25.06.2017 08:51

181. Sigurður Bjarnason EA 450. TFSW.

Togskipið Sigurður Bjarnason EA 450 var smíðaður hjá V.E.B. Schiffswerft í Stralsund í Austur Þýskalandi árið 1958. 249 brl. 800 ha. MWM díesel vél. Smíðanúmer 402. Eigandi var Súlur h/f á Akureyri (Leó Sigurðsson útgerðarmaður). Skipið kom til heimahafnar, Akureyrar 21 desember 1958. Skipið var selt 6 október 1970, Útgerðarfélaginu Höfn á Siglufirði, skipið hét Hafnarnes SI 77. Selt 25 ágúst 1975, Æðarsteini h/f á Djúpavogi, hét Mánatindur SU 95. Selt 2 mars 1981, Fiskverkun Garðars Magnússonar h/f í Njarðvík, hét Mánatindur GK 240. Skipið var talið ónýtt og tekið af skrá 27 október árið 1983.


Sigurður Bjarnason EA 450.    (C) Snorri Snorrason.    Úr safni Hauks Sigtryggs Valdimarssonar.


Skipinu gefið nafn 30 ágúst 1958.                     Mynd úr safni mínu.


Sigurður Bjarnason EA 450 í reynslusiglingu.                                                Mynd úr safni mínu.


Brú skipsins að innan.                                                                                  Mynd úr safni mínu.


Sigurður Bjarnason EA 450. Líkan.                                        (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


Mánatindur GK 240. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra.                         (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Fyrirkomulagsteikning af HRB-42 (Tappatogara)                                       (C) Hjálmar R Bárðarson.

      Samið um smíði 12 togskipa í               Stralsund í Austur Þýskalandi

Þegar ríkisstjórn Hermanns Jónassonar tók við af ríkisstjórn Ólafs Thors 1 júlí 1956 varð Lúðvík Jósepsson sjávarútvegs og viðskiptaráðherra. Þá var áhveðið á Alþingi með lögum frá 27 desember 1956 að ríkisstjórninni væri heimilt að láta smíða í Austur Þýskalandi 6 og síðar önnur 6, 150 til 250 rúmlesta stálfiskiskip, sem síðan yrðu afhent sveitarfélögum eða útgerðarfyrirtækjum. Jafnframt var ríkisstjórninni heimilað að taka lán f.h. ríkissjóðs til þessara skipasmíða og jafnframt að endurlána allt að 80% af andvirði hvers skips.
Samkvæmt þessari heimild fól ríkisstjórnin hlutafélaginu DESA í ársbyrjun 1957 að hafa milligöngu við stjórnvöld Austur Þýskalands um smíði skipanna. Samningur var gerður 14 janúar 1957 um smíði fyrstu skipanna og síðan viðbótarsamningur í maí mánuði sama árs. Jafnframt voru gerðir samningar um kaup á aðalvélum, togvindum og verulegum hluta af öðrum búnaði skipanna frá vesturlöndum (Vestur Þýskalandi, Danmörku, Noregi, Hollandi og Bretlandi) svo sem díeselvélar, sjálfvirkur stýribúnaður, losunarvindur, akkerisvindur, vökvadrifnar vindubómur, ratsjártæki, fisksjár, astictæki, áttavitar, dýptarmælar, plastklæðning, koparskrúfur, álgluggar, eldhústæki og fl.
Þessi 12 skip voru smíðuð í skipasmíðastöðinni í Stralsund, sem nefndist V.E.B. Schiffswerft Stralsund (Volks Eigene Betrieb, þ.e. Þjóðarinnar eigið fyrirtæki). Árið 1958 var tekið 50 milljón króna lán í Sovétríkjunum, sem átti að nota til að fjármagna skipakaup íslenska ríkisins í Austur Þýskalandi. Þetta lán var aldrei nýtt nema að hálfu leyti, þ.e. sá hluti lánsins sem fékkst í yfirfæranlegum gjaldeyri, þar sem að Íslendingar áttu verulega inneign á jafnkeypisreikningum í Austur Þýskalandi. Sá búnaður sem keyptur var á vesturlöndum þurfti að greiðast í frjálsum gjaldeyri og taldist því einungis hluti af verðmæti austur þýsku skipanna með í jafnvirðisviðskiptum milli Íslands og Austur Þýskalands.
Stjórnarráðið fól Hjálmari R Bárðarsyni Skipaverkfræðingi að teikna þessi skip, semja smíðalýsingu og aðstoða DESA sem tækniráðunautur við samninga og framkvæmd þessara fiskiskipakaupa. Þessi gerð fiskiskipa nefndist síðan HRB-42 til aðgreiningar frá öðrum gerðum skipa. Þessi 12 skip voru öll eins í aðalatriðum, nema hvað 2 þeirra voru ekki búin sérstaklega til togveiða. Form bols skipanna allra var eins. Aðalmál skipanna voru þessi; Heildarlengd 38,65 m., lengd milli lóðlína 34 m., breidd á bandi 7,30 m. og dýpt 3,60 m. Skipin mældust rétt innan við 250 rúmlestir brúttó.

Þættir úr þróun Íslenskra fiskiskipa. Hjálmar R Bárðarson 2007.

      Nýja togskipið, Sigurður Bjarnason
          kemur á morgun til Akureyrar

Fallegt og traustbyggt skip og hið fyrsta þeirra Austur-þýzku togskipa, sem kemur til Norðurlands. Eigandi er Súlur h.f. á Akureyri. Framkvæmdastjóri er Leó Sigurðsson útgerðarmaður á Akureyri.
Leó Sigurðsson, útgerðarmaður á Akureyri, er kominn heim fyrir nokkrum dögum frá Þýzkalandi, þar sem hann fylgdist með lokasmíði skipsins og tók á móti því. Nafn þess er Sigurður Bjarnason. En skipið kemur væntanlega hingað til Akureyrar á morgun. Blaðið náði sem snöggvast tali af Leó Sigurðssyni í gær. Sagðist hann vona að skipið næði hingað á áætluðum tíma og færi það á togveiðar upp úr áramótum. Hann sagði einnig að þessi nýju togskip, sem nú eru að koma til landsins, væru falleg og smíði þeirra hin vandaðasta, um sjóhæfni vissi hann ekki, en þó hefði Guðmundur Péturs, hið nýja skip þeirra Bolvíkinga, hið fyrsta þeirra 12, 250 smálesta skipa, reynzt gott í sjó. Tíu hinna nýju skipa eru útbúin til togveiða, þeirra á meðal hið nýja skip, Sigurður Bjarnason. En tvö eru útbúin til línu og þorskveiða aðeins. Skipstjóri er Tryggvi Gunnarsson, stýrimaður Steingrímur Aðalsteinsson og fyrsti vélstjóri Þorsteinn Magnússon. Allir eru menn þessir héðan úr bænum svo og aðrir þeir skipverjar, sem fara á hinu nýja skipi til veiða eftir áramótin, 14 manna áhöfn alls. Sigurður Bjarnason verður gerður út héðan. Eyfirðingar fagna komu hins nýja skips og óska því og áhöfn þess heilla. Nýja skipið, sem fara á til Dalvíkur, mun vera á leiðinni til landsins.

Dagur. 20 desember 1958.

24.06.2017 08:01

819. Sæbjörn ÍS 16. LBDP / TFXI.

Sæbjörn ÍS 16 var smíðaður í Risör í Noregi árið 1928. Eik og fura. 43 brl. 90 ha. Ellwe vél. Eigendur voru Ólafur Júlíusson, Finnur Jónsson og fl. á Ísafirði frá desember 1928. Kom til heimahafnar á þorláksmessu sama ár og var fyrsti Sammvinnufélagsbáturinn sem kom til landsins. 3 nóvember 1943 var Samvinnufélag Ísfirðinga skráður eigandi bátsins. Ný vél (1943) 165 ha. Gray díesel vél. Ný vél (1947) 120 ha. Ruston díesel vél. Ný vél (1957) 215 ha. MWM díesel vél. Seldur 27 júlí 1963, Baldri Sigurbaldurssyni á Ísafirði. Talinn ónýtur og brenndur 31 desember árið 1968.


Sæbjörn ÍS 16 með góðan síldarfarm á Siglufirði.                                             Mynd úr safni mínu.


Samvinnufélagsbátarnir sjö við bryggju á Siglufirði. Sæbjörn ÍS 16 er annar frá hægri. Þeir eru frá vinstri talið,; Valbjörn ÍS 13, Gunnbjörn ÍS 18, Ásbjörn ÍS 12, Auðbjörn ÍS 17, Ísbjörn ÍS 15, Sæbjörn ÍS 16 og Vébjörn ÍS 14.     (C) Jón & Vigfús á Akureyri.  Úr safni Hauks Sigtryggs Valdimarssonar.

          Samvinnufélag Ísfirðinga

          "Birnirnir" fimm smíðaðir 

Fyrsti aðalfundur Samvinnufélagsins var haldinn 9 maí árið 1928. Á stjórnarfundinum daginn eftir var ákveðið að ráða sérstakan mann til að annast útvegun skipa, og urðu menn sammála um að kanna hvort Finnur Jónsson myndi fáanlegur til þess verks. Hann svaraði jákvætt á fundi 13 maí og voru þar lagðar fram beiðnir frá nokkrum skipstjórum, sem áhuga höfðu á því að kaupa skip og höfðu safnað nokkru fé í því skyni.
Fleiri slíkar beiðnir bárust félagsstjórninni á næstu dögum og síðar í mánuðinum komst hún í samband við norskar, danskar og sænskar skipasmíðastöðvar, sem áhuga höfðu á því að smíða skip fyrir félagið. Hinn 30 maí var afráðið að ráða Eirík Einarsson sem eftirlitsmann með smíðinni, og héldu þeir Finnur utan í júníbyrjun til viðræðna við fulltrúa skipasmíðastöðvanna. Í þeirri ferð samdi Finnur við Svenska Maskinverken A/B um smíði fimm vélbáta, og töldust þeir smíðaðir fyrir skipstjórana, Harald Guðmundsson, Rögnvald Jónsson, Ólaf Júlíusson, Halldór Sigurðsson, Jón Kristjánsson og sjómenn sem þeir höfðu myndað félög með um skipakaupin.
Voru vélarnar í bátana smíðaðar í Svenska Maskinverken, en skipin sjálf í Risör í Noregi. Smíðin gekk vel og aðfaranótt 23 desember 1928, réttu ári eftir stofnun Samvinnufélagsins, kom fyrsti báturinn, Sæbjörn til Ísafjarðar, en hinir fjórir, Ísbjörn, Ásbjörn, Vébjörn og Valbjörn næstu daga. Allir voru bátarnir 43 brl. að stærð og kostaði hver þeirra 44.007 krónur frá skipasmíðastöðinni, en þar við bættist ýmis annar kostnaður vegna heimferðarinnar. "Birnirnir" fimm voru óneitanlega laglegur floti, en engu að síður voru Samvinnufélagsmenn ekki horfnir frá áætlunum um frekari skipakaup.

Saga Ísafjarðar og Eyrarhrepps hins forna. lV bindi. 1921-1945. Jón Þ Þór. 1990.

        Bátar samvinnufélagsmanna.

Fjórir þeirra eru nú komnir hingað heilu og höldnu. Eru það þessir: Sæbjörn kom 23. f. m, Ísbjörn kom 27. f. m., Ásbjörn kom 30 f. m. og Vébjörn kom á nýársdagsmorgun. Fimmti báturinn Valbjörn sneri aftur til Noregs vegna bilunar á olíugeymi. Var hann í Færeyjum á föstudaginn er var á leið hingað. Af þessum bátum sem komnir eru var. Sæbjörn lang fljótastur hingað. Hann var sjö og hálfan sólarhring frá Risör til Ísafjarðar og eyddi 14 tonnum af olíu, þó stansaði hann í 15 klst. á leiðinni.

Skutull. 6 janúar 1929.


23.06.2017 20:57

386. Einar þveræingur ÓF 1. TFRP.

Einar þveræingur ÓF 1 var smíðaður í Skipasmíðastöð KEA á Akureyri árið 1946. Eik. 64 brl. 150 ha. June Munktell vél. Eigendur voru Magnús Gamalíelsson og Ásgeir Frímannsson á Ólafsfirði frá 19 júlí 1946. Seinna keypti Magnús hlut Ásgeirs í bátnum. Seldur 29 september 1961, Fiskiðju Flateyrar h/f á Flateyri, báturinn hét Einar þveræingur ÍS 166. Ný vél (1961) 280 ha. MWM díesel vél. Seldur 9 nóvember 1964, Karli Jónssyni og Guðmundi Guðlaugssyni í Vestmannaeyjum, hét Stella VE 27. Seldur 13 ágúst 1968, Einari Sigurðssyni í Reykjavík, báturinn hét Álsey RE 36. Seldur 29 nóvember 1972, Júlíusi Guðlaugssyni í Kópavogi og Sigurgeir Kristjánssyni í Garðahreppi, hét Björgvin ll RE 36. 30 júlí 1976 var nafni bátsins breytt, hét þá Guðmar RE 43, sömu eigendur. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 30 desember árið 1977.


Einar þveræingur ÓF 1 við gömlu Sún bryggjuna á Norðfirði árið 1959.                          (C) SVN.

            Einar þveræingur ÓF 1

Fjórði áratugurinn var erfiður fyrir sjávarútveginn í landinu. Á stríðsárunum, 1939-1945, safnaðist flestum útgerðum fé en þá var endurnýjun skipastólsins samt nánast engin vegna þess að ófriðurinn torveldaði samskipti þjóða. Þegar stríðinu lauk fóru því margir útgerðarmenn að huga að endurnýjun báta sinna. Í þeim hópi var Magnús Gamalíelsson. Hann seldi báða báta sína en lét þess í stað smíða fyrir sig nýtt skip á Akureyri. Það var sjósett árið 1946 og skírt Einar Þveræingur ÓF 1. Hann var 64 tonn. Meðeigandi Magnúsar var Ásgeir Frímannsson en seinna keypti Magnús hlut hans.

Morgunblaðið. 17 október 1999.

22.06.2017 20:49

Minnie EA 523. LBJH / TFJI.

Minnie EA 523 var smíðuð í Holbæk í Danmörku sem skúta árið 1917. Eik og beyki. 57 brl. 60 ha. Vesta vél. Hét fyrst Úlfur RE 197 og eigandi hans var Úlfar h/f í Reykjavík. Seldur 25 mars 1929, Ingvari Guðjónssyni útgerðarmanni á Akureyri, fékk nafnið Minnie EA 523. Ný vél (1929) 120 ha. Tuxham vél. Seldur 3 desember 1940, Hlutafélaginu Minnie á Fáskrúðsfirði, hét Minnie SU 576. Seldur 30 nóvember 1944, Jóhanni Ásmundssyni og Þorvaldi Ásmundssyni á Litla Árskógssandi, hét Minnie EA 758. Seldur 5 janúar 1953, Sigurbjarti Guðmundssyni í Hafnarfirði, báturinn hét Sæunn GK 137. Talinn ónýtur og rifinn árið 1956.


Minnie EA 523 að landa síld á Siglufirði.                                                             (C) Jón & Vigfús.

18.06.2017 16:39

S. S. Wigry ferst við Mýrar.

Pólska flutningaskipið S.S. Wigry var smíðað hjá Sir Rayalton Dixon & Co Ltd í Middlesbrough í Englandi árið 1912. 1.892 brl. 1.140 ha. 3 þennslu gufuvél, smíðuð af Clark George Ltd í Sunderland á Englandi. Smíðanúmer 567. Skipið var smíðað fyrir Denaby & Cadeby Main Collieries Ltd í Hull á Englandi, hét S.S. Hooton. Selt 1916, Harries Bros & Co í Swansea í Wales. Árið 1921 fær skipið nafnið S.S. Clanbrydan, sömu eigendur. Selt 1933, Livanos Maritime Co Ltd í Chios í Grikklandi, fékk nafnið Jenny. Selt 1937, Jenny Steamship Co í London, hét S.S. River Dart. Selt árið 1939, pólsku ríkisstjórninni (Baltic Shipping Company) fékk nafnið S.S. Wigry. Skipið kom til Reykjavíkur í desember 1941 og réðust þá þrír Íslendingar á skipið. Þeir voru; Bragi Kristjánsson Reykjavík, Garðar Norðfjörð Reykjavík og Ragnar Pálsson úr Hveragerði. Hélt Wigry síðan norður til Djúpavíkur á Ströndum, þar sem það lestaði síldarmjöl er fara átti til New York. Skipið kom aftur til Reykjavíkur rétt fyrir jólin og lá þar á höfninni til 6 janúar 1942, en þá um kvöldið var létt ankerum og haldið af stað vestur um haf. Wigry var í skipalestinni ON 53, sem þýskir kafbátar réðust á hinn 10 janúar og sökktu þeir einum þrjátíu skipum í lestinni. Ofsaveður gekk yfir stuttu eftir árásina og urðu kafbátarnir þá frá að hverfa. Wigry hraktist undan veðrinu upp að ströndum Íslands með hálf bilaða vél.
Wigry strandaði á Selboða við Hjörsey á Mýrum 16 janúar 1942. 24 af 27 skipverjum komust í björgunarbát en honum hvoldi fljótlega en 6 skipverjar komust á kjöl hans en tíndu fljótlega tölunni. Bátinn rak að landi við bæinn Syðri-Skógarnes í Hnappadalssýslu á Snæfellsnesi. Tveimur skipverjum var bjargað af heimilisfólkinu á bænum, þeir voru, Bragi Kristjánsson háseti og Ludwik Smolski stýrimaður á Wigry.
Í ár, 2017, eru 75 ár liðin frá þessum atburðum. 28 maí síðastliðinn var afhjúpaður minnisvarði um þetta átakanlega sjóslys við Syðra-Skógarnes er kostaði 25 sjómenn lífið.


S.S. Wigry.                                                                                              Ljósmyndari óþekktur.

     Ekki verður ófeigum í hel komið

         Rætt við Braga Kristjánsson, sem bjargaðist naumlega, þegar pólskt                             flutningaskip fórst hér við land á heimstyrjaldaárunum síðari.

Þegar pólska flutningaskipið Wigry fórst við Ísland í janúarmánuði 1942, komust aðeins tveir menn af, og það naumlega. Annar var íslendingur, hinn Pólverji. Íslendingurinn heitir Bragi Kristjánsson, og það er hann, sem hér er talað við. Ekki hefur Bragi haft neitt samband við hinn pólska félaga sinn, síðan leiðir skildu, eftir að þeir höfðu bjargazt úr klóm Ægis, en það síðasta, sem Bragi frétti, var, að Pólverjinn hafði setzt að í Kanada að stríðinu loknu og komizt vel í álnir. Ef til vill er hann ekki lengur í lifenda tölu, og sé svo, þá er Bragi Kristjánsson eini maðurinn í öllum heiminum, sem kann frá þeim tiðindum að segja, sem hér eru rakin. Íslenzk fréttaþjónusta gat lítt þessa atburðar á sínum tima, og lágu til þess ýmsar ástæður. Þannig munu til dæmis dagblöð ekki hafa komið út um þetta leyti, sökum verkfalls, en auk þess voru hömlur á fréttaflutningi vegna styrjaldarinnar. Með hógværð og án allrar tilfinningasemi rekur Bragi hörmungarnar, sem gengu yfir skipverjana á Wigry, eftir að þeir urðu að yfirgefa skip sitt og hröktust um á björgunarbát í stórsjó og illviðri. Loks voru aðeins fjórir eftir, þá tveir, en annar þeirra komst ekki nema í fjöruna. Hinn staulaðist heim til bæjar, hungraður, uppgefinn og berfættur.


S.S. River Dart.                                                                                  Ljósmyndari óþekktur.

Þegar heimstyrjöld er í algleymingi, þegar borgir brenna og milljónir á milljónir ofan verða mannlegri óhamingju að bráð, jafnvel þótt þeir hafi sloppið lifandi, ja, þá þykja það kannski ekki neinar stórfréttir, þótt eitt skip farist og tæpir þrír tugir manna láti líf sitt. Þó eru það mikil tiðindi. Þegar mannslíf hefur einu sinni glatazt, verður aldrei framar fyrir það bætt, það verður ekki endurheimt. Hver maður á sína ættingja, vini og vinnufélaga, sem sakna hans sárt. Þar gildir eitt fyrir alla, hvort sem í hlut á hermaður stríðandi þjóðar, óbreyttur borgari sem ferst í loftárás eða sjómaður, sem drukknar hér lengst norður í hafi. Eitt af mörgum sjóslysum síðustu heimsstyrjaldar var, þegar pólska flutningaskipið Wigry fórst hér við land í janúar mánuði 1942. Aðeins tveir menn komust lífs af úr þessu slysi, annar íslendingur, hinn Pólverji. Íslendingurinn, sem á þessa reynslu að baki, heitir Bragi Kristjánsson og býr við Mýrargötuna í Reykjavik. Hann var svo vinsamlegur að leyfa blaðamanni frá Timanum að spjalla við sig stundarkorn um daginn, og leysti greiðlega úr fávislegum spurningum.
- Segðu mér fyrst, Bragi: Á hvaða leið voruð þið, þegar þetta slys henti? - Við vorum á leið frá Íslandi til Bandarikjanna og sigldum í stórri skipalest. Við munum hafa verið um það bil á miðri leið, þegar skothrið hófst á skipalestina. Hvert skipið eftir annað var skotið niður, við fréttum seinna, að þau hefðu verið á milli þrjátíu og fjörutíu, sem sökkt var, enda var sagt að þau skip, sem að lokum komust til hafnar, hefðu verið svo herfilega útleikin, að annað eins hefði varla sézt, á meðan skipalestirnar fóru hér á milli.


Hjörsey á Mýrum og Selboði sunnan hennar.                                         (C) Landmælingar Íslands.  

Að þessu sinni björguðu veðurguðirnir nokkru, þótt það ætti raunar eftir að koma illilega niður á okkur. Það hvessti snögglega og gerði alveg snarvitlaust veður. Þar með var árásin um garð gengin, en við urðum viðskila við skipalestina, og jafnframt urðum við fyrir bilun, það sprakk bullustöng í vél. Rak okkur nú fram og aftur um hafið hátt í fjóra sólarhringa í stormi og stórsjó. Og veðrið var ekki aðgerðalaust. Við misstum bakborðslífbát og björgunarfleka og rifum lúgusegl; auk þessa var svo vélarbilunin. - Hvað var helzt til ráðs? - Við áttum ekki margra kosta völ, en við vildum reyna að komast til Englands og fá þar gert við skipið, sem orðið var mikið skemmt, víða brotið ofandekks, fyrir utan þau stóráföll, sem ég þegar hef lýst. En nú kom það upp úr kafinu, að í Englandi fengjum við ekki neina viðgerð, þar sem skipið var með farm fyrir íslenzka aðila, en ekki fyrir striðsþjóðirnar, Bretar eða Bandaríkjamenn. Við urðum því að taka þá ákvörðun að reyna að komast til Íslands. - Já, hvað voruð þið að flytja? - Það var síldarmjöl, sem við höfðum aðallega lestað á Djúpuvík, því að þá var síldin á þeim slóðum. Nú var alltaf verið að hringja neyðarbjöllunum, sem þýddi, að hætta væri í nánd og allir ættu að vera við öllu búnir. Það var því litið um svefn.


Kaþólskir prestar á Landakoti jarðsungu þá sem drukknuðu. Myndin er frá þeirri athöfn.

Bar ykkur svo í námunda við Ísland? - Já, við komum að Dyrhólaey og héldum suður fyrir Vestmannaeyjar, fórum framhjá þeim um miðnætti. Að því er mig minnir, var klukkan átta að morgni, þegar við sigldum fyrir Reykjanesvita og sáum land síðast við Stafnes. Hálfum öðrum tíma seinna höfðum við tal af ensku herskipi, sem taldi sig vera norður af Garðsskaga, en þá var komið dimmviðri og aftur orðið rokhvasst, stormurinn, sem skall á, þegar við misstum af skipalestinni, hafði fylgt okkur óslitið allan tímann, enda vorum við búnir að fara langa leið. Nú var haldið inn á Faxaflóann og stefnan tekin á Reykjavík, eftir því sem herskipið hafði gefið okkur upp. Ég átti vakt frá klukkan átta til tólf þennan dag, sem nú fór í hönd, en klukkan tíu var sjórokið orðið svo mikið, að við greindum varla frammastrið. Við ætluðum nú að mæla dýpið, en dýptarmælirinn var á hjóli aftan á "hekkinu". Og nú vildi ekki betur til en svo, að vírinn slitnaði, og vorum við dýptarmælislausir eftir það. Þar sem ég var á vakt, fór ég upp í brú, en varð það á að reka mig á áttavitann, því að skipið valt mikið. Við þetta fékk ég svo mikinn rafstraum í mig, að ég hentist til. Þetta gat ekki þýtt nema eitt: Áttavitinn hlaut að bila í öllum veltingnum og ólátunum, og var nú farinn að leiða út rafmagn svona hressilega. Það var því auðséð, að ekki yrði mikið á hann að treysta það sem eftir væri leiðarinnar.


Bragi Kristjánsson 18 ára gamall árið 1942.

Þar kom, að við sáum ljós, sem við töldum að vera myndu í landi. Fyrsti stýrimaður bað mig þá að fara upp á stýrishúsið og vita, hvort ég þekkti ekki annað hvort ljósin eða umhverfi þeirra, því að hér átti ég að vera sæmilega kunnugur, ef við værum einhvers staðar í Faxaflóanum. Þegar ég kom þarna upp, sá ég stórt grunnbrot framundan, og skildi strax, að nú reið á að hafa snör handtök. Ég kallaði því niður: Stöðvið! Fulla ferð aftur á bak! En þetta var of seint. Skipið hentist til og byrjaði að hallast á bakborða. Mennirnir þustu allir upp á dekk. Ég hitti þar Garðar Norðfjörð og sá, að hann var með stærðar sár á enninu. Sagðist hann hafa henzt til og fengið sárið, þegar skipið tók niðri. Nú var farið að reyna að ná niður þessum eina lífbát, sem við áttum eftir, en það gekk erfiðlega. Ég vann að þessu ásamt einum félaga mínum, en mér gekk verr en honum, því að kaðallinn var eitthvað flæktur í blökkinni. Allt í einu heyrði ég að kokkurinn kallaði til mín: Passaðu á þér hendurnar! Ég lét ekki segja mér það tvisvar, og í sama bili kom kjötöxi kokksins fljúgandi, beint á kaðalinn, hjó hann í sundur og klauf blökkina. Ég ætlaði varla að trua mínum eigin augum, svo mjög undraðist ég leikni mannsins, og mér varð á að hugsa, að hann hlyti að hafa talsverða æfingu í því að kasta vopni.


Ludwik Smolski stýrimaður á Wigry.  

Um leið og báturinn datt niður, hallaðist skipið ennþá meira en það hafði áður gert, og sat nú báturinn á skipshliðinni, eins og á þurru landi, að því undan skildu þó, að sjór gekk í sifellu yfir skipið. Sumir mennirnir hrukku fyrir borð, en flestir komust upp á skipssíðuna aftur. Við settum nú bátinn á flot, en þegar við vorum komnir í hann, vildi skipsstjórinn ekki koma til okkar, en sagði sem auðvitað var líka rétt, að við yrðum að freista þess að ná þeim mönnum, sem enn voru í sjónum í kringum skipið, þótt við sæjum þá ekki, því að nú var komið myrkur og auk þess mikið hafrót. En þegar skipsstjóri neitaði að koma í bátinn, gerði kokkurinn slíkt hið sama. Þeir voru nákunnugir og hafa víst verið búnir að sigla lengi saman. - Fóruð þið ekki að reyna að bjarga mönnum úr sjónum? - Jú, við lögðum okkur alla fram til þess, og náðum þó aldrei nema tveimur, annar þeirra var Garðar Norðfjörð, og mátti hann þá heita meðvitundarlaus, enda dó hann í bátnum hjá okkur nóttina eftir. Við ætluðum svo að róa að skipinu aftur, en komumst það ekki fyrir brimi og óveðri. Við heyrðum köll og óp, og hafa það sjálfsagt verið skipstjóri og kokkurinn að reyna að ná til okkar, en þarna skildi leiðir.


Bragi við minnisvarðann í Fossvogi sem var afhjúpaður 8 september 1961. (C) Tíminn.

Við vorum í raun og veru alveg bjargarlausir og gátum ekkert gert, því við höfðum ekki annað en árar, og áttum fullt í fangi með að halda bátnum ofan sjávar. Við reyndum að halda honum upp í veðrið, svo að hann fyllti ekki, og rerum þannig alla nóttina. Það var verið að skiptast á um að ausa og róa, bæði til þess að halda á sér hita og líka vegna þreytunnar. Kuldi hefur auðvitað sótt á ykkur? - Já. Þetta var um hávetur, stormur og sjórok og gekk á með dimmum hríðaréljum. Svona vorum við á reki alla nóttina. Í birtingu um morguninn sáum við fjöll, sem við áttuðum okkur ekki á í fyrstu, en sáum svo, að myndi vera Snæfellsnes. En hvar vorum við við nesið? Það vissum við ekki. Allt í einu sáum við fjörð, og þá lyftist heldur á okkur brúnin, en þó var hér sá galli á, að það braut svo mikið fyrir fjarðarminninu, að ekki leit út fyrir annað en hann væri alveg lokaður. Þó sáum við að geil kom í brimið og renndum okkur strax í hana. En um leið og við komum í geilina, sem virtist geta orðið lífgjafi okkar, "braut saman" aftur. Bátnum hvolfdi ekki, en sjórinn spændist inn í hann framan frá og aftur úr og fyllti hann á augabragði. Rétt á eftir valt hann á hliðina. Auðvitað fórum við allir í sjóinn. Sumir urðu undir bátnum, en aðrir köstuðust frá. Flestir, ef ekki allir, voru vel syndir, og margir syntu að bátnum og tókst að rétta hann við. Siðan ætluðu þeir að reyna að ausa, en aðstæður voru næstum eins og þær gátu verið verstar, og þeir veltu bátnum yfir sig aftur, þegar þeir voru að reyna að ausa hann. Þeir, sem undir bátnum lentu, held ég að hafi drukknað þarna strax.


Bragi fyrir utan heimili sitt á Mýrargötu í Reykjavík í ágúst 1974.  (C) Tíminn, Róbert.

Nú var ekki framar gerð nein tilraun til þess að rétta bátinn, heldur syntum við að honum og skriðum upp á hann. Þar var þó aldrei friður til lengdar, því að brimið var svo mikið, að það var alltaf að skola okkur út af bátnum, en það var þó miklu hættuminna en að lenda undir honum, enda náðum við bátnum alltaf aftur og tókst að skriða upp á hann. Á þessu gekk lengi.
Eftir þetta held ég að félagar minir hafi ekki drukknað, heldur dofnað upp og dáið úr kulda. Smám saman urðu þeir svo máttfarnir, að þeir náðu ekki að skríða upp á bátinn, eða berjast við ölduna, og svo rak þá frá bátnum, unz þeir hurfu okkur í löðrið. - Voruð þið allir í lífbeltum? - Já, það vorum við, en sum þeirra voru nú orðin léleg. Þó nægðu þau, ásamt sundkunnáttu okkar, til þess að við flutum ágætlega í sjónum. Mér er minnisstæður lítill félagi minn, kátur og skemmtilegur fjörkálfur. Það var messadrengurinn. Ég tók allt í einu eftir því, að hann var farið að reka frá bátnum, og reyndi að synda til hans og ná honum upp á bátinn til okkar.


Minnisvarðinn í Fossvogskirkjugarði um þá 25 skipverja sem fórust með Wigry.  

En ég komst ekki langt. Það gerði ekki betur en ég næði bátnum aftur, svo þrekaður var ég orðinn. Þó að drengurinn væri ekki kominn ýkjalangt í burtu, þá vantaði mikið á að ég hefði náð þangað sem hann var, hvað þá að ég hefði komizt með hann að bátnum. Það síðasta, sem ég sá til hans, var að hann lyfti upp hendinni í kveðjuskyni. Ég held, að hann hafi verið orðinn dofinn af kulda og þreytu. - Voru menn æðrulausir í þessu dauðastríði? - Já, annað er ekki hægt að segja. Áuðvitað var öllum ljóst, hvað þarna var að gerast, en það var eins og rósemi manna yrði þeim mun meiri, sem lífshættan varð augljósari. - Færðust þið ekki smám saman nær landinu? - Jú að visu, bátinn rak mikið, þótt á hvolfi væri, en hann rak ekki beint til lands, heldur skáhallt fram með landinu. Alltaf vorum við að kastast út af honum og að klóra okkur upp aftur, og það held ég nú að hafi haldið í okkur lífinu, þrátt fyrir allt, því að við stirðnuðum þó ekki alveg á meðan. Einu sinni rak okkur framhjá smáeyju, og við vorum komnir á fremsta hlunn með að synda þar að landi, því við fórum svo nálægt eynni, en ef við hefðum gert það, hefði enginn orðið til frásagnar um þetta slys. Eftir því sem okkur var sagt síðar, var aldrei farið út í þessa eyju, nema stöku sinnum um hásumarið, og það var talið útilokað, að sézt hefði eða heyrzt til okkar, þótt við hefðum reynt að gera vart við okkur þar.


Líkan af Wigry afhjúpað í Sjómannasafninu Víkinni í Reykjavík 10 júní s.l. Formaður félags Pólverja á Íslandi og sendiherra Póllands á Íslandi gerðu það með sóma.        (C) Þórhallur S Gjöveraa.

Nú um síðir vorum við komnir upp að fjöru, og enn voru allmargir eftir lifandi á bátnum, sem flaut þarna á hvolfi. Einn þeirra var Ragnar Pálsson, ágætur félagi og góðvinur minn. Þegar við vorum komnir svona nærri landinu, varð Ragnari að orði við mig: Ég ætla fljótlega að skrifa grein um þessa sjóferð okkar og birta hana í Vikunni. Það leizt mér vel á, og tók glaðlega undir þá ákvörðun, en ég sá, að Ragnari var orðið mjög kalt, enda var hann ekki skjóllega klæddur, aðeins í rykfrakka utan yfir vinnufötum sínum. Allt í einu sýndist mér hann eitthvað skrýtinn, svo að ég ýtti við honum og spurði, hvort hann myndi ekki eftir greininni, sem hann ætlaði að skrifa. En þá tók ég eftir þvi, að augu hans voru brostin. Hann hafði dofnað upp og dáið án þess að vita af þvi. - Hvað voru það svo margir, sem að landi komust? - Við vorum fjórir, sem komumst í fjöruna.


S.S. Wigry. Líkan.                                                          (C) Þórhallur S Gjöveraa. 10 júní 2017.

En landtakan var ekki sem ákjósanlegust, því að fjaran var stórgrýtt og brimskafl fyrir framan. Við ákváðum, að við skyldum sleppa bátnum, áður en við kæmum alveg upp í fjörugrjótið, því það gæti stafað hætta af því að vera þá of nálægt honum. Þetta gerðu líka bæði stýrimaðurinn og ég, en hinir tveir héldu áfram að halda sér í bátinn, og þar með veltust þeir með honum upp í grjótið, og hafa liklega lent undir honum. Við sáum þá að minnsta kosti ekki aftur. - En syntuð þið tveir upp í fjöruna? - Já. Ég klöngraðist á undan upp í urðina, en var í meira lagi valtur á fótunum. Þegar ég var að synda í áttina að messadrengnum fyrr um daginn, fóru bæði stigvélin af mér, og í raun og veru var það bara gott, en ullarsokkarnir, sem ég var í, fylgdu stlgvélunum, og það var öllu lakara, ekki sízt nú. Við veltumst nú þarna um í urðinni, ég og stýrimaðurinn: einu sinni eða tvisvar náði ég til hans og gat dregið hann til mín. Siðan stóð ég upp, en svo var ég aumur orðinn, að þegar ég stóð upp, skellti aldan mér í hvert skipti sem hún náði í fæturna á mér, þótt vatnið tæki mér ekki nema í hné.


S.S. Wigry. Líkan.                                                             (C) Þórhallur S Gjöveraa. 10 júní 2017.
  
Um síðir vorum við báðir komnir alveg á þurrt undan sjó, en ekki var nú sopið kálið, því að nú var upp brattan sandbakka að fara. Ég veit ekkert, hvernig mér tókst að klöngrast upp bakkann og áleiðis heim að bæ, sem við vorum áður búnir að sjá að var þarna á ströndinni, skammt frá sjónum. Ég var víst um það bil klukkutíma að ganga þennan spöl heim að bænum, sem þó er ekki nema smáspölur. Ég var alltaf að reka berar tærnar í frosnar og snjóugar þúfur, en ég fann ekkert til, vissi varla, að ég hefði neinar tær en aftur á móti sá ég landið koma í bylgjum á móti mér. Það var undarleg tilfinning og síður en svo þægileg. Þegar ég kom heim að bænum, sá ég menn úti á túni, og held ég helzt, að þeir hafi eitthvað verið að bjástra við hesta. En ég gaf mig ekkert að þeim, en einblíndi á bæjardyrnar. Þegar ég loks stóð á hlaðinu, barði ég að dyrum, eins og fínn maður, og kona kom til dyra. Henni brá, þegar hún sá mig standa þarna, berfættan, sjóhraktan og sjálfsagt í meira lagi torkennilegan útlits. Ég sagði henni, að ég væri skipreika sjómaður (eins og hún sjálfsagt hefur séð). Ég sagði líka, að félagi minn væri niðri í fjöru lifandi, en annars hefðu allir drukknað. Þegar konan heyrði þessi tíðindi, þaut hún framhjá mér og út á tún, en ég stóð eftir og horfði á eftir henni. Svo varð mér litið inn eftir bæjarganginum og sá þá alla leið inn í búr, þar sem matur stóð á hillum.


S.S. Wigry. Líkan.                                                          (C) Þórhallur S Gjöveraa. 10 júní 2017.
  
Þá fyrst fann ég að ég var svangur. - Hvað var þá langt frá því að þú hafðir bragðað mat? - Þegar við, félagarnir tveir, sem af komumst, náðum loks landi í fjörunni, var fullur sólarhringur liðinn frá því við fórum í björgunarbátinn. Allan þann tíma höfðum við verið að hrekjast um, ýmist í bátnum eða á kili hans, holdvotir og matarlausir. Þegar konan kom aftur heim, vildi hún styðja mig í rúmið, en ég þóttist geta komizt þetta hjálparlaust. Seinna var mér sagt, að þegar ég hefði komið að rúminu, hefði ég dottið yfir það þversum, steinsofandi. Þar svaf ég, þangað til læknirinn í Stykkishólmi kom til mín. - En hvað um félaga þinn? - Hann var sóttur og studdur á hesti heim að bæ. - Hvaða bær var þetta sem þið komuð að? - Það var Syðra-Skógarnes í Miklaholtshreppi í Hnappadalssýslu. - Kól ykkur ekki til skemmda í þessu volki? - Nei, við sluppum furðuvel við það. Ég var alveg ókalinn á fótum, og hefur það líklega verið vatninu að þakka, en félagi minn, stýrimaðurinn, fékk sár á hnén. Þau stöfuðu af því, að hann kraup alltaf og hélt sér fast þegar ólögin riðu yfir bátinn, í stað þess að láta undan. Hann nuddaðist mikið á hnjánum og lá lengi í sárum eftir þetta.


S.S. Wigry. Líkan.                                                           (C) Þórhallur S Gjöveraa. 10 júní 2017.

Daginn eftir að við komum að Skógarnesi, fór líkin að reka, um miðjan dag voru þau orðin ellefu. Þá var ég beðinn að koma út og þekkja félaga mína. Það var óhugnanlegt verk, því að mörg likanna höfðu lent utan í klettum og voru illa farin. - Hvernig komust þið svo frá Skógarnesi og til Reykjavíkur? - Þá var setulið í Borgarnesi eins og víðast hvar annars staðar á landinu. Þaðan komu hermenn og sóttu okkur, bæði þessa tvo, sem enn voru á lifi, og þau sem þegar voru fundin. Vorum við félagar, svo látnir sem lifandi, fluttir á herbílum niður í Borgarnes. Þar var þá kominn bráðabirgðaspítali í staðinn fyrir þann, sem áður var, en hann hafði fokið í sama óveðrinu, sem við höfðum verið að berjast við undanfarna sólarhringa. Í Borgarnesi vorum við rúman sólarhring, en fórum þá með gamla Laxfossi til Reykjavíkur. Það var farið með okkur eins og höfðingja og við látnir vera niðri í farþegarými, sem að visu var hvorki stórt né mikið í gamla Laxfossi. En þannig voru nú við- brögðin hjá okkur, að þegar skipið skipti um skrúfu og rykktist ofurlitið til af þeim sökum, þá sögðum við báðir í einu: Nú hefur hann tekið niðri. Það var sú skýring, sem okkur datt fyrst í hug. - Hversu fjölmenn var áhöfn skipsins í upphafi? - Við vorum tuttugu og níu, og vorum af tólf þjóðernum. Yfirmenn allir voru pólskir, en hinir úr ýmsum áttum. Kyndarinn okkar var gamall Egypti. Hann hafði svo gaman af rottunum, sem talsvert var af um borð, að honum tókst að láta þær éta korn úr lófa sínum. En þegar við vorum lagðir af stað frá Reykjavík í siðasta sinn, sást ekki ein einasta rotta í skipinu. Við horfðum á kyndarann okkar gá alls staðar niðri og rétta fram korn í lófa sínum, eins og við höfðum svo oft séð hann gera áður, en nú bar það engan árangur. Þetta er undarlegt, og sjálfsagt finnst einhverjum það ótrúlegt, en satt er það engu að síður. - Var ekki kvíði í þér við að fara á sjó eftir þetta? - Nei. Ég tolldi í landi eitthvað tvo eða þrjá mánuði, en fór svo á tundurduflaveiðar á gamla Þór. Á honum var ég allt næsta sumar og fram á vetur. - Stundar þú sjóinn ennþá? - Nei. Fyrir fjórum árum fór dælan í mér, hjartað, eitthvað að kvarta, og þá var sjálfgert að fara í land. Þó er ég ekki alveg laus úr tengslum við skip. Ég er fæddur og uppalinn hérna við höfnina, svo það er ekki neitt ýkja auðvelt að slíta sig alveg frá fortiðinni. Jú, ég er að gera mér það til dundurs að vaka um borð í skipum. Þau hafa flest vaktmenn um nætur, og það getur verið tilvalin vinna fyrir menn eins og mig.


Syðra-Skógarnes í Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi.                            (C) Mats Wibe Lund.

- Sækir ekki að þér óhugur, þegar þú hugsar til þessa hörmulega slyss, sem grandaði nærri öllum félögum þínum og hafði næstum hremmt þig með?  Ekki óhugur, nei, en ég finn til saknaðar og sorgar. Það er óhjákvæmilegt að maður sakni góðra drengja og félaga, ekki sízt eftir að hafa með eigin augum horft á þá tínast í hafið, einn og einn, svo að segja fyrir framan tærnar á sér. Það, sem mér finnst einna undarlegast við þetta allt, er, að nóttina eftir að ég kom hingað heim til foreldra minna, dreymdi mig alla þá, sem látizt höfðu, hvern einn og einasta, og mér fannst þeim öllum líða svo einkennilega vel, og miklu betur en nokkru sinni fyrr. Á þessum draumi kann ég ekki neina skýringu, ef til vill hefur hann aðeins stafað frá sjálfum mér. Ég veit það ekki, en svona var það.

Tíminn. 24 ágúst 1974. 

           Wigry strandaði á Selskeri

Föstudaginn 8. september 1961 fór fram athöfn í Fossvogskirkjugarði í Reykjavík, til minningar um sjómenn þá, sem fórust með pólska flutningaskipinu Wigry fyrir Mýrum í janúar 1942. Við það tækifæri var afhjúpaður minnisvarði á grafreit pólsku sjómannanna. Frá þessari athöfn er sagt í Reykjavíkurblöðunum, og í Tímanum 7. sept. og Morgunblaðinu 9. sept. eru frásagnir af sjóslysi þessu og tildrögum þess. Vegna rangra frásagna af strandstað skipsins, vil ég greina frá því, sem réttara er varðandi þetta sjóslys. Árið 1942 hef ég skráð hjá mér eftirfarandi atriði varðandi þetta skipsstrand: 16. janúar 1942 gekk yfir eitt mesta afspyrnu-sunnanveður. Hér í Hjörsey var innan við 100 metra skyggni vegna sædrifs, þegar hvassast var. Hélzt veðrið fram í myrkur, klukkan 9 um kvöldið lægði veðrið niður í ca. 8 vindstig. Sáum við þá siglingaljós á skipi suðvestur frá eynni í stefnu á Selboða. Siglingaljósin hurfu eftir fjórðung stundar. Sáum við þá lítið hvítt ljós berast undan vindi, reiknuðum með, að menn hefðu komizt í skipsbát. Símasambandslaust var til Reykjavíkur. Yfirmönnum varnarliðsins í Borgarnesi var tilkynnt sjóslys, og að líkur bentu til að áhöfnin hefði komizt í bát, sem ræki í stefnu á innanvert Snæfellsnes. Morguninn eftir voru menn komnir frá varnarliðinu að Hjörseyjarsundi. Daginn eftir rak úr skipinu í Hjörsey: Timbur, fatnaður, merkjaflögg, pólski fáninn. Næstu daga rak síldarmjölspoka í hundraðatali. 4. febrúar fórum við út að Selboða á litlum árabát. Sáum fyrir skipssíðu, sem braut á. Tvær bómur, fastar í vírum, flutu við flakið, ca. 20-26 feta Iangar. Flakið er ca. 150-200 metra norður frá Selboða, á svonefnd um boðatöglum. Selboði er uppúr um fjöru allt að 2 metra. 7 faðma dýpi er um fjöru við flakið.  Skip hefur ekki áður strandað á þessum stað. Frásögn þessa sendi ég Slysavarnafélagi Íslands fyrir árslok 1942. Hvort hún hefur glatazt, get ég ekki sagt um, því að árbók SVFÍ frá því ári hef ég ekki við höndina. En Wigry fórst á Selboða við Hjörsey milli kl. 9 og 10 að kvöldi hins 16. janúar 1942, en ekki við Skógarnes á Snæfellsnesi.

20. sept. 1961, Hjörtur Þórðarson frá Hjörsey.

Tíminn. 28 september 1961.

            Afhjúpuðu minnisvarða um                              mannskætt sjóslys

Fyrir 75 árum sökk pólska gufuskipið Wigry skammt úti fyrir Mýrum. Tveir skipverjar lifðu af en hálfur þriðji tugur fórst. Sýning um skipið og slysið verður opnuð í Sjóminjasafninu í næsta mánuði. Barn bjargvættar stefnir á að vera við opnun sýningarinnar.
Á fimmta tug manns var í gær viðstaddur þegar minnisvarði um pólska flutningaskipið SS Wigry var afhjúpaður við Syðra-Skóganes á Snæfellsnesi í gær. Skipið fórst út af Mýrum þann 15. janúar 1942 en aðeins tveir skipverjar, af 27 manna áhöfn, komust lífs af. Við athöfnina í gær var 25 rósum fleytt út í sjó til að minnast þeirra sem fórust. "Við vorum heppin. Rúta lagði af stað frá Reykjavík í rigningu en á leiðinni byrjaði sólin að skína," segir Witek Bogdanski, formaður Samtaka Pólverja á Íslandi. Wigry lagði af stað frá Reykjavík í ársbyrjun 1942 ásamt þremur öðrum skipum. Stefnan var tekin á New York. Skömmu eftir að þau höfðu lagt í hann leit allt út fyrir aftakaveður og tekin var ákvörðun um að snúa við. Skipið komst ekki klakklaust undan því það sökk ekki langt frá þeim stað sem franska ransóknarskipið Porquoi-Pas? strandaði árið 1936.


Minnisvarði um skipverjanna 25 sem fórust með Wigry 16 janúar 1942 var afhjúpaður í landi Syðra-Skógarness 28 maí síðastliðinn.               (C) Iwona Bergiel.
  
Af 27 skipverjum komust 24 í björgunarbát skipsins en honum hvolfdi. Sex manns náðu að klifra upp á kjöl skipsins og héngu þar klukkustundum saman. Eftir að tveir þeirra örmögnuðust afréðu hinir fjórir að reyna að synda í land. Af þeim komust tveir í land. "Annar þeirra, Bragi Kristjánsson, sem þá var átján ára, skreið rúman kílómetra að bænum Syðra-Skógarnesi og sagði bóndanum þar, Kristjáni Kristjánssyni, hvað hafði gerst. Hann reið af stað og bjargaði hinum manninum úr fjörunni," segir Witek. Hinn eftirlifandinn hét Ludwik Smolski og var stýrimaður á skipinu. Meðal gesta í gær var sendiherra Póllands á Íslandi, Lech Mastalerz, en hann flutti stutt ávarp. Unnið hafði verið að því að afkomendur eftirlifenda og dóttir bóndans á Syðra-Skóganesi myndu vera viðstödd en þau áttu ekki heimangengt. "Dóttir Braga ætlar hins vegar að vera með okkur þegar sýningin um Wigry verður opnuð þann 10. júní næstkomandi," segir Witek. Sýningin ber heitið Minning þeirra lifir og verður, sem áður segir, opnuð 10. júní. Hún verður opin út allan júní- mánuð. Á henni má meðal annars finna líkan, í hlutföllunum 1:100, af Wigry auk mynda, blaðagreina og fleiri muna sem tengjast slysinu.

Fréttablaðið. 29 maí 2017.

18.06.2017 09:32

Endurnýjun togaraflotans.

Nú stendur yfir gagnger endurnýjun togaraflota landsmanna. Það sem af er ári hafa fjórir nýir togarar komið til landsins og sá fimmti er á leiðinni og er væntanlegur til landsins eftir helgina. Ef allt gengur eftir munu togararnir vera tíu sem koma nýir á þessu ári eða jafnvel fleiri. Síldarvinnslan h/f í Neskaupstað er að endurnýja ísfisktogara sína í Neskaupstað, á Seyðisfirði og í Vestmannaeyjum. Við erum kannski að sjá endurnýjun eins og var þegar Nýsköpunartogararnir komu og leystu af hólmi gömlu kolakynntu togarana, eða þegar skuttogararnir komu á árinu 1970. Sannarlega nýir tímar í vændum með þessum nýtísku skipum. Heyrst hefur í umræðunni um álit manna á útliti systurskipanna þriggja sem komin eru til landsins, sitt sýnist hverjum. Margir telja þau forljót og finna þeim allt til foráttu. Ég er nú ekki sammála því, þetta eru falleg skip sem eiga eftir að skila meiru aflaverðmæti á land en við höfum áður séð. Eftir að hafa skoðað Engey RE 91 í tvígang og séð vinnuaðstöðu og vistarverur skipsins, tel ég þetta verða algera byltingu hvað varðar veiðar og meðferð aflans um borð. Hér fyrir neðan eru myndir af þeim fjórum togurum sem þegar eru komnir til landsins, sannarlega falleg skip.


2889. Engey RE 91 við komuna til landsins 25 janúar s.l.         (C) Þórhallur S Gjöveraa.


2891. Kaldbakur EA 1 við komuna til Akureyrar 4 mars s.l.          (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


2917. Sólberg ÓF 1 við komuna til landsins 21 maí s.l.               (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


2892. Björgúlfur EA 312 við komuna til Dalvíkur 1 júní s.l.          (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

          Endurnýjun togaraflotans

Níu eða tíu nýir togarar munu bætast við fiskiskipaflota landsins á þessu ári ef allt gengur eftir og unnið er að hönnun enn fleiri. Morgunblaðið greinir frá þessu. Búið er að mála og sjósetja tvo togara í Shidao í Kína; annar þeirra er í eigu Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum en Hraðfrystihúsið Gunnvör í Hnífsdal á hinn. Upphaflega átti að afhenda bæði skip í fyrra. HB Grandi hefur þegar tekið einn nýjan togara í gagnið á þessu ári, annar er á heimstíminu og sá þriðji er enn í smíðum.
Útgerðin hefur einnig samið við spænska skipasmíðastöð um smíði á fjórða nýja togaranum, frystitogara sem reiknað er með að verði tilbúinn 2019.
Von er á fjórum nýjum togurum fyrir þrjár útgerðir á Norðurlandi úr smiðju tyrknesku skipasmiðanna í Cemre. Tveir þeirra munu sigla undir merkjum Samherja, einn er smíðaður fyrir Fisk Seafood á Sauðárkróki og sá fjórði fyrir Útgerðarfélag Akureyrar. Fimmti nýi togarinn á Norðurlandi var smíðaður í Tyrklandi fyrir Ramma hf. Sá kom til Ólafsfjarðar í maí. 
Loks má geta þess að  Síldarvinnslan í Neskaupstað hyggst endurnýja flota sinn og stefnir að nýsmíði tveggja stórra og tveggja öllu minni ísfisktogara. Þetta er haft eftir Gunnþóri Ingvasyni, framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar, sem vonast til að hægt verði að bjóða út smíði fyrsta skipsins í haust.

Ruv.is  17 júní 2017.

          Síldarvinnslan hf endurnýjar                                ísfisktogaranna

Síldarvinnslan áformar að endurnýja allan ísfisktogaraflota fyrirtækisins á næstu árum. Þetta kom fram á aðalfundi Síldarvinnslunnar á föstudaginn var, að því er fram kemur á vef Síldarvinnslunnar.
Skipin sem verða endurnýjuð eru Barði NK, Gullver NS, Vestmannaey VE og Bergey VE. Tveir fyrrnefndu togararnir eru gerðir út af Síldarvinnslunni og voru smíðaðir á níunda áratugnum en hinir tveir, sem voru báðir smíðaðir 2007, eru gerðir út hjá dótturfélaginu Bergur-Huginn. 
Haft er eftir Gunnþóri B. Ingvasyni framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar að undirbúningurinn hafi þegar hafist á síðasta ári þegar Bjartur NK var seldur til Íran. Þá sé unnið að sölu á Barða NK til Rússlands. Á móti hafi nýr frystitogari, Blængur NK, verið tekinn í notkun á þessu ári, en það skip hét áður Freri RE. 
Gunnþór segir að við söluna á Barða myndist eitthvað tómarúm þar til nýtt skip kemur og verður leitast við að bjóða sjómönnunum sem lenda í slíku millibilsástandi störf á öðrum skipum félagsins eða í landi auk þess sem aðrar lausnir verði skoðaðar.

Ruv.is  15 júní 2017.

17.06.2017 10:28

B. v. Hafstein ÍS 449. LCKG / TFND.

Hafstein ÍS 449 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi fyrir breska flotann árið 1919. 313 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. Hét fyrst Michael McDonald No 4252. Smíðanúmer 895. Var seldur sama ár, Hudson Brothers Ltd í Hull, fær nafnið Kanuck H 123. Togarinn var seldur í ágúst árið 1925, h/f Græði á Flateyri, fær nafnið Hafstein ÍS 449. Árið 1935 er eigandi togarans Gnótt h/f á Flateyri. Skipið var selt 15 mars 1938, Gnótt h/f í Grundarfirði. Seldur 30 desember 1939, h/f Marz ( Ólafi og Tryggva Ófeigssonum, Lofti Bjarnasyni, Þórarni Olgeirssyni og Vilhjálmi Árnasyni ) í Hafnarfirði. Skipið hét Hafstein RE 156. Frá 22 ágúst 1944 hét skipið Hafstein GK 363. Selt 24 apríl 1945, Hlutafélaginu Vestra í Reykjavík. Selt 27 apríl sama ár, Díeselskipi h/f í Reykjavík. Sama dag var skipið selt P/F Selvík (Sören Nielsen) í Saurvogi í Færeyjum, hét Havstein VA 16. Togarinn var seldur í brotajárn til Óðinsvé í Danmörku og rifinn þar árið 1955.


B.v. Hafstein ÍS 449.                                                                          (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


B.v. Havstein ÍS 449.                                                                            Ljósmyndari óþekktur.


Hafstein ÍS 449 í Reykjavíkurhöfn.                                                          Ljósmyndari óþekktur.


Hafstein RE 156.                                                                            (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Havstein VA 16 í höfn í Grimsby.                                                               (C) www. vagaskip.dk

           Frækilegt björgunarafrek

            Togarinn Hafstein bjargar 62

         þjóðverjum úr sjávarháska

  Skip þeirra, Bahia Blanca rakst á hafísjaka


Í fyrrinótt sigldi þýskt flutningaskip, Bahia Blanca, 8558 smál., á hafísjaka, er það var statt um í 60 sjómílur norðvestur af Látrabjargi og sökk. Sendi skipið út neyðarmerki, sem Loftskeytastöðin hér heyrði og kom áleiðis til skipa. Náði hún sambandi við bv. Hafstein og Egil Skallagrímsson, en Hafstein var nær slysstaðnum og fór því til bjargar. Tókst að bjarga öllum hinum þýsku skípverjum og hélt Hafstein þá til Hafnarfjarðar og kom þangað í nótt.
Hafstein var í fyrstu veiðiför sinni síðan eigendaskifti urðu á honum. Hinir nýju eigendur eru þeir bræður Ólafur og Tryggvi Ófeigssynir, Loftur Bjarnason, Þórarinn Olgeirsson og Vilhjálmur Árnason. Er Ólafur Ófeigsson jafnframt skipstjóri. Þær upplýsingar, sem hér fara á eftir hefir Vísir fengið hjá Tryggva Ófeigssyni og Halldóri Jónssyni, loftskeytamanni. Klukkan 10.30. á þriðjudagskvöld fékk b.v. Hafstein skeyti frá Loftskeytastöðinni hér um að þýskt skip hefði sent frá sér neyðarmerki. Væri það statt 67 mílur NNV af Látrabjargi og hefði rekist á hafísjaka. Óskaði þýska skipið eftir því, að þvi yrði sent dæluskip og dráttarbátur til hjálpar. Setti Hafstein sig þegar í beint samband við skipið og tók það því vel, að hann kæmi á vettvang til öryggis meðan beðið væri eftir dráttar- og dæluskipinu. Kom Hafstein að skípinu um kl. 3.30. eftir miðnætti. Vindstig voru SV 4, úrhellisrigning og afar mikil alda. Skipið var þá laust við ísinn og hafði getað siglt með 3ja sjómílna hraða um stund, en þegar botnvörpungurinn var kominn á vettvang bauð hann fyrst að draga þýska skipið. En þá var það orðið svo þungt af sjó, að þýski skipstjórinn taldi það ekki mundu geta tekist. Var þvi strax hafist handa um að bjarga skipshöfninni.
Síðasta skeytið, sem kom frá Bahia Blanca var á þá leið, að skipið væri að sökkva, hægt en stöðugt. Þegar síðasti báturinn var kominn frá borði var lúkarinn orðinn fullur af sjó, svo og framlestin og í miðlestina var kominn 6 metra djúpur sjór. Þjóðverjarnir rendu nú einum skipsbátanna í sjóinn, en skipverjar voru augsýnilega óvanir að meðhöndla árarnar, því að þeim gekk erfiðlega að koma bátnum frá skipshliðinni. Varð því Hafstein að sigla mjög nærri bátnum og skipinu og þótt það væri mjög hættulegt, tókst það alveg slysalaust að "elta" bátinn uppi. Hafði verið ætlunin, að einhverjir Íslendinganna færi síðan í þýska bátinn og réri yfir að skipinu, en vegna þess hve björgun fyrsta bátsins tókst giftusamlega, var horfið að því ráði, að nota sömu aðferð við alla bátana. En einn bátanna hvarf út í myrkrið og rigninguna og varð togarinn að fara að leita hans. Hann fannst þó von bráðar. Sjálf björgunin tók ekki nema um klukkustund og kl. 6.30. gat Hafstein lagt af stað heimleiðis. Þýska skipið dældi olíu í sjóinn, þegar bátarnir voru settir á flot, en þegar þeir komu að togaranum, var lýsi notað til að lægja sjóana. Í síðasta bátnum frá skipinu kom skipstjórinn. Allir mennirnir komust ómeiddir um borð og lítið sem ekkert hraktir. Sá, sem var verst staddur, þegar hann kom um borð í togarann, var 14 ára drengur. Var hvergi á honum þurr þráður vegna rigningarinnar. Tók Ólafur skipstjóri hann niður í klefa sinn, lét hann fá þurr föt og hrestist hann þá fljótlega.
En það var ekki fyrri en komið var um borð í Hafstein, að "hrakningar" Þjóðverjanna byrjuðu. Voru þeir alveg óvanir hreyfingum togarans, í samanburði við hreyfingar hins stóra skips, sem þeir höfðu verið á, og urðu sumir sjóveikir. Annars voru þeir allir hinir hressustu og klöppuðu óspart á axlir Íslendinganna, þegar þeir komu um borð í Hafstein. Voru þeir því mjög fegnir því, hversu björgunin tókst greiðlega og slysalaust, en það má þakka snarræði og dugnaði skipstjórans, Ólafs Ófeigssonar, sem  stjórnaði björguninni, og hinum vösku mönnum hans.
Gekk ferðin til Hafnarfjarðar greiðlega, enda þótt nokkur strekkingur væri í fangið. Kom Hafstein þangað í nótt með skipverja.
Bahia Blanca er 8558 smál. eftir Lloyd's Register og var smíðað í Englandi 1919. Það var eign Hapag. Skipið kom frá Rio de Janeiro og hafði ekki verið í landsýn í 34 daga. Farmur þess var 40 þús. sekkir af kaffi og þar að auki járnsvarf. Við Ísland hefir aldrei verið bjargað jafnmörgum mönnum af einu skipi. Mesta björgunarafrek, sem áður hafði verið unnið við Ísland, var fyrir tæpum 24 árum, þegar Guðbjartur Ólafsson, skipstjóri, sem nú er hafnsögumaður hér í Reykjavík, bjargaði 38 mönnum af skipi í Grindavíkursjó. Gerðist þetta 24. mars 1916.

Vísir. 11 janúar 1940.  

         

14.06.2017 19:46

M. s. Drangajökull. TFWA.

Drangajökull var smíðaður í Kalmar í Svíþjóð árið 1947. 621 brl. 720 ha. Nohab díesel vél. Skipið hét fyrst Foldin og eigandi var Skipafélagið Fold h/f í Reykjavík. Skipið var selt 16 ágúst 1952, Jöklum h/f í Reykjavík, hét Drangajökull. Skipið sökk í Pentlandsfirði 28 júní árið 1960. Skipshöfnin, 19 manns bjargaðist í gúmmíbjörgunarbáta og var svo bjargað um borð í skoska togarann Mount Eden A 152 frá Aberdeen. Fór togarinn með áhöfn Drangajökuls til hafnar í Aberdeen.


Drangajökull í slippnum í Reykjavík.                                                               (C) Pétur Thomsen.


Skoski togarinn Mount Eden A 152 frá Aberdeen.                                        Mynd úr safni mínu.

               Kæliskipið Foldin.

Þann 17. nóvember síðastliðinn kom hingað til lands nýtt kæliskip, sem heitir Foldin. Skip þetta er smíðað í Kalmarvárv í Svíþjóð. Samningar um smíði þess voru gerðir í ársbyrjun 1945. Það er 625 rúmlestir brúttó og tekur til flutnings 500-550 smálestir af flökum. Aðalvélin er 720 hestafla Noabvél. Lestað gengur skipið 11,5 mílu. Í reynsluför fór það 12,5 mílu. Hjálparvélar eru þrjár, tvær 16 hestafla og ein 130 ha. Þegar skipið er á siglingu, eru Ijós og frystivélar drifnar af 20 k\v rafal, sem aðalvélin rekur. Pressur eru af Stalgerð.
Í lestunum er hægt að halda 18° frosti við 25° utanborðshita. Skip þetta virðist að öllu hið vandaðasta og sérstaklega eru mannaíbúðir allar og allt fyrirkomulag viðvíkjandi áhöfninni með ágætum. Yfirmenn á Foldinni eru: Ingólfur Möller, skipstjóri, Steinar Kristjánsson 1. stýrimaður og Guðmundur Hjaltason 2. stýrimaður. Fyrsti vélstjóri er Jón Örn Ingvarsson. Foldin er eign Skipafélagsins Foldin, en stjórn þess skipa: Baldvin Einarsson, Óskar Normann og Geir Zoéga.

Ægir. 11 og 12 tbl. 1 nóvember 1947.

    Drangajökull sökk í Pentlandsfirði

      Skozkur togari bjargaði áhöfninni

Morgunblaðinu barst í gærkvöldi svohljóðandi einkaskeyti frá fréttaritara sínum í Færeyjum: DRANGAJÖKULL, sem var staddur í Pentlandsfirði sendi út neyðarskeyti kl. 19,39 svohljóðandi: Turning over portside (Er að hvolfa á bakborða). Svo heyrðist ekki meira til hans. En kl. 20 kallaði skoski togarinn Mount Eden frá Aberdeen til Wickradíó, og skýrði loftskeytamaður hans svo frá að togarinn hefði bjargað öllum sem á Drangajökli voru, samtals 19 manns. Hann er nú á leið til Aberdeen. Togarinn kom að Drangajökli þegar hann var að velta á hliðina. Fór hann alveg yfir um og stóð botninn upp nokkra stund, en svo sökk skipið stuttu síðar.
Samkvæmt þeim fréttum, er Morgunblaðið gat aflað sér í gærkvöldi, var DrangjökuII á heimleið frá Ósló, Amsterdam og fleiri Evrópuhöfnum, fullhlaðinn kartöflum og öðrum varningi, og með dráttarvélar á dekki.
Skipstjóri var Haukur Guðmundsson, Nökkvavogi 31 í Reykjavík, og voru kona hans og barn með í ferðinni. Haukur er reyndur sjómaður og hefur um langt skeið verið fyrsti stýrimaður á skipinu, en þetta var hans fyrsta ferð sem skipstjóri. Aðrir skipverjar voru:
Georg Franklínsson, I. stýrimaður, Hverfisgötu 102. Finnbogi Kjeld, II. stýrimaður, Ytri-Njarðvík. Helgi Þorkelsson, 1. vélstjóri, Kleifarvegi 5. Sveinbjörn Erlingsson, II. vélstjóri, Efstasundi 63. Tryggvi Oddsson, III. vélstjóri, Skúlagötu 56. Bjarni Sigurðsson, loftskeytamaður, Njarðargötu 31. Árni Jónsson, bryti, Víðihvammi í Kópavogi. Haraldur Helgason, matsveinn, Ásgarði 123. Þórður Geirsson, bátsmaður, Bólstaðahlíð 33. Gunnar Bjarnason, háseti, Neskaupstað. Guðjón Erlendsson, háseti, Ásgarði 39. Ævar Þorgeirsson, háseti, Birkimel 8B. Gylfi Pálsson, háseti, Innri-Njarðvík. Þorlákur Skaptason, háseti, Tómasarhaga 44. Karl Jónsson, smyrjari, Tómasarhaga 57. Vilhjálmur Vilhjálmsson, messadrengur, Mávahlíð 42.
Drangjökull var 621 smálest að Stærð, byggður í Svíþjóð 1948 og talinn gott sjóskip. Yfirbygging var í skutrúmi, og þar voru íbúðir skipverja, eldhús, stjórnklefi, loftskeytaklefi og vélarúm.

Morgunblaðið. 29 júní 1960.

        Drangajökull sökk á 20 mín

         Fólkið fór allt í gúmmíbátana

Ekki er vitað neitt frekar af hvaða orsökum skipið Drangajökull fórst svo skyndilega í Pentlandsfirði, milli Skotlands og Orkneyja, í fyrradag. Skipbrotsmennirnir komu til Aberdeen í gær, en svo virðist að þeir vilji ekkert segja um orsakirnar fyrr en við sjópróf. Þeir eru væntanlegir heim með flugvél Flugfélagsins á föstudag. Sjópróf fara fram í Reykjavík en ekki er enn afráðið hvort þau geta hafist þegar á laugardaginn. Það er lauslega áætlað að tjónið í skiptapa þessum, bæði skip og farmur, nemi a.m.k. 20 milljónum króna. Mbl. bárust í gær nokkru nánari fregnir af þessu sviplega atviki frá fréttamanni í Aberdeen. Það var skozki togarinn Mount Eden, 293 tonn sem bjargaði skipshöfninni á Drangajökli og kom hann með skipbrotsmenn til Aberdeen árdegis í gær, miðvikudag, Mount Eden var að koma úr tólf daga veiðiför á Færeyjamiðum og var að sigla með aflann til Aberdeen. John Snelling skipstjóri á skozka togaranum segir, að hann hafi verið um 5 mílur frá Drangajökli, þegar hann varð þess vísari að þetta íslenzka skip var í nauðum statt.
Þetta gerðist þar sem Pentlandsfjörður er mjóstur undan vitanum á Stromaeyju og er þar 40 faðma dýpi. Sjö vindstig voru á norðan.
Þegar Mount Eden kom að Drangajökli var hann enn á floti, en hafði hvolft. Skipsmenn höfðu allir komizt í gúmmíbjörgunarbátana. Allir voru ómeiddir og glaðir yfir björguninni, sem barst þeim svo fljótt. Flestir voru þurrir, nema fjórir eða fimm þeir síðustu sem yfirgefið höfðu skipið, þeir höfðu stokkið í sjóinn en komizt upp í gúmmíbátana. Yngsti skipbrotsmaðurinn var Gunnar fjögurra ára sonur skipstjóra. Utan um hann hafði verið vafið til hita, hollenzkum fána, en fáni þessi hafði verið þrifinn í fáti upp úr fánakistu skipsins, þegar fólkið varð svo skyndilega að yfirgefa það. Drangajökull sökk niður að aftan og hvarf í hafið skömmu eftir að fólkið var komið um borð í Mount Eden. Einn skipverjanna á skozka togaranum, hásetinn John Warman sagði við fréttamanninn: "Þessi björgun var Guðs mildi". Hann bætti því við að Pentlandsfjörður væri alræmdur fyrir hringiður, straum og úfinn sjó. Skipbrotsmennirnir búa nú á sjómannaheimilinu í Aberdeen.
Þegar fréttamaðurinn kom þangað var Gunnar litli sá fyrsti sem kom á móti honum. Hann var á hlaupum fram og aftur á rósrauðum inniskóm og hafði verið að borða morgunmat, cornflakes og mjólkurglas. Loftskeytamaðurinn á Drangajökli, Bjarni Sigurðsson sem er 31 árs upplýsti, að skipið hefði sokkið á 20 mínútum. Hann kvaðst hafa verið mjög glaður yfir því að togarinn kom svo skjótt til hjálpar eftir að neyðarkall hafði verið sent út.
Drangajökull var að koma frá Vestur Evrópulöndum með ýmsan varning. Hafði hann tekið varning í Noregi, Hollandi, Belgíu og Englandi. Síðasta viðkomuhöfn hafði verið London. Farmurinn var m. a. kartöflur, þurrkaðir ávextir, margskonar stykkjavara og dráttarvélar á dekki. Skipið var vátryggt hjá Tryggingamiðstöðinni en varningurinn hjá ýmsum félögum. Í upptalningunni yfir skipsmenn í blaðinu í gær vantaði einn, en hann er Vilhjálmur Vilhjálmsson Mávahlíð 42, sem er 14 ára drengur. Var hann skráður sem messadrengur en mun fremur hafa verið í skemmtiferð með skipinu.

Morgunblaðið. 30 júní 1960.

12.06.2017 22:01

Hafnarfjarðarhöfn í dag.

Tók þessar myndir í Hafnarfjarðarhöfn í dag. Verið var að gera skipin klár og munu þau halda til veiða í kvöld eða á morgun. Það var fallegt veðrið í dag á höfuðborgarsvæðinu og skipin skörtuðu sínu fegursta, þau gerðu það allavegna í Hafnarfjarðarhöfn nú seinni partinn í dag.


1351. Snæfell EA 310.                                                            


1351. Snæfell EA 310.


Baldvin NC 101.    


Baldvin NC 101.                                         


1937. Björgvin EA 311.


1937. Björgvin EA 311.


2182. Baldvin Njálsson GK 400.


1272. Sturla GK 12.


1272. Sturla GK 12.                                                         (C) Þórhallur S Gjöveraa. 12 júní 2017.

12.06.2017 06:42

Muggur GK 15.

Muggur GK 15 var smíðaður hjá Skipasmíðastöð KEA á Akureyri árið 1942. Eik. 15 brl. 40 ha. Skandia vél. Eigendur voru Guðmundur Guðmundsson og Magnús Magnússon í Hafnarfirði frá nóvember sama ár. 30 september 1946 voru Guðmundur Guðmundsson Ingólfur Karlsson og Ingibergur Karlsson í Hafnarfirði eigendur bátsins. Ný vél (1947) 90 ha. Gray díesel vél. Ný vél (1952) 150 ha. GM díesel vél. 4 febrúar árið 1954 var verið að draga Mugg, sem var vélavana, í var inn á Grundarfjörð. Á móts við Brimilsvelli slitnaði dráttartaugin og bátinn rak upp í Haukabrekkuhleina (Vallabjarg) og brotnaði í spón. Dráttarskipið Marz frá Reykjavík, sem var með hann í togi, bjargaði áhöfninni, fjórum mönnum til Grundarfjarðar.


Muggur GK 15.                                                                          (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

                  Muggur GK 15

Um miðjan nóvember 1942 var lokið við smíði á nýjum báti í skipasmíðastöð KEA á Akureyri. Bátur þessi er 15 rúml. brúttó að stærð, heitir Muggur og hefur einkennisstafina G. K. 15. Í honum er 40 hestafla Skandíuvél. Eigendur hans eru Guðmundur Guðmundsson og Magnús Magnússon í Hafnarfirði. Báturinn var gerður út á veiðar frá Hafnarfirði síðastliðna Vertíð.

Ægir. 1 maí 1943.

          Lítill fiskibátur brotnar í spón 

                 Mannbjörg varð 

Vélbáturinn Muggur frá Hafnarfirði, sem á nýbyrjaðri vertíð hefur verið gerður út frá Hellissandi, brotnaði í spón, er hann rak mannlaus upp í kletta.
Um kl. 10 í morgun kom hér inn á bátaleguna vélskipið Marz frá Reykjavík og var hann með vélbátinn Mugg í eftirdragi, en vél hans hafði bilað. Skipstjórinn á Marz hugðist ná með bátinn upp að bryggjunni hér, en lágsjávað var og stormur með miklum sjógangi. Tókst Marz ekki að komast að bryggjunni. Við svo búið hélt Marz út á bátaleguna. Hér var mönnum ljóst að alvara var á ferðum. Voru strax gerðar ráðstafanir til að koma mönnunum á Mugg til hjálpar, ef eitthvað bæri út af. En þá komu um það fregnir, að allir skipverjar á Mugg, fjórir talsins, væru komnir um borð í Marz. Um kl. 1 sáu menn, sem sendir höfðu verið inn í Vallafjörð, að bátinn rak upp í svonefnt Vallabjarg, sem gengur í sjó fram. Bátinn rak í hafrótið undir bjarginu og mun hafa brotnað þar í spón samstundis. Ekki er vitað hvort heldur báturinn slitnaði frá Marz eða legufærum á bátalegunni því ekkert samband var haft við Marz, sem eftir hádegi sigldi inn á Grundarfjörð í var undan verinu. Muggur, sem var 16 tonn, var eign Guðmundar nokkurs, sem kenndur er við Ölduna í Hafnarfirði. Skipstjóri á honum var Eggert Sigmundsson frá Hellissandi.

Morgunblaðið. 5 febrúar 1954.

11.06.2017 08:45

Sjómannadagurinn.

Fyrsti sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur 6. júní árið 1938 og er hann séríslenskur hátíðisdagur. Sjómenn höfðu um langan aldur gert sér glaðan dag í vertíðarlok á lokadegi að vorinu. Eflaust hafa ýmsir velt þeirri hugmynd fyrir sér að haldinn yrði árlegur hátíðisdagur sem allir sjómenn, jafnt fiskimenn sem farmenn, gætu tekið þátt í. Hugmyndin að sjómannadeginum er rakin til Henrys Hálfdanssonar þótt fleiri komi við sögu. Hann var loftskeytamaður á togaranum Hafsteini vorið 1929 og ræddi þá við stýrimann skipsins um að hann ætti sér þann draum að sjómenn myndu helga sér einn dag á vori sem nefndur væri sjómannadagur. Hugmynd hans var sú að haldinn yrði árlegur minningardagur um drukknaða sjómenn og þeim yrði reistur veglegur minnisvarði. Markmiðið yrði að auka skilning þjóðarinnar á hinu áhættusama starfi sjómannsins og jafnframt að auka veg og virðingu stéttarinnar.
Ég óska öllum sjómönnum og fjölskyldum þeirra nær og fjær innilega til hamingju með daginn og megi þeir og landsmenn allir njóta hans vel.


Hópsigling á Norðfirði á sjómannadag árið 1978. Ystur í röðinni er, 1137. Barði NK 120, þá varðskipið Óðinn, 1495. Birtingur NK 119 og næstur er 1278. Bjartur NK 121.       (C) Karl Hjelm.


226. Beitir NK 123 og 1548. Barði NK 120 á leið í hópsiglingu árið 1986.      (C) Þórhallur S Gjöveraa.


Hópsigling á Norðfirði á sjómannadag árið 1986. Beitir sálugi í hópi smábáta sem raða sér upp í röð sem sigldi svo út fjörðinn, falleg sjón.                                (C) Þórhallur S Gjöveraa.


1495. Birtingur NK 119 í hópsiglingu.                                                                       (C) S.V.N.


Fyrsti sjómannadagurinn var haldinn hátíðlegur í Reykjavík og á Ísafirði, 2 í hvítasunnu, mánudaginn 6 júní 1938, þar sem sunnudagurinn 5 júní var hvítasunnudagur.     Ljósmyndari óþekktur.

10.06.2017 10:39

Ísbjörn ÍS 15. TFCQ.

Ísbjörn ÍS 15 var smíðaður í Skredsvik í Svíþjóð árið 1946. Eik. 80 brl. 215 ha. Polar díesel vél. Eigandi var Samvinnufélag Ísfirðinga á Ísafirði frá júnímánuði sama ár. Skipið var selt 21 desember 1953, Sighvati Bjarnasyni og Óskari Sigurðssyni í Vestmannaeyjum, hét Erlingur lV VE 45. Ný vél (1956) 390 ha. MWM díesel vél. Skipið sökk vestur af Vestmannaeyjum þegar það var á leið á Selvogsbanka 22 mars 1963. Tveir menn fórust en átta menn björguðust við illan leik í gúmmíbjörgunarbát sem var um borð. Stuttu síðar bjargaði áhöfnin á Halkion VE 205 mönnunum um borð og þaðan til lands heilum á húfi.


Ísbjörn ÍS 15 á pollinum á Ísafirði.                                                    (C) Sigurgeir B Halldórsson.


Ísbjörn ÍS 15 á Vestfjarðamiðum.                                                        (C) Guðbjartur Ásgeirsson.


Ísbjörn ÍS 15 að landa síld á Siglufirði.                                        Ljósmyndari óþekktur.

        Svíþjóðarbátur til Ísafjarðar

Hingað til Ísafjarðar kom á miðvikudagskvöld fyrri báturinn, sem Samvinnufjelag Ísfirðinga fær frá Svíþjóð. Heitir hann ísbjörn, ÍS 15. Er hann byggður eftir teikningu Bárðar G. Tómassonar, skipaverkfræðings og er mældur úti 87 brúttó tonn. Í skipinu er 215 hestafla Polar-Dieselvjel. Skipstjóri á skipinu hingað til lands var Bjarni Fannberg, en stýrimaður Ólafur Júlíusson, en hann mun verða skipstjóri á skipinu. Hann hefir verið skipstjóri á Sæbirni frá því hann var byggður. Ísbjörn fór frá Gautaborg 5. júní og reyndist skipið vel. Hinn bátur Samvinnufjelagsins er væntanlegur um mánaðamótin og mun hann bera nafnið Finnbjörn.

Morgunblaðið. 14 júní 1946. 

 Vélbátur frá Vestmannaeyjum sekkur

         Tveir af tíu manna áhöfn farast   

Í gærmorgun sökk vélbáturinn Erlingur IV VE 45 frá Vestmannaeyjum er hann var á leið á veiðar vestur á Selvogsbanka. Báturinn var kominn um 30 mílur vestur fyrir Vestmannaeyjar. Á bátnum var 10 manna áhöfn, 8 björguðust, en tveggja er saknað. Var þeirra leitað af 16 vélbátum, flugvélum og loks varðskipinu Ægi í gærdag, en án árangurs. Þeir sem fórust voru Samúel Ingvason, háseti og Guðni Friðriksson, 1. vélstjóri. Í gær náði blaðið tali af Óskari Þórarinssyni stýrimanni og Eiði Marinóssyni 2 vélstjóra og fékk frásögn þeirra af Slysinu. Frásögn Óskars er á þessa leið:
Við fórum út á þriðja tímanum í nótt. Ég veit ekki nákvæmlega hvenær, því ég svaf í klefa þeim er ég hef með skipstjóranum undir brúnni. Ferðinni var heitið vestur á Selvogsbanka. Stórsjór var og 8-9 vindstig. Við vorum með þorskanet og báturinn að sjálfsögðu tómur nema hvað ballest var í honum frá því á síldinni en þá voru auk steypunnar sem er í botninum, sett járnstykki undir hillurnar lestinni. Búið var að ræsa kokkinn og var hann farinn að laga morgunverðinn. Í brúnni voru skipstjórinn og Ásberg Lárenziusson og 1 vélstjóri en 2 vélstjóri svaf aftur í káetu. Hásetarnir 5 voru frammi í lúkar. Klukkan mun hafa verið rúmlega 6 þegar brotsjór kom á bakborða aftan til á skipið og kastar því yfir á stjórnborða og sennilega hefir stjórnborðsgangurinn fyllst um leið og það valdið því að skipið rétti sig ekki við. Við þetta vöknuðu allir, enda hentust menn fram úr kojunum. Allt skeði nú með slíkum hraða að erfitt er að gera sér grein fyrir atvikum í smáatriðum.
Ég fór strax upp úr klefanum og upp í "bestikkið. Þá var skipið komið á hliðina og brúin hálf full af sjó og talstöðin á kafi. Það var því ekki hægt að komast að henni til að senda út neyðarkall. Skipstjórinn og vélstjórinn voru að losa gúmmíbátinn og tókst fljótt að ná honum úr kassanum. Reyndur þeir að kippa í spottann til að báturinn blésist upp en það tókst ekki. Þá var skipið að sökkva og var því ekki um annað að gera en kasta sér í sjóinn með bátinn óuppblásinn. Loks tókst að blása hann upp, en þá var mjög af skipstjóranum dregið og hann stórlega skorinn á hendi eftir snúruna og að drukknun kominn við aðfarirnar. Við komumst svo 8 í bátinn en Samúel og Guðni sáust ekki, nema hvað við urðum var við annan þeirra er við vorum að yfirgefa skipið. Ég held að allir hafi verið syndir þótt ég viti ekki um þá Samúel og Guðna.
Sumir mannanna voru fáklæddir aðeins í þunnum nærfötum og varð því fljótt kalt einkum eftir að þeir voru komnir upp í gúmmíbátinn. Ég get ekki sagt nákvæmlega hvað við vorum lengi að velkjast í sjónum en það leið alllöng stund þar til báturinn var upp blásinn. Við skutum upp flugeldum sem voru í bátnum og ég var með reykblys og veifaði því. Þetta varð til að vekja athygli Halkions á okkur þar sem hann sigldi nokkru á eftir okkur. Við vorum svo í gúmmbátnum í um 45 mínútur þar til Halkion kom að okkur. Það hefði ekki mátt tæpara standa því sumir voru þá orðnir svo kaldir. Einn hefði ekki lifað vosbúðina af ef við hefðum þurft að bíða hjálpar lengur. Allir á skipinu voru ungir menn. Þeir sýndu ró og kjark meðan beðið var eftir því að komast í gúmmíbátinn. Þó var ekki þægilegt að velkjast í sjónum í háum og kröppum öldunum, sem færðu okkur í kaf af og til.
Ég vil að síðustu biðja blaðið að koma innilegu þakklæti okkar til skipshafnarinnar á Halkion, sem tók okkur eins og bezt verður á kosið.
Eiður Marinósson, 2 vélstjóri segir svo frá:
Ég svaf aftur í káetu og var þar einn er hnúturinn kom á skipið. Ég vaknaði eiginlega ekki fyrr en ég var kominn fram á gólf og flaut þar í sjónum, sem fossaði inn í káetuna. Ég hafði lagt mig í öllum fötunum. Mér gekk vel að komast upp og þar voru fyrir skipstjóri og vélstjóri á brúnni og voru að eiga við bátinn. Það er óhætt að segja að þarna hefir gúmmíbáturinn bjargað okkur, því engum trébát hefði verið hægt að koma í sjó á þessum tíma. Það voru bara vandræðin með snúruna. Við fórum þó rétt að öllu, enda fór svo að lokum að hún verkaði á gastækið, þótt illa gengi. Við fundum ekki mikið fyrir kuldanum meðan við vorum í sjónum en þegar við komum upp í gúmmíbátinn fórum við fljótt að finna til kuldans. Þarna vantaði okkur illa lítinn neyðarsendi. Ef ekki hefðu verið bátar jafn nálægt okkur hefðu einhverjir farið illa af vosbúðinni. Einn skipsfélaganna er á sjúkrahúsi. Eg vil endurtaka þakklæti okkar til skipshafnarinnar á Halkion fyrir hjálpina.
Strax og vitað var um slysið bauð Landhelgisgæzlan aðstoð sína og var hún von bráðar þegin. Verið var þá að gera við benzínleka á landhelgisvélinni og þar sem engan tíma mátti missa tók landhelgisgæzlan flugvél á leigu hjá Flugfélagi íslands og sendi áhöfn sína á henni til leitar. 16 bátum var raðað upp með 1,5 mílu millibili og síðan flaug vélin fram og aftur yfir bátaröðina og stjórnaði leitinni. Þannig voru leitaðar 6 mílur í vindátt frá þeim stað er báturinn fór niður og farið þrisvar yfir svæðið. Í síðustu umferð var Ægir kominn á vettvang. Leitin bar þó, sem fyrr segir, engan árangur. Brak og annað lauslegt úr bátnum var á reki á sjónum. Skipstjórinn á Erlingi IV var svo þrekaður að ekki var hægt að ná tali af honum í gær. Hann var stórskaddaður á höndum, tognaður í baki og auk þess hætt kominn við baráttuna við að fá gúmmbátinn blásinn upp. Egill Ragnarsson, háseti, sem fluttur var á sjúkrahúsið um hádegið í gær, er Halkion kom til hafnar með skipbrotsmennina, var á batavegi í gærkvöldi. .
Erlingur IV  VE 45 var 80 brúttólestir að stærð, byggður úr eik í Svíþjóð 1946. Báturinn hét áður ísbjörn og hafði fyrir nokkrum árum verið keyptur frá Ísafirði. Hann var eign Sighvatar Bjarnasonar og fl. í Vestmannaeyjum.

Morgunblaðið. 23 mars 1963.                 

             Fimm þeirra farnir niður  

Erlingur IV VE 45 var smíðaður í Svíþjóð árið 1946. Það ár voru þar smíðaðir sjö bátar eftir sömu teikningu. Nú eru aðeins tveir þeirra enn ofansjávar. Bátarnir voru: Hafdís, sem brann og sökk á Selvogsbanka árið 1960, Freydís, heitir nú Sigurfari og er á Patreksfirði, Gunnbjörn, sem síðar var skírður Hamar og hvolfdi á Faxaflóa í bezta veðri s.l. sumar, Ísbjörn, sem síðar var skírður Erlingur IV. og sökk nú, Borgey, sem hvolfdi út af Hornafirði, þegar árið 1946 og fórust þá sex menn, Snæfugl, sem enn er til austur á Reyðarfirði og Ásþór er skírður var síðar Bergur og hvolfdi í vetur á Faxaflóa. Hafa því fjórir þessara sjö báta farizt með líkum hætti.

Tíminn. 23 mars 1963.

08.06.2017 21:25

B. v. Karlsefni RE 24. TFKD.

Karlsefni RE 24 var smíðaður hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen í Skotlandi árið 1947. 657 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Eigandi var Karlsefni h/f í Reykjavík frá 31 desember 1947. Skipið var selt til Englands í brotajárn og tekið af skrá 29 ágúst árið 1972.


134. Karlsefni RE 24 í höfn í Grimsby á 7 áratugnum.                                       Mynd úr safni mínu.


Karlsefni RE 24 í Reykjavíkurhöfn.                                    Mynd úr safni Óskars Franz Óskarssonar.


Karlsefni RE 24 í höfn í Neskaupstað.                                                     Ljósmyndari óþekktur.


Fyrirkomulagsteikning af togurum smíðuðum hjá Alexander Hall & Co Ltd í Aberdeen árið 1947.

                      Nýr togari

Karlsefni, hinn nýi togari h.f. Karlsefnis, útgerðarfyrirtækis Geirs Thorsteinsonar, kom hingað á laugardaginn. Er togarinn smíðaður í skipasmíðastöð Alexander Hall í Aberdeen í Skotlandi. Fór togarinn á gamlársdag frá Skotlandi og reyndist mjög vel á heimleiðinni.

Tíminn. 5 janúar 1948.

             Togaraverkfallið 1962

            Karlsefni seldi í Cuxhaven

Togarinn Karlsefni seldi afla sinn 185 tonn í Cuxhaven í nótt. Vísi var enn ekki kunnugt um söluverð, en eftir því sem bezt er vitað var enginn tilraun gerð til að hindra löndun. Togarinn mun nú verða 2-3 daga í Cuxhaven meðan verið er að ganga frá sérstökum björgunartækjum í hann, stórum gúmmíbjörgunarbát sem á að koma í staðinn fyrir venjulegan lífbát. Vísir átti tal við Ragnar Thorsteinsson forstjóra útgerðarinnar í morgun. Hann kvaðst nú vera mjög feginn að Karlsefni væri kominn í höfn og þeir því lausir við allt fjaðrafok í kringum þetta.
En ástæðan til þess að við fórum út í þetta, sagði Ragnar, var sú að það hafði dregizt að við fengjum afhentan þennan gúmmbjörgunarbát. Fyrir nokkru brotnuðu björgunarbátar skipsins í brotsjó og fengum við tvo björgunarbáta að láni, en þurftum að skila þeim fyrir vissan tíma. Þar sem afhending bátsins dróst og ekki yrði hægt að koma gúmmíbjörgunarbátnum fyrir nema í Þýzkalandi var þetta eina leiðin sem við sáum til að tryggja öryggi á skipinu. Hinn nýi gúmmíbjörgunarbátur á að standa uppblásinn á bátadekki. Verður hægt að renna honum út á hvora hliðina sem er og festingar á honum miklu sterkari en á litlum bátum. Hann á að geta tekið alla skipshöfnina og kemur í staðinn fyrir venjulega björgunarbáta. Togarinn verður auk þess með hinn tilskilda fjölda venjulegra gúmmíbáta. Karlsefni mun nú sigla heim og verða lagt eins og öðrum togurum ef verkfallið stendur þá enn.

Vísir. 11 apríl 1962.

             Togaraverkfallið 1962

   Fullkomin samstaða Karlsefnismanna

Togarinn Karlsefni kom á sumardaginn fyrsta til Reykjavíkur og lagðist utan á þá mörgu togara, sem lágu fyrir við Faxagarð vegna verkfallsins. Strax og togarinn var kominn að bryggju gengu út í hann fulltrúar Sjómannafélags Reykjavíkur, þeir Jón Sigurðsson, formaður, Hilmar Jónsson, varaformaður og Pétur Sigurðsson ritari og fulltrúar Dagsbrúnar þeir Eðvarð Sigurðsson og Guðmundur J. Guðmundsson.
Ekki áttu þeir þó miklar viðræður við skipsmenn að sinni aðrar en þær að spyrja hver vilji eða samstaða hefði verið um að fara í auka söluferðina, sem stjórn Sjómannafélagsins telur verkfallsbrot. Boðuðu þeir skipsmenn til fundar við sig á Iaugardaginn í skrifstofu félagsins. Ekki mættu þó margir á þeim fundi. Í dag ætlaði stjórn Sjómannafélagsins að ræða málið og mun væntanlega verða haldinn almennur félagsfundur um málið síðar í vikunni.
Vísir átti tal við skipstjórann á Karlsefni, Halldór Ingimarsson,; Öll skipshöfnin var sammála um að fara í þessa aukasöluferð, sagði Halldór, Ég talaði við þá alla og enginn mælti á móti því. Í allri ferðinni var fullkomin samstaða um að halda henni áfram til loka og gott samkomulag. Var skipsmönnum ljóst, að hér væri um verkfallsbrot að ræða? Þeim var ljóst, að stjórn sjómannafélagsins myndi líta svo á, en þess ber að gæta, að það er ekkert óalgengt að togari fari þannig í tvær söluferðir án viðkomu í Reykjavík.
Hvers vegna lokuðuð þið talstöðinni? Það gerðum við nú bara til að hafa frið. Enda kom í ljós að sífelld ásókn var að ná sambandi við skipið, aðallega frá blöðunum í Reykjavík og við máttum ekki vera að því að sinna því. Hinsvegar tókum við á móti skeytum til skipshafnar. Töluðu þeir ekki við þig frá sjómannafélaginu, þegar þið komuð í höfn? Jú, en það var litið, þeir spurðu bara hvort ég hefði beðið skipshöfnina um að fara í túrinn og ég svaraði því játandi. Annars gerðist ekkert sérstakt í túrnum, annað en að við fengum gott verð fyrir aflann.

Vísir. 24 apríl 1962.


06.06.2017 10:26

Varðskipið Ægir við Skarfabakka í gær.

Ég tók þessar myndir af varðskipinu Ægi í gær þar sem það lá við Skarfabakkann í Sundahöfn. Hann er nú ekki stór í samanburði við ferlíkið sem liggur við bryggjuna hjá honum, MSC Preziosa er tæplega 140 þús. tonn að stærð. Ægir var smíðaður hjá Aalborg wærft A/S í Álaborg í Danmörku árið 1968. 927 brl. 2 x 4.300 ha. MAN díesel vélar. Einstaklega fallegt skip. Er hann enn í drift hjá gæslunni eða er búið að leggja honum, veit það einhver ?


Ægir við Skarfabakka.           


Ægir við Skarfabakka.


Ægir við Skarfabakka.


Ekki virkar Ægir stór með Preziosa þarna á bak við sig.           (C) Þórhallur S Gjöveraa. 5 júní 2017.


Ægi gefið nafn í Álaborg árið 1968.                                                                Mynd úr safni mínu.

05.06.2017 16:56

50 ár frá goslokum í Surtsey.

Að morgni fimmtudagsins 14 nóvember 1963, var vélbáturinn Ísleifur ll VE 36 frá Vestmannaeyjum að veiðum vestan Vestmannaeyja. Um 7 leitið um morguninn lá báturinn yfir línu sinni um 5 sjómílur vestur af Geirfuglaskeri, en það var syðsta eyjan í Vestmannaeyjaklasanum og um leið syðsti staður Íslands. Á áttunda tímanum, en þá var tekið að elda af nýjum degi, urðu skipverjar varir við brennisteinsfýlu og skömmu síðar grilltu þeir í þúst suðaustur af bátnum. Þegar þeir gættu nánar að sáu þeir um 60 m. háa, kolsvarta sprengibólstra stíga upp af haffletinum. Eldgos var hafið á sjávarbotni. Fylgdust þeir síðan með gosinu nokkra stund, og virtist þeim það sífellt vera að færast í aukana og jafnframt virtist gossprungan lengjast. Sjávardýpi var um 130 metrar á þessum stað fyrir gosið.


Gullfoss, skip Eimskipafélags Íslands á siglingu nálægt gosstöðvunum suðvestur af Heimaey að morgni 17 nóvember árið 1963.      Mynd á póstkorti.


606. Ísleifur ll VE 36 var að veiðum stutt frá er gosið í Surtsey hófst.             Mynd úr Íslensk skip.


Surtseyjargosið í algleymingi. Varðskipið Óðinn við gosstöðvarnar 16 desember 1963.                                                                                    (C) Sigurður Þórarinsson.


Varðskipsmenn af Ægi ganga á land í Surtsey 16 apríl 1964. (C) Garðar Pálsson.


Hraungos hafið í Surtsey 24 apríl 1964.                                                           (C) Garðar Pálsson.

 Sjórinn 10 stiga heitur í hálfrar mílu fjarlægð

              Rætt við sjómenn á Eyjabátunum
           sem komu á gossvæðið í gærmorgun

Skipverji á m.b. Ísleifi frá Vestmannaeyjum, Ólafur Vestmann, varð fyrstur manna var við gosið og skýrði hann Morgunblaðinu svo frá í gærdag: Ég var á baujuvakt og var að svipast eftir baujum, þegar mér varð litið í austur og sá þar eitthvert þykkni, kolsvart. Þá hefur klukan verið um 7.15 í morgun. Mér leizt ekki á þetta, hélt helzt að þarna væri skip að brenna. Ræsti ég skipstjórann, Guðmar Tómasson, og gátum við ekki fundið út hvað þetta var. Þegar birti sigldum við í áttina að þykkninu og sáum þá hvað um var að vera. Svæðið var kolmórautt og ólga og straumar í sjónum. Fórum við næst svona 200- 300 metra frá gosinu. Sprengigosin voru lág í fyrstu en hækkuðu stöðugt. Um 10 leytið sáum við 2-3 eldglampa í gufumekkinum. Einnig sáum við 2-3 glóandi steina hendast upp í loftið. við mældum hitann í sjónum ca. hálfa mílu frá gosinu og var hann 10 stiga heitur. Þarna er um 65 faðma dýpi. Við sáum ekki glampa á sjónum og hvergi dauðan fisk. Við erum núna að draga línuna og förum svo inn til Eyja. Ennþá má sjá að strókurinn stendur hátt til himins. Ég hef verið á sjónum í 42 ár, en aldrei séð annað eins og þetta. Aldrei nokkurn tíma.
Morgunblaðið náði í gær tali af Sigurði Elíassyni, skipstjóra á Vestmannaeyjabátnum Jóni Stefánssyni, sem varð var við gosið um kl. 7,30 um morguninn, er hann var staddur um 5 mílur frá staðnum. Sigurður skipstjóri sagði: Við sáum strók mikinn stíga til himins og sigldum við þangað til að athuga hvað þetta væri. Við komum á staðinn um kl. 8,30 og héldum okkur í ca. hálfrar mílu fjarlægð. Þetta var herjans mikið gos og stóð svartur strókurinn upp í loftið. Virtist þarna vera mikill eimur eða gufa. Við sáum í sjónauka stóra steina þeytast upp í loftið og falla í boga í sjóinn. Rauk mikið af þeim og hafa þeir líklega verið glóandi. Sjórinn nmhverfis gosstaðinn var eins og hann á að sér að vera, en ólgan var aðeins þar sem gosið brauzt upp. Gosið virtist vera mest á einum stað, en annað minna, eða minni, á eins konar ræmu út frá aðalgosinu. Núna erum við staddir um 10 mílur frá staðnum og sést greinilega móta fyrir stróknum, sem stendur upp í skýin.

Morgunblaðið. 15 nóvember 1963.

       50 ár frá goslokum í Surtsey

50 ár eru í dag, 5 júní, liðin frá því að Surtseyjargosinu lauk. Það hafði þá staðið yfir með hléum í tæp fjögur ár. Fyrst var vart við gosið 14. nóvember 1963, en talið er að það hafi byrjað nokkrum dögum fyrr sem neðansjávargos á 130 metra dýpi.
Á vef Umhverfisstofnunar segir að Surtseyjareldar sé lengsta og best þekkta eldgos í sögu Íslandsbyggðar þar sem fylgst var náið með gangi gosins frá upphafi. Í eldsumbrotunum mynduðust auk Surtseyjar, eldfjallaeyjarnar Surtla, Syrtlingur og Jólnir, en eldvirkni í þeim stóð stutt og þegar henni lauk átti sjórinn auðvelt með að brjóta þær niður. 
Surtsey er 1,4 ferkílómetrar og hefur minnkað um helming frá goslokum vegna rofs sjávar og vinda. Surtsey  er um 20 km suðvestur af Heimaey, og hefur frá upphafi verið náttúruleg rannsóknarstofa í jarðfræði og líffræði. Hún var friðlýst árið 1965 meðan gos stóð enn yfir. Eftir að Surtsey komst á heimsminjaskrá UNESCO árið 2008 var friðlandið stækkað verulega og í dag nær friðlýsingin yfir alla eldstöðina Surtsey, ásamt hafsvæðinu og botninum umhverfis, samtals 65 ferkílómetra.

Ruv.is 5 júní 2017.



Flettingar í dag: 170
Gestir í dag: 60
Flettingar í gær: 2133
Gestir í gær: 252
Samtals flettingar: 1051353
Samtals gestir: 75973
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:19:32