13.10.2018 08:42
Skíðblaðnir VE 287.
Skíðblaðnir var fyrsti báturinn í Stokkseyrarferðum, þ.e. í áætlunarferðum milli Vestmannaeyja og Stokkseyrar með vörur og farþega. Það var Sigurjón Ingvarsson (í Skógum) ásamt Jóni í Látrum sem hófu þessar ferðir milli eyja og Stokkseyrar árið 1940. Hann tók vélbátinn Skíðblaðni VE á leigu af Helga Benediktssyni útgerðarmanni í Vestmannaeyjum það ár.
Skíðblaðnir VE 287. Ljósmyndari óþekktur. Mynd úr safni mínu.
Skíðblaðnir KE 10. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra. (C) Þórhallur S Gjöveraa.
09.10.2018 05:47
388. Emma VE 219.
Emma VE 219. Myndin er tekin á Ísafirði. (C) Byggðasafn Vestfjarða.
Emma GK 279. Líkan Gríms Karlssonar skipstjóra. (C) Þórhallur S Gjöveraa.
"Nú er glatt
í hverjum hól"
Myndarleg þrettándagleði var haldin í Hafnarfirði á
þrettándanum með bálför og álfadansi. Skátar í Hafnarfirði stóðu að
skemmtuninni og var hún þeim til hins mesta sóma. Um leið og kveikt var í
bálkestinum komu álfakóngur og drottning með fylktu liði inn á hátíðasvæðið og
var farið með ýmsum tilburðum og söng. Bálkösturinn var bátsflalk af Emmu RE
353, en hún var 16 tonn að stærð og smíðuð á Ísafirði 1919. Emma var eikarbátur
og fyrsti bátur sem Bárður G. Tómasson smíðaði á Íslandi eftir að hann kom heim frá námi í
Danmörku og Englandi, en Bárður var fyrsti
tæknimenntaði skipaverkfræðingurinn í íslenzkum skipasmíðum. Hann samdi
smíðareglur um smíði trébáta eftir að hann smíðaði Emmu og gilda þær reglur enn
í dag í grundvallaratriðum um smíði trébáta. Emma var lengi gerð út frá
Vestmannaeyjum, var seinna seld þaðan og fór þá víða. Æviskeið sitt endaði Emma
sem bálköstur á álfadansi Hafnfirðinga s.l. laugardag.
Morgunblaðið. 9 janúar 1968.
07.10.2018 09:14
B. v. Snorri Sturluson RE 242. LBFS.
B.v. Snorri Sturluson RE 242. Á myndinni ber hann sennilega sitt síðasta nafn, Girdleness H 782.
Snorri
Sturluson RE 242
Snorri Sturluson heitir nýr botnvörpungur er kom frá
Englandi nýlega. Er hann eign hf Kveldúlfs.
Ísafold. 6 desember 1920.
Togarar hf. Kveldúlfs í Reykjavíkurhöfn árið 1921-22. Þeir eru frá vinstri taldir; Þórólfur RE 134, Snorri Sturluson RE 242 og Skallagrímur RE 145. Fremstur er Egill Skallagrímsson RE 165.
(C) Helgi Sigurðsson.
Kveldúlfstogarar
á síldveiðar
Hf. Kveldúlfur er að gera út tvo botnvörpunga sína á
síldveiðar frá Hjalteyri, þá Snorra Sturluson og Egil Skallagrímsson. Ennfremur
fer vélbáturinn Þórir norður til síldveiða. Í ráði er að félagið sendi tvö skip
til veiða vestur um haf, Skallagrím og Þórólf.
Vísir. 19 júlí 1922.
Kveldúlfsskipin
Egill Skallagrímsson og Snorri Sturluson, eru væntanleg af
síldveiðum fyrri hluta dags á morgun. Egill Skallagrímsson hefir veitt liðlega
7 þúsund tunnur og Snorri lítið eitt minna.
Vísir. 9 september 1922.
30.09.2018 07:35
S. k. Þórir RE 194. LBFD.
Vélbáturinn Þórir RE 194. Hét áður Geir og jafnan kallaður "gamli" Geir. Ljósmyndari óþekktur.
Skonnortan
"Geir"
Kaupmaður Geir Zoéga eignaðist í haust nýtt þilskip í viðbót
til fiskiveiða, skonnert, sem heitir Geir, 35 smálestir að stærð, er hann hefir
látið smíða fyrir sig í sumar í Thurö í Danmörku. Smiðurinn heitir N. P.
Petersen. Skip þetta er mjög vandað í alla staði, að efni, lagi og öðrum
frágangi, og sjerlega traust. Það kvað hafa kostað með öllum útbúnaði
velvönduðum um 9. 1/2 þús. kr., þar sem það var smíðað. Þilskip til fiskiveiða
hjer við land þurfa að vera vel traust, og vönduð að öllum útbúnaði, en það
hlýtur að koma fram í verðinu, enda mun í fáum tilfellum jafn-viðsjált eða
óhyggilegt að gangast mest eða nær eingöngu fyrir lágu verði, eins og í
þilskipakaupum.
Ísafold. 17 nóvember 1886.
V.b. Þórir
strandar
Um miðnætti í nótt barst Slysavarnafjelaginu tilkynning frá
skipstjóranum á v.b. Þórir, um að skipið væri strandað einhversstaðar í nánd
við Skerjafjörð, en svarta þoka var og vissu skipverjar ekki hvar þeir voru
staddir. Slysavarnafjelagið fjekk dráttarbátinn Magna til að fara og leita
Þóris í nótt. V.b. Þórir er rúmlega 30 smálestir og er gerður út hjeðan frá
Reykjavík.
Morgunblaðið. 8 mars 1941.
29.09.2018 17:15
561. Hermóður RE 200. LBHT / TFPH.
561. Hermóður RE 200. (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.
Hermóður RE
200
Nýr mótorkútter, sem Hermóður heitir, kom hingað í gærmorgun
frá Danmörku. Hafði verið um 3 vikur á leiðinni vegna olíuleysis. Báturinun er
37 smálestir að stærð og er eign Fiskveiðafélagsins »Dröfn«. Verður hann þegar
sendur á síldveiðar.
Morgunblaðið. 25 júlí 1917.
28.09.2018 10:23
1451. Stefnir ÍS 28 í slipp.
1451. Stefnir ÍS 28. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 27 sept. 2018.
1451. Stefnir ÍS 28. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 27 sept. 2018.
1451. Stefnir ÍS 28 við Grandagarð. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 26 ágúst 2015.
Skuttogarinn
Gyllir ÍS 261
16. marz sl. kom skuttogarinn Gyllir ÍS 261 til heimahafnar
sinnar, Flateyrar, í fyrsta sinn. Gyllir ÍS er byggður hjá Flekkefjord Slipp og
Maskinfabrikk A/S í Flekkefjord, Noregi, smíðanúmer 121, og er sjöundi
skuttogarinn sem þar er byggður fyrir íslendinga. Skuttogari þessi er byggður
eftir sömu teikningu og er í megindráttum eins og skuttogarinn Guðbjörg ÍS 46,
sem er sjötti í röðinni. Fimm þeir fyrstu voru 3.30 m styttri en Guðbjörg ÍS,
en að öðru leyti byggðir eftir sömu teikningu. Eigandi Gyllis ÍS er
Útgerðarfélag Flateyrar h.f.
Skipig er byggt skv. reglum Det Norske Veritas í flokki + 1A1, Stern Trawler,
Ice C, + MV. Skipið er skuttogari með tveimur þilförum milli stafna og
skutrennu upp á efra þilfar. Undir neðra þilfari er skipinu skipt með 4
vatnsþéttum þverskipsþilum í eftirtalin rúm, talið framan frá: Stafnhylki fyrir
brennsluolíu, íbúðir framskips, fiskilest, vélarúm og aftast skutgeymar fyrir
brennsluolíu. Undir íbúðum og fiskilest eru botngeymar fyrir brennsluolíu,
ferskvatn og sjókjölfestu. Aftan við stafnhylkið eru keðjukassar, en asdikklefi
er fremst í fiskilest. Fremst í vélarúmi eru and-veltigeymar frá Ulstein. Á
neðra þilfari er fremst stafnhylki, en þar fyrir aftan íbúðir. Aftan við íbúðir
er vinnuþilfar með fiskmóttöku og stýrisvélarrúmi aftast fyrir miðju. Til
hliðar við fiskmóttöku og stýrisvélarrúm eru verkstæði, vélarreisn og geymsla.
Framarlega á efra þilfari er þilfarshús, en til hliðar við það eru lokaðir
gangar fyrir bobbingarennur. Í þilfarshúsi er íbúð skipstjóra, klefi fyrir
ísvél og klefi fyrir togvindumótor, auk salernis fyrir yfirmenn. Yfir
þilfarshúsi og göngum er hvalbaksþilfar, sem nær aftur fyrir afturgafl
þilfarshúss. Aftan við þilfarshús er togþilfarið. Vörpurenna kemur í framhaldi
af skutrennu og greinist hún í tvær bobbingarennur, sem liggja í göngum og ná
fram að stefni. Aftarlega á togþilfari eru síðuhús (skorsteinshús). Yfir
afturbrún skutrennu er toggálgi, en yfir frambrún skutrennu er bipodmastur sem
gengur niður í síðuhúsin. Aftarlega á hvalbaksþilfari er brú skipsins.
Aðalvél
skipsins er MAK, gerð 8M452 AK, 1780 hö við 375 sn/mín, sem tengist gegnum
kúplingu við skiptiskrúfubúnað frá Hjelset, gerð RKT 60/260. Skrúfa skipsins er
3ja blaða, þvermál 2.150 mm, og utan um hana er skrúfuhringur. Í skipinu er fullkominn
búnaður til svartolíubrennslu og er þetta fyrsta íslenzka fiskiskipið sem
þannig er búið frá upphafi. Framan á aðalvél er Framo deiligír, gerð WG3, sem
við tengjast tvær 98 ha Brusselle háþrýstidælur fyrir vökvavindur og ACEC
jafnstraumsrafall fyrir togvindumótor, 243 KW, 400 V, 1500 sn/ mín.
Hjálparvélar eru tvær Volvo Penta, gerð TAMD 120 AK, 245 hö við 1500 sn/mín.
Hvor vél knýr Stamford riðstraumsrafal, 207 KVA, 3x230 V, 50 Hz. Við aðra
hjálparvélina er einnig tengd 65 ha háþrýstidæla, varadæla fyrir vökvavindur,
en við hina hjálparvélina tengist 49 KW jafnstraumsrafall, vararafall fyrir
togvindumótor. Stýrisvél er rafstýrð vökvaknúin frá Tenfjord, gerð L-155-2ESG.
Helztu tæki í stýrishúsi eru: Ratsjá: Kelvin Hughes 18/12 (3 cm), 64 sml. Ratsjá:
Kelvin Hughes 19/12 (10 cm), 64 sml. Miðunarstöð: Taiyo TD-A130. Loran: Decca
DL 91, sjálfvirkur Loran C, með 350 T skrifara. Gyroáttaviti: Anschútz,
Standard VI. Sjálfstýring: Anschútz. Vegmælir: Sagem. Dýptarmælir: Simrad EQ
50. Dýptarmælir: Simrad EK 38 með MA botnstækkun og 10 kw púlssendi. Fisksjá:
Simrad CI. Asdik: Simrad SB 2. Netsjá: Simrad FB með EQ 50 sjálfrifa og FI
botnþreifara og 2.000 m kapal. Talstöð: Sailor T122/R105, 400 W SSB. Örbylgjustöð:
Sailor RT 143.
Skipstjóri á Gylli ÍS er Grétar Kristjánsson og 1. vélstjóri Halldór
Stefánsson. Framkvæmdastjóri útgerðarinnar er Jón Gunnar Stefánsson.
Rúmlestatala 431 brl.
Mesta lengd 49.85 m.
Lengd milli lóðlína 44.00 m.
Breidd 9.50 m.
Dýpt að efra þilfari 6.60 m.
Dýpt að neðra þilfari 4.35 m.
Lestarrými 438 m.3
Brennsluolíugeymar 123 m3
Skiptigeymar (br.olía/sjókjölf.) 28 m.3
Ferskvatnsgeymar 37 m.3
Skipaskrárnúmer 1451.
Tímaritið Ægir. 14 tbl. 15 ágúst 1976.
24.09.2018 16:17
B. v. Skúli fógeti RE 144. LBMQ.
Botnvörpungurinn Skúli fógeti RE 144 var smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1911 fyrir Fiskveiðafélagið Alliance í Reykjavík. 272 brl. 500 ha. 3 þennslu gufuvél, smíðuð hjá Great Central Cooperactive Engineering and Ship repairing Co Ltd í Grimsby. 137 x 23 x 13 ensk ft. Smíðanúmer 508. Togarinn sigldi á tundurdufl þegar hann var staddur um 25 sjómílur út af mynni árinnar Tyne á Englandi 26 ágúst árið 1914. 4 skipverjar fórust en 13 skipverjar komust í björgunarbát og var síðan bjargað um borð í breska síldveiðiskipið Lottie Leask frá North-Shields.
Botnvörpungurinn Skúli fógeti RE 144. Ljósmyndari óþekktur.
Hinn nýi botnvörpungur Forsetafélagsins kom hingað 2. dag jóla. Skúli fógeti er stærsti íslenzki botnvörpungurinn og hið sélegasta skip á að líta. Hann er 142 smálestir netto, 136 fet og 8 þml. að lengd, 23 feta breiður og 13 feta djúpur. Smíðaður er hann í Selby, og búinn að öllu eftir nýjustu og fullkomnustu gerð. Skipstjórinn er Halldór Þorsteinsson.
Ísafold. 30 desember 1911.
Skúli fógeti ferst
Rakst á tundurdufl í Norðursjónum
Fjórir menn farast og þrír menn meiðast
Þær sorglegn fregnir bárust hingað í gærkvöldi, að Skúli fógeti hefði rekist á tundurdufl í Norðursjónum, 35 enskar mílur austur af Tyne, og farist. Þrettán mönnum var bjargað en fjórir fórust. Þrír meiddust, en hve alvarleg þau meiðsl eru vita menn enn eigi, og ekki heldur hverjir þeir menn eru, sem þau hafa hlotið. Mennirnir sem fórust hétu:
Þorvaldur Sigurðsson frá Blómsturvöllum í Reykjavík, giftur maður, lætur eftir sig konu og börn.
Jón Jónsson frá Oddgeirsbæ í Reykjavík, einhleypur maður.
Jón Jónsson.
Þorkell Guðmundsson.
Tveir hinir síðarnefndu voru ekki heimilisfastir hér í bænum.
Skipstjóri var áður Halldór Þorsteinsson, en hann fór af þvi í sumar og tók Kristján Kristjánsson við af honum. Skipið var eign »Alliance-félagsfélagsins og vátrygt í »Det Köbenhavnske Söassurance-Selskab í Kaupmannahöfn, sem Johnson & Kaaber eru umboðsmenn fyrir. Í sama félagi eru og trygðir flestir hinna íslenzku botnvörpunga. En þeir eru ekki trygðir gegn stríðshættu og fær því útgerðarfélagið ekki eins eyris skaðabætur. Verður þetta því tilfinnanlegt tjón fyrir það.
Morgunblaðið. 28 ágúst 1914.
B.v. Skúli fógeti RE 144. Málverk Bergs Pálssonar stýrimanns á togaranum.
Skúli fógeti RE 144
nánari fregnir
Í enskum blöðum frá 28. f. m. er sagt frá slysum þeim sem urðu fyrir framan Tyne-ósa 26. ág. og næstu daga. Skúli fógeti var fyrsta skipið, sem fórst. Hann var staddur 30. mílur (48 kílómetra) norðaustur af Tyne, þegar hann rakst á sprengiduflið. Kom þegar gat á bóg skipsins og inn féll kolblár sjór. Nokkrir af skipshöfninni voru í hásetarúminu og hlupu þeir sem uppi voru strax til að bjarga og gátu dregið upp tvo menn, og var það mjög hættulegt verk. Þeir fjórir menn sem fórust munu hafa dáið strax annað hvort af sprengingunni eða drukknað. Enskur blaðamaður hefir átt tal við Berg Pálsson stýrimann á Skúla fógeta og segir stýrimaður svo frá atburðinum:
Ég var á stjórnpallinum þegar sprengingin varð. Eg vissi strax hvað um var að vera, og reyndi til að gera menn vara við. Ég féll við hristinginn og lenti með höfuðið á veggnum. Þegar ég komst á fætur náði ég í Kristján skipstjóra og hlupum báðir fram að hásetarúminu. Það var þá orðið fullt af sjó, en við náðum í tvo háseta og gátum dregið þá upp. Það var enginn tími til að ná í hina. Þegar við vorum komnir í bátinn sökk skipið. Enskt síldarskip var þar skammt frá að veiðum. Þeir sáu blossann af tundurduflinu, sem Skúli rakst á og rétt áður höfðu tvö sprengidufl sprungið í netum þeirra. Ekki vissu þeir þó af þvi að skip hefði farist, en fundu bátinn frá Skúla skömmu síðar og fluttu í land til Shields. Fáum klukkustundum eftir að Skúli sökk, rakst norskt skip »Gottfred« á tundurdufl á sömu slóðum; það sökk þegar án þess hægt væri að koma út báti. Skipstjóri og 3 menn aðrir náðu í rekald og var bjargað af ensku síldveiðaskipi eftir 3 klukkutíma. Átta manns drukknuðu.
Þriðja skipið sem fórst var sænskt, Ena frá Svenborg, og bjargaði enskur tundurbátur skipshöfninni. Fjórða og fimmta skipið voru breskir botnvörpungar, sem voru að slæða upp tundurdufl. Af þeim fórust fimm manns.
Morgunblaðið. 4 september 1914.
23.09.2018 11:21
Hafdís RE 66. TFIO.
Vélbáturinn Hafdís RE 66 í Reykjavíkurhöfn. Ljósmyndari óþekktur.
Fyrsti
Svíþjóðarbáturinn sem ríkið lét smíða er kominn
Hafdís fékk
vont veður á leiðinni
Hafði samflot við dansksmíðaðan bát
Í gær kom til Reykjavíkur fyrsti Svíþjóðarbáturinn, sem
smíðaður er á vegum ríkisstjórnarinnar. Er það m.b. "Hafdís". Vísir hefir
haft tal af Þorkeli Jónssyni, skipstjóra bátsins, og innt hann eftir hvernig
báturinn hafi reynst í ferðinni. Sagðist honum svo frá:
Við lögðum af stað frá Gautaborg föstudaginn 5. apríl. Fengum við slæmt veður á
leiðinni til Færeyja, 7-9 vindstig á móti. Frá Færeyjum fengum við hvasst
S-A.-veður nær alla leiðina til Reykjavíkur. Reyndist báturinn vera alveg
prýðilegt sjóskip og vélin ekki síðri, eða svo, að ég tel að vart verði á betra
kosið. Báturinn er byggður í Ringens Bátvarv, Marstrand og er ca. 50 smálestir
að stærð og er hinn traustbyggðasti í alla staði. Gangvél bátsins er 170 ha.
Atlas Dieselvél. Þess má geta í sambandi við smíði bátsins, að fremur illa
gengur með afhendingu og vinnu við niðursetning vélanna, en hjá
skipasmíðastöðvunum sjálfum er annars mikill áhugi fyrir að ljúka smíði bátanna
hið fyrsta. Ákveðið er að gera bátinn út á togveiðar svo fljótt sem unnt er.
Samflota "Hafdísinni" var bátur, er smíðaður var í Frederikssund
Skibsværft í Danmörku. Heitir bátur sá "Fram" og er eign hlutafélagsins
"Stefnis" í Hafnarfirði. Reyndist bátur þessi hið traustasla og bezta
sjóskip. Er bátur þessi um 60 smálestir að stærð, með Tuxham dieselvél. Var
samið um smíði bátsins í ágústmánuði s. l., og er kostnaður við smíðina
töluvert minni en þeirra sænsku. Eru nú 15 bátar í smíðum í þeirri
skipasmíðastöð, sem smíðaði "Fram". Hafa borist miklu fleiri pantanir, en ekki
hefir verið hægt að taka fleiri sökum anna.
Vísir. 15 apríl 1946.
Fyrirkomulagsteikning af 50 tonna bát, smíðuðum í Svíþjóð árið 1946.
Sæbjörg VE 50 í Vestmannaeyjahöfn. (C) Tryggvi Sigurðsson.
Sæbjörg VE
50 sökk á rúmri klukkustund
Vélbáturinn Sæbjörg áður Sigrún VE 50, 52 tonn að stærð,
sökk er hún var að veiðum út af Vík í Mýrdal s.l. sunnudagsmorgun. Á skipinu
voru 5 menn og björguðust þeir allir yfir í vélbátinn Gylfa, sem flutti þá til
Vestmannaeyja síðari hluta sunnudags. Nánari atvik þessa slyss eru sem hér
segir eftir því sem fram kom við sjópróf:
Sæbjörg hélt héðan í róður s.l. föstudag, en báturinn stundaði botnvörpuveiðar.
Var haldið austur að Alviðruvita og verið þar nokkurn tíma. Síðan er haldið
vestur aftur og verið að veiðum út af Vík í Mýrdal um kl. 7 á sunnudagsmorgni.
Þegar einu kastinu er lokið fara allir niður í lúkar nema skipstjórinn, Hilmar
Rósmundsson, sem var á vakt á toginu. Áður en farið er niður, segir
vélstjórinn, Theodór Ólafsson, að hann hafi gengið niður í vélarrúmið til að
dæla á hæðarbox og fleira er ditta þurfti að, dæla út sjó o.þ.h. Sá hann þá
ekkert athugavert. Þegar klukkan er tekin að ganga níu lítur skipstjórinn niður
í vélarrúm og sér þá að mikill sjór er kominn í vélarrúmið. Hann fer strax fram
í lúkar og kallar á skipsmenn og segir þeim að koma upp í snarheitum því mikill
leki virðist kominn að skipinu. Þá er svo komið að sjór er kominn á
lúkargólfið. Vélstjóri fer strax aftur í vélarrúm og er þá kominn svo mikill
sjór þar, að hann stóð í mitti við vélina, en aðalvél hélzt þó enn í gangi.
Hann tengdi þegar sjódælu við aðalvél og ætlaði síðan að setja aðra sjódælu í
gang, sem tengd var við ljósavél, en gat ekki sett ljósavélina í gang sökum
þess að hún var þegar hálf í sjó. Meðan þessu fór fram, kallaði skipstjórinn út
og bað um hjálp, náði fljótt í Vestmannaeyjaradió, svo og í nærstadda báta og
var Gylfi þeirra næstur og kom fljótt að. Samtímis þessu var gúmmbátur skipsins
hafður til taks. Skipverjar reyndu einnig að dæla með þilfarsdælu og ausa með
fötum, en þrátt fyrir þetta jókst sjórinn stöðugt í skipinu.
Á tíunda tímanum kom Gylfi á vettvang. Tók hann trollið um borð til sín, en það
hékk aftan í Sæbjörgu, tekur síðan bátinn í slef og ætlaði að sigla móti
hafnsögubátnum, sem var lagður af stað úr Eyjum til að flýta því að samband
næðist við Lóðsinn, sem hefir mjög sterkar dælur. Þegar Gylfi er búinn að draga
Sæbjörgu í nokkrar mínútur, virðist báturinn síga svo að aftan að þeir leggja
alla áherzlu á að ausa og hætta að draga bátinn, en sjá fljótt að þetta er
vonlaus barátta. Skipsmenn af Sæbjörgu fara þá í gúmmbátinn og eru þeir tæplega
komnir yfir að Gylfa þegar Sæbjörg er sokkin. Veður var allan tímann mjög gott
og nær alveg sjólaust. Klukkan var um 10,30 þegar báturinn sökk. Við réttarhöldin
kom fram að enginn skipverja gat gefið neina skýringu á því hvernig á þessum
leka stóð. Báturinn hafði ekki lent í vondu veðri, eða öðru áfalli og hafði
verið við land í viku tíma vegna ógæfta og veikinda áhafnar. Fréttamaður
blaðsins átti stutt samtal við Hilmar skipstjóra Rósmundsson í dag og sagði
hann svo frá:
Við fórum í róður á föstudaginn, höfðum legið inni í nokkra daga. Kastað var
einu sinni við Alviðru en við náðum halinu ekki kláru. Þegar búið var að koma
því í lag var komið vont veður og færðum við okkur þá vestur á Vík. Þar toguðum
við á laugardag, en hættum um nóttina og lágum, en byrjuðum að kasta um kl. 7
um morguninn. Afli var tregur. Ég var einn á vaktinni, en mennirnir höfðu lagt
sig. Þegar ég var búinn að toga í klukkustund sé ég að vélarúmið er orðið
hálffullt af sjó, er ég leit þangað niður. Kallaði ég þá mennina út og bað þá
vera við öllu búna því mikill leki væri kominn að bátnum. Þegar ég hafði sagt
mönnum að hafa til gúmmbátinn kallaði ég út í talstöðina og síðan reyndum við að
halda skipinu á floti þar til hafnsögubáturinn Lóðsinn kæmi á vettvang, en það
tókst ekki. Þegar Gylfi kom á vettvang var reynt að draga bátinn en þá færðist
sjórinn aftur í hann og varð að hætta því. Sökk báturinn um klukkustund eftir
að Gylfi kom á vettvang. Ég get ekki gert mér nokkra grein fyrir hvernig á
lekanum stendur. Þarna var sjólaust og bezta veður. Á bátnum voru þrír bræður
vélstjórinn Theodór Ólafsson og tveir bræður hans, sagði Hilmar.
Sæbjörg hét áður Sigrún og er 52 tonn að stærð byggð í Svíþjóð 1946.
Morgunblaðið. 15 október 1963.
22.09.2018 08:26
374. Drífa RE 18.
21.09.2018 11:09
B. v. Bjarni Ólafsson AK 67. TFAD.
B.v. Bjarni Ólafsson AK 67 að koma til heimahafnar. (C) Ólafur Árnason.
Bæjarútgerð
á Akranesi
Svo sem getið var um í síðasta blaði, verður hér nánar sagt
frá hinum nýja togara bæjarins "Bjarna Ólafssyni." Hann kom hingað til
bæjarins 29. júlí s.l., beina leið frá Englandi, eftir tæpa þriggja sólarhringa
siglingu. Skipið var smíðað í Aberdeen. Það er hið fegursta og fullkomnasta að
sjá, og gekk 13,5 mílu í reynzluför, og að jafnaði 12,5 mílu á heimleiðinni.
Þetta kvöld var gott veður, og þegar skipið lagðist að hafnargarðinum var þar
mikill mannfjöldi saman kominn til þess að fagna því. Fór þar fram
móttökuathöfn, þar sem þeir héldu ræður af skipsfjöl, forseti bæjarstjórnar,
bæjarstjóri, Guðlaugur Einarsson, og skipstjórinn, Jónmundur Gíslason. Að ræðu
skipstjórans lokinni bauð hann öllum viðstöddum að skoða skipið, sem þegar var
vel þegið. Þótti öllum það mikið og vandað. Síðar um kvöldið hafði bæjarstjórn
boð inni á Hótel Akranes fyrir skipshöfn, bæjarstjórn, útgerðarstjórn og
hafnarnefnd. Sátu það um 60 manns. Þar fluttu þeir ræður, Jón Sigmundsson,
Hálfdán Sveinsson og Pétur Ottesen. Að því loknu var stíginn dans um stund.
B.v. Bjarni Ólafsson AK 67. Málverk. Úr safni Ólafs Jónssonar.
Fór
hóf þetta vel og ánægjulega fram. Útgerðarstjórn skipa þessir menn: Þorgeir
Jósepsson, formaður, Jón Sigmundsson og Guðmundur Sveinbjörnsson. Bókhald
skipsins verður í skrifstofu bæjarins. Skipið ber yfir 4.000 kit af ísuðum fiski.
Hér fer á eftir hluti ræðu forseta bæjarstjórnar, Ólafs B. Björnssonar, er hann
flutti af skipsfjöl, við komu skipsins til Akraness:
"Góðir Akurnesingar, útgerðarstjórn, skipstjóri og skipshöfn. Þegar Alþingi og
ríkisstjórn tók þá ákvörðun, að láta byggja fyrir Íslendinga um 30 nýtízku
togara í Englandi, var bæjarstjórnin þegar ráðin í því, og sammála um, að gera
ítrustu tilraunir til að bærinn gæti eignast og haldið úti einu af þessum
skipum, sem óumdeilanlega marka tímamót í fiskveiðasögu vorri. Í þessum
skipakaupum felst stórfelt framtak og langþráð takmark útvegsmanna og allrar
þjóðarinnar. Þau uppfylla óskir vorar og vonir hvað aflamöguleika snertir,
öryggi og aðbúnað skipshafnar, og taka í heild sinni fram öllu því er áður
þekktist um byggingu og búnað togara.
24. Bjarni Ólafsson AK 67. Ljósmyndari óþekktur.
Í dag er þessi ósk og áform Akurnesinga
orðið að veruleika. Í dag, á þessari stundu, fögnum vér öll þessu fullkomna
fleyi. Vér bjóðum það og skipshöfnina hjartanlega velkomið og vonum að gæfan
fleyti því og skipshöfn þess og forði frá öllu grandi. Eins og það er
vitanlegt, að þessi skip marki tímamót í íslenzkri fiskveiðasögu, vonum vér að
þetta skip marki tímamót í sögu vors kæra bæjar, til margvíslegra bjargráða og
blessunar í bráð og lengd. Margra hluta vegna er þetta skip því á sérstakan
hátt óskabarn allra bæjarbúa, líka þeirra Akurnesinga, sem búa utanbæjar. Það
er engin tilviljun að þessu glæsta skipi var valið nafnið Bjarni Ólafsson.
Landað úr togaranum Bjarna Ólafssyni AK 67 á Akranesi. Ljósmyndari óþekktur.
Hann
var framsækinn dugnaðarmaður og fengsæll, dáða- og drengskaparmaður. Honum var
hvort tveggja í senn sýnt um að nota sér áunna reynzlu og það vald og viðgang,
sem ný tækni hefur á framfarir og framleiðslu þjóðanna. Sem ungur maður "braut
hann í blað" hjá Akurnesingum, er hann sem foringi nokkurra jafnalldra
sinna byggði fyrsta dekkaðan mótorbát, sem þá þótti mikið skip, sem miklir
möguleikar voru þegar við bundnir, enda varð fljótlega sjón sögu ríkari. Þetta
fyrsta skip Bjarna og þeirra félaga hét "Fram." Það var réttnefni. Fól í
sér fyrirheit, og var sannarlega táknrænt upp á beina braut Bjarna, sem stórhuga
forystumanns, um stöðugt stærri og fullkomnari skip, til lengri sóknar og meiri
fanga, á vegum þess atvinnuvegar, sem hvort tveggja er lífæð vor og lyftistöng,
til efnalegrar farsældar og frelsis þjóðar vorrar. Þetta fyrsta skip hans var
10 smálestir, en hið síðasta 200 smálestir.
B.v. Bjarni Ólafsson RE 401. Ljósmyndari óþekktur.
Herra skipstjóri, Jónmundur Gíslason! Um leið og vér öll bjóðum þig og
skipshöfn þína hjartanlega velkomna heim með þetta mikla og góða skip, er mér
persónulega, bæjarstjórn, útgerðarstjórn og öllum almenningi, óblandin ánægja
að lýsa því yfir, að vér trúum þér og treystum allra manna bezt fyrir þessu
glæsta skipi, og fyrir hverri skipshöfn, sem með þér leggur á djúpið, til
bjargráða fyrir ykkur sjálfa, þennan bæ og þjóð vora alla. Með þessu er
áreiðanlega óvenju mikið sagt, og finnst sjálfsagt ókunngum of sagt. En því
mæli ég svo stórt og óhikað, að ég þekki þig sem óvenjulegan mann, með ótrúlega
mörgum áþekkum eiginleikum, sem Bjarna Ólafsson prýddu mest. Það er því engin
tilviljun að þér sé trúað fyrir þessu skipi og skipshöfn.
Eidsfjord N-1-SO á loðnuveiðum árið 1982. (C) Frank Iversen.
Með slíkri forystu,
með þeirri heill og giftu, sem vér vonum að fylgi þessu nafni, getum vér ekki
vænst farsælli eða fyllri árangurs. Vér vonum því, og efumst ekki um, að hinn
minnsti skipverji þinn, jafnt þeim sem mest á ríður, á þessu mikla, góða skipi,
fylgi þér fast til fengs og farsældar, og að dæmi þitt og þeirra verði djörf og
dáðrík fyrirmynd um langa framtíð. Ég óska stjórn fyrirtækisins, bæjarstjórn,
skipverjum og öllum bæjarbúum til hamingju með þennan nýja togara, og bið guð
að blessa menn og skip. Ég bið að lokum alla viðstadda að óska togaranum
"Bjarna Ólafssyni" og skipshöfn hans heilla og hamingju á ókomnum tímum,
með ferföldu húrra."
Tímaritið Akranes. Júní-júlí 1947.
Björgun
skipverja af Verði einstakt afrek
Nánari fregnir eru nú fyrir hendi af hinum hörmulega atburði
er togarinn Vörður frá Patreksfirði sökk s. l. sunnudagskvöld og með honum fimm
vaskir sjómenn. Aðdragandinn að slysinu eru í aðalatriðum á þá leið, að kl.
6.30 á sunuudagsmorgunn veitir 1 stýrimaður því eftirtekt, að skipið var tekið
að fá á sig óvenjumikla sjóa og hallast á bakborða, en við rannsókn kom í ljós,
að leki hafði komið að skipinu fyrir framan fiskilestarnar svo að netjarúm og
neðri hásetaklefi var hálffullur af sjó. Allir skipverjar bjuggu hinsvegar
aftur í skipinu. Voru þegar gerðar ráðstafanir til þess að ausa skipið. Vegna
sjógangs var eigi hægt að beita handdælum "við austur skipsins, en dælt var úr
rúminu með vélknúnum dælum frá vélarúmi. Þegar séð varð, að dælurnar höfðu ekki
undan kallaði loftskeytamaðurinn á Verði upp togarann Geir sem var í um það bil
60 sjómílna fjarlægð og bað hann koma til aðstoðar, en togarinn Bjarni Ólafsson
reyndist vera mun nær staðnum og bauð aðstoð sína. Var hún að sjálfsögðu þegin
með þökkum og kom hann að Verði um kl. 2,30 á sunnudag. Brátt tók þá veður að
versna og um kl. 6 um kvöldið var vindur orðinn 8 vindstig og þungt í sjóinn.
B.v. Vörður BA 142. Smíðaður í Þýskalandi árið 1936. 625 brl. (C) Hafliði Óskarsson.
Fór Bjarni Ólafsson þá eins nálægt Verði og frekast var unnt, en um þetta leyti
hallaðist skipið mjög mikið á bakborða og var sigið niður að framan. Allir
skipverjar sem voru fram á, fengu þá fyrirskipanir um að færa sig aftur eftir
og losa um björgunartækin. Skipti það þá engum togum að Vörður seig mjög hratt
að framan og komust tveir skipverjar eigi upp og sukku með því. Þegar hér var
komið voru flestir skipverjar komnir í sjóinn og höfðu níu komist á kjöi
björgunarbátsins, og fyrir harðfylgi og einstakan dugnað skipverja á Bjarna,
tókst að bjarga mönnum þessum og auk þess fimm öðrum, sem voru á fleka eða í
björgunarhringum. Var þá komið versta veður, stórsjór og myrkur. Auk þess var
einum skipverja bjargað, sem látizt hafði í bjargbeltinu af vosbúðinni. Voru
skipverjar mjög þjakaðir, eins og að líkum lætur, en fyrir ágæta aðhlynningu um
borð í Bjarna Ólafssyni hresstust þeir brátt, Bjarni Ólafsson flutti skipverja
hingað til Reykjavíkur, en skipstjóri var lagður í sjúkrahús vegna meiðsla, sem
hann hafði hlotið. Skipverjar fóru allir vestur á Patreksfjörð í gærkvöldi með
Esju að lokinni kveðjuathöfn yfir Jóhanni Jónssyni.
Vísir. 1 febrúar 1950.
20.09.2018 19:23
1977. Júlíus Geirmundsson ÍS 270 við Grandagarð.
1977. Júlíus Geirmundsson ÍS 270 við Grandagarð. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 19.9. 2018.
1977. Júlíus Geirmundsson ÍS 270. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 19.9. 2018.
1977. Júlíus Geirmundsson ÍS 270. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 19.9. 2018.
1977. Júlíus Geirmundsson ÍS 270. Nýskveraður og fínn. (C) Þórhallur S Gjöveraa. 10.8. 2016.
Júlíus
Geirmundsson ÍS 270
Nýr skuttogari, m/s Júlíus Geirmundsson ÍS 270, bættist við
fiskiskipaflotann 10. nóvember s.l., en þann dag kom skipið í fyrsta sinn til
heimahafnar sinnar, Ísafjarðar. Júlíus Geirmundsson ÍS er smíðaður hjá
skipasmíðastöðinni Szczecinska Stocznia Remontowa "Gryfia" í Póllandi,
smíðanúmer TR 504 hjá stöðinni, en er hannaður hjá Skipatækni h.f., Reykjvík.
Þetta er annað fiskiskipið sem umrædd stöð smíðar fyrir íslendinga, hið fyrra
er jón Finnsson GK, sem bættist við flotann árið 1987. Jafnframt er Núpur ÞH,
innfluttur frá Færeyjum, smíðaður hjá sömu stöð. Hinn nýi Júlíus Geirmundsson
ÍS kemur í stað samnefnds skuttogara, sem var í eigu sömu útgerðar og smíðaður
í Flekkefjord í Noregi árið 1979. Gamli Júlíus Geirmundsson hefur verið seldur
til Neskaupstaðar og heitir nú Barði NK, en Barði NK (1548), smíðaður í
Póllandi árið 1975 og keyptur til landsins árið 1980, verður seldur úr landi,
en auk þess verða nokkrir minni bátar úreltir. Hinn nýi Júlíus Geirmundsson er
með búnaði til fullvinnslu afla. Júlíus Geirmundsson ÍS er í eign Gunnvarar
h.f, á Ísafirði. Skipstjóri á skipinu er Hermann Skúlason og yfirvélstjóri
Reynir Ragnarsson. Framkvæmdastjóri útgerðar er Kristján Jóhannsson.
Aðalvél skipsins er Wartsila Vasa, sex strokka fjórgengisvél með forþjöppu og
eftirkælingu, sem tengist niðurfærslu- og skiptiskrúfubúnaði, með innbyggðri
kúplingu, frá Ulstein. Í skipinu er búnaður til brennslu svartolíu, með seigju
allt að 200 sek R1.
Tæknilegar upplýsingar (aðalvél með skrúfubúnaði):
Gerð vélar, 6R32 E
Afköst, 2460 Kw við 750 sn/mín
Gerð niðurfærslugírs, 1500 AGSC-KP2S
Niðurgírun, 5.8:1
Gerð skrúfubúnaðar, 90/4
Efni í skrúfu, NiAl-brons
Blaðfjöldi 4
Þvermál 3700 mm
Snúningshraði 129 sn/mín*
Skrúfuhringur, Ulstein
*Skrúfuhraði 103 sn/mín miðað við 601 sn/mín á vél.
Mesta lengd 57.58 m.
Lengd milli lóðlína (VL=5.00 m) 54.20 m.
Lengd milli lóðlína (kverk) 50.39 m.
Breidd (mótuð) 12.10 m.
Dýpt að efra þilfari 7.50 m.
Dýpt að neðra þilfari 5.00 m.
Djúprista (hönnunar) 5.00 m.
Eiginþyngd 1.411 tonn.
Særými (djúprista 5.00 m) 1.960 tonn.
Burðargeta (djúprista 5.00) 549 tonn.
Lestarými 654 m3.
Meltugeymar 114.2 m3.
Brennsluolíugeymar (svartolía) 145.1 m3.
Brennsluolíugeymar (gasolía) 29.6 m3.
Set- og daggeymar 17.5 m3.
Ferskvatnsgeymar 93.8 m3.
Sjókjölfestugeymir 26.7 m3.
Andveltigeymir (sjór) 45.0 m3.
Ganghraði um 14 sjómílur.
Rúmlestatala 772 brl.
Skipaskrárnúmer 1977.
Ægir. 11 tbl. 1 nóvember 1989.
19.09.2018 08:18
2 m. "Sluppen" Guide me FD 510. KCJS / TFXL.
Sluppen Guide me FD 510. Ljósmyndari óþekktur.
Ferðasaga
Kristján Gunnarsson, skipstjóri
Um miðjan september árið 1941 fórum við Sigurður Friðriksson
frá Gamla-Hrauni við Eyrarbakka með áætlunarbíl til Akureyrar og síðan með bát
til Siglufjarðar. Við höfðum frétt það á skotspónum að Ásgeir Pétursson
útgerðarmaður vildi selja vélskipið "Guide me" sem hafði verið á
síldveiðum þá um sumarið og var þá búið að vera í eign Ásgeirs í 3 ár og aðeins
gert út á síldveiðar við Norðurland. Skipið átti heima í Færeyjum, en var yfir
veturinn í slipp á Akureyri. Ferðin norður gekk samkvæmt áætlun. Við ákváðum að
kaupa skipið á þrjátíu og fimm þúsund krónur í því ástandi sem það var. Engin
veiðarfæri fylgdu skipinu en síldardekk og segladruslur. Útborgun var kr. 15
þúsund en hitt að mig minnir til fjögurra ára, og greiddum við hvor kr. 7.500.
Næst lá fyrir að fá vélstjóra til þess að fara með okkur suður. Okkur tókst að
útvega vélstjóra til Akureyrar en þangað þurftum við að fara til þess að sækja
síldardekkið og ýmislegt fleira.
Vélstjóri sá sem við fengum með okkur inn á
Akureyri var Sölvi Valdimarsson, var hann þá að mig minnir vélstjóri í
frystihúsi á Siglufirði. Strax og samningar höfðu verið undirritaðir var farið
um borð og átti að fara strax til Akureyrar. Áður höfðum við sett vélina í gang
og fært skipið að Bæjarbryggjunni. Okkur brá nú heldur í brún þegar við komum
um borð, því þá var kominn mikill sjór í skipið, það mikill að ekki var viðlit
að setja vélina í gang. Tvær allgóðar handdælur voru á skipinu, sín hvoru megin
við mótorhúskappann. Var nú hamast á dælunni þar til hægt var að setja í gang.
Kom þá í ljós að lekið hafði inn með skrúfuöxlinum og lagaðist það er skipt var
um pakkningu í pakkdósinni. Um miðnætti var haldið af stað inn á Akureyri og
gekk ferðin samkvæmt áætlun. Á Akureyri létum við Eið Benediktsson skipstjóra
lagfæra seglin þannig að við höfðum sæmilega fokku og messa, en ekkert stórsegl
var. Næsta dag var svo farið frá Akureyri til Siglufjarðar og gekk ferðin vel
enda gott veður.
Á Siglufirði var ráðinn vélstjóri, Anton að nafni, hann var að fara til
Reykjavíkur og var ráðinn þar til vinnu í vélsmiðju. Síðari hluta dags var lagt
af stað. Veður var gott, austan andvari og hlýtt í lofti. Guide Me var með 40
hesta Sáffle mótor, engin raflýsing var, engin talstöð og náttúrlega enginn
dýptarmælir. Ekkert bar til tíðinda fyrsta klukkutímann en er við vorum staddir
út af Haganesvík heyrðist að vélin var farin að þyngja á sér og reykti
óeðlilega mikið. Var vélin nú stöðvuð og farið að athuga, kom þá í ljós að
brætt var úr sveifaráslegu. Ýmislegt var af varastykkjum í vélina og þar á
meðal sveifaráslegur. Ekki var hægt að kalla í talstöð því hún var engin og
ekkert skip sjáanlegt. Nú var kominn asakaldi og heistum við messann og fokkuna
og skiptum þannig verkum, að ég var við stýrið en Sigurður og Anton fóru að
rífa sundur vélina. Var nú siglt í sjö klst. og vorum við komnir vestarlega á
Húnaflóa þegar vélin fór í gang.
Ekki var eitthvað í lagi með kælivatnið og var
vélin stöðvuð aftur en þá vildi það til að vélstjórinn missti sogventilinn úr
dælunni niður í kjalsog, en þannig háttaði til að vélin var mjög hátt í bátnum
og ógerningur var að ná ventlinum aftur, var þá tekinn ventill úr lensidælunni
og settur í kælivatnsdæluna. Nú var sett í gang aftur og var nú allt í lagi
nema talsverður sjór kom í skipið og þurfti oft að dæla með dekkdælunni. Um morguninn
vorum við komnir fyrir Horn, veðrið hélst svipað, kaldi eða stinningskaldi á
austan. Okkur fannst ekki gott að þurfa alltaf að vera að dæla með dekkdælunni
því talsvert lak með skrúfuöxlinum. Sigurður sagðist skyldi smíða ventil úr tré
og masonit ef hann fengi ventil til að smíða eftir. Var þá stoppuð vél útaf
Hælavíkurbjargi og eftir klukkutíma var ventillinn tilbúinn og sett í gang og
var allt í lagi með lensidæluna. Var slík listasmíði á ventlinum að hann var
lengi notaður eftir þetta, þó búið væri að fá venjulegan koparventil. Þeir voru
góðir smiðir Gamlahraunsmenn. Gekk nú allt eins og í sögu þar til komið var í
opinn Dýrafjörð, þá tókum við eftir því að skipið var farið að hægja mjög á sér
og vélin gekk óeðlilega létt. Var þá reynt að þyngja skrúfuna en það dugði
ekki. Var þá frátengt og kom þá í ljós að skiptilegan var biluð, vindur hafði
nú gengið til SA en var hægur.
Togarinn Karlsefni var að toga stutt frá okkur
og heistum við flagg og kom hann brátt til okkar og báðum við hann að draga okkur
til Þingeyrar. Við vorum þrjá daga á Þingeyri og framkvæmdi Guðmundur
Sigurðsson viðgerðina sem kostaði kr. þrjú hundruð. Sláturtíðin stóð sem hæst
og fengum við nýtt kjöt og slátur fyrir sáralítinn pening, og matreiddi
Sigurður eins og besti matsveinn. Við vorum þarna í besta yfirlæti og dyttuðum
að ýmislegu um borð. Að viðgerð lokinni var strax lagt af stað, og segir nú
ekki af ferðum fyrr en komið var suður fyrir Látrabjarg. Við höfðum fyllt
tankana af brennsluolíu á Siglufirði og tókum þar einnig eitt fat af smurolíu
og var smurolíutunnan á stokkum aftan við stýrishúsið, og var olían tekin í
brúsa jafnóðum og nota þurfti, en mótorinn eyddi talsverðri smurolíu. Síðast
þegar vélstjórinn tók olíu hafði hann annað hvort ekki látið tappann á eða þá
svo lauslega að hann síðar hafði losnað úr, nema tunnan var tóm þegar næst átti
að sækja olíu. Nú var ekki um annað að gera en að reyna að ná næstu höfn. Vildi
okkur nú til eins og fyrri daginn að veðrið hélst gott og náðum við upp undir
Sand og hittum við þar tvo menn á árabát sem voru með handfæri í Sandabrúnum.
Við báðum þá að fara fyrir okkur í land og ná í 10 lítra af smurolíu. Þeir
brugðust vel við og komu brátt aftur með olíuna og við borguðum þeim vel fyrir
og héldum svo ferðinni áfram. Vindur hafði nú gengið í norðaustan strekking og
fengum við góðan byr yfir Faxaflóa og lentum í Reykjavík að morgni þess 24.
september. Strax daginn eftir gerði óveður sem stóð í marga daga.
Sjómannadagsblaðið. 1 júní 1980.
Vífilsfell NS 399. Ljósmyndari óþekktur.
919. Þórir RE 251. (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.
"Vífilsfell"
laskast
Síldveiðiskipið, Vífilsfell var s. l. föstudag statt út af
Kópaskeri með bilað stýri og var varðbáturinn Óðinn sendur því til aðstoðar. Kom Óðinn dráttartaug í
Vífilsfell og dró það áleiðis til Raufarhafnar. En þegar komið var í
hafnarmynnið á Raufarhöfn, slaknaði á tauginni og þegar Óðinn tók aftur í,
brotnaði stefnið af Vífilsfelli við átakið og varð þá að renna því í land.
Vífilsfell er gamalt tréskip og var einu sinni eign Færeyinga. Hét það þá
"Guide me" .
Þjóðviljinn. 29 ágúst 1944.
17.09.2018 17:59
B. v. Kári Sölmundarson RE 153. LCJG / TFQD.
Botnvörpungurinn Kári Sölmundarson RE 153 var smíðaður hjá
Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1920 fyrir
Fiskiveiðahlutafélagið Kára í Reykjavík. 344 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél.
Smíðanúmer 425. Árið 1924 flytur Kárafélagið aðstöðu sína úr Reykjavík, út í
Viðey. Við þann flutning fær togarinn skráningarnúmerið GK 153. Frá árinu 1931
er Útvegsbanki Íslands eigandi togarans eftir að Kárafélagið í Viðey fór í
þrot. Skipið var selt árið 1933, hf Alliance í Reykjavík, hét Kári RE 111.
Seldur í ágúst 1946, Klaksvíkur Fiskvinnufélag A/S í Klaksvík í Færeyjum, hét
þar Barmur KG 363. Talinn ónýtur og seldur í brotajárn til Odense (Óðinsvé) í
Danmörku árið 1955.
B. v. Kári Sölmundarson RE 153 í höfn á Patreksfirði. (C) Ólafur Jóhannesson.
Botnvörpungurinn Kári Sölmundarson RE 153
Nýr botnvörpungur kom hingað í gærmorgun. Heitir sá Kári
Sölmundarson og er eign hlutafélagsins "Kára" í Reykjavík.
Framkvæmdastjóri þess er Þorsteinn
Jónsson. Skipið er hið vandaðasta. Skipstjóri er Aðalsteinn Pálsson.
Morgunblaðið. 11 ágúst 1920.
B. v. Kári Sölmundarson GK 153. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
B. v. Kári RE 111. Úr safni Einars Ásgeirssonar.
Togarinn Barmur KG 363. ex Kári RE 111. Ljósmyndari óþekktur.
Kári
Sölmundarson í kolaflutningum til Grænlands
Mr. Crumrine hefir leigt botnvörpunginn Kára Sölmundarson til þess að fara norður undir Angmagsalik á Grænlandi, þar sem Grænlandsfarið Gertrud Rask er enn í ísnum og er nú kolalaus. Fer Kári með 150 tonn kola. Horfur eru nú sagðar heldur betri á því, að Gertrud Rask komist inn til Angmagsalik.
Morgunblaðið. 12 ágúst 1924.
16.09.2018 08:09
29. Bláfell. TFPJ. Olíuflutningaskip.
Olíuskipið Bláfell. Ljósmyndari óþekktur.
Anno Syros
verður nú Bláfell
Í dag lagðist nýja olíuflutningaskipið Anno Syros við
bryggju í Reykjavík, en því er ætlað það hlutverk, sem olíuflutningaskipið L.
W. Haskell gegndi áður en það fórst í Hvalfirði s.l. sumar. Skipið er eign
Olíufélagsins h.f. Það er byggt árið 1961 í skipasmíðastöð Neorion &
Miehanourghia S.A. á eynni Syros undan Grikklandsströndum og keypt þaðan ónotað
hingað til lands. Það hefur verið skírt að kaþólskum sið með blessan préláta,
en verður nú skírt upp og nefnt Bláfell. Skipið er byggt samkvæmt kröfum American
Bureau of Shipping, lestar um 200 smálestir af brennsluolíu, og sjálft er það
225 smálestir að þyngd. Lengdin er 35,2 m., breidd 6 m. og djúprista 2,3 m.
fulllestað. Vélin er 280 ha. Alpha-diesel frá Burmeister & Wain, sett niður
af starfsmönnum framleiðenda. Ganghraði skipsins er 10-11 sjómílur á
klukkustund. Kaupverð skipsins var rúmar .5 millj. kr. Sama áhöfn verður á
Bláfelli og var á L.W. Haskell. Skipstjóri Gunnar Magnússon, en hann sigldi
skipinu heim við sjötta mann og tók það þrjár vikur. Það eru einkum afgreiðslur
til skipa í Reykjavíkur- og Hafnarfjarðarhöfnum og flutningar í
hvalveiðistöðina og til annarra staða í nágrenni Reykjavíkur, sem Bláfell mun
annast.
Tíminn. 9 október 1962.
Anno Syros (Bláfell) við komuna til landsins hinn 9 október árið 1962. Ljósmyndari óþekktur.
Olíuskipið Bláfell á siglingu. (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.
Bláfell á leið niður úr slipp. (C) Gunnar Richter.
Endalok skipsins, rifið í Daníelsslippnum í Reykjavík. (C) Gunnar Richter.
Reykjavíkurhöfn
Árekstur skipa við hafnarmynnið
Olíuskipið Bláfell og strandferðaskipið Askja rákust saman skammt utan við hafnarmynnið í Reykjavíkurhöfn um miðjan dag í gær. Stjórnborðssíður skipanna skullu saman. Askja varð fyrir litlum skemmdum en Bláfell skemmdist nokkuð mikið. Brúarvængur lagðist inn að hluta, skemmdir komu á brú skipsins og einnig skemmdist skipið neðan sjólínu. Skipin voru að koma úr gagnstæðri átt, Askjan var að fara frá Reykjavík en Bláfellið á leið til Reykjavíkur. Yfirheyrslur yfir áhöfnum skipanna áttu að hefjast í morgun og sjópróf verða væntanlega eftir hádegi í dag.
Dagblaðið Vísir. 16 febrúar 1988.
16.09.2018 06:54
268. Aldan MB 77.
Vélbáturinn Aldan MB 77 var smíðaður í Frederikssund í
Danmörku árið 1931. Eik, beyki og fura. 26 brl. 96 ha. Tuxham vél. Eigendur
voru Brynjólfur Nikulásson, Sigurður Hallbjarnarson og Jóhann Ellert Jósepsson
á Akranesi frá marsmánuði sama ár. Ný vél (1938) 90 ha. Bolinder vél. Árið 1947
var umdæmisstöfum hans breytt í AK 77. Seldur 11 febrúar 1948, Valdimar
Stefánssyni og fl. Í Stykkishólmi og Trondi Jakobsen í Færeyjum, hét þá Aldan
SH 177. Ný vél (1949) 100 ha. June Munktell vél. Seldur 19 maí 1949, Guðmundi
Jóni Magnússyni og Páli Janusi Þórðarsyni á Suðureyri við Súgandafjörð, hét
Aldan ÍS 127. Seldur 28 maí 1952, Guðmundi J Magnússyni í Reykjavík, hét Aldan
RE 327. Ný vél (1962) 165 ha. General Motors díesel vél. Ný vél (1973) 174 ha.
General Motors díesel vél. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 5 desember árið
1975.
Vélbáturinn Aldan MB 77. (C) Ljósmyndasafn Akraness.
268. Aldan RE 327. (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.
V.b. Aldan
MB 77
Nýr vélarbátur kom til Akraness í nótt frá Danmörku.
Báturinn fór frá Færeyjum á fimmtudag og var menn farið að lengja eftir honum,
og í gærkveldi var útvarpað tilmælum til skipa frá sendiherra Dana um að
svipast að bátnum og veita honum aðstoð, ef á þyrfti að halda. En það er annars
af bát þessum að segja, að hann var kominn undir land, þegar hvessti svo, að
hann varð lengi að láta reka, en skipverjum leið vel og ekkert varð að bátnum.
Brynjólfur Nikulásson á Akranesi o. fl. eru eigendur bátsins, en Eggert
Kristjánsson & Co. önnuðust kaupin í Danmörku.
Vísir. 18 febrúar 1931.