07.11.2017 10:21
L. v. Ólafur Bjarnason MB 57. LCKJ / TFGE.
Þetta skip átti merka sögu hér á landi. Fyrir það fyrsta, þá var það tekið fyrir að smygla áfengi til landsins árið 1925, hét þá Siegfried og kom hingað með fullar lestar af spíra, koniaki og fl. Var skipið gert upptækt og síðar selt Bjarna Ólafssyni eins og segir hér að ofan. Einnig mun skipið (Bjarki SI 33) vera fyrsta stálskip sem lengt var hér á landi.
"Smyglskipið"
Siegfried frá Cuxhaven
Mönnum þarna syðra fannst sem sæfarar þessir færu einhvern veginn aftan að siðum, og kviknuðu grunsemdir um erindi þeirra. Gerðu þeir yfirvaldi sínu viðvart, og er skemmst af því að segja, að allt var tekið: Skipið og farmurinn, brytinn Jón og skipverjar allir. Kom þá í ljós, að sitthvað var á annan veg en siður var í siglingum landa á milli. Farmskírteini fundust engin, og ekki heldur skipstjóri sá, sem skráður var á fleytuna. Lengi vel þóttust engir vita, hverjir ættu farminn, og kom þó þar um síðir, að hann vitnaðist sameign brytans og doktorsins í Hamborg, og hafði verið í ráðum að selja áfengið hérlendis á fimm krónur hvern lítra, en sigla til Noregs með það, sem afgangs kynni að vera. En af þeirri siglingu varð ekki, því að skipið var gert upptækt og selt á uppboði. Bjarni Ólafsson á Akranesi keypti það á þrjátíu þúsund krónur. Og honum var sízt í hug að svala áfengisþorsta manna, hvort heldur þeir voru íslenzkir eða norskir. Seinna á árinu kom hingað mikil og fræg hljómsveit frá Þýzkalandi. skipuð ágætum tónlistarmönnum. En kannski hefur það ekki verið beinlínis til minningar um þennan atburð, að hún lék Siegfried-Idyll eftir Wagner fyrir Reykvíkinga. Og er kannski ekki viðeigandi að blanda saman spíritus og rommi og göfugri tónlist og gera úr kokkteil.
Fálkinn. 2 maí 1966.
Línuveiðarinn Bjarki RE 4 á síldveiðum. Ljósmyndari óþekktur.
Gufuskipið
Bjarki
Hefir nú Samvinnufjelag sjómanna hjer ákveðið að kaupa
gufuskipið Bjarka. Kaupverðið er 40 þúsund krónur og ábyrgist
Siglufjarðarkaupstaður 30 þúsund af kaupverði og kr. 8 þús. vegna veiðarfæra og
nótabáta. Skipstjóri og framkvæmdastjóri er ráðinn Eyþór Hallsson, og fór hann
suður með Goðafossi ásamt skipverjum þeim sem verða með honum í sumar.
Bæjarstjórnin hefir eftirlit með rekstri fjelagsins og jafnframt neitunarvald á
þeim ákvörðunum félagsins sem hún heldur að muni geta skaðað afkomu þess.
Skipverjar fá engin laun fyrir starf sitt fyrr en dreginn hefir verið frá afla
skipsins allur kostnaður við rekstur þess. Það sýnist þvi í fljótu bragði ekki
geta verið mikil áhætta fyrir bæinn, þessi ábyrgð, þar sem afborganir og vextir
eru mjög aðgengilegir. Annars verður nánar skýrt frá þessum kaupum og tildrögum
þeirra í næsta blaði.
Siglfirðingur. 16 júlí 1932.
Samvinnuútgerð
sjómanna á Siglufirði
Nú mun fullráðið að Samvinnuútgerðin kaupi s.s. Bjarka.
Framkvæmdarstjóri og skipstjóri, Eyþór Hallsson, mun nú, með aðstoð Guðmundar
Ólafssonar hæstar.m.fl.m. í Rvík, hafa undirskrifað samninga við
rikisstjórnina. Skipið hefir verið prýðilega standsett og mun sú aðgerð hafa
kostað ríkið um 15-24 þúsund kr. Sömuleiðis hefir framkv.stj. náð kaupum á mjög
vandaðri nót og bátum fyrir lágt verð. Skipið mun því ef allt gengur að óskum
koma hingað eftir helgina. Torfi Timoteusson fór suður með s.s. Dr. Alexandrine,
og mun verða skipstjóri í sumar á Bjarka, þar sem Eyþór vantar nokkuð upp á
siglingatíma sinn. Skipið hefir samning um sölu bræðslusíldar hjá
Ríkisverksmiðjunni og mun eínnig hafa þegar selt eitthvað til söltunar. Eins og
getið var um í síðasta blaði þá er afborgunin af kaupverði skipsins sem svarar
1000 málum af bræðslusíld og 3 prc. af brúttó afla skipsins. Það má því
fullyrða að aldrei hefir skip í jafn góðu standi verið selt með heppilegri
kjörum.
Siglfirðingur. 23 júlí 1932.
Línuveiðarinn Bjarki SI 33 lengdur í gamla slippnum sunnan Torfunefsbryggju á Akureyri veturinn 1943-44. Ljósmyndari óþekktur.
Línuveiðarinn
Bjarki frá Siglufirði
Nýlega var vikið að því í frétt í Þjóðviljanum, að Hoffellið
frá Fáskrúðsfirði væri fyrsti stálbáturinn hér á landi, sem væri lengdur í
íslenzkri skipasmíðastöð, en nú er unnið að því að Iengja þennan bát í
skipasmíðastöð á Seyðisfirði þessa daga. Nú höfum við fengið þær upplýsingar,
að línuveiðarinn Bjarki frá Siglufirði hafi gengið í gegnum svona breytingar í
gömlu slippbrautinni á Akureyri veturinn 1943 og 1944, var línuveiðarinn
skorinn sundur í miðju og lengdur um sjö metra og stækkaði, hann úr 120 lestum
upp í 180 lestir. Var þetta á sínum tíma afrek í íslenzkri skipasmíði með
þeirri tækni, sem þá var í skipasmíði. Verkið tók líka furðu stuttan tíma,
hófst í öndverðum nóvember um veturinn og var Iokið í byrjun apríl. Yfirsmiður
var Guðmundur Valgrímsson, vélsmíðameistari er átti þá hlutdeild að
Vélsmiðjunni Odda á Akureyri.
Línuveiðarinn Bjarki frá Siglufirði sigldi öll stríðsárin að frádregnum
breytingatímanum og reyndist ákaflega happasælt sjóskip. Eigandi skipsins var
þá Steindór Hjaltalín og síðar var línuveiðarinn í flutningum til Siglufjarðar,
þegar Hvalfarðarsíldin veiddist hér mest um árið. Viktor hjá B.P. var þá
skipstjóri og hældi skipinu ævinlega sem góðu sjóskipi, svo að breytingin hefur
verið happasæl á skipinu á sínum tíma. Annars var þessi línuveiðari gerður áður
út frá Akranesi og átti þá skipið Bjarni Ólafsson, skipstjóri, sá hörkuduglegi
sjómaður og reyndist skipið vel á síldveiðum. Endalok skipsins urðu þau, að það
var selt í brotajárn árið 1950. Hér er mynd af Bjarka frá Siglufirði, þegar
unnið var að stækkun skipsins í gömlu slippstöðinni á Akureyri veturinn 1943 og
1944.
Þjóðviljinn. 21 nóvember 1965.
06.11.2017 17:29
340. Björgvin NK 26.
05.11.2017 09:41
Breskir togarar stranda í Önundarfirði í nóvember 1912.
Crusader H 5 var smíðaður hjá Cook Welton & Gemmell Ltd í Beverley á Englandi árið 1904. 259 brl að stærð og var í eigu Marine Steam Fishing Company Ltd í Hull. 12 manna áhöfn var á togaranum og skipstjóri var Niels Madson.
Crusader H 5 á strandstað innan við Flateyri í Önundarfirði. (C) Handels & Söfart museets.dk
Crusader H 5. Unnið við viðgerð á skipinu á strandstað. (C) Handels & Söfart museets.dk
Hulltogarinn Crusader H 5 á siglingu. Mynd úr safni mínu.
Botnvörpungar
stranda
Aðfaranótt miðvikudags strönduðu 3 brezkir botnvörpungar á
Önundarfirði, Geir kvaddur til hjálpar. Í fyrrinótt strandaði þýzkur
botnvörpungur á útsigling frá Ísafirði. Búist við, að nást mundi út.
Ísafold. 9 nóvember 1912.
Togaraströnd
við Vestfirði
Fyrstu daga nóvembermánaðar árið 1912 var ríkjandi norðan og norðaustan hvassviðri við Vestfirði. Leituðu þá margir erlendir togarar í var inn á firðina þar. 6 nóvember gerði ofsaveður á þessum slóðum, sem stóð aðreins í nokkrar klukkustundir. Slitnuðu þá sex erlendir togarar upp og rak þá í srtand. Þrír þessara togara strönduðu við Önundarfjörð. Náði einn þeirra sér strax á flot aftur og sigldi þá til hafs. Annar komst á flot á næsta flóði, en nokkrar skemmdir höfðu orðið á honum svo hann var ósjálfbjarga. Þriðji togarinn sat fastur á strandstað sínum, en skipshöfnin komst í land á björgunarbátnum. Tveir breskir togarar strönduðu við Patreksfjörð.
Áhafnir þeirra komust hjálparlaust í land þegar óveðrinu tók að slota. Sjötti togarinn strandaði svo við Ísafjörð. Var sá þýskur. Dvaldi áhöfn hans um borð næsta sólarhring, en fór þá í land, þar sem útlit var á að veður versnaði aftur. Björgunarskipið Geir var sent frá Reykjavík til þess að aðstoða togaranna. Kom það vestur 9 nóvember. Dró Geir fyrst út togaranna sem strandað höfðu við Patreksfjörð, síðan togarann sem enn var fastur í Önundarfirði og loks togarann sem strandað við Ísafjörð.
Þrautgóðir á raunastund. X bindi.
Steinar J Lúðvíksson 1978.
04.11.2017 09:11
Frekjan BA 271. TFEL.
Frekjan BA
271
Um lágnættið Þann 12. ágúst árið 1940, þegar styrjöld
Þjóðverja og breta var í algleymingi, renndi lítil, nær hálfrar aldar gömul
skúta upp að gamla hafnarbakkanum hér í Reykjavík. Var hér á ferð Frekjan undir stjórn Lárusar Blöndal
skipstjóra að koma til Íslands eftir 22
sólarhringa útivist frá Danmörku með sjö manna áhöfn, en Þeir voru :
Lárus Blöndal, skipstjóri, Gunnar Guðjónsson (skipamiðlari) stýrimaður, Gísli
Jónsson (alþm.) 1. Vélstjóri, Björgvin
Frederiksen (frkvstj.) 2. vélstjóri, Úlfar Þórðarson (augnlæknir) matsveinn,
Konráð Jónsson (verzlm.) háseti og Theodór Skúlason (læknir) háseti. Höfðu menn
þessir lokazt inni í Danmörku af ófriðarástæðum, en fengið leyfi þýzkra
hernaðarayfirvalda til skipakaupanna og Íslandsferðar. Gísli Jónsson keypti 32
lesta bát með 70 hestafla Gamma vél fyrir 8.500 danskar kr. Seljandi var
hálfáttræður skipstjóri í Frederikshavn, Knudsen að nafni. Hét skútan eftir
tengdaföður hans, Anders Morse. Mikla blessun kvað hann hafa fylgt skútunni þau
48 ár sem hann hefði stýrt henni á Ægisslóð, en það var ekki sízt að þakka
tréklossa negldum í stýrishúsi, hvar hann var búinn að vera í 40 ár eftir að
Knudsen hefði þegið hann í lífgjöf frá skipsbrotsmanni, sem hann hafði bjargað
af rekaldi í Norðursjónum. Þrivegis hafði Knudsen unnið til verðlauna fyrir
hraðsiglingu í Englandsferðum á Anders Morse.
Nokkuð var skútan illa útlítandi enda komin til ára sinna, smíðuð í Troense
1888 eða 52 ára gömul. Eftir að hafa dyttað að bátnum eftir föngum og gefið
honum nafnið Frekjan, var haldið úr höfn með blessunaróskir Knudsens og Maríu
konu hans. Lagt var upp frá Frederikshavn laugardaginn 20. júlí. Lá leiðin
fyrst um tundurduflasvæði til Kristiansand í Noregi, þar sem legið var í 5
daga. Síðar var haldið innan skerja norður með ströndinni. Stanzað var á
nokkrum stöðum, svo sem Lyngdalen, Langelandsvik, Stavanger, Haugasundi, Bergen
og við Holmengraat var norska ströndin yfirgefin þann 4. ágúst og stefnan tekin
á Færeyjar. Eftir rúmlega tveggja sólarhringa siglingu var komið til Þórshafnar.
Frá Færeyjum var svo haldið þann 8. ágúst og snemma morguns sunnudaginn 11.
ágúst renndi Frekjan fram hjá Heimakletti inn á Vestmannaeyjahöfn eftir 61
klukkustundar ferð frá Færeyjum. Hingað til Reykjavíkur kom svo skipið sem fyrr
greinir 12, 13. ágúst eftir giftusama ferð um hættusvæði. Hér hlaut báturinn
síðar nafnið Þerney RE 271 og var á skipaskrá fram til ársins 1950 og mun hafa
dagað uppi inn við Elliðaárvog.
Aðalmál bátsins voru: Lengd: 17.05 m. Breidd: 4.90 m. Dýpt: 1.79 m.
Skip. Guðmundur Sæmundson.
Æskan. 1 apríl 1973.
Frekjan við bryggju í Reykjavík. Ljósmyndari óþekktur.
Þeir komust
heim með "Frekju"
Fyrsta
skipsferðin frá Danmörku var söguleg
Gísli
Jónsson vjelstjóri segir frá
Á sunnudagskvöld um miðnætti renndi fyrsta skipið hjer inn á
höfnina, sem komið hefir frá Danmörku síðan Þjóðverjar hernámu landið. Það var
32 tonna fiskiskúta, er Gísli Jónsson vjelstjóri hafði keypt til
heimferðarinnar, og er ekki verulega álitleg til úthafsferða, en heitir Frekja.
Fyrir alllöngu hafði það frjest hingað heim, að von væri á þeim Gísla og
Gunnari Guðjónssyni skipamiðlara frá Danmörku á einhvrejum farkosti, er þeir
fengju þar. En margir lögðu ekki meira en svo trúnað á, að sú ferð myndi takast,
leyfi fást, sem til þess þyrfti og allur útbúnaður til fararinnar. En þetta
tókst allt vonum framar, eins og Gísli Jónsson skýrði blaðinu frá í gær, og
voru erfiðleikarnir þó hvað mestir að komast af stað. Ferðin tók þrjár vikur,
og gekk að heita mátti greiðlega.
Skipshöfnin var þessi:
Lárus Blöndal, skipstjóri.
Gísli Jónsson, 1. vjelstjóri.
Gunnar Guðjónsson skipamiðlari, 1. stýrimaður.
Björgvin Fredriksen, 2. vjelstjóri.
Úlfar Þórðarson, læknir. matsveinn.
Theódór Skúlason læknir, háseti.
Konráð Jónsson, verslunarmaður, háseti.
Tíðindamaður blaðsins hitti Gísla Jónsson að máli í gær á heimili hans,
Bárugötu 2. Um ferðalag hans og þeirra fjelaga og undirbúning undir heimferðina
komst hann að orði á þessa leið:
Jeg fór með Gullfossi út í marslok og ætlaði fljótlega heim aftur. Svo
utanlandsferð mín varð æðimikið lengri en ráð var fyrir gert. Er Gullfoss
teptist og skipagöngur yfirleitt frá Danmörku, ætlaði jeg að komast heim með
Eddu yfir Genua og hafði fengið vegabrjef til þess. En þegar til kom hafði jeg
ekki lokið erindrekstri mínum ytra, og hætti við þá ferð, enda var þá von á að
Esja fengi að sækja fólk til Petsamo er vildi komast heim. En þegar það brást,
tók jeg til að svipast eftir farkosti til að komast heim. En til þess að það
mætti takast, varð skipið að vera alveg sjerstökum kostum búið. Í fyrsta lagi
þurfti það að vera þannig, að Dönum væri ekki eftirsjá í því. Í öðru lagi
þurfti það að vera þannig, að Þjóðverjar gætu ekki notað það til sinna þarfa.
En þrátt fyrir þessa ófrávíkjanlegu "kosti" þurfti fleyt- áh í þriðja lagi
að vera þannig, að farandi væri á henni yfir hafið. Og loks mátti hún ekki vera
alltof dýr, því ekki kom til mála að hún fengist vátrygð í ferð þessa. Svo
hepnir vorum við Gunnar Guðjónsson, en hann var með í ráðum öllum, að við
hittum á 52 ára gamla Fredrikshavnsskútu, sem uppfyllti öll þessi skilyrði. Hún
er úr eik, með nýlegum 70 hesta mótor. Og hún reyndist okkur alveg ágætlega,
gekk sínar 7-8 mílur lengst af, þó veður væri ekki sem hagstæðast.
Er hjer var komið sögu sóttum við um leyfi til Þjóðverja að mega sigla til
Íslands 5-7 manns á skipi þessu. Umsókn um þetta sendum við þann 13. júní og
fengum svar þann 29. sama mánaðar, að við mættum sigla okkar sjó á skútunni. En
í leyfisbrjefinu var okkur jafnframt bent á, að það væri óráð legt fyrir okkur
að leggja á hafið á slíku skipi.
Gunnar Guðjónsson skipamiðlari og stýrimaður um borð í Frekjunni. Ljósmyndari óþekktur.
Nú komu erfiðleikarnir gagnvart Dönum; fá að kaupa bátinn og útflutningsleyfi á
honum og olíu og annað, sem þurfti til
fararinnar. Það tók 3 vikur. Og það var víst einhverntíma á því tímabili, sem
Gunnari Guðjónssyni datt í hug að gefa bátnupm nafnið "Frekja" . Þegar
þýska leyfið var fengið, þótti hart aðgöngu að gefast upp við ferðalagið. Með
"Frekju" , komumst við líka klakklaust alla leið. Við fengum 3 1/2 tonn af
olíu, og áttum nokkuð eftir, er hingað kom. Vistir höfðum við til fimm vikna,
og svo föt og ferðafarangur eins og gengur. Annað var ekki í skipinu. Póst
tókum við engan, nema stjórnarpóst, nokkra böggla,en hann var tekinn af okkur í
Færeyjum og sendur til London til skoðunar.
Þ. 21. júlí kl. 3 að nóttu lögðum við af stað frá Frederikshavn, áleiðis til
Christianssand í Noregi. Ferðaleyfi okkar frá þýsku stjórninni gilti í raun og
veru ekki lengra en til Noregs. Þar skyldu þýsku hernaðaryfirvöldin
"framlengja" það. Með leyfinu fylgdi lýsing á því, hvernig siglingaleiðin
skyldi vera, til þess að við kæmumst hjá duflum. Ferðin gekk vel yfir Skagerak
til Christianssand. Við fengum að vísu rysjuveður, svo öll var skipshöfnin
sjóveik, að undanteknum skipstjóranum. Og undir Noreg vorum við komnir fyrir
kvöldið, lágum utan við Christianssand um nóttina, og sigldum þar inn næsta
morgun. Allmörg rekdufl sáum við á leiðinni yfir Skagerak.
Í Chritsianssand urðum við að bíða í 6 daga, og komumst þaðan 27. júlí. Þýsku
hernaðaryfirvöldin tóku okkur vel þar, og ljek aldrei vafi á, að við gætum
fengið að halda áfram, úr því að fararleyfi var fengið í Danmörku. En það
leyndi sjer ekki, að ýmsum datt í hug, er þangað var komið, að hjer væri ekki
allt með feldu. Við kynnum að vera í þjónustu Þjóðverja á einhvern hátt. Annars
hefðum við ekki fengið fararleyfi, ekki fengið skipið og ekki olíuna. Svo
miklir erfiðleikar töldu menn á að fá þetta allt saman fyrir óbreytta
ferðalanga eins og okkur. Í Christianssand voru okkur fengin í hendur fyrirmæli
um það, hvaða leið við skyldum fara meðfram norsku ströndinni, innanskerja, þar
sem það var hægt, en annars sem allra næst landi. Við komum við í Stavangri,
Haugasundi og Bergen, og var allstaðar vel tekið og greitt fyrir ferð okkar á
alla lund. En í Bergen urðum við að bíða eftir því í 2 daga, að fá að leggja
frá landi. Þar var okkur sagt, að það væri annmörkum bundið að fá slíkt
ferðaleyfi. Því það þyrfti að tilkynna 150 varðstöðvum að för okkar skyldi ekki
heft og við skyldum ekki reknir til lands, ef þýsk flugvjel, skip eða
strandverðir yrðu okkar varir. Að þetta þurfti að gera mun
koma til af því, að norskir menn hafa víst, alloft gert tilraun til þess að,
flýja land í litlum fiskiskipum og þau verið stöðvuð og gerð afturræk, er til
þeirra náðist.
Gísli Jónsson var enginn eftirbátur bróður síns, Guðmundar Kambans, þegar segja þarf sögu á skemmtilegan hátt, enda gerði hann það vel í þessari bók sem kom út árið 1941.
Þann 2. ágúst lögðum við af stað frá Bergen og þann 3. ágúst lögðum við frá
landi á haf út og komun þann 5. ágúst til Færeyja. Þar mættum við í fyrstu sömu
tortrygni og við áður höfðum fundið um það, að við kynnum að eiga annað erindi
til Íslands, en upp var gefið. Fengum við Iítið samband að hafa við fólk þar.
En þetta kom ekki að sök og á fimmtudaginn fengum við fararleyfi frá
hernaðaryfirvöldunum þar. Eftir 60 klst. siglingu komum við til Vestmannaeyja á
sunnudagsmorgun, og á sunnudagskvöld vorum við hjer.
Þjer sögðuð að Gunnar Guðjónsson hafi verið 1. stýrimaður. Kunni hann á kompás?
Hann lærði það á leiðinni. Og honum gekk afbragðs vel að stýra, er hann hafði fengið nokkra æfingu. Yfirleitt var
ferðin öll hin ánægjulegasta. Skútan fór vel í sjó, mátti ganga þurrfóta á
sokkaleistunum um þilfarið mest af tímanum. En hún valt stundum talsvert.
Ekkert óhapp kom fyrir okkur alla leiðina. Við fórum ekki úr fötum og vorum
skeggjaðir og ótilhafðir eins og ferðalaginu sæmdi. Og þegar til Vestmannaeyja
kom, þá voru "landkrabbarnir orðnir svo sjóaðir og sjómannslegir, að
hafnarvörðurinn, sem við höfðum tal af, spurði þá að því, hvar þeir hefðu róið
síðast.
Morgunblaðið. 13 ágúst 1940.
02.11.2017 17:22
B. v. Ólafur RE 7. LBCT / TFLD.
Botnvörpungurinn Ólafur RE 7 var smíðaður hjá Koopman Skipasmíðastöðinni í Dordrecht í Hollandi árið 1926 fyrir Fiskiveiðahlutafélagið Sleipni í Reykjavík. Hét fyrst Glaður RE 248. 339 brl. 600 ha. 3 þennslu gufuvél. 42,92 x 7,22 x 3,98 m. Smíðanúmer 99. Seldur sama ár, H.P. Duus í Reykjavík, fær nafnið Ólafur RE 7. Seldur í janúar 1929, h/f Alliance í Reykjavík. Togarinn fórst á Halamiðum, 2 nóvember 1938 með allri áhöfn, 21 manni.
Mikil leit var gerð af togaranum í marga daga, en hún varð árangurslaus og hann talin af.
B.v. Ólafur RE 7. (C) Guðbjartur Ásgeirsson. |
B.v. Ólafur RE 7 að veiðum. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
Togarinn Ólafur, ekkert heyrst
frá honum í 3 daga
Ekkert hefir spurst eða heyrst til togarans Ólafs síðan aðfaranótt miðvikudags, og er því farið að undrast um hann. Hefir fjeagið Alliance spurst fvrir um togarann hjá skipum og í landi, en engar fregnir fengið af honum. Ólafur var á veiðum vestur á Halamiðum, ásamt fleiri togurum. Aðfaranótt miðvikudags og á miðvikudag gerði storm þar á miðunum, svo verið getur að loftskeytaútbúnaður Ólafs hafi þá bilað og það sje ástæðan til þess, að ekkert hefir heyrst frá honum síðan. Mun Allianee gera allt sem mögulegt er til þess að fá fregnir af togaranum, m. a. munu 9 togarar, sem eru á þessum slóðum, ásamt Óðni og Sæbjörgu, hefja leit að skipinu. Einnig er í ráði að Ægir fari að leita, en hann er væntanlegur hingað snemma í dag með enska togarann „Lincolnshire", sem strandaði á dögunum, og Ægir náði út.
Morgunblaðið. 5 nóvember 1938.
B.v. Ólafur RE 7 fjær og Garðar GK 25 að landa síld á Djúpavík. (C) Sigurjón Vigfússon. |
B.v. Ólafur talinn af
Með skipinu fórst 21 maður
Leitin að botnvörpungnum Ólafi var að mestu leyti hætt í gær, enda var það kunnugra manna mál, þeirra er voru á sömu slóðum og Ólafur í óveðrinu, að lítil von væri um að skipið væri ofansjávar. Skipshöfnin á Ólafi var 20 manns og skipstjóri sá 21. Þessir menn láta eftir sig 13 ekkjur og 18 börn 15 ára og yngri:
Sigurjón Mýrdal skipstjóri, Baldursgötu 31, f. 2. mars 1890 að Bakkakoti í Gerðahreppi. Heima í Reykjavík síðan 1932. Kona hans : Steinunn. Börn þeirra : 21, 19, 17, 15 og 12 ára.
Gísli Erlendsson 1.stýrim., Ásvallagötu 10 A, f. 20. júní 1907 í Reykjavík. Kona hans: Ásta Guðríður Tómasdóttir.
Guðmundur Þorvaldsson 2. stýrimaður, Grettisgötu 2 A, f. 14. des. 1906 í Reykjavík. Ókvæntur. Uppeldissonur Jóns Sigurðssonar framkvæmdastj.
Ólafur Pjetursson bátsmaður, Lokastíg 2, f. 25. nóv. 1889 í Reykjavík. Kona hans: Þórunn Sigurfinnsdóttir. Börn þeirra: 21 og 18 ára. Tengdafaðir 79 ára.
Jón Hjálmarsson 1. vjelstjóri, Sólvallagötu 18, f. 1. okt. 1889 að Stakkadal í Sljettuhreppi. Heima í Reykjavík síðan 1911. Kona hans: Elísabet Sigfúsdóttir. Börn þeirra: 22, 20 og 18 ára.
Halldór Lárusson 2. vjelstjóri, Ránargötu 11, f. 9. okt. að Breiðabólsstað á Skógarströnd. Heima í Reykjavík síðan 1918. Kona hans: Hrefna Lea Magnúsdóttir, Barn þeirra: 3ja ára og á 1. ári.
Kristján Eyjólfsson loftskeytamaður, Þórsgötu, 7 A, f. 11. sept. 1913 að Miðhúsum í Reykhólahreppi. Heima í Reykjavík frá 1915. Hjá foreldrum sínum, Önnu Árnadóttur og Eyjólfi Guðmundssyni.
Sigurður Árni Guðmundsson matsveinn, Sólvallagötu 18, f. 8. sept. 1907 að Vörum í Gerðahreppi. Heima í Reykjavík frá 1920. Kona hans: Jóhanna K;O. Guðmundsdóttir. Börn þeirra: 3ja ára og á 1. ári. Bárður Lárussan kyndari, Vesturgötu 66, f. 7. maí 1902 í Reykjavík Bjó hjá móður sinni, Arnbjörgu Einarsdóttur ekkju. (Bróðir Halldórs 2. vjelstjóra).
Björn Friðriksson. kyndari, Þvergötu 3; f. 22. júní 1910 að' Stóra Ósi í Ytri-Torfustaðahreppi. Heima í Reykjavík frá 1937. Sonur Friðriks Arnbjarnarsonar hreppstj., Stóra-Ósi.
Halldór Vilberg Júlíus Jónsson bræðslum., Baldursgötu 31, f. 26. des. 1905 í Winnipeg. heima í Reykjavík síðan 1929.
Friðleifur Samúelsson háseti, Grettisgötu 10, f. 4. mars 1896 að Bæ í Miðdölum. Heima í Reykjavík síðan 1922. Bjó með Jónu Bjarneyju Ólafsdóttur. Eftirlátin börn eru,- 13, 11, 9, 7 og 3ja ára. Guðmundur Elentínus Guðmundsson háseti, Lindargötu 38, f. 16. mars 1917 að Helgastöðum í Gerðahreppi. Heima í Reykjavík frá 1921. Hjá foreldrum sínum, Guðmundi T. Helgasyni og Sesselju Árnadóttur, (Bróðir Sigurðar, er var matsveinn).
Guðmundur Magnússon háseti, Kirkjustræti 4, f. 23. okt. 1899 að Hrauni í Ölfusi. Heima í Reykjavík frá 1920.
Guðmundur Sigurðsson háseti, Langeyrarvegi 10, Hafnarfirði, f. 24. júní 1894 að Teigabúð á Akranesi. Kona hans, Hrefna Jónsdóttir. Eitt barn 15 ára og móðir á áttræðisaldri á Akranesi, sem missti annan son sinn í sjóinn á sömu slóðum af „Fieldmarshal Robertson" árið 1925.
Guðmundur Þórarinsson háseti, Bárugötu 38, f. 6. ágúst 1900 í Reykjavík. Kona hans: Sigurbjörg Guðmundsdóttir. Börn þeirra: 8, 6 og 4ra ára.
Guðni Ólafsson háseti, Barónsstíg 21, f. 9. febrúar 1894 að Ytra- Hóli , í Vestur-Landeyjum. Heima í Reykjavík síðan 1921. Bjó hjá móður sinni 83ja ára.
Lárus Björn Berg Sigurbjörnsson háseti, Njarðargötu 41, f. 17. des. 1909 að Höfða í Mýrarhreppi, Dýrafirði. Heima í Reykjavík síðan 1919. Kona hans, Sveinsína Guðrún Jóramsdóttir. Barn 5 ára.
Óskar Gísli Halldórsson háseti, Hringbraut 178, f. 17. júní 1903 að Klöpp á Akranesi. Heima í Reykjavík síðan 1904. Kona hans: Guðrún Ágústa Erlendsdóttir.
Sigurjón Ingvarsson háseti, Aðalstræti 9, f. 7. júuí 1912 í Reykjavík. Bjó með Gunnhildi Árnadóttur. Barn 2ja ára.
Sveinn Helgi Brandsson háseti, Lindargötu 20, f. 9. ágúst 1905 að Ísólfsskála í Grindavík. Heima í Reykjavík síðan 1930. Kona hans: Pálína Sigríður Vigfúsdóttir. Barn 9 ára.
T ogarinn „Ólafur“ var með yngstu skipum togaraflotans, eða 12 ára gamall, byggður í Dordricht í Hollandi fyrir hlutafjelagið „Sleipnir". Fullgert var skipið árið 1926 og hjet þá „Glaður". Sleipnir seldi togarann verslun H. P. Duus sama ár og var hann þá skírður um og nefndur „Ólafur". Í ársbyrjun 1929 keypti Alliance h.f. togarann, og hefir hann verið í fjelagsins eign síðan. „Ólafur" var sterkt skip og vel við haldið, eins og öllum skipum Alliance. B.v. „Ólafur" var 339 smálestir brúttó að stærð og 42.9 metrar að lengd.
Morgunblaðið. 8 nóvember 1938.
31.10.2017 19:33
2894. Björg EA 7. TFKO.
2894. Björg EA 7.
Nýr ísfisktogari til Akureyrar
Björg EA-7, nýr ferskfisktogari Samherja hf. lagðist að
bryggju á Akureyri í fyrsta sinn í hádeginu í dag. Skipið er það fjórða og
síðasta í seríu togara sem Cemre skipasmíðastöðin í Tyrklandi hefur afhent á
þessu ári til íslenskra útgerða. Fyrstur var Kaldbakur EA-1 í eigu
Útgerðarfélags Akureyringa, dótturfélags Samherja hf., síðan Björgúlfur EA-312
í eigu Samherja hf., Drangey SK-2 í eigu FISK Seafood og nú Björg EA í eigu
Samherja hf. Skipin eru hönnun frá Skiptatækni ehf. Strax eftir heimkomu Bjargar
EA verður hafist handa hjá Slippnum Akureyri við niðursetningu vinnslubúnaðar á
milliþilfar skipsins og er áformað að togarinn haldi til veiða snemma á næsta
ári.
Skipið er 62,5 metra langt skip
og 13,5 metra breitt. Það er skráð 2081 brúttótonn og hefur 14 hnúta
siglingahraða að hámarki. Það er búið Yanmar aðalvél sem Marás ehf. hefur umboð
fyrir hér á landi. Hún skilar 1620 kW afli við 750 snúninga og getur bæði keyrt
á svartolíu og gasolíu. Skrúfa skipsins er 3,8 m í þvermál og er skipið búið
kerfum sem reikna út bestu nýtingu orku hvort heldur það er á veiðum eða
siglingu.
Allar vindur skipsins eru knúnar með rafmagni og koma frá norska
framleiðandanum Seaonics. Togafl skipsins er 40 tonn. Í lest rúmar það 225 tonn
af fiski (750 stk 460 lítra kör) en lestin er tæplega 1000 rúmmetrar að stærð.
Í henni er ný gerð af krana sem gengur á brautum í lestarloftinu, nokkurs konar
hlaupaköttur. Þessi búnaður er notaður til að raða fiskikerum í lestina en hann
er hollenskur að uppruna og er ný tækni í lestum fiskiskipa.
Í brú skipsins er m.a. svokallaður skjáveggur sem þar sem skipstjóri getur
verið með samtímis alla helstu upplýsingaglugga úr siglinga- og
fiskileitarbúnaði skipsins. Þessi tækni er frá fyrirtækjunum Brimrún ehf. og
Nordata ehf. Veiðarfæranemar eru frá Marport.
Fiskvinnslusvæði á milliþilfari er rúmir 400 fermetrar að stærð og þar verður
aðgerðaraðstaða og búnaður til fullkælingar á afla áður en hann er settur í
lest. Fiskinum verður raðað í kör á milliþilfarinu og þaðan fara þau með lyftum
niður í lest.
Nýja skipið ber nafn Bjargar Finnbogadóttur,
móður Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja hf., og fagnaði hún
skipinu við komuna til Akureyrar í dag. Í fiskiskipaflota fyrirtækisins eru eða
hafa verið skip sem heita í höfuð foreldra þeirra Samherjafrænda, Kristjáns
Vilhelmssonar og Þorsteins Más Baldvinssonar. Fyrst kom togarinn Baldvin
Þorsteinsson EA-10, nefndur í höfuðið á föður Þorsteins Más. Síðan
fjölveiðiskipið Vilhelm Þorsteinsson EA-11, sem heitir eftir föður Kristjáns.
Síðan kom Anna EA-305 sem er nefnd í höfuð á Önnu Kristjánsdóttur móður
Kristjáns og nú Björg EA-7 sem ber, líkt og áður segir, nafn Bjargar
Finnbogadóttur móður Þorsteins Más.
Kvótinn. 31 október 2017.
29.10.2017 20:23
B. v. Ver GK 3. LBMQ / TFXC.
Botnvörpungurinn Ver GK 3 var
smíðaður hjá Cochrane & Sons Ltd í Selby á Englandi árið 1920 fyrir breska
flotann. Hét þar Simeon Moon. Smíðanúmer 897. 314 brl. 550 ha. 3 þennslu
gufuvél. Seldur sama ár, Hellyers Bros Ltd í Hull, hét General Rawlinsson H 173.
Seldur 13 september 1924, Fiskveiðahlutafélaginu Víði í Hafnarfirði, hét Ver GK
3. Skipið var selt 4 september 1931, h/f Ver í Hafnarfirði, hét Ver RE 32. Selt
18 apríl 1936, Togarafélagi Neskaupstaðar í Neskaupstað, hét Brimir NK 75.
Seldur 29 júlí 1939, Hlutafélaginu Helgafelli í Reykjavík (Skúli Thorarensen),
hét þar Helgafell RE 280. Selt 15 júní 1945, Hlutafélaginu Hrímfaxa í Reykjavík
og Hlutafélaginu Sviða í Hafnarfirði, skipið hét Skinfaxi GK 3. Skipið var selt
til Færeyja í ágúst 1947, hét þar Miðafell FD 69. Togarinn var seldur í
brotajárn til Antwerpen í Belgíu og rifinn þar í október árið 1951.
B.v. Ver GK 3 á siglingu með nótabátana í afturdragi. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
B.v. Brimir NK 75 við bryggju í Neskaupstað sumarið 1937. (C) Björn Björnsson.
Brimir við bryggju Fóðurmjölsverksmiðju Norðfjarðar sumarið 1937. Ljósmyndari óþekktur.
B.v. Helgafell RE 280. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
Nýr
botnvörpungur
,,Vor'' heitir nýr togari, sem h.f. Víðir í Hafnarfirði
hefir keypt í Englandi. Hann kom í fyrradag frá Englandi. Er það fallegt skip,
fjögra ára gamalt. Halldór Þorsteinsson skipstjóri keypti skipið og kom með það
upp.
Morgunblaðið. 13 september 1924.
Botnvörpungurinn
" Ver "
"Ver" , en ekki "Vor,", eins og misprentast hafði
í blaðinu í gær, heitir hinn nýi togari h.f. Víðis í Hafnarfirði.
Morgunblaðið. 14 september 1924.
29.10.2017 11:01
1292. Sigurður Baldvin KE 22. TFWI.
1292. Sigurður Baldvin KE 22 í prufusiglingu á sundunum í Reykjavík. Ljósmyndari óþekktur.
Víðtæk leit
gerð að tveimur sjómönnum á Ísafjarðardjúpi
Bátur þeirra
fannst mannlaus hringsóli tvær sjómílur út af Krossavík í Stigahlíð
Um kvöldmatarleytið í gærkvöldi var hafin umfangsmikil leit
í Ísafjarðardjúpi að tveimur mönnum af rúmlega 20 tonna trébáti frá
Bolungarvík. Komið var að bátnum, um tvær sjómílur út af Krossavík í Stigahlíð,
þar sem hann hringsólaði mannlaus. Tókst að koma manni um borð í bátinn og varð
þá ljóst að sjór hafði gengið yfir hann og er talið að mennina hafi tekið út
við það. Þegar báturinn fannst var veður slæmt, norðaustan sjö til átta
vindstig, snjókoma og frost.
Fjöldi nærstaddra skipa og báta hóf þegar leit og bátar héldu til leitar frá
Bolungarvík. Leitarflokkar frá Björgunarsveitinni Erni frá Bolungarvík gengu
fjörur. Auk þess var eftirgrennslan hafin frá Galtavita. Danska eftirlitsskipið
Vædderen, var statt fyrir vestan og kom fljótlega á slysstað til aðstoðar.
Varðskip var á leiðinni á slysstað í gærkvöldi og var von á því vestur upp úr
miðnætti. Veður var heldur að ganga niður og að sögn leitarmanna eru aðstæður
til leitar ágætar. Þegar Morgunblaðið fór í prentun í gærkvöldi var jafnvel
talið að slysið hafi orðið um það leyti sem báturinn var að halda til lands,
eftir að hafa dregið línur þær sem hann var með í sjó. Ef það reynist rétt er
líklegt að slysið hafi orðið um kl. 16 í gær. Ekki er hægt að svo stöddu að
birta nöfn mannanna tveggja sem saknað er né heldur nafn bátsins sem þeir voru
á.
Morgunblaðið. 19 desember 1990.
Þeir sem
fórust af Hauki ÍS
Mennirnir tveir sem leitað hefur verið að frá því bátur
þeirra, Haukur ÍS 195, fannst mannlaus í ísafjarðardjúpi 18. desember sl. eru
taldir af og skipulagðri leit verið hætt. Félagar úr Björgunarsveitinni Erni
leita þó með ströndum og á fjörum eftir því sem veður leyfir næstu daga.
Mennirnir sem fórust voru:
Vagn Margeir Hrólfsson, skipstjóri, til heimilis á Þjóðólfsvegi 5 í
Bolungarvík. Hann var 52 ára gamall, fæddur 25. apríl 1938, og lætur eftir sig
eiginkonu, Birnu Hjaltalín Pálsdóttur, og sjö uppkomin börn. Gunnar Örn
Svavarsson, háseti, Traðarlandi 19 í Bolungarvík. Hann var 29 ára, fæddur 3.
janúar 1961, og lætur eftir sig eiginkonu, Margréti Vagnsdóttur. Gunnar Örn var
tengdasonur Vagns og Birnu.
Morgunblaðið. 29 desember 1990.
Skemmti og hvalaskoðunarskipið Haukur ÞH í Húsavíkurhöfn. (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.
Skonnortan Haukur ÞH á siglingu. (C) Haukur Sigtryggur Valdimarsson.
Norðursigling
á Húsavík
Eitt helsta
markmið Norðursiglingar er varðveisla íslenskra eikarbáta. Með smíði eikarbáta
náðu íslenskir iðnaðarmenn einstaklega langt í því handverki svo að nánast er
um listgrein að ræða. Smiðareglurnar voru strangari hér á landi bæði hvað
varðar styrkleika og val á efni. Norðursigling hefur haft eikarbáta í siglingu
með farþega á Skjálfanda síðan 1995. Sú reynsla hefur sýnt að eikarbátar eru
einstaklega þægilegir, hljóðlátir og hafa rólegar hreyfingar og henta
eikarbátar Norðursiglingar því einkar vel til hvala og náttúruskoðunar.
Tveir af bátum Norðursiglingar hafa verið endurbyggðir sem tveggja mastra
seglskip og svipar þeim mjög til fiskiskonnorta þeirra sem algengar voru við
Norðurland á seinni hluta 19. aldar. Með þessu vill Norðursigling viðhalda
kunnáttu sem nærri var gleymd og sjá til þessi að gömul gildi gleymist ekki.
Skúturnar tvær, Haukur og Hildur, eru báðar notaðar
í almennar ferðir Norðursiglingar og eru einnig til taks í sérhæfðari verkefni.
Heimasíða
Norðursiglingar á Húsavík.
28.10.2017 17:59
Langanes NK 30. TFJV.
Langanes NK 30 var smíðaður hjá Dráttarbrautinni h/f í Neskaupstað árið 1956. Eik. 59 brl. 280 ha. Mannheim díesel vél. Langanesi var hleypt af stokkunum 21 febrúar sama ár. Eigendur voru bræðurnir Ársæll og Þorsteinn Júlíussynir útgerðarmenn í Neskaupstað frá 24 janúar 1956. Báturinn sökk um 18 sjómílur norðvestur af Vestmannaeyjum, 21 febrúar árið 1959 eftir að mikill og óstöðvandi leki kom að honum. Áhöfnin, 6 skipverjar, komust í björgunarbátanna og var þaðan bjargað um borð í Goðaborg NK 1 frá Neskaupstað. Hafði Langanesið verið gert út frá Vestmannaeyjum um veturinn. Skipstjóri á bátnum var Einar Guðmundsson. Þetta mun vera í fyrsta skipti sem Norðfirskir sjómenn bjargast í gúmmíbjörgunarbát af Norðfjarðarbáti sem ferst.
Langanes sökk nákvæmlega þremur árum eftir að því var hleypt af stokkunum hjá Dráttarbrautinni h/f í Neskaupstað.
Langanes NK 30
Þriðjudaginn 21. febrúar var hleypt af stokkunum í skipasmíðastöð Dráttarbrautarinnar h. f. nýjum fiskibáti nær 59 lesta stórum. Hlaut hann nafnið Langanes N. K. 30. Eigendur hans eru bræðurnar Ársæll og Þorsteinn Júlíussynir, Langanes fór áleiðis til Keflavíkur um mánaðamótin, en þaðan verður það gert út í vetur. Langanes er sterklegur bátur og vel útbúinn. Meðal annars hefur hann fisksjá og 10-12 manna gúmmíbjörgunarbát. Í bátnum er 240-375 ha. dieselvél og er ganghraði a. m. k. 13 sjómílur. Báturinn var smíðaður eftir teikningu Egils Þorfinnssonar, skipasmíðameistara í Keflavík. Yfirsmiður var Sverrir Gunnarsson. Vélsmiðja Dráttarbrautarinnar annaðist niðursetningu vélar og fleira þar að lútandi. Yfirmaður vélsmiðjunnar er Reynir Zoega. Raflagnir annaðist Raftækjavinnustofa Kristjáns Lundberg. Á nýsköpunarárunum voru smíðaðir hér þrír fiskibátar, en síðan hefur nýsmíði legið niðri. Það er mjög ánægjulegt að þessi iðnaður skuli hafinn að nýju, því hann er ákaflega mikils verður. Og ekki mun skipasmíðastöðina skorta verkefni á næstunni, því hún hefur tekið að sér smíði þriggja báta til viðbótar. Langanes mun vera stærsti báturinn sem smíðaður hefur verið á Austurlandi til þessa. Skipstjóri á bátnum er Þorsteinn Júlíusson, annar eigandi hans. Austurland óskar eigendum Langaness til hamingju með þennan myndarlega bát.
Austurland. 17 mars 1956.
Langanes NK 30 í smíðum hjá Dráttarbrautinni sumarið 1955. (C) Gunnar Þorsteinsson.
Langanes NK 30 nýsmíðaður á Norðfirði. (C) Gunnar Þorsteinsson.
Langanes NK 30 að landa síld á Vopnafirði. Ljósmyndari óþekktur.
Vélbáturinn Langanes frá Neskaupstað sökk á Eyjamiðum - mannbjörg
Skipverjar fóru í gúmbjörgunarbát og vélbáturinn Goðaborg tók þá upp síðar - Langanes sökk á skammri stundu
Rétt eftir hádegið í gær sendi vélbáturinn Langanes frá Neskaupstað út hjálparbeiðni, þar sem hann var staddur 18 sjómílur norðvestur af Vestmannaeyjum. Var mikill sjór kominn í skipið og óttuðust skipverjar, að Langanes myndi sökkva. Bátar þeir, er nærstaddir voru, brugðu skjótt við, skáru sumir frá sér línuna og héldu á slysstaðinn. Langanesið sökk skömmu síðar, en mannbjörg varð.
Vélbáturinn Langanes var eign bræðranna Þorsteins og Ársæls Júlíussona, en þeir eru Norðfirðingar. Báturinn var byggður í Skipasmíðastöð Neskaupstaðar árið 1956. Var hann úr eik, 59 smálestir með Mannheim dísilvél 250 hestafla. Voru einkennisstafir bátsins NK 30. Undanfarnar tvær vertíðar hefur Langanesið verið gert út frá Vestmannaeyjum og hefir það reynzt ágætlega. Skipstjóri í vetur var Einar Guðmundsson frá Sandvík, en hann er nú búsettur á Norðfirði, en skipverjar auk hans voru fimm.
Klukkan tíu mínútur yfir tvö sökk Langanesið og voru skipverjar þá komnir í gúmbjörgunarbát, en þess varð ekki langt að bíða, að bátar komu hinum nauðstöddu mönnum til hjálpar. Var það Norðfjarðarbáturinn Goðaborg NK 1, sem tók mennina um borð og flutti þá til Vestmannaeyja, en þangað komu þeir um klukkan 8 í gærkveldi.
Skipverjum leið vel við komuna til Vestmannaeyja og hafði þeim gengið vel að komast í björgunarbátinn. Þeir gátu enga skýringu gefið á orsök þess, að báturinn sökk. Veður var allhvasst en sjólítið. Hið fyrsta sem menn urðu varir við lekann, var það að matsveinninn var að störfum frammi í hásetaklefa. Tók hann þá allt í einu eftir því, að gólfhlerarnir flutu upp. Var þá hugað í vélarrúm, og var kominn mikill sjór í það og hækkaði hann ört. Seig báturinn fljótt, og var sýnt að ekki var annað að gera en fara í gúmbátanna. Sendu skipverjar þá út neyðarkall, sögðu að báturinn væri að sökkva og þeir væru að fara í bátana. Voru þeir nýlega búnir að losa gúmbátinn við skipið er Goðaborg kom.
Tíminn. 22 febrúar 1959.
27.10.2017 14:11
B. v. Leifur heppni RE 146. LCHW.
B.v. Leifur heppni RE 146 á Patreksfirði. (C) Ólafur Jóhannesson.
B.v. Leifur heppni RE 146 á Patreksfirði. (C) Ólafur Jóhannesson.
Halaveðrið
Laugardaginn 7. febrúar komu starfsmenn veðurstofunnar til
vinnu klukkan sex. Þeir hófu þegar að vinna úr veðurskeytum og útbúa veðurspá
dagsins. Spáin var tilbúin um klukkan hálf níu og sendi loftskeytamaður
stofunnar hana út með mors-lyklinum. Samtímis bárust veðurfregnirnar til þeirra
skipa er höfðu morsmóttökutæki. Ljóst var að djúp og kröpp lægð nálgaðist
landið. Bátar frá verstöðvum við Faxaflóa höfðu haldið til veiða um morguninn.
Upp úr hádegi var orðið það hvasst, að ekki var lengur veiðiveður. Þeir sneru
því til hafnar og voru að tínast inn, fram eftir deginum. Síðdegis voru þeir
allir komnir til lands, nema línubáturinn Sólveig. Var fljótlega farið að
óttast um afdrif bátsins, en hann hafði verið á veiðum úti af Stafnesi. Þegar
var hafin leit, gengnar voru fjörur og leitað á sjó. Fannst brak úr bátnum og
var þá Sólveig talin af og með henni sex menn. Víkur nú sögunni vestur á
Halamið, þar sem glíman við Ægi varð hvað hörðust og ægilegust. Þar voru 16
togarar á meðan óveðrið gekk yfir 7. og 8. febrúar.
Þetta voru íslensku togararnir Ari, Ása, Draupnir, Egill Skallagrímsson,
Gulltoppur, Gylfi, Hilmir, Jón forseti, Leifur heppni, Njörður, Surprise,
Tryggvi gamli og Þórólfur. Auk þeirra voru þrír enskir togarar, sem gerðir voru
út frá Hafnarfirði af bræðrunum Hellyer. Íslenskar áhafnir og skipstjórar voru
á þeim að mestu leyti. Þetta voru togararnir Ceresio, Earl Haig og
Fieldmarshall Robertson. Togaramir höfðu verið að toga fram eftir morgni þann
7. febrúar, en fengið lítinn afla. Þó hafði Leifur heppni veitt vel um nóttina
og var hann að ljúka fengsælum veiðitúr. Um hádegi hættu flestir togararnir að
toga, drógu inn vörpuna og tóku að ganga frá. Gert var að aflanum, varpan
bundin og allt lauslegt á dekkinu kyrfilega fest. Egill Skallagrímsson, Hilmir og
Gulltoppur sigldu framhjá Leifi heppna skömmu eftir hádegi; var Leifur þá enn
að veiðum og stóðu menn í aðgerð á þilfari, enda var þar þó nokkuð af fiski.
Síðdegis þennan laugardag var komið fárviðri og illt í sjó. Togararnir sneru
upp í storminn, því þannig vörðust þeir best sjógangnum. Stórsjór reið yfir
skipin og hættan á því að brotsjór skylli á þeim var gífurleg. Við bættist
ísing sem hlóðst á togarana; urðu möstrin sver sem reykháfar af hennar völdum.
Þrátt fyrir ítrustu varkárni á siglingu í svona veðri, varð varla komist hjá
skakkaföllum. Flestir togararnir urðu fyrir brotsjó. Earl Haig varð fyrir því
tvisvar í þessum túr:
Líkan af togaranum Leifi heppna RE 146. Ljósmyndari óþekktur.
Um leið reið brotsjórinn fram yfir skipið, bakborðsmegin. Þeir vissu ekki fyrr
til en þeir lágu í sjó, sem þeytti þeim sitt á hvað, og allt í einu var ekkert
þak á brúnni lengur. Sjórinn reif stýrishúsið af fyrir ofan brjósthæð. Gluggar,
þak og hurðir þeyttust út á sjó. Um leið kastaðist skipið enn á hliðina og lá
nú með möstrin í sjó. Sjórinn reif allt
með sér, þegar hann gekk yfir togarana. Hann braut flesta björgunarbátana, tók
með sér lifrarfötin og kastaði öllu til í lestunum. Við það fengu togararnir
slagsíðu, þar sem kol, salt og fiskur kastaðist út í aðra hliðina en hásetarnir
stóðu í stöðugum mokstri til þess að rétta þá af. Sjór flæddi inn í vélarrúm og
vistarverur neðan þilja, þannig að vatnsaustur bættist ofan á aðra vinnu
sjómannanna. Dælur skipanna vildu stíflast af völdum kola, er settust í þær, og
vélstjórarnir börðust við að halda kötlunum logandi og vélunum gangandi. Þetta
var erfitt verk, einkum eftir að sjór flæddi niður í vélarrúmin. Hitnaði
sjórinn fljótlega og vélstjórarnir brenndust á fótum við að standa í honum.
Þannig börðust sjómennirnir í nær tvo sólarhringa við náttúruöflin. Veðrinu
slotaði ekki fyrr en aðfaranótt mánudagsins 9. febrúar. Þá töldu skipstjórarnir
óhætt að snúa togurunum undan veðrinu og halda til lands. Þau skip sem best
voru á sig komin héldu til Reykjavíkur og Hafnarfjarðar en hin leituðu hafna á
Vestfjörðum. Erfiðlega gekk að ná til Vestfjarða símleiðis, þar sem símalínur
höfðu eyðilagst í fárviðrinu. Flest loftnet togaranna höfðu brotnað niður vegna
ísingar enda gekk seint að ná sambandi við þá eftir að veðrinu slotaði. Því
dróst að farið væri að örvænta um þau skip sem ekki náðist í. Togararnir sem
ekki höfðu loftnet fengu önnur skip til að senda skeyti til heimahafna sinna.
Af þeim skeytum sem fyrst bárust til Reykjavíkur sáu menn að togaraflotinn
hafði lent í alvarlegum vandræðum á Halamiðum.
B.v. Leifur heppni RE 146 á siglingu. (C) Guðbjartur Ásgeirsson.
Þegar leið á vikuna, höfðu allir togararnir tilkynnt sig nema Leifur heppni frá
Reykjavík og Fieldmarshall Robertson frá Hafnarfirði. Til þeirra hafði sést
eftir að óveðrið hófst. Eins og áður sagði, þá stóðu mennirnir á Leifi heppna
enn í aðgerð, er þrír togarar sigldu framhjá seinnihluta laugardagsins 7.
febrúar. Draupnir sigldi framhjá Fieldmarshall Robertson skömmu eftir að
óveðrið skall á. Einnig hafði verið haft loftskeytasamband við hann fram eftir
kvöldi og mun Tryggvi gamli einna síðast hafa gert það; var þá allt með felldu
um borð. Hvorugur togarinn hafði gefið út neyðarkall. Eigendur þeirra leituðu
til íslenskra stjórnvalda þann 11. febrúar og óskuðu eftir að varð- skipið
Fylla yrði sent til leitar. Eins og áður gat, voru Hellyerbræður eigendur
Fieldmarshall Robertson en eigandi Leifs heppna var útgerðarfélagið Geir
Thorsteinsson og Co. Varðskipið Fylla og togarinn Ceresio voru þegar send til
leitar, en hvorugt skipanna varð vart við hina týndu togara. Togaraeigendur
komu því saman til fundar og ákváðu að senda hóp togara til þess að leita
skipulega. Sunnudaginn 15. febrúar hófst skipulögð leit, þar sem skipin sigldu
með ákveðnu millibili á um 90 mílna svæði. Þannig áttu þau að kemba það svæði,
þar sem talið var líklegast að þá væri að finna. Togararnir sigldu meðan bjart
var en héldu kyrru fyrir á næturnar. Þessi víðtæka leit reyndist árangurslaus.
Skipin tvö voru talin af og með þeim fórust 67 menn, sex Englendingar og 61
íslendingur.
Sagnir. 1 apríl 1984.
Þeir
sem fórust með togaranum
Leifi
heppna RE 146
Á
»Leifi heppna« voru þessir 32 menn:
Gísli M. Oddson, skipstjóri, Skólavörðustíg 3 B. Ingólfur Helgason, 1.
stýrimaður, Hafnarfirði. Ásgeir Þórðarson, 2. stýrimaður, Bergstaðastræti. 37.
Valdemar Árnason, 1. vélstjóri, Hverfisgötu 16. Jón Halberg Einarsson, 2.
vélstjóri, Njálsgötu 39 B. Magnús Brynjólfsson, loftskeytamaður, Lindargötu 14.
Jón Cornelíus Pétursson, bátsmaður, Vesturgötu 25 B. Ólafur Jónsson, matsveinn,
Laugaveg 38. Sigmundur Jónsson, háseti, Laugaveg 27. Stefán Magnússon, háseti,
Njálsgötu 32 B. Jón Guðmundsson, háseti, Frakkastig 23. Ólafur Gíslason,
háseti, Hverfisgötu 32. Þorbjörn Sæmundsson, háseti, Bergþórugötu 4. Oddur
Rósmundsson, háseti. Bergþórugötu 7. Ólafur Brynjólfsson, háseti, Lindargötu
14. Jónas Guðmundsson, háseti, Akranesi. Sveinbjörn Elíasson, háseti,
Bolungavík. Sigurður Guðmundsson, háseti, Önundarfirði. Sigurjón Jónsson,
háseti, Bergstaðastræti 30 B. Helgi Andrésson, háseti, Mjóstræti 4. Jón
Sigmundsson, háseti, Laugaveg 50. Jón Hálfdánarson, háseti, Hafnarstræti 18.
Randver Ásbjörnsson, háseti, Rauðarárstíg 9, Jón Jónsson, háseti, Austurstræti
11. Sigurður Lárusson, háseti, Bröttugötu 6. Sigurður Jónssson, háseti,
Miðstræti 8 B. Sigurður Albert Jóhannesson, háseli, Hverfisgötu 16. Sveinn
Stefánsson, háseti, Miðhús í Garði. Þorlákur Einarsson, háseti, Rúfeyjum, á
Breiðafirði. Jón Sigurðsson, háseti, Sveinseyri, Dýrafirði. Ólafur.
Þorleifsson, kyndari, Vatnsstíg 4, Björgvin Kr. Friðsteinsson, kyndari,
Laufásvegi 27.
Ægir. 1 mars 1925.
25.10.2017 12:39
Þilskipið Ragnar BA 104. LBJN.
Ásigling
Á sunnudaginn 18. þ. m. í góðu og björtu veðri sigldi
botnvörpungur frá Hull á fiskiskipið »Ragnar« frá Patreksfirði úti fyrir
Breiðafirði. Rifnaði hliðin á Rngnari og sökk skipið þegar. Skipverjar
björguðust þó allir á botnvörpunginn og hjelt hann með þá inn til
Patreksfjarðar.
»Ragnar« var eign Pjeturs A. Ólafssonar ræðismanns á Patreksfirði og var
óvátryggður. Gekk illa með fyrstu að fá skipstjórann á botnvörpungnum til þess
að viðurkenna, að ásiglingin væri sjer að kenna og stóð vitnaleiðsla og málarekstur
um það í tvo daga. En loks gekk hann inn á að bæta skaðann, en ekki munu það
vera fullar bætur.
Vísir. 26 ágúst 1912.
24.10.2017 15:25
S. t. Earl Kitchener H 345.
Þetta skip átti sér talsverða sögu hér við land. Hann var einn hinna togara sem Hellyersbræður gerðu út frá Hafnarfirði á þriðja áratugnum, gert út þaðan frá hausti 1925 til vors árið eftir. Alexander Jóhannesson var fiskiskipstjóri á honum. Árið 1926 var hann einn þeirra togara sem björguðu Grindavíkurbátum í áhlaupsveðri 13 apríl það ár. Áður hafði þó Earl Kitchener orðið frægur með endemum sem landhelgisbrjótur hér við land. Þá var skipstjóri á honum Thomas Worthington (kallaður "Snowy" vegna háralitarins). Hann var einn fárra breskra landhelgisbrjóta sem náði því að verða dæmdur í fangelsi hér á landi árið 1924. 30 október 1934 bárust fréttir af því að skipið hefði farist úti fyrir Ströndum, en þar rak þá brak úr honum, hluti af brúnni, björgunarbátar og fl. En síðar um daginn kom hann illa til reika inn til Akureyrar. Hafði skipið orðið fyrir miklu áfalli út af Skaga 27 október. Skipstjórinn hafði staðið við stýrið í 57 klukkutíma samfellt og stýrt skipinu til hafnar þrátt fyrir að hafa misst báða áttavitana. Árið 1938 var Geir G Zoéga búinn að kaupa skipið af Hellyersbræðrum ásamt Kings Gray og Ceresio, en breska stjórnin stöðvaði söluna vegna stríðshættu. Skipið var því áfram í Hull uns það var selt til niðurrifs árið 1953.
Breskur
botnvörpungur fær áfall
Botnvörpungurinn
"Earl Kitchener" frá Hull
komst
við illan leik til Akureyrar
Samkvæmt fregn, sem útvarpið fékk frá Hólmavík í gær, hafði
rekið á svonefndri Glámuströnd rekald úr skipi. Var það stjórnpallur, tveir
björgunarhringar og á þeim nafnið "Earl Kitchener", Hull". Einnig
fundust árar úr bát og stýri, nokkrar mjólkurflöskur, hurð og hraðamælir. Rak
þetta allt í gær, svo að segja í einu og virtist nýbrotið. Í gærkveldi barst
svo fregn um það frá Akureyri, að "Earl Kitchener" væri þangað kominn.
Hafði hann fengið áfall á Skagagrunni á laugardag, misst stjórnpall, báta og
fl. Tveir menn af skipshöfninni meiðst og voru þeir fluttir í sjúkrahús.
Skipstjórinn hafði staðið 54 tíma við stýrið og var farinn að kala á fótum. Var
skipshöfnin öll tekin á land og veitt hjúkrun og aðhlynning.
Vísir. 30 október 1934.
Nánari
fregnir
Togarinn kom til Akureyrar í gær klukkan 14. Hann hafði
orðið fyrir feikna áfalli og slegið á hlið svo lá við að hvolfdi. Skipið rétti
þó við, en rafleiðsla þess eyðilagðist, svo binda varð um sár slasaðra manna í myrkri. Skipstjóri var mjög þrekaður,
og kalinn á höndum. Tveir menn eru mikið slasaðir: stýrimaður, bróðir
skipstjóra, er mjaðmarbrotinn og annar skipverji er mikið meiddur á höfði.
Skipið er ósjófært.
Vísir. 30 október 1934.
Heimildir:
Birgir Þórisson.
Hull fishing Heritage.
24.10.2017 12:07
Smyrill BA 120.
Báti siglt í
strand við Sauðanes
19 ágúst árið 1933 kom skyndilega mikill leki að vélbátnum
Smyrli frá Flateyri, er hann var að síldveiðum á Önundarfirði. Sigldu
skipverjar bátnum í strand hjá Sauðanesi og björguðust þeir allir ómeiddir á
land. Báturinn brotnaði það mikið við strandið að ekki var unnt að gera við
hann.
Þrautgóðir á raunastund. l bindi.
Steinar J Lúðvíksson 1969.
23.10.2017 18:32
Cuxhaven NC 100 við bryggju á Akureyri í dag.
23.10.2017 11:10
Bolli ÍS 125.
"Árnapungarnir"
Bolli var af þeirri tegund báta sem kallaðir voru Árnapungar,
í höfuðið á Árna Jónssyni sem var verslunarstjóri í Ásgeirsversluninni á
Ísafirði. Og einnig af því að þeir voru svo breiðir, en orðið pungapróf, er
einmitt dregið af Árnapungunum. Ásgeirsverslun keypti báta með þessu lagi bæði
frá Danmörku, Svíþjóð og Noregi, en þeir voru vélarlausir.