki Samherja,  Atlantex Sp. í Póllandi. Skipið heitir Alina GDY 147 og stundar nú veiðar við strendur Máritaníu í Vestur Afríku.

Kristina EA 410 í Hafnarfjarðarhöfn 7 ágúst 2016.                                (C) Þórhallur S Gjöveraa. 


Kristina EA 410 í Hafnarfjarðarhöfn 7 ágúst 2016.                                (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Engey RE 1 við komuna til landsins 22 maí árið 2005.                                  (C) H.B. Grandi hf.


Alina GDY 147 í Akureyrarhöfn.                                           (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


                  Engey RE 1

Nýjasta skip HB-Granda hf. kom til landsins í gær frá Póllandi og er þar um að ræða stærsta skip íslenska fiskveiðiflotans. Nafn skipsins er Engey RE-1 og er það um 7.000 brúttótonn að stærð og 105 metra langt. Skipið er 20 metra breitt og með sjö þilför. Skipið er smíðað í Vigo á Spáni árið 1994 og er hið síðasta í röðinni af samtals 14 systurskipum sem voru smíðuð á árunum 1991 til 1994. Skipstjóri er Þórður Magnússon. HB-Grandi keypti skipið í nóvember og hefur það verið í umfangsmiklum breytingum í Póllandi síðastliðna mánuði.

Mbl. 23 maí 2005.

        Kristina EA 410 kemur heim

Kristina EA 410, smíðuð árið 1994, er 105 metrar að lengd og 20 metrar að breidd. Skipið er 7.805 brúttótonn að stærðStærsta skip íslenska fiskiskipaflotans Kristina EA 410 kom til hafnar á Akureyri í morgun eftir vikulanga siglingu frá Las Palmas. Skipið mun á næstu dögum halda til síldar- og makrílveiða hér við land.Samherji hf. eignaðist skipið (áður Engey RE) árið 2007 og hefur það að mestu verið í leigu síðan, við veiðar úti fyrir ströndum Afríku.
Skipstjóri á Kristinu EA er Arngrímur Brynjólfsson og í áhöfn eru 35 menn. Aflinn verður unninn um borð en skipið er búið öflugum búnaði fyrir frystingu á aflanum og einnig er fiskimjölsverksmiðja í skipinu.

Vefsíða Samherja hf.
5 ágúst 2010.

06.05.2017 09:26

2699. Aðalsteinn Jónsson ll SU 211. TFAS.

Aðalsteinn Jónsson ll SU 211 var smíðaður hjá Myklebust Mekaniske Verksted A/S í Noregi árið 2001. 3.132 bt. 7.507 ha. Wartsila díesel vél, 5.520 Kw. Eigandi skipsins er Eskja h/f á Eskifirði og kom skipið fyrst til heimahafnar sinnar 7 janúar 2006. Hét áður Aðalsteinn Jónsson SU 11 en hafði heitið M. Ytterstad áður en skipið var keypt til landsins, og var gert út af Ytterstad Fiskeriselskap A/S í Lödingen, Noregi. Ég tók þessar myndir af "Alla ríka" í gær þar sem hann lá við Grandagarðinn. Hef heyrt að það sé verið að selja skipið úr landi, jafnvel til Grænlands sem nýr Qavak. En hvað sem því öllu líður, þá er þetta mjög fallegt skip.


Aðalsteinn Jónsson ll SU 211 við Grandagarð í gær.                  (C) Þórhallur S Gjöveraa. 5 maí 2017.


2699. Aðalsteinn Jónsson ll SU 211.                                      (C) Þórhallur S Gjöveraa. 5 maí 2017.


Aðalsteinn Jónsson ll SU 211.                                                (C) Þórhallur S Gjöveraa. 5 maí 2017.


Aðalsteinn Jónsson ll SU 211.                                                (C) Þórhallur S Gjöveraa. 5 maí 2017.


Aðalsteinn Jónsson SU 11.                                                 (C) Þórhallur S Gjöveraa. 19 maí 2013.


Aðalsteinn Jónsson SU 211.                                                (C) Þórhallur S Gjöveraa. 19 maí 2013.

Eskja fær glæsilegt uppsjávarfrystiskip

Glæsilegt uppsjávarfrystiskip, Aðalsteinn Jónsson SU 11, kom til heimahafnar á Eskifirði þann 7. janúar sl. Skipið sem áður hét M. Ytterstad, kom frá Noregi, en þar var það keypt af Ytterstad Fiskeriselskap AS í Lödingen. Með tilkomu þessa skips mun Eskja leggja í ríkari mæli áherslu á frystingu á loðnu og síld til manneldis, sem hefur skilað frábærum árangri hjá nokkrum hérlendum vinnsluskipum á allra síðustu árum. Aðalsteinn Jónsson SU-11 er nánast nýtt skip, hannað af Skipsteknisk AS í Álasundi, smíðað í Myklebust Mek. Verksted AS í Noregi árið 2001. Þegar skipið var afhent var það stærsta fiskiskip Noregs. Skipið er 72,40 metra langt og 14,5 metra breitt. Skipið er útbúið fyrir flakavinnslu á síld og fyrir heilfrystingu á loðnu, síld, kolmunna og makríl.
Frystigeta skipsins er 120 tonn á sólarhring. Frystirýmið er 840 rúmmetrar og RSW-tankarnir 2.100 rúmmetrar. Í skipinu eru vistarverur fyrir 23 og er allur aðbúnaður um borð fyrsta flokks. Aðalvél Aðalsteins Jónssonar er 7.500 hestafla Wärtsilä 12V32, ljósavél af gerðinni Cummins. Í brú er stór hluti fiskileitar tækja af gerðinni Furuno. Togvindurnar eru Rapp Hydema og bóg- og afturskrúfur af gerðinni Brunnvoll.
Karl Már Einarsson, útgerðarstjóri Eskju, segir að þessi kaup hafi töluverða breytingu í för með sér í rekstri fyrirtækisins. Aukin áhersla verði lögð á frystingu uppsjávarafurða til manneldis í því skyni að auka verðmæti hráefnisins. "Við höfum til dæmis ekki getað til þessa nýtt heimildir okkar í norsk-íslensku síldinni, en með þessu skipi verður breyting þar á," segir Karl Már. Hann segir að áhöfn Hólmaborgar flytjist yfir á þetta nýja skip og áhöfnin á Jóni Kjartanssyni, sem er til sölu, færist yfir á Hólmaborgina. Þorsteinn Kristjánsson verður því skipstjóri á Aðalsteini Jónssyni og Jóhann Kristjánsson, bróðir hans, fyrsti stýrimaður. Hafsteinn Bjarnason er yfirvélstjóri. Stefnt er að því að átján manns verði í áhöfn. Karl segir að skipið sé í toppstandi, enda ekki nema fjögurra ára gamalt.


Ægir. 1 tbl. 1 janúar 2006.

05.05.2017 11:16

Við sjávarsíðuna á Norðfirði um miðja síðustu öld.

Hér eru nokkrar bryggjumyndir frá Norðfirði sem teknar eru af Birni Björnssyni ljósmyndara í Neskaupstað. Sú var tíðin að strandlengjan frá Neseyrinni og inn að Naustahvammi fyrir botni fjarðarins var þakin bryggjum, hver útgerð með sína eigin bryggju. Þá var mikið líf við sjávarsíðuna, annað en er í dag þegar öll fiskvinnsla er komin undir þak. Áður fyrr verkuðu útgerðarmennirnir oftast afla sinn á bryggjunum því annað var oftast ekki í boði. Sólþurrkaður saltfiskur, fiskaðgerð og margt fleira bar fyrir augu bæjarbúa og þótti sjálfsagt í þá daga.


Saltfiskur sólþurrkaður á Svavarsbryggju á Norðfirði um 1940.


Ráskorinn fiskur í herslu á bryggju á Norðfirði 1935-40.


Fiskur verkaður á planinu vestan Hafnarhússins í Neskaupstað árið 1954.


Sverrisbryggjan á Norðfirði. Í fjörunni má sjá saltfisk sólþurrkaðan. Myndin er tekin á árunum 1930-40.

Bryggjurnar í Neskaupstað sumarið 1939.

04.05.2017 12:27

Óveður á Norðfirði.

Í norðaustan átt geta orðið mikil óveður á Norðfirði, sérstaklega ef vindáttin stendur af Norðfjarðarnípunni. Þá herðir vindhraðann þegar hann kemur niður 800 til 900 metra há fjöllin. Ég man eftir mörgum svona veðrum og oftast hefur orðið mikið tjón á mannvirkjum, skipum og bryggjunum, sem margar hverjar hurfu með öllu. Norðvestan og vestan áttin er líka slæm, þá beljast vindurinn út fjörðinn með svo miklu særoki að varla sést út úr augum. Hér eru nokkrar óveðursmyndir sem Björn Björnsson ljósmyndari á Norðfirði tók fyrir og um miðja síðustu öld.

Vestan stormur á Norðfirði um 1945. Báturinn gæti verið Björgvin NK 65.

Vestan óveður um 1940. Báturinn í bólinu er Hilmir NK 34. Bryggjan í forgrunni er Sigfúsarbryggjan og bryggjuhausinn er farinn.


Verslunarhús Sigfúsar Sveinssonar kaupmanns á Norðfirði rústir einar eftir eitt óveðrið.


Vélbáturinn Sleipnir NK 54 við bryggju í norðvestan roki á Norðfirði 4 mars árið 1950.


03.05.2017 11:28

1278. Bjartur NK 121. TFNV. Frá Niigata til Neskaupstaðar.

Bjartur NK 121 var smíðaður hjá Niigata Engineering Co Ltd í Niigata á Honshueyju í Japan á árunum 1972-73. 461 brl. 2.000 ha. Niigata díesel vél. Skipinu var hleypt af stokkunum 25 október árið 1972 í Niigata skipasmíðastöðinni í Japan og gefið nafnið Bjartur. Í færslu frá 5 september s.l. tók ég fyrir smíði skipsins og afhendingu togarans til eiganda síns, Síldarvinnslunni h/f í Neskaupstað. Heimferð Bjarts tók 49 sólarhringa og hafði skipið þá lagt að baki 13.150 sjómílur. Þetta er lengsta sigling sem Norðfirskt fiskiskip hefur farið fyrr og síðar. Þessar myndir eru teknar af Magna Kristjánssyni skipstjóra á Bjarti og Hólmgeiri Hreggviðssyni stýrimanni og fylgir hér með frásögn Magna skipstjóra frá þessari löngu heimferð til heimahafnar. Skólabróðir minn og vinur, Gunnar Þorsteinsson í Neskaupstað sendi mér þessar myndir. Gunnar var skipverji á Bjarti í rúma 2 áratugi. Þakka ég honum og Magna fyrir afnotin af þessum myndum.


Skuttogarinn Bjartur NK 121 í prufusiglingu í desember 1972.         (C) Niigata Engineering Co Ltd.

Síldarvinnslan fór nú að huga að kaupum á öðrum skuttogara og þá helst nýjum. Það hafði verið ómögulegt að kaupa nýtt, þegar Barði var keyptur, meðal annars vegna lánamála og líklega andstöðu margra gegn kaupum á litlum skuttogurum. Það var semsagt farið að huga að nýju. Um árabil höfðu íslenskir útgerðarmenn nær eingöngu keypt skip frá Noregi, en nú komu Japanir inn í myndina og vildu smíða fyrir okkur togara. Það var nú hlegið af þessu fyrst og menn töldu þetta alveg út í hött af ýmsum ástæðum. Japanarnir voru mjög áhugasamir og tveir þeirra fóru með mér túr á Barða til að sjá hvað við vildum og hvað við værum að gera. Síðan var kannað hve margir á landinu hefðu hugsanlega áhuga á þessu dæmi og niðurstaðan varð sú að 10 eða 11 aðilar slá til og fara í viðræður.Bjartur NK 121. Hér er togarinn að leggja af stað frá Japan eða fara frá Honolulu á Hawaieyjum.

Þessar viðræður voru mjög sérstakar. Skipin voru hönnuð uppi á herbergjum á Hótel Loftleiðum á um það bil þremur vikum.Þarna voru 30 til 40 Íslendingar, kaupendur skipanna, sérfræðingar og ýmsir fulltrúar þeirra, þar á meðal ég, og hins vegar 15 til 18 Japanir. Þetta byrjaði með stórum fundi, þar sem farið var yfir málin á breiðum grundvelli, hve stór skipin ættu að vera og reynt að koma sér niður á fastan púnt. Auðveldast var að áhveða stærðina, þar sem hún varð að vera undir 500 lestum, en þó eins mikil og hægt var, sem sagt 499 lestir. Þegar það var komið, voru Japanarnir með allskonar sérfræðinga og teiknara, sem kom dálítið mikið við sögu. Menn greindi á um margt, meðal annars um útlitið á skipunum. Þá kom þessi Japani og teiknaði togara á töfluna í einum grænum hvelli og svo breytti hann skipinu bara á töflunni þar til allir gátu sætt sig við það. Síðan fóru Japanarnir að setja kramið inn í þessa teikningu. Þannig gekk þetta saman á þremur vikum.


Bjartur NK 121 á heimleið á Kyrrahafinu.

Eitt mál var dálítið krítískt, það var tækjavalið þar sem menn vildu hver sitt og enginn vildi japönsk tæki. Verðið var náttúrulega talsvert bitbein. Ein leiðin til að ná því niður var að kaupa öll tækin eins, fá þau í einum pakka og þannig ódýrari.Japanarnir stungu auðvitað upp á Furuno og eftir tvo daga voru komnir tveir menn frá Furunoverksmiðjunum á Hótel Loftleiðir og öll tæki á endanum keypt af þeim, nema tvö, sem þeir áttu ekki. Síðan var gengið frá samningnum og öllu saman lauk með heljar miklu hófi í Óðali, þar sem Japanarnir sungu og dönsuðu fyrir okkur og við sungum fyrir þá.


Bjartur NK 121 á heimleiðinni.

Japanarnir ætluðu sér ótrúlega hraða smíði á skipunum. Frá því að skipið hafði verið teiknað upp á töflu áttu aðeins að líða 6 mánuðir þar til fyrsta skipið legði af stað heim og síðan átti hálfur mánuður að vera á milli skipa. Ferðin til Japans var svo einstakt ævintýri. Konan mín var með og auðvitað voru fleiri í hópnum. Við vorum fyrst boðin út um allar eyjar til að skoða eitt og annað. Það voru seljendur tækja og búnaðar meðal annars, sem buðu okkur í þetta ferðalag, sem var ákaflega skemmtilegt í framandi umhverfi. Í Furunoverksmiðjunum kom dálítið skemmtilegt atvik fyrir, þegar við komum þangað. Fyrst skoðuðum við verksmiðjurnar og þá sáum við óvenjulegan hlut gerast.


Bjartur NK 121 á heimleiðinni.  

Allt í einu hringdi einhver bjalla og það var eins og við mannin mælt, hver einasti starfsmaður skellti sér í leikfimi í 5 mínútur. Síðan var okkur boðið í mikla matarveislu og okkur voru færðar gjafir, innpakkaðar með fallegum slaufum. Þegar forstjórinn afhendir konunni minni gjöfina, varð hann svolítið vandræðalegur, bað hana afsökunar á gjöfinni fyrirfram og vonaði að hún tæki þessu ekki illa. Þetta væri gefið af heilum hug.Við athuguðum málið ekkert frekar, vissum ekkert hvaðan á okkur stóð veðrið og tókum gjafirnar ekki upp fyrr en heim var komið um kvöldið. Þá sáum við að maðurinn hafði haft ástæðu til að vera vandræðalegur.


Bjartur NK 121 kominn að Panamaskurðinum.  

Það var nefnilega rakvél í pakkanum. Allir gestirnir höfðu fengið rakvélar og þarna er þetta þannig, að það eru bara pantaðar gjafir fyrir ákveðinn fjölda gesta hjá ákveðinni deild, sem sér um þetta og auðvitað hefur gleymst að reikna með þeim möguleika að kona kynni að vera með í hópnum. Japanarnir voru einstaklega góðir gestgjafar. Það er gott að vera gestur í Japan og það er gaman að eiga við þá viðskipti. En margt var framandi.Þegar ég fékk loksins að fara og skoða skipið, var komið fram í nóvember og átti að afhenda það eftir 6 til 8 vikur.


Bjartur NK 121 í Panama.  

Ég var orðinn mjög spenntur. Mig óaði við því hve stutt á veg það var komið, þeir voru um það bil að hífa brúna á skipið 6 vikum fyrir afhendingu. Vélin var komin niður og byrjað að innrétta lestina, en millidekkið og íbúðir var bara járnkassi. Þeir drógu fram mjög rækileg plön, þar sem nánast hvert einasta verk var dagsett og sögðust halda áætlun. Þarna unnu um 3.000 manns og stöðin afhenti skip alveg frá litlum bátum upp 3.000 tonna togara allt að því vikulega. Bjartur var skip númer 1163 frá stöðinni.


Bjartur NK 121 við ankeri í Panamaskurðinum og bíður eftir því að komast í gegn.
  
Sérstök upplýsingadeild kom manni í skining um gang mála og fengum sérherbergi í stöðinni til umráða. Síðan var ég spurður að því hvenær á daginn ég vildi koma niður í stöð til að fylgja st með gangi mála. Ég vildi koma klukkan 9 á morgnana, en þeir sögðust þá mundu senda bíl eftir mér. Á hverjum morgni beið svartur bíll og bílstjóri með hvíta hanska eftir mér fyrir utan hótelið meðan ég var að borða morgunmatinn. Um leið og ég birtist þaut bílstjórinn út og opnaði fyrir mér. Þegar við komum niður í stöð fórum við í gegnum lokað hlið, sem var opið, þegar hann flautaði og lokst stoppaði bíllinn við innganginn að herberginu, sem var í gamalli, stórri trébyggingu. Þar mátti ég vera andskoti fljótur úr bílnum, ef ég átti að vera á undan stelpuni, sem kom út til að opna fyrir mér hurðina með djúpum hneigingum. Mér þótti þetta óþægilegt, en vandist því smám saman.

 
Bjartur NK 121 í einum skipastiganum í Panamaskurðinum.
 
Líklega hafa 100 manns verið að vinna um borð og allir hlutir smíðaðir í heilu langi í landi og síðan settir á sinn stað um borð. Skipulagið hjá þeim var með ólíkindum og gaman að sjá hvernig þeim vannst. Þegar komið var um borð, þýddi ekkert að gera athugasemdir þó verið væri að gera augljósar villur, maður skrifaði það bara hjá sér í bók og tók það svo upp á sérstökum fundum. Lofthæðin var eiginlega eina vandamálið. Í samningnum var talað um ákveðna lofthæð og ákveðinn fjölda ljósa. Svo settu þeir ljósin bara neðan á loftið í stað þess að fella þau upp í það. En það gekk auðvitað ekki fyrir fullvaxna menn, þó Japanir sæju enga galla á þessu. Þeim fannst betra að skrúfa ljósin upp eins og teikningin sagði til um, og færa þau svo aftur daginn eftir.


Bjartur NK 121 í skipastiga í Panamaskurðinum.

Við hjónin vorum þarna úti á jólunum og þau voru ekki haldin hátíðleg þarna. Maður varð aðeins var við jólatónlist á hótelinu, en annars unnu allir eins og ekkert væri. Hótelstjórinn lét senda okkur tertu með jólakveðjum og einn flokksstjórinn í skipasmíðastöðinni tók sig til og bauð okkur í bíltúr í eitthvert sérstakt bænahús. Jólin voru því talsvert frábrugðin því sem við eigum að venjast, en mig minnir að það hafi verið hvít jól og tunglið snéri öfugt. Japanir halda síðan upp á áramótin. Við fórum út á gamlárskvöld og fylgdum talsverðum fólksstraumi, sem lá að stórum garði. Þetta voru þúsundir fólks á öllum aldri, gamalmenni með staf og konur með ungabörn á bakinu og þetta stóð alla nóttina og allt sem fólkið gerði bar að signa sig á einhvern hátt fyrir utan helgan stað eða bænahús í garðinum.


Bjartur NK 121 í Panamaskurðinum.

Aðeinshluta mannfjöldans tókst að teygja sig í langan tógspotta sem hékk niður úr bjöllu og klingja henni. Síðan hélt það heim aftur. Það var óhætt að segja að þetta hafi verið ákaflega ólíkt íslenskri áramótagleði.
Það kom svo í ljós á endanum að hálfs mánaðar seinkun varð á afhendingu Bjarts. Við fórum frá Japan að kvöldi 13. Janúar og mér fannst ég vera óskaplega umkomulaus þegar ég silgdi niður fljótið frá Niigata út á Japanshaf, sem var á milli Kóreu og Japans. Þá voru eftir einar 13.000 mílur heim yfir hálfan hnöttinn. Ég var óvanur svona langsiglingum og var með nýtt skip, sem ég þekkti ekki og tiltölulega fámenna skipshöfn.


Bjartur NK 121 á leið í gegn um skurðinn.

Mér fannst ég lítill og veðrið bætti ekki úr skák, grenjandi rigning og 5 til 6 vindstig og mér sagt að fara heim. Fyrsta hugsun mín þegar við komum út úr fljótinu, það var eitthvert regnský á radarnum og ég vissi ekkert hvað það væri mikil umferð þarna, en gaf mér að hún væri mikil, var að sigla bara til hafs í klukkutíma meðan ég var að ná áttum og athuga hvort öll tæki væri í lagi. Það kom í ljós að svo var og við silgdum norður með eynni og í gegnum sundið á milli megin eyjarinnar Honshu og þeirrar nyrstu sem heitir Hokkaido, áður en við komumst út á Kyrrahafið.


Hér mætir Bjartur skemmtiferðaskipinu Hamburg í Panamaskurðinum.

Þegar við náðum þangað fór ég að fyllast öryggistilfinningu aftur. Þetta var eiginlega eina skiptið sem mér hefur liðið svona. Nú var tveggja mánaða tilbreytingarlítil sigling framundan og mér fannst það með ólíkindum að mæta bara tveimur skipum á 12.000 til 13.000 mílna siglingu og til lands sást ekkert fyrsta hálfa mánuðinn. Slíku var maður ekki vanur, kannski tveggja, þriggja daga siglingu án landsýnar en þegar land hafði ekki sést í viku til 10 daga, fór maður auðvitað aftur að efast um að tækin væru í lagi. Maður er nánast eins og krækiber í helvíti á þessum gríðarlega stóru heimshöfum, gerir sér ekki grein fyrir stærð þeirra fyrr en maður fer um þau. Svo við tökum dæmi, þá sigldum við í 18 daga fyrir opnu hafi frá Hawaii til Panama og það er bara hluti af Kyrrahafinu.


Hólmgeir Hreggviðsson, Magni skipstjóri og Þorsteinn Kristjánsson, sennilega á Hawaiieyjum.

Það gekk allt vel, en var ansi þreytandi. Mikill hiti og skipið ekkert kælt þannig að þetta var hálf erfitt. Sumir leystu málið með því að opna frystinn og liggja í dyrunum, en við bjuggum okkur líka til sundlaug á dekkinu. Við reyndum líka að drepa tímann með því að veiða flugfiska. Þetta var í fyrsta skipti á ævinni sem ég sá slíka fiska og það var mjög gaman að fylgjast með þeim, að minnsta kosti fyrst í stað. Síðan verður þetta fyrir manni bara eins og snjótittlingarnir heima, þeir fljúga um allt. Við vorum eins og börn og vildum fanga þessi kvikindi og skoða nánar. Það var sett út flugfiskagildra með heilmiklum tilfæringum. Við settum bómu út, 5 til 6 metra frá skipinu og bjuggum til háf 50 til 60 sentimetra í þvermál og hengdum hann niður í bómuna, rétt fyrir ofan hafflötinn.


Magni skipstjóri léttklæddur í stólnum.  

Við héldum að flugfiskurinn myndi villast inn í þetta með tíð og tíma. Það reyndist ekki, flugfiskurinn kom aldrei í háfinn en hins vegar fundum við nokkra á hvalbaknum. Fiskurinn virtist nota sér uppstreymið við kinnungana og lenti þá stundum inn fyrir. Okkur virtist ekki mikill matur í þessum fiski. Hann var smár, svipaður og loðna eða smásíld og ósköp lítilfjörlegur.Svo fórum við framhjá frægri sjóræningaeyju þar sem Hornblower gerði við laskað skip sitt eftir bardaga. Hawaiieyjar voru ekki eins girnilegar og ég hafði gert mér í hugarlund. Maður hafði bara hreinar sandstrendur, pálma og stúlkur í strápilsum í huganum en þannig var þetta nú einfaldlega ekki. Við stoppuðum þar í tvo daga og það var ekki eins skemmtileg dvöl og við höfðum ætlað okkur. Við misstum nokkra dropa, aðeins nokkra dropa af olíu í sjóinn og þá varð fjandinn laus.


Þorsteinn Kristjánsson um borð í Bjarti NK 121.  

Það voru svo ströng mengunarlög þarna að ég var strax dreginn fyrir dómara og rannsóknarrétt og lenti hreinlega í klandri. Það urðu nú sættir í málinu fyrir rest. Ég hélt því fram að þetta hefði ekkert verið. Við vorum að taka olíu og örlítið lak niður skipshliðina og sumir taumarnir náðu niður skipshliðina, aðrir ekki. Svo lítið var þetta. Í skýrslu yfirvalda var talað um minna en "two pints" innan við einn lítra en 500 dollara varð ég að borga í sekt með sátti en þetta átti að vera miklu meira hjá þeim. Í þetta fór allur fyrri dagurinn. Við fórum svo í gegnum Panamaskurðinn og þaðan norður að Haíti, gegnum Þanghafið án viðkomu til Íslands. Það voru helvíti miklir flekar af þangi þarna en draugaskip sáum við engin. Það var gaman að koma heim eftir allt þetta ferðalag, tvo mánuði í hafi og nokkrar vikur í Japan þar á undan, koma heim með glæsilegt og gott skip. En eitt gerðist á leiðinni sem skyggði nokkuð á gleðina.


Guðmundur Sigmarsson vélstjóri að láta pússa skóna sína.  

Það var Vestmannaeyjagosið, sem hófst skömmu áður en við komum til Hawaii. Togarinn Vestmannaey var þá á undan okkur á leiðinni frá Japan. Þeir sögðu okkur frá þessu og fyrstu fréttirnar voru ansi skuggalegar. Þeir náðu þeim úr einhverju suður-amerísku útvarpi, að það hefði orðið eldgos í Eyjum, talað um manntjón og að bærinn væri meira og minna undir ösku. Þeir á Vestmannaey voru auðvitað mjög slegnir og náðu engan veginn heim. Þeir báðu mig því að hringja heim frá Hawaii og afla frétta. Þann tíma, sem ég var ekki fyrir rannsóknarréttinum var ég í símanum að reyna að ná heim. Það náðist aldrei þrátt fyrir tilraunir í 5 klukkutíma en þá bennti umboðsmaðurinn okkar okkur á að fara út í prentsmiðju og sækja blað sem væri að koma út. Þar væri eitthvað sagt frá gosinu.


Í Balboa í Panama.  

Við gerðum það og þar var stór mynd á forsíðu. Ég skil ekki hvernig sú mynd var tekin, því af henni að dæma var þetta allt saman að fara til helvítis. Það var bara allt í eldi og mekki. Ég hefði því ekkert góðar fréttir að færa Vestmannaeyingunum nema það að í blaðinu var sagt að ekkert manntjón hafði orðið. Þetta hlýtur að hafa verið hrikalega erfiður tími fyrir þá. Það leið vika áður en þeir fengu eitthvað af viti að frétta. Símasambandið frá Panama var litlu betra en það hafðist þó að ná sambandi heim þaðan eftir mjög langa bið.
Við vorum líka rækilega minnt á veruleika íslenskra sjómanna eins og hann gerist verstur þegar við nálguðumst Ísland. Austfirski flotinn ásamt ýmsum fleirum var að leita Sjöstjörnunnar frá Keflavík sem hafði farist í hafinu milli Færeyja og Íslands.


Bjartur NK 121 við komuna til heimahafnar 2 mars 1973.                   (C) Guðmundur Sveinsson.

   Skuttogarinn kominn til Norðfjarðar

Nýr japanskur skuttogari, Bjartur NK 121 kom til heimahafnar sinnar Neskaupstaðar eftir 49 daga ferð frá Japan, en þaðan hélt skipið 13. janúar. Skipið hafði viðkomu á tveimur höfnum á heimleið, Honululu og Panama. Skipstjóri á Bjarti NK er Magni Kristjánsson, en hann var skipstjóri á fyrsta skuttogaranum, sem íslendingar eignuðust, Barða NK frá Neskaupstað. Bjartur fékk einstaklega gott veður á heimleið, nema fyrstu dagana, þá hreppti skipið 9 til 10 stiga mótvind, en eftir það annað hvort stillur eða meðbyr. Skuttogarinn er 464 brúttórúmlestir og 146 lestir nettó. Fyrsti stýrimaður er Herbert Benjamínsson, fyrsti vélstjóri Sigurður Jónsson, en hann var einnig vélstjóri á Barða og annar vélstjóri Guðmundur Sigmarsson. Hinn nýi skuttogari er mjög skemmtilegur í alla staði og mjög vel búinn að öllum tækjakosti. Hann er systurskip þeirra tveggja japönsku skuttogara, sem áður eru komnir til landsins, Vestmannaeyjar og Páls Pálssonar. Útgerðarstjóri skipsins er Jóhann K. Sigurðsson.

Morgunblaðið 4 mars 1973.

                     Bjartur kominn

Kl. 8.30 í morgun sigldi hinn nýi skuttogari Norðfirðinga, Bjartur NK 121 fyrir Eyrina og inn á Norðfjarðarhöfn í fyrsta sinn. Er þar með lokið lengstu samfelldu siglingu norðfirzks skips, en heimferð Bjarts frá Japan hófst 13. janúar. Er hann reyndar hér heima á undan áætlun, því að heimsiglingin gekk mjög vel. Bjartur sigldi fánum prýddur inn á höfnina og víða í bænum blakta fánar við hún til að heilsa skipi og skipshöfn. Bjartur er hið glæsilegasta skip og vel búið og við það eru miklar vonir tengdar. Skipstjóri er Magni Kristjánsson, 1. stýrimaður Herbert Benjamínsson og 1. vélstjóri Sigurður Jónsson, en eigandi Síldarvinnslan hf. Austurland mun segja nánar frá Bjarti í næsta blaði og reyna að ná tali af skipstjóranum um heimsiglinguna og dvölina í Japan. Óskar blaðið eigendum, skipshöfn svo og öllum Norðfirðingum til hamingju með þetta nýja skip.

Austurland. 2 mars 1973.

         Frá Niigata til Neskaupstaðar

Eins og frá var sagt í síðasta blaði kom hinn nýi skuttogari Síldarvinnslunnar hf. í Neskaupstað, Bjartur NK 121 í fyrsta sinn til heimahafnar 2. marz sl. Tíðindamaður Austurlands htti skipstjórann, Magna Kristjánsson, að máli um borð í skipinu og átti við hann stutt viðtal um skipið og dvöl hans og konu hans og skipverja í Japan. Viltu fyrst segja frá skipinu, Magni, stærð þess og búnaði?  Bjartur er 461,5 brúttósmál. að stærð, lengd skipsins er 47,1 m, bre'dd 9,52 m og dýpt 5,50 m. Aðalvélin er 2.000 hestöfl og heitir Niigata, eins og borgin, sem skipið er smíðað í. Tvær aukavélar eru í skipinu, 300 ha. hvor. Svo eru í skipinu öll fullkomnustu siglinga og fiskileitartæki, þ. á. m. netsjá. Öll tækin eru japönsk, nema talstöðin, sem er dönsk.
Þá er nokkur nýlunda í vinnuaðstöðunni við fiskaðgerðina, sem öll er auðvitað neðan þilja. Vinnuaðstaðan er útbúin sérstaklega til að blóðga aflann fyrir aðgerð, og er þar farið að ströngustu kröfum um meðferð aflans og hér verður og um vinnusparnað að ræða. Lestin, sem er kælilest, er útbúin að 3/4 með tilliti til þess, að aflinn verði ísaður í kassa. Vistarverur skipverja eru vandaðar, sýnist mér. Já, þær eru mjög rúmgóðar og smekklegar. Það eru 8 eins manns klefar og 5 2ja manna. Hvað verðíð þið margir á? Við verðum 16. Þetta verður svo til sama skipshöfnin og var á Barða. 1. stýrimaður er Herbert Benjamínsson, 2. stýrimaður Birgir Sigurjónsson, 1. vélstjóri Sigurður Jónsson og 2. vélstjóri Guðmundur Sigmarsson.

Austurland 9 mars 1973.

Heimildir:
Magni Kristjánsson.
Austurland.
Tímarit.is
Norðfjörður, saga útgerðar og fiskvinnslu.
Gamlar blaðaúrklippur frá mér.

02.05.2017 08:36

Blaahvalen EA 391. LBPH / TFIE.

Síldveiðiskipið Blaahvalen EA 391 var smíðaður í Þrándheimi í Noregi árið 1876. Tré og járn. 79 brl. 125 ha. 2 þenslu gufuvél. 27,72 x 4,99 x 3,02 m. Skipið var smíðað sem línuveiðari og sjálfsagt notað sem slíkt lengi vel í Noregi. Guðmundur Pétursson útgerðarmaður og síldarsaltandi á Akureyri keypti skipið í Noregi haustið 1923. Það mun eingöngu hafa verið gert út til síldveiða eftir fiskiskýrslum að dæma. Skipstjóri var Þór Gunnlaugsson. Árið 1932 var "Bláhvalurinn", eins og skipið hét upp á íslensku, gert út af Sigurði Sumarliðasyni og fl. á Akureyri. Síðasta úthald Blaahvalen var árið 1933. Skipið var talið ónýtt og tekið af skrá árið 1935.

Heimild: Hagskýrslur um fiskveiðar. 1923-33.
 

Blaahvalen EA 391 að háfa síld.                                      (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
 
Blaahvalen EA 391 á Eyjafirði.                                                   (C) Snorri Snorrason.
              Skipaskráin 1923


Í fyrra gengu úr skránni skipin: »Svala«, »Haukur«, »Sterling«. 1923: »Borg«, »Ethel«, »Skjöldur«, »Esther«, »Harry«, »Worsley«, »Surprice«.
Þetta eru 10 skip og öll fremur stór. Viðbót verður: »Esja«, »Isafold« gufuskip (ómæld), »Noreg« gufuskip (ófullkomin lýsing í almanaki). Skráin minkar því um 7 skip frá því 1923. í þetta skarð mætti bæta við 1924 til þess minna bæri á fátæktinni. Mótorskipinu: »Kristian« (ex-Höken) Akureyri. Gufuskipunum: »Blaahvalen«, »Gola« (ex-Olga), »Rolf«, Ludolph Eide«, »Elín«, »Magni«, »Garðar« frá Seyðisfirði og stóra »Rolf« Krossanesi, »Hugo« og »Havdís« frá Siglufirði og fl., en í skipaskrá stjórnarráðsins finnast þessi skip ekki og í skipaskrá landsins má ekki, ef vel á að vera, taka önnur skip en þar finnast, sé skipaskrá hér, eins og annarsstað er, officiel skrá, sem ber saman við það, sem ritað er í skipastólsbækur ríkisins.

Ægir. 12 tbl. 1 desember 1923.
Sveinbjörn Egilsson.

01.05.2017 12:30

B. v. Röðull GK 518. TFPC.

Röðull GK 518 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1948 fyrir h/f Venus í Hafnarfirði. 680 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Fyrsti Nýsköpunartogarinn með bátapall. Röðull var afhentur eigendum sínum 16 mars í Hull og kom fyrst til heimahafnar sinnar, Hafnarfjarðar 24 mars 1948. 19 janúar 1963 kom upp Methylklorid leki um borð í togaranum með þeim afleiðingum að einn skipverji lést og 14 aðrir voru lagðir inn á sjúkrahús, margir þungt haldnir vegna eitrunarinnar. Togarinn var seldur í brotajárn til Englands og tekinn af skrá 6 desember árið 1974.


174. Röðull GK 518 við komuna til Hafnarfjarðar 24 mars 1948.                (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


B. v. Röðull GK 518 að veiðum.                                                            (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Röðull GK 518 nýsmíðaður í Hull árið 1948.                                   (C) Cook Welton & Gemmell Ltd.


Röðull GK 518 í Hafnarfjarðarhöfn.                                                                 (C) Snorri Snorrason.


Röðull GK 518 í Hafnarfjarðarhöfn. Maí GK 346 liggur innan við hann.             Ljósmyndari óþekktur.

      B. v. Röðull væntanlegur í dag

Í dag er von á nýsköpunartogaranum Röðli, til Hafnarfjarðar. Eigendur Röðuls er h.f. Venus í Hafnarfirði. Skipstjóri verður Vilhjálmur Árnason, sem áður var skipstjóri á b.v. Venus. Röðull er smíðaður hjá skipasmíðastöð Cook Welton & Gemmell í Beverley. Togarinn verður fimm fetum lengri, en flestir hinna nýsköpunartogaranna og verður af svipaðri stærð og Reykjavíkurtogarinn Fylkir. Framkvæmdastjóri h.f. Venus er Loftur Bjarnason.

Morgunblaðið. 24 mars 1948.

             Nýr nýsköpunartogari

Eins og minnst var á í blaðinu í gær, bættist enn einn nýsköpunartogarinn í hópinn i gær. Var það b.v. Röðull GK 518. eign h/f Venusar í Hafnarfirði. Togarinn er að ýmsu leyti frábrugðinn öðrum, sem á undan hafa komið og því rjett að benda á helstu hreytingarnar, en þær eru; Lengdur um 5 fet, bátadekk, sem nær fram undir afturmastur, brúin lengd um 2,5 fet og með gjörbreytta innrjettingu, nýjasta tegund af radar verður sett í hann í sumar, aluminium lestarlok, og svo er ráðgert að setja kælitæki í lestar með hitamæli í brú þannig að alltaf sje hægt að halda kulda í lestinni. Lýsisbræðsla færð aftur o. fl. Röðull fjekk slæmt veður á leiðinni heim,  en reyndist prýðilega, gekk hann rúmar 12 mílur með 112-115 snúningshraða á vjel, en í reynsluferð gekk skipið rúmar 13 mílur.

Morgunblaðið. 25 mars 1948.

    Enn eitt afrek íslenskra sjómanna

í síðustu Englandsferð sinni unnu skipverjar á togaranum Röðli það afrek að bjarga enskum togara, er rak fyrir sjó og vindi. Dró Röðull hann til hafnar í Skotlandi og mátti ekki tæpara standa að brezki togarinn sykki ekki.
Þegar Röðull var staddur á svokölluðum Færeyjabanka heyrði hann neyðarskeyti frá brezka togaranum Cramond Island frá Hull. Hafði vélin bilað og rak togarann undan veðrinu, en stormur var og mikill sjógangur. Fann Röðull brezka togarann með radartækjum og þrátt fyrir stórsjó tókst að koma vírum milli togaranna, en meðan verið var að því rákust togararnir saman í sjóganginum og brotnaði Röðull nokkuð aftarlega stjórnborðsmegin.  Röðull dró síðan brezka togarann til hafnar í Skotlandi, en mikill sjór var kominn í brezka togarann og bað hann um björgunarbát, ef hann skyldi sökkva áður en þeir næðu höfn. Til þess kom þó ekki en mátti þó ekki tæpara standa að hann sykki.

Þjóðviljinn. 20 janúar 1949.

         14 Röðulsmenn í sjúkrahúsum 
                  Sumir þungt haldnir

    Leki í kælitækjum orsök slyssins

Fullvíst þykir nú, að eitrunin í bv. Röðli stafi af eiturefninu methylklóríd, sem notað er í kælikerfi skipsins. 12 menn liggja nú í Borgarsjúkrahúsinu í Reykjavík og 2 í sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum. Einn skipverja, Snæbjörn Aðils, lézt á föstudagskvöld, eins og Mbl. hefur skýrt frá. Líðan sjúklinganna er mismunandi, en flestir eru þó taldir á batavegi. Annar þeirra, sem liggur í Vestmannaeyjum, er enn mjög veikur. Röðull kom til Reykjavíkur aðfaranótt sunnudags. Leki var í kæliklefa skipsins, og var kunnugt um hann, en hins vegar vissu menn ekki, að hann væri heilsu manna hættulegur. Kælivélin er undir lúkarnum, en í honum voru allir þeir, sem veiktust, og leitaði eiturmengað loftið upp þangað. Útsog er við frystivélina, en það mun ekki hafa verið í lagi vegna þess að öryggi var bilað. Þá hafði verið lokað fyrir innsog loftrásar í lúkarnum vegna kulda, og hefur þetta tvennt valdið því, að andrúmsloftið spilltist svo, að stórhætta var af. Sá eini, sem veiktist af þeim, er ekki bjuggu frammi í, var vélstjóri, sem vann að því að bæta efni í kælikerfið, en það lak smám saman úr leiðslu.
Methylklóríd er lyktarlaust efni, sem notað er í kælikerfi í nokkrum skipum. Sé dvalizt skamman tíma í andrúmslofti, sem er mengað því, hefur það lítil eða engin áhrif, en sé magnið talsvert, geta menn verið að veikjast af því í nokkurn tíma eftir að þeir hafa dvalizt í því. Eitrunaráhrifin lýsa sér einkum í uppköstum og hiksta. Sumir fá niðurgang, og aðrir geta fengið skjálfta eða krampa. Þá verða menn sljóir og minnislitlir, fá starandi augnaráð, verða annarlegir og utan við sig. Sé um alvarlega og mikla eitrun að ræða, getur eitrunin haft skaðleg áhrif á hjarta, lifur og nýru. Gegn eitruninni er unnið með súrefni og ýmiss konar lyfjagjöf, bíkarbónati o. fl. Þeir, sem fyrir eitruninni urðu, lágu í lúkarnum á leiðinni frá Vestmannaeyjum til Reykjavíkur, og má búast við, að eitrunaráhrifin hafi þá enn aukizt. Talið er, að sjómennirnir verði að vera töluvert langan tíma undir læknishendi, a.m.k. þeir fjórir, sem voru fluttir tafarlaust í sjúkrahús við komu skipsins til Reykjavíkur aðfaranótt sunnudags, og þeir tveir, sem liggja í Vestmannaeyjum, en þeir munu báðir þungt haldnir. Engin breyting mun hafa orðið á þeim, síðan þeir komu til Eyja.
Morgunblaðið átti í gær tal við skipaskoðunarstjóra, Hjálmar R. Bárðarson. Kvað hann hafa verið unnið að rannsóknum í bv Röðli af hálfu Skipaskoðunar ríkisins í fyrradag og gær. Eitrunin var mæld og kælikerfið reynt. Athugunum átti að Ijúka í gærkvöldi, og verður unnin úr þeim skýrsla, sem lögð verður fram í sjódómi. Í Ijós hefði komið, að leki var á kælikerfinu, og það hefði skipsmönnum verði Ijóst, enda þurfti sífellt að bæta vökva á. Hins vegar væri það meginatriði málsins, að menn hefðu ekki gert sér grein fyrir því, að efnið, sem notað er á kerfið, er hættulegt. Því hefði loftræsting ekki vexið sett í gang, en frystivélin er undir vistarverum háseta og greiður aðgangur fyrir eiturloft, sem kynni að myndast niðri, upp í lúkarinn. Eiturefnið, sem notað er í kælikerfið, er methylklóríd.
Var það upphaflega í þeim nýsköpunartogurum, sem komu með kælikerfi frá Bretlandi. Er það m.a. samþykkt af Lloyd's, sem löglegur kælivökvi. Hins vegar hefur verið skipt hér um efni í mörgum togaranna, og er nú víðast hvar notað freon 12, sem er hættulaust. Er það notað í öllum nýjum skipum, en methylklóríd mun enn notað í nokkrum nýsköpunartogurum. Hættan af methylklóríd er sú, að sáralítil lykt er af því, svo að menn verða þess ekki alltaf varir í tæka tíð, ef leki kemur að kælikerfinu. Því hefur í seinni tíð oft verið blandað svokölluðum aðvörunarmiðli í methylklóríd, þ.e. efni, sem sterk lykt finnst af. Hefur táragas m.a. verið notað í þessu skyni til viðvörunar.
Ef kerfið er örugglega þétt, er ekkert því til fyrirstöðu að nota methylklóríd, þótt notkun þess hafi minnkað á síðari árum vegna eitrunarhættunnar. Atburðirnir á Röðli stafa ekki af því, að ekki hafi verið vitað um lekann, heldur af hinu, að menn vissu ekki um hættuna, sem af honum gat orðið. Þegar áhöfnin tók að veikjast, datt mönnum matareitrun fyrst í hug, en hugkvæmdist ekki að rekja orsakir veikindanna til lekans. Skipaskoðunarstjóri gat þess að lokum, að sér væri aðeins kunnugt um eitt dæmi þess erlendis frá, að eitrun hefði orðið af sömu orsökum.
Þess má að lokum geta, að methylklóríd hefur einnig verið notað í kælikerfi víðar en í skipum, t.d. í kæliskápum til heimilisnotkunar. Þar er magnið þó svo lítið, að þótt til leka komi, á hættan af því að vera sáralítil. Þó mun kunnugt um a.m.k. eitt dæmi þess erlendis, að til smávægilegrar eitrunar hafi komið í heimahúsum af þeim orsökum. Í frystihúsum hér er eingöngu notað ammoníak, en af því er megn fnykur, eins og kunnugt er.

Morgunblaðið. 22 janúar 1963.

30.04.2017 11:08

Aage SI 51. TFSK.

Seglskipið Aage SI 51 var smíðaður í Assen í Danmörku árið 1889. Eik. 31 brl. Hjálparvél, stærð og gerð ókunn. Eigandi var Firmað Carl Höepfner á Akureyri frá vori árið 1900. Hét Aage og fékk skráninguna EA 13 nokkrum árum síðar. Skipið var selt 6 júní 1939, Guðmundi Hafliðasyni á Siglufirði, hét hjá honum Aage SI 51. Sama ár var skipið endurbyggt og ný vél, 110 ha. Hundested vél sett í skipið. Selt 24 janúar 1941, h/f Björgu í Reykjavík, hét Græðir RE 76. Selt 11 nóvember 1941, Steindóri Péturssyni í Keflavík, hét Græðir GK 310. 13 febrúar 1942 sigldi bandaríski tundurspillirinn U.S.S Ericsson á Græði GK út af Gróttu með þeim afleiðingum að skipið sökk á svipstundu. 1 skipverji fórst en 6 skipverjum var bjargað um borð í U.S.S. Ericsson.


Aage SI 51.                                                                                           (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Bandaríski tundurspillirinn U.S.S. Ericsson sem sigldi Græði GK niður við Gróttu 13 febrúar 1942.

                 Seglskipið Aage

Í skrá yfir íslenzk skip 1933 eru þessi seglskip talin : »Aage« 44 ára, »Hríseyjan« 48 ára, »Sulitjelma« 47 ára, og »Tjalfe« 59 ára. Af þeim hafa 3 hin síðartöldu, staðið á landi undanfarin ár, en hvort »Aage« verður síðasta seglskipið, sem gengur er ekki fullyrt hér, en að útgönguversinu er komið, það er sýnilegt.

Ægir. 5 tbl. 1 maí 1933.

        Sex sjómenn bjargast naðuglega

                í árekstri undan Gróttu

             Einn maður drukknar 

Það slys vildi til klukkan 1 í fyrrinótt, að amerískur tundurspillir sigldi í myrkri á vjelbátinn ,,Græði  frá Keflavík. Sökk báturinn svo að segja í einu vetfangi, en einn maður af áhöfninni drukknaði. Hann hjet Lárus Marísson, 65 ára gamall, ættaður úr Dalasýslu, en nú til heimilis hjer í bæ. Hann átti fimm uppkomin börn. Sex aðrir menn, sem á ,,Græði" voru, björguðust mjög nauðuglega. Fjórir komust upp á akkeri tundurspillisins og tókst að hefja sig um borð, en tveimur var bjargað úr sjónum, og var annar þeirra, Guðmundur Guðmundsson, Kárastíg 9, formaður á bátnum, meðvitundarlaus, er honum var bjargað. ,,Græðir" var á leið hjeðan  til Keflavíkur, er slys þetta vildi til. Hafði báturinn legið hjer síðan fyrir áramót til viðgerðar, vegna smá óhapps, sem vildi til í vjel báteins, en vegna skipasmiðaverkfallsins hafði viðgerðin dregist svona lengi. Formaðurinn, Guðmundur Guðmundsson, og einn háseta hans voru í stýrishúsinu, er áreksturinn varð. Fjórir hásetanna voru í klefa fram í, en vjelamaður í vjelarrúmi. Alt í einu ,sáu þeir, sem í stýrishúsinu voru, Ijósglampa og í sömu svipan skipið, sem stefndi á þá. Guðmundur formaður kallaði þá þegar" fram í til háseta sinna og bað þá forða sjer, því hann sá hvað verða vildi. Vjelamaður heyrði til  Guðmundar og spurði hann, hvort nokkuð  væri um að vera og svaraði hann að svo væri. Annars bar þetta svo bráðan að, að mennirnir á " Græði" geta ekki gert sjer neina grein fyrir, hvernig slysið bar að, eða hvernig þeir björguðust. Fjórum hásetanna tókst að komast upp á akkeri tundurspillisins um leið og áreksturinn varð, og síðan upp í skipið. Vjelamaðurinn kom  upp í stýrishúsið um leið og áreksturinn varð.
Sá hann stefni tundurspillisins stefna beint á stýrishúsið. Án þess að geta gert sjer grein fyrir með hverjum hætti, tókst vjelamanni að klífa fram á rá, sem lá frá mastrinu að stýrishúsinu. Guðmundur formaður náði taki í tundurspillirinn, en hlaut högg um leið og báturinn sökk, og missti meðvitund. , Nokkur tími leið, þar til skipshöfnin á tundurspillinum setti út bát og náði þeim tveim mönnum, sem í sjónum voru.
Vjeibáturinn "Græðir" var 31 smálest að stærð. Báturinn var gamall, en endurbyggður árið 1939 og vjelin í honum tveggja ára gömul. Var þetta því hið besta skip. Eigandi skipsins var Steindór Pjetursson útgerðarmaður í Keflavík. Keypti hann bátinn s.l. haust. Fyrir jól fór "Græðir" í nokkrar veiðiferðir, en þetta var fyrsta ferð hans eftir viðgerð, eins og fyrr er sagt.

Morgunblaðið. 14 febrúar 1942.

29.04.2017 10:01

Qavak GR 2 1. OWPT.

Uppsjávarveiðiskipið Qavak GR 2 1 var smíðaður hjá Vakaru Baltijos í Klaipeda í Litháen og skipið síðan klárað hjá Karmsund Maritime Service A/S í Kopervik í Noregi árið 1999. 1.773 bt. 5.220 ha. MaK 8M32 díesel vél. Smíðanúmer 14. Hét fyrst Ventla H-40-AV og var í eigu Ventla A/S í Torangsvag í Noregi. Frá júlí 2013 hét skipið Ventla ll. Skipið var selt í febrúar 2015, Arctic Prime Fisheries ApS í Qaqortoq á Grænlandi, fékk nafnið Qavak GR 2 1. Skipið er búið að vera hér við land meira og minna síðan það var keypt til Grænlands og hefur legið oft mánuðum saman í Reykjavíkurhöfn. Qavak er nú í slippnum í Reykjavík.


Qavak GR 2 1 í Reykjavíkurhöfn.                                        (C) Þórhallur S Gjöveraa. 21 júní 2015.


Qavak GR 2 1 við Grandagarð.                                                  Þórhallur S Gjöveraa. 21 júní 2015.


Qavak GR 2 1 í slippnum í Reykjavík.                                 (C) Þórhallur S Gjöveraa. 27 apríl 2017.


Qavak GR 2 1 í slippnum í Reykjavík.                                (C) Þórhallur S Gjöveraa. 27 apríl 2017. 
Flettingar í dag: 175
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 779
Gestir í gær: 80
Samtals flettingar: 859218
Samtals gestir: 63047
Tölur uppfærðar: 23.6.2024 03:13:20