12.04.2017 12:32
2 m. Kt. Skarphéðinn GK 11. LBTF.
"Skarphéðinn"
Hinn 9. dag júnímánaðar 1898 var jeg staddur niður í
svonefndu Bryggjuhúsi í Reykjavík. Kallaði þá til mín Jón Jónsson bóndi og
útgerðarmaður í Melshúsum á Seltjarnarnesi og spyr, hvort jeg ekki vilji koma
með sjer út í Flóann og vera túlkur sinn, þar sem hið nýkeypta skip sitt
"Skarphéðinn" hefði komið svo seint, að engin tök væru að gera það út, en
nú væri tækifæri að fá fisk hjá togurum, sem hirtu ekki annað en kola og
smáfisk , en fleygðu þorski og öðrum verðmætum fiski til enn meiri
eyðileggingar á fiskimiðum, en vörpudráttur þeirra gerði. Eg var til í þetta og
sama kvöld steig ég á skip. Að mig minnir vorum við 9 á skipinu, Jón í
Melshúsum skipstjórinn, Björn Ólafsson skipstjóri, þá sprækur unglingur, Þórður
gamli í Gróttu, Sigurður Jón Jónsson bróðir Jóns í Melshúsunm, ungur sonur hans
Jón, 3 menn að austan og ég. Sigurður var sjógarpur mikill og lagði hann til
sexmannafar sitt í ferðina og var það haft í eftirdragi.
Átti að hafa það til að flytja fisk, sem við kynnum að fá úr þeim togurum, sem
vildu skifta við okkur. Verslunarvara þennan "túr" var 2 kassar af whisky,
50 bjórar og tvö hvít gæruskinn og salt var í framrúmi . Við sigldum svo sem
leið lá út að togaraflotanum og kölluðum við til sumra og rerum sexmannafarinu
til annara, en áragnurslaust; allir höfðu viðskifti við vissa menn og vildu
ekki sinna okkur. Þetta var á "Sviðinu". Nú leist okkur ekki á og héldum
suður á bóginn, Þar hittum við togara og var ég sendur út í hann, hitti þar
ruddastýrimann, sem vart ætlaði að hleypa mjer upp í skipið. Eg spurði eftir
skipstjóranum og tjáði stýrimaður mjer, að hann væri á útreiðatúr í Keflavík. í
þessum svifum kom íslendingur, sem ég þekti, upp úr káetu og sagði mjer, að
þýðingarlaust væri fyrir okkur að reyna að fá viðskiftamenn, því öll skipin
væru lofuð.
Hann bauð mér niður og þar hitti ég fleiri landa, sem allir voru í
verslunarviðskiftum, en munu hafa haldið heilagt þennan dag. Þeir fullyrtu
allir, að engin tök mundu vera fyrir okkur að ná viðskiftum. Aðfaranótt 12.
júní kvesti og héldum við skipinu norður eftir. Höfðu þá margir togarar haldið
í skjól upp að landi. Á "Sviðinu" hittum við enskan togara, sem hét
"Alice", en gátum ekki komist svo nærri, að við gætum haft tal af
skipverjum. Þótti Jóni skipstjóra þetta leitt og varð það úr, að sexmannafarið
var mannað og er sá enski sá það, stöðvaði hann skip sitt, en er við komum á
hléborða við hann, var svo illt í sjóinn, að skipið saup á. Einhvern veginn
komst ég upp í það og bað Sigurð formann að skilja mig eftir þar til lygndi og
fór hann aftur út í "Skarphéðinn". Í brjóstvasanum hafði ég eina flösku af
whisky og með hana óbrotna komst ég upp á stjórnpall, heilsaði upp á skipstjóra
og spurði hann hvort ekki væru tök á, að fá hjá honum fisk. Hann spurði mig þá
hvort ég hefði nokkuð meðferðis. Dró ég þá upp flöskuna og varð hann feginn að
fá í staupinu.
Þessi skipstjóri lofaði að hafa aðeins viðskifti við okkur og stóð við það.
Þegar lygndi fór hann að toga og tvær ferðir var farið að sækja fisk á
sexmannafarinu og síðan farið að gera að og salta. Við vorum ávalt í námunda
við skipið í rúma viku og var farið að ganga á forðann, bjórinn búinn, lítið
eftir af whisky og gæruskinnin farin, en fallegur stafli var kominn í lestina.
Jón í Melshúsum ákvað þá að sigla heim og afla meiri gjaldeyris, en sökum þess
að allt varð að varast og búast mátti við að einhver kæmi og tæki frá okkur
skipið, þá fór ég út í það með það whisky, sem eftir var og sagði skipstjóra að
ég ætlaði að verða hjá honum á meðan skip okkar færi inn. Lét hann sér það vel
líka og fékk ég þar bæði rúm og mat. Fyrstu nóttina, sem ég var þar, rifu þeir
vörpuna í grjóti, svo lítið var um afla, síðan tók að hvessa ,og í tvo daga
sáum við ekkert til "Skarphéðins".
Þegar loks við sáum hann, var farið að lygna og brátt fórum við að fá fisk. Á
þriðju viku vorum við með togara þessum, en þá þótti Jóni skipstjóra orðið það
áliðið vegna sláttar, að hann hætti, en síðasta daginn talaðist svo til, að
skipstjóri lánaði Jóni togarann, en hélt til seinni part dags og nóttina hjá
okkur á "Skarphéðni". Sagði hann mér, að hann hefði verið stýrimaður á
honum í 2 ár, meðan hann var bresk eign og hét "James Spurgeon". Jón í
Melshúsum hvarf okkur brátt sýn, en enski skipstjórinn vildi sigla
"Skarphéðni" og vorum við að sigla fram og aftur alla nóttina. Undir
morgun kom "Alice" með mikinn fisk á þilfari; fluttum við hann í
"Skarphéðinn", kvöddum skipshöfnina ensku og þökkuðum fyrir samvinnuna.
Afli okkar varð alls um 11 þús. fiskar, sem öllu hefði verið fleygt, hefðum við
ekki hirt. Nokkru eftir þetta voru Íslendingar sektaðir fyrir að fara út í
togara og meðal þeirra ríkur bóndi suður með sjó. Nágrannar hans, sem til hans
komu, vottuðu honum samhryggð sína út af þessu óhappi, en þá sýndi hann þeim
inn í fiskhús sín, sem voru full af togarafiski, og sagði: "Sektin var 40
krónur; þykir ykkur ekki fiskurinn slaga nokkuð upp í það?" Sigurður
Jónsson, bróðir Jóns í Melshúsum, hafði aldrei verið á þilskipi er hann fór
þessa ferð með "Skarphéðni". Skömmu síðar réðist hann á fiskiskipið
"Komet" ásamt Jóni syni sínum. Það skip fórst í ofsaveðri og drukknuðu þar
báðir. "Skarphéðinn" var hér á veiðum í fjölda mörg ár og þótti ávalt gæða
skip. Hann var seldur til Færeyja á stríðsárunum. í vor, er hann var hér,
skrapp ég út að honum, virti hann fyrir mér og mintist þeirra daga, er ég var
með Jóni sáluga í Melshúsum. Allt virtist í sömu skorðum og var þá. Eg spurði
Færeying, hvernig þeim líkaði við skipið. Hann svaraði: " Það er bezta skipið,
sem haldið er úti frá Færeyjum". "Skarphéðinn" er nú 41 árs gamall,
smíðaður í Rye 1885.
Ægir. 8 tbl. 1926.
Sveinbjörn Egilsson.
14 ágúst 1926.
11.04.2017 16:38
Bátasafn Gríms Karlssonar í Duus húsi í Keflavík.
1471. Ólafur Jónsson GK 404.
10.04.2017 18:25
L. v. Sæborg EA 383. LBPR / TFNE.
Árið 1925 hófst nýr þáttur í lífi Helga Benediktssonar. Þá
eignast hann hlut í sínum fyrsta vélbát, en það var Auður VE 3, 15 brl., sem
hann lét smíða í Eyjum. Aðrir eigendur Auðar voru þeir Ágúst Jónsson og
Kristján Sigurðsson, Vestmannaeyjum og Þórður Magnússon, Reykjavík. Helgi
eignaðist síðan bátinn einn og átti hann til ársins 1948. Sama ár, þ.e. 1925,
eignaðist hann hlut í Freyju VE 260 ásamt þeim Björgvini Vilhjálmssyni og
Hannesi Hanssyni, Vestmannaeyjum. Báturinn strandaði við Landeyjasand 30. mars
1927. Tveir menn fórust en sex menn björguðust. Árið 1929 lét Helgi smíða
Skíðblaðni VE 287,16 brl., í Vestmannaeyjum. Skíðblaðni átti hann til ársins
1950. Sama ár, þ.e. 1929, eignaðist hann 69 brl. stálbát með 120 ha.
gufuþjöppuvél, sem smíðaður hafði verið í Noregi 1902. Þessi bátur hlaut nafnið
Gunnar Ólafsson VE 284. Seldi hann bátinn árið 1933.
"Sæborg"
frá Hrísey ferst
Línuveiðarinn "Sæborg" frá Hrísey fór frá Seyðisfirði
11. nóv. síðastliðinn, áleiðis til Skála á Langanesi. Síðan hefur ekkert spurzt
um skipið og er það því talið af. Skipsmenn voru 6, en auk þess voru með
skipinu 2 farþegar. Mennirnir voru þessir:
Jóhann Friðriksson, skipstjóri, Reykjavík, kvæntur og átti 1 barn.
Valdimar Schiöth, stýrimaður, Hrísey, ókvæntur.
Eðvald Valdórsson, 1. vélstjóri, Vestmannaeyjum, kvæntur og átti 1 barn.
Aðalsteinn Jónsson, 2. vélstjóri, Hrísey, kvæntur og átti 3 börn.
Óli G. Friðriksson, matsveinn, Aðalvík, ókvæntur.
Páll Pálmason, háseti, Akureyri, ókvæntur.
Hallgrímur B. Hallgrímsson, farþegi, Reykjavik, kvæntur og átti 1 barn. Auk
Hallgrims var einn Bandaríkjamaður farþegi með skipinu.
"Sæborg" var smíðuð í Noregi árið 1902, en yfirbyggð og sett í hana diesel
vél á þessu ári. Eigendur skipsins voru þeir feðgarnir Jörundur Jörundsson og
Guðmundur Jörundsson útgerðarmenn í Hrisey.
Ægir. 11 og 12 tbl. 1942.
09.04.2017 14:35
B. v. Svalbakur EA 2. TFJC.
Svalbakur EA
2
Hinn nýi togari Útgerðarfélags Akureyringa h.f
"Svalbakur" kom hingað til bæjarins aðfaranótt 5. þ m., beint frá
Aberdeen, en skipið var formlega afhent umboðsmönnum félagsins af hálfu
skipasmíðastöðvarinnar Alexander Hall Ltd. í Aberdeen hinn 31. f. m. Við það
tækifæri flutti Sigursteinn Magnússon, aðalræðismaður, ræðu, þar sem hann lýsti
ánægju íslendinga yfir viðskiptunum við skozkar skipasmíðastöðvar. Jafnframt
afhenti hann fyrir hönd eigenda togarans, ljósmynd af Akureyri, en
forstöðumaður skipasmíðastöðvarinnar tók á móti henni og þakkaði með ræðu.
Viðstaddir hádegisverðarboð í tilefni afhendingar togarans voru, auk
aðalræðismannsins og forstöðumanna skipasmíðastöðvarinnar, Guðmundur
Guðmundsson, framkvæmdastjóri Útgerðarfélagsins, íslenzki ræðismaðurinn í
Aberdeen, fulltrúar togaraeigenda í borginni og fleiri gestir.
Í reynsluför sinni var ganghraði Svalbaks 14,02 sjómílur en meðalhraði í
förinni til Íslands 13 sjómílur. Skipið reyndist vel á heimferðinni.
Kunnáttumenn segja skipið hið glæsilegasta og mjög vandað. Það er af svipaðri gerð
og Kaldbakur, 2 fetum lengra en hann og mun ganga eitthvað betur. Nokkuð er
breytt til um útbúnað um borð í samræmi við fengna reynslu, en yfirleitt má
segja að þetta skip sé af
sömu gerð og hinir svokölluðu "nýsköpunar"-togarar. Svalbakur er síðastur þeirra
skipa, sem fyrrv. ríkisstjórn samdi um smíði á í Bretlandi. Skipið fer á veiðar
nú um helgina. Skipstjóri er Þorsteinn Auðunsson, 1. stýrimaður er Gunnar
Auðunsson, en 1. vélstjóri Bergur P. Sveinsson.
Dagur 9 júní 1949.
08.04.2017 19:39
1509. Ásbjörn RE 50. TFPU. Á útleið frá Reykjavík.
Ásbjörn RE
50
28, marz s.I. kom skuttogarinn Ásbjörn RE 50 í fyrsta sinn
til landsins. Ásbjörn RE er byggður í Flekkefjord Slipp og Maskinfabrik A/S í
Flekkefjord í Noregi, smíðanúmer 126, og er níundi skuttogarinn sem umrædd stöð
byggir fyrir Íslendinga. Auk þess hefur stöðin byggt einn skipsskrokk fyrir
Slippstöðina, sem Slippstöðin lauk við frágang á og afhenti á s.l. vori,
Björgúlf EA (sjá 9. tbl. Ægis 1977). Ásbjörn er af lengri gerðinni frá
"Flekkefjord", eins og Guðbjörg ÍS, Gyllir ÍS, Björgúlfur EA og Ásgeir RE,
en fyrstu fimm togararnir frá Flekkefjord voru 3.30 m styttri, en þessir
togarar eru: Júlíus Geirmundsson ÍS, Guðbjartur ÍS, Bessi ÍS, Framnes I ÍS og
Björgvin EA. Eigandi Ásbjörns RE er ísbjörninn h.f. í Reykjavík og er þetta
annar skuttogari fyrirtækisins en fyrir er skuttogarinn Ásgeir RE (sjá 2. tbl.
Ægis 1978) sem Ísbjörninn fékk afhentan í desember á s.l. ári. Ásgeir og
Ásbjörn eru systurskip, fyrirkomulag það sama svo og véla og tækjabúnaður.
Helztu frávik eru þau að í Ásbirni eru skutgeymar notaðir fyrir ferskvatn í
stað brennsluolíu, miðstöðvarketill stærri og tvær örbylgjustöðvar í stað
einnar. Skipstjóri á Ásbirni RE er Ragnar Franzson og 1. vélstjóri Axel
Lárusson. Framkvæmdastjóri útgerðar er Ingvar Vilhjálmsson.
Mesta lengd 49.85 m.
Lengd milli lóðlína 44.00 m.
Breidd 9.50 m.
Dýpt að efra þilfari 6.60 m.
Dýpt að neðra þilfari 4.35 m.
Eiginþyngd 603 tonn.
Særými (djúprista 4.30 m) 1058 tonn.
Burðargeta (djúprista 4.30 m) 455 tonn.
Lestarrými 438 m.3
Brennsluolíugeymar 76 m.3
Andveltigeymar (brennsluolía) .. 25 m.3
Skiptigeymar (br.olía/sjókjölf.) . . 28 m.3
Ferskvatnsgeymar 84 m.3
Ganghraði (reynslusigling) 14 sjóm.
Rúmlestatala 442 brl.
Skipaskrárnúmer 1509.
Ægir. 1 maí 1978.
07.04.2017 18:04
2889. Engey RE 91. TFJG. Móttökuathöfn og skipinu formlega gefið nafn.
MÓTTÖKUATHÖFN
ENGEYJAR Í DAG
Engey RE 91, nýr ísfisktogari HB Granda, kemur til
hafnar í Reykjavík í dag frá Akranesi. Engey kom til landsins 25. janúar sl. að
lokinni 15 sólarhringa siglingu frá Celiktrans skipasmíðastöðinni í Istanbúl í
Tyrklandi þar sem skipið var smíðað. Frá komu skipsins til landsins hefur
sjálfvirku lestarkerfi ásamt búnaði á vinnsludekk verið komið fyrir í skipinu á
Akranesi. Búnaðurinn, sem er sá fyrsti sinnar tegundar, hefur fyrirtækið
Skaginn 3X hannað, þróað og smíðað á Akranesi og á Ísafirði. Búnaðurinn mun
stórbæta vinnuumhverfi sjómanna um borð auk þess sem hann mun auka afkastagetu
skipsins og hámarka virði afurða úr afla þess.
,,Við erum afar ánægð og stolt að taka á móti Engey
RE 91 sem er glæsilegur ísfisktogari og án efa eitt tæknivæddasta fiskiskip landsins.
Við munum taka á móti tveimur ísfisktogurum, Akurey og Viðey, í flotann á næstu
mánuðum en þau skip verða með sama búnaðinum og er í Engey. Við reiknum með að
Engey fari í sína fyrstu veiðiferð í lok apríl," segir Vilhjálmur Vilhjálmsson,
forstjóri HB Granda.
,,Um að ræða stærsta þróunarverkefni sem ráðist
hefur verið í um borð í fiskiskipi hérlendis. Þessi nýja tækni grundvallast
fyrst og fremst á nýjum aðferðum við meðhöndlun fisksins og aukinni sjálfvirkni
í vinnslukerfinu sem flýtir aðgerð og frágangi á afla sem skilar mun betri
gæðum. Með nýrri myndavélatækni er hver einasti fiskur myndaður,
tegundagreindur og stærðarflokkaður. Myndavélatæknin heldur utan um allan feril
fisksins allt þar til að löndun lokinni. Með þessu erum við komin með möguleika
á rekjanleikakerfi sem á sér enga hliðstæðu allt frá veiðum til neyslu, ef menn
kjósa svo," segir Ingólfur Árnason, framkvæmdastjóri Skaginn 3X, en fyrirtækið
fékk á dögunum Nýsköpunarverðlaun Íslands fyrir þennan nýja búnað.
,,Þetta er annað skipið sem er búið hinu
byltingakennda SUB-CHILLINGT kerfi, sem gerir kleift að kæla fiskinn niður að
-1°C án þess að frysta hann. Með þessari tækni er hægt að geyma fiskinn í körum
án þess að nota ís. Skaginn 3X hefur sótt um sex ný einkaleyfi fyrir vinnslubúnaðinn
sem settur var um borð í Engey," segir Ingólfur ennfremur.
Nautic ehf. sá um hönnun skipsins. Samtals eru
klefar fyrir 17 manns um borð í skipinu, 15 eins manns klefar og einn tveggja
manna klefi. Móttökuathöfn verður við Norðurgarð í Reykjavíkurhöfn klukkan 14 í
dag. Engey verður síðan almenningi til sýnis á morgun, laugardag frá kl. 13-16.
Vefsíða H.B. Granda hf. 7 apríl 2017.
06.04.2017 13:54
2 m. kt. Toiler RE 97. LBHF.
Kútter Toiler
Akranes. 1 júní 1945.
Sigurður í
Görðum segir frá sjósókn í 60 ár
Árið 1896 var jeg með "Toiler". Þá urðum við síðbúnir í
miðsumarstúrinn sem venjulega var farinn til Vestur og Norðurlands. Þegar við
komum vestur í Ísafjarðardjúp, var þar allt fullt af ís. Urðum við að leggja
undan ísnum og lágum undir Rit. Þegar ísinn fór að lóna frá, fórum við út að
ísröndinni. Jakahröngl var kringum okkur. En aflinn gífurlegur. Þar var svo
mikið af síld, að sjórinn var eins og krap. Svo þjett var síldin í yfirborðinu,
að hún valt um hvað eftir annað og lá á hliðinni. Það var rjett eins og ekki
væri pláss fyrir hana í sjónum. Líklegt var, að ekki væri erfitt fyrir okkur að
ná þarna í beitu. Það gekk samt erfiðlega. Við settum út netstúf frá
skipsbátnum. Þegar helmingurinn af netinu var kominn í sjóinn, var hann fullur
af síld og ætlaði að sökkva.
Við gátum ekki innbyrt netið í bátinn, en komum
því við illan leik upp í skútuna. Við fyltum skipið af rígaþorski. Komum við
til Reykjavíkur allt að því mánuði á eftir öðrum. Þá varð Geir Zoega kátur.
Hann setti afla okkar í sjerstakan stafla í pakkhúsinu og leiddi þangað marga
til að skoða hve fiskurinn var vænn, og sagði: "Þetta veiddu þeir á
"Toiler" þegar aðrir voru komnir í land".
Morgunblaðið. 9 mars 1940.
Ræflafélagið
Ef til vill haldið þið, að þessi yfirskrift sé eintómt grín,
en svo er aldeilis ekki. Á þessum árum var beinlínis til félag í Reykjavík, sem
hét þessu óhrjálega nafni, og hér skal gerð nokkur grein fyrir þessu félagi,
því að það kemur Slippfélaginu beinlínis við. Tryggvi Gunnarsson, bankastjóri,
var mikill framfara- og félagsmaður. Hann var í mörgum félögum, og víst lengst
af formaður þeirra flestra. Tryggvi var frumkvöðull að stofnun Ræflafélagsins
eins og margra annarra félaga, og hefur áreið- anlega ráðið nafni þess. Líklega
hefur honum fundizt það hæfilega tvírætt um, hvort heitið ætti að vera táknrænt
upp á félagsmennina, sem væru í því, eða tilganginn, sem félagið átti að þjóna.
Markmið félagsins var að kaupa ónýt skip eða lítt nothæf, eða strönduð,
skiparæfla til þess að gera við þau. Var þetta eingöngu eða aðallega gert til
að tryggja slippnum atvinnu, þann tíma, sem lítið eða ekkert væri til að gera.
Enda þótt þetta væri aðalmarkmiðið, töldu þeir réttara, að þetta væri sérstakt
félag, laust við slippinn sjálfan, svo að hann þyrfti ekki að leggja fé í þetta
eða bera af því ábyrgð, heldur hafa atvinnu af þvi að endurbyggja
"ræflana" eða gera við þá.
Toiler var eitt með elztu kútterunum, og eitt
þeirra ensku skipa, sem keypt voru hingað til lands. Ekki veit ég, hver fyrst
keypti þetta skip frá Englandi, en Geir Zoega átti það lengi. Nú kom að því, að
Toiler þurfti mikillar aðgerðar við. Kom Geir því að máli við Ellingsen og
biður hann að taka skipið á slippinn til viðgerðar. Var það gert og viðgerð
hafin. Hefur mér verið tjáð, en veit ekki frekari sönnur á að Toiler hafi verið
fyrsta skipið, sem fært var til hliðar á hinni nýju útaffærslubraut Ellingsens.
Þegar farið var að rífa skipið og gera við það, kom í ljós, að það þurfti
miklum mun meiri viðgerð en gert hafði verið ráð fyrir. Viðgerðin var komin
lítið á veg, þegar farið var í hana mikið fé, of mikið fé að dómi Geirs, en þó
miklu meira eftir. Geir leist þvi ekki á blikuna og bauðst til að selja
slippnum skipið í því ástandi, sem það væri, ef um gæti samizt. Ekki vildi
Ellingsen eða stjórn slippsins eiga neitt við þessi kaup. En eftir nokkrar
samninga umleitanir varð það að samkomulagi með Geir og Tryggva fyrir hönd
Ræflafélagsins, að það keypti skipið, þar sem það stæði, og var nú gert við það
á vegum Ræflafélagsins. Nokkru síðar keypti svo "Milljónafélagið" P. J.
Thorsteinsson & Co., skipið, og er eigandi þess í nóv. 1907. Toiler var
skrásettur frá Reykjavík, R. E. 97, var 66,24 smál. og var byggður 1876,
innfluttur frá Englandi í júní 1892. Líklega var Toiler seldur vestur á firði,
en mun hafa verið seldur til Færeyja 1919. Til gamans má segja frá því, að einu
sinni, og líklega oftar lét Tryggvi prenta og senda út þessu lík fundarboð til
félagsmanna:
"Fundur verður haldinn í Ræflafélaginu í
dag kl. 2. Runólfur Ólafsson í Mýrarhúsum er sérstaklega boðaður á fundinn. Tr
Gunnarsson." Líklega hafa a. m. k. þessir menn verið í Ræflafélaginu:
Tryggvi Gunnarsson, Runólfur Ólafsson, Jón í Melshúsum, Ásgeir Sigurðsson, Jes
Zimsen, Jón Norðmann og Jóhannes Jósefsson.
Slippfélagið í Reykjavík 50 ára.
Akranes 1 október 1953.
05.04.2017 20:05
B. v. Ýmir GK 448. LCDP / TFKC.
Togaraútgerð
Hafnfirðinga.
Auk þeirra Hafnfirðinga, sem ráku útgerð í byrjun 20.
aldarinnar, koma nokkuð margir útlendingar við sögu, en þeir höfðu mikla
útgerðarstarfsemi hér fyrstu þrjá áratugi þessarar aldar. Fyrstu tilraunir, sem
gerðar voru með botnvörpu hér við land, voru gerðar af þýzkum manni árið 1889,
en Englendingar hófu hér veiðar með botnvörpum 1891. Frá Hafnarfirði er fyrst
gerð tilraun með botnvörpuveiðar af brezkum fiskikaupmanni, Pike Ward að nafni,
árið 1899, en togarinn nefndist "Utopia". Þessi útgerð stóð aðeins þetta
eina ár og varð Ward að hætta henni vegna ýmissa erfiðleika.
Erlendum togurum, knúnum gufuafli, fjölgaði nú við strendur landsins, og voru
þeir mjög fengsælir. íslendingar tóku brátt að gera tilraunir með útgerð
togara, en þær misheppnuðust flestar í byrjun. Þá var það árið 1904, að nokkrir
íslenzkir útvegsmenn og kaupmenn tóku sig saman og réðust til kaupa á litlum og
nokkuð gömlum enskum togara, sem bar nafnið "Coot". Þeir voru Arinbjörn
Ólafsson, Keflavík, Björn Kristjánsson, Reykjavík, Guðmundur Þórðarson, Gerðum,
Þórður Þórðarson, Reykjavík, Indriði Gottsveinsson, Reykjavík, sem varð
skipstjóri á Coot og Einar Þorgilsson, Óseyri, sem jafnframt varð
framkvæmdarstjóri fyrir félaginu.
Var þetta fyrsta íslenzka togaraútgerðin, sem heppnaðist og var Coot gerður út
frá Hafnarfirði. Útgerð þessi stóð nokkuð skammt, því Coot strandaði við
Keilisnes í desember 1907 og var þá að koma úr viðgerð í Reykjavík. Íslenzkir
togarar eru ekki gerðir út frá Hafnarfirði, frá því Coot ferst, þar til 1915.
Þá eru smíðaðir í Þýzkalandi tveir togarar, Ýmir og Víðir, sem voru eign
samnefndra hlutafélaga, en Ágúst Flygenring veitti því fyrra forstöðu, en
Þórarinn Böðvarsson því síðara. Með tilkomu þessara tveggja togara til
Hafnarfjarðar, hefst raunverulega innlend stórútgerð hér. Hefur innlend togara útgerð
verið rekin í Hafnarfirði stöðugt síðan 1915. Erlendir aðilar höfðu töluverða
togaraútgerð hér framan af þessari öld, þó með nokkrum hvíldum. Höfðu flestir
þeirra aðsetur í "Svendborg", en hinir síðustu hurfu héðan um 1929. Var
það firmað Hellyers Brothers Ltd., Hull, sem gerði út 6 togara frá Hafnarfirði
á árunum 1923-1929.
Hafnfirzkir útgerðarmenn juku á næstu árum botnvörpuskipastól sinn mjög mikið
og voru flestir gerðir út 12 íslenzkir togarar frá Hafnarfirði, en í dag eru
gerðir út 6, og eru það að sjálfsögðu allt nýsköpunartogarar. Árið 1931 hóf
Bæjarútgerð Hafnarfjarðar starfrækslu sína og festi kaup á togaranum Maí. Hefur
Bæjarútgerðin verið starfrækt síðan og gerir nú út 3 togara og 1 mótorbát.
Forstöðumaður Bæjarútgerðarinnar var ráðinn Ásgeir G. Stefánsson, og hefur hann
komið töluvert við sögu útvegsmála í Hafnarfirði síðan. Hafði hann áður haft
töluverð afskipti af vélbátaútgerð hér í bæ. Aðrir togarar sem gerðir eru út
frá Hafnarfirði í dag, eru Röðull, sem Venus h.f. gerir út, Surprise, sem Einar
Þorgilsson & Co. h.f. gerir út og Bjarni riddari, sem Hrafnaflóki h.f.
gerir út. Eftir síðari heimsstyrjöldina var allur skipastóll togaraútgerðarinnar
í Hafnarfirði endurnýjaður. Er nú svo komið, að engir af hinum gömlu togurum
eru gerðir hér út lengur. Fyrsti nýsköpunartogarinn, sem kom til Hafnarfjarðar,
var togarinn Bjarni riddari, er kom í september árið 1947.
Botnvörpuskipin "Kári Sölmundarson", GK. 153,
"Ari", GK. 238 og "Þorgeir skorargeir", GK. 448, eru til sölu. Hverju
skipi geta fylgt veiðarfæri og varahlutar, eins og bankinn hefir eignast með
skipunum. Til sölu er ennfremur stöð KÁRA-félagsins í Viðey, með bryggjum og
öllum áhöldum, eins og bankinn hefir eignast stöðina úr þrotabúi
Fiskveiðahlutafélagsins KÁRI. Tilboð í eignir þessar allar sameiginlega eða í
hvert skip og stöðina fyrir sig, sendist Útvegsbanka íslands h.f" Reykjavík,
fyrir 15. desember næstkomandi. - Reykjavík, 2. desember 1931. Útvegsbanki Íslands hf.
03.04.2017 11:42
L. v. Hafþór ÍS 453. LBNT / TFDG.
Línuveiðarinn
Reykjanes sökk í fyrrinótt
Mannbjörg
varð
Línuveiðarinn Reykjanes sökk á þrem mínútum í fyrrinótt, en
mannbjörg varð. Er slysið vildi til var skipið á síldveiðum austan við Tjörnes.
Var það orðið mjög fermt. Orsök slyssins er talin hafa verið sú, að annar
nótabáturinn féll úr bátauglunum, en þá olli báturinn hinum megin því, að
skipið kastaðist á hliðina og sökk á þrem mínútum. Öll áhöfn Reykjanessins að
undanteknum vélamönnunum var í bátunum er slysið vildi til. En vélamennirnir
komust á kjöl og var þeim bjargað þaðan. "Ólafur Bjarnason" flutti alla
áhöfnina óskaddaða til Hjalteyrar í gærmorgun. Reykjanesið var gott skip, 103
brúttó-smálestir að stærð. Eigandi þess var Pétur Johnson.
Morgunblaðið. 26 júlí 1942.
02.04.2017 10:51
B. v. Hilmir RE 240. LCGW / TFLC.
Togaranum
Hilmi hlekkist á
Togarinn Hilmir varð fyrir áfalli í hafi í fyrradag og tók
einn mann út, sem drukknaði. Hann hjet Guðni Sigurðsson, 23 ára gamall,
búsettur hjer í bænum. Hilmir var á leið til Englands með ísfisk. Var búist við
að hann mundi landa í Grimsby í gær. En í gær fjekk útgerðarfjelagið
"Alliance" skeyti frá skipstjóranum á Hilmi, sem þá var kominn til
Aberdeen. Einustu upplýsingar, sem liggja fyrir hjer um slysið, eru úr skeyti
skipstjórans. Segir í því, að togarinn hafi orðið fyrir áfalli í hafi. Bátadekk
hafi brotnað og bátana tekið út. "Casinn" hafi brotnað og einnig hafi
trjeverk allt í brúnni brotnað. Maðurinn, sem druknaði, var við stýrið er
slysið vildi til. Guðni Sigurðsson var efnispiltur. Hann var ókvæntur og bjó
með foreldrum sínum á Hávallagötu 21 hjer í bænum. Foreldrar hans fluttu hingað
til bæjarins 1930, en þau bjuggu áður að Vetleifsholti í Ásahreppi í
Rangárvallasýslu. Hilmir mun selja afla sinn í Aberdeen í dag og verður þar
sennilega gert við skemmdirnar á skipinu.
Morgunblaðið. 29 október 1937.
Málverk Valgarðs Klemenssonar, skipverja á Hilmi sýnir brotsjóinn sem togarinn varð fyrir þegar hann var á leið til Englands 24 október 1937. (C) Valgarður Klemensson.
Togarinn
Hilmir var nær sokkinn
Gísli Jónsson, vjelaeftirlitsmaður hefir sent Morgunblaðinu
eftirfarandi frásögn af áfalli því, sem togarinn Hilmir fékk á sig á leið til
Englands 24. október síðastliðinn. Hilmir hefur verið í Englandi síðan.
Morgunblaðið skýrði frá þessu áfalli 29. okt. eftir skeyti sem borist hafði frá
skipstjóra togarans, þar sem segir að einn maður, Guðni Sigurðsson, hafi
druknað, bátadekk hafi brotnað og bátadekk tekið út. Aðrar fregnir hafa ekki borist
af hinu mikla áfalli fyrr en nú.
Þann 29. október kom b.v. "Hilmir" til South Shields á Englandi,
sundurflakandi ofanþilja af áfalli sem skipið hafði fengið í Atlantshafinu á
leið til Englands. Ég hef séð mörg skip koma í höfn undan ofvirðrum mismunandi
útleikin, en ekkert áður líkt þessu. Mest allur hluti stýrishússins var
horfinn, bátapallurinn með bátum og öllu tilheyrandi, loftventlar yfir
ketilrúmi, og bræðsluskýli var allt bókstaflega þurrkað í burtu, siglutoppar
brotnir, stög og reiði slitið niður. Ketil og vélareisn, eldhús, brú og
hágluggi vjelarrúms var allt lagt saman eins og pappaaskja. Afturgálginn var
annars vegar rifinn upp frá þilfarinu og honum þeytt inn í vélareisn bar sem
hann lá kýttur saman, hinn afturgálginn kýttur hálfa leið niður á öldustokk.
Skjólborð og stoðir var ýmist lagt inn eða rifið upp og á 2ja þumlungs gildar
járnstengur var brugðið hnútum eins og á snærispotta, og þilfarið á stóru svæði
ýmist rifið upp eða kýtt niður. Ég hitti skipverja að máli strax og skipið kom
í höfn, 19 vaska menn, flesta kornunga. Látlaust og rólega skýrðu þeir mér frá
þessu áfalli, sem hjer segir, "Sunnudaginn 24. október vorum við staddir 205
sjómílur austur af Portlandi á leið til Englands.
Vindur var norðaustan 9 og
mikill sjór. Stýrðum við SA 3/4 A og fórum með hálfri ferð. Kl. 7 um kvöldið,
er mikill hluti skipverja sat yfir borðum aftur í káetu, kom brotsjór upp með
bakborðshlið skipsins við afturgálga og helti sjer yfir það með feikna afli og
fleygði því svo hart á hliðina að stjórnborðshliðin í stýrishúsinu brotnaði
inn, við að hendast ofan á hafflötinn. Fylltist stýrishúsið í einu vetfangi af
sjó og sömuleiðis herbergi skipstjóra, en þakið af stýrishúsinu rifnaði af.
Skipstjóri, sem staddur var framan til í stýrishúsinu, missti þegar meðvitundina
við áfallið og er hann aftur raknaði við, var hann enn að veltast innan um
sjóinn í húsinu, og hafði þá drukkið mikið af sjó, svo að nærri lá við drukknun.
Guðni Sigurðsson var við stýrið. Skolaðist hann út í gegnum brotnu hliðina yfir
járnþiljurnar og sást ekki meir. Hefir hann að líkindum strax mist með-
vitundina eins og skipstjórinn. Þriðji maðurinn, Sigurður Sigurðsson var
staddur bakborðsmegin í stýrishúsinu og sakaði hann ekki.
Sjórinn sópaði í burtu öllu ofan af skipinu að aftan, fyllti káetuna og
loftskeytaklefann, henti þar til borði, bekkjum, áhöldum og mönnum, svo að allt
var í einni kös. Og svo var höggið mikið, að öll glóð og allar ristar í
eldholum ketilsins hentist út, nema helmingur úr einu eldholinu; þar glóðu enn
nokkrir eldsneistar, sem gerðu okkur mögulegt að viðhalda og auka aftur
eimþrýsting ketilsins. Vjela og ketilrúm fylltust svo af sjó, að þar var staðið
í mitti. Ljósin sloknuðu um allt skip, loftskeyti stöðvuðust, en kol og farmur
kastaðist yfir í hljesíðuna. Skipið lá þannig í hálfa klukkustund, áður en það
byrjaði að reisa sig aftur við nokkuð að ráði, og engum okkar kom til hugar þá,
að við yrðum nokkru sinni til þess að flytja sagnir af þessu áfalli. Og þó
heyrðist hvergi æðruorð frá nokkrum manni. Kaldur og rólegur gekk hver maður að
sínu verki, eftir því sem því varð viðkomið, með það eitt fyrir augum, að
standa á meðan að stætt væri, og hverfa þá yfir á aðra strönd, með fullvissuna
um það að hafa ekki brugðist skyldum sínum". En einmitt þessi kalda,
rólega skyldurækni, sem fáum er gefin til jafns við Íslenska sjómenn, varð til
þess að bjarga hjer fólki og fleyi. "Þegar stýrishúsið brotnaði, slóst
vjelsíminn þar til svo að hann flutti hringingu til vjelarrúms, en slitnaði þá
í sömu andránni.
Það var allt jafnt að hringingin heyrðist, skipið fór í kaf,
vjelarrúm fylltist og ljósin slokknnðu. Yfirvjelstjórinn, Ágúst Ingvarsson, var
á verði og stöðvaði hann vjelina samstundis. En með því að hann fann, að skipið
hjelt áfram að síga niður, setti hann vjelina aftur á fulla ferð, án þess að
hafa um það fyrirskipun, til þess, ef mögulegt væri, að skipið gæti rifið sig
upp aftur með ferðinni og þurkað af sjer sjóinn. Jafnsnemma hljóp maður sá, sem
í stýrishúsinu var og ekki hafði slasast, að stýrinu til þess að snúa skipinu,
ef mögulegt væri, upp að vindinum, og það er enginn vafi á því, að fyrir þessa
skynsamlegu yfirvegun og tilþrif þessara tveggja manna, bjargaðist skipið.
Í kolsvarta myrkri, öslandi sjóinn í mitti, kappkostaði vjelarliðið
sameiginlega án afláts að viðhalda eldi og eimi, svo skipið gæti látið að
stjórn, koma á stað dælum og síðar, svo fljótt sem unt var, ljósum, á meðan að
stýrimaðurinn braust í gegnum ölduflóðið frá káetu og upp í stýrishús, til þess
að aðstoða við stjórnina skipstjórann ,sem enn lá þar meðvitundarlaus. Allan
tímann, sem skipið lá svona, kom engin önnur bára yfir skipið. Það var eins og
sjórinn væri orðinn sléttur, þrátt fyrir veðurhæðina". Er þetta
skiljanlegt, þegar athugað er að sjórinn brýtur allar lýsis og olíutunnur á
þilfari um leið og hann gengur yfir skipið, og ætti það að vera bending til
manna, að nota bárufleyga í vondum veðrum, þó á hafskipum sé. Þegar veðrinu
slotaði næsta dag, var fáninn dreginn í hálfa stöng, það var hinsta kveðja
okkar til fjelagans unga, sem svo sviplega og sorglega var burtu kvaddur. Öll
skipshöfnin drýpur höfði sem einn maður og hljóðnar í hálfa mínútu eða svo, og
jeg skil, hinir íslensku farmenn eru allt jafnt, harðir sem stál og bljúgir sem
börn.
Morgunblaðið. 25 nóvember 1937.
Frásögn Gísla Jónssonar.
01.04.2017 10:54
B. v. Askur RE 33. TFND.
Nýsköpunartogarinn
Askur kom í gær
Í næsta mánuði er von á Ísólfi, togara Seyðisfjarðar, Goðanesi eign Neskaupstaðar og Neptúnus hlutafjelagsins Júpíter í Hafnarfirði, Neptúnus verður stærstur nýsköpunartogaranna, sem koma á þessu ári. Um næstkomandi áramót verða því nýsköpunartogarar landsmanna orðnir 17 að tölu.
Morgunblaðið. 8 nóvember 1947.
Togararnir Askur og Víkingur í árekstri á Jónsmiðum
Sólin var
aðalástæðan fyrir árekstrinum
Sólin var aðalástæðan fyrir árekstrinum, og b/v Askur kom
beint úr sólarátt, sagði Hans Ragnar Sigurjónsson, skipstjóri á b/v Víking Ak
100, sem lenti í árekstri við b/v Ask RE 33, á Jónsmiðum við Austur-Grænland.
Togararnir komu inn til Reykjavíkur um miðnætti í gær og sjóréttarpróf hófust á
skrifstofu Borgardómara í morgun. Dómforseti var Valgarður Kristjásson, en
meðdómendur Eiríkur Kristófersson og Sigmundur Sigmundsson.
Sjóréttarprófin hófust klukkan 10 í morgun. Fyrst komu fyrir réttinn Hans Ragnar
Sigurjónsson, skipstjóri á b/v Víking. Hans skýrði m. a. svo frá: "Ég tel
sólskin vera aðalástæðuna fyrir árekstrinum. Askur kom úr sólarátt frá Víking
og sá ég ekki togarann fyrr en mjög lítið bil var á milli skipanna".
Aðspurður um það, hvort hægt hefði verið að forða árekstri, svaraði Hans: "Ég
tel miklar líkur til, að hægt hefði verið að komast hjá árekstri, ef b/v Askur
hefði haldið ferð sinni áfram, í stað þess að stöðva". Hans Ragnar sagði,
að Askur hefði verið á veiðum á svipuðum slóðum og hann, Askur hefði togað í
suður en Víkingur í norður. Þegar Víkingur hefði hætt að toga, hefði hann og
stýrimaðurinn gætt að Aski, en hvergi séð hann og sagðist Hans hafa álitið að
Askur hefði farið af miðunum. Sagði Hans að þeir hefðu verið búnir að "kippa"
í ca. 10 min., þegar þeir urðu varir við Ask. Hans Ragnar var sjálfur allan
tímann í brúnni og háseti með honum, sem var við stýrið. Sagði skipstjórinn að
hann hefði heyrt flaut frá Ask, en þá hefði mest verið um tvö hundruð metra bil
á milli togaranna. Þegar fréttamaður Vísis yfirgaf sjóréttinn í morgun, var
Hans Ragnar enn fyrir rétti. Næstur átti að koma fyrir sjóréttinn skipstjórinn
á Aski, Arinbjörn Sigurðsson. Skemmdir á togurunum hafa ekki verið kannaðar að
fullu, en mjög litlar skemmdir urðu á Víkingi, en hann heldur á veiðar í kvöld.
B.v. Askur skemmdist töluvert á bakborðshlið og brú.
Vísir. 18 september 1964.
30.03.2017 11:05
892. Víkingur ll ÍS 170. TFQC.
Víkingur ll
ÍS 170
Vesturland. 29 maí 1959.
Vill
varðveita Víking II
Ísfirðingurinn Svavar Cesar Kristmundsson vill kanna hvort
áhugi sé fyrir að varðveita eikarbátinn Víking II. Víkingur II var smíðaður í
Skipasmíðastöð Marselíusar Bernharðssonar og var sjósettur 1959. Báturinn var
smíðaður fyrir þá bræður Arnór og Hermann Sigurðssyni í samvinnu við
Norðurtangann. Víkingur II heitir í dag Heddi frændi EA og er við bryggju á
Hornafirði. Svavar, sem er gamall Ísfirðingur nú búsettur á Húsavík, segist
vera áhugamaður um varðveislu báta og sögu sjávarútvegs. "Með þetta áhugamál er
verst að vera ekki milljónamæringur", segir Svavar. Hann segir að báturinn hafi
lengi verið bundinn við bryggju á Hornafirði og það að hann hafi alltaf verið á
floti hafi bjargað honum frá skemmdum. "Það var hafnarnefndarfundur á
Hornafirði í gær og ég veit að til stendur að brenna hann." Í dag er báturinn
nær óþekkjanlegur.
Búið að setja á hann hvalbak og bjóðageymslu bakborðsmegin
og auk þess var brúin stækkuð. "Ég er með hugmyndir um að koma honum til
Húsavíkur í geymslu og það er seinni tíma mál hvort hann verður varðveittur. En
honum verður ekki fargað á meðan." Aðspurður hvers vegna varðveisla Víkings II
er honum svona mikið hjartans mál segir Svavar að það sé nauðsynlegt að fyrir
sögu Ísafjarðar að varðveita til frambúðar eitthvað af bátunum sem voru
smíðaðir hjá Marselíusi. "Ég stundaði í gamla daga sem púki að fylgjast með
bátasmíðinni hjá Marselíusi og ófáar reynslusiglingar sem maður komst í þegar
bátarnir voru sjósettir", segir Svavar.
Bæjarins besta. 31 janúar 2008.
29.03.2017 13:55
Hamóna ÍS 29. TFHL.
Hamóna ÍS 29
Anton Proppé var athafnasamur maður á stríðsárunum. Árið
1941 skellti hann sér til Kanada og festi þar kaup á gamalli seglskútu, 170
brúttótonn að stærð. Fékk hún nafnið Hamóna ÍS 29. Hamóna var rennileg
tvímastra skonnorta, smíðuð árið 1922, með 60 hestafla hjálparvél. Skipstjóri
var Kristján Ebenesarson frá Flateyri, seglaskipstjóri á heimferðinni frá
Kanada var Jón Guðmundur Ólafsson frá Patreksfirði og vélstjóri var Þórður J
Magnússon frá Flateyri.
Mamóna kom til landsins í maí 1941 og var næstu mánuði í siglingum með ísaðan
fisk til Englands og vöruflutningum innanlands fyrir ameríska herinn sem þá var
nýkominn til landsins. Um haustið var hún tekin í slipp í Reykjavík til
viðgerðar og breytinga. Settar voru í skipið tvær nýjar 120 hestafla vélar og
stýrishús byggt. Þótti mörgum að virðuleiki skipsins færi þar með.
Breytingarnar tóku heilt ár. Hamóna var eftir það í flutningum til stríðsloka.
Þá reyndi hún fyrir sér á síldveiðum sumarið 1945. Endalok Hamónu urðu þau að
skipið rak á land innan við Þingeyri í stórviðri 17 desember 1945 og var rifin
þar í fjörunni. Í sama veðri enduðu líka daga sína vélbátarnir Glaður og Venus
frá Þingeyri. Stýrishúsið á Hamónu átti sér þó annað líf. Það þjónaði lengi sem
flugskýli á Þingeyrarflugvelli, þar sem séra Stefán Eggertsson sá um stjórnina.
Flugskýlið er nú komið á Samgöngusafnið á Hnjóti í Örlygshöfn í Patreksfirði og
sómir sér þar vel.
Saga verkalýðshreyfingar á Vestfjörðum.
Dýrafjörður
Einn vélbátur stundar handfæraveiðar þaðan og hefir aflað
vel, en smábátaaflinn á þær 12 trillur, er þaðan stunda veiðar, flestar með
handfæri, hefir verið í tæpu meðallagi. Tvö skip frá Þingeyri hafa lengstum
verið við ísfiskflutninga í vetur og vor, en stunda nú síldveiði. Nýlega hefir
eitt 160 rúml. skip bætzt við flotann á Þingeyri, en það er skonnortan
"Hamóna", sem Anton Proppé keypti í vetur frá Ameríku. Hefir skip þetta
farið eina ferð með ísfisk til Englands.
Ægir. 1 júlí 1941.
28.03.2017 12:53
482. Guðmundur Þórðarson GK 75. TFSL.
Guðmundur
Þórðarson GK 75
Þann 8. apríl síðastliðinn hljóp af stokkunum hjá
Skipasmíðastöð Hafnarfjarðar nýr vélbátur, er heitir Guðmundur Þórðarson. Bátur
þessi er 52 brúttó rúmlestir að stærð og hefur 100 hestafla Lister Diesel vél.
Kjölurinn að bátnun var lagður snemma í ágúst 1942, en smíðin tafðist sökum
efnisskorts og annarra orsaka. Eigendur bátsins eru Ægir h. f. Gerðum og Kristinn Árnason og Co.,
Gerðum. Framvæmdarstjóri hans verður Finnbogi Guðmundsson, en skipstjóri
Kristinn Árnason.
Ægir. 1 maí 1943.
27.03.2017 19:59
731. Reykjaröst KE 14. TFJN.
Reykjaröst
GK 414.
Í júlímánuði síðastliðnum hljóp nýr bátur af stokkunum í Skipasmíðastöð
Marselliusar Barnharðssonar á Ísafirði. Fór bátur þessi þá þegar á síldveiðar.
Bátur þessi heitir Reykjaröst og hefur einkennisstafina G. K. 414. Hann er 53
rúml. að stærð og hefur 150 hestafla Fairbank Morse vél. Eigandi Reykjarastar
er hlutafélagið Röst í Keflavík. Framkvæmdastjóri þess er Margeir Jónsson, en skipstjóri
á bátnum er Angantýr Guðmundsson.
Ægir. 1 september 1945.