17.03.2018 08:33

616. Jón Guðmundsson KE 4. TFNY.

Vélskipið Jón Guðmundsson KE 4 var smíðaður hjá Schlichting Werft í Lubeck-Travemunde í Þýskalandi árið 1960 fyrir Ólaf Lárusson útgerðarmann í Keflavík. Eik. 68 brl. 400 ha. MWM díesel vél. Skipið var selt 10 júní 1964, Meitlinum h/f í Þorlákshöfn, hét Ísleifur ÁR 4. Selt 7 desember 1971, Bakkaskipi h/f á Eyrarbakka, hét Askur ÁR 13. Ný vél (1976) 425 ha. Caterpillar díesel vél. 11 júlí var Byggðasjóður eigandi skipsins. Selt 15 maí 1981, Herði Bjarnasyni á Ísafirði, hét Guðbjörg ST 17. Frá 18 maí 1981 hét skipið Laufey ÍS 251. Frá sama tíma var skipið skráð á Byggðasjóð. Selt 21 október 1982, Friðrik Friðrikssyni, Sveini Sveinssyni, Jóhannesi Friðrikssyni og Hauki Jónassyni á Siglufirði, hét Dagur SI 66. Selt 18 desember 1985, Flóa h/f á Patreksfirði, hét Egill BA 77. Selt 14 júlí 1987, Stefáni Rögnvaldssyni á Dalvík, hét Stefán Rögnvaldsson EA 345. Ný vél (1988) 510 ha. Caterpillar díesel vél, 375 Kw. Skipið var selt árið 2008, Skarfakletti ehf á Blönduósi, hét Stefán Rögnvaldsson HU 345. Árið 2011 er nafni skipsins breytt, hét þá Stefán HU 38, sami eigandi. Selt sama ár Reddingu ehf á Flateyri, hét Markús ÍS 777. Skipið sökk við bryggju á Flateyri 3 ágúst 2013 en náðist upp stuttu síðar. Það var svo 19 september sama ár þegar Kristbjörg ÍS 177 var með Markús í drætti frá Flateyri til Ísafjarðar, en þar átti að rífa skipið, að það sökk endanlega út af Sauðanesi.


616. Jón Guðmundsson KE 4.                                   (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

     Fimmti nýi báturinn til Keflavíkur

Keflavík, 4. apríl. Nýr bátur kom í morgun til Keflavíkur, Jón Guðmundsson KE 4. Hann er smíðaður í Travemunde í Þýzkalandi eftir teikningu Tryggva Gunnarssonar frá Akureyri. Í bátnum er 400 ha. Mannheim dieselvél og öll nýjustu og beztu tæki til siglinga og fiskleitar.
Skipið reyndist mjög vel á heimleið. Skipstjóri er Arnbjörn Ólafsson, sonur Ólafs Lárussonar eiganda bátsins, og verður hann einnig fiskiskipstjóri. Hann fer á netaveiðar á morgun. Þetta er 5 nýi báturinn, sem kemur til Keflavíkur á þessari vertíð.

Morgunblaðið. 12 apríl 1960.


616. Jón Guðmundsson KE 4. Líkan Gríms Karlssonar.                             (C) Þórhallur S Gjöveraa.


616. Stefán Rögnvaldsson EA 345.                                                 (C) Hafþór Hreiðarson.


616. Markús ÍS 777.                                                                         (C) Jón Steinar Sæmundsson.

      Markús ÍS sökk í Flayteyrarhöfn

Trébáturinn Markús ÍS sökk í Flateyrarhöfn aðfararnótt sunnudags en lensidæla skipsins var ekki í gangi. Guðmundur M. Kristjánsson, yfirmaður hafna Ísafjarðarbæjar, segir bátinn á ábyrgð eigenda sinna og var hann í þeirra umsjá. Reyna átti að ná bátnum upp á þriðjudag. Markús er gamall trébátur sem var smíðaður árið 1960 og hefur ekki verið gerður út í nokkurn tíma.

Bæjarins besta. 8 ágúst 2013.


616. Markús ÍS 777 sokkinn í höfninni á Flateyri.                                              (C) Páll Önundarson.

      Markús ÍS sökk út af Sauðanesi

Þann 19. september 2013 var Markús ÍS 777 í drætti við Sauðanes. Veður: NV 8 m/sek. Það var Kristbjörg ÍS 177 sem var á leiðinni með Markús ÍS frá Flateyri til Ísafjarðar en þar átti hann að fara í niðurrif. Þegar bátarnir voru staddir út af Sauðanesi slitnaði dráttartaugin og eftir nokkurn tíma tókst að koma annarri taug á milli þeirra aftur en þá var Markús ÍS orðinn talsvert siginn. Fljótlega eftir að lagt var að stað aftur sökk Markús ÍS á stað 66°06'52N og 23°40'17V. (Markús ÍS sökk við bryggjuna á Flateyri þann 3. ágúst 2013 eftir að hafalegið þar síðan í mars 2012). Málið hefur ekki verið tekið fyrir.

Rannsóknarnefnd sjóslysa.


12.03.2018 17:56

2894. Björg EA 7 hélt í sinn fyrsta túr í gær.

Samherjatogarinn Björg EA 7 hélt í sinn fyrsta túr í gær. Skipið kom til landsins í október s.l. og hefur Slippstöðin á Akureyri unnið að uppsetningu á vinnslubúnaði á millidekki og í lest skipsins. Björg EA 7 var smíðuð hjá Cemre Shipyard í Yalova / Istanbúl í Tyrklandi árið 2017. 2.081 Bt. 2.203 ha. Yanmar vél, 1.620 Kw. Eins og áður segir, hélt skipið út í gær í sína fyrstu veiðiferð og óska ég þeim gæfu og góðu gengi, enda með nýtt og glæsilegt skip í höndunum. Þessar myndir tók bróðir minn, Alexander S Gjöveraa á Akureyri af skipinu, sennilega í haust stuttu eftir að það kom til landsins. Var búinn að setja inn myndir af Björgu sem Haukur Sigtryggur sendi mér í haust, en mér leiðist það nú ekki að birta myndir af fallegum skipum.


2894. Björg EA 7. TFKO.


2894. Björg EA 7 við bryggju á Akureyri.


2894. Björg EA 7.


2894. Björg EA 7. Sér í 2891. Kaldbak EA 1 til vinstri.


2894. Björg EA 7. Glæsilegt skip.                                      (C) Myndir: Alexander Smári Gjöveraa.

11.03.2018 08:05

2949. Jón Kjartansson SU 111. TFFF.

Nóta og togskipið Jón Kjartansson SU 111 var smíðaður hjá Flekkefjord Slipp & Maskinfabrikk A/S í Flekkefjord í Noregi árið 2003 fyrir Charisma Fishing Company Ltd í Leirvík á Hjaltlandseyjum. Hét Charisma LK 362. 2.424 Bt. 8.158 ha. Wartsiila vél, 6.000 Kw. Eskja h/f á Eskifirði keypti skipið í maí á síðasta ári og er það gert út á loðnu og kolmunnaveiðar. Skipstjóri á Jóni Kjartanssyni SU 111 er Grétar Rögnvarsson. Haukur Sigtryggur Valdimarsson tók þessar myndir þegar skipið kom til hafnar á Dalvík í gær. Þakka ég honum kærlega fyrir sendinguna.

2949. Jón Kjartansson SU 111 við bryggju á Dalvík í gær.


2949. Jón Kjartansson SU 111 á leið til hafnar á Dalvík.

Eskja kaupir uppsjávarskipið Charisma                 frá Hjaltlandseyjum

Eskja hf. hefur gengið frá samningi um kaup á nýju uppsjávarskipi frá Lerwick á Hjaltlandseyjum. Skipið heitir Charisma, byggt 2003 í Noregi og er 70,7 metrar á lengd og 14,5 metrar á breidd. Aðalvél skipsins er MAK 6.000 kw og 8.160 hestöfl.
Skipið ber 2.200 rúmmetra í 9 tönkum með RSW kælingu og mun koma til með að leysa af hólmi aflaskipið Jón Kjartansson SU 111 sem kominn er til ára sinna en hefur þjónað félaginu vel í gegnum tíðina. Charisma mun heita Jón Kjartansson og reiknað með að Eskja fái skipið afhent í byrjun júlí.
Nýr Jón Kjartansson mun afla hráefnis í nýtt uppsjávarfrystihús sem tekið var í notkun í nóvember á síðasta ári og fyrirhugað er að það fari á makrílveiðar í byrjun ágúst næstkomandi.

Vefsíða Eskju. 7 júní 2017.



2949. Jón Kjartansson SU 111 á leið til hafnar á Dalvík.


2949. Jón Kjartansson SU 111 í höfn á Dalvík.

               Alli ríki og foreldrar hans

Mikl­ar breyt­ing­ar hafa orðið á skipa­kosti Eskju á Eskif­irði á einu ári. Fjár­fest hef­ur verið í nýrri skip­um, sem nú eru öll á mak­ríl­veiðum í síld­ars­mugunni norðaust­ur af land­inu. Nöfn skip­anna eru gam­al­kunn úr út­gerðar­sögu Eskifjarðar og hafa mikla þýðingu í sögu bæj­ar­fé­lags­ins. Um leið eru þau ná­tengd aðal­eig­end­um fjöl­skyldu­fyr­ir­tæk­is­ins Eskju, þeim Björk Aðal­steins­dótt­ur og Þor­steini Kristjáns­syni. Í lok ág­úst í fyrra gekk Eskja frá kaup­um á norska upp­sjáv­ar­veiðiskip­inu Li­bas, sem var eitt af stærstu fiski­skip­um norska flot­ans, 94 metr­ar að lengd og tæp­ir 18 metr­ar á breidd. Skipið fékk nafnið Aðal­steinn Jóns­son SU 11, en eldra frysti­skip með sama nafni var selt til græn­lenska út­gerðarfyr­ir­tæk­is­ins Arctic Prime Fis­heries, sem aft­ur seldi það til Rúss­lands. Útgerðarfyr­ir­tækið Brim hf. er hlut­hafi í græn­lenska fyr­ir­tæk­inu.
Upp í kaup­in á Aðal­steini Jóns­syni gekk græn­lenska upp­sjáv­ar­skipið Qa­vak GR 21 og fékk það nafnið Guðrún Þor­kels­dótt­ir SU 211. Það er rúm­lega 60 metra langt, smíðað 1999 í Nor­egi.
Í sum­ar keypti Eskja síðan upp­sjáv­ar­skipið Char­isma frá Hjalt­lands­eyj­um, en það er byggt í Nor­egi 2003 og er 70,7 metr­ar á lengd. Skipið fékk nafnið Jón Kjart­ans­son SU 111, en eldra skip með sama nafni er til sölu.
Daði Þor­steins­son Kristjáns­son­ar er skip­stjóri á Aðal­steini Jóns­syni, Grét­ar Rögn­vars­son er skip­stjóri á Jóni Kjart­ans­syni og Hjálm­ar Ingva­son er með Guðrúnu Þor­kels­dótt­ur. Skip­in afla öll hrá­efn­is fyr­ir nýtt upp­sjáv­ar­frysti­hús Eskju á Eskif­irði sem tekið var í notk­un í nóv­em­ber á síðasta ári. Stjórn­ar­formaður Eskju er Erna Þor­steins­dótt­ir.
Svo aft­ur sé vikið að nöfn­um skip­anna þá hóf Aðal­steinn Jóns­son snemma störf við út­gerð og eignaðist fyrst hlut í bát árið 1946. Árið 1960 tók hann við stjórn Hraðfrysti­húss Eskifjarðar og var for­stjóri fram til árs­ins 2000. For­eldr­ar hans voru Jón Kjart­ans­son póst­ur og Guðrún Þor­kels­dótt­ir hús­freyja og áttu þau sam­an sex börn. Aðal­steinn var þeirra næstyngst­ur. Nöfn skip­anna þriggja eru því sótt til Aðal­steins, Jóns og Guðrún­ar.
Í minn­inga­punkt­um um Aðal­stein seg­ir að rekst­ur fyr­ir­tæk­is­ins hafi ein­kennst af bjart­sýni og áræði Aðal­steins, sem snemma fékk viður­nefnið Alli ríki. Fyr­ir­tækið var jafn­an stærsti vinnu­veit­andi í byggðarlag­inu.
Í lok sjötta ára­tug­ar­ins eignaðist fé­lagið sitt fyrsta skip, Hólma­nes, sem var 130 tonna stál­bát­ur smíðaður í Nor­egi, og var gert út á línu- og neta­veiðar, svo og á síld­veiðar. Á ár­un­um 1962-1970 eignaðist fé­lagið nokk­ur skip af stærðinni 150-260 tonn, sem gerð voru út á línu- og neta­veiðar, síld­veiðar og tog­veiðar.
Í sér­stöku fé­lagi bræðranna Aðal­steins og Krist­ins Jóns­son­ar, sem lengi var stjórn­ar­formaður Hraðfrysti­húss Eskifjarðar, voru gerð út skip­in Jón Kjart­ans­son og Guðrún Þor­kels­dótt­ir og voru bæði mik­il afla­skip, ekki síst á síld.
1967-1968 hvarf síld­in af Íslands­miðum, en nokkr­um árum síðar hóf­ust veiðar á loðnu til bræðslu. Eft­ir því sem þær veiðar juk­ust var talið nauðsyn­legt að fyr­ir­tækið eignaðist skip til hrá­efnisöfl­un­ar og árið 1978 keypti fé­lagið 780 tonna skip er fékk nafnið Jón Kjart­ans­son SU-111, skip­stjóri Þor­steinn Kristjáns­son. 1982 keypti fé­lagið annað skip, 360 tonn, er fékk nafnið Guðrún Þor­kels­dótt­ir SU-211. Hætt var að gera það skip út 2003.
Eft­ir því sem árin liðu urðu breyt­ing­ar í út­gerð og áhersl­um og skipa­kosti sömu­leiðis. Auk­in áhersla var lögð á vinnslu á loðnu, síld og öðrum upp­sjáv­ar­teg­und­um. Nýtt upp­sjáv­ar­skip kom til Eskifjarðar 2006 og fékk nafnið Aðal­steinn Jóns­son. Þá var hins veg­ar ekki að finna Guðrúnu Þor­kels­dótt­ur í flota Esk­firðinga, en það breytt­ist aft­ur í sum­ar. Alli ríki og for­eldr­ar hans hafa því öll verið á sjó síðustu vik­urn­ar. Auk upp­sjáv­ar­skip­anna hef­ur Eskja frá 2010 gert út línu­bát­inn Haf­dísi SU 220
.

Morgunblaðið. 28 september 2017.


Grétar Rögnvarsson skipstjóri í brúarglugganum.           (C) Myndir: Haukur Sigtryggur Valdimarsson.


Charisma LK 362.                                                                                                (C) Richard Paton.

     Jón Kjartansson klár eftir breytingar

Seint í gærkveldi hélt hinn nýi Jón Kjartansson SU 111 frá Akureyri áleiðið til heimahafnar á Eskifirði og mun stefnan vera sett á loðnuveiðar á allra næstu dögum.  Skipið hefur verið í miklum breytingum frá því í byrjun nóvember hjá Slippnum á Akureyri.
Eru þær helstar að settur hefur verið nótabúnaður í skipið sem ekki var áður, búin var til nótaskúffa  settur niðurleggjari, ný kraftblökk og nótarör ásamt öðrum verkum sem tengjast svona stóru verki en alls tók verkið á þriðja mánuð.
Skipið var keypt frá Hjaltlandseyjum á síðasta ári og hét Carisma LK 362 og er 70.7 metrar á lengd 14.5 á breidd og 2.424 brúttótonn. það er smíðað árið 2003 og er nánast eins og nýtt, allar vistarverur mjög glæsilegar sem og brúin sem er vel búinn tækjum.

Kvótinn.is 15 febrúar 2018.








10.03.2018 14:29

E. s. Muggur. LBQT.

Gufuskipið Muggur var smíðað í Þýskalandi árið 1897. Stál. 75 brl. 150 ha. 2 þennslu gufuvél. Eigandi var P.J. Thorsteinsson & Co á Bíldudal frá 24 apríl 1898. Selt til Noregs og tekið af skrá 2 janúar árið 1901. 
Árið 1898 keypti Pétur lítið gufuskip. Það skip skírði hann gælunafni sonar síns, Muggs. Pétur gerði skipið út á doríuveiðar með lóðir og var sá veiðiskapur nýmæli hér við land. Þessi veiðiskapur hentaði vel á fiskibönkunum við Nýfundnaland og Labrador, þar sem veður er stillt, en á Íslandsmiðum var þessi tilraun dæmd til að mistakast. Dönsku skipstjórarnir voru heldur ekki öflugustu mennirnir til að gera þá tilraun arðbæra, og mun Pétur hafa gefist upp á þessari nýbreytni eftir eitt sumar. Muggur komst þá í íslenska fiskveiðisögu sem fyrsta gufuskip Íslendinga, sem gert var út til lóðaveiða, en Súlan, sem Konráð Hjálmarsson gerði út frá Mjóafirði austur, hið næsta. Pétur mun hafa notað Mugg nokkuð til flutninga en seldi hann eftir tvö ár úr landi.


Gufuskipið Muggur.                                                                                         Ljósmyndari óþekktur.


Bíldudalur sumarið 1886.                                                                                   Mynd úr safni mínu.


             Gufuskipið "Muggur"

Gufuskipið "Muggur", eign hr kaupmanns P. J. Thorsteinssonar & Co á Bíldudal, er nú þegar byrjaður fiskiveiðar, kvað hann jafnan veiða á eða nærri Bolungarvíkurmiðum, og beita þar niður lóðir með nýrri síld. Þykir Bolvíkingum þetta slæmur gestur, og segja hann spilla fyrir veiðum almennings hér, þar sem enginn hafi slíka beitu að bjóða.

Þjóðviljinn + Þjóðviljinn ungi. 16 febrúar 1899.


07.03.2018 19:39

2889. Engey RE 1 á útleið í dag.

Tók þessa myndasyrpu af Engey RE 1 þegar skipið var á útleið. Sannarlega glæsilegt skip og ekki spillti veðrið fyrir. Sannarlega fallegt veðrið í höfuðborginni í dag.


2889. Engey RE 1 á útleið.


2889. Engey RE 1 á útleið.


2889. Engey RE 1 á útleið.


2889. Engey RE 1 á útleið.                                                   (C) Þórhallur S Gjöveraa. 7 mars 2018.

04.03.2018 09:39

507. Valbjörn ÍS 13. LBDH / TFCJ.

Mótorskipið Valbjörn ÍS 13 var smíðaður í Risör í Noregi árið 1928. 41 brl. 90 ha. Ellwe vél, smíðuð hjá Svenska Maskinverken í Stokkhólmi, Svíþjóð. Eigendur voru Jón Kristjánsson, Sölvi Ásgeirsson, Ketill Guðmundsson, Finnur Jónsson og Vilmundur Jónsson á Ísafirði frá desember á sama ári. Ný vél (1943) 120 ha. Ruston díesel vél. Frá 3 nóvember 1943, var Samvinnufélag Ísfirðinga eigandi bátsins. Seldur 6 desember 1951, Mími h/f í Hnífsdal, hét Mímir ÍS 30. Ný vél (1955) 240 ha. GM díesel vél. Seldur 31 október 1959, Gylfa h/f á Ísafirði, hét þá Gylfi ÍS 303. Seldur 28 september 1968, Ólafi V Sverrissyni í Grindavík, báturinn hét Gylfi Örn GK 303. Báturinn sökk út af Höfnum á Reykjanesi 23 ágúst árið 1971. Áhöfnin, 2 menn, bjargaðist um borð í Gullþór KE 85 frá Keflavík.


Valbjörn ÍS 13.                                                                                       (C) Sigurgeir B Halldórsson.

    Bátar Samvinnufélags Ísfirðinga

Mótorskipum Samvinnufjelags Ísfirðinga hafa nýlega verið nöfn gefin. Heita þau Ásbjörn, Ísbjörn, Sæbjörn, Vébjörn og Valbjörn. Ráði félagið yfir 100 skipa flota í framtíðinni, gæti svo farið að það yrði í bjarnarnafnahraki, ef ekki má frá þeim víkja.

Verkamaðurinn. 30 október 1928.

       Bátar Samvinnufélagsmanna

M. s. Sæbjörn, eigandi Ólafur Júlíusson o. fl., kom hingað á aðfaranótt þorláksmessu og hafði verið sjö og hálfan sólarhring frá Risör. M. s. Ísbjörn, eigandi Rögnvaldur Jónsson o. fl., kom hingað að morgni þess 27. M. s. Ásbjörn, eigandi Haraldur Guðmundsson o. fl., var í Vestmannaeyjum í gær. M. s. Vébjörn var í Færeyjum á annan dag jóla, en er nú lagður af stað heimleiðis. M. s. Valbjörn hreppti vont veður og snéri aftur til Noregs, vegna einhverrar bilunar á olíugeymi.
Bátarnir eru allir 44-45 tonn að stærð, með 90 hk. Elwe-vél. Reynst hafa þeir sem komnir eru, hin bestu sjóskip, á þessari löngu og hættulegu ferð.

Vesturland. 29 desember 1928.


507. Valbjörn ÍS 13. Líkan.                                              (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

                  Valbjörn ÍS 13

M.b. Valbjörn kom hingað 16. þ m. Eru nú allir bátar samvinnufélagsmanna komnir

Skutull. 18 janúar 1929.


Valbjörn ÍS 13 með fullfermi síldar á Siglufirði.                                                  (C) Leó Jóhannsson.


507. Gylfi ÍS 303.                                                         (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.

            Sökk á leið í slipp eftir bruna

Vélbáturinn Gylfi ÍS 303 frá Grindavik sökk í gær út af Höfnum á Reykjanesi. Tveir menn voru um borð í bátnum og björguðust þeir yfir í Gullþór KE, sem hafði komið til aðstoðar, þegar mikili leki kom að Gylfa. Gylfi ÍS 303 var 47 tonna eikarbátur, smíðaður í Noregi 1928. Skipstjóri og eigandi var Ólafur Sverrisson, Grindavik, Gylfi var á leið í slipp í Njarðvíkum, en á föstudagsmorgun kom upp eldur í lúkar bátsins í Grindavík. Slökkvilið Grindavíkur var kvatt út klukkan 05:45 á föstudagsmorgun og var lúkar Gylfa þá alelda, Slökkvistarf gekk greiðlega, en miklar skemmdir urðu frammi í bátnum. Talið er, að eldurinn hafi kviknað út frá eldavél.
Seinnipartinn í gær lagði svo Gylfi af stað frá Grindavik til Njarðvíkur, þar sem taka átti bátinn í slipp. Sæmilegt veður var, en þegar báturinn var stadduir út af Hafnabergi, kom að honum mikill leki frammi í. Um borð voru skipstjóri og vélstjóri og tókst þeim ekki að stöðva lekann. Vélbáturinn Gullþór KE var staddur skammt frá og kom hann Gylfa til aðstoðar, en þá hafði vél Gylfa stöðvazt. Gullþór tók Gylfa í tog og var haldið áfram vestur fyrir Reykjanes, en eftir um hálfa klukkstund, um klukkan 18:30 var Gylfi orðinn svo siginn í sjó, að tauginni var sleppt og sökk hann skömmu síðar.
Skipverjar á Gylfa voru þá komnir yfir í Gullþór, sem flutti þá til Grindavíkur. Sjópróf fara fram í dag.

Morgunblaðið. 25 ágúst 1971.



03.03.2018 07:58

E. s. Ceres. NKHM.

Gufuskipið Ceres var smíðað hjá Kockums Mekaniska Verkstad í Malmö í Svíþjóð árið 1882 fyrir Sydsvenska Angbots A/B í Malmö í Svíþjóð. 1.166 brl. 800 ha. 2 þennslu gufuvél. Smíðanúmer 36. Skipið var selt Sameinaða gufuskipafélaginu í Kaupmannahöfn (D.F.D.S), 4 maí 1899. Ceres var í millilanda og strandsiglingum við Ísland í um 20 ára skeið. Margir annálaðir skipstjórar voru þar við stjórn. Má þar nefna, Ryder, Kjær, Da Cunha, Gard, Broberg og Lydersen. Skipinu var sökkt af þýska kafbátnum U-88, um 200 sjómílur norður af Írlandi 13 júlí árið 1917. 2 skipverjar fórust. Aðrir skipverjar og farþegar björguðust um borð í skipsbátana og náðu landi í bænum Barnich á Suðureyjum (Hebrideseyjum), eftir 52 klukkustunda hrakninga.

Strandferðaskipið Ceres á Norðfirði.                                                  Ljósmyndari óþekktur.

              "Ceres" hlekkist á

Eimskipið »Ceres« (Broberg skipstjóri) strandaði við Orkneyjar 23. f. m. Var á leið til Reykjavíkur, en rakst á granda þar við eyjarnar og skemmdist dálítið, en þó ekki svo að farþega (né skipverja) sakaði, er allir voru áfram í skipinu þangað til skipsferð féll og þeir gátu haldið burtu. Björgunarskip var þegar sent til þess að draga »Ceres« aftur á flot og gekk það greiðlega, er »Ceres« nú komin til Leith og  verður þar gert við hana svo hún geti byrjað ferðir sínar sem fyrst aftur. Það »sameinaða« hefir þegar sent annað skip til þess að fara þessa ferð er »Ceres« var nú á.

Gjallarhorn. 6 árg. 3 tbl. 5 mars 1912.


Ceres við bryggju á Seyðisfirði.                                                                 Ljósmyndari óþekktur.

                    Ceres sökkt 

Stjórnarráðið fékk í gærmorgun símskeyti frá Lydersen, skipstjóra á Ceres, þess efnis, að skipi hans hafi verið sökkt af þýzkum kafbáti. Skeytið er sent frá litlum bæ sunnarlega á Hebridueyjum kl. 11.50 í fyrradag. Segir skipstjóri að öllum farþegum og skipverjum hafi verið bjargað, nema tveim, öðrum vélameistara, dönskum manni, Danielsen að nafni, og sænskum kolamokara, sem menn ekki vita nafn né deili á með vissu.
Hvar Ceres hafi verið kafskotin, getur ekki um í skeytinu, en það mun hafa verið einhverstaðar í nánd við Hebridueyjar. Ceres var á hingað leið með salt og síldartunnur, en auk þess mun skipið hafa haft póstflutning og nokkra farþega. Vita menn um, að sendimennirnir til London, þeir feðgar Thor Jensen og Richard Thors voru með skipinu og ungfrú Thora Friðriksson. Ennfremur hyggja menn að skipbrotsmenn þeir, sem hér eiga heima, en höfðu ráðið sig á Escondido, sem Þjóðverjar einnig hafa á samvizkunni, muni hafa verið með Ceres.

Morgunblaðið. 18 júlí 1917.


Strand og millilandaskipið Ceres í Kaupmannahöfn.                               Handel & Söfart museet.dk


Ceres. Lituð ljósmynd.                                                                            Handel & Söfart Museet.dk

            Þegar Ceres var sökkt

Í Glasgow í Skotlandi var skipshöfnin af »Ceres« yfirheyrð og sagði hún þá frá því á þessa leið þegar skipinu var sökt:
»Ceres« fór frá Fleetwood hinn 11. júlí og fékk nákvæm fyrirmæli um það, hvaða Ieið hún ætti að fara. Lydersen skipstjóri og stýrimaður sögðu báðir að þeirri stefnu hefði nákvæmlega verið fylgt. Ferðin gekk vel í tvo daga, en er skipið var komið á 50 gr. n. br. og 12 gr. vesturlengdar, kom á það tundurskeyti frá kafbáti, sem eigi sázt. Varð þegar ógurleg sprenging í skipinu. Vélin stöðvaðist samstundis og þegar reykur og gufa fór að réna, var vélrúmið fullt af vatni. Annar vélstjóri, Danielsen og einn kyndari biðu bana við sprenginguna og bakborðsbátur brotnaði í spón. Það tókst að koma stjórnborðsbát á flot og einnig »jullu« og gekk skipshöfnin þar á, ásamt þremur farþegum. »Ceres« sökk á sjö mínútum. Rétt á eftir kom kafbáturinn í ljós á stjórnborða, en þegar hann sá að skipið var sokkið fór hann í kaf aftur. Bátarnir héldu nú til lands. Skömmu síðar sáu þeir tvö svört reköld skammt frá sér og er þeir komu nær sáu þeir að þetta voru fljótandi tundurdufl. Um miðjan dag hinn 15. júli komust bátarnir báðir til þorpsins Bornich á Suðureyjum, eftir harða útivist. Farþegar á Ceres voru 3, þeir Thor Jensen, Richhard Thors og ungfrú Þóra Friðriksson. Nokkrir Íslenzkir sjómenn voru ráðnir á Ceres hér og komu 3 þeirra hingað í gær á Fálkanum. Vér náðum tali af Bjarna Jónssyni Þórðarsonar hafnsögumanns á Vesturgötu 38. Er Bjarni framúrskarandi dugnaðarlegur að sjá og líklega ekki einkisvirði að hafa með á slíkri útivist og þeir áttu, skipverjarnir og farþegarnir á Ceres, eftir að skipinu var sökt. Bjarni segir látlaust og blátt áfram frá, svo sem góðra sjómanna er siður.
Klukkan var 7,15 árdegis föstudaginn 13. júlí. Ceres var þá á að gizka 200 sjómílur norður af Írlandi. Skyndilega varð óttaleg sprenging, vélin stöðvaðist og annar björgunarbáturinn fór í spón, ásamt mörgu öðru á þilfarinu. Kafbáturinn sást þá hvergi, en hann kom úr kafi litlu síðar hinu megin við skipið, en hvarf aftur þegar hann sá, að skipið var að sökkva. Tveggja manna var þegar saknað og hygg eg að þeir hafi báðir farist í vélarúminu þegar sprengingin varð. Farþegar voru ekki komnir á fætur og voru því fáklæddir mjög. En það var um að gera, að hraða sér sem mest. Þóra Friðriksson komst í kjól, en Thor Jensen og Richard Thors voru vestis- og jakkalausir, er þeir hlupu í bátinn. Skipverjar, sem á verði voru, lánuðu þeim nokkuð af sínum fötum, en veður var kalt, rigning og stormur, svo það gat varla farið vel um þau. Þau báru sig samt vel, en sjóveiki hafði ungfrú Þóra megna. Nú var róið og siglt. Mat höfðum við til þriggja daga og vatn nóg.
Og Cognak, ef einhver skyldi veikjast. Eftir 52 stunda veru í bátunum, »julluna« höfðum við bundið aftan í lífbátinn, komum við að landi í Bornich. Var oss tekið þar mjög vel af Bretum og þegar símað eftir skipi til þess að flytja okkur til Skotlands. Í Glasgow vorum við í 10 daga, en fórum svo frá Newcastle til Noregs. Skipverjar og farþegar misstu allt, sem þeir höfðu meðferðis. En það var hreinasta undur, að ekkí skyldu fleiri menn farast, því kafbáturinn gaf oss engan frest til þess að forða oss.

Morgunblaðið. 17 ágúst 1917.


01.03.2018 18:47

Reykjavíkurhöfn í blíðunni í dag.

Það var fallegt veðrið í höfuðborginni í dag, það besta í nokkrar vikur. Hafði það á tilfinningunni að vorið væri að koma, en það er bara 1 mars, já bjórdagurinn, mætti alveg skála fyrir honum. Nei, það er langt í vorið ennþá, langi mars eftir. Reykjavíkurhöfn er alltaf falleg. Tók þessar myndir þar í blíðunni í dag.


Sól og blíða í Reykjavíkurhöfn í dag.


Grandagarður.


Akurey AK 10 við bryggju í Örfirisey.


Vesturhöfnin.


Helga María AK 16 og Akurey AK 10 við bryggju í Örfirisey.      (C) Þórhallur S Gjöveraa. 1 mars 2018.

28.02.2018 19:14

Dráttarbáturinn Magni í slippnum í Reykjavík.

Það var falleg sjón að sjá Magna kominn í slipp. Gott og þarft verk að gera skipið upp, eða að reyna það. Mér finnst nú að ríkið eigi að styrkja þetta verkefni, þetta er jú fyrsta stálskip sem smíðað er hér á landi. Það vantar ekki að það er hlaupið til þegar á að vernda eða endurbyggja einhverja fúabragga hér og þar um landið, þá er til nóg fé. Það vantar ekki. Magni er stór hluti af skipasögu okkar sem ber að varðveita. Mér skilst að ný vél í hann (samskonar vél og er í honum) kosti um 6 milljónir. Minjastofnun mætt alveg koma að þessu verkefni fyrir hönd ríkisins. En hvað um það, Magni er glæsilegt skip og markaði merk tímamót í sögu okkar Íslendinga.


146. Magni. Dráttarskip.      














                                                                                    (C) Þórhallur S Gjöveraa. 28 febrúar 2018.

  "Magni"afhentur hafnarstjórn á laugardag
  Mjög traustur, verður notaður sem dráttarbátur,                    
ísbrjótur og til vatnsflutninga

Dráttarbáturinn Magni, fyrsta stálskipið, sem smíðað hefur verið hér á landi, var afhent hafnarstjórn á laugardaginn. Benedikt Gröndal verkfræðingur afhenti skipið fyrir hönd Stálsmiðjunnar, en Valgeir Björnsson hafnarstjóri veitti því móttöku fyrir hönd hafnarstjórnar. Í tilefni afhendingar skipsins var borgarstjóra, hafnarstjórn, ýmsum er unnið höfðu að byggingu skipsins og fleiri gestum boðið um borð í Magna, og var skipinu siglt upp undir Gufunes, en þar fór afhendingin fram, Gekk báturinn í þessari siglingu rúmar 11 sjómílur, en hafði áður í reynslusiglingu gengið 12,2 sjómílur á klukkustund. Samningar um smíði Magna voru undirritaðir 28. apríl 1953, og var skipið sjósett frá Stálsmiðjunni 15. október 1954. Síðan hefur verið unnið að niðursetningu véla, innréttinga og öðrum útbúnaði skipsins, og hafa þar ýms fyrirtæki lagt hönd að verki. Vélsmiðjan Hamar sá um niðursetningu aðalvéla, Héðinn um spil, stýrisútbúnað, skrúfu og fleira. Allt tréverk var unnið á vegum Slippfélagsins og raflagnir annaðist Volti h.f. Eins og kunnugt er, þá er Magni byggður sem ísbrjótur, og því mun sterkbyggðari en venjuleg skip, og þó að hann sé einkum ætlaður sem dráttarbátur og til vatnsflutninga fyrir höfnina (en hann tekur um 65 tonn af vatni), er hann byggður samkvæmt fyllstu kröfum um úthafsskip. Vistarverur skipshafnar eru mjög rúmgóðar og smekklega innréttaðar, en í skipinu eru vistarverur fyrir 7 manns, auk sjúkraherbergis. Skipstjóri á Magna verður Theodór Gíslason, en 1. vélstjóri Sigurður Ólafsson. Aðalaflvél skipsins er 1.000 hestöfl, og má geta þess, að hún vegur um 20 smálestir. Auk aðalvélarinnar eru fjórar hjálparvélar, dæluvél og ljósavélar. Rúmteikningar að skipinu gerði Hjálmar R. Bárðarson skipaskoðunarstjóri, en yfirumsjón með byggingunni hafði Gunnar Norðland skipaverkfræðingur Stálsmiðjunnar. Byggingarkostnaður Magna var áætlaður við samningsgerð 6,4 milljónir króna, og sagði hafnarstjóri í ræðu sinni við móttöku skipsins, að líkur væru á að sú áætlun stæðist, en ennþá eru ýmsir reikningar í sambandi við byggingu skipsins óuppgerðir. Tjáði Hafnarstjóri Stálsmiðjunni þakkir sínar fyrir hið stórhuga átak og brautryðjendastarf er hún hefði unnið með byggingu þessa fyrsta stálskips landsins, og kvað alla samvinnu við fyrirtækið hafa verið hina ánægjulegustu.

Vísir. 27 júní 1955.


27.02.2018 07:39

B. v. Jón forseti RE 108. LBJT.

Botnvörpungurinn Jón forseti RE 108 var smíðaður hjá Scott & Sons Shipbuilders Bowling Near Glasgow í Skotlandi árið 1906. 233 brl. 400 ha. 3 þennslu gufuvél. Eigandi var h/f Alliance (Thor Jensen kaupmaður og skipstjórarnir Magnús Magnússon, Jón Ólafsson, Halldór Þorsteinsson, Kolbeinn Þorsteinsson og Jón Sigurðsson) í Reykjavík. Kom skipið til Reykjavíkur hinn 24 janúar árið 1907. Togarinn strandaði á skerinu Kolaflúð við Stafnes á Reykjanesi aðfaranótt 27 febrúar árið 1928. 15 skipverjar fórust en 10 skipverjum var naumlega bjargað við hinar verstu aðstæður. Togarinn eyðilagðist og brotnaði hann fljótlega og sökk. 90 ár eru liðin frá þessu átakanlega sjóslysi sem varð til þess að Slysavarnarfélag Íslands var stofnað. Jón forseti var fyrsti togarinn sem smíðaður var fyrir Íslendinga að öllu leiti og mjög til hans vandað.



B.v Jón forseti RE á siglingu, sennilega á Arnarfirði.                                           (C) Jón J Dahlmann.

      Botnvörpungurinn "Jón forseti"

»Jón forseti«, hið nýja botnvörpuskip Thors kaupmanns Jensens og þeirra 4 skipstjóra, Magnúsar Magnússonar, Jóns Ólafssonar, Halldórs Þorsteinssonar, Kolbeins Þorsteinssonar og Jóns Sigurðssonar, kom hingað þann 24. Janúar, beina leið frá smíðastöðinni, Glasgow á Skotlandi. Skipið er mjög fallegt útlits og vandað að öllum frágangi. 86 netto smálestir að stærð, en 250 smálestir brúttó. Það er byggt úr 1/20 þumlunga þykkra járni, með 6. 1/10 þumlunga sverari keðju og 200 punda þyngri atkerum, en Lloyds krefst. Skipið kostar hér um bil 145,000 kr. sjótrygging hér um bil 12,000 kr. um árið.

Tímaritið Ægir. 9 tbl. 1 mars 1907.


Áhöfnin á "forsetanum". Guðmundur Guðjónsson skipstjóri á brúarvængnum ?.  Þjóðminjasafnið.


Botnvörpungurinn Jón forseti RE 108.                                                            Mynd í minni eigu.

    Fiskiveiðahlutafjelagið "Alliance"

Elsta og stærsta togaraútgerðarfélag á íslandi

Fiskiveiðahlutafjelagið "Alliance" var stofnað árið 1906. Voru stofnendur þess: Thor Jensen kaupmaður, og skipstjórarnir, Jón Ólafsson, Jón Sigurðsson, Halldór Kr. Þorsteinsson, Magnús Magnússon, Kolbeinn Þorsteinsson og Jafet Ólafsson. Fjórir þessara skipstjóra höfðu áður gert með sjer fjelag og keypt kúttera árið 1904, en þilskipaútgerð stóð þá hjer í mestum blóma. Í páskaveðrinu 7. apríl 1906 fórst Jafet Ólafsson, ásamt mörgum öðrum, en árið 1910 seldi Thor Jensen hlut sinn og gekk úr fjelaginu. Þegar h/f. "Alliance" var stofnað, höfðu Íslendingar litla þekkingu á togaraútgerð og enga reynslu á því sviði.


Athafnasvæði h/f Alliance í Ánanaustum um 1930.                               (C) Magnús Ólafsson.
  
Að vísu höfðu verið keyptir tveir togarar hingað til lands frá Englandi, en þeir voru báðir gamlir og mjög ófullkomnir, enda varð árangurinn eftir því. Í febrúar 1907 kom fyrsta skip fjelagsins, "Jón forseti", hingað til lands, og stýrði honum Halldór Kr. Þorsteinsson skipstjóri, sem þá hafði dvalið á annað ár í Englandi til þess að kynna sjer botnvörpuveiðar. "Jón forseti" var smíðaður í Glasgow svo fullkominn, sem þá var frekast kostur. Var hann fyrsti togari, er Íslendingar ljetu smíða, og má því segja, að með komu hans hefjist togaraútgerð Íslendinga. Það kom strax í ljós, að togaraútgerð gæti, ef skynsamlega væri að farið, orðið arðvænlegur atvinnuvegur fyrir landsmenn, enda fóru menn þá óðum að feta í fótspor þessara manna og hefir togurum síðan fjölgað ár frá ári, uns íslendingar eiga nú 40 togara. Fjelagið hefir eignast 6 togara, en af þeim misst tvo, þá Skúla fógeta, byggðan 1911, fórst hann í Norðursjónum í byrjun ófriðarins, 26. ágúst 1914, og Jón forseta, sem strandaði á Stafnestöngum 27. febrúar 1928; á það því nú 4 togara. Auk þess eiga stofnendur "Alliance", þeir sem enn eru í fjelaginu, 4 aðra togara að nokkru eða öllu leyti, og hafa þannig umráð yfir 1/5 hluta af togaraútgerð landsmanna. Fjelagið hefir komið sjer upp fullkomnum fiskþurrkunarstöðvum með tilheyrandi húsakynnum og getur það nú breitt til þurrkunar í einu ca. 600,000 kg. fiskjar. Auk þess hefir fjelagið byggt fiskþurrkunarhús, sem afgreiðir að meðaltali 10,000 kg. af fullþurrum fiski á sólarhring.


Gamla saltfiskþurrkunarhús Alliance í Ánanaustum.        (C) Þórhallur S Gjöveraa. 14 sept. 2014.  

Árið 1929 voru útfluttar afurðir h/f. "Alliance" og þeirra fjelaga, sem það hefir umsjón með, sem hjer segir:
Verkaður saltfiskur 3180 þúsund kg.
Óverkaður saltfiskur 2080 þús. kg.
Ísfiskur kr. 675.000.
Lýsi kr. 358.800.
Sama ár flutti fjelagið inn 14,000 smálestir af kolum og 7,000 smálestir af salti. Mestan hluta veiðarfæra lætur fjelagið vinna á vinnustofu sinni við Tryggvagötu, og er unnið að netagerð o. fl. allt árið. Hjá fjelaginu voru sama ár unnin:
Á skipunum 50.000 dagsverk.
Við fiskverkun 27.600 dagsverk.
Netagerð 1.460 dagsverk.
Uppskipun. 7.880 dagsverk.
Önnur störf 7.070 dagsverk, og hafa þannig verið unnin 314 dagsverk að meðaltali hvern virkan dag ársins. Stjórn fjelagsins hafa þeir alla tíð skipað: Jón Ólafsson, Halldór Kr. Þorsteinsson, Magnús Magnússon, Jón Sigurðsson, og Jón Ólafsson, sem jafnan hefir verið framkvæmdastjóri þess.

Morgunblaðið. 26 júní 1930.


B.v. Jón forseti RE 108 á Reykjavíkurhöfn.                                                      (C) Magnús Ólafsson.

               "Jón forseti" strandar
  Eitt af hinum hörmulegustu sjóslysum hjer

Kl. 1 aðfaranótt mánudags 27. febrúar, eða þar um bil, strandaði togarinn "Jón forseti" á Stafnesi. Er það rétt hjá Stafnesvita. Er þar að allra sögn einhver hinn versti og hættulegasti staður hér á landi, fyrir skip, sem stranda. Rifið er langt frá landi og er þar sífellt brim þótt sjór sje hægur annarsstaðar. En að þessu sinni var brim mikið. Skipið var að koma vestan úr Jökuldjúpi og ætlaði suður á Selvogsgrunn. Brimið fór vaxandi með flóðinu, og gengu brotsjóir yfir skipið hver á fætur öðrum. Reis skipið nokkuð að framan, og leituðu hásetar sér skjóls frammi undir "hvalbak". Skipið sendi út neyðarskeyti og varð fyrsta skipið á vettvang "Tryggvi gamli". Kom það þangað kl. 6 um morguninn. Var þá niðamyrkur, svo dimmt að " Tlryggvi gamli" sá skipið alls ekki, fyrr en fór að birta, eða um klukkan 7.30.


Líkan af Jóni forseta RE á Sjóminjasafninu Víkinni.                                   (C) Þórhallur S Gjöveraa.

Komu nú þarna smám saman fleiri skip, togarinn "Ver" og "Hafstein", en gátu enga björg veitt mönnum um borð í "Jóni forseta". Litlu seinna kom björgunarskipið "Þór" einnig á vettvang og 2 bátar frá Sandgerði, mannaðir mönnum, sem eru gjörkunnugir á þessum slóðum. Allan daginn, fram í myrkur var björgunartilraunum haldið áfram af mesta hetjudug og dugnaði. En brotsjóirnir slitu sjómennina af skipinu, einn á fætur öðrum, án þess við yrði ráðið. Þegar fram á daginn kom sáu skipin, sem þarna voru, að þau fengu ekkert að gert og týndust burtu smám saman. Eitt hið seinasta, er fór af vettvangi, var "Tryggvi gamli". Kom hann hingað um kvöldið klukkan 10 og flutti hingað lík 5 manna, af skipshöfn "Jóns forseta", sem höfðu fundist á reki framundan skerinu, sem hann strandaði á. "Morg.bl." hitti Kristján Schram skipstjóra á "Tryggva gamla" að máli og spurði hann tíðinda. Honum sagðist svo frá:
Þegar birti svo um morguninn að við sáum "Jón forseta" þar sem hann lá á skerinu, lá hann þannig, að hann hallaðist mikið á bakborða og var þá bátlaus að því er best varð séð. Sáust þá engir menn uppi. Höfðu þeir leitað sér skjóls fram undir "hvalbaknum". Skipið virtist þá óbrotið að ofan. Skömmu eftir að við komum þar að, komu mennirnir út á þilfar. Skiftu þeir sér þá. Fóru nokkrir upp á "hvalbak", sumir í reiðann og sumir upp á stýrishúsið.


B.v. Jón forseti RE 108.                                       Teikning Róberts Inga Guðmundssonar. (Ringi).  

Sáum við þar þrjá menn. Leið nú og beið og komumst við hvergi nærri til að bjarga, en kvikan fór vaxandi og ruggaði skipið mjög á grunninu og gengu brotsjóir yfir það að aftan. Klukkan rúmlega 10 skall á það brotsjór, svo ægilegur, að hann tók með sér stýrishúsið og reykháfinn. Eftir það fór skipið að síga að framan og leituðu þá þeir í reiðann, sem áður höfðu haldist við á "hvalbaknum", og röðuðust þar alveg upp í siglutopp. Gekk nú sjór alltaf yfir skipið, en er fór að fjara dró úr kvikunni nokkuð, en þó voru brotsjóir allt umhverfis skipið, svo að hvergi var hægt að koma nærri.
Bátur frá landi náði þá sambandi við "Þór" og fékk hjá honum björgunartæki og síðan var björgunartilraunum haldið áfram frá landi, þótt aðstaða væri þar afar slæm. Við biðum fram eftir deginum, eða fram til klukkan 6.30. Var þá skollið á myrkur. Vélbátar frá Sandgerði voru sífellt á sveimi fyrir utan rifið til þess að leita að líkum manna er skoluðust fyrir borð, vegna þess að þeir gátu ekki veitt neina aðra aðstoð. Fundu þeir þessi fimm lik, sem við komum með. Er eitt þeirra af Ólafi Jóhannssyni, 2. vélstjóra, annað af Stefáni Einarssyni bryta og hið þriðja af syni hans Árna, sem var hjálparmatsveinn hjá föður sínum. Hin tvö likin af Ingva Björnssyni og Haraldi Einarssyni. Allir voru menn þessir með björgunarbelti og bar útfallið líkin út yfir rifið.

Ægir. 3 tbl. 1 mars 1928.


Togararnir Jón forseti RE og Þór RE við bryggju á Svalbarðseyri.                        (C) Karl L Nielsen.

                    Björgunarstarfið
   Frásögn þeirra Halldórs Þorsteinssonar                                 og Jóns Sigurðssonar.

Í gærkvöldi komu þeir skipstjórarnir Halldór Þorsteinsson og Jón Sigurðsson hingað til bæjarins og náði "Morgunbl." þá tali af þeim, spurði þá um slysið og björgunarstarfið. Þeim segist svo frá: Aðfaranótt mánudags kl. 1.30. barst Hf. Alliance skeyti um það, að "Jón forseti" væri strandaður á Stafnesrifi. Vissum við þá fljótt hvílíkur háski var hér á ferðum, því að flestra kunnugra dómi getur ekki hættulegri og verri strandstað á öllu Íslandi heldur en þennan. Bjuggumst við þegar við því, að skip og öll áhöfn mundi farast þarna, en til þess að reyna að bjarga einhverjum mannanna, rukum við þangað suður eftir í bifreið. Lögðum við á stað héðan kl. 2.30. og héldum til Fuglavíkur, bæjar, sem er svo að segja mitt á milli Sandgerðis og Stafness. Lengra varð ekki komist í bifreið, því að þar tekur við hinn versti vegur suður á Stafnes, og verður tæplega farið nema fetið þótt bjart sé og góð færð. Er þaðan nær 1.1/2. tíma ferð Suður á strandstaðinn. Við fengum okkur hesta í Fuglavík og héldum hiklaust áfram. Komum við að Stafnesi kl. rúmlega 7 um morguninn. Þegar þangað kom sáum við hvar skipið lá í brimgarðinum á Stafnesrifi. Vissi stafn að landi, en skipið hallaðist á sjó. Sáum við þá, að menn stóðu í reiðanum, sem þéttast, maður við mann. Ekki gátum við séð hve margir þeir voru, en aðstaðan var svo að okkur kom ekki til hugar að unt mundi verða að bjarga neinum þeirra. Svo hagar til þarna, að 300-400 faðma undan landi er rif það er nefnist Stafnnesrif. Er grunt á því og sker og flúðir allt um kring og brýtur þar alltaf, þótt gott sé veður, en nú var þar brimgarður einn, og allt umhverfis skipið. En fyrir innan er lón nokkurt, sem nefnist Hólakotsbót og er þar hyldýpi, en var svo lítið að brotsjóarnir af rifinu og skerjunum fara þar yfir um flóð.


Líkan af Jóni forseta RE 108.                                                                   (C) Þórhallur S Gjöveraa.
  
Holskeflurnar hömuðust á skipinu og bjuggumst við við því á hverri stundu að sjá sigluna brotna og fara með alla mennina fyrir borð með sér, eða þá að skipið mundi skrika inn af rifinu og fara á kaf í hafdýpið þar fyrir innan. Þegar við komum á strandstaðinn, voru skipin "Tryggvi gamli", "Ver" og "Hafstein" komin á vettvang til að reyna að bjarga. Lágu þau þar úti fyrir. Seinna kom björgunarskipið "Þór" og togarinn "Gylfi". Reyndu þessi skip með öllu móti að komast í námunda við "Forsetann", meðal annast með því að lægja brimgarðinn á þann hátt að hella olíu og lýsi í sjóinn. En það bar engan árangur. Vindur stóð af landi og hjálpaðist hann að því með straum að bera olíuna og lýsið frá rifinu og til hafs. Komust skip þessi því ekki í námunda við "Forsetann" og var sýnt, að aldrei mundi takast að bjarga mönnunum hafsmegin, hvernig, sem að væri farið. Voru nú góð ráð dýr, því að eina vonin, þótt veik væri, var sú, að takast mætti að bjarga einhverjum úr landi. Brugðum við nú skjótlega við, og náðum í báta á Stafnnesi, áttæring, sem þarna var kominn á flot og tvo minni. Samtímis sendum við hraðboða ríðandi til Fuglavíkur til að ná í lækni. Brá hann (Helgi Guðmundsson læknir) skjótt við og kom suðureftir. Varð koma hans þangað til hins mesta gagns við björgunina, því að hann tók á móti hverjum manni, sem við náðum, jafnharðan, og veitti honum alla þá hjálp, sem læknisvísindin eru um megnug. Nú komu tveir vélbátar frá Sandgerði á vettvang. Gátu þeir að vísu ekki veitt "Forsetanum" neina hjálp, en þeir færðu okkur steinolíu. Var nú reynt úr landi að lægja brimskaflinn með því að bera olíu í sjóinn úr því að það tókst ekki að utanverðu, en árangur varð enginn vegna þess að olían barst með landinu, Annar Sandgerðisbáturinn kom við hjá "Þór" og fékk léða þar línubyssu, ef vera mætti að hann gæti fremur notað hana en skipið, en hún kom ekki að neinu gagni. Það var sýnt þegar í upphafi, að engum manni mundi verða bjargað, nema það tækist með fjörunni.


Líkan af Jóni forseta RE 108.                                                           (C) Þórhallur S Gjöveraa.
  
Skipverjar höfðu um nóttina gert ýmsar björgunarráðstafanir um borð og útbúið sig með ýms tæki, en meðan á flóðinu stóð, og flestir mennirnir fórust, skoluðust og fyrir borð öll þeirra tæki. En af tilviljun var mjór kaðall bundinn í reiðann og var þar fastur. Þegar skipverjar sáu nú að viðbúnaður var í landi að taka í móti þeim, leystu þeir kaðal þennan, náðu í dufl og bundu þar við og vörpuðu svo duflinu fyrir borð. Voru bátarnir þrír komnir frá landi. Lagðist áttæringurinn við festa milli lands og skips en minni bátarnir fylgdu honum. Tókst þeim að ná í duflið og festa kaðlinum í áttæringinn. Voru nú bundnir 8 lóðarbelgir á annan litla bátinn svo að hann gæti ekki sokkið, og hann búinn út sem dragferja milli skipsins og áttæringsins.
Fylgdu honum engir menn og var hann oftast nær í kafi meðan hann var dreginn á milli. Urðu skipverjar að fara ofan í hann fullan af sjó, marandi í kafi og með holskeflurnar yfir sér. Þetta lánaðist svo vel, að 10 menn björguðust heilir á húfi. Hafa minni sögur, sem frægar eru, verið settar í letur en þær sögur er segja mætti um afrek ýmsa þeirra manna, og hinna, sem störfuðu að því að bjarga þeim. Fyrstu mennirnir náðust á fjórða tímanum. Einn maður henti sér fyrir borð og synti út í bátinn. Kafaði hann undir hvert ólag, er að honum reið. Annar maður, sundmaður góður, hljóp líka fyrir borð, en útsogið tók hann og hvarf hann í brimólguna.


Það hefur verið eitthvað svipað um að litast á strandstað Jóns forseta við Stafnes. Þessi mynd er hinsvegar frá strandi Alliance togarans Skúla fógeta RE 144, en hann strandaði rétt vestan Staðarhverfis í Grindavík 10 apríl árið 1933. Þar fórust 13 menn en 24 var bjargað á land.

Í annari ferð, sem báturinn var dreginn fram að skipinu, brotnaði hann við skipshliðina vegna öldugangsins. Fór þá úr honum stafninn og losnaði bandið, sem hann var bundinn með. Þeir skipverjar, sem eftir voru, fleygðu nú öðru dufli fyrir borð og fylgdi kaðall. Náðist þetta dufl líka. Var þá fenginn annar bátur í stað hins, sem brotnað hafði og björguðust nú fleiri menn. Að lokum voru þrír eftir. Gátu þeir dregið bátinn að skipinu, en áttu afar erfitt með að halda honum þar, vegna brimgangsins. Þá slitnaði kaðallinn aftur. Tveir af mönnunum fleygðu sér í sjóinn og ætluðu að bjargast á sundi, en hinn þriðji varð eftir og kleif upp í reiðann. Það er af mönnum þessum að segja, er fleygðu sér útbyrðis, að annar þeirra synti langa hríð og náði loks bátnum. Var báturinn alveg í kafi og svamlaði maðurinn upp í hann, náði tökum og bjargaðist svo.
Hinn náðist líka og var fluttur í land. Læknir var í 2 klst. að reyna að lífga hann, en það tókst ekki. Þriðji maðurinn, sem eftir var um borð, fórst með skipinu. Var engin leið að bjarga honum, því að með aðfallinu óx brimið afskaplega. Fór þá líka myrkur að, en með morgni, um áttaleytið brotnaði skipið í tvent. Mennirnir, sem björguðust, báru sig framúrskarandi karlmannlega og enginn þeirra er mikið meiddur. Voru þeir ótrúlega hressir, er þeir komu á land. Læknir tók þar fyrstur manna á móti þeim, en síðan voru þeir fluttir heim til Stafness og gistu þar um nóttina. Voru hafðir 4 hestar til að flytja þá jafnharðan neðan af klöppunum heim til bæjarins og fylgdu þeim menn, til að styðja þá. Á Stafnesi var þeim tekið framúrskarandi vel og fólkið þar á bæjunum í kring gerði allt, er í þess valdi stóð til þess að hjúkra þeim sem best. Ekki bera þeir skipstjórarnir verra orð þeim, sem unnu á sjónum að björguninni. Voru þeir allir boðnir og búnir til bess að hætta lífi sínu fyrir skipverja. Munu á bátunum hafa verið allt að 20 manns, og lögðu þeir allir líf sitt bersýnilega í hættu við björgunina. Fundin eru lík 10 manna sem fórust.


Minnisvarðinn um strand Jóns forseta á Stafnesi.                                           (C) Reynir Sveinsson.

Nöfn þeirra skipverja sem fórust með togaranum voru:
Magnús Jóhannsson, skipstjóri, fæddur 7 júní 1894. Átti heima á Bjargarstíg 6. Kona hans heitir Kristín Hafliðadóttir og áttu þau 5 börn á aldrinum 2-10 ára.
Guðmundur Knútur Guðjónsson, 1. stýrimaður, til heimilis á Lindargötu 20. Hann var fæddur 22. júlí 1891. Hann var kvæntur maður og heitir ekkja hans Pálína Vigfúsdóttir. Á framfæri þeirra er eitt fósturbarn og aldurhnigin móðir hans.
Skúli Einarsson, 1. vélstjóri. Hann var fæddur 14. febrúar 1881 að Mykjunesi í Holtum. Fluttist hann hingað til Reykjavíkur árið 1914, og átti nú heima að Efri-Selbrekkum. Hann lætur eftir sig konu, Ingibjörgu Stefánsdóttur og 8 börn; tvö af þeim eru komin yfir fermingaraldur.
Ólafur Jóhannsson, 2. vélstjóri fæddur 27. nóvember 1888 á Hrófá í Strandasýslu. Var fyrstu 5 árin hjá móðurafa sínum, Páli Ingimundarsyni í Mýratungu, föður Gests sál. Pálssonar; er móðir Ólafs enn á lífi hér í Reykjavík, 78 ára gömul. Hann kvæntist 25. júní 1921 eftirlifandi konu sinni, Valgerði Guðnadóttur, Símonarsonar frá Breiðholti. Eiga þau tvo sonu á lífi, báða unga og óuppkomna.
Ingvi Björgvin Björnsson loftskeytamaður, fæddur 14. febrúar 1905 að Hvítanesi í Skilmannahreppi. Fluttist hingað til Reykjavikur árið 1914 og átti nú heima á Bakkastíg 5, hjá foreldrum sínum, Birni Jóhannssyni og Þórunni Guðbjörgu Guðmundsdóttur.
Stefán Einarsson, matsveinn, fæddur 20. mars 1880. Hann átti heima á Kárastíg 6, og var kvæntur Ólínu Hróbjartsdóttur. Áttu þau 9 börn og eru átta þeirra á lífi en hið níunda, Árni Kr. Stefánsson fórst með föður sínum. Hann var aðstoðarmatsveinn á skipinu, fæddur 10. júlí 1911.
Sigurður Sigurðsson, háseti, Framnesveg 2, fæddur í Reykjavík 3 október 1900. Faðir hans, Sigurður Oddgeirsson drukknaði árið sem hann fæddist, en móðir hans er Málfríður Jóhannesdóttir. Sigurður var einhleypur maður og átti heima hjá móður sinni og stjúpa.
Jóhann Jóhannsson, háseti, Hverfisgötu 60 a. Hann var fæddur 1. apríl 1887 að Hámundarstöðum í Vopnafirði. Ungur fór hann í siglingar, fyrst á norsk flutningaskip og síðan á hvalveiðaskip í Suðurhöfum. Þá réðist hann á þýsk skip og var í siglingum til nýlenda Þjóðverja í Suður-Afríku er stríðið hófst. Englendingar náðu skipinu, en vegna þess að Jóhann var útlendingur, losnaði hann brátt úr haldi. Fór hann þá til Höfðanýlendu (Cape Town) og gekk í nýlenduher breta. Var hann þar í eitt ár meðan á stríðinu stóð, en kom hingað til lands alfarinn aftur 1921, þá frá Suður-Ameríku. Foreldrar hans eru á lífi enn; móðir austur á Seyðisfirði, en faðir hér í Mosfellssveit, gamall og blindur.
Magnús Sigurðsson, háseti, Grandaveg 37, fæddur 15. febrúar 1885 að Bug, Innra-Neshreppi í Snæfellsnessýslu. Hann var kvæntur Guðrúnu Jóhannesdóltur, og eru börn þeirra sex, hið elsta komið yfir fermingu.
Haraldur Einarsson, háseti, frá Lágholti í Reykjavík. Hann var fæddur 12. október 1901. Hann var ógiftur maður og hafði allan aldur átt heima hjá foreldrum sínum.
Ólafur Jónsson, kyndari, frá Víðidalsá í Strandasýslu. Hann var 36 ára að aldri. Hann var bóndi á Víðidalsá þangað til í fyrra. Þá brá hann búi og vildi gerast sjómaður. Var hann nýkominn hingað, er hann réðist í þessa ferð með "Jóni forseta". Hann var kvæntur Halldóru Árnadóttur, og dvelur hún nú á Víðidalsá ásamt fjórum börnum þeirra; er hið elsta á 12. ári, en hið yngsta á 5. ári.
Bertel Guðjónsson, kyndari, Hverfisgötu 107 í Reykjavík, 21. árs að aldri. Hann átti alla æfi heima hér í bænum. Faðir hans er á lífi, en móðir dáin.
Guðjón Angantýr Jónsson, háseti, Túngötu 42 í Reykjavík. Hann var fæddur 14. nóvember 1909 og var fyrirvinna móður sinnar, sem er ekkja og heitir Hugborg Ólafsdóttir.
Eyþór Rangar Ásgrímsson, háseti, Vesturgötu 50 í Reykjavík. Hann var fæddur 7. janúar 1911 og dvaldi hjá móður sinni, sem Ingveldur Jónsdóttir heitir. Annan uppkomin son missti hún í október í haust.


Skipverjarnir 9 sem komust af þegar Jón forseti strandaði við Stafnes 27 febrúar árið 1928. Myndin var tekin 27 febrúar árið 1958 þegar þeir minntust skipsfélaga sinna sem fórust. Fremri röð frá v: Gunnlaugur Jónsson, Bjarni Brandsson, Magnús Jónsson og Sigurður Bjarnason. Aftari röð frá v: Ólafur Árnason, Kristinn Guðjónsson, Steinþór Bjarnason, Pétur Pétursson, Guðmundur Guðjónsson (skipstjóri, var ekki með í  síðustu veiðiferðinni) og Frímann Helgason. 10 skipverjinn, Steingrímur Einarsson var fjarverandi, var á sjó.        (C) Ólafur K Magnússon.  

Nöfn þeirra skipverja sem björguðust af "forsetanum" voru:
Bjarni Brandsson, bátsmaður, Selbrekkum,
Magnús Jónsson, Hverfisgötu 96, Pétur Pétursson, Laugaveg 76,
Sigurður Bjarnason, Selbrekkum,
Kristinn Guðjónsson, Selbrekkum,
Steingrímur Einarsson, Framnesveg 61,
Gunnlaugur Jónsson, Króki, Kjalarnesi,
Steinþór Bjarnason, Ólafsvík,
Frímann Helgason, Vík í Mýrdal.
Ólafur I. Árnason, Bergþórugötu 16. "Jón Forseti" var smíðaður árið 1906. Hann var minnstur af íslensku togurunum, 233 "brúttó" smálestir, eign h.f. Alliance. Skipstjóri var Guðmundur Guðjónsson en hann var ekki með skipið þessari ferð, né í hinni næstu þar á undan, því að hann hefir legið rúmfastur um hríð.
Stýrimaðurinn, Magnús Jóhannsson, var skipstjóri báðar þessar ferðir.

Ægir. 3 tbl. 1 mars 1928.
(Morgunblaðið. 29 febrúar 1928.)


26.02.2018 10:09

758. Sjóli RE 135. TFVQ.

Vélskipið Sjóli RE 135 var smíðaður í Ekenas í Svíþjóð árið 1946 fyrir útgerðarfélagið Hafstein h/f á Dalvík. Hét fyrst Hannes Hafstein EA 375. Eik. 51 brl. 170 ha. Polar díesel vél. Ný vél (1954) 240 ha. G.M. díesel vél. Seldur 27 júní 1963, Jóni Guðmundssyni og Haraldi Kristjánssyni í Reykjavík, skipið hét Sjóli RE 135. Talinn ónýtur og tekinn af skrá 25 júlí árið 1973.


758. Sjóli RE 135.                                                         (C) Snorri Snorrason. Úr safni Atla Michelsen.


758. Hannes Hafstein EA 475.                                               (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.

               Metafli á þurrafúabát
 Skakbátur veiðir fyrir tvær milljónir á 2 mánuðum

Óvenjumörg skip hafa stundað handfæraveiðar í sumar, enda var á tímabili uppgripa afli, einkum ufsi og eru skipverjar á mörgum bátanna komnir með góðan hlut. Fimmtíu tonna eikarbátur, sem nú er kominn upp í slipp vegna þurrafúa hefur komið með meiri verðmæti að landi en sum 300 lesta síldarskipanna í sumar.
Það er vélbáturinn Sjóli RE 135 en hann er hæstur Reykjavíkurbátanna á skakinu með 400 tonn í tvo og hálfan mánuð. Verðmæti aflans losar tvær milljónir og hásetahluturinn er á 2. hundrað þúsund. Vísir spjallaði í morgun við skipstjórann á Sjóla, Harald Kristjánsson og sagðist hann alveg eins búast við að báturinn færi ekkert á sjó meira, fyrst þeir væru búnir að finna í honum þurrafúann. Við byrjuðum strax og við hættum á netunum í vor, sagði Haraldur og hættum fyrir nokkru. Það hafa óvenjumargir bátar stundað þessar veiðar í sumar, alls staðar að, allt upp í hundrað tonna bátar. Veiðin hefur verið með meira móti og mjög góð á tímabili. Ég held að það sé í og með vegna þess að við höfum leitað á nýjar slóðir, lengra út en áður og svo er sjálfsagt óvenjumikil ufsagengd á miðunum í sumar. Ufsagöngur hafa ekkert verið rannsakaðar? Mjög lítið, held ég. Þjóðverjar hafa eitthvað verið að athuga þetta. Þetta er víst sami ufsinn og heldur sig við Grænland, Færeyjar og Noreg. Hann hringlar svona á milli eins og síldin. Þessi ufsi, sem við erum að drepa er svona hálfvaxinn, meðalstór og er þarna í botnæti. Við héldum okkur mest út af Eldeyjarboðanum. Það er ekki einu sinni til kort yfir þetta svæði. Það nær ekki lengra en rétt út fyrir boðann.
Ef Sjóli kemst á flot á næstunni, sagðist Haraldur hafa í hyggju að fara austur á "Rauðatorg" seinna í sumar, þegar síldin kemur þangað, en þetta alræmda torg er djúpt úti af Austfjörðum og ufsinn eltir síldina gjarna, þegar hún kemur þangað á sumrin, ef hún kemur þá nokkuð að þessu sinni.

Vísir. 18 ágúst 1967.


25.02.2018 07:58

B. v. Fylkir RE 161. TFCD.

Nýsköpunartogarinn Fylkir RE 161 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1948 fyrir útgerðarfélagið Fylki h/f í Reykjavík. 677 brl. 1.000 ha. 3 þennslu gufuvél. Skipinu var hleypt af stokkunum 13 október árið 1947 og var síðan fleytt niður til Hull þar sem vélum og katli var komið fyrir og skipið klárað. Fylkir var afhentur eigendum sínum hinn 13 febrúar árið 1948, eða fyrir rétt rúmum 70 árum. Togarinn sökk í Þverálnum um 33 sjómílur norður af Straumnesi 14 nóvember árið 1956. Tundurdufl kom í veiðarfæri skipsins og sprakk við síðu þess með fyrrgreindum afleiðingum. Áhöfnin, 32 menn, komst við illan leik í annan björgunarbátinn. Þeim var síðan fljótlega bjargað um borð í togarann Hafliða SI 2 frá Siglufirði sem hélt með skipbrotsmennina til hafnar á Ísafirði. Nokkrir skipverjar meiddust við sprenginguna en enginn lífshættulega, en 2 skipverjar voru lagðir inn á sjúkrahúsið á Ísafirði. Það má teljast kraftaverki líkast að ekki fór verr og manntjón orðið.
Ein af betri frásögnum sem ég hef lesið um þetta slys er rituð af Sveini Sæmundssyni og birtist hún í tímaritinu Vikunni í desember árið 1972. Heimildarmaður Sveins var að mestu Auðunn skipstjóri. Læt ég hana fylgja með hér að neðan.


B.v. Fylkir RE 161 að veiðum.                                                      (C) Guðbjartur Ásgeirsson.

        10 nýsköpunartogarinn kominn
                      til Reykjavíkur

Tíundi nýsköpunartogarinn, sem gerður verður út hjeðan frá Reykjavík, kom hingað á sunnudaginn. Er þetta togarinn Fylkir RE 161, eign samnefnds hlutafjelags hjer í bænum, sem einnig á togarann Belgaum. Aðalsteinn Pálsson er skipstjóri á Fylki og fyrsti stýrimaður Ragnar Guðmundsson og fyrsti vjelstjóri Viggó Gíslason. Hjer í Reykjavík verða sett bræðslutæki í Fylki og er gert ráð fyrir að það taki allt að vikutíma, en síðan fer togarinn á veiðar.
Aðalsteinn Pálsson var áður skipstjóri á Belgaum, en nú tekur þar við skipstjórn Páll Sigfússon.

Morgunblaðið. 24 febrúar 1948.


Fylki RE 161 gefið nafn þegar  honum var hleypt af stokkunum í Beverley 13 október 1947. Það má t.d. þekkja einn í hópnum, en það er maðurinn sem er fjórði frá hægri, Þórarinn Olgeirsson ræðismaður og fyrrverandi skipstjóri.               (C) Hjálmar R Bárðarson.


Fylkir RE í smíðum. Úr vélarúminu.                                                          (C) Hjálmar R Bárðarson.


B.v. Fylki RE 161 hleypt af stokkunum.                                                      (C) Hjálmar R Bárðarson.


Togaranum hleypt af stokkunum.                                                     (C) Hjálmar R Bárðarson.

    Togarinn "Gylfi" dreginn brennandi upp
              að Snæfellsnesi í gærkveldi

Togarinn "Fylkir" tók meirihluta áhafnarinnar   um borð og dró skipið í landvar hjá Bervík

Eldur kom upp í Patreksfjarðartogaranum "Gylfa" djúpt út af Öndverðarnesi síðdegís í gær, og magnaðist hann svo að skipið varð að biðja um hjálp. Kom togarinn "Fylkir", sem var á veiðum á sömu slóðum, á vettvang; tók 18 skipsmenn af 30 um borð og dró ,,Gylfa" upp að Snæfellsnesi í landvar hjá Bervík. Voru togararnir komnir þangað á ellefta tímanum í gærkveldi, og hafði þá loksins tekizt að kæfa eldinn í "Gylfa". Ekkert tjón hafði orðið á mönnum, að því er haft var eftir skipstjóranum, Ingvari Guðmundssyni, seint í gærkveldi.
"Gylfi" var að veiðum í svonefndum Kolluál út af Öndverðarnesi, er eldsins varð vart í netjageymslunni, sem er undir brúnni. Var eldurinn þá orðinn það magnaður, að skipverjum tókst ekki að slökkva hann. Togarinn Fylkir frá Reykjavik, er var að veiða á sömu slóðum, kom strax á vettvang, er Gylfi baðst aðstoðar. Þrátt fyrir storm og þungan sjó tókst að koma áhöfn Gylfa um borð í Fylkir, nema 12 mönnum, er eftir urðu í skipinu til að stjórna því, er Fylkir dró það í landvar. Um ellefuleytið í gærkvöldi sagði skipstjórinn á Gylfa í talstöð skipsins, að enn væri eldur í netjageymslunni, en væri í rénun, þar sem skipverjum hafði tekizt að byrgja netjageymsluna. Talsverðar skemmdir hafa orðið á skipinu. Allmikið hafði brunnið í kringum olíutanka skipsins, en óttast var um tíma að eldurina myndi valda sprengingu í þeim og mun það hafa verið ástæðan fyrir því, að röskur helmingur skipshafnarinnar var fluttur um borð í Fylki. Ljósavél skipsins bilaði svo til strax. Síðast er fréttist, var togarinn "Þorkell Máni" á leið til aðstoðar, en hann hefur öflugri sjódælur en Fylkir. Skipstjóri á Fylki er Auðunn Auðunsson.
Gylfi, sem er nýjasti togari flotans, kom til landsins í vetur. Búizt er við því að skipið sé meira skemmt en í fljótu bragði virðist og mun viðgerð á því taka alllangan tíma.

Alþýðublaðið. 7 maí 1952.


Fylkir RE 161 á leið til veiða úr Reykjavíkurhöfn.                                            Ljósmyndari óþekktur.

      Með tundurdufl í vörpunni

  Þeir sáu allt í einu svarta þúst neðst í belgnum, alveg við pokann.            Jóhann og Ólafur kölluðu báðir í einu, að það væri dufl í vörpunni.   Valdemar stöðvaði spilið og kallaði upp til Gunnars, hvort þeir ættu að      stanza. En það skipti engum togum. Fylkir tók langa veitu yfir til                bakborðs og um leið varð ógurleg sprenging við skipssíðuna. Um leið      slokknuðu ljósin.....

Það var heldur ófriðlegt um að litast í heiminum, haustið 1956. Dag eftir dag sögðu blöðin og útvarpið frá uppreisn í Ungverjalandi. Þar reyndi ungverska þjóðin að hrista af sér erlenda hersetu og áþján, en hlaut að lokum að lúta í lægra haldi fyrir ofureflinu. Stríðið við Súezskurð, þar sem Bretar og Frakkar komu við sögu auk Ísraelsmanna og Egypta, hlaut einnig drjúgan hlut í fjölmiðlum, en hér á landi hafði vinstri stjórn sezt að völdum eftir kosningar sumarsins, og að vanda voru blöðin ósammála um flest, er til umræðu var á vettvangi stjórnmálanna. Eftir góðviðri sumarsins voru hausthretin gengin í garð. Togararnir voru flestir á heimamiðum, en frátafir voru tíðar vegna storma og erfitt að stunda veiðarnar. Togarinn Fylkir RE 161 frá Reykjavik hafði látið úr höfn 5. nóvember og haldið vestur fyrir land. Þeir lentu í brælu, en þegar veðrið dúraði var allgott fiskirí. Þeir fengu góðan afla í Þverálnum, voru komnir með 130-140 lestir og afturlestin var orðin full. Veðri var hinsvegar þannig háttað, að Auðunn Auðunsson skipstjóri áleit að veiðiferðin yrði heldur í lengra lagi. Togarinn Fylkir var einn nýsköpunartogaranna, 677 lestir að stærð. Hann var smíðaður í Beverley í Bretlandi, einn af stærri skipunum sem sagt var, vegna þess að Fylkir og nokkur fleiri skip sem voru í smíðum um svipað leyti voru lengri en þeir togarar sem áður voru smíðaðir fyrir Íslendinga.


Teikning Halldórs Péturssonar þegar duflið sprakk við síðu Fylkis. 

Aðalsteinn Pálsson skipstjóri hafði haft forgöngu um kaup skipsins fyrir hlutafélagið Fylki og verið skipstjóri á því fyrstu árin. Þótt Fylkir þætti krankur er hann hóf veiðar, var fljótlega ráðin bót á því með meiri kjölfestu, og þetta varð strax mikið aflaskip. Aðalsteinn Pálsson lét af skipstjórn árið 1950 og þá tók Auðunn Auðunsson, annar kunnur aflaskipstjóri, við skipinu. Auðunn fiskaði ekki síður vel á Fylki en fyrirrennari hans. Þeir voru með hæstu skipum eftir hvert úthald. Fljótlega eftir að Fylkir kom til landsins, komu í ljós gallar. Skipið þótti svagt um miðsiðuna og þegar keyrt var á móti í vondu veðri og miklum sjó, mynduðust sprungur á síðunum við skammdekkið. Skipið var þá styrkt með stálplötum. Árið 1952 settu Bretar löndunarbann á fisk úr íslenzkum skipum í Bretlandi.
Þetta var svar þeirra við útfærslu íslenzku landhelginnar úr þrem í fjórar mílur. Að sjálfsögðu hafði þetta nokkra erfiðleika í för með sér fyrir togaraflotann, þar sem sölur á ísuðum fiski í erlendum höfnum voru drjúgur þáttur í afsetningu aflans. Um tíma fóru því engir togarar í söluferðir til Englands, unz brezkur fjáraflamaður, George Dawson, efndi til fiskkaupa af íslendingum og siglingar með ísfisk hófust á ný. Það var í einni slíkri söluferð, að þeir á Fylki fengu vonzkuveður í hafi. Þegar kom í Pentlandsfjörð, þetta hlið inn í Norðursjóinn, var hann eins og stórfljót til að sjá. Straumur veður oft mjög striður í Pentlinum, og þegar stórviðri stendur á móti straumi, verður sjór þarna mjög krappur og hættulegur. Þar sem lítill tími var til stefnu, áttu þeir Fylkismenn að ná til Grimsby á tilsettum tíma. Ákvað Auðunn skipstjóri að leggja í Pentilinn, enda þótt útlitið væri ekki sem bezt. Þetta var mikill darraðardans.


Líkan af Fylki RE á Sjóminjasafninu Víkinni.                                               (C) Þórhallur S Gjöveraa. 

Um tíma var skipið á þrem bárum í einu og öllum háum, Þeir fengu á sig ólag, sem braut miðjan vant í formastri og fundu nú að viðgerð, sem farið hafði fram til þess að styrkja skipið um miðsíðuna, var hvergi nærri fullnægjandi. Skipið gaf sýnilega eftir þegar verst lét. En þeir náðu til hafnar í Grimsby á réttum tima og komust inn á flóðinu eins og fyrirhugað var. Nokkru síðar var framkvæmd viðgerð á Fylki. Byrðingur skipsins var styrktur verulega og síðar kom í Ijós, að sú viðgerð var mikið heillaspor. Margt sögulegt gerðist á þessum tímum. Árið 1952 hafði Fylkir undir stjórn Auðuns Auðunssonar bjargað skipshöfn af brennandi skipi og komið því sjálfu til hafnar illa förnu. Þetta var Patreksfjarðartogarinn Gylfi.
Þar hafði sannarlega ekki munað miklu að slys yrði. Það var undan Snæfellsjökli, sem Fylkir kom Gylfa til aðstoðar. Skipið var tekið í tog og dregið til Reykjavíkur. Norðan hvassviðri var á, er þetta gerðist. Auðunn skipstjóri á Fylki vildi ekki hætta á að draga skipið á mikilli ferð. Þeir voru rúmlega ellefu tíma frá Jökli, og allan tímann logaði upp úr brú Gylfa. Loks þegar kom inn á milli Eyja dvínaði bálið skyndilega. Þá var allt brunnið, sem brunnið gat í brúnni, en oliugeymirinn, sem eldhafið stafaði frá orðinn tómur. Þrátt fyrir þetta urðu minni skemmdir á vélabúnaði skipsins, en álitið var í fyrstu. Vélarúmið slapp t.d. að mestu við skaða. Hinir tíðu eldsvoðar á togaraflotanum ollu mönnum áhyggjum, unz uppvist varð um smiðagalla, sem var orsök þessara óhappa.


Fylkir RE 161. Líkan.                                                                           (C) Þórhallur S Gjöveraa.
  
Þegar hér var komið sögu, haustið 1956, höfðu Bretar, sem alltaf eru til í að gera verkföll og sem telja það til sáluhjálparatriða að mótmæla hverri útfærslu Íslenzku landhelginnar, sætt sig við fjórar mílurnar, og í öndverðum nóvembermánuði 1956 voru viðræður í gangi milli íslenzkra og brezkra embættismanna um afnám löndunarbannsins frá 1952. Þessar viðræður fóru fram í Paris. Brezka heimsveldið hafði um þessar mundir hlotið, verulegt áfall vegna afskipta af deilunni við Súez, og fallið mjög í áliti meðal þjóða heims. Bretar ásamt Frökkum og ísraelsmönnum höfðu verið stimplaðir sem árásaraðilar, og öryggisráðið hafði fyrirskipað að árásinni á Egyptaland skyldi hætt. Sir Anthony Eden, sem verið hafði "efnilegastur" brezkra stjórnmálamanna nokkra áratugi, ,og var nú forsætisráðherra Bretlands, varð að segja af sér og draga sig úr stjórnmálum. Og meðan svo stórsögulegir atburðir gerðust við Súez og í Whitehall sátu íslenzkir og brezkir í Paris, og hinn 13. nóvember þótti sýnt að löndunarbanninu, sem verið hafði í gildi í fjögur ár, myndi aflétt. Þennan sama dag hafði togarinn Fylkir verið viku á veiðum fyrir Vesturlandi. Síðdegis hvessti upp. Hann skall á með hvassri vestanátt og um klukkan sex síðdegis var veiðum hætt. Þá voru 10-11 vindstig á miðunum og hafrót.Þeir höfðu rifið trollið í siðasta halinu, og nú lét Auðunn skipstjóri síga upp um á hægri ferð, meðan gert var við netin.
Þótt Auðunn væri ekki hjátrúafullur og tæki lítt mark á draumum, gat hann ekki með öllu bægt frá sér draumi, sem hann hafði dreymt, meðan hann var í fríi í landi næsta túr á undan. Sæmundur bróðir hans, sem um þessar mundir var forstjóri Fylkis-útgerðarinnar, var þá með skipið. Þessi draumur, sem Auðunni stóð einhvernveginn ekki á sama um, var á þá leið, að honum fannst þeir á Fylki vera á veiðum.


Fylkir RE 161. Líkan.                                                                                 (C) Þórhallur S Gjöveraa.

Hann veit þá ekki fyrri til en stórt skip er komið þversum á bátaþilfar togarans, og er svo þungt og fyrirferðamikið, að í draumnum þykist Auðunn viss um að það muni færa Fylki í kaf. Það skiptir engum togum, að þetta ókunna skip steypist út af bátaþilfarinu og stingst á framendann í djúpið. Honum finnst síðan Fylkir sigla áfram og sér að allur mannskapurinn er um borð. Mikinn óhug setti að Auðunni í draumnum. Hann vaknaði við, og hugsaði um drauminn. Bjóst jafnvel við að eitthvað hefði orðið að um borð. En Fylkir kom úr veiðiferðinni án þess að nokkuð sögulegt kæmi fyrir og þessi veiðiferð var hálfnuð, án þess að nokkuð gerðist, sem í frásögur væri færandi. Um miðnætti, aðfaranótt 14. nóvember, var enn stórviðri af vestri. Veðurstofan spáði lygnandi, og um leið og Auðunn skipstjóri fór í koju, sagði hann Gunnari Hjálmarssyni 1. stýrimanni að kasta á sömu slóðum og þeir voru á kvöldið áður, ef hann lygndi. Það fór eins og spáð hafði verið. Undir morgunn fór að draga úr veðrinu og á sjötta tímanum var trollinu kastað. Fylkir var þá einskipa í Þverálnum, en nokkur skip fimm til sex mílur fyrir ofan þá. Nokkru eftir að tekið var í blökkina og togið hófst fór bátsmannsvaktin í koju, en stýrimannsvaktin kom á dekk. Í vélarrúminu gekk allt sinn vanagang. Þórður Hannesson 3. vélstjóri var á vaktinni ásamt kyndaranum. Hann hafði leyst Guðmund I. Bjarnason 2. vélstjóra af, en Viggó Gislason 1. vélstjóri myndi svo taka við af honum klukkan átta um morguninn.
Viggó Gislason var einn þeirra sem höfðu verið á Fylki frá öndverðu. Hann hafði farið til Englands ásamt Aðalsteini Pálssyni meðan skipið var enn í smiðum í Beverley og haft umsjón með niðursetningu véla og tækja. Fylkir hafði nú togað í rúman klukkutima og Þórður 3. vélstjóri gerði ráð fyrir að brátt yrði híft upp. Hann leit á gufuþrýstimælinn, sem stóð á 220 pundum. Gufuvélin snerist sína 86 snúninga eins og alltaf á toginu, og það var gott að hlusta á þessi jöfnu slög stimplanna. Þessi 1.200 hestafla gufuvél var hljóðlát, vann sitt verk án hávaða. Það var annað með ljósavélina, sem stóð á palli hátt uppi í siðunni.


Fylkir RE 161. Líkan.                                                                          (C) Þórhallur S Gjöveraa.

 Frá henni stafaði mestallur hávaðinn í vélarrúminu. Þær voru reyndar tvær, og nú var sú aftari í gangi. Brátt var hringt á stanz, slegið úr blökkinni og byrjað að hífa. Þeir höfðu híft stjórnborðstrollið upp, skverað og hlerarnir voru komnir í gálga. Ennþá var haugasjór og skipið tók þungar veltur, þar sem það lá ferðlaust. Þeir voru byrjaðir að snörla inn belginn. Gunnar Hjálmarsson 1. stýrimaður stóð við opinn brúargluggann. Valdemar Einarsson 2. stýrimaður var við spilið og stóð á grindinni stjórnborðsmegin. Gilsmaðurinn, Kristmundur A. Þorsteinsson dró af spilinu. Aftur í ganginum voru þeir að setja rópinn í ferliðuna á keisnum. Jóhann H. Jónsson stóð í svelgnum og var að hala stertinn inn. Ólafur Halldórsson og Gunnar Eiríksson fyrir framan hann. Ólafur var á forleisinu.
Gunnar Hjálmarsson stýrimaður leit á klukkuna. Hún var rúmlega sjö. Fylkir valt í stjórnborða og belgurinn og pokinn, sem nú flutu við síðuna sáust vel í vinnuljósunum á þilfarinu. Þeir sáu allt í einu svarta þúst neðst í belgnum, alveg við pokann. Jóhann og Ólafur kölluðu báðir í einu, að það væri dufl í vörpunni. Valdemar stöðvaði spilið og kallaði upp til Gunnars, hvort þeir ættu að stanza. En það skipti engum togum. Fylkir tók langa veltu yfir til bakborða og um leið varð ógurleg sprenging við skipssíðuna. Um leið slökknuðu ljósin. Því sem gerðist á næstu augnablikum er erfitt að lýsa. Skipið kastaðist lengra yfir til bakborðs undan heljarafli sprengingarinnar, en um leið þeyttist sjórinn við stjórnborðshliðina hátt í loft upp. Botnvarpan, netið og bobbingarnir, sem enn voru út af skipinu hófust á loft og köstuðust ásamt sjóstróknum, um leið og grófst undan því og það valt yfir til stjórnborðs.


Tundurdufl í fjöru, svipað því og grandaði Fylki.                                                   Mynd af Vísir.is  

Valdemar 2. stýrimaður sá grænan blossa, en kastaðist undan ógnarkrafti sprengjunnar og rotaðist. Kristmundur kastaðist á þilfarið, en Ólafur þeyttist þvert yfir skipið út í lunningu bakborðsmegin. Höfuðlínan kom inn á mitt skip og forvængur vörpunnar, en bobbingarnir lentu niður á milli mannanna, sem grófust undir netinu, á kafi í sjó. Auðunn skipstjóri hrökk upp við sprenginguna og stökk fram úr og upp í brú. Hávaðinn var svo yfirþyrmandi, að honum kom í fyrstu ekki annað til hugar en að orðið hefði ketilsprenging, og hann mundi ekki komast upp. Um leið og hann kom í brúna heyrði hann sársaukastunur neðan af þilfarinu.
Skipið var almyrkvað, og hann sagði Gunnari Hjálmarssyni stýrimanni að setja út bátana og hafa þá á síðunni ef illa færi. Jörundur Sveinsson loftskeytamaður hrökk upp við sprenginguna. Auðunn kallaði til hans og fyrirskipaði að senda út neyðarkall. Ólafur Halldórsson komst til meðvitundar þar sem hann lá við bakborðslunninguna. Hann var mikið meiddur. Hafði lent á spilinu þegar hann kastaðist yfir skipið og annar handleggurinn var máttlaus. Mennirnir sem urðu undir netinu voru hætt komnir. Aftur í ganginum tókst þeim að komast undan án mikilla erfiðleika. Frammi á þilfarinu höfðu Gunnar Eiriksson og Jóhann H. Jónsson orðið undir belgnum. Jóhanni tókst að ná í hníf, sem hann var með í vasanum og skera netið fyrir ofan sig. Gunnar hafði lent á bakið og fengið mikið högg. Þórður Hannesson 3. vélstjóri var við stjórntæki vélarinnar þegar tundurduflið sprakk. Ljósavélin stöðvaðist um leið, og það varð kolamyrkur í vélarrúminu.


B.v. Fylkir RE 161.                                                                                 (C) Þórhallur S Gjöveraa.  

Hann var með vasaljós, og nú bjargaði það miklu. Hann vissi að öryggisútbúnaður í oliuverki ljósavélarinnar myndi hafa slegið út. Hann hraðaði sér upp á pallinn og gangsetti vélina. Það var í sama mund og ljósin kviknuðu á ný, að Viggó Gíslason 1. vélstjóri kom niður í vélarrúmið. Hann hafði eins og aðrir hrokkið upp við sprenginguna, og fannst í svefnrofunum, að atómsprengja hefði falli yfir skipið. Hann komst upp stigann, upp í ganginn og heyrði að hrópað var að menn ættu að hraða sér til bátanna. Hann fór með Þórði 3. vélstjóra fram í kyndistöðina, og þeir urðu þess áskynja að síðutankur sem verið hafði tómur, var orðinn fullur af sjó. Bátsmannsvaktin var farin fram í og þeir voru rétt komnir í kojurnar þegar tundurduflið sprakk við siðuna.
Þeir voru níu frammi í lúkarnum og sumir köstuðust framúr, en aðrir uppundir næstu koju. Rafn Kristjánsson kastaðist upp í næstu koju, en síðan út og lenti á kojustokknum fyrir neðan. Hann fékk mikið högg á bakið, en komst á fætur og upp í lúkarskappann. Skipið lá á stjórnborðshlið og hann hélt fyrst að strokkur í togvindunni hefði sprungið, vegna þess hve mikil gufa og reykur var á þilfarinu. Hann renndi sér niður, fór í utanyfirföt og fór siðan aftur upp. Það fyrsta sem hann sá, var hvar Gunnar Eirfksson lá í sjónum undir netinu og reyndi að komast undan því. Rafn og annar háseti, sem einnig hafði komið upp í þessu, gripu hnífa og skáru á netið og náðu manninum upp. Hann var þá orðinn aðframkominn og búinn að drekka mikinn sjó. Valdemar 2. stýrimaður kom til sjálfs síns aftur í bakborðsganginum. Hann fór upp á bátadekkið, þar sem nokkrir skipsmenn voru þá þegar, og reyndu nú að sjósetja bakborðslífbátinn.


Fylkir RE 161.                                                                                       (C) Þórhallur S Gjöveraa.  

Bátauglurnar voru af þeirri gerð, sem þurfti að snúa út með sveifum. Skrúfgangurinn var stirður og þeim gekk ekkert að koma bátnum úr. Mennirnir reyndu þessu næst við stjórnborðsbátinn, og það var sömu sögu að segja. Bátauglurnar voru stirðar og næstum ekki hreyfanlegar. Björgunarflekinn, sem var undir bakborðsbátnum virtist nú eina vonin, en hann var fastur undir bátnum. Þeir tóku það til bragðs að setja gils á flekann og hífa hann undan bátnum og komu honum síðan í sjóinn bakborðsmegin. Auðunn skipstjóri var í brúnni. Hann skaut upp svifblysum, hverju af öðru til þess að vekja athygli skipverja á hinum togurunum á, að Fylkir væri í nauðum staddur. Jörundur Sveinsson loftskeytamaður hafði þegar hér var komið sent út neyðarskeyti, en við sprenginguna höfðu loftskeytatækin eyðilagst að mestu. Loftnetin fallið niður með masturstoppunum, sem brotnuðu, og viðtækin í stöðinni voru óvirk. Jörundur blindsendi SOS, án þess þó að vita hvort nokkur heyrði neyðarkallið. Hann sendi neyðarkallið í sífellu. Hann fór þá fram í brúna og aftur á bátaþilfarið. Þeir kölluðu til Auðuns skipstjóra af bátaþilfarinu, að ómögulegt væri að koma bátunum úr.
Auðunn kallaði á móti; ,,út með bátana! " Sú von glæddist nú með honum, að fyrst skipið ekki sökk hraðar, væri það minna laskað en í fyrstu var áætlað, og myndi haldast á floti. Hann fór niður í vélarrúm og fram í kyndistöð. Vonin um að skipinu yrði bjargað dvínaði þegar niður kom. Skipið var sýnilega mikið lekt og töluverður sjór kominn í vélarrúmið. Fullvíst var einnig, að mestu skemmdirnar væru í afturlestinni, sem var full af fiski. Líklegt að aflinn tefði aðeins fyrir því að sjórinn fossaði inn. Auðunn fór aftur upp í brú. Skipið hafði nú lagzt, komið með mikla stjórnborðsslagsíðu og lunninginn var í kafi. Vegna hallans var vonlaust að koma bakborðslífbátnum úr, og mennirnir einbeittu sér að stjórnborðsbátnum. Þeim tókst eftir mikla erfiðleika að slá honum svo langt út, að hægt var að láta hann síga, með því að skipið hallaðist mikið. Enn var haugasjór. Einn háseti stökk út í bátinn, sem komst heill í sjóinn.


Fylkir RE 161.                                                                                      (C) Þórhallur S Gjöveraa.
  
Þeir fóru nú í bátinn hver af öðrum, en það gekk illa að finna neglurnar í myrkrinu og talsverður sjór komst í bátinn. Þrír menn renndu sér niður á björgunarflekann hinum megin. Það skipti engum togum, að um Ieið og lífbáturinn kom í sjó tók Fylkir að sökkva hraðar. Það var eins og mótstaðan, sem fiskurinn í afturlestinni hafði veitt, brysti skyndilega. Auðunn skipstjóri sá, að skipið var nú komið að því að sökkva. Það var því ekki lengur eftir neinu að bíða, og hann kallaði á Jörund loftskeytamann að yfirgefa skipið. Þeir fóru síðastir úr brúnni og á leiðinni aftur á bátaþilfar kom Auðunn að Gunnari Eiríkssyni, sem var mjög miður sín eftir að hafa lent í sjónum. Auðunn tók hann með um borð í lífbátinn. Þeir voru um það bil að leggja frá, en sáu að einn manninn vantaði. Þórður 3. vélstjóri hafði komið upp úr vélarrúminu í vinnubuxum og aðeins einum skyrtubol að ofanverðu. Hann fór niður, tók jakka og frakka, sem hengu saman á herðatré óg fór í þessi föt. Þótt þetta tæki ekki langa stund var báturinn kominn frá er hann kom aftur upp enda þótt fangalínan væri enn óleyst. Það var ekki um annað að gera en að fara um borð í lifbátinn á fangalínunni, en síðan var skorið á hana og lagt frá.
Ef ketilsprenging yrði í skipinu var ekki álitlegt að vera alveg við síðuna. Það var mjög þröngt í bátnum, en þeir lögðu út tvær ára og réru frá. Mennirnir tóku það sem hendi var næst til þess að ausa bátinn og neglurnar voru nú komnar á sinn stað. Kristmundur Þorsteinsson og annar maður sem komnir voru á flekann, héldu honum við skipið. Jörundur loftskeytamaður fór niður skipssíðuna á kaðli en síðan ýttu þeir frá. Þeir sáu fljótlega að flekinn hafði skaddast í meðförunum og flaut illa. Það vatnaði strax yfir hann og það var sýnilegt að eitthvað af vatnsþéttu hólfunum höfðu gefið sig. Allt hafði þetta gerzt á stuttri stund. Mennirnir á flekanum ákváðu að komast sem fyrst að lífbátnum. Þeir reru með höndunum og sígarettukartoni, sem Jörundur hafði tekið með um leið og hann yfirgaf loftskeytastöðina. Þótt seint gengi komust þeir frá skipinu og aftur fyrir það. Skrúfan var nú að mestu uppúr og framskipið í kafi. Þeir komust að bátnum, og um borð í hann. Það var mjög þröngt og lítið borð fyrir báru. Þeir sáu að ljósin loguðu ennþá um borð í Fylki, en síðan dofnuðu þau og hurfu, og þeir vissu að sjórinn hefði náð rafbúnaði vélarúmsins og ljósavélinni. Það braut orðið á skipinu.


Fylkir RE 161.                                                                              (C) Þórhallur S Gjöveraa. 

Það lyfti sér ekki lengur og endalok þess voru sýnilega skammt undan. Skipið hafði borið frá bátnum og var spölkorn undan þegar þeir sáu það hallast enn meira til stjórnborða og afturenda þess rísa úr sjó. Bátaþilfarið, afturskipið, skrúfan, stýrið, en , aðeins nokkur andartök og síðan stakkst skipið í djúpið. Þeir horfðu á hringiðuna, sem myndaðist þrátt fyrir ölduna, og brátt tók lausum hlutum að skjóta upp á yfirborðið. Það var máske fyrst nú, er skipið var sokkið og mennirnir 32 í lífbáti í haugasjó, 33 sjómílur frá landi, að þeir gerðu sér fulla grein fyrir kringumstæðum. Allt hafði gerzt svo hratt og óraunverulega. Margir voru meiddir, þeirra á meðal Auðunn Sæmundsson, faðir skipstjórans og aldursforsetinn um borð. Tveir voru þó verst haldnir. Ólafur Halldórsson sem var slasaður á öxl og Gunnar Eiríksson, sem var nærri drukknaður undir netinu. Fátt var hægt að gera mönnunum til aðstoðar. Margir voru fáklæddir, engin föt voru í lífbátnum og þeim kólnaði fljótt.
Menn reyndu að standa og sitja þétt og vonuðu að togararnir sem voru í grennd hefðu heyrt neyðarkallið. Þá rak yfir staðinn, þar sem Fylkir hvíldi nú á botninum. Vonuðu að hinn lífbáturinn hefði losnað og myndi skjóta upp. Sú von brást. Meðal togaranna, sem voru að veiðum nær landi var B v. Hafliði frá Siglufirði. Loftskeytamaðurinn þar heyrði neyðarkall Fylkis. Einnig heyrði loftskeytamaðurinn á varðskipinu Þór, sem statt var við Vesturland neyðarkallið, en aðeins einu sinni. Fleiri togarar en Hafliði heyrðu til Fylkis, og settu á fulla ferð á slysstaðinn. Það var um hálftíma eftir að Fylkir sökk, sem Hafliði kom að bátnum. Það var byrjað að skíma og það auðveldaði björgunina að sjálfsögðu. Auðunn Auðunsson kallaði til Alfreðs Finnbogasonar skipstjóra á Hafliða og bað hann að koma kulmegin við bátinn. Togarinn stanzaði og rak að bátnum. Um borð í Hafliða voru margar hendur á lofti til þess að aðstoða Fylkismenn um borð. Eftir að björgun var lokið, var stefna sett til Ísafjarðar. Stuttu síðar var skeyti sent til Sæmundar Auðunssonar, framkvæmdarstjóra Fylkisútgerðarinnar.


B.v. Fylkir RE 161 í Grimsby. Mennirnir á bakkanun eru Kristján Andrésson skipstjóri og síðar hafnarvörður í Þorlákshöfn og Einar Torfason stýrimaður.  Ljósmyndari óþekktur.
  
Ennfremur til Ísafjarðar, þar sem beðið var um að læknir kæmi út með lóðsbátnum vegna hinna meiddu. Fregnin um að Fylkir hefði farizt á tundurdufli barst fljótt um Ísafjörð og þegar Hafliði kom að bryggju var þar margt manna saman komið. Farið var með Ólaf, Gunnar og nokkra aðra, sem voru meiddir á spitalann. Það kom í ljós, að Gunnar hafði drukkið mikinn sjó og var kominn með heiftúðuga lungnabólgu. Ólafur hafði farið úr liði um öxl og liðpokinn rifnað. Skurðaðgerð var því nauðsynleg. Þennan sama dag var sagt frá þvi í fréttum útvarpsins, að Fylkir hefði sokkið að völdum tundurdufls. Í sama fréttatíma kom einnig fram, að undirritað hefði verið samkomulag í Paris, milli Íslendinga og Breta um að löndunarbannið, sem verið hafði í gildi í fjögur ár væri úr sögunni.
Hinn 15. nóvember kom varðskipið Þór með mennina af Fylki til Reykjavíkur. Vinir og venzlamenn fjölmenntu niður að höfn og fögnuðu skipshöfninni. Hópurinn, sem svo nauðuglega hafði bjargast, kom þó ekki allur. Ólafur Halldórsson og Gunnar Eiríksson urðu eftir á spítalanum á Ísafirði. Þeir dvöldust nokkrar vikur á sjúkrahúsi, en náðu báðir heilsu við góða umönnun og hjúkrun á Ísafirði. Nokkru áður en Fylkir hélt út í þessa örlagariku veiðiferð hafði útgerðin pantað tvo gúmmíbjörgunarbáta, sem þá voru lítt þekkt björgunartæki hér á landi, nema þá fyrir flugvélar. Bátarnir áttu að koma um borð í skipið í næstu ferð. Meðal ráðamanna í landi virtist viss mótstaða gegn þessari nýju gerð björgunarbáta , þótt þeir sjómenn, sem höfðu kynnt sér þá, væru hinsvegar á einu máli um notagildi þeirra. Auðunn Auðunsson skipstjóri var við komuna til Reykjavíkur, beðinn að segja frá atburðunum, er Fylkir fórst, í útvarpi. Hann sagði frá því sem fyrir kom, en hélt einnig hina skeleggustu ræðu, þar sem hann lýsti gúmmíbjörgunarbátunum. Sennilegt er, að þetta framlag Auðuns hafi orðið þungt á metunum, er skömmu síðar var ákveðið, að slíkir bátar skyldu vera um borð í öllum skipum. Það hefir af flestum sem til þekkja verið talið yfirnáttúrlegt, að enginn skyldi slasast lífshættulega, er tundurduflið sprakk við borðstokk Fylkis. Kannske var það einnig lán, að illa gekk að losa lífbátinn stjórnborðsmegin. Þegar hann loks losnaði, var skipið orðið svo sigið, að hann komst óskemmdur í sjóinn. Og þótt illa horfði um hrið, sigldi allur mannskapurinn af Fylki áfram, eftir að skip var horfið í djúpið, eins og í draumi skipstjórans.

Vikan. 34 árg. 49 tbl. 7 desember 1972.
Sveinn Sæmundsson.


B.v. Fylkir RE 161 á veiðislóð.                                                                          Ljósmyndari óþekktur.

    Skipshöfnin á Fylki sem öll komst af

Samkvæmt upplýsingum frá Þorsteini Einarssyni, forstöðumanni skrifstofu lögskráningar skipshafna, voru þessir menn á Fylki í þessari síðustu veiðiferð skipsins:
Auðunn Auðunsson, skipstjóri,
Gunnar Hjálmarsson, 1. stýrim., Lundi við Nýbýlaveg.
Valdimar Einarsson, 2. stýrim., Nesvegi 66.
Viggó Gíslason, 1. vélstjóri, Mávahlíð 24.
Guðmundur Í. Bjarnason, 2. vélstjóri, Kvisthaga 21.
Þórður Hannesson, 3. vélstjóri, Hverfisgötu 96.
Jörundur Sveinsson, loftskeytam., Litla-Landi, Mosfellssveit.
Þorbjörn Þorbjörnsson, bátsm., Birkimel 6A.
Emil Pálsson, 1. matsveinn, Vestmannaeyjum.
Karl Jóhannsson, 2. matsveinn, Akurgerði 8.
Einar Steingrímsson, kyndari, Reykjahlíð 10.
Auðunn Sæmundsson, bræðslumaður, Miklubraut 62.
Magnús G. Jóhannsson, netam., Akranesi.
Rafn Kristjánsson, netamaður, Lækjargötu 12.
Steingrímur Elíasson, netamaður. Stað, Seltjarnarnesi.
Jóhannes H. Jónsson, Höfðaborg 39.
Magnús Jónasson, háseti, Skipasundi 13.
Ólafur Halldórsson, háseti, Eskihlíð 12B.
Guðmundur Guðlaugsson, háseti, Tálknafirði.
Hafsteinn Gunnarsson, háseti, Höfðaborg 41.
Árni Konráðsson, háseti, Bergþórugötu 41.
Þór G. Jónsson, háseti, Víðimel 49.
Ari Jóhannesson, háseti, Vesturgötu 55.
Kristmundur Þorsteinsson, háseti, Flókagötu 18.
Gunnar Eiríksson, háseti, Vestmannaeyjum.
Guðjón Sigmundsson, háseti, skála við Faxaskjól.
Ragnar Zophóníasson, háseti, Mávahlíð 9.
Ásgeir Þorsteinsson, háseti, Borgarholtsbraut 30A, Kópav.
Friðþjófur Strandberg, háseti, Rvík. Heimilisfang ókunnugt.
Indriði Indriðason, háseti, Hverfisgötu 98A.
Njáll Guðmundsson, háseti, Skipasundi 3.
Benedikt Kristinsson, háseti, Hjallavegi 10.

Morgunblaðið. 15 nóvember 1956.


24.02.2018 06:43

226. Beitir NK 123. TFSD.

Beitir NK 123 var smíðaður hjá A.G. Weser Werk Seebeck í Bremerhaven í Þýskalandi árið 1958 fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur h/f, hét Þormóður goði RE 209. 849 brl. 2.640 ha. Wartsila díesel vél (1978). Skipið var selt 27 nóvember 1978, Ólafi Óskarssyni útgerðarmanni í Reykjavík, hét Óli Óskars RE 175. Skipinu var breytt í nótaveiðiskip í Kotka í Finnlandi árið 1978. Selt 14 apríl 1981, Síldarvinnslunni h/f í Neskaupstað. Var skipið fyrst og fremst keypt til að tryggja Loðnubræðslu Síldarvinnslunnar h/f hráefni. En vegna loðnuveiðibanns og lélegrar útkomu kolmunnaveiða var ákveðið að breyta skipinu þannig að það hentaði einnig til togveiða. Vorið 1982 hélt Beitir til Akureyrar þar sem sett var skutrenna á skipið og aðrar nauðsynlegar breytingar gerðar. Einnig var komið fyrir tækjum til saltfiskverkunar um borð. Verkið annaðist Slippstöðin h/f á Akureyri. Þegar Beitir hóf veiðar að nýju í september sama ár, var hann 4 skuttogarinn í flota Síldarvinnslunnar h/f í Neskaupstað.


226. Beitir NK 123 á siglingu á Norðfirði.                                                   (C) S.V.N Neskaupstað.

       Síldarvinnslan h/f í Neskaupstað                             kaupir Óla Óskars

Síldarvinnslan í Neskaupstað og Ólafur Óskarsson útgerðarmaður í Reykjavik hafa nú undirritað samning um kaup Síldarvinnslunnar á nótaskipinu Óla Óskars RE 175, en þó með fyrirvara þar sem enn á eftir að ganga frá nokkrum formsatriðum. Að sögn Ólafs Gunnarssonar, framkvæmdastjóra Síldarvinnslunnar er tilgangurinn með skipakaupunum að tryggja aukið hráefni til loðnubræðslu Síldarvinnslunnar og auka atvinnu í Neskaupstað. Hann sagði ennfremur að búizt væri við, að ef vel gengi með rekstur skipsins, myndi það laga rekstrargrundvöll fyrirtækisins eftir nokkur ár og væri þess talsverð þörf. Ólafur vildi ekki gefa upp kaupverð skipsins, vegna þess að enn væru nokkur atriði ófrágengin.

Morgunblaðið. 15 apríl 1981.


Beitir NK 123 á siglingu á sundunum við Reykjavík í maí 1981.                     (C) Snorri Snorrason.

                    Beitir NK 123

Nótaskipið Óli Óskars, sem Síldarvinnslan hf. í Neskaupstað hefur fest kaup á, hefur nú fengið nýtt nafn og númer, Beitir NK 123. Samkvæmt mannanafnabók Hermanns Pálssonar merkir það siglingamaður. Beitir er enn í Reykjavík þar sem hann verður málaður og gert fleira til góða áður en hann kemur austur. Ekki er gert ráð fyrir að hann hefji veiðar fyrr en um mánaðamótin júní-júlí að hann mun fara til kolmunnaveiða.

Austurland. 7 maí 1981.

      Beitir kominn til Neskaupstaðar

Neskaupstað 27 maí. Beitir NK 123 sígldi í höfn í fyrsta sinn hér í dag. Beitir hét áður Óli óskars RE 175 og er nú eign Sildarvinnslunnar hf. Skipið var sýnt bæjarbúum í dag og mun hann halda á kolmunnaveiðar að tveimur dögum liðnum. Togarinn kom úr heildarskoðun og endurnýjun úr slipp í Reykjavík.

Morgunblaðið. 30 maí 1981.



Beitir NK 123 á siglingu á Norðfirði.                                                             (C) S.V.N Neskaupstað.

  Slippstöðin breytir Beiti í saltfisktogara

Beitir NK, annað loðnuskip Síldarvinnslunnar hf. í Neskaupstað, er nú kominn til Akureyrar, þar sem skipinu verður breytt í saltfisktogara hjá Slippstöðinni hf. Aætlað er að breytingum á Beiti ljúki fyrir miðjan júlí næstkomandi. Meðal annars verður sett skutrenna og skutrennuloki og ýmsar aðrar breytingar verða gerðar, þannig að skipið henti sem best til togveiða

Morgunblaðið. 7 apríl 1982.


Beitir NK í breytingunum á Akureyri árið 1982.                          (C) Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.


Beitir NK í breytingunum á Akureyri árið 1982.                  (C) Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.

      Beitir NK 123 - alhliða fiskiskip

Í maí 1981 bottist nýtt skip í flota Norðfirðinga. Var það nótaskipið Beitir sem Síldarvinnslan hf. hafði fest kaup á. Þegar skipið var keypt höfðu menn í hyggju að það legði fyrst og fremst stund á loðnu og kolmunnaveiðar. En ýmislegt hefur breyst síðan Beitir komst í eigu Norðfirðinga og er þá helst að nefna loðnuveiðibann. Vegna nýrra aðstoðna ákvað stjórn Síldarvinnslunnar að láta gera ýmsar breytingar á Beiti, þannig að skipið hentaði til togveiða og hægt yrði að salta aflann um borð. Þann 17. mars sl. hélt Beitir til Akureyrar, en í Slippstöðinni þar voru breytingarnar framkvomdar. Og þann 13. ágúst sl. kom skipið til heimahafnar allmikið breytt. Tíðindamaður Austurlands hitti að máli þá Jóhann K. Sigurðsson framkvomdastjóra útgerðar Síldarvinnslunnar og Björgvin Jónsson, sem haft hefur eftirlit með framkvæmdum við skipið, og fékk ýmsar upplýsingar hjá þeim.
Sögðu þeir að breytingarnar á skipinu væru umfangsmiklar og myndi kostnaður við þær nema um 10 milljónum króna. Á skipið var sett skutrenna og skutrennuloki, útbúin aðstaða til aðgerðar á millidekki stjórnborðsmegin og þar komið fyrir hausingavél og flatningsvél. Einnig var komið fyrir 10 tonna krana til að tæma úr poka og til annnarra verka á efra þilfari. Þá var komið fyrir sjálfvirkri togvindu og grandaraspilum og ýmsum nýjum tækjum. Hér heima er síðan unnið að því að rétta lestargólfið og setja svartolíukerfi í skipið. Eftir þessar breytingar getur Beitir lagt stund á nótaveiðar, veiðar með flotvörpu og botnvörpuveiðar og því má með sanni segja að Norðfirðingar hafi eignast alhliða fiskiskip.
Búið er að ráða áhöfn á skipið og gekk það vel, en gert er ráð fyrir að Beitir haldi á togveiðar síðar í þessum mánuði. Aðspurðir kváðust þeir Jóhann og Björgvin vera ánægðir með breytingarnar á skipinu og töldu að afar vel hefði heppnast að koma fyrir þeim tækjum sem nauðsynleg væru, m. a. vélum á vinnuþilfari. Eins og fyrr greinir er ráðgert að salta aflann um borð þegar skipið er á togveiðum. Ætlunin er að aflanum verði síðan skipað á land í heimahöfn og saltfiskverkun Síldarvinnslunnar annist pökkun fisksins.
Skipstjóri á Beiti verður eftir sem áður Sigurjón Valdimarsson.

Austurland. 20 ágúst 1982.


226. Beitir NK 123 á togveiðum.                                             (C) Brimbarinn. Vigfús Markússon.

  Beitir hefur landað 80 lestum af saltfiski

Togskipið Beitir frá Neskaupstað hefur að undanförnu verið að veiðum út af Austfjörðum eftir gagngerar breytingar á skipinu. Þorskaflinn er verkaður í salt um borð og eftir tvær veiðiferðir hefur skipið landað 80 lestum af saltfiski og 24 lestum af öðrum bolfiski og hafa veiðarnar gengið þokkalega.
Beitir var upphaflega síðutogari, sem síðan var breytt í nótaskip. Skipið var síðan keypt til Neskaupstaðar, en er ljóst var að loðnuveiði myndi bregðast, var skipinu breytt þannig, að það getur nú stundað tog-, nóta- og flotvörpuveiðar.
Breytingarnar voru unnar í Slippstöðinni á Akureyri og hefur skutrennuloki verið settur í skipið, fiskilúga og vélasamstæða til saltfiskverkunar. Einnig hefur grandaraspil verið sett í skipið og bætt við fiskleitartækjum. Þá hefur vélum skipsins verið breytt til svartolíunotkunar og aðstaða áhafnar endurbætt. Áætlaður kostnaður við breytingarnar er 11 til 12 milljónir. 18 manna áhöfn er á skipinu og skipstjóri er Sigurjón Valdimarsson, vélstjóri er Jón Már Jónsson og fyrsti stýrimaður Helgi Valdimarsson. Skipið er í eigu Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, sem auk þess á togarana Barða, Birting og Bjart og nótaskipið Börk.

Morgunblaðið. 29 september 1982.


Beitir NK 123 á leið til löndunar í Neskaupstað.                      (C) Úr safni Gunnars Þorsteinssonar.

     Fyrsta loðnan til Neskaupstaðar

Beitir NK kom með fyrstu loðnuna til Neskaupstaðar á þriðjudaginn en þá kom skipið með um 1.400 tonn af miðunum djúpt norður af landinu. Gera má ráð fyrir að fljótlega hefjist loðnubræðsla á Austfjörðum af fullum krafti og eru fleiri bátar nú að búa sig út til loðnuveiða, svo sem Börkur NK, sem mun verða tilbúinn til loðnuveiða fljótlega.

Austurland. 11 september 1986.










22.02.2018 07:12

1351. Sléttbakur EA 304. TFBY.

Sléttbakur EA 304 var smíðaður hjá Söviknes Verft A/S í Syvikgrend í Noregi árið 1968. 781 brl. 2.200 ha. MWM díesel vél, 1.618 Kw. Skipið hét áður Stella Kristina KG 320 og var í eigu p/f Stellu í Klaksvík í Færeyjum frá árinu 1968. Smíðanúmer 70. Selt í september 1973, Útgerðarfélagi Akureyringa h/f á Akureyri, fékk nafnið Sléttbakur EA 304. Skipið var lengt og breytt í frystiskip hjá Slippstöðinni á Akureyri árið 1987. Mældist þá 902 brl. Einnig var sett ný vél í skipið, 2.996 ha. Bergen díesel vél, 2.205 Kw. Frá árinu 2000 hét skipið Sléttbakur EA 4. Selt í september 2002, Samherja h/f á Akureyri, hét Akureyrin EA 110. 27 maí árið 2006 kom upp mikill eldur í skipinu þegar það var að grálúðuveiðum um 75 sjómílur vestur af Látrabjargi. Náðu skipverjar að slökkva eldinn og héldu síðan til Hafnarfjarðar. Tveir skipverjar létust. Skipið var endurbyggt eftir brunann og hóf veiðar í mars árið 2009 undir nýju nafni, Snæfell EA 310. Skipið er gert út af Samherja h/f og gert út frá Akureyri í dag.


1351. Sléttbakur EA 304.                                                    (C) Snorri Snorrason. Mynd í minni eigu.

        Útgerðarfélag Akureyringa hf
         fær togarana frá Færeyjum

Landsstjórnin í Færeyjum veitti í gær útflutningsleyfi fyrir skuttogurunum tveim, sem Útgerðarfélag Akureyrar var búið að festa kaup á í Klakksvík. Togararnir, sem fá nöfnin Svalbakur EA 302 og Sléttbakur EA 304 ættu því að koma til landsins eftir 10-12 daga. Jogvan Arge, fréttaritari Morgunblaðsins í Færeyjum, sagði í gær, að miklar umræður hefðu Verið um þessi mál í Landsstjórninni, en endirinn hefði orðið sá, að veitt var útflutningsleyfi fyrir togurunum Stella Karira og Stella Kristina, sem fram til þessa hafa verið fullkomnustu togarar Færeyja. Í Færeyjum voru uppi raddir um að færeyska landsstjórnin ætti að kaupa annað skipið og nota það sem rannsóknarskip, en þegar til kom þótti það ekki henta. Það er fyrirtækið Stella í Klakksvik, sem selur Akureyringum togarana. Framkvæmdastjóri félagsins er Erling Laksafoss, einn mesti athafnamaður Færeyja. Talið er að hann ætli nú að kaupa minni togara. Meðal annars vegar þess, að togararnir tveir eru verksmiðjuskip og fengu ekki tilslakanir til að veiða innan 50 sjómílna markanna við Ísland.
Gísli Konráðsson, framkvæmdastjóri útgerðarfélags Akureyringa, sagði í gær, að þeir hjá ÚA hefðu alltaf verið sannfærðir um þessi málalok. Nú ætti aðeins eftir að búa togarana til heimferðar, og tæki það sennilega um vikutíma. Því ættu togararnir, sem hljóta nöfnin Svalbakur EA 302 og Sléttbakur EA 304, að vera komnir heim eftir 10-12 daga.
Kaupverð togarana er 11.42 milljónir norskra króna, sem er um 178 milljónir ísl. kr.


1351. Sléttbakur EA 304 á siglingu á Eyjafirði.                                                      (C) Páll A Pálsson.

     Tveir skuttogarar bættust í flota
                  Ú.A. á Akureyri

Það mun einsdæmi í hérlendri sjávarútvegssögu, að tveir nýkeyptir togarar komi samdægurs til heimahafnar sinnar í fyrsta sinn. En þetta gerðist á Akureyri á fimmtudaginn. Þá sigldu tveir 834 smálesta skuttogarar Ú. A. inn Eyjafjörð og fagnaði þeim mikill mannfjöldi á Akureyri, er þeir lögðust þar að Togararbryggjunni rúmlega hálf fimm síðdegis. Lúðrasveit lék á bryggjunni, Vilhelm Þorsteinsson lýsti togurunum, Jón G. Sólnes bauð skip og áhafnir velkomnar, Bjarni Einarsson flutti ræðu og Gísli Konráðsson flutti ávarp, þar sem hann meðal annars bauð starfsfólki Ú. A. í skemmti siglingu á nýju togurunum að tveim dögum liðnum. Stjórnarformaður Ú. A., Jakob Frímannsson, var ekki viðstaddur sökum veikinda. Nýju togararnir heita Svalbakur og Sléttbakur. Þeir voru byggðir í Noregi fyrir útgerðarmenn í Klakksvík í Færeyjum, er nú seldu þá hingað. Eru þeir fárra ára og líta út sem nýir, hvar sem á þá er litið. Kaupverð togaranna er samanlagt 340 milljónir og fylgja í kaupunum veiðarfæri og útbúnaður. Nú er af kappi unnið við þær breytingar á skipunum, sem þörf er á, en síðan fara þau á togveiðar. Áhöfn verður 24 menn á hvoru. Skipstjóri á Svalbak er Halldór Hallgrímsson, fyrsti vélstjóri Freysteinn Bjarnason og fyrsti stýrimaður Benjamín Antonsson.
Skipstjóri á Sléttbak er Áki Stefánsson, fyrsti vélstjóri Valur Finnsson og fyrsti stýrimaður Jón Pétursson. Yfir 400 manns þáðu boð í skemmtisiglinguna á laugardaginn og voru kaffi- og gosdrykkja veitingar fram bornar um borð. Blaðið spurði Áka Stefánsson skipstjóra um álit hans á nýju skipunum. Hann sagði, að á leiðinni frá Færeyjum til Noregs, en þangað fóru skipin til að sækja fiskikassa, hefði verið versta veður en skipin reynzt mjög vel. Ganghraði þeirra væri 12 mílur, Segja mætti, að tæki og búnaður allur í skipunum hefði reynzt í fullkomnu lagi, enda væri þar flest eða allt hið vandaðasta og sérlega vel við haldið, bæði smátt og stórt. Blaðið samfagnar Ú. A. og bæjarbúum komu hinna góðu skipa.

Dagur. 7 nóvember 1973.


Sléttbakur EA 304 á leið í slipp á Akureyri.                                                           (C) Páll A Pálsson.


                    Sléttbakur EA 304


Í desember s. l. komu tveir skuttogarar til heimahafnar sinnar, Akureyrar, í fyrsta sinn. Togara þessa keypti útgerðarfélag Akureyringa h.f. frá Færeyjum, og hétu þeir áður Stella Kristina og Stella Karina. Skipin voru byggð í Sovikens Verft A/S í Noregi á árunum 1968-1969, og útbúin sem verksmiðjuskip. í skipunum voru vinnslu- og frystitæki, þar sem fullvinna átti fiskinn um borð, en vinnslutæki hafa nú verið fjarlægð og sett í staðinn blóðgunarker, aðgerðarborð, þvottaker og færibönd eins og algengast er í skuttogurum þeim sem íslendingar hafa fengið undanfarið. Þar sem hér var um verksmiðjuskip að ræða var gert ráð fyrir stórri áhöfn, 48-50 mönnum, svo rúmt ætti að vera um þessa 23-24 menn sem á skipunum verða. Meðfylgjandi mynd sýnir fyrirkomulag í þessum skipum, sem eru systurskip. Eftirfarandi lýsing á tækjabúnaði á því við um hvort skipið sem er.
Aðalvél skipsins er frá MWM, gerð TBRHS 345 A, sem skilar 2.200 hö. við 500 sn/mín. Við vélina er niðurfærslugír (2:1) frá RENK, gerð AUSL 63, sem tengist 4ra blaða skiptiskrúfu frá Liaaen, gerð CP D71/4, um 2,8 m í þvermál. Framan á vélinni er aflúttak fyrir vökvadælur vindukerfisins. Hjálparvélar eru þrjár, allar eins, frá MWM, gerð RHS 518 A, sem gefa 166 hö. við 1000 sn/mín. Á vélunum eru rafalar frá Siemens, sem gefa 154 KVA, 380 V, 50 rið. Stýrisvél er frá Frydenbö, gerð HS 40, sem gefur maks. snúningsvægi 8000 kgm. Sjálfstýring er frá Anschútz. Vindukerfi skipsins er vökvaknúið (lágþrýst), og er það frá A/S Hydraulik Brattvág. Togvindur eru tvær (splitwinch), gerð D1A10U, sem gefa hvor um sig 6,5 tonna meðaltogkraft við 66 m /mín vírahraða. Víramagn á hvora tromlu er 1500 faðmar af 3 1/4" vír. Togvindurnar eru staðsettar aftarlega á togþilfari, sitt hvoru megin við skutrennu.


Fyrirkomulagsteikning af Sléttbak EA 304.  

Grandaravindur eru tvær, gerð MA8/A8, sem gefa um 6 tonna togkraft. Þessar vindur eru staðsettar framarlega á togþilfari, og eru bobbingarennurnar í göngum sitt hvorum megin við þilfarshúsið. Vegalengd frá skutrennu og að vindum er um 45 m. Þá eru tvær samskonar vindur á bátaþilfari, en þær eru fyrir hífingar. Aftast á bátaþilfari er vinda, með 5 tonna togátaki, til að losa trollpokann og hífa hann aftur, þegar kastað er. Akkerisvindan er af gerðinni 3/B7-47. Vindum er stjórnað frá stjórnklefa, sem staðsettur er á togþilfari, aftan við þilfarshúsið. Af siglingatækjum um borð í skipinu má nefna: Loftskeytastöð: Dansk Radio. Ratsjár: Raytheon 1060/25, 10 cm, 48 sml. og Raytheon 1060/6X, 3 cm, 48 sml. Miðunarstöð: Taiyo TD-A 201, sjálfvirk. Loran: Furuno LC-1. Gyroáttaviti: Anschútz. Fiskleitartæki eru eftirfarandi: Asdik: Simrad Sonar SB 3 tengt fisksjá Simrad Sonar Scope CK 2. Dýptarmælar: Simrad EK 38 A og Simrad EK 50 A. Við þessa mæla er tengd fisksjá Simrad Echo Scope CB 2. Netsjá: Elac.
Stærð skipsins 834 brl.
Mesta lengd 61.74 m.
Lengd milli lóðlína 54.33 m.
Breidd 10.21 m.
Dýpt frá efra þilfari 7.00 m.
Dýpt frá neðra þilfari 4.80 m.
Djúprista 4.75 m.
Lestarrými undir neðra þilfari . . 820 m3
Lestarrými á milliþilfari 180 m3
Olíugeymar (skiptigeymar) ... . 398 m3
Ferskvatnsgeymar 41 m3
Lýsisgeymar 42 m3
Hraði í reynslusiglingu 13,9 sm
Skipstjóri á Sléttbak er Áki Stefánsson og fyrsti vélstjóri Valur Finnsson. Á Svalbak er Halldór Hallgrímsson skipstjóri og fyrsti vélstjóri er Freysteinn Bjarnason. Framkvæmdastjórar Útgerðarfélags Akureyringa eru Vilhelm Þorsteinsson og Gísli Konráðsson. Ægir óskar eigendum og áhöfnum til hamingju með þessi glæsilegu skip.

Tímaritið Ægir. 1 desember 1973.


Sléttbakur EA 304 í lengingu hjá Slippstöðinni árið 1987.                           (C) Páll A Pálsson.

         Sléttbakur "slitinn" í sundur

Sléttbakur EA, einn togara Útgerðarfélags Akureyringa, hefur nú verið "slitinn" í sundur hjá Slippstöðinni hf. hér á Akureyri eins og sést á meðfylgjandi mynd. Nú er unnið að lengingu skipsins og síðan verður því breytt í frystiskip. "Við lengjum Sléttbak um 8 metra, eftir breytinguna verður hann 89 metrar á lengd. Það má segja að við séum að byggja hann alveg upp á nýtt að innan; við erum að byrja á íbúðunum, vélarúminu og millidekkinu. Þetta er allt einn geymur eins og er," sagði Sigurður Ringsted, yfirverkfræðingur hjá Slippstöðinni, í samtali við Morgunblaðið í gær.
Sléttbakur var tekinn upp í slipp fyrir helgina. Sigurður sagði að eftir breytingarnar yrði Sléttbakur "fljótandi frystihús" um borð yrðu frysti-, flökunar- og pökkunartæki, þannig að varan verður fullunnin um borð. "Og ég veit ekki betur en Sléttbakur verði stærsti togari íslenska fiskiskipaflotans eftir breytinguna," sagði hann. Breytingum á skipinu verður lokið í júlí í sumar.

Morgunblaðið. 3 mars 1987.


Sléttbakur EA "slitinn" í sundur í Slippstöðinni.                                                     (C) Páll A Pálsson.


Skipið farið að taka á sig núverandi útlit.                                                             (C) Páll A Pálsson.


Sléttbakur EA 304. Glæsilegt skip að verða á ný.                                               (C) Páll A Pálsson.

   Nýr Sléttbakur á siglingu í Eyjafirði

Sléttbakur EA 304 fór í sína fyrstu veiðiferð á sunnudaginn. Skipið mun hafa stefnt að Grímsey en sökum ógæfta þar mun það hafa fært sig austar á miðunum. Er togarinn fór í tveggja daga prufusiglingu fyrir skömmu komu í ljós nokkrir annmarkar á vinnslusal sem lagfærðir voru í Slippstöðinni og ætti því allt að vera í lagi um borð í þessari fyrstu veiðiferð þessa fljótandi frystihúss. Áhöfn skipsins telur 26 menn.
Skipstjóri er Kristján Halldórsson. Búast má við að hver veiðiferð taki um mánaðartíma. Mynd þessi var tekin er gestum var boðið í skemmtisiglingu um Eyjafjörð er Slippstöðin afhenti skipið eigendum sínum, Útgerðarfélagi Akureyringa eftir nær árs endurbyggingu.

Morgunblaðið. 18 nóvember 1987.


1351. Sléttbakur EA 304 á siglingu á Eyjafirði eftir lenginguna 1987.            (C) Páll A Pálsson.

    Sléttbakur verður Akureyrin EA 110

Gamli Sléttbakur EA, sem áður var í eigu Útgerðarfélags Akureyringa hf., hefur nú fengið nafnið Akureyrin EA 110, auk þess sem skipt hefur verið um lit á skipinu. Samherji keypti Sléttbak fyrr í sumar og er ráðgert að skipið haldi til veiða á vegum fyrirtæksins í næsta mánuði. Unnið hefur verið að endurbótum á skipinu að undanförnu í Slippstöðinni á Akureyri og það m.a. verið málað hátt og lágt í Samherjalitunum.
Skipið er rúmlega 900 brúttólestir að stærð, smíðað í Noregi 1968. Skipið var lengt og því breytt í frystiskip árið 1987. Það er 69 metra langt, með 3.000 hestafla aðalvél og búið til flakavinnslu og heilfrystingar á karfa og grálúðu. Gamla Akureyrin EA hefur í staðinn verið seld til Onward Fishing Company, dótturfélags Samherja í Bretlandi og verður skipið afhent í næsta mánuði. Gamla Akureyrin EA, sem er 882 brúttólesta skip var smíðað í Póllandi á árinu 1974. Það var fyrsta skip í eigu Samherja og hefur verið gert út sem frystitogari frá árinu 1983. Akureyrin hefur verið afar farsælt skip og frá upphafi verið meðal aflahæstu fiskiskipa landsins ár hvert.

Morgunblaðið. 30 ágúst 2002.


1351. Akureyrin EA 110 við bryggju á Akureyri.                                              (C) Páll Jóhannesson.

      Unnu þrekvirki við erfiðustu aðstæður

Skipverjar á Akureyrinni EA 110 frá Akureyri unnu þrekvirki við erfiðustu hugsanlegu aðstæður þegar þeir náðu að ráða niðurlögum eldsins sem kom upp í íbúðum skipsins á laugardag. Skipið var þá við veiðar 75 sjómílur vestur af Látrabjargi. Tveir menn létu lífið í slysinu en aðrir skipverjar héldu norður á Akureyri í gærmorgun og eru komnir til fjölskyldna sinna. Höskuldur Einarsson hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins segir ljóst að gríðarlegur eldur hafi geisað í skipinu og hann hafi breiðst út á stuttum tíma.
"Áhöfnin var búin að slökkva allan meiriháttar eld þegar okkar menn komu um borð. Skemmdirnar eru alveg gríðarlegar og ég verð að segja að skipsverjar hafa gert algjört kraftaverk í að slökkva þennan eld. Þeir hafa gert hluti sem enginn gæti ætlast til af nokkrum manni við þessar aðstæður. Það er ljóst að menn hafi gengið mjög hart fram."
Höskuldur segir að margar íbúðir og eldhús sé stórskemmt eftir eldinn og það sem ekki brann sé verulega mikið sótskemmt þar sem sót hafi farið um allt skip. Akureyrin sigldi fyrir eigin vélarafli til lands og kom til hafnar í Hafnarfirði í gærmorgun þar sem skipið liggur nú. Lögreglan í Hafnarfirði, sem fer með rannsókn málsins, segir eldsupptök ekki ennþá kunn. Mikill viðbúnaður var hafður strax eftir að hjálparbeiðni barst frá Akureyrinni um klukkan tvö á laugardag. Björgunarþyrlan TF-LÍF fór með fjóra reykkafara frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins sem fóru um borð og aðstoðuðu við slökkvistarfið. Slökkvistarfið gekk vel og ekki þurfti frekari aðstoðar við. Þyrla af danska varðskipinu Triton fór með þrjá menn en var snúið til baka þegar þyrlan var að taka eldsneyti á Rifi. Varnarliðsþyrla var einnig kölluð til en var aðstoð hennar var afturkölluð um það leyti sem hún var að fara í loftið en tíu slökkviliðsmenn voru þá komnir um borð í hana.
Séra Arnaldur Bárðarson, sóknarprestur í Glerárkirkju, segir að allt samfélagið á Akureyri sé mjög slegið yfir þessum atburði. Arnaldur segir að áhöfnin hafi fengið fyrstu áfallahjálp á Landspítalanum í Fossvogi en kirkjan nyrðra og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri muni fylgja því starfi eftir með því að veita áhöfninni og þeirra nánustu áfallahjálp á næstu dögum. Skipverjarnir sem fórust hétu:
Hafþór Sigurgeirsson og
Birgir Bertelsen.

Fréttablaðið. 29 maí 2006.


1351. Snæfell EA 310 á siglingu á Eyjafirði.                                                           (C) Petrómyndir.

    Fengsælt fiskiskip aftur á Íslandsmið

Snæfell EA 310 bættist í flota Samherja hf. á dögunum og lét úr höfn á Akureyri eftir endurbyggingu. Raunar er vart hægt að segja að hér sé um nýtt skip að ræða í flota Samherja hf. heldur eldra skip sem fengið hefur nýtt og gamalgróið eyfirskt nafn. Skipið sem áður hét Akureyrin EA brann vorið 2006 og hefur síðan verið frá veiðum. Endurbætur þess voru viðamiklar en að þeim loknum er skipið búið til veiða fyrir frystingu og ísfisk. Skipstjóri á Snæfelli er Sigmundur Sigmundsson. Snæfellið á sér farsæla sögu í fiskipaflota Akureyringa.
Upphaflega keypti Útgerðarfélag Akureyringa skipið frá Færeyjum árið 1973 og hét það þá Stella Kristina. Raunar keypti félagið þarna tvö systurskip og mun einsdæmi að tveir nýir togarar hafi komið til heimahafnar í einu, líkt og gerðist þann 1. nóvember 1973 á Akureyri. Stella Kristina fékk nafni Sléttbakur EA 304 og var í flota Útgerðarfélags Akureyringa allt þar til Samherji hf. eignaðist skipið og fékk það þá nafnið Akureyrin. Raunar er fleira markvert við skipið því Sléttbakur var fyrsti frystitogari ÚA, eftir viðamikla endurbyggingu og lengingu árið 1987. Eins og áður segir skemmdist skipið mikið í eldi vorið 2006 en Samherji hf. ákvað að ráðast í endurbætur, sem unnar voru á þremur stöðum, þ.e. í Cuxhaven í Þýskalandi, hjá Morska skipasmíðastöðinni í Póllandi og lokahönd var svo lögð á verkið á Akureyri. Íbúðir skipsins voru endurbyggðar, sem og vélbúnaður. Jafnframt var frystigetan aukin þannig að skipið afkastar um 40 tonnum í frystingu á sólarhring. Fyrirkomulag í skipinu er með þeim hætti að það getur bæði stundað ísfiskveiðar og verið á frystingu en góð reynsla er af því hjá Samherja að skipin frysti afla í fyrri hluta veiðiferða en kæli aflann í síðari hluta veiðiferða. Ísfiskaflinn er síðan unninn í fiskiðjuveri Samherja á Dalvík.
Eins og áður segir voru endurbæturnar viðamiklar en Kælismiðjan Frost hafði með alla þá verkþætti sem sneru að frystibúnaði að gera en um raflagnavinnu sá Rafeyri. Bæði þessi fyrirtæki eru á Akureyri. Snæfellið hélt til grálúðuveiða í fyrsta túr eftir hlé frá veiðum í tæp þrjú ár. Átján manns eru í áhöfn. Eins og áður segir er Sigmundur Sigmundsson skipstjóri en yfirvélstjóri er Heimir Kristinsson.

Ægir. 3 tbl. 1 mars 2009.









21.02.2018 17:10

Kári SU 326.

Vélbáturinn Kári SU 326 var smíðaður á Fáskrúðsfirði árið 1920. Fura. 8 brl. 11 ha. Gideon vél. Eigendur voru Björgvin Benediktsson og Sveinn Benediktsson á Fáskrúðsfirði, sennilega frá sama ári. Ný vél (1924-25) 24 ha. Rapp vél. Seldur um árið 1930, Þórarni Guðmundssyni, Sigurjóni Guðmundssyni og Jóni Ásgeirssyni á Fáskrúðsfirði, sama nafn og númer. Kári fórst í róðri 12 maí árið 1936 með allri áhöfn, 4 mönnum.


Vélbáturinn Kári SU 326 á Fáskrúðsfirði.                                                            Ljósmyndari óþekktur.

     Manntjón og bátstapi við Austurland
                    Aftaka suðaustan rok
  
Bátur með fjögurra manna áhöfn týndur

Óttast er um vjelbátinn Kára frá Fáskrúðsfirði með fjögurra manna áhöfn. Gerði aftaka rok af suðaustan, Austanlands í fyrrinótt og stóð alla nóttina. Veðrið var svo mikið, að gamlir fiskimenn ,telja að það hafi verið annað versta veðrið, sem þeir hafi lent í. Veðrið hefir og valdið manntjóni og sennilega, bátstapa. Vjelbáturinn "Kári" frá Fáskrúðsfirði fór á veiðar á mánudagskvöldið kl. 11, en síðan hefir ekkert til hans spurst. Var bátsins leitað í nótt og í dag og tóku 7 bátar þátt í leitinni. Þeir ern nú komnir að landi og hafa einskis orðið varir. Er því talið að báturinn hafi farist með allri áhöfn. Skipverjar á bátnum voru: "
Jón Ásgrímsson, skipstjóri. 
Guðni Guðmundsson, vjelstjóri
Ágúst Lúðvíksson háseti. og
Guðmundur Stefánsson, háseti.

Morgunblaðið. 14 maí 1936.


Flettingar í dag: 170
Gestir í dag: 60
Flettingar í gær: 2133
Gestir í gær: 252
Samtals flettingar: 1051353
Samtals gestir: 75973
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 08:19:32